Hæstiréttur íslands

Mál nr. 65/2015

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður, Ingvar Þóroddsson hrl.),
(Arnbjörg Sigurðardóttir réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Sifskaparbrot
  • Frelsissvipting
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði
 
   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara refsimildunar. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara lækkunar þeirra.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2014 til 26. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

B og C krefjast þess að ákærða verði gert að greiða þeim, hvorum fyrir sig 4.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2014 til 26. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo og ferðakostnað réttargæslumannsins, allt eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.143.881 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 310.000 krónur, og ferðakostnað hennar, 32.700 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 18. september 2014, á hendur X, kt. [...], [...], [...];

„fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin á Akureyri á árinu 2014 svo sem hér greinir:

I.

1.   Nauðgun og kynferðislega áreitni, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 20. janúar á heimili sínu að [...], flengt A, kennitala [...] nokkrum sinnum á beran rassinn, kysst hana tungukossi og látið A hafa við sig munnmök, en ákærði notfærði sér andlega fötlun hennar þar sem hún gat ekki skilið þýðingu kynferðismakanna vegna fötlunarinnar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Brot framin að kvöldi miðvikudagsins 13. ágúst:

2.   Sifskapar- og frelsissviptingarbrot, með því að hafa, á leiksvæði í nágrenni fjölbýlishússins að [...], sagt drengjunum B, kennitala [...] og C, kennitala [...], báðum átta ára, að koma með sér inn í íbúð ákærða að [...], undir því yfirskini að ræða það að drengirnir höfðu sparkað bolta í bifreið fyrir utan fjölbýlishúsið, ella myndi hann hringja á lögregluna ef þeir ekki kæmu.  Ákærði braut hins vegar gegn drengjunum í íbúð sinni eins og lýst er í ákærulið 3.  Að því loknu hleypti ákærði drengjunum út úr íbúðinni.

Telst þetta varða við 193. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga.

3.   Kynferðisbrot, með því að hafa meðan á framangreindri frelsissviptingu stóð, látið drengina flengja hvorn annan nokkrum sinnum á beran rassinn, flengt þá báða nokkrum sinnum á beran rassinn og borið krem á rassinn á þeim. Því næst lét ákærði A hafa við sig munnmök og stakk fingri og getnaðarlim sínum í endaþarm B.  Af þessu hlaut A mar, húðblæðingu og roða á báðar rasskinnar og B roða á hægri rasskinn og sprungu við endaþarm.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 2.500.000 í miskabætur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. janúar 2014 þar til mánuði eftir að honum var kynnt bótakrafan, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.

Af hálfu D, kennitala [...] vegna ófjárráða sonar hennar, B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð 4.000.000,- kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2014, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt honum, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.  Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.

Af hálfu E, kennitala [...], vegna ófjárráða sonar hennar, C, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð 4.000.000,- kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. ágúst 2014, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt honum, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.  Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

Dómkröfur skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, eru að ákærði verði sýknaður af sakarefni I. og II. kafla ákæru, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst verjandinn þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim og til þrautavara að þær verði stórlega lækkaðar.  Loks krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun hans, falli á ríkissjóð.

A.

Sakarefni I. kafla ákæru.

1. Samkvæmt gögnum barst lögreglunni á Akureyri, þann 29. janúar 2014, kærubréf frá F, þroskaþjálfa og forstöðumanni í þjónustukjarna að [...], Akureyri, sem dagsett er 27. sama mánaðar.  Bréfið varðaði ætlað kynferðisbrot gegn A, einum íbúa þjónustukjarnans. Með bréfinu fylgdi skýrsla sálfræðings frá 19. janúar 2010, en þar er greint frá því að A sé með væga þroskahömlun.  Einnig fylgdi bréfinu texti sem A hafði sett á auglýsinganetmiðilinn [...], þann 18. október 2013, en þar segir: „Atvinna:  „Góð Barna píja er til í að passa lítil börn“.  Ég er 22 að verða 23 og ég er mjög vön börnum ég er svo góð við börn ég geta passað börn eins leingi og þarf að passa barnið ég bý á [...] endilega hringja í mig í gsm [...] kær kveðja A.“ Með kærubréfinu fylgdu einnig ljósmyndir sem forstöðumaðurinn hafði tekið af símboðum sem borist höfðu í síma A 20. og 21. janúar sl.  Í bréfinu eru ætluð atvik málsins rakin.  Segir þar m.a. að A hefði auglýst í [...], þann 8. desember 2013, þjónustu sína við barnagæslu og að ákærði, X, hefði hringt í hana mánudagskvöldið 20. janúar sl., klukkan 20:42.  Er tekið fram að símtalið hefði varað í níu mínútur.  Þá segir í bréfinu að A hefði hringt í síma ákærða umrætt kvöld, klukkan 21:13, en tekið er fram að það símtal hefði varað í níu sekúndur.

Í kærubréfinu er rakin frásögn A um samskipti hennar við ákærða umrætt kvöld og þar á meðal að hann hefði viðhaft kynferðislega háttsemi gagnvart henni.  Greint er frá því að bróðir A, vitnið G, hefði sótt hana á bifreið sinni að heimili ákærða síðla kvölds, en að hún hefði eftir það hringt í móður sína, H, rétt fyrir klukkan 01:00 aðfaranótt 21. janúar.

Í kærubréfinu er vísað til fyrrnefndra mynda sem forstöðumaðurinn hafði tekið af nefndum símboðum og er staðhæft að A hafi sent ákærða sms-símboð umrædda nótt, klukkan. 01:01, þar sem segir: „Ég vil ekki hitta þig aftur eftir þetta sem gerðist heima hjá þér, ég ætla að biðja þig að láta mig í friði og ég vil aldrei heyra frá þér aftur, láttu mig í friði.“  Staðhæft er í kærubréfinu að ákærði hefði svarað A með sms-símboði, með spurningarmerki, að morgni 21. janúar, en að hann hefði jafnframt sent henni sms-símboð sama dag, klukkan 11:31, þar sem sagði: „Hvað er ég ekki að skilja því ég veit ekki af hverju þú sendir þetta.“

Í kærubréfinu er greint frá því að móðir A hefði greint forstöðumanninum frá atvikum máls klukkan 13:00, þann 21. janúar 2014, og að hún hefði í framhaldi af því hlýtt á frásögn A um kynferðislegt athæfi ákærða, en þá jafnframt séð fyrrnefnd símasamskipti.  Er staðhæft að A hefði greint frá því að hún hefði verið andvíg athöfnum ákærða.

Í niðurlagi kærubréfsins er greint frá því að A hefði er hún var barn að aldri mátt þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu náinna ættmenna sinna.  Þá er áréttað að A sé þroskahömluð, en sé einnig með krefjandi hegðun sem geri henni oft erfitt fyrir við að meta hættur.  Er sagt að vegna þessarar fötlunar A geti verið auðvelt fyrir fólk að misnota hana og nýta sér yfirburði sína gagnvart henni.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 18. febrúar 2014 staðfesti F, þroskaþjálfi og forstöðumaður nefnds sambýlis, efni áðurrakins kærubréfs og símagagna.  Þá staðhæfði vitnið að eftir ætluð atvik á heimili ákærða hefði hegðun A breyst.  Hún hefði þannig sýnt frekari merki um vanlíðan og pirring, en einnig hefði hún verið erfiðari í umgengni en áður.  Vísaði vitnið til þess að lítið þyrfti til til að koma henni úr jafnvægi.

Brotaþoli, A, var yfirheyrð hjá lögreglu um kæruefnið 25. febrúar sl.  Við yfirheyrsluna höfðu rannsóknaraðilar sér til aðstoðar Ólöfu Ástu Farestveit, forstöðumann Barnahúss.  Viðstaddur yfirheyrsluna var auk þess tilnefndur réttargæslumaður brotaþola, Arnbjörg Sigurðardóttir hæstaréttarlögmaður.  Skýrslan var tekin upp með hljóði og mynd.  Við yfirheyrsluna greindi brotaþoli frá ætluðu kynferðislegu athæfi ákærða og var frásögn hennar í samræmi við sakarefni I. kafla ákæru.  Brotaþoli skýrði frá því að hún hefði ekkert þekkt ákærða er atvik gerðust, en á hinn bóginn þekkt til bróður hans, I, þar sem þau hefðu á árum áður verið samtímis í skammtímavistun grunnskólanema fyrir fötluð börn.

Ákærði, X, var yfirheyrður af lögreglu um kæruefnið þann 3. júní 2014.  Skýrsla hans var tekin upp með hljóði og mynd.  Við yfirheyrsluna neitaði hann kæruefninu, en kannaðist við að brotaþoli hefði komið á heimili hans að kveldi til fyrr á árinu eftir að hann hafði hringt til hennar.  Ákærði skýrði frá því að hann hefði í raun ekkert þekkt til brotaþola er atvik gerðust, en ætlaði að hann hefði verið í einhverju sambandi við hana á Facebook einu til tveimur árum fyrr.  Ákærði vísaði að nokkru til minnisleysis um atvik máls, enda langt um liðið, en einnig kvaðst hann lítillega hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt kvöld.  Nánar aðspurður af rannsakara kannaðist ákærði við að hafa séð auglýsingu brotaþola um barnagæslu, og sagði: „Ég man einhvern tímann eftir því að ég spurði hana eitthvað út í þetta, ... hvað hún væri að sækjast eftir ... en ég þurfti enga pössun, sko, ... ég á dóttur, en hún er bara hjá mér annað slagið.“  Hann kvaðst eitthvað hafa spjallað við brotaþola í símtalinu, en bar að þau hefðu síðan ákveðið að hittast heima hjá honum.  Þá sagði hann að brotaþoli hefði hringt þegar hún var komin inn í stigahúsið, en í framhaldi af því hefði hann opnað fyrir henni útihurðina.  Eftir það kvaðst hann hafa boðið brotaþola til stofu þar sem þau hefðu spjallað saman í rólegheitum í um klukkustund, um allt milli himins og jarðar.  Þar á meðal hefðu þau rætt um bróður hans, sem hann kvað hafa verið greindan með athyglisbrest og ofvirkni.  Ákærði sagði að við lýstar aðstæður hefði hann áttað sig á því að brotaþoli var „ekkert alveg heil ... en það var allt í lagi að tala við hana og hún virtist vera með fulla fimm ... En það var samt eitthvað,  eitthvað í sambandi við bæði fortíðina og ... ýmsa þætti sem maður sá þarna sem að maður svona sá að það var eitthvað sem að var ekki alveg í lagi ... ég veit ekki hvaða greiningu hún hefur og ég vissi það ekkert og ég veit það ekkert ennþá.“  Um samskiptin eftir þetta sagði ákærði: „... þá fer eftir svona, ja, eftir atvikum fer hún að nálgast mig og kyssa og eitthvað svona, en það gekk ekkert langt sko, að það færi út í nein kynmök eða neitt svoleiðis ... það gerðist ekkert sem ég veit að eigi að vera refsivert, af því að hún kom þarna af sjálfsdáðum“.  Nánar aðspurður og eftir að rannsakari hafði kynnt honum frásögn brotaþola sagði ákærði: „... við vorum bara að kyssast og það voru einhver atlot á meðan en ég rassskellti hana ekki ...“  Þá andmælti ákærði því að hann hefði látið brotaþola hafa við sig munnmök.  Ákærði sagði að eftir þetta hefði brotaþoli hringt í bróður sinn og látið hann sækja sig.  Ákærði kannaðist við að brotaþoli hefði sent honum áðurrakið sms-símboð, en bar að efni þess hefði komið honum á óvart og hann því sent símboð til baka þess efnis að hann skildi ekki hverju þetta sætti.

Samkvæmt gögnum aflaði lögreglan gagna eftir að ríkissaksóknari hafði endursent frumgögn málsins til frekari rannsóknar í byrjun september sl.  Var þannig aflað upplýsinga sem staðfestu að brotaþoli hafði verið samtíða bróður ákærða í skammtímavistun grunnskóla á [...], að [...] og í [...], á árunum 2005 til 2007, og jafnframt að þau hefðu verið samtíða í sérhæfðri skólastofnun allt þar til grunnskólavist þeirra lauk.  Þá yfirheyrði lögreglan bróður brotaþola, vitnið G, þann 9. september 2014.

Með bréfi skipaðs réttargæslumanns brotaþola, dagsettu 16. september sl., var ákærði krafinn um miskabætur.  Krafan var birt ákærða við þingfestingu málsins þann 26. september sama ár.

Á síðari stigum málsmeðferðar fyrir dómi lagði fulltrúi ákæruvalds fram læknisvottorð K, [...]læknis dag- og göngudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, vegna brotaþolans.  Vottorðið er dagsett 21. október 2014.

Samkvæmt gögnum var ákærði handtekinn af lögreglu þann 13. ágúst sl. vegna rannsóknar á máli því sem getið er um í II. kafla ákæru.  Var hann að kröfu lögreglustjóra úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir á grundvelli rannsóknarhagsmuna allt til 22. ágúst sama ár, en þann 23. ágúst sama ár var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna og varir sú ráðstöfun enn.

Á dómþingi þann 14. október sl. var af hálfu ákæruvalds lögð fram skýrsla L sálfræðings um ákærða, en tilefnið var að lögreglan hafði óskað eftir geðmati á ákærða, en einnig um mat á þroska og andlegri heilsu hans, en einnig á kynhneigð hans og mati á áhættu til refsiverðra verknaða.  Til grundvallar var sakarefni I. og II. kafla ákæru.  Skýrsla sálfræðingsins er dagsett 6. október 2014.

2.  Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði neitaði alfarið sök við þingfestingu málsins, líkt og við aðalmeðferð fyrir dómi.  Við skýrslugjöf fyrir dómi áréttaði ákærði frásögn sína hjá lögreglu að nokkru og þar á meðal að hann hefði í raun ekkert þekkt til brotaþola er hann hringdi til hennar mánudagskvöldið 20. janúar 2014.  Um tilefni samskiptanna sagði ákærði: „... ég var með símanúmerið hjá henni og hringdi bara í hana“.  Ákærði áréttaði fyrri frásögn sína um að hann hefði séð auglýsingu frá brotaþola í [...] um barnagæslu, en andmælti því alfarið að hann hefði í símtalinu beðið hana um að gæta dóttur sinnar, fimm ára, umrætt kvöld.  Ítrekað aðspurður hafði ákærði ekki frekari skýringu á símhringingunni að öðru leyti en því að hann kvaðst einu til tveimur árum fyrr hafa verið í takmörkuðum samskiptum við brotaþola á netinu eða með svonefndu msn-forriti.  Hann kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessum samskiptum, en bar að brotaþoli hefði gefið honum upp símanúmerið sitt.  Nánar aðspurður bar ákærði að með símhringingunni til brotaþola umrætt kvöld hefði hann einungis ætlað að spjalla við hana til að kynnast henni og hitta hana, og það hefði því ekki verið í kynferðislegum tilgangi, og sagði: „... ég man voðalega lítið eftir því, við bara töluðum eitthvað saman og ákváðum að hittast“.  Ákærði lýsti atvikum máls eftir að brotaþolinn kom á heimili hans þannig: „... hún kemur þarna einhverju seinna, ég man nú ekki hvað klukkan var, en við erum þarna einhvern klukkutíma cirka held ég og við förum bara að tala um hitt þetta ... og hún kom allt í lagi fyrir, nokkuð eðlilega bara“.  Ákærði áréttaði fyrri frásögn sína fyrir lögreglu um að hann hefði í orðræðu þeirra á heimilinu komist að því að brotaþoli hafði á yngri árum verið í skólavist í [...] á sama tíma og bróðir hans, og sagði: „... þetta er vistun fyrir bara börn með einhverjar sérþarfir.“  Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa veitt því eftirtekt að brotaþoli ætti við fötlun að stríða eða væri þroskaheft, en sagði nánar um það atriði: „... það fór að kveikja á einhverjum bjöllum þegar hún sagði mér að hún hefði verið með bróður mínum í skóla og hún væri að vinna á [...] og jú jú hvar hún byggi þannig að ég vissi ekkert hvað var ... ég fór í rauninni bara að álykta það af því að hún hafði verið þarna með bróður mínum á [...] sko, það eru ekki eðlileg börn þar ... og hún var að sækjast eftir að passa börn og eitthvað og hún fer að spyrja mig hvort ég eigi stelpu af því að hún sér fullt af dóti þarna, ég segi henni það, ég eigi fimm ára stelpu.“  Um samskiptin við brotaþola hafði ákærði svofelld orð: „... það eru einhverjir örfáir kossar og svona einhverjar strokur svona utan klæða ... bara stuttu seinna þá hringir hún í bróður sinn og hann nær í hana.“

Fyrir dómi var ákærða kynnt frásögn brotaþola, líkt og gert hafði verið við yfirheyrslu lögreglu, og þar á meðal að hann hefði á heimili sínu kysst hana, en einnig flengt hana og látið hana hafa við sig munnmök.  Ákærði neitaði þessu athæfi, en hafði ekki skýringar á frásögn brotaþola.

Með vísan til sakarefnis II. kafla ákæru og skýrslu sálfræðings var ákærði inntur eftir kynlífslöngunum og athöfnum í þá veru, þ. á m. flengingum.  Svaraði ákærði því til að slíkar athafnir hefðu ekkert verið meiri en einhverjar aðrar athafnir í lífi hans og sagði: „Ég hef örugglega gert það eins og margir aðrir.“

Ákærði skýrði frá því að eftir að brotaþoli hefði farið úr íbúð hans umrætt kvöld hefði hann verið í stuttum boðskiptum við hana og staðfesti að því leyti áðurrakin símagögn.  Hann sagði að símboð brotaþola hefðu komið honum á óvart enda talið að viðskilnaður þeirra hefði verið mjög góður.  Hann andmælti að öðru leyti frásögn brotaþola.

Brotaþoli, A, staðfesti fyrir dómi að hún hefði auglýst þjónustu sína um barnagæslu í [...] og bar að forstöðumaður þjónustukjarnans hefði haft vitneskju um það.  Hún kvaðst hafa sett símanúmerið sitt í auglýsinguna.  Hún kvaðst áður hafa gætt barna, en nefndi í því sambandi aðeins unga frænku sína.  Aðspurð um samskiptin við ákærða bar hún að upphaf þeirra mætti rekja til þess að hann hefði hringt til hennar.  Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki minnast þess að hafa áður haft samskipti við ákærða á Facebook, en sagðist vera mjög mikið á þeim netmiðli og eiga þar fjölda vina. Hún kvaðst í raun ekkert hafa þekkt til ákærða þegar hann hringdi og mundi ekki nákvæmlega hvenær þetta gerðist, nema að það hefði verið að kvöldlagi. Brotaþoli bar að í símaviðræðunum hefði ákærði óskað eftir þjónustu hennar við barnagæslu og jafnframt spurt að því hvort hún gæti komið strax: „Til þess að fara að tala og spjalla ... ég hélt að barnið hans væri hjá honum ... ég hélt nú líka að ég væri að fara passa sko.“  Brotaþoli sagði að í símtalinu hefði ákærði sagt henni frá heimilisfangi sínu, en í framhaldi af því hefði hún fengið bróður sinn til að skutla sér til hans.  Nánar aðspurð kvaðst brotaþoli í rauninni ekki minnast þess að ákærði hefði beinlínis sagt að hann þyrfti á þjónustu hennar að halda við barnagæslu umrætt kvöld, en staðhæfði að hann hefði farið fram á að hún hringdi í síma hans í stað þess að hringja dyrabjöllunni í anddyri fjölbýlishússins.

Brotaþoli kvaðst strax hafa veitt því eftirtekt er hún var kom í íbúð ákærða að ekkert barn var þar fyrir.  Hún hefði undrast það að ákærði var einsamall, en hún kvaðst ekki hafa þekkt hann í sjón.  Hún kvað þau hafa farið að spjalla og þ. á m. um bróður ákærða, en hún kvaðst hafa þekkt hann þar sem þau hefðu verið samtíða í grunnskóla og þ. á m. í skólavistun á [...].  Hún staðhæfði að í samræðum þeirra hefði ákærði haft orð á því að hann þyrfti að refsa henni, en vegna þeirra orða kvaðst hún hafa orðið hrædd við hann.  Hún lýsti orðum og athöfnum ákærða nánar þannig: „... hann sagði að hann ætlaði að refsa mér ef ég ætlaði að fara að passa ... hann sagði að það þyrfti að refsa konum. ... Mér fannst hann illkvittinn ... ég var ekki að skilja hvað hann var að vilja ... Láta mig gera allskonar hluti.“  Hún staðhæfði að fljótlega eftir að hún kom á heimilið hefði ákærði fylgt orðum sínum eftir og bar að hann hefði byrjað á því að flengja hana, en síðan hefði hann kysst hana og að auki látið hana totta sig.  Þá hefði hann fært hana úr fötum og flengt hana á beran bossann.  Vegna síðastnefnda athæfisins kvaðst hún hafa meitt sig þar sem ákærði hefði verið harðhentur.  Brotaþoli áréttaði að hún hefði hræðst ákærða og af þeim sökum ekki þorað að andmæla athöfnum hans, sem hún ætlaði að hefðu staðið yfir í tíu mínútur.  Hún kvaðst á meðan á þessu stóð þó hafa beðið ákærða að hætta, en hann ekki sinnt óskum hennar.  Aðspurð sagði brotaþoli að ákærði hefði ekki fengið sáðlát í greint sinn.

Brotaþoli bar að hún hefði fundið fyrir vanlíðan vegna athæfis ákærða, en sagði jafnframt að andleg heilsa hennar hefði ekki verið góð á þessum tíma vegna þunglyndis.  Vegna athæfis ákærða kvaðst hún hafa orðið þunglyndari en áður, en enn fremur hefði hún sofið meira.

Brotaþoli kvaðst ekki geta sagt hversu lengi hún dvaldi í íbúð ákærða, en ætlaði helst að það hefði verið um klukkustund.  Kvaðst hún hafa greint ákærða frá því að hún þyrfti að fara þar sem það væri orðið áliðið.  Hún sagði að ákærði hefði ekki hindrað það þegar hún hringdi í bróður sinn til að láta hann sækja sig, en þrátt fyrir þetta hefði hann látið hana bíða um stund eftir að bróðir hennar var kominn að húsi hans. Eftir það kvaðst hún hafa gengið hindrunarlaust út úr íbúðinni, en bar að áður en hún fór hefði ákærði bannað henni að skýra frá því sem gerst hafði.

Brotaþoli skýrði frá því að hún hefði haft reynslu af kynlífi, en bar að það hefði verið „svolítið villt“ en gat ekki útskýrt þau orð sín frekar.  Hún kvaðst hafa skýrt F forstöðumanni frá athæfi ákærða, en einnig móður sinni og bróður, en mundi ekki hvenær það var.

Vitnið G, bróðir brotaþola, kvaðst hafa ekið henni að fjölbýlishúsi við [...] í greint sinn.  Sagði hann að tilefni þess hefði verið að brotaþoli hefði auglýst barnagæslu á netinu og að einhver aðili hefði svarað boði hennar.  Hann sagði að brotaþoli hefði rætt um það að hún væri að fara að gæta barns og bar að hún hefði verið mjög spennt vegna verkefnisins og verið glöð og ánægð.  Hann kvað brotaþola hafa hringt u.þ.b. klukkustundu síðar og beðið hann um að sækja sig.  Hann kvaðst strax hafa séð er hann hitti brotaþola að henni leið illa og sagði: „... hún var rauð í framan og leið hörmulega, það sást langar leiðir þótt hún vildi ekki segja það strax.“  Hann sagði að auk þess hefði fas og rödd brotaþola verið allt annað en þegar hann kvaddi hana nokkru áður.  Hann kvaðst hafa ekið brotaþola beina leið að heimili hennar, en ætlaði að einhverjum dögum síðar, e.t.v. viku, hefði hann heyrt orð hennar um það sem gerðist umrætt kvöld, þ.e. að karlmaðurinn sem hefði óskað eftir þjónustu hennar við barnagæslu í greint sinn hefði verið að ljúga að henni, og sagði:  „Ég man ekkert fullkomlega hvað hún sagði við mig ... hún sagði mér það að hann hafi nauðgað henni ... já, hún sagði mér að hann hafi rassskellt hana ... sagt henni að sjúga sig ... hún var að segja það aðallega og bað mig ekkert að vera að tala um þetta ... og svo bara því miður man ég ekki hvað hún sagði meira ... ég er ekki mjög góður í að muna.“  Vísaði hann til þess að hann hefði verið greindur með þroskahömlun, athyglisbrest og hvatvísi og væri af þeim sökum öryrki.  Hann kvaðst hafa veitt því eftirtekt að eftir þennan atburð hefði brotaþoli verið daufari en hún átti vanda til að vera, en að auki hefði hún verið smeyk við að fara í heimsókn til móður þeirra í [...].

Vitnið H, móðir brotaþola, kvaðst hafa haft vitneskju um að dóttir hennar hefði auglýst þjónustu sína við barnagæslu í [...] og bar að það hefði verið draumur hennar að taka að sér slíkt starf.  Vitnið sagði að brotaþoli hefði hringt daginn eftir að ætluð atvik máls þessa gerðust og greint frá því að karlmaður sem byggi í fjölbýlishúsinu að [...] hefði boðað hana í starfsviðtal vegna auglýsingarinnar.  Kvaðst vitnið helst hafa skilið orð brotaþola þannig að hann hefði viljað ræða við hana og kynnast áður en að hann réði hana til að gæta barna vina hans.  Vegna aðseturs mannsins, sem hefði verið í næsta stigagangi við þann sem vitnið var með aðsetur í á þessum tíma, kvaðst vitnið strax hafa áttað sig á því við hvern brotaþoli átti.  Hefði það verið ákærði í máli þessu, en vitnið kvaðst hafa þekkt hann í sjón.  Vitnið kvaðst hafa hlýtt á frásögn brotaþola um að eftir að hún var komin í íbúð ákærða hefðu atvik orðið með öðrum hætti en hún hafði ætlað þar sem hann hefði „notað hana“.  Vegna þessara orða kvaðst vitnið hafa gengið svolítið á brotaþola, en í framhaldi af því heyrt frásögn hennar um að ákærði hefði þvingað hana til að hafa við sig munnmök, en auk þess hefði hann rassskellt hana.  Vitnið sagði að brotaþoli hefði þvertekið fyrir að ákærði hefði „farið inn í hana“ eða kysst hana.  Vitnið bar að brotaþoli hefði sagt að hún hefði ekki þorað annað en að láta að vilja ákærða þar sem hún hefði verið rosalega hrædd við hann.  Vitnið minntist þess ekki að brotaþoli hefði nefnt í samtalinu að ákærði hefði fengið fullnægingu.  Vitnið sagði að í samtalinu hefði brotaþoli virst vera mjög dauf og miður sín, en einnig rosalega reið.  Vitnið kvaðst vegna þessarar lýsingar brotaþola hafa tilkynnt F þroskaþjálfa um málavexti.  Vitnið bar að eftir þennan atburð hefði brotaþoli verið þyngri í sinni en áður, en auk þess hefði hún átt erfiðara með svefn.  Vitnið kvaðst ekki vita til þess að brotaþoli hefði verið í sambandi við karlmann, en bar að hún ætti marga vini á netinu.

Vitnið F, þroskaþjálfi og forstöðumaður  þjónustukjarnans að [...] á [...], kvaðst fyrst hafa haft kynni af brotaþola sumarið 2010.  Vitnið sagði að brotaþoli hefði um skeið haft til umráða eigin íbúð, en vegna fötlunar sinnar hefði hún þurft á sólarhringsþjónustu að halda.  Vitnið sagði að brotaþoli væri þroskaskert, en ætti auk þess við geðræn veikindi, þunglyndi og kvíða að stríða.  Vitnið sagði að ástand brotaþola væri mismunandi.  Hún gæti verið mjög sjarmerandi, en hún ætti erfið tímabil og þá helst vegna þunglyndisins.  Vitnið kvaðst ætla að það dyldist engum sem hefði samskipti við brotaþola að hún ætti við þroskaskerðingu að stríða.  Vitnið sagði að í samskiptum við annað fólk væri brotaþoli einlæg og mjög trúgjörn og bar að hennar helsta áhugamál væri að umgangast dýr og börn.  Vegna þessa hefði hún stundað starfsnám við [...], og að það hefði verið einlægur vilji hennar að gæta barna.  Vitnið sagði að vegna þessa hefði brotaþoli auglýst þjónustu sína við barnagæslu, í [...], en staðhæfði að enginn hefði svarað kalli hennar þar um.  Vísaði vitnið til þess að auglýsingar brotaþola hefðu á tíðum verið mjög barnalega ritaðar og í einhverjum auglýsinganna hefði hún getið þess að hún væri þroskahömluð.  Vitnið kvaðst hafa reynt að leiðbeina brotaþola um venjur daglegs lífs, en enn fremur um samskipti við karlmenn og um kynlíf.  Vitnið kvaðst vita til þess að brotaþoli hefði einu sinni átt kærasta, en bar að hann hefði einnig verið þroskaheftur.  Vitnið sagði að brotaþoli væri í tíðum samskiptum við annað fólk á netinu.  Vitnið kvaðst m.a. hafa orðið vart við að brotaþoli kallaði suma þá karlmenn, sem hún ætti í samskiptum við á netinu, kærasta sína og þá jafnvel eftir að hún hefði aðeins átt við þá stutt samskipti og þeir aldrei hitt hana og byggju jafnvel erlendis.

Vitnið skýrði frá því að móðir brotaþola, vitnið H, hefði hringt til þess þriðjudaginn 21. janúar sl., vegna ætlaðs kynferðisbrots.  Vitnið bar að umræddan morgun hefði það heyrt frá starfsmönnum sambýlisins að brotaþoli hefði þá um nóttina ekki verið lík sjálfri sér.  Hún hefði m.a. hafnað því að einhver kæmi inn í íbúð hennar og bar að það hefði verið harla óvenjulegt.  Vegna nefnds símtals kvaðst vitnið hafa ráðfært sig við starfsmenn barnaverndarnefndar sem hefðu leiðbeint því um orðræðu og samskipti við brotaþola.  Vitnið kvaðst í framhaldi af því hafa rætt við brotaþola, en eftir það ritað áðurrakið kærubréf til lögreglu að beiðni brotaþola. Vegna reynslu sinnar af brotaþola kvaðst vitnið hafa hagað málum þannig að það hefði boðið henni í bíltúr, enda hefði hún jafnan átt auðvelt með að skýra frá vandamálum sínum við slíkar aðstæður.  Vitnið kvaðst í framhaldi af því hafa hlýtt á frásögn brotaþola um að karlmaður hefði svarað auglýsingu hennar um barnagæslu, að bróðir hennar hefði ekið henni að fjölbýlishúsi í [...], en það hefði þá verið ætlan hennar að hún ætti að fara að gæta barna.  Vitnið sagði að samkvæmt frásögn brotaþola hefði raunin orðið allt önnur þar sem umræddur karlmaður hefði viðhaft kynferðislegar athafnir gagnvart henni.  Kvaðst vitnið hafa hlýtt á lýsingar brotaþola um að maður þessi hefði káfað á henni og neytt hana til að hafa munnmök við sig, en síðan hefði hann lagt hana yfir sig og flengt hana.  Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki geta fullyrt um hvort það hefði skilið orð brotaþola rétt um að nefndur karlmaður hefði fengið fullnægingu.  Vitnið áréttaði að það hefði að ósk brotaþola ritað áðurrakið kærubréf til lögreglu, en það staðfesti einnig áðurrakin símagögn, sem það kvaðst hafa séð og tekið úr síma brotaþola.

Vitnið skýrði frá því að ástand brotaþola hefði verið misjafnt eftir árum og bar að hún hefði t.d. verið mjög þunglynd á árinu 2010, en sýnt miklar framfarir á árunum 2012 og 2013.  Vitnið sagði að á fyrstu mánuðum ársins 2012, en einnig þá um sumarið, hefði brotaþoli verið mjög þung í sinni og af þeim sökum gengið til geðlæknis og þegið viðeigandi lyf.

Vitnið M, þroskaþjálfi og forstöðumaður í búsetuþjónustu hjá [...], kvaðst fyrst hafa haft kynni af brotaþola á árinu 2003, en hún hefði þá verið í skammtímavistun í [...].  Vitnið sagði að það hefði verið úrræði fyrir líkamlega og andlega fatlaða grunnskólanemendur.  Vitnið sagði að samtíða brotaþola í þessari vist hefði verið ungur drengur, I, og bar að þau hefðu verið vinir.  Vitnið kvaðst ekkert hafa þekkt til bróður drengsins, ákærða í máli þessu, og aldrei séð hann.  Vitnið lét það álit í ljós að það dyldist engum sem kynni hefðu af brotaþola að hún væri með þroskaskerðingu og sagði: „Um leið og þú ferð að tala við hana þá heyrirðu það.“

Vitnið N rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi áðurrakin rannsóknargögn.

3. K, [...]læknir dag- og göngudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, var af lögreglu fenginn til að greina þroska og heilbrigði brotaþola í þágu rannsóknar málsins.  Í vottorði [...]læknisins, dagsettu 21. október 2014, segir m.a. frá því að hann hefði fyrst haft afskipti af brotaþola á árinu 2009, en að síðan hefði hlé orðið á samskiptum þeirra eða allt til aprílmánaðar 2013, en að eftir það hefði hún verið sjúklingur hans.  Í vottorðinu segir að vandi brotaþola sé langvinnur og hefði hann komið í ljós strax í barnæsku hennar.  Þar um er vísað til sjúkraskýrslna barna- og unglingageðlæknis, er brotaþoli var 10 ára gömul, þar sem fram hefði komið að heildarvísitöluþroski hennar væri 62 stig.  Einnig vísaði yfirlæknirinn í vottorði sínu til sálfræðilegrar greinargerðar sálfræðings á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá því í janúar 2010, þar sem samsvarandi greining hefði þá mælt 58 stig.

Í vottorði yfirlæknisins segir að grunnvandi brotaþola sé væg þroskahefting með verulegri skerðingu atferlis sem krefjist athygli og meðferðar.  Greint er frá því að brotaþoli hafi aldrei getað búið ein.  Hún hafi á síðari árum búið á áfangaheimilum, en þar sem komið hafi í ljós að hún hafi þurft á föstu búsetuúrræði að halda með sólarhringsumönnun og þjónustu hafi hún að lokum fengið eigin íbúð með slíkri þjónustu á árinu 2010.  Í vottorðinu er vísað til þess að brotaþoli þurfi á umtalsverðri þjónustu að halda vegna fötlunar sinnar.  Í dæmaskyni er nefnt að brotaþoli hafi enga stjórn á fjármálum sínum og hafi m.a. tekið lán hjá „smálánafyrirtækjum“, en einnig pantað símaáskriftir fyrir hvers konar þjónustu.  Einnig er nefnt að brotaþoli eigi við svefnvandræði og kvíða að stríða, og er staðhæft að það síðastnefnda hafi í seinni tíð tengst ákveðnum aðilum í fjölskyldu hennar, sem hefðu misnotað hana kynferðislega.  Að lokum er þess getið að brotaþoli sé á kröftugri lyfjameðferð vegna depurðar og kvíðaeinkenna, en síðan segir í vottorðinu:

„Í viðtölum er hennar kontakt breytilegur.  Hún er ætíð áttuð.  Hefur stundum verið afundin, horft í gaupnir sér með hár fyrir augum og litlu viljað svarað eða segja að fyrrabragði.  Í öðrum viðtölum hefur hún verið upplitsdjörf og glaðleg, svarað að fyrrabragði.  Hún virkar bernsk í hugsun, oft ákveðið mál sem upptekur hana í hvert og eitt skipti og gjarnan lítið raunhæft miðað við hennar aðstæður og getu.  Sem dæmi má nefna það að flytja út í sveit og búa þar með hin ýmsu dýr.  Það að hún sé búin að eignast kærasta og upplifi mikla hamingju í tengslum við það, jafnvel þó að öll samskiptin sem hún hafi átt við viðkomandi hafi verið 1 samtal í gegnum internet kvöldið áður.“

K [...]læknir staðfesti efni framangreinds vottorðs fyrir dómi.  Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola í nóvember 2013, en þar á eftir þann 12. mars á þessu ári.  Vitnið sagði að þroskaskerðing brotaþola væri augljós og það jafnvel fyrir aðila sem ekkert þekktu til hennar og þá eftir að hafa átt við hana orðastað í örskamman tíma.  Vitnið áréttaði að þrátt fyrir að ástand brotaþola væri misjafnt væri hún bernsk í hugsun og hegðun.  Hún hefði þannig ekki sama skilning á lífinu og tilverunni og búast mætti við af einstaklingi með fullan þroska á hennar aldri.  Vitnið áréttaði að vegna fötlunar sinnar þyrfti hún á sólarhringsþjónustu að halda.  Vitnið kvaðst ekki hafa átt samræður við brotaþola vegna ætlaðs brots, en kvaðst ætla að vegna dapurlegrar reynslu hennar á yngri árum vegna kynferðisbrota væri reynsla hennar á því sviði mjög bjöguð og sagði: „... það tel ég að sé líklegt einmitt til að gera hana meðfærilegri í slíkum aðstæðum.“  Vísaði vitnið jafnframt til þess að brotaþoli væri auðtrúa, en hún hefði átt erfitt tímabil fyrri hluta vetrar á þessu ári og af þeim sökum hefðu verið gerðar breytingar á lyfjagjöf hennar.  Vitnið bar að ástand brotaþola hefði batnað eftir þetta en taldi erfitt að fullyrða um orsakasamhengi þar á milli.

B.

Sakarefni II. kafla ákæru.

1.  Miðvikudaginn 13. ágúst 2014, kl. 21:19, barst lögreglunni á Akureyri tilkynning um að tvær mæður, vitnin D og E, óskuðu eftir aðstoð vegna nágranna sem hefði rassskellt syni þeirra, brotaþolana C, [...], og B, [...], en báðir eru þeir 8 ára.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglumannanna O og P, sem fóru strax á vettvang, höfðu drengirnir verið í fótbolta nærri fjölbýlishúsinu [...], er boltinn fór í bifreið sem var kyrrstæð á bifreiðastæðinu austan við húsið.  Við þessar aðstæður hefði einn íbúi í fjölbýlishúsinu gefið sig á tal við drengina og tjáð þeim að hann væri eigandi bifreiðarinnar, en í framhaldi af því farið með þá inn í íbúð sína og rassskellt þá á beran bossann.  Lögreglumennirnir hittu drengina fyrir ásamt mæðrum sínum í íbúð að [...], og er tiltekið að drengurinn C hefði haft orð fyrir þeim.  Samkvæmt skýrslunni var frásögn drengsins á þá leið að maðurinn hefði leitt þá B inn í íbúð sína að [...], þar sem hann hefði látið þá setjast í sófa, en eftir það hefði hann látið þá taka niður um sig  buxurnar og síðan rassskellt þá.  Eftir það hefði maður þessi náð í krem og borið á rassinn á C og sett typpið á sér í rassinn á honum, en síðan látið typpið á sér í munninn á B.

Í frumskýrslunni er greint frá því að er lögreglumönnum varð ljós alvarleiki málsins hafi þeir stoppað frásögn drengjanna, en beðið þá um nánari lýsingu á gerandanum.  Segir frá því í skýrslunni að drengirnir hafi lýst honum að nokkru, en enn fremur sagt að hann héti X og byggi í næsta stigagangi, að [...].  Segir frá því í skýrslunni að vegna þessarar lýsingar hafi strax vaknað grunsemdir um að ákærði í máli þessu, X, ætti hlut að máli.  Hafi því verið tilkvaddur liðsauki, en þar á meðal hafi þá komið á vettvang N rannsóknarlögreglumaður og Q lögreglufulltrúi.  Hafi ákærði í framhaldi af því verið handtekinn í íbúð sinni að [...], klukkan 22:30, og færður á lögreglustöð, þar sem hann hafi verið vistaður í fangaklefa klukkan 22:38, eftir að honum hafði verið gefinn kostur á að ræða við þann lögmann, sem síðar var skipaður verjandi hans. Í handtökuskýrslu segir frá því að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi og sýnilega lítillega undir áhrifum áfengis.

2.  Samkvæmt rannsóknarskjölum lögreglu fóru sýnatökur og réttarfræðileg skoðun á ákærða fram að kveldi 13. ágúst sl.  Hófust rannsóknirnar klukkan 23:10 en skoðun lauk klukkan 00:20 þá um nóttina.  Liggja fyrir í málinu m.a. skýrslur læknis um réttarfræðilega skoðun á ákærða, en einnig niðurstöður úr blóð- og þvagsýnum úr ákærða vegna alkóhólrannsóknar, en sýnin voru tekin umrædda nótt klukkan 00:10 og 00:20.  Einnig liggja fyrir í málinu skýrslur barnalækna vegna réttarlæknisskoðunar á brotaþolum sem fram fór á Sjúkrahúsinu á Akureyri laust eftir miðnættið, en einnig daginn eftir.  Þá voru viðeigandi sýni, og líf- og samanburðarsýni tekin til DNA-greininga af fatnaði og úr ákærða og brotaþolum.  Loks fór fram vettvangsskoðun ásamt húsleit í íbúð ákærða þann 14. ágúst sl.

Í skýrslu læknis segir að við sýnatöku hafi m.a. verið skafið undan nöglum ákærða og að stroksýni hafi verið tekið undan forhúð hans.  Tekið er fram að engin áverkamerki hafi verið á getnaðarlim eða pung ákærða.  Meðferð þessara muna og sýna er rakin í gögnum málsins, en þau voru m.a. send tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, svo og þeir hlutir sem lögreglan lagði hald á við húsleitina í íbúð ákærða.

Í lögregluskýrslu um húsleitina að [...], en hana annaðist fyrrnefndur lögreglufulltrúi ásamt fleiri lögreglumönnum, segir að íbúð ákærða sé í miðstigagangi fjölbýlishússins á þriðju hæð, en um sé að ræða tveggja herbergja íbúð.  Meðfylgjandi skýrslunni eru ljósmyndir af vettvangi, en einnig fylgja málinu myndir sem teknar voru á síðari stigum af bifreiðastæði og rampi austan við fjölbýlishúsið.  Kemur þar fram að eldhúsgluggi íbúðarinnar er á austurhlið hússins, en þaðan má sjá yfir bifreiðastæði og rampinn þar fyrir framan.  Í skýrslunni er því lýst að við leit hafi rannsakendur fundið í skáp ofan við vask í baðherbergi tvo glæra brúsa með glærri olíu og á hillu í sama skáp hafi verið málmdós með gulbrúnu smyrsli.  Þá segir að í ruslafötu undir eldhúsvaski hafi rannsakendur fundið tvö stykki af bláum einnota hönskum, en í grind við þvottavél í þvottahúsi hafi verið sams konar hanskar, en ónotaðir.  Lögðu rannsakendur hald á þessa muni.  Greint er frá því að í ísskáp í eldhúsi hafi fundist tveir tómir kassar undan bjór og hafi hvor þeirra rúmað tíu stykki af 500 ml áldósum.  Þá segir frá því að í þvottahúsi íbúðarinnar hafi rannsakendur fundið plastpoka með tómum 500 ml bjórdósum.  Þá hafi þeir fundið tæplega hálfa 500 ml bjórdós á sófaborði í stofunni.

Á ljósmyndum sem teknar voru í stofu í íbúð ákærða má sjá þriggja sæta sófa, en þar til hliðar hægindastól.  Gegnt sófanum má sjá sams konar hægindastól, en einnig sjónvarp.  Við austurvegg er sagt í skýrslunni að hafi verið barnaleikföng á gólfinu.

Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði mældist alkóhólmagn í blóðsýni ákærða 1,91‰, en í þvagsýni hans mældist alkóhólmagnið 2,85‰.

Í greinargerð R, sérfræðings hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er greint frá því að þann 19. september sl. hafi fyrrnefnd sýni og haldlögð gögn ásamt samanburðarsýnum úr ákærða og brotaþolunum B og C verið send til greiningar hjá Statens Kriminaltekniska Laboratorium í Svíþjóð.  Var um að ræða nærbuxur ákærða, tannstöngla með naglaskafi frá höndum ákærða og öskju með stroki undan forhúð ákærða.  Segir í greinargerðinni að niðurstöður rannsóknarstofunnar hafi borist rannsakendum þann 22. október 2014.  Er þeim m.a. lýst þannig:

Niðurstöður greininganna leiddu í ljós að í einu stroksýni, sem varðveitt var úr nærbuxunum kom fram blanda DNA sniða frá a.m.k. tveim einstaklingum.  Meginhluti þess DNA sem fram kom, var eins og DNA snið grunaðs sjálfs, en það DNA sem var í minnihluta reyndist hins vegar ekki nægilegt til samkenningar.

Greining á naglaskafi, sem varðveitt var af báðum höndum grunaðs, gaf ekki niðurstöður.

Greining á stroksýni, sem varðveitt var undan forhúð grunaðs, leiddi í ljós að í sýninu var bland DNA sniða frá a.m.k. tveim einstaklingum.  Hluti þess DNA sem fram kom við rannsóknina, var eins og DNA snið brotaþola, B, og hluti var eins og DNA snið grunaðs sjálf.  Ekki kom fram neitt DNA í sýninu sem hægt var að rekja til hins brotaþolans, C.

Síðastnefnda sýnið var greint með svokallaðri LCN aðferð, en þá er DNA í sýningu magnað meira upp en við hefðbundna greiningu.

Miðað við þá tækni og aðferðarfræði sem rannsóknarstofa SKL notar, má ganga út frá því um áreiðanleika niðurstöðunnar, að líkurnar á að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi eru ávallt minni en 1:1.000.000.000.  Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir.

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu var drengurinn C færður um miðnættið þann 13. ágúst á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri ásamt fulltrúum barnaverndarnefndar og foreldrum.  Var hann þar skoðaður af S barnalækni, en einnig voru þá teknar viðeigandi ljósmyndir.  Drengurinn var skoðaður að nýju daginn eftir af sama lækni.  Í skýrslu læknis, sem dagsett er 14. ágúst sl., segir um þessar skoðanir:

Húð er skoðuð.  Almennt er húðin frískleg og heilleg, en kringum hné eru gamlir áverkar, og einn sem er dagsgamall, lítið nuddsár sem hann kann að greina skýringu á.  Aftan á vi. kálfa er marblettur sem liggur þvert yfir, 2x2 cm, sem hann veit ekki hvernig kom.  Á hæ. rasskinn er lítið roðasvæði, stjörnulaga, æðaslit.  Sýnist vera ferskt, en hér er um að ræða aukið blóðflæði en ekki mar.  Í húð aðlægt og utanvið er aukið blóðflæði og fölvi til skiptis á um 7 cm svæði á hæ. rasskinn.  Í húðfellingu milli rasskinna en ofan við endaþarm er eilítil erting í húðinni, eða grunnt fleiður, sem gæti komið þegar húðin er glennt eða dregin í sundur.  Smávegis hægðasmit umhverfis endaþarm.  Ekki sýnilegt blóð.  Húðfellingar í endaþarmi eru ekki sýnilegar vegna hægðasmits, strákurinn spennir sig upp við skoðun hér og því er ekki reynt að þreifa eða hreinsa.

Að undanskildum þeim svæðum sem lýst er sjást engin áverkamerki á húð.  Hann er með legghlífar þegar hann kemur sem eru búnar að vera í langan tíma á honum og undan þeim eru þrýstimerki á leggjum og ristum, sem ég met fullkomlega eðlileg fyrir aðstæður.

Í skýrslu barnalæknisins um seinni skoðunina, sem er dagsett sama dag, segir að hún hafi farið fram til að leita eftir síðkomandi áverkamerkjum.  Haft er eftir foreldrum að drengurinn hefði læst að sér á baðinu fyrr um daginn vegna hægðalosunar sem hann annars hafi ekki gert.  Einnig er haft eftir foreldrunum að drengurinn hefði talað um að vont væri að skeina en hafi ekki viljað þiggja aðstoð sem hann hefði þegið fram að því.  Um skoðun segir síðan eftirfarandi í skýrslunni:

Skoða húð á öllum líkama.  Á hæ. legg er áfram marblettur, sem er tekinn að gulna og merki um að hann sé meira en sólarhrings gamall.

Hyperaemia og fölvi er horfinn af hæ. rasskinn, eftir stendur lítil húðblæðing eða æðaslit sem var vel sýnilegt í gær einnig.  Engir aðrir marblettir komnir fram.

Fæ að lýsa vel að endaþarmi, og spyr hann hvar eymslin hafi verið þegar skeint var, þrýsti framan við endaþarm og hann jánkar að það sé svæðið.  Það eru ekki blæðandi sár, hinsvegar er húðin framan við endaþarm ekki fyllilega eðlileg, hún er þynnri en vænta mætti, teygð og þegar endaþarmsfellingar eru dregnar fram sést glitta í sprungu enda anteriort.  Geri ekki rectal exploraition.

Álit: Fjölskyldan nefndir að fyrra bragði særindi við þurrkun, hann staðfestir við skoðun svolítil eymsli anteriort við endaþarm, þar sem mér sýnist húð hafa orðið fyrir hnjaski og grunn fissura er anteriort í endaþarmsgöngum.  Það eru teknar myndir, en við skoðun eftir á sýnist mér því miður focus eða upplausn vera helst til slök.  Myndir eru sendar með á diski.

Í vottorði sama læknis vegna skoðunar á drengnum B segir hún að skoðun hafa farið fram umrædda nótt kl. 00:20 að beiðni lögreglu.  Í skýrslunni segir m.a.:

B er fyrir með töluvert eczem og húð er almennt þurr og á leggjum eru hruflsár eins og búast má við hjá virkum strák á þessum aldri, öll sýnast gömul.

Á baki er svæði í miðlínu milli herðablaða og 2 svæði neðarlega þar sem eru gömul hrufl, hann lýsir því að þetta sé gamalt og móðir samsinnir því.

Á báðum rasskinnum eru grunnir marblettir, eccymosur og roði á húð á svæði sem eru á hvorri rasskinn um 7 cm, hringlaga, blandað bláum og rauðum lit og virðist þannig fersk.  Á vi. rasskinn er fölara svæði til hliðar við roðann.  Myndir teknar og vistaðar með heiti ... Fæ að skoða rassskoru og húð við endaþarm og sé engin áverkamerki þar.  Ytri kynfæri eru ekki skoðuð, hann er mjög feiminn með þau.  Hefur misst eilítið þvag í brókina.

Á báðum leggjum aftanverðum má sjá ferska marbletti, hann veit ekki hvernig þeir komu, um 1 cm á hæð og 2 cm á lengd.  Hann kveinkar sér við þreifingu á þeim.

Að undanskildu ofangreindu er ekki að sjá aðra áverka.  Lungnahlustun og hjartahlustun er hrein.

Þann 15. ágúst 2014 óskaði lögreglan eftir því að dómskýrslur yrðu teknar af nefndum drengjum, sbr. heimildarákvæði a-liðar 59. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Fóru yfirheyrslurnar fram 20. sama mánaðar í sérútbúinni aðstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra á Akureyri og liggur fyrir endurrit en einnig myndbönd af yfirheyrslunum.  Þá liggja fyrir yfirheyrsluskýrslur lögreglu af mæðrum brotaþola en þær voru teknar upp með hljóði og mynd þann 14. og 15. ágúst sama ár.

Ákærði í máli þessu var yfirheyrður af lögreglu í þrígang, 14., 18. og 21. ágúst sl., að viðstöddum verjanda sínum, en skýrslurnar voru allar teknar upp með hljóði og mynd.

Réttargæslumaðurinn Halldóra K. Hauksdóttur hdl. lagði fram bótakröfur fyrir hönd forráðamanna brotaþola þann 17. september 2014.  Kröfurnar voru birtar ákærða við þingfestingu málsins fyrir dómi 26. sama mánaðar.

3.  L, sérfræðingur í klínískri sálfræði, var með bréfi lögreglu, dagsettu 26. september 2014, fenginn til að gera geðmat á ákærða, en einnig til að leggja mat á þroska hans, andlega heilsu og á kynhneigð, en einnig á áhættumat.

Í skýrslu sérfræðingsins, sem dagsett er 6. október sl., segir frá því að vegna þess hefði hann átt viðtöl við ákærða í fangelsinu á Akureyri dagana 27. og 28. september, en auk þeirra segir að niðurstöður skýrslunnar byggist á rannsóknargögnum lögreglu, upplýsingum frá fangavörðum og loks á tilteknum sálfræðiprófum sem ákærði gekkst undir.

Í skýrslu sérfræðingsins er rakin forsaga málsins, lífshlaup ákærða, samskipti hans og tengsl við ættingja og vini.  Einnig er í skýrslunni vikið að fjármálum, heilsufari og eigin frásögn ákærða um kynhneigð sína.  Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum fyrrgreindra sálfræðiprófa og sagt að ekki hafi komið fram hjá ákærða saga um geðrofshugmyndir eða geðklofalík einkenni í hegðun eða tilfinningum.  Að því er varðar geðgreiningu segir í skýrslunni að ákærði uppfylli viðmið fyrir óyndi, almenna kvíðaröskun, felmtursröskun án víðáttufælni, félagsfælni, blandaða áráttu- og þráhyggjuröskun og áfengisánetjun.  Í lokaorðum skýrslunnar er vikið að ofangreindum atriðum og viðhorfum ákærða til ætlaðra brota, en einnig að kynhneigð hans og áhættumati.  Um þetta segir nánar:

X var ekki til samstarfs í umræðu um hin meintu brot þrátt fyrir að honum hafi verið það ljóst að þetta mat væri liður í rannsókn málsins.  Ekki var því hægt að fá viðhorf hans eða afstöðu að öðru leyti en það hann neitaði og sagðist ekki geta tjáð sig um hluti sem hann man ekki hvort gerðust eða gerðust ekki.  Almennt er minni X þó ágætt en töluverð áfengisdrykkja eins og hann lýsir getur orsakað minnisgloppur á meðan áfengisneyslan stendur.  Í skýrslutökum varðandi mál drengjanna virðist X þó muna ágætlega atburði nema þá sem tengjast meintum kynferðisbrotum.

...

X skilgreinir sig við matsmann sem gagnkynhneigðan og segist ekki hafa kynferðislegan áhuga á börnum.  Hann viðurkennir að hafa meðal annars áhuga á flengingum með fullorðnum konum sem örvar hann kynferðislega.  Hann segist þó örvast kynferðislega án flenginga og að hann hafi áhuga á fleiri hlutum, flengingar eru eingöngu hluti af kynlífi hjá honum.  Hann segist hafa gert margt í svefnherberginu og notað allt sem hægt er að nota.

Til að meta kynhneigð X verður að skoða framburð hans í samhengi við gögn málsins.  Það er nokkuð ljóst í gögnum málsins að X fékk drengina til að rassskella hvorn annan og einnig er nokkuð ljóst að hann rassskellti þá enda liggur fyrir að hann játaði það við skýrslutöku.  X segist sjálfur hafa áhuga á rassskellingum sem kynferðisleg örvun en tengir mál drengjanna ekki við kynferðislega hegðun sem verður að teljast ótrúverðugt.  X gerir lítið úr áhuga sínum á flengingum og segir þetta eingöngu part af sínu kynlífi og í raun ekki mikilvægara en aðrir en fyrirliggjandi gögn styðja þetta ekki.  X hefur líklegast þráhyggjukenndar hugsanir varðandi flengingar og refsingar í kynferðislegum tilgangi og matsmaður telur að í raun skipti það hann ekki öllu máli hvern hann fær að flengja.  Í málsgögnum kemur ekki fram að hann vilji láta flengja sig sem styður tengingu við að hann vilji refsa öðrum.  Óvíst er þó hvort hann sé haldinn barnagirnd þó hann sýni marga áhættuþætti sem koma fram hér að neðan (áhættumat).  Matsmaður tekur hér inn andfélagslega persónuþætti, hvatvísi og áfengismisnotkun sem líklegri skýringu, þ.e. hann virðist notfæra sér þá sem eru í veikari stöðu en hann til að fá útrás fyrir þráhyggjukenndum hugsunum og löngunum um kynlíf tengt flengingum.  Með veikari stöðu á matsmaður við einstaklinga sem af einhverjum orsökum eru ekki jafnir X og hann hefur þá yfirburðastöðu vegna t.d. þroska, aldurs eða líkamlegs ástands.  Matsmaður telur því að þó hann sé ekki endilega haldinn barnagirnd þá virðist hegðun hans beint m.a. að börnum vegna þeirrar yfirburðastöðu sem hann hefur yfir þeim.

...

Til að meta áhættu á frekari brotum er m.a. stuðst við STATIC-99-R áhættumatspróf en einnig aðrar upplýsingar úr sálfræðimati og gögnum sem gefa betri mynd af áhættu.  Rannsóknir á prófinu hafa verið gerðar á yfir 2000 kanadískum kynferðisbrotamönnum og sambærilegar rannsóknir í Svíþjóð og Bandaríkjunum benda til góðs áreiðanleika milli landa.  Prófið skiptir niðurstöðum í fjóra flokka sem miða að líkum á endurteknum kynferðisbrotum.  Þessir fjórir flokkar eru 1) lítil áhætta, 2) lítil miðlungs áhætta, 3) miðlungs til há áhætta og 4) há áhætta.  Sálfræðilegir þættir eru einnig teknir í áhættumat sem og aðrir þættir sem hafa sýnt að auki áhættu á frekari brotum.

Sem áhættuatriði hefur X átt í stuttum og erfiðum samskiptum við konur og erfiðleikar hafa verið, m.a. þar hann var ákærður fyrir sambærileg brot og núna en taka ber fram að hann var sýknaður á þeim tíma og hefur ekki verið dæmdur fyrir ofbeldis- eða kynferðisbrot.  Í áhættumatsprófi eru þó gefin stig ef matsþoli hefur verið ákærður áður fyrir sambærileg brot.  Ákærur snúa einnig að drengjum sem eykur áhættu og að ókunnugum og óskyldum börnum sem eykur einnig áhættu á frekari brotum.  Atriði sem auka frekar á áhættu fyrir endurteknum brotum eru áfengisvandi X, andfélagsleg viðhorf, slök félagsleg aðlögun og einangrun sem eykur líkur á hvatvísihegðun þar sem hann gerir hluti án þess að hugsa fyrir afleiðingum/ eða er sama um afleiðingar eigin hegðunar á aðra.  Að auki hefur X þau viðhorf  að hann eigi ekki við vandamál að stríða varðandi kynhegðun sem minnkar líkur á að hann vinni með sig og nái árangri varðandi að stöðva þessa hegðun.

Á áhættumatsprófinu Static-99-R skorar X því með 6 stig sem er há áhætta (hæsti áhættuflokkur) og staðfestist það mat á sálfræðilegum þáttum, áfengisneyslu, hvatvísi og viðhorfum.  Matsmaður telur því að ef X er áfram í samfélaginu þá sé töluvert áhætta á frekari sambærilegum brotum.

4. Skýrslur fyrir dómi.

Við þingfestingu og aðalmeðferð fyrir dómi neitaði ákærði sakargiftum samkvæmt 2. og 3. tl. II. kafla ákæru.

Ákærði skýrði frá því að hann hefði haldið til á heimili sínu umrætt kvöld, en dagana þar á undan kvaðst hann hafa verið í mikilli vinnu.  Hann kvaðst hafa drukkið áfengan bjór og verið undir áfengisáhrifum, en auk þess verið mjög þreyttur er sú atburðarás hófst, sem leiddi til þess að hann hitti að máli tvo drengi fyrir utan fjölbýlishús sitt.  Hann kvaðst ekkert hafa þekkt drengina fyrir.  Ákærði lýsti atburðarásinni að þessu leyti í samræmi við skýrslur sem hann hafði gefið hjá lögreglu og staðfesti efni þeirra, en þar lýsti hann upphafi málsins þannig: „Ég held ég hafi verið í eldhúsinu, var örugglega að elda eitthvað og svo fer bara eitthvað á stað í hausnum sem að ég veit í raun ekki, eitthvað sem að hefur ekki gerst lengi, auðvitað var þessi atburðarás ekki þannig að ég væri að hugsa rétt ... ég var ringlaður í hausnum, var mjög þungur, dálítið gloppótt minni.“  Fyrir dómi bar ákærði að við þessar aðstæður hefði hann séð strákana sparka bolta fyrir utan fjölbýlishúsið í bifreið og afráðið að fara til þeirra og ræða þá hegðan.  Nánar aðspurður kvaðst hann ekki geta skýrt hvers vegna hann brást svona við og sagði: „... það var bara eitthvað rugl.“  Vísaði ákærði til þess að hann hefði enga bifreið átt fyrir utan húsið og því hefði athæfi drengjanna í raun ekkert komið honum við.  Hann hafði heldur ekki skýringu á því af hverju hann hafði ekki samband við foreldra drengjanna.  Aðspurður um hvað hann hefði sagt við drengina er hann hitti þá fyrir utan fjölbýlishúsið kvaðst ákærði ekki muna það nákvæmlega, en staðhæfði að hann hefði þó ekki hótað þeim að hringja á lögreglu ef þeir kæmu ekki með sér.  Er ákærða var kynntur framburður drengjanna að þessu leyti kvaðst hann ætla að þeir væru að ljúga.  Nánar aðspurður og eftir að honum hafði verið kynntur eigin framburður  hjá lögreglu um þessar fyrstu samræður við drengina þar sem hann sagði: „... hvort þeir vildu gera það sjálfir eða í gegnum lögregluna, en ég gerði ekkert meira en það ...“ svaraði hann því til að hann gæti ekki skýrt þessi orð sín, enda kvaðst hann ekkert muna eftir þeim.  Ákærði sagði að eftir þessar fyrstu samræður við drengina hefði hann gengið á undan þeim upp tröppurnar í stigaganginum, og bar að þeir hefðu getað gengið í burtu eða hlaupið hvenær sem þeir vildu.  Um það sem næst gerðist sagði ákærði fyrir dómi: „... við verðum ásáttir á það að reyna að leysa þetta eitthvað sjálfir og förum heim til mín ... þar sem að þeir ákveða eða við í sameiningu að þeir flengi hvorn annan.  Þetta er svona í stórum dráttum það sem gerðist ... við töluðum bara eitthvað um það og framkvæmdum það sko“.  Ákærði staðhæfði að annar drengjanna hefði haft frumkvæði að þessari lausn og áréttaði að þeir hefðu í framhaldi af því flengt hvorn annan.  Hann sagði að flengingar drengjanna hefðu farið fram í sófanum í stofunni, en þar hefðu þeir tekið niður um hvor annan en síðan legið á hnjám hvor annars, en hann á meðan setið í stól við hliðina.  Um eigið athæfi hafði ákærði svofelld orð: „Ég hvatti þá náttúrulega ekkert áfram en ég sló einhverja nokkra skelli á annan drenginn, það man ég.  Ég var bara eitthvað að sýna honum eitthvað hvernig ætti að gera þetta, hann var eitthvað, ég man það ekki hreinlega, þetta var, ég var náttúrulega eins og ég segi undir áhrifum áfengis þarna.“  Ákærði staðhæfði að athæfi hans hefði ekki markast af kynferðislegum tilgangi en hafði ekki frekari skýringar á því.  Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa sett krem á rass drengjanna og andmælti að því leyti frásögn þeirra fyrir dómi.  Þá kvaðst hann aðspurður ekki minnast þess að hafa verið með hringlaga dós er atvik gerðust.  Ákærði kannaðist við að eiga slíka dós, en bar að annar drengjanna hefði farið inn í baðherbergið og ætlaði að það væri skýring þess að drengirnir minntust á kremdósina.  Aðspurður hvort hann hefði sett fingur og getnaðarlim sinn í rassinn á öðrum drengjanna svaraði ákærði: „... ég tel það ekki hafa gerst“.  Á sama hátt svaraði ákærði er hann var inntur eftir því hvort hann hefði látið hinn drenginn hafa við sig munnmök.  Ítrekað aðspurður neitaði hann nefndu athæfi, en hafði ekki skýringar á frásögn drengjanna.  Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta skýrt það hvers vegna DNA-erfðaefni úr brotaþolanum B hefði fundist á lim hans.  Þá hafði hann ekki skýringar á því að áverkar voru á endaþarmi brotaþolans C.  Ákærði kvaðst ekki hafa meinað drengjunum að fara út úr íbúðinni, en ætlaði að þeir hafi dvalið hjá honum þar í um 20 mínútur.

Fyrir dómi lýsti ákærði eigin högum þannig að hann hefði um margra ára skeið verið haldinn ofsakvíða, en einnig þunglyndi.  Þá kvaðst hann er atvik gerðust hafa verið búinn að drekka áfengi í nokkra daga og sagði: „... ég var náttúrulega búinn að drekka svolítið þennan dag, ég veit bara ekki alveg hversu mikið hreinlega ... því eru atvik ekki mjög skýr sko, en það sem ég er búinn að gefa hérna skýrslu um,  það ... man ég alla vega.“  Við lok skýrslu sinnar fyrir dómi lýsti ákærði yfir iðran, en vísaði í því samhengi til þess að hann hefði flengt umrædda drengi í greint sinn.

Drengurinn C sagði í dómskýrslu sinni að umrætt kvöld hefði hann verið að leika sér við vin sinn B á römpunum á milli [...] og fjölbýlishússins að [...].  Hann kvaðst hafa verið íklæddur fótboltafötum þar sem hann hefði verið á æfingu og sagði að aðeins hefðu verið um fimm mínútur þangað til hann hefði átt að fara heim til sín er atvik máls þessa gerðust.  Hann kvað þá vinina hafa verið að leika sér með skopparakringlu og bolta, en hann kvaðst þá óvart hafa sparkað boltanum í kyrrstæða bifreið.  Við þessar aðstæður kvað hann karlmann, ákærða, hafa komið á vettvang og ætlaði að hann hefði kynnt sig með nafninu [...].  Hann lýsti ákærða lítillega en bar að ákærði hefði strax haft orð á því að hann hefði sparkað í bílinn hans, en síðan hefði hann sagt: „... og sagði svona ég gæti hringt í lögguna eða já og þarna og þá sagði hann svona eigum við að reyna að tala um þetta ... leysa málin bara svona saman eða ég hringi í lögguna.  Þá sögðum við þarna, tala saman ... og þá fór hann með okkur upp í íbúð.“  Bar hann að íbúð ákærða hefði verið á efstu hæðinni í sama fjölbýlishúsi og hann átti heima, en í stigaganginum til hliðar.  Hann kvaðst líkt og B hafa fylgt ákærða inn í stofuna, en þar kvaðst hann hafa séð fullt af leikföngum, en einnig borð, sjónvarp og sófa.  Hann kvaðst hafa fundið reykingalykt í íbúðinni og bar að ákærði hefði reykt.  Hann lýsti athæfi ákærða nánar í stofunni þannig: „Hann girðir niðrum okkur ... rassskellti okkur fyrst ... hann rassskellti okkur sex sinnum, hann æi en hann látti svo mig rassskella B og svo B að rassskella mig ... stundum sagði hann þegiðu ... því við máttum ekki tala, eiginlega“.  Hann sagði að það næsta sem gerðist hefði verið að ákærði hefði látið B sjúga á sér typpið, en er það gerðist kvaðst hann hafa setið við hliðina á ákærða í sófanum en B legið ofan á þeim á maganum.  Nánar aðspurður kvaðst hann ekki beinlínis hafa séð hvort limur ákærða var mjúkur eða harður.  Við greindar aðstæður kvaðst hann, líkt og B, hafa spurt ákærða hvenær þeir mættu fara heim, en sagði að ákærði hefði svarað þeim stundum, en stundum ekki.  Hann sagði að eftir að B hefði sogið typpið á ákærða hefði ákærði náð í krem.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvert ákærði fór til að ná í kremið eða hvernig það var og sagði: „ég sá það ekki beinlínis ... svo setti hann svona krem á rassinn á mér og setti svo typpið á sér inn í ... rassinn á mér“, en líka höndina“.  Er þetta gerðist kvað hann ákærða hafa verið krjúpandi fyrir aftan hann, en bar að B hefði þá setið við hliðina á ákærða í sófanum.  Vegna þessa athæfis ákærða kvaðst hann hafa fundið fyrir sársauka: „ég meiddi mig svona smá“.  Hann sagði að sér hefði liðið mjög illa á meðan á þessu öllu stóð, en um lok dvalarinnar í íbúð ákærða sagði hann: „... svo bara lét hann okkur fara heim ... hann bara sagði svona „ekki segja neinum“ ... og þá sagði ég svona nei við skulum ekki segja neinum því þá verðum við líka skammaðir ... hann sagði að hann myndi hringja á lögregluna held ég ... við lofuðum hérna tíu fingur upp til guðs, hvítur kross á maga og svo engin lygamerki tekin með ... og svo sagði ég mömmu minni“.

Drengurinn B kvaðst í dómskýrslu sinni hafa verið að leika sér í greint sinn við vin sinn C er þeim varð það á að sparka óvart bolta í bifreið.  Skömmu síðar kvað hann karlmann, ákærði í máli þessu, sem hann hafði ekki séð áður, hafa komið til þeirra og sagt að það væri fáránlegt að sparka í bifreiðir og bar að síðan hefði hann sagt: „komiði“.  Hann kvaðst í framhaldi af því hafa fylgt ákærða eftir ásamt C í íbúð á efstu hæð í miðstigagangi fjölbýlishússins og bar að vinur hans hefði átt heima í stigaganginum við hliðina.  Hann kvaðst hafa farið úr skónum að boði ákærða þegar þeir komu inn í íbúðina, en í framhaldi af því farið inn í stofuna.  Þar kvaðst hann hafa séð barnadót, en einnig húsgögn, þ. á m. sjónvarp, borð, stóla og tvo sófa, en þar af hefði annar þeirra verið þriggja sæta.  Hann lýsti athæfi ákærða eftir þetta þannig: „Lét okkur fara úr buxunum og brókinni ... við lágum svona í sófanum ofaná og svo flengdi hann okkur fast, lét okkur gera oft ... hann flengdi mikið fastar, tók blað og skrifaði niður og eitthvað ... mér var óglatt og svo svona ... hann kom og flengdi eins fast og hann gat ... svona tvisvar, einu sinni við mig.“  Hann sagði að áður en ákærði flengdi þá hefði hann borið krem á rassinn á þeim: „... tók kremið og berði á rassinn og svo flengdi hann okkur ... hérna ég átti fyrst að flengja hann ... C vin minn ... og svo átti hann að flengja mig“.  Hann kvaðst ekki hafa fundið lykt af kreminu og vísaði til þess að hann hefði verið kvefaður er atvik gerðust.  Nánar aðspurður neitaði B því að ákærði hefði látið hann eða B gera eitthvað við sig.  Hann sagði að er atvik gerðust hefði ákærði setið í sófanum og verið í öllum fötum og sagði: „Hann bara var í þeim og sat og var að horfa á sjónvarp“.  Nánar aðspurður kvaðst hann ekkert hafa séð af líkama ákærða.  Ítrekað aðspurður sagði hann: „Nei ég sá ekkert, nema bara sá bara fötin ... ég var bara að horfa á sjónvarpið þegar ég var liggjandi ... ég var ekkert mikið, og ég var líka með lokuð augun ... þegar hann ... þegar hann gerði eitthvað annað þá lokaði ég augunum af því að ég vildi ekki sjá það ... það var vinur minn sem var með opin augun.“  Aðspurður hvort það hefði verið eitthvað sem hann vildi ekki horfa á svaraði hann: „já það var bara eitthvað sem ég veit ekki, því ég sá ekki neitt ... það var svo mikið að ég lokaði þeim ... eiginlega allan tímann“.  Aðspurður neitaði hann því að hafa séð typpið á ákærða.  Hann kvaðst að lokum hafa sagt við ákærða að hann mætti ekki vera lengur úti og er þeir fóru úr íbúðinni kvað hann ákærða hafa sagt að þeir mættu ekki segja satt: „... hann myndi hringja á lögguna“.  Hann kvaðst ekki hafa sagt móður sinni frá þessu atviki þegar hann kom heim, en hann sagði: „... ég sagði ekkert, það var bara vinur minn sem sagði það, hann sagði allt“.  Aðspurður um líðan eftir samskiptin við ákærða sagði hann: „Ég var bara óglatt og eitthvað, mér líður svo illa að ég fór bara upp í rúm.  Ég var glaður þegar hann var handtekinn.“

Vitnið E, móðir drengsins C, skýrði frá því að sonur hennar hefði farið út af heimili þeirra umrætt kvöld klukkan 20:17, en komið aftur heim um 30-45 mínútum síðar og því verið á réttum tíma samkvæmt reglum.  Hún kvaðst þá hafa spurt hvar hann hefði verið, en veitt því eftirtekt að hann varð eitthvað skrýtinn og hún þá gengið frekar á hann, en hann þá byrjað að gráta og rokið inn í herbergið sitt: „... segir við mig bara að sem sagt að hann geti ekki sagt mér þetta, útaf því að ég verði reið.“ Vegna þessara viðbragða drengsins kvaðst hún hafa náð í hann og þau í framhaldi af því sest saman í sófa og hann í framhaldi af því skýrt frá atvikum máls.  Hún sagði að frásögn C hefði verið á þá leið að hann hefði verið að leika sér ásamt vini sínum B með bolta.  Hefði boltinn farið í einhverja bifreið, en þá hefði einhver vondur maður skammað þá og sagt að bifreiðin væri eign hans og þeir mættu ekki gera þetta.  Hún kvað drenginn hafa sagt að maður þessi hefði skipað þeim að koma með sér í íbúð sína og að hann þyrfti að hringja í lögregluna ef þeir kæmu ekki og töluðu við hann.  Þeir hefðu þá fylgt manninum í íbúð hans, en þar hefði hann flengt þá.  Vegna þessara orða kvaðst hún hafa orðið hálf ráðalaus, en síðan afráðið að hringja í föður drengsins og því næst í vitnið D, móður B, en þá heyrt að hann var kominn til heim til sín.  Hún hefði skýrt D frá frásögn C, en í framhaldi af því heyrt í símanum að C spurði B hvort umræddur maður hefði meitt þá eitthvað og heyrt að hann svaraði því til að hann hefði rassskellt þá.  Hún sagði að í framhaldi af þessum orðum hefðu þær ákveðið að hittast heima hjá henni og bar að stutt vegalengd væri á milli heimilanna.  Á meðan hún beið kvaðst hún hafa rætt frekar við son sinn.  Kvaðst hún þá hafa heyrt frekari lýsingar drengsins og þ. á m. að maðurinn hefði flengt þá sex sinnum og látið þá flengja hvorn annan, en enn fremur að hann hefði sett krem á rassinn á C og síðan sett putta þar inn.  Í framhaldi af því kvaðst hún hafa hlýtt á frásögn drengsins um að maðurinn hefði sett typpið í munninn á B.  Þegar D kom kvaðst hún hafa sagt henni að ná strax í B og að hún ætlaði að hringja á lögregluna á meðan.  Eftir að D kom með  B kvað hún þær hafa rætt í rólegheitum við strákana, en bar að lögreglumenn hefðu komið mjög fljótt á vettvang.  Hún sagði að í fyrstu frásögn C hefði hann verið mjög hræddur og alls ekki viljað segja neitt þar sem hann hefði lofað manninum að segja ekki neitt og hann vildi ekki svíkja það.  Hún sagði að eftir að B var kominn hefði hún á ný hlýtt á frásögn C um athæfi mannsins og þ. á m. að hann hefði sett lim sinn í munn B og bar hún að B hefði jánkað því að það hefði gerst, en sagði: „Hann (B) samþykkti þetta, hann sagði já og hann var alveg ... þeir voru alveg báðir með það að þetta hafi gerst sko, ég man ekki eftir að hann hafi sagt það samt.“  Síðar þetta kvöld kvaðst hún hafa farið með son sinn, C, á sjúkrahús til skoðunar, en bar að eftir þetta atvik hefði hegðan hans breyst.  Hún sagði að hann hefði þannig verið feiminn við að fara á klósettið og m.a. hefði faðir hans ekki mátt skeina hann þegar hann kúkaði, en það hefði verið breyting frá því sem áður var.  Þá kvað hún drenginn og hafa verið mun viðkvæmari en áður og bar að hann m.a. brysti í grát upp úr þurru, en auk þess hafi hann ekki þorað að sofa einn í rúmi.  Vegna þessarar vansældar hefði hann farið í viðtöl hjá sérfræðingum Barnahúss.

Vitnið D, móðir B, skýrði frá því að umrætt kvöld hefði sonur hennar fengið leyfi til að fara út að leika við vin sinn C, en bar að það hefði lagt fyrir hann að koma heim fyrir klukkan 21:00 þar sem þau hefðu átt von á tveimur öðrum vinum hans í heimsókn.  Hún sagði að þessir vinir hefðu síðan komið á heimilið, en í framhaldi af því farið að leita að B en ekki fundið hann og hún þá orðið óróleg.  Hún sagði að þegar B hefði komið heim hefði hún spurt hvar hann hefði verið og bar að hann hefði þá sagt að hann hefði verið hjá manni sem hann hefði nefnt [...] og að þar hefði hann horft á sjónvarp.  Hún kvaðst hafa séð af hegðan drengsins að ekki væri allt með felldu enda hefði hann ekki þekkt neinn mann með þessu nafni.  Skömmu síðar kvað hún E, móður C, hafa hringt og þá nefnt nafn ákærða.  Hún kvaðst ekki alveg minnast samtalsins vegna hugaræsings að öðru leyti en hún kvaðst að ráði E strax hafa ákveðið að skjótast yfir til hennar, enda hefði verið um stutta vegalengd að fara.  Á þeirri leið kvaðst hún hafa farið í rangan stigagang og þá séð nafn ákærða, en í framhaldi af því farið í næsta stigagang og á heimili E.  Hún kvað E strax hafa spurt að því hvort hún hefði rætt við B áður en hún kom, þar sem hún ætlaði að hringja á lögregluna.  Hún kvaðst hafa svarað neitandi en jafnframt sagt að hún ætlaði að ná í B og því hlaupið aftur heim.  Er þangað kom kvaðst hún hafa farið í herbergi B þar sem hann hafði lagst fyrir og sagt honum að hann yrði að koma og í framhaldi af því klætt hann í þau sömu föt sem hann hafði verið í þá um kvöldið.  Jafnframt kvaðst hún hafa spurt drenginn um þann karlmann sem hann hefði verið hjá að horfa á sjónvarp.  Hún sagði að B hefði sagt að hann hefði lofað því að segja ekki frá, en hún þá gengið á drenginn, en bar að hann hefði þá orðið niðurlútur og sagt að hann hefði verið að leika sér með bolta ásamt C, en að boltinn hefði þá farið í bifreið.  Við þessar aðstæður hefði fyrrnefndur maður komið að þeim og hótað að hringja á lögregluna ef þeir fylgdu honum ekki inn í íbúð hans og þeir farið að orðum hans.  Kvað hún drenginn síðan hafa skýrt frá því að í íbúðinni hefði hann þurft að rassskella vin sinn, [...], og að C hefði síðan þurft að gera það sama við hann.  Jafnframt kvað hún drenginn hafa skýrt frá því að hann hefði þurft að fá typpi mannsins upp í munninn, en að maðurinn hefði eftir það sett krem og putta upp í rassinn á C.  Eftir að hafa hlýtt á þessa frásögn kvaðst hún hafa farið með drenginn á heimili E, en bar að þegar hún kom að stigahúsinu hefðu lögreglumenn komið þar að og þeir farið með þeim inn í íbúðina til E.  Þar kvaðst hún hafa hlýtt á frásögn C og bar að hún hefði verið eins og hún hafði áður heyrt frá syni sínum og þ. á m. að gerandinn hefði hótað að hringja á lögregluna og að þeir hefðu þá ákveðið að fylgja honum í íbúð hans.  Enn fremur kvað hún E hafa greint frá því að þeir hefðu þurft að flengja hvor annan og loks að B hefði fengið typpið á manninum upp í munninn á sér, en að maðurinn hefði síðan sett puttann og typpið í rassinn á C.  Hún sagði að B hefði verið hljóður á meðan C skýrði frá þessu, en bar að hann hefði þó leiðrétt frásögnina og sagt að það hefði ekki verið typpi mannsins sem fór í rassinn á C heldur puttinn.  Hún sagði að þetta atriði hefði verið það eina nýja sem hún heyrði frá því sem hún hlýddi á frásögn B á heimili sínu skömmu áður.  Hún sagði að fleiri lögreglumenn hefðu eftir þetta komið á vettvang, en síðar um kvöldið kvaðst hún hafa farið með son sinn á slysadeild til skoðunar, en þá m.a. séð: „svakaleg handaför á rasskinnum barnsins míns“.  Hún sagði að þegar hún hefði hlýtt á frásögn B á heimili sínu hefði hann verið mjög miður sín og grátið.  Hún bar að eftir þennan atburð hefði hegðan drengsins breyst og hann m.a. orðið mun viðkvæmari en áður hafði verið.  Hann hefði þannig viljað halda sig heima við, en að auki verið mjög háður henni.

Lögreglumaðurinn O lýsti atvikum máls með líkum hætti og áður er rakið úr frumskýrslu, en hún staðfesti efni hennar.  Hún sagði að þegar hún kom á vettvang hefði brotaþolinn B og móðir hans, D, verið að koma að fjölbýlishúsinu, en hún kvaðst hafa heyrt að D hefði skömmu áður verið á heimili E.  Hún kvaðst hafa farið inn í íbúð þeirrar síðarnefndu, en í framhaldi af því hlýtt á frásögn C um atvik máls og bar að drengurinn D hefði hlýtt á frásögnina, en einnig mæður þeirra beggja.  Vitnið bar að frásögnin hefði verið á þá leið, að þeir vinirnir hefðu verið að leika sér með bolta á bifreiðastæði þarna skammt frá heimilum þeirra, en að þá hefði ákærði komið að og lagt að þeim að koma með sér inn í íbúð hans en ellegar myndi hann kalla til lögreglu.  Þá kvaðst hún hafa heyrt C lýsa því að í íbúð ákærða hefði hann  byrjað á því að rassskella drengina, að hann hefði klætt þá úr fötum, en auk þess sett lim sinn í rassinn á C, en einnig í munninn á B.  Hún kvað C hafa lýst gerandanum, en einnig að hann ætti heima í næsta stigagangi við heimili hans og héti [...].  Af lýsingunni kvaðst hún strax hafa áttað sig á því að um var að ræða ákærða í máli þessu.  Hún sagði að B hefði ekki lagt neitt til málanna og minntist þess ekki að hafa séð viðbrögð hans þegar C greindi frá atvikum máls.  Hún kvaðst hafa ákveðið að ganga ekki harðar að drengjunum og vísaði til þess að þeir hefðu ekki virst gera sér grein frá alvarleika málsins, en aftur á móti hefðu mæður þeirra verið í miklu uppnámi.  Hún sagði að drengirnir hefðu verið rólegir í fasi.  Hún kvaðst hafa skráð frásögnina jafnóðum.

Lögreglumaðurinn P, sem fór með fyrrnefndum lögreglumanni á vettvang, lýsti atvikum í meginatriðum á sama veg og starfsfélaginn, og þ. á m. að drengurinn B og móðir hans hefðu komið á vettvang um sama leyti og hann kom, en í framhaldi af því kvaðst hann hafa hlýtt á frásögn drengsins C.  Hann sagði að frásögn drengsins hefði verið sjálfstæð og ótrufluð og efnislega á sama veg og greint er frá í frumskýrslu lögreglu.  Hann bar að ákveðið hefði verið að stöðva frásögn drengsins þegar ljóst var hvers eðlis hún var.  Hann staðhæfði að báðir drengirnir hefðu haft á orði að ákærði hefði hótað því að kalla til lögreglu.  Hann áréttaði að C hefði haft orð fyrir þeim, en bar að B hefði verið viðstaddur, en ekki sagt neitt og þá ekki heldur borið á móti frásögninni.

Q lögreglufulltrúi og N rannsóknarlögreglumaður komu fyrir dóminn og staðfestu efni áðurrakinna gagna.  Þeir lýstu rannsókn málsins, þ. á m. sýnatökum, yfirheyrslum og húsrannsókn á heimili ákærða.  Hið sama gerði R, sérfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Hann staðfesti að greining á því stroksýni, sem tekið hefði verið undan forhúð ákærða, hefði leitt í ljós að hluti þess DNA sem fram kom í sýninu hefði verið eins og DNA-snið brotaþolans B og að hluti sýnisins var eins og DNA-snið ákærða.  Hann sagði að þetta þýddi að einhverjar þekjufrumur úr munni drengsins hefðu borist á lim ákærða.  Vitnið sagði að smit með þessum hætti á milli einstaklinga bærist hugsanlega frá höndum eða munni, en sagði að líklegra væri að um beina snertingu drengsins við lim ákærða hefði verið að ræða.  Þrátt fyrir það væri ekki hægt að útiloka að smitið hefði borist með hendi.

Vitnið S, barnalæknir á Sjúkrahúsinu á Akureyri, gerði grein fyrir áðurröktum vottorðum um drengina C og B.  Sérstaklega aðspurð um drenginn C bar vitnið að um hefði verið að ræða ertingu í húð við endaþarm, en þar hefði verið mjög yfirborðskennt sár, án blæðingar.  Vitnið áréttaði að hugsanleg skýring þessa væri að húðin hefði verið glennt eða dregin í sundur.  Vitnið áréttaði að það hefði gætt að þessum ummerkjum nánar daginn eftir þegar hægðir hefðu ekki hindrað skoðun.  Við seinni skoðunina kvaðst hún hafa séð í endann á grunnri sprungu í endaþarmsgöngunum, nánar tiltekið í endaþarmsslímhúðinni.  Vitnið bar að engin bólga hefði verið þarna í kring sem hefði bent til þess að áverkinn hefði ekki verið gamall og ekki hefðu verið nein merki um króníska sprungu.  Um tilkomu sprungunnar sagði vitnið að erfitt væri að fullyrða um það, en aðspurt sagði það að hún gæti komið þegar fingur væri settur inn í endaþarminn og að slíkur áverki gæti samrýmst því, en ekki væri hægt að útiloka aðra hluti.  Vitnið bar að hægðatregða gæti í sjaldgæfum tilvikum komið til greina en í raun gæti það vart staðist þar sem endaþarmurinn víkki við hægðatregðu.  Vitnið bar að C hefði verið með sýnilegt hægðasmit, en það hefði verið óvenjulegt hjá barni á þessum aldri.

Vitnið T barnalæknir kvaðst hafa komið að skoðun drengjanna, C og B, í greint sinn.  Varðandi þá sýnilegu áverka sem voru á rassi C kvaðst hann hafa ályktað að þar hefði verið beitt afli með flötu áhaldi t.d. hendi.  Að því er varðaði ertingu á húð sagði hann að það gæti komið til þegar húð væri dregin í sundur, en einnig ef fingur eða limur hefði komið við sögu, en kvaðst þó ekki geta fullyrt neitt um þetta.  Hann sagði að tilkoma þessara áverka gæti tæpast verið vegna hægðatregðu, þar sem þá hefðu ummerkin verið á annan veg.  Hann kvaðst ekki hafa veitt því athygli við skoðunina að krem hefði verið notað á rass drengsins.  Þá kvað hann ummerki á rassi drengsins B hafa verið svipuð og hjá C og bar að þar hefði verið um nýlega áverka að ræða sem gæti hafa verið eftir flengingu.

U, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði, var af hálfu ákæruvalds fengin til að rita vottorð um meðferð drengjanna, C og B, hjá Barnahúsi.  Vottorðin eru bæði dagsett 20. október sl.

Í vottorðinu sérfræðingsins um drenginn C segir m.a. að hann hafi frá ætluðu broti sótt fjögur meðferðarviðtöl á tímabilinu frá 20. ágúst til 9. október sl., sem öll hafi farið fram í heimabyggð hans.  Greint er frá því að drengurinn hafi lýst líðan sem einkennst hafi af viðkvæmni, kvíða og depurðareinkennum, en það hafi verið í samræmi við umsögn foreldra hans.  Er staðhæft að slík einkenni séu dæmigerð fyrir börn sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og geti tekið nokkurn tíma fyrir barn að ná jafnvægi og fyrri líðan.  Þá segir í vottorðinu að drengurinn hafi haft kynni af kynferðislegum athöfnum löngu áður en hann hafi haft þroska til að takast á við slíkt og geti það haft áhrif á færni hans til framtíðar við að mynda traust og náin samskipti við aðra, enda samræmist ætlaðir atburðir ekki reynsluheimi barna og geti þeir því haft áhrif á sýn hans á umhverfið og annað fólk ásamt því sem sjálfsmynd hans skaðist.  Þá segir að við áframhaldandi meðferð drengsins verði unnið samkvæmt aðferðum áfallamiðaðrar hugrænnar atferlismeðferðar.  Loks segir að erfitt sé að meta meðferðarþörf drengsins til framtíðar, en í því sambandi er tekið fram að aukinn þroski barna geti kallað á frekari sálfræðimeðferð síðar.

Í vottorði sérfræðingsins um drenginn B segir frá því að vottorðsgjafi hafi hitt hann þrívegis og sé meðferðin stutt á veg komin.  Greint er frá því að B hafi lýst vanlíðan og hegðun sem sé dæmigerð fyrir börn sem hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.  Sé þetta í samræmi við umsögn móður hans.  Vottorðið er að öðru leyti í samræmi við vottorð drengsins C.

Vitnið U sálfræðingur staðfesti fyrir dómi efni áðurrakinna vottorða.  Vitnið bar að C hefði orðið mjög hræddur er atvik máls gerðust og að hann hefði síðar endurupplifað það sem gerðist, m.a. þegar hann hefði verið að horfa á kvikmyndir.  Jafnframt hefði hann upplifað reiði og kvíða og sýnt óöryggi í hegðun.  Vitnið bar að drengurinn hefði upplifað önnur áföll í lífi sínu, þ. á m. skilnað foreldra sinna, en staðhæfði að sú líðan sem áður var rakin væri ekki afleiðing þess.  Vitnið staðfesti enn fremur umsögn sína um drenginn B og þ. á m. að hann hefði eftir atburðinn átt erfitt með að sofa og viljað einangra sig.  Vitnið sagði að þessi einkenni væru í samræmi við afleiðingar kynferðisofbeldis.

Vitnið L sálfræðingur staðfesti áðurrakið vottorð um geðskoðun á ákærða.  Vitnið sagði að sú niðurstaða sem þar kæmi fram væri byggð á heildstæðu mati á öllum gögnum málsins, þ. á m. sálfræðiprófum.  Vitnið áréttaði að prófin hefðu ekki bent til þess að ákærði ætti við geðsjúkdóma að stríða.  Vitnið áréttaði jafnframt að svo virtist vera í tilfelli ákærða að flengingar væru mikilvægar í kynlífi hans, en að sú hegðun væri þráhyggjukennd.  Að því leyti væru andstæður í frásögn ákærða ótrúverðugar.  Vitnið bar að þrátt fyrir að ákærði væri gagnkynhneigður væri um flókið mál að ræða og því gætu börn verið viðfangsefni ákærða.  Vitnið sagði að áfengisneysla ákærða leiddi til meiri hvatvísi af hans hálfu, en einnig til einangrunar.

C.

Niðurstaða.

Ákærukafli I, liður 1.

Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa nauðgað og beitt brotaþola, A, kynferðislegu áreiti að kveldi 20. janúar sl.

Ákærði neitar sök og kveðst hvorki hafa viðhaft kynferðislegt áreiti gagnvart brotaþola né látið hana hafa við sig munnmök, eins og nánar er lýst í ákæru.  Ákærði hefur á hinn bóginn borið að hafa viðhaft kynferðisleg atlot með brotaþola.  Hefur hann þannig borið að þau hafi kysst, en hann að auki viðhaft strokur utanklæða.  Ákærði hefur andmælt því að hann hafi notfært sér andlega annmarka brotaþola og er vörn hans m.a. byggð á því.

Ágreiningslaust er að ákærði hringdi til brotaþola mánudagskvöldið 20. janúar sl. og átti við hana samræður í um níu mínútur.  Af frásögn ákærða og brotaþola við alla meðferð málsins verður lagt til grundvallar að þau hafi í raun ekkert þekkst er atvik gerðust. Ákærði hefur greint frá því hann hafi umrætt kvöld verið lítillega undir áhrifum áfengis og jafnframt kannaðist hann við að hafa séð auglýsingu frá brotaþola þar sem hún hafði boðið fram þjónustu sína við barnagæslu.  Að áliti dómsins er sú auglýsing brotaþola sem ákærði vísar til og áður er rakin einfeldningsleg.

Um tilgang sinn með símhringingunni hefur ákærði borið að hann hefði viljað kynnast brotaþola og hitta hana.  Ákærði hefur og borið að brotaþoli hefði í símaviðræðunum eitthvað minnst á áhuga sinn fyrir því að taka að sér barnagæslu, en að hann hefði ekki haft þörf fyrir slíka þjónustu, a.m.k. ekki eins og á stóð.

Brotaþoli hefur aftur á móti borið að ákærði hefði í símaviðræðum þeirra óskað eftir þjónustu hennar við barnagæslu, en þá jafnframt innt hana eftir því hvort hún vildi hitta hann í íbúð hans þannig að þau gætu rætt saman.  Bar brotaþoli að hún hefði staðið í þeirri trú að barn ákærða væri hjá honum umrætt kvöld og að hún ætti að gæta þess.  Að mati dómsins er frásögn brotaþola að þessu leyti í samræmi við vætti bróður hennar, G, en lagt verður til grundvallar að hann hafi ekið brotaþola að heimili ákærða eftir símtal hennar við ákærða.

Af gögnum málsins verður ráðið að brotaþoli hafi dvalið í íbúð ákærða í um eina klukkustund, en um samskipti þeirra þar eru þau ein til frásagnar.  Ber mikið í milli í lýsingu þeirra á atburðarásinni og þar á meðal um viðskilnaðinn.  Stendur því staðhæfing gegn staðhæfingu að því leyti.  Fyrir liggur að lögreglu barst fyrst kæruerindi vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi ákærða níu dögum eftir greind samskipti.  Liggja því ekki fyrir sýnileg rannsóknargögn.

Ákærði hefur sagt að hann hafi ályktað af samskiptum sínum við brotaþola að hún væri ekki alveg heil.  Þar um vísaði hann m.a. til fortíðar hennar og að hún hefði á árum áður verið samtíða bróður hans í skammtímavistun fatlaðra grunnskólanema.

Samkvæmt gögnum hitti brotaþoli bróður sinn, G, strax eftir að hún hafði yfirgefið íbúð ákærða, og ók G henni eftir það nokkurn spöl að heimili hennar, að þjónustukjarnanum í [...].  Samkvæmt frásögn hans var viðmót brotaþola allt annað og verra en þegar hann ók henni að heimili ákærða að fjölbýlishúsi í [...] um klukkustund áður.  Hann greindi frá því að fáeinum dögum síðar hefði hann heyrt frásögn brotaþola um kynferðislegt athæfi ákærða.  Bar hann jafnframt að hún hefði verið óviljug til að fara að nefndu fjölbýlishúsi, en upplýst er að móðir þeirra hafði þar aðsetur á þessum tíma, en í næsta stigagangi við íbúð ákærða.  Að mati dómsins var framburður vitnisins einlægur og trúverðugur.

Samkvæmt gögnum greindi brotaþoli móður sinni frá kynferðislegu athæfi ákærða í símtali laust eftir miðnættið þann 21. janúar sl., en sendi auk þess harðort sms-símboð til ákærða um svipað leyti.  Þá skýrði hún forstöðumanni þjónustukjarnans, vitninu F þroskaþjálfa, frá ætluðu athæfi ákærða.  Samkvæmt frásögn F hafði hún áður haft af því fregnir frá starfsmönnum þjónustukjarnans að brotaþoli hefði verið ólík sjálfri sér þá um nóttina.

Í þessum kafla málsins er ákærða gefið að sök brot gegn 199. gr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.  Ákvæði 199. gr. hljóðar svo:  „Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum.  Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, ennfremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi eða til þess falli að valda ótta.“  Ákvæði 2. mgr. 194. gr. hljóðar svo: „Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. (1 til 16 ár) að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

Samkvæmt gögnum, þar á meðal vottorði K yfirlæknis geðdeildar Sjúkrahússins Akureyri, hefur A allt frá barnæsku átt við alvarlega atferlis- og aðlögunarerfiðleika að stríða, en einnig vanlíðan, kvíða, ofvirkni og athyglisbrest.  Hún var auk þess greind með væga þroskaskerðingu, með heildargreindarvísitölu 62.  Hún hefur um árabil verið til meðferðar hjá geðlæknum og tekið inn viðeigandi lyf.  Samkvæmt vitnisburði geðlæknisins, sem einnig er í samræmi við vætti þroskaþjálfanna F og M, á öllum fullorðnum einstaklingum sem eiga samskipti við brotaþola að vera ljóst að hún á við greindarskerðingu að stríða, en vitnin lýstu m.a. einfeldni hennar og trúgirni.

Er atvik gerðust var brotaþoli 23 ára, en hún hefur um nokkurra ára bil búið í vernduðu umhverfi þar sem hún nýtur sólarhringsþjónustu, í þjónustukjarnanum að [...].

Brotaþolinn A hefur komið fyrir dóminn.  Var frásögn hennar einlæg og greinargóð þrátt fyrir þroskahömlun hennar.  Þá hefur hún í öllum aðalatriðum verið staðföst og sjálfri sér samkvæm um samskipti sín við ákærða og þ. á m. um kynferðislegt athæfi hans og að háttsemin hefði verið andstæð vilja hennar.  Hún staðhæfði jafnframt að hún hefði hræðst ákærða vegna orða hans um refsingar.  Að mati dómsins er í þessu viðfangi til þess að líta að brotaþoli hefur vegna fötlunar sinnar aðeins þroska á við ungt barn.  Að mati dómsins er frásögn brotaþola um atvik máls trúverðug.  Í ljósi atvika og þroska brotaþola hefur dómurinn ekki athugasemdir við það að við lögreglurannsókn var kvaddur til sérfróður kunnáttumaður er brotaþoli gaf skýrslu sína, sbr. að því leyti til hliðsjónar ákvæði 5. mgr. 63. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Er andstæðum sjónarmiðum ákærða hafnað.

Áðurnefnd vitni hafa borið að brotaþoli hefði verið miður sín og reið er þau hittu hana og hlýddu á frásögn hennar um samskiptin við ákærða.  Benda lýsingar vitnanna til þess, að áliti dómsins, að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu áfalli vegna lýstra samskipta og að hún hafi verið andvíg því sem gerðist þeirra í millum.

Samkvæmt gögnum varð brotaþoli fyrir alvarlegum áföllum á yngri árum, m.a. vegna kynferðisbrota náinna ættmenna.  Að mati dómsins er hins vegar ekkert fram komið í málinu um að rekja megi ástand hennar í greint sinn til annarra atvika en samskipta hennar við ákærða, eins og hún hefur lýst þeim fyrir dómi.

Framburður ákærða nýtur ekki beins stuðnings í gögnum málsins.  Það er álit dómsins að framburður hans í máli þessu sé ótrúverðugur og þar á meðal að honum hafi ekki í ljósi símaviðræðna og síðari samskipta getað dulist að brotaþoli ætti við verulega greindarskerðingu að stríða.

Það er niðurstaða dómsins þegar framangreint er virt í heild, en einnig áðurrakin skýrsla L sálfræðings um kynhegðan ákærða, að ekki sé varhugavert að leggja framburð A um að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi, sem lýst er í þessum ákærukafla, til grundvallar og að hann hafi þannig brotið gegn henni.  Verður hann því sakfelldur fyrir háttsemina, en hún þykir réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali.

Ákærukafli II, liður 2 og 3.

Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa gerst sekur um frelsissviptingu, sifskapar- og kynferðisbrot gagnvart drengjunum B og C, 8 ára, að kveldi 13. ágúst sl., eins og nánar er lýst í ákæru.

Ákærði hefur alfarið neitað refsiverðri sök.  Hann kannast við að hafa haft afskipti af drengjunum þar sem þeir voru í boltaleik við bifreiðastæði við fjölbýlishúsið [...], heimili ákærða og C, en mjög nærri heimili B.  Ákærði hefur borið að hann hefði fyrir greind afskipti fylgst með drengjunum úr eldhúsglugganum á heimili sínu og þá m.a. séð er boltinn fór í ógáti í kyrrstæða bifreið á bifreiðastæðinu.  Þá hefur ákærði staðhæft að í stuttum viðræðum sínum við drengina hefðu þeir allir orðið ásáttir um að þeir færu saman í íbúð hans til að ræða nefnt atvik og finna á því lausn, en í kjölfarið hefðu drengirnir ákveðið að rassskella hvor annan, en hann þá tekið þátt í því gagnvart öðrum drengnum.  Að öðru leyti andmælti ákærði verknaðarlýsingu ákæru og neitaði eins og áður sagði refsiverðri sök.

Af gögnum verður ráðið að ákærði hafi haft greind afskipti af nefndum drengjum, B og C, um klukkan 20:30, og að þeir hafi eftir það fylgt honum í íbúð hans.  Af gögnum verður helst ráðið að drengirnir hafi verið í íbúðinni í um 20-30 mínútur.  Greindi C frá því að ákærði hefði sagt þeim að þegja þegar þeir óskuðu eftir því að fara út.

Fyrir liggur að ákærði þekkti drengina ekkert er atvik gerðust og átti enga bifreið á bifreiðastæðinu.  Ákærði hefur að áliti dómsins enga skýringu gefið á afskiptaseminni, en borið því helst við að hann hafi verið undir áhrifum áfengis.

Fyrir dómi hefur drengurinn C skýrt frá því að ákærði hafi haft uppi hótanir er hann ræddi við hann og B á bifreiðastæðinu og þá með því að kalla til lögreglu ef þeir fylgdu honum ekki eftir og ræddu við hann í íbúð hans um tilgreint atvik.  Fyrir dómi greindi B frá því að ákærði hefði sagt þeim að fylgja sér í íbúð sína, en að hann hefði hótað þeim afskiptum lögreglu þegar þeir fóru úr íbúðinni ef þeir skýrðu frá því sem þar gerðist.

Samkvæmt frásögn mæðra drengjanna, D og E, voru þeir miður sín þegar þeir komu á heimili sín eftir dvölina í íbúð ákærða.  Er þetta í samræmi við eigin frásögn þeirra.  Greindi B frá því að vegna vanlíðunar sinnar hefði hann m.a. lagst fyrir á heimili sínu.  Móðir hans bar á sama veg fyrir dómi, en enn fremur að hann hefði í fyrstu frásögn sinni greint frá því að hann hefði fylgt ákærða í íbúð hans eftir að ákærði hafði hótað að kalla til lögreglu.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að leggja beri skýra og trúverðuga frásögn C til grundvallar um að ákærði hefði fengið hann og B til að fylgja sér í íbúð sína eftir að hafa hótað þeim með greindum hætti.  Þykir frásögn drengsins hafa stoð í vætti vitnisins D, en einnig B.  Frásögn ákærða er aftur á móti að mati dómsins reikul og ótrúverðug að þessu leyti, en fyrir liggur að samkvæmt alkóhólrannsókn var hann mjög ölvaður þegar atvik gerðust. Þegar þetta er virt í heild ásamt ungum aldri brotaþola verður þessi háttsemi talin fela í sér frelsissviptingu og sifskaparbrot þannig að varði við tilgreind hegningarlagaákvæði II. kafla 2. liðar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 54/2014.

Fyrir dómi greindu C og B frá atvikum máls eftir að þeir höfðu fylgt ákærða í íbúð hans.  Að mati dómsins er lýsing þeirra á kynferðisathæfi ákærða gagnvart þeim í öllum aðalatriðum samhljóða og einkar skýr, en þó sérstaklega frásögn C.  Frásögn þeirra er í öllum aðalatriðum í samræmi við sakargiftir í 3. lið II. kafla ákærunnar.  Framburður B var og mjög trúverðugur, en hann lýsti því að hann hefði vegna athæfis ákærða lokað augum sínum.  Af myndbandsupptöku er augljóst að drengnum var mjög misboðið vegna athæfis ákærða, en hann vísaði jafnframt til orða vinar síns, C, um nánari atvik og bar því einnig við að hann hefði verið kvefaður.

Fyrir liggur að C og B skýrðu mjög fljótlega eftir að þeir fóru frá ákærða frá atvikum máls.  Samkvæmt vitnisburðum mæðra þeirra, D og E, áttu þeir í fyrstu erfitt með að skýra frá reynslu sinni vegna loforða þeirra við ákærða um að greina ekki frá því sem gerðist í íbúð hans.  Er á þá var gengið var lýsing þeirra á atburðarásinni mjög lík frásögn þeirra fyrir dómi.  Samkvæmt vætti lögreglumanna sem fyrst hittu drengina var frásögn C einnig sambærileg skýrslu hans fyrir dómi, en hann hafði þá einkum orð fyrir þeim.  B lagði einnig orð í belg undir lokin samkvæmt trúverðugu vætti móður hans, D, um það atriði, að ákærði hefði stungið fingri sínum í endaþarm C, en ekki lim sínum, en staðfesti að öðru leyti frásögn C með látbragði.

Eins og áður er rakið liggja fyrir í málinu staðfest læknisvottorð um áverka C og B.  Þá liggur fyrir niðurstaða rannsóknarstofu vegna DNA-rannsóknar, sem gerð var á sýnum og samanburðarsýnum sem tekin voru af ákærða, C og B.  Leiddi greining á stroksýni sem tekin var undan forhúð ákærða í ljós að í sýninu var blanda DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum og var hluti þess eins og DNA-snið brotaþolans B.

Ákærði hefur enga haldbæra skýringu gefið á hinum sýnilegu gögnum.  Þá er frásögn hans að mati dómsins á köflum fráleit, en til þess er að líta að hann vísaði ítrekað til minnisleysis um atvik máls vegna áfengisáhrifa.  Í því viðfangi verður ekki horft framhjá áðurrakinni skýrslu L sálfræðings um kynhegðan ákærða og að hann var mjög ölvaður.

Það er álit dómsins þegar allt framangreint er virt í heild að lögfull sönnun sé fram komin fyrir því að ákærði hafi viðhaft þá háttsemi, sem lýst er í þessum ákærukafla, 3. lið, og þannig brotið gegn drengjunum C og B, að því frátöldu að ekki þykir alveg nægjanlega sannað, sbr. ákvæði XVI. kafla laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi stungið lim sínum í endaþarm drengsins C.

Sú háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt ofangreindu er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

D.

Ákærði, sem er 32 ára, hefur ekki brotið af sér áður þannig að áhrif hafi á refsingu hans.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart þroskaheftri konu og tveimur barnungum drengjum.  Hann hefur einnig verið sakfelldur fyrir frelsissviptingu og sifskaparbrot gagnvart drengjunum.  Brotin sem ákærði er sakfelldur fyrir eru alvarlegs eðlis, en þau þykja m.a. sýna einbeittan brotavilja.  Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en einnig ber að tiltaka hana samkvæmt reglum 77. gr. sömu laga.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 ár.  Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhald hans óslitið frá 14. ágúst 2014.

Í málinu eru hafðar uppi einkaréttarkröfur, sem getið er í ákæru og voru reifaðar og rökstuddar við munnlegan málflutning af hálfu skipaðra réttargæslumanna brotaþola, annars vegar af hálfu Arnbjargar Sigurðardóttur hrl. vegna A og hins vegar af hálfu Halldóru K. Hauksdóttur hdl. vegna forráðamanna drengjanna B og C.  Er í öllum tilvikum krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. laga nr. 50, 1993 með síðari breytingum, en kröfurnar voru birtar ákærða 26. september sl.

Ákærði hefur bakað sér bótaskyldu samkvæmt greindu ákvæði gagnvart A.  Við ákvörðun bóta verður litið til þess að fyrir liggur vottorð geðlæknis um fötlun hennar, en takmörkuð gögn um afleiðingar brots ákærða.  Helst er þar að nefna vitnisburð þroskaþjálfa, en upplýst er að A hefur áður orðið fyrir miklum hremmingum á þessu sviði.  Verknaður ákærða var til þess fallinn að auka enn á vanda hennar í lífinu.  Ákveðast miskabætur að þessu virtu til A 1.000.000 króna, með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.  Upphafstími dráttarvaxta er ákveðinn samkvæmt reglu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 2001.

Ákærði hefur bakað sér bótaskyldu samkvæmt greindu ákvæði gagnvart C og B.  Við ákvörðun bóta verður litið til þess að fyrir liggja vottorð sálfræðings og fleiri gögn sem benda til þess að þeir hafi orðið fyrir verulegri tilfinningaröskun og andlegum þjáningum vegna brota ákærða.  Ákveðast miskabætur að þessu virtu til þeirra hvors um sig 2.500.000 krónur með vöxtum eins og þeir eru nánar greindir í dómsorði.  Upphafstími dráttarvaxta er ákveðinn samkvæmt reglu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 2001.

Ákæruvaldið hefur í málinu gert kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar málsins, sem samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti nemur 890.603 krónum.  Að auki er um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, sbr. ákvæði 218. gr. laga nr. 88, 2008.  Verður við ákvörðun launanna m.a. litið til umfangs málsins og starfa hinna skipuðu lögmanna við alla meðferð þess, sbr. og sundurliðaðra skýrslna þar um, en einnig ber að líta til þeirra sjónarmiða sem fram koma t.d. í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 290/2000 um hlutverk réttargæslumanna, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ólafur Ólafsson sem dómsformaður, Erlingur Sigtryggsson og Halldór Halldórsson.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald hans frá 14. ágúst 2014.

Ákærði greiði A 1.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 20. janúar 2014 til 26. október sama ár, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D, fyrir hönd B, 2.500.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. ágúst 2014 til 26. október sama ár, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði E, fyrir hönd C, 2.500.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. ágúst 2014 til 26. október sama ár, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 3.217.995 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl., 1.375.480 krónur, auk réttargæslulauna Arnbjargar Sigurðardóttur hrl., 427.950 krónur, og réttargæslulauna Halldóru K. Hauksdóttur hdl., samtals 523.962 krónur.