Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 15

 

Mánudaginn 15. júní 2009.

Nr. 280/2009.

Peterson Farms Inc.

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

gegn

Skaganum hf.

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

P kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi fyrri lið aðalkröfu hans um að S yrði gert að viðlögðum dagsektum að afhenda og setja upp á eigin kostnað svokallaðan efri eimsvalaviftuspíral. Jafnframt var vísað frá dómi kröfulið í aðalkröfu að fjárhæð 113.000 bandaríkjadalir vegna áætlaðs viðgerðarkostnaðar. Í aðal- og varakröfu P var vísað frá dómi kröfuliðum samtals að fjárhæð 823.606,26 bandaríkjadalir. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeim athugasemdum að í fyrri kröfuliðum í aðal- og varakröfum sóknaraðila hafi verið krafist dóms um tilgreindar verkskyldu S og um dagsektir. Í kröfunum kæmi ekki fram, hvenær skylda til greiðslu dagsekta skyldi falla niður, yrði fallist á kröfuna, og væri því annmarki á þessum þætti kröfunnar. Í dóminum kemur jafnframt fram að til þess að krafa teldist nægilega reifuð í einkamáli yrði hún og gögn sem hún væri reist á að vera með þeim hætti að stefndi ætti þess kost að færa fram efnislegar varnir við kröfu og forsendum hennar. Ekki yrði bætt úr annmörkum að þessu leyti með öflun gagna við rekstur máls eftir að stefndi hefði lagt fram greinargerð af sinni hálfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 11. maí 2009, þar sem vísað var frá dómi fyrri lið aðalkröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að viðlögðum dagsektum að afhenda og setja upp á eigin kostnað svokallaðan efri eimsvalaviftuspíral. Jafnframt var vísað frá dómi kröfulið í aðalkröfu að fjárhæð 113.000 bandaríkjadalir vegna áætlaðs viðgerðarkostnaðar. Í aðal- og varakröfu sóknaraðila var vísað frá dómi kröfuliðum samtals að fjárhæð 823.606,26 bandaríkjadalir. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar þá kröfuliði sem vísað var frá dómi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Af hálfu sóknaraðila er fyrir Hæstarétti meðal annars byggt á því að ekki séu efni til að vísa kröfuliðum frá dómi, þó að dómur telji þau gögn sem fram eru lögð þeim til stuðnings ófullnægjandi til sönnunar á fjárhæð þeirra. Telur sóknaraðili að hafa verði í huga að með öflun viðbótargagna eða við skýrslutökur megi bæta úr því sem á kunni að vanta að þessu leyti í ljósi andmæla varnaraðila.

Til þess að krafa teljist nægilega reifuð í einkamáli verður hún og gögn sem hún er reist á að vera með þeim hætti að stefndi eigi þess kost að færa fram efnislegar varnir við kröfu og forsendum hennar. Ekki verður bætt úr annmörkum að þessu leyti með öflun gagna við rekstur máls eftir að stefndi hefur lagt fram greinargerð af sinni hálfu.

Í fyrri kröfuliðum í aðal- og varakröfum sóknaraðila er krafist dóms um tilgreindar verkskyldur varnaraðila og um dagsektir sem lagðar verði við því að hann efni þær. Í kröfunum kemur ekki fram, hvenær skylda til greiðslu dagsekta eigi að falla niður, verði fallist á kröfurnar, hvort það sé þegar varnaraðili hefst handa við að efna skylduna, þegar hann lýkur því eða við annað tímamark. Er þetta annmarki á dagsektaþætti þessara krafna.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Peterson Farms Inc., greiði varnaraðila, Skaganum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 11. maí 2009.

Mál þetta var höfðað 11. júlí 2008 og tekið til úrskurðar 17. apríl sama ár. Stefnandi er Peterson Farms Inc., 186 West Roller Avenue, Decatur í fylkinu Arkansas í Bandaríkjunum. Stefndi er Skaginn hf., Bakkatúni 26 á Akranesi.

Í málinu gerir stefnandi eftirtaldar kröfur aðallega:

1.        Að stefnda verði gert að viðlögðum 500.000 króna dagsektum að afhenda stefnanda og setja upp á eigin kostnað nýjan efri eimsvalaviftuspíral (e. top coil) í frysti af gerðinni „Skaginn Multi Belt IQF Freezer“ við verksmiðju stefnanda.

2.        Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 983.091 Bandaríkjadal með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 19. júlí 2004 til 2. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara gerir stefnandi eftirtaldar kröfur:

1.        Að stefnda verði gert að viðlögðum 500.000 króna dagsektum að gera við frysti af gerðinni „Skaginn Multi Belt IQF Freezer“ í verksmiðju stefnanda, sem stefnandi keypti af stefnda með kaupsamningi 3. maí 2004 þannig að frystirinn afkasti 6.500 pundum af skinn- og beinlausum kjúklingabringum á klukkustund og að hitastig framleiðslunnar úr frysti verði -18 gráður á Celsíus-kvarða.

2.        Að stefnda verði gert að greiða stefnanda 870.091 Bandaríkjadal með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. júlí 2004 til 2. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Í bæði aðal- og varakröfu krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gerir stefndi þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

Í þessum úrskurði er til úrlausnar krafa stefnda um frávísun málsins. Stefnandi krefst þess að þeirri kröfu verði hrundið auk þess sem stefnandi krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.

I.

Stefnandi rekur kjúklingabú í bænum Decatur í Arkansas í Bandaríkjunum, en fyrirtækið hefur starfað í þeim alifuglaiðnaði frá árinu 1939.

Árið 2003 fóru fram viðræður milli málsaðila um að stefndi smíðaði frysti fyrir stefnanda til notkunar í verksmiðju hans. Einnig tók þátt í þessum viðræðum bandaríska fyrirtækið Food Craft Distributors Inc., dreifingaraðili stefnanda. Hinn 1. mars 2004 gerði stefndi tilboð í verkið og samþykkti stefnandi tilboðið 3. maí sama ár. Samkvæmt samningnum átti frystirinn að afkasta 6.500 pundum á klukkustund og átti hitastig framleiðsluvörunnar eftir frystingu að vera -18°C eða -0,4°F. Kaupverðið var 770.000 Bandaríkjadalir, en innifalið í því var flutningskostnaður, uppsetning og ferðakostnaður. Kaupverðið átti að inna af hendi á nánar tilgreindum gjalddögum og hefur það allt verið greitt. 

Samhliða þessu keypti stefnandi frystikerfi af bandaríska fyrirtækinu Cooling and Applied Tecnology Inc., en kerfið leiðir orku inn í frystinn frá stefnanda. Það fyrirtæki sá um í samstarfi við stefnda að setja upp frystikerfið og tengja það við frystinn frá stefnda.

Lokið var við að setja upp frystinn í verksmiðju stefnanda 19. júlí 2004. Stefnandi heldur því fram að fljótlega hafi komið í ljós að frystirinn skilaði ekki þeim afköstum sem miðað hafði verið við í samningi málsaðila, sem komst á 4. maí 2003. Þannig hafi afköstin mest verið 5.500 pund á klukkustund, en að jafnaði aðeins um 4.500 til 5.000 pund á klukkustund. Af þessu tilefni voru sérfræðingar fengnir til að skoða frystinn frá stefnda og frystikerfið sem tengt var honum án þess að það verði rakið hér nánar. Deila málsaðilar um hvort frystirinn frá stefnda sé fullnægjandi miðað við samning aðila. Nánar tiltekið lýtur ágreiningurinn að því hvort afköstin séu fullnægjandi og ef ekki hverjar séu orsakir fyrir því. Telur stefnandi að spírall í frysti frá stefnda starfi ekki sem skyldi, en stefndi telur hins vegar að ástæður þess verði raktar til stefnanda sjálfs eða þess frystikerfis sem stefnandi keypti frá Cooling and Applied Tecnology Inc. og tengdi við frystinn frá stefnda.

Hinn 24. janúar 2005 höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda, Food Craft Distributors Inc. og Cooling and Applied Tecnology Inc. fyrir fylkisdómstóli í Arkansas í Bandaríkjunum. Með úrskurði 26. október 2006 var kröfum á hendur stefnda vísað frá dómi sökum þess að dómurinn ætti ekki lögsögu í málinu vegna ákvæðis í samningi málsaðila um að leysa ætti úr ágreiningi fyrir íslenskum dómstóli.

II.

Sá málsgrundvöllur stefnanda að frystirinn frá stefnda hafi verið gallaður er reistur á skýrslu R.A. Cole and Associates Inc 8. mars 2007. Fékk stefnandi verkfræðinginn Ronald A. Cole, eiganda fyrirtækisins, til að gera ítarlega athugun á frystinum og skila í kjölfarið skýrslu til stefnanda. Ronald andaðist áður en hann lauk verkinu en við tók sonur hans Jason R. Cole, verkfræðingur.

Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að athugun á tækjabúnaðinum frá stefnda hafi leitt í ljós að galli sé í efri eimsvalaviftuspíral frystisins vegna takmarkaðs rennslis kælimiðils sem komi í veg fyrir að spírallinn afkasti nóg fyrir frystinn. Til að ráða bót á þessu þurfi að gera við spíralinn þannig að nægur kælimiðill renni um hann. Þó er tekið fram að ekki sé tryggt að frystirinn afkasti í samræmi við samning málsaðila þótt úr þessu verði bætt. Er því einnig gert ráð fyrir í skýrslunni að hugsanlega þurfi að skipta um spíralinn svo náð verði þeim afköstum sem reiknað var með.

III.

Samhliða aðal- og varakröfu um úrbætur krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda fyrir tjón sem rakið verði til þess galla er stefnandi telur á tækjabúnaðinum. Krafa um skaðabætur er reist á athugun fyrirtækisins CFO Network sem stefnandi fékk til að meta tjónið. Fyrirtækið starfar á sviði endurskoðunar og ráðgjafar og skilaði það skýrslu sinni til stefnda 26. október 2007.

Í skýrslu CFO Network kemur fram að stuðst er við skýrslu R.A. Cole and Associates Inc frá 8. mars 2007 um gallann og umfang hans. Við mat á tjóninu er litið til þess að stefnandi hafi þurft að nota aukið vinnuafl vegna minni afkasta til að standa við framleiðslusamninga. Jafnframt er hluti af tjóninu rakið til þess að afla hafi þurft sömu aðfanga þótt frystirinn framleiddi aldrei það sem gefið hafði verið upp. Því sé um að ræða aukinn rekstrarkostnað. Þá hafi stefnandi orðið fyrir kostnaði við að greina gallann og meta mögulegar úrbætur. Loks muni falla til kostnaður við að endurbæta tækjabúnaðinn þannig að hann skili fullum afköstum. Að þessu gættu er tjónið samtals talið nema 1.023.091,83 Bandaríkjadölum sem sundurliðast þannig:

                                1. Aukinn launakostnaður                                                324.785,24

                                2. Kostnaður vegna verktaka                                           155.794,51

                                3. Aukinn rekstrarkostnaður við frysti                           343.026,51

                                4. Áætlaður viðgerðarkostnaður                                     153.000,00

                                5. Ráðgjafarkostnaður                                                         46.485,57

1.

                Í skýrslu CFO Network segir að stefnandi hafi þurft að nota aukið vinnuafl starfsmanna til að standa við gerða samninga þar sem frystirinn starfaði ekki eins og gert var ráð fyrir. Venjulega hafi verið unnið á tveimur átta tíma vöktum fimm daga vikunnar og því hafi vaktatímar verið minnst 80 á viku. Einnig hafi verið nauðsynlegt að starfrækja verksmiðjuna um helgar til að vinna upp í stórar pantanir. Af þessu hafi leitt aukinn launakostnað sem fundinn er út með því að draga launakostnað þá laugardaga og sunnudaga sem frystirinn var ekki notaður frá heildarlaunakostnaði þessa sömu daga á tímabilinu 1. ágúst 2004 til 20. október 2007. Sundurliðast þetta þannig í skýrslunni:                

                Helgarlaun                           Dagvinnulaun           Yfirvinnulaun               Skattur              Samtals

                Laugardagar                                    $34.261,83                $215.060,76             7,65%            $268.395,77

                Sunnudagar                                  $155.285,22                       $341,03             7,65%            $167.531,66

                Alls                                                 $189.547,05                $215.401,79             7,65%            $435.927,43

 

                Frátaldar helgar:

                Laugardagar, öll verksm.               $19.271,10                  $65.669,81             7,65%                91.438,89

                Laugardagar til viðbótar                    $556,91                  $10.177,40             7,65%                11.555,48

                Sunnudagar til viðbótar                  $7.568,80                           $0,00             7,65%                $8,147,81

                Alls                                                   $27.396,81                  $75.847,21             7,65%            $111.142,19

 

                Umframlaun                                   $162.150,24                $139,554,58             7,65%              324.785,24       

Þessi útreikningur er nánar skýrður í skýrslu CFO Network, en þar segir meðal annars svo samkvæmt þýðingu löggilts dómtúlks:

Launagögn eru frá Peterson Farms fyrir allar dagsetningar frá 20. október 2002 til 20. október 2007 úr forritinu „Kronos Time History“ sem heldur utan um allar upplýsingar um vinnutíma starfsmanna hjá Peterson Farms. Allur tími starfsmanna sem vinna í marineringar- og IF frystideildum var talinn með. Stjórnendur Peterson Farms staðfesta að allur helgartími sem unninn var á laugardögum og sunnudögum í þessum deildum tengist rekstri Skagafrystisins og því að ná framleiðslumarkmiðum þrátt fyrir minni afköst frystisins. Vegna þessa var allt endurgjald vegna vinnu starfsmanna Peterson á laugardögum og sunnudögum í þessum deildum tekið saman fyrst. Heildargreiðslur til starfsmanna fyrir þá vinnu námu $404.948,84. Það er þó ekki heildartala tjónsins þar sem sleppa verður hluta þessara helgarlauna af eftirfarandi ástæðum: Í fyrsta lagi ætti að sleppa öllum laugardögum þegar öll verksmiðjan var í gangi vegna þess að frystirinn hefði verið í gangi á þeim tíma til að mæta umframeftirspurn án tillits til afkastagetu frystisins. Í öðru lagi verður að sleppa þeim helgum þegar frystirinn starfaði ekki en vinna stóð engu að síður yfir hjá marineringar- og IF frystideildunum. Þar sem frystirinn var ekki í gangi er ekki hægt að telja launakostnað fyrir þá starfsmenn með. Heildarlisti þeirra dagsetninga sem sleppt var fylgir í Gögnum III. Heildartíminn sem sleppt var miðað við ofangreint var $103.244,03. Umframgreiðslur alls til starfsmanna Peterson Farms vegna dagvinnu og yfirvinnu námu $301.704,82. En það er ekki lokatala umframlauna vegna tjónsins. Til viðbótar beinum launakostnaði greiddu Peterson Farms einnig viðbótarskatt af öllum launum sem nam 7,65%. Þegar skatturinn er tekinn með verður launatengt tjón Peterson Farms $324.785,24.

2.

Fram kemur í skýrslu CFO Network að stefnandi hafi ekki aðeins þurft að nota aukið vinnuafl eigin starfsmanna heldur einnig ráða til sín verktaka til að anna eftirspurn. Mikið af þeirri vinnu hafi farið fram á sunnudögum þegar fastráðnir starfsmenn stefnanda voru ekki tiltækir. Um þennan lið segir síðan svo í skýrslunni eins og hún liggur fyrir í þýðingu:

Peterson Farms veitti upplýsingar þar sem tilgreindir voru ítarlega allir tímar vinnuafls í verktöku í marineringar- og IF frystideildum. Líkt og í greiningunni á umframgreiðslu til starfsmanna Peterson var öllum dögum sem öll verksmiðjan var í gangi og öllum dögum þegar Skagafrystirinn var ekki í notkun sleppt úr greiningunni. En þó Peterson Farms hafi lagt fram unna tíma vinnuafls í verktöku er bein upphæð sem greidd var til vinnumiðlana óþekkt og var því áætluð til að kveða á um heildartjónið. Peterson Farms lagði fram nokkra samninga á milli félagsins og ýmissa vinnumiðlana sem skipt var við en þó voru ekki til samningar fyrir allar miðlanir og öll árin. Þessu til viðbótar kom ekki fram í samningum vinnumiðlananna hvaða upphæð ætti að greiða vinnumiðlununum þegar vinnuafl í verktöku var í yfirvinnu.

Yfirleitt er atvinnumiðlunum sem tengjast alifuglaiðnaðinum greitt 1,2 sinnum tímakaupið sem greitt er beint til starfsmanna. Þar að auki er yfirvinna yfirleitt 1,5 sinnum dagvinnukaupið. Þó hægt hefði verið að notast við þessa staðla í iðngreininni til að reikna út heildartjónið af viðbótarkostnaði vegna vinnuafls í verktöku var talið réttast að beita hófsamari aðferð. Aðferðin sem beitt var til að ákveða tjónið fólst í því að notað var árlegt meðaltal tímakaups fastra starfsmanna Peterson sem unnu í marineringar- og IF frystideildunum þegar ekki fannst samningsupphæð fyrir tiltekið ár. Þegar samningsupphæðin var þekkt var hún notuð og samningskaupið látið vera óbreytt næsta ár á eftir ef samningskaupið var óþekkt. Þar sem ekki kom fram í neinum samninganna hvernig fara ætti með yfirvinnu er gert ráð fyrir því í þessari greiningu að öll yfirvinna hafi verið greidd með sama meðaltali af yfirvinnukaupi starfsmanna Peterson. ... Með þessari aðferð var niðurstaðan sú að Peterson Farms greiddi a.m.k. $155.794,51 í umframkostnað fyrir vinnuafl í verktöku. Sú upphæð er reiknað heildartjón þar sem ekki hefði verið um viðbótarlaunaskatt að ræða.

3.

Í skýrslu CFO Networks segir að til viðbótar kostnaði við laun og vinnuafl í verktöku hafi stefnandi orðið fyrir tjóni við rekstur á frystinum frá stefnda. Þótt frystirinn hafi afkastað minna en gert var ráð fyrir hafi honum fylgt sami beini lágmarksrekstrarkostnaður og ef hann hefði verið starfræktur með fullum afköstum. Þar af leiðandi hafi stefnandi orðið fyrir tjóni vegna starfrækslu frystisins við minnkaða afkastagetu. Einnig er tekið fram í skýrslunni að hugsanlega hefði verið unnt að nota aðrar framleiðsluaðferðir með minni tilkostnaði ef vitað hefði verið að frystirinn skilaði minni afköstum. Um þennan lið segir svo í skýrslunni í þýðingu:

Eitt atriði sem þarf að leysa er lækkun árlegra afkasta. Ef sú lækkun væri vegna minni eftirspurnar viðskiptavina þá hefði umframkostnaðurinn ekki verið tjón fyrir Peterson Farms. En vegna þess að frystirinn er meginflöskuháls í framleiðslukerfi verksmiðjunnar var aldrei skortur á viðbótarvörum til vinnslu í frystinum. Frekar má segja að lægri afköst séu afleiðing viðbótarviðgerða og stöðvunartíma í tengslum við vandagreiningu á Skagafrystinum. Til að finna út upphæð tjónsins af beinum rekstri frystisins var stuðst við kostnaðarskýrslur Peterson Farms verksmiðjunnar í Decatur. Í þeim skýrslum er allur rekstrarkostnaður færður eftir framleiðslulínu og því er skráður allur beinn kostnaður í tengslum við Skagafrystinn undir „ammoníaksfrystir“ í kostnaðarskýrslunum. Peterson Farms lagði fram kostnaðarskýrslur fyrir bókhaldsárin 2005 til 2007. Vegna þess að frystirinn var tekinn í notkun í ágúst 2004 hefur tjónið í tengslum við frystinn verið vantalið. Til að finna út umframrekstrarkostnað var mismuninum á kostnaðinum á heildarfjölda unninna punda og kostnaðinum á viðmiðunarafköstum beitt á heildarmagn unninna vara. Viðmiðunarafköstin voru reiknuð sem sá fjöldi punda sem hægt væri að framleiða miðað við 5.000 pund á klukkustund (við dæmigerð vinnsluafköst) 40 rekstartíma á hverri vakt, tvær vaktir á viku og 50 vikur á ári. Þannig fást viðmiðunarafköst sem nema 20.000.000 pundum. Þessi aðferð var talin varlegust þar sem verksmiðjan er í fullum rekstri í meira en 4.000 tíma á ári eins og gert er ráð fyrir í greiningunni, en þó uppgefin afköst frystisins væru 6.500 pund á klukkustund keyrði búnaðurinn yfirleitt með 5.000 punda afköstum á klukkustund miðað við verkfræðigreininguna sem fékkst frá ýmsum ráðgjöfum sem tóku þátt í að greina frystiþættina. Beinn kostnaður við Skagafrystinn er tilgreindur ítarlega eftir árum [í töflu hér að neðan]. Rekstarkostnaður alls frá október 2004 til október 2007 nemur $1.514.684. Þessi upphæð undanskilur eitt atriði úr kostnaðarskýrslunum, innpökkunarkostnað. Sá pökkunarkostnaður er undanskilinn í greiningunni á beinum rekstrarkostnaði vegna þess að hann er breytilegur kostnaður sem breytist eftir framleiðslumagninu og því ætti heildarkostnaður við innpökkun sem sýndur er í kostnaðarskýrslunum að jafngilda raunverulegum afköstum frekar en viðmiðunarafköstum. Sá pökkunarkostnaður var alls $3.892.953 á tímabilinu sem skoðað var og ef hann væri talinn með hefði hann veruleg áhrif á útreikning tjónsins. Frá 2005 til 2007 voru framleidd 56.102.877 pund í samanburði við viðmiðunarafköstin 60.000.000 pund sem hefði verið hægt að framleiða á þessu tímabili. Til að finna umframrekstrarkostnaðinn sem er tjón Peterson Farms er frávikið á milli heildarframleiðslunnar og viðmiðunarinnar fyrir hvert rekstrarár margfaldað með heildarkostnaði ársins. Auk þess að sleppa innpökkunarkostnaði er „IP endurvinna“, þ.e. vara sem var innkölluð og endurpökkuð vegna annmarka, sem fram kom á kostnaðarskýrslu 2007 einnig sleppt í þessari greiningu. Þeirri upphæð var sleppt vegna þess að allur kostnaðurinn sem til féll var vegna annmarka í Skagafrystinum. Af þessari ástæðu var upphæðinni sleppt úr upphaflegri greiningu á umframrekstrarkostnaði og bætt við aftur í lokin til að fá út heildarumframrekstrarkostnað. Þar af leiðandi var heildarupphæð reiknaðs tjóns frá október 2005 til október 2007 $343.027, en af því $89.170 vegna beins rekstarkostnaðar og til viðbótar $253.857 vegna kostnaðar við endurvinnslu vöru.

Beinn umframkostnaður við frysti eftir árum:

                                                                       2005                   2006                   2007             Samtals

Vatnskostnaður                                       $27.000               $27.000               $27.000               $81.000

Rafmagn                                                   $12.600               $10.800               $10.800               $34.200

Jarðgas                                                     $18.000               $18.000               $18.000               $54.000

Viðgerð á búnaði                                     $23.547               $26.311               $75.939             $125.797

Fyrningar                                                $294.048             $296.638             $301.252             $891.938

Úthlutun byggingakostnaðar               $28.388               $24.000               $24.000               $76.388

Framleiðslubirgðir                                        $150                           -                           -                    $150

Kælikostnaður                                                     -              $(2.646)                           -              $(2.646)

Beinn frystikostnaður alls                   $403.733             $400.103             $456.991          $1.260.827

 

Afköst í pundum alls                         21.270.027          18.853.904          15.978.946          56.102.877

    Frystikostnaður á pund                  $0,0190             $0,0212             $0,0286             $0,0225

Viðmiðunarafköst                               20.000.000          20.000.000          20.000.000          60.000.000

    Frystikostnaður á pund                  $0,0202             $0,0200             $0.0228             $0,0210

Umframkostnaður á pund                     $(0,012)               $0,0012               $0,0058               $0,0015

Beinn umframfrystikostnaður             $(25.638)               $22.928               $91.879               $89.170

Kostnaður við endurvinnslu vöru                   -                           -             $253.857             $253.857

Samtals                                                   $(25.638)               $22.928             $345.736             $343.027            4.

Í skýrslu CFO Network er vísað til samantektar Jason R. Cole, verkfræðings, 25. október 2007 þar sem áætlaður er kostnaður við að gera við frystinn og breyta honum. Þessi kostnaður er sundurliðaður þannig:

                Almennur byggingaverktaki                                 $15.000

                Vélamaður                                                                $55.000

                Verktaki fyrir kælibúnað                                         $12.500

                Rafverktaki                                                               $15.000

                Framleiðandi spírals, nýr spírall                            $40.000

                Sorpförgun                                                                 $3.000

                Samtals                                                                   $153.000

Í aðalkröfu sinni gerir stefnandi ekki kröfu um fjárhæð sem svarar til kostnaðar við að endurnýja spíral þar sem samhliða bótakröfu er þess krafist að stefnda verði gert að láta í té og setja upp spíralinn á eigin kostnað. Þessi kröfuliður stefnanda nemur því 113.000 Bandaríkjadölum (153.000 – 40.000). Í varakröfu stefnanda er gerð krafa um úrbætur og því er þessum kröfulið sleppt í heild sinni í þeirri kröfugerð.

5.

Krafa um ráðgjafarkostnað er reist á útlögðum kostnaði til sérfræðinga samkvæmt reikningum og öðrum fylgiskjölum. Þessi kostnaður sundurliðast þannig:

                Jason Cole                                                         Samantekt 25. október 2007                            $1.050.00

                River City Industrial Refrig.                            Reikningur 1. apríl 2007                                   $9.337,65

                R.A. Cole and Associates Inc.                       Reikningur 12. mars 2007                                $4.637,50

                R.A. Cole and Associates Inc.                       Reikningur 5. desember 2006                          $2.924,46

                R.A. Cole and Associates Inc.                       Reikningur 1. maí 2006                                     $5.713,56

                R.A. Cole and Associates Inc.                       Reikningur 14. febrúar 2006                            $5.293.75

                R.A. Cole and Associates Inc.                       Reikningur 5. desember 2005                        $14.641,15

                R.A. Cole and Associates Inc.                       Reikningur 12. júní 2004                                  $2.887,50

                Samtals                                                                                                                                        $46.485,57

IV.

Stefndi reisir kröfu sína um frávísun á því að stefnandi hafi ekki upplýst um lyktir þess máls sem höfðað var fyrir dómstóli í Arkansas á hendur stefnda, Food Craft Distributors Inc. og Cooling and Applied Tecnology Inc. Kröfum á hendur stefnda hafi verið vísað frá dómi en ekkert liggi fyrir um afdrif málsóknarinnar á hendur þeim fyrirtækjum sem kröfum var beint að samhliða stefnda. Því sé ekki loku fyrir það skotið að efnisdómur hafi nú þegar gengið í því máli þannig að vísa beri þessu máli frá dómi á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Stefndi heldur því einnig fram að málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós og ruglingslegur að ekki sé fullnægt kröfum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt telur stefndi að þessir ágallar séu slíkir að úr þeim verði ekki bætt undir rekstri málsins án þess að það komi niður á málsvörn stefnda og valdi honum réttarspjöllum. Til stuðnings þessu bendir stefndi á að málatilbúnaðurinn allur sé mjög vanreifaður og rök skorti fyrir því að galli sé fyrir hendi í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Þannig hafi þetta ekki verið leitt í ljós með matsgerð eða öðru mót en þau gögn sem stefnandi byggi á séu með öllu ófullnægjandi.

Jafnframt telur stefndi að skaðabótakrafa stefnanda sé svo vanreifuð að ekki verði komist hjá því að vísa henni frá dómi. Krafan sé ekki reist á matsgerð eftir reglum XII. kafla laga nr. 91/1991 heldur sé hún studd við óundirritaða erlenda skýrslu sem aflað var einhliða án dómkvaðningar. Einnig séu einstakir liðir kröfunnar lítt rökstuddir þannig að ógerlegt sé að átta sig á útreikningi og grundvelli kröfunnar. Þá gæti ósamræmis þar sem krafist sé kostnaðar við að skipta út efri spíral frystis og koma fyrri nýjum þótt samhliða sé gerð krafa um að stefnda verði gert að framkvæma sama verk að viðlögðum dagsektum. Enn fremur bendir stefndi á að stefnandi hafi lagt fram mikinn fjölda skjala á erlendu tungumáli sem hann hafi einhliða aflað og að erfitt sé að átta sig á tengslum þessara gagna við kröfugerð og málsástæður stefnanda.

Loks bendir stefndi á að vaxtakrafa stefnanda sé í engu samræmi við skaðabótakröfuna sjálfa. Þannig sé krafist bóta vegna áætlaðs viðgerðarkostnaðar, sem ekki hafi enn fallið til, og tjóns á árunum 2004 til 2007. Allt að einu sé krafist vaxta af allri fjárhæðinni frá 19. júlí 2009.

V.

Stefnandi andmælir því að nokkrir þeir annmarkar séu á málatilbúnaðinum að varðað geti frávísun.

Stefnandi tekur fram að málsókn á hendur öðrum aðilum hafi ekki res judicata áhrif gagnvart stefnda. Þar fyrir utan verði mál höfðað hér á landi þótt gengið hafi dómur í öðru ríki, enda séu erlendir dómstólar ekki hliðsettir dómstólum hér á landi í skilningi 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þannig sé rótgróin réttarframkvæmd fyrir því að mál þurfi að höfða hér á landi til að afla aðfararheimildar þótt dómur hafi gengið um sama sakarefni milli aðila fyrir erlendum dómstóli.

Einnig vísar stefnandi til þess að sönnunarmatið sé frjálst og því sé komið undir málsaðilum hvaða sönnunargagna þeir afli til stuðnings kröfum sínum. Það velti síðan á atvikum hverju sinni hvort staðhæfing verði talin sönnuð þannig að krafa verði tekin til greina eða sýknað af henni. Þetta geti hins vegar ekki varðað frávísun. Þá andmælir stefnandi því að kröfugerð hans eða málatilbúnaður hans sé vanreifaður þannig að varðað geti frávísun.

VI.

1.

Vegna kaupa á þeim tækjabúnaði sem hér er til umfjöllunar höfðaði stefnandi mál 24. janúar 2005 á hendur stefnda, Food Craft Distributors Inc. og Cooling and Applied Tecnology Inc. fyrir fylkisdómstóli í Arkansas í Bandaríkjunum. Kröfum á hendur stefnda fyrir þeim rétti var vísað frá dómi 26. október 2006. Þessi málsókn fyrir erlendum dómi á hendur stefnda og hugsanleg afdrif hennar á hendur öðrum, sem því máli var beint gegn, getur ekki girt fyrir að stefnandi höfði mál hér fyrir dómi þar sem hafðar eru uppi kröfur um efndir og efndabætur á hendur stefnda á grundvelli samnings aðila frá 3. maí 2004. 

2.

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að frystir, sem hann keypti af stefnanda, fullnægi ekki gæðaeiginleikum samkvæmt samningi aðila, sbr. 17. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Þetta verði rakið til þess að efri eimsvalaviftuspírall starfi ekki eðlilega en það valdi því að frystirinn skili ekki þeim afköstum sem miðað var við í samningi aðila. Verði úr þessu bætt telur stefnandi að frystirinn standist til framtíðar kröfur um afköst. Þetta byggir stefnandi á skýrslu R.A. Cole and Associates Inc. 8. mars 2007.

Í einkamálaréttarfari hefur löngum gilt að aðilar hafa málsforræði og sönnunarmatið er frjálst. Í þessu felst meðal annars að aðilar afla sönnunargagna, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Það er því undir þeim sjálfum komið hvort og hvaða gagna verður aflað. Á þessum grundvelli sker dómari síðan úr því hverju sinni hvort staðhæfing um umdeild atvik telst sönnuð, enda leiði ekki annað af lögum, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga.

Stefnda hefði verið kleift að afla matsgerðar eftir reglum IX. kafla laga um meðferð einkamála í því skyni að leiða í ljós ætlaðan galla á þeim tækjabúnaði sem hann keypti af stefnda, bæði orsakir gallans og um umfang hans. Stefnanda er hins vegar frjálst að freista þess að sanna þetta á annan veg með þeim sönnunargögnum sem beitt verður í einkamáli eftir reglum umræddra laga. Samkvæmt þessu getur það eitt ekki varðað frávísun málsins, eins og hreyft hefur verið af hálfu stefnda, þótt stefnandi hafi ekki aflað matsgerðar. Verður heldur ekki fallist á það með stefnda að málatilbúnaðurinn sé óljós að þessu leyti, enda hefur stefnandi lýst því glögglega hverjar hann telur orsakir og umfang gallans. Því getur ekki verið vandkvæðum bundið fyrir stefnda að taka til varna í þessu tillit. Að þessu gættu verður ekki fallist á þessa frávísunarástæðu.

3.

Í aðalkröfu hefur stefnandi uppi þá kröfu að stefndi afhendi stefnanda og setji upp á eigin kostnað nýjan efri eimsvalaviftuspíral að viðlögðum dagsektum. Samhliða þessari kröfu um úrbætur krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefnda. Einn liður þeirrar kröfu eru bætur vegna áætlaðs viðgerðarkostnaðar á frystinum frá stefnda. Sá kröfuliður er reistur á skýrslu CFO Network 26. október 2007 og samantekt Jason R. Cole, verkfræðings, 25. október 2007. Alls er viðgerðarkostnaður metinn á 153.000 Bandaríkjadali, en frá þeirri fjárhæð hefur stefnandi dregið 40.000 Bandaríkjadali, sem er áætlaður kostnaður við að útvega nýjan spíral.

Í umræddri samantekt Jason R. Cole, sem hefur að geyma kostnaðaráætlun, er yfirskriftin eftirfarandi: Worst Case Scenario – Top Coil Replacement. Af þessu og þegar samantektin er virt í heild sinni er öldungis ljóst að áætlunin, sem stefnandi styður kröfu sína við, tekur til alls þess kostnaðar sem reiknað er með að falli til við úrbætur. Þar sem stefnandi hefur aðeins dregið frá kostnað við að útvega nýjan spíral gerir hann í senn kröfu um að stefnandi setji upp spíralinn á eigin kostnað og greiði jafnframt bætur, sem í það minnsta að hluta til, svara til þess sama kostnaðar. Að þessu leyti er slíkt ósamræmi í málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt er að vísa frá dómi fyrri lið aðalkröfu hans og umræddum kröfulið um bætur vegna viðgerðarkostnaðar sem stefnandi hefur uppi í aðalkröfu. Kemur ekki til greina að það komi í hlut dómsins að ákveða hvort skylda af þessu tagi verði lögð á stefnda að öllu leyti með efndum in natura, á þann veg sem hann setur fram kröfuna með afhendingu og úrbótum, eða með því að greiða efndabætur. Um þetta hefði stefnandi sjálfur hins vegar getað sagt til með því að tefla fram þessum samsvarandi kröfum í búningi aðal- og varakröfu.

4.

Í aðal- og varakröfu gerir stefnandi kröfu um bætur sem svara til aukins launakostnaðar til starfsmanna fyrirtækisins á tímabilinu 1. ágúst 2004 til 20. október 2007 vegna vinnu sem stefnandi telur að rakin verði til þess að frystir stefnda skilaði ekki nægum afköstum. Er þessi kröfuliður byggður á skýrslu CFO Network 26. október 2007.

Í umræddri skýrslu CFO Network eða öðrum gögnum málsins segir ekkert um hve margir starfsmenn stefnanda þurftu að sinna aukaverkum, sem stefnandi telur að rakin verði til frystisins frá stefnda, eða á hvaða kjörum þessir starfsmenn voru. Einnig er því ekki lýst nánar í hverju þessi vinna fólst þannig að lagt verði mat á þörf hennar og umfang. Fyrst stefnandi kýs að reikna út kröfu sína sem raunkostnað, í stað þess að afla matsgerðar um hæfilegar bætur eftir almennum reglum, er óhjákvæmilegt gegn andmælum stefnda að láta í té sundurliðaðar upplýsingar að þessu leyti. Þá er alls ófullnægjandi að láta við það eitt sitja, eins og gert er í fyrrgreindri skýrslu, að stjórnendur stefnanda hafi staðfest að allur helgartími sem unninn var á laugardögum og sunnudögum, í nánar tilgreindum deildum fyrirtækisins, verði rakinn til frystisins frá stefnda. Að þessu gættu er umrædd kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda svo vanreifaður að vísa verður þessum kröfulið frá dómi.

5.

Stefnandi krefst einnig í aðal- og varakröfu skaðabóta sem svara til kostnaðar við að ráða starfsfólk samkvæmt verksamningum. Er þessi kröfuliður jafnframt byggður á skýrslu CFO Network 26. október 2007.

Svo sem fram kemur í skýrslu CFO Network er þessi kröfuliður áætlaður sökum þess að ekki voru tiltækar upplýsingar um samninga stefnanda við alla vinnumiðlara, auk þess sem ekki lá fyrir kostnaður vegna yfirvinnu. Gegn andmælum stefnda er ófært að leggja þetta til grundvallar þessum kröfulið, enda hlýtur stefnanda að vera í lófa lagið að upplýsa nánar um þennan kostnað sinn eða tryggja sér viðhlítandi sönnun fyrir þessu tjóni, eftir atvikum með matsgerð. Bresta því skilyrði til að ákveða þessar bætur að álitum og verður kröfuliðnum því vísað frá dómi.

6.

Þá krefst stefnandi í aðal- og varakröfu skaðabóta sem svara til aukins kostnaðar við rekstur frystisins frá stefnda á árunum 2005 til 2007. Af umfjöllun um þennan kröfulið í skýrslu CFO Network 26. október 2007 verður hann skilinn þannig að beinn rekstrarkostnaður hefði verið sá sami ef frystirinn hefði starfað með fullum afköstum. Því beri að greiða bætur sem nemi þessum rekstrarkostnaði í réttu hlutfalli við minni afköst frystisins.

Í skýrslu CFO Network er að finna kostnaðarliði eins og vatn og orku sem geta ráðist af afköstum tækjabúnaðar. Aftur á móti má vera ljóst að kostnaður sem nefndur er úthlutun byggingarkostnaðar eða viðgerð á búnaði tekur ekki breytingum eftir því hvort framleiðslan nemur ríflega 56 milljónum punda eða 60 milljónum punda. Jafnframt er með öllu óskýrður meginhluti kostnaðar sem rakinn er til fyrningar eða rýrnunar (e. Depreciation) og hvernig hann sundurliðast. Sama á við um kostnað við endurvinnslu að fjárhæð 253.857 Bandaríkjadalir. Þessi kröfuliður stefnanda er því svo vanreifaður að honum verður vísað frá dómi.

7.

Í aðal- og varakröfu gerir stefnandi kröfu um bætur sem svara til útlagðs ráðgjafarkostnaðar. Þessi kröfuliður er reistur á reikningum og öðrum greiðsluskjölum. Á þessum kröfulið eru engir þeir annmarkar sem varðað geta frávísun. Það sama á við um fyrri kröfulið um úrbætur í varakröfu stefnanda. Þá geta þeir annmarkar sem stefndi telur á vaxtakröfu stefnanda ekki leitt til frávísunar. Um þessa kröfuliði verður því að dæma að efni til.

Rétt þykir að málskostnaður bíði efnisdóms.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Í aðalkröfu stefnanda, Peterson Farms Inc., er vísað frá dómi fyrri lið kröfunnar um að stefnda, Skaganum hf., verði gert að viðlögðum dagsektum að afhenda og setja upp á eigin kostnað efri eimsvalaviftuspíral. Jafnframt er vísað frá dómi kröfulið í aðalkröfu að fjárhæð 113.000 Bandaríkjadalir vegna áætlaðs viðgerðarkostnaðar.

Í aðal- og varakröfu stefnanda er vísað frá dómi kröfuliðum samtals að fjárhæð 823.606,26 Bandaríkjadalir.

Málskostnaður úrskurðast ekki.