Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2013


Lykilorð

  • Skuldamál


Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 41/2013.

Guðjón Páll Einarsson

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

Skuldamál.

Í hf. krafðist greiðslu úr hendi G vegna yfirdráttarskuldar á viðskiptareikningi hans hjá bankanum. Í hf. hafði millifært af reikningnum tiltekna fjárhæð til greiðslu á skuld A ehf. sem var í eigu G. Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu Í hf. að fallist væri á þá niðurstöðu héraðsdóms að ósannað væri að Í hf. hafi haft viðhlítandi heimild frá G til millifærslunnar og var sú niðurstaða því lögð til grundvallar dómi í málinu. Talið var að hvað sem liði ætluðu tómlæti G við að koma á framfæri athugasemdum við færsluna væri Í hf. bundinn við tilkynningu, sem G hafði verið send 1. júní 2011, þess efnis að fjárhæðin yrði endurgreidd inn á sama reikning. Tilkynningin hafi verið fyrirvaralaus og væri því ekki borið við að starfsmanni þeim er hana sendi hafi ekki verið heimilt að skuldbinda Í hf. með þessum hætti. Var G því sýknaður af kröfu Í hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Hinn 15. október 2009 stofnaði áfrýjandi reikning nr. 0513-26-5541 hjá stefnda. Áfrýjandi mun vera eigandi einkahlutafélagsins Alaska, sem var einnig í viðskiptum hjá stefnda. Hafði félagið gert kaupleigusamning 10. apríl 2007 um bifreið við Glitni banka hf., forvera stefnda, en áfrýjandi tók á sig sjálfskuldarábyrgð á efndum samkvæmt samningnum. Jafnframt mun umrætt félag hafa gert þrjá fjármögnunarleigusamninga við forvera stefnda.

Áfrýjandi ritaði ráðgjafa hjá stefnda tölvupóst 7. desember 2009 í tilefni af ósk áfrýjanda um lánafyrirgreiðslu til gistiheimilis í hans eigu. Meðfylgjandi bréfinu var rekstraráætlun fyrir heimilið sumarið eftir miðað við að herbergjum yrði fjölgað. Þessu erindi svaraði ráðgjafinn með tölvupósti næsta dag þar sem fram kom að hann teldi sennilegt að áfrýjandi fengi lánið gegn veði í fasteign hans.

Hinn 13. desember 2009 mun áfrýjandi hafa gefið út tryggingabréf til stefnda með veði í fasteigninni að Einarsnesi 58 í Reykjavík og var bréfinu þinglýst 17. sama mánaðar. Meðal málsgagna er tölvubréf frá lögfræði- og innheimtusviði stefnda 21. desember 2009 til fyrrgreinds ráðgjafa bankans þar sem fram kom að greiða þyrfti reikninga vegna Alaska ehf. samtals að fjárhæð 1.319.216 krónur. Var þess farið á leit að ráðgjafinn hlutaðist til um þetta. Sama dag mun hafa verið stofnað til yfirdráttarheimildar á reikningi áfrýjanda hjá stefnda og í kjölfarið voru 1.320.000 krónur millifærðar af reikningnum yfir á reikning Alaska ehf. í bankanum. Af þeim reikningi mun 1.319.216 krónum hafa verið ráðstafað inn á fjármögnunarleigusamninga félagsins hjá stefnda.

Áfrýjandi sendi umboðsmanni viðskiptavina hjá stefnda tölvubréf 14. febrúar 2011 þar sem andmælt var að 1.320.000 krónum hefði verið ráðstafað án heimildar af reikningnum 21. desember 2009, en sú ráðstöfun hefði myndað yfirdráttarskuld. Var þess krafist að útborgunin yrði bakfærð og vextir og allur kostnaður sem rekja mætti til yfirdráttar á reikningnum felldur niður. Þessu erindi svaraði umboðsmaðurinn með tölvubréfi 17. mars 2011 þar sem kröfu áfrýjanda var hafnað.

Hinn 1. júní 2011 fékk áfrýjandi tölvubréf frá ráðgjafa stefnda í tilefni af beiðni áfrýjanda um að tiltekin mál yrðu yfirfarin. Í bréfinu kom fram að búið væri endurreikna fyrrgreindan kaupleigusamning 10. apríl 2007 um bifreið og senda gögn til undirritunar. Einnig var tekið fram að sendir yrðu óstaðfestir útreikningar á tveimur fjármögnunarleigusamningum í erlendum myntum eins og þeir kæmu til með að standa ef þeir yrðu dæmdir ólögmætir. Um þriðja samning af því tagi sagði hins vegar að hann væri í íslenskum krónum og honum yrði ekki breytt. Þá kom eftirfarandi fram í bréfinu: „Innborgun sem var greidd án frumkvæðis - Við munum endurgreiða þá upphæð inn á sama reikning og hún var tekin.“

Stefndi sendi áfrýjanda tilkynningu um löginnheimtu 1. júlí 2011, en þar kom fram að reikningur hans í bankanum hefði verið í vanskilum frá síðustu áramótum. Var þess krafist að skuldin yrði greidd eða samið um hana fyrir 11. sama mánaðar en ella yrði reikningnum lokað, yfirdráttur felldur niður og skuldin innheimt. Stefndi sendi síðan áfrýjanda innheimtubréf 28. október sama ár, en reikningnum hafði þá verið lokað og nam yfirdráttur á honum 1.733.863 krónur.

II

Í málinu liggur ekki fyrir yfirlit um allar færslur á reikningnum eftir að 1.320.000 krónur voru skuldfærðar af honum 21. desember 2009, en fram kom við flutning málsins fyrir Hæstarétti að yfirdráttur umfram þá fjárhæð væri vegna vaxta og kostnaðar. Verður því miðað við að skuld á reikningnum, sem nam 1.733.863 krónum þegar honum var lokað, verði að öllu leyti rakin til þeirrar skuldfærslu sem fór fram í kjölfar þess að áfrýjanda var veitt heimild til yfirdráttar á reikningnum.

Með hinum áfrýjaða dómi var talið ósannað að stefndi hefði haft viðhlítandi heimild frá áfrýjanda til fyrrgreindrar skuldfærslu á reikningnum og til að ráðstafa þeim fjármunum til greiðslu á skuld Alaska ehf. hjá stefnda. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi lýst því yfir að hann fallist á þessa niðurstöðu héraðsdóms og verður hún lögð til grundvallar dómi í málinu.

Með aðilum er ágreiningur um hvenær áfrýjandi gerði athugasemdir við fyrrgreinda færslu á reikningi hans hjá stefnda. Heldur áfrýjandi því fram að það hafi hann gert munnlega í janúar 2010 rakleitt eftir að honum varð millifærslan ljós. Stefndi staðhæfir hins vegar að andmæli áfrýjanda hafi fyrst komið fram með tölvubréfi hans 14. febrúar 2011 til umboðsmanns viðskiptavina hjá stefnda. Þá hafi verið liðið meira en ár frá millifærslunni og löngu liðinn 30 daga frestur til að gera athugasemd við hana samkvæmt þeim skilmálum stefnda sem hafi verið í gildi um reikninginn. Áfrýjandi hefur vefengt efni þessara skilmála en þeir eru ekki meðal gagna málsins. Hvað sem líður ætluðu tómlæti áfrýjanda við að gera athugasemdir við millifærslu af reikningi hans er þess að gæta að starfsmaður stefnda tilkynnti áfrýjanda með tölvubréfi 1. júní 2011 að innborgun, sem sögð er hafa verið greidd án frumkvæðis, yrði endurgreidd inn á sama reikning. Var tilkynning þessi með öllu fyrirvaralaus og hefur stefndi ekki bent á að hún geti átt við um aðra millifærslu en þá sem á reynir í málinu. Við þetta er stefndi bundinn, enda er því ekki borið við að umræddum starfsmanni hafi ekki verið heimilt að skuldbinda stefnda með þessu móti og að áfrýjanda hafi mátt vera það ljóst.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda í málinu.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Guðjón Páll Einarsson, er sýkn af kröfum stefnda, Íslandsbanka hf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. október síðastliðinn, var höfðað 5. janúar 2012 af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, vegna útibús stefnanda í Lækjargötu 12, gegn Guðjóni Páli Einarssyni, Einarsnesi 58, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.733.863 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 1.733.863 krónum frá 30. september 2011 til greiðslu­dags. Til vara er krafist dráttarvaxta frá 28. nóvember 2011 en til þrautavara að upphafsdagur dráttarvaxta verði 5. janúar 2012, þ.e. frá þeim degi þegar málið var höfðað. Stefnandi krefst enn fremur málskostnaðar að mati dómsins auk virðisauka­skatts.  

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og jafnframt að stefnanda verði gert greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi hafði tékkareikning nr. [...] við útibú stefnanda í Lækjargötu en sá reikningur var stofnaður 15. október 2009. Stefndi sótti um og fékk yfirdráttarheimild á reikninginn í desember s.á. Í málinu er deilt um það hver tilgangurinn hafi verið með þessari heimild.

Stefnandi millifærði af reikningnum 1.320.000 krónur 21. desember sama ár á reikning Alaska ehf. sem var einkahlutafélag stefnda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að það hafi verið gert að beiðni stefnda og án athugasemda frá honum til þess að unnt væri að greiða skuld einkahlutafélagsins við stefnanda vegna fjár­mögnunar­leigusamninga sem voru í vanskilum og stefndi var í persónulegri ábyrgð fyrir.

Þessu er öllu mótmælt af hálfu stefnda sem heldur því fram að yfirdráttar­heimildin hafi komið til af allt öðrum ástæðum. Ætlunin hafi verið að nota heimildina til að fjár­magna breytingar og endurbætur sem stefndi kvaðst hafa ætlað að gera í einkarekstri sínum á gistiheimili.

Skuldin sem hér er deilt um er vegna yfirdráttarins sem myndaðist þegar stefnandi millifærði af reikningnum 1.320.000 krónur á reikning Alaska ehf. 21. desember 2009.

Deilt er um það í málinu hvort stefnanda hafi verið heimilt að millifæra þessa fjárhæð á milli reikninga eins og gert var en varnir stefnda í málinu eru byggðar á því að þetta hafi stefnandi gert án nokkurrar heimildar frá honum. Hefði þetta ekki verið gert hefði enginn yfirdráttur myndast og þar með engin skuld orðið til.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi skuldi stefnanda umrædda fjárhæð vegna yfirdráttar á reikningi stefnda. Reikningnum hafi verið lokað 30. september 2011 en þá hafi innistæðulausar færslur á honum numið 1.733.863 krónum.

Varðandi millifærsluna 21. desember 2009 er því haldið fram af hálfu stefnanda að hún hafi verið heimil og að henni hafi verið ráðstafað að beiðni stefnda vegna vanskila skulda Alaska ehf. Vanskilin hafi verið greidd að beiðni stefnda en hann hafi verið í persónulegri ábyrgð fyrir skilvísri greiðslu. Fyrirmælin um millifærsluna, sem stefnda hafi verið sent afrit af, hafi komið frá starfsmanni fjármögnunar. Stefndi hafi hvorki gert athugsemd við fyrirmælin né millifærsluna fyrr en löngu síðar. Athugsemdin hafi því verið allt of seint fram komin en samkvæmt reglum stefnanda skuli athugsemdir við færslur koma fram innan mánaðar en komi þær ekki fram teljist færslurnar réttar. 

Vísað er til þess af hálfu stefnanda að stefnda hafi verið sent innheimtubréf 28. nóvember 2011 en áður hefði honum verið send tilkynning um löginnheimtu vegna skuldarinnar. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisauka­skatt­skyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing sé vísað til 21. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi byggi kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuld­bindinga.

Málsástæður og lagarök stefnda

Málsatvikum er af hálfu stefnda lýst þannig að stefnandi hafi stofnaði til yfirdráttar á persónulegan reikning stefnda. Yfirdráttarheimildin hafi hins vegar verið kominn til af því að stefndi hafi verið að skoða fjármögnun vegna gistiheimilis síns eins og fram komi í tölupóst­samskiptum á milli aðila á þessum tíma 7. og 8. desember 2009. Stefnandi hafi fært óumbeðið og án samnings, umboðs eða heimildar af hálfu stefnda af reikningi stefnda 1.320.000 krónur yfir á reikning Alaska ehf. 21. desember s.á. Í framhaldi af því hafi stefnandi síðan tekið út af þeim reikningi 1.319.216 krónur og lagt inn á reikning Fjármögnunar og hafi sömu fjárhæð verið ráðstafað inn á fjármögnunarleigusamninga sem Alaska ehf. hafi verið aðili að vegna kaupa á tækjum.

Stefndi hafi strax mótmælt er hann varð í öndverðu áskynja hvers kyns var. Hann hafi haft samband við stefnanda símleiðis og mótmælt. Samtímis hafi stefndi mótmælt öðrum útreikningum stefnanda á fjármögnunarleigusamningum og hann hafi haldið því fram að stefnandi hefði ekki haft neinar heimildir til að ráðstafa af persónu­reikningi hans líkt og gert var. Stefndi hafi engan veginn verið sáttur við uppreiknaða stöðu á fjármögnunarleigu­samningum einkahlutafélagsins og skuld vegna þeirra hafi verið umdeild. Málsaðilar hafi verið ósammála um hin meintu vanskil félagsins, m.a. vegna gengislána sem stefndi telji ólögmæt o.fl. Leiðréttingar hafi ekki enn farið fram. Stefndi hafi ávallt talið að á grundvelli leiðréttinga færu skuldaskil fram beint milli aðila, þ.e. Íslandsbanka hf. og Alskila ehf. Ekki hafi átt að greiða á meðan óvissa væri um lögmæti á útreikningum skuldarinnar vegna fjármögnunarleigusamninganna.

Allt frá desember 2009 hafi stefndi mótmælt stöðugt með þeim hætti sem hann hafi talið nægilegt, þ.e. símleiðis og með beinum hætti í samskiptum við stefnanda. Að endingu hafi umboðsmaður skuldara hjá stefnanda bent stefnda á að senda formlegt erindi í ársbyrjun 2011.

Stefndi hafi sent stefnanda skriflegt erindi 14. febrúar sama ár og hafi því verið svarað til baka með tölvupósti 17. mars s.á. Stefnandi hafi lofað endurgreiðslu 1. júní s.á. eins og fram komi í tölvupósti til stefnda frá starfsmanni Íslandsbanka Fjármögnun þann dag. Með bréfi stefnanda 1. júlí s.á. hafi stefnda verið tilkynnt að ráðstöfun á yfirdrættinum, sem stefnandi hafi staðið einn að, yrði sendur í löginnheimtu.

Stefndi hafi sent inn kvörtun 16. september 2011 til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem stefnandi hafi svarað með athugasemdum til úrskurðar­nefndarinnar 27. október s.á. Úrskurðar­nefndin hafi sent stefnda bréf til andsvara 1. nóvember s.á. Stefndi hafi sent athugsemdir við bréf stefnanda 10. nóvember s.á. og á sama tíma hafi stefndi enn fremur sent stefnanda bréf. Úrskurður hafi verið kveðinn upp hjá úrskurðarnefnd 10. febrúar 2012.

Sýknukröfu sína byggi stefndi á því að stefnandi eigi enga beina fjárkröfu á hendur honum. Stefndi hafi strax í öndverðu mótmælt og krafist endurgreiðslu og bóta. Stefndi hefði eingöngu haldið uppi mótmælum sínum í síma og á fundum. Hefði stefnandi afrit af þeim samskiptum hefði mátt fá staðfestingu á afstöðu stefnda frá öndverðu. Stefndi hafi grennslast fyrir um það en þá hafi stefnandi staðhæft að símtöl þess eðlis sem hér um ræði hefðu ekki verið tekin upp á þeim tíma.

Yfirdráttarheimildin á persónulegum reikning stefnda hafi verið ætluð til að fjármagna innbú í gistiheimili í eigu stefnda. Út úr tölvupóstsamskiptum megi lesa að stefndi hafi mótmælt því frá öndverðu að stefnandi hefði heimild til ofangreindra millifærslna. Síðar hafi stefndi ritað Sigríði Jónsdóttur, umboðsmanni viðskiptavina stefnanda, bréf að hennar beiðni. Í tölvupósti frá stefnanda l. júní 2011 segi í tölulið 2: „Innborgun sem var greidd án frumkvæðis- Við munum endurgreiða upphæð inn á sama reikning og hún var tekin.“ Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekki endurgreitt inn á reikning stefnda heldur hafi verið haldið uppi á hann öflugri innheimtu með tveimur innheimtubréfum samstofna með kostnaði og dráttarvöxtum sem stefndi mótmæli. Með tölvupóstinum hafi stefnandi samþykkt endurgreiðslu og sé hann bundinn af því loforði. Stefndi hafni sérstaklega þeim skýringum sem komi fram í úrskurði úrskurðar­nefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki að skoða beri þetta sem tilboð stefnanda, sem einn lið af heild­stæðu tilboði. Í niðurstöðu nefndarinnar sé ekkert vikið að því að þessi millifærsla sé ólögmæt frá öndverðu og geti því ekki neinar fyrningarreglur átt við í þessu máli.

Þá telji stefndi að niðurstaða úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sé í engu samræmi við gildandi rétt, góða siði og viðskiptahætti fjármálastofnunar við viðskiptavini sína. Í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 segi í 19. gr. að fjár­mála­fyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

Stefnandi hafi með ólögmætum hætti ráðstafað óumbeðið fjármunum af persónulegum reikningi stefnda til uppgjörs á meintri skuld félags í eigu sama aðila og með þeim hætti skapað honum tjón. Ráðstöfun stefnanda á fjármunum stefnda í þessu máli varði við almenn hegningarlög og gæti eftir efni verið kærð til lögreglu.

Með vísan almennt til laga nr. 121/1994 um neytendalán, og þá sérstaklega 27. gr., hafi stefnandi skapað sér skaðabótaskyldu.

Þá vísi stefndi enn fremur í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem segi að víkja megi samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á því hvort samningi megi víkja til hliðar eða breyta skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Ákvæðið feli í sér vísireglu og við beitingu þess beri dómstólum að leggja mat á efnisatriði viðkomandi samnings.

Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á heimild sína til að ráðstafa þessum fjármunum á þann hátt sem hann gerði og beri hann hallann af þeim sönnunarskorti í málinu.

Kröfur um málkostnað byggi stefndi á 1. mgr. 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Niðurstöður

Óumdeilt er í málinu að stefnandi millifærði af reikningi stefnda í útibúi stefnanda í Lækjargötu 1.320.000 krónur 21. desember 2009. Við það myndaðist skuld á reikningnum vegna yfirdráttar sem stefnandi krefst í málinu að stefndi verði dæmdur til að greiða. Mótmæli stefnda eru byggð á því að stefnandi hafi ekki haft heimild til úttektarinnar af reikningnum. Þá er óumdeilt í málinu að stefnanda hafi aðeins verið heimil millifærslan samkvæmt fyrirmælum frá stefnda eða með annarri ótvíræðri heimild frá honum.

Af hálfu stefnanda er vísað til fyrirmæla um ofangreinda millifærslu en þau fyrirmæli eru ekki frá stefnda komin. Engin önnur gögn í málinu styðja þá staðhæfingu stefnanda að stefndi hafi veitt stefnanda heimild til úttektar á persónulegum reikningi stefnda eins og hún var framkvæmd með millifærslunni. Með vísan til þessa verður að telja ósannað að stefnandi hafi haft viðhlítandi heimild frá stefnda til millifærslunnar eins og haldið er fram af stefnanda hálfu að hann hafi haft.

Þá verður að telja óumdeilt í málinu að þar sem stefndi taldi millifærsluna framkvæmda án hans fyrirmæla eða heimildar frá honum hafi honum borið að andmæla því við stefnanda þegar í ljós kom að hún hafði farið fram. Stefndi heldur því fram að það hafi hann strax gert þótt það hafi ekki verið með formlegum eða sannanlegum hætti fyrr en löngu síðar eða 14. febrúar 2011. Eins og málið er vaxið, og með tilliti til þess sem fram kemur í gögnum málsins, verður að telja að stefndi hafi ekki tryggt næga sönnun fyrir því að hann hafi andmælt millifærslunni í tæka tíð við stefnanda en formleg mótmæli komu ekki fram fyrr en ofangreindan dag. Samkvæmt þessu er ósannað að stefndi hafi andmælt millifærslunni fyrr en þann dag og ber stefndi hallann af þeim sönnunarskorti. Með þessu tómlæti verður að telja að stefndi hafi glatað rétti til að bera fyrir sig að millifærslan hafi verið framkvæmd án heimildar frá honum. Breytir engu í því sambandi þótt fram komi í tölvupósti starfsmanns Íslandsbanka Fjármögnunar 1. júní 2011 að endurgreidd yrði inn á sama reikning sú upphæð sem þaðan hafði verið tekin. Verður heldur ekki talið að með því sem þar kemur fram hafi stefnandi skuldbundið sig með nægilega skýrum hætti til að endurgreiða stefnda umrædda fjárhæð og að stefnandi sé bundinn af því loforði eins og stefndi heldur fram. 

Með vísan til þessa og þar sem krafa stefnanda í málinu er að öðru leyti studd fullnægjandi rökum og gögnum ber að taka hana til greina. Rétt þykir með tilliti til þess sem fram hefur komið og hér að framan er rakið að dráttarvextir verði reiknaðir frá þeim degi er málið var höfðað, 5. janúar 2012, til greiðsludags.

Með vísan til málsatvika og stöðu málsaðila í því viðskiptasambandi sem hér um ræðir svo og til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Guðjón Páll Einarsson, greiði stefnanda 1.733.863 krónur ásamt dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. janúar 2012 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.