Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2015. |
|
Nr. 337/2015.
|
Nataaqnaq Fisheries Inc. (Gestur Jónsson hrl.) gegn LBI hf. (Herdís Hallmarsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Gengistrygging.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu N um að viðurkennt yrði við slit L hf. að lánssamningur aðilanna væri bundinn ólögmætri gengistryggingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem textaskýring lánssamningsins tæki ekki af skarið um hvers efnis samningurinn væri bæri að líta til atriða sem lytu að því hvernig hann hefði verið efndur og framkvæmdur. Í því sambandi kom fram að lánið hefði verið innt af hendi í japönskum jenum, kanadískum dölum og bandaríkjadölum og fjárhæðinni umbreytt í 389.390.000 krónur. Sú fjárhæð hefði síðan verið nýtt til þess að greiða upp eldra lán N í dönskum krónum, japönskum jenum og íslenskum krónum, sem umbreytt nam samtals 360.360.944 krónum, en eftirstöðvarnar, 29.029.944 krónur, hefðu verið lagðar inn á krónureikning N. Þó svo að aðeins síðastnefnda fjárhæðin hefði skipt um hendur hefði í uppgjöri hins eldra láns falist ráðstöfun nýrrar lánveitingar í erlendum myntum til greiðslu eldra láns sem að stærstum hluta var í erlendum myntum, þrátt fyrir að þeim fjárhæðum hefði við uppgjörið verið umbreytt í íslenskar krónur. Þá hefði N endurgreitt lánið að öllu verulegu leyti með erlendum gjaldmiðlum. Loks kom fram að við myntbreytingu samningsins hefði fjárhæð höfuðstóls skuldarinnar verið tilgreind í erlendum myntum án nokkurrar tilvísunar til íslenskrar krónu eða jafnvirðis í þeirri mynt. Með vísan til þessa var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði við slit varnaraðila að lánssamningur þeirra frá 12. ágúst 2004 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili málatilbúnað sinn á því að skuld hans samkvæmt lánssamningi, við varnaraðila sem þá hét Landsbanki Íslands hf. frá 12. ágúst 2004, en lánið var greitt úr 16. sama mánaðar, hafi verið í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla og með því farið í bága við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi tekið á sig skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum sem stríði ekki gegn tilvitnuðum lagaákvæðum.
Í lánssamningnum, sem gerður var á ensku en liggur fyrir í íslenskri þýðingu í gögnum málsins, eru á forsíðu undir fyrirsögn tilgreindar „ISK 390.000.000,-.“ Í 1. gr. kemur fram að varnaraðili sem lánveitandi veiti sóknaraðila „aðgang að fjölmyntaláni að jafnvirði ISK 390.000.000 ... í eftirfarandi myntum og fjárhæðum“. Eru síðan tilgreind japönsk jen í hlutfallinu 40%, kanadískir dalir í hlutfallinu 50% og bandaríkjadalir í hlutfallinu 10%. Þá er tekið fram að lánið skuli hér eftir tilgreina í fjárhæð þessara erlendu gjaldmiðla eða öðrum erlendum gjaldmiðlum. Í 2. gr. samningsins er kveðið á um skilyrði útgreiðslu lánsins og tilgreindar átta erlendar myntir sem lánið verði aðgengilegt í. Þá er í 3. gr. samningsins fjallað um endurgreiðslu lánsins en ekki að því vikið sérstaklega í hvaða mynt endurgreiðslan skuli fara fram að öðru leyti en því að tekið er fram að lántaka skuli vera heimilt að fyrirframgreiða lánið að fullu eða að hluta en þá skuli fjárhæð slíkrar greiðslu að lágmarki nema 10.000.000 krónur. Samkvæmt 5. gr. skulu vextir af láninu vera LIBOR vextir auk tilgreinds vaxtaálags og í 7. gr. er fjallað um heimild til myntbreytinga.
Í dómum Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort samningur sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar, hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta viðkomandi lánssamnings, þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Textaskýring lánssamningsins frá 12. ágúst 2004 tekur ekki af skarið um hvers efnis samningurinn er að þessu leyti og því ber að líta til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti.
Til þess er að líta að lánið, sem greitt var út á grundvelli beiðni sóknaraðila frá 12. ágúst 2004, var samkvæmt gögnum sem stafa frá varnaraðila innt af hendi í japönskum jenum, kanadískum dölum og bandaríkjadölum, dregin var frá þóknun og fjárhæðinni umbreytt í 389.390.000 krónur. Sú fjárhæð var síðan nýtt til þess að greiða upp eldra lán sóknaraðila í dönskum krónum, japönskum jenum og íslenskum krónum, sem umbreytt nam samtals 360.360.944 krónum, en eftirstöðvarnar að fjárhæð 29.029.944 krónur voru lagðar inn á krónureikning sóknaraðila í samræmi við beiðni hans. Þó svo aðeins síðastnefnda fjárhæðin hafi skipt um hendur fólst í uppgjöri eldri lána ráðstöfun nýrrar lánveitingar í erlendum myntum til greiðslu eldra láns sem að stærstum hluta var jafnframt í erlendum myntum þó svo að þeim fjárhæðum væri við uppgjörið umbreytt í íslenskar krónur. Þá er til þess að líta að óumdeilt er að sóknaraðili endurgreiddi lánið að öllu verulegu leyti með erlendum gjaldmiðlum.
Loks hagaði þannig til að skilmálum lánssamningsins frá 12. ágúst 2004 var breytt 7. maí 2005 þannig að höfuðstól lánsfjárhæðarinnar var myntbreytt og eftirstöðvar lánsins greindar í þrjár myntir: „USD 509.916,73, and CAD 3.393.392,59, and JPY 226.622.564“. Þá fór fram 30. maí 2006 myntbreyting, í samræmi við heimild 7. gr. lánssamningsins frá 12. ágúst 2004 og eftir það samanstóð lánsfjárhæðin af bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum í nánar tilgreindum fjárhæðum. Með fyrrnefndri skilmálabreytingu, sem gerð var á ensku en liggur fyrir í íslenskri þýðingu, sömdu aðilar að lánssamningnum um breytingu á tilgreiningu þeirra gjaldmiðla sem mynduðu höfuðstól lánsins. Verður að meta sjálfstætt eftir efni og orðalagi samningsins um skilmálabreytinguna, óháð mögulegum vafa um lögmæti upphaflegra skilmála lánsins, hvort sá hluti þess sem í skilmálabreytingunni var tilgreindur í erlendum myntum teldist eftirleiðis vera gild skuldbinding í þeim eða skuldbinding í íslenskum krónum sem bundin var gengi erlendra gjaldmiðla með óheimilum hætti, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 2. október 2013 í máli nr. 498/2013. Í texta skilmálabreytingarinnar kemur fjárhæð skuldbindingar sóknaraðila skýrt fram. Þar er fjárhæð höfuðstóls skuldar í hinum erlendu myntum tilgreind án nokkurrar tilvísunar til íslenskrar krónu eða jafnvirðis í þeirri mynt. Að teknu tilliti til þess verður lagt til grundvallar að eftir skilmálabreytinguna hafi, hvað sem öðru líður, verið um að ræða gilt lán í bandaríkjadölum, kanadískum dölum og japönskum jenum.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með sóknaraðila að lánssamningurinn frá 12. ágúst 2004, að teknu tilliti til skilmálabreytingarinnar 7. maí 2005, hafi farið í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til þess að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Nataaqnaq Fisheries Inc., greiði varnaraðila, LBI hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2015.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slit varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 11. nóvember 2013, sem móttekið var sama dag. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sakarefni málsins var skipt í þinghaldi 17. september 2014. Málið var fyrst tekið til úrskurðar þriðjudaginn 3. febrúar 2015, en endurflutt og tekið til úrskurðar að nýju fimmtudaginn 16. apríl sl.
Sóknaraðili er Nataaqnaq Fisheries Inc., Kanada, en varnaraðili er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur málsaðila, dags. 12. ágúst 2004, að fjárhæð 390.000.000 krónur, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að framangreindum kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum úrskurðaður málskostnaður.
I
Sá ágreiningur aðila sem borinn var undir dóminn með bréfi slitastjórnar varnaraðila 11. nóvember 2013 lýtur að því í fyrsta lagi hvort tiltekið lán sem varnaraðili veitti sóknaraðila hafi verið með ólögmætri gengistryggingu og þar af leiðandi í andstöðu við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í öðru lagi er deilt um hvar skipa bæri umræddri kröfu í skuldaröð við slitameðferð varnaraðila og í þriðja lagi er deilt um hver væri þá rétt fjárhæð kröfunnar. Með þeirri sakarskiptingu sem minnst er á hér fyrr var ákveðið að fyrst yrði skorið úr um það eitt hvort umrætt lán teldist bundið ólögmætri gengistryggingu, en aðrir þættir málsins látnir bíða. Er einungis sá þáttur ágreinings aðila hér til úrlausnar.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann sé kanadískt félag í eigu einkahlutafélagsins Bjarnar sem starfrækt sé á Íslandi. Kemur og fram að sóknaraðili sé sjávarútvegsfyrirtæki og stundi fiskveiðar, sjófrystingu sjávarafurða, markaðs- og sölustarfsemi. Varnaraðili starfaði sem banki en er nú til slitameðferðar á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málavextir eru þeir helstir að 12. ágúst 2004 gerðu aðilar með sér lánssamning þar sem sóknaraðili var lántaki en varnaraðili lánveitandi. Samningurinn er á ensku en íslensk þýðing hans liggur fyrir í málinu og er við hana stuðst hér í framhaldi. Í 1. gr. samningsins kemur m.a. fram að lánveitandi sé reiðubúinn að veita lántaka aðgang að fjölmyntaláni að jafnvirði 390.000.000 íslenskra króna í þar tilgreindum myntum og fjárhæðum. Kemur fram í samningnum að 40% skuli vera japönsk jen (JPY), 50% skuli vera kanadískir dollarar (CAD) og 10% skuli vera bandaríkjadalir (USD). Engar fjárhæðir umræddra gjaldmiðla eru tilgreindar í samningnum. Mælt er fyrir um að frá þessari stundu skuli lánið tilgreint í fjárhæð þessara erlendu gjaldmiðla eða jafnvirði þeirra í öðrum erlendum gjaldmiðlum. Tekið er fram að sé greitt af láninu í íslenskum krónum skuli lántaki greiða í samræmi við sölugengi lánveitanda á viðkomandi gjalddaga. Samningurinn er sagður falla sjálfkrafa úr gildi berist ekki ádráttarbeiðni skv. 2. gr. innan vika frá gerð hans.
Í 2. gr. samningsins er fjallað um ádráttarbeiðni og kemur þar fram að lánið skuli aðeins vera aðgengilegt í þar tilgreindum gjaldmiðlum. Íslenskar krónur eru ekki þar á meðal, en m.a. eru þar nefndir þeir þrír gjaldmiðlar sem að ofan er vísað til.
Lánið skyldi greiðast á sjö árum á sex mánaða fresti og vextir á sömu gjalddögum. Fyrsti gjalddagi var ákveðinn 1. desember 2004. Þá er kveðið á um heimild til fyrirframgreiðslu sem að lágmarki skyldi nema 10.000.000 íslenskum krónum. Mælt er fyrir um að allar fjárhæðir beri lántaka að inna af hendi inn á reikning lánveitanda eigi síðar en kl. 10.00 á gjalddaga. Mælt er fyrir um að greiða skuli LIBOR vexti með nánar greindu álagi. Tekið er fram að greiðsla vaxta skuli fara fram í þeirri mynt sem fjárhæðin sem vextirnir eru greiddir af var í þegar vextirnir féllu á hana.
Í 7. gr. samningsins er ákvæði sem heimilar með nánar greindum skilyrðum að lántaki geti óskað eftir myntbreytingu en við þær aðstæður skyldi miða við sölugengi myntar sem breytt væri úr og kaupgengi myntar sem breytt væri í. Einnig kemur fram heimild fyrir lánveitanda, geti hann ekki boðið lántaka tiltekna mynt eða ef slíkt hefði í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir hann, að nota bandaríkjadali í stað hinnar umbeðnu myntar. Þá koma fram í ákvæðinu nánar greind fyrirmæli um að lántaki skuli greiða kostnað vegna umræddrar breytingar með nánar tilgreindum hætti.
Mælt er fyrir um það m.a. í grein 11.2 sem fjallar um gjaldfellingu að þegar skilyrði séu til gjaldfellingar geti lánveitandi ákveðið hvort endurgreitt skuli í þeirri mynt sem lánið sé þá í eða jafnvirði þeirrar myntar í íslenskum krónum á stundargengi þess dags eins og það sé ákvarðað af Seðlabanka Íslands. Það sama gildi um dráttarvexti.
Sóknaraðili sendi ádráttarbeiðni 12. ágúst og fór þar fram á útborgun lánsins. Kemur þar fram að fjárhæð útborgunar sé ISK 390.000.000 en gjaldmiðlar séu CAD 50%, JPY 40% og USD 10%. Þá er óskað eftir að láninu verði ráðstafað til að greiða upp lán nafngreinds félags en að eftirstöðvum skuli ráðstafa inn á tiltekinn bankareikning í eigu sóknaraðila.
Í málinu liggur fyrir yfirlit sem stafar frá varnaraðila sem sýnir ráðstöfun þess fjár sem lánað var. Einnig liggja fyrir ýmis skjöl sem bera með sér að vera úr tölvukerfum varnaraðila og lýsa meðferð umræddra fjármuna og þeirra endurgreiðslna sem inntar voru af hendi þar til lánið var að fullu gert upp með greiðslu í september 2010. Greinir aðila verulega á um þýðingu þessara skjala.
Eins og fyrr segir liggur fyrir yfirlit um ráðstöfun lánsins. Lánið var greitt út 16. ágúst 2004. Kemur fram í yfirlitinu að því var ráðstafað til uppgreiðslu láns Osauhing Prestomer semtals að fjárhæð 360.360.944 krónur. Umrætt lán er sagt nema 26.514.655 dönskum krónum (DKK) og 51.869.581 japönskum jenum (JPY), en einnig íslenskum krónum að fjárhæð 1.468.924, 15.222.414 og 1.450 eða samtals 16.692.788. Eftirstöðvum lánsins 29.029.056 íslenskum krónum var ráðstafað eins og um hafði verið beðið inn á íslenskan krónureikning sóknaraðila.
Varnaraðili hefur lagt fram skjal sem hann byggir á að sýni að sóknaraðila hafi strax í kjölfar útgreiðslu verið send kvittun með fjárhæð hvers gjaldmiðils og ráðstöfun þeirra fjármuna. Sóknaraðili hefur efast um sönnunargildi skjalsins þar sem það sé dagsett löngu eftir umrætt tímamark eða 21. október 2013. Varnaraðili hefur vísað til þess að þetta breyti ekki réttmæti efnis skjalsins en umrædd dagsetning sé sá dagur sem blaðið sé prentað út úr tölukerfi varnaraðila.
Fyrir liggur að aðilar gerður breytingu á ofangreindum lánssamningi 7. maí 2005 sem taka skyldi gildi 1. júní sama ár. Er höfuðstóll lánsins þar tilgreindur USD 509.916,73 og CAD 3.393.392,59 og JPY 226.622.564. Í breytingunni fólst lenging á lánstíma og breyting á vöxtum og einnig var þar mælt fyrir um greiðslu sóknaraðila á þóknun til varnaraðila.
Fyrir liggur og er óumdeilt að afborgun vaxta af láninu 1. júní 2005 var innt af hendi í íslenskum krónum. Þá er ekki um það deilt að aðrar afborganir af láninu voru greiddar í erlendum gjaldmiðlum. Annaðhvort með þeim gjaldmiðlum sem að ofan eru nefndir eða með greiðslu á kanadískum dollurum (CAD). Þá liggur og fyrir að sóknaraðili óskaði eftir breytingu á myntsamsetningu lánsins 30. maí 2006. Kveður varnaraðili að hann hafi sent sóknaraðila sérstaka kvittun vegna þessa og séu breyttir höfuðstólar þar tilgreindir 496.673,54 USD, 579.461,78 Evrur, 22.896.498 JPY og 2.133.368,49 svissneskir frankar.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú heitir Landsbankinn hf.
Í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 44/2009, sem gildi tóku 22. apríl 2009, var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og markar gildistökudagur framangreindra laga upphaf hennar. Um slitameðferð fjármálafyrirtækja gilda að meginstefnu ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október 2009.
Sóknaraðili greiddi að fullu upp framangreint lán 27. september 2010. Hann lýsti kröfu við slitameðferð varnaraðila 28. maí 2013 og krafðist endurgreiðslu hluta þeirra fjárhæða sem hann hafði innt af hendi. Krafðist hann þess að krafa hans nyti stöðu sértökukröfu skv. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni en sóknaraðila mótmælti þeirri afstöðu. Haldnir voru fundir til að freista þess að jafna ágreining en án árangurs og var málið í kjölfarið sent dóminum til úrlausnar. Í greinargerð sinni til dómsins krafðist sóknaraðili þess til vara að krafa hans nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
II
Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á því að lánssamningur félagsins við varnaraðila hafi innihaldið ákvæði um ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. sömu laga. Sóknaraðili hafi ofgreitt varnaraðila vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar og eigi því rétt á endurgreiðslu úr hendi varnaraðila samkvæmt grunnreglu kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár og 18. gr. laga nr. 38/2001 sem mæli fyrir um fortakslausa skyldu kröfuhafa til „að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann [hafi] ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða gengistryggingar“.
Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi því verið slegið föstu að ófrávíkjanlegt ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 stæði því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hafi rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hafi reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánasamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem hafi verið gengistryggð á þennan óheimila hátt, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði taki ekki til. Af þeim meiði sé meðal annars dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 (Motormax), sem og dómar í málum nr. 603/2010 (Tölvupósturinn ehf. gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.), nr. 604/2010 (Sigurður Hreinn Sigurðsson o.fl. gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.), nr. 30/2011 (GSP ráðgjöf ehf. gegn NBI hf.) og 31/2011 (NBI hf. gegn Rósu ehf. o.fl.) Sóknaraðili telji framangreinda dóma Hæstaréttar hafa fordæmisgildi fyrir niðurstöðu málsins.
Til stuðnings því að lánssamningur sóknaraðila við varnaraðila hafi innihaldið ákvæði um ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, vísist til fjögurra atriða.
Í fyrsta lagi hafi lánssamningurinn einungis vísað til þess að um væri að ræða lán í íslenskum krónum. Fjárhæð lánsins í erlendum myntum hafi hvergi verið tilgreind. Á forsíðu lánssamningsins hafi sagt að hann væri um lán að fárhæð „ISK. 390.000.000“, í neðangreindum myntum og hlutföllum: „JPY 40% CAD 50% USD 10%.“ Síðan segi að skuld samkvæmt lánssamningnum skyldi tilgreind í erlendum myntum sem tilgreindar hafi verið í samningnum eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum, sbr. gr. 1.1 (2). Ef lántaki greiddi afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum hafi hann átt að greiða samkvæmt sölugengi varnaraðila á gjalddaga, sbr. gr. 1.1 (3). Þá hafi verið gengið út frá því í lánssamningnum að umsamdar afborganir væru greiddar í íslenskum krónum, sbr. grein 3. 2 um uppgreiðslu lánsins (e. „Optional Prepayment“). Þar segi að lágmarksgreiðsla við uppgreiðslu væri „ISK. 10.000.000.“ Loks hafi verið fjallað um myntbreytingarheimild í grein 7.1. Í greininni hafi verið vísað til þess að við myntbreytingu skyldi miðað við sölugengi samkvæmt gengisskráningu varnaraðila á íslensku krónunni. Ákvæðið staðfesti að höfuðstóll lánsins hafi ávallt verið hugsaður í íslenskum krónum. Framangreint bendi eindregið til þess að lán sóknaraðila sé í íslenskum krónum enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu eða söluengi ef lánið væri í raun í erlendri mynt.
Í öðru lagi hafi lánið samkvæmt lánssamningnum verið greitt út í íslenskum krónum, sbr. útborgunarbeiðni sóknaraðila, 12. ágúst 2004, sem liggur fyrir í málinu. Þar segi: „Amount of Advance: ISK 390.000.000“. Þá liggi fyrir í málinu bréf frá starfsmanni varnaraðila þar sem fram komi að kaupnótur vegna lánsins „sýn[i] útborgun í ISK“. Í samantekt varnaraðila um greiðslur sem honum hafi borist vegna lánsins, komi einnig fram að varnaraðili hafi ekki greitt út erlendar myntir samkvæmt lánssamningnum. Í samantektinni segi: „Total in payment currency“ og síðan komi fram að útborgun vegna CAD, DKK, JPY og USD sé 0. Loks liggi fyrir að hluti lánsins, 29.029.056 krónur, hafi verið millifærðar á nánar tilgreindan krónureikning sóknaraðila hjá varnaraðila. Engar kaupnótur liggi fyrir um að sóknaraðili hafi skipt erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur vegna þessarar millifærslu. Það sé í samræmi við þá staðreynd að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum.
Í þriðja lagi hafi efndir lánsins miðast við íslenskar krónur. Gjalddagar lánsins hafi upphaflega verið innheimtir og greiddir í íslenskum krónum eða þar til lánssamningnum hafi verið skilmálabreytt með viðauka 7. maí 2005. Eftir það hafi engu að síður verið dæmi um að sóknaraðili hafi greitt afborganir í íslenskum krónum, sbr. kvittun frá 17. ágúst 2006, þar sem komi fram að 1. júní 2006 hafi sóknaraðili greitt „ISK 343.350.420“. Þá liggi fyrir að gjalddagar lánsins hafi tekið mið af gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu á gjalddaga. Sú staðreynd að sóknaraðili hafi í sumum tilvikum greitt umsamdar afborganir í erlendum gjaldmiðlum hafi því ekki þýðingu við úrlausn málsins. Lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu verði ekki löglegt við það að skuldari greiði umsamda gjalddaga í erlendum gjaldmiðlum.
Í fjórða laga vísist til þess að varnaraðili hafi samið skilmála lánssamnings málsaðila. Af þeim sökum beri í öllum tilvikum að beita andskýringarreglu samningaréttar við túlkun ákvæða samningsins. Samkvæmt þeirri reglu skuli óljós samningsákvæði skýrð þeim aðila í óhag sem samið hafi þau einhliða eða hafi ráðið þeim atriðum til lykta, sem ágreiningi valdi. Ef ætlun varnaraðila hafi verið að lána erlendar myntir hefði honum verið í lófa lagið að greiða út erlendar myntir og tilgreina fjárhæðir þessara gjaldmiðla í lánssamningi málsaðila. Í ljósi þess að lánið hafi verið greitt út og tilgreint í íslenskum krónum geti ekki verið um að ræða lán í erlendri mynt.
Sóknaraðili byggi á því að viðauki við lánssamning málsaðila, þar sem lánið sé tilgreint í erlendum gjaldmiðlum, hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu verði ekki löglegt við það að höfuðstóll þess sé uppreiknaður ólöglega og tilgreindur í erlendum myntum.
Sóknaraðili árétti að viðaukinn hafi einungis falið í sér að lánstíminn hafi verið framlengdur, úr 7 árum í 15 ár, gegn þóknun til varnaraðila. Í viðaukanum hafi jafnframt verið tekið sérstaklega fram að lánssamningurinn héldi gildi sínu að öðru leyti en kveðið væri á um í viðaukanum, eins og þar segi nánar.
Sú staðreynd að sóknaraðili sé kanadískt félag, í eigu íslenskra aðila, hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins í ljósi þess að um lánssamninginn gildi íslensk lög, sbr. 17. gr. hans. Lög nr. 38/2001 séu ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. laganna. Óheimilt sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Engu máli skipti þótt lántakinn sé erlendur aðili.
Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til þeirra lagagreina sem að framan eru raktar en um málskostnað sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili kveðst byggja á því að umrætt lán varnaraðila til sóknaraðila, nr. 1643, hafi verið löglegt lán í erlendum myntum og falli því utan gildissviðs 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Vísi hann máli sínu til stuðnings til lánasamningsins, viðauka við hann og þess hvernig hann hafi verið efndur, þ.e. með útgreiðslu og endurgreiðslu í erlendri mynt.
Þá byggi varnaraðili á því að jafnvel þó dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að lánið hafi verið í íslenskum krónum þá hafi tenging þess við erlenda gjaldmiðla verið lögmæt enda sé heimilt að semja um hana þar sem hún hafi verið lántaka hagfelld, sbr. niðurlag 2. gr. laga nr. 38/2001.
Frá miðju ári 2010 hafi gengið fjölmargir dómar í Hæstarétti þar sem rétturinn hafi markað þau atriði sem greini lán, þar sem erlendar myntir hafi verið teknar að láni, frá þeim lánum þar sem íslenskar krónur hafi verið teknar að láni, en tengdar séu við gengi erlendra mynta þannig að skilmálar undirliggjandi lánasamninga brjóti gegn lögum nr. 38/2001.
Af dómaframkvæmd Hæstaréttar megi ráða að þegar lánsfjárhæð sé tilgreind sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum erlendum gjaldmiðlum, sem tilgreindir séu sem hlutfall af fjárhæð lánsins, beri orðalag samningsins ekki skilmerkilega með sér hvers eðlis skuldbindingin sé.
Vísist í þessu samhengi til dóma Hæstaréttar í málun nr. 155/2011: Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax ehf., nr. 3/2012: Arion banki hf. gegn Hætti ehf., nr. 66/2012: P. Árnason fasteignir ehf. gegn Arion banka hf., nr. 337/2013: Reynir Finndal Grétarsson gegn Landsbankanum hf. og nr. 602/2013: Vísir hf. gegn Landsbankanum hf. Í fyrstnefnda dóminum hafi Hæstiréttur talið að samningur aðila hefði í reynd verið lán í íslenskum krónum, sem bundið væri ólögmætu ákvæði um gengistryggingu, en í hinum að samningur væri lán í erlendum gjaldmiðlum, sem væri skuldbindandi fyrir lántaka.
Í dómum sínum hafi Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta lánssamnings þar sem lýst sé skuldbindingu þeirri sem lántaki hafi gengist undir. Þegar sú textaskýring taki ekki af skarið um efni lánssamnings hafi verið litið til atriða sem lúti að því hvernig samningur hafi verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti. Við mat á því hvort lán teljist löglegt lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendrar myntar, beri að líta til heitis skuldabréfsins, tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar, tilgreiningar vaxta og skilmálabreytinga hafi þær átt sér stað.
Varnaraðili mótmæli því að lánssamningurinn vísi einungis til þess að um lán í íslenskum krónum sé að ræða eins og byggt sé á í greinargerð sóknaraðila. Þá byggi varnaraðili á því að lán nr. 1643 sé lögmætt lán í erlendri mynt.
Varnaraðili vísi til þess að skuldbinding lánveitanda sé skilgreind í ákvæði 1.1 í lánasamningnum. Þar skuldbindi varnaraðili sig til þess að lána sóknaraðila fjölmyntalán að jafnvirði „ISK 390.000.000“ í umsömdum myntum og hlutföllum sem hafi verið japönsk jen að 40%, kanadískir dalir að 50% og bandaríkjadalir að 10%. Þá skyldi skuld sóknaraðila eftirleiðis vera tilgreind í þessum erlendu myntum eða jafnvirði þeirra í öðrum erlendum myntum. Varnaraðili hafni því að þessi tilgreining geti talist skuldbinding í íslenskum krónum og byggi á því að um sé að ræða tilgreiningu á skuldbindingu í erlendum myntum.
Þá vísi varnaraðili til þess að í skjölum og yfirlitum tengdum láninu sé ávallt vísað til hinna erlendu gjaldmiðla. Sé það í samræmi við ákvæði samnings aðila 1.1 að tilgreina skyldi gjaldmiðlana um leið og þess væri fyrst kostur. Byggi varnaraðili á því að ástæðan fyrir því að upphæð hinna erlendu mynta sé ekki sett fram í fastri fjárhæð heldur hlutföllum sé að sóknaraðili hafi haft viku til þess að óska eftir útborgun lánsins í samræmi við ákvæði 1.2. Þá ákvarðist útborguð fjárhæð ekki fyrr en tveimur virkum dögum eftir að lánveitanda berist útborgunarbeiðni, sbr. ákvæði 2.1. Í ljósi þess að gengi gjaldmiðla sé síðbreytilegt og umtalsverður tími hafi getað liðið frá undirritun lánssamnings til útborgunar, verði að telja að með því að hafa þennan hátt á séu báðir aðilar betur settir en með því að tilgreina fastar fjárhæðir í samningnum. Hefði gengi gjaldmiðla breyst skyndilega á þeirri viku sem sóknaraðili hafi haft til þess að draga á lánið hefði hann einfaldlega getað fallið frá því, enda hafi samningur aðila átt að falla niður ef ekki hefði verið dregið á lánið skv. ákvæði 1.2 í samningnum.
Það sé ekki fyrr en tveimur dögum eftir að útborgunarbeiðni berist að hægt sé að tilgreina höfuðstól hinna erlendu gjaldmiðla. Varnaraðila hafi borist útborgunarbeiðni fimmtudaginn 12. ágúst 2004 og hafi greitt lánið út mánudaginn 16. ágúst sama ár í samræmi við ákvæði 2.1. Á útborgunardegi hafi varnaraðili sent sóknaraðila sérstaka kvittun sem tilgreini skilmerkilega höfuðstól hvers gjaldmiðils fyrir sig að frádregnum lántökukostnaði, auk LIBOR-vaxta að viðbættu umsömdu álagi fyrir tímabilið 16. ágúst 2004 til 1. desember sama ár.
Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að þetta fyrirkomulag hafi haldist allt frá upphafi og þar til lán nr. 1643 hafi verið að fullu greitt, þ.e. að skuldbinding sóknaraðila hafi einungis verið tilgreint í erlendum myntum en ekki í íslenskum krónum og að vextir hafi verið tilgreindir sem LIBOR-vextir að viðbættum umsömdu álagi. Þá vísi varnaraðili til þess að LIBOR-vextir séu ekki gefnir upp fyrir íslenskar krónur. Þá telji varnaraðili að ómögulegt hafi verið að tilgreina fjárhæðir fyrr en gert hafi verið.
Því sé mótmælt sem komi fram í greinargerð sóknaraðila, að sú staðreynd að sóknaraðili hafi greitt afborganir lánsins, utan eina, í erlendum gjaldmiðlum hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að framangreind staðreynd staðfesti að skuldbindingar beggja aðila samkvæmt lánasamningnum hafi verið í erlendri mynt en ekki í íslenskum krónum. Varnaraðili byggi á því að báðir aðilar hafi efnt aðalskyldur sínar samkvæmt samningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum hafi skipt um hendur en ekki íslenskar krónur. Við þessar aðstæður geti skuldbinding aldrei talist vera í íslenskum krónum.
Þá sé því mótmælt sem komi fram í greinargerð sóknaraðila að ekki liggi fyrir kaupnótur um skipti á erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur, en slíka nótu sé að finna í gögnum málsins og komi þar skýrt fram hversu mikið af hvaða gjaldmiðli fyrir sig hafi verið selt og á hvaða gengi.
Í þessu samhengi árétti varnaraðili að eina greiðslan sem borist hafi í íslenskum krónum vegna lánsins hafi ekki komið frá sóknaraðila heldur frá móðurfélagi hans, sem greitt hafi áfallna vexti 1. júní 2005 eins og greiðslukvittun þess gjalddaga beri með sér. Sóknaraðili hafi sjálfur greitt í erlendum gjaldmiðlum í öllum tilvikum, annað hvort í þeim myntum sem greiðslutilkynningar hafi gert ráð fyrir eða með því að kaupa erlenda gjaldmiðla með öðrum erlendum gjaldmiðli, sbr. greiðslukvittanir sem liggi fyrir í málinu.
Varnaraðili byggi á því að orðalag ákvæðis 1.1 (2) í samningi aðila styrki enn frekar þá niðurstöðu að lánið hafi verið í erlendum myntum og að það hafi átt að endurgreiða það í erlendum myntum. Hefði lánið verið í íslenskum krónum hefði verið óþarft að fjalla sérstaklega um endurgreiðslu í þeirri mynt.
Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að skilja beri ákvæðið sem svo að greiða hafi átt lánið til baka í þeim gjaldmiðlum sem lánað hafi verið í. Yrði greitt í íslenskum krónum skyldi greiðslan fara fram í samræmi við sölugengi varnaraðila á gjalddaga, þ.e.a.s. að keyptar yrðu umsamdar myntir fyrir hvern lánshluta. Þetta fyrirkomulag hafi átt jafnt við alla gjaldmiðla þó svo að íslensk króna sé sérstaklega tilgreind í ákvæðinu. Í þessu samhengi vísi varnaraðili til greiðslukvittana sem liggi fyrir í málinu og séu dagsettar 1. júní 2006 og síðar. Byggi varnaraðili á því að kvittanirnar sýni að greiðslum hafi ávallt verið ráðstafað inn á lánshluta í gjaldmiðli þess hluta með því að keyptar hafi verið umsamdar myntir.
Því sé hafnað sem komi fram í greinargerð varnaraðila að umsamdar afborganir skyldu greiddar í íslenskum krónum, sbr. ákvæði 3.2. Ákvæðið skilgreini heimild til fyrirframgreiðslu af láninu. Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að tilgangur ákvæðisins sé að skilgreina lágmarks verðmæti fyrirframgreiðslu og tímamörk hennar. Sé þessi háttur hafður á til þess að veita lánveitanda frest til að bregðast við breyttum höfuðstól lánsins. Af hálfu varnaraðila sé á það bent að endurgreiðsla lánsins sé skilgreind í ákvæði 3.1 en þar sé ekki gert ráð fyrir öðru en að afborganir og vextir séu endurgreiddir í þeim gjaldmiðlum sem lánaðir hafi verið.
Varnaraðili mótmæli því að myntbreytingarheimild í ákvæði 7.1 staðfesti að höfuðstóll lánsins hafi verið hugsaður í íslenskum krónum, enda liggi fyrir að láninu hafi að ósk sóknaraðila verið myntbreytt. Þann 1. júní 2006 hafi farið fram gjaldeyrisviðskipti eins og gögn málsins beri með sér. Í samræmi við ákvæði 1.1 hafi eftirstöðvar lánsins verið tilgreindar á kvittun í erlendum myntum enda hafi það þá verið mögulegt ólíkt því þegar lánssamningurinn hafi verið undirritaður.
Þá byggi varnaraðili á því að orðalag ákvæðis 7.1 styðji frekar að lánið hafi raunverulega verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, þar sem óþarft hefði verið að heimila varnaraðila að lána bandaríkjadali frekar en þær myntir sem sóknaraðili hafi óskað eftir ef varnaraðili gæti ekki útvegað þá mynt eða slíkt hefði í för með sér verulegan kostnað. Slíkt ákvæði sé sýnilega þarflaust ef um sýndarviðskipti eða ólögmæta gengistryggingu væri að ræða. Það að myntbreytingarheimildin byggi á kaup og sölugengi íslensku krónunnar hjá varnaraðila sé ekki óeðlilegt þar sem íslenska krónan hafi verið viðmiðunarmynt allra gjaldmiðla í gengisskráningu varnaraðila.
Þá vísi varnaraðili til gjaldfellingarheimildar í ákvæði 11.2, sem heimili varnaraðila að krefjast efnda í þeim gjaldmiðlum sem skuldin sé tilgreind í á þeim tíma er hún sé gjaldfelld eða jafngildi íslenskra króna á skiptigengi Seðlabanka Íslands á þeim degi sem skuldin sé gjaldfelld. Telji varnaraðili að slík heimild væri með öllu óþörf ef um lán í íslenskum krónum væri að ræða.
Því sé mótmælt að lán nr. 1643 hafi verið greitt út í íslenskum krónum. Útborgunarbeiðnin beri með sér ósk sóknaraðila um að fjárhæðin sé greidd í umsömdum myntum og hlutföllum. Nauðsynlegt sé að lesa útborgunarbeiðnina í samhengi við lánssamninginn og í heild sinni. Þar hafi sagt: „We request an advance to be drawn down as set out in Clause 2.1 in the Loan Agreement as follows: 1. Amount of Advance: ISK 390.000.000,- 2. Currencies: JYP 40%, CAD 50% og USD 10“. Telji varnaraðili þetta orðalag sýna að sóknaraðili hafi óskað eftir útgreiðslu í erlendum gjaldmiðlum.
Hvað varði bréf starfsmanns varnaraðila, sem liggi fyrir í málinu, byggi varnaraðili á því að yfirlýsing starfsmannsins sé byggð á misskilningi. Hið rétta sé að kaupnótur vegna lánsins sýni útborgun í gjaldmiðlum og gjaldeyrisviðskipti. Þá geti yfirlýsing starfsmanns varnaraðila ekki breytt eðli skuldbindingarinnar.
Þá vísi sóknaraðili til samantektar varnaraðila um greiðslur sem honum hafi borist vegna lánsins. Telur varnaraðili að hér hljóti að vera átt við skjal sem afhent hafi verið á ágreiningsfundi 24. október 2013 og sé eitt af fylgiskjölum með dómskjali nr. 13. Í skjalinu sé greiðsluyfirlit þar sem hver lánshluti sé sýndur með útgreiðslu í hverjum gjaldmiðli fyrir sig. Sú samantekt sem sóknaraðili vísi þannig til sé tilkomin af því hvernig lánið hafi verið skráð í bakvinnslukerfum varnaraðila. Sé samtalan sem sóknaraðili vísi til samsett úr fjölda afborgana í erlendum gjaldeyri auk kerfislegra breytinga í tengslum við skilmálabreytingar lánsins. Því sé mótmælt að samantektin sýni að um íslenskt lán sé að ræða. Þessi samantekt breyti ekki eðli skuldbindingar sóknaraðila.
Varnaraðili byggi á því að aðilar hafi efnt aðalskyldu sína með því að erlendir gjaldmiðlar hafi skipt um hendur. Það sé óumdeilt að sóknaraðili hafi að eigin ósk fengið eftirstöðvar láns síns greiddar inn á krónureikning sinn. Því sé hins vegar mótmælt sem röngu að engar kaupnótur liggi fyrir um gjaldeyrisviðskipti. Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að við útgreiðslu hafi verið greiddir út erlendir gjaldmiðlar sem hafi verið seldir fyrir íslenskar krónur. Sóknaraðili hafi átt reikninga í erlendum myntum og hefði verið í lófa lagið að óska eftir greiðslu á þá reikninga hefði hann kosið svo. Það hafi hins vegar verið ómögulegt fyrir varnaraðila að leggja erlenda gjaldmiðla inn á krónureikning og því nauðsynlegt að selja erlenda gjaldmiðla fyrir krónur.
Verði ekki fallist á það að við útgreiðslu hafi verið greiddir erlendir gjaldmiðlar sem hafi verið seldir fyrir íslenskar krónur byggi varnaraðili á því að sóknaraðili hafi ekki nema að litlu leyti fengið lán nr. 1643 útborgað í krónum. Stærsti hluti lánsins hafi verið nýttur til þess að greiða upp lán annars nafngreinds lögaðila eins og sjá megi af gögnum málsins. Sérstök athygli sé vakin á því að Jenahluti gjaldeyrisviðskipta á greiðslukvittunum tengdum lánunum sé á sama gengi. Af því leiði að þeim hluta láns 1643 hafi verið ráðstafað bein inn á hið uppgreidda lán án myntbreytingar.
Þá sé á því byggt að af dómaframkvæmd sé ljóst að ekki sé gerð fortakslaus krafa um að samningar, líkt og hér um ræði, um lán að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í nánar tilgreindum myntum og hlutföllum, séu að öllu leyti efndir með greiðslum í erlendum gjaldmiðlum, svo að um lán í slíkum gjaldmiðlum teljist vera að ræða, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 66/2013: P. Árnason fasteignir ehf. gegn Arion banka hf. og nr. 602/2013: Vísir hf. gegn Landsbankanum hf.
Því sé mótmælt að efndir láns nr. 1643 miðist við íslenskar krónur. Fullyrðingum sóknaraðila um að lánið hafi verið innheimt og greitt í íslenskum krónum þar til því hafi verið skilmálabreytt með viðauka 7. maí 2005 sé mótmælt. Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að lánið hafi ávallt verið innheimt í umsömdum erlendum gjaldmiðlum og nær undantekningalaust verið greitt af því í erlendum gjaldmiðlum.
Máli sínu til stuðnings vísi sóknaraðili til greiðslukvittunar 1. júní 2006. Telji sóknaraðili kvittunina sýna að hann hafi á þeim degi greitt 343.350.420 íslenskar krónur. Sú greiðslukvittun sem lögð hafi verið fram sem dómskjal nr. 18 sé alls ekki eiginleg greiðslukvittun heldur tengist hún bakvinnslukerfum varnaraðila. Sé hún gefin út í tengslum við skilmálabreytingu 7. maí 2005, þar sem aðilar hafi samið um margvíslegar breytingar á kjörum lánsins. Sú breyting sem hér skipti máli sé að á gjalddaganum 1. júní 2005 hafi sóknaraðili einungis átt að greiða kostnað og vexti af láninu en ekki fulla afborgun. Hafi leiðréttur höfuðstóll að teknu tilliti til þessarar breytingar verið tilgreindur sem „USD 509.916,73, CAD 3.393.392,59 og JYP 226.622.564“.
Yrði þessi greiðslukvittun skilin á þann máta sem sóknaraðili haldi fram hefði lán nr. 1643 verið uppgreitt 1. júní 2005. Hið rétta sé að á þeim degi hafi annar lögaðili, móðurfélag sóknaraðila, greitt áfallna vexti 1. júní 2005 eins og greiðslukvittun þess gjalddaga beri með sér. Sé það eina greiðslan sem innt hafi verið af hendi í íslenskum krónum. Á þeim degi hafi móðurfélag sóknaraðila greitt 11.404.119 krónur sem nýttar hafi verið til þess að kaupa nauðsynlega gjaldmiðla og greiða framlengingarþóknun eins og greiðslukvittanir þess dags beri með sér.
Í greinargerð vísi sóknaraðili til fundargerðar framahaldsfundar til jöfnunar ágreinings 24. október 2013 því til stuðnings að gjalddagar lánsins hafi tekið mið af gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu á gjalddaga. Umrædd fundargerð vísi til þeirrar einu greiðslu sem innt hafi verið af hendi í íslenskum krónum og hafi verið fjallað ítarlega um hér að framan. Telji varnaraðili óþarft að fjalla aftur sérstaklega um þessa greiðslu en bendi á að sú staðreynd að sóknaraðili hafi í einu tilviki fengið annan lögaðila til þess að greiða áfallna vexti í íslenskum krónum sem hafi verið nýttar til að kaupa erlendan gjaldeyri breyti ekki löglegu láni í erlendum gjaldmiðlum í ólögmætt gengistryggt lán.
Varnaraðili mótmæli þessum skilningi sóknaraðila og vísi til tilkynninga um gjalddaga sem liggi fyrir í málinu. Telji varnaraðili að tilkynningarnar beri skýrlega með sér að lánið hafi verið innheimt í þeim erlendu gjaldmiðlum sem það hafi samanstaðið af.
Í greinargerð byggi sóknaraðili á andskýringarreglu samningaréttar og telji að varnaraðila hefði verið í lófa lagið að greiða út erlendar myntir og tilgreina fjárhæðir í lánasamningi málsaðila.
Af hálfu varnaraðila sé á því byggt að andskýringarreglu samningaréttar verði ekki beitt til þess að breyta samningssambandi á milli aðila. Varnaraðili hafi þegar gert grein fyrir ómöguleikanum tengdum því að gera grein fyrir föstum fjárhæðum á lánasamningi og útgreiðslu í erlendum myntum andstætt óskum sóknaraðila.
Þá taki varnaraðili fram að öll undirliggjandi gögn sýni svo ekki verði um villst að um skuldbindingu í erlendri mynt hafi verið að ræða þar sem raunveruleg gjaldeyrisviðskipti hafi legið að baki. Sóknaraðili hafi sjálfur óskað eftir láni í erlendum gjaldmiðlum og hafi fengið öll undirliggjandi gögn afhent. Sóknaraðila geti ekki hafa dulist að um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða. Hafi hann ekki ætlað sér að taka á sig slíka skuldbindingu hefði honum að sjálfsögðu borið að mótmæla gögnunum. Það hafi hann ekki gert fyrr en 18. júní 2010 og verði sóknaraðili að bera hallann af því. Byggi varnaraðili á því að tómlæti sóknaraðila verði ekki skilið öðruvísi en svo að hann hafi í raun viðurkennt að lánið hafi verið í erlendri mynt.
Þá sé mótmælt af hálfu varnaraðila að viðauki 7. maí 2005 hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Vísi varnaraðili til þess að í dómaframkvæmd hafi Hæstiréttur litið til viðauka við sambærilega lánasamninga til þess að varpa ljósi á viðhorf samningsaðila, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 337/2013: Reynir Finndal Grétarsson gegn Landsbankanum hf. og nr. 602/2013: Vísir hf. gegn Landsbankanum hf.
Þá árétti varnaraðili að viðaukinn hafi breytt samningssambandi aðila á fleiri vegu en einungis varðandi lánstímann. Telji varnaraðili viðaukann tilgreina nokkra þætti sem varpi ljósi á viðhorf samningsaðila og vísi til breytts höfuðstóls sem hafi verið tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum auk þóknunar og breyttra vaxtakjara sem orðið hafi LIBOR-vextir auk fasts 3,5% álags.
Varnaraðili taki fram að breytt vaxtakjör séu í samræmi við ákvæði 5.1 í samningi aðila nr. 1643. Hafi umsamdir vextir því ávallt verið breytilegir LIBOR-vextir auk álags. Álagið hafi upphaflega verið breytilegt en hafi verið fest með viðauka 7. maí 2005. Byggi varnaraðili á því að þetta fyrirkomulag sýni fram á að lánið sé ekki miðað við íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefðu vaxtakjör verið reiknuð á grundvelli REIBOR-vaxta og því orðið umtalsvert hærri en raun hafi orðið á. Þá vísi varnaraðili til þess að LIBOR-vextir séu ekki ákvarðaðir fyrir íslenskar krónur.
Því sé mótmælt af hálfu varnaraðila að það hafi enga þýðingu við úrlausn málsins að sóknaraðili þess sé erlent félag. Það liggi fyrir að sóknaraðili hafi tekjur sínar að mestu ef ekki öllu leyti í erlendum gjaldeyri og hafi með virkum hætti takmarkað gjaldeyrisáhættu sína. Í dómaframkvæmd hafi verið litið sérstaklega til þessa atriðis, sbr. forsendur héraðsdóms í máli Vísis hf. gegn Landsbankanum hf. sem Hæstiréttur hafi staðfest í dómi í máli nr. 602/2013.
Telji varnaraðili augljóst að áhætta sóknaraðila af því að taka lán í erlendum gjaldeyri sé engan veginn sambærileg við þá sem hafi einungis tekjur í íslenskum krónum. Við gengisfall íslensku krónunnar yrði sóknaraðili ekki fyrir tjóni þar sem hann ætti erlenda gjaldmiðla tiltæka á gjalddögum en þyrfti ekki að kaupa þá fyrir íslenskar krónur. Sé á því byggt af hálfu varnaraðila að við lánveitingu hafi sóknaraðili ekki tekið á sig gengisáhættu. Hafi hún verið til staðar þá telji varnaraðili ljóst að hún hafi verið óveruleg. Væri lán nr. 1643 í íslenskum krónum væri áberandi misræmi milli tekna og skulda sóknaraðila. Sóknaraðili hafi því augljósan hag af því að skuldbinda sig í erlendum gjaldmiðlum og takmarka þannig áhættu í rekstri sínum.
Varnaraðili hafi undir höndum afrit af skýrslum endurskoðenda sóknaraðila fyrir árin 2005 og 2006 og verði ekki annað af þeim ráðið en að sóknaraðili hafi sjálfur litið á lán nr. 1643 sem skuld í erlendum gjaldmiðlum og viðurkenni með því lögmæti lánsins. Þá liggi fyrir að sóknaraðili sé meðvitaður um hugsanlega gengisáhættu sína og að hann hafi nýtt myntbreytingarheimild lánsins, væntanlega í þeim tilgangi að aðlaga lánið að rekstri sínum.
Að teknu tilliti til alls þess sem hér hafi verið rakið byggi varnaraðili á því að lán nr. 1643 hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldeyri. Önnur niðurstaða fæli óhjákvæmilega í sér að lán sem greiddist út í erlendum gjaldeyri og hafi verið greitt til baka, með einni smávægilegri undantekningu, í erlendum gjaldeyri teljist lán í íslenskum krónum og að sóknaraðili eigi endurkröfu í íslenskum krónum.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða íslenskt lán sem verðtryggt sé með vísan til erlendra gjaldmiðla byggi varnaraðili á því að slík verðtrygging hafi verið varnaraðila heimil í þessu tilviki.
Hvað þetta varði vísi varnaraðili til niðurlags 2. gr. laga nr. 38/2001 en þar komi fram að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna ef það sé skuldara til hagsbóta.
Varnaraðili byggi á því að ef lánið sé íslenskt þá hafi það verið sóknaraðila til hagsbóta að lánið væri veitt með erlendum vöxtum og með verðtryggingu við erlenda gjaldmiðla.
Varnaraðili byggi á því að við mat á því hvort slíkt lán hafi almennt verið hagstætt beri að líta til sjö ára tímabils fyrir lánveitingu þar sem lánið hafi verið veitt til sjö ára. Varnaraðili bendi á að erlendir vextir og erlend verðtrygging hafi verið skuldurum almennt séð til hagsbóta síðustu fimm árin fyrir lánveitinguna í desember 2007. Vextir af erlendum gjaldmiðlum hafi verið lægri en íslenskir verðtryggðir eða óverðtryggðir vextir sem í boði hafi verið og gengistrygging íslensku krónunnar hafi í heild lækkað greiðslubyrði lána.
Þá bendi varnaraðili á að það að verðtryggja skuldir sóknaraðila með tengingu við erlendar myntir hafi verið til þess fallið að minnka áhættu í rekstri sóknaraðila þar sem allar tekjur og eignir hans hafi verið í erlendri mynt. Lánveiting í íslenskum krónum hefði aukið verulega gjaldeyrisáhættu í rekstri sóknaraðila vegna þess að gengi íslensku krónunnar hafi tilhneigingu til að sveiflast meira en aðrar erlendar myntir innbyrðis.
Vegna þessa sé ljóst að ef um íslenskt lán hafi verið að ræða þá hafi tenging við erlenda vexti og erlenda gjaldmiðla verið sóknaraðila til hagsbóta.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar varnaraðili til almennra meginreglna samningaréttar, kröfuréttar og eignarréttar eftir því sem við geti átt. Um málskostnaðarkröfu vísar hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
IV
Hér er til úrlausnar ágreiningur málsaðila um það hvort lán sem varnaraðili veitti sóknaraðila með útborgun 16. ágúst 2004 hafi verið lögmætt erlent lán eða hvort veiting þess hafi farið á bága við 14., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fallið hafa fjölmargir dómar Hæstaréttar á undanförnum árum um sambærileg álitaefni. Má af þeirri dómaframkvæmd ráða að þegar efni samnings aðila er með þeim hætti sem hér er, að mælt er fyrir um lán í erlendum gjaldmiðlum sem einungis eru tilteknir sem hlutfall af jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, beri að leggja til grundvallar að ákvæði samnings sé óljóst um það hvort lánaðir hafi verið erlendir gjaldmiðlar eða íslenskar krónur. Verði þá að horfa til þess hvernig samningur var efndur auk fleiri atriða sem veitt geti vísbendingu um fyrirætlan samningsaðila.
Verður fyrst að huga að þeirri grundvallarspurningu með hvaða hætti varnaraðili fullnægði aðalskyldu sinni gagnvart sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir yfirlit sem komið er frá varnaraðila þar sem hann rekur hvernig umræddu láni var ráðstafað. Koma þar fram höfuðstólsfjárhæðir í japönskum jenum, kanadískum dollurum og bandaríkjadölum, dregin er frá þóknun og fjárhæðinni þar næst umbreytt í íslenskar krónur með nánar tilgreindu gengi og fjárhæðin í heild sögð nema 389.390.000 krónum. Lán það sem greiða átti upp er tilgreint í dönskum krónum, japönskum jenum og íslenskum krónum. Þessum fjárhæðum er öllum breytt í íslenskar krónur þannig að samtals nema þær 360.360.944 krónum sem dregnar eru frá fyrrnefndri fjárhæð og út kemur 29.029.944 krónur sem er sú fjárhæð sem ráðstafað er inn á krónureikning sóknaraðila, eins og hann óskaði eftir.
Sóknaraðili byggir á því að hér sé um að ræða útgreiðslu lánsins í íslenskum krónum en varnaraðili á hinn bóginn telur að gögn málsins sýni að framangreindar erlendar myntir hafi verið seldar og fyrir þær hafi verið keyptar íslenskar krónur og þeim síðan ráðstafað með þeim hætti sem sóknaraðili hafi beðið um. Það er mat dómsins að þau gögn sem fyrir liggja og eiga öll uppruna sinn í kerfum varnaraðila renni stoðum undir það að fært hafi verið til bókar lán til sóknaraðila í umræddum erlendum myntum að nánar tilgreindum höfuðstól hverrar myntar, en þær fjárhæðir síðan umreiknaðar til íslenskra króna og þær nýttar til uppgreiðslu hins eldra láns sem að stærstum hluta var í erlendri mynt en eftirstöðvar hafi verið greiddar út sem íslenskar krónur. Umrædd gögn nægja þó ekki að mati dómsins til að fullyrt verði af eða á hvort viðkomandi lán teljist veitt í íslenskum krónum og sé bundið ólögmætri gengistryggingu. Verður því einnig að huga að því hvernig samningur aðila var efndur að öðru leyti.
Fyrir liggur að sóknaraðili er erlent félag sem greiddi nánast allar afborganir umrædds láns í erlendum gjaldmiðlum. Liggur því fyrir að sóknaraðili efndi skyldur sínar samkvæmt lánssamningi aðila að öllu verulegu leyti í erlendum gjaldmiðli og gjarnan í þeim gjaldmiðlum sem lánssamningur aðila kveður á um. Þá verður ekki framhjá því horft að ákvæði 2.1 í samningnum tilgreinir að lánið sé aðeins aðgengilegt í þar greindum gjaldmiðlum og er íslensk króna ekki þar á meðal. Einnig verður að mati dómsins að líta til þess að við skilmálabreytingu 7. maí 2005 er tekið af skarið um að tilgreina nákvæmlega höfuðstól hvers gjaldmiðils. Þegar framangreint er virt í samhengi við það að þær upplýsingar sem fyrir liggja um útgreiðslu lánsins geta ekki talist fela í sér sönnun eða fullnægjandi líkindi fyrir því að lánaðar hafi verið íslenskar krónur, er það mat dómsins að leggja verði til grundvallar að sóknaraðili hafi fengið hina tilgreindu erlendu gjaldmiðla að láni hjá varnaraðila en ekki íslenskar krónur. Hafi umrætt lán því verið lögmætt. Verður þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar að taka til greina kröfu varnaraðila og hafna kröfum sóknaraðila. Fá aðrar þær röksemdir sem sóknaraðili setur fram í greinargerð sinni ekki hnikað framangreindri niðurstöðu að mati dómsins.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hilmar Gunnarsson hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Jóhann Kristinn Guðmundsson hdl. vegna Herdísar Hallmarsdóttur hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Nataaqnaq Fisheries Inc., um að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur hans og varnaraðila, LBI hf., dags. 12. ágúst 2004, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.