Hæstiréttur íslands

Mál nr. 79/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Eignarréttur


Þriðjudaginn 14

 

Þriðjudaginn 14. febrúar 2006.

Nr. 79/2006.

Þrotabú Barik ehf.

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

Rauða tómatnum ehf.

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Eignarréttur.

Hafnað var kröfu þrotabús B um afendingu eigna í vörslum R ehf. á grundvelli 3. mgr. 82. gr. laga nr. 20/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., þar sem R gæti hvorki talist þrotamaður né forráðamaður félags eða stofnunar í skilningi hins tilvitnaða ákvæðis. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda sóknaraðila „umráð yfir eignum þrotabúsins sem staðsettar eru að Laugavegi 40a Reykjavík.“ Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda sér áðurnefndar eignir.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði leitar sóknaraðili í máli þessu eftir því að varnaraðila verði gert að láta af hendi muni, sem sóknaraðili telur sig eiganda að. Reisir sóknaraðili kröfu sína á 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt hljóðan ákvæðisins tekur það aðeins til þess þegar þrotamaður eða forráðamaður félags eða stofnunar, sem er til gjaldþrotaskipta, neitar að láta af hendi til þrotabús eign þess eða veita því aðgang að húsnæði, þar sem eignir þess eða gögn er að finna. Heimild þessari verður ekki beitt gagnvart varnaraðila, sem telur sig vera eiganda þeirra muna, sem krafa sóknaraðila tekur til, á grundvelli kaupsamnings 29. desember 2004. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2006.

          Með beiðni, dagsettri 29. nóvember 2005 og móttekinni í Héraðsdómi Reykja­víkur 30. s.m. hefur skiptastjóri þrotabús Barik ehf., [kt.] krafist þess að Rauða Tómatinum ehf., [kt.], Laugavegi 40a, Reykjavík verði gert að af­henda skiptastjóranum umráð yfir eignum þrotabúsins sem staðsettar eru að Laugavegi 40a, Reykjavík. Eignirnar sem um ræðir eru veitingastaðurinn Rossopomodoro ásamt öllum búnaði, tækjum og tólum og áhöldum og vörubirgðum sem eru á staðnum og til­heyra rekstri veitingahússins. Krafan var tekin fyrir á dómþingi 16. desember sl. en þar sem ágreiningur reis um kröfuna var mál þetta þingfest og var það flutt 20. s.m.

          Varnaraðili krefst sýknu vegna aðildarskorts. Þá krefst hann málskostnaðar.

          Sóknaraðili lýsir málavöxtum þannig að 17. febrúar 2005 hafi verið kveðinn upp í Héraðs­dómi Reykjavíkur úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi Barik ehf. og Örn Höskulds­son hrl. skipaður skiptastjóri. Við skýrslutöku hjá skiptastjóra hafi stjórnar­formaður félagsins upplýst að allur rekstur þess hefði verið seldur rekstrarstjóranum, Kristjáni Þór Hlöðverssyni, sem hafi boðist til að kaupa félagið með því að yfirtaka þær skuldir sem reksturinn réði við. Samkomulag hafi orðið um kaupverðið sem hafi tekið mið af veltu og afkomu. Í raun hafi reksturinn verið seldur Rauða Tómatinum ehf. sem hafi verið stofnaður að fyrrnefndum Kristjáni, Ómari Ingimarssyni og Björgvin Ingimar Friðrikssyni en Ómar sé bróðir Elvars fyrrverandi stjórnarformanns Barik ehf. og hafi hann verið varastjórnarmaður í Barik ehf. Björgvin Ingimar sé faðir þeirra Ómars og Elvars. Hafi Björgvin Ingimar verið skráður fyrir kr. 100.000, Kristján Þór fyrir 100.000 og Ómar fyrir 300.000. Kristján Þór hafi nú gengið úr stjórn félagsins og skipi feðgarnir Ómar og Björgvin Ingimar hana.

          Kaupsamningur dags. 29.12.2004 hafi verið gerður við Rauða Tómatinn ehf. um kaup á viðskiptavild og öllum búnaði, tækjum og tólum og áhöldum sem talin voru upp á sérstökum lista sem sé hluti samningsins. Nafnið Rossopomodoro hafi fylgt með í kaupunum. Kaupverð alls hins selda hafi verið 38.600.000 og skyldi greiðast með yfir­töku á skuldum við 28 aðila sem upp séu taldir í samningnum.

          Athugun skiptastjóra hafi leitt í ljós að kröfur 14 aðila höfðu ekki verið greiddar, 2 svöruðu ekki fyrirspurn, en í 12 tilfellum hafði verið skuldskeytt eða krafa greidd. Af þessum 12 aðilum hafi 7 fengið greiðslu samtals að fjárhæð kr. 1.654.038. Íslands­banki hf. hafi fengið skuldabréf útg. af Rauða Tómatinum hf. að fjárhæð kr. 6.000.000 en ekkert hafi verið greitt af því. Blikk- og Tækniþjónustan ehf. hafi fengið greitt með skulda­bréfi útg. af Björgvin Ingimar Friðrikssyni kr. 2.500.000. Ferskar Kjötvörur hf. hafi fengið hluta af skuld að fjárhæð kr. 661.518 greidda. Þá skyldi kaupandi yfirtaka skuld við Glitni hf. að fjárhæð kr. 5.440.000 en ekki hafi verið gengið frá yfirtökunni.

          Á skiptafundi 31. ágúst 2005 hafi verið ákveðið að rifta kaupsamningnum milli Rauða tómatsins ehf. og Barik ehf.

          Lýstar kröfur í þrotabú Barik ehf. nemi nú kr. 53.919.891, þar af nemi for­gangs­kröfur kr. 8.454.195. Þá hafi verið lýst kröfu að fjárhæð kr. 4.900.000 vegna virðis­auka­skatts og kr. 9.244.000 vegna staðgreiðslu af launum.

          Hafi skiptastjóri sent Rauða Tómatinum ehf. bréf dags. 27. október 2005 þar sem hann lýsti yfir riftun samningsins og skoraði á kaupanda að afhenda nú þegar eignir búsins til skiptastjórans. Með bréfi dags 8. nóvember 2005 hafi kröfum skiptastjóra verið hafnað þar sem talið sé að skiptastjóri hafi enga heimild til þess að rifta kaup­samn­ingi um veitingahúsið og forsvarsmenn Rauða Tómatsins ehf. hafi lagt sig fram um að greiða skuldir þær sem yfirteknar voru með kaupsamningnum og séu þær greiðslur nú þegar orðnar mun hærri en raunverulegt verðmæti veitingastaðarins.

          Skiptastjóri hafi látið verðmeta veitingastaðinn og hafi niðurstaðan verið kr. 24.000.000.

          Ljóst sé að Rauði Tómaturinn ehf. hafi ekki greitt nema brot af kaupverði Barik ehf. og að kaupsamningurinn um eignirnar sé ómarktækur málamyndagerningur. Ljóst virðist að kaupandi eigi enga möguleika á að greiða kaupverð eigna búsins. Hafi for­ráða­menn hins gjaldþrota félags að mati skiptastjóra gerst sekir um skilasvik.  For­ráða­mennirnir hafi í raun afhent sjálfum sér eignir félagsins án þess að greiða fyrir þær. Telji skiptastjóri að fyrrum forráðamenn Barik ehf. haldi eignum búsins með ólög­mætum hætti. Hafi þeir neitað að afhenda skiptastjóra eignirnar og sé honum því skylt að krefjast þess að kveðinn verði upp úrskurður um skyldu Rauða Tómatsins ehf. til þess að láta þær af hendi.

          Varnaraðili byggir á að ekki sé unnt að beina kröfu á hendur honum um af­hend­ingu eigna á grundvelli 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæðið eigi einungis við um þau tilvik þegar skiptastjóra beri nauðsyn til að ná umráðum eigna þrotabús eða til að tryggja sér aðgang að húsnæði þar sem ætla megi að finna megi eignir og það sé þrota­maður eða forráðamaður gjaldþrota félags sem stendur í vegi fyrir aðgangi skipta­stjóra. Efni 3. mgr. 82. gr. sé skýrt afmarkað og á grundvelli hennar sé einungis unnt að beina kröfu um afhendingu eigna að þeim sem séu undir skiptum eða for­ráða­mönn­um félags sem sé undir skiptum.

          Fyrir liggi að varnaraðili sé sjálfstæð lögpersóna sem ekki sé undir skiptum og byggi rétt sinn á samningi sem ekki hafi verið rift með lögformlegum hætti. Breyti þar engu þó að einhverjir sömu einstaklingar kunni að vera í stjórn varnaraðila og voru í stjórn sóknaraðila.

          Sóknaraðili hafi lýst yfir riftun en hafi ekki höfðað dómsmál til viðurkenningar á yfirlýsingu sinni en kröfu hans um riftun hafi verið hafnað af varnaraðila.

          Lög um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 geymi í XX. kafla margvísleg ákvæði um heimildir skiptastjóra til að rifta ráðstöfunum þrotamanns. Telja verði að sóknaraðila beri að notast við þau úrræði telji hann að eignum þrotabúsins hafi verið komið undan með ótilhlýðilegum hætti.

          Varnaraðili vekur jafnframt athygli á þeirri staðreynd að sóknaraðili tilgreini með engum hætti hvaða eignir hann telur sig eiga rétt til umráða yfir. Þannig verði ekki séð að krafa hans uppfylli skilyrði um skýrleika kröfu og megi þar hafa til hliðsjónar 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 um efni stefnu.

          Máli sínu til stuðnings bendir varnaraðili á að þann 9. nóvember 2004 hafi Héraðs­dómur Reykjavíkur úrskurðað að Barik ehf. skyldi borið út úr húsnæðinu að Lauga­vegi 40a, Reykjavík vegna vanskila húsaleigu. Við riftun og eftirfarandi útburð hafi leigusali eignast alla innanstokksmuni, tæki og tól sem höfðu verið sett til trygg­ingar fyrir leigugreiðslum, en skv. aðfararbeiðni dags. 13. október 2004 nam skuld Barik ehf. við leigusala kr. 2.243.902. Aðrar tryggingar sem ákvæði voru um í leigu­samn­ingnum hafi ekki staðist þegar á reyndi. Því sé mestur hluti andlags þess sem sókn­araðili óskar afhendingar á ekki í eigu varnaraðila heldur leigusalans Lali ehf. Komi þetta m.a. fram í svarbréfi varnaraðila á dskj nr. 12.

          Niðurstaða

          Bú Barik ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins uppkveðnum 17. febrúar 2005 og skiptastjóri skipaður. Í 87. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. kemur fram að skiptastjóri eigi tafarlaust eftir skipun sína að gera ráð­staf­anir til að svipta þrotamanninn umráðum eigna sinna. Í 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að neiti þrotamaður eða forráðamaður lögpersónu, hvers bú er til gjald­þrota­skipta, að láta skiptastjóra af hendi eign eða meini honum aðgang að húsa­kynnum, þar sem ætla megi að eignir búsins finnist, geti skiptastjóri krafist þess skrif­lega við héraðsdómara að úrskurður verði kveðinn upp um skyldu hlutaðeigandi. Krafa skiptastjóra í búi Barik ehf. um afhendingu eigna þeirra sem mál þetta snýst um barst dóminum 30. nóvember 2005.

          Skiptastjóri Barik ehf. beinir kröfum sínum í máli þessu að Rauða Tómatinum ehf. sem er sjálfstæð lögpersóna. Eins og áður greinir getur skiptastjóri einungis beint kröfu um afhendingu eigna á grundvelli 3. mgr. 82. gr. gegn þrotamanni eða for­ráða­manni þrotabús. Þegar skiptastjóri verður fyrir andspyrnu annarra verður hann að fara eftir almennum leiðum, líkt og hver annar eigandi muna eða réttinda, sem ekki fær notið þeirra. Nærtækasta úrræðið í slíkum tilvikum er að neyta heimilda 12. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. 

          Með hliðsjón af framangreindu verður ekki hjá því komist að hafna kröfu sókn­ar­aðila um afhendingu eigna þeirra sem umráða er krafist yfir.

          Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 70.000 krónur í málskostnað.

          Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

             Hafnað er kröfu sóknaraðila, Barik ehf.       

             Sóknaraðili greiði varnaraðila 70.000 krónur í málskostnað.