Hæstiréttur íslands
Mál nr. 136/2012
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2012. |
|
Nr. 136/2012.
|
K (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn M (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) og gagnsök |
Börn. Forsjá. Umgengni. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá og umgengisrétt við dóttur þeirra. Héraðsdómur taldi, með vísan til skýrrar niðurstöðu dómkvaddra matsmanna sem fengi styrka stoð í öðrum gögnum málsins, að það væri stúlkunni fyrir bestu að M færi með forsjá hennar. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var dómkvaddur sálfræðingur að beiðni K til að meta tengsl stúlkunnar við málsaðila og kanna vilja hennar til forsjár og umgengni og var matsgerðin meðal nýrra gagna fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar segir að ályktun matsmannsins um sterk tengsl M og stúlkunnar og góðar aðstæður hjá honum væri í samræmi við niðurstöðu annarra matsgerða í málinu. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að M færi með forsjá stúlkunnar. Þá taldi Hæstiréttur með vísan til gagna málsins að mikilvægt væri að stúlkan byggi við eins mikinn stöðugleika og kostur væri. Var því fallist á kröfu M um takmörkun K á umgengni við dótturina frá því sem kveðið var á um í hinum áfrýjaða dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2012. Hún krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá dóttur aðila, A, og að umgengni hennar við gagnáfrýjanda verði ákveðin með dómi. Til vara gerir hún þá kröfu, fari svo að honum verði dæmd forsjá stúlkunnar, að umgengni hennar við sig verði ákveðin þannig að umgengnin hefjist eftir skóla eða eftir atvikum klukkan 14 á þriðjudegi og standi til mánudagsmorguns eða klukkan 14 á mánudegi, aðra hverja viku. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði upphaflega fyrir sitt leyti 16. maí 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu gagnsakar 13. júní sama ár og gagnáfrýjaði hann öðru sinni 21. þess mánaðar. Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að ákvæði hans um umgengni aðaláfrýjanda við dóttur þeirra verði breytt á þann veg að regluleg umgengni hefjist eftir skóla á föstudegi og skuli stúlkunni skilað í skóla á mánudagsmorgni, aðra hverja viku. Enn fremur verði umgengni utan skólatíma frá klukkan 14 á föstudögum til sama tíma á mánudögum og umgengni á fimmtudögum, þegar ekki er helgarumgengni, falli niður. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Samkvæmt 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að skjóta aftur til Hæstaréttar máli, sem hefur verið áfrýjað innan áfrýjunarfrests, enda sé áfrýjunarstefna gefin út á ný innan fjögurra vikna frá því málið átti að þingfesta ef það hefur farist fyrir. Sama regla gildir um heimild til að gagnáfrýja máli, sbr. dóm Hæstaréttar 9. febrúar 2012 í máli nr. 211/2011.
I
Málsatvik fram til ársloka 2011 eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Með dóminum var gagnáfrýjanda veitt forsjá dóttur málsaðila, sem fædd er [...], auk þess sem kveðið var á um umgengni aðaláfrýjanda við hana. Þar var einnig ákveðið að áfrýjun frestaði ekki réttaráhrifum dómsins og í samræmi við það fluttist stúlkan á heimili gagnáfrýjanda eftir uppkvaðningu hans.
Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Af þeim verður ráðið að margvíslegir árekstrar hafa orðið milli aðilanna vegna dóttur þeirra eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms. Fljótlega varð misbrestur á því að umgengni aðaláfrýjanda við stúlkuna væri með þeim hætti, sem þar var ákveðið, og kennir hvor aðilinn hinum um að sú varð raunin. Heldur gagnáfrýjandi því fram að aðaláfrýjandi og móðuramma stúlkunnar hafi, gagnvart henni, haldið uppi áróðri gegn sér og sakað sig um kynferðisbrot í hennar garð, enda þótt rannsókn á því broti hafi verið felld niður. Greip hann til þess ráðs að koma fyrir upptökutæki í vasa stúlkunnar 26. apríl 2012, áður en aðaláfrýjandi sótti hana í skóla í samræmi við fyrrgreinda ákvörðun héraðsdóms, að hans sögn til að freista þess að fá upplýsingar um það sem þeim mæðgum færi á milli. Þegar aðaláfrýjandi varð vör við upptökutækið sneri hún sér til lögreglu og mun stúlkan hafa sagt þar að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hendi gagnáfrýjanda. Síðar sama dag var haft samband við barnaverndarnefnd [...]. Fulltrúi hennar taldi ekki ástæðu til að grípa þá þegar til neyðarvistunar og dvaldi stúlkan á heimili gagnáfrýjanda um nóttina. Daginn eftir var hún síðan vistuð á fósturheimili á vegum barnaverndarnefndar. Að beiðni nefndarinnar var tekið viðtal við stúlkuna í Barnahúsi 18. maí 2012 þar sem hún kvað aðaláfrýjanda hafa sagt sér að segja lögreglunni frá því að gagnáfrýjandi hafi brotið gegn sér kynferðislega á líkan hátt og hún hafði greint frá í rannsóknarviðtali 11. febrúar 2011. Aðspurð sagðist stúlkan aldrei hafa orðið fyrir slíkri reynslu í raun og veru.
Að viðtalinu loknu var stúlkan afhent gagnáfrýjanda að nýju. Með beiðni til sýslumanns 25. maí 2012 fór hann fram á að umgengni aðaláfrýjanda við dóttur þeirra yrði tímabundið undir eftirliti barnaverndarnefndar [...] og yrði einskorðuð við tvær klukkustundir á fimmtudögum uns dómur í því máli, sem hér er til úrlausnar, yrði kveðinn upp. Á hinn bóginn taldi aðaláfrýjandi að gagnáfrýjandi tálmaði umgengni stúlkunnar við sig á ólögmætan hátt og krafðist þess 1. júní sama ár að hann yrði beittur dagsektum til að knýja hana fram. Í júlí náðist tímabundið samkomulag milli aðila um tilhögun á umgengni aðaláfrýjanda við stúlkuna og skyldi hún eiga sér stað undir eftirliti barnaverndarnefndar einu sinni í viku, þrjár klukkustundir í senn. Þrátt fyrir það tókst ekki að koma henni á fyrr en í byrjun ágúst, en frá þeim tíma hafa mæðgurnar hist vikulega undir eftirliti.
II
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð matsgerð Odda Erlingssonar sálfræðings sem mun hafa verið dómkvaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur að beiðni aðaláfrýjanda eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms til þess meðal annars að meta tengsl stúlkunnar við málsaðila og kanna vilja hennar til forsjár og umgengni. Í matsgerðinni eru rakin þau atvik sem gerð hefur verið grein fyrir að framan. Einnig er þar lýst viðtölum matsmanns við aðilana, dóttur þeirra og aðra þá sem komið hafa að málinu. Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir að stúlkan sé tengd báðum aðilum sterkum og jákvæðum böndum, en tengsl hennar við gagnáfrýjanda séu áberandi sterkari. Fagfólk meti tengsl feðginanna jákvæð og aðstæður hjá honum virðist góðar og barnvænar. Einnig sé mikilvægt að stúlkan hafi umgengni við aðaláfrýjanda og hálfsystur sína, sammæðra. Stefna barnaverndaryfirvalda um að umgengnin sé undir eftirliti sé skiljanleg í ljósi spennunnar sem stúlkan upplifi hjá aðaláfrýjanda og móðurömmu sinni, en að öðru leyti virðist uppeldisaðstæður hjá aðaláfrýjanda góðar.
Fyrrgreind ályktun matsmannsins um sterk tengsl milli gagnáfrýjanda og stúlkunnar og góðar aðstæður hjá honum er í samræmi við niðurstöðu annarra matsgerða í málinu. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, verða staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um að gagnáfrýjandi skuli fara með forsjá stúlkunnar og að aðaláfrýjandi skuli greiða einfalt meðlag með henni til 18 ára aldurs.
Í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem Ísland hefur fullgilt, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 18/1992, er svo fyrir mælt að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir, dómstólar eða stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn. Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 ber dómara, að kröfu annars foreldris eða beggja, að kveða á um inntak umgengnisréttar eftir því sem barni er fyrir bestu. Eftir 1. mgr. 46. gr. sömu laga á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Þá kemur fram í 47. gr. laganna að sýslumaður geti ávallt breytt ákvörðun um umgengni með hagsmuni barns að leiðarljósi, jafnvel þótt inntak umgengnisréttar hafi verið ákveðið með dómi, sbr. 8. mgr. sömu greinar.
Þýðingarmikið er að tengsl stúlkunnar við aðaláfrýjanda haldist og þau styrkist frá því sem verið hefur, svo framarlega sem það samrýmist hagsmunum stúlkunnar, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga. Af gögnum málsins verður enn fremur ráðið að mikilvægt sé að hún búi við eins mikinn stöðugleika og kostur er. Að því virtu er fallist á kröfu gagnáfrýjanda um takmörkun á umgengni aðaláfrýjanda við dóttur þeirra frá því sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Þrátt fyrir að kveðið sé á um inntak umgengnisréttar með þessum hætti, að kröfu aðila, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga, ber þar til bærum yfirvöldum að sjá til þess samkvæmt áður tilvitnuðum réttarheimildum að tilhögun hennar á hverjum tíma sé stúlkunni fyrir bestu, sbr. og 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í samræmi við 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, sbr. 1. gr. laga nr. 52/2009, er einnig áríðandi að málsaðilar virði ákvarðanir stjórnvalda sem að umgengninni lúta, enda þótt þær víki frá því sem segir í dómsorði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað í héraði eru staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans sem verður ákveðin eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en varðar umgengni A við aðaláfrýjanda, K. Regluleg umgengni skal hefjast eftir skóla á föstudegi og barninu skilað í skóla á mánudagsmorgni, aðra hverja viku. Utan skólatíma skal umgengni vera frá klukkan 14 á föstudögum til klukkan 14 á mánudögum, aðra hverja viku. Engin umgengni skal vera hina vikuna. Ákvæði héraðsdóms um umgengni í sumarleyfum og á stórhátíðum skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, [...], [...], með stefnu birtri 21. apríl 2010, á hendur M, [...], [...].
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnanda verði dæmd óskipt forsjá telpunnar A, kt. [...]. Þá er gerð krafa um að ákveðin verði með dómi umgengni barnsins við það foreldri sem ekki fer með forsjá. Jafnframt er gerð krafa um að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað. Þá er einnig gerð krafa um að málskot fresti réttaráhrifum héraðsdóms í málinu.
Af hálfu stefnda er þess krafist að felld verði niður sameiginleg forsjá aðila og stefnda verði með dómi falin forsjá telpunnar til fullnaðs 18 ára aldurs hennar. Stefndi krefst þess að regluleg umgengni stefnanda við hana verði ákveðin með dómi aðra hverja viku frá fimmtudegi til mánudags. Stefndi krefst þess að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda tvöfalt meðlag með telpunni frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hennar. Til vara, verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um forsjá, krefst stefndi þess að með dómi verði umgengni hans við telpuna ákveðin aðra hverja viku frá föstudegi til föstudags. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Aðilar máls þessa áttu í sambandi frá árinu 2004 til 2006 er þau slitu því. Þau eignuðust telpuna A hinn [...]. Í óundirrituðum samningi þeirra um eignaskipti, forsjá og umgengni, dagsettum 16. nóvember 2006, vegna sambúðarslitanna, kemur fram að þau fari saman með forsjá telpunnar og lögheimili hennar verði hjá móður. Umgengni skyldi m.a. vera með þeim hætti að telpan dveldi til skiptis hjá foreldrum sínum, viku í senn. Mun það samkomulag hafa verið við lýði þar til vorið 2010. Í mars það ár leitaði stefndi til stefnanda og óskaði eftir því að telpan myndi dveljast meira hjá henni til skamms tíma. Stefndi segir að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða í nokkrar vikur, vegna anna hans við nám, eins og aðilar höfðu áður í einstökum tilvikum gert samkomulag um, sbr. er stefnandi hafi dvalist á [...]. Heldur stefnandi því fram að þegar farið hafi verið að hægjast um hjá honum í lok mars og hann óskað eftir því að vikið yrði að hinu venjubundna viku og viku fyrirkomulagi, hafi stefnandi neitað að verða við þeirri ósk og tálmað alfarið samvistir stefnda við dóttur sína í þrjár vikur. Á þessu tímabili kveðst stefndi ítrekað hafa reynt að hitta dóttur sína og ræða við stefnanda um hvað væri telpunni fyrir bestu en ekki haft árangur sem erfiði. Liggja fyrir gögn er styðja erfið samskipti aðila á þessu tímabili en lögregla var m.a. kölluð til vegna ágreinings þeirra. Á sama tíma vöknuðu grunsemdir um að telpan hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Fór hún í könnunarviðtal í Barnahúsi 26. apríl 2010 og var niðurstaða þess sú að engar vísbendingar væru um að barnið hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Stefndi leitaði sér lögmannsaðstoðar vegna deilna málsaðila um umgengni. Í lok apríl 2010 varð að samkomulagi að meðan forsjármál þetta yrði rekið fyrir dómstólum skyldi umgengni stefnda við telpuna vera frá fimmtudegi til mánudags.
Að beiðni Barnaverndar Reykjavíkur, dagsettri 29. október 2010, hófst rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í máli vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti stefnda gegn telpunni. Jafnframt lagði stefnandi fram kæru hjá lögreglu á hendur stefnda vegna sömu brota. Í framangreindu bréfi barnaverndar til lögreglu kemur m.a. fram að nefndinni hafi borist tilkynning þann 27. október 2010 um að telpan hafi greint stefnanda frá kynferðisbroti af hálfu stefnda. Í tilefni þess var tekin skýrsla af telpunni í Barnahúsi 15. nóvember 2010. Hún hafi verið spurð út í mögulegt kynferðislegt ofbeldi en ekkert í svörum hennar gaf tilefni til að ætla að hún hefði lent í slíku. Tekin var skýrsla af stefnda þar sem hann neitaði sök. Tölva hans var haldlögð en ekkert saknæmt fannst við leit. Lögreglustjóri hætti rannsókn málsins með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara sem felldi hana úr gildi og lagði fyrir lögreglustjóra að taka málið til frekari rannsóknar. Hinn 11. febrúar 2011 var tekin ný skýrsla af telpunni í Barnahúsi þar sem hún greindi frá því að faðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega einu sinni þegar hún var fjögurra ára. Taldi hún að þau hefðu verið í stofusófanum heima hjá föðurömmu hennar og -afa. Hefði hann sleikt á henni kynfæri og rass, hún sleikt á honum kynfæri og rass og hann hefði sett typpið við kynfæri og rass hennar. Telpan greindi einnig frá því að hún hefði farið í kynferðislegan leik með vini sínum og móðir hans komið að þeim í eitt skipti. Lögregla óskaði eftir mati Guðrúnar Oddsdóttur, sálfræðings, á þroska og heilbrigðisástandi telpunnar. Í skýrslu hennar, dagsettri 15. apríl 2011, segir að ástæða athugunar hafi annars vegar verið beiðni um mat á þroska og heilbrigðisástandi og hins vegar að fá nánari mynd af framburði telpunnar vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti. Í samantekt skýrslunnar segir m.a.: „A er meðvituð um átök og spennu milli foreldra sinna og það er henni í mun að gera foreldrum sínum til hæfis. A hefur núna dvalið hjá móður án umgengni við föður í margar vikur, orðræða hennar ber því vitni að hún er mjög meðvituð um að ekkert halli á móður.“ Þá segir einnig: „Í þessari athugun kemur fram að A virðist ekki geta lýst ofbeldi því sem faðir á að hafa beitt hana, þar sem hún virðist ekki muna neitt og segist vera búin að gleyma öllu nema því að hún viti að það sé satt að pabbi hennar hafi „kennt henni að sleikja pjásu.“ A sýndi enga sérstaka vanlíðan þegar reynt var að fá hana til að ræða það atvik, hún reyndi þó að snúa talinu annað. Þegar A talaði um atvik með jafnaldra sínum gat hún aftur á móti lýst því töluvert nákvæmlega og var augljóst að hún upplifði skömm og sektarkennt yfir því atviki. Í gögnum málsins má sjá að veruleg pressa hefur verið á A til að fá fram framburð um meint kynferðisbrot sem hún á núna mjög erfitt með að útskýra eða lýsa.“
Málið var fellt niður af ríkissaksóknara með bréfi dagsettu 12. júlí 2011, með vísan til 145. gr. laga um meðferð sakamála.
Í röksemdum ríkissaksóknara fyrir niðurfellingu málsins kemur m.a. eftirfarandi fram: „Kærði neitar alfarið sök. Brotaþoli fór í könnunarviðtal í Barnahúsi þann 26. apríl 2010 þar sem ekkert saknæmt kom fram. Brotaþoli fór í skýrslutöku í Barnahúsi þann 15. nóvember 2010 og ekkert í framburði brotaþola benti til að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Eftir ítrekaðar upplýsingar um að brotaþoli væri að tjá sig um meint kynferðisbrot kærða fór hún aftur í skýrslutöku í Barnahúsi þann 11. febrúar 2011, þar sem hún sagði kærða hafa brotið gegn sér kynferðislega einu sinni heima hjá ömmu sinni og afa þegar hún var fjögurra ára. Við rannsókn málsins voru teknar skýrslur af nokkrum vitnum sem sögðu brotaþola hafa tjáð sig um hið meinta kynferðisbrot kærða. Kærði sagðist telja að brotaþola hafi verið lögð orð í munn og að um væri að ræða anga af hatrammri forræðisdeilu. Í málinu liggur fyrir að kærði og K hafa verið að deila um forræði hennar. Upptökur kærða og móður brotaþola sýna að bæði hafa þau reynt að hafa áhrif á framburð brotaþola en í báðum tilvikum segir brotaþoli að hún hafi ekki sagt satt frá er hún greindi frá meintu broti kærða. Ekkert vitni varð að meintu kynferðisbroti. Sönnunarstaða málsins er því þannig að fyrir liggja orð brotaþola gegn orðum kærða. Það sem fram hefur komið við rannsókn málsins þykir ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis á hendur kærða í refsimáli og var því ákveðið að láta við svo búið standa, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008.“
Meðan á lögreglurannsókn stóð var ekki um að ræða umgengni telpunnar við stefnda en barnaverndarnefnd [...] mæltist til þess að engin umgengni yrði. Eftir að sakamálið var fellt niður féllst stefnandi ekki á að stefndi fengi að hitta og umgangast dóttur sína. Telpan dvaldi því hjá stefnanda, án umgengni við stefnda frá október 2010, að undanskildum nokkrum vikum um jól og áramót 2010-2011, er stefndi hélt henni hjá sér. Í bréfi til dómsins, dagsettu 22. júlí 2011, lýsti barnverndarnefndin sig reiðubúna til að hafa eftirlit með umgengni stefnda við barnið. Að kröfu stefnda úrskurðaði dómurinn, hinn 19. ágúst 2011, um bráðabirgðaumgengni telpunnar við hann. Var hún ákveðin fyrst einu sinni í viku en síðar tvisvar, undir eftirliti barnaverndarnefndar [...], þar til dómur gengi í forsjármáli aðila.
Hinn 10. október 2011 var telpan vistuð tímabundið hjá fósturfjölskyldu á vegum Barnaverndar [...]. Stefnandi átti þá við veikindi að stríða og var lögð inn á geðdeild. Hún og eiginmaður hennar höfðu á þessum tíma slitið samvistir. Barnaverndarnefndin lagði til að telpan væri vistuð á óháðu heimili þar til niðurstaða forsjármálsins lægi fyrir en foreldar hennar höfðu ekki komið sér saman um dvalarstað hennar. Stefndi taldi það andstætt hagsmunum barnsins að þurfa að vista það utan heimilis þegar barnið gæti dvalið við allra bestu aðstæður, ást og stöðugleika hjá honum. Lagði hann því fram kröfu um að dómari úrskurðaði honum forsjá telpunnar til bráðabirgða þar til endanlegur dómur gengi um forsjá barnsins til frambúðar. Til vara krafðist stefndi þess að úrskurðað yrði að nýju um inntak umgengni telpunnar við hann en barnaverndarnefnd hafði þá lagt til að umgengni yrði án eftirlits. Skýrslutökur vegna fram kominnar kröfu fóru fram 1. nóvember 2011. Að þeim loknum voru aðilar sammála um að í nóvember 2011 myndi telpan dvelja áfram á fósturheimilinu. Hún hefði umgengni við stefnda aðra hverja helgi, frá fimmtudegi til mánudagsmorguns. Móðir taldi sig, heilsu sinnar vegna, ekki í stakk búna til að ákveða með hvað hætti umgengni hennar við hana yrði. Var því málinu, hvað varðar kröfu föður um bráðabirgðaforsjá, frestað. Hinn 1. desember 2011 var málið tekið aftur fyrir á dómþingi og kom þá fram að umgengni barnsins við föður hefði gengið vel og voru aðilar sammála um að hafa það í óbreyttu formi. Næst var málið tekið fyrir á dómþingi 13. desember 2011. Telpan var þá ekki lengur í fóstri utan heimilis en stefnandi mun hafa tekið hana þaðan eftir að hún kom heim af sjúkrahúsi Í þessu þinghaldi gerðu málsaðilar með sér sátt um að telpan myndi dveljast hjá þeim til skiptis viku og viku í senn þar til dómur í forsjármáli þessu lægi fyrir.
Við meðferð málsins var Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur dómkvödd að beiðni stefnanda til að skoða og leggja mat á forsjárhæfni stefnanda annars vegar og forsjárhæfni stefnda hins vegar. Var matsgerð hennar, sem dagsett er 29. september 2010, lögð fram hinn 22. október sama ár. Að beiðni stefnanda voru dómkvaddir tveir matsmenn, sálfræðingarnir Helgi Viborg og Valgerður Magnúsdóttir, til að framkvæma yfirmat. Var matsgerð þeirra, sem dagsett er 9. desember 2011, lögð fram 13. sama mánaðar.
Rétt er að taka fram að aðstæður málsaðila hafa breyst nokkuð frá því að málið var höfðað enda hefur það verði í meðferð dómsins í tæp tvö ár. Þannig hafa málsaðilar báðir flust búferlum innan höfuðborgarsvæðisins, stefnandi hefur eignast yngri dóttur og skilið við eiginmann sinn. Þá hefur stefnandi átt við veikindi að stríða en hún var síðastliðið haust vistuð á geðdeild vegna veikinda sinna.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að það sé telpunni fyrir bestu að hún fari framvegis ein með forsjá hennar sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefnandi hafi, umfram stefnda, til að bera þá persónulegu eiginleika sem þurfi til að sinna umsjá og forsjá telpunnar til frambúðar. Telpan sé ung að árum og hafi stefnandi ávallt verið hennar aðalumönnunaraðili. Stefnandi hafi alla hennar ævi verið heimavinnandi og séð fyrir öllum þörfum hennar. Tengsl hennar og telpunnar séu því mikil og náin.
Stefnandi telur sig búa við góðar aðstæður, hún sé reglusöm og setji þarfir fjölskyldu sinnar ávallt ofar sínum eigin. Hún sé í góðu sambandi við foreldra sína og nánustu fjölskyldu og njóti stuðnings þeirra ef á þurfi að halda. Telpan sé í mjög miklum tengslum við alla stórfjölskyldu stefnanda. Stefnandi búi nú í leiguíbúð í [...] en hún sé með langtímasamning um eignina.
Stefnandi telur að telpan hafi upplifað mikla vanlíðan vegna fyrirkomulags samvista við stefnda og sífellt meiri vanlíðan hafi kom fram eftir því sem á hafi liðið. Telur stefnandi það fullvíst að svo mikið rót sem vika/vika fyrirkomulag hafi haft í för með sér henti ekki telpunni. Hún þurfi á meiri stöðugleika að halda. Telpan hafi sýnt ýmis vanlíðunareinkenni undanfarin ár sem stefnandi hafi bent stefnda á og óskað breytinga á fyrirkomulaginu. Sé það mat stefnanda að það sé telpunni fyrir bestu að eiga eitt heimili hjá sér en fara í reglubundna umgengni til föður.
Ef fallist verður á aðalkröfu stefnanda gerir hún kröfu um að regluleg umgengni stefnda barnið verði með þeim hætti að barnið verði í umgengni hjá stefnda aðra hverja helgi, frá fimmtudegi eftir skóla fram til skólabyrjunar á mánudegi og því til viðbótar einn virkan dag þá viku sem barnið er ekki í umgengni.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir kröfur sínar á því að hagsmunir telpunnar séu best tryggðir fari hann framvegis einn með forsjá hennar. Einungis með þeirri skipan muni telpan búa við stöðugleika, góðar aðstæður, ást og umhyggju og njóta ríkrar og reglulegrar umgengni við það foreldri sem hún búi að staðaldri ekki hjá. Tengsl dótturinnar við hann séu djúp og sterk og frábrugðin tengslum telpunnar við stefnanda. Hún finni til öryggis og stöðugleika í návist stefnda og upplifi mikla ást og hvatningu. Frá samvistarslitum aðila hafi telpan dvalið að mestu til jafns hjá hvoru foreldri og því hafi þau sinnt umönnun hennar til jafns. Stefndi hafi ávallt lagt ríka áherslu á að veita telpunni ástúðlegt og örvandi uppeldi en að sama skapi þyki honum mikilvægt að henni séu sett skýr mörk og reglur. Hann hafi hvatt telpuna áfram í þeim tómstundum sem hún hafi ánægju af.
Stefndi telur að hann sé umfram stefnanda í góðu andlegu jafnvægi. Menntun hans, sem [...], byggi á því að laða fram það besta í fólki. Hann hafi tileinkað sér þá aðferðarfræði sem þar búi að baki og horfst í augu við sjálfan sig og markvisst unnið að því að auka eigin lífshamingju. Stefnandi sé á hinn bóginn í miklu andlegu ójafnvægi og hafi í gegnum árin þurft á geðlyfjum að halda. Stefnda sé kunnugt um að hún hafi misnotað lyf. Þar að auki telur stefndi hana hafa verulegar ranghugmyndir um sjálfa sig og raunveruleikann. Þetta valdi öryggisleysi hjá telpunni. Stefndi óttast að velferð telpunnar sé stofnað í hættu fari stefnandi ein með forsjá hennar.
Stefndi, sem rekur eigið fyrirtæki, kveðst vera með sveigjanlegan vinnutíma, sem mögulegt sé að aðlaga þörfum barnsins. Aðstæður stefnda séu á allan hátt mjög ákjósanlegar fyrir telpuna, hann búi í rúmgóðri og snyrtilegri íbúð og hafi telpan sérherbergi þar. Stefndi eigi einnig yngri dóttur og hafi hann tekið ríkan þátt í umönnun hennar frá upphafi. A sé mjög hænd að litlu systur sinni og séu þær miklir mátar. Þá sé stefndi í mjög góðum tengslum við foreldra sína og sé mikill samgangur á milli feðginanna og foreldra stefnda.
Stefndi byggir á að honum sé betur treystandi til þess að stuðla að góðri og reglulegri umgengni stefnanda við dóttur sína. Telur hann að reynslan sýni að stefnandi hafi gert tilraunir til að tálma alfarið umgengni hans við dóttur sína. Stefnandi virði þannig tengsl stefnda og dótturinnar að vettugi.
Stefndi telur að stefnandi hafi haft uppi vísvitandi alvarleg ósannindi í málinu um meint kynferðisbrot hans gegn dóttur sinni og beri að skoða aðrar fullyrðingar stefnanda í því ljósi. Sýni þær glöggt andlegan óstöðuleika stefnanda og séu birtingarmynd þeirra ranghugmynda sem stefnandi hafi og hversu langt hún sé tilbúin að ganga til þess að koma í veg fyrir umgengni stefnda við dóttur sína. Allþekkt sé að foreldri hafi uppi slíkar ásakanir þegar deilt sé um forsjá og/eða umgengi og oft á tíðum í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir umgengni.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda krefst hann þess að ákveðið verði með dómi að umgengi hans við dóttur sína verði eins og samningur aðila m.a. um umgengni frá 2006 hafi kveðið á um, þ.e. aðra hverja viku frá föstudegi til föstudags. Frá samvistarslitum aðila hafi telpan dvalið til jafns hjá foreldrum sínum og hafi hún unað vel við það fyrirkomulag, a.m.k. er hún var í umsjá stefnda. Með jöfnum samvistum verði högum telpunnar minnst raskað, hún sé vön því fyrirkomulagi og henni líði vel er hún dvelji hjá stefnda.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um forsjá telpunnar A sem er tæplega sjö ára gömul. Fara aðilar með sameiginlega forsjá telpunnar og á hún lögheimili hjá móður sinni, stefnanda þessa máls.
Eins og fram er komið liggja fyrir í málinu tvær matsgerðir dómkvaddra matsmanna, meðal annars um forsjárhæfni aðila. Annars vegar er um að ræða matsgerð Rögnu Ólafsdóttur sálfræðings og hins vegar yfirmatsgerð sálfræðinganna Helga Viborg og Valgerðar Magnúsdóttur.
Í matsgerð Rögnu kemur m.a. fram að báðir foreldrar teljast hæfir til að fara með forsjá telpunnar. Þeir hafi báðir komið að umönnun hennar með jöfnum hætti, sterk tengsl væru á milli þeirra og hennar og þeir bæru hag hennar fyrir brjósti. Niðurstöður á persónuleikaprófi stefnanda leiddu m.a. í ljós að hún reyndi mjög mikið að fegra sjálfa sig í svörum sínum. Hún væri með sterkar varnir, afneitaði vandamálum og óæskilegum tilfinningum hjá sér. Hún væri barnaleg og liti á veröldina á öfgafullan hátt. Hana skorti innsæi í eigin hegðun. Prófmyndin sýndi konu sem væri upptekin af líkamlegum einkennum og notaði hugsanlega líkamlega verki sem stjórnunartæki. Hún mældist þunglynd og hún upplifði sig bjargarlausa. Hún væri líkleg til að vera sjálfmiðuð og sýna slaka dómgreind. Í reynslusögu hennar kæmi fram að hún hefði átt við langvarandi veikindi að stríða sem hefðu haft afgerandi áhrif á líf hennar. Hún hefði hvorki getað stundað nám né vinnu undanfarin ár en heilsufar hennar færi smám saman batnandi. Veikindi hennar endurspegluðust í prófniðurstöðum. Slök dómgreind, sem greindist á persónuleikaprófum, birtist einnig í ásökunum hennar um kynferðislega misnotkun á barni hennar.
Niðurstöður á persónuleikaprófi stefnda sýndu að hann fegraði sig nokkuð og gerði lítið úr vandamálum. Ekkert benti til þess að hann ætti við alvarleg geðræn vandamál að stríða. Hann væri sálfræðilega vel aðlagaður, sjálfsstyrkur væri góður og sjálfsmynd hans jákvæð. Hann væri tilfinningalega stöðugur, bjartsýnn og sjálfstæður. Hann byggi yfir góðri aðlögunarhæfni og breidd væri í áhugasviði hans. Persónulega eiginleika hans, eins og þeir birtust á prófi, mætti sjá endurspeglast í reynslusögu hans og viðmóti.
Í yfirmatsgerð kemur m.a. fram að aðstæður beggja aðila hefðu breyst verulega frá því fyrra mat hefði verið gert og krafa um yfirmat verið lögð fram. Stefnandi sé nýlega skilin við seinni barnsföður sinn og flutt í nýja íbúð í [...] og sé að koma sér fyrir. Hún sé ekki lengur í skólahverfi telpunnar og hugleiði að láta hana skipta um skóla. Hún hafi ekki tekjur en segi umsókn um örorkumat vera í gangi. Auk skilnaðar og flutnings hafi hún átt við mikil veikindi að stríða og m.a. verið á spítala vegna þess. Móðir stefnanda sé henni stuðningur og auk þess fái hún mikinn stuðning frá barnaverndaryfirvöldum í [...]. Stefndi byggi í stórri og rúmgóðri íbúð í [...]. Aðstæður þar væru allar góðar. Hann hafi tekjur af eigin atvinnurekstri. Hann búi einn og hafi góða umgengni við yngri dóttur sína og við A samkvæmt samkomulagi. Foreldrar séu honum mikill stuðningur.
Þar sem krafa um yfirmat var á því byggð að mat á persónulegum eiginleikum aðila hefði verið ójafnt og byggi ekki á sömu forsendum og að á stefnanda hafi verið hallað, ákváðu matsmenn að stefnandi skyldi endurtaka MMPI-2 persónuleikaprófið. Um sé að ræða yfirgripsmikið persónuleikapróf með vel þróuðum réttmætiskvörðum og því sé erfitt að blekkja niðurstöður án þess að það komi fram. Stefnandi hafi lagt mikið á sig til að koma vel út úr prófinu og hafi verið um þrjá tíma að vinna það, sem að öllu jöfnu tæki um helmingi skemmri tíma. Niðurstaða prófsins hafi að mestu leyti verið í samræmi við fyrri prófun. Það hafi komið skýrt fram að stefnandi reyni að fegra sig og koma vel út. Voru matsmenn í öllum aðalatriðum sammála niðurstöðu í undirmati um persónulega eiginleika og hagi foreldris. Þar væri þó heldur hvasst til orða tekið gagn¬vart stefnanda. Matsmenn töldu að stefnandi ætti það til að vera ansi hvatvís og hugsa ekki vel hvað hún segði og hvaða afleiðingar það gæti haft. Í þeim efnum sýndi hún dóm¬greindarleysi. Það var hins vegar álit matsmanna að ekkert hefði komið fram sem leyfði þeim að fullyrða að stefnandi hafi ásakað stefnda vísvitandi ranglega um kynferðislega áreitni gagnvart barni þeirra.
Yfirmatsmenn mátu enn fremur niðurstöður undirmats í viðtölum við báða aðila. Veikindi stefnanda hefðu verið henni erfið og haft mikil áhrif á samskipti hennar við annað fólk. Henni sé mjög í mun að skýra veikindi sín með skírskotun í erfiðar aðstæður og það hve forsjárdeilan/meint kynferðisbrot stefnda hafi verið henni erfið. Þær röksemdafærslur séu mótsagnarkenndar og skortir trúverðugleika. Niðurstöður persónuleikaprófs sýni að hana skorti innsæi, hún afneiti sálrænum vandamálum, sé líkleg til að þróa með sér líkamlega sjúkdóma og telji ástæður vanda síns að finna hjá öðrum. Nýjustu upplýsingar frá læknum hennar sýni að veikindi hennar séu mjög alvarleg, hana skorti innsæi í þau og hún sé ekki meðferðarþæg heldur vilji hún frekar fara sínu fram. Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson læknir hennar segi hana eiga við mikla andlega örðugleika að stríða, hann setji spurningarmerki við umönnunargetu hennar, telji ljóst að hún þurfi mikla læknisfræðilega, sálarlega og aðra hjálp til að takast á við sín erfiðu einkenni. Sjúkdómsgreining Andrésar Magnússonar geðlæknis segi að stefnandi þjáist af [...], ótilgreindri. Vegna þessa telja matsmenn að ekki sé unnt að sjá hvernig veikindi hennar þróist eða hvaða áhrif þau munu hafa á forsjárhæfni hennar í framtíðinni. Ljóst sé að þessi veikindi hljóti að skerða forsjár-hæfni hennar. Hún muni þurfa á miklum stuðningi að halda og í því samhengi skipti samvinna hennar miklu máli.
Varðandi það sem fram komi í undirmati um persónulega eiginleika stefnda er það skoðun yfirmatsmanna að skilja mætti þá gagnrýni þannig að ekki hafi allir þættir verið dregnir fram í loka¬niðurstöðu sem mikilvægir hafi verið í lýsingu á föður. Stefndi sé einlægur og opinn og komi hreint fram. En hann sé einnig hvatvís og fylginn sér og geri sér ekki alltof góða grein fyrir takmörkunum sínum. Hann geti því án efa átt það til að sýna tillitsleysi og óþolinmæði sem veikari aðilar gætu túlkað sem frekju og óbilgirni.
Skoðun matsmanna var að hið meinta kynferðisbrot stefnda gegn telpunni hafi verið afskap¬lega langt ferli og því hafi fylgt mikið álag fyrir alla málsaðila. Í upphafi forsjármálsins hafi í raun verið deilt um umgengni og hafi ýmsar ásakanir verið notaðar á báða bóga til að „vinna“ í deilunni og koma höggi á mótherjann. Megi þar greina hvatvísi og ábyrgðarleysi í fram¬göngu beggja aðila. Þetta hafi þróast út í ásakanir um kynferðislega misnotkun sem rannsakaðar hafi verið mikið og lengi án þess að skýr niðurstaða hafi fengist og málsgögn þar um skipti fleiri hundruð blaðsíðum. Matsmenn telja sig ekki til þess bæra að úrskurða hvað sé rétt og hvað rangt í málinu. Þó verði að vitna til vandaðrar skýrslu Guðrúnar Odds¬dóttur sál¬fræð¬ings, þar sem fram komi að barnið geti ekki staðfest meint kynferðis¬brot með lýsingu á því. Mats¬menn telja að þetta mál hafi verið barninu mjög skaðlegt og barnsins vegna sé nú mál að þessu linni áður en alvarlegri skaði hljótist af. Matsmenn vildu því að lokum beina því til aðila málsins, fjölskyldna þeirra og þeirra sem að málinu kæmu, að virða þennan rétt barnsins og halda ekki málinu til streitu á þeim röngu forsendum að með því sé verið að vinna að velferð barnsins.
Þegar foreldra greinir á um forsjá barns skal dómur kveða á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Við mat á þessu ber að líta til allra þátta sem varða hagsmuni barnsins og hvernig þeim verður best borgið. Er þá litið til persónulegra eiginleika foreldra, tengsla foreldra við barn, atriða er varða daglega umsjá og umönnun barnsins, sjónarmiða er lúta að tengslum barnsins við systkini, húsnæðismál, liðsinni vandamanna og hvað séð verður um líkindi þess að það foreldri sem forsjá fær sé líklegt til að virða rétt barnsins til umgengni við hitt foreldrið, sem og önnur sjónarmið sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við tilvitnaða lagagrein í frumvarpi því sem varð að barnalögum nr. 76/2003.
Samkvæmt framansögðu eru það hagsmunir barnsins sem eru í forgrunni. A er fædd [...] og er því rétt tæplega sjö ára að aldri. Hún er með lögheimili á heimili stefnanda og þar býr enn fremur tæplega tveggja ára hálfsystir hennar. Stefnandi skildi við eiginmann sinn og barnsföður yngri dóttur sinnar fyrir nokkrum mánuðum. Stefnandi er með ótímabundinn leigusamning um 80 m² nýlega íbúð í [...]. Deila A og systir hennar herbergi á heimili stefnanda. Stefndi er með tímabundinn samning um 200 m² íbúð í [...]. Þar eru fjögur svefnherbergi.Tæplega tveggja ára dóttir hans, hálfsystir A, býr einnig á heimilinu þegar stefndi er með umgengi við hana.
Þegar A fæddist bjuggu foreldrar hennar saman og lauk þeirri sambúð þegar telpan var um eins og hálfs árs gömul. Fyrstu árin eftir sambúðarslitin dvaldi hún jafnt hjá móður sinni og föður, þ.e. viku í senn hjá hvoru um sig. Komu foreldrar hennar þannig að uppeldi hennar með jöfnum hætti. Í apríl 2010 höfðaði stefnandi forsjármál þetta og krafðist þess að hún fengi ein forsjána. Jafnframt gerðu aðilar með sér samkomulag um umgengni stefnda við telpuna sem gilda átti á meðan málið væri rekið fyrir dómstólum. Hvað það á um reglulega umgengi stefnda við telpuna aðra hverja helgi, frá fimmtudegi til mánudags. Fram kemur í gögnum að stefndi taldi sig nauðbeygðan til að fallast á þetta samkomulag til þess að fá að umgangast dóttur sína. Rof varð á samvistum feðginanna um margra mánaða skeið meðan á rannsókn meints kynferðisbrotamáls stóð en fram kemur í yfirmatsgerð að ekki væri á samskiptum þeirra að sjá að rof hefði verið. Að mati dómsins gefa matsgerðir og önnur gögn málsins ekki til kynna að telpan sé tengdari öðru hvoru foreldra sinna. Báðir foreldrar hennar búa á höfuðborgarsvæðinu og geta gert henni kleift að ljúka námi í skóla þeim sem hún er í þetta námsár. Ekki er unnt að fallast á það sem fram kom í málflutningi stefnanda að stúlkan líti frekar á heimili stefnanda sem sitt heimili enda er sú staðhæfing ekki í samræmi við gögn málsins. Þvert á móti virðist stúlkan sátt við að eiga tvö heimili, þ.e. hjá báðum foreldrum. Fram kemur í matsgerðum að stefnanda skorti innsæi, hún afneiti sálrænum vandamálum, sé líkleg til að þróa með sér líkamlega sjúkdóma og telji ástæður vanda síns að finna hjá öðrum. Nýjustu upplýsingar frá læknum hennar sýna að veikindi hennar eru mjög alvarleg. Samkvæmt framburði starfsmanns Barnaverndar [...] fyrir dómi er mál móður opið sem barnaverndarmál. Fram kemur að hún er öryrki vegna samverkandi áhrifa af líkamlegum meiðslum og þunglyndi. Ekkert benti til þess að stefndi eigi við geðræn vandamál að stríða. Hann væri sálfræðilega vel aðlagaður, sjálfsstyrkur væri góður og sjálfsmynd hans jákvæð. Hann væri tilfinningalega stöðugur, bjartsýnn og sjálfstæður. Í undirmatsgerð kemur fram að A kjósi að vera til jafns hjá foreldrum sínum og umgengni sé því sem jöfnust. Stefnandi skildi við seinni mann sinn í október 2011, og býr ein með dætrum sínum í félagslegri íbúð í [...]. Hún nýtur stuðnings frá móður sinni og umsókn um örorkumat er í gangi. Stefnandi býr einn í rúmgóðri leiguíbúð í [...], hann hefur tekjur af eigin atvinnurekstri og nýtur stuðnings foreldra sinna og systkina. Báðir foreldrar munu sjá til þess að telpan ljúki skólaári sínu í þeim skóla sem hún gengur í nú.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins, í samræmi við skýra niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna, sem fær styrka stoð í öðrum gögnum málsins, að það sé A fyrir bestu að stefndi fari með forsjá hennar, enda kemur skýrt fram að hann er í betra jafnvægi en stefnandi. Af gögnum málsins og framburði aðila fyrir dómi verður jafnframt ráðið að stefndi sé líklegri til að virða umgengnisrétt barnsins við hitt foreldrið.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmd til að greiða einfalt meðlag með dóttur málsaðila frá uppkvaðningu dóms þessa til fullnaðs 18 ára aldurs barnsins Fyrir liggur að stefnandi er tekjulaus og því ekki rök til að fallast á kröfu stefnda um tvöfalt meðlag. Í málinu er gerð krafa um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Það er mat dómsins að telpan hafi þörf fyrir ríkulega umgengni við stefnanda. Umgengni eins og hún er hér ákveðin skal hefjast eftir skóla á fimmtudegi og barninu skilað í skóla á mánudagsmorgni, aðra hverja viku. Utan skólatíma skal umgengni vera frá kl. 14:00 á fimmtudögum til kl. 14:00 á mánudögum, aðra hverja viku. Þá viku sem barnið er ekki með umgengni við stefnanda skal það njóta umgengi við hana eftir skóla eða eftir kl. 16.00 til kl. 20.00 á fimmtudögum. Barnið skal auk reglulegrar umgengni njóta sumarumgengni við stefnanda tvær vikur tvisvar sinnum á tímabilinu 1. júní til 15. ágúst og skal dagsetning þessara tímabila ákveðin fyrir 1. apríl ár hvert. Regluleg umgengni fellur niður meðan á sumarumgengni stendur. Barnið skal njóta umgengni við stefnanda um áramótin 2012/2013 frá 29. desember til 2. janúar en ári síðar um jól frá 22. desember til 26. desember og svo koll af kolli. Barnið skal njóta umgengni við stefnanda aðra hverja páska, í fyrsta skipti árið 2013, frá fimmtudegi kl. 14:00 til mánudags kl. 14:00.
Ekki er ástæða til að verða við kröfu stefnanda um að málskot dóms þessa til Hæstaréttar fresti réttaráhrifum í málinu.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstri þessum. Báðir aðilar hafa gjafsókn en gjafsókn stefnda er takmörkuð við 600.000 kr.
Af hálfu stefnanda hafa þrír lögmenn komið að máli þessu. Þóknun Þyríar Steingrímsdóttur hdl. þykir hæfilega ákveðin 400.000 kr., þóknun Gunnhildar Pétursdóttur hdl. 50.000 kr. og þóknun Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl. 1.500.000 kr., allt að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/ 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, sem er þóknun lögmanns hans, Maríu Júlíu Rúnarsdóttur hdl., verður með hliðsjón af takmörkun sem gjafsóknarleyfi hans kveður á um ákveðinn 600.000 kr.
Dóm þennan kveða upp Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, ásamt meðdómendum, sálfræðingunum Aðalsteini Sigfússyni og Ágústu Gunnarsdóttur.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, M, skal fara með forsjá telpunnar A.
Stefnandi, K, skal greiða einfalt meðlag með A frá uppkvaðningu dómsins til 18 ára aldurs hennar.
Regluleg umgengi A við stefnanda skal hefjast eftir skóla á fimmtudegi og barninu skilað í skóla á mánudagsmorgni, aðra hverja viku. Utan skólatíma skal umgengni vera frá kl. 14:00 á fimmtudögum til kl. 14:00 á mánudögum, aðra hverja viku. Þá viku sem barnið er ekki með umgengni við stefnanda skal það njóta umgengni við stefnanda eftir skóla eða eftir kl. 16.00 til kl. 20.00 á fimmtudögum. Barnið skal auk reglulegrar umgengni njóta sumarumgengni við stefnanda tvær vikur tvisvar sinnum á tímabilinu 1. júní til 15. ágúst og skal dagsetning þessara tímabila ákveðin fyrir 1. apríl ár hvert. Regluleg umgengni fellur niður meðan á sumarumgengni stendur. Barnið skal njóta umgengni við stefnanda um áramótin 2012/2013, frá 29. desember til 2. janúar, en ári síðar um jól, frá 22. desember til 26. desember, og svo koll af kolli. Barnið skal njóta umgengni við stefnanda aðra hverja páska, í fyrsta skipti árið 2013, frá fimmtudegi kl. 14.00 til mánudags kl. 14.00.
Áfrýjun fresti ekki framkvæmd dóms þessa.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Þyríar Steingrímsdóttur hdl., 400.000 kr., Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 50.000 kr. og Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl. 1.500.000 kr.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 600.000 kr.