Hæstiréttur íslands
Mál nr. 572/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Innstæða
- Skaðabætur
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 572/2013.
|
Hermann Sævar Guðmundsson (Jón Ögmundsson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Innstæða. Skaðabætur. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu H við slit G hf. var hafnað. Í málinu krafðist H þess aðallega að krafa hans yrði viðurkennd sem forgangskrafa í bú G hf. á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. þeirra. Reisti H kröfugerð sína á því að hann hefði í símtali við starfsmann G hf. 15. september 2008 gefið skýr og ótvíræð fyrirmæli um að keyptar yrðu evrur fyrir andvirði innleystra hlutdeildarskírteina H í Sjóði 9 hjá G hf. Í stað þess að fylgja fyrirmælunum hefði G hf. í heimildarleysi keypt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1 hjá G hf. Byggði H aðallega á því að hann ætti kröfu á hendur G hf. um endurgreiðslu innstæðu sem til hefði orðið á tilteknum reikningi hans þegar andvirði hlutdeildarskírteina í Sjóð 9 var lagt inn á þann reikning en til vara að hann hefði öðlast rétt til skaðabóta úr hendi G hf. vegna þess tjóns sem hann hefði orðið fyrir við það að fyrirmælum hans var ekki fylgt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að andvirði innleystra hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 hafi verið tímabundið ráðstafað inn á handveðsettan reikning H hjá G hf. Ekki hafi því getað orðið til innstæða í evrum á þeim reikningi. Í beinu framhaldi hafi andvirði hlutdeildarskírteinanna verið varið til kaupa á hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9.1 og gjaldeyrisreikningur H hjá G hf., sem var í evrum, jafnframt eyðilagður. Hafi því heldur ekki orðið til innstæða í evrum á þeim bankareikningi. Var aðalkröfu H því hafnað. Hvað varakröfu H varðaði taldi Hæstiréttur að ráðstafanir G hf. rúmuðust innan þess sem samningur aðila um einkabankaþjónustu gerði ráð fyrir. Þá hefðu í umræddu símtali ekki falist skýr og ótvíræð fyrirmæli af hálfu H sem G hf. hafi á grundvelli áðurnefnds samnings verið skylt að hlíta. Þá lægi ekkert fyrir í gögnum málsins um að H hafi hringt í starfsmann G hf. síðar sama dag til að fylgja fyrirmælunum eftir eins og hann hélt fram. Þá yrði að líta til þess að H hafi nýtt sér skoðunaraðgang að einkabankaþjónustunni í netbanka sínum og hann hafi auk þess fengið skriflegar tilkynningar um viðskiptin en ekki hreyft neinum andmælum að því er séð yrði vegna þeirra fyrr en 6. október 2008 af því tilefni að honum hafði borist krafa frá G hf. 3. sama mánaðar um frekari tryggingar. Að öllu þessu virtu hefði H ekki sýnt fram á að hann hefði öðlast rétt til skaðabóta úr hendi G hf. og var varakröfu hans einnig hafnað.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. ágúst 2013 þar sem hafnað var kröfu sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa sín á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.818.280,20 evrur og henni skipað í réttindaröð aðallega samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 113. gr. sömu laga. Auk framangreindrar fjárhæðar krefst sóknaraðili þess í aðalkröfu að við hana leggist nánar tilgreindir ársvextir frá 15. september til 16. nóvember 2008 og síðan dráttarvextir af tilteknum fjárhæðum frá þeim degi til 22. apríl 2009, en í varakröfu aðallega dráttarvextir og til vara 5,5% ársvextir af tilteknum fjárhæðum frá 15. nóvember 2008 til 22. apríl 2009. Í varakröfu komi jafnframt til frádráttar greiðslur vegna innlausnar hlutdeildarskírteina í Sjóði 9.1 Peningamarkaðsbréf EUR hjá Glitni banka hf. að fjárhæð 54.085.189 krónur 3. febrúar 2009, 37.397.305 krónur 11. mars sama ár, 16.152.477 krónur 5. október 2010 og 6.615.066 krónur 22. júní 2012. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili þess að dráttarvöxtum, sem leggjast á kröfu hans eftir 22. apríl 2009, verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili gerði 27. febrúar 2006 samning við varnaraðila, sem þá bar heitið Íslandsbanki hf., um einkabankaþjónustu og er efni hans nánar rakið í hinum kærða úrskurði. Í samningnum kom fram að af þessu tilefni hafi varnaraðili stofnað sérstakan fjárvörslureikning nr. [...]33 á nafni sóknaraðila og jafnframt bankareikning nr. [...]433. Um seinni reikninginn sagði að í tengslum við fjárvörslu og eignastýringu væri stofnaður sérstakur bankareikningur í Íslandsbanka hf. á nafni sóknaraðila sem tengdur væri fjárvörslureikningi hans. Sóknaraðili hefði ekki aðgang að þessum reikningi nema með milligöngu varnaraðila. Jafnframt væri varnaraðila heimilt að stofna gjaldeyrisreikninga eða aðra innlánsreikninga á nafni sóknaraðila með sama hætti. Ágreiningslaust er að samningurinn um einkabankaþjónustu var gerður í tengslum við lán „í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum óverðtryggt“ sem sóknaraðili tók hjá varnaraðila en samningur um þá lánveitingu ásamt viðaukum var undirritaður 12. apríl 2007.
Í 6. grein lánssamningsins 12. apríl 2007 var svofellt ákvæði: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á láninu setur lántaki lánveitanda að handveði, með sérstakri handveðsyfirlýsingu öll þau verðbréf sem eru í vörslum Glitnis banka hf. á hverjum tíma á vörslureikningi nr. [...]33, samkvæmt handveðsyfirlýsingu sem lántaki hefur gefið út til lánveitanda. Verðbréf á ofangreindu vörslusafni skulu á hverjum tíma vera bundin/skilyrt við eign í eingöngu eftirfarandi sjóði hjá lánveitanda: Sjóður 9-peningamarkaðsbréf.“ Handveðsyfirlýsing sóknaraðila var undirrituð sama dag og lánssamningurinn. Með þeirri yfirlýsingu setti sóknaraðili varnaraðila að handveði: „A) Öll verðbréf, hvort sem um er að ræða verðbréf í formi rafbréfa eða skjalaformi, hverju nafni sem nefnast sem eru í vörslu Glitnis banka á hverjum tíma á vörslureikningi nr. 7433. Rafræn verðbréf í safninu eru varðveitt á VS-reikningi í umsjón Glitnis banka hf. ... Útgefandi/veðsali skuldbindur sig til þess að ráðstafa arðgreiðslum beint inn á reikning nr. [...]433, en reikningurinn ásamt innstæðu hans eins og hún er á hverjum tíma ... er jafnframt veðsettur bankanum með yfirlýsingu þessari. Veðhafi hefur einn aðgang að reikningnum og innstæðu hans og er útgefanda/veðsala óheimilt að taka fé út af reikningnum ... B) Innstæðu á gjaldeyrisreikningum útgefanda/veðsala, höfuðbók 38 í Glitni banka hf. eins og hún er á hverjum tíma, þar með taldir vextir. C) Innstæðu á peningamarkaðsreikningi útgefanda/veðsala, í Glitni banka hf. eins og hún er á hverjum tíma, þar með taldir vextir og verðbætur.“
Í hinum kærða úrskurði er rakið efni símtals þess er sóknaraðili átti 15. september 2008 við starfsmann varnaraðila en endurrit símtalsins er meðal gagna málsins. Málsaðila greinir á um hvort sóknaraðili hafi í þessu símtali gefið starfsmanninum skýr og ótvíræð fyrirmæli um að selja hlutdeildarskírteini sín í Sjóði 9, kaupa fyrir andvirði þeirra evrur og leggja þær inn á bankareikning sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi gefið slík fyrirmæli og því hafi sú ákvörðun að kaupa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1 verið í sína óþökk. Þessu andmælir varnaraðili og telur auk þess að lánssamningurinn frá 12. apríl 2007 hafi staðið því í vegi að innlausnarfjárhæðinni yrði ráðstafað í samræmi við þau fyrirmæli sem sóknaraðili haldi fram að hann hafi gefið starfsmanninum. Þá er í málinu ágreiningur um hvort sóknaraðili hafi síðar 15. september 2008 hringt í farsíma starfsmannsins til þess að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem hann kveðst hafa gefið fyrr um daginn.
Samkvæmt gögnum málsins sendi varnaraðili sóknaraðila 15. september 2008 tilkynningu í almennum pósti þess efnis að hann hefði selt bréf sóknaraðila í Sjóði 9. Andvirði þeirra mun í fyrstu hafa verið lagt inn á fyrrgreindan handveðsettan reikning sóknaraðila nr. [...]433. Varnaraðili sendi sóknaraðila aðra tilkynningu 16. september 2008 þar sem fram kom að fyrir andvirði innlausnarfjárins hefðu verið keypt bréf í svokölluðum Sjóði 9.1 - peningamarkaðssjóður EUR, en sá sjóður mun hafa verið stofnaður í mars 2007. Yfirlit um hreyfingar á þeirri verðbréfaeign sóknaraðila sem varnaraðili hafði umsjón með samkvæmt samningnum um einkabankaþjónustu sýna að áður höfðu verið keypt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1 í október og nóvember 2007 og febrúar og mars 2008. Þá voru einnig keypt hlutdeildarskírteini í sjóði 1B í apríl 2008. Gögn málsins bera með sér að gjaldeyrisreikningur nr. [...]29, sem sóknaraðili átti hjá varnaraðila og var í evrum, var eyðilagður 18. september 2008.
II
Kröfugerð sóknaraðila í málinu er á því reist að hann hafi gefið starfsmanni varnaraðila skýr og ótvíræð fyrirmæli um að kaupa evrur fyrir andvirði innleystra hlutdeildarskírteina í Sjóði 9. Í stað þess að fylgja fyrirmælunum hafi varnaraðili í heimildarleysi keypt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1 og beri af þeim sökum hallann af því að geta ekki sýnt fram á að hafa fylgt fyrirmælunum. Aðalkrafa sóknaðila virðist á því reist að hann eigi af þessum sökum kröfu á hendur varnaraðila um endurgreiðslu innstæðu sem hafi orðið til á reikningi hans nr. [...]433 þegar andvirði hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 var lagt inn á þann reikning. Þar sem um innstæðu sé að ræða njóti krafa til hennar forgangs við slit varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Verði ekki á aðalkröfuna fallist er varakrafa sóknaraðila á því reist að hann hafi allt að einu öðlast rétt til skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir við það að fyrirmælum hans var ekki fylgt. Nemi fjárhæð skaðabótakröfunnar mismuninum á innstæðunni og þeim fjármunum sem ráðstafað var til sóknaraðila við slit og uppgjör á Sjóði 9.1 og njóti hún við slit varnaraðila stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Andvirði innleystra hlutdeildarskírteina sóknaraðila í Sjóði 9 hjá varnaraðila var tímabundið ráðstafað inn á handveðsettan reikning sóknaraðila nr. [...]433, sem var í íslenskum krónum. Gat því ekki orðið til innstæða í evrum á þeim reikningi. Í beinu framhaldi var andvirði hlutdeildarskírteinanna í Sjóði 9 varið til kaupa á hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9.1 og gjaldeyrisreikningur sóknaraðila hjá varnaraðila nr. [...]29, sem var í evrum, jafnframt eyðilagður. Varð því heldur ekki til innstæða í evrum á þeim bankareikningi. Gat sóknaraðili samkvæmt þessu ekki átt hjá varnaraðila innstæðu í evrum sem forgangs nýtur við slit varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og verður aðalkröfu hans, sem sýnist öðrum þræði reist á skaðabótareglum, þegar af þeirri ástæðu hafnað.
Kemur þá til úrlausnar hvort sóknaraðili hafi sýnt fram á að hann hafi öðlast rétt til skaðabóta úr hendi varnaraðila á grundvelli þeirra samskipta málsaðila sem áður er lýst. Ágreiningslaust er að sú ráðstöfun varnaraðila að verja andvirði innleystra hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 til kaupa á hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9.1 rúmaðist innan þeirrar fjárfestingarstefnu sem samningur málsaðila um einkabankaþjónustu kvað á um. Sú ráðstöfun var einnig í samræmi við 6. grein lánssamningsins frá 12. apríl 2007 en efni hennar er áður rakið. Ekki verður talið að í þeim orðum sóknaraðila, sem féllu í símtalinu 15. september 2008 og rakin eru í hinum kærða úrskurði, hafi falist skýr og ótvíræð fyrirmæli sem varnaraðila hafi á grundvelli samningsins um einkabankaþjónustu verið skylt að hlíta. Þá liggja hvorki fyrir í gögnum málsins upplýsingar um að sóknaraðili hafi hringt í starfsmann varnaraðila síðar sama dag til að fylgja eftir þeim fyrirmælum sem hann kveðst hafa gefið starfsmanninum fyrr um daginn né heldur hvert geti hafa verið efni þess símtals. Loks er til þess að líta sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði að sóknaraðili hafði og nýtti sér skoðunaraðgang að einkabankaþjónustunni í netbanka sínum og fékk að auki sendar skriflegar tilkynningar frá varnaraðila um viðskipti þau sem mál þetta varðar. Þrátt fyrir það hreyfði hann ekki að því er séð verður andmælum vegna þeirra viðskipta sem fram höfðu farið fyrir hans hönd fyrr en 6. október 2008 og þá af því tilefni að honum hafði borist krafa frá varnaraðila 3. sama mánaðar um frekari tryggingar. Þegar allt það er virt sem hér var rakið verður lagt til grundvallar að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi öðlast rétt til skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna þeirra lögskipta sem mál þetta varðar og verður varakröfu sóknaraðila því einnig hafnað. Er samkvæmt þessu staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.
Eftir þessum málsúrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hermann Sævar Guðmundsson, greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. ágúst 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 3. september 2010, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf., var þingfest 29. október það ár og tekið til úrskurðar 26. júní 2013.
Sóknaraðili, Hermann Sævar Guðmundsson, kt. [...], Sævangi 27, Hafnarfirði, krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 1.818.280,20 evrur, verði viðurkennd sem forgangskrafa í slitabú Glitnis hf., samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hann krefst einnig 5,00% ársvaxta af 1.818.280,20 evrum frá 15. september 2008 til 30. september 2008, 5,5% ársvaxta af 1.821.929,65 evrum, frá 1. október til 31. október 2008, 4,5% ársvaxta af 1.860.233,37 evrum, frá 1. nóvember til 15. nóvember, og síðan aðallega dráttarvaxta af 1.833.547,10 evrum, frá 16. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, og af 344.513.707,406 krónum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 3. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara 5,5% dráttarvaxta af 1.833.547,10 evrum frá 16. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 5. gr., sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvaxta af 317.733.855,287 kr. frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Hann krefst þess jafnframt að vextir og dráttarvextir frá 16. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkenndir sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en að krafa um dráttarvexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 1.818.280,20 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa í slitabú varnaraðila, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, auk aðallega dráttarvaxta frá 15. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, og af 341.645.138,752 krónum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara er krafist 5,5% dráttarvaxta af 1.818.280,20 evrum frá 16. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 sbr. 9. gr., sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvaxta af 315.088.265,774 krónum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, allt að frádregnum greiðslum vegna innlausnar hlutdeildarskírteina í Sjóði 9.1-Peningamarkaðsbréf EUR, að fjárhæð 54.085.189 krónur, 3. febrúar 2009, 37.397.305 krónur, 11. mars 2009, 16.152.477 krónur, 5. október 2010 og 6.615.066 krónur, 22. júní 2012.
Hann krefst þess að dráttarvextir samkvæmt framangreindu verði viðurkenndir sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991, en að krafa um dráttarvexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því sé farið fram á að tekið verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Yfirlýsing um skuldajöfnuð:
Sóknaraðili ítrekar jafnframt allar fyrri yfirlýsingar sínar um skuldajöfnuð allra krafna sinna á hendur varnaraðila samkvæmt framansögðu gagnvart hverjum þeim kröfum sem varnaraðili kann að gera á hendur sóknaraðila og jafnframt gagnvart hverjum þeim kröfum sem Íslandsbanki hf. kann að telja sig eiga með vísan til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf., 14. október 2008, sem var tekin á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
Skuldajöfnuði er meðal annars lýst yfir gagnvart kröfu Íslandsbanka hf. skv. lánssamningi sóknaraðila og Glitnis banka hf., 12. apríl 2007, ásamt síðari viðaukum og breytingum en krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld Íslandsbanka hf.
Varnaraðili, slitabú Glitnis hf., kt. [...], Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar að hafna kröfu sóknaraðila, nr. CL20091129-7121 í kröfuskrá.
Þá krefst varnaraðili, Glitnir banki hf., málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir
Á þeim tíma sem atvik þessa máls gerast, haustið 2008, hafði sóknaraðili, í um 20 ár, átt viðvarandi viðskiptasamband við Íslandsbanka sem fékk, 11. mars 2006, nafnið Glitnir banki hf.
Sóknaraðili og Íslandsbanki gerðu, 19. október 2005, samning um einkabankaþjónustu. Samkvæmt viðauka við samninginn mátti bankinn ekki framkvæma nein viðskipti nema með samþykki sóknaraðila og skyldu þau staðfest með undirritun hans svo fljótt sem auðið var.
Sóknaraðili og Íslandsbanki hf. gerðu, 27. febrúar 2006, annan samning um einkabankaþjónustu sem tengdist láni sem sóknaraðili tók hjá bankanum. Á grundvelli þessa samnings skyldi Íslandsbanki sjá um fjárvörslu og eignastýringu fyrir sóknaraðila. Skyldu viðskipti ýmist framkvæmd eftir beiðni sóknaraðila eða að frumkvæði starfsmanna eignastýringar bankans, en þá skyldu viðskiptin rúmast innan ákveðinnar fjárfestingarstefnu. Í þessu fólst að bankinn tók við fjármunum frá sóknaraðila til fjárfestingar í verðbréfum fyrir eigin reikning hans, stofnaði í því skyni vörslureikning á nafni sóknaraðila þar sem eign hans í fjármálagerningum skyldi varðveitt.
Í 2. gr. samningsins segir að sú eignastýring sem bankinn taki að sér skuli vera í samræmi við þá fjárfestingarstefnu sem sóknaraðili samþykki skriflega á hverjum tíma, og skuli fjárfestingarstefnan teljast hluti samningsins, sem viðauki I. Með því veitti sóknaraðili bankanum heimild til að stýra fjármunum sínum innan þeirra frávika sem um gat í fjárfestingarstefnunni. Um leið gaf sóknaraðili bankanum fullt og ótakmarkað umboð, í viðauka II, til þess að stýra eignum sóknaraðila í samræmi við fjárfestingarstefnuna. Umboðið náði einnig til kaupa, framsals og sölu verðbréfa, þ. á m. undirritunar allra skjala sem að mati bankans voru nauðsynleg í tengslum við slík kaup hverju sinni, stofnunar bankareikninga í bankanum, ráðstöfunar greiðslna inn og út af bankareikningum sem stofnaðir voru, innheimtu afborgana, vaxta og verðbóta, arðs af verðbréfum og ráðstöfunar andvirðisins til kaupa á öðrum verðbréfum eða til greiðslu til sóknaraðila.
Samkvæmt hinni skriflegu fjárfestingarstefnu tók bankinn að sér eignastýringu fjármuna sóknaraðila og mátti fyrir hans hönd fjárfesta í a) hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, b) verðbréfum, skuldabréfum eða hlutabréfum sem skráð eru á opinberum verðbréfamörkuðum og c) innlánum í bönkum og sparisjóðum (lausafé). Fjárfestingarstefna sóknaraðila var ákveðin 100% skuldabréf og laust fé og 100% innlend hlutabréf.
Í mars 2007 voru stofnaðar þrjár nýjar sjóðsdeildir í verðbréfasjóðum Glitnis í Fjárfestingarsjóðum Glitnis: Sjóður 9.1-peningamarkaðssjóður EUR, Sjóður 9.2-peningamarkaðssjóður NOK, og Sjóður 9.3-peningamarkaðssjóður USD.
Þann 12. apríl 2007 tók sóknaraðili lán hjá bankanum til tveggja ára að jafnvirði 2.092.423,52 svissneskra franka og 61.727.095 japanskra jena í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum. Í 6. gr. lánssamningsins segir að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsins setji lántaki lánveitanda að handveði, með sérstakri handveðsyfirlýsingu öll þau verðbréf sem séu í vörslum bankans á hverjum tíma á vörslureikningi nr. [..]33, samkvæmt handveðsyfirlýsingu sem sóknaraðili gaf út til bankans. Jafnframt segir að verðbréf á framangreindu vörslusafni skuli á hverjum tíma vera bundin/skilyrt eingöngu við eign í Sjóði 9 peningamarkaðsbréf.
Í október 2007 setti Glitnir banki verklagsreglur um framkvæmd viðskiptafyrirmæla sem tóku mið af tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID-tilskipun). Með verklagsreglunum leitaðist bankinn við að tryggja viðskiptavinum sínum bestu mögulega niðurstöðu við framkvæmd viðskiptafyrirmæla.
Yfirlit yfir hreyfingu þeirrar verðbréfaeignar sóknaraðila, sem bankinn hafði umsjón með, sýnir að keypt voru hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1-peningamarkaðsbréf EUR í október og nóvember 2007 og febrúar og mars 2008 og svo 16. og 18. september 2008. Keypt var í Sjóði 1B í apríl 2008.
Á þessum tíma, haustið 2008, var sóknaraðili forstjóri eins stærsta fyrirtækis landsins og kveðst hafa um árabil fylgst grannt með fjármálamörkuðum hérlendis og erlendis, enda rekstur og afkoma fyrirtækisins í ýmsu tilliti háð aðstæðum á fjármálamörkuðum, sérstaklega á gjaldeyris- og hrávörumarkaði. Þegar óveðursský fóru að hrannast upp yfir alþjóðlegum fjármálamörkuðum, á miðju ári 2008, hafi sóknaraðili gert sér grein fyrir hættunni og vaktað fjárfestingar sínar og þeirra félaga, sem hann bar ábyrgð á, með sérstakri aðgæslu og varkárni. Eitt stærsta fjármálafyrirtæki í heimi, Lehman Brothers, hafi, 15. september 2008, verið tekið til gjaldþrotaskipta og hafi sóknaraðili vitað að fall þessa fjármálarisa myndi hafa mikil áhrif á fjármálastofnanir um heim allan, enda hafi endurfjármögnun þeirra þá þegar verið orðin afar erfið og gefið að róðurinn myndi enn herðast í kjölfar þessara tíðinda.
Sóknaraðili átti á þessum tíma hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 Peningamarkaðssjóði (Sjóður 9) og vissi að þeir sem skulduðu sjóðnum mest áttu jafnframt mikið hlutafé, eða tengdust félögum sem áttu mikið hlutafé, í Glitni banka hf. Sóknaraðili kveðst hafa talið rétt, til að tryggja fjármuni sína, að innleysa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 og kaupa erlendan gjaldeyri fyrir andvirði þeirra enda hafi lengi reynst tryggast að fjárfesta í erlendum gjaldeyri þegar blikur væru á lofti um stöðugleika íslensku krónunnar, sérstaklega fyrir þá sem báru skuldir í erlendri mynt eins og sóknaraðili. Hann hafi því þegar hafist handa við að koma lausum verðbréfum og hlutdeildarskírteinum þeirra félaga sem hann var í forsvari fyrir í reiðufé, sem og að losa um sína eigin verðbréfaeign og eiginkonu sinnar. Til frekari sönnunar um staðföst áform sóknaraðila um að innleysa öll hlutdeildarskírteini í sjóðum og færa verðmæti þeirra yfir í reiðufé bendir hann á að hann hafi innleyst um og eftir miðjan septembermánuð 2008 allar eignir sínar og eiginkonu sinnar í þeim verðbréfa- og peningamarkaðssjóðum sem þau áttu í, ásamt því að innleysa samskonar eignir fyrir þau fyrirtæki sem hann var í fyrirsvari fyrir. Þeim fyrirmælum hafi verið fylgt eftir og komið í verk í öllum öðrum bönkum en Glitni banka hf., enda hafi sóknaraðili og þau félög sem hann bar ábyrgð á ekki tapað einni einustu krónu í bankahruninu utan þeirra fjármuna sem muni tapast verði kröfur sóknaraðila í þessu máli ekki teknar til greina.
Sóknaraðili hringdi í tengilið sinn hjá Glitni, Bjarna Markússon, 15. september 2008, sama dag og bankinn Lehman Brothers féll. Í endurriti af símtalinu kemur þetta fram: Heyrðu ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að færa mig yfir í evrur með þessar krónur þangað til þessi læti ganga yfir. Símtalið endaði fyrirvaralítið en lauk á þeim orðum að þeir myndu ræðast aftur við innan skammrar stundar.
Að sögn sóknaraðila ætlaði hann að leggja það fyrir tengilið sinn að selja hlutdeildarskírteini í Sjóði 9 og kaupa evrur í staðinn. Þar sem símtalið varð endasleppt kveðst sóknaraðili hafa fylgt fyrirmælunum eftir í símtali við Bjarna í farsíma tengiliðsins, síðdegis 15. september 2008, til þess að ekki léki vafi á því að fyrirmælin hefðu komist rétt til skila. Sóknaraðili kveðst hafa staðið réttilega í þeirri trú að hann ætti innstæðu á evrureikningi sínum sem næmi andvirði innleystra hlutdeildarskírteina í Sjóði 9 að fjárhæð 1.818.280,20 evrur sem sé höfuðstóll kröfu hans.
Framlögð gögn sýna að bankinn sendi sóknaraðila í venjulegum pósti tilkynningu 15. september 2008 þess efnis að hann hafi selt sjóðsbréf í Sjóði 9. Jafnframt sendir bankinn honum tilkynningu 16. september þess efnis að hann hafi keypt sjóðsbréf í sjóði 9.1.
Næsta skráða símtal sóknaraðila við tengiliðinn fór fram átta dögum síðar, 23. september 2008. Í því minntist sóknaraðili hvorki á kaup á evrum né gerði athugasemdir við það að keypt hafi verið sjóðsbréf í Sjóði 9.1. - peningamarkaðsbréf EUR (Sjóður 9.1.) viðskiptadagana 16. og 18. september 2008.
Samkvæmt framlögðum tölvupósti fékk sóknaraðili veðkall frá bankanum 17. september 2008. Honum var sagt að þörf væri á viðbótartryggingu í Sjóði 9 eða 18 milljónum króna í peningum. Sóknaraðili svaraði með tölvupósti 18. september og sagði tengilið sínum að taka 18 milljónir króna af tilteknum reikningi og bæta í evrupottinn. Í framhaldi af því keyptu starfsmenn bankans hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1, peningamarkaðssjóði fyrir evrur og sendu sóknaraðila í venjulegum pósti tilkynningu þess efnis sama dag.
Meðal fram lagðra gagna er einnig yfirlit sem sýnir að sóknaraðili skoðaði verðbréfasafn sitt í netbankanum nánast daglega frá 15. september til 6. október 2008.
Glitnir banki tilkynnti, 29. september 2008, um tímabundna lokun fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini hjá rekstrarfélaginu, Glitni sjóðum hf., í samræmi við 27. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Sú frestun tók til viðskipta með öll hlutdeildarskírteini, þar með talið í Sjóði 9 og 9.1. Bankinn opnaði aftur fyrir viðskipti með skírteini í sjóðunum 1. október 2008. Í tilkynningu bankans þann dag segir að ákvörðunin um að loka fyrir kaup og sölu sjóðanna hafi verið nauðsynleg til að tryggja rétta verðmyndun á eignum viðskiptavina bankans í sjóðunum og jafnframt til að skapa svigrúm og tíma til að koma eignum í verð.
Með tölvupósti lánastjóra bankans, eftir lokun hans 3. október 2008, var sóknaraðila tilkynnt um veðkall þar sem hlutfall tryggingar á vörslureikningi sóknaraðila var komið niður fyrir skilgreind mörk í 6. gr. lánssamningsins. Þegar sóknaraðili svaraði veðkallinu með tölvupósti, að morgni 6. október 2008, gerði hann athugasemdir við að keypt hafi verið sjóðsbréf í Sjóði 9.1. Þá voru liðnir 22 dagar frá símtalinu við tengilið hans hjá banknaum, 15. september 2008. Formleg krafa um leiðréttingu á meintum mistökum bankans var sett fram með bréfi fyrrverandi lögmanns sóknaraðila til Nýja Glitnis banka hf., 15. október 2008, þar sem vísað er til þess að sóknaraðili hafi ekki fengið afgreiðslu í samræmi við fyrirmæli sín.
Sóknaraðili kveður að, þegar óróleikinn á fjármálamörkuðum jókst enn og þar sem íslenska ríkið hafi að segja má „þjóðnýtt“ Glitni banka í lok septembermánaðar 2008 hafi hann aftur farið að gæta að því að eignir hans væru í öruggri höfn. Þá hafi komið í ljós, honum til mikillar forundrunar, að í stað þess að kaupa evrur fyrir andvirði innleystra hlutdeildarskírteina í Sjóði 9, auk viðbótarfjárhæðar sem sóknaraðili hafði lagt fram til að leiðrétta tryggingaþekju samkvæmt lánssamningi, í samræmi við skýr og ótvíræð fyrirmæli sóknaraðila, hafi verið keypt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1. Þá þegar hafi sóknaraðili haft samband við tengilið sinn hjá bankanum og leitast við að fá þessi mistök lagfærð.
Sóknaraðili hafi þannig allt frá því að hann varð var við ofangreinda misfærslu í byrjun október 2008, talið að hann ætti rétt til þess, og haft trú á að eignastaða hans hjá Glitni banka og/eða Íslandsbanka yrði leiðrétt þannig að hún endurspeglaði réttilega fyrirmæli hans um kaup á evrum.
Sóknaraðili getur þess að opnað hafi verið aftur fyrir viðskipti með sjóði Glitnis eftir nokkurra daga lokun en þá hefðu sjóðirnir verið endurmetnir og gengi lækkað um 7%. Við það tilefni hafi Fjármálaeftirlitið tilkynnt að allar fjárfestingar sjóðsins væru í samræmi við lög, reglur og fjárfestingaheimildir sjóðsins og að óvissu um sjóði Glitnis sjóða hefði verið eytt. Á þessum tíma hafi sóknaraðili því ekki vitað um þá stórkostlegu rýrnun á eignum Sjóðs 9 og Sjóðs 9.1, sem nokkru síðar varð staðreynd, þó svo að hann hafi óttast um afdrif sjóðanna.
Þar sem sóknaraðili hafi verið sannfærður um að hin augljósu mistök yrðu leiðrétt og í ljósi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um tryggingar á öllum innstæðum og setningu hinna svokölluðu „neyðarlaga“, sem gerðu allar innstæður að forgangskröfum hafi sóknaraðili talið fjármuni sína vistaða á öruggan hátt á viðsjárverðum tímum á fjármálamarkaði. Hann hafi því ekki haft frekari áhyggjur af sparifé sínu en við hafi tekið ærin verkefni við að tryggja óraskaða starfsemi fyrirtækisins sem hann stýrði á tímum alvarlegs gjaldeyrisskorts og íslensk innflutningsfyrirtæki hafi glímt við aðrar viðskiptahindranir.
Það hafi því komið sóknaraðila á óvart þegar eignastaða hans hjá bankanum hafi ekki verið leiðrétt um miðjan októbermánuð. Hann hafi því talið sinn eina kost að leita aðstoðar lögmanna við að fá mál sín leiðrétt. Framlögð bréf sýni að sóknaraðili hafi staðfastlega haldið fram þessum rétti sínum allt frá því að lögmaður hans sendi bankanum bréf, 15. október 2008.
Fáist aðalkrafa sóknaraðila viðurkennd standi innstæðan til tryggingar greiðslu lánssamnings, 12. apríl 2007, milli sóknaraðila og Íslandsbanka hf., sem framseldur var frá Glitni banka hf. í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008, og muni því, verði hún viðurkennd, að öllu leyti renna til uppgreiðslu lánssamningsins. Að sama skapi muni skaðabætur, fáist varakrafa sóknaraðila viðurkennd, nýttar til skuldajöfnunar við sama lánssamning.
Sóknaraðili hafi staðfastlega hafnað því að hann eigi þá fjármuni sem tengjast inneign eða innleystum fjárhæðum úr Sjóði 9.1, enda sé réttmæt eign hans innstæða á innlánsreikningi en ekki þau verðmæti sem felist í innleystum og óinnleystum hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9 eða 9.1.
Þar sem sóknaraðili hafi alla tíð frá því að ofangreind atvik áttu sér stað verið sannfærður um að réttur hans næði fram að ganga hafi hann sótt rétt sinn til skuldajöfnunar milli kröfu sinnar um leiðréttingu á innstæðureikningi sínum og/eða kröfu um skaðabætur af sama tilefni við kröfu Íslandsbanka samkvæmt áður nefndum lánssamningi. Í því sambandi hafi lögmenn sóknaraðila átt fund með Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis banka, og fulltrúa slitastjórnar í skuldajöfnunarnefnd sem meti kröfur um skuldajöfnun milli krafna á hendur Glitni banka og skulda við Íslandsbanka. Á þeim fundi hafi komið fram að svo virtist sem krafan væri klár og ótvíræð, en að 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gerði það að verkum að krafa sóknaraðila væri ekki tæk til skuldajöfnunar, þrátt fyrir ákvæði 13. gr. ákvörðunar FME frá 14. október 2008, sem mælir fyrir um að skuldajöfnunarréttur haldi þrátt fyrir framsal krafna til Nýja Glitnis banka (nú Íslandsbanka). Rökin fyrir þeirri niðurstöðu hafi verið sögð þau að krafan hafi fyrst orðið til þegar skemmri tími en þrír mánuðir voru til frestdags, sem í tilviki Glitnis banka hf. ákvarðaðist síðar sem 14. nóvember 2008. Sóknaraðili hafnar alfarið þeim sjónarmiðum.
Ákveðið hafi verið, í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins, að slíta erlendum peningamarkaðssjóðum, þar á meðal Sjóði 9.1. Greitt var inn á innlánsreikninga hlutdeildarskírteinishafa í samræmi við hlutfallslega eign þeirra. Greitt var úr Sjóði 9.1. 3. febrúar 2009 (hluti greiddur út í ISK og hluti í EUR), 11. mars 2009, 5. október 2010 og 22. júní 2012.
Með bréfi fyrrverandi lögmanns sóknaraðila til Nýja Glitnis banka hf., 7. janúar 2009, var lýst yfir skuldajöfnuði við kröfur Nýja Glitnis banka hf. á hendur sóknaraðila, þ.e. á milli fjárhæðar bótakröfu sóknaraðila á hendur Nýja Glitni banka hf. vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir þegar ekki var orðið við meintum fyrirmælum hans, 15. september 2008, og kröfur Nýja Glitnis banka hf. á hendur sóknaraðila. Yfirlýsingu sóknaraðila um skuldajöfnun var hafnað með bréfi Íslandsbanka hf., 24. febrúar 2009, með vísan til 13. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, 14. október 2008. Í fyrrgreindu bréfi Íslandsbanka hf. segir að liggi fyrir afdráttarlaus og skrifleg viðurkenning varnaraðila á tilvist bótakröfu og að eigandi hennar geti fengið hana greidda með því að beita skuldajöfnun á móti kröfu sem hafi verið framseld Íslandsbanka hf., muni Íslandsbanki hf. færa kröfur sínar á hendur sóknaraðila samkvæmt lánssamningnum niður að svo miklu leyti sem bótakrafan hrökkvi til greiðslu hennar.
Með gildistöku laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, 22. apríl 2009, var Glitnir banki tekinn til slitameðferðar. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði bankanum slitastjórn, 12. maí 2009. Samkvæmt lögum nr. 44/2009, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Slitastjórn birti í fyrsta sinn innköllun í Lögbirtingablaðinu 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti því á miðnætti 26. nóvember 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu við slitameðferð varnaraðila með kröfulýsingu, 26. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 2.293.335,87 evrur. Kröfunni var aðallega lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 þar sem hún væri innstæða. Til vara var skaðabótakröfu lýst sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Dráttarvöxtum frá 22. apríl 2009 til greiðsludags og kostnaði vegna kröfulýsingar, 2.732 evrum, var lýst sem eftirstæðri kröfu á grundvelli 114. gr. laga nr. 21/1991.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila, 27. apríl 2010, vegna vanreifunar. Krafan var ekki talin eiga rétt á sér auk þess sem frekari gögn vantaði henni til stuðnings. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar varnaraðila til viðurkenningar kröfunnar með bréfi, 18. maí 2010. Á kröfuhafafundi, 19. maí 2010, var fjallað um ágreining vegna afstöðu til kröfunnar. Fundur til að reyna að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 var haldinn 19. júlí 2010. Þar sem ekki tókst að leysa ágreining um kröfuna á fundinum ákvað slitastjórn varnaraðila að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Bayerische Landesbank o.fl. og Acmo Sarl o.fl. sem einnig voru kröfuhafar í slitabú Glitnis tóku undir afstöðu slitastjórnar, mótmæltu kröfum sóknaraðila og kröfðust aðildar að málinu. Vegna afstöðu sinnar voru þeir einnig skilgreindir sem varnaraðilar. Á dómþingi 8. apríl 2011 féllu Bayerishe Landesbank o.fl. frá aðild sinni að málinu í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 142/2011 og hið sama gerðu Acmo Sarl o.fl. 25. maí 2011.
Málsástæður sóknaraðila
Aðalkrafa
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði að hann eigi rétt til innstæðu að fjárhæð 1.818.280,20 evrur auk vaxta og dráttarvaxta af þeirri fjárhæð. Hann telur nánar tiltekið að þar sem sýnt sé að fyrirmæli hans um kaup á evrum hafi verið gefin þremur vikum fyrir fall Glitnis banka hf. eigi hann réttmæta kröfu um að fjármunir hans standi sem innstæða að ofangreindri fjárhæð enda megi viðskiptamenn fjármálastofnana gera ráð fyrir því að fyrirmælum þeirra sé framfylgt og að eignastaða þeirra hjá viðkomandi stofnun endurspegli þá stöðu sem þau fyrirmæli leiði til, sbr. ákvæði samnings um einkabankaþjónustu Íslandsbanka hf., 27. febrúar 2006. Þessi réttur sé tryggður í 21. gr. samningsins þar sem segi að verði bankinn ekki fær um að inna af hendi greiðslu á innstæðu, verðbréfum eða reiðufé til viðskiptavinar eða bú bankans verði tekið til gjaldþrotaskipta geti viðskiptamaðurinn krafið Tryggingasjóð innstæðueigenda um andvirði innstæðu.
Telji fjármálafyrirtæki að fyrirmæli séu á einhvern hátt óskýr eða óljós þannig að vafi leiki á efni þeirra beri fjármálafyrirtækinu að hafa samband við viðskiptavininn og eyða þeim vafa. Því hljóti að bera að túlka allan vafa um skýrleika viðskiptafyrirmæla, viðskiptamanni og þar með „neytanda“ í hag. Sönnunarbyrðin fyrir því að sóknaraðili hafi beðið starfsmann bankans að kaupa verðbréf í Sjóði 9.1 hljóti því að hvíla á bankanum.
Sóknaraðili hafi gripið til samræmdra aðgerða varðandi eigin verðbréfaeign, verðbréfaeign eiginkonu sinnar sem og þeirra fyrirtækja sem hann bar ábyrgð á. Í öllum tilvikum hafi hann innleyst hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum og kosið að láta andvirði þeirra standa sem inneign í reiðufé. Það hefði því verið fullkomlega órökrétt hefði sóknaraðili, eftir að hafa innleyst alla þessa fjármuni þeirra hjóna og fyrirtækjanna úr peningamarkaðssjóðum, keypt sig inn í annan slíkan sjóð í sömu andrá. Þannig hefði sóknaraðili ekki tekið þá einbeittu ákvörðun að flýja með fjármuni úr peningamarkaðssjóðum og setja þá í vaxtaminni innlán hefði hann ekki talið að peningamarkaðssjóðirnir væru ekki eingöngu rangt verðlagðir heldur beinlínis áhættusamir.
Sóknaraðili telur atvik þessa máls frábrugðin atvikum mála þeirra fjölmörgu sem nú reyni að ná fram rétti sínum vegna þess að ekki náðist að framkvæma viðskiptabeiðnir þeirra sem voru lagðar fram stuttu fyrir fall bankanna. Hann hafi sannanlega lagt fram skýra og ótvíræða beiðni um tiltekin viðskipti þremur vikum fyrir fall Glitnis banka. Í þessu tilviki hafi starfsmenn ekki verið í tímahraki, heldur hafi þeir ekki fylgt beiðni hans eftir samkvæmt efni hennar.
Varnaraðili hafi, eftir að bankinn var kominn undir stjórn FME, í samskiptum við sóknaraðila látið í ljós þá skoðun sína að sóknaraðila hafi ekki verið heimilt að fjárfesta í gjaldeyri fyrir andvirði innleystra verðbréfa með vísan til skilmála í 6. gr. lánssamnings milli aðila þar sem vörslureikningur nr. [..]33 sé settur að handveði til tryggingar greiðslum samkvæmt lánssamningi. Í 6. gr. segi hins vegar jafnframt að: Verðbréf á ofangreindu vörslusafni skulu á hverjum tíma vera bundin/skilyrt við eign í eingöngu eftirfarandi sjóði hjá lánveitanda: Sjóður 9 peningamarkaðsbréf. Þótt ekki sé alls kostar ljóst hvað þetta orðalag þýði, sé beinlínis gert ráð fyrir því síðar í ákvæðinu að tryggingarhlutföll megi leiðrétta með handveðsetningu á bankainnstæðu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli. Í þeirri handveðsyfirlýsingu sem var undirrituð samhliða lánssamningnum sé innstæða á gjaldeyrisreikningum sóknaraðila hjá Glitni banka, eins og hún er á hverjum tíma, veðsett bankanum. Því sé ljóst að sú ráðstöfun sem sóknaraðili mælti fyrir um brjóti ekki gegn skilyrðum veðsetningar. Þar sem viðskiptunum hafi enn fremur ekki verið hafnað á grundvelli 10. gr. samningsins um einkabankaþjónustu sem mælir fyrir um að bankinn geti neitað að fara eftir fyrirmælum um viðskipti, meðal annars séu þau óvenjuleg miðað við fyrri viðskipti, hafi sóknaraðili mátt treysta því að viðskiptin næðu fram að ganga eins og beðið var um. Hins vegar sé hvorki gert ráð fyrir í lánssamningi né í handveðsyfirlýsingu að hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1 geti verið andlag veðsetningar. Sú ráðstöfun brjóti því gegn orðalagi lánssamningsins og handveðsyfirlýsingarinnar.
Sóknaraðili hafi eins og áður greinir hafnað því staðfastlega að hann eigi þá fjármuni sem tengist inneign eða innleystum fjárhæðum úr Sjóði 9.1 Peningamarkaðssjóður EUR enda eigi hann rétt til innstæðu sem nemi þeirri evrufjárhæð sem fengist hefði fyrir hin innleystu skírteini. Sú fjárhæð standi síðan til tryggingar greiðslu á framangreindum lánssamningi við Íslandsbanka hf. Sóknaraðili telji því rétta og eðlilega niðurstöðu þá að krafa um innstæðu verði viðurkennd, í það minnsta að formi til svo að hægt verði að gera upp skuld hans við Íslandsbanka hf., svo sem þegar hefði verið gert hefði sú innstæða sem hann krefst verið honum laus til ráðstöfunar á lokagjalddaga lánssamningsins 2. maí 2009.
Varakrafa
Verði aðalkrafa um að kröfufjárhæð verði viðurkennd sem innstæða ekki tekin til greina sé tjón sóknaraðila vegna þessa talsvert og krefjist hann því greiðslu skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna brota starfsmanns bankans gegn skýrum fyrirmælum hans, 15. september 2008, og að framan er lýst.
Til vara krefst sóknaraðili þess að honum verði greidd sama fjárhæð og í aðalkröfu, auk dráttarvaxta, með sömu rökum, en á öðrum grundvelli, af eignum búsins vegna ofangreinds tjóns. Ljóst sé að starfsmaður bankans hafi bakað sóknaraðila umtalsvert tjón með því að fara, á saknæman hátt þvert gegn fyrirmælum hans um kaup á evrum fyrir andvirði innleystra hlutdeildarskírteina. Ýmis rök bendi til þess að ástæða þess að fyrirmælunum hafi ekki verið fylgt sé sú að á þeim tíma sem fyrirmælin voru gefin hafi bankinn ekki átt evrur til að standa straum af fyrirmælum sóknaraðila. Starfsmenn varnaraðila hafi nefnt það sem ástæðu þegar sóknaraðili hafi innt þá eftir skýringum. Þá bendi ýmis atriði til þess að starfsmenn eignastýringar Glitnis banka hf. hafi, í aðdraganda falls bankans, gætt hagsmuna bankans á kostnað viðskiptamanna með því að beina fjárfestingum til sjóða sem voru reknir af Glitni sjóðum, dótturfélagi Glitnis banka, þrátt fyrir betri vitund um að sjóðirnir stæðu höllum fæti og að áhlaup hefði hafist á sjóðina með innlausnum hlutdeildarskírteinishafa í stórum stíl. Þótt ástæður brota gegn fyrirmælum liggi ekki endanlega fyrir á þessu stigi og þær séu látnar liggja á milli hluta sé tjónið engu að síður staðreynd og starfsmaður bankans hafi valdið tjóni sem bankanum sé skylt að bæta sóknaraðila.
Þá sé ótalið það tjón sem sóknaraðili hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi ekki getað haft yfirráð yfir fjármunum sínum til að geta brugðist við ýmsum sveiflum á gjaldeyris- og hlutabréfamörkuðum til verndar öðrum eignum sínum og/eða niðurgreiðslu þeirra lána sem hann var skuldbundinn til að endurgreiða í erlendum myntum.
Verðmæti hafi fengist úr þeim hlutdeildarskírteinum sem starfsmaður bankans fjárfesti í á ólögmætan hátt í nafni sóknaraðila. Sóknaraðili hafi staðfastlega haldið því fram að þeir fjármunir séu honum óviðkomandi. Hins vegar telji sóknaraðili að varnaraðila sé skylt miðað við málatilbúnað hans að nýta þá fjármuni til að draga úr tjóni sínu vegna hinnar ólögmætu háttsemi. Verði aðal- eða varakrafa sóknaraðila viðurkennd sem og skuldajöfnuðarréttur sóknaraðila á þeirri kröfu gagnvart lánssamningi sem framseldur var Íslandsbanka, muni því ekki standa á sóknaraðila að veita þann atbeina sem þurfi til að leiðrétta rangfærslu varnaraðila og koma fjármunum sem leystir hafa verið úr Sjóði 9.1 aftur til Glitnis banka ehf., verði það talið nauðsynlegt. Verði varakrafa sóknaraðila viðurkennd en ekki skuldajöfnuðarréttur hans gagnvart áður nefndum lánssamningi, eða verði hvorki aðal- né varakrafa sóknaraðila tekin til greina krefst sóknaraðili þess að umræddir fjármunir komi til takmörkunar á tjóni sóknaraðila enda í samræmi við málatilbúnað varnaraðila.
Dráttarvaxtakrafa
Aðalkrafa sóknaraðila gerir ráð fyrir innlánsvöxtum á evrureikningum eins og þeir voru skráðir hjá Glitni banka hf. á tímabilinu frá 15. september 2008, það er á þeim degi er sóknaraðili átti fyrst tilkall til innstæðu evra á gjaldeyrisreikningi sínum, og þar til mánuður var liðinn frá því að sóknaraðili gerði fyrst formlega kröfu um leiðréttingu eignastöðu sinnar hjá Glitni banka, eða til 15. nóvember 2008.
Aðalkrafa sóknaraðila um vexti, bæði í aðal- og varakröfu byggir á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar sem segir að dráttarvexti skuli reikna út frá samtölu gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana auk sjö hundraðshluta álags. Ekki sé gerður greinarmunur á dráttarvöxtum á kröfur í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðlum ólíkt því sem var í gildistíð eldri vaxtalaga nr. 25/1987 sem lög nr. 38/2001 felldu úr gildi. Þar sem slíkur greinarmunur sé ekki gerður hljóti eitt og hið sama að gilda hvort sem kröfur séu í íslenskum krónum eða t.d. evrum eins og krafa sóknaraðila, ella hefði slíkt sérstaklega verið tekið fram.
Verði aðalkrafa sóknaraðila um vexti, bæði í aðal- og varakröfu ekki tekin til greina byggir sóknaraðili á III. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 sem mælir fyrir um að vextir á erlendar kröfur skuli vera þeir sömu og síðast voru auglýstir af Seðlabanka Íslands, fimm árum eftir gildistöku hinna nýju laga. Síðustu vextir Seðlabanka Íslands á peningakröfur í evrum voru auglýstir 26. maí 2006 og námu þá 5,5%.
Krafa um skuldajöfnun við lánssamninga sóknaraðila hjá varnaraðila og Íslandsbanka hf.
Sóknaraðili áréttar að lýst hafi verið yfir skuldajöfnuði milli þessarar skaðabótakröfu og lánssamnings, dags. 12. apríl 2007, sem var framseldur Íslandsbanka hf. Íslandsbanki hafi hafnað skuldajöfnuði þar til krafan fáist viðurkennd. Því muni andvirði kröfunnar, verði hún viðurkennd, að öllu leyti renna til að greiða upp lánssamninginn, fáist réttur til skuldajöfnunar viðurkenndur. Slitastjórn hafi, óformlega þó, lýst yfir þeirri skoðun sinni að ekki sé unnt að skuldajafna kröfunni við skuldir sóknaraðila hjá Íslandsbanka, þar sem skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Eins og með margt annað sem tengist hinum svokölluðu „neyðarlögum“ og þeim „sérstöku aðstæðum“ sem sköpuðust í kjölfar bankahrunsins hafi menn túlkað ákvæði laganna og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, sem teknar voru á grundvelli þeirra, á mismunandi hátt. Þannig virðist slitanefndir bankanna í ýmsum tilvikum hafa tekið þá ákvörðun að túlka rétt til skuldajöfnuðar við kröfur bankans þröngt, þ.e. valin sé sú túlkun sem komi sér í flestum tilvikum verst fyrir þá sem eigi kröfu á gömlu bankana á móti kröfum sem hafi verið framseldar yfir í nýju bankana.
Þessum sjónarmiðum vísi sóknaraðili alfarið á bug með eftirfarandi rökum:
(i) Almenn skilyrði skuldajafnaðar
Sóknaraðili telur öll skilyrði skuldajafnaðar uppfyllt. Yfirlýsingar sóknaraðila um skuldajöfnuð hafi allar borið með sér hvaða kröfu var verið að jafna á móti hvaða skuldum, yfirlýsingarnar hafi verið án fyrirvara og kröfur verið hæfar til að mætast, enda hafi þær báðar verið fjárkröfur og af sömu rót runnar, það er bæði lánssamningur sóknaraðila hjá Glitni banka hf. og viðskipti fyrir reikning sóknaraðila hafi verið gerð á grundvelli samnings um einkabankaþjónustu og þar á ofan hafi þær eignir sem ráðstafað var staðið til tryggingar greiðslu lánssamningsins.
(ii) Skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
- Sóknaraðili „eignaðist kröfuna“ áður en þrír mánuðir voru til frestdags þegar samningur um einkabankaþjónustu var gerður (krafa um að fyrirmælum sé framfylgt)
Skilyrði ákvæðis 100. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt fyrir þá kröfu sem sóknaraðili hafi uppi til skuldajöfnuðar enda hafi sóknaraðili eignast hana áður en þrír mánuðir voru til frestdags, sem í tilviki Glitnis banka hf. sé 15. nóvember 2008.
Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til sjónarmiða um gagnkvæmni í viðskiptasambandi og þess að skýra verði 100. gr. til samræmis við önnur ákvæði laga nr. 21/1991, t.d. 137. gr. (sem fjalli um riftun veð- og tryggingarréttinda) en í dómaframkvæmd hafi riftunarregla þessa ákvæðis verið skýrð þannig að sé krafa í raun framhald af eldra skuldarsambandi sé ekki hægt að líta svo á að ný krafa hafi stofnast. Almennt sé því talið að mikið þurfi til að koma til þess að viðurkennt sé að skuld sé ný. Mætti því beita sömu rökum við skýringu á 100. gr. þannig að horft verði til þess hvort stofnað hafi verið til efnislega nýrra kröfuréttinda síðustu þrjá mánuði fyrir frestdag. Yrði slík skýring ekki tæk væri í raun tilviljunum háð hvort skuldajöfnuður væri tækur. Hér eigi það sjónarmið sérstaklega við, þar sem dagskrá Alþingis, þ.e. dagsetning samþykktar laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki ráði því hvenær frestdagur ákvarðist. Að mati sóknaraðila leiðir það til einstaklega ósanngjarnrar niðurstöðu eigi grandlaus aðili sem hafi orðið fyrir tjóni af völdum Glitnis, 15. ágúst 2008, rétt til skuldajöfnunar, en annar jafngrandlaus aðili sem verði fyrir tjóni af völdum sama aðila 15. september 2008 eigi ekki sama rétt. Slíkt geti ekki verið í samræmi við vilja löggjafans.
Réttarreglur er lúti að skuldajöfnuðarrétti séu almennt á þann veg í norrænum rétti að greiða eigi fyrir skuldajöfnuði með vísan til skilvirknisjónarmiða. Ákvæði 100. gr. sé hins vegar ætlað að sporna við misnotkun á úrræðinu og koma í veg fyrir kröfukaup sem geti skapað vissum kröfuhöfum betri aðstöðu en hinum. Hér sé sannanlega ekki um slíkt að ræða. Þegar grandlaus aðili verði fyrir tjóni vegna saknæmrar háttsemi sé dagljóst að hinn grandlausi hafi ekki verið að reyna að skapa sér betri aðstöðu gagnvart þrotamanni, enda kalli sá aðili ekki yfir sig hina saknæmu háttsemi, en sé þvert á móti saklaus tjónþoli. Með því að koma í veg fyrir skuldajöfnun slíks aðila sé ekki verið að þjóna þeim sjónarmiðum sem 100. gr. laga nr. 21/1991 byggi á.
- Ákvæði 100. gr. á ekki við um kröfur sem verða til í gagnkvæmu og virku viðskiptasambandi milli tveggja aðila
Þá telur sóknaraðili 100. gr. laga nr. 21/1991 ekki eiga við um þá kröfu sem hér sé deilt um þar sem hún hafi orðið til í virku og gagnkvæmu viðskiptasambandi sem sé grundvallað á samningi milli aðila.
Í þessu tilviki hafi viðskiptasamband sóknaraðila og Glitnis banka stofnast eigi síðar en við undirritun samnings um einkabankaþjónustu, 27. febrúar 2006. Samkvæmt þeim samningi eigi sóknaraðili þá kröfu að farið sé eftir fyrirmælum hans um kaup og sölu fjármálagerninga en starfsmenn Glitnis framkvæmi fyrirmælin fyrir hans hönd. Orðið hafi mistök við meðferð eigna sóknaraðila sem settar hafi verið sem trygging fyrir efndum umrædds lánssamnings og verði þessar tvær kröfur því ekki í sundur slitnar.
Að mati sóknaraðila sé ekki eðlilegt að 100. gr. sé skýrð þannig að rakin séu upp viðskipti aðila síðustu þrjá mánuði fyrir frestdag með þeim hætti að kröfur bankans á hendur viðskiptamanni haldist að fullu með kröfu um greiðslu vaxta, verðbóta o.s.frv. en að gagnkröfur viðskiptamannsins, meira að segja skaðabótakröfur vegna tjóns sem hann gat ekki spornað við, séu felldar niður á grundvelli takmörkunar á rétti til skuldajöfnuðar.
- Uppfylli skuldajöfnuður ekki skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 er unnt að beita ákvæðum laganna um riftun greiðslu, eins og fram kemur í 136. gr. laganna
Sóknaraðili ber því við að innstæðan á vörslu- og/eða gjaldeyrisreikningi hans hafi staðið til greiðslu lánssamnings milli aðila. Ákvæði 136. gr. laga nr. 21/1991 komi því til skoðunar þar sem að vissu leyti sé um greiðslu lánssamningsins að ræða. Ákvæði 136. gr. veiti ekki sjálfstæða riftunarheimild, heldur verði að skoða hvort greiðsla/skuldajöfnuður, sem farið hafi fram og ekki uppfylli skilyrði 100. gr., falli innan einhverra þeirra riftunarheimilda sem gjaldþrotalög geyma. Með öðrum orðum sé ekki nægilegt að benda á að gagnkrafa til skuldajöfnuðar hafi orðið til síðar en þremur mánuðum fyrir frestdag, heldur verði einnig að styðjast við atvik eins og að greiðslan/skuldajöfnuðurinn hafi falið í sér greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri eða verið ótilhlýðilegur í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst sé að ekki er um slíkt að ræða í þessu tilviki.
Útreikningur á kröfu gagnvart lánsskuldbindingu
a) Aðalkrafa miðað við aðalkröfu vaxta fram til 22. apríl 2009:
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Höfuðstf vx |
Nýr höfuðstóll |
|
15.9.2008 |
30.9.2008 |
5,00% |
1.818.280,20 |
3.649,45 |
3.649,45 |
1.821.929,65 |
|
30.9.2008 |
31.10.2008 |
5,50% |
1.821.929,65 |
8.303,72 |
8.303,72 |
1.830.233,37 |
|
31.10.2008 |
15.11.2008 |
4,50% |
1.830.233,37 |
3.313,73 |
3.313,73 |
1.833.547,10 |
|
15.11.2008 |
30.11.2008 |
26,50% |
1.833.547,10 |
20.245,42 |
1.833.547,10 |
|
|
30.11.2008 |
31.12.2008 |
26,50% |
1.833.547,10 |
40.490,83 |
1.833.547,10 |
|
|
31.12.2008 |
31.1.2009 |
25,00% |
1.833.547,10 |
38.198,90 |
1.833.547,10 |
|
|
31.1.2009 |
28.2.2009 |
25,00% |
1.833.547,10 |
38.198,90 |
1.833.547,10 |
|
|
28.2.2009 |
31.3.2009 |
25,00% |
1.833.547,10 |
38.198,90 |
1.833.547,10 |
|
|
31.3.2009 |
22.4.2009 |
24,00% |
1.833.547,10 |
26.892,02 |
1.833.547,10 |
|
|
217.491,86 |
15.266,90 |
|||||
|
Áf. vextir: |
202.224,97 |
|||||
|
Samtals: |
2.035.772,07 |
Miðað við gengi evru gagnvart krónu sem var skráð 169,23 hjá Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2009, sé ofangreind evrufjárhæð umreiknuð í íslenskar krónur samtals 344.513.707,05 kr. Á þessum tíma hafi gjalddagi lánssamnings ekki verið kominn.
b) Aðalkrafa miðað við aðalkröfu vaxta fram til 2. maí 2009:
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Höfuðst.f. vx |
Nýr höfuðstóll |
|
22.4.2009 |
30.4.2009 |
24,00% |
344.513.707 kr. |
1.148.379.07 kr |
344.513.707 kr. |
|
|
30.4.2009 |
2.5.2009 |
22,50% |
344.513.707 kr. |
1.076.605,33 kr |
344.513.707 kr. |
|
|
|
||||||
|
2.224.984,4 kr. |
Áf. vextir: |
2.224.984,4 kr. |
||||
|
Samtals: |
346.738.691,4 kr |
Staða á lánssamningi milli sóknaraðila og Glitnis banka, hafi á lokagjalddaga samningsins, 2. maí 2009, num ið alls 329.294.517 krónum.
346.738.691,40 kr.
-329.394.517,00 kr.
Samtals 17.344.174,40 kr.
Þetta sýni að sóknaraðili hefði getað skuldajafnað kröfu sinni á hendur Glitni banka gegn heildarkröfu Íslandsbanka á gjalddaga lánsins og átt ríflega fyrir kröfu bankans samkvæmt lánssamningi.
c) Aðalkrafa miðað við varakröfu vaxta fram til 24. apríl 2009:
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Höfuðstf vx |
Nýr höfuðstóll |
|
15.9.2008 |
30.9.2008 |
5,00% |
1.818.280,20 |
3.649,45 |
3.649,45 |
1.821.929,65 |
|
30.9.2008 |
31.10.2008 |
5,50% |
1.821.929,65 |
8.303,72 |
8.303,72 |
1.830.233,37 |
|
31.10.2008 |
15.11.2008 |
4,50% |
1.830.233,37 |
3.313,73 |
3.313,73 |
1.833.547,10 |
|
15.11.2008 |
30.11.2008 |
5,50% |
1.833.547,10 |
4.201,88 |
1.833.547,10 |
|
|
30.11.2008 |
31.12.2008 |
5,50% |
1.833.547,10 |
8.403,76 |
1.833.547,10 |
|
|
31.12.2008 |
31.1.2009 |
5,50% |
1.833.547,10 |
8.403,76 |
1.833.547,10 |
|
|
31.1.2009 |
28.2.2009 |
5,50% |
1.833.547,10 |
8.403,76 |
1.833.547,10 |
|
|
28.2.2009 |
31.3.2009 |
5,50% |
1.833.547,10 |
8.403,76 |
1.833.547,10 |
|
|
31.3.2009 |
22.4.2009 |
5,50% |
1.833.547,10 |
6.162,76 |
1.833.547,10 |
|
|
59.246,56 |
15.266,90 |
|||||
|
Áf. vextir |
43.979,66 |
|||||
|
Samtals |
1.877.526,77 |
Miðað við gengi evru gagnvart krónu sem var skráð 169,23 kr. hjá Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2009, sé ofangreind evrufjárhæð umreiknuð í íslenskar krónur samtals 317.733.855,287 kr. Á þessum tíma var ekki komið að gjalddaga lánssamnings.
d) Aðalkrafa miðað við varakröfu vaxta fram til 2. maí 2009.
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Hst.f. vx |
Nýr höfuðstóll |
|
22.4.2009 |
30.4.2009 |
24,00% |
317.733.855,287 kr. |
1.059.112,85 kr. |
317.733.855,287 kr. |
|
|
30.4.2009 |
2.5.2009 |
22,50% |
317.733.855,287 kr. |
992.918,30 kr. |
317.733.855,287 kr. |
|
|
2.052.031,15 kr. |
||||||
|
Áf. vxt |
2.052.031,150 kr. |
|||||
|
Samtals |
319.785.886,437 kr. |
329.394.517,000 kr.
-319.785.886,473 kr.
Samtals 9.608.630,527 kr.
Miðað við varakröfu vaxta sé jafnframt ljóst að skuldajöfnun kröfu sóknaraðila við kröfu Íslandsbanka hefði gengið langleiðina til uppgjörs á lokagjalddaga samningsins. Eins sé ljóst að varakrafa sóknaraðila hrökkvi langt til að greiða upp lánssamning sóknaraðila við Íslandsbanka, hvort sem litið sé til aðal- eða varakröfu vaxta.
e) Varakrafa miðað við aðalkröfu vaxta fram til 24. apríl 2009.
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Hst.f.vx |
Nýr höfuðstóll |
|
15.11.2008 |
30.11.2008 |
26,50% |
1.818.280,20 |
20.076,84 |
1.818.280,20 |
|
|
30.11.2008 |
31.12.2008 |
26,50% |
1.818.280,20 |
40.153,69 |
1.818.280,20 |
|
|
31.12.2008 |
31.1.2009 |
25,00% |
1.818.280,20 |
37.880,84 |
1.818.280,20 |
|
|
31.1.2009 |
28.2.2009 |
25,00% |
1.818.280,20 |
37.880,84 |
1.818.280,20 |
|
|
28.2.2009 |
31.3.2009 |
25,00% |
1.818.280,20 |
37.880,84 |
1.818.280,20 |
|
|
31.3.2009 |
22.4.2009 |
24,00% |
1.818.280,20 |
26.668,11 |
1.818.280,20 |
|
|
200.541,15 |
||||||
|
Áf. vextir: |
200.541,15 |
|||||
|
Samtals: |
2.018.821,35 |
Miðað við gengi evru gagnvart krónu sem var skráð 169,23 kr. hjá Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2009, sé ofangreind evrufjárhæð umreiknuð í íslenskar krónur samtals 341.645.138,752 kr. Á þessum tíma var ekki komið að gjalddaga lánssamnings.
f) Varakrafa miðað við aðalkröfu vaxta fram til 2. maí 2009.
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Hst.f. vx |
Nýr höfuðstóll |
||||
|
22.4.2009 |
30.4.2009 |
24,00% |
341.645.138,752 kr |
1.822.108,00 kr. |
341.645.138,752 kr. |
|
||||
|
30.4.2009 |
2.5.2009 |
22,50% |
341.645.138,752 kr |
441.292,00 kr. |
341.645.138,752 kr. |
|
||||
|
2.263.400,00 kr. |
|
|||||||||
|
Áf. vextir |
2.263.400,000 kr. |
|
||||||||
|
Samtals |
343.908.538,752 kr |
|
||||||||
343.908.538,752 kr.
-329.394.517,000 kr.
Samtals 14.514.021,752 kr.
Miðað við vara- og aðalkröfu vaxta sé ljóst að skuldajöfnun kröfu sóknaraðila við kröfu Íslandsbanka hefði dugað ríflega til uppgjörs á lokagjalddaga samningsins.
g) Varakrafa miðað við varakröfu vaxta fram til 24. apríl 2009.
|
15.11.2008 |
30.11.2008 |
5,50% |
1.818.280,20 |
4.166,89 |
1.818.280,20 |
|
|
30.11.2008 |
31.12.2008 |
5,50% |
1.818.280,20 |
8.333,78 |
1.818.280,20 |
|
|
31.12.2008 |
31.1.2009 |
5,50% |
1.818.280,20 |
8.333,78 |
1.818.280,20 |
|
|
31.1.2009 |
28.2.2009 |
5,50% |
1.818.280,20 |
8.333,78 |
1.818.280,20 |
|
|
28.2.2009 |
31.3.2009 |
5,50% |
1.818.280,20 |
8.333,78 |
1.818.280,20 |
|
|
31.3.2009 |
22.4.2009 |
5,50% |
1.818.280,20 |
6.111,44 |
1.818.280,20 |
|
|
43.613,47 |
|
|||||
|
Áf. vextir: |
43.613,47 |
|||||
|
Samtals: |
1.861.893,67 |
Miðað við gengi evru gagnvart krónu sem var skráð 169,23 kr. hjá Seðlabanka Íslands, 22. apríl 2009, er ofangreind evrufjárhæð umreiknuð í íslenskar krónur samtals 315.088.265,774 kr. Á þessum tíma var ekki komið að gjalddaga lánssamnings.
h) Varakrafa m.v. varakröfu vaxta fram til 2. maí 2009:
|
Frá |
Til |
Vx% |
Höfuðstóll |
Vextir |
Hst.f. vx |
Nýr höfuðstóll |
|
22.4.2009 |
30.4.2009 |
24,00% |
315.088.265,774 kr |
1.680.472,00 kr. |
315.088.265,774 kr. |
|
|
30.4.2009 |
2.5.2009 |
22,50% |
315.088.265,774 kr. |
406.989,00 kr. |
315.088.265,774 kr. |
|
|
2.087.461,00 kr. |
|
|||||
|
Áf. vxt |
2.087.461,000 kr. |
|||||
|
Samtals |
317.175.726.774 kr. |
329.394.517,000 kr.
-317.175.726,774 kr.
Samtals 12.218.790,226 kr.
Miðað við varakröfu og varakröfu vaxta sé jafnframt ljóst að skuldajöfnun kröfu sóknaraðila við kröfu Íslandsbanka hefði gengið langleiðina til uppgjörs á lokagjalddaga samningsins.
Kröfum sínum til stuðnings vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og til meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar. Hann vísar einnig til meginreglna kröfuréttar, samningaréttar og skaðabótaréttar, um skuldbindingargildi samninga, réttar efndir samninga og skyldu þess er vanefnir samning til greiðslu efndabóta. Sóknaraðili byggir einnig á sakarreglunni og reglum um sérfræðiábyrgð. Þá vísar hann til IV. kafla laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, aðallega hvað varðar bestu framkvæmd viðskiptafyrirmæla og skaðlega framkvæmd gegn hagsmunum viðskiptamanns til verndar hagsmunum fjármálastofnunar. Jafnframt vísar hann til laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði, aðallega 22. gr. laganna, og að lokum til einkamálalaga nr. 91/1991 þar sem það á við.
Vegna aðal- og varakröfu er krafist dráttarvaxta í samræmi við ákvæði III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af höfuðstól krafna frá því að mánuður er liðinn frá tjónsdegi/gjalddaga 15. nóvember 2008 til 22. apríl 2009. Kröfunum er lýst sem almennum kröfum í samræmi við ákvæði 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í aðal- og varakröfu krefst sóknaraðili dráttarvaxta í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 af höfuðstól krafna frá 22. apríl 2009 til greiðsludags auk kostnaðar sem kann að falla til fram til þess tíma. Kröfunum er lýst sem eftirstæðum kröfum í samræmi við ákvæði 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 129. gr. og 1. mgr. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauðsynlegt að tekið verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Forsendur og rök fyrir afstöðu varnaraðila eru eftirfarandi:
Varnaraðili telur fyrir það fyrsta álitamál hvort aðalkrafa sóknaraðila sé tæk til efnislegrar meðferðar þar sem hún sé með öllu óljós og ómarkviss. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila felist í aðalkröfunni að viðurkenndur verði réttur hans til innstæðu. Sóknaraðili virðist byggja málatilbúnað sinn á því að þeir fjármunir sem sjóðsbréf í Sjóði 9.1 voru keypt fyrir, eigi að teljast innstæða á þeim grundvelli einum að fyrirmælum um kaup á gjaldeyri hafi ekki verið framfylgt af hálfu Glitnis banka. Málatilbúnaður sóknaraðila í aðalkröfu verði ekki skilinn á annan hátt en þann að hann leitist við að fá kröfu sína viðurkennda sem innstæðu að forminu til en ekki efnislega. Aðalkrafa sóknaraðila sé að mati varnaraðila hvorki studd efnis- né lagarökum. Ekki sé með neinu móti hægt að verjast kröfu um að meint tjón sóknaraðila eigi að teljast innstæða og þar með forgangskrafa á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 af þeirri ástæðu einni að fyrirmælum hafi ekki verið framfylgt og því sé rétt og eðlilegt að hún verði viðurkennd sem slík að forminu til. Eins og sóknaraðili byggi málið upp, geti krafa hans einungis verið í formi skaðabótakröfu, eins og varakrafan byggi á. Samkvæmt framansögðu skorti þannig verulega á, að mati varnaraðila, að kröfugerð sóknaraðila og málatilbúnaður í aðalkröfu sé þannig að unnt sé að taka hana til efnislegrar meðferðar, sbr. d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til ofanritaðs telur varnaraðili að skoða beri hvort vísa beri aðalkröfu sóknaraðila frá dómi af sjálfsdáðum (ex officio).
- Um aðalkröfu sóknaraðila
Varnaraðili krefst þess að þeirri kröfu sóknaraðila að hann eigi rétt til innstæðu að fjárhæð 1.818.280,20 evrur verði hafnað. Þá kröfu byggir varnaraðili á því að ósannað sé að sóknaraðili hafi gefið starfsmanni bankans fyrirmæli um kaup á evrum, 15. september 2008. Sem hlutdeildarskírteinishafi í Sjóði 9.1, hafi sóknaraðili einungis átt kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt hlutdeild sinni í þeim sjóði, og hafi sú hlutdeild verið vistuð á vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila, allt í samræmi við samning aðila um eignastýringu. Sóknaraðili hafi fengið hlutdeild sína í sjóðnum greidda, eins og allir aðrir sjóðfélagar, í kjölfar slita á sjóðnum, útgreiðslu til sjóðfélaga og afskráningar sjóðsbréfanna í Kauphöll Íslands. Fram til þessa hafi sóknaraðili ekki gefið varnaraðila nein viðskiptafyrirmæli, sem hafi verið virt að vettugi.
Varnaraðili vísar til þess að í símtali sóknaraðila til starfsmanns bankans, 15. september 2008, gefi sóknaraðili engin bein fyrirmæli, þar hafi einungis verið um vangaveltur að ræða og hvorki vísað til ákveðinnar fjárhæðar sem átti að kaupa fyrir né hvaðan hafi átt að taka peningana. Þá vísar varnaraðili til þess að í 10. gr. samnings um einkabankaþjónustu sé fjallað um fyrirmæli viðskiptavinar og þar tekið fram að viðskiptavinur geti gefið fyrirmæli um viðskipti munnlega eða skriflega með símbréfi, tölvupósti eða símtali. Viðskiptavinur skuli vísa til númers samningsins þegar hann gefi fyrirmæli um viðskipti en í endurriti af símtalinu frá 15. september 2008, sjáist að sóknaraðili gerði það ekki. Að minnsta kosti sé af því sem fram fór milli aðila mjög óskýrt og óljóst til hvers sóknaraðili ætlaðist af starfsmanni bankans, sérstaklega með hliðsjón af þeirri staðreynd að sóknaraðili hafi ætlað að hringja aftur „eftir smá“. Engin gögn liggi fyrir hjá varnaraðila um að símtal hafi átt sér stað síðar sama dag milli aðila.
Sóknaraðili og starfsmaður bankans hafi aftur ræðst við í síma átta dögum eftir fyrrgreint símtal og í því samtali hafi hvorki verið minnst einu orði á meint viðskiptafyrirmæli sóknaraðila um kaup á evrum né þá staðreynd að keypt hafi verið sjóðsbréf í Sjóði 9.1 viðskiptadagana 16. og 18. september 2008. Kvittanir fyrir kaupunum hafi verið sóknaraðila aðgengilegar í netbanka og hafi sóknaraðili auk þess haft skoðunaraðgang að verðbréfasafni sínu þar, þar með talið að yfirliti yfir öll viðskipti og framkvæmdar færslur á vörslureikningi sínum. Af fram lögðu yfirliti yfir innskráningar sóknaraðila inn á netbanka sinn sem og sérstakan verðbréfavef sem þar sé aðgengilegur, sé ljóst að sóknaraðili hafi skoðað verðbréfaeign sína í netbankanum nánast daglega á tímabilinu 15. september til 6. október 2008. Það stangist á við þá lýsingu hans í málavöxtum að hann hafi í lok septembermánaðar farið að gæta að því að eignir hans væru í öruggri höfn, eins og segi þar orðrétt. Varnaraðili tekur fram að á upphafssíðunni, sem birtist við innskráningu í netbanka, þ.e. svonefnd Mín síða, komi fram öll verðbréfeign sóknaraðila, þannig að það hafi ekki átt að fara fram hjá honum að dagana 16. og 18. september 2008 hafi verið keypt sjóðsbréf í Sjóði 9.1. Sóknaraðili hafi því óumdeilanlega haft fulla vitneskju um kaupin og hafi, eins og fyrr segir, ekki gert neinar athugasemdir við þau fyrr en hann svaraði veðkalli bankans með tölvupósti, 6. október 2008. Framangreint beri einnig að skoða með hliðsjón af þekkingu og reynslu sóknaraðila af fjármálamörkuðum í gegnum þau fyrirtæki sem hann hafi stýrt um árabil sem og því að sóknaraðili gerði sér grein fyrir stöðu fjármálamarkaða og vaktaði fjárfestingar sínar með sérstakri aðgæslu og varkárni, eins og fyrirliggjandi gögn um innskráningar og beiðnir um verðbréfayfirlit inn á netbanka sóknaraðila staðfesta.
Engin skylda hafi hvílt á bankanum að hafa samband við sóknaraðila á þeim grundvelli að meint fyrirmæli hafi verið á einhvern hátt óskýr eða óljós þannig að vafi hafi komið upp um innihald þeirra eins og sóknaraðili haldi fram. Símtalið frá 15. september 2008 beri það skýrt með sér að sóknaraðili hafi ekki verið búinn að taka ákvörðun og hafi símtalinu verið slitið stuttu síðar með þeim orðum að aðilarnir myndu ræða saman síðar. Ekkert í umræddu símtali hafi gefið starfsmanni bankans tilefni til að ætla að beinum og skýrum viðskiptafyrirmælum hafi verið beint að bankanum enda hafi ekki legið fyrir hvað átti að kaupa, hversu mikið og fyrir hvaða peninga. Sönnunarbyrðin um hvort fyrirmæli um tiltekin viðskipti hafi verið gefin munnlega, hvílir óumdeilt á sóknaraðila.
Í greinargerð sóknaraðila sé rakið að sóknaraðili hafi gripið til samræmdra aðgerða varðandi meðal annars verðbréfaeign fyrirtækja sem hann starfaði fyrir sem og eiginkonu sinnar. Vísi sóknaraðili meðal annars til þess að það hefði verið órökrétt hefði hann keypt sig inn í annan sjóð í sömu andrá. Varnaraðili bendir á að viðskipti fyrirtækja sem sóknaraðili tengist eða viðskipti eiginkonu hans skipti engu máli í þessu sambandi og geti engan veginn leitt til þess að fallast beri á kröfu sóknaraðila enda hafi engin fyrirmæli legið fyrir um kaup á evrum. Það geti vel verið að bein og skýr fyrirmæli sóknaraðila hafi legið til grundvallar viðskiptum fyrrgreindra aðila en í þessu máli séu engin slík fyrirmæli fyrir hendi. Staðföst áform sóknaraðila breyti þeirri staðreynd ekki.
Af framanröktu sé því ljóst að í símtalinu, 15. september 2008, hafi sóknaraðili ekki sett fram skýr og bein fyrirmæli um innlausn sjóðsbréfa í Sjóði 9 og kaup á evrum. Ekki verði heldur ráðið að slík fyrirmæli hafi verið sett fram í öðrum símtölum eða tölvupóstsamskiptum sóknaraðila og starfsmanns bankans. Eftir standi að sóknaraðili hafi átt hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði en hlutdeildarskírteini teljist til fjármálagernings, sem sé staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eigi hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins. Eigendur hlutdeildarskírteina eigi þannig sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína, sbr. 6. tl. 2. gr. laga nr. 30/2003. Samkvæmt framanröktu sé því augljóst að fjármálagerningar af þeirri tegund sem hlutdeildarskírteini eru, teljast ekki til innstæðu. Kröfur vegna Sjóðs 9.1 geti því ekki talist til forgangskrafna.
Með vísan til alls framangreinds beri því að hafna þeirri kröfu sóknaraðila að fjárhæð 1.818.280,20 evrur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.
- Um varakröfu sóknaraðila
Varnaraðili byggir á því að það sé ósannað að starfsmaður bankans hafi á saknæman hátt virt að vettugi fyrirmæli sóknaraðila um kaup á evrum fyrir andvirði innleystra hlutdeildarskírteina og beri að hafna því að skaðabótakrafa sóknaraðila að fjárhæð 1.818.280,20 evrur, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Af því sem rakið var hér að framan, verði að teljast fullljóst að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að sérstök fyrirmæli um kaup á evrum hafi verið gefin starfsmanni bankans. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að starfsmaður bankans hafi synjað um afgreiðslu meintra fyrirmæla sóknaraðila eða á annan hátt sýnt af sér saknæma háttsemi sem eigi að leiða til skaðabótaábyrgðar.
Í greinargerð sóknaraðila tilgreini hann ekki þær reglur skaðabótaréttarins sem hann byggi skaðabótakröfu sína á en sá sem haldi fram skaðabótaábyrgð, hvort heldur á grundvelli sakarreglunnar eða á öðrum grundvelli, beri sönnunarbyrði fyrir því að öll skilyrði skaðabóta séu fyrir hendi, svo sem um fjárhæð tjóns, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Þá sé í greinargerð sóknaraðila ekki vísað til neinna lagaákvæða sem bankinn eigi að hafa farið á svig við eða ekki gætt í tengslum við þau viðskipti sem hér um ræðir. Varnaraðili mótmælir því að skilyrðum skaðabótaábyrgðar sé fullnægt auk þess sem tjón sóknaraðila sé ósannað.
Ákvörðun um kaup á sjóðsbréfum í Sjóði 9.1 hafi verið tekin af bankanum í samræmi við þá fjárfestingarstefnu sem málsaðilar höfðu sammælst um og sóknaraðili sérstaklega samþykkt með undirritun sinni á viðauka II við samning um einkabankaþjónustu. Bankanum hafi verið heimilt að stýra fjármunum sóknaraðila innan þeirra frávika sem þar var getið. Með samningnum hafi sóknaraðili jafnframt gefið bankanum umboð til þess að kaupa og selja fjármálagerninga í samræmi við fjárfestingarstefnuna, sbr. viðauka II við samning um einkabankaþjónustu, sbr. einnig 6. gr. samningsins. Í 12. gr. samningsins sé enn fremur sérstaklega tekið fram að bankinn beri ekki ábyrgð á gengislækkun verðbréfa eða tapi á verðbréfum sem keypt hafa verið fyrir hönd viðskiptavinar.
Ákvörðunina um kaupin verði einnig að skoða út frá því að samkvæmt lánssamningi milli aðila hafi borið að fjárfesta í Sjóði 9 Peningamarkaðsbréf. Í 6. gr. lánssamningsins sé ekki tilgreint í hvaða mynt mætti fjárfesta en peningamarkaðssjóðir bankans hafi á þessum tíma verið fjórir í mismunandi myntum, þ.e. Sjóður 9 Peningamarkaðsbréf (krónur), Sjóður 9.1. Peningamarkaðsbréf EUR (evrur), Sjóður 9.2. Peningamarkaðsbréf NOK (norskar krónur) og Sjóður 9.3. Peningamarkaðsbréf USD (dollarar). Fjárfestingar í Sjóði 9.1 hafi því ekki brotið gegn orðalagi lánssamningsins og handveðsyfirlýsingarinnar og ekki verði séð að sóknaraðili hafi nokkurn tímann gert athugasemdir við að fjárfest væri í Sjóði 9.1, sem óumdeilt var í samræmi við fjárfestingarstefnu sem sóknaraðili samþykkti.
Í Einkabankaþjónustu bankans hafi það verklag verið viðhaft að peningar voru ekki látnir liggja á bankareikningum sem tengdust þjónustunni heldur voru þeir settir í Sjóð 9 eða 9.1 þar sem vextir voru betri á peningamarkaðssjóðum en á innlánsreikningum. Af fyrirliggjandi yfirliti yfir hreyfingar á verðbréfaeign sóknaraðila tímabilið 1. janúar 2007 til 15. október 2008, sjáist að eftir þessu verklagi hafi verið farið í einu og öllu. Þessi ákvörðun bankans hafi verið í fullu samræmi við verklagsreglur hans um framkvæmd viðskiptafyrirmæla en í þeim sé lýst á greinargóðan hátt hvernig bankinn átti að leitast við að tryggja viðskiptavinum sínum bestu mögulegu niðurstöðu við framkvæmd viðskiptafyrirmæla.
Varnaraðili bendir einnig á að í samningi um einkabankaþjónustu sé sérstaklega tekið fram í 12. gr. að bankinn beri ekki ábyrgð á tjóni sem sóknaraðili kunni að verða fyrir, nema slíkt leiði af vanefndum sem rekja megi til saknæmrar háttsemi starfsmanna hans. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á slíkt. Telur varnaraðili sérstaka ástæðu til að benda á að sóknaraðili hafi lýst því yfir í fyrrgreindum samningi að honum sé ljós sú áhætta sem fylgi því að fjárfesta í fjármálagerningum, sbr. 2. gr. og b-lið 23. gr. og að hann hafi veitt bankanum fullt og ótakmarkað umboð til verðbréfamiðlunar fyrir hans hönd og í hans nafni, í samræmi við munnleg, skrifleg eða rafræn fyrirmæli, sbr. d-lið 23. gr. Réttarsamband sóknaraðila og bankans vegna eignastýringar bankans á fjármunum sóknaraðila hafi byggt á þessum samningi og eftir honum hafi verið farið í hvívetna. Á sóknaraðila hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að svo hafi ekki verið.
Af yfirliti yfir verðbréfaeign sóknaraðila sjáist að stærstur hluti eignasafnsins hafi verið sjóðsbréf í Sjóðum 9 og 9.1 og hafi sú eign verið í formi hlutdeildarskírteina, varðveitt á vörslureikningi sóknaraðila hjá bankanum. Af samningi aðila sé ljóst að fjárfestingar í sjóðsbréfum í umræddum peningamarkaðssjóðum hafi rúmast innan fjárfestingarstefnu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki hreyft athugasemdum við samsetningu eignasafnsins á vörslureikningi sínum og gerði það ekki heldur við viðskiptin með sjóðsbréf í Sjóði 9.1 dagana 16. og 18. september 2008. Það hafi ekki verið gert fyrr en á þeim degi er Fjármálaeftirlitið ákvað að stöðva tímabundið viðskipti með alla fjármálagerninga sem gefnir voru út af bankanum og teknir höfðu verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Á sama degi, 6. október 2008, hafi ríkisstjórn Íslands gefið út þá yfirlýsingu að innstæður í innlendum viðskiptabönkum yrðu tryggðar að fullu. Ber að taka það fram að á þessum tímapunkti hafi innstæður í bönkum og sparisjóðum verið viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 en forgangsstaða þeirra hafi ekki orðið að veruleika fyrr en með setningu laga nr. 125/2008.
Af framangreindu sé ljóst að skilyrði skaðabótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi. Varnaraðili áréttar að það sé sóknaraðila að sanna að skilyrðin séu fyrir hendi. Hann beri því sönnunarbyrði fyrir því að háttsemi bankans sem olli hinu meinta tjóni hafi verið saknæm og ólögmæt og einnig fyrir orsakatengslum og sennilegri afleiðingu. Sóknaraðili hafi ekki með neinu móti sýnt fram á sök bankans og því beri að hafna varakröfu hans.
- Dráttavaxtakrafa sóknaraðila
Verði ekki fallist á þá afstöðu slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila, telur varnaraðili að hafna beri dráttarvaxtakröfu sóknaraðila eða lækka hana stórlega. Vísar varnaraðili til þess að í kröfugerð sóknaraðila felist krafa um skaðabætur og því geti dráttarvextir ekki reiknast frá þeim degi, sem hin meintu mistök hafi átt sér stað, heldur frá þeim degi er sóknaraðili sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það hafi fyrst verið gert með kröfulýsingu sóknaraðila, dags. 26. nóvember 2009.
- Skilyrði skuldajöfnunar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 ekki fyrir hendi
Komi til þess að fallist verði á skaðabótakröfu sóknaraðila telur varnaraðili kröfuna ótæka til skuldajöfnuðar. Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 sé réttur til skuldajöfnuðar háður því að kröfuhafi eignist kröfuna áður en þrír mánuðir séu til frestdags enda hafi krafa þrotabús á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Varakrafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa og geti því ekki hafa stofnast á öðrum tímamarki en þegar hið meinta tjón átti sér stað. Meintur tjónsdagur sem málatilbúnaður sóknaraðila byggist á sé 15. september 2008 en frestdagur slitameðferðar varnaraðila er 15. nóvember 2008. Það skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi hafi eignast kröfuna eigi síðar en þremur mánuðum fyrir frestdag sé ekki uppfyllt og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna skuldajafnaðarkröfu sóknaraðila.
Öllum sjónarmiðum sóknaraðila varðandi gagnkvæmni í viðskiptasambandi sem og hvernig frestdagur slitameðferðar varnaraðila hafi verið ákveðinn sé mótmælt. Bent er á að sérreglur um skuldajöfnuð gildi við gjaldþrot og eigi það sammerkt að þær þrengi möguleika til skuldajafnaðar. Þá sé ekki fallist á að unnt sé að beita riftunarreglum laga nr. 21/1991 og vísa meðal annars til þess að staðið hafi til að nota innstæðu á gjaldeyrisreikningi til greiðslu lánssamnings á milli aðila. Yfirlýsing sóknaraðila um skuldajöfnuð byggist aukinheldur á skaðabótakröfunni, ekki innstæðu að forminu til sem aðalkrafa sóknaraðila virðist byggja á.
Varnaraðili reisir kröfur sínar á almennum reglum fjármunaréttar, ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísar hann til almennra reglna skaðabótaréttarins um sönnun sakar, orsakasamband, fyrirsjáanleika og sönnun tjóns. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Skýrslur fyrir dómi
Sóknaraðili, Hermann Sævar Guðmundsson, bar að hann hefði haustið 2008, þegar fjármálakerfið hafi riðað til falls, reynt að tryggja hagsmuni tveggja félaga sem hann bar ábyrgð á og líta eftir eigin hagsmunum í leiðinni. Mánudaginn 15. september verði stærsta bankagjaldþrot sögunnar þegar Lehmann-bankinn fari á hausinn. Af þeim sökum hafi hann hringt í fulltrúa sinn í Glitni banka, sem hafi séð um einkabankaþjónustu hans þar. Hafi sóknaraðili viljað færa fé sitt í bankanum úr hlutdeildarskírteinum í reiðufé. Þetta hafi verið eina skuldsetta viðskiptasambandið við bankann og hafi hann viljað koma sínu fé undan áhættunni eins og hann gerði í mörgum öðrum tilvikum.
Hann hafi áttað sig á að þau félög sem skulduðu Sjóði 9 mest væru þau sömu og ættu bankana og vitað hafi verið að ættu í miklum vandræðum á þessum tíma. Sóknaraðili hafi talið þau félög, sem hann bar ábyrgð á, ekki geta fjárfest í þessum sjóði vitandi hverjir skuldararnir væru. Af þeim sökum hafi hann selt allar eignir félaganna í þessum sjóði og talið sig vera að selja fyrir sjálfan sig líka, ekki til að fara aftur inn í sama sjóð í annarri mynt heldur til að eiga reiðufé og vera laus við þá áhættu sem ólga fjármálamarkaða skapaði.
Sóknaraðili bar að bankinn hefði fyrst sóst eftir að fá hann í einkabankaþjónustu 2005. Í þeim samningi sem þá var gerður hafi verið tekið skýrt fram að bankinn hefði ekki heimild til að gera neitt sem sóknaraðili bæði ekki um sérstaklega. Þegar nýr samningur hafi verið gerður, í febrúar 2006, hafi þetta ekki breyst. Tengiliður hans hjá bankanum, Bjarni Markússon, hafi lagt á það áherslu að hinu staðlaða formi bankans yrði ekki breytt en sóknaraðili hafi ekki viljað skrifa undir nema framkvæmdin yrði eins og samkvæmt fyrri samningnum, það er að viðskipti færu ekki fram með hans eignir nema að hans frumkvæði og hafi hann nánast alltaf átt frumkvæðið að viðskiptum. Ekki í öllum en í mjög mörgum tilvikum, þegar viðskipti fóru fram að hans beiðni, hafi hann verið kallaður í bankann fáum dögum síðar til að skrifa undir pappíra en svo hafi ekki verið í þessu tilviki.
Sóknaraðili minntist þess ekki að bankinn hefði átt viðskipti í hans nafni án hans fyrirmæla fyrr en um miðjan september 2008. Hann rak ekki heldur minni til þess að hafa beðið um að keypt yrði í Sjóði 9.1 á árunum 2007 og 2008 og ekki heldur í Sjóði 1B. Hann taldi hins vegar langsótt að það hefði verið gert án hans samþykkis. Miðað við færslur af yfirliti yfir verðbréfaeign hans í einkabankaþjónustu virðist sem starfsmenn bankans hafi engu að síður talið sig hafa umboð til kaupa án hans samþykkis.
Á þessum tíma hafi allt verið upp í loft í íslensku efnahagslífi og í vikunni 15.-19. september hafi hann gengið í að koma öllum eignum í skjól sem hann bar ábyrgð á, þar á meðal eign í bréfum í Sjóði 9 sem hann taldi sig hafa selt og breytt í reiðufé. Hið sama geri eiginkona hans hjá Landsbankanum. Jafnframt selji hann fyrir hönd N1 og BNT peningamarkaðsbréf fyrir 1,5 milljarða. Öllum eignum var breytt í reiðufé. Í þessu eina tilviki hafi reiðuféð breyst aftur í „pappír“.
Sóknaraðili kvaðst hafa fylgst með eignum sínum en í netbankanum séu allar þessar eignir sýnilegar. Á síðunni birtist bankareikningarnir efst. Þar fyrir neðan hafi komið þær eignir sem hann hafi stýrt sjálfur, fyrst innlend hlutabréf og þar fyrri neðan þau erlendu. Hafi þetta verið talsverður listi. Fyrir neðan þetta allt saman hafi verið sérstakur rammi yfir þær eignir sem voru í vörslu bankans. Hann kvaðst játa fúslega að honum hafi yfirsést þessir hlutir í netbankanum. Hann hafi ekki rekið augun í það að þetta væri „pappír“ en ekki peningur.
Þar sem hann hafi átt áfallalaus viðskipti við sama bankann í 20 ár hafi hann treyst því að það sem hann hefði sagt yrði gert og hafi hann því ekki talið sig ítrekað þurfa að líta eftir því enda hafi hann á sama tíma haldið gangandi fyrirtæki sem var háð því að geta átt viðskipti við útlönd. Hann hafi verið staddur erlendis að reyna að fá olíu keypta og hafi haft margt annað á sinni könnu en þetta. Hann hafi fylgst vel með þeim eignum sem hann stýrði sjálfur. Yfirlitið sem sýni að hann hafi skoðað verðbréfasafnið sitt nánast daglega sýni bara að hann hafi skoðað það verðbréfasafn sem hann stýrði sjálfur en þær eignir sem bankinn hafi átt að sjá um hafi algerlega farið fram hjá honum. Hægt sé að skoða annað án þess að skoða hitt. Hefði hann viljað fá yfirlit yfir eignir í einkabankaþjónustu hefði hann þurft að fara inn á það svæði sérstaklega.
Sóknaraðili taldi ekki hægt að misskilja setninguna: Heyrðu ég var bara að velta fyrir mér hvort ég ætti að færa mig yfir í evrur með þessar krónur. Ekki sé hægt að túlka hana þannig að hann hafi ætlað sér að fara úr einum áhættusömum sjóði yfir í annan. Hann bar að seinna þennan dag, 15. september, hafi hann hringt aftur í tengilið sinn, Bjarna, til að ræða þetta sama mál og sé líklegast að það hafi verið í farsíma en algengt hafi verið að starfsmenn bankans tækju við fyrirmælum í gegnum farsíma. Hafi hann viljað fá staðfest að salan hefði farið fram. Fyrra símtalið hafi farið fram á hlaupum og hann hafi viljað fylgja því eftir að salan hefði náðst í gegn á þessum bréfum þannig að hann ætti þá innstæðu í bankanum og væri ekki lengur með þessa áhættu á sínum bókum.
Að mati sóknaraðila átti ákvæði lánssamningsins um tryggingar ekki að koma í veg fyrir að hann gæti selt bréfin í Sjóði 9 þar sem reiðufé geti aldrei verið verri trygging en hlutdeildarskírteini í sjóði og bankinn hafi ekki getað litið svo á að hann væri verr settur með evrur á handveðsettum reikningi en evrur í sjóðsbréfum.
Símtal þriðjudaginn 23. september 2008 varði viðskipti fyrir það félag sem hann stýrði. Af þeim sökum hafi í því ekki verið rætt um fyrirmælin 15. september enda hafi hann talið öll sín mál í höfn.
Í tölvupósti sem hann sendi, 18. september 2008, sem svar við veðkalli bankans þýði orðalagið „að bæta í evrupottinn“ að það eigi að bæta við inneign hans í evrum. Það hafi ekki verið fyrr en síðar að hann hafi séð að þennan dag hafi verið keypt hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1, evrusjóði.
Sóknaraðili kvaðst fastlega gera ráð fyrir að hafa fengið kvittanir fyrir viðskiptunum sem fóru fram fyrir milligöngu einkabankaþjónustunnar á þessu tímabili. Allur pappírspóstur hafi farið í ákveðna skúffu og farið þaðan til endurskoðanda þegar komið var að framtali.
Sóknaraðili kvaðst ekki hafa áttað sig á því að fyrirmælum hans um kaup á evrum hefði ekki verið fylgt fyrr en honum var sent veðkall 3. október. Þá hafi hann haft samband við bankann og sagt að þetta gæti ekki staðist þar sem hann ætti enga „pappíra“ í bankanum einungis innstæður og það væri skrýtið að það kæmi veðkall á innstæðu. Þá hafi honum verið gerð grein fyrir því að þessi innstæða hefði verið nýtt til þess að kaupa hlutdeildarskírteini í sjóði 9.1. Hann hafi þá strax kallað eftir fundi með bankanum. Á þeim fundi, 15. október 2008, með lögmanni sóknaraðila hafi Bjarni Markússon sagt það hafa verið sinn skilning að vegna ákvæða í lánasamningnum hefði tryggingin, sem sóknaraðili veitti fyrir láninu, orðið að vera eign í Sjóði 9 og þess vegna hafi viðskiptin verið látin samrýmast lánasamningnum. Hafi það verið skilningur Bjarna að sóknaraðili væri brotlegur við lánasamninginn hefði hann tryggingarnar ekki í Sjóði 9 og þess vegna hafi Bjarni talið sér skylt að kaupa fyrir evrurnar í Sjóði 9.1, evrusjóði.
Tilraunir til að fá þetta leiðrétt hafi reynst árangurslausar þar sem forræði málsins hafi verið komið í hendur skilanefndar.
Bjarni Markússon, tengiliður sóknaraðila hjá Glitni banka, bar fyrir dómi að hlutverk tengiliðar væri það sama og viðskiptastjóra nú, að sjá um öll samskipti bankans við viðskiptavin. Samskipti hafi ýmist farið fram með símtölum, tölvupósti eða á fundum. Einkabankaþjónusta (private banking) felist í því að veita viðskiptavini alhliða fjármálaþjónustu og sé eignastýring hluti af henni.
Í eldri samningi sóknaraðila um einkabankaþjónustu, 19. október 2005, hafi ekki verið gerð sérstök fjárfestingarstefna þar sem samþykki sóknaraðila hafi verið áskilið fyrir öllum gerningum í hans nafni. Þetta sé svonefndur fjárfestingarráðgjafarsamningur þar sem viðskiptavinur hafi átt að gefa öll fyrirmæli og ekki hafi mátt fara gegn þeim. Vörslureikningur sem honum fylgdi hafi ekki verið handveðsettur bankanum.
Nýrri samningur, 27. febrúar 2006, hafi verið gerður sérstaklega vegna láns sem sóknaraðili tók. Hann sé handveðssamningur og í honum felist mjög þröng fjárfestingarstefna. Í 6. gr. sé gert ráð fyrir að bankinn hafi fullt og ótakmarkað umboð til að stýra eignum í samræmi við fjárfestingarstefnuna. Þetta sé virk eignastýring þar sem bankanum sé veitt heimild til að taka allar ákvarðanir fyrir hönd viðskiptavinarins og hafi samkvæmt því ekki þurft að leita samþykkis hans til að framfylgja fjárfestingarstefnu hans. Í þessum samningi sé meira í húfi en bara eignir sóknaraðila þar sem hann hafi tekið lán hjá bankanum og því eðlilegt að bankinn hafi viljað geta haft áhrif á hvernig eignunum væri stýrt.
Vitnið bar að þrátt fyrir seinni einkabankasamning sóknaraðila við bankann hafi það ekki talið sig hafa umboð eða heimild til þess að ráðast í fjárfestingar að sóknaraðila forspurðum. Þrátt fyrir samninga hafi sambandið við viðskiptavininn í sumum tilfellum skipt öllu máli. Sumir viðskiptavinir hafi verið sjálfstæðari en aðrir. Vitnið kvaðst ekki muna eftir viðskiptum sem fóru fram nema með samþykki sóknaraðila.
Vitnið tók fram að starfsmenn einkabankaþjónustunnar hafi unnið samkvæmt vissu verklagi og fjárfestingarstefnan hafi verið umsamin. Í verklaginu hafi meðal annars falist að færu fram viðskipti með lausafé hafi það yfirleitt alltaf verið lagt inn í peningamarkaðssjóði.
Vitnið kvaðst ekki muna eftir öðru símtali við sóknaraðila þennan dag, 15. september, en því þar sem þeir ræða almennt um sölu á krónum sem voru í peningamarkaðssjóði og skipta þeim yfir í evrur. Í því símtali séu aldrei gefin fyrirmæli. Það eina sem vitnið hafi til sönnunar viðskiptunum sé viðskiptanóta. Af henni verði ekki annað ráðið en að viðskipti hafi orðið seinna þennan sama dag. Af því álykti vitnið að sóknaraðili hljóti að hafa gefið önnur fyrirmæli. Starfsmenn bankans framkvæmi ekki viðskipti á grundvelli svo óljóss samtals og þess sem fór fram fyrr um daginn. Vitnið og sóknaraðili hafi ætlað að heyrast aftur en vitnið muni ekki hvort af því varð. Tíðkast hafi að viðskiptavinir ættu samskipti við tengiliði sína í einkabankaþjónustu í gegnum farsíma en vitnið taldi að samtöl í þeim hafi ekki verið hljóðrituð.
Vitnið kvaðst ekki muna eftir þessum viðskiptum. Á þessum tíma hafi verið mikið um viðskipti og þrátt fyrir að upphæðirnar séu háar hafi þetta ekki þótt háar upphæðir á þessum tíma.
Viðskiptin fari þannig fram að hlutdeildarskírteini séu seld og innlausnarverðmæti þeirra sé fyrst ráðstafað inn á reikning. Síðan tali tengiliðirnir við svonefnda millivinnslu sem sé þeirra aðstoðarfólk. Í sumum tilfellum, vitnið fullyrði ekki að það hafi verið í þessu tilviki, hafi viðskiptavinurinn verið í beinu sambandi við starfsmenn millivinnslunnar. Millivinnslan hafi samband við bakvinnsluna í gegnum kerfið og þar fari salan fram og viðkomandi eigi þá að mæla fyrir um hvað eigi að gera við fjármunina. Þeirri eign þurfi að ráðstafa aftur sérstaklega hvort sem það sé til kaupa á öðrum hlutdeildarskírteinum við síðara tímamark eða til annarra fjárfestinga.
Þar sem mikið hafi verið um veðköll á þessum tíma, september 2008, hafi starfsmenn bankans ekki getað gert neitt nema spyrja lánastjóra hvað mætti gera. Í þessu tilfelli þrengist heimildin af lánssamningi sóknaraðila og eiginlega sé ekki hægt að fara fram hjá því sem þar standi, það er að þær eignir sem standi til veðs eigi að vera í peningamarkaðssjóði. Miðað hafi verið við að allt fé sem stæði til veðs væri í þessum sjóði.
Vitnið bar að starfsmenn bankans hafi metið reiðufé jafngilda tryggingu og skírteini í Sjóði 9. Verklagið hafi þó verið þannig að þar sem meiri ávöxtun hafi verið í peningamarkaðssjóðunum hafi peningarnir ávallt verið settir í sjóðina.
Sérstaklega spurt að því hvernig kaup á hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9.1 geti samrýmst ákvæði lánssamnings um tryggingar taldi vitnið það hafa getað gerst, án þess að vilja fullyrða, að lánastjóri hafi veitt heimild til þess að kaupa evrur vitandi það að lánið væri í erlendri mynt og hækkaði á sama tíma og krónan lækkaði. Ástæða þess að evrurnar hafi verið lagðar á peningamarkaðssjóð í evrum, Sjóð 9.1, hafi ráðist af því verklagi sem unnið var eftir í bankanum á þeim tíma, í eignastýringu og einkabankaþjónustu.
Verklagið hafi verið gamalt og komist á áður en farið var að fjárfesta í öðrum myntum, sem hafi verið 2003, en alltaf þegar losnuðu peningar frá fjárfestingum, hvort sem seld voru hlutabréf eða skuldabréf, hafi peningarnir farið inn á bankareikning sem var tengdur vörslureikningi og síðan af vörslureikningi í peningamarkaðssjóði enda hafi starfsmenn bankans lagt inneign á bankareikningi að jöfnu við inneign í peningamarkaðssjóði. Skilningur starfsmanna bankans hafi verið sá að kaupa mætti í Sjóði 9.1 þrátt fyrir að sá sjóður væri ekki tilgreindur í 6. gr. lánssamningsins um tryggingar.
Ferlið sé þannig að innlausnarverð hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði fyrir krónur sé ráðstafað inn á bankareikning í krónum sem er handveðsettur bankanum og tengdur vörslureikningi fyrir hlutdeildarskírteini. Krónurnar séu nýttar til að kaupa evrur. Evrurnar fara inn á evrureikning sóknaraðila sem sé tengdur vörslureikningum. Evrurnar séu síðan notaðar til að kaupa þessi hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði í evrum, Sjóði 9.1.
Vitnið minntist þess ekki að sóknaraðili hefði, eftir 15. september, komið á framfæri athugasemdum við vitnið um að keypt hefði verið fyrir hans hönd í evrusjóðnum, ekki fyrr en eftir hrun.
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili, slitabú Glitnis, greiði honum fjárhæð í evrum sem samsvari inneign hans í Sjóði 9, peningamarkaðssjóði í krónum, 15. september 2008. Krafa sóknaraðila grundvallast á því að hann hafi gefið viðskiptastjóra sínum hjá bankanum þau fyrirmæli þennan dag að hann ætti að selja hlutdeildarskírteini sóknaraðila í Sjóði 9 og kaupa evrur fyrir.
Til sönnunar því að sóknaraðili hafi mælt fyrir um þetta liggja ekki önnur gögn en endurrit af símtali hans og viðskiptastjórans þar sem segir: Heyrðu, ég var bara að velta fyrir mér hvort ég ætti að færa mig yfir í evrur með þessar krónur þangað til þessi læti ganga yfir.
Í vitnisburði viðskiptastjórans fyrir dómi kom fram að þessi fyrirmæli hefðu ekki verið nógu skýr og skorinorð til þess að starfsmenn bankans hefðu getað unnið á grundvelli þeirra. Nákvæmari fyrirmæli hefðu þurft að koma til. Hann kvaðst ekki muna eftir öðru símtali við sóknaraðila þennan sama dag. Einhver fyrirmæli hafi sóknaraðili þó gefið þar sem kvittanir sýni að hlutdeildarskírteini hans í Sjóði 9, krónusjóði, hafi verið seld og að keypt hafi verið hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1, evrusjóði.
Málsaðilar deila um það á hvorum hvíli að sanna hvort sóknaraðili hafi hringt aftur í starfsmann bankans þennan sama dag. Enn er hægt að afla gagna um það hver hringdi í hvern, hvenær, 15. september 2008. Hins vegar verður með þeim gögnum ekki svarað þeirri spurningu hvað mönnum fór á milli. Það þykir þó ekki hafa úrslitaþýðingu hér.
Fram lögð gögn sýna að starfsmenn bankans keyptu, fyrir hönd sóknaraðila, 16. og 18. september hlutdeildarskírteini í Sjóði 9.1, peningamarkaðssjóði fyrir evrur. Hversu augljóst sem það virðist sóknaraðila að það hefði verið fráleitt að hann vildi færa fé sitt úr peningamarkaðssjóði í krónum yfir í peningamarkaðssjóð í evrum var það engu að síður þannig sem starfsmenn bankans framfylgdu fyrirmælum hans en eins og fram er komið er alls óvíst hvernig hann orðaði þau.
Að mati dómsins hafði sóknaraðili næg tækifæri til að átta sig á því, hvort fyrirmælum hans hafði verið framfylgt á þann hátt sem hann vildi, löngu fyrir 3. október 2008 þegar bankinn sendi honum veðkall. Sóknaraðili dró ekki í efa að bankinn hefði sent honum tilkynningar um að bankinn hefði selt fyrir hann bréf í Sjóði 9 og keypt í Sjóði 9.1. Þær hefðu átt að berast sóknaraðila einum til tveimur virkum dögum eftir póstlagningu. Hann kvaðst hins vegar hafa sett allan pappírspóst í skúffu sem hafi síðan farið ólesinn til endurskoðandans.
Jafnframt hafði sóknaraðili skoðunaraðgang að einkabankaþjónustunni í netbanka sínum og vaktaði nánast daglega það verðbréfasafn sem hann stýrði sjálfur. Jafnvel þótt ramminn fyrir þau verðbréf sem bankinn hafði í eignastýringu hafi verið neðan við þau verðbréf sem sóknaraðili hafði sjálfur umsjón með og jafnvel þótt hafi þurft að opna hann sérstaklega var það þó ekki meiri aðgerð en að opna hvaða annað yfirlit í netbankanum sem var, ein skipun með „músinni“.
Hefði sóknaraðili tekið sér þær örfáu sekúndur sem þurfti til til þess að opna þau umslög sem honum bárust frá bankanum eða opna í netbankanum yfirlitið yfir hreyfingar á því eignasafni sem bankinn stýrði fyrir hann hefði hann séð fljótt og auðveldlega, hvort fyrirmælum hans hefði verið fylgt á þann hátt sem hann skildi þau.
Af framburði sóknaraðila fyrir dómi má einnig ætla að hann hafi einhvern tíma eftir 15. september 2008 litið yfir eign sína í fjárstýringu bankans því hann bar að hann hefði ekki rekið augun í að þetta væri „pappír“ en ekki peningar.
Þegar litið er til þess að bankinn veitti sóknaraðila tvo öryggisventla, tvær auðveldar og mjög fljótlegar leiðir til þess að aðgæta hvort starfsmenn bankans hefðu gert annað en það sem hann ætlaðist til, en sóknaraðili lét hjá líða að nýta sér þessi úrræði, þykir hann verða bundinn af viðskiptum starfsmanna bankans fyrir hans hönd hvort sem hann gaf þeim fyrirmæli um annað eða ekki.
Sóknaraðili þykir því ekki eiga neina fjárkröfu á hendur varnaraðila í þessu máli.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 815.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til þingfestingargjalds, 15.000 kr., og skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, Hermanns Sævars Guðmundssonar, á hendur varnaraðila, slitabúi Glitnis hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 815.000 kr. í málskostnað.