Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2004


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. október 2004.

Nr. 165/2004.

K

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

M

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

M höfðaði mál á hendur K til að fá sér dæmda forsjá dóttur þeirra A, sem er fædd 1992, en M hafði þá farið óslitið með forsjá hennar frá 1995, í samræmi við skilnaðarsamkomulag frá því ári. Í héraðsdómi var krafa M tekin til greina og lá fyrir að lögheimili A hafi verið flutt til M eftir uppkvaðningu héraðsdóms og hún hafi verið búsett hjá honum síðan. Í matsgerð kom fram að A vildi afdráttarlaust búa hjá M og ekki yrði merkt á máli hennar að hún væri að tjá annað en sína eigin afstöðu. Ekki hafði verið hnekkt þeirri niðurstöðu dómkvadds matsmanns að M jafnt sem K væri hæfur til að fara með forsjánna, svo og að hvorugt þeirra hefði yfirburðastöðu í þeim efnum í samanburði við hitt. Var héraðsdómur því staðfestur um forsjá M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2004. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar hans hér fyrir dómi.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjanda til að fá sér dæmda forsjá dóttur þeirra, A, sem fædd er 1992, en áfrýjandi hafði þá farið óslitið frá 1995 með forsjá hennar í samræmi við samkomulag aðilanna við hjónaskilnað þeirra á því ári. Í héraðsdómi var krafa stefnda tekin til greina. Fram er komið fyrir Hæstarétti að lögheimili stúlkunnar var flutt til stefnda sama dag og hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp og mun hún hafa verið búsett hjá honum síðan.

Samkvæmt beiðni áfrýjanda var Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur dómkvödd fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. júlí 2004 til að láta í ljós álit á því „hver sé afstaða telpunnar ... til þess máls sem rekið er um forsjá hennar, á hverju sú afstaða hennar byggir, þ.á m. hvort hún ráðist að einhverju leyti af vilja og afstöðu föður hennar, og hvort sú afstaða sem telpan lýsir sé í samræmi við það sem henni sé fyrir bestu.“ Í matsgerð 27. ágúst 2004 kom meðal annars fram að stúlkan hafi verið afdráttarlaus um það að hún vildi búa hjá stefnda, þótt henni þætti einnig mjög vænt um áfrýjanda og vildi eiga gott og náið samband við þau bæði. Kvað matsmaðurinn ekki unnt að útiloka að afstaða stúlkunnar til þessa máls hafi á einhverju stigi markast af áhrifum frá stefnda eða áfrýjanda ef því væri að skipta. Þótt órökrétt væri að útiloka áhrifamátt foreldra gagnvart barni við þessar aðstæður yrði ekki merkt á máli hennar að hún væri að tjá annað en sína eigin afstöðu, sem byggð væri á því sem hún teldi sér sjálfri fyrir bestu. Dró síðan matsmaðurinn saman niðurstöðu sína í svofelldri ályktun: „Það er því mat undirritaðrar eftir að hafa skoðað þetta mál ... að sú afstaða A að búa hjá föður og lúta forsjá hans sé henni fyrir bestu. Til að þetta fyrirkomulag megi verða farsælt er brýnt að A fái notið eðlilegrar og rúmrar umgengni við móður sína, bróður og fjölskyldu móður. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt í ljósi þess að milli þeirra mæðgna ríkja djúp tilfinningatengsl enda A alin upp hjá henni þar til fyrir skemmstu. Þess utan er A nú að komast á unglingsárin og þarfnast þar af leiðandi samneytis við móður sína bæði sem félaga og fyrirmynd.“

Ekki hefur verið hnekkt þeirri niðurstöðu matsmanns, sem var dómkvaddur við meðferð málsins í héraði, að stefndi jafnt sem áfrýjandi sé hæfur til að fara með forsjá dóttur þeirra, svo og að hvorugt þeirra hafi yfirburðastöðu í þeim efnum í samanburði við hitt. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, lagði meðal annars þessa ályktun matsmanns til grundvallar, en lét afstöðu stúlkunnar, sem þótti vel ígrunduð miðað við aldur hennar og þroska, ráða niðurstöðu um að stefnda yrði falin forsjá hennar, enda væri hag hennar og þörfum þannig best borgið. Framangreind matsgerð, sem aflað var eftir áfrýjun héraðsdóms, styrkir þá niðurstöðu enn frekar. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað þeirra fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hennar, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 275.000 krónur, og Valborgar Þ. Snævarr hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, M, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 275.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2004.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 24.  f.m. er höfðað með stefnu útgefinn 11.nóvember 2002 og var málið þingfest þann 21. nóvember 2002.

Stefnandi er M, [...].

Stefnda er K [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær, að honum verði dæmd forsjá dóttur hans og stefndu K, A, [...]. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Í upphafi var mál þetta jafnframt höfðað á hendur R, eiginmanni stefndu.

Í munnlegum málflutningi féll stefnandi frá öllum kröfum á hendur honum, enda fram komið, að hjúskap hans og stefndu var þá slitið. Af hálfu þessa stefnda var samþykkt að málið væri fellt niður á hendur honum, án kostnaðar.

 

Málavextir:

Málavöxtum er svo lýst í stefnu, að stefnandi og stefnda hafi gengið í hjónaband á árinu 1991. Þau eignuðust dótturina A þann [...] 1992. Nokkrum árum seinna skildu þau og var leyfi til skilnaðar að borði og sæng gefið út 3. maí 1995. Samkvæmt því skyldi stefnda hafa forsjá barnsins. Leyfi til lögskilnaðar var gefið út 5. júní 1997. Stefnda hefur síðan gengið í hjónaband að nýju og eignast son, sem fæddur er [...] 2002. Þessu hjónabandi stefndu er nú slitið.

Stefnandi höfðaði mál fyrir héraðsdómi í nóvember 1995 þar sem hann krafðist þess að honum yrði dæmd forsjá A. Í apríl eða maí 1996 tókust sættir með aðilum utan réttar þess efnis, að forsjáin yrði áfram hjá stefndu. 

Þá segir, að stefnandi hafi tvívegis síðan reynt að fá forsjá barnsins breytt með málsókn fyrir dómstólum, í nóvember 1996 og haustið 1998, þegar hann sótti um gjafsóknarleyfi, en þeirri beiðni var hafnað.

Auk þessa hefur stefnandi rekið forsjármál fyrir sýslumanninum á Selfossi 1997 og í Hafnarfirði 1998.

Stefnandi og stefnda gerðu með sér samkomulag hjá sýslumanninum í Reykjavík 23. júlí 1998 um umgengni stefnanda við barnið. Þar var kveðið á um reglulega umgegni.

Stefnandi taldi stefndu hafa komið í veg fyrir umgengni hans og barnsins aða a.m.k. torveldað hana verulega. Hann hóf því umgengnisréttarmál fyrir sýslumanninum í Reykjavík í nóvember 1998. Stefnandi og stefnda munu hafa náð samkomulagi um umgengnina þann 15. mars 1999.

Í stefnu er atburðum á árinu 2002 lýst svo, að frá 1999 til byrjunar ársins 2002 hafi samskipti stefnanda og stefndu gengið ágætlega og hafi stefnandi fengið tækifæri til að rækja umgengnisrétt sinn vel. Snemma á árinu 2002 hafi gerst eitthvað, sem valdið hefur mikilli vanlíðan hjá barninu. Þann 15. mars 2002 hafi barnið reynt að skaða sjálfa sig með því að vefja bandi um háls sér meðan það var í skólanum. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fóru með barnið á vinnustað stefnanda og hafði hann barnið hjá sér næstu 2 vikur og hafi stefnda ekki andmælt því. Barnavernd óskaði þess síðan að barnið færi á Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans, þar sem hún dvaldi í um eina viku. Eftir það var hún send aftur til móður hennar, stefndu.

Í lok maí 2002 hafi skólayfirvöld í [...]skóla haft samband við stefnanda og sagt honum, að barnið hefði að nýju reynt að skaða sig með sama hætti og í mars. Hafi stefnandi verið hvattur til að sækja barnið, sem hann og gerði. Hafi stefnda samþykkt, að barnið yrði hjá stefnda til 3. júní. Þann 7. júní hafi lögmaður stefndu beðið um aðför og krafist þess, að barnið yrði tekið af stefnanda. Beiðni stefndu um aðför var samþykkt þann 19. júní 2002 með úrskurði héraðsdóms. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni þann 20. júní var barnið fengið stefndu.  Stefnandi hafi ítrekað reynt að hafa samband við dóttur sína í síma næstu daga, en án nokkurs árangurs og hafi hann því farið að heimili stefndu þann 24. júní og hringt á dyrabjöllu. A hefði sjálf svarað og farið með honum með samþykki stefndu.

Stefnda kærði stefnanda til lögreglu fyrir brot gegn 193. gr. laga nr. 19/1940.

Að kvöldi þess 27. júní 2002 kom fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði ásamt lögreglumönnum að heimili stefnanda og var ætlunin taka barnið af stefnanda með aðför. Sýslumaður og lögregla hvarf síðar um kvöldið frá og var barnið eftir það flutt á Landspítalann. Daginn eftir mun hafa verið farið með barnið til sálfræðings, sem tilkynnti um málið til barnaverndaryfirvalda í Reykjavík, sem svo fluttu barnið til stefndu. Um einni viku síðar var barnið sent að bænum Skarði í Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem það dvaldi um nokkurra vikna skeið. Eftir þá dvöl hafi barnið verið hjá stefndu.

Í þinghaldi þann 8. maí 2003 var Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur dómkvaddur til þess að meta forsjárhæfni foreldra og fleiri atriði, sem hér verða nánar rakin eins og þau koma fram í matsgerðinni.

Eftir að matsmaður hefur kannað aðstæður og gert sálfræðilegar prófanir á málsaðilum og A, lýkur hann matgerð sinni með eftirfarandi  undir fyrirsögninni:

Samantekt og ályktanir um forsjá A.

„Niðurstöður og ályktanir matsmanns um atriðin byggja á niðurstöðum viðtala, viðhorfa, sem foreldrarnir og barnið, sem um er deilt, hafa látið í ljós og sálfræðilegra prófana, sem þau hafa gengist undir. Einnig hafa aðstæður á heimilum beggja foreldra verið kannaðar auk viðhorfs kennara barnsins og hafa ýmis gögn viðkomandi málinu verið skoðuð.

Leitast er við að gefa eins stutt og hnitmiðað mat við hvert atriði og unnt er og reynt að forðast óþarfa endurtekningar.

 

1. Forsjárhæfni hvors foreldris um sig. Undirritaður telur að ekkert það hafi komið fram í könnun málsins … , sem skerðir forsjárhæfni annars hvors foreldrisins þannig, að það sé vanhæft að sinna uppeldisskyldum sínum og að skapa barninu heimili, þótt persónulegar og félagslegar aðstæður þeirra séu ólíkar og margt megi betur fara s.s. í hegðun og samskiptum beggja.

Matsmaður telur heldur ekki að annað foreldrið hafi yfirburðastöðu umfram hitt foreldrið, sem byggist þá á miklu meiri skilningi á þörfum barnsins og skilvirkum uppeldisaðferðum.

2. Hagir foreldra. a) Félagslegir hagir foreldranna eru almennt ólíkir. Fjölskylduhagir móður eru þeir, að hún er gift samlanda sínum og þau eiga saman 20 mánaða gamalt barn. K tjáði undirrituðum þann 10. september sl. að þau hjónin væru að skilja og maðurinn hefði flutt út þann 15. ágúst sl. Hún er því ein með A og litla barnið.

K býr í 3 herbergja eignaríbúð í blokk að [...]. Hún er 75% öryrki vegna nýrnasjúkdóms og stundar nám í tölvu- og skrifstofutækni í Iðnskólanum í Reykjavík. Hún reykir hvorki né notar áfengi- og vímuefni.

             Faðir býr einn í eignaríbúð í fjórbýlishúsi í Hafnarfirði. Hann var í skamman tíma í sambúð með sér yngri konu, einstæðri móður, eftir skilnaðinn við K. Sú kona reykti allmikið og þoldi M illa reykinn, svo hún flutti annað. Náinn vinskapur er með þeim áfram, þótt sambúð sé ekki á döfinni.

M hefur ellistyrk frá T.R. sér til framfærslu. Hann á einnig fiskibát og fer oft á sjó til þess að veiða sér í soðið. Báturinn er veiðiheimildalaus. M hvorki reykir né notar áfengi  eða vímuefni.

b) Sálfræðilegar prófanir sýna, að geðfræðilegir hagir foreldranna sýna allsterkar varnir og sjálfsfegrun hjá báðum. Þó koma augljóslega fram ákveðin frávik en hvorki geðveiki né persónuleikaraskanir mælast hjá þeim.

3. Uppeldisaðstæður á heimilum þeirra, þ.á m. hvort A sætir líkamlegu eða andlegu harðræði á heimili matsþola.  Fram hefur komið í viðtölum við A að móðir hennar hafi í allmörg ár lagt á hana hendur. Hún greindi frá því að móðir sín hefði barið sig með belti og einu sinni með herðatré svo fast að herðatréð hafi brotnað. Líkamlegt ofbeldi af því tagi lauk fyrir fáeinum árum en hótanir um slíkt hafa komið í staðinn af hálfu móður A. Aukinheldur hefur móðir hennar um margra ára skeið klipið í eyrað á henni ef hún gerir eitthvað sem móður hennar líkar ekki. Það gerir hún enn  A kvartar einnig undan því að móðir hennar geri lítið úr sér og ávíti sig í viðurvist annarra. Hún sé jafnframt oftsinnis reið án þess að A eigi þar sök að máli en það bitni óhjákvæmilega á henni.

A hefur jafnframt orðið vitni að líkamlegu ofbeldi fósturföður síns gagnvart móður á heimilinu. Hún hringdi þá sjálf á lögreglu. Slíkir atburðir áttu sér stað í tvígang.

4. Tengsl A við foreldra sína og þeirra við hana. Tengslamynstur A innan fjölskyldunnar er rakið hér að framan. Hún myndar afar sterk, jákvæð tengsl við föður sinn og litla bróður en sterk, neikvæð tengsl við móður.

K segir A verða vara við væntumþykju sína í látbragði og viðmóti sínu og þær eigi sér söng, dans og sund o.fl. sem áhugamál.

M segir að A sjái væntumþykju sína og umhyggju sína fyrir henni í hegðun sinn og atlæti. Þau eru einnig mjög nánir félagar og eru sífellt saman að ástundun útiveru, skoðanaferða, íþróttaiðkana, sjóferða og ferðalaga að ónefndum söng og spili (harmonikka).

5. Tengsl A við fósturföður sinn. Tengsl A og R eru rýr, yfirborðsleg og neikvæð. Hún hafnar honum og lítið samband er á milli þeirra og yfirleitt þá neikvætt, þótt hún telji hann ekki alltaf slæman.

6. Þess er óskað að matsmaður kanni sérstaklega óskir A, afstöðu hennar til þess hvort foreldra hennar fari með forsjána og á hvaða grunni sú afstaða sé byggð. Í viðtölum og sálfræðilegum prófunum þá er afstaða A afar skýr og ákveðin, hún óskar þess eindregið að flytja til föður síns.

Grunnurinn sem hún byggir á er mikil og gagnkvæm væntumþykja auk þess sem þau feðginin eru miklir félagar. Einnig er rétt að benda á að A hefur verið í umgengni hjá föður sínum stuttan tíma í einu og ekki þurft að rísa undir neinum sérstökum kröfum daglegs lífs, s.s. varðandi skóla, heimilisstörf, barnapössun o.fl. sem hún ber svo saman við heimili móður, móðurinni í óhag.

Hún gefur sér jafnframt þá forsendu að ef hún flytjist til föður þá verði hún áfram í sama skóla, geti umgengist vinkonur sínar í [... ]hverfinu sem áður og umgengist litla bróður sinn að vild á heimili móður.

Loks má nefna að A hefur látið í ljós vanlíðan á heimili móður og tilgreinir líkamlegt og andlegt ofbeldi og miklar skapsveiflur móður sinnar, sem bitni á henni.

7. Álit matsmanns á því, hvort A sé betur fyrir komið á fósturheimili en á heimilum foreldra. Matsmaður svarar þessu neitandi. Hans álit er að þau tengsl sem A, sem er á 12 aldursári, hefur myndað við hvort foreldri um sig, heimilin bæði og lítinn bróður sinn, séu þess eðlis að fósturheimili muni aldrei geta komið í þeirra stað, hvað þá að henni sé þar betur fyrir komið. Þessi tengsl eru þó mismunandi eins og rakið er annars staðar í álitsgerðinni.

8. Önnur atriði sem matsmaður kann að telja nauðsynlegt að tjá sig um vegna forsjármálsins. Matsmaður telur að öll megin atriði málsins séu fram komin en telja má víst að málsaðilar sjái stöðu málsins og atburðarásina á ólíka vegu.

             Það má ljóst vera að A líður illa við þá togstreitu sem hefur myndast og varað um langa hríð á milli foreldra hennar. Það væri hennar mesti hagur að foreldrarnir gætu sameinast um að ná eðlilegu jafnvægi í samskiptum sínum og draga úr þeirri  “kvöð” á hana að þurfa að taka sífellt afstöðu með öðru foreldrinu og á móti hinu.”

Stefnandi og stefnda gáfu bæði skýrslu fyrir dómi. Þá gaf hinn dómkvaddi matsmaður skýrslu.

Fyrir aðalmeðferð ræddu dómarar við A.

Undir rekstri málsins hafa átt sér stað sáttaumleitanir, sem meðal annars hafa leitt til þess, að gert hefur verið nýtt samkomulag um umgengni, dags. 3. nóvember 2003.

Jafnframt lagði stefnandi þá fram tillögu um að samkomulag yrði gert um sameiginlega forsjá barnsins auk annarra atriða, sem tilgreind voru í sáttaboðinu. Þessu boði hafnaði stefnda.

 

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi telur nýleg atvik í skóla staðfesta, að A líði mjög illa á heimili móður sinnar. Telur stefnandi gögn málsins sýna það, að stefnda hafi beitt barnið harðræði, kúgun og líkamlegu ofbeldi.  Samkvæmt vottorði Helga Þórs Hjartarsonar, læknis, frá 28. júní 2002, hafi barnið sjálft lýst alvarlegu líkamlegu ofbeldi af hálfu móður og fósturföður. Í vottorði læknisins er frásögn barnsins talin trúverðug. Stefnandi telur, að vegna heimilisástandsins búi barnið við óöryggi heima við sem valdi því mikilli vanlíðan.

Stefnandi telur gögn málsins sýna, að stefnda eigi mjög erfitt með að stjórna skapsmunum sínum. Í heift sinni hafi hún margsinnis á árum áður ráðist á stefnanda og veitt honum líkamsáverka.

Stefnandi kveður stefndu hafa ítrekað brotið samkomulag þeirra um umgengni hans við barnið, sem honum sé að lögum rétt og skylt að rækja. Tilgangur hans með öllum þeim forsjár- og umgengnisréttarmálum, sem hann stóð í gagnvart stefndu á árunum 1995-1999, hafi verið að reyna að ná fram breytingu á atlæti barnsins undir forsjá stefndu, m.a. vegna þess ofbeldis og harðræðis, sem barnið sætti af hendi hennar.

Stefnandi kveður aðgerðir sínar á árinu 2002 og fyrr allar hafa miðast við það að tryggja hagsmuni og velferð dóttur sinnar. Hafi hann reynt að fara rétt að miðað við aðstæður hverju sinni. Stefnandi telur atburði ársins 2002 sýna fram á nauðsyn þess að forsjánni verði breytt.

Barnið, A, sé nú 11 ára gömul og á mjög viðkvæmu aldurs- og mótunarskeiði. Hún hafi brýna þörf fyrir gott atlæti og öryggistilfinningu á heimili, sem sé nauðsynlegt fyrir heilbrigðan þroska hennar.. Slíks njóti hún ekki hjá stefnanda í máli þessu að mati stefnanda.

Stefnandi geri sér grein fyrir þörf barnsins fyrir góða og reglubundna umgengni við móður sína og hálfbróður. Mun stefnandi leitast við að efla þessi tengsl svo sem kostur er.

Stefnandi óttast mjög um hag dóttur sinnar, A, hjá stefndu og telur sig knúinn til að leita dómsúrskurðar um breytingu á forsjá hennar. Stefnandi krefjist þess, að honum einum verði dæmd forsjá barnsins, þar sem dómur geti ekki ákveðið sameiginlega forsjá, enda sé sú skipan í bestu samræmi við hagi og þarfir þess, enda telur stefnandi sig hafa mun betri möguleika og aðstöðu en stefnda til að búa barninu það atlæti, sem hæfir þörfum þess og hagsmunum.

 

Málsástæður stefndu:

Stefnda byggir kröfur sínar á því, að skilyrðum 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1992 sé ekki fullnægt í málinu. Þannig hafi aðstæður ekkert breyst með þeim hætti, að breyting þyki réttmæt með tilliti til hags og þarfa barnsins. Stefnda telji hagsmuni barnsins þvert á móti krefjast áframhaldandi forsjár hennar, enda hafi hún ávallt verið umönnunarforeldri hennar og hún því tengd henni sterkum tilfinningaböndum. Breytt forsjá mundi hafa í för með sér mjög alvarlega röskun á högum barnsins sem gæti reynst henni skaðleg að mati stefndu. Stefnda telji framkomu stefnanda á undanförnum árum ekki fela í sér breyttar forsendur í skilningi 35. gr., heldur þvert á móti sýni framkoma hans, að hann sé ófær um að fara með forsjá barnsins.

Aðstæður stefndu séu mjög góðar. Hún hafi gengið í hjúskap með R í maí 2000 og eiga þau saman son, sem fæddist [...] 2002. Þau hafa nú skilið. Stefnda er öryrki vegna nýrnasjúkdóms, en stundar íslensku-  og tölvunám í Iðnskólanum síðan í ágústmánuði 2002.

Aðstæður stefnanda séu langt frá því að vera eins góðar og aðstæður stefndu. Þá sé hann eldri maður og einhleypur og geti því ekki boðið telpunni eðlilegar uppeldisaðstæður eins og stefnda geti. Eini þáttur uppeldis barnsins sem feli í sér óöryggi sé vegna framkomu stefnanda í hennar garð og undarlegrar framkomu hans hvað eftir annað í garð fjölskyldunnar í heild.

Stefnda mótmæli  því, að hún sé með einhverjum hætti vanhæf til að hafa forsjá barnsins eins og byggt er á í stefnu. Stefnandi hafi á hinn bóginn sýnt vanhæfni sína með hótandi og ofbeldisfullri framkomu, með því að virða ekki umgengnissamninga og neita að afhenda barnið til forsjárhafa. Slíkt sýni mikið dómgreindar- og hömluleysi. Ljóst sé, að stefnandi myndi aldrei stuðla að umgengni barnsins við stefndu, fengi hann forsjá. Jafnframt sé ljóst, að stefnandi er ekki í stakk búinn til að fullnægja þörf barnsins fyrir gott atlæti og öryggistilfinningu sem henni er nauðsynleg fyrir heilbrigðan þroska hennar, en þessum þörfum sé vel fullnægt hjá stefndu.

Mótmælt er öllum málsástæðum, sem byggja á meintu ofbeldi af hendi stefndu, sem röngum og málatilbúnaði stefnanda mótmælt í heild sinni. 

 

Niðurstaða:

Aðilar máls þessa gerðu með sér samkomulag fyrir sýslumanninum á Selfossi þann 19. apríl 1995, um að stefnda hefði forsjá barnsins A. Samkomulag þetta er staðfest í leyfi til skilnaðar að borði og sæng þann 3. maí 1995.

Við úrlausn máls þessa ber að taka mið af 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1992, sbr. 81. gr. laga nr. 76/2003.

Samkvæmt því verður krafa stefnanda um breytta skipan á forsjá A því aðeins tekin til greina, að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins.

Á þeim langa tíma, sem liðinn er frá því sá samningur var gerður, sem forsjáin hvílir á, hafa gengið yfir miklar breytingar á högum málsaðila.

Er þar helst til að taka, að stefnda gekk í hjúskap í maí 2000 með R og á með honum son, sem fæddur er [...] 2002. Hjúskap þessum er nú slitið.

Þá hefur verið upplýst, að stefnda hefur átt við að stríða nýrnasjúkdóm, en hefur nú fyrir nokkru undirgengist nýrnaígræðslu.

Í matsgerðinni kemur fram, að afstaða A til þessa máls sé afar skýr og ákveðin, hún óski þess eindregið, að flytja til föður síns. Ekkert hefur komið fram, sem gefur tilefni til að efast um þessa niðurstöðu matsmansins og er þá meðal annars litið til þess samtals, sem dómendur áttu við A. 

Verður að telja, að ýmislegt það hafi breyst í aðstæðum málsaðila, sem geri það réttmætt að kanna, hvort breytt forsjá geti samrýmst þörfum A og þá ekki síst með tilliti til óska hennar sjálfrar.

Í matsgerðinni kemur fram, að tengsl barnsins við föður sinn séu sterkari og jákvæðari en við móður og fær þetta álit matsmanns stuðning í sálfræðilegu prófi og í viðtölum barns við matsmann og við dómara.

Hæfileikar föður til að setja sig í spor barnsins og þar með að vernda það, eru barninu jákvæðari. Af framburði móður og matsmanns við aðalmeðferð má ætla, að faðir hafi meira innsæi í þarfir barnsins en móðir. Móðir virðist afneita vanlíðan barnsins og fullyrðir við vitnaleiðslur, að stúlkan sé í góðu tilfinningalegu jafnvægi. Álit móður á líðan barns er ekki í samræmi við álitsgerð matsmannsins, viðhorf kennara eða framburð barnsins í samtali við dómara. Í framburði matsmannsins fyrir dómi kom fram, að hann telur stefnanda vera ákaflega góðan við dóttur sína og góður félagi hennar og geti sinnt henni vel. Þá fullyrðir matsmaðurinn, að stefnda verji ekki barnið og hafi lítið innsæi í þarfir þess.

 Eftir því, sem segir í matsgerð, hefur komið fram í viðtölum við A, að móðir hennar hafi í allmörg ár lagt á hana hendur. og vísast um nánari frásögn af þessu til matsgerðar. Þessu hafi lokið fyrir fáeinum árum, en hótanir um slíkt hafi komið í staðinn. Í skýrslu matsmanns fyrir dómi kom fram, að hann teldi frásögn barnsins trúverðuga. Fyrir dómi mælti matsmaðurinn með breyttri forsjá, ef um væri að ræða ofbeldi af hálfu móður.

Dómurinn hefur undir rekstri málsins ítrekað beint því til málsaðila að reyna til þrautar að ná samkomulagi sín á milli um forsjá barnsins, enda telur matsmaður að mesti hagur A væri að foreldrarnir gætu sameinast um að ná eðlilegu jafnvægi í samskiptum sínum og draga úr þeirri kvöð á hana að þurfa sífellt að taka afstöðu með öðru foreldrinu og á móti hinu. Hefur þá helst verið horft til þess, að samkomulag gæti orðið um sameiginlega forsjá, sem væri þá líkleg til þess að draga úr þeirri togstreitu sem myndast hefur milli málsaðila. Ljóst má vera, að ekki er fyrir því nein trygging, að úr væringum drægi við þá skipan mála, en væri þó líklegra en við óskipta forsjá, hvorum megin sem hún félli. Af hálfu stefndu hefur ekki verið samþykkt að semja um sameiginlega forsjá.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 20/1992 á dómurinn ekki annan kost en að ákveða óskipta forsjá.

Hinn dómkvaddi matsmaður hefur gefið það álit á forsjárhæfni  hvors foreldris um sig, að ekkert hafi komið fram í könnun málsins, sem skerðir forsjárhæfni annars hvors foreldrisins þannig að það sé vanhæft að sinna uppeldisskyldum sínum og að skapa barninu heimili, þótt persónulegar og félagslegar aðstæður þeirra séu ólíkar og margt mætti betur fara svo sem í hegðun og samskiptum beggja. Þá telur matsmaður heldur ekki að annað foreldrið hafi í þessu efni yfirburðastöðu umfram hitt foreldrið.

Dómurinn er þeirrar skoðunar, að sú afstaða A, sem orðin er tæpra 12 ára, að föður hennar verði falin forsjá hennar, sé vel ígrunduð miðað við aldur hennar og þroska. Verði að láta þessa afstöðu hennar ráða úrslitum í máli þessu.

Með vísan til alls þessa er niðurstaða dómsins sú, að hag og þörfum barnsins A sé best borgið með því að stefnanda, M, verði falin forsjá þess.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Báðir málsaðilar hafa fengið gjafsókn í málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talinn matskostnaður 420.000 krónur og þóknun talsmanns hans, Marteins Mássonar hdl.  500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin kostnaður við túlkun í réttinum, kr. 53.460 og þóknun talsmanns hennar, Valborgar Þ Snævarr hrl. 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. 

 

Logi Guðbrandsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Odda Erlingssyni og Rögnu Ólafsdóttur, sálfræðingum.

D ó m s o r ð:

Stefnandi, M, skal fara með forsjá dóttur hans og stefndu K, A, sem fædd er 14. júní 1992.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talinn matskostnaður 420.000 krónur og þóknun talsmanns hans, Marteins Mássonar hdl.  500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin kostnaður við túlkun í réttinum, kr. 53.460 og þóknun talsmanns hennar, Valborgar Þ Snævarr hrl. 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.