Hæstiréttur íslands
Mál nr. 434/2005
Lykilorð
- Hlutafélag
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 23. mars 2006. |
|
Nr. 434/2005. |
Jón Ágúst Jóhannsson Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl. Eyvindur G. Gunnarsson hdl.) gegn Holtabúinu ehf. Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni (Magnús Thoroddsen hrl.) |
Hlutafélag. Samningur
Deilt var um eignaskipti og uppgjör J, G og S vegna slita á sameiginlegum rekstri hlutafélagsins H og þriggja annarra félaga. Fyrir lágu drög að samkomulagi frá 1989 um skiptingu á eignum H til undirbúnings því að J gengi úr félaginu og skjal frá 5. desember 1990 sem hafði að geyma samkomulag um þau verðmæti, sem koma áttu í hlut J, en þar var þess sérstaklega getið að um fullnaðargreiðslu væri að ræða fyrir allt hlutafé hans í félögunum. Þessi skjöl voru talin fela í sér efnisatriði samnings J, G og S um slit á sameiginlegum rekstri félaganna, þau verðmæti sem koma áttu í hlut J af því tilefni og kaup G og S á hlutum hans í félögunum. Ekki var fallist á með J að samkomulagið hefði falið í sér að hann ætti að fá í sinn hlut þær fjárhæðir sem G og S voru ætlaðar vegna lækkunar á hlutafé í H. Talið var nægilega sýnt fram á að G og S hefðu efnt samninginn og J og eiginkona hans þar með fengið fullnaðargreiðslu þá, sem um ræddi í samkomulaginu frá 5. desember 1990, fyrir alla hluti sína í félögunum. Talið var með öllu ósannað að J hefði verið beittur svikum eða misneytingu við gerð samningsins. Þá var 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga ekki talin standa því í vegi að H, G og S gætu borið samninginn fyrir sig og því hafnað að 36. gr. sömu laga yrði beitt til að breyta umsömdu kaupverði til hækkunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. október 2005. Þau krefjast þess að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða sér 117.358.951 krónu með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1992 til 17. janúar 1997, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi stofnuðu áfrýjendurnir Jón Ágúst Jóhannsson og Sigríður Sveinsdóttir Holtabúið hf. á árinu 1978 ásamt stefndu Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni, svo og eiginkonum þeirra. Fyrir liggur skjal, sem hefur að geyma drög að samkomulagi milli bræðranna Jóns Ágústs, Gunnars Andrésar og Sigurðar Garðars um skiptingu á eignum Holtabúsins hf. Munu þessi drög hafa verið gerð til undirbúnings því að sá fyrstnefndi gengi úr félaginu, en þau voru undirrituð af þeim þremur og þess getið að sammæli hafi orðið um þau á fundi 10. júlí 1989. Þá liggur fyrir skjal frá 5. desember 1990, þar sem fram kemur nánar tiltekið samkomulag þeirra sömu um verðmæti, sem koma áttu í hlut áfrýjandans Jóns Ágústs, en þar var þess sérstaklega getið að gert væri ráð fyrir að um fullnaðargreiðslu væri að ræða fyrir allt hlutafé hans í Holtabúinu hf., Fóðurblöndunni hf., Kornax hf. og Ewos hf. Í hinum áfrýjaða dómi er nánar greint frá efni þessara skjala. Með vísan til forsendna hans verður að líta svo á að í þeim felist efnisatriði samnings, sem umræddir málsaðilar gerðu um slit á sameiginlegum rekstri sínum á Holtabúinu hf. og þeim félögum öðrum, sem áður var getið, hvaða verðmæti kæmu í hlut áfrýjandans Jóns Ágústs af því tilefni og kaup stefndu Gunnars Andrésar og Sigurðar Garðars á hlutum hans í félögunum.
Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár 28. janúar 1991 var ákveðið á aðalfundi Holtabúsins hf. 29. júní 1990 að hækka hlutafé í félaginu með útgáfu jöfnunarhlutabréfa, þannig að það næmi alls 363.000.000 krónum, og lækka það síðan aftur í 45.000.000 krónur með greiðslu til hluthafa á samtals 318.000.000 krónum. Óumdeilt er að áfrýjendurnir Jón Ágúst og Sigríður hafi sumarið 1990 átt til samans þriðjungshluta í félaginu. Líta verður svo á að í fyrrnefndu samkomulagi 5. desember 1990 hafi verið miðað við að 106.000.000 krónur af þeim heildarverðmætum, sem samið var um að áfrýjandinn Jón Ágúst fengi afhent við slit á samstarfi sínu við stefndu Gunnar Andrés og Sigurð Garðar, skyldu teljast inntar af hendi með útborgun frá Holtabúinu hf. vegna lækkunar á hlutafé, en af þeirri tilhögun gat sá fyrstnefndi notið verulegs hagræðis við skattlagningu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms eru engin efni til að fallast á með áfrýjendum að samkomulagið frá 5. desember 1990 hafi falið í sér að Jón Ágúst ætti jafnframt að fá í sinn hlut samtals 212.000.000 krónur, sem stefndu Gunnari Andrési og Sigurði Garðari voru ætlaðar vegna lækkunar á hlutafé í Holtabúinu hf., en samkvæmt gögnum málsins stóðu verðmæti, sem svöruðu til þessarar fjárhæðar, áfram inni hjá félaginu og var hún færð í reikningum þess til skuldar við þessa stefndu.
Fallast verður á með stefndu að sýnt sé nægilega fram á að fyrrgreindur samningur hafi verið efndur af þeirra hendi og áfrýjendurnir Jón Ágúst og Sigríður þar með fengið þá fullnaðargreiðslu, sem um ræddi í samkomulaginu frá 5. desember 1990, fyrir alla hluti sína í félögunum, sem áður er getið. Ósannað er með öllu að Jón Ágúst hafi verið beittur svikum eða misneytingu við gerð samningsins, svo sem áfrýjendur halda fram. Þótt komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í matsgerð dómkvaddra manna, sem áfrýjendur öfluðu í fyrra máli sínu gegn stefndu vegna sama sakarefnis, að verðmæti þess, sem Jón Ágúst og Sigríður létu af hendi, hafi verið meira en endurgjaldinu nam, eru ekki skilyrði til að telja ákvæði 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986, standa því í vegi að stefndu beri samninginn fyrir sig. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms að hafna því að ákvæðum 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, verði hér beitt til að breyta umsömdu kaupverði til hækkunar.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Eftir þessum úrslitum málsins verður að dæma áfrýjendur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Jón Ágúst Jóhannsson, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf., greiði í sameiningu stefndu, Holtabúinu ehf., Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni, hverjum fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. júlí 2005.
Mál þetta, var tekið til dóms 17. maí sl.
Stefnendur eru Jón Ágúst Jóhannsson, kt. 250448-3769, og Sigríður Sveinsdóttir, kt. 101144-2839, bæði persónulega og fyrir hönd Jóns Jóhannssonar ehf., kt. 480390-1569, öll Ásmundarstöðum, Ásahreppi, Rangárvallasýslu.
Stefndu eru Holtabúið ehf., kt. 580179-0459, Árbæ, Holta- og Landsveit, Rangárvallasýslu, Gunnar Andrés Jóhannsson, kt. 230551-2519, sama stað og Sigurður Garðar Jóhannsson, kt. 260746-3599, Hegranesi 22, Garðabæ. Er Gunnari Andrési og Sigurði Garðari stefnt persónulega og fyrir hönd Holtabúsins ehf.
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 117.358.951 krónur, ásamt skaðabótavöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. febrúar 1992 til 17. janúar 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda.
Réttarfarssaga málsins
Mál á milli sömu aðila og um sama sakarefni, mál E-13/2001, var höfðað með stefnu birtri 1. og 2. desember 2000 og þingfest 17. janúar 2001. Matsgerð dómkvaddra matsmanna er dagsett 4. maí 2001 og var hún lögð fram 16. maí 2001. Yfirmati lauk 3. júní 2002 og var það lagt fram 28. ágúst 2002. Með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2002 var málinu vísað sjálfkrafa frá dómi með vísan til meginreglna einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 24. janúar 2003. Annað mál milli sömu aðila og um sama sakarefni, mál E-537/2003 var höfðað með stefnu birtri í maí 2003 og þingfestri 4. júní 2003. Málinu var vísað sjálfkrafa frá dómi með úrskurði uppkveðnum 15. apríl 2004 á svipuðum forsendum og í hið fyrra sinn. Frávísunarúrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 14. maí 2004. Mál það sem hér er til úrlausnar, E-631/2004, var höfðað með stefnu birtri 7. og 9. október 2004 og þingfest 20. sama mánaðar.
Málsatvik
Í efnisþætti málsins er deilt um eignaskipti og uppgjör þriggja bræðra vegna slita á sameiginlegum rekstri og eignarhlut í hlutafélaginu Holtabúinu og dótturfélögum þess. Deilt er um það hvort gert hafi verið bindandi samkomulag um uppskiptin, efni þess og tímasetningu, og hvort uppgjöri hafi verið endanlega og lögformlega lokið. Stefnendur telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna sviksamlegrar og jafnvel saknæmrar framkomu stefndu í þessu sambandi. Stefndu telja lögskipti aðila hafa verið eðlileg og full frá gengin, en hafi stefnendur átt einhverjar kröfur á hendur stefndu þá séu þær fyrndar.
Tildrög málsins eru þau að stefnandi, Jón, og bræður hans, stefndu Gunnar og Sigurður Garðar Jóhannssynir, stofnuðu Holtabúið hf. 9. ágúst 1978 ásamt eiginkonum sínum. Tilgangur félagsins var eggjaframleiðsla, kjúklingarækt, svínarækt, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur. Hlutafé félagsins var 3.000.000 gamlar krónur í 10.000 króna hlutum, átti hver bræðranna 90 hluti og eiginkona hvers 10 hluti. Á næstu árum keyptu þeir einnig Hveitimylluna hf., Fóðurblönduna hf., og fleiri fyrirtæki. Í málinu er almennt vísað til Holtabúsins og dótturfyrirtækja þess sem Holtabússamstæðunnar. Í framhaldi af því að ráðist var í uppbyggingu Fóðurblöndunnar árið 1986 var rekstur Holtabúsins hf. seldur. Keypti Reykjagarður hf. kjúklingaframleiðsluna og sláturhús, en framleiðslukvóti í eggjum var seldur til Vallárbúsins hf. og til Nesbúsins hf. Eftir þessa sölu var einnig tekið til við uppbyggingu fyrirtækis þeirra Hveitimyllunnar hf. Stefnanda, Jóni, sem áður hafði séð um kjúklingaframleiðsluna á Holtabúinu, var falið að sjá um rekstur Hveitimyllunnar hf. Honum mun hins vegar ekki hafa líkað það starf og falaðist fljótlega eftir áhrifastöðu hjá Fóðurblöndunni hf., sem stefndi Gunnar veitti þá forstöðu. Við þeirri kröfu hans var ekki orðið. Kveðst Gunnar hins vegar hafa boðist til að víkja úr fyrirtækinu og láta Jóni eftir forstjórastarfið. Jón staðfestir þetta í framburði sínum, en kveður Gunnar hafa dregið boðið til baka. Kveður hann bræður sína hafa þrýst á sig að selja, en þeir segjast hafa reynt að telja honum hughvarf.Ekki náðist eining um starfssvið Jóns og fór svo að lokum að Jón seldi bræðrum sínum hlut sinn í fyrirtækinu. Jón kveðst um þetta leyti hafa farið að finna fyrir þunglyndi..
Samkvæmt málsskjölum undirrituðu bræðurnir vegna eignaskiptanna svonefnd drög að samkomulagi, samin 10. júlí 1989, og samkomulag 5. desember 1990 ásamt viðauka. Í skjölum þessum er tilgreint hvaða eignir eigi að koma í hlut stefnanda Jóns, en verðmat og útfærsla er takmörkuð. Ákveðið var meðal annars að fara þá leið, að hækka hlutafé Holtabúsins hf. með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og lækka það aftur, en þannig fengust 318.000.000 krónur til skipta. Deilan snýst að megin efni til um greiðslu þessa fjár og efndir annarra þátta samkomulagsins. Meðal málskjala er afsal dagsett 1. janúar 1991, deilt er um gildi þess og tölulegar forsendur. Voru matsmenn dómkvaddir í upphafi málsóknarinnar og í framhaldi af niðurstöðu þeirra voru dómkvaddir yfirmatsmenn. Tölulegur ágreiningur snýst aðallega um fjárhagslega stöðu félaga eignasamstæðunnar, en einnig aðra útfærsluþætti svo sem nánar verður skýrt. Einnig er deilt um það hvort kröfur stefnenda séu fyrndar, og um það hvort skiptin hafi verið gerð með heiðarlegum og sanngjörnum hætti.
Málsástæður stefnenda
Stefnendur byggja stefnukröfu sína tölulega á mati undirmatsmanna á hlutbundnum eignum (fasteignum og lausafé) Holtabússamstæðunnar hinn 31.12.1990, sem var metin 233.000.000 krónur, og því til viðbótar á mati yfirmatsmanna á viðskiptavild Fóðurblöndunnar hf. hinn 31.12.1990 sem talin var nema 80.000.000 króna. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna hafi þannig verið 233.000.000 + 80.000.000 eða 313.000.000 krónur til skipta í árslok 1990, en einn þriðji þeirrar fjárhæðar sé 104.333.333 krónur. Þeirri fjárhæð til viðbótar komi síðan vangreiðsla vegna hlutafjárlækkunar 13.025.618 krónur. Krafa stefnenda sundurliðast því þannig: 233.000.000 + 80.000.000 = 3l3.000.000 : 3 = 104.333.333 + 13.025.618 = 117.358.951.
Stefnendur halda því fram að hinn 5. desember 1990 hafi þeir bræður skrifað undir drög að samkomulagi um hækkun hlutafjár í Holtabúinu hf. og síðan lækkun hlutafjárins, sem greitt skyldi til hluthafa, samkvæmt reglum þágildandi hlutafélagalaga. Kveðst stefnandi Jón hafa skilið þessi drög þannig, að sá hluti lækkunarfjárhæðarinnar, sem þeir bræður Gunnar og Garðar ættu rétt á, yrði notaður sem greiðsla Gunnars og Garðars til Jóns, fyrir hluta Jóns í Holtabúinu hf. Að lokinni þessari greiðslu til Jóns, myndi hlutur Jóns í Holtabúinu hf. ganga til þeirra Gunnars og Garðars. Kveður hann þá hafa þrýst mjög á sig að selja þeim sinn hlut í Holtabúinu hf. Frá 5. desember 1990 kveðst Jón mest lítið hafa heyrt frá bræðrum sínum um framkvæmd samkomulagsins, fyrr en snemma árs 1992, er hann hafi haft samband við Gunnar og þá fengið þau skilaboð, að stefnendur hafi þegar afsalað sér hlutafé sínu í Holtabúinu hf. til þeirra Gunnars og Garðars. Verður að skilja þetta svo að það hafi komið Jóni á óvart, en hann kveðst síðan hafa fundið afsalið í skattgögnum sínum fyrir gjaldárið 1992 og mótmælt því við bræður sína. Hann kveður þá strax hafa fallist á, að afsalið yrði leiðrétt og gengið yrði til raunverulegs uppgjörs, en af því hafi aldrei orðið. Kveðst Jón sífellt hafa verið dreginn á uppgjörinu og verið illa í stakk búinn vegna þunglyndis að beita sér við bræður sína. Á fundi þeirra bræðra í ágúst 1998, hafi Gunnar og Garðar síðan tilkynnt stefnanda Jóni að afsalið stæði. Jón hefði þegar fengið sitt. Þá fyrst hafi Jón leitað lögmannsaðstoðar.
Stefnendur leggja einnig sérstaka áherslu á, að þegar árið 1990 og árið 1991, hafi aðalstarfsemi og verðmætasköpun Holtabússamstæðunnar verið í Fóður-blöndunni hf. þar sem Gunnar og Garðar hafi báðir verið í stjórn og dótturfélög Fóðurblöndunnar hf. hafi öll sýnt verulega góða afkomu. Stefnandi Jón hafi hins vegar eingöngu haft aðgang að bókhaldi Holtabúsins hf. á þessum tíma, sem hafi sannanlega ekki gefið honum nokkra möguleika á að fylgjast með raunverulegri fjárhagsstöðu Fóðurblöndunnar hf. og dótturfélaga hennar.
Stefnandi Jón tekur og fram í þessu sambandi, að stefndu hafi aldrei afhent nein gögn um fjárhagslega stöðu Holtabússamstæðunnar í árslok 1990 og árin þar í kring, nema vera krafðir um það af lögmanni hans eða dómkvöddum matsmönnum (dskj. nr. 54, 56, 65, 66 og nr. 121). Fyrir fund, sem haldinn hafi verið 11. janúar 2000, hafi lögmaður stefnenda til dæmis beðið um ákveðna ársreikninga Holtabúsins hf. og dótturfélaga (dskj. nr. 14). Á fundinum (dskj. nr. 15) hafi lögmaður stefndu aðeins afhent lögmanni stefnenda ársreikninga Holtabúsins hf. árin 1987 til og með 1991, án fyrningarskýrslna. Þannig hafi Jón verið engu nær en áður um afkomu Holtabússamstæðunnar í árslok 1990 eftir þann fund.
Af hálfu Jóns er því haldið fram, að það hafi síðan ekki verið fyrr en hann hafi stefnt bræðrum sínum í byrjun desember 2000 og dómkvaddir matsmenn hafi metið verðmæti Holtabússamstæðunnar miðað við árslok 1990 (dskj. nr. 43, bls. 1 -13 og nr. 122, bls. 1-9), að honum hafi loks orðið ljós raunveruleg fjárhagsleg staða Holtabússamstæðunnar í árslok 1990 og árin þar á eftir.
Í fyrsta lagi byggja stefnendur málsástæður sínar á því, að þau hafi verið blekkt og verið beitt svikum.
Stefnendur telja sig hafa verið blekkt til þess að undirrita afsalið, sem dagsett er 1. janúar 1991, um hlutafjáreign sína í Holtabúinu hf. Þau halda því fram að þau hafi aldrei samið um það við stefndu að þeir keyptu einn þriðja hluta hlutafjár stefnenda í Holtabúinu hf. fyrir 29.465.286 krónur. Afsalið beri það með sér að það sé ekki undirskrifað við samningaborð heldur óvenjulegar aðstæður. Það sé ekki undirritað af stefndu og sé óvottað. Stefnendur telja að stefndu hafi fengið sameiginlegan endurskoðanda þeirra bræðra til að lauma afsalinu meðal þeirra skattgagna, sem stefnendur hafi skrifað undir hjá endurskoðandanum, þegar þau hafi ritað undir sitt persónulega framtal andvaralaus í ársbyrjun 1992. Hafi stefndu með þessu brotið gegn 156. gr. almennra hegningarlaga. Benda stefnendur á að menn skrifi oft undir mikilvæg skjöl, án þess að lesa efni þeirra, sérstaklega hjá sérfræðingum sem menn treysti og eigi að gæta hagsmuna þeirra sem undirskrifa, en ofangreint lagaákvæði eigi einmitt að sporna við, að slík skjöl, sem þannig eru tilkomin, séu notuð í ávinningsskyni. Byggja stefnendur á, að með því, að stefndu hafi hagnýtt sér afsalið, þannig til komið, hafi stefndu sýnt af sér sök gagnvart stefnendum og hafi alla vega valdið þeim því tjóni, sem stefnukröfunni nemur, þar sem með þessu athæfi stefndu, hafi stefnendur orðið af þeim rétti að semja við stefndu um söluverð hlutabréfa þeirra í Holtabúinu hf. með eðlilegum hætti.
Stefnendur telja einnig, að stefndu hafi beitt svikum við framkvæmd 5. desembersamkomulagsins, í samræmi við ofangreinda tilurð afsalsins. Hinn vélritaði hluti 5. desembersamkomulagsins hafi aðeins fjallað um hvernig greiða ætti Jóni hlut hans í lækkunarfjárhæðinni. Með hinum handskrifaða texta hafi í raun verið „gert ráð fyrir“ að lækkunargreiðslan í heild sinni gengi til stefnanda Jóns, fyrir hlut hans í Holtabússamstæðunni, samanber orðið „greiðsla“ í hinum handskrifaða hluta samkomulagsins, sem vísi beint til orðanna „lækkun hlutafjár í Holtabúinu hf.“.
Stefnendur halda því fram að efni 5. desembersamkomulagsins sé það, að stefnt skuli að því að hækka hlutafé í Holtabúinu hf. með útgáfu jöfnunarhlutabréfa, samkvæmt V. kafla laga nr. 32/1978 og lækka hlutaféð í félaginu síðan aftur, með greiðslu lækkunarfjárhæðarinnar til hluthafa, samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 42. gr. laga nr. 32/1978, að skilyrðum 3. mgr. 42. gr. laga nr. 32/1978 uppfylltum. Hafi hver bræðra átt að fá 1/3 lækkunarfárhæðarinnar. Hins vegar hafi samist svo um, að Gunnar og Garðar nýttu sinn hluta lækkunarfjárhæðarinnar til að greiða fyrir hlutafé stefnanda Jóns og konu hans í Holtabúinu hf. Þannig hafi stefnandi Jón skilið handritaða hluta 5. desembersamkomulagsins. Hann hafi bent bræðrum sínum á, að vélritaði hluti samkomulagsins lyti aðeins að því, að stefnt skyldi að hækkun hlutafjár félagsins með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og síðan lækkun með greiðslu til hluthafa og hvernig greiða ætti stefnanda Jóni einn þriðja hluta væntanlegrar lækkunarfjárhæðar. Þar sem hinn vélritaði hluti samkomulagsins næði ekki lengra, hafi handskrifaða textanum verið bætt við, að tilhlutan Jóns. Hann sem hafi gert ráð fyrir að 2/3 hlutar lækkunarfjárhæðarinnar, þ.e. hlutir Gunnars og Garðars, nægðu til að greiða 1/3 af hlutafé Jóns í Holtabússamstæðunni, og að stefndu Gunnar og Garðar myndu greiða stefnanda Jóni og konu hans 1/3 af hlutafé þeirra í Holtabússamstæðunni með þeim hluta lækkunarfjárhæðarinnar sem til stefndu rynni, þ.e. 2/3 hlutum. Að þessu skyldi stefnt og gert væri ráð fyrir þessu, eins og fram komi í samkomulaginu. Stefnendur byggja á því að lækkunarfjárhæðin hafi verið formlega ákveðin 28. janúar 1991, en 5. desembersamkomulaginu hafi þá ekki verið framhaldið í samræmi við efni þess. Hafi þeir bræður, Gunnar og Garðar, þá þegar verið búnir að ákveða, að Jón fengi ekki meira en þriðjung í sinn hlut.
Þá byggja stefnendur á því, að Ragnar Bogason, sameiginlegur endurskoðandi þeirra bræðra, hafi með minnispunktum sínum, dagsettum 4. janúar 1991, sett ákveðið verð, miðað við 30. september 1990, á þær eignir, er renna áttu til stefnenda samkvæmt 5. desembersamkomulaginu, sem greiðsla til stefnenda á þeirra hluta í lækkunarfjárhæðinni, þ.e. á viðskiptareikningana og skuldabréfin, án nokkurs samráðs við stefnendur og alfarið án þeirra samþykkis. Byggja stefnendur á því, að með þessari verðákvörðun, dagsettri 30. september 1990, og þeirri aðferðarfræði, sem felist í minnispunktunum sé afsalið, sem dagsett er 1. janúar 1991, grundvallað.
Þá séu skuldir Jóns Jóhannssonar ehf. við Holtabúið hf. ekki tilgreindar eða um þær samið í 5. desembersamkomulaginu. Þessar skuldir séu hins vegar teknar með, þegar afsalsfjárhæðin sé reiknuð í minnispunktum Ragnars Bogasonar.
Með því að byggja á afsalinu, þannig tilkomnu, hafi Gunnar og Garðar valdið stefnendum tjóni, er nemi stefnufjárhæð þessa máls, og sem þeir beri skaðabótaábyrgð á. Afsalið sem stefndu byggi á sé ekki aðeins falsað varðandi dagsetningu þess og efnislegt innihald, heldur hafi stefnendur verið blekkt til undirskriftar afsalsins, eins og að framan sé rakið.
Í öðru lagi byggja stefnendur á því að sönnunarbyrði um tilurð afsalsins frá 1. janúar 1991 hvíli á stefndu.
Stefndu byggi rétt sinn á afsalinu og hafi því sönnunarbyrði um, hvernig afsalið sé til komið..Afsalið hafi örugglega ekki verið undirskrifað á nýjársdag 1991. Þá fái það ekki staðist með hliðsjón af efni 5. desembersamkomulagsins, að stefnandi Jón hafi að frjálsum vilja skrifað undir afsalið. Varla sé því hægt að ímynda sér, við hvaða aðstæður stefnendur hafi skrifað undir afsalið eða samið hafi verið um efni þess.
Til stuðnings þessari málsástæðu leggja stefnendur áherslu á eftirtalin atriði.
Að stefndu hafi ekki lagt fram neitt samkomulag, sem afsalið geti verið byggt á, en í afsalinu segi að „umsamið kaupverð“ sé greitt með ákveðnum hætti.
Að fyrst komi fram í fylgiskjali með skattframtali stefnanda gjaldárið 1992 (dskj. nr. 98), í greinargerð um eignabreytingar (dskj. nr. 99) sem stefnendur hafi ekki verið látin undirrita, að stefnendur hafi afsalað sér hlutafé sínu í Holtabúinu hf. til Gunnars og Garðars.
Að stefndu byggi á því í greinargerð sinni í fyrra máli (dskj. nr. 127, bls. 3), að til að geta greitt Jóni út hlut hans, hafi verið farin sú leið að hækka hlutafé Holtabúsins hf. með útgáfu skattfrjálsra jöfnunarhlutabréfa og lækka aftur. Það útskýri stefndu í téðri greinargerð sinni meðal annars með vísan til minnispunkta Ragnars Bogasonar frá 4. janúar 1991 (dskj. nr. 8). Skjal þetta hafi hins vegar aldrei verið borið undir stefnendur. Jafnframt að í téðri greinargerð sé á því byggt að minnispunktar Ragnars Bogasonar eigi stoð í 5. desembersamkomulaginu, og að 5. desembersamkomulagið hafi mátt framkvæma eins og minnispunktarnir segi til um. Stefnendur segja hins vegar, að atvik hafi ekki verið á þennan veg, þar sem 5. desembersamkomulagið vísi til framtíðar, lengra fram í tímann en að dagsetningu minnispunktanna, sem dagsettir séu 4. janúar 1991.
Að 5. desembersamkomulagið kveði á um, að stefnt skuli að ákveðinni ákvörðun um hækkun og síðan lækkun hlutafjár í Holtabúinu, sem stefnandi Jón hafi trúað, að hefði allavega ekki verið tekin fyrr en 28. janúar 1991. Stefnandi Jón hafi einnig trúað því í janúarmánuði árið 1991, að 5. desembersamkomulagið væri þá ennþá í framkvæmd, sem staðfest sé með því að 28. janúar 1991 skrifi hann (dskj nr. 22.), sem hluthafi og stjórnarmaður í Holtabúinu hf., undir tilkynningu til Hlutafélagaskrár um að lækkunarfjárhæðin 318.000.000 krónur gangi sem greiðsla til hluthafa. Ákvörðun stjórnar, frá 29. júní 1990, þar sem Jón hafi ekki verið viðstaddur (dskj. nr. 20), hafi síðan einnig verið tilkynnt Hlutafélagaskrá 28. janúar 1991 af lögmanni félagsins. Framangreint sýni að 28. janúar 1991 sé hin sanna og rétta dagsetning í þessu efni. Ekki sé mögulegt að byggja á annarri dagsetningu samkvæmt 5. mgr. 42. gr. laga nr. 32/1978, samanber 4. mgr. 44. gr. sömu laga. Viðbótarstaðfesting þess, að 5. desembersamkomulagið hafi enn verið til framkvæmda í janúar og febrúar 1991 sé síðan, að 10. janúar 1991 sé skuldabréf það, sem getið sé um í 5. desembersamkomulaginu að fjárhæð 25.000.000 krónur gefið út og framselt stefnendum 11. febrúar 1991 (dskj. nr. 25), sem staðfesti með öðru, að afsalið geti ekki hafa verið undirskrifað 1. janúar 1991. Einnig benda stefnendur á, að 20. júní 1991 skrifi stefnandi Jón, sem stjórnarmaður Holtabúsins hf. og ennþá hluthafi, undir ársreikninga Holtabúsins (dskj. nr. 123, bls. 102.).
Í þriðja lagi byggja stefnendur á því, að stefndu hafi komið óheiðarlega fram og orðið hafi trúnaðarbrestur.
Stefnendur telja stefndu hafa komið óheiðarlega fram með því að leyna upplýsingum um raunveruleg fjárhagsleg verðmæti Holtabússamstæðunnar árið 1990, í því skyni að fá stefnendur til að skrifa undir afsalið með því efni sem afsalið geymi. Þá hafi orðið trúnaðarbrestur þar sem bræður og endurskoðandi til margra ára hafi átt í hlut.
Stefnendur telja, að stefndi Gunnar hafi verið vel meðvitaður um, að verulega meiri verðmæti voru til staðar í Holtabússamstæðunni í árslok 1990, en þrefaldri afsalsfjárhæðinni næmi, enda hafi allir ársreikningar Fóðurblöndunnar hf. og dótturfélaga hennar fyrir árið 1990 sýnt það svart á hvítu, að fjárhagsleg afkoma félaganna væri verulega góð árið 1990, og allar aðstæður hafi sýnt að afkoman yrði enn betri árið 1991. Það hafi hins vegar verið ljóst, að því fyrr sem stefndu kæmu Jóni út, yrði meira eftir til skiptanna handa stefndu. Öll atvik málsins bendi einnig til hins huglæga þáttar fjársvikanna, að stefndi Gunnar hafi aldrei ætlað sér að greiða stefnendum annað en lækkunarfjárhæðina. Það staðfesti vitneskja hans um hina röngu skiptingu frá upphafi, sem eftirfarandi dæmi sýni: 1) Að stefndu hafi fengið lækkunarfjárhæðina staðgreidda, en stefnendur ekki. 2) Þau miklu verðmæti, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, sem sýnileg hafi verið í ársreikningum samstæðunnar í árslok 1990, eftir að lækkunarfjárhæðin hafði verið greidd út úr samstæðunni. 3) Umsvifamikil fasteignaviðskipti í gegnum Holtabússamstæðuna, sem Gunnar hafi staðið einn að og síðan stofnun Gunnars og Garðars á Húsakaupum hf. í júní 1989, án vitundar stefnanda Jóns, en í gegnum Húsakaup hf. hafi stefndu tekið alla vega 19.500.000 út úr samstæðunni. 4) Kaup stefndu Gunnars og Garðars í nóvember 1991 á hlutafé Svíanna í Ewos hf. að nafnverði 58.094.450 krónur fyrir eina sænska krónu, sem Holtabúið hf. hafi síðan keypt af þeim fyrir 58.000.000. Byggja stefnendur á, að ofangreind hegðun stefndu Gunnars og Garðars varði við 248. gr. almennra hegningarlaga, samanber 30. og 31. gr. samningalaga.
Stefnendur styðja þessa málsástæðu einnig þeim rökum, að stefndu hafi, hvernig sem á atvik málsins sé litið, haldið stefnendum algerlega utan við Fóðurblönduna hf. og önnur dótturfélög Fóðurblöndunnar hf. og Holtabúsins hf. frá undirskrift draga frá 10. júlí 1989 og notfært sér þá aðstöðu sína með því að sitja einir að 245 milljóna hagnaði þessara félaga, Holtabússamstæðunnar, árið 1991, þrátt fyrir að stefnendur ættu þar enn rétt til eins þriðja hluta af öllum gróða og hagnaði. Hafi stefndu með þessu atferli brotið gegn hinni almennu reglu samningaréttarins um trúnaðarskylduna, sér í lagi þar sem brotið hafi verið gegn bróður, sem sýnt hafi stefndu og sameiginlegum endurskoðanda fyllsta trúnað. Einnig hafi stefndu brotið gegn reglum félagaréttarins um trúnaðarskylduna og jafnræði félagsaðila, sem meðal annars sé kveðið á um í 1. mgr. 60. gr. laga nr. 32/1978. Stefnandi Jón byggi á því, að þrátt fyrir, að hann hafi haft aðgang að ársreikningum Holtabúsins hf., hafi ekkert verið hægt að lesa út úr þeim um fjárhagslega afkomu Fóðurblöndunnar hf. og dótturfélaga hennar, enda enginn samstæðureikningur gerður, eins og þó var boðið samkvæmt 103. gr. laga nr. 32/1978, eða skýrsla gerð um afkomu félagssamstæðunnar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 103. gr. laga nr. 32/1978. Það hafi því verið óheiðarlegt að fá stefnendur til að skrifa undir afsalið með því efni, sem það geymi og brot gegn 33. gr. samningalaga, sem og það fyrirkomulag, að stefndu hafi fengið sinn hluta af lækkunarfjárhæðinni staðgreiddan en stefnendur ekki. Stefnendur byggja á, að ofangreind hegðun stefndu sé saknæm og hafi orðið stefnendum til tjóns, er nemi allavega dómkröfu þessa máls.
Loks byggja stefnendur á 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og krefjast þess, að afsalið frá 1. janúar 1991 að fjárhæð 29.465.286 og hinn handskrifaði hluti 5. desembersamkomulagsins verði látin víkja fyrir dómkröfum stefnenda.
Stefnendur telja að stefndu hafi með atferli sínu brotið gegn efnisákvæðum 33. gr. samningalaga. Þeir hafi notfært sér meirihlutastöðu sína í Holtabúinu hf. með óheiðarlegum hætti eða allavega óréttmætum, til að hagnast á kostnað stefnenda, sem dómkröfunum nemi. Einnig geti stefndu ekki borið fyrir sig ofangreinda gerninga, þar sem þeir brjóti í bága við 36. gr. samningalaga. Það sé bersýnilega ósanngjarnt, að stefndu hafi fengið lækkunarfjárhæðina staðgreidda en stefnendur ekki. Það geti einnig ekki talist annað en ósanngjarnt, að stefnendur hafi ekkert fengið fyrir einn þriðja af hlutafé sínu í Holtabúinu hf., þegar verðmæti hlutafjár félagsins hafi ekki verið undir 313.000.000 króna í árslok 1990 og stefnendur hafi átt rétt til eins þriðja hluta þessara verðmæta. Það sé óeðlilegt og brjóti gegn góðri viðskiptavenju, að ekki hafi verið samið með sýnilegum hætti um þessi mikilvægu atriði, þar sem afsalsfjárhæðin hafi verið reist á ákveðnu uppgjöri og mati á verðmæti hlutafjárins.
Stefnendur halda því fram, að stefndu hafi notfært sér meirihlutastöðu sína og þekkingu Gunnars á verðmætum samstæðunnar, til að hagnast á kostnað stefnenda. Hafi Gunnar, sem stjórnarformaður Holtabúsins hf., Fóðurblöndunnar hf., Ewos hf., Komax hf., Húsakaupa hf. og Kornhlöðunnar hf., vitað gjörla um fjárhag þessara félaga í gegnum þær fjárhagslegu upplýsingar, sem hann hafi haft aðgang að og honum borið að kynna sér sem stjórnarformaður.
Þá hafi umræddum fjárhagslegum tilfæringum verið stjórnað, og þær verið framkvæmdar, án þess að stefnandi Jón væri upplýstur um atriði sem þær vörðuðu og góðan fjárhag samstæðunnar árið 1990. Hafi stefndi Gunnar þar einnig notfært sér þunglyndi Jóns og traust.
Þá séu engir venjulegir og hefðbundnir samningar til grundvallar afsalinu. Engir vottar séu að því að vilji stefnenda hafi staðið til útgáfu afsalsins og stefndu hafi ekki gefið á því eðlilega skýringu, hvernig þeir hafi fengið afsalið í hendur. Allt þetta verði að skoða í ljósi þess að stefnendur hafi ekkert fengið fyrir hlutafé sitt í Holtabúinu hf. Þau hafi þó átt að fá þriðjung hlutafjár, sem að lágmarki hafi verið 104.000.000 króna virði 31. desember 1990, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna.
Afsalið sé því einnig bersýnilega ósanngjarnt, miðað við efni þess, þ.e. hina ójöfnu skiptingu, og einnig stöðu aðila við samningsgerðina og atvik öll.
Stefnendur hafna því að skaðabótakrafa þeirra eða dómkröfur að því leyti sem þær byggja á ógildingar- og hliðrunarreglum samningalaga séu fyrndar, eins og stefndu halda fram.
Stefnendur byggja í fyrsta lagi á því, að með því að Klapparstígurinn (dsk. nr. 119 2b) og Vallár- og Nesbúsbréfin og 25 milljónkrónu Fóðurblöndubréfið (dskj. nr. 19, bls, 1 og 2) hafi verið viðskiptafærð á stefnanda Jón, sem skuld við Holtabúið, hafi afsalsfjárhæðin í raun aðeins verið sú tala, sem núllað hafi út viðskiptareikninga stefnanda Jóns og Jóns Jóhannssonar ehf. við Holtabúið. Þannig hafi afsalsfjárhæðinni og þar með afsalinu verið blandað saman við lækkunargreiðsluna, sem samið hafi verið um, með 5. desembersamkomulaginu, sem hafi verið til framkvæmda allt til ársins 2001, er veðum fyrir 50.000.000 króna hafi loks verið aflétt af Ásmundarstöðum 3, eins og fram komi í niðurlagi greinargerðar stefndu (dskj. nr. 71). Veðum viðkomandi Holtabúinu hf. og stefndu hafi og ekki verið aflétt af Klapparstígnum fyrr en árið 2000 (dskj, nr. 120). Þannig geti afsalið ekki verið efnislegur lokapunktur aftan við viðskipti þeirra bræðra, heldur verði að miða við, hvenær 5. desembersamkomulagið var síðast efnt eða hvenær stefnendum barst síðast greiðsla samkvæmt 5. desembersamkomulaginu. Þá hafi loks verið tímabært að gefa út afsal. Afsalsfjárhæðin sé því aðeins greiðsla á lækkunarfjárhæðinni, rétt eins og neikvæð viðskiptastaða á viðskiptareikningi stefnanda Jóns við Holtabúið. Þetta komi einmitt fram í útreikningi stefndu (dskj. nr. 71, bls. 2, 5. tl.). Ekki sé því um raunverulegt afsal að ræða, samkvæmt reglum eignaréttarins.
Í öðru lagi hafi hinum skaðabótaskylda verknaði ekki lokið fyrr en með útgáfu afsalsins, 26. febrúar 1992, en í fyrsta lagi við dagsetningu afsalsins 1. janúar 1991. Máli þessu, sem sé skaðabótamál, hafi og verið stefnt fyrir 5. desember 2000 (dskj. nr. 73), og því innan 10 ára frá gerð 5. desembersamkomulagsins. Ljóst sé því, að málinu hafi verið stefnt nægjanlega tímanlega, hvernig sem á allt sé litið, til að rjúfa fyrningu skaðabótakröfunnar.
Í þriðja lagi vísa stefnendur til 7. gr. og 6. gr. fyrningarlaga. Stefnendur hafi ekki orðið vör við svik stefndu, fyrr en niðurstöður matsgerða dómkvaddra matsmanna hafi legið fyrir 4. maí 2001 og við yfirferð löggilts endurskoðanda á skattframtölum Holtabúsins hf., Ewos hf. og Hveitimyllunnar hf. (dskj. nr. 123, 124 og 125). Þetta hafi fyrst og fremst verið af þeirri ástæðu, að stefndu hafi ekki lagt fram þær upplýsingar (fyrningarskýrslur og fleiri gögn) sem fyrir hendi hafi verið í ársreikningum Holtabússamstæðunnar, eins og hér að ofan hafi verið lýst og víða komi fram í gögnum málsins, fyrr en í matsmálunum.
Í fjórða lagi hafi stefndi Gunnar viðurkenni í greinargerð sinni (dskj. nr. 4, bls. 3), að dráttur hafi orðið á framkvæmd uppskiptanna. Gunnar viðurkenni að stefnandi Jón og Fannar Jónasson, viðskiptafræðingur á Hellu, hafi verið að vinna að uppskiptunum 1994 og 1995. Byggja stefnendur á, að stefndu séu bundnir af þessari yfirlýsingu, samkvæmt 45. gr. eml. Byggja stefnendur og á því, að þeir bræður hafi samið um landskipti í júní 1998 (dskj. nr. 34), sem verið hafi hluti af uppgjöri þeirra samkvæmt 5. desembersamkomulaginu og þeir hafi fundað um uppskiptin í heild sinni 26. ágúst 1998 (dskj. nr. 4, bls. 5) og 11. janúar 2000.
Loks byggja stefnendur á því, að fundur sem haldinn var 11. janúar 2000 styðji það að uppgjöri aðila hafi þá ekki verið lokið. Á þessum fundi hafi verið umboðsmaður stefndu, Jón Ingólfsson hrl., lögmaður stefnanda Jóns og endurskoðandi, Guðmundur Hannesson (dskj. nr. 15). Þar hafi umboðsmaður stefndu viðurkennt fébótaskyldu stefndu með þessum orðum, sem hann hafi staðfest með undirskrift sinni: „að ef hægt væri að sýna fram á, að Jón hefði orðið fyrir skakkaföllum varðandi Klapparstíginn myndi hann leggja til að Jóni yrði bætt þau að fullu. Einnig hugsanleg verðmæti Holtabúsins hf. á þeim tíma.“ Fundur þessi hafi verið haldinn „vegna ágreinings sem verið hafði milli Jóns Jóhannssonar við bræður sína Gunnar og Garðar vegna uppskipta þeirra á eignum Holtabúsins hf.“ eins og segi í bókun fundargerðar. Stefnendur byggja og á, að fundur þessi hafi verið haldinn í framhaldi af bréfaskiptum lögmanns þeirra við stefnda Gunnar (dskj. nr. 5, nr. 4 og nr. 102). Hafi fundurinn verið haldinn vegna uppgjörsmáls Holtabúsins, eins og segi í bréfi lögmanns stefnenda frá 6. janúar 2000 (dskj. nr. 102). Jón Ingólfsson hrl. hafi mætt á fundinn sem umboðsmaður þeirra bræðra, Gunnars og Garðars, samkvæmt tilkynningarumboði og að fyrirmælum þeirra. Þessu til staðfestingar sé, að þegar fyrsta málið hafi verið þingfest, 17. janúar 2001, hafi Jón Ingólfsson hrl. mætt fyrir hönd þeirra bræðra, Gunnars og Garðars, sem þeirra umboðsmaður og móttekið gögn málsins (dskj. nr. 113). Samkvæmt grunnrökum 18. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingum, hafi Jón Ingólfsson hrl. haft umboð Gunnars og Garðars til að skuldbinda þá á fundinum 11. janúar 2000. Einnig styðja stefnendur þessa málsástæðu sína meginreglum um lögmannsumboð. Stefnendur byggja einnig á, að þessi fundur staðfesti viðurkenningu stefndu á, að aldrei hafi verið búið að ganga frá uppgjörinu milli þeirra bræðra.
Um tölulegan grundvöll dómkröfunnar byggja stefnendur á undirmati Birkis Leóssonar og Vilhjálms Bjarnasonar frá 4. maí 2001 (dskj. nr. 43, bls. 2), nánar á svari við matsspurningum a og b. Þar komi fram, að bókfært eigið fé samstæðunnar, að teknu tilliti til hlutdeildarfélaga, sé 233 milljónir hinn 31.12.1990, og hafi þá ekki verið tekið tillit til frestunar skattlagningar með aukafyrningum, þar sem skuldbindingarnar komi seint til greiðslu og núvirði skuldbindinganna sé óverulegt. Telji matsmenn söluverðmæti hlutbundinna eigna ekki langt frá bókfærðu verði þeirra og meta verðmæti samstæðunnar á 233.000.000 krónur.
Einnig sé byggt á yfirmatsgerð Kristjáns Jóhannssonar, Jafets Ólafssonar og Símonar Á. Gunnarssonar um viðskiptavild Fóðurblöndunnar hf. hinn 31.12.1990, nánar á svari við matsspurningu c (dskj. nr. 122, bls. 2). Sé viðskiptavild Fóðurblöndunnar þar metin á 80.000.000 krónur.
Ennfremur byggja stefnendur dómkröfur sínar á því, að lækkunarfjárhæðin hafi verið vangreidd til stefnenda, sem nemi 13.025.618 krónum, þannig reiknað:
Vangreitt v/hl.fjárlækkunar (dskj. nr. 9, nr.19, nr. 22 og nr. 43, bls. 7, dskj. 42, bls. 53):
Viðsk.r. J.J. ehf. (dskj. nr. 19 og nr. 100) (15.022,164) Viðsk.r. J.J. (dskj. nr. 98) (13.008.218)
Núvirði skuldabréfa, sbr. mat (dskj. 43, bls. 7) (64.944.000)
Útgáfa jöfnunarhlutabréfa og lkkun
hlutafjár ⅓ 106.000.000 kr. 13.025.618
Byggja stefnendur á því að skuld Jóns Jóhannssonar við Holtabúið hf. hafi verið 13.008.218 krónur hinn 31.12.1990 og skuld Jóns Jóhannssonar ehf. 15.022.164 krónur. Verðmæti bréfanna hafi verið metin á 64.944.000 krónur miðað við 31.12.1990 (dskj. nr. 43, bls. 7, dskj. nr. 42, bls. 53). Hafi stefndu sönnunarbyrði fyrir því að stefnendur hafi fengið frekari verðmæti samkvæmt 5. desembersamkomulaginu. Samkvæmt ofangreindum útreikningi vanti 13.025.618 krónur upp á að lækkunarfjárhæðin 106.000.000 krónur hafi verið að fullu greidd. Samtala ofangreindra liða sé 117.358.951 króna, sem sé sannað tjón stefnenda.
Samkvæmt ofangreindu hafi verðmæti Holtabússamstæðunnar verið í árslok 1990, samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, 233.000.000 + 80.000.000 eða 313.000.000 krónur en einn þriðji þeirrar fjárhæðar sé 104.333.333 krónur. Þeirri fjárhæð til viðbótar komi síðan vangreiðsla vegna hlutafjárlækkunar 13.025.618 krónur. Krafa stefnenda sundurliðist því svo: 233.000.000 + 80.000 = 313.000.000 : 3 = 104.333.333 + 13.025.618 = 117.358.951.
Um sönnunarfærslu vísa stefnendur til aðilaskýrslna. Telja þeir samræmi vera með skriflegri aðilaskýrslu stefnanda Jóns og framburði hans fyrir dómi um framkvæmd 5. desembersamkomulagsins og tilurð afsalsins, og verði að leggja framburð hans til grundvallar. Innbyrðis ósamræmi sé hins vegar í frásögnum stefndu sem og við gögn málsins. Þá hafi verið skorað á stefndu að leggja fram skattframtöl sín árin 1989 til 1992 en þeir hafi ekki orðið við því. Verði því að byggja á framburði stefnenda um þau atriði sem gögn þessi ella gætu leitt í ljós.
Um lagarök vísa stefnendur til almennu skaðabótareglunnar utan samninga, telja þeir háttsemi stefndu hafa verið óforsvaranlega og traust hafa verið rofið, ennfremur í þessu samhengi til grunnraka 248. gr. alm. hgl. og 156. og 155. gr. sömu laga, hvað varðar tilurð afsalsins. Einnig vísa stefnendur til 30. og 31. gr. samningalaga. Varðandi meinta sök stefndu vísa stefnendur einnig til 33. gr. og 36. gr. samningalaga, til trúnaðarskyldunnar og reglna félagaréttarins um minnihlutavernd. Ennfremur vísa þeir til reglna stjórnskipunarréttarins um félagafrelsi. Stefnendur vísa einnig sérstaklega til 33. og 36. gr. samningalaga sem hliðrunarreglna eða vikreglna. Ennfremur til reglu um sök við samningsgerð (culpa in contrahendo). Þá vísa þeir til 1. mgr. 60. gr. laga nr. 12/1978, sbr. 2. gr. sömu laga, 23. gr., 3. mgr. 54. gr., 56. gr., 42. gr., 1. mgr. 93. gr., 4. mgr. 103. gr. og 1. mgr. 147. gr. Einnig til 6. og 7. gr. fyrningarlaga. Einnig til 3. mgr. 20. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994. Einnig til 18. gr. samningalaga. Um sönnunarfærslu til 1. mgr. 68. gr. eml. að því er varða að leggja verði sönnunarbyrði á þann sem getur sannað með gögnum það sem hann hefur við höndina, en gerir það ekki eftir áskorun um það. Að leggja verði sönnunarbyrði á þann sem byggir á fráviki frá almennri viðskiptavenju eða sérvenju á sviði viðskipta. Að leggja verði sönnunarbyrði á þann sem staðið hafi nær að tryggja sér sönnun um staðreynd eða þann sem átt hafi auðveldara með það. Einnig er vísað til reglna um aðilaskipti að hlutafé og reglna um yfirfærslugerninga. Einnig til þess að afsal sé ekki gefið út fyrr en skuldarinn hafi greitt að fullu, sem nokkurs konar lokakvittun. Loks vilja stefnendur gagnálykta frá 134. gr. hlutafélagalaga nr. 32/1978.Um skaðabótavexti er vísað til 7. gr. laga nr. 25/1987 og um dráttarvexti til 15. gr. sömu laga.
Málsástæður stefndu
Af hálfu stefndu er því haldið fram að uppgjör aðila hafi farið þannig fram, að stefndu hafi greitt stefnendum hlut Jóns 106.000.000 krónur og fullnaðargreiðslu vegna hlutabréfa samkvæmt samkomulagi bræðranna frá 5. desember 1990 (sjá dskj. nr. 9, sbr. dskj. nr. 8 og 10) með eftirfarandi hætti:
|
1. |
Þrem skuldabréfum, útg. 8. mars 1989, af Geir |
|
|
|
|
Gunnari Geirssyni, alls...................................... |
kr. |
31.421.163,00 |
|
|
(sbr. dskj. nr. 23). |
|
|
|
2. |
Þrem veðskuldabréfum, útg.13. mars 1989, af |
|
|
|
|
Nesbúinu hf. alls................................................. |
kr. |
33.091.061,00 |
|
|
(sbr. dskj. nr. 24). |
|
|
|
3. |
Með skuldabréfi, útg. 10. janúar 1991, af Fóður- |
|
|
|
|
blöndunni hf. að fjárhæð..................................... |
kr. |
25.000.000,00 |
|
|
(sbr. dskj. nr. 25). |
|
|
|
4. |
Með greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs á topp- |
|
|
|
|
íbúð að Klapparstíg 1 í Reykjavík................. |
kr. |
12.768.750,00 |
|
|
(sbr. dskj. nr. 28 og 29). |
|
|
|
5. |
Með því að Holtabúið hf. yfirtók skuld Jóns |
|
|
|
|
Jóhannssonar og Jóns Jóhannssonar hf. við |
|
|
|
|
Holtabúið hf. pr. 31.12.1990................................. |
kr. |
29.465.286,00 |
|
|
(sbr. dskj. nr. 27). |
|
|
|
|
Gegn yfirtöku Holtabúsins hf. á skuldum þessum |
|
|
|
|
framseldu Jón og Sigríður Sveinsdóttir, eiginkona |
|
|
|
|
hans, hlutabréfaeign sína í Holtabúinu hf., að |
|
|
|
|
nafnverði kr.15.000.000,00 til stefndu, Gunnars |
|
|
|
|
og Sigurðar Garðars (sbr. dskj. nr. 10). |
|
|
|
6. |
Með því að Jóni voru afhent áhöld, tæki, fasteignir |
|
|
|
|
og land (að Ásmundarstöðum), metið á................. |
kr. |
4.500.000,00 |
|
|
(sbr. dskj. nr. 8). |
__ |
____________ |
|
|
Samtals: |
Kr. |
136.246.260,00 |
Einnig hafi stefndi Gunnar, útvegað Jóni endurgjaldslaust mikið viðbótarland að Ásmundarstöðum, sem búið var að selja Reykjagarði hf., eftir að samkomulagið frá 5. desember 1990 um greiðslur til Jóns hafi verið gert. Er um þetta vísað til bréfs stefnda Gunnars (dskj. nr. 4), svo og til makaskiptaafsalsins (dskj. nr. 34, sbr. og dskj. nr. 19, fskj. merkt 3-2), þ.e. afsal, dags. 13. mars 1990.
Stefndu benda og á, að þegar þeir bræðurnir hafi átt í samningaviðræðum um skiptin, hafi Jón sett fram þá kröfu, að hann fengi greiddar afborganir af skuldabréfum frá Geir Gunnari Geirssyni, Vallá og Nesbúinu hf. frá upphafi, þ.e. greiðslurnar frá mars, apríl og maí 1989, er þá höfðu þegar verið greiddar Holtabúinu hf. Því hafi stefndu Gunnar og Sigurður Garðar hafnað. Þess vegna hafi gjörningurinn frá 10. júlí 1989 (dskj. nr. 72) verið látinn „miðast við 1. júní 1989.“ Frá og með þeim degi hafi afborganir af bréfum þessum byrjað að renna til Jóns. Samkvæmt téðum samkomulagsdrögum hafi Jón fengið „Allar fasteignir Holtabúsins á Ásmundarstöðum, undanskilið er þó íbúðarhús Garðars.“ Þar með hafi Jón fengið m.a. hænsnahúsin, er hann hafi leigt Reykjagarði hf. og haft af þeim leigutekjur, sömuleiðis frá 1. júní 1989. Síðar hafi stefndi Gunnar, að beiðni Jóns, séð um að selja Reykjagarði hf. hænsnahúsin. Hafi Jón fengið 25.000.000 krónur fyrir húsin í formi skuldabréfs (dskj. nr. 25), er Fóðurblandan hf. hafi gefið út hinn 10. janúar 1991.
Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að komist hafi á bindandi samningur milli aðilja um skipti á sameiginlegri eign þeirra, Holtabúinu hf., m.m. og uppgjöri á þeim eignum.
Stefnandinn, Jón Jóhannsson, hafi óskað eftir skiptunum. Stefndu hafi reynt að telja honum hughvarf án árangurs. Í framhaldi af því hafi aðilar komið sér saman um verðmæti þeirra eigna, sem verið hafi til skipta og stefnandanum Jóni og eiginkonu hans síðan verið greitt í samræmi við það. Stefndi Gunnar hafi boðist til þess að ganga út úr félagsskapnum í stað Jóns og upp á sömu býti og hann. Um það hafi ekki náðst eining. Hins vegar sýni þetta boð Gunnars best, hverjum augum hann hafi litið réttmæti þessarar uppskiptingar.
Þeir bræður hafi gert bindandi samning og lagt hafi verið mat á verðmæti eignanna sem skipt var og þar hafi stefnandi Jón ekki staðið höllum fæti. Jón hafi síst verið verr í stakk búinn en stefndu til að gera sér grein fyrir og meta verðmæti sameignanna til fjár. Eins og fram komi í aðilaskýrslu Jóns, hafi hann verið menntaðastur þeirra bræðra. Hann sé stúdent, hafði lokið 1. hluta prófs í tannlækningum og tekið bókfærslupróf frá Viðskiptadeild, enda hafi hann séð um bókhald Holtabúsins hf. og því verið öllum hnútum kunnugur. Garðar sé hins vegar lærður prentari og Gunnar gagnfræðingur. Að þessu leyti hafi því ekki hallað á Jón, þegar bræðurnir hafi komið sér saman um verðmæti sameignanna og uppgjörið við Jón. Ef Jón hafi talið, að eignirnar væru of lágt metnar við skiptin, hafi honum borið að fá dómkvadda matsmenn til þess að meta þær eða leggja málið í gerð, sbr. 22. gr. í Samþykktum Holtabúsins hf. (dskj. nr. 7, bls. 4). Hvorugt hafi hann gert. Hann sé því bundinn af samkomulaginu sem þeir bræður hafi gert á sínum tíma og geti ekki nú - rúmum 15 árum síðar- hlaupist frá því, er hann sjái, hversu vel Fóðurblandan hf. hafi dafnað undir farsælli stjórn stefndu. Jón eigi engan þátt eða hlutdeild í þeirri velgengni, heldur stefndu einir.
Í þessu sambandi sé og rétt að hafa í huga, að Ewos hafi nánast verið gjaldþrota og Fóðurblandan hf. hafi verið alger vonarpeningur, þegar Jón hafi gengið út. Ástæða þess hafi bæði verið skuldsetningar félagsins í sambandi við uppbyggingu þess rétt fyrir skiptin svo og starfsumhverfi, sem félaginu hafi verið búið, þar sem landbúnaðarráðherra hafi hvenær sem er getað, með breytingu á reglugerðum um endurgreiðslur á sérstöku fóðurgjaldi, sbr. reglugerð nr. 13/1988 og nr. 32/1990, kippt rekstrargrundvellinum undan Fóðurblöndunni hf. Vegna þessarar ótryggu rekstrarstöðu Fóðurblöndunnar hf. hafi stefndu farið þess á leit við Jón, þegar hann hafi gengið út, að hann tæki með þeim ábyrgð á rekstrinum í einhvern tíma. Því hafi Jón hafnað. En nú - mörgum árum síðar- virðist hann halda að hann geti „gengið inn aftur“ og eigi kröfu til hagnaðar, sem stefndu hafi einir skapað.
Stefnendur séu bundnir af þeim samningum, er þeir hafi gert, þegar Jón gekk út úr félagsskap þeirra bræðra, samkvæmt reglum samningalaganna nr. 8/1936, með síðari breytingum, um skuldbindingargildi loforða og samninga. Það hafi komist á bindandi samningar milli bræðranna um kaupin og ekkert það sé fram komið í þessu máli, sem renni stoðum undir það, að Jón hafi haft lakari samningsstöðu heldur en stefndu, nema síður sé. Þá er því sérstaklega mótmælt, að stefndu hafi bolað Jóni út úr félagsskapnum eða beitt hann blekkingum eða svikum, og að stefndu hafi blekkt stefnendur til að undirrita afsalið (dskj. nr. 10, sbr. 27a).
Í öðru lagi byggja stefndu sýknukröfu sína á því, að allar kröfur stefnenda séu fyrndar.
Í samkomulagsdrögunum (dskj. nr. 72) eigi gjörningurinn að miðast við 1. júní 1989. Frá og með þeim degi hafi greiðslur hafist til Jóns með viðtöku hans á greiðslum afborgana af bréfum útgefnum af Geir G. Geirssyni v/Vallarbúsins og af Nesbúinu hf. og frá sama tíma hafi stefndu byrjað að greiða eftirstöðvar kaupverðsins á Klapparstíg 1, Reykjavík. Við þetta tímamark hafi fyrningarfresturinn byrjað að líða. Fyrsta mál stefnenda hafi verið höfðað með stefnu birtri 1. og 2. desember 2000. Þá hafi verið liðin meira en 10 ár frá 1. júní 1989. Kröfur stefnenda hafi því verið fyrndar, skv. 2. tl. 4. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, er það mál var höfðað. Einnig sé á það að líta, að stefnan hafi verið birt 1. og 2. desember 2000, til þingfestingar 17. janúar 2001. Það sé lengri stefnufrestur en „nauðsyn krefur“ samkvæmt 11. gr. ofangreindra fyrningarlaga. Þar af leiðandi hafi stefnubirtingin ekki slitið fyrningu, þar eð málið hafi verið þingfest eftir að fyrningarfresturinn hafi verið liðinn, jafnvel þótt miðað sé við 5. desember 1990 (sbr. samkomulagið á dskj. nr. 9), ellegar 1. janúar 1991 (sbr. afsalið á dskj. nr. 10).
Í þessu sambandi beri og að hafa í huga, að fyrsta málið hafi verið ódómhæft, er það var þingfest 17. janúar 2001. Matsgerð hinna dómkvöddu undirmatsmanna (dskj. nr. 43) hafi ekki verið lögð fram fyrr en 16. maí 2001. Mat hinna dómkvöddu yfirmatsmanna hafi verið lagt fram 28. ágúst 2002 (dskj. nr. 122) og endanleg kröfugerð í fyrsta málinu hafi ekki séð dagsins ljós fyrr en 1. nóvember 2002, þ.e. þrettán og hálfu ári eftir viðmiðunartíma þann, sem tilgreindur er (dskj. nr. 72). Þessi málatilbúnaður sé andstæður grundvallarreglum réttarfars um skýran og afdráttarlausan málflutning.
Til enn frekari áréttingar fyrningarkröfunni er sérstaklega á það bent, að kröfurnar í því máli sem hér sé til meðferðar (hinu þriðja milli aðiljanna) sé hvergi að finna í stefnu fyrsta málsins, sem þingfest var í Héraðsdómi Suðurlands hinn 17. janúar 2001. Kröfur stefnenda séu því löngu fyrndar, þar sem stefna fyrsta málsins geti ekki slitið fyrningu á þeim kröfum, sem settar séu nú fram í þessu máli, rúmum 15 árum eftir viðmiðunardaginn, hinn 1. júní 1989 (dskj. nr. 72).
Í þriðja lagi byggja stefndu á því, að dómkröfur stefnenda séu alla vega fallnar niður fyrir tómlæti þeirra.
Í þessu sambandi er á það bent, að jafnvel á fundinum, sem haldinn hafi verið hinn 11. janúar 2000 (dskj. nr. 15) séu hvergi settar fram ákveðnar fjárkröfur af hálfu Jóns Jóhannssonar, hvað þá þær himinháu kröfur er síðar hafi séð dagsins ljós í þessu máli og hinum fyrri. Á þessum fundi hafi eingöngu verið rætt um fyrstu þrjár afborganirnar af skuldabréfunum (sem stefndu höfðu hafnað frá upphafi), og einhverjar kröfur vegna Klapparstígs 1. Ekki hafi verið minnst á það einu orði af hálfu Jóns, að hann ætti enn einhverja hlutdeild í Holtabúinu hf.
Samkvæmt 20. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, með síðari breytingum, sé eigi skylt að varðveita bókhaldsgögn lengur en sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Stefnendur hafi dregið það lengur en sjö ár að setja fram ákveðnar fjárkröfur í þessu máli. Á þessu sjáist best, hve tómlæti þeirra sé mikið og viðvarandi. Þar sem stefnendur hefjist ekki handa í þessu máli meðan varðveisluskylda bókhaldsgagna vari og gögn enn til í vörslum stefndu sé nú ógerningur að útskýra með skriflegum gögnum muninn á þeim fjárhæðum, er fram komi á dómskjölum nr. 8 og 10 varðandi yfirtöku á skuldum Jóns Jóhannssonar og Jóns Jóhannssonar hf. við Holtabúið hf. Allan tölulegan vafa í þessu máli beri því að túlka stefnendum í óhag vegna hins yfirtaksmikla tómlætis þeirra, sem þar að auki eigi að leiða til fullkominnar sýknu stefndu í þessu máli.
Stefndu leggja auk ofangreinds sérstaka áherslu á eftirtalin atriði.
Því er harðlega mótmælt, að stefndu hafi haft brögð (svik) í tafli við samningsgjörðina eða notfært sér veikindi Jóns, og þar með brotið gegn 30. og 31. gr. samningalaganna. Einnig er því mótmælt, að samkomulagið frá 5. desember 1990 (dskj. nr. 9) hafi verið drög að samningi. Hér hafi verið um að ræða endanlegan samning milli bræðranna. Og það hafi verið að undirlagi Jóns sjálfs að eftirmálinn (P.S.) hafi verið handskrifaður neðst á skjalið eins og fram komi í aðiljaskýrslu hans.
Sömuleiðis er því andmælt, að stefndu hafi útilokað Jón frá upplýsingum um fjárhagslega stöðu þeirra fyrirtækja, er bræðurnir hafi átt sameiginlega. Í þessu sambandi verði að hafa í huga, að það hafi verið starf Jóns fyrir uppskiptinguna, að færa bókhald Holtabúsins hf. og hann hafi fengið greitt fyrir. Eftir skiptin hafi hann annast það verk áfram sem verktaki og fengið greitt fyrir. Sýni þetta, hversu fáránleg þessi fullyrðing hans sé. Hafi Jón verið þessarar skoðunar við skiptin á sameignunum, hafi hann átt að biðja um mat dómkvaddra sérfræðinga á eignunum eða selja þær öðrum en stefndu. Hann hafi hvorugt gert, enda hafi hann alveg vitað hvað hann var að gera í þessu efni sem öðrum á sviði viðskipta. Hann hafi ávallt verið mjög nákvæmur og varfærinn í viðskiptum og skoðað hvert mál niður í kjölinn.
Að því er varði viðskiptaskuld Jóns og Jóns Jóhannssonar hf. við Holtabúið hf. pr. 31.12. 1990 er vísað til bréfs Ragnars J. Bogasonar, löggilts endurskoðanda til lögmanns stefndu, dags. 10. apríl 2001 (sbr. dskj. nr. 63).
Því er sérstaklega mótmælt, að stefndi Gunnar hafi komið óheiðarlega fram við stefnendur, er gengið var frá afsali hlutabréfa Jóns og eiginkonu hans, Sigríðar Sveinsdóttur, í Holtabúinu hf. hinn 1. janúar 1991 og því eigi að fella það úr gildi á grundvelli 33. gr. samningalaganna. Hér séu einungis á ferðinni rakalausar fullyrðingar af hálfu stefnenda.
Samningsstaða Jóns við eignaskiptin hafi verið sterkari en stefndu vegna menntunar hans, reynslu og bókhaldskunnáttu. Því eigi 36. gr. samningalaganna alls ekki við hér.
Þá mótmæla stefndu tilvitnunum lögmanns stefnenda til 155. gr., 156. gr. og 248. gr. alm. hgl. nr. 19/1940, sem fjarstæðukenndum varðandi athafnir stefndu í þessu máli.
Þá er því mótmælt, að stefndu hafi fengið lækkun hlutafjárins, kr. 106.000.000 hvor, staðgreiddar inn á einkareikninga sína hjá Holtabúinu hf. Félagið hafi þá ekki haft greiðslueyri til þess, svo sem viðurkennt sé í matsgerð hinna dómkvöddu manna (dskj. nr. 43, bls. 7).
Hafi stefnendur ekki leitað lögmannsaðstoðar við eignaskiptin sé það þeirra mál og ekki á ábyrgð stefndu. Stefndu hafi ekki misnotað aðstöðu sína á nokkurn hátt í félaginu, hvorki við skiptin né í annan tíma. Tilvitnanir lögmanns stefnenda til þágildandi hlutafélagalaga nr. 32/1978 hafi enga þýðingu fyrir úrslit þessa máls.
Það séu hvorki rangar eða brostnar forsendur fyrir samningi bræðranna um skiptingu sameignanna, þótt verðgildi Holtabúsins hf. og Fóðurblöndunnar hf. hafi aukist síðar undir hagsýnni stjórn stefndu.
Því verði hvorki eftirskriftin (P.S.) á samkomulaginu frá 5. desember 1990 né afsalið frá 1. janúar 1991, fellt úr gildi á þeim grundvelli né vikið til hliðar með skírskotun til 33. gr. eða 36. gr. samningalaganna.
Það hafi ekki verið lagaleg þörf á því, að stefnandinn Sigríður, undirritaði samkomulagið frá 5. desember 1990. Sala hennar á hlutabréfum í Holtabúinu hf. hinn 1. janúar 1991 sýni, að hún hafi viljað selja bréf sín í fyrirtækinu, en eigi neyta forkaupsréttar. Auk þess séu þessar málsástæður allt of seint á ferðinni af hennar hálfu.
Eigi sé unnt nú að upplýsa með bókhaldsgögnum skuld Jóns og Jóns Jóhannssonar hf. við Holtabúið hf. pr. 31.12. 1990.
Stefndu hafi tekið að sér að greiða eftirstöðvar topp-íbúðarinnar að Klapparstíg 1. Það hafi þeir þegar gert. Hins vegar segi ekkert um það í samkomulaginu frá 5. desember 1990, að stefndu skuldbindi sig til þess að afhenda hana í tilgreindu ástandi. Hvernig endanlega var gengið frá íbúðinni hafi verið mál stefnandans Jóns og komi stefndu ekkert við. Jón hafi ekki sýnt fram á, að hann hafi orðið fyrir skakkaföllum varðandi íbúðina, er stefndu beri ábyrgð á. Bókanir á fundinum 11. janúar 2000 séu ritaðar af lögmanni stefnenda, Steingrími Þormóðssyni, hrl. Þær geti ekki skuldbundið stefndu, enda hafi enginn verið mættur á þessum fundi með umboð þeirra til slíks. Hins vegar muni Jón Ingólfsson hrl., frændi bræðranna, er sat þennan fund, hafa lýst yfir því, að ef réttmætar fjárkröfur kæmu fram af hálfu Jóns varðandi Klapparstíg 1, myndi hann mæla með því við stefndu að þær yrðu greiddar. Engar kröfur í þessa veru hafi komið fram af hálfu stefnenda fyrr en í stefnu fyrsta málsins, er birt var 1. og 2. desember 2000. Stefndu hafi greitt íbúðina samkvæmt kaupsamningnum. Þeir beri hins vegar ekki ábyrgð á því, að Steintak hf. gat ekki skilað íbúðinni í tilgreindu ástandi, þar eð það varð gjaldþrota. Stefndu hafi aldrei tekið á sig ábyrgð á gjaldfærni Steintaks hf.
Það viðbótarland, sem stefndu hafi afhent Jóni endurgjaldslaust úr landi Ásmundarstaða með makaskiptaafsalinu 26. júní 1998 hafi verið algerlega umfram skyldu þeirra samkvæmt samkomulaginu frá 5. desember 1990. Viðbótarlandið hafi verið látið af hendi af einskærri góðvild fyrir þrábeiðni Jóns, sem hafi fundist Reykjagarðsmenn þrengja um of að sér á Ásmundarstöðum. Er vísað nánar um þetta til bréfs stefnda Gunnars (dskj. nr. 4).
Stefndu fjalla í greinargerð sérstaklega um tölulega hlið málsins. Draga þeir í efa gildi matsgerða þeirra sem dómkrafan er m.a. byggð á, og varpa fram þeirri spurningu hversu traustar þær matsgerðir séu, sem gerðar eru 11-12 árum eftir skiptin, við allt aðrar markaðsaðstæður en þá hafi ríkt.
Undirmatsmenn meti viðskiptavildina einskis, en yfirmatsmenn á 80 milljónir króna, en segi þó í mati sínu, að „ávöxtun eiginfjár félagsins (Fóðurblöndunnar hf) bendir á engan hátt til þess að um viðskiptavild, samkvæmt hagfræðilegri skilgreiningu hafi verið að ræða í félaginu í lok árs 1990“ (dskj. 122, bls. 3). Megi því spyrja hvaða rök það séu þá og hvorir hafi rétt fyrir sér, undirmatsmenn eða yfirmatsmenn? Hafa verði í huga, að Holtabúið hf., Fóðurblandan hf. eða hin félögin hafi ekki verið á verðbréfamarkaðinum árið 1990. Því sé afar erfitt að gera sér grein fyrir því árin 2001 og 2002 hvert verðmæti sameignanna hafi verið 1990.
Hafa verði einnig í huga, að hér hafi verið um fjölskyldufyrirtæki að ræða, í formi hlutafélaga. Eign hvers og eins hafi eingöngu legið í hlutabréfunum. Verðmæti eignanna hafi því farið eftir markaðsverði bréfanna. Það verð hafi hins vegar ekki verið til, þar sem félögin hafi ekki verið á verðbréfamarkaðinum.
Ávöxtun eiginfjár í Fóðurblöndunni 1989-90 hafi verið léleg, sbr. yfirmatið. Því sé óvisst, hvers virði þriðjungur af hlutabréfum í fjölskyldufyrirtæki hafi verið, þar sem fjölskyldan sé áfram í meiri hluta og ráði því áfram meðal annars stefnu félagsins, fjárfestingu, uppbyggingu og arðgreiðslum. Svarið hljóti að vera, að verðmæti hlutabréfa við þessar aðstæður sé harla lítið. Hluthafi, sem vilji út úr hlutafélagi, eigi engan upplausnarrétt. Hann eigi aðeins það sem fáist fyrir hlutabréfin, þegar þau séu seld. Eini möguleikinn, sem hluthafi í fjölskyldufyrirtæki eigi til að gera sér mat úr sínum bréfum, ef hann vill út, sé að fjölskyldan kaupi hann út við sanngjörnu verði. Það sé einmitt það sem hér hafi gerst.
Það sé dómsins að skera sjálfstætt úr um það gildi matsgerðanna, og sé hann ekki bundinn af þeim, komi til þess að stefndu verði, eftir allan þennan tíma, gert að greiða stefnendum eitthvað meira en samið hafi verið um árið 1990.
Eins og fyrr segi hafi Jón viljað ganga úr félagsskapnum og hafi sjálfur átt frumkvæðið að því. Hann sé bundinn af þeim samningum sem hafi tekist á milli bræðranna, svo og við þann greiðslumáta, er samið hafi verið um fyrir hans hlut. Það sé rangt, að skuldabréfin, sem Jón hafi fengið, hafi verið tekin sem greiðslur inn á ofangreindar 106.000.000 krónur. Hér hafi verið um fullnaðargreiðslur að ræða fyrir hlut Jóns, ásamt þeim verðmætum öðrum, er honum voru afhent. Það hafi aldrei verið á það minnst í samningum aðilja að það ætti að núvirða þessi bréf. Þau hafi verið afhent eins og þau komu fyrir og þannig hafi þau verið fyrirvaralaust móttekin af Jóni. Núvirðingu bréfanna er því harðlega mótmælt, sem samningsbroti.
Kvittanir er fram hafi komið af hálfu stefnenda (dskj. nr. 9, 10 og 12) sanni með ótvíræðum hætti, að hér hafi verið um fullnaðargreiðslu að ræða.
Það sé fráleitur málflutningur að halda því nú fram, níu árum eftir að bréfin hafi verið greidd að fullu, að það hafi átt að núvirða þau. Fjárkröfum hans í þessa veru sé því alfarið vísað á bug.
Vaxtakröfum stefnenda er mótmælt sérstaklega, bæði upphafstíma vaxta, svo og dráttarvöxtum. Eldri vextir en fjögurra ára frá þingfestingardegi 20. október 2004 séu fyrndir skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.
Málskostnaðarkrafa stefndu sé reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða.
Í máli þessu er deilt um uppgjör á milli bræðra, stefnanda Jóns og stefndu Gunnars og Sigurðar Garðars Jóhannssona, sem stofnuðu og áttu saman Holtabúið hf. og dótturfélög þess. Höfðu þeir bræður verið í samvinnu um búskap með hænur og svín frá árinu 1970. Tilefni deilunnar er að Jón gekk út úr samvinnu og sameign þeirra. Á árinu 1989 leggja bræðurnir drög að því að slíta samstarfinu með þeim hætti að Jón gangi út úr félaginu og selji Gunnari og Garðari hlut sinn. Þeim ber hins vegar ekki saman um það hvort Jóni hafi verið ýtt út úr rekstrinum af bræðrum sínum, eða hvort hann hafi viljað fara út og gert það þrátt fyrir fortölur þeirra. Ekkert í gögnum málsins bendir til annars en að það hafi verið vilji Jóns að slíta samstarfinu.
Bræðurnir leituðu ekki eftir faglegri ráðgjöf við verðmat eða frágang skjala og eru samningar og uppgjör þeirra, vegna útgöngu Jóns, því ekki eins formleg og skýr og æskilegt hefði verið.
Fyrsta skjalið sem tengist þessu ferli hefur í málinu verið nefnt „drög að samkomulagi“ (dómskjal nr. 72). Skjalið er handskrifað, ódagsett, undirritað af Jóni, Gunnari og Garðari Jóhannssonum. Ekki er ágreiningur um að það sé staðfesting á samkomulagi sem þeir hafi gert 10. júlí 1989 og er það kennt við þann dag. Texti þess er handskrifaður og svohljóðandi:
„Jón Gunnar og Garðar gera með sér svofelld drög að samkomulagi um eignaskipti sem hér segir
Jón eignast eftir skiptin eftirfarandi. Allar fasteignir Holtabúsins á Ásmundarst. Undanskilið er þó íbúðarhús Garðars.
Jón yfirtekur áhvílandi veðskuldir.
Gunnar og Garðar aflétta tryggingabréfi kr. 5.000.000. Jón fær allt lausafé (ólæsilegt þvottavél ) á Ásmundarstöðum auk Range Rover sem Jón hefur til afnota Jón greiðir áhvílandi skuldir á honum.
Jón fær Klapparstíg 1 sem er á nafni Holtabúsins. Garðar og Gunnar taka að sér greiðslu allra skuldbindinga samkvæmt kaupsamning.
Jón eignast skuldabréf útgefin af Geir Gunnari Geirssyni og Nesbúi h/f að upphæð uppreiknað til 1. júlí 1989 vísitala 2540 kr. 71.655.472.
Garðar og Gunnar greiða Jóni kr. 1.053.756,oo.
Allar aðrar eignir og skuldir eru eign Gunnars og Garðars. Gjörningur þessi miðast við 1 júní 1989.
Jón Garðar Gunnar eru sammála um að þetta var rætt á fundi 10. júlí 1989 sem grunnur að samkomulagi.“
Þá hefur verið lagt fram svonefnt „5. desembersamkomulag“ (dómskjal nr. 9). Skjalið ber yfirskriftina „Samkomulag“ og er dagsett 5. desember 1990. Texti þess er vélritaður og er svohljóðandi:
„Í framhaldi af útgáfu jöfnunarhlutabréfa og lækkun hlutafjár í Holtabúinu hf. er gert ráð fyrir að í hlut Jóns Jóhannssonar komi eftirtaldar eignir:
Einkareikningur m.v. stöðu 31.12.1990
Skuldabréf Vallá
Skuldabréf Nesbú
Útgefið skuldabréf kr. 25.000.000.-
Hesthús og land skv. uppdrætti
Gert er ráð fyrir að hesthús og land sé veðlaust. Takist ekki að losa það undan veðböndum ber Holtabúið ábyrgð á greiðslum vegna þessara veða.
Jón fær Klapparstíg 1 skuldlausan. Á Klapparstíg íbúð 11-01 hvílir skbr. dags. 21 mars 1989 kr. 3.000.000-. Á Laugavegi 45 hvílir samskonar lán. Holtabúið tekur að sér að greiða þessi lán og stefnt skal að því að þessi veð verði losuð svo fljótt sem auðið er.
Stefnt skal að heitt vatn fáist endurgjaldslaust fyrir Jón til nota fyrir íbúðarhús og hesthús.“
Skjalið er undirritað í Reykjavík 5. desember 1990 af öllum bræðrunum. Við skjalið hefur verið bætt handskrifuðum eftirmála svohljóðandi.
„P.S. Gert er ráð fyrir að ofangreind greiðsla til Jóns Jóhannssonar sé fullnaðargreiðsla fyrir allt hlutafé Jóns í Holtabúinu, Fóðurblöndunni, Kornax og Ewos.“ Undir þessum eftirmála eru fangamörk allra bræðranna.
Verður nú fyrst tekin afstaða til þess hvort og hvenær bindandi samkomulag hafi orðið með bræðrunum um það með hvaða kjörum Jón seldi Gunnari og Garðari hlut sinn í sameign þeirra.
Í texta skjalsins frá 10. júlí 1989 kemur skýrt fram, að það er hugsað sem „drög að samkomulagi“ og að efni þess hafi verið rætt sem „grunnur að samkomulagi“. Verður því ekki fallist á það með stefndu, að þar sé um að ræða bindandi lokasamning um eignaskiptin, þó ljóst sé að vissir þættir þess tóku þegar gildi.
Skjalið frá 5. desember 1990 ber yfirskriftina „samkomulag“, það er dagsett og undirritað af öllum bræðrunum og ber öll merki þess að vera bindandi samningur. Í hinni handskrifuðu viðbót er skýrt tekið fram, að efni þess feli í sér tilhögun sem sé „fullnaðargreiðsla fyrir allt hlutafé Jóns í Holtabúinu, Fóðurblöndunni, Kornax og Ewos.“ Efnislega er samkomulag þetta í öllum meginatriðum samhljóða drögunum frá 10. júlí 1989. Skjal þetta hefur þann ágalla að þau verðmæti sem talin eru upp sem greiðslueyrir eru ekki tilgreind af nákvæmni og ekki er tekið fram hvenær efndum skuli lokið. Þrátt fyrir að skjalið sé ófullkomið að þessu leyti, þykir, samkvæmt orðalagi þess, verða að telja skjal þetta bindandi samning bræðranna um kaup á hlutafé Jóns. Ekkert er fjallað um sölu eignarhluta Sigríðar Sveinsdóttur. Verður að líta svo á, samkvæmt almennum reglum kauparéttar, að uppgjör hafi átt að fara fram innan hóflegra tímamarka, eða þegar seljandi krefðist þess.
Verður þá fjallað um það hvort dómkröfur stefnenda séu fyrndar svo sem stefndu halda fram.
Í 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu er sett sú meginregla að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Samkvæmt framangreindri niðurstöðu um að 5. desembersamkomulagið sé hinn eiginlegi samningur bræðranna, og þar sem enginn gjalddagi er þar tilgreindur, getur fyrningarfrestur í fyrsta lagi hafist 5. desember 1990. Stefna í fyrsta máli vegna ágreinings þess sem hér er til umfjöllunar var birt 1. og 2. desember 2000, ljóst er að fyrningarfrestur var þá ekki liðinn.
Stefndu halda því og fram, að birting stefnunnar geti ekki hafa slitið fyrningu þar sem liðið hafi lengri tími frá birtingu stefnu til þingfestingar „en nauðsyn krefur“, sbr. 1. mgr. 11. gr. fyrningarlaga. Í sömu málsgrein segir að þetta sé svo „ef stefna á að takast fyrir eftir að fyrningarfresturinn er liðinn.“ Framangreind stefna var þingfest 17. janúar 2001. Þegar til þess er litið að þinghlé er frá 20. desember til 6. janúar og að regluleg dómþing við Héraðsdóm Suðurlands á Selfossi eru háð fyrsta og þriðja miðvikudag hvers mánaðar, er ljóst að fyrsta reglulegt þing í janúar 2001 var háð miðvikudaginn 17. janúar. Í ljósi þessa telst sá tími sem líður frá birtingu stefnu til þingfestingardags ekki óeðlilegur. Næsta mál sem höfðað var vegna sakarefnisins, og það mál sem hér er til umfjöllunar, voru höfðuð innan þeirra sex mánaða sem áskildir eru í 1. mgr. 11. gr. fyrningarlaga. Ekki er fallist á þá málsástæðu stefndu að krafa þessa máls sé þannig fram sett að þar teljist vera um óskylt mál að ræða.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú, að fyrningarfrestur verði ekki talinn byrja að líða fyrr en 5. desember 1990, og að dómkrafa stefnenda sé ekki fyrnd. Samkvæmt þessari niðurstöðu er óþarft að kryfja til mergjar hvort krafan hafi í raun orðið gjaldkræf þann dag eða síðar og hvort fullnusta kröfunnar hafi átt sér stað með slíkum hætti að áhrif kunni að hafa haft á upphaf fyrningarfrests.
Verður þá vikið að efndum samningsins.
Meðal málskjala er á dómskjali nr. 10 afsal dagsett 1. janúar 1991 og undirritað af Jóni Jóhannssyni einum. Skjalið í heild er svohljóðandi:
„AFSAL
Jón Jóhannsson, kt. 250448-3769 og Sigríður Sveinsdóttir, kt. 101144-2839, Ásmundarstöðum, Ásahreppi, seljum hér með og afsölum hlutabréfaeign okkar í Holtabúinu hf. að nafnverði kr. 15.000.000 til Gunnars Jóhannssonar, kt. 230551-2519, Ásmundarstöðum, Ásahreppi og Sigurðar Garðars Jóhannssonar, kt. 260746-3599, Ásmundarstöðum, Ásahreppi.
Umsamið kaupverð kr. 29.465.286 er að fullu greitt með yfirtöku skulda Jóns Jóhannssonar og Jóns Jóhannssonar hf. við Holtabúið hf.
Reykjavík, 1. janúar 1991
Jón Jóhannsson (sign)
Jón Jóhannsson
Kaupendur
Vitundarvottar að
réttri dagsetningu,
undirskrift og
fjárræði“
Annað eintak afsalsins er lagt fram á dómskjali nr. 27a og er það einnig undirritað af Sigríði Sveinsdóttur, eiginkonu Jóns, en enn án undirskriftar kaupenda og án vitundarvotta. Ekki er upplýst hvenær Sigríður skrifaði undir afsalið, en ætla verður að það hafi verið síðar.
Með öðru afsali dagsettu sama dag afsalar Jón hlutabréfaeign sinni í Ewos hf. að nafnvirði 100.000 krónur til bræðra sinna, með vísan til þess að kaupverð sé að fullu greitt. Með þriðja afsalinu dagsettu sama dag afsalar Jón bræðrum sínum hlutabréfaeign sinni í Kornax hf. að nafnverði 150.000 krónur og lýsir því að kaupverð sé að fullu greitt (dskj. 11 og 12). Með fjórða afsalinu dagsettu 1. janúar 1991 afsalar Jón hlutabréfaeign sinni í Fóðurblöndunni hf. að nafnverði 12.915 krónur til Gunnars og Sigurðar Garðars gegn fullnaðargreiðslu (dskj. 27b).
Af hálfu Jóns er því haldið fram að hann hafi sennilega ekki undirritað afsalið á dómskjali nr. 10 fyrr en árið 1992 og þá með skattframtölum ársins 1992 og án þess að átta sig á því að hann væri að undirrita afsal. Með öðrum orðum þá byggir hann m.a. málsókn sína á því, að hann hafi verið blekktur til að undirrita skjal þetta og gert það ómeðvitað um efni þess. Telur hann sig vera óbundinn af þessu skjali. Stefndu byggja hins vegar á því að afsal þetta sé endanlegt og bindandi uppgjör vegna viðskiptanna, eða fullnaðarkvittun.
Framangreind fullyrðing um að Jón hafi ómeðvitað undirritað skjalið þykir ekki trúverðug. Hann ber fulla ábyrgð á undirritun sinni á öll skjöl sem fylgja skattframtali hans, og með undirritun skattframtals síns á því að öll þau gögn sem því fylgja séu rétt. Þá hefur komið fram að hann hafi verið aðgætinn. Ekki hefur verið vefengt að undirritunin sé hans. Þykir ekki sannað að hann hafi verið beittur blekkingum til að undirrita skjal þetta.
Stefnendur bera einnig fyrir sig, til sönnunar því að skjalið sé ógilt, að það sé ekki undirritað af öðrum hagsmunaaðilum og að dagsetning þess geti ekki staðist. Sú staðreynd að eiginkona Jóns skrifar síðar undir skjalið eða samrit þess (dskj. 27a) styður að um viljayfirlýsingu hafi verið að ræða. Yfirlýsing stefnenda samkvæmt skjalinu er gild þó að kaupendur skrifi ekki undir skjalið. Það að engir vottar rita á skjalið er í sjálfu sér ekki sönnun þess að sú viljayfirlýsing sem felst í undirritun þess sé ógild, en þykir valda því að ósannað sé að dagsetning þess sé rétt.
Lagt er fram í málinu óundirritað skjal dagsett 4. janúar 1991 (dómskjal nr. 8), sem upplýst má telja að sé skjal það sem stefnendur nefna „minnispunkta Ragnars Bogasonar endurskoðanda“. Það ber yfirskriftina „Hækkun og lækkun hlutafjár í félaginu 1990.“ Texti skjalsins er svohljóðandi:
„Eignir sem J.J. yfirtekur m.v. 30.9.1990.
Viðskiptareikningur J.J. hf. 16.331.482
“ J.J. 2.384.276
“ J.J. 20.968.844
Áhöld, tæki, fasteingnir og land 4.500.000
Skbr. Vallá 31.421.163
Skbr. Nesbú .. 33.091.061
Útgefið skuldabréf 25.000.000
133.696.826
Ef hlutafé félagsins væri aukið í kr. 363.000.000 og síðan lækkað í 45.000000 næmi hluti J.J. í lækkun kr. 106.000.000. Eftir það ætti J.J. kr. 15.000.000 í félaginu sem yrði að kaupa fyrir kr. 27.696.826 til að viðskipastaða hans gagnvart félaginu yrði O. Greiðsla G.J. og S.G.J. fælist þá í því að þeir yfirtækju viðskiptaskuld J.J. við félagið.“
Telja stefnendur niðurstöðutölu framangreinds afsals vera byggða á þessum útreikningi og andmæla því að hann hafi verið samþykktur af Jóni. Jafnframt telja þeir skjal þetta vera til marks um það, að afsalið geti ekki hafa verið undirritað 1. janúar 1991, ásamt því að með bréfi dagsettu 28. janúar 1991 tilkynnti Jón G. Zoega hrl. að á aðalfundi Holtabúsins hf., haldinn 29. júní 1990 hefði verið samþykkt að auka hlutafé félagsins með útgáfu jöfnunarbréfa um 322.640.231 krónu í samtals 363.000.000 krónur, og á sama fundi hafi verið ákveðið að lækka hlutafé félagsins í 45.000.000 krónur með greiðslu til hluthafa. Fallast má á það að framangreind gögn gefi vísbendingu um það að afsalið hafi ekki verið undirritað á þeim degi sem tilgreindur er, 1. janúar 1991. Gegn fullyrðingu Jóns þykir og það að skjalið er óvottað, leiða til þess að ósannað er að dagsetning sé rétt. Á hinn bóginn er ljóst af málsgögnum að framangreindar eignafærslur hafa þá þegar átt sér stað. Á skattframtali stefnanda Jóns árið 1991 vegna ársins 1990 er tilgreind greiðsla á niðurfærslu hlutafjár að fjárhæð 106.000.000 krónur. Einnig er í ársreikningi Jóns Jóhannssonar ehf. fyrir árið 1990 getið skuldabréfa Vallár og Nesbúa, sem og skuldabréfs að fjárhæð 25.000.000 krónur. Í greinargerð um eignabreytingar með skattframtali Jóns árið 1992 vegna 1991 er gerð grein fyrir sölu hlutabréfa fyrir tilgreint verð.
Ljóst er og af gögnum málsins að bræðurnir höfðu tekið ákvörðun um hækkun og lækkun hlutafjár löngu áður en gengið er frá því formlega í lok janúar 1991. Ætla verður að þegar bræðurnir gerðu með sér bindandi samkomulag og ákváðu að nýta heimild til að gefa út jöfnunarhlutabréf, þá hafi þeim verið ljós eiginfjárstaða Holtabúsins hf. og þá jafnframt hvað koma myndi út úr hækkun og lækkun hlutafjár. Sú tala sem fram kemur á skattframtali Jóns 1991 er enda í samræmi við það sem þá var fyrirséð. Greinargerð um eignabreytingar er hluti af skattframtali sem stefnendur Jón og Sigríður skrifa undir árið 1992, ekki var regla að slík fylgiskjöl með skattframtali væru sérstaklega undirrituð, en gjaldandi ber ábyrgð á að þau gögn er skattframtali fylgja séu rétt. Greinargerðina staðfestu stefnendur því með undirritun skattframtalsins. Ósannað er að greinargerð þessi stafi frá öðrum. Samkvæmt framansögðu benda skattgögn til þess að greiðslur samkvæmt 5. desember samkomulaginu hafi farið fram í framhaldi af undirskrift þess. Umdeilt afsal er í samræmi við framangreind gögn, sem og gögn sem sýna stöðu og hreyfingar Jóns Jóhannssonar ehf. Þykir vafi um rétta dagsetningu afsalsins ekki breyta gildi þess sem fullnaðarlokum vegna fullnustu 5. desembersamkomulagsins.
Þá hefur sú fullyrðing stefnenda engum gögnum verið stutt, að umsamið hafi verið að fjárhæð til útborgunar í kjölfar hækkunar og síðan lækkunar hlutafjár í Holtabúinu hf. hafi öll átt að greiðast stefnanda Jóni. Því er haldið fram að hann hafi átt að fá sinn þriðjung lækkunarfjárhæðarinnar greiddan með þeim eignum sem taldar eru upp í hinum vélritaða texta samkomulagsins frá 5. desember 1990, og að fyrir hlutafé hans í Holtabússamstæðunni skyldi greiða með þeim eignum sem þar eru taldar og hlut Gunnars og Garðars í lækkunarfjárhæðinni. Ekki verður séð hvernig samningur um að öll lækkunarfjárhæðin skyldi renna til Jóns eins verði lesinn út úr orðalagi skjalsins, eða eftirmála þess, eða eins og haldið er fram að hálfu stefnenda að orðið „greiðsla“ í eftirmálanum vísi til orðanna „lækkun hlutafjár“ í upphafi hins vélritaða texta skjalsins. Hafi verið rætt um slíka greiðslu munnlega, þá verður gegn andmælum stefndu, að teljast ósannað að um það hafi orðið bindandi samningur. Þar hefði þá og verið um talsverða yfirgreiðslu að ræða.
Umsamið kaupverð fyrir hlut stefnanda Jóns í Holtabúinu eru þær eignir sem taldar eru upp í 5. desembersamkomulaginu, á hinn bóginn eru þær ekki verðmetnar og greiðslufyrirkomulag er ekki tilgreint. Það að gengið er frá jafn umfangsmiklum viðskiptum á svo losaralegan hátt bendir til þess, að fullt traust hafi ríkt með bræðrunum þegar samkomulagið er gert og þeir hafi talið sig þekkja verðmæti félagsins og þeirra eigna sem koma áttu í hlut Jóns sem greiðslueyrir fyrir þriðjungs hlut hans. Jón heldur því hins vegar fram í skýrslu sinni fyrir dómi, að miklar deilur hafi verið með þeim bræðrum um kaupin. Hafi svo verið bar félagsstjórn að leggja málið í gerðardóm samkvæmt 22. gr. samþykkta félagsins, en það var ekki gert. Að því er varðar íbúð að Klapparstíg 1, segir í drögunum frá 10. júlí 1989 að Gunnar og Garðar taki að sér allar greiðslur „samkvæmt kaupsamningi“. Þetta er í samræmi við samninginn frá 5. desember, en þar er og fjallað um veð sem skuli aflétta. Svik verktaka við byggingu eignarinnar verða ekki talin vera á ábyrgð stefndu. Sú fullyrðing að stefndu Gunnar og Garðar hafi fengið staðgreitt það fé sem í þeirra hlut kom eftir hækkun og lækkun hlutabréfa í félaginu, stangast á við málsgögn og er ósönnuð. Samkvæmt málsgögnum fékk stefnandi greitt um 136.000.000 krónur, eða um 30.000.000 krónur umfram það sem hlut hans í lækkuninni nam, sem voru 106.000.000 krónur. Er ekki óeðlilegt að tengja þessa umframgreiðslu hinum handskrifaða texta samkomulagsins frá 5. desember 1990, um að þar sé samið um fullnaðargreiðslu fyrir hlutabréf. Samkvæmt þessu er afsalið efnislega í samræmi við samninginn.
Þegar litið er til reynslu og starfa stefnanda Jóns hjá fyrirtækinu, verður ekki séð að hann hafi staðið höllum fæti gagnvart bræðrum sínum árin 1989 og 1990, er þeir sömdu um greiðslu fyrir hlut hans. Staða félagsins er svipuð árið 1990 og hún var 1989 og auk þess vann hann áfram við bókhald þess. Ekki þykir heldur sannað að andlegri heilsu hans hafi verið þannig farið á þessu tímabili, að hann væri ekki fær um að gera sér grein fyrir stöðunni og taka ákvarðanir. Síðari undirritun eiginkonu hans á afsalið styður og að um viljagerning hafi verið að ræða. Þá verður ekki framhjá því litið að það er fyrst á árinu 1994 sem hann leitar til læknis vegna þunglyndis og ekki verður séð að það álit læknisins, að sjúkdómsins hafi byrjað að gæta árið 1986 og að „hann hafi átt erfitt með að standa í deilum og sérstaklega þegar tveir bræður hans hafi átt í hlut“ á árunum 1988 til 1994 sé byggð á öðrum heimildum en frásögn Jóns sjálfs. Verður því að telja þetta ósannað. Bæði Jón sjálfur og aðrir bera um það, að hann hafi verið aðgætinn og nákvæmur í fjármálum. Einnig verður ekki hjá því komist að líta til þess að grunnur samnings aðila um eignaskiptin er gerður á miðju ári 1989 og þegar á því ári fær hann í sinn hlut afborganir af skuldabréfum vegna sölu á rekstri Holtabúsins og fleiri eignir. Engar skjalfærðar athugasemdir koma fram af hans hálfu frá þeim tíma og þar til greiðslum er að fullu lokið miðað við afsalið og skattframtöl hans, en þar er a.m.k. um að ræða eitt og hálft ár.
Stefnandi Jón samdi með bindandi hætti 5. desember 1990 um sölu hlutabréfa sinna við stefndu Gunnar og Garðar. Stefnendum hefur ekki tekist að sanna eða færa sannfærandi rök fyrir því að Jón Jóhannsson hafi ekki skrifað undir afsalið, sem dagsett er 1. janúar 1991, af fúsum og frjálsum vilja, eða að stefndu hafi beitt svikum við framkvæmd uppgjörs vegna kaupanna. Verður að telja stefnendur bundna við þessa gerninga.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi fengið um 136.000.000 krónur í greiðslur fyrir eignarhluti sína í Holtabúinu hf. og tengdum félögum, þar með taldar 106.000.000 krónur vegna lækkunarfjárhæðarinnnar, og hafi verið búin að fá þessi verðmæti afhent í árslok 1990. Á þeim tíma eru engar skjalfestar athugasemdir komnar fram um að þau sætti sig ekki við endurgjaldið, þó liðið sé um eitt og hálft ár frá því drög eru gerð að samningnum. Afsalið er síðan undirritað athugasemdalaust. Stefnandi kveðst hafa gert athugasemd við uppgjörið árið 1992 og fengið vilyrði bræðra sinna fyrir leiðréttingu. Sönnun fyrir því að slíkum athugasemdum hafi verið hreyft hefur ekki verið tryggð, en það stóð Jóni næst að gera það.
Dóminum þykir ljóst að stefnandi Jón eigi enga hlutdeild eða tilkall til þess vaxtar sem síðar varð í Fóðurblöndunni hf. Á hinn bóginn verði að líta til þess að ekkert hefur komið fram í málinu, þrátt fyrir framburð stefnanda Jóns um að bræðurnir hafi deilt um greiðslur til hans, sem bendir til annars en að ætlunin hafi verið að Jón fengi eðlilegt endurgjald fyrir eignarhlut sinn. Tvær matsgerðir hafa síðar verið framkvæmdar og er niðurstaða þeirra á verðmæti félagsins svipuð, þó að undir- og yfirmatsmenn beiti ólíkum aðferðum til að komast að niðurstöðu sinni. Samkvæmt matsgerðum er ljóst að við gerð samningsins hefur verðmæti eignarhlutar stefnanda Jóns verið vanmetið um a.m.k. 47.000.000 króna miðað við þær greiðslur sem hann fékk, og er þá miðað við bókfært eigið fé og án núvirðingar skuldabréfa. Stefnandi Jón þykir bera fulla samábyrgð á gerð samningsins, hinum ófaglegu vinnubrögðum sem viðhöfð voru, og honum átti að vera fullkunnugt um eiginfjárstöðu félagsins og verðmæti þess. Hann gerði engar formlegar athugasemdir né beinar fjárkröfur á því tímabili sem uppskiptin áttu sér stað, og ekki síðar, jafnvel ekki í framhaldi af fundinum sem haldinn var 11. janúar 2000. Vegna þessa tómlætis, sem telja verður verulegt, og þar sem ósannað þykir að samningsstaða stefnanda Jóns hafi verið skert jafnvel þótt hann hafi verið farinn að finna fyrir þunglyndi, þá þykir ekki unnt að líta til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Það er niðurstaða dómsins að stefndu skuli vera sýkn af dómkröfum stefnenda. Þrátt fyrir það þykja stefnendur hafa haft ákveðið tilefni til málssóknarinnar. Svo sem áður greinir verður að fallast á, að uppskipti bræðranna á eign þeirri sem þeir höfðu sameiginlega byggt upp hafi ekki verið fyllilega sanngjörn í reynd. Þegar þetta er virt þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að aðilar beri sjálfir hver sinn kostnað af málinu.
Hjördís Hákonardóttir, dómstjóri, kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Rúnari B. Jóhannssyni, löggiltum endurskoðanda, og Stefáni Svavarssyni, löggiltum endurskoðanda.
D ó m s o r ð:
Stefndu skulu vera sýkn af kröfum stefnenda.
Málskostnaður fellur niður.