Hæstiréttur íslands
Mál nr. 821/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Matsgerð
- Milliliðalaus málsmeðferð
|
|
Miðvikudaginn 14. janúar 2015. |
|
Nr. 821/2014.
|
Kristrún Ólöf Jónsdóttir Marteinn Þ. Hjaltested Sigurður Kristján Hjaltested Vilborg Björk Hjaltested og Þorsteinn Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) gegn Elísu Finnsdóttur Finnborgu Bettý Gísladóttur Gísla Finnssyni Guðmundi Gíslasyni Hansínu Sesselju Gísladóttur Margréti Margrétardóttur (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) Karli Lárusi Hjaltested Sigurði Kristjáni Hjaltested (Sigmundur Hannesson hrl.) Markúsi Ívari Hjaltested og Sigríði Hjaltested (Valgeir Kristinsson hrl.) |
Kærumál. Matsgerð. Milliliðalaus málsmeðferð.
Í apríl 2014 höfðuðu EF o.fl. mál gegn K og ÞH til heimtu fjár handa dánarbúi S vegna eignarnáms lands úr jörðinni V. Í ágúst sama ár lögðu EF o.fl. fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, með vísan til XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að „meta verðmæti nánar tilgreindra hluta lands jarðarinnar V“. Í þinghaldi í október 2014 bókuðu EF o.fl að beiðnin væri nú byggð á XI. kafla sömu laga þar sem stefna hefði þá verið birt fyrir öllum réttargæslustefndu í málinu. Í hinum kærða úrskurði var fallist á matsbeiðnina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ljóst væri að um ritvillu væri að ræða í bókun EF o.fl., þar sem vísað væri til XI. kafla laganna, og að þar muni hafa verið átt við IX. kafla þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 skuli öflun sönnunargagna að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem færi með málið, en að dómari gæti þó orðið við ósk aðila um að gagnaöflun færi fram fyrir öðrum dómi samkvæmt ákvæðum XI. kafla laganna, enda leiddi það ekki til óþarfra tafa á rekstri máls. Taldi Hæstiréttur að sú undantekning frá meginreglunni ætti ekki við í máli þessu. Yrðu ákvæði 1. mgr. 47. gr. laganna skýrð svo, með samanburði við 2. mgr. hennar, að eftir að mál hefði verið höfðað færi öflun sönnunargagna, þar á meðal öflun matsgerðar, fram fyrir þeim dómara sem kæmi til með að leysa úr málinu. Af hinum kærða úrskurði yrði ráðið að ekki lægi ljóst fyrir að sá dómari sem tók afstöðu til matsbeiðninnar myndi fara með mál það sem EF o.fl. hefðu höfðað í apríl 2014. Af þeim sökum hefði brostið lagaskilyrði fyrir því að dómarinn leysti úr hvort umbeðið mat færi fram. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. nóvember 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Elísa Finnsdóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Gísli Finnsson, Guðmundur Gíslason, Hansína Sesselja Gísladóttir, Margrét Margrétardóttir, Karl Lárus Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested krefjast aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
I
Um málsástæður fyrir aðalkröfu sinni gera varnaraðilarnir Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested með óljósum hætti athugasemd við tilgreiningu aðila í kæru, auk þess sem vísað er til a. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem geymir fyrirmæli um efni stefnu og gerð hennar. Standa engin rök til frávísunar málsins frá Hæstarétti á þessum grundvelli.
II
Við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, reis ágreiningur um ráðstöfun jarðarinnar Vatnsenda, en jörðina hafði hann erft frá Magnúsi Einarssyni Hjaltested samkvæmt erfðaskrá hans 4. janúar 1938. Hafa verið rekin fjölmörg ágreiningsmál fyrir dómstólum sem komið hafa til kasta Hæstaréttar varðandi skiptin. Eitt ágreiningsefnanna var hvort skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns væri lokið, en með dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2009 í máli nr. 599/2009 var slegið föstu að skipti á dánarbúi hans stæðu enn yfir. Með dómi Hæstaréttar 24. ágúst 2011 í máli nr. 375/2011 var fallist á kröfu, sem hluti varnaraðila í máli þessu hafði gert um að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka skiptunum. Var í kjölfar þess skipaður skiptastjóri 18. nóvember 2011 og hélt hann skiptafund 16. janúar 2012 þar sem ágreiningur reis um hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbúsins. Lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu sinni 9. febrúar sama ár að jörðin væri ekki lengur í eigu dánarbúsins. Varð uppi ágreiningur um þessa ákvörðun skiptastjóra og með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 var slegið föstu að beinn eignarréttur að jörðinni væri enn á hendi dánarbúsins.
Í kjölfar síðastnefnds hæstaréttardóms hélt skiptastjóri skiptafund 4. júní 2013. Í fundargerð sagði að í forsendum dómsins kæmi fram að hinum beina eignarrétti að jörðinni Vatnsenda, sem enn teldist vera á hendi dánarbúsins, yrði að ráðstafa til að ljúka skiptum lögum samkvæmt. Annar skiptafundur var haldinn 14. júní sama ár og lagði skiptastjóri þá fram bókun þar sem fram kom að á skiptafundi 4. sama mánaðar hefðu varnaraðilar lagt fram tillögur í sex liðum að aðgerðum í nafni dánarbúsins og til hagsbóta fyrir það. Var jafnframt bókað að skiptastjóri hefði ráðist í aðgerðir samkvæmt tveimur fyrstu liðunum er lutu að skráningu eignarhalds að jörðinni Vatnsenda og upplýsingaöflun hjá Kópavogsbæ. Öðrum tillögum varnaraðila, sem lutu meðal annars að því að höfðað yrði dómsmál á hendur Kópavogsbæ og öðrum erfingjum dánarbúsins og að skilað yrði til dánarbúsins bótum vegna eignarnáms á jörðinni Vatnsenda árið 2007, hafnaði skiptastjóri að fylgja eftir, þar sem mikil óvissa væri um ,,hverjum erfingja Sigurðar Hjaltested þau réttindi og verðmæti sem þar er vikið að, tilheyra. Um þetta er einnig fullur ágreiningur á milli aðila“. Jafnframt færði skiptastjóri til bókar að í 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. væri kveðið svo á um að ef skiptastjóri ákvæði að halda ekki uppi hagsmunum, sem búið kynni að njóta, gæti erfingi gert það í eigin nafni en til hagsbóta fyrir búið. Áður yrði hann þó að tilkynna skiptastjóra þá fyrirætlan sína. Með bréfi til skiptastjóra 27. apríl 2014 tilkynntu varnaraðilar að þeir hygðust á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 höfða mál á eigin kostnað og áhættu og í eigin nafni til hagsbóta búinu, aðallega á hendur Kópavogsbæ en til vara á hendur sóknaraðilanum Þorsteini Hjaltested, til heimtu fjár handa búinu. Var málið höfðað með birtingu stefnu á hendur bænum og sóknaraðilanum 28. apríl 2014. Samkvæmt stefnunni er aðallega gerð sú krafa að bærinn greiði dánarbúinu 74.811.389.954 krónur ásamt tilgreindum vöxtum, en til vara 47.558.500.000 krónur. Að því frágengnu er þess krafist að sóknaraðilinn greiði dánarbúinu 2.250.000.000 krónur auk tilgreindra vaxta. Varnaraðilar lögðu fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns 21. ágúst 2014 til að ,,meta verðmæti nánar tilgreindra hluta lands jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, sem matsþoli Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi“ og var fallist á hana með hinum kærða úrskurði.
III
Þrátt fyrir að varnaraðilar hefðu höfðað mál gegn Kópavogsbæ og sóknaraðilanum Þorsteini Hjaltested samkvæmt framansögðu vísuðu þeir í matsbeiðni sinni til XII. kafla laga nr. 91/1991. Í bókun varnaraðila, sem lögð var fram í þinghaldi 15. október 2014, kom fram að varnaraðilar kvæðu matsbeiðnina byggjast á XI. kafla laga nr. 91/1991 þar sem stefna hefði þá verið birt fyrir öllum réttargæslustefndu. Ljóst er að um ritvillu er að ræða, þar sem vísað er til XI. kafla laganna, en þar mun vera átt við IX. kafla þeirra.
Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 skal öflun sönnunargagna að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með málið. Í síðari málslið 1. mgr. segir að dómari geti þó orðið við ósk aðila um að gagnaöflun fari fram fyrir öðrum dómi samkvæmt ákvæðum XI. kafla laganna, enda leiði það ekki til óþarfra tafa á rekstri máls. Sú undantekning frá meginreglunni um milliliðalausa málsmeðferð á ekki við í máli þessu. Verða ákvæði 1. mgr. 47. gr. skýrð svo, með samanburði við 2. mgr. hennar að eftir að mál hefur verið höfðað fari öflun sönnunargagna, þar á meðal öflun matsgerðar, fram fyrir þeim dómara sem kemur til með að leysa úr málinu, nema áðurgreind undantekning eigi við. Af hinum kærða úrskurði verður ráðið að ekki liggur ljóst fyrir að sá dómari sem tók afstöðu til matsbeiðninnar muni fara með mál það sem varnaraðilar hafa höfðað á hendur Kópavogsbæ og sóknaraðilanum Þorsteini. Af þeim sökum brast lagaskilyrði fyrir því að dómarinn leysti úr hvort umbeðið mat færi fram. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði, en um kærumálskostnað fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðilar, Elísa Finnsdóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Gísli Finnsson, Guðmundur Gíslason, Hansína Sesselja Gísladóttir, Margrét Margrétardóttir, Karl Lárus Hjaltested, Sigurður Kristján Hjaltested, Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested, greiði óskipt sóknaraðilum, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, Marteini Þ. Hjaltested, Sigurði Kristjáni Hjaltested, Vilborgu Björk Hjaltested og Þorsteini Hjaltested, hverju fyrir sig 60.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. nóvember 2014.
Með matsbeiðni móttekinni 21. ágúst sl. hafa matsbeiðendur krafist þess að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta verðmæti nánar tilgreindra hluta lands jarðarinnar Vatnsendi í Kópavogi, sem matsþoli Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi.
Við fyrirtöku beiðninnar 3. október sl. komu fram mótmæli af hálfu matsþola Þorsteins, Kristrúnar Ólafar, Vilborgar Bjarkar, Marteins Þ. og Sigurðar Kristjáns við dómkvaðningunni. Matsþoli Kópavogsbær taldi matsgerð á grundvelli beiðninnar tilgangslausa til sönnunar í dómsmáli aðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, en í ljósi þess að matsbeiðendur myndu bera alla áhættu og kostnað af gerðinni var ekki gerð krafa um synjun um dómkvaðningu. Þing var ekki sótt af hálfu matsþola Kristjáns Þórs þrátt fyrir lögmæta boðun hans um að mæta til dómþings þann dag. Var málinu frestað til 15. október sl. að ósk lögmanna matsbeiðenda. Við fyrirtöku þann dag komu fram athugasemdir lögmanna matsbeiðenda við mótmælum matsþola og var munnlegur málflutningur ákveðinn þann 13. nóvember sl. Var málið flutt munnlega þann dag, að framkomnum skriflegum bókunum aðila, og þá tekið til úrskurðar.
Matsbeiðendur krefjast þess að dómkvaðning matsmanns til að svara matsspurningum fari fram og mótmæla þeir kröfu matsþola um að dómkvaðning matsmanns nái ekki fram að ganga.
Matsþolar Þorsteinn, Kristrún Ólöf, Vilborg Björk, Marteinn Þ. og Sigurður Kristján krefjast þess að beiðni um dómkvaðningu matsmanns til að svara nánar tilteknum matsspurningum verði synjað.
I
Í matbeiðni segir meðal annars frá því að matsþoli Kópavogsbær hafi ítrekað tekið eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, en hins vegar ekki greitt lögbundnar eignarnámsbætur til réttmæts og lögmæts handhafa beins eignarréttar að jörðinni frá 13. nóvember 1966, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, svo sem áskilið er í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944. Með vísan til þessa hafi matsbeiðendum, sem allir séu lögerfingjar í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, verið nauðsynlegt að höfða mál til að halda hagsmunum dánarbúsins uppi. Það hafi matsbeiðendur gert með stefnu, sem birt hafi verið aðalstefnda, varastefnda og einum réttargæslustefnda 28. apríl 2014. Þar geri matsbeiðendur aðallega þá kröfu að matsþoli Kópavogsbær verði dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 74.811.289.954 krónur, auk þar til greindra vaxta, en til vara 47.558.500.000 krónur, auk þar til greindra vaxta. Til þrautavara geri matsbeiðendur þá kröfu að matþoli Þorsteinn verði dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns 2.250.000.000 krónur auk þar til greindra vaxta. Ekki séu hafðar uppi kröfur á hendur matsþolum Kristjáni Þór, Kristrúnu Ólöfu, Marteini, Sigurði Kristjáni og Vilborgu Björk í ofangreindu dómsmáli, en þau hafi öll gert kröfu um arf úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns líkt og matsbeiðendur, þótt vafi leiki á um rétt matsþola Kristjáns Þórs þar um. Aðrir réttargæslustefndu en Kristján Þór muni hins vegar hafa gert samkomulag við matsþola Þorstein um að hann tæki við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi og hafi því ekki haft uppi sömu kröfur og matsbeiðendur á hendur matsþola Kópavogsbæ og matsþola Þorsteini.
Kröfur sínar í ofangreindu máli byggi matsbeiðendur á því að matþoli Kópavogsbær hafi greitt röngum aðila lögbundnar eignarnámsbætur fyrir það land sem bærinn hafi tekið eignarnámi úr jörðinni Vatnsenda. Fjárhæðir krafna sinna í málinu miði matsbeiðendur meðal annars við sambærileg mál þar sem sambærilegt land, sem henti sérlega vel sem byggingarland í mesta þéttbýli landsins hafi verið tekið eignarnámi. Að teknu tilliti til áskilnaðar 72. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð og í ljósi þess að vart sé hægt að hugsa sér verðmætara byggingarland en það land sem um sé deilt í málinu, sé matsbeiðendum hins vegar nauðsynlegt að fá metið með nákvæmum hætti verðmæti þess lands sem matsþoli Kópavogsbær hafi tekið eignarnámi. Með því móti hyggist matsbeiðendur staðreyna kröfur sínar í dómsmáli sínu gegn matsþolum, eða auka eftir atvikum við þær með útgáfu framhaldsstefnu, gefi niðurstöður matsins tilefni til. Matið hyggjast matsbeiðendur leggja fram í máli sínu á hendur matsþola Kópavogsbæ og Þorsteini, þingfestu í Héraðsdómi Reykjaness 5. nóvember 2014.
Í matsbeiðninni óska matsbeiðendur að dómkvaddur matsmaður leggi mat á eftirfarandi:
„1. Eignarnám 8. maí 1992:
1.1 Hvert er í krónum talið metið markaðsvirði 20,5 hektara lands jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, norðvestan við Elliðavatnsstíflu, sem matsþoli Kópavogsbær tók eignarnámi 8. maí 1992:
a. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 8. maí 1992?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
1.2 Endurspeglar metið markaðsvirði hins eignarnumda lands samkvæmt matslið 1.1 fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944? Ef svo er ekki óskast metið:
a. Að hvaða leyti markaðsverð hins eignarnumda lands endurspeglar ekki fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar?
b. Fullt verð fyrir hið eignarnumda land í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar:
i. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 8. maí 1992?
ii. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
1.3. Hverjar eru í krónum taldar metnar hæfilegar bætur vegna missis afnota
og umráða hins eignarnumda lands, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, með þeim takmörkunum og kvöðum sem leiðir af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938:
a. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 8. maí 1992?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
2. Eignarnám 13. maí 1998:
2.1 Hvert er í krónum talið metið markaðsvirði 54,5 hektara lands jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi sem matsþoli Kópavogsbær tók eignarnámi 13. maí 1998:
a. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 13. maí 1998?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
2.2 Endurspeglar metið markaðsvirði hins eignarnumda lands samkvæmt matslið 2.1 fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944? Ef svo er ekki óskast metið:
a. Að hvaða leyti markaðsverð hins eignarnumda lands endurspeglar ekki fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar?
b. Fullt verð fyrir hið eignarnumda land í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar:
i. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 13. maí 1998?
ii. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
2.3. Hverjar eru í krónum taldar metnar hæfilegar bætur vegna missis afnota og umráða hins eignarnumda lands, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, með þeim takmörkunum og kvöðum sem leiðir af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938:
a. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 8. maí 1992?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
3. Eignarnám 1. ágúst 2000:
3.1 Hvert er í krónum talið metið markaðsvirði 90,5 hektara lands jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi sem matsþoli Kópavogsbær tók eignarnámi 1. ágúst 2000:
a. Á verðlagi þess dags er eignarnámið fór fram 1. ágúst 2000?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
3.2 Endurspeglar metið markaðsvirði hins eignarnumda lands samkvæmt matslið 3.1 fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944? Ef svo er ekki óskast metið:
a. Að hvaða leyti markaðsverð hins eignarnumda lands endurspeglar ekki fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar?
b. Fullt verð fyrir hið eignarnumda land í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar:
i. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 1. ágúst 2000?
ii. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
3.3. Hverjar eru í krónum taldar metnar hæfilegar bætur vegna missis meintra afnota og umráða hins eignarnumda lands, yrðu þau talin hafa verið á hendi annars en réttmæts þinglýsts eiganda Vatnsenda, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, með þeim takmörkunum og kvöðum sem leiðir af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938:
a. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 1. ágúst 2000?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
4. Eignarnám 23. janúar 2007:
4.1 Hvert er í krónum talið metið markaðsverð 864,7 hektara lands sem matsþoli Kópavogsbær tók eignarnámi úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi 23. janúar 2007:
a. Á verðlagi þess dags er eignarnámið fór fram 23. janúar 2007?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
4.2 Endurspeglar metið markaðsvirði hins eignarnumda lands samkvæmt matslið 4.1 fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944? Ef svo er ekki óskast metið:
a. Að hvaða leyti markaðsverð hins eignarnumda lands endurspeglar ekki fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar?
b. Fullt verð fyrir hið eignarnumda land í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar:
i. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 23. janúar 2007?
ii. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?
4.3. Hverjar eru í krónum taldar metnar hæfilegar bætur vegna missis meintra afnota og umráða hins eignarnumda lands, yrðu þau talin hafa verið á hendi annars en þinglýsts eiganda jarðarinnar Vatnsenda, dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, með þeim takmörkunum og kvöðum sem leiðir af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938:
a. Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 23. janúar 2007?
b. Framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013?“
II
Svo sem fyrr segir komu fram mótmæli af hálfu matsþola Þorsteins, Kristrúnar Ólafar, Vilborgar Bjarkar, Marteins Þ. og Sigurðar Kristjáns við dómkvaðningunni, en ekki af hálfu matsþola Kópavogsbæjar og Kristjáns Þórs.
Í bókun sem matsþolar Þorsteinn, Kristrún Ólöf, Vilborg Björk, Marteinn Þ. og Sigurður Kristján lögðu fram á dómþingi 3. október síðastliðinn segir að matsbeiðni eins og hún sé fram sett sé haldin þeim ágalla að matsbeiðendur eigi ekki aðild að þeim lögvörðu hagsmunum sem um ræði. Þá sé málavöxtum ýmist vanlýst eða þeim ekki lýst með réttum hætti. Í matsbeiðni sé ekki gerð nokkur tilraun til að gera grein fyrir þeim lögvörðu hagsmunum sem matsbeiðendur telji sig hafa af niðurstöðu matsmálsins eða rekstri þess dómsmáls sem þau hafi höfðað.
Í matsbeiðninni, sem sé dagsett 20. ágúst 2014, sé þess ekki getið að 15. apríl 2014 hafi skipaður skiptastjóri dánarbús Sigurðar Kr. Hjaltested úthlutað beinum eignarétti að jörðinni Vatnsenda til Þorsteins Hjaltested. Jafnframt komi fram í frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar sú afstaða hans að kröfur til bóta vegna eignarnáms kæmu ekki til skipta í dánarbúinu. Ákvörðun skiptastjóra hafi ekki verið hnekkt. Meðan það mál hafi ekki verið leitt til lykta standi ákvörðun skiptastjóra óhögguð og hafi matsbeiðendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá svör við matsspurningum.
Ekki verði fram hjá því litið að dánarbú Sigurðar Kr. Hjaltested lúti forræði skiptastjóra sem sérstaklega hafi verið skipaður til að ljúka skiptum í dánarbúinu. Um forræði skiptastjóra á málefnum dánarbúsins vísist til 67. gr. l. nr. 20/1991, en þar sé kveðið á um að skiptastjóri sé einn bær um að ráðstafa hagsmunum búsins út á við. Skiptastjóri hafi með ákvörðun sinni, sem hann birti í frumvarpi til úthlutunar dagsettu 15. apríl 2014, úthlutað beinum eignarétti að jörðinni Vatnsenda til Þorsteins Hjaltested. Þeirri ákvörðun hafi ekki verið hnekkt með dómi og geti einstaka lögerfingjar ekki haldið uppi þeim hagsmunum er varði jörðina Vatnsenda sem þegar hafi verið úthlutað af skiptastjóra til bréferfingjans Þorsteins Hjaltested. Þorsteinn verði því einn erfingjanna talinn hafa hina lögvörðu hagsmuni vegna Vatnsenda, en nauðsynlegt sé að bíða niðurstöðu endanlegs dóms Hæstaréttar um afdrif frumvarps skiptastjóra og ákvörðunar hans. Þá hafi þeirri ákvörðun skiptastjóra sem birtist í frumvarpi hans, þess efnis að hugsanlegar bótakröfur á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnáms komi ekki til arfs úr dánarbúinu, heldur ekki verið hnekkt með dómi. Matsbeiðendur geti af þessum sökum ekki reist rétt sinn til málsaðildar á 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 og verði að hafna framkominni beiðni um dómkvaðningu með vísan til grunnsjónarmiða að baki 16. gr. laga nr. 91/1991. Í 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 sé skilyrði fyrir heimild erfingja til að fylgja eftir hagsmunum dánarbús í eigin nafni að skiptastjóri hafi ekki þegar skuldbundið dánarbúið á annan veg. Skiptastjóri hafi með frumvarpi til úthlutunar frá 15. apríl 2014 skuldbundið dánarbú Sigurðar Kr. Hjaltested með ákvörðun sinni, hvað varðar þá hagsmuni sem matsbeiðni lýtur að. Matsbeiðendur skorti lögvarða hagsmuni fyrir framkvæmd matsins og verði því að synja um dómkvaðningu samkvæmt fyrirliggjandi matsbeiðni. Lögvarða hagsmuni teljist sá hafa sem með réttu gæti sótt kröfu í dómsmáli á grundvelli matsgerðar. Það geti matsbeiðendur ekki, samkvæmt framansögðu, og beri því að hafna dómkvaðningu á grundvelli framlagðrar matsbeiðni. Kröfum sínum til stuðnings vísi matsþolar Þorsteinn, Kristrún Ólöf, Vilborg Björk, Marteinn Þ. og Sigurður Kristján til dómafordæmis Hæstaréttar í máli nr. 6/2001.
Þessu til viðbótar liggi fyrir að Þorsteinn Hjaltested sé einn erfingi beinna eignaumráða að Vatnsenda samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 og einn til þess bær að föður sínum látnum að taka við bótum vegna skerðinga á landi jarðarinnar. Þeim rétti, rétti til viðtöku bóta fyrir skerðingu á landi, hafi verið úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kr. Hjaltested 7. maí 1968 og hafi úthlutunargerðin verið staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968.
Þá séu réttarfarslegir annmarkar á fyrirliggjandi matsbeiðni sem matsbeiðendur segi byggja á XII. kafla laga nr. 91/1991. Sá kafli einkamálalaganna fjallar um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Á blaðsíðu númer fjögur í matsbeiðni komi fram að matsbeiðendur hafi löngu fyrir útgáfu matsbeiðninnar höfðað mál á hendur matsþolunum Þorsteini og Kópavogsbæ og öðrum matsþolum til réttargæslu. Vísað sé til 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fram komi meginregla einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Af 2. mgr. 47. gr. þeirra laga leiði að matsgerð sem aflað sé eftir fyrirmælum XII. kafla verði ekki lögð fram í dómsmáli ef hennar er aflað eftir að mál er höfðað. Þegar af þeirri ástæðu hafi matsbeiðendur ekki lögvarða hagsmuni af því að dómkvaðning samkvæmt matsbeiðni þessari nái fram að ganga. Því beri, einnig af þeirri ástæðu, að hafna dómkvaðningu samkvæmt framlagðri matsbeiðni.
Um lagagrundvöll fyrir mótmælum sínum vísa matsþolar Þorsteinn, Kristrún Ólöf, Vilborg Björk, Marteinn Þ. og Sigurður Kristján til 67. gr., 3. mgr. 68. gr. og 3. mgr. 79. gr. laga nr. 20/1991 og 16. gr. og 47. gr. laga nr. 91/1991.
III
Í 3. mgr. 68. gr. skiptalaga nr. 20/1991 segir; “Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem búið kann að njóta eða geta notið hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki getur erfingi gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg. Sá erfingi, sem vill gera slíkt, skal tilkynna það skiptastjóra tafarlaust og bera sjálfur kostnað og áhættu af aðgerðum sínum, en hann getur krafið búið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem því áskotnast fé af þeim“.
Matsbeiðendur sendu skiptastjóra dánarbúsins tillögur í 6 töluliðum, dags. 4. júní 2013, um að þeim yrði heimilað á eigin ábyrgð og kostnað í nafni dánarbúsins að grípa til ákveðinni ráðstafana. Tillögurnar voru bornar uppi á skiptafundi sem haldinn var þann 14. júní 2013. Í fundarbókun kom fram að samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 68. gr. skiptalaga þurfi ekki samþykki skiptastjóra til þess að ráðast í aðgerðir þær sem nefndar eru í liðum 3-6 í framangreindum tillögum, en þær verði þó ekki gerðar í nafni dánarbúsins heldur í nafni viðkomandi erfingja. Með ábyrgðarbréfi dags. 27. apríl 2014 var skiptastjóra tilkynnt af matsbeiðendum þessa máls að þeir hygðust á eigin ábyrgð og kostnað höfða mál á hendur matsþola Kópavogsbæ, en til vara gegn matsþola Þorsteini Hjaltested.
Eins og fram hefur komið úthlutaði skiptastjóri dánarbúsins beinum eignarrétti úr dánarbúinu til Þorsteins Hjaltested, en jafnframt kom fram að hugsanlegar bótakröfur á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnáms komi ekki til arfs úr búinu. Ákvörðun skiptastjóra var skotið til héraðsdóms með vísan til 122. gr. skiptalaga. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 6. nóvember sl. í málinu Q-8/2014, var staðfest frumvarp skiptastjóra. Úrskurðinn hefur nú verið kærður til Hæstaréttar.
Matsþolar telja að með ákvörðun skiptastjóra sem staðfest hafi verið í framangreindum úrskurði, hafi verið staðfestur beinn eignaréttur matsþola Þorsteins Hjaltested að jörðinni Vatnsenda. Matsbeiðendur geti því ekki átt lögvarðar hagsmuni af málinu. Sjálfgefið sé að aðili geti ekki notið lögvarinna hagsmuna þar sem þeir geta ekki með réttu sótt í dómsmáli kröfu á grundvelli matsgerðarinnar.
Matsbeiðendur telja að skilyrðum 3. mgr. 68. gr. hafi verið fullnægt samkvæmt öllu framangreindu. Þá væri frumvarp skiptastjóra að úthlutun ekki orðið endanlegt, þar sem ekki lægi fyrir niðurstaða Hæstaréttar.
Eins og að framan var rakið þá leituðu matsbeiðendur eftir því að fá samþykki skiptastjóra fyrir því að þeir gætu á eigin ábyrgð og áhættu stefnt matsþolum þessa máls og verður ekki annað séð en skilyrði 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum hafi verið uppfyllt í þeim efnum.
Samkvæmt 3. mgr. 79. gr. skiptalaga verður opinberum skiptum ekki lokið meðan ágreiningur er ekki til lykta leiddur nema allir hlutaðeigandi samþykki. Skiptum á dánarbúinu er ekki lokið samkvæmt framangreindu og ákvörðun skiptastjóra því ekki endanlega skuldbindandi og þá er ekki útséð um það að matsbeiðendur þessa máls geti átt aðild, skv. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, meðal annars í dómsmáli nr. E-1362/2014 milli sömu málsaðila sem nú liggur fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að ákvæði 3. mgr. 68. gr. skiptalaga nr. 20/1991 um lögvarða hagsmuni eða önnur ákvæði skiptalaga standi því í vegi að umbeðin matsbeiðni nái fram að ganga.
Mál telst höfðað með birtingu stefnu eða áritun um viðtöku samrits hennar, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991. Matsþolar vísa til þess að matsbeiðendur hafi með stefnu dags. 25. apríl 2014, stefnt matsþolum þessa máls fyrir Héraðsdóm Reykjaness þann 5. nóvember sl., mál nr. E-1362/2014 og hafi sú stefna verið birt matsþolum þann 28. apríl 2014 eða löngu áður en matsbeiðnin var móttekin þann 21. ágúst 2014. Með vísan til 1. og 2. mgr. 47. gr., sbr. 60. og 61. gr. laga nr. 91/1991 um milliliðalausa málsmeðferð fyrir dómi leiði að matsbeiðendur geti ekki aflað matsgerðar eftir ákvæðum XII. kafla um meðferð einkamála eftir að slíkt mál sé höfðað. Matsbeiðendur hafi því ekki lögvarða hagsmuni af dómkvaðningu matsmanna þegar af þeirri ástæðu.
Matsbeiðendur bentu á að framangreint dómsmál nr. E-1362/2014 varði í raun ekki matsþolann Þorstein Hjaltested, enda sé honum bara stefnt til vara í málinu. Stefnan sé gagnvart matsþola Kópavogsbæ og því hafi matsþoli Þorsteinn Hjaltested ekki hagsmuni af því að mótmæla framkominni matsbeiðni. Stefnan hafi verið birt fyrir öllum réttargæslustefndu eftir að matsbeiðnin hafi verið send, og því byggðist matsbeiðnin nú á XI. kafla laga nr. 91/1991. Að mati dómsins er hér um augljósa ritvillu að ræða og matsbeiðendur hafi þar átt við IX. kafla sömu laga og með vísan til Hæstaréttardóms nr. 111/2011, verður ekki séð að þessi tilvísun matsbeiðenda bæði til ákvæða IX. kafla og til XII. kafla laga nr. 91/1991 komi að sök, enda uppfylli matsbeiðnin að öðru leyti efnislegar og formlegar kröfur.
Í þessu sambandi verður að líta til þess að við þingfestingu dómsmálsins E-1362/2014 þann 5. nóvember sl., fengu stefnendur, matsbeiðendur þessa máls, samþykki stefndu, matsþola þessa máls, frest til frekari gagnaframlagningar fram til 17. desember 2014. Samkvæmt meginreglunni um málshraða ber að flýta dómsmálum eftir föngum. Matsmáli þessu var vísað til undirritaðs dómara en framangreindu dómsmáli á hendur matsþolum hefur ekki enn verið úthlutað til ákveðins dómara, enda málið enn til meðferðar á reglulegu dómþingi. Með vísan til framangreinds er það mat dómara að meginreglan um milliliðalausa málsmeðferð sé því ekki til fyrirstöðu að matsbeiðendum sé heimilt að afla frekari gagna, þar á meðal matsgerða.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga 91/1991, hefur aðili rétt á því að afla og leggja fram í einkamáli sönnunargögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt, umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar á þann hátt að matið sé bersýnilega tilgangslaust til sönnunar. Í þessu sambandi er haft í huga að sönnunargildi matsgerðar, þegar hún liggur fyrir, á undir sönnunarmat dómara og hafa reglur 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 meðal annars áhrif á það sönnunarmat. Ber matsbeiðandi áhættuna af því að matsbeiðnin komi honum síðar að notum.
Í samræmi við framangreind lagaákvæði hefur verið talið að menn njóti rúmra heimilda til þess að óska dómkvaðningar matsmanna. Þarf því nokkuð til að koma til að matsbeiðanda verði meinuð sönnunarfærsla með þessum hætti, enda matsgerðar ávallt aflað á áhættu og kostnað hans.
Á þessu stigi málsins verður ekki fullyrt að matsgerð samkvæmt beiðni matsbeiðenda, þar sem matsþolar fá tækifæri til að gæta hagsmuna sinna við matið, sé bersýnilega tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Að framangreindu virtu er það mat dómsins að ekki séu efni til annars en að fallast á beiðni matsbeiðenda um dómkvaðningu matsmanns á grundvelli fyrirliggjandi matsbeiðni.
Ekki verður dæmdur málskostnaður.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.