Hæstiréttur íslands
Mál nr. 414/2001
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 14. febrúar 2002. |
|
Nr. 414/2001. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Sævari Þór Magnússyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Akstur án ökuréttar. Vanaafbrotamaður.
S var ákærður fyrir akstur án ökuréttar. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og S dæmdur til fangelsisrefsingar, en hann hafði frá árinu 1989 í 11 skipti hlotið refsingu fyrir akstur sviptur ökurétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. október 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Ákærði er í máli þessu sóttur til saka með ákæru 27. ágúst 2001 fyrir að hafa ekið tiltekinni bifreið sviptur ökurétti 24. júlí sama árs og þannig brotið gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Hann hefur frá árinu 1989 í 11 skipti hlotið refsingu fyrir akstur sviptur ökurétti, síðast 11. júlí 2001, þegar hann var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi. Brot það, sem hann er nú sakfelldur fyrir, var framið tæpum hálfum mánuði eftir að hann hlaut þann dóm. Við ákvörðun refsingar hans ber að líta til 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og verður hann því staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sævar Þór Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2001.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 2000 á hendur:
Sævari Þór Magnússyni, kt. 310371-3949,
Valshólum 6, Reykjavík,
,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni MC-660, þriðjudaginn 24. júlí 2001, sviptur ökurétti um Suðurhóla í Reykjavík.
Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Ákærði kom fyrir dóminn í dag kvað háttsemi sinni rétt lýst í ákærunni.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er út af og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í mars 1971. Hann hefur talsverðan óslitinn feril umferðarlagabrota sem hófst árið 1986. Hann var síðast dæmdur fyrir að aka sviptur ökurétti þann 11. júlí 2001, 4 mánaða fangelsi.
Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfileg fangelsi í 5 mánuði. Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar 25.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sturla Þórðarson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Sævar Þór Magnússon, sæti fangelsi í 5 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin þóknun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.