Hæstiréttur íslands

Mál nr. 608/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Guðbjarni Eggertsson hrl.)

Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur án ökuréttar
  • Nytjastuldur
  • Eignaspjöll
  • Sönnun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

X var ákærður fyrir nytjastuld og eignaspjöll með því að hafa farið heimildarlaust inn í bifreið og látið hana renna niður götu en á leiðinni rakst hún utan í ljósastaur og endaði upp á umferðareyju með þeim afleiðingum meðal annars að bifreiðin rispaðist og beyglaðist. Þá var honum gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa á sama tíma ekið bifreiðinni án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis. Ágreiningslaust var í málinu að X gangsetti ekki bifreiðina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki lægi fyrir í málinu hvort bifreiðin hefði getað runnið af stað án atbeina ákærða vegna þess eins að hann settist inn í hana. Því væri ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að X hefði gerst sekur um nytjastuld og framangreind umferðarlagabrot. Var hann því sýknaður af þeim sakargiftum. Þá var ekki talið að uppfyllt væri það skilyrði 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sá sem misgert var við hefði krafist þess að höfðað yrði mál til refsingar fyrir eignaspjöll enda væri ágreiningslaust að sá sem kærði átti ekki bifreiðina. Var þeim þætti ákærunnar sem byggði á 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

I

Ákærða er gefinn að sök nytjastuldur og eignaspjöll með því að hafa að morgni 7. júlí 2013 ,,farið inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð við [...], [...] ... tekið bifreiðina heimildarlaust og látið hana renna niður [...] að [...]. Á leið sinni niður [...] rakst bifreiðin utan í ljósastaur og endaði loks upp á umferðareyju. Voru afleiðingarnar af háttsemi ákærða þær að bifreiðin rispaðist og beyglaðist nokkuð á hægri hlið ... auk þess sem ákærði braut handföng í stýri fyrir stefnuljós og rúðuþurrkur.“ Er þessi háttsemi talin varða við 1. mgr. 257. gr.  og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot, með því að hafa á sama tíma ekið bifreiðinni án þess að hafa til þess réttindi og undir áhrifum áfengis. Er sú háttsemi talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II

Ákærði neitaði sök. Af framburði hans fyrir dómi varð ráðið að hann mundi ekkert eftir þeim atburðum sem ákært er fyrir.

Samkvæmt skýrslu lögreglu 7. júlí 2013 barst tilkynning um ölvaðan ökumann sem fest hafði bifreið á umferðareyju. Var ákærði handtekinn og sagði í skýrslu lögreglu að hann hafi verið sjáanlega mikið ölvaður og frásögn hans misvísandi um hvort hann hafi ekið bifreiðinni. 

Ákærði var ekki með kveikjuláslykla að bifreiðinni og fundust þeir ekki á vettvangi. Sá sem hafði tilkynnt um atvikið, A, kom á vettvang og kvað ákærða hafa verið ökumann bifreiðarinnar. Í lögregluskýrslu var þess getið að bifreiðin hefði verið fjarlægð af vettvangi og hún flutt á lögreglustöð.

Fyrrgreint vitni, A, bar fyrir dómi að frá húsi sínu hafi hann séð mann, sem var mjög ölvaður, komast naumlega inn í bifreið sem staðsett var fyrir utan húsið. Vitnið hafi brugðið sér frá, en síðan séð bifreiðina renna niður [...] og niður á [...], þar sem hún hafi numið staðar. Maðurinn hefði ,,dottið“ út úr bifreiðinni þegar hún staðnæmdist. Hann kvaðst ekki hafa séð hvað maðurinn gerði inni í bifreiðinni, en hún hafi ekki verið gangsett.

Umráðamaður bifreiðarinnar, B, kvaðst hafa lánað frænku sinni lykla að bifreiðinni og varð af framburði hans ráðið að það hafi verið þessa nótt. Hún hafi gleymt að læsa henni. Bifreiðin hafi verið staðsett í brekku. Hann setti fram refsikröfu á hendur ákærða í símtali lögreglu við hann 3. september 2013 fyrir ,,nytjastuldinn og fyrir að valda tjóni á bifreiðinni“.

Þeir lögreglumenn sem höfðu afskipti af ákærða á vettvangi báru fyrir dómi að engin rannsókn hafi verið gerð á því hvort bifreiðin hefði getað runnið af stað af sjálfsdáðum og minntust þess ekki hvort ákoma hafi verið á þeim ljósastaur sem ætlað er að bifreiðin hafi rekist í  á leið sinni niður götuna.

III

Ákærði reisir málsvörn sína á því að ákæruvaldinu hafi ekki tekist sönnun um að rakið verði til háttsemi hans að bifreið sú sem tilgreind er í ákæru hafi runnið af stað og að hann hafi þannig valdið tjóni á henni. Þá sé ásetningur hans til háttsemi þeirrar er í ákæru greinir ósannaður.

Með vætti A er sannað að ákærði fór inn í umrædda bifreið og í kjölfar þess rann bifreiðin niður brekku uns hún staðnæmdist, en ágreiningslaust er að ákærði gangsetti ekki bifreiðina. Af vitnisburði þeirra lögreglumanna sem komu fyrir héraðsdóm varð ráðið að þegar lögregla kom á vettvang hafi ekki verið gengið úr skugga um hvort bifreiðin var í gír og handbremsu og hvort stýri hennar hafi verið læst. Þá gat A ekki upplýst fyrir dómi hvað ákærði aðhafðist í bifreiðinni og ekki varð af framburði hans ráðið hvort ákærði sat í ökumannssæti hennar. Frænka umráðamanns bifreiðarinnar gaf ekki skýrslu hjá lögreglu eða fyrir dómi og liggur því ekkert fyrir hvort bifreiðin var í gír og handbremsu, þegar hún skildi við hana. Þá liggur ekki fyrir hversu langur tími leið frá því að hún skildi við bifreiðina þar til ákærði settist inn í hana. Að framangreindu virtu liggur ekki fyrir í málinu hvort bifreiðin hafi getað runnið af stað án atbeina ákærða  vegna þess eins að hann settist inn í hana. Því er ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um nytjastuld og að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn í skilningi umferðarlaga, undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda, eins og ákært er fyrir. Ákærði er því sýknaður af sakargiftum um það. 

Í  málinu er ekki uppfyllt það skilyrði 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, að sá sem sem misgert var við hafi krafist þess að höfðað yrði mál til refsingar fyrir   eignaspjöll enda er ágreiningslaust að kærandinn, B, átti ekki bifreiðina. Verður því að vísa þeim þætti ákærunnar sem byggir á 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga frá héraðsdómi.

Eftir þessum málsúrslitum verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, svo og verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar sakargiftir á hendur ákærða, X, um brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öðru leyti er ákærði sýkn af kröfum ákæruvaldsins. 

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 29. október sl. var upphaflega flutt og dómtekið 20. júní síðastliðinn en endurupptekið og flutt að nýju fyrrnefndan dag.  Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akranesi hinn 17. október 2013 á hendur X, kt. [...], [...], [...],

„I.

Fyrir nytjastuld og eignaspjöll, með því að hafa að morgni sunnudagsins 7. júlí 2013, í heimildarleysi, farið inn í bifreiðina [...], þar sem að hún stóð við [...], [...], skammt frá verslun [...], tekið bifreiðina heimildarlaust og látið hana renna niður [...] að [...]. Á leið sinni niður [...] rakst bifreiðin utan í ljósastaur og endaði loks upp á umferðareyju. Voru afleiðingarnar af háttsemi ákærða þær að bifreiðin rispaðist og beyglaðist nokkuð á hægri hlið bifreiðarinnar auk þess sem ákærði braut handföng í stýri fyrir stefnuljós og rúðuþurrkur.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 257. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa á sama tíma og greint er frá. í ákærulið I., ekið framangreindri bifreið, [...], án þess að hafa til þess réttindi og undir áhrifum áfengis (vínandamagn i blóði 2,53 %o) en lögregla handtók ákærða á gangi skammt frá bifreiðinni.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr, . 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þess er einnig krafist að ákærði verður dæmdur til sviptingar réttar til að öðlast ökuréttindi, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga 131. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu og til vara vægustu refsingu og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Tildrög máls þessa eru þau að hinn 7. júlí 2013 var tilkynnt um ölvaðan ökumann á [...] á [...] sem hefði fest bifreiðina sem hann var á við umferðareyju. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið að ganga frá bifreiðinni og tilkynnandi horft á ökumann ganga að bryggjunni.

Lögreglumenn fóru á vettvang og kemur fram í skýrslu þeirra að þeir hafi séð ákærða standandi, sjáanlega mikið ölvaður. Ákærði hafi neitað í fyrstu að hafa verið að aka bifreiðinni. Ekið var með hann að bifreiðinni sem um ræðir, [...], og kannaðist hann ekki við að hafa verið að aka en síðar hafi hann játað aksturinn.

Ákærði hafi verið mjög ölvaður og málfar mjög ruglingslegt. Hann hafi ekki verið látinn gefa öndunarsýni sökum mikillar ölvunar og greinilegt hafi verið hann hafi ekki verið í ökuhæfu ástandi. hafi ekki getað gefið neinar skýringar á akstrinum né hver ætti bifreiðina. Hann hafi ekki verið með kveikiláslykil af bifreiðinni og hafi hann ekki fundist á vettvangi.

Ákærði var vistaður í klefa og tekin frá honum blóð- og þvagsýni. Hann hafi látið þess getið að fyrra bragði að hann væri í frekar mikilli kannabisneyslu.

Læknir tók blóð- og þvagsýni frá ákærða kl. 9:30 og svo aftur blóðsýni kl. 10:35. Forpróf (þvagsýni) gaf til kynna THC í þvagi og var það einnig rannsakað.

Samkvæmt upplýsingum úr ökuskírteinaskrá hafi ákærði aldrei öðlast ökuréttindi.

Ákærði var vistaður í klefa og látinn sofa úr sér til að hægt væri að taka af honum skýrslu þegar hann væri til þess hæfur.

Skýrsla var tekin af A, sem kvaðst hafa verið vitni að akstri ákærða.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að bifreiðin er sé af gerðinni [...], [...] og beinskipt. Ákærði hafi greinilega farið inn í bifreiðina, sem var ólæst, og rótað eitthvað í henni (ekki vitað til þess að neitt hafi verið tekið) og svo tekið bifreiðina úr gír og handbremsu með þeim afleiðingum að hún hafi runnið af stað og utan í staurinn og svo staðnæmst á umferðareyjunni.

Skemmdir á bifreiðinni að utan séu rispuð hægri hlið og brotin hjólkoppur á hægra framhjóli. Einnig hafi ákærði brotið af handföng fyrir stefnuljós (sem sé vinstra megin við stýrið) og handfangið fyrir rúðuþurrkurnar (sem sé hægra megin við stýrið). Aðrar skemmdir séu ekki að sjá.

Inni í bifreiðinni hafi verið tóm Gull bjórdós sem legið hafi á gólfinu bílstjóramegin. Einnig Smirnoff Ice flaska á gólfinu vinstra megin að aftan sem og blanda af áfengi í Mountendue flösku í sætinu að aftan. Umráðamaður bifreiðarinnar, B kt. [...] hafi kannast við Smirnoff Ice og blandið en ekki við Gull dósina. Hann hafi komið á varðstöð og verið með kveikjuláslykil bifreiðarinnar meðferðis.

 Sunnudaginn 7. júlí kl. 15.30 var tekin skýrsla af ákærða á lögreglustöðinni á Akranesi og er hún sundurlaus og ruglingsleg, það eina sem ákærði mundi var að hann hafi komið með whisky með sér á [...]. Hann rámaði í að hafa farið inn í bíl en hann mundi ekki atvik morgunsins eða næturinnar sökum ölvunar.

Skýrslur ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði sagði skýrslu sinni fyrir dómi að hann myndi ekki hvort hann hafi ekið bifreiðinni  og mundi lítt um atvik. Honum var bent á að bjórdós hefði fundist í bílnum en kvaðst ekki hafa verið að drekka bjór hann rámaði bara í að hafa drukkið whisky.

Vitnið A [...] kvaðst hafa vaknað við barsmíðar á útihurðina hjá sér. Hafi hann hrakið þann sem bankaði niður tröppurnar. Fyrir utan hafi verið bíll sem maðurinn hafi komist inn í með herkjum að því er vitnið sá en maðurinn hafi verið mjög ölvaður. Fór vitnið síðan að fá sér kaffibolla og þegar hann kom fram aftur hafi hann séð bílinn renna niður [...] og að [...] þar sem hann hafi endað á steinsteyptum kanti sem aðskilur göturnar. Hann hafi séð að maðurinn hafi dottið út út bílnum er hann var kominn þarna niður eftir og hafi vitnið getað bent lögreglunni á hann er hún kom á vettvang, en hann hafi  hringt í lögregluna þegar hann sá manninn velta út úr bifreiðinni.  Hann hafi varla getað staðið í lappirnar, verið einn á ferð og minnti vitnið að ekki hafi annað fólk verið á ferli. Hann hafi ekki séð hvað gerðist þegar hann var að drekka kaffið en sá bílinn renna. Bíllinn hafi ekki farið í gang. Hann kvað manninn hafa verið í jakka en man ekki annað um klæðnað hans. Hann þekki ekki ákærða og gat ekki borið kennsl á hann í dómsalnum.

Vitnið B sagði að hann væri eigandi bílsins [...]. Hann hafi verið vakinn af lögreglu og sagt að bíllinn hans væri hjá þeim. Hann þekki ekki ákærða. Hann hafi lagt bílnum í handbremsu efst í brekkunni og lánaði frænku sinni lykla að bílnum sem hefði gleymt að læsa honum. Hinn lykillinn væri heima hjá honum á [...]. Hann kvað rúðuþurrku- og stefnuljósastengur hafa verið brotnar, tvær felgur að framan skemmdar og rispur hafi verið á hliðinni hægra megin. Hann hafi ekki fengið tjónið bætt.

Vitnið C lögreglumaður kvaðst hafa farið á vettvang og séð ákærða við [...]. Hafi hann verið sýnilega ölvaður og kvaðst ráma í andlit ákærða þegar hann sá hann í dómsalnum. Bjórdós hafi verið í bílnum. Viðbrögð ákærða hefðu verið lítil en hann hafi verið að pissa utan í vegg er þeir komu að honum. Hann hafi sagt að hann vissi ekkert en játað í lögreglubílnum er þeir höfðu tekið hann upp í. Ekki hefði fundist lykill að bílnum.

Vitnið D lögreglumaður sagðist hafa komið á vettvang á eftir vitninu C og rætti við ákærða sem hafi fyrst játað en svo ekki sagst muna atvik. Þeir hafi ekki séð áfengisumbúðir á vettvangi þ.e. á götunni en bjórdós hafi verið í bílnum.

NIÐURSTAÐA

Ákærða er gefinn að sök nytjastuldur og eignaspjöll og umferðarlagabrot framin 7. júlí 2013 á [...]. Hann neitar sök en frásögn hans um atvik er óljós enda segist hann lítt muna eftir sér umrætt sinn sakir ölvunar.

Vitnið A lýsti því að hann hafi séð mann troða sér inn í bílinn fyrir utan hús vitnisins og veltast síðan út úr bílnum á mótum [...] og [...] eftir að bíllinn hafði runnið niður [...] og vitnið haft augu á honum þar til vitnið C lögreglumaður kom að og síðan vitnið D lögreglumaður. Þykir hafið yfir allan vafa að ákærði sé umræddur maður og hafi hann í umrætt sinn sest inn í bifreiðina [...] og orðið þess valdandi að hún rann niður [...] eins og lýst er í ákæru og með því valdið tjóni á henni og er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða í I. lið ákæru. Þá er hann einnig fundinn sekur um brot á umferðarlögum með því að setjast upp í bifreiðina, undir stýri hennar og lítur dómari svo á að hann hafi valdið því að bifreiðin hreyfðist úr stað. Verður að líta á þetta athæfi hans sem akstur í skilningi umferðarlaga og þykir fram komin sönnun um að hann hafi gerst sekur um brot það er greinir í II. kafla ákæru.

Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann hinn 18. febrúar 2014 undir sektargerð fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni þar sem refsing var ákveðin 38.000 króna sekt.

Þau brot sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin fyrir gerð framangreindrar sáttar og ber því að gera ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu þykir refsing hans hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt og komi 20 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms. Þá er ákærði sviptur rétti til þess að öðlast ökuréttindi í tvö ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal ákærði greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða útlagðan kostnað vegna starfa verjanda síns Hreiðars Einarssonar hdl.  að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði og ferðakostnað hans. Þá greiði hann sakarkostnað í ríkissjóð eins og greinir í dómsorði.

Allan Vagn Magnússon dómstjóri kveður upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

      Ákærði X greiði 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 20 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms. Ákærði er sviptur rétti til að öðlast ökuréttindi í tvö ár frá birtingu dóms þessa.

      Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns Hreiðars Eiríkssonar, hdl. að fjárhæð 257.413 krónur og 27.363 krónur í ferðakostnað hans. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað að fjárhæð 151.845 krónur til ríkissjóðs.