Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-311

Friðrik Ólafsson (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
K2 Agency Limited (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stefnubirting
  • Útivist
  • Endurupptaka
  • Loforð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 9. desember 2021 leitar Friðrik Ólafsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. nóvember sama ár í máli nr. 396/2020: Friðrik Ólafsson gegn K2 Agency Limited á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur annars vegar að því hvort útivist leyfisbeiðanda við þingfestingu málsins í héraðsdómi hafi verið talin afsakanleg í skilningi a-liðar 2. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991 og hvort það hafi valdið leyfisbeiðanda réttarspjöllum að ekki hafi verið tekið tillit til nýrra krafna, málsástæðna og sönnunargagna sem hann færði fram við endurupptöku, sbr. b-lið sömu málsgreinar. Hins vegar lýtur málið að því hvort ummæli leyfisbeiðanda í tölvupósti 13. september 2018 hafi falið í sér yfirlýsingu um ábyrgð á kröfum gagnaðila á hendur Solstice Productions ehf.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms að leyfisbeiðanda yrði gert að greiða gagnaðila, umboðsfyrirtæki hljómsveitar sem kom fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice, 133.273,45 bandaríkjadali með nánar tilgreindum vöxtum. Í dóminum kom meðal annars fram að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að útivist hans hefði verið afsakanleg í skilningi a-liðar 2. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefði leyfisbeiðandi í engu rökstutt með hvaða hætti það myndi valda honum réttarspjöllum í skilningi b-liðar sömu greinar að ekki yrði tekið tillit til krafna, málsástæðna og sönnunargagna sem hann færði fram í málinu. Bæri því í ljósi andmæla gagnaðila, sbr. 2. mgr. 141. gr. laganna að dæma málið eins og það lá fyrir héraðsdómara við þingfestingu þess, sbr. 1. mgr. 96. gr. þeirra. Þá taldi Landsréttur að í tölvupósti leyfisbeiðanda til gagnaðila hefði falist greiðsluloforð um framangreinda greiðslu þó að fjárhæð hennar kæmi ekki fram í honum en það væri ljóst af gögnum málsins að það næði til kröfu sömu fjárhæðar og dómkrafa gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að úrslit málsins um beitingu 2. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991 svo og um skýrleika og skilyrði stofnunar kröfuábyrgðar hafi verulegt almennt gildi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Þar vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að dómur Landsréttar hafi byggt á gögnum sem hafi ekki legið fyrir við þingfestingu málsins auk þess sem málsmeðferð héraðsdóms hafi farið í bága við 95., 96. og 113. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði málsaðila.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.