Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2001
Lykilorð
- Skaðabætur
- Afnotamissir
- Matsgerð
|
|
Þriðjudaginn 18. desember 2001. |
|
Nr. 242/2001. |
Jakob A. Traustason(sjálfur) gegn Hauki Jens Birgissyni og Daníel Rafni Hartmannssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Skaðabætur. Afnotamissir. Matsgerð.
J festi kaup á vörukassa í október 1992, en kassinn var horfinn af geymslustað þegar J hugðist sækja hann nokkrum dögum síðar. Var óumdeilt að vörukassi þessi var áður notaður til flutninga á pallbifreið af gerðinni Mercedes Benz, en hafði verið tekinn af henni áður en J festi kaup á kassanum. Kom hann aftur í leitirnar sumarið 1995. Umráðamaður kassans vísaði á H og D og kvaðst hafa eignast kassann í viðskiptum við þá. Höfðaði J síðan mál á hendur þessum þremur mönnum 8. október 1997, sem lauk með dómi Hæstaréttar 10. desember 1998. Niðurstaða málsins varð sú að nægilega taldist sannað að H og D hefðu tekið kassann í heimildarleysi af geymslustaðnum og að þeim bæri að bæta J það tjón, sem af háttsemi þeirra leiddi. Hins vegar lægi ekki fyrir hvert hafi verið verð vörukassans í samningi J 1992 við fyrri eiganda og að hann hafi ekki gert grein fyrir tjóni sínu með viðhlítandi hætti. Af þessum sökum yrði ekki komist hjá að vísa kröfum J frá vegna vanreifunar. Vegna þessa höfðaði J mál á hendur H og D 8. og 10. júní 1999 og krafðist bóta fyrir tjón vegna vörukassans, afnotamissis og margs konar kostnaðar, sem hann taldi sig hafa haft í viðleitni sinni við að gæta réttar síns. Hæstiréttur taldi ósannað að málmplata, sem H og D töldu að staðfestu framleiðsluár kassans, hefði verið tekin af umræddum kassa. Var yfirlýsing V hf. um líklegt verðmæti sambærilegs ellefu ára gamals kassa því talin þýðingarlaus. Með hliðsjón af því að bifreiðin, sem kassinn var áður hafður á, var framleidd 1988 og skráð hér á landi 1990, taldi Hæstiréttur að kassinn hafi verið allt að fjögurra ára gamall þegar hann var tekinn af bifreiðinni og J keypti hann. Ekkert tillit væri hins vegar tekið til þessa í matsgerð dómkvaddra manna og því ókleift að reisa niðurstöðu um verðmæti kassans á henni. Með hliðsjón af skýrslum H og D annars vegar og J hins vegar fyrir lögreglu þar sem þeir lýstu viðhorfum sínum til verðmætis kassans var lagt til grundvallar að verðmæti hans hafi numið 150.000 krónum í október 1992. Voru H og D dæmdir til að greiða J þá fjárhæð auk rúmlega 300.000 króna fyrir afnotamissi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2001. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.540.053 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.170.052 krónum frá 8. nóvember 1997 til 8. júní 1999 og af 1.540.053 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.235.853 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 865.853 krónum frá 22. október 1992 til 8. júní 1999 og af 1.235.853 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst hann þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.764.762 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 8. júní 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en verði ekki á það fallist að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
I.
Í málinu deila aðilar um fjárhæð skaðabóta fyrir vörukassa, sem áfrýjandi keypti í október 1992, en var horfinn af geymslustað við Kleppsmýrarveg í Reykjavík þegar áfrýjandi hugðist sækja hann nokkrum dögum síðar. Er óumdeilt að vörukassi þessi var áður notaður til flutninga á pallbifreið af gerðinni Mercedes Benz, en hafði verið tekinn af henni áður en áfrýjandi festi kaup á kassanum. Kom hann aftur í leitirnar sumarið 1995 og tilkynnti áfrýjandi það til lögreglu 2. ágúst sama árs. Sá maður, sem þá hafði umráð kassans, vísaði á stefndu og kvaðst hafa eignast kassann í viðskiptum við þá. Höfðaði áfrýjandi síðan mál á hendur þessum þrem mönnum 8. október 1997, sem lauk með dómi Hæstaréttar 10. desember 1998, sem birtur er í dómasafni það ár á bls. 4117. Krafðist áfrýjandi aðallega skaðabóta úr hendi stefndu, en til vara að umráðamaður vörukassans yrði dæmdur til að skila honum. Niðurstaða málsins varð sú að nægilega taldist sannað að stefndu hefðu tekið kassann í heimildarleysi af geymslustaðnum og að þeim bæri að bæta áfrýjanda það tjón, sem af háttsemi þeirra leiddi. Hins vegar lægi ekki fyrir hvert hafi verið verð vörukassans í samningi áfrýjanda 1992 við fyrri eiganda og að hann hafi ekki gert grein fyrir tjóni sínu með viðhlítandi hætti. Af þeim sökum yrði ekki komist hjá að vísa kröfum áfrýjanda frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Kröfum hans gegn umráðamanni kassans var einnig vísað frá. Höfðaði áfrýjandi síðan mál þetta 8. og 10. júní 1999 gegn stefndu og krafðist bóta fyrir tjón vegna vörukassans, afnotamissis og margs konar kostnaðar, sem hann taldi sig hafa haft af viðleitni sinni við að gæta réttar síns og nánar er rakið í héraðsdómi.
II.
Í dómi héraðsdóms er getið um málmplötu, sem stefndu lögðu fram og kveðast hafa tekið af vörukassanum, sem um ræðir í málinu. Kemur fram í dóminum að tölurnar 2 83 sjáist á plötunni. Þá hafi dómendur skoðað kassann og sé það álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að vel geti staðist að kassinn hafi verið framleiddur í febrúar 1983. Áfrýjandi mótmælti þegar eftir að áðurnefnd málmplata var lögð fram að hún hefði nokkurt gildi í málinu. Telur hann ekkert vera fram komið um að platan hafi verið á vörukassanum, sem ágreiningur aðila snýst um, og að stefndu geti hæglega hafa aflað hennar annars staðar. Hafi hún verið á kassanum, svo sem stefndu haldi fram, hafi þeir beinlínis spillt sönnunargagni með því að fjarlægja hana, þannig að ekki hafi verið unnt við skoðun að ganga úr skugga um þetta. Við úrlausn um þetta atriði verður litið til þess að ekkert kemur fram í héraðsdómi um að við skoðun hafi mátt sjá ummerki þess að platan eða merki frá framleiðanda hafi verið rifin af vörukassanum, en platan sjálf ber merki þess að hafa verið slitin frá því, sem hún var fest á. Ekkert annað er heldur fram komið, sem styður þá staðhæfingu stefndu að platan hafi verið á þessum vörukassa. Verða stefndu að bera hallann af skorti á sönnun um þetta atriði. Er þegar af þeirri ástæðu jafnframt þýðingarlaus yfirlýsing frá Vögnum og þjónustu ehf. um líklegt verðmæti ellefu ára gamals sambærilegs vörukassa, sem vísað er til í héraðsdómi.
Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi því fram að vörukassinn hafi verið nýr eða því sem næst þegar hann festi kaup á honum 1992. Hefur hann lagt fram mat dómkvadds manns um verðmæti vörukassans og er niðurstaða hans sú að verð á nýjum, sambærilegum flutningskassa í október 1992 hafi verið 833.179 krónur. Fram er komið að bifreiðin, sem kassinn var áður hafður á, var framleidd 1988 og skráð hér á landi 1990. Getur kassinn samkvæmt því hafa verið allt að fjögurra ára gamall þegar hann var tekinn af bifreiðinni og áfrýjandi keypti hann. Ekki er tekið neitt tillit til þessa í matsgerðinni og er að því virtu ókleift að reisa niðurstöðu um verðmæti kassans á henni.
Í skýrslu annars stefndu hjá lögreglu í febrúar 1996 var haldið fram að kassinn hafi verið verðlagður á 100.000 krónur er þeir eignuðust hann 1992. Hinu sama er haldið fram í greinargerð stefndu fyrir héraðsdómi. Þótt skýringum þeirra um kaup á kassanum hafi verið hafnað í hinum fyrri dómi Hæstaréttar varðandi ágreining aðila staðfesta þessar yfirlýsingar stefndu engu að síður að þeir hafi talið kassann þetta mikils virði þegar þeir komust yfir hann. Þá er einnig meðal málsskjala áðurnefnd lögregluskýrsla 2. ágúst 1995, sem tekin var af áfrýjanda þegar hann tilkynnti lögreglu að vörukassinn væri fundinn. Er í upphafi skýrslunnar haft eftir áfrýjanda að kassinn sé „að verðmætum kr. 150.000.-“ og í lok hennar er skráð krafa hans um að „hver sá sem er valdur að þessum verknaði bæti tjónið að fullu með því að skila ofangreindum mun, óskemmdum, ella verði dæmdur til að greiða samtals kr.150.000.- og verði jafnframt látinn sæta ábyrgð lögum samkvæmt.“ Ritaði áfrýjandi nafn sitt undir skýrsluna. Að virtu öllu framanröktu verður lagt til grundvallar dómi að verðmæti vörukassans í október 1992 hafi numið 150.000 krónum.
Í áðurnefndri matsgerð var tjón áfrýjanda vegna tapaðra afnota af kassanum talið nema 327 krónum á dag miðað við verðlag í október 1992. Við skýrslugjöf fyrir dómi skýrði annar stefndi svo frá að þeir hefðu notað kassann fyrir geymslu „sem við gátum læst og var vatnsheld.“ Matinu hefur ekki verið hnekkt með yfirmati og eru engir annmarkar í ljós leiddir á því að þessu leyti. Verður matið lagt til grundvallar úrlausn um kröfu áfrýjanda um bætur fyrir missi afnota af kassanum að því gættu þó að í stefnu krafðist áfrýjandi 300 króna á dag fyrir afnotamissinn í 1014 daga á tímabilinu frá 22. október 1992 til 2. ágúst 1995. Verður krafan samkvæmt því tekin til greina með 304.200 krónum.
Niðurstaða málsins verður samkvæmt öllu framanröktu sú að stefndu verða dæmdir til að greiða áfrýjanda samtals 454.200 krónur með dráttarvöxtum, eins og hann krefst í aðalkröfu. Verður þeim jafnframt gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði. Hefur þess þá verið gætt að áfrýjandi hefur haft nokkurn útlagðan kostnað af málinu, meðal annars vegna öflunar matgerðar.
Dómsorð:
Stefndu, Haukur Jens Birgisson og Daníel Rafn Hartmannsson, greiði áfrýjanda, Jakobi A. Traustasyni, óskipt 454.200 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. nóvember 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði áfrýjanda óskipt samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2001.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 9. mars sl., er höfðað með stefnu, sem var birt 8. og 10. júní 1999.
Stefnandi er Jakob A. Traustason, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík.
Stefndu eru Haukur Jens Birgisson, kt. 050567-4789, Heiðarbæ 14, Reykjavík og Daníel Rafn Hartmannsson, kt.120766-3339, Mánabraut 15, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða honum 1.540.053 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.170.052 krónum frá 2. ágúst 1995 til 2. september 1997 og af 1.540.053 krónum frá þeim tíma til greiðsludags. Til vara að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða stefnanda 1.235.853 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 865.853 krónum frá 23. október 1992 til 2. september 1997 en af 1.265.853 krónum frá þeim tíma til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða honum 1.540.053 krónur ásamt vöxtum samkvæmt II. kafla vaxtalaga af 1.170.052 krónum frá 22. október 1992 til 2. ágúst 1995, ásamt viðbættum dráttarvöxtum frá þeim tíma samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 1.170.052 krónum til 2. september 1997 og frá þeim tíma af 1.540.053 krónum til greiðsludags. Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða honum 1.764.762 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma er málið var höfðað til greiðsludags. Loks er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast sýknu og til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar.
Upphaflega kröfðust stefndu frávísunar en þeirri kröfu var að mestu leyti hrundið með úrskurði 8. febrúar 2000. Stefnandi hefur við endanlega kröfugerð sína tekið tillit til þeirra liða sem vísað var frá dómi með framangreindum úrskurði.
II
Málavextir eru þeir að í október 1992 keypti stefnandi vöruflutningakassa, sem hann kvað hafa verið svo til nýjan, framleiddan 1990 eða 1991. Nokkrum dögum síðar hvarf kassinn og fann stefnandi hann ekki aftur fyrr en í júní 1995. Var hann þá í eigu manns í Kópavogi, er sagðist hafa keypt hann af stefndu. Stefnandi kærði stefndu og krafðist bóta. Það mál var fellt niður af lögreglu og fékkst ríkissaksóknari ekki til að breyta þeirri ákvörðun. Höfðaði stefnandi þá bótamál á hendur stefndu og manninum, er hafði keypt kassann af þeim. Héraðsdómur sýknaði þá af kröfu stefnanda með dómi 16. mars 1998. Þeim dómi áfrýjaði stefnandi til Hæstaréttar, er vísaði málinu frá héraðsdómi 10. desember sama ár á þeirri forsendu að kröfur stefnanda væru tölulega vanreifaðar. Áður hafði Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að stefndu hefðu tekið kassann í heimildarleysi frá stefnanda og ætti hann bótarétt á hendur þeim vegna þessa. Stefnandi telur sig nú hafa bætt úr vanköntum þeim, er Hæstiréttur taldi vera á málatilbúnaði hans og krefur stefndu óskipt um bætur.
Stefndu hafa borið af sér sakir. Kveðast þeir hafa keypt kassann í skiptum fyrir bílhræ og skipt honum svo aftur fyrir dieselvél. Þeir hafi því ekki stolið kassanum.
Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu af hálfu aðila um þessi kaup nema lögregluskýrsla, sem tekin var af manni þeim sem keypti kassann af stefndu fyrir dieselvélina.
III
Stefnandi byggir kröfugerð sína á því að stefndu hafi á saknæman hátt tekið í heimildarleysi framangreindan vöruflutningakassa, sem hafi verið í sinni eigu. Samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar beri stefndu að bæta stefnanda tjón sem af háttsemi þeirra leiddi. Um frekari málsástæður kveðst stefnandi vísa til Hæstaréttardómsins.
Þá byggir stefnandi einnig á þeim málsástæðum að hann hafi orðið fyrir tjóni og/eða kostnaði vegna tapaðra afnota af vörukassanum. Hann hafi lagt bæði vinnu og kostnað í það að sýna lögreglunni fram á að kassinn væri með réttu hans eign. Eftir að lögreglan hafi tilkynnt stefnanda skriflega að hún hafi hætt rannsókn málsins hafi honum verið nauðsynlegt að halda áfram og kosta til nákvæmari skoðun á málinu og gögnum þess, með það að markmiði að krefjast áframhaldandi rannsóknar. Í framhaldi af þessu kveðst stefnandi síðan hafa haft kostnað af því að bera ákvörðun lögreglunnar undir ríkissaksóknara. Eftir að ríkissaksóknari hafði hafnað því að hafast frekar að í málinu kveðst stefnandi hafa haft kostnað af því að undirbúa höfðun einkamáls á hendur stefndu. Eins og að framan var rakið voru stefndu sýknaðir með dómi héraðsdóms 16. mars 1998 og þá hafi stefnandi þurft að áfrýja þeim dómi til Hæstaréttar og kveðst hafa haft af því kostnað. Stefnandi byggir á því að háttsemi stefndu hafi leitt af sér mikið tjón fyrir hann, bæði útlagðan kostnað og vinnu og beri stefndu að bæta sér allt það tjón til viðbótar við verðmæti kassans.
Stefnandi sundurliðar kröfugerð sína svo í stefnu og hafa þá verið felldir út þeir liðir, sem vísað var frá dómi með úrskurði 8. febrúar 2000.
1.Afnotamissir vörukassans frá 22.10. 1992 til 2. 8. 1995
(1014 dagar x 300)kr.304.200
2. Kostnaður og vinna vegna erindisleysu að Kleppsmýrarvegi
er stefnandi hugðist láta flytja vörukassann þaðan í október 1992kr.20.000
3.Vinna við öflun myndar af kassanum ásamt ferð til
Árna Kópssonar til að bera þá mynd saman við vörukassannkr.30.000
4.Kostnaður og vinna tengd Árna Kópssynikr.15.000
5.Vinna stefnanda vegna skýrslugjafar hjá RLRkr.20.000
6.Vinna vegna annarra afskipta af málinu meðan það var hjá RLRkr.25.000
7.Kostnaður og/eða vinna við mat á réttmæti ákvörðunar RLR
þess efnis að hætta rannsóknkr.75.000
8.Kostnaður og vinna vegna erinda við ríkissaksóknara
þess efnis að haldið yrði áfram rannsókn málsinskr.60.000
9.Kostnaður og vinna við öflun verðmats frá Vögnum og þjónustukr.25.000
10.Kostnaður og vinna vegna frekari rannsóknar málsins kr. 80.000
11.Kostnaður og vinna við öflun afstöðumyndar hjá
Hitaveitu Reykjavíkurkr.10.000
12.Kostnaður og vinna við öflun húsaleigusamninga hjá SSkr.10.000
Samtals kr. 674.200
Stefnandi metur verðmæti vörukassans ásamt festingum á 865.853 krónur og kveðst þar byggja á matsgerð dómkvadds matsmanns, sem lögð hefur verið fram í málinu. Þessir tveir liðir samanlagðir gera aðalkröfu málsins, 1.540.053 krónur.
Varakrafan er sett fram ef til þess komi að ekki verði tekin til greina krafa stefnanda vegna afnotamissis.
Í þrautavarakröfu kveðst stefnandi krefjast vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá því að stefnandi kærði málið til lögreglu eftir að hafa fundið vörukassann en frá þeim tíma sé síðan krafist dráttarvaxta til greiðsludags kröfunnar.
Þrautaþrautavarakröfuna kveður stefnandi vera byggða á sömu kröfuliðum og aðalkröfuna en samkvæmt verðlagi í júní 1999.
IV
Sýknukrafa stefndu er á því byggð að þeir hafi ekki stolið vörukassanum heldur hafi þeir keypt hann á fyllilega lögmætan hátt. Þeir hafi greitt fyrir hann með bíldruslum en verð hans hafi verið 100.000 krónur. Stefndu kveðast að vísu ekki geta lagt fram neinar eignarheimildir né samninga um verð en benda á að hið sama sé að segja um stefnanda. Hann hafi engin eignarskjöl lagt fram og heldur engin sönnunargögn um það verð, sem hann hafi greitt fyrir kassann og sé því líkt á komið fyrir aðilum. Þá halda stefndu því fram að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni þar sem kassinn sé á vísum stað og hann geti hæglega brigðað honum frá núverandi vörslumanni samkvæmt þeim reglum sem um brigðarétt gildi. Hafi stefnandi hins vegar orðið fyrir tjóni geti það aldrei numið hærri fjárhæð en þeirri sem hann hafi sjálfur greitt fyrir kassann.
Stefndu krefjast sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu vegna afnotamissis vegna þess að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu slíku tjóni. Hafi hann þurft að leigja kassa og greiða fyrir væri hægt að fallast á að hann hafi orðið fyrir tjóni en um það sé ekki að ræða.
Loks benda stefndu á það til stuðnings sýknukröfu sinni að ljóst sé, að tjón stefnanda sé miklu lægra en kröfugerð hans hljóði upp á. Stefndu hafi keypt kassann á 100.000 krónur og tjón stefnanda geti varla verið meira.
V
Í dómi Hæstaréttar 10. desember 1998 í máli stefnanda gegn stefndu segir að stefnandi hafi fært fram fullnægjandi sönnur á að hann hafi eignast umræddan vörukassa með samningi 12. október 1992. Með vísan til þessa telur Hæstiréttur nægilega sannað að stefndu hafi tekið kassann í heimildarleysi og beri þeim að bæta stefnanda það tjón, sem af háttsemi þeirra leiddi.
Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða hefur verið sannað. Stefndu hafa engin sönnunargögn lagt fram um það í málinu að eignarhaldinu á kassanum hafi verið háttað á annan veg en greinir í dómi Hæstarréttar. Með vísan til þessa er fallist á þá kröfu stefnanda að honum beri bætur úr hendi stefndu vegna heimildarlausrar töku þeirra á kassanum.
Meðal gagna málsins er málmplata, er stefndu hafa lagt fram og segjast hafa tekið af kassanum. Á plötunni er seríunúmer, er hefst á tölunum 2 83. Dómurinn hefur skoðað kassann og er það álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að það geti vel staðist að hann hafi verið framleiddur í febrúar 1983. Stefnandi, sem flutti mál sitt sjálfur, hélt því fram við munnlegan flutning að kassinn hefði verið svo til nýr þegar hann eignaðist hann í október 1992. Hann hefur hins vegar engin gögn lagt fram um það af hverjum hann keypti kassann eða á hvaða verði en bar að um hafi verið að ræða viðskipti með fleiri hluti og því sé ekki hægt að sérgreina verð kassans. Þetta er raunar hið sama sem stefndu bera um viðskipti sín þegar þeir keyptu og seldu kassann, um hafi verið að ræða skipti með bílhluti.
Með vísun til framangreinds og skoðunar kassans er það álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að kassinn geti vel hafa verið settur nýr á vörubifreið árið 1983. Að loknum endingartíma bifreiðarinnar sem atvinnubifreiðar, sem vel geti hafa verið á árinu 1992, hafi kassinn verið seldur sér. Er þá mjög líklegt að kassinn hafi verið í þannig ástandi að hann hafi ekki verið nothæfur á atvinnubifreið og því algengt að þessi gerð og stærð af kössum væri seld manna á milli sem geymslur, fyrir litlar upphæðir eða í einhverskonar skiptum.
Stefnandi byggir kröfu sína um bætur fyrir kassann á mati dómkvadds matsmanns, sem mat verð nýs sambærilegs kassa í júní 1999 á 952.425 krónur. Í október 1992 hefði nýr kassi kostað 833.179 krónur að mati matsmannsins. Festingar voru metnar sérstaklega á 37.350 krónur.
Af hálfu stefndu hefur verið lagt fram skjal frá fyrirtæki, sem verslar með kassa á vörubifreiðar. Skjalið er dagsett í desember sl. og þar segir að núvirði kassa af sömu stærð, en að vísu annarri tegund og vandaðri sé 650.000 krónur en 11 ára gamall kassi af sömu gerð myndi seljast á um 50.000 krónur.
Með vísan til alls þess, sem að framan hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að mat hins dómkvadda matsmanns sé ekki í samræmi við raunverulegt verðmæti kassans, hvorki nú né þegar stefnandi eignaðist hann. Verður matið þar af leiðandi ekki lagt til grundvallar við ákvörðun bóta til handa stefnanda fyrir kassann heldur verða þær ákvarðaðar að álitum og þykja hæfilegar 50.000 krónur.
Þá krefst stefnandi bóta vegna afnotamissis af kassanum og miðar við tímann frá því kassinn hvarf og þar til hann fannst aftur. Fjárhæð kröfunnar er byggð á framangreindu mati en matsmaður miðar við leigugjald af yfirbyggðri kerru af svipaðri stærð og kassinn. Matsmaðurinn lækkar síðan fjárhæðina, bæði vegna þess að kassinn er ekki á hjólum og eins miðar hann við langtímaleigu. Í kröfugerð sinni krefur stefnandi um 300 krónur á dag fyrir afnotamissinn og er það lægri fjárhæð en matsmaður miðaði við. Það er niðurstaða dómsins að stefnanda beri bætur fyrir afnotamissi og verða þær miðaðar við tímann frá því að kassinn hvarf og þar til ætla má að hann hefði getað útvegað sér sambærilegan kassa. Með hliðsjón af þessu eru þær hæfilega metnar 20.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu verða stefndu óskipt dæmdir til að greiða stefnanda 70.000 krónur. Aðrir kröfuliðir stefnanda eru í raun krafa um málskostnað og verður tekin afstaða til þeirra, þegar um þá kröfu hans verður fjallað hér á eftir.
Eins og mál þetta er vaxið og vísast um það til málavaxtalýsingar hér að framan, skal dæmd fjárhæð bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi málsins, 15. júní 1999, til greiðsludags.
Stefnandi hefur rekið mál sitt sjálfur og lagði hann áherslu á að hann hefði haft af því mikinn kostnað eins og kröfugerð hans ber með sér. Hann hefur þó engin gögn lagt fram um þennan kostnað en ferill málsins ber með sér að hann hefur lagt í það allnokkra vinnu. Hins vegar er á það að líta að því er ómótmælt, sem haldið var fram af hálfu stefndu við munnlegan flutning málsins, að eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar hafi stefndu boðið stefnanda 100.000 krónur í bætur en því hafnaði hann. Með hliðsjón af þess og úrslitum málsins að öðru leyti þykir rétt að aðilar beri sjálfir sinn kostnað af því.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum, Ágústi Þór Ormssyni og Hrafnkatli Þórðarsyni bifreiðasmíðameisturum.
Dómsorð
Stefndu, Haukur Jens Birgisson og Daníel Rafn Hartmannsson, greiði óskipt stefnanda, Jakob A. Traustasyni, 70.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. júní 1999 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.