Hæstiréttur íslands
Mál nr. 49/2004
Lykilorð
- Lausafé
- Reikningsviðskipti
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 2004. |
|
Nr. 49/2004. |
Þorleifur Hjaltason (Jón Hjaltason hrl.) gegn Kjötumboðinu hf. (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Lausafé. Reikningsviðskipti.
Þ, sem um árabil hafði verið í viðskiptasambandi við K og forvera þess, krafðist greiðslu tveggja reikninga, en K krafðist lækkunar með vísan til þess að Þ stæði í skuld við félagið. Með hliðsjón af framlögðum viðskiptayfirlitum var á þetta fallist með K og félaginu gert að greiða Þ mismuninn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2004. Hann krefst þess, að stefndi greiði sér 659.893 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.692 krónum frá 20. júlí 2001 til 20. ágúst sama ár, en af 659.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þorleifur Hjaltason, greiði stefnda, Kjötumboðinu hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2004.
Mál þetta sem tekið var til dóms í gær, er höfðað með stefnu birtri 18. desember 2002.
Stefnandi er Þorleifur Hjaltason, Hólum Hornafirði.
Stefndi er Kjötumboðið hf., Kirkjusandi, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 659.893 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.692 krónum frá 20. júlí 2001 til 20. ágúst s.á. en af 659.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að dómkröfur stefnanda á hendur stefnda verði lækkaðar um 427.518 krónur, þannig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 232.375 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2001 til 20. nóvember 2001, þó þannig að framangreind fjárhæð eins og hún stóð með dráttarvöxtum 20. nóvember 2001 verði greidd í samræmi við nauðasamning stefnda við lánadrottna sína sem staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2002. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu á tveimur reikningum fyrir innlagðar afurðir hjá stefnda, öðrum dagsettum 17. maí 2001 að fjárhæð 242.692 krónur og hinum dagsettum 5. apríl 2001 að fjárhæð 417.201 króna. Stefnandi er bóndi að Hólum í Hornafirði og hefur selt afurðir bús síns til stefnda og forvera þess. Aðilar og forverar stefnda höfðu verið í viðskiptasambandi um árabil þar sem stefndi tók við afurðum frá búi stefnanda eins og fyrr segir. Stefndi greiddi stefnanda 745.925,17 krónur í desember 2000 og kveðst stefnandi hafa reiknað með því að þar með hefði verið gert upp við stefnanda það sem hann ætti inni hjá stefnda. Stefndi hafi lagt inn afurðir þær sem hann krefur um í máli þessu og aldrei hafi komið upp að eldri viðskipti kynnu að vera óuppgerð. Stefnandi hafi aldrei fengið viðskiptareikning fyrir árið 2000. Það hafi ekki verið fyrr en við meðferð máls sem stefnandi höfðaði á hendur stefnda og þingfest var 11.september 2001, en vísað var frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 31. október 2001, að þær athugasemdir hafi komið fram að stefnandi ætti einungis 232.375 króna innistæðu hjá stefnda þegar tekið hefði verið tillit til viðskipta aðila fyrir 2001. Telur stefnandi fyrirvaralausa greiðslu stefnda 15. desember 2000 leiða til þess að stefndi geti ekki haft uppi endurheimtukröfu gagnvart stefnanda.
Stefnandi hefur lagt fram "uppsetningu á reikningi Þorleifs Hjaltasonar hjá Þríhyrningi hf., og síðar Kjötumboðinu hf., skv. skjölum frá honum" þar sem fram kemur að staða í viðskiptum aðila 1. janúar 2001 hafi verið sú að stefnandi skuldaði 234.219,17 krónur. Af hálfu stefnda er á því byggt að lækka beri stefnukröfu vegna þess að skuld stefnda við stefnanda hafi verið verulega lægri en stefnandi krefur um. Samkvæmt yfirlitum um viðskipti aðila á árunum 1999 til 2001 sem fram hafi verið lögð í málinu hafi skuld stefnanda við stefnda verið 412.485 krónur. Mismunur á þeirri fjárhæð og fyrrnefndri fjárhæð sé 177.982 krónur og skýrir stefndi hann með því að um sé að ræða greiðslur í tvö skipti frá stefnda í reikning stefnanda hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga annars vegar 31. desember 1999 að fjárhæð 87.825 krónur og hins vegar 31.mars 2000 sömu fjárhæðar. Mismunurinn sé 2.332 krónur sem væntanlega séu vextir.
Eins og að framan greinir kemur fram í gögnum sem stefnandi hefur sjálfur lagt fram að staðan í viðskiptum aðila þann 1. janúar 2001 hafi verið sú að mismunur stefnda í hag hafi verið 234.219,17 krónur. Samkvæmt viðskiptayfirlitum sem stefndi hefur lagt fram og stafa frá honum sjálfum og Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga var skuld stefnanda við stefnda við árslok 2000 412.845 krónur. Samkvæmt sömu yfirlitum var mismunur í skiptum aðila 20. ágúst 2001 stefnanda í hag sem nemur 232.375 krónum. Ekki liggja fyrir í málinu gögn um hvort og þá með hverjum hætti stefnandi hafi fengið þá fjárhæð gerða upp. Verður því krafa stefnanda tekin til greina með þeirri fjárhæð auk vaxta eins og greinir í dómsorði. Nauðasamningur stefnda við lánardrottna var staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 20. febrúar 2002. Nauðasamningurinn tekur til kröfunnar, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Það leiðir þó ekki til þess að stefnda verði ekki dæmd krafan án tillits til nauðasamningsins, enda breytir samningurinn ekki efni kröfunnar heldur efndaaðferðinni og áhrifum hennar, sbr. síðari málslið 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar. Kemur þá til úrlausnar við efndir kröfunnar hversu mikið áfrýjanda ber að greiða, eftir atvikum við fullnustu dómsins með aðför.
Málskostnaður fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Kjötumboðið hf., greiði stefnanda, Þorleifi Hjaltasyni, 232.375 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. ágúst 2001 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.