Hæstiréttur íslands
Mál nr. 501/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Viðlagatrygging
- Dómkvaðning matsmanns
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2010. |
|
Nr. 501/2010.
|
Viðlagatrygging Íslands (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn Fallorku ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Kærumál. Viðlagatrygging. Dómkvaðning matsmanna. Úrskurður héraðsdóms
felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni V um dómkvaðningu matsmanna til að meta nánar tilgreind atriði varðandi stíflumannvirki í eigu F. Úrskurðarnefnd samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands felldi úr gildi úrskurð stjórnar V þar sem bótaskyldu vegna tjóns F á stíflumannvirkinu hafði verið hafnað. Með hliðsjón af forsendum og niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var fallist á að stjórn V ætti eftir að taka afstöðu til bótafjárhæðar til handa F. Var þannig ekki talið að úrskurður nefndarinnar stæði í vegi fyrir því að stjórn V fengi notað þá heimild sem lög nr. 55/1992 kvæðu á um til að leggja grundvöll að ákvörðun í málinu. Þegar af þessari ástæðu væru ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki því til fyrirstöðu að V aflaði mats í samræmi við hin sérstöku ákvæði þeirra laga sem hún starfar eftir. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn til að framkvæma hið umbeðna mat.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. júlí 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til að meta nánar tilgreind atriði varðandi stíflumannvirki í Djúpadal í Eyjafirði. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo hæfa og óvilhalla matsmenn til framkvæma mat samkvæmt matsbeiðni. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hafnaði stjórn sóknaraðila með úrskurði 11. apríl 2008 bótaskyldu vegna tjóns er varnaraðili varð fyrir er efri stífla Djúpadalsvirkjunar í Eyjafirði rofnaði 20. desember 2006. Úrskurðarnefnd samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands felldi þann úrskurð úr gildi 16. janúar 2010. Með bréfi sóknaraðila 4. febrúar 2010 var varnaraðila tilkynnt að greiðsluskyldu væri enn hafnað vegna nýrra upplýsinga er komið hafi fram. Með bréfi 12. mars 2010 krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili tæki til greina kröfu sína um bætur en felldi ella nýjan úrskurð þar um.
Í máli þessu deila aðilar um hvort sóknaraðila sé heimilt að fá dómkvadda menn til að meta þau atriði sem í matsbeiðni greinir. Eins og rakið er nánar í úrskurði héraðsdóms telur sóknaraðili sig þurfa dómkvaðningu matsmanna til að svara tilgreindum spurningum áður en hann geti komist að niðurstöðu um kröfu varnaraðila um bætur. Andmæli varnaraðila lúta að því að ekki verði ráðið af matsspurningum sóknaraðila að hann sé að leita nýrra upplýsinga eða gagna, enda varði matsspurningarnar atvik og aðstæður sem legið hafi fyrir skýrlega í gögnum máls þegar stjórn sóknaraðila kvað upp úrskurð sinn. Sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni samkvæmt 77. gr. laga nr. 91/1991 fyrir beiðni sinni. Í því sambandi beri í fyrsta lagi að líta til þess að úrskurðarnefnd samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992 hafi þegar úrskurðað um bótarétt varnaraðila. Ágreiningi um greiðsluskyldu sé því lokið með bindandi niðurstöðu fyrir sóknaraðila. Í annan stað sé sóknaraðili ekki í aðstöðu til að sækja kröfu í dómsmáli á hendur varnaraðila, eins og áskilið sé í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Með úrskurði héraðsdóms var beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna hafnað.
II
Sóknaraðili starfar samkvæmt lögum nr. 55/1992 og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt 1. gr. laganna er hlutverk sóknaraðila að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara, þar á meðal vatnsflóða, sbr. 4. gr. laganna. Í 15. gr. til 19. gr. laganna er að finna ákvæði um greiðsluskyldu sóknaraðila og afgreiðslu bótamála. Í 2. mgr. 15. gr. kemur meðal annars fram að setja skuli með reglugerð ákvæði um matsmenn og meginreglur um ákvörðun vátryggingabóta, sbr. reglugerð nr. 83/1993 um Viðlagatryggingu Íslands. Þá kemur fram í 19. gr. laganna að stjórn sóknaraðila skuli svo fljótt sem auðið er taka afstöðu til ágreinings um greiðsluskyldu sóknaraðila og fjárhæð vátryggingabóta. Skuli hún úrskurða um ágreiningsefni og geti tjónþoli innan 30 daga skotið ágreiningi til sérstakrar úrskurðarnefndar sem um eru ákvæði í greininni.
Eins og áður segir hefur úrskurðarnefnd samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992 fellt úr gildi úrskurð stjórnar sóknaraðila þar sem bótaskyldu var hafnað. Í úrskurði nefndarinnar var tekið fram, sem forsendu fyrir niðurstöðu, að varnaraðili hefði lagt málið fyrir nefndina með þeim hætti að úrskurður stjórnar sóknaraðila yrði felldur úr gildi. Nefndin myndi leysa úr málinu á þeim grundvelli, en ekki fjalla um hugsanlegar bótafjárhæðir, ef niðurstaða hennar yrði sú, að bótaskylda væri fyrir hendi hjá sóknaraðila. Að þessu sögðu afmarkaði nefndin það tjón sem til athugunar væri. Þá sagði meðal annars í úrskurðinum að enginn vafi léki á því að um hafi verið að ræða vatnsflóð hinn 20. desember 2006 í skilningi 5. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 83/1993 og að varnaraðili ætti rétt til að fá tjón bætt úr viðlagatryggingu sinni, nema réttur hans til bótanna ætti að skerðast eða falla niður vegna atvika sem lög nr. 55/1992 mæli fyrir um, eða ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Að lokinni frekari umfjöllun um síðastgreind atriði komst úrskurðarnefndin svo að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið færð fram nægileg rök fyrir því að skerða ætti eða fella niður rétt varnaraðila til bóta vegna tjóns sem hann hefði orðið fyrir á viðlagatryggðum eignum í hamfaraflóði 20. desember 2006. Í kjölfarið felldi úrskurðarnefndin úr gildi úrskurð stjórnar sóknaraðila. Í úrskurðarorði var á hinn bóginn það eitt sagt að úrskurður stjórnar sóknaraðila væri felldur úr gildi.
Við úrlausn málsins verður að hafa í huga framanritaðar forsendur og niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um að fella úrskurð stjórnar sóknaraðila úr gildi. Stjórn sóknaraðila hefur hvorki tekið afstöðu til bóta né fjárhæðar þeirra til handa varnaraðila. Því liggur fyrir henni að taka ákvörðun í samræmi við ákvæði laga nr. 55/1992, að teknu tilliti til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 83/1993 segir að stjórn sóknaraðila geti eftir atvikum óskað þess, að tjón skuli metið af dómkvöddum matsmanni eða - mönnum. Um kostnað af mati dómkvaddra manna skuli fara eftir almennum réttarreglum. Hvorki verður fullyrt að bersýnilegt sé að matsgerð samkvæmt beiðni sóknaraðila skipti ekki máli né verði tilgangslaus fyrir hann til að komast að niðurstöðu um mat á tjóni sem njóta eigi tryggingarverndar. Verður þannig ekki talið að úrskurður nefndarinnar standi í vegi því að stjórn sóknaraðila fái notað þá heimild sem lög nr. 55/1992 kveða á um til að leggja grundvöll að ákvörðun í málinu. Þegar af þessari ástæðu eru ákvæði XII. kafla laga nr. 91/1991 ekki því til fyrirstöðu að sóknaraðili afli mats í samræmi við hin sérstöku ákvæði þeirra laga er hann starfar eftir. Af þessum sökum verður ekki komist hjá því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo matsmenn til að framkvæma hið umbeðna mat.
Kærumálskostnaður verður eigi dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo menn til að framkvæma hið umbeðna mat.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. júlí 2010.
Mál þetta barst dómnum 10. maí sl. og var tekið til úrskurðar 4. júní sl.
Sóknaraðili er Viðlagatrygging Íslands, Borgartúni 6, Reykjavík.
Varnaraðili er Fallorka ehf., Rangárvöllum, Akureyri.
Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir menn til þess að meta eftirfarandi:
1. Var staðið eðlilega að viðgerð Djúpadalsstíflu II í Eyjafirði eftir flóð í júní 2006, a) frá faglegu sjónarmiði, b) frá öryggissjónarmiði?
2. Var söfnun lóns sömu stíflu í samræmi við eðlileg öryggissjónarmið, a) fyrir flóðið í júní 2006 og b), frá júní til desember 2006?
3. Ef svar við spurning 1 og eða 2 yrði neikvætt er spurt hvort í því eða þeim svörum felist orsök og afleiðing tjónsatburðarins 20. desember 2006 og eða einhverju öðru?
4. Var gripið til viðeigandi öryggisaðgerða í aðdraganda flóðsins í desember 2006?
5. Hvaða hagsmunir voru í hættu neðan Djúpadalsstíflu II ef stíflan kynni að rofna?
Varnaraðili krefst þess að synjað verði um að mat fari fram og málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Varnaraðili á stíflumannvirki í Djúpadal í Eyjafirði, Djúpadalsvirkjun I og Djúpadalsvirkjun II. Kveður sóknaraðili byggingu þeirra ekki hafa verið lokið þegar stíflurof hafi orðið vegna vatnavaxta 5. júní 2006. Hafi þá orðið umtalsverðar skemmdir á þeim hluta Djúpadalsvirkjunar II sem þá hafi verið í byggingu. Hafi vatni verið safnað í lón ofan stíflumannvirkjanna haustið 2006 án takmörkunar eftir þetta stíflurof þótt framkvæmdum og viðgerð hafi ekki verið lokið. Raforkuframleiðslu hafi einnig verið haldið áfram. Skipt hafi verið um framkvæmdastjórn varnaraðila í október 2006. Hafi fráfarandi framkvæmdastjóri tekið að sér umsjón með lagfæringum á skemmdum á yfirfalli stíflunnar. Hafi lokaframkvæmdum við byggingu Djúpadalsstíflu II ekki verið fram haldið haustið 2006. Bygging og lagfæring yfirfalls stíflunnar hafi verið á byrjunarstigi. Hafi lagfæringar á skemmdum sem vatnavextir í júní ollu verið skammt á veg komnar í desember 2006 og hafi upphaflegri hönnun stíflumannvirkisins ekki verið fylgt við þær aðgerðir.
Rigningar og asahláka hafi hafist 18. desember 2006. Við það hafi staða lónsins hækkað enn frekar. Rennsli úr lóninu yfir stífluframkvæmdirnar og einkum byggingaframkvæmdirnar fyrir yfirfall stíflunnar hafi aukist og rofið þær 20. desember 2006. Hafi orðið mikið tjón af þessu, bæði á mannvirkinu sjálfu og öðrum mannvirkjum neðan stíflunnar.
II.
Ágreiningur er milli aðila um greiðsluskyldu sóknaraðila vegna tjóns varnaraðila vegna rofsins. Hinn 15. október 2008 voru dómkvaddir tveir matsmenn að kröfu varnaraðila til að svara nánar greindum spurningum varðandi það hvort stífla Djúpadalsvirkjunar II hefði verið byggð í samræmi við hönnunargögn. Matsmenn töldu viðgerð eftir flóðið 5. júní 2006 ekki hafa verið í samræmi við þau, eins og þau hefðu verið fyrir 20. desember 2006. Þá töldu þeir stíflurofið í desember 2006 hafa leitt af því að steypt yfirfall, lokafrágang grjótvarnar og tengingu þéttikjarna við yfirfall hefði vantað. Þá hefði yfirfallsbrún verið færð ofar í yfirfallsrás en ekki höfð í ás stíflunnar. Yfirfallsfarvegur hefði því verið mun dýpri móts við lengdarás stíflunnar, sem hefði aukið hættu á því að land gæti brostið þar á milli. Töldu matsmenn að nánar greindum fyrirsvarsmanni varnaraðila hefðu verið ljós frávik frá útgefnum hönnunargögnum. Áhrif af þeim breytingum hefðu væntanlega legið fagmanni í augum uppi. Fyrirsvarsmaðurinn sé hins vegar hvorki sérmenntaður í jarðtækni né vatnsaflsvirkjunum. Sé því ekki sjálfgefið að honum hafi verið þessi áhrif ljós.
Hinn 11. apríl 2008 kom stjórn sóknaraðila saman og kvað upp úrskurð um að bótaskyldu sóknaraðila vegna tjóns varnaraðila af stíflurofinu í desember 2006 væri hafnað. Kærði varnaraðili niðurstöðuna til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um Viðlagatryggingu Íslands, sem felldi hana úr gildi með úrskurði upp kveðnum 16. janúar 2010. Með bréfi til varnaraðila 4. febrúar 2010 tilkynnti stjórnarformaður sóknaraðila að þar sem ekki væri mælt fyrir um greiðsluskyldu sóknaraðila í úrskurði nefndarinnar og þar sem ljóst væri orðið að nýjar upplýsingar lægju fyrir um orsakir tjónsatburðarins hefði stjórn sóknaraðila ákveðið að tjónbætur yrðu ekki greiddar að svo stöddu. Með bréfi 12. mars 2010 krafðist varnaraðili þess að stjórn sóknaraðila tæki kröfu varnaraðila um greiðslu tjónsbóta til úrskurðar, en felldi ella úrskurð um þá afstöðu að greiða ekki tjónsbætur að svo stöddu. Sóknaraðili kveðst nú óska eftir mati dómkvaddra matsmanna um þau atriði sem að framan greinir, til að leggja það til grundvallar úrskurði um kröfugerð varnaraðila, að því marki sem þau séu ekki nægilega upplýst.
III.
Varnaraðili kveðst benda á að sóknaraðili hafi ekki kynnt ný gögn eða upplýsingar. Ekki verði ráðið af matsspurningum sóknaraðila að hann sé að leita nýrra upplýsinga eða gagna, enda varði spurningarnar atvik og aðstæður sem hafi legið skýrlega fyrir í gögnum máls og hafi legið fyrir þegar stjórn sóknaraðila kvað upp úrskurð sinn 11. apríl 2008.
Varnaraðili kveðst ekki telja lagaskilyrði til þess að fallast á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna, þar sem hann skorti lögvarða hagsmuni af því samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Byggir hann í fyrsta lagi á því að úrskurðarnefnd samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992 hafi þegar úrskurðað um bótarétt varnaraðila. Sé niðurstaðan bindandi fyrir sóknaraðila og beri honum að framfylgja henni. Bresti sóknaraðila valdheimildir til að taka málið fyrir að nýju eftir að niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir að þessu leyti. Sé ágreiningi um greiðsluskyldu lokið með henni. Í öðru lagi felist það skilyrði í ákvæðum 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 að sá sem leiti eftir dómkvaðningu matsmanna sé í stöðu til að geta sótt kröfu á grundvelli matsgerðarinnar í dómsmáli á hendur matsþola. Sé sóknaraðili ekki í slíkri stöðu og geti ekki komist í slíka stöðu. Geti hann því ekki haft lögvarða hagsmuni af því að dómkvaðning matsmanna fari fram. Kveðist sóknaraðili vera að afla gagna vegna reksturs stjórnsýslumáls, sem væntanlega geti aðeins endað með úrskurði, sem sæti kæru til úrskurðarnefndar. Geti sóknaraðili því ekki komist í þá stöðu að hann geti með réttu sótt einhverjar kröfur á hendur varnaraðila í almennu dómsmáli. Vísar varnaraðili sérstaklega til forsendna í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 6/2001, varðandi skýringu á 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Sóknaraðili starfar samkvæmt lögum nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands. Samkvæmt 15. gr. þeirra laga skal stjórn sóknaraðila setja reglur um meðferð og afgreiðslu bótamála og einnig er þar kveðið á um að setja skuli með reglugerð ákvæði um matsmenn og meginreglur um ákvörðun vátryggingabóta. Gildir um þetta reglugerð nr. 83/1993. Er þar kveðið á um það í 11. grein að stjórn sóknaraðila skuli gera ráðstafanir til að skoða og meta tjón og til þess skuli hún kveðja hæfan og óvilhallan matsmann eða menn. Geti hún eftir atvikum óskað þess að tjón skuli metið af dómkvöddum matsmanni eða mönnum. Byggir sóknaraðili á því að þessi sérákvæði heimili honum að fá dómkvadda matsmenn til að leita svara við framangreindum matsspurningum.
Í málinu liggur frammi yfirlýsing varnaraðila 3. júlí 2008, þar sem staðhæft er að framkvæmdum við stíflumannvirki Djúpadalsvirkjunar II hafi lokið um miðjan maí 2006. Í bréfi 12. júní 2009 lýsti fyrrverandi fyrirvarsmaður varnaraðila því yfir að það hafi verið staðreynd að yfirfall hafi ekki verið fullklárað í byrjun júní 2006. Hafi yfirlýsingin 3. júlí 2008 ekki verið í samræmi við raunveruleikann. Báðar þessar yfirlýsingar voru meðal gagna sem úrskurðarnefnd samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/1992 byggði úrskurð sinn 16. janúar 2010 á. Fjallaði nefndin sérstaklega um það hvort það hefði verið stórkostlegt gáleysi að hafa haft yfirfallsvirki stíflunnar eins og það var, svo og hvort það hefði verið stórkostlegt gáleysi að draga viðgerðir á skemmdum frá því í júní 2006 fram á vetur. Taldi hún svo ekki hafa verið. Var niðurstaða hennar að ekki hefðu verið færð fram gögn eða nægileg rök fyrir því að skerða ætti eða fella niður rétt varnaraðila vegna tjóns, sem hann varð fyrir í viðlagatryggðum eignum í hamfaraflóðinu 20. desember 2006.
Eins og málið liggur fyrir verður að fallast á það með varnaraðila að ekki verði séð að með matsspurningunum sé verið að leita nýrra upplýsinga eða gagna, heldur varði þær atvik og aðstæður sem hafi legið fyrir í gögnum málsins, a.m.k. þegar úrskurðarnefndin kvað upp framangreindan úrskurð. Verður því að líta svo á að sóknaraðili leiti nú mats á atriðum sem nefndin hafi þegar tekið afstöðu til. Heimild sóknaraðila samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 83/1993 tekur til þess að fá dómkvadda matsmenn til að skoða og meta tjón. Þykir hún að svo komnu máli ekki verða skýrð svo að á grundvelli hennar verði talið heimilt að fá dómkvadda matsmenn til að fjalla um atriði varðandi hugsanlega eigin sök tjónþola, sem úrskurðarnefndin hefur tekið afstöðu til.
Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 er aðila sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanna þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Fyrir liggur að sóknaraðili hefur ekki haft kröfu uppi í dómsmáli á hendur varnaraðila. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 6/2001, sem kveðinn var upp þann 12. janúar 2001, segir að sjálfgefið sé að aðili geti ekki notið þeirra lögvarinna hagsmuna, sem vísað sé til í ákvæðinu, nema hann sé sá, sem með réttu gæti sótt í dómsmáli kröfu á grundvelli matsgerðar. Er þessi túlkun áréttuð í dómi réttarins í máli nr. 91/2009, sem upp var kveðinn 23. mars 2009, þar sem segir að bersýnilegt sé að hin sérstaka heimild 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 sé bundin við þann, sem hafi í hyggju að höfða mál um kröfu, sem staðreyna þurfi, eða renna stoðum undir með slíku sönnunargagni. Ekki verður séð með hvaða hætti sóknaraðila yrði unnt að sækja í dómsmáli kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli matsgerðar sem leitað er eftir í þessu máli.
Samkvæmt framansögðu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna. Eftir þeirri niðurstöðu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 150.000 krónur.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en úrskurður var kveðinn upp.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Framangreindri beiðni sóknaraðila, Viðlagatryggingar Íslands, um dómkvaðningu matsmanna, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Fallorku ehf., 150.000 krónur í málskostnað.