Hæstiréttur íslands
Mál nr. 646/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Byggingarleyfi
- Bílastæðagjald
- Endurgreiðslukrafa
- Lögvarðir hagsmunir
- Sakarefni
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Þriðjudaginn 14. desember 2010. |
|
|
Nr. 646/2010. |
Miðbæjarbyggð ehf. (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl. gegn Reykjavíkurborg (Gunnar Eydal hrl.) |
Kærumál. Byggingarleyfi. Bílastæðagjald. Endurgreiðslukrafa. Lögvarðir hagsmunir. Sakarefni. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms sem vísaði máli M gegn R frá dómi þar sem M var ekki lengur talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn sakarefnisins. Málið átti rætur að rekja til endurgreiðslukröfu M á hendur R vegna bílastæðagjalda sem hann hafði innt af hendi til R vegna tiltekinna byggingaráforma á lóð sinni við Mjölnisholt 12-14. Vegna breyttra atvika vildi M síðar minnka byggingaráform sín og lagði fram umsókn þar að lútandi sem samþykkt var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa R 9. júní 2009. Byggingarleyfi var ekki gefið út og féll umsókn M úr gildi. M sótti að nýju um byggingarleyfi og var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingafulltrúa R 31. ágúst 2010. Fasteign M, Mjölnisholt 12-14, var seld nauðungarsölu 2. september 2010 og umráð hennar féllu því í hendur hæstbjóðanda á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. M hélt því fram í málinu að skylda R til að endurgreiða bílastæðagjöldin hefði orðið virk við samþykki R 9. júní 2009 og að umráð hins nýja eiganda yfir lóðinni fælu ekki í sér að sá kröfuréttur, sem hefði stofnast gagnvart R, hefði flust yfir til nýs eiganda. Fyrir Hæstarétti lagði M fram takmarkað byggingarleyfi sem gefið var út af byggingarfulltrúa R til handa M 24. nóvember 2010. Var í því vísað til þess að byggingarleyfisumsókn M hefði verið samþykkt og staðfest í borgarráði R 2. september 2010. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í málinu yrði ekki leyst úr því hver efnislegur réttur M gagnvart R væri og ókleift væri að leggja til grundvallar niðurstöðu þá staðhæfingu að réttur kaupanda við nauðungarsölu ryðji út hugsanlegum rétti M. M var talinn hafa rökstutt nægilega að hann kynni að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm lagðan á kröfu sína að öðrum skilyrðum uppfylltum. Talið var að umkrafin réttindi hefðu ekki verið orðin til við höfðun málsins en þau hefðu orðið það með útgáfu R á fyrrnefndu byggingarleyfi 24. nóvember 2010 óháð því hverjum krafa um endurgreiðslu bílastæðagjalda tilheyrði. Tilvist kröfu M væri því ekki lengur háð ókomnum atvikum og stæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki í vegi að leggja mætti dóm á ágreining aðila. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Frekari gögn bárust Hæstarétti 10. desember 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu hans til efnismeðferðar. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili gaf 25. janúar 2008 út takmarkað byggingarleyfi til sóknaraðila „fyrir viðgerð á gömlu húsi og einnig fyrir sökklum og plötum og veggjum í kjallara á sameinaðri lóð nr. 12 -14 við Mjölnisholt.“ Sóknaraðili hafði 8. sama mánaðar greitt varnaraðila tilskilin gjöld fyrir byggingu, sem hann hugðist reisa þar og vegna breytinga á eldra húsnæði, en þau námu samtals 55.533.010 krónum. Álögð gjöld voru byggingarleyfisgjald, viðbótargatnagerðargjald, gjald fyrir úttektir og bílastæðagjald og nam síðastnefnda gjaldið 29.148.178 krónum. Skylda til að greiða þetta gjald stofnaðist við að varnaraðili hafði fallist á að leysa sóknaraðila undan þeirri kvöð að hafa tilskilinn fjölda bílastæða á lóð sinni samkvæmt samþykktu deiliskipulagi, en slík undanþága er veitt gegn því skilyrði að viðkomandi lóðarhafi greiði gjald til bílastæðasjóðs varnaraðila, sem tekur þá á sig að koma fyrir almenningsbílastæðum í nágrenni viðkomandi lóðar. Fjárhæðin, sem sóknaraðili greiddi, miðaðist við að skylda til að koma fyrir 20,5 bílastæðum færðist yfir á varnaraðila. Um lagaheimild til að binda útgáfu byggingarleyfis við að þetta gjald sé greitt vísar varnaraðili til 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Með ódagsettri umsókn á árinu 2009 leitaði sóknaraðili eftir því við varnaraðila að fá að breyta byggingaráformum sínum á þann veg að umfang þeirra yrði minna en áður hafði verið ráðgert og greiðsla gjalda miðaðist við. Á svonefndum afgreiðslufundi byggingarfulltrúa varnaraðila 9. júní 2009 var umsókn sóknaraðila samþykkt og honum tilkynnt um það 15. sama mánaðar. Óumdeilt er að sóknaraðili hafi ekki eftir það komið hönnunargögnum til varnaraðila. Byggingarleyfi var ekki gefið út, en samkvæmt 5. mgr. 44 gr. skipulags- og byggingarlaga fellur staðfesting sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.
Í bréfi byggingarfulltrúa til sóknaraðila 3. júní 2010 var minnt á að samþykki við byggingarleyfisumsókn félli að óbreyttu úr gildi innan fárra daga, en framkvæmdir á lóðinni hafi legið niðri í að minnsta kosti eitt ár. Tekið var fram að frágangi á lóðinni væri verulega áfátt og var sóknaraðila gefinn 30 daga frestur til bæta úr því eins og nánar var mælt fyrir um. Sóknaraðili sótti að nýju um byggingarleyfi 19. ágúst 2010 þar sem vísað var til fyrri umsóknar hans frá 2009. Umsóknin var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 31. sama mánaðar þar sem gert var ráð fyrir samsvarandi minnkun framkvæmda og gert hafði verið í fyrri samþykkt hans 9. júní 2009. Fasteignin Mjölnisholt 12-14 var seld nauðungarsölu 2. september 2010 og samkvæmt yfirlýsingu sýslumannsins í Reykjavík 17. sama mánaðar var boð hæstbjóðanda samþykkt þar sem greitt hafi verið í samræmi við uppboðsskilmála. Nýr rétthafi að lóðinni hefur ekki látið ágreining málsaðila til sín taka.
Varnaraðili endurgreiddi 28. ágúst 2009 sóknaraðila 22.812.078 krónur af þeim 55.533.010 krónum, sem sá síðarnefndi hafði áður greitt og getið var að framan. Gatnagerðargjöld munu hafa verið endurgreidd að mestu leyti en hafnað að greiða bílastæðagjöld. Í bréfi varnaraðila til sóknaraðila 7. október 2009 var sú skýring gefin að endurgreidd hafi verið „þau gjöld sem endurgreiðsluskyld eru“. Bílastæðagjöld séu hins vegar ekki meðal þeirra gjalda sem fáist endurgreidd ef meira en eitt ár hafi liðið frá greiðslu þeirra og var vísað um það til 3. mgr. 28. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 4. mgr. 4. gr. gjaldskrár fyrir bílastæðagjald í Reykjavík nr. 337 frá 29. apríl 2003. Sýknukrafa varnaraðila fyrir héraðsdómi var einkum reist á þessum grunni, en sóknaraðili vefengir að lagaheimild standi til að varnaraðili geti þannig takmarkað skyldu sína. Fyrir héraðsdómi gaf varnaraðili sömu skýringu og að framan greinir um skyldu sína til að endurgreiða gatnagerðargjöld, en í greinargerð til Hæstaréttar er því lýst yfir að endurgreiðslan hafi orðið fyrir mistök. Sóknaraðili geti þó ekki byggt rétt neinn í málinu á því.
II
Krafa sóknaraðila er reist á því að af breyttum byggingaráformum hans leiði að nú sé unnt að koma öllum tilskildum bílastæðum fyrir á umræddri lóð og greiðsla bílastæðagjalds því óþörf fyrir stæði, sem áður rúmuðust ekki þar. Varnaraðila sé skylt að endurgreiða gjaldið og efndatími þeirrar skyldu miðist í síðasta lagi við samþykki á útgáfu nýs byggingarleyfis 9. júní 2009, sem endurnýjað hafi verið 31. ágúst 2010. Sóknaraðili hafi greitt umrætt gjald og eigi því endurkröfuréttinn en ekki sá sem keypti eignina við nauðungarsölu 2. september 2010. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu njóti sá síðastnefndi umráða yfir eigninni frá því boð hans var samþykkt, ef ekki sé mælt fyrir um það á annan veg í uppboðsskilmálum. Umráð hins nýja eiganda yfir lóðinni feli þó ekki í sér að sá kröfuréttur, sem um ræðir í málinu, hafi einnig flust til hans og ekkert sé fram komið í málinu sem styðji þá niðurstöðu. Hann hafi ekki innt féð af hendi, en viðurkenning á rétti hans en ekki sóknaraðila fæli í sér óréttmæta auðgun þess fyrrnefnda. Sóknaraðili hafi samkvæmt því lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm í málinu.
Að framan var getið helstu málsástæðu varnaraðila fyrir sýknukröfu sinni. Fyrir héraðsdómi studdi hann aðalkröfu sína um frávísun málsins við 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, en hvað sem öðru líði sé efndatími hugsanlegrar kröfu sóknaraðila ekki kominn þar sem byggingarleyfi frá 25. janúar 2008 sé enn í gildi og nýtt leyfi ekki leyst það af hólmi. Undir rekstri málsins tefldi hann fram þessu til viðbótar að sóknaraðili hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfu sína, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda hefðu öll réttindi tengd eigninni færst yfir til nýs rétthafa yfir henni við nauðungarsölu. Fyrir héraðsdómi var fallist á síðastnefnda málsástæðu varnaraðila og málinu samkvæmt því vísað frá dómi.
III
Við úrlausn um kröfu varnaraðila um staðfestingu hins kærða úrskurðar verður ekki leyst úr því hver efnislegur réttur sóknaraðila er gagnvart varnaraðila. Samkvæmt því er ókleift að leggja til grundvallar niðurstöðu þá staðhæfingu varnaraðila að réttur kaupanda við nauðungarsölu ryðji út hugsanlegum rétti sóknaraðila. Eins og málið liggur fyrir hefur sóknaraðili rökstutt nægilega að hann kunni að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm lagðan á kröfu sína að öðrum skilyrðum uppfylltum. Krafa varnaraðila um frávísun málsins getur því ekki náð fram að ganga á þessum grunni.
Eins og fram er komið byggir sóknaraðili á því að skylda varnaraðila til að endurgreiða bílastæðagjöldin hafi orðið virk við samþykki þess síðarnefnda 9. júní 2009 á því að gefa út nýtt byggingarleyfi í samræmi við umsókn sóknaraðila. Um þetta er þess að gæta að með nefndu samþykki, sbr. einnig síðara samþykki 31. ágúst 2010, var áður útgefið byggingarleyfi ekki fellt úr gildi. Samþykkið verður ekki skýrt á annan veg en þann að áður en nýtt byggingarleyfi yrði gefið út bæri sóknaraðila að uppfylla almenn skilyrði og þar á meðal að leggja fram nauðsynleg hönnunargögn. Sóknaraðili hefur nú lagt fyrir Hæstarétt takmarkað byggingarleyfi, útgefið af byggingarfulltrúa varnaraðila 24. nóvember 2010. Þar er í upphafi meðal annars vísað til þess að byggingarleyfisumsókn sóknaraðila hafi verið samþykkt og staðfest í borgarráði varnaraðila 2. september 2010, en í beinu framhaldi af því er lýst yfir að sóknaraðila sé „veitt takmarkað byggingarleyfi til þess að steypa þakplötu á húsinu nr. 12 14 við Mjölnisholt. Öll framkvæmdin skal unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum ...“. Leyfið er stílað á sóknaraðila, þrátt fyrir að nýr rétthafi sé kominn að eigninni, og vísað til samþykkis borgarráðs 2. september 2010 á byggingarleyfisumsókn sóknaraðila, sem er frá 19. ágúst sama ár eins og að framan var getið. Þetta verður ekki skýrt með öðrum hætti en þeim að varnaraðila hafi nú í verki fallist á að skilyrði séu uppfyllt til að minnka umfang bygginga á lóðinni með útgáfu byggingarleyfis í samræmi við umsókn sóknaraðila þar um.
Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 skal vísa máli frá dómi ef það er höfðað til úrlausnar um rétt eða skyldu sem sóknaraðili játar eða sýnt er á annan hátt að ekki er enn orðin til. Að framan var rakið að umkrafin réttindi voru ekki orðin til við höfðun málsins en eru nú orðin það með útgáfu varnaraðila á byggingarleyfi 24. nóvember 2010, óháð því hverjum krafa um endurgreiðslu bílastæðagjalda tilheyrir. Tilvist kröfu sóknaraðila er ekki lengur háð ókomnum atvikum og stendur lagaákvæðið því ekki í vegi að leggja megi dóm á ágreining aðilanna. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Reykjavíkurborg, greiði sóknaraðila, Miðbæjarbyggð ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2010.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Miðbæjarbyggð ehf., Einholti 2, Reykjavík með stefnu birtri 28. janúar sl. á hendur Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Vonarstræti, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 29.145.178 kr. ásamt hækkun þeirrar fjárhæðar skv. breytingum á byggingarvísitölu frá janúar 2008, þá 377,90 stig, til ágúst 2009, þá 486,40 stig, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2009 til greiðsludags af samanlagðri stefnufjárhæð og hækkun skv. nefndum breytingum byggingarvísitölu. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 29.145.178 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. júlí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að máli stefnanda verði vísað frá dómi en til vara sýknu. Þá krefst hann málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda. Af hálfu stefnanda er þess krafist að kröfunni verði hafnað og honum tildæmdur málskostnaður.
Málavextir:
Mál þetta snýst um rétt stefnanda til endurgreiðslu bílastæðagjalds sem hann innti af hendi til stefnda 8. janúar 2008 vegna byggingarleyfisáforma á lóðum stefnanda við Mjölnisholt 12-14, Reykjavík. Umrædd greiðsluskylda stofnaðist þar sem stefndi féllst á að leysa stefnanda, sem þá var lóðarhafi, undan þeirri kvöð að ganga frá tilskildum fjölda bílastæða á lóðinni samkvæmt samþykktu deiliskipulagi. Hinn 28. sama mánaðar gaf byggingarfulltrúi út takmarkað byggingarleyfi til handa stefnanda. Síðar vildi stefnandi minnka byggingaráform sín og lagði fram umsókn vegna þess sem samþykkt var á fundi byggingarfulltrúa stefnda 9. júní 2009. Stefnandi afhenti stefnda hins vegar ekki tilskilin gögn í tilefni af umsókninni og féll hún því úr gildi 11. júní sl. Lagði stefnandi í ágúst sl. inn nýja umsókn um byggingarleyfi.
Stefndi hefur hafnað ósk stefnanda um endurgreiðslu bílastæðagjalda. Í fyrstu bréfum stefnda til stefnanda kom fram að hann taldi sig ekki bera skyldu til að endurgreiða umrædd gjöld þar sem ár hafi verið frá því að stefndi innti þau af hendi, sbr. 4. gr. gjaldskrár fyrir bílastæðagjaldi í Reykjavík nr. 337/2003. Í stefnu byggir stefndi sýknukröfu sína á umræddu ákvæði en krefst þó aðallega frávísunar á öðrum grunni eins og síðar verður rakið.
Hinn 2. september sl. var fasteign stefnanda við Mjölnisholt 12-14 seld á uppboði og nýtur nú hæstbjóðandi umráða yfir eigninni, sbr. yfirlýsing sýslumannsins í Reykjavík dags. 17. sama mánaðar.
Málsástæður stefnda:
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnisins, sbr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem hann sé ekki lengur umráðamaður fasteignarinnar við Mjölnisholt 12-14. Stefnandi hafi misst umráðin er eignin hafi verið seld á nauðungaruppboðinu og telur stefndi að hinn nýi eigandi hafi yfirtekið réttindi sem fylgdu lóðinni, m.a. rétt til endurgreiðslu bílastæðagjalds sé um slíka rétt að ræða.
Stefndi byggir enn fremur frávísunarkröfu sína á því að réttindi þau sem stefnandi höfði mál þetta vegna séu ekki orðin til, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt stefnandi hafi lagt inn umsókn um breytt byggingaráform hafi hann ekki skilað inn þeim gögnum til stefnda sem áskilin séu til að unnt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Stefnandi hafi því ekki öðlast þau réttindi sem séu tilefni þessarar málshöfðunar þar sem skilyrði um stofnun kröfu á hendur stefnda sé ekki fullnægt. Stefndi tekur fram að gatnagerðargjöld hafi fyrir mistök verið endurgreidd stefnanda.
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er þeirri málsástæðu stefnda sem snýr að ætluðum skorti á lögvörðum hagsmunum mótmælt sem of seint fram kominni. Sú málsástæða varði enn fremur efni málsins, þ.e. frekar sé um að ræða aðildarskort sem eigi að leiða til sýknu.
Stefnandi hafnar því að frávísa beri málinu á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála. Byggir hann á því stefnandi hafi hinn 9. júní 2009 samþykkt nýtt byggingarleyfi. Hafi hann endurgreitt stefnanda gatnagerðargjöld og þar með viðurkennt í verki greiðsluskyldu sína.
Niðurstaða:
Fasteignin Mjölnisholt 12-14 var seld á uppboði hinn 2. september sl. Gafst stefnda því fyrst eftir uppboðið færi á að koma að kröfum í tilefni af því, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála. Lagði stefndi fram, í fyrsta þinghaldi eftir nauðungarsöluna, gögn er vörðuðu hana. Er því hafnað þeim sjónarmiðum stefnanda að sú málsástæða stefnda, að stefnandi hafi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta, sé of seint fram komin.
Fyrir liggur að er umrædd fasteign var seld nauðungarsölu var í gildi byggingarleyfi sem gefið var út 28. janúar 2008 til stefnanda til að byggja við hús sem þegar var fyrir á lóðinni. Þótt stefnandi hafi sótt um breytt byggingarleyfi til stefnanda hefur nýtt leyfi ekki enn verið gefið út. Samkvæmt yfirlýsingu sýslumannsins í Reykjavík hefur hæstbjóðandi greitt í samræmi við uppboðsskilmála og nýtur hann því umráða yfir hinni seldu fasteign, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Byggingarleyfið fylgir lóðinni og þar með hugsanlegar endurgreiðslukröfur á hendur stefnda vegna bílastæðagjalda hyggist hinn nýi eigandi ekki nýta sér það. Er því fallist á það með stefnda að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn sakarefnisins og beri því að vísa málinu frá dómi.
Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 3.mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður fellur niður.