Hæstiréttur íslands

Mál nr. 192/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 28

 

Þriðjudaginn 28. apríl 2009.

Nr. 192/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur. Þá var einnig staðfestur úrskurður héraðsdóms um tilhögun gæsluvarðhalds.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málunum til Hæstaréttar með kærum 21. apríl 2009, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærðir er tveir úrskurðir Héraðsdóms Austurlands 21. apríl 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. maí 2009 klukkan 16 og honum gert að sæta takmörkunum samkvæmt b., c., d., og e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en þó ekki lengur en rannsóknarhagsmunir standi til. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinir kærðu úrskurðir verði felldir úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og án þeirra takmarkana sem kveðið er á um í úrskurðunum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hinna kærðu úrskurða.

Málin hafa verið sameinuð fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 169., sbr. 4. mgr. 195. gr. og 210. gr., laga nr. 88/2008.

Eins og greinir í hinum kærðu úrskurðum var varnaraðili handtekinn um borð í skútu, sem stöðvuð hafði verið af skipi Landhelgisgæslunnar á hafinu milli Íslands og Færeyja. Hann er grunaður um aðild að broti á 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fallist er á forsendur í hinum kærðu úrskurðum um að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma og með þeim skilmálum sem þar greinir. Um lögmæti handtöku varnaraðila verður ekki dæmt í þessu máli.

Varnaraðili hefur fyrir Hæstarétti uppi þá málsástæðu að sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki verið bær til að krefjast gæsluvarðhalds yfir varnaraðila þar sem lögsagnarumdæmi hans nái samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 ekki til Austurlands. Hafi Héraðsdómi Austurlands því borið að hafna kröfu hans um gæsluvarðhald. Fyrir liggur að með bréfi 19. apríl 2009 óskaði lögreglustjórinn á Eskifirði eftir því við lögreglustjórann á höfðuborgarsvæðinu að embætti hans tæki yfir rannsókn og meðferð máls þess sem um ræðir. Var þetta heimilt samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 192/2008 um stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir, rannsóknaraðstoð og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála, sbr. 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga. Mátti þrátt fyrir þetta beina kröfu um gæsluvarðhald og aðrar sambærilegar ráðstafanir til Héraðsdóms Austurlands, sbr. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 88/2008.

Með þessum athugasemdum verða hinir kærðu úrskurðir staðfestir.

Dómsorð:

Hinir kærðu úrskurðir eru staðfestir.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 21. apríl 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur með beiðni, dagsettri í dag, krafist þess, með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. maí 2009, kl. 16.00.

Í kröfu lögreglustjórans segir að hinn 8. apríl 2009 hafi lögregla haft upplýsingar um að seglskúta stefndi í átt til lands, en skútan hafi verið úti fyrir Djúpavogi. Í tengslum við þessar upplýsingar hafi verið fylgst með ferðum þriggja manna á tveimur bílum sem staddir hafi verið á Djúpavogi, en þeir hafi verið með slöngubát með utanborðsvél með sér. Síðar hafi komið í ljós að tveir af mönnunum og báturinn voru horfnir en einn mannanna var á ferð um Djúpavog. 

Um kvöldið hafi sést til ferða slöngubátsins, þar sem honum hafi verið siglt inn í höfn í Gleðivík, vestan við aðalhöfnina á Djúpavogi. Sá mannanna sem hafði verið á ferð um Djúpavog hafi komið akandi að höfninni þar sem báturinn hafi komið að landi. Hafi töskur verið teknar út úr bátnum og þeim komið fyrir í bifreiðinni. Bifreiðinni hafi í framhaldinu verið ekið á brott. Við Höfn hafi bifreiðin verið stöðvuð og hafi ökumaður hennar verið handtekinn. Í bifreiðinni hafi verið töskur sem innihéldu yfir 100 kg af efnum sem hafi gefið svörun hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fíkniefni.

Slöngubátnum hafi verið siglt úr höfninni í Gleðivík og inn í höfnina á Djúpavogi. Fylgst hafi verið með tveimur mönnum sem voru um borð í bátnum og hafi þeir síðar um kvöldið verið handteknir á bifreiðinni Y. 

Landhelgisgæslan hafi fylgst með ferðum skútunnar, sem ekki hafi sinnt stöðvunarmerkjum. Er varðskip Landhelgisgæslunnar hafi náð skútunni hafi lögreglumenn farið um borð og hafi þrír menn sem voru fyrir um borð verið handteknir, þeirra á meðal kærði, X.

Rannsókn lögreglu miði að því að finna út hver/hverjir séu eigendur hinna ætluðu fíkniefna sem haldlögð voru. Rannsaka þurfi þætti er snúi að aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. 

Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot X, en talið sé að haldlögð fíkniefni hafi verið sótt í áðurgreinda skútu. Nauðsynlegt sé talið að hann sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn og/eða vitni og/eða að hann geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafa ekki verið haldlögð. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti gæsluvarðhaldi og að hann verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b-liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varði kröfu um einangrun.

Niðurstaða:

Samkvæmt því sem að ofan greinir er til rannsóknar hjá lögreglu ætlað brot kærða á  2. gr., sbr. 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, en með hliðsjón af því magni ætlaðra fíkniefna sem haldlagt hefur verið gæti hið ætlaða brot fallið undir 173. gr. a. almennar hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á þeirri lagagrein varðar allt að 12 ára fangelsi.

Verður með hliðsjón af þeim röksemdum sem fram koma í beiðni lögreglustjóra, sem eiga sér stoð í öðrum gögnum málsins að fallast á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði kunni að hafa framið brot sem varðar getur fangelsisrefsingu. Rannsókn er á frumstigi og verður að fallast á með lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir standi til þess að fallist sé á kröfuna. Þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en lögreglustjóri krefst. Þá verður einnig fallist á, með sömu rökum, að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærða verði fyrst um sinn gert að vera í einrúmi og þykir ekki ástæða til að marka því ástandi skemmri tíma en gæsluvarðhaldsvistinni, enda ber lögreglu að aflétta slíkri takmörkun af sjálfsdáðum um leið og hagsmunir standa ekki lengur til hennar. 

Ekki eru efni til að fallast á mótmæli kærða vegna þess hvar hann hafi verið handtekinn, enda verður ekki annað séð af gögnum málsins en að það hafi verið gert eftir óslitna eftirför sem hafi hafist innan íslenskrar lögsögu.

Með vísan til þess sem að framan greinir, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði X, sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. maí 2009, kl. 16.00. Þá er fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi hans stendur, þó ekki lengur en rannsóknarhagsmunir krefjast þess, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008.

Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. maí 2009 kl. 16.00.

Kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur, en þó ekki lengur en rannsóknarhagsmunir standa til.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 21. apríl 2009.

Nú rétt í þessu var fallist á kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. maí 2009, kl. 16.00. Þá var fallist á að honum yrði gert að vera í einrúmi í gæsluvarðhaldi, en þó ekki lengur en rannsóknarhagsmunir krefðust.

Af hálfu lögreglustjóra var upplýst að hann hefði í hyggju að í gæsluvarðhaldinu yrði kærða gert að sæta takmörkunum samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Kærði mótmælir þessu og krafðist þess að úrskurðað yrði að honum yrði ekki gert að sæta framangreindum takmörkunum.

Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa staðið að ólöglega að innflutningi mikils magns ætlaðra fíkniefna. Rannsókn er stutt á veg komin. Verður að fallast á það með lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærði sæti þeim takmörkunum, sem að framan eru raktar, enda verði þeim þegar aflétt þegar rannsóknarhagsmunir standa ekki lengur til beitingar þeirra.

Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti í gæsluvarðhaldi takmörkunum samkvæmt c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, en þó ekki lengur en rannsóknarhagsmunir standa til.