Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2004


Lykilorð

  • Ákæra
  • Fjársvik
  • Fjárdráttur
  • Skjalafals
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 21

 

Mánudaginn 21. mars 2005.

Nr. 372/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Jóhanni Jóhannssyni og

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Sigríði Jóhannsdóttur

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Ákæra. Fjársvik. Fjárdráttur. Skjalafals. Skilorð. Aðfinnslur.

J og S var gefið að sök skjalafals, fjársvik og fjárdráttur í viðskiptum með bifreiðar á bílasölu í eigu þeirra. J játaði sakargiftir að mestu leyti en S neitaði sök. Voru þau sakfelld fyrir þau brot sem þeim var gefið að sök fyrir utan að S var sýknuð af fjársvikum í einum ákærulið. Var þeim gert að greiða skaðabætur og sæta hvoru um sig fangelsi í 10 mánuði skilorðsbundið. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. ágúst 2004 og krefst staðfestingar á sakfellingu beggja ákærðu samkvæmt 1.-3. og 5.-7. liðum I. kafla ákæru og ákærða Jóhanns Jóhannssonar samkvæmt II. kafla hennar. Þá er krafist sakfellingar beggja ákærðu samkvæmt 4. lið I. kafla ákæru og þyngingar á refsingu.

Ákærði Jóhann Jóhannsson krefst þess að sér verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.

Ákærða Sigríður Jóhannsdóttir krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994, þar sem hann taldi viðurlög í héraðsdómi að mun of væg og til endurskoðunar á sýknu í héraði samkvæmt 4. lið I. kafla ákæru. Ákærða Sigríður áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti, eins og henni var heimilt samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1994.  Kemur sýknukrafa hennar ekki til álita nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi höfðaði lögreglustjórinn í Reykjavík mál þetta á hendur ákærðu 29. apríl 2003 fyrir skjalafals og auðgunarbrot á árunum 2000 og 2001 í viðskiptum með bifreiðar á bílasölunni Evrópa-Bílasala ehf. Samkvæmt gögnum málsins og framburði ákærðu stofnuðu þau félagið í desember 1998, en það var í eigu þeirra að jöfnu. Þau störfuðu bæði við reksturinn. Félagið mun hafa yfirtekið rekstur bílasölunnar í janúar 1999, en hún mun hafa verið rekin á nafni ákærðu Sigríðar frá árinu áður. Hafði hún aflað sér starfsleyfis bifreiðasala í samræmi við ákvæði laga um verslunaratvinnu nr. 28/1998, sbr. lög nr. 82/1998, sem tóku gildi 1. janúar 1999. Hún var jafnframt meðstjórnandi í félaginu og framkvæmdastjóri þess. Ákærði Jóhann var stjórnarformaður félagsins og sölumaður á bílasölunni. Bæði voru skráð prókúruhafar og sáu í sameiningu um fjármál félagsins, ákærða Sigríður að mestu fram í nóvember 2001, er hún fór í barnsburðarleyfi. Hún mun ein hafa haft ráðstöfunarheimild á tveimur tékkareikningum félagsins, annars vegar fyrir rekstur þess og hins vegar vegna vörslufjár. Þá kvaðst ákærða Sigríður að mestu hafa annast veðflutninga og skjalagerð í tengslum við þá og „að halda utan um fylgiskjöl, reikningsyfirlit og þess háttar pappíra.“ Ágreiningslaust er að í upphafi árs 2001 lenti félagið í verulegum fjárhagserfiðleikum, sem leiddu til þess að tékkareikningum þess hjá tilteknum viðskiptabanka var lokað í marsmánuði sama ár. Var eftir það eingöngu notast við einn tékkareikning hjá öðrum viðskiptabanka, sem ákærða ein hafði ráðstöfunarheimild yfir og fóru allir fjármunir bílasölunnar í gegnum þann reikning, bæði rekstrarfé félagsins og vörslufé. Starfsemi félagsins var hætt í ársbyrjun 2002 og leyfi þess lagt inn til viðskiptaráðuneytisins. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2002. Engar eignir fundust í búinu og var skiptum lokið 26. janúar 2004 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, sem námu rúmum 17.000.000 krónum. Þá var bú ákærðu Sigríðar tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2003 og lauk skiptum í búinu í júlí sama ár, án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

Ákærði Jóhann játaði sakargiftir fyrir héraðsdómi að undanskildum þeim sem lýst er í 5. lið I. kafla ákæru. Ákærða Sigríður neitaði sök fyrir héraðsdómi að mestu leyti, sbr. hér síðar.

Yfirheyrslur fyrir dómi voru mjög knappar. Við meðferð málsins hafa ákærðu ekki andmælt því að rétt hafi verið eftir þeim haft í lögregluskýrslum.

II.

Í 1. lið I. kafla ákærunnar voru ákærðu gefin að sök fjársvik við sölu á bifreiðinni VY 385 þann 10. maí 2000, sem var í eigu bílasölunnar, með því að hafa leynt kaupanda hennar A því að á bifreiðinni hvíldi veðskuld að fjárhæð 542.900 krónur og ráðstafað söluandvirði bifreiðarinnar að fjárhæð 800.000 krónur í eigin þágu án þess að greiða veðskuldina. Við aðalmeðferð málsins í héraði 27. maí 2004 kom fram sú leiðrétting að bifreiðin hafi ekki verið staðgreidd við kaupin heldur hafi hún verið greidd með ávísun að fjárhæð 550.000 krónur, sem átti að geyma til 22. maí 2000, og bifreið að verðmæti 250.000 krónur. Veðbanda var ekki getið í kaupsamningi, en óumdeilt er að ákærða Sigríður greiddi af láninu innan við mánuði eftir að kaup voru gerð og hélt því áfram í um eitt og hálft ár eða fram í nóvember 2001. Ekki liggja fyrir í málinu gögn um hverjar eftirstöðvar voru þá af láninu. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelld fyrir brot það, sem hér um ræðir.

Ákærða Sigríður kvaðst fyrir dómi ekki hafa komið að sölu bifreiðarinnar. Hélt hún því fram að því hafi ekki verið leynt vísvitandi fyrir A að á bifreiðinni hvíldi veðskuld heldur hafi það farist fyrir af einhverjum ástæðum að færa lánið yfir á annan bíl, en lánið hafi einu sinni áður verið fært milli bifreiða við sölu bifreiðar. Aldrei hafi staðið til að greiða lánið upp, eingöngu færa það yfir á annan bíl. Hafi hún greitt mánaðarlega af láninu sem hafi verið á nafni bílasölunnar en hún hafði gengist undir sjálfskuldarábyrgð á því. Þá hafi andvirði bifreiðarinnar runnið inn á reikning bílasölunnar. Í skýrslu ákærðu fyrir lögreglu kvaðst hún ekki vita hvað A hefði verið tjáð um áhvílandi veðskuldir á bifreiðinni. Taldi hún fullvíst að til hafi staðið að flytja umrætt veð af bifreiðinni yfir á aðra bifreið í eigu félagsins og það hefði örugglega komið fram í umræðum hennar og meðákærða, en hún kvaðst ekki muna hvaða bifreið það var. Hafði hún enga skýringu á því hvers vegna það var ekki gert, en taldi að um vanrækslu hefði verið að ræða af hálfu bílasölunnar. Neitaði hún alfarið fjársvikum. Hún skýrði jafnframt frá því að í ljósi stöðu hennar innan fyrirtækisins hafi það verið í hennar verkahring að annast veðflutninga. A bar fyrir dómi að karlmaður hafi selt sér bifreiðina og hún fest kaup á henni í þeirri trú að engin veð hvíldu á henni.

Fyrir liggur að ákærða hafði flutt veð það sem hvíldi á bifreiðinni VY 385 af annarri bifreið mánuði áður en fyrrnefnda bifreiðin var seld og haldið áfram að greiða af láninu. Hefur hún viðurkennt að til hafi staðið að flytja veðið yfir á aðra bifreið og hafi hún og meðákærði rætt það sín á milli en það farist fyrir. Þá hefur ákærða viðurkennt að söluandvirði bifreiðarinnar hafi runnið beint inn á reikning bílasölunnar. Gegn neitun ákærðu, sem fær stoð í framburði meðákærða og kaupanda bifreiðarinnar, þykir ósannað að hún hafi komið að sölu þessarar bifreiðar. Verður hún því sýknuð af sakargiftum um fjársvik í þessum lið ákærunnar. Í málflutningi fyrir Hæstarétti krafðist ákæruvaldið þess að háttsemi ákærðu yrði heimfærð undir ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga sem umboðssvik. Þessu mótmælti verjandi hennar. Ekki verður fallist á með ákæruvaldinu að lýsing atvika í ákæru geti leitt til þess að brotið verði heimfært undir þetta refsilagaákvæði og verður heldur ekki ráðið að málið hafi verið flutt í héraði með hliðsjón af því eða ákvæði 254. gr. laganna um hilmingu.

III.

Í 2. lið I. kafla ákærunnar voru ákærðu gefin að sök fjársvik og skjalafals í mars 2001 með því að hafa látið skrá bifreiðina ZN 907, sem ákærðu höfðu í sölu fyrir Ingvar Helgason hf., yfir á nafn sambúðarkonu ákærða Jóhanns, án heimildar hennar og Ingvars Helgasonar hf., eiganda bifreiðarinnar, og framvísað í því skyni hjá Skráningarstofunni hf. umboði frá Ingvari Helgasyni hf. bílasölunni til handa, til sölu á bifreiðum, sem ákærðu höfðu falsað með því að bæta inn á það heimild til sölu bifreiðarinnar ZN 907 og með áritun á nafni sambúðarkonu ákærða Jóhanns sem votts og framvísað á sama stað tilkynningu um eigendaskipti sem ákærðu höfðu falsað með áritun á nafni sambúðarkonunnar sem kaupanda; hafa síðan með samþykki sambúðarkonunnar veðsett vátryggingafélagi bifreiðina fyrir andvirði bílaláns að fjárhæð 1.264.429 krónur sem rann til ákærðu; selt síðan bifreiðina B 28. apríl 2001 fyrir 1.660.000 krónur, sem hún staðgreiddi, gegn loforði um að aflétta fyrrnefndu veði af bifreiðinni; ráðstafað þess í stað andvirðinu í eigin þágu þrátt fyrir að ákærðu og fyrirtæki þeirra væru með öllu ógjaldfær og eignalaus og náð þannig að svíkja út andvirði lánsins og bifreiðarinnar. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelld fyrir brot þau, sem hér um ræðir.

Ákærði Jóhann hefur, sem fyrr segir, játað sök. Taldi hann hjá lögreglu líklegt að hann hafi falsað undirritun sambúðarkonu sinnar á umboð þau sem um er að ræða í þessum lið ákærunnar auk tilkynningar um eigendaskipti. Fyrir dómi skýrði hann frá því að hún hafi ekki vitað að ákærðu ættu ekki umrædda bifreið eða að þau hefðu ekki haft heimild Ingvars Helgasonar hf. til að selja bifreiðina. Sambúðarkona ákærða staðfesti fyrir dómi að hún hafi ekki ritað undir umrædd skjöl, en sagði að ákærði hafi tjáð sér að hún væri búin að festa kaup á bifreið. Í skýrslu sinni hjá lögreglu staðfesti hún að hafa ritað undir skuldabréf með veði í bifreiðinni ZN 907 að beiðni ákærða. Hafi ákærðu fullvissað hana um að staðið yrði í skilum með greiðslur af þessu bréfi. Hún hafi ekki verið viðstödd þegar bifreiðin var seld, en ákærðu hafi staðhæft að veðinu yrði aflétt af bifreiðinni við söluna. Henni hafi verið kunnugt um að ákærða hafi greitt eitthvað af umræddu láni fram að sölu bifreiðarinnar.

Ákærða Sigríður neitaði sakargiftum um fölsun á nafnritun sambúðarkonu meðákærða á umboð þau sem um ræðir í þessum lið ákæru og tilkynningu um eigendaskipti. Kannaðist hún ekki við að hafa látið skrá bifreiðina yfir á nafn sambúðarkonu ákærða án hennar samþykkis. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá þessum sakargiftum á hendur henni. Ákærða viðurkenndi hins vegar fyrir dómi að hafa bætt bifreiðinni ZN 907 inn á söluumboð án samráðs við eiganda hennar, Ingvar Helgason hf. Á þessum tíma hafi Evrópa-Bílasala ehf. verið í fjárhagslegum erfiðleikum og ákærðu reynt að finna lausn á því. Hafi hugmyndin verið sú að afla fjár með því að færa bifreiðina yfir á nafn sambúðarkonu ákærða og selja bifreiðina síðan eða taka út á hana svokallað bílalán. Taldi hún að sambúðarkonan hafi ekki vitað af þessum umræðum, en komið hafi fyrir að nafn hennar hafi verið notað án hennar vitundar. Þá viðurkenndi hún að hafa lofað B, kaupanda bifreiðarinnar, að aflétta láninu. Andvirði umrædds láns og söluandvirði bifreiðarinnar hafi verið lagt inn á tékkareikning félagsins og því runnið inn í rekstur bílasölunnar. Í skýrslu ákærðu fyrir lögreglu kom jafnframt fram að hún hafi útbúið þau umboð sem um væri að ræða í þessum ákærulið. Jafnframt viðurkenndi hún fyrir dómi að hafa ritað undir tilkynningar um eigendaskipti fyrir hönd bílasölunnar. Kvað hún þá að fjárhagslegir erfiðleikar félagsins hafi ráðið mestu um að veði á bifreiðinni hafi ekki verið aflétt svo sem félaginu hafi borið skylda til að gera við sölu hennar. 

Ákærða Sigríður hefur viðurkennt að hún hafi í heimildarleysi bætt inn í  áðurnefnt umboð frá Ingvari Helgasyni hf. 6. mars 2001 heimild til að selja bifreiðina ZN 907. Hún hefur haldið því fram að þetta hafi henni verið heimilt í ljósi fyrri samskipta hennar við Ingvar Helgason hf., en fram kom í upplýsingaskýrslu lögreglu 28. mars 2003 að haft sé eftir nafngreindum starfsmanni hlutafélagsins að umboð hafi aldrei verið „gefin út fyrr en Evrópa bílasala var búin að skila af sér söluverðmætinu.” Komi jafnframt fram í skýrslunni að starfsmaðurinn hafi vísað á gjaldkera félagsins þessu til staðfestingar. Ákærða gerði hvorki reka að því að leiða fyrir dóm þetta vitni né aðra starfsmenn hlutafélagsins sem um þetta gætu borið. Þykir samkvæmt framansögðu fyllilega sannað að ákærða hafi átt þátt í að nota umboðið eins og lýst er í ákæru efir að hafa breytt því með framangreindum hætti án heimildar þess sem skjalið stafaði frá. Varðar sú háttsemi hennar við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga. Óumdeilt er að ákærða gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir bílaláni því, sem um getur í þessum lið ákæru, en lánið var jafnframt tryggt með veði í bifreiðinni. Eins og fjárhagsstöðu félagsins var háttað, á þeim tíma sem kaupin gerðust, hlaut henni að hafa verið ljóst að hún og fyrirtæki hennar ætti enga möguleika á því að standa við skuldbindingar sínar um að aflétta veðinu af bifreiðinni. Hefur hún því með framangreindri háttsemi sinni einnig brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.

IV.

Í 3. lið I. kafla ákærunnar var ákærðu gefinn að sök fjárdráttur í júní 2001 með því að hafa dregið bílasölu ákærðu 374.244 krónur sem ganga áttu upp í greiðslu á veðskuld sem hvíldi á bifreiðinni SP 248. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelld fyrir brot samkvæmt þessum lið.

Með kaupsamningi og afsali 22. júní 2001 keypti C bifreiðina af D. Staðgreiddi hún bifreiðina. Við kaupin hvíldu á bifreiðinni áðurnefndar eftirstöðvar veðskuldar. Þeirra var ekki getið í samningnum en ágreiningslaust er að hluti kaupverðsins átti að ganga til greiðslu eftirstöðvanna.

Ákærði Jóhann hefur viðurkennt að hafa selt umrædda bifreið. Kvaðst hann í skýrslu hjá lögreglu enga skýringu hafa á því hvers vegna hann lét veðbandanna ekki getið á kaupsamningnum og afsalinu. Ástæður þess að þeim hafi ekki verið aflétt kvað hann vera að félagið hafi verið eignalaust, þessir fjármunir blandast saman við reksturinn. Á þessum tíma hafi þessir fjármunir „blandast saman við rekstrarfé bílasölunnar“ og „þessi innborgun ... horfið á augabragði upp í yfirdráttinn.“ Reynt hafi verið að halda í horfinu og greitt af láninu fram í nóvember 2001. Taldi hann nokkuð öruggt að meðákærða hafi haldið láninu í skilum. Í skýrslu ákærðu Sigríðar fyrir lögreglu taldi hún að fyrstu afskipti hennar af þessu máli hafi verið þegar kaupandi bifreiðarinnar hafði samband við hana til að kanna hvort búið væri að aflétta veðskuld sem hvíldi á bifreiðinni. Athuganir hennar í kjölfarið hafi leitt í ljós að skuldin hvíldi enn á bifreiðinni, en lánið hafi verið í skilum þar sem greiðandi þess hafi „óafvitandi“ haldið áfram að greiða af því. Skömmu síðar hafi greiðandinn haft samband við bílasöluna þar sem ekki var búið að aflétta veðinu og honum verið greidd sú fjárhæð sem hann þá hafði greitt af umræddu láni frá söludegi. Hins vegar hafi eftirstöðvarnar ekki verið greiddar og veðböndum því ekki aflétt. Gat hún ekki gefið skýringar á því hvers vegna það hefði ekki verið gert. Hún sagði að ljóst væri að féð hafi farið inn á tékkareikning félagsins og „blandast síðan saman við annað rekstrarfé félagsins“. Fyrir dómi sagði ákærða að þeir fjármunir sem um ræddi í þessum ákærulið hefðu fyrir mistök runnið inn á tékkareikning félagsins, en sem fyrr hafi einungis verið um að tefla einn reikning þar sem félagið hafi ekki haft vörslureikning vegna erfiðleika í rekstri þess.

Ákærða hefur viðurkennt að hafa vitað að umrætt lán, sem félaginu bar að aflétta, hvíldi á bifreiðinni löngu eftir sölu hennar og að fjármunir þessir hafi runnið inn á tékkareikning félags ákærðu. Ákærða var sem fyrr segir framkvæmdastjóri félagsins og hafði ein heimild til ráðstöfunar á umræddum tékkareikningi. Hún sá um daglegan rekstur þess og hlaut stöðu sinnar vegna að fylgjast með því hvaða fé var lagt inn á reikninginn. Á þeim tíma sem kaupin gerðust var henni ljóst að fjármunir félagsins blönduðust við vörslufé þess. Hún lét þrátt fyrir það undir höfuð leggjast að bregðast við þessu. Hefur hún á með framangreindri háttsemi sinni gerst brotleg við 247. gr. almennra hegningarlaga.

V.

Í 4. lið I. kafla ákærunnar var ákærðu gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa í september 2001 dregið sér söluandvirði bifreiðarinnar ME 754, sem ákærðu seldu í umboði Frumherja hf. á 1.100.000 krónur. Í héraðsdómi voru ákærðu sýknuð af broti samkvæmt þessum lið ákærunnar á þeirri forsendu að fyrir liggi að söluverðið hafi verið lagt inn á reikning bílasölunnar, en þau hafi verið sökuð í ákæru um að hafa dregið „sér“ fé en ekki félaginu. 

Ákærða Sigríður viðurkenndi fyrir dómi að hafa lagt söluandvirði bifreiðar Frumherja hf. inn á tékkareikning félags hennar og ákærða Jóhanns og hafa ekki í framhaldinu gert upp við Frumherja hf. Mundi hún ekki nákvæmlega hvernig staðið hafi verið að sölunni á þessari bifreið en þótti „... líklegt miðað við þetta afsal að ég hafi nú bara gengið frá þessu og þetta er nú bara mjög plane og þau hafa bara greitt þetta með þessu korti og svo er það bara búið og gert og svo hefur bara átt að gera upp við M.“ Í skýrslu ákærðu fyrir lögreglu kom fram að ástæða þess að ekki var staðið í skilum með söluandvirði bifreiðarinnar hafi verið sú að fjármunirnir hafi blandast saman við rekstrarfé bílasölunnar en á þessum tíma hafi verið vandamál í rekstri hennar og lausafjárstaðan bágborin. Fyrir dómi hélt ákærða því hins vegar fram að umræddir fjármunir hafi fyrir mistök farið inn á tékkareikning félagsins en eingöngu hafi verið um að ræða áðurnefndan tékkareikning þar sem félagið hafi engan  vörslureikning haft er hér var komið sögu. Fyrir liggur að greiðsla frá félagi ákærðu barst Frumherja hf. um þremur mánuðum síðar með tékka sem reyndist innistæðulaus. Hefur ákærði Jóhann viðurkennt að hafa afhent Frumherja hf. hann.

Eins og áður greinir hafa ákærðu viðurkennt að hafa móttekið greiðslu vegna sölu á bifreiðinni ME 754 í umboði Frumherja hf. og í framhaldinu ekki staðið skil á söluandvirðinu til félagsins. Hafa þau játað að þeir fjármunir fóru inn á reikning félags ákærðu en vegna áðurnefndra erfiðleika í rekstri þess hafi ekki verið unnt að standa skil á greiðslunni. Framangreindur annmarki á ákæru kemur ekki að sök, enda hefur vörn ákæru ekki verið áfátt vegna hans, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991. Að þessu virtu þykir sannað að bæði ákærðu hafi gerst sek um brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga.

VI.

Í 5. lið I. kafla ákærunnar voru ákærðu gefin að sök fjársvik með því að hafa selt F bifreiðina RS 270 í október 2001 á 370.000 krónur í nafni bílasölunnar án heimildar eiganda hennar, E, eða umboðsmanns hennar og notað andvirðið í eigin þágu. Samkvæmt gögnum málsins mun bifreiðin hafa verið sett í sölu hjá bílasölu ákærðu í júlí 2001. Mun eigandi bifreiðarinnar hafa farið að grennslast fyrir um afdrif hennar þegar bílasölunni var lokað í janúar 2002, en hvorki eigandi hennar né umboðsmaður höfðu skrifað undir kaupsamning og afsal í tilefni af sölu hennar. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelld fyrir að selja umrædda bifreið án heimildar eiganda hennar eða umboðsmanns en talið var ósannað að ákærðu hefðu notað söluandvirðið í eigin þágu.

Fyrir dómi kvaðst ákærða Sigríður hafa selt umrædda bifreið. Hélt hún því fram að hún hefði haft heimild til þess að selja hana og hafi rætt við umboðsmann eiganda bifreiðarinnar áður en gengið var frá sölunni. Umboðsmaðurinn bar fyrir dómi að ekki hafi verið haft samband við hann vegna sölunnar. Þá taldi hann ólíklegt að haft hafi verið samband við eigandann þar sem hann hafi verið erlendis. Fyrir lögreglu greindi ákærða frá því að hún hafi gengið frá kaupsamningi og afsali vegna þessara viðskipta og að söluandvirði bifreiðarinnar hafi farið inn á reikning félagsins og runnið í rekstur þess. Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki gengið frá sölunni og tilkynningu um eigendaskipti, ef hún taldi sig hafa munnlegt samþykki umboðsmannsins til að ganga frá kaupunum, gaf hún þá skýringu að ekki hafi verið búið að aflétta áhvílandi veðböndum af bifreiðinni. Gat hún ekki skýrt af hverju það hafi ekki verið tekið fram á kaupsamningi og afsalinu.

Ákærða Sigríður hefur viðurkennt að hafa selt umrædda bifreið og söluandvirði hennar hafi runnið inn í rekstur félags hennar og ákærða Jóhanns. Er ekkert komið fram sem styður þá fullyrðingu ákærðu að viðskiptin hafi farið fram með heimild umboðsmanns eiganda bifreiðarinnar. Þá hefur hún viðurkennt að hafa ekki gert neinn reka að því að aflétta veði sem hvíldi á bifreiðinni eða tilkynna eigendaskipti. Eins og fjárhagsstöðu félags ákærðu var háttað hlaut henni að vera ljóst þegar hún gekk frá kaupunum að félagið ætti enga möguleika á því að standa við skuldbindingar sínar. Hefur hún því með háttsemi sinni gerst brotleg við 248. gr. almennra hegningarlaga.

VII.

Í 6. lið I. kafla ákærunnar voru ákærðu gefin að sök fjárdráttur með því að hafa í september 2001 dregið bílasölu þeirra 477.177 krónur sem ákærðu tóku við hjá I vegna kaupa hans á bifreiðinni JG 461 og ganga áttu til greiðslu á veðskuld sem hvíldi á henni. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelld fyrir þetta brot.

Fyrir lögreglu skýrði ákærða Sigríður svo frá að ákærði Jóhann hafi annast sölu bifreiðarinnar JG 461. Rámaði hana í að kaupandi hennar hafi afhent bílasölunni umrædda fjárhæð sem verja hafi átt til uppgjörs á því láni sem hvíldi á bifreiðinni. Söluandvirðið hafi runnið inn á reikning félagsins en fjárhagstaða þess verið bág á þessum tíma. Hún hafi hins vegar ekki tekið við þessari greiðslu heldur frétt af þessu eftir á. Fyrir dómi kvaðst ákærða muna eftir þessari sölu og að söluandvirðið hafi farið inn á reikning bílasölunnar en það hafi átt að greiða upp lánið. Fyrir lögreglu tók ákærði Jóhann fram að söluandvirðið hafi átt að fara upp í greiðslu á veðskuld þeirri sem hvíldi á bifreiðinni en sökum erfiðleika í rekstri félagsins hefði hann líklegast freistast til að nýta þessa peninga. Kvaðst hann ekki minnast þess að meðákærða hafi komið að þessum viðskiptum.

Þegar framangreint er virt og með vísan til þess, sem segir í niðurstöðu IV. kafla hér að framan um meðferð á vörslufé félagsins og vitneskju ákærðu Sigríðar um það, þykir nægilega sannað að hún hafi gerst brotleg við 247. gr. almennra hegningarlaga.

VIII.

Í 7. lið I. kafla ákærunnar voru ákærðu gefin að sök fjárdráttur með því að hafa í og október 2001 dregið bílasölu þeirra 110.000 krónur sem ákærðu tóku við úr hendi H vegna sölu á bifreiðinni PO 991og ganga áttu til greiðslu á veðskuld sem hvíldi á henni. Skráningarnúmer bifreiðarinnar hefur misritast í ákæru, en rétt númer er PO 991. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelld fyrir þetta brot.

Fyrir lögreglu skýrði ákærða Sigríður frá því að sölumaður í afleysingum á bílasölunni hafi annast sölu á bifreiðinni. Þegar verið var að ganga frá sölunni hafi hún tekið eftir að áhvílandi veðbanda var ekki getið í kaupsamningnum. Hafi hún bent kaupanda og seljanda á þetta en einhverra hluta vegna hafi upplýsingum um þetta ekki verið bætt inn á skjalið. Hún minntist þess ekki að hafa tekið við greiðslu vegna þessarar bifreiðar en taldi þó líklegast að umræddir fjármunir hefðu verið lagðir inn á reikning félagsins og blandast saman við rekstrarfé þess. Fyrir dómi kvað hún að greiðslan hafi átt að ganga upp í veðskuld á bifreiðinni. Þegar framangreint er virt og með vísan til þess sem segir í niðurstöðu IV. kafla hér að framan um meðferð á vörslufé félagsins og vitneskju ákærðu Sigríðar um hana þykir nægilega sannað að hún hafi gerst brotleg við 247. gr. almennra hegningarlaga.

IX.

Ákærða Sigríður hefur ekki fyrr sætt refsingu, en ákærði Jóhann var dæmdur 9. janúar 1992 í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir skjalafals.

Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður litið til þess að brot þeirra vörðuðu veruleg verðmæti og voru framin í skjóli opinbers starfsleyfis í því skyni að fjármagna rekstur fyrirtækis þeirra. Þau hafa ekki bætt fyrir þau nema að litlu leyti. Á hinn bóginn játaði ákærði Jóhann hreinskilnislega brot sín að mestu leyti. Þegar framangreint er virt og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærðu hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Málsmeðferð fyrir héraðsdómi dróst á langinn vegna veikinda ákærða Jóhanns og tók um 13 mánuði. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð sérfræðings í bæklunarskurðlækningum við Landspítalann 14. mars 2003. Kemur þar meðal annars fram að ákærði hafi margoft frá árinu 2002 verið lagður inn á sjúkrahúsið til aðgerða og lyfjameðferðar vegna alvarlegs sjúkdóms. Þegar litið er til þessara veikinda ákærða og hvernig núverandi högum ákærðu Sigríðar er háttað þykir mega fresta fullnustu refsingar þeirra beggja og skal hún falla niður að þremur árum liðnum frá birtingu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum.

Ákvörðun héraðsdóms um skaðabætur er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verða dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að lýsingu málavaxta er verulega áfátt í héraðsdómi. Eru ekki uppfyllt nægilega fyrirmæli 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um það hvað skuli greina í dómi. Þá er yfirheyrslum fyrir dómi áfátt. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Ákærðu, Jóhann Jóhannsson og Sigríður Jóhannsdóttir, sæti hvort um sig fangelsi í 10 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingar þeirra og fellur hún niður að þremur árum liðnum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði, Jóhann, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Ákærða, Sigríður, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

Annan áfrýjunarkostnað málsins greiði ákærðu óskipt.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni  29. apríl 2003 á hendur:

             ,,Jóhanni Jóhannssyni, [...], kt. […],

             og Sigríði Jóhannsdóttur, [...], kt. […]

fyrir skjalafals og auðgunarbrot framin á árinu 2001, nema annars sé getið, í viðskiptum með bifreiðar á bílasölunni Evrópa-Bílasala ehf., kt. 621298-4619, Vatnsmýrarvegi 20, Reykjavík, sem ákærðu áttu að jöfnu og ráku í sameiningu, ákærði Jóhann sem stjórnarformaður og sölumaður og ákærða Sigríður sem framkvæmdastjóri, samkvæmt löggildingu ákærðu Sigríðar til sölu notaðra bifreiða, svo sem rakið er:

I.                     Ákærðu báðum:

1.

Fjársvik með því að hafa 10. maí 2000 við sölu á bifreiðinni VY-385, í eigu bílasölu ákærðu, til A, leynt A því að á bifreiðinni hvíldi veðskuld að andvirði 542.900 kr., og ráðstafað söluandvirði bifreiðarinnar 800.000 kr., sem A staðgreiddi, í eigin þágu án þess að greiða veðskuldina.

M. 010-2002-4621

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

2.

Fjársvik og skjalafals í mars með því að hafa látið skrá bifreiðina ZN-907, af gerðinni Volvo S 40 árgerð 1999, sem ákærðu höfðu í sölumeðferð, yfir á nafn N, sambýliskonu ákærða Jóhanns, án heimildar N og eiganda bifreiðarinnar, Ingvars Helgasonar hf. og framvísað í því skyni hjá Skráningarstofunni hf., Borgartúni 30, Reykjavík, umboði dagsettu 6. sama mánaðar frá Ingvari Helgasyni hf. til bílasölunnar til sölu bifreiðarinnar ZN-907 og með áritun á nafni nefndrar N sem votts og framvísað jafnframt á sama stað tilkynningu um eigendaskipti sem ákærðu höfðu falsað með áritun á nafni N sem kaupanda, og hafa síðan, með samþykki N, þann 12. sama mánaðar, veðsett Vátryggingafélagi Íslands hf. bifreiðina fyrir andvirði bílaláns að fjárhæð 1.264.429 kr., sem rann til ákærðu, og selt bifreiðina B þann 28. apríl gegn staðgreiðslu á 1.669.000 kr., gegn loforði um að aflétta nefndu veði af bifreiðinni, en ráðstafað andvirðinu í eigin þágu þrátt fyrir að þau og fyrirtæki þeirra væru með öllu ógjaldfær og eignalaus og náð þannig að svíkja út andvirði lánsins og bifreiðarinnar.

M 010-2002-5379

Telst skjalafals ákærðu varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga en fjársvik gagnvart B við 248. gr. sömu laga.

3.

Fjárdrátt með því að hafa í júní dregið bílasölu ákærðu 374.244 kr. sem ákærðu tóku við þann 22. sama mánaðar hjá C vegna kaupa hennar á bifreiðinni SP-248 og ganga áttu til greiðslu á veðskuld sem hvíldi á bifreiðinni.

M. 010-2002-3427

4.

Fjárdrátt með því að hafa í september dregið sér söluandvirði bifreiðarinnar ME-754, sem ákærðu seldu í umboði Frumherja hf. þann 1. sama mánaðar á 1.100.000 kr.

Telst háttsemin samkvæmt liðum 3 og 4 varða við 247. gr almennra hegningarlaga.

5.

Fjársvik með því að hafa 3. október selt F bifreiðina RS-270 af gerðinni Volkswagen Golf Cl 1400, árgerð 1994, í nafni bílasölunnar á 370.000 kr. án heimildar eiganda bifreiðarinnar E eða umboðsmanni hennar og notað andvirðið í eigin þágu.

M. 010-2002-3134

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

6.

Fjárdrátt með því að hafa í september dregið bílasölu ákærðu 477.177 kr., sem þau tóku við þann 27. sama mánaðar hjá I vegna kaupa hans á bifreiðinni JG-461 og ganga áttu til greiðslu á veðskuld sem hvíldi á bifreiðinni.

M. 010-2002-3643

7.

Fjárdrátt með því að hafa í október dregið bílasölunni 110.000 kr., sem ákærðu tóku við þann 5. sama mánaðar hjá H vegna sölu hans á bifreiðinni JG-461 og ganga áttu til greiðslu á veðskuld sem hvíldi á bifreiðinni.

M. 010-2002-34272

II. Ákærða Jóhanni fyrir fjárdrátt með því að hafa í desember dregið bílasölu ákærðu 678.554 kr., sem hann tók við þann 13. sama mánaðar hjá J vegna kaupa hennar á bifreiðinni AG-359 og ganga áttu til greiðslu á veðskuld sem hvíldi á bifreiðinni.

Telst háttsemin samkvæmt ákæruliðum 1.6 og 7 og II varða við 247. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:

A, 670.000 kr. auk dráttarvaxta og málskonstaðar.

M. 010-2002-4621

Leifur Árnason hdl. 1.850.000 kr. með áfallandi vöxtum og kostnaði.

M. 010-2002-5379

K, 24.600 kr. ásamt dráttarvöxtum frá 22. júní 2001 samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, sbr. IV. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001, og málskostnaðar vegna þóknunar talsmanns brotaþola samkvæmt mati dómsins.

M. 010-2002-34274

Frumherja hf. 1.139.800 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 28, 2001 frá 1. september 2001 til greiðsludags.

M. 0102002-5379

F, 370.000 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 28, 2001 frá 3. október 2001 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

M. 010-2002-3134

I, 551.347 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/2001, af kr. 85.000,00 frá 23.01.2002 til 04.06.2002, en þá af kr. 104.934,00 frá þeim degi til 08.08.2002, en þá af kr. 123.364,00 frá þeim degi til 07.10.2002, en þá af kr. 142.622,00 frá þeim degi til 06.11.2002, en þá af kr. 179.155,00 frá þeim degi til 07.01.2003, en þá af kr. 214.422,00 frá þeim degi til 04.03.2003, en þá af kr. 248.797,00 frá þeim degi til 07.03.2003, en þá af kr. 551.347,00 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins komi til málflutnings af hálfu lögmanns kæranda við aðalmeðferð málsins.

M. 010-2002-3643

J 678.554 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 13. desember en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

M. 010-2002-1058.”        

Verjandi ákærða Jóhanns krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti eða að hluta skilorðsbundin. Verjandinn kvað ákærða Jóhann samþykkja framkomnar skaðabótakröfur þar sem játning hans liggur fyrir.  Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Verjandi ákærðu Sigríðar krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og aðallega að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti, en til vara að hluta.  Þess er krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi.  Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Ákærðu hafa bæði borið að lýsingin í inngangi ákærunnar um rekstur bílasölunnar Evrópa-Bílasala ehf., stöðu og hlutverk hvors um sig þar í þeim rekstri sé rétt lýst í upphafskafla ákærunnar.

Nú verða raktir málavextir um einstaka ákæruliði og niðurstðan á eftir og bótakrafa reifuð á sama stað.

Ákæruliður 1.

Hinn 5. febrúar 2002 lagði A fram kæru vegna viðskiptanna, sem í þessum ákærulið greinir.  Kvaðst hún hafa keypt bifreiðina á 800.000 krónur og greitt hana með 550.000 króna ávísun og með bifreið að verðmæti 250.000 krónur.  Í kaupsamningi hafi veðbanda ekki verið getið og hún ekki vitað um þau fyrr hún fékk greiðsluáskorun vegna þeirra.

Ákærði Jóhann játar sök samkvæmt þessum ákærulið og kvaðst hafa vitað af veðsetningu bifreiðarinnar er hún var seld.  Hjá lögreglunni lýsti hann því að hann hafi gengið frá sölu bifreiðarinnar.

Ákærða Sigríður neitar sök og kvaðst ekki hafa leynt A því vísvitandi að á bifreiðinni hvíldi veðskuld.  Hún kvað ekki hafa staðið til að selja bifreiðina með áhvílandi veðskuld, en af einhverjum ástæðum hafi farist fyrir að létta veðskuldinni af bifreiðinni við söluna.  Hún lýsti því að greitt hafi verið af láninu til að byrja með, en ekki hafi staðið til að greiða það upp heldur færa það yfir á aðra bifreið, sem ekki var gert, en mistök hafi ráðið því að svo var ekki gert.  Hún kvað rangt í ákærunni að söluandvirði bifreiðarinnar hafi verið ráðstafað í eigin þágu ákærðu.  Hið rétta sé að andvirðinu hafi verið ráðstafað í þágu bílasölunnar.

Vitnið A lýsti þessum bílaviðskiptum fyrir dóminum og kvaðst hafa keypt bifreiðina í þeirri trú að engin veðbönd hvíldu á henni, enda hafi sér ekki verið gerð grein fyrir því að svo væri.  Hún hafi fyrst vitað af þessu er henni barst innheimtubréf vegna þessa um einu og hálfu ári síðar, en hún hafi ekki getað greitt kröfuna og hafi bifreiðin þá verið tekin úr hennar vörslum og seld á nauðungaruppboði.

Niðurstaða ákæruliðar 1.

Undir aðalmeðferð kom fram að A staðgreiddi ekki bifreiðina, heldur greiddi hana eins og rakið var að ofan.  Kemur þetta ekki að sök eins og hér stendur á.  Sannað er með framburði beggja ákærðu og með gögnum málsins að viðskiptin með bifreiðina, sem hér um ræðir, fóru fram eins og lýst er í ákærunni með breytingum sem að ofan greinir og vissu bæði ákærðu af viðskiptunum, þótt ákærði Jóhann hafi annast þau.  Eftir það greiddi ákærða Sigríður af láninu, sem hún vissi að hvíldi á bifreiðinni, þrátt fyrir að skjöl tengd sölunni bæru annað með sér.  Með þessum viðskiptum hafa ákærðu gerst sek um fjársvik og engu varðar í því sambandi þótt þau hafi ekki ráðstafað söluandvirði bifreiðarinnar í eigin þágu, eins og lýst er í ákærunni, heldur hafi fjárhæðin runnið inn á reikning bílasölunnar.  Svikin gagnvart A, kaupanda bifreiðarinnar, eru hin sömu.  Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæðis í þessum ákærulið.

A krefst skaðabóta að fjárhæð 670.000 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Ákærðu eru bótaskyld vegna háttsemi sinnar og eru þau dæmd til að greiða A óskipt 670.000 krónur.  Vaxtakrafan er óljós og ber að vísa henni frá dómi.

Ákæruliður 2.

Með kærubréfi dags. 4. febrúar 2002 kærði Ingvar Helgason hf. ákærðu fyrir skjalafals, sem tengdist sölumeðferð bifreiðarinnar sem um ræðir í þessum ákærulið.

Ákærði Jóhann játar sök. 

Ákærða Sigríður neitar sök.  Hún kvað hafa verið fengið leyfi hjá Ingvari Helgasyni hf. til að selja þessa bifreið, en ekkert hafi verið fast ákveðið í þessum efnum.  Ákærði kvað rekstur bílasölunnar hafa gengið illa á þessum tíma og rétt væri það sem hún bar hjá lögreglunni um að ákærðu hefðu velt því fyrir sér hvernig þau gætu ýtt fjárhagsvanda bílasölunnar á undan sér.  Hjá lögreglunni lýsti ákærða því að ákærðu hefðu í þessu skyni ákveðið að færa bifreiðina ZN-907 yfir á nafn N, sambýliskonu ákærða Jóhanns, og án heimildar hennar.  Bifreiðin hafi verið umskráð án heimildar frá eiganda, Ingvars Helgasonar hf.  Fyrir dómi kvað ákærða söluandvirði bifreiðarinnar hafa farið inn á reikning bílasölunnar, sem á þessum tíma hafi verið í mínus, en alltaf hafi staðið til að aflétta láninu, sem hvíldi á bifreiðinni.  Hjá lögreglunni kvaðst ákærða hafa bætt inn á umboð frá Ingvari Helgasyni hf. heimild til sölu bifreiðarinnar ZN-907, sem lýst er í þessum ákærulið.  Ákærða bar jafnframt hjá lögreglunni um það að hafa veðsett bifreiðina með bílaláni frá Vátryggingafélagi Íslands og selt B bifreiðina  gegn staðgreiðslu, en áhvílandi veðláni hafi ekki verið aflétt.  Söluandvirði bifreiðarinnar hafi verið lagt inn á reikning bílasölunnar og verið notað í almennan rekstur.  Ekki hafi verið til peningar til að gera bílalánið upp, eða greiða Ingvari Helgasyni hf. bílinn.  Ákærða kvaðst hafa skilað inn sölutilkynningunni vegna sölu bifreiðarinnar.

Vitnið N kvað sér hafa verið greint frá því á þessum tíma að hún væri búin að kaupa bíl, en hún mundi ekki hvort hinna ákærðu gerðu það.  Hún kvaðst ekkert hafa vitað um þessi viðskipti fyrir fram.

Niðurstaða ákæruliðar 2.

Ákærða Sigríður mótmælti þeirri lýsingu í niðurlagi þessa ákæruliðar, að hún og bílasalan væru með öllu ógjaldfær og eignalaus á þessum tíma.  Hjá lögreglunni lýsti hún fjárhagserfiðleikum bílasölunnar á þessum tíma og því að tékkareikningur félagsins hafi verið í mínus og ekki hafi verið unnt að ráða við að peningar færu í annað en til stóð eins og í þessu tilviki til að greiða áhvílandi veðskuld á bifreiðinni.  Telja verður með þessu og með framburði ákærða Jóhanns sannað að bílasalan var ógjaldfær og eignalaus á þessum tíma, þótt ekkert liggi fyrir með vissu um gjaldfærni ákærðu Sigríðar.  Þá er ósannað að ákærðu hafi ráðstafað söluandvirði bifreiðarinnar í eigin þágu, en telja verður sannað að söluandvirðið hafi verið lagt á reikning bílasölunnar eins og ákærða Sigríður bar.  Að öðru leyti er sannað með játningu ákærða Jóhanns og að mestu leyti með framburði ákærðu Sigríðar og með vitnisburði N og með öðrum gögnum málsins að ákærðu hafi gerst sek um aðra háttsemi, sem í þessum ákærulið greinir og eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í þessum ákærulið. 

Leifur Árnason héraðsdómslögmaður krefst þess fyrir hönd Ingvars Helgasonar hf. að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.850.000 krónur með áfallandi vöxtum og kostnaði.  Svo virðist sem höfuðstóll kröfunnar miðist við það að ákærðu hafi boðið bifreiðina til sölu á 1.850.000 krónur.  Fyrir liggur að bifreiðin var seld á 1.669.000 krónur og tóku ákærðu við þeim fjármunum, sem þau áttu ekki lögmælt tilkall til, heldur raunverulegur eigandi, sem var Ingvar Helgason hf.  Ákærðu eru bótaskyld og eru þau dæmd til að greiða Ingvari Helgasyni hf. óskipt 1.669.000 krónur í skaðabætur, en vaxtakrafan er of óljós og ber að vísa henni frá dómi.

Ákæruliður 3.

Hinn 4. nóvember 2002 kærði C fjársvik, sem hún kvaðst hafa verið beitt í viðskiptum, sem lýst er í þessum ákærulið.  Kvaðst hún hafa staðgreitt bifreiðina, sem hér um ræðir 22. júní 2001 og hafi bílasalan átt að aflétta láni sem hvíldi á bifreiðinni, en það hafi ekki verið gert. 

Samkvæmt gögnum málsins voru eftirstöðvar áhvílandi veðskuldar á bifreiðinni þennan dag 274.244 krónur. 

Ákærði Jóhann játar sök samkvæmt þessum ákærulið. 

Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað ákærða Sigríður hafa átt að létta veðskuld af bifreiðinni, sem hér um ræðir, en einhverra hluta vegna hafi það ekki verið gert, en greiðslan fyrir bifreiðina hafi verið lögð inn á reikning bílasölunnar. 

Fyrir dómi neitaði ákærða Sigríður sök.  Hún kvað greiðslu bifreiðarinnar hafa runnið inn á reikning bílasölunnar fyrir mistök, en á þessum tíma hafi öðrum reikningi bílasölunnar verið lokað og aðeins eftir einn reikningur, en á þessum tíma hafi bílasalan verið orðin mjög aðþrengd með rekstrarfé.

Niðurstaða ákæruliðar 3.

Framburður ákærðu Sigríðar hjá lögreglu er í samræmi við framburð ákærða Jóhanns og játaði hún þar sök eins og rakið var.  Fyrir dómi neitaði hún sök, en hefur engum stoðum rennt undir breyttan framburð sinn, sem þykir ekki trúverðugur.

Samkvæmt öllu ofanrituðu er sannað með skýlausri játningu ákærða Jóhanns og með framburði Sigríðar hjá lögreglu, en gegn neitun hennar fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærðu hafi gerst sek um háttsemi þá sem hér um ræðir og eru brot þeirra rétt fært til refsiákvæðis í þessum ákærulið. 

K krefst þess að ákærðu greiði 24.600 krónur í skaðabætur.  Krafan er byggð á því að bifreiðin sem um ræðir í þessum ákærulið hafi verið seld á nauðungaruppboði 7. desember 2002 vegna skuldar, sem á bifreiðinni hvíldi og ákærði hafi ekki hirt um að greiða upp þrátt fyrir að lofa þar um.  Kröfufjárhæðin er sú fjárhæð, sem K greiddi veðhafanum eftir að dregin hafði verið frá fjárhæð, sem fékkst fyrir bifreiðina við nauðungasöluna.  Ákærðu eru bótaskyld og eru þau dæmd til að greiða K kröfuna óskipt með vöxtum eins og greinir í dómsorði en krafan var fyrst birt ákærðu við þingfestingu málsins.

Ákæruliður 4.

Hinn 19. febrúar 2002 var lögð fram kæra vegna viðskipta, sem í þessum ákærulið greinir.  Segir í kærunni að Frumherji hf. hafi ekki fengið í hendur söluverð bifreiðarinnar, sem hér um ræðir.

Ákærði Jóhann játaði sök. 

Ákærða Sigríður bar hjá lögreglunni að hún hefði annast sölu þessarar bifreiðar og að söluverðið hafi farið inn á reikning bílasölunnar og að Frumherji hafi ekki verið staðin skil á söluandvirðinu, þar sem fjármunir hafi blandast saman við rekstrarfé bílasölunnar. 

Ákærða Sigríður neitaði sök.  Hún lýsti þessari sölu og að söluverð bifreiðarinnar hafi farið inn á reikning bílasölunnar, sem hafi verið í mínus um rúmar tvær milljónir króna, en peningarnir hafi átt að fara til Frumherja hf.  Hún kvað bílasöluna hafa verið orðna mjög aðþrengda með rekstrarfé á þessum tíma.

Niðurstaða ákæruliðar 4.

Í þessum ákærulið er ákærðu gefið að sök að hafa dregið sér söluandvirði bifreiðarinnar.  Fyrir liggur í málinu að söluverð bifreiðarinnar var lagt inn á reikning bílasölunnar.  Er samkvæmt þessu ósannað að ákærðu hafi dregið sér söluandvirðið og ber að sýkna ákærðu af þessum ákærulið.

Frumherji hf. krefst skaðabóta að fjárhæð 1.139.800 krónur. Þótt ákærðu hafi verið sýknuð af refsikröfu vegna þessa ákæruliðar er allt að einu unnt að dæma um bótaskyldu þeirra.  Með því að skila ekki söluverði bifreiðarinnar til Frumherja hf. bökuðu ákærðu sér sakaðabótaskyldu, en krafa Frumherja sundurliðast þannig að 1.100.000 króna er krafist vegna söluverðs bifreiðarinnar, 39.200 króna sem er lögmannsþóknun og 600 króna vegna kostnaðar við útprentunar vanskilaskrár.  Eru ákærðu dæmd til að greiða kröfuna, enda er kröfunni um lögfræðikostnað í hóf stillt.  Skal fjárhæðin bera vexti eins og í dómsorði greinir, en upphafstími dráttarvaxta er 25. mars 2003, en þá var mánuður liðinn frá því að krafan var birt ákærðu.

Ákæruliður 5.

Hinn 23. janúar 2002 var lögð fram kæra vegna nytjastuldar á bifreiðinni sem hér um ræðir, sem hafi verið til sölu hjá bílasölunni.  Umboðsmaður eiganda bifreiðarinnar hafi ekki fengið neina vitneskju um að bifreiðin hafi verið seld. 

Hinn 1. mars 2002 kærði F forráðamenn bílasölunnar sem hér um ræðir, ákærðu í máli þessu, fyrir að hafa selt sér bifreiðina án heimildar eiganda hennar, sem hafi síðar fengið bifreiðina aftur.  F kvaðst hafa greitt 370.000 krónur fyrir bifreiðina og kvaðst krefjast þeirrar fjárhæðar frá forsvarsmönnum bílasölunnar.

Ákærði Jóhann játar sök. 

Hjá lögreglu lýsti ákærða Sigríður því er hún annaðist þessa bílasölu og að haft hafi verið samband við umboðsmann skráðs eiganda bifreiðarinnar.  Hún kvað þau samskipti hafa gengið erfiðlega og hafi ákærðu ætlað að hafa beint samband við eiganda bifreiðarinnar, sem staddur var í Kanada, en það hafi ekki tekist. 

Fyrir dómi neitaði ákærða Sigríður sök.  Hún lýsti þessum viðskiptum og að allir starfsmenn bílasölunnar hefðu haft samband við umboðsmann eiganda bílsins, sem hafi gefið munnlega heimild fyrir sölu bifreiðarinnar.  Engin skrifleg gögn séu til um þetta.

Vitnið G kvaðst hafa verið umboðsmaður eiganda bifreiðarinnar vegna sölu hennar.  Hann kvaðst engin tilboð hafa fengið vegna sölunnar og engin samskipti hafa átt við bílasöluna vegna þessa og hann hafi ekki vitað af sölu bílsins.

Niðurstaða ákæruliðar 5.

Samkvæmt vitnisburði G var ekki leitað eftir heimild hans vegna sölu bifreiðarinnar.  Engin skjöl benda til að svo hafi verið gert, enda bar ákærða Sigríður að aflað hafi verið munnlegs samþykkis.  Með vitnisburði G verður að telja ósannað að munnlegs samþykkis hafi verið leitað við sölu bifreiðarinnar. Annað samþykki liggur heldur ekki fyrir.  Er samkvæmt þessu sannað með skýlausri játningu Jóhanns, en gegn neitun ákærðu Sigríðar, að bifreiðin hafi verið seld án heimildar eins og lýst er í ákærunni.  Ósannað er að ákærðu hafi notað söluandvirði bifreiðarinnar í eigin þágu, en andvirðið var lagt inn á reikning bílasölunnar.  Háttsemi ákærðu er rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.         

F krefst þess að ákærðu verði dæmd til að endurgreiða sér kaupverð bifreiðarinnar auk vaxta.  Ekki voru tilkynnt eigendaskipti vegna sölu bifreiðarinnar og fékk skráður eigandi hana aftur í sínar vörslur.  Ákærðu eru bótaskyld vegna háttsemi sinnar og eru þau dæmd til að greiða Lazorik óskipt 370.000 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en krafan var birt ákærðu við þingfestingu málsins 20. maí 2003.

Ákæruliður 6.

Hinn 22. janúar 2002 barst lögreglu kæra vegna vipskiptanna sem hér um ræðir.  Í kærunni er lýst viðskiptunum og að greiða hafi átt upp áhvílandi veðlán, sem ekki hafi verið gert. 

Ákærði Jóhann játar sök. 

Hjá lögreglu lýsti ákærða Sigríður þessum viðskiptum og taldi hún meðákærða hafa annast þau að mestu.  Fjárhæðin sem hér um ræðir hafi verið lögð inn á reikning bílasölunnar og hafi fjármunir, sem nota átti til að greiða upp áhvílandi veðlán blandast saman við rekstrarfé bílasölunnar og lánið ekki verið greitt upp. 

Fyrir dómi bar ákærða Sigríður efnislega á sama veg og kvað hafa staðið til að greiða upp lánið, sem hvíldi á bifreiðinni, en það hafi ekki verið gert, en fjármunirnir hafi verið lagðir inn á reikning bílasölunnar.

Niðurstaða ákæruliðar 6.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða Jóhanns og með framburði ákærðu Sigríðar, þótt hún telji háttsemi sína ekki afbrot, og með öðrum gögnum málsins, að ákærðu hafi gerst sek um háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni. 

I krefst skaðabóta að fjárhæð 551.347 króna auk vaxta.  Sundurliðast kröfugerðin þannig að 462.703 krónur eru vegna eftirstöðva skuldarbréfsins, sem hvíldi á bifreiðinni og greitt hefur verið upp.  Það sem upp á vantar er krafa vegna lögmannskostnaðar auk virðisaukaskatts. Ákærðu eru bótaskyld vegna þessarar háttsemi sinnar og eru þau dæmd til að greiða I óskipt 462.703 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir, en upphafstími dráttarvaxta er 14. apríl 2003, en þá var mánuður liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærðu.  Auk þess greiði ákærðu I 30.000 krónur í lögmannsþóknun fyrir að halda kröfunni fram.

Ákæruliður 7.

Hinn 30. október 2002 kærði H viðskipti þau, sem hér um ræðir.  Kvaðst hann hafa selt bifreið sína og 110.000 krónur hafi verið eftir af söluverðinu hjá bílasölunni, sem hér um ræðir. Hafi átt að greiða áhvílandi veðskuld með þessum peningum, en það hafi ekki verið gert heldur hafi bílasalan dregið sér fé. 

Ákærði Jóhann játar sök. 

Hjá lögreglunni lýsti ákærða Sigríður aðkomu sinni að þessari sölu.  Hún kvað bílasöluna hafa tekið stóran hluta af söluandvirði bifreiðarinnar í því skyni að létta af bifreiðinni áhvíldandi veðskuld.  Hún taldi líklegast að fjármunirnir hefðu verið lagðir inn á reikning bílasölunnar.  Hún skýrði að bílalánið hafi ekki verið greitt, en fjármunirnir, sem nota átti til þess hafi runnið saman við rekstrarfé bílasölunnar, sem var illa stödd fjárhagslega. 

Fyrir dómi neitaði ákærða sök, en framburður hennar um þennan ákærulið og ákæruliðinn næstan hér að framan er efnislega á sama veg.

Niðurstaða ákæruliðar 7.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða Jóhanns og með framburði ákærðu Sigríðar, þótt hún telji háttsemi sína ekki brot, og með öðrum gögnum málsins, að ákærðu hafi bæði gerst sek um háttsemi þá sem hér um ræðir og er hún rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákæruliður II.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem hér um ræðir. 

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta og er brot ákærða rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

             Ákærði er bótaskyldur vegna þessarar háttsemi sinnar og er hann dæmdur til að greiða J krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir, en upphafstími dráttarvaxta er 14. apríl 2003, en þá var mánuður liðinn frá birtingu kröfunnar.

Sakarferill ákærðu hefur ekki áhrif á refsiákvörðun.  Refsing ákærðu er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir refsing ákærðu Sigríðar samkvæmt öllu ofanrituðu hæfilega ákvörðuð fangelsi í 7 mánuði.

Við refsiákvörðun ákærða Jóhanns er litið til þess til refsilækkunar að hann hefur skýlaust játað brot sín.  Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði. 

Langur tími er liðinn frá framningu brota og málið hefur einkum dregist vegna veikinda ákærða Jóhanns en samkvæmt vottorði Landspítala Háskólasjúkrahúss, dagsettu 26. maí 2004, hefur hann meira og minna verið inniliggjandi á sjúkrahúsinu frá því í október 2002.  

Þykir að öllu þessu virtu eftir atvikum rétt að fresta fullnustu refsingar beggja ákærðu skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hvors um sig falla niður að þeim tíma liðnum haldi hvort um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Jóhann greiði 150.000 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns Einars Þórs Sverrissonar héraðsdómslögmanns.

Ákærða Sigríður greiði 150.000 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns Rúnu Geirsdóttur héraðsdómslögmanns.

Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærða Sigríður Jóhannsdóttir sæti fangelsi í 7 mánuði.

Ákærði Jóhann Jóhannsson sæti fangelsi í 6 mánuði.

Fresta skal fullnustu refsivistar beggja ákærðu skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hvors um sig niður að þeim tíma liðnum haldi hvort um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði eftirtöldum aðilum skaðabætur og vexti óskipt:

A 670.000 krónur.

Ingvari Helgasyni hf. 1.669.000 krónur.

K 24.600 krónur auk dráttarvaxta frá uppsögu dómsins að telja og til greiðsludags.

Frumherja hf. 1.139.800 krónur auk dráttarvaxta frá 25. mars 2003 til greiðsludags.

             F 370.000 krónur auk drátarvxta frá uppsögu dómsins að telja og til greiðsludags.

             I 462.703 krónur auk dráttarvaxta af 462.703 krónum frá 14. apríl 2003 og til greiðsludags. Auk þess greiði ákærðu I óskipt 30.000 krónur í lögmannsþóknun.   

             Ákærði Jóhann greiði J 678.554 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. desember 2001 en síðan með dráttarvötum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá 14. apríl 2003  að telja og til greiðsludags.

Ákærði Jóhann greiði 150.000 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns Einars Þórs Sverrissonar héraðsdómslögmanns.

Ákærða Sigríður greiði 150.000 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns Rúnu Geirsdóttur héraðsdómslögmanns.

Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.