Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2002
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Miðvikudaginn 24. apríl 2002. |
|
Nr. 40/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Jóhanni Benedikt Hjálmarssyni (Örn Clausen hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
J var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni M, 13 ára, samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og stúlkunni K, 7 ára, eftir síðari málslið sama ákvæðis. Hann var hins vegar sýknaður af sakargiftum um brot gegn 194. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess, að eldri stúlkan var að verða 14 ára gömul, er umræddir atburðir gerðust, en refsimörk þessa hegningarlagaákvæðis eru við þann aldur, og ekki þótti sýnt fram á, að samskipti ákærða við stúlkuna hefðu í raun verið að óvilja hennar, þótt hann hefði að sönnu neytt yfirburða aldurs og þroska. J var gert að sæta fangelsi í 12 mánuði og jafnframt dæmdur til greiðslu skaðabóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var skotið til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 16. janúar 2002. Þess er krafist, að ákærði verði sakfelldur að fullu samkvæmt ákæru, refsing hans þyngd og hann dæmdur til að greiða stúlkunni M miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfi, og verði hún þá skilorðsbundin auk þess sem bótakröfur verði lækkaðar verulega. Til þrautavara krefst ákærði staðfestingar héraðsdóms.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Með skírskotun til forsendna dómsins er fallist á sakarmat hans. Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru varða við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en eftir II. kafla við síðari málslið ákvæðisins, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Samkvæmt þessu er ákærði sýknaður af þeim sakargiftum ákæruvaldsins að hafa komið fram vilja sínum gagnvart stúlkunni M með hótunum um ofbeldi, svo að varði við 194. gr. hegningarlaganna, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.
Við ákvörðun refsingar og skaðabóta er óhjákvæmilegt að líta til þess, að stúlkan M var á síðustu viku fjórtánda aldursárs, er umræddir atburðir gerðust, en refsimörk 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga eru við 14 ára aldur. Hefur ekki verið sýnt fram á, að samskipti ákærða við stúlkuna hafi í raun verið að óvilja hennar, þótt ákærði hafi að sönnu neytt yfirburða aldurs og þroska og stúlkan verið bæði líkamlega veik og veikgeðja. Í bréfi hennar til ákærða 26. júní 2001, sjö mánuðum eftir atburðina, kemur fram, að hún sakni hans mjög og hafi reynt að stöðva aðgerðir gegn honum. Af sérfræðilegum gögnum í málinu er jafnframt ljóst, að heilsufars- og félagslegar aðstæður stúlkunnar hafa verið afar bágbornar og virðast erfiðleikar þeir, sem hún hefur átt við að etja undanfarin misseri, stafa af fleiru en sambandi hennar við ákærða.
Með þessum athugasemdum er niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða og skaðabætur til stúlkunnar M staðfest með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti að því þó undanskildu, að ekki þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna. Ákvörðun héraðsdóms um skaðabætur til stúlkunnar K er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði skal greiða áfrýjunarkostnað málsins að fjórum fimmtu hlutum, eins og nánar greinir í dómsorði, en einn fimmti hluti kostaðarins fellur á ríkissjóð.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því, að refsing ákærða, Jóhanns Benedikts Hjálmarssonar, er óskilorðsbundin.
Ákærði skal greiða áfrýjunarkostnað sakarinnar að fjórum fimmtu hlutum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns M, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2001.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 24. ágúst 2001, á hendur Jóhanni Benedikt Hjálmarssyni, kt. 060876-5339, Sogavegi 22, Reykjavík. Það var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. fyrra mánaðar.
Sakarefni er: “... kynferðisbrot á árinu 2000:
I.
Fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni M, fæddri árið 1986:
1. Með því að hafa laugardaginn 18. nóvember, á salerni á 2. hæð Landspítalans í Fossvogi, fengið stúlkuna til að taka getnaðarlim sinn í munninn og sjúga hann, stungið fingrum sínum inn í leggöng hennar og haft við hana samræði.
2. Með því að hafa mánudaginn 20. nóvember, á salerni á 5. hæð Landspítalans í Fossvogi, með hótunum um ofbeldi þröngvað stúlkunni til að taka liminn í munninnn og strokið höndum um kynfæri hennar.
3. Með því að hafa, laugardaginn 25. nóvember, í bifreið ákærða sem hann hafði lagt í Öskjuhlíð í Reykjavík, fengið stúlkuna til að taka liminn í munninn og sjúga hann, sleikt kynfæri hennar og haft við hana samræði.
Brot skv. 1. og 3. tölulið teljast varða fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum og brot skv. 2. tölulið við 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. sömu laga.
II.
Fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni K, fæddri árið 1993, með því að hafa aðfaranótt 26. nóvember, á heimili hennar að ..., strokið kynfæri stúlkunnar utan klæða.
Telst þetta varða við síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Í ákæru er einnig getið tveggja bótakrafna, sem hljóða nú svo:
M, krefst miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 25.11.2000 til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar við réttargæslu að viðbættum virðisaukaskatti.
K, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 300.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi er bótakrafan var birt ákærða til greiðsludags og málskostnað samkvæmt framlögðum reikningi, sem er að fjárhæð kr. 113.750 auk virðisaukaskatts.
Ákærði krefst sýknu af II. lið ákæru. Hann krefst vægustu refsingar vegna I. liðar ákæru og sýknu af heimfærslu til 194. gr. almennra hegningarlaga. Verjandi hans krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
Mál var áður höfðað á hendur ákærða vegna sömu sakarefna með ákæru dagsettri 29. júní 2001. Því var vísað frá dómi 15. ágúst.
I. liður ákæru.
Rannsókn þessa þáttar hófst er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynnti lögreglu með bréfi 12. desember 2000 um að grunur hefði vaknað um kynferðisbrot gagnvart M er hún lá á barnadeild Landspítalans frá 17. október sama ár. Liggur frammi bréf ritað af Árna V. Þórssyni, yfirlækni og Helgu Hannesdóttur, barna- og unglingageðlækni, til Barnaverndarnefndar. Þar segir að M hafi legið á barnadeild undanfarnar vikur vegna alvarlegrar sykursýki, depurðar og sjálfsvígshugleiðinga. Fljótlega eftir að hún kom á sjúkrahúsið hafi hún kvartað um kláða á kynfærum og mikil óþægindi neðanvert í kvið. Við skoðun á kvensjúkdómadeild kom fram að hún hefði lifað kynlífi og væri með sveppasýkingu.
Fyrir dómi játaði ákærði að hafa í þau þrjú skipti sem rakin eru í ákæru haft kynmök við M. Sagði hann lýsingu ákæru rétta að öllu leyti nema hvað hann neitaði því að hafa hótað henni ofbeldi eins og lýst er í öðrum tölulið þessa hluta ákærunnar. Hann lýsti því nánar svo að þau hefðu sennilega verið komin inn á salernið á 5. hæð þegar hann hafi spurt hana hvað myndi gerast ef hann nauðgaði henni. Þetta hafi verið í samræðum þeirra áður en þau hófu kynmök. Við þau hafi hann ekki beitt neinu valdi. Hann hafi sagt við M að hún mætti ekki misskilja hann svo að hann ætlaði að beita valdi. Kynmök þeirra í þetta sinn hafi eins og í hinum tilfellunum verið með hennar vilja. Hann kannaðist aðspurður við að hafa sent M samtals 811 SMS-skilaboð. Meðal gagna málsins er yfirlit um SMS-sendingar úr síma ákærða. Þar má sjá að ákærði hefur sent þessi skilaboð í síma M á nokkrum stuttum tímabilum í október til desember 2000.
Ákærði sagði að þau hefðu kynnst í gegnum spjallrásir á netinu. Þar hefðu þau spjallað mikið, bæði um kynlíf og annað. Hann bar að fyrst hefði hann talið að M væri 16 ára gömul. Hann hefði hitt M fyrst eftir að hún var nýkomin inn á sjúkrahúsið. Hann gat ekki gefið nákvæm svör um það hvenær hann hefði komist að því að M var aðeins 13 ára gömul. Hann kvaðst alla vega hafa vitað það þegar þau höfðu kynmök í síðari tvö skiptin, en hann var ekki viss hvort hann hafi vitað það er þau höfðu kynmök í fyrsta sinn þann 18. nóvember. Hann neitaði því að hann hefði rætt við M um að halda sambandi þeirra leyndu.
Ákærði bar að hann hefði átt í erfiðleikum og að það hefði veitt honum ánægju að hjálpa þeim sem ættu við þunglyndi að stríða eins og M. Sagði hann að þetta hefðu verið erfiðir tímar hjá þeim báðum og þau reynt að hugga hvort annað. Hann hafi reynt að hjálpa henni í hennar veikindum, en sjálfur hafi hann verið atvinnulaus og í þunglyndiskasti. Hann kvaðst nú vera kvæntur og ættu þau hjónin von á barni. Hann tók sérstaklega fram að hann og eiginkona hans væru ekki með neinar sýkingar á kynfærum.
M gaf skýrslu á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð var í Barnahúsi 1. febrúar 2001. Þar kemur fram að hún og ákærði hafi haft kynmök eins og lýst er í ákæru. Aðspurð tekur hún svo til orða í byrjun: “...held að ég sé hérna af því við erum að fara að tala um nauðgunarmál.” Nokkru síðar nefnir hún ákærða til sögunnar og kallar hann fyrst fyrrverandi kærasta sinn. Síðan lýsir hún fundum þeirra á sjúkrahúsinu 18. og 20. nóvember. Kemur fram í máli hennar að hún hafi ekki viljað hafa mök við ákærða, en að hann hafi verið mjög ýtinn. Er rætt er nánar um atvikin kemur fram að atvikið 18. nóvember hafi ekki verið nauðgun. Nánar um atvikið 20. nóvember vísar hún til bréfs er hún hafði skrifað systur sinni, ..., og hafði verið afhent lögreglu. Aðspurð segir hún að það hafi ekki orðið nein átök, þeirra samskipti hafi verið mjög ljúf. Segir hún að ákærði hafi sífellt verið að spyrja hvað myndi gerast ef hann tæki hana með valdi. Á endanum hafi hún leyft honum að gera það því hún hafi ekki viljað að hann tæki hana með valdi. Þá kemur einnig fram að ákærði hafi spurt hana hvort hann ætti að nota smokk, en hún hafi neitað því. Loks skýrir M frá því í skýrslunni að hún og ákærði hafi haft kynmök í bifreið ákærða í Öskjuhlíð.
M segir frá því í skýrslunni að ákærði hafi sagt að þau þyrftu að halda sambandi þeirra leyndu þar sem það væri ólöglegt.
Loks kemur fram að M hafði haft kynmök í tvígang við annan pilt í september árið 2000.
Móðir M, ..., gaf skýrslu fyrir dómi. Hún sagði að M hefði verið lögð inn á Landspítalann í Fossvogi 17. október 2000. Á meðan hún var í sjúkrahúsinu hafi læknar þar sagt henni að hún væri ekki lengur hrein mey. Sjálf hafi hún sagt að ákærði hefði nauðgað sér 18. og 20. nóvember. Nánar sagði hún eftir M að þann 20. nóvember hefðu þau verið á salerni á 6. hæð og þar hefði hann ýtt henni niður og haldið um höfuðið á henni. Hún kvaðst hafa vitað að M hefði verið í sambandi við ákærða á netinu.
... sagði að dóttir sín hefði breyst talsvert eftir að hún fermdist. Hún hefði þá eignast tölvu og komist inn á netið. Þá hafi hún orðið skrýtin og meira inn í sig. Sérstaklega nefndi ... að er hún heimsótti dóttur sína 20. nóvember hefði hún verið mikið inn í sér, hefði brugðið er hún kom. Hún hefði þá ekki minnst á ákærða.
Hún sagði að núna væri M á meðferðarheimili að ... Taldi hún að henni vegnaði vel.
Systir M.,..., gaf skýrslu fyrir dómi. Hún sagði að hún hefði fyrst séð ákærða hjá M á spítalanum, þá hefði hann legið í rúminu hjá henni. Nokkrum vikum seinna hefði M sagt sér frá öllu sem gerðist milli þeirra. Kemur fram í skýrslu vitnisins að ákærði hafi haft allt frumkvæði í samskiptum þeirra og nauðað í M til að hafa við hana kynmök. Hún sagði að þær systur hefðu verið mjög samrýmdar. Eftir að M fór af sjúkrahúsinu og kom á barna- og unglingageðdeild hefði hún verið mjög þunglynd. Í tali hennar hefði hún þó ekki merkt neinar ásakanir á hendur ákærða. Núna eftir að hún hafði dvalið á meðferðarheimilinu á [ . . . ] væri henni sýnilega farið að líða betur.
... kvaðst hafa mætt ákærða áður hjá vinafólki sínu. Þar hefði hann rætt við hana og spurt hvort hún tryði því að hann hefði misnotað tvö börn kynferðislega.
Guðrún Marinósdóttir, félagsráðgjafi og starfsmaður á skrifstofu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún sagði að nefndinni hefði verið tilkynnt um M þann 29. nóvember 2000. Ætti hún við alvarlega erfiðleika og sjúkdóma að stríða, auk þess hefði hún líklega verið misnotuð kynferðislega á sjúkrahúsinu. Hún hafi verið flutt af sjúkrahúsinu á barna- og unglingageðdeildina og þaðan hafi hún farið á vistheimili við Laugarásveg. Þá hafi hún gengið í Dalbrautarskóla. M hafi farið heim til sín í lok mars og þá hafi hún meira og minna hætt að mæta í skólann, svo og í viðtöl í Barnahúsi. Síðan hafi nú í sumar komið í ljós að hún hafi verið hrædd við að fara inn á Landspítalann í Fossvogi þar sem hún hafi sett það í sambandi við þá atburði sem höfðu gerst. Loks hafi hún í september komist í meðferð á ... Hún hafi þá reynst illa haldin af sykursýkinni og verið lögð inn á sjúkrahús... Þar hafi þunglyndi hennar orðið mjög mikið og komið fram byrjandi nýrnaskemmdir vegna sykursýkinnar.
Guðrún lýsti því áliti sínu að vegna insúlíntöku væri M mjög barnaleg að sjá í vexti. Þá væri hún einnig barnaleg í sér að mörgu leyti. Hún taldi að M hefði verið vinalaus er hún komst inn á netið og hafi þráð vináttu. Persóna hennar einkenndist af einsemd, kvíða og vantrausti á fólk. Þá væri hún svartsýn á lífið. Hún staðfesti að M tæki þunglyndislyf. Þá lýsti hún því áliti að þunglyndi M mætti að hluta rekja til sambands hennar við ákærða.
Helga Hannesdóttir, geðlæknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Fram kom í skýrslu hennar að komið hefði í ljós á Landspítalanum, fljótlega eftir að M var lögð inn, að hún hefði lifað kynlífi og væri með kynsjúkdóm með sveppasýkingu. Þetta hefði verið nokkru áður en atvik þau urðu sem fjallað er um í málinu.
Helga sagði að læknar á barnadeildinni hefðu haft verulegar áhyggjur af versnandi líkamlegu ástandi M. Hún hefði grennst verulega og átt við vandamál að stríða sem þeim fannst bera keim af áfallastreitueinkennum. Hún hafi mætt illa í skóla og átt erfitt með að einbeita sér, hafi farið aftur í námi. Hún hafi greinilega orðið fyrir einhverjum áföllum. Það megi einnig rekja til þess að talsverðar breytingar urðu á högum hennar við skilnað foreldra og hún hafi ekki haft reglulega samband við föður sinn eftir skilnaðinn. Hún hafi verið ein og eftirlitslaus mikinn hluta dagsins heima hjá sér eftir skóla og átt að sprauta sig með insúlíni á kvöldin, en því hafi hún gleymt iðulega, sem hafi stuðlað að versnandi heilsu. Hún sé með mjög alvarlegan sjúkdóm.
Helga kvaðst hafa greint hjá M þunglyndi, sjálfsvígshugleiðingar og kvíðaeinkenni. Hún hafi einnig haft mikla sektarkennd. Hún hafi ýmis svokölluð lífefnafræðileg einkenni sem séu áberandi í alvarlegu þunglyndi og því hafi hún verið sett á kvíðalyf, sem vinni einnig á þunglyndi. Fljótlega eftir lyfjagjöfina hafi sjálfsvígshugleiðingarnar horfið.
Bertrand Andre Marc Lauth, geðlæknir, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann er læknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans við Dalbraut. Hann staðfesti að M hefði dvalið á deildinni frá því í desember 2000 til loka janúar á þessu ári. Hann lýsti M sem viðkvæmri stúlku og taldi að útlit samsvaraði aldri hennar, hún liti a.m.k. ekki út fyrir að vera eldri en hún í raun væri.
Í læknabréfi dagsettu 1. febrúar 2001, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, er lýst erfiðum aðstæðum M. Segir að hún hafi greinst með sykursýki 4 ára gömul og hafi oft legið á barnadeild. Síðan segir: “... M hefur látið í ljós fyrst mikil þunglyndiseinkenni með sjálfsvígshugsunum og líka mörgum einkennum sem benda til þess að hún hafi lent í mikilli vanrækslu. ... Eftir að hafa dvalið og fengið meðferð í einn mánuð á unglingageðdeildinni fór M að breytast mikið, þunglyndiseinkenni hurfu og M fór að taka þátt í öllu og sýna marga hæfileika. Ljóst er að hún þarf öruggt umhverfi og sér meðferðarúrræði undir ströngu eftirliti.”
Ragna Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi, starfsmaður Barnahúss, gaf skýrslu fyrir dómi. M var til meðferðar hjá henni um tíma. Hófst hún 21. febrúar 2001 og stóð fram á vor. Hún sagði að M hefði mætt óreglulega og loks hætt að koma, en þá var hún flutt af Vistheimilinu við Dalbraut. Hún taldi að þroski M væri ekki alveg í samræmi við aldur hennar, hún væri aðeins á eftir. Hún treysti sér ekki til að leggja mat á hvort útlit hennar svaraði til aldurs.
II. liður ákæru.
Þann 9. janúar 2001 bar ... fram kæru til lögreglu á hendur ákærða fyrir kynferðislega áreitni við dóttur sína, K. Í skýrslu lögreglu er skráð sú frásögn ... að K hafi komið að máli við hana að kvöldi 6. janúar og sagt að hún vildi segja henni svolítið. Hún hafi síðan náð í blað og skrifað: “Hann strauk á mér píkunna”. Áður hafi hún verið búin að nefna ákærða.
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum lið. Hann kveðst hafa verið kominn ... eftir að hafa verið með M í Öskjuhlíð eins og lýst var að framan. Þá hafi ... hringt í sig og beðið sig að passa börn hennar. Hann sagðist oft hafa verið þar heima hjá þeim. Hann hefði hins vegar aldrei áður passað börnin, K og yngri bróður hennar. Hann kveðst hafa komið inn á heimilið og þá hafi börnin verið sofandi. Hann hafi drukkið einn bjór á meðan hann var þar. Hann hefði farið strax í tölvuna og verið að vafra um internetið, verið að skoða heimasíður um bíla og fleira. K hefði einhvern tíma er móðir hennar var farin komið fram og spurt um móður sína. Ákærði kveðst hafa boðið henni vatnsglas og spurt hana hvort hún vildi horfa á teiknimynd í sjónvarpinu. Hún hefði ekki viljað neitt, en hefði setið smástund í sófanum og farið þá inn í rúm móður sinnar. Hún hefði orðið eitthvað fúl af því að hún vissi ekki að móðir hennar hefði ætlað út.
Í fyrstu skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins sagði ákærði að hann hefði setið allan tímann fyrir framan tölvuna. Hann hefði ekki sest í sófann þar sem K sat. Er hann var nánar spurður að loknum skýrslutökum af vitnum kvaðst hann hafa sest í sófann við hlið K og hefði hún setið með fætur uppi í sófanum og snúið baki að sér. Þá staðfesti ákærði að K hefði verið eitthvað skrýtin er hann hitti hana aftur nokkru fyrir jól.
Í skýrslu sinni fyrir dómi staðfesti ákærði sérstaklega aðspurður að hann hefði tvisvar áður verið kærður fyrir kynferðisbrot, en bæði málin hefður verið felld niður.
Tekin var skýrsla af K á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands sem háð var í Barnahúsi í Reykjavík 17. janúar. Þar segir K að hún hafi vaknað og ætlað að skríða upp í rúm til mömmu sinnar, en þá hafi mamma hennar ekki verið þar. Þá hafi ákærði verið þarna. Hún hafi ætlað að hringja í mömmu sína, en hafi ekki mátt það. Ákærði hafi setið í sófanum og verið með bjór á borðinu. Síðan hafi hún sest í sófann. Hún hafi endilega þurft að vera með fæturna í sundur. Aðspurð staðfesti hún að ákærði hefði sagt henni að hafa þær í sundur. Hún hafi verið í bol og nærbuxum. Framburður K er ekki skýr um það hvar ákærði var, en loks segir hún að hann hafi setið í sófanum líka. Nánar fékkst K ekki til að lýsa atvikinu, en hún skrifaði á blað er henni var rétt að ákærði hefði byrjað að strjúka á henni pjásuna og hún hefði sagt nei. Staðfesti hún að það væri rétt lesið. Nánar aðspurð sagði hún að ákærði hefði strokið utan við nærbuxurnar. Hefði hún setið með fætur upp í sófa og snúið baki í ákærða. Síðan hefði hún farið inn í rúm að sofa. Hún hefði síðan vaknað aftur og þá hefði mamma hennar verið komin heim aftur með sína vini. K kvaðst ekki hafa sofnað fyrr en klukkan sjö.
..., móðir K, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún sagði að ákærði hefði verið búinn að vera heimagangur á heimili hennar þetta haust. Þetta kvöld hafi sér verið boðið að fara út og hafi því verið að leita að einhverri til að passa börnin, en hann hafi þá boðist til að passa. Hún sagði að hann hefði ekki passað börnin áður. Hún sagði að börnin hefðu áður verið alveg sátt við ákærða. Í þetta sinn hafi þau ekki vitað að hún færi út þegar þau fóru að sofa, því hafi þau ekki vitað að ákærði yrði einn í húsinu með þeim.
... sagði að ákærði hefði komið til sín um miðnættið. Hún hefði farið út um eittleytið og komið aftur um þrjú. Þá hefði K verið vakandi og komið hlaupandi á móti sér. Hún hefði verið óörugg og eins og lítil í sér, en ekki sagt neitt. Hún taldi að ákærði hefði þá verið inni í stofu, hann hefði verið þar við tölvuna þegar hún fór. Ákærði hefði einu sinni eftir þetta komið heim til þeirra, en þá hefði K lokað alveg á samskipti við hann. Hafi hún sagt að hann væri leiðinlegur, en vildi ekki segja meira. Þetta hafi verið gjörbreytt afstaða til ákærða frá því sem áður hafði verið. Síðan er þær komu heim frá brennu á þrettándanum hafi K látið hana fá miða sem á stóð: “Hann strauk á mér píkunna”. Hafi hún sagst vera hrædd við að segja frá því en fram hafi komið að hún átti við ákærða. Þær hafi ekki rætt þetta meir, en ... kvaðst hafa kært til lögreglu.
... sagði að K hefði ekki orðið fyrir neinu slíku áður og hún kvaðst ekki þekkja hana af því að búa til sögur. Hún sagði að viðtöl sem starfsmenn Barnahúss tóku við hana hefðu gert henni gott, en hún væri oft mjög upptrekkt á kvöldin. Hún treysti sér ekki til að segja af hverju það væri.
Ragna Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi, var einnig spurð fyrir dómi um viðtöl sín við K. Hún kvaðst hafa hitt hana fimm sinnum á tímabilinu 23. janúar til 6. mars 2001. Hún sagði K ekki hafa viljað tala meira um þetta en hún hafði mjög ákveðnar skoðanir á því sem hafði gerst. Hún væri miðað við aldur ákveðin og sterkur persónuleiki. Hún hafði upplifað svik og hún var reið.
Niðurstaða.
Ákærði hefur játað kynmök við M þau þrjú skipti sem talin eru í ákæru. Bersýnilegt er að hann hefur verið ýtinn við M, en hann er talsvert eldri og þroskaðri en hún.
Eins og lýsing M á atvikinu þann 20. nóvember kemur fram nánar í skýrslu hennar er ljóst að ákærði hefur ekki komið fram vilja sínum til kynmaka við M með nauðung eða hótunum eins og brot samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga er afmarkað. Verður því að sýkna ákærða af ákæru fyrir brot gegn því ákvæði.
Við aðalmeðferð dró ákærði nokkuð í land með játningu sína hjá lögreglu þess efnis að hann hefði vitað að M væri aðeins 13 ára gömul er hann hafði mök við hana í fyrsta sinn. Hann játaði þó skýrlega að hann hafi vitað um aldur hennar er hann hafði mök við hana þann 20. og 25. nóvember og þvertók ekki fyrir að hafa vitað um aldur hennar áður en hann hafði mök við hana 18. nóvember. Í skýrslu hjá lögreglu 15. janúar segir ákærði skýrlega að hann hafi komist að því hvað M var gömul um það bil fjórum vikum fyrir afmæli hennar. Í skýrslu hjá lögreglu 23. mars segir ákærði um aldur M: “Ég held ég hafi vitað það, ég man það ekki.” Ekki var vikið að þessu atriði í lögregluskýrslu 10. apríl.
Við mat á þessum framburði ákærða verður einnig að líta til þess að M segir að ákærði hafi talað um að þau héldu sambandi þeirra leyndu. Þá hafa þeir sérfræðingar er gáfu skýrslur fyrir dómi lýst því áliti sínu að M hafi að minnsta kosti ekki litið út fyrir að vera eldri en hún í raun er. Þá hefur ákærði ekki getað gefið neinar skýringar á þessum breytta framburði sínum. Telur dómurinn ekki varhugavert að leggja til grundvallar að ákærði hafi þegar þann 18. nóvember 2000 vitað með vissu að M var aðeins 13 ára gömul. Hann hefur því þrívegis brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hafa strokið kynfæri K eins og lýst er í II. lið ákæru. Hefur framburður hans um atburði næturinnar verið staðfastur allt fram til þess er hann við lok aðalmeðferðar kvaðst hafa setið í sófanum við hlið stúlkunnar nokkra stund, en fram að því hafði hann ætíð borið að hann hefði setið á stól við tölvu þar hjá.
Framburður stúlkunnar er skýr og trúverðugur. Hún vildi ekki segja upphátt hvað ákærði hefði gert, en skrifaði það niður, fyrst fyrir móður sína og síðan á ný við skýrslutöku. Dregur þessi aðferð hennar ekki úr trúverðugleika hennar.
Dómurinn telur lýsingu stúlkunnar á atvikum og framburð hennar vera sterkt sönnunargagn. Allt látbragð stúlkunnar og frásagnarmáti er sannfærandi og skýr þegar aldur hennar er hafður í huga svo og almennur skilningur og þekking barna á þessum aldri. Hún greinir tímasetningar mjög nákvæmlega. Þá er fram komið að viðmót hennar við ákærða var mjög breytt er þau hittust nokkru eftir þetta atvik. Framburður móður stúlkunnar og Rögnu Guðbrandsdóttur, félagsráðgjafa, um framkomu stúlkunnar eftir atburðinn veita framburði hennar aukinn stuðning. Að þessu virtu þykir dóminum ekki varhugavert að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar sakfellingu ákærða. Fram er komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. lið ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum sem máli skipta hér. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að M var mjög veik er ákærði hafði kynmök við hana og lá á sjúkrahúsi. Þá hefur hann samkvæmt síðari lið ákæru brotið gegn ungu barni sem honum hafði verið treyst fyrir um stund. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Þar sem ákærði hefur ekki áður sætt refsingum og hefur nú stofnað fjölskyldu er rétt að fresta fullnustu níu mánaða af refsingunni undir almennu skilorði. Skilorðstími skal vera þrjú ár.
M krefst bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun bóta ber að líta til þess að hún á við talsverða erfiðleika að etja, en jafnframt að þeir verða ekki eingöngu raktir til atvika þeirra sem dæmt er um í þessu máli. Bætur til hennar eru ákveðnar 300.000 krónur. Rétt er að fjárhæðin beri dráttarvexti frá þeim degi er krafan var fyrst birt ákærða fyrir dómi, 15. ágúst 2001.
Bótakrafa K er einnig byggð á 26. gr. skaðabótalaga. Eru bætur til hennar ákveðnar 200.000 krónur. Rétt er að fjárhæðin beri dráttarvexti frá þeim degi er krafan var fyrst birt ákærða fyrir dómi, 15. ágúst 2001.
Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað. Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 200.000 krónur. Þá ber samkvæmt 44. gr. i laga nr. 19/1991, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999, að ákveða réttargæslumönnum brotaþola þóknun. Er hún ákveðin 80.000 krónur til hvors um sig.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, Sigurður Tómas Magnússon og Sigurður Hallur Stefánsson.
D ó m s o r ð
Ákærði, Jóhann Benedikt Hjálmarsson, sæti fangelsi í tólf mánuði. Fresta skal fullnustu níu mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði M 300.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 15. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði K 200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 15. ágúst 2001 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málvarnarlaun Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna, Helgu Leifsdóttur hdl., 80.000 krónur, og Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 80.000 krónur.