Hæstiréttur íslands
Mál nr. 107/2017
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Uppgjör
- Fyrirvari
- Endurupptaka bótaákvörðunar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2017. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 2.019.325 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 11. júní 2011 til 11. júlí 2015 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 27. janúar 2003 þegar stefndi B ók framan á bifreið hennar sem hún hafði stöðvað á gatnamótum […] og […] á […]. Bifreiðin sem hann ók var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Áfrýjandi og stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leituðu sameiginlega eftir því við tvo lækna að þeir létu í ljós álit sitt á afleiðingum slyssins fyrir áfrýjanda og hvenær ekki hefði verið að vænta frekari bata af þeim meiðslum sem hún hlaut. Í áliti þeirra 25. febrúar 2006 var komist að þeirri niðurstöðu að batahvörf hefðu verið 1. október 2003. Jafnframt töldu læknarnir varanlegan miska vegna slyssins vera 10 stig og varanlega örorku 10%. Að fenginni þessari niðurstöðu ritaði áfrýjandi kröfubréf 23. mars 2006 til stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. með svofelldum fyrirvara: „Tekið verður á móti bótunum með fyrirvara um endurmat komi til þess að afleiðingar slyssins reynist verri en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi mati. Eru hér einkum höfð í huga ... höfuðverkjaköst sem [A] hefur átt við að glíma og rakin eru til slyssins. Þekkt er að slík meiðsl kunna að reynast varasöm hvað þetta varðar.“ Í kjölfarið greiddi stefndi bætur til áfrýjanda 18. maí 2006 á grundvelli álits læknanna, en uppgjörið af hennar hálfu var samþykkt „með vísan til fyrirvara í kröfubréfi dags. 23.06.06“.
Á árinu 2010 sneri áfrýjandi sér til sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, vegna afleiðinga slyssins. Samkvæmt vottorði 20. mars 2013 leitaði áfrýjandi til sérfræðingsins 23. júlí 2010 vegna versnandi verkja í höfði og hnakka. Við skoðun hefði áfrýjandi haft eymsli í hnakkavöðvafestu vinstra megin. Samkvæmt vottorðinu leitaði áfrýjandi aftur til sérfræðingsins 1. mars 2013 en verkirnir hefðu farið stöðugt versnandi frá árinu 2010. Hún væri með verk daglega í höfði og sjúkraþjálfun hefði ekki borið árangur. Í vottorði sérfræðingsins 23. ágúst 2013 kom fram að sprautumeðferð hefði aðeins hjálpað tímabundið og lyfjameðferð verið hætt vegna aukaverkana. Þá sagði að áfrýjandi hefði daglegan seyðing í höfði sem versnaði við álag. Um horfur var tekið fram að ástandið væri varanlegt.
Áfrýjandi aflaði mats dómkvaddra manna um afleiðingar slyssins og skiluðu þeir mati sínu 15. febrúar 2014. Samkvæmt því var varanlegur miski áfrýjanda talinn 15 stig og varanleg örorka 15%. Áfrýjandi aflaði síðan yfirmatsgerðar 11. febrúar 2015 þar sem komist var að sömu niðurstöðu um varanlegan miska og varanlega örorku hennar.
II
Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um þýðingu fyrirvara sem áfrýjandi gerði í fyrrgreindu bréfi 23. mars 2006 til stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. þess efnis að áfrýjandi áskildi sér frekari bætur ef í ljós kæmi að afleiðingar slyssins breyttust til hins verra frá því sem var í upphaflegri álitsgerð. Leikur heldur enginn vafi á því að við uppgjör bóta til áfrýjanda 18. maí 2006 var vísað til fyrirvarans.
Af matsgerð 15. febrúar 2014 verður ráðið að einkenni áfrýjanda hafi farið versnandi eftir bótauppgjörið á árinu 2006. Við mat á varanlegum miska lögðu matsmenn til grundvallar að höfuðverkir hefðu aukist frá því sem áður var og mátu miskann hærri um 5 stig. Hvað varanlega örorku varðar töldu matsmennirnir að starfsgeta áfrýjanda væri skert af völdum slyssins og þá umfram það sem gert var ráð fyrir í því áliti sem lá til grundvallar uppgjörinu á árinu 2006. Töldu matsmennirnir að 5% skerðing á starfsgetu væri komin til eftir það tímamark. Með yfirmati var þessum atriðum ekki hnekkt, en þar var komist að sömu niðurstöðu um afleiðingar slyssins eins og áður er rakið. Samkvæmt þessu er sannað að ástand áfrýjanda hafi versnað frá árinu 2006 þegar henni voru greiddar bætur.
Með tölvubréfi 25. janúar 2013 féllst stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. á beiðni áfrýjanda um að bera ekki við tíu ára fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fram til 27. apríl 2013 vegna hugsanlegrar endurupptöku ákvörðunar um bætur til áfrýjanda. Þetta var þó bundið þeim fyrirvara að bætur kynnu þegar að vera fyrndar. Samkvæmt gögnum málsins var áhrifum fyrningar frestað nokkrum sinnum með sama fyrirvara. Þannig fólst ekki í fyrirvaranum áskilnaður um að bera fyrir sig fyrningu gegn kröfum sem voru ófyrndar. Einnig kom fram í tölvupósti stefnda 17. apríl 2015 að tilgangurinn með því að falla frá að bera fyrir sig fyrningu væri til að gefa áfrýjanda kost á að afla matsgerðar og til að gefa svigrúm til að taka afstöðu til hennar. Að þessu gættu verða yfirlýsingar stefnda um að falla frá fyrningu ekki taldar hafa verið bundnar við tíu ára frest í síðari málslið 99. gr. umferðarlaga þannig að kröfur hafi fyrnst á fjórum árum eftir fyrri málslið sömu greinar.
Svo sem hér hefur verið rakið versnuðu einkenni áfrýjanda á árinu 2009 eða 2010 og leitaði hún af því tilefni um mitt ár 2010 til sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum. Miða verður við að áfrýjandi hafi þá fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Af þessu leiðir að upphafsdagur fjögurra ára fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlög telst vera í árslok 2010. Samkvæmt þessu var krafa áfrýjanda ekki fyrnd þegar stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. samþykkti að bera ekki fyrir sig fyrningu. Þá er þess að gæta að stefndi B hefur ekki borið fyrir sig fyrningu á öðrum grunni en stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að kröfur áfrýjanda á hendur stefndu séu fyrndar.
Samkvæmt þeim fyrirvara sem áfrýjandi gerði við uppgjör bóta til hennar á árinu 2006 og með vísan til fyrrgreindra matsgerða verða kröfur á hendur stefndu teknar til greina eins og þær eru settar fram, en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.
Stefndu verður gert að greiða málskostnað í héraði, eins og í dómsorði greinir, og rennur hann í ríkissjóð.
Stefndu verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndu, B og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt áfrýjanda, A, 2.019.325 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 11. júní 2011 til 11. júlí 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Stefndu greiði óskipt 970.000 krónur í málskostnað í héraði sem rennur í ríkissjóð.
Stefndu greiði óskipt áfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2016.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. september sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] á hendur B, […] og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík með stefnu birtri 11. júní 2015.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd sameiginlega og óskipt til að greiða sér 2.019.325 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 11. júní 2011 til 11. júlí 2015, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún greiðslu málskostnaðar úr hendi þeirra eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik
Stefnandi lenti í umferðarslysi þann 27. janúar 2003. Atvik voru með þeim hætti að stefnandi hafði stöðvað bifreið sína á gatnamótum […] og […] á […] þegar stefndi B kom akandi eftir […] og ók framan á bifreið hennar.
Bifreiðin sem B ók var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá meðstefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og er greiðsluskylda hans óumdeild. Tryggingafélagið og stefnandi öfluðu sameiginlega matsgerðar frá læknunum C og D til að meta afleiðingar slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Helstu niðurstöður matsgerðar þeirra, sem dagsett er 25. febrúar 2006, voru þær að stefnandi hafi hlotið hálstognunaráverka með allútbreiddum einkennum, sérstaklega tíðum höfuðverkjum og töldu þeir varanlegan miska hennar í skilningi 4. gr. skaðabótalaga metinn 10 stig og varanlega örorku 10%.
Lögmaður stefnanda gerði kröfu á hendu tryggingafélaginu á grundvelli framangreindrar matsgerðar með bréfi dagsettu 23. mars s.á. Í bréfinu er að finna svohljóðandi fyrirvara: „Tekið verður á móti bótunum með fyrirvara um endurmat komi til þess að að afleiðingar slyssins reynist verri en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi mati. Eru hér einkum höfð í huga svo höfuðverkjaköst sem [A] hefur átt við að glíma og rakin eru til slyssins. Þekkt er að slík meiðsl kunna að reynast varasöm hvað þetta varðar.“ Félagið sendi lögmanninum fullnaðaruppgjör, dagsett 18. maí s.á. sem hann undirritar með svohljóðandi athugasemd: „Samþykkt með vísa til fyrirvara í kröfubréfi dags. 23.06.06.“ Stefnandi byggir á því að hér sé um misritun að ræða og tilvísunin eigi við um fyrirvarann í bréfi lögmannsins frá 23. mars 2006. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiddi stefnanda síðan skaðabæturnar, samtals að fjárhæð 4.976.800 krónur. Á kvittun frá félaginu segir að um fullnaðar- og lokagreiðslu sé að ræða vegna framangreinds slyss. Jafnframt segir að endurupptaka málsins komi því aðeins til álita að það verði leitt af almennum réttarreglum og er tekið fram að réttur til endurupptöku sé háður ströngum skilyrðum og því aðeins talin koma til greina að afleiðingar slyss verði í verulegum atriðum aðrar og meiri en gera mátti ráð fyrir þegar fullnaðaruppgjörið fór fram. Kvittunin er ódagsett og óundirrituð af hálfu lögmanns stefnanda en gert er ráð fyrir því í forprentuðum texta að hann riti undir kvittunina.
Stefnandi heldur því fram að á árinu 2010 hafi farið að bera á versnandi verkjum og aukinni þreytu. Í vottorði E, dagsettu 20. mars 2013, kemur fram að stefnandi hafi komið á stofu til hennar 23. júlí 2010 vegna versnandi verkja vinstra megin í höfði og hún hafi einnig verið með verki í hnakka. Er haft eftir stefnanda að sl. mánuð hafi verkir verið stöðugir og þrýstingur og sláttur í höfði. Við skoðun eru eymsli við hnakkavöðvafestu vinstra megin. Stefnandi fékk beiðni um sjúkraþjáfun. Í sama vottorði læknisins er greint frá komu stefnanda á stofu þann 1. mars 2013. Áfram er lýst verkjum sem ekki hafi batnað frá 2010. Meðferð hnykkjara hafi hjálpað tímabundið en sjúkraþjálfunarmeðferð ekki sögð hafa dugað. Að áliti læknisins gæti verið um „occipitalis neuroalgia“ að ræða og hún ráðgerði depomedrol spautur. Í vottorðinu er getið um að stefnandi hafi fengið slíkar sprautur í tvígang í mars 2013. Í lokavottorði sama læknis, dagsettu 23. ágúst s.á., kemur fram að stefnandi hafi haft tímabundinn bata af sprautum. Einnig að reynd hafi verið lyfjameðferð við höfuðverkjunum en þeirri meðferð hafi verið hætt vegna alvarlegra aukaverkana. Kveðst læknirinn ekki hafa fleiri ráð til að meðhölda stefnanda og telur að um varanlegt ástand sé að ræða.
Þann 25. janúar 2013 féllst tryggingafélagið á beiðni lögmanns stefnanda um að 10 árafyrningafrestur skv. 99. gr. umferðarlaga yrði framlengdur um þrjá mánuði eða fram til 27. apríl 2013. Félagið samþykkti beiðnina samdægurs en gerði fyrirvara um að krafan kynni þó þegar að vera fyrnd. Fresturinn var síðan framlengdur í nokkur skipti að beiðni lögmanns stefnanda, síðast til 12. júní 2015.
Þann 1. október 2013 lagði stefnandi fram í dómi beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að leggja mat á afleiðingar slyssins. F læknir og G hrl. voru dómkvaddir til verksins. Í niðurstöðu matsgerðar þeirra, sem dagsett er 15. febrúar 2014, kemur fram að þeir telja varanlegan miska stefnanda í skilningi 4. gr. skaðabótalaga vera 15 stig og varanlega örorku 15%. Stefnandi óskaði yfirmats sem unnið var af þeim H og I læknum og J hrl. Niðurstaða þeirra, sem fram kemur í matsgerð dagsettri 11. febrúar 2015, er sú að varanlegur miski og varanleg örorka sé sú sama og undirmatsmenn komust að.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Málssókn stefnanda er reist á skaðabótalögum, 1. mgr. 88. gr., 89. gr., 90. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og meginreglu skaðabótaréttar, um fullar bætur til tjónþola. Bifreið tjónvalds hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Krafa um skaðabætur er byggð á ákvæðum skaðabótalaga og niðurstöðum í matsgerðum dómkvaddra matsmanna. Stefndi B hafi verið umráðamaður og eigandi bifreiðarinnar […] og því sé málið einnig höfðað á hendur honum.
Stefnandi byggir á því að varanlegur miski hennar af völdum slyssins sé 15 stig og þess vegna eigi hún rétt á að fá greiddar viðbótarskaðabætur sem nemur fimm stigum, en stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi áður greitt henni miskabætur vegna 10 stiga miska. Stefnandi byggir einnig á því að varanleg örorka hennar af völdum slyssins er 15% og að hún eigi rétt á að fá greiddar viðbótarskaðabætur úr hendi stefnda sem nemur 5 prósentustigum, en stefndi hafi áður greitt henni bætur vegna 10% örorku. Krafa stefnanda byggir á matsgerðum dómkvaddra matsmanna, bæði undir- og yfirmati. Matsgerðir þessar sanni að miski og varanleg örorka hennar sé með þeim hætti sem hún byggi kröfu sína á og sönnunargildi þessara matsgerða hafi ekki verið hnekkt af hálfu stefnda.
Kröfur stefnanda í málinu byggi ekki á 11. gr. skaðabótalaga um endurupptöku bótaákvörðunar, svo sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. haldi nú fram, heldur á fyrirvara sem stefnandi gerði við uppgjörstillögu félagsins. Sá fyrirvari, sem hafi verið mjög skýr og settur ítrekað fram, hafi kveðið á um að frekari kröfur yrðu gerðar kæmi síðar í ljós að afleiðingar slyssins yrðu verri en metnar hafi verið í frummati. Hafi hið stefnda félag ekki hreyft neinum andmælum við fyrirvaranum og með því fallist á hann. Greiðslan sem félagið innti af hendi árið 2006 hafi því augljóslega ekki falið í sér fullnaðar- eða lokagreiðslu. Skilyrði 11. gr. skaðabótalaganna, um að ófyrirsjáanlegar breytingar verði að hafa orðið sem valdi verulegri hækkun á miska- og/eða örorkustigi tjónþola, hafa því hvorki þýðingu í málinu né áhrif á kröfu stefnanda um frekari skaðabætur þar sem það lagaákvæði eigi því aðeins við að máli sé lokið með endanlegum dómi eða samningi aðila.
Stefnandi byggir á því að kröfur hennar séu ófyrndar. Hún hafi leitað til læknis vegna versnandi einkenna árið 2010, svo sem staðfest sé með vottorði E, heila- og taugalæknis, dagsettu 20. mars 2013. Í vottorðinu segi m.a. „Kom á stofu 23.07.2010 versnað af verk vinstra megin í höfði og einnig verkur í hnakka. S.l. mánuð stöðugur verkur, þrýstingur og sláttur á höfði.“ Stefnandi hafi síðan verið til meðferðar hjá E þar til í ágúst 2013, sbr. vottorð læknisins dags. 23. ágúst 2013, sem engan árangur hafi borið. E þekki mjög vel til heilsufars stefnanda og einkenna fyrstu árin eftir slysið, sbr. vottorð hennar 26. apríl og 2. september 2005.
Þegar afleiðingar slyssins hafi verið metnar að nýju með undirmatsgerð og síðar yfirmatsgerð, hafi einkenni stefnanda verið svipuð og á árinu 2010 þegar hún leitaði til E. Einkenni hafi verið talsvert verri þegar þau voru metin að nýju heldur en þau voru í upphafi árs 2006, þegar stefnandi sat fund með frummatsmönnum. Samanburður á einkennum stefnanda, annars vegar eins og þeim er lýst í yfirmatsgerð og hins vegar þeim sem komu í ljós við skoðun frummatsmanna og lýst er í matsgerð þeirra, staðfesti það. Þar sem einkenni stefnanda hafi versnað árið 2010, án þess að meðferð hafi skilað árangri, sé varanlegur miski hennar og varanleg örorka hærri en frummatið geri ráð fyrir. Stefnandi mótmælir staðhæfingum stefndu um að möt dómkvaddra matsmanna feli í sér mat á sömu einkennum og frummatið lúti að. Einkennin hafi versnað á árinu 2010 og mat dómkvaddra matsmanna endurspegli það og staðfesti að varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda sé meiri en fram komi í niðurstöðu frummatsins.
Sú meginregla gildi í íslenskum rétti að skaðabótakröfur fyrnist á 10 árum frá slysdegi. Þessa reglu sé m.a. að finna í lokamálsgrein 99. gr. umferðarlaga. Stefnandi hafnar því að kröfur hennar séu fyrndar skv. undantekningareglu 99. gr. umferðarlaga. Samkvæmt ákvæðinu er upphafstími fjögurra ára fyrningareglunnar lok þess almanaksárs sem tjónþoli fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þegar bæði skilyrðin séu uppfyllt byrji fyrningarfrestur að líða. Versnandi einkenni stefnanda komu fyrst fram í ársbyrjun 2010, sbr. umfjöllun hér að framan. Fyrsti mögulegi upphafstími fyrningarinnar er því 1. janúar 2011. Önnur síðari tímamörk koma hugsanlega til greina, t.d. þegar árangurslausri meðferð á versnandi einkennum lauk á árinu 2013, þegar vottorð E lágu fyrir á árinu 2013 eða þegar undirmatsgerð lá fyrir 15. febrúar 2014, enda hafi stefnandi þá fyrst leitað fullnustu kröfu sinnar. Sé stefnanda gefinn umþóttunartími og möguleiki til að reyna meðferð eftir að versnandi einkenni komu fram, sé fyrsti mögulegi upphafstími fjögurra ára fyrningareglunnar 1. janúar 2012. Þar sem lok fjögurra ára fyrningarfrestsins séu, miðað við fyrsta mögulega tímamarkið, meira en tíu árum eftir að slysið átti sér stað, kemur sú fyrningarregla ekki til álita í málinu, heldur aðeins tíu ára fyrningarreglan í 99. gr. umferðarlaganna. Upphafstími fyrningafrests samkvæmt tíu ára reglunni er slysdagurinn 27. janúar 2003 og lok fyrningafrestsins því 27. janúar 2013. Hið stefnda félag hafi frá 25. janúar 2013 til 12. júní 2015 veitt stefnanda skuldbindandi yfirlýsingar um að bera ekki fyrir sig fyrningu skv. 99. gr. umferðarlaga. Af þessu leiði að krafa stefnanda um frekari skaðabætur vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 27. janúar 2003 hafi ekki verið fyrnd þegar málið hafi verið höfðað. Framangreint byggi einnig á orðalagi 99. gr. umferðarlaga og eðli máls samkvæmt er fjögurra ára fyrningafresturinn þýðingarlaus eftir að tíu ár eru liðin frá slysdegi.
Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu byggja á því að farið hafi fram fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör milli stefnanda og stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf. þann 18. maí 2006. Lögmaður stefnanda hafi samþykkt uppgjörið fyrir hönd stefnanda og hið stefnda félag innt af hendi greiðslu í samræmi við uppgjörið.
Þá byggja stefndu á því að fyrirvarinn sem lögmaður stefnanda gerði í kröfubréfi, dagsettu 23. mars 2006, hafi ekkert gildi gagnvart stefndu. Sá fyrirvari sem lögmaðurinn ritaði á fullnaðaruppgjörið vísi til kröfubréfs dagsetts 23. júní 2006 en ekkert kröfubréf með þeirri dagsetningu liggi fyrir í málinu. Verði stefnandi að bera hallann af hinni óskýru og röngu tilvísun.
Með vísan til framangreinds byggja stefndu á því að ekki sé unnt að taka upp bótauppgjör stefnanda vegna umferðarslyssins nema skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 11. gr. skaðbótalaga nr. 50/1993, séu fyrir hendi. Hvorki sé gerð krafa um endurupptöku á grundvelli nefndrar lagagreinar né færð fyrir því rök af hálfu stefnanda að skilyrði greinarinnar séu fyrir hendi. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu.
Jafnvel þótt framangreindu verði hafnað beri að sýkna stefndu á grundvelli þess að fyrirvarinn í kröfubréfinu frá 23. mars 2006 sé bæði ófullkominn og óskýr og heimili stefnanda ekki að setja fram frekari kröfur vegna slyssins. Fyrirvarinn vísi aðeins til þess að tekið sé á móti bótum með fyrirvara um endurmat en ekki vikið að því að stefnandi kunni að eiga frekari kröfur á hendur stefndu. Mótmælt sé staðhæfingum stefnanda um annað orðalag í fyrirvaranum. Samkvæmt viðurkenndum skýringaraðferðum á sviði samningaréttar og sjónarmiðum á sviði bótaréttar beri almennt að skýra slíka fyrirvara við bótauppgjör þröngt. Styðjist sú afstaða einnig við almennar reglur fjármunaréttar og heimildina í 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að afleiðingar slyssins hafi reynst verri en gert var ráð fyrir í mati læknanna C og D þann 25. febrúar 2006, svo sem gerður er fyrirvari um. Sönnunargildi matsgerða hinna dómkvöddu matsmanna er mótmælt að því leyti sem þau stangast á við samtímagögn um heilsufar stefnanda, s.s. læknisvottorð. Matsgerðirnar sanni ekki að heilsufar stefnanda hafi versnað eftir að frummat var unnið. Stefndu byggja á því að hinir dómkvöddu matsmenn hafi endurmetið með heildrænum hætti þær afleiðingar sem umrætt slys hafði í för með sér fyrir stefnanda og þær matsgerðir virðist leiða í ljós að upphaflegt mat hafi verið of lágt eða rangt, án þess að hægt sé að festa hendur á því að afleiðingar af slysinu séu verri en gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu mati. Geti fyrirvari sá sem lögmaður stefnanda setti fyrir bótagreiðslum þar af leiðandi ekki tekið til viðbótarkrafna stefnanda nú enda byggjast þær ekki á „verri afleiðingum umferðarslyssins“. Fyrirvarinn taki ekki til þess að upphaflega matið hafi ranglega vanmetið afleiðingar slyssins og geti því ekki verið forsenda frekari kröfugerðar stefnanda nú. Jafnvel þótt fyrirvarinn teldist fullgildur verði eftir sem áður að líta til sömu sjónarmiða varðandi mögulegan bótarétt stefnanda nú og gilda um endurupptöku á grundvelli 11. gr. skaðabótalaganna, þ.e. sýna verði fram á að ófyrirsjánalegar breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda og miska- og örorkustig sé verulega hærra en fyrri bótaákvörðun miði við. Ella væri með auðveldum hætti hægt að koma sér hjá hinum ströngu skilyrðum sem finna má í 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með því að gera alltaf fyrirvara við bótauppgjör.
Með hliðsjón af framangreindu mótmæla stefndu kröfum stefnanda um viðbótarbætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, þar sem ósannað sé að afleiðingar umferðarslyssins þann 27. janúar 2003 hafi reynst verri en gert var ráð fyrir í mati þeirra C og D, dags. 25. febrúar 2006. Eins og atvikum er hér háttað getur umræddur fyrirvari ekki heimilað stefnanda að setja fram viðbótarkröfur vegna meintra verri afleiðinga af umferðarslysinu. Þá er ljóst að miska- og örorkustig stefnanda uppfyllir ekki það skilyrði að vera verulega hærra en við fyrri bótaákvörðun.
Í þriðja lagi byggja stefndu á því að orsakatengsl á milli slyssins og þeirra afleiðinga líkamstjóns, sem stefnandi kveður það hafa valdið sér, séu með öllu ósönnuð. Kunna ýmis önnur ytri atvik að hafa haft áhrif á ætluð versnandi einkenni stefnanda en umferðarslysið 27. janúar 2003. Þannir er því hafnað að sannað sé að slysið hafi valdið stefnanda meiri miska og varanlegri örorku en frummatið leiddi í ljós og þegar greiddar bætur tóku mið af.
Í fjórða lagi byggja stefndu á því að krafa stefnanda hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað með birtingu stefnu 11. júní 2015. Bótakrafan sé reist á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, en um fyrningu slíkra krafna gildi sérákvæði 99. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist krafa stefnanda á hendur stefndu á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem hún fékk vitneskju um kröfuna og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Samkvæmt skýrri dómaframkvæmd beri að miða við að upphaf fyrningarfrests sé í lok þess árs þegar stöðugleikatímapunktur hefur verið ákveðinn af matsmönnum eða það tímamark þegar tjónþola mátti fyrst vera ljóst að hann hefði hlotið varanleg mein af slysinu og þar með átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Í öllum fyrirliggjandi matsgerðum sé stöðugleikapunktur talinn vera 1. október 2003. Fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga hafi hafist í árslok 2003 og krafan fyrnd fjórum árum síðar, í árslok 2007. Fallist dómurinn ekki á framangreint viðmið byggja stefndu á því að upphaf fyrningarfrest beri að miða við upphaf ársins 2010. Vísa stefndu til þess að stefnandi lýsi sjálf versnandi einkennum sínum á árinu 2009. Verði á það fallist að stefnandi hafi haft slík versnandi einkenni, verði að miða við að hún hafi á árinu 2009 haft tilefni til að láta meta þær auknu afleiðingar frá þeim tíma og upphaf fyrningarfrests beri því að miða við upphaf ársins 2010 út frá þessari forsendu. Í öllu falli sé ekki hægt að ákvarða upphaf fjögurra ára fyrningarfrests síðar en þann 1. janúar 2011, sé höfð hliðsjón af því að þann 23. júlí 2010 leitaði stefnandi til læknis vegna meintra versnandi verkja í höfði. Með því hafi stefnanda átt að gefast tilefni til að láta meta hin meintu versnandi einkenni þannig að fyrningarfrestur verður talinn hefjast ekki síðar en 1. janúar 2011.
Að öllu framangreindu virtu telja stefndu að það skipti ekki máli hver af framangreindum upphafsdögum fyrningar sé notaður til viðmiðunar, þar sem niðurstaðan verði alltaf sú að hinn fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi verið liðinn áður en stefnandi höfðaði mál þetta með áritun á stefnu þann 11. júní 2015. Sé viðbótarkrafa stefnanda á hendur stefndu þar af leiðandi fallin niður fyrir fyrningu og ber af þeim sökum að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Í fimmta lagi telja stefndu að, verði stefnandi talin hafa átt lögmætar viðbótarkröfur í málinu þá séu þær fallnar niður fyrir tómlæti. Stefnandi hafi ekki gert nokkurn reka að því að láta meta versnandi einkenni sín fyrr en á árinu 2013 eða um fjórum árum eftir að hún telur sjálf að verkir hafi farið versnandi. Verður þar af leiðandi að sýkna stefndu af kröfum stefnanda á grundvelli almennra reglna um tómlætisáhrif.
Varakröfu um lækkun kröfu byggja stefndu á sömu sjónarmiðum og aðalkröfuna, eins og að framan er rakið, og því að varanlegar afleiðingar slyssins séu ofmetnar í matsgerðum dómkvaddra matsmanna. Þá er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð sem nemur öðrum greiðslum frá þriðja manni sem stefnandi hefur fengið eða á rétt á og eiga að koma til frádráttar skaðabótum með vísan til 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þá mótmæla stefndu alfarið kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort stefnandi eigi rétt til frekari greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu vegna umferðarslyss sem hún lenti í 27. janúar 2003. Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hafa þegar greitt henni skaðabætur vegna slyssins á grundvelli matsgerðar sem aðilar öfluðu sameiginlega á árinu 2006. Niðurstaða þeirrar matsgerðar var sú að varanlegur miski stefnanda væri 10 stig og varanleg örorka 10%. Í fyrirliggjandi matsgerðum dómkvaddra matsmanna og yfirmatsmanna er niðurstaðan hins vegar sú að varanlegur miski hennar sé 15 stig og varanleg örorka 15%. Deilt er um það hvort stefnandi hafi með gildum hætti gert fyrirvara um frekari bætur og hvort matsgerðir dómkvaddra matsmanna feli í sér mat á breyttum einkennum eða annað mat á þeim einkennum sem metin voru í upphaflegri matsgerð. Þá er ágreiningur um það hvort möguleg krafa stefnanda sé fyrnd og er í því efni bæði deilt um lengd fyrningarfrest og við hvaða tíma beri að miða upphaf fyrningarfrests.
Hvað varðar fyrirvarann sem stefnandi ber fyrir sig, þá liggur fyrir að þáverandi lögmaður hennar setti fram kröfu um greiðslu skaðabóta með bréfi til Sjóvá-Almennra trygginga dagsettu 23. mars 2006. Byggði hann kröfuna á þeirri matsgerð sem aðilar höfðu aflað sameiginlega. Í kröfubréfinu setti hann fram eftirfarandi fyrirvara: „Tekið verður á móti bótunum með fyrirvara um endurmat komi til þess að að afleiðingar slyssins reynist verri en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi mati. Eru hér einkum höfð í huga svo höfuðverkjaköst sem [A] hefur átt við að glíma og rakin eru til slyssins. Þekkt er að slík meiðsl kunna að reynast varasöm hvað þetta varðar.“ Lögmaðurinn ritar svo á fullnaðaruppgjör félagsins samþykki „með vísan til fyrirvara í kröfubréfi dags. 23.6.2006.“ Í málinu liggja ekki fyrir önnur gögn sem varpa ljósi á skilning aðila á þessum fyrirvara eða afstöðu stefndu til hans. Að mati dómsins verður að skilja framangreindan fyrirvara, með hliðsjón af orðalagi hans, á þann hátt að stefnandi áskilji sér frekari bætur, ef í ljós kemur að afleiðingar slyssins breytist til hins verra frá því sem var þegar upphaflega matsgerðin var unnin. Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnda að skilyrði slíks fyrirvara sé að einkenni verði að versna verulega og að það hafi verið ófyrirséð að þau myndu gera það, svo sem á við þegar krafist er endurskoðunar bóta á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga. Fyrirvarinn er einmitt settur fram til að gera tjónþola unnt að krefjast bóta án þess að skilyrði 11. gr. séu fyrir hendi enda er engin þörf á að hafa uppi slíkan fyrirvara til að öðlast rétt til endurskoðunar bótaákvörðunar á grundvelli þeirrar greinar. Þá getur það ekki valdið vafa að lögmaðurinn vísaði til þessa fyrirvara með áritun sinni á fullnaðaruppgjörið, þótt dagsetning hafi misritast, enda ekki öðru kröfubréfi eða öðrum fyrirvara fyrir að fara í málinu. Með vísan til þessa er hafnað málsástæðum stefnda sem lúta að því að fyrirvarinn hafi ekki gildi.
Kemur þá næst til skoðunar hvort stefnandi hafi sýnt fram á að afleiðingar slyssins hafi í reynd versnað frá því upphaflega matsgerðin var unnin.
Stefnandi staðhæfir, og byggir málatilbúnað sinn á því, að einkenni sín hafi versnað á árinu 2010 og verið verri upp frá því. Til stuðnings þessari staðhæfingu hefur hún lagt fram ýmis gögn, m.a. tvö vottorð E, heila- og taugalæknis. Fyrra vottorðið er sent lögmanni stefnanda 20. mars 2013. Þar kemur fram að stefnandi hafi leitað til læknisins 23. júlí 2010 vegna versnandi verkja í höfði og hnakka og segir í vottorðinu að verkir séu stöðugir og þrýstingur og sláttur sé í höfði. Við skoðun hafi stefnandi haft eymsli í hnakkavöðvafestu vinstra megin. Í þessari skoðun fékk stefnandi beiðni um sjúkraþjálfun, auk þess sem læknirinn bókar að grunur sé um „occipitalis neuralgia“ (hnakkataugarverkur) vinstra megin. Aftur leitar stefnandi til sama læknis 1. mars 2013 og segir að verkir hafi ekki batnað frá síðustu komu og reyndar farið stöðugt versnandi. Sagt er frá því að stefnandi hafi leitað til sjúkraþjálfara en sú meðferð hafi ekki borið árangur. Í kjölfar þessarar heimsóknar fær stefnandi „depomendrol“ sprautur tvisvar sinnum, 8. og 20. mars sama ár vegna taugaverkjanna og kemur fram að meta skuli árangur af þeirri meðferð í byrjun júní. Í síðara vottorðinu, sem sent er lögmanni stefnanda 23. ágúst 2013, er því lýst að sprauturnar hafi einungis virkað tímabundið, reynd hafi verið lyfjameðferð, sem hafi verið hætt vegna verulegra aukaverkana. Segir um ástand stefnanda að hún sé með daglegan seyðing vinstra megin í höfði sem versni mikið við álag. Um sé að ræða varanlegt ástand og ekki séu frekari meðferðarúrræði fyrir hendi.
Í niðurstöðu undirmatsgerðar segir m.a. varðandi varanlegan miska stefnanda að hún hafi höfuðverki sem rekja megi til hálstognunar og einnig taugræna verki frá vinstri hnakkataug, svonefnda occipital neuralgia eða hnakkataugarverk. Þá sé stefnandi með allútbreidd vöðvaeymsli um ofanverðan líkama, leiðniverk og dofa í vinstri griplim sem rekja megi til vöðvaspennu í hálsi og herðavöðvum. Telja matsmenn þessi einkenni tengjast slysinu. Telja þeir varanlegan miska 15 stig. Um varanlega örorku segir í niðurstöðu matsgerðar að starfsgeta stefnanda sé verulega skert vegna slyssins „umfram það sem gert var ráð fyrir í fyrra mati frá því á árinu 2006“. Varanlega örorku telja matsmenn vera 15% og í niðurstöðu er tekið fram að „5% [sé] vegna skerðingar á starfsgetu sem komin er til eftir fyrra mat frá 26.02.2006“.
Það sem að framan er rakið úr vottorðum E og undirmatsgerðinni styður staðhæfingar stefnanda um að einkenni hennar hafi versnað á árinu 2009 eða 2010 og megi m.a. rekja það til taugrænna verkja frá vinstri hnakkataug. Að þessu er ekki vikið í yfirmatgerðinni sem þó er samhljóða undirmatsgerð að því er varðar mat á varanlegum afleiðingum slyssins á heilsufar og örorku stefnanda. Dómkvaddir matsmenn voru hins vegar ekki beðnir um að svara þeirri spurningu hvort einkenni stefnanda hefðu versnað eftir að upphaflega matið var unnið, heldur einvörðungu að svara því hver sé varanlegur miski og varanleg örorka stefnanda.
Að mati dómsins gefa framangreind gögn vísbendingar um að ástand stefnanda hafi í reynd versnað frá því að upphafleg matsgerð var unnin á árinu 2006. Á hinn bóginn er ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort stefnanda hafi tekist full sönnun þessarar staðhæfingar nema það sé niðurstaða dómsins að krafa hennar sé ófyrnd.
Um fyrningu kröfu stefnanda gilda ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en þar segir: „Allar bótakröfur samkvæmt þessum kafla, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.“ Samkvæmt þessu er almenna reglan sú að kröfur samkvæmt nefndu ákvæði fyrnast á fjórum árum frá skilgreindu tímamarki, þó þannig að kröfur fyrnist í síðast lagi á 10 árum frá slysdegi. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, er fyrningu slitið þegar mál telst höfðað, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 1. mgr. 11. gr. eldri fyrningarlaga nr. 14/1905. Óháð því hvort talið verði að krafa máls þessa hafi orðið til fyrir eða eftir gildistöku yngri fyrningarlaga er óumdeilt að fyrningu var slitið með áritun stefndu um birtingu stefnu þann 11. júní 2015.
Svo sem að framan er rakið fær staðhæfing stefnanda, um að einkenni hennar hafi versnað á árinu 2010, stoð í ýmsum gögnum málsins, m.a. framangreindu vottorði E frá 20. mars 2013 sem staðfestir að stefnandi hafi leitað til hennar um mitt ár 2010 vegna versnandi einkenna. Í báðum matsgerðum er haft eftir henni að einkennin hafi farið að versna þegar á árinu 2009. Með hliðsjón af þessu verður við það að miða að á árinu 2010, þ.e. eftir að stefnandi leitaði til læknis vegna versnandi einkenna og henni var vísað í sjúkraþjálfun til að reyna að meðhöndla þau einkenni, hafi henni mátt vera kunnugt um þau atvik sem krafa hennar byggir á, þ.e. að afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en komin voru í ljós þegar upphaflega matið var gert. Þá verður jafnframt að líta svo á að á sama tíma hafi verið tímabært að hefjast handa við að afla gagna til að staðreyna það tjón og setja fram kröfu þar að lútandi á grundvelli fyrirvara um það, sem stefnandi gerði á sínum tíma. Stefnandi gerði hins vegar ekki reka að því að afla gagna til stuðnings kröfu sinni fyrr en ríflega þremur árum síðar, eða í október 2013 þegar hún lagði fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna, en skömmu áður hafði verið óskað eftir lokavottorði frá lækni hennar. Engin skýring er á því hvers vegna stefnandi hófst ekki handa við gagnaöflun fyrr og engin haldbær rök eða gögn hafa verið færð fyrir dóm um að það hafi ekki verið unnt að leggja mat á ástand hennar fyrr. Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt fyrir liggi að reynt hafi verið að meðhöndla höfuðverki stefnanda með nýjum aðferðum á árinu 2013. Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að mati dómsins að miða við það að skilyrði þess að fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1988 hafi byrjað að líða við árslok 2010 og krafa stefnanda hafi því fyrnst í árslok 2014. Það er áður en hið stefnda tryggingafélag gaf fyrst yfirlýsingu um að bera ekki fyrir sig 10 ára fyrningarfrestinn og áður en fyrningu kröfunnar var slitið með málshöfðun þessari þann 11. júní 2015. Verða stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda.
Með hliðsjón af atvikum máls, og vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, er málskostnaður milli aðila felldur niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar og greiðist því allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Styrmis Gunnarssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 970.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Stefndu, B og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Styrmis Gunnarssonar hdl., 970.000 krónur.