Hæstiréttur íslands

Mál nr. 46/2017

A, B, C og D (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)
gegn
E (Björn L. Bergsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Fyrirframgreiddur arfur
  • Endurgreiðslukrafa

Reifun

Við opinber skipti á dánarbúi F krafðist E þess að A, B, C og D yrði gert að greiða til baka ofgreiddan fyrirframgreiddan arf sem þau hefðu fengið úr hendi F þannig að hallað hefði á G, föður hennar. Í úrskurði héraðsdóms var krafa E tekin til greina og A, B, C og D gert að endurgreiða dánarbúinu nánar tilgreindar fjárhæðir. Í dómi Hæstaréttar var tekið undir þá niðurstöðu héraðsdóms að fyrrgreindir aðilar hefðu fengið mun meiri fjárverðmæti en faðir E. Með vísan til 32. gr. erfðalaga nr. 8/1962, og þar sem A, B, C og D hefðu ekki skuldbundið sig til þess að standa dánarbúinu skil á því sem þau kynnu að hafa fengið umfram arfshluta sinn, var kröfu E um endurgreiðslu á hinn bóginn hafnað, enda væru ekki efni til að skýra fyrrgreint ákvæði á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan og ósannað væri að F hefði lýst sérstaklega þeim vilja sínum að fyrirframgreiddur arfur til skylduerfingja hans skyldi vera jafn. Að öðru leyti var hafnað þeirri málsástæðu A, B, C og D að málinu hefði ekki verið réttilega beint til héraðsdóms á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., og sömuleiðis þeim röksemdum aðilanna að ómerkja bæri hinn kærða úrskurð þar sem héraðsdómara hafi brostið heimild til að endurupptaka málið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2017, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi málsaðila, sem reis við opinber skipti á dánarbúi F, sem var faðir sóknaraðila og föðurafi varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara frávísunar málsins frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefjast þau ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins en að öðrum kosti að kröfur varnaraðila verði lækkaðar. Þá krefjast sóknaraðilar aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um málskostnað og kærumálskostnaður felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem hún hefur fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Með vísan til 2. mgr. 161. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr., laga nr. 91/1991 verður fyrst leyst úr þeim kröfum sóknaraðila, sem lúta að formi málsins.

Kröfu sína um að málinu verði vísað frá héraðsdómi reisa sóknaraðilar á því að varnaraðili sé ekki réttur aðili þess og geti ekki gert þær dómkröfur sem settar séu fram í héraðsgreinargerð hennar. Telja sóknaraðilar að þegar ágreiningi þeirra og varnaraðila var skotið til héraðsdóms af hálfu skiptastjóra, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991, hafi ekki verið fullnægt skilyrðum 3. mgr. 68. gr. laganna til þess að varnaraðili færi með málið samkvæmt þeim skilmálum sem ákvæðið mælir fyrir um. Í bréfi skiptastjóra 17. desember 2015 til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem ágreiningi málsaðila var vísað til úrlausnar dómsins, var gerð grein fyrir málsatvikum og í hverju ágreiningurinn fælist. Þá sagði að skiptastjóri teldi að dánarbúið ætti ekki að vera aðili að málinu. Er málið var fyrst tekið fyrir í héraðsdómi var bæði mætt af hálfu sóknaraðila og varnaraðila. Samkvæmt endurriti úr þingbók var bókað hver skyldi vera til sóknar og hver til varnar. Með bréfi skiptastjóra 7. desember 2016 staðfesti hann að gert hefði verið ráð fyrir að varnaraðila hér fyrir dómi væri heimilt að hafa uppi kröfu í málinu dánarbúinu til hagsbóta en á eigin kostnað og áhættu. Samkvæmt framansögðu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að málinu hafi verið réttilega beint til dómsins á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 68. gr., laga nr. 20/1991.

Kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi styðja sóknaraðilar einnig við þau rök að málatilbúnaður varnaraðila sé vanreifaður að því leyti að ekki sé gerð grein fyrir því hvernig sá ,,fyrirframgreiddi arfur sem faðir varnaraðila fékk í sinn hlut frá föður sínum árið 1983 í formi greiðslu erfðafjárskatts, eigi að hafa áhrif á samanburðinn við greiðslur til sóknaraðila.“ Meðal gagna sem fylgdu bréfi skiptastjóra 17. desember 2015 til héraðsdóms, þar sem ágreiningi aðila var vísað til úrlausnar dómsins, var erfðafjárskýrsla 24. nóvember 1983, en þar kom fram mat á þeirri fasteign sem faðir varnaraðila fékk sem fyrirframgreiddan arf, svo og að erfðafjárskattur væri 44.000 krónur. Atvik að þessu leyti lágu því fyrir í upphafi málsmeðferðar í héraði. Sóknaraðilar tefldu þó ekki fram þeirri málsástæðu í héraði að greiddur erfðafjárskattur ætti að hafa áhrif við mat á verðmæti þess fyrirframgreidda arfs sem um ræddi. Er því málsástæða um þetta of seint fram komin og verður ekki tekið tillit til hennar.

Þá krefjast sóknaraðilar ómerkingar hins kærða úrskurðar þar sem héraðsdómara hafi, eftir að málið var tekið til úrskurðar, brostið heimild til að endurupptaka það samkvæmt 104. gr. laga nr. 91/1991. Við endurupptöku málsins 15. desember 2016 var bókað í þingbók að tilefni endurupptökunnar hafi verið að dóminum hafi 8. sama mánaðar borist bréf skiptastjóra 7. þess mánaðar þar sem tekið var af skarið um að varnaraðila hér fyrir dómi hafi verið heimilt að reka málið á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Dómari taldi þannig að á skorti um skýrleika bréfs skiptastjóra 15. desember 2015 og endurupptók málið til að unnt væri að leggja fram bréf skiptastjórans þar sem tekið var af skarið um rétt varnaraðila til málarekstursins. Verður hafnað röksemdum sóknaraðila um að þetta eigi að leiða til ómerkingar úrskurðar héraðsdóms.

II

Röksemdir sóknaraðila fyrir því að þeim beri ekki að endurgreiða dánarbúi F þann fyrirframgreidda arf sem þau fengu frá hinum látna og var umfram það sem faðir varnaraðila, sem var samfeðra þeim, hafði fengið eru reifaðar í hinum kærða úrskurði.

Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdóms að sóknaraðilar hafi fengið sem fyrirframgreiddan arf mun meiri fjárverðmæti en faðir varnaraðila og jafnframt staðfest niðurstaða dómsins um hvernig skuli framreikna einstök fjárverðmæti, sem greidd voru eða afhent, á grundvelli 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Stendur þá eftir að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðilum beri að endurgreiða þær fjárhæðir sem greinir í hinum kærða úrskurði eða hvort 32. gr. erfðalaga standi því í vegi að slík endurgreiðsla verði knúin fram. Ósannað er í málinu að F hafi lýst sérstaklega þeim vilja sínum að fyrirframgreiddur arfur til skylduerfingja hans skyldi vera jafn. Áritun á erfðafjárskýrslu 21. júlí 2010, um að jöfnun arfs muni fást með peningagreiðslu, var ekki gerð af honum, heldur eiginmanni sóknaraðilans B á skrifstofu sýslumanns eftir að arfláti, sem ekki var viðstaddur, ritaði nafn sitt á skýrsluna. Þá liggur ekki fyrir að sóknaraðilar hafi skuldbundið sig til þess að standa dánarbúinu skil á því sem þau kynnu að fá umfram arfshluta sinn eða að aðrar ástæður eigi að leiða til þess að þeim sé slík endurgreiðsla skyld. Eru atvik málsins því með öðrum hætti en í dómi Hæstaréttar 20. apríl 2012 í máli nr. 133/2012. Eru ekki efni til að skýra 32. gr. erfðalaga á annan veg en samkvæmt orðanna hljóðan. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um endurgreiðslu sóknaraðila á þeim fjárverðmætum sem þau hafa fengið umfram arfshluta sinn eftir föður þeirra.

Staðfest verður málskostnaðarákvæði héraðsdóms, svo og niðurstaða hans um gjafsóknarkostnað.

Sóknaraðilar kröfðust hér fyrir dómi bæði frávísunar málsins frá héraðsdómi og ómerkingar hins kærða úrskurðar, en þeim kröfum var báðum hafnað. Verður málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, E, um að sóknaraðilar A, B, C og D, greiði dánarbúi F fé sem svari til þess sem þau fengu sem fyrirframgreiddan arf umfram arfshluta sinn.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms og niðurstaða hans um gjafsóknarkostnað varnaraðila eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2017.

Mál þetta barst dóminum 18. desember 2015 með bréfi skiptastjóra dánarbús F, kt. [...], sem lést [...], síðast til heimilis að [...].

Sóknaraðili er E, kt. [...],[...], með aðsetur að [...],[...]. Varnaraðilar eru A, kt. [...],[...], C, kt. [...], B, kt. [...],[...] og D, kt. [...],[...].

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðilum verði gert að greiða dánarbúi F, kt. [...], 15.126.137 krónur „pro rata“ þannig að varnar­aðilinn D greiði 4.530.278 krónur, varnaraðilinn A greiði 4.507.589 krónur, varnaraðilinn C greiði 4.507.589 krónur og varnaraðilinn B greiði 1.580.681 krónu, með dráttarvöxtum af framangreindum fjárhæðum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi máls þessa, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna.

Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðilum verði gert að greiða dánarbúi F, kt. [...], 7.735.181 krónu „pro rata“ þannig að varnar­aðilinn D greiði 2.316.687 krónur, varnaraðilinn A greiði 2.305.084 krónur, varnaraðilinn C greiði 2.305.084 krónur og varnaraðilinn B greiði 808.326 með dráttar­vöxtum af framangreindum fjárhæðum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi máls þessa, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna.

Í báðum tilfellum krefst sóknaraðili málskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál og að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðilar krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum sóknaraðila en til vara lækkunar á kröfum hennar. Jafnframt krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess 6. desember sl. Málið var endurupptekið 14. desember sl. á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., vegna bréfs skiptastjóra, sem borist hafði dóminum 8. sama mánaðar. Var málið að því búnu tekið til úrskurðar að nýju.

I

Málavextir

Aðilar máls þessa eru skylduerfingjar F, sem lést [...]. Sóknaraðili er sonardóttir hins látna og varnaraðilar eru börn hans og síðari eiginkonu hans J sem lést [...]. Faðir sóknaraðila, G, var fæddur [...] og lést [...] G var sonur F af fyrra hjónabandi. Bú F var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 25. febrúar 2014 og var Kristján Gunnar Valdimarsson hdl. skipaður til að gegna starfi skiptastjóra í dánarbúinu. Ágreiningur mun hafa verið með erfingjum frá upphafi skipta vegna fyrirframgreidds arfs.

Fram kemur í bréfi skiptastjóra um úrlausn ágreinings undir skiptum, sem móttekið var af dóminum 18. desember 2015, að á skiptafundi 4. júní 2015 hafi verið lagt fram frumvarp til úthlutunargerðar og að ágreiningur hafi verið um hana. Ágreiningsefni málsins séu þau í fyrsta lagi að öll fjárhæð sem til skipta komi, að frá­dregnum kostnaði og sköttum, verði úthlutað til sóknaraðila, enda hafi hallað á föður hennar, G, við útgreiðslu á fyrirframgreiddum arfi samkvæmt útreikningum er skipta­stjóri hafði aflað og byggði á. Væri frumvarp til úthlutunar í samræmi við þetta. Þá er tekið fram að af bókun lögmanns varnaraðila á þessum fundi virtist mega ráða að ekki væri ágreiningur um úthlutunargerðina sem slíka.

Í öðru lagi snúi ágreiningur að því álitaefni hvort öðrum erfingjum beri að greiða til baka það sem þeir hafi fengið umfram jöfn skipti. Standi 32. gr. erfðalaga nr. 8/1962 því ekki í vegi að mati skiptastjóra. Er einnig vísað um þetta til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 133/2012. Þá er vísað til þess að af erfðafjárskýrslu frá 2010, þegar greiddur var út fyrirframgreiddur arfur til allra varnaraðila, mætti ráða að arf­leifandi hafi viljað hafa arfinn jafnan milli erfingja sbr. handritaða áritun á skýrsluna: „Jöfnun arfs fæst með peningagreiðslu.“ Undir rekstri málsins hjá skiptastjóra hafi því verið andmælt að F hefði ritað þetta eigin hendi. Þrátt fyrir það undirriti hann erfða­fjárskýrsluna á sömu blaðsíðu og framangreind handrituð yfirlýsing sé rituð og samþykki þar með efni hennar.

Fram kemur í gögnum málsins að fyrsti skiptafundur hafi verið í búinu 8. apríl 2014 þar sem mætt hafi verið varnaraðilarnir A, C og B. Bókað var um hag búsins af hálfu skiptastjóra og þess getið að „megnið af búinu“ hafi verið greitt sem fyrirframgreiddur arfur. Faðir sóknaraðila, G, hafi fengið risíbúð að K um það bil árið 1980 auk greiðslu sem nam erfðafjárskatti. Þá var bókað, án tilgreiningar á því hver viðtakandi hafi verið, að greiddur hafi verið fyrir­fram­greiddur arfur að fjárhæð um það bil 9.000.000 króna. Tekið var fram af hálfu mættra erfingja á fundinn að faðir þeirra hafi talið fyrirframgreiddan arf jafnan en þess sér­staklega getið að G hafi verið ósáttur um tíma en ekki gert neinar kröfur þar að lútandi.

Með tölvupósti 15. júlí 2014 var lögð fyrir erfingja greinargerð skiptastjóra ásamt útreikningum Veritas ráðgjafar slf. sem skiptastjóri hafði aflað. Í útreikningum Veritas slf. höfðu verið reiknuð áhrif fyrirframgreiðslna arfs til erfingja F á skiptingu eigna búsins.

Samkvæmt framlögðum erfðafjárskýrslum mun fyrirframgreiddum arfi hafa verið ráðstafað með þeim hætti að 24. nóvember 1983 fékk G afhenta risíbúð eða ris­loft að K í Reykjavík eins og áður er fram komið. Verðmæti þessarar eignar hafi þá verið 458.000 krónur samkvæmt skráðu fasteignamatsverði. Varnar­aðilarnir, D, A og C, fengu greiddar 9.000.000 króna samkvæmt erfða­fjárskýrslu frá 19. desember 2005 og varnaraðilinn, B, 5.000.000 króna í reiðufé sama dag, að því er virðist úr sameiginlegu búi F og eiginkonu hans J. Nam heildarfjárhæð fyrirframgreidds arfs við þetta tilefni 32.000.000 króna en þar af nam hlutur tengdur F 16.000.000 króna. Greiðslur þessar munu F og J hafa staðfest með símbréfi til fulltrúa sýslumanns þegar erfða­fjár­skattskýrslum hafði verið skilað á vegum nefndra barna þeirra.

Þá átti sér stað fyrirframgreiðsla til allra varnaraðila, sameiginlegra niðja F og J, 23. júlí 2010 er hún var fallin frá. Voru þá afhentir eignarhlutar í fast­eignum að L og M jafnframt því sem greiddar voru 40.000.000 króna í reiðufé. Munu framtalin verðmæti til greiðslu erfða­fjárskatts við þetta tækifæri samtals hafa numið 71.476.800 krónum. Í tilfelli varnar­aðilans, D, var afhentur 61,12% hlutur í fasteign að L, sem nam að fasteignamati, 8.801.280 krónum, auk reiðufjár að upphæð 9.067.920 krónur. Í tilfelli annarra varnaraðila, þ.e. A, C og B, var afhentur þriðjungur af 61,12% eignarhluta í fasteign að M til hvers þeirra, sem nam að fasteignamati 7.558.507 krónum auk reiðufjár að upphæð 10.310.693 krónur. Ráðstöfun eignanna mun hafa farið fram með þinglýsingum skiptayfirlýsinga en fasteignirnar höfðu verið í eigu F að meirihluta til, eða 61,12% hvor eftir skipti á dánarbúi J.

Fram kemur í greinargerð Veritas slf., sem skiptastjóri aflaði og áður er getið, að samkvæmt útreikningum halli verulega á sóknaraðila í skiptum arfs eftir afa hennar, föðursystkinum hennar til hagsbóta. Í greinargerð með útreikningunum er gerð grein fyrir efni 31. gr. laga nr. 8/1962 um að virða skuli erfingja til frádráttar verðmæti sem hann hafi fengið í fyrirframgreiddan arf eftir gangverði þess þegar hann veitti því viðtöku framreiknuðu til verðlags til þess tíma sem arfskipti eiga sér stað. Ekki liggi þó fyrir hvaða vísitölu eigi að nota en beinast liggi við að nota annað hvort eingöngu vísitölu neysluverðs eða vísitölu neysluverðs á reiðufé og byggingarvísitölu á fasteignir. Í samræmi við þetta er í greinargerðinni gerð grein fyrir hver væri endur­greiðslu­fjárhæð hvers og eins málsaðila inn í dánarbúið miðað við þessar tvær mis­munandi forsendur. Komi þá í ljós að verulega halli á föður sóknaraðila í báðum til­fellum. Sé miðað við að allar fjárhæðir séu framreiknaðar miðað við neysluvísitölu nemi þessi fjárhæð 17.279.178 krónum sem svo er skipt á milli varnaraðila allra í mis­munandi endurgreiðsluhlutfalli miðað við þau verðmæti sem þau höfðu fengið. Sé miðað við að reiðufé sé bundið neysluvísitölu og fasteignir við byggingarvísitölu nemi þessi fjárhæð 16.640.853 krónum sem svo er einnig skipt á milli varnaraðila allra í mismunandi endurgreiðsluhlutfalli miðað við þau verðmæti sem þau höfðu fengið.

Þá er einnig gerð grein fyrir því að væri horft til fasteignamats afhentra fast­eigna árið 2012 væri niðurstaðan sú að mun meiri jöfnuður væri milli erfingja varðandi þau verðmæti sem einstakir erfingjar hefðu fengið í sinn hlut. Þannig næmi fast­eignamat 100% eignarhluta í K, 18.900.000 krónum sem sé um­talsvert hærri fjárhæð en fáist við framreikning íbúðar að K miðað við neyslu­vísitölu, þ.e. 4.567.330 krónur, eða byggingarvísitölu, þ.e. 5.532.016, krónur. Fast­eignamat 61,12% eignarhluta í L næmi með þessari aðferð 8.617.920 krónum og fasteignamat 1/3 hluta í 61,12% eignarhluta M næmi 21.028.280 krónum Við notkun fasteignamatsins komi því í ljós að það halli bæði á föður sóknaraðila og varnaraðilann, B, þ.e. um 4.790.087 krónur í tilviki G en um 1.274.670 krónur í tilviki B.

Í fyrrnefndri greinargerð skiptastjóra til erfingja kom fram sú afstaða hans að hallað hefði á sóknaraðila við arfskiptin með vísan til greinargerðar og útreikninga Veritas slf. Í bréfi skiptastjóra til dómsins segir að ljóst virðist að arfleifandi hafi viljað hafa arfskiptin jöfn milli erfingja sinna. Við framreikning á fyrirframgreiðslu arfs komi hins vegar í ljós að það mat að skiptin reyndust jöfn væri ekki rétt. Þá er gerð grein fyrir þeirri meginreglu erfðalaga að erfingjar í sama flokki eigi að fá jafnan hlut, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Jafnframt er vísað til 32. gr. sömu laga og talið að ákvæði hennar standi því ekki í vegi að erfingjar, sem hafi fengið ofgreiddan fyrir­framgreiddan arf, verði krafðir um endurgreiðslu á þeim mismun sem þeir fengu og þeir hefðu átt að fá miðað við jöfn skipti, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 133/2012. Óskaði skiptastjóri eftir sjónarmiðum aðila hvað þetta varðaði.

Móðir sóknaraðila andmælti því með bréfi til skiptastjóra 8. ágúst 2014 að hægt væri að miða útreikninga við fasteignamat eignarinnar á dánardegi F. Við af­hendingu eignarinnar hafi verið um ósamþykkt og óíbúðarhæft risloft að ræða. Hún og faðir sóknaraðila hafi lagt fé og mikla fyrirhöfn í endurbætur á húsnæðinu á árunum 1984-1987. Í bréfi varnaraðila til skiptastjóra 7. september 2014 var andmælt þeim sjónarmiðum að hallað hafi á föður sóknaraðila við fyrirframgreiðslu arfs úr búinu. Var því jafnframt mótmælt að sóknaraðili gæti haft uppi kröfu um endur­greiðslu ofgreidds arfs og vísað í því sambandi til 32. gr. erfðalaga sem heimilaði að mati varnaraðila mismunum skylduerfingja. Breytti þar engu handritaður texti á erfðafjárskýrslu frá árinu 2010 um að jöfnun arfs fengist með peningagreiðslu enda hafi sá texti ekki verið ritaður af F eða endurspeglaði vilja hans.

Skiptastjóri sendi erfingjum bréf 10. apríl 2015 þar sem hann boðaði til skipta­fundar og kynnti ráðagerð um að ljúka skiptum á búinu með því að greiða út til erfingja í fimm jöfnum hlutum innstæðu á bankareikningi dánarbúsins að frádregnum kostnaði og kröfum. Með bréfi 20. sama mánaðar var fyrirhuguðum skiptalokum andmælt af hálfu sóknaraðila.

Skiptafundur var haldinn 12. maí 2015. Í fundargerð þess fundar kemur fram að aðilar hafi átt þess kost að gera athugasemdir við greinargerð skiptastjóra frá 15. júlí 2014 þar sem m.a. var gerð grein fyrir niðurstöðum útreikninga Veritas ráðgjafar slf. og óskað eftir sjónarmiðum erfingja. Þá er þar gerð grein fyrir andmælum sóknaraðila við því að byggt væri á fasteignamati á dánardægri F og andmælum varnaraðila við því að hallað kunni að hafa á föður sóknaraðila við fyrirframgreiðslu arfs og jafnvel þótt svo hafi verið bæri þeim ekki að endurgreiða búinu. Þá kemur fram í fundargerðinni að af greinargerð lögmanns varnaraðila til skiptastjóra mætti ráða „að vera kynni að sameiginlegir erfingjar J og F hafi gengið á bús­hluta F við skipti á búi móður sinnar, svo að hallað hafi á erfingja G“. Neitað hafi verið að leggja fram gögn um þetta sem „út af fyrir sig [veki] upp efa­semdir að rétt hafi verið skipt“. Taldi skiptastjóri þó ekki þjóna hagsmunum búsins, að svo komnu, að krefjast gagna um skipti á búi J og tefja búskiptin enn frekar.

Þá segir í bókun af fundinum að miðað við útreikninga Veritas slf. hafi hallað á föður sóknaraðila. Sé ekki fallist á útreikning sem fram komi í greinargerð lögmanns varnar­aðila þar sem forsendan sé sú að fyrirframgreiddur arfur 27. desember 2005 til sameiginlegra niðja Fog Jkomi ekki til skoðunar við skipti á búi F. Arfleifandinn F hafi verið að greiða fjórum af fimm börnum sínum fyrir­framgreiddan arf og því sé ekki hægt að fallast á að sá fyrirframgreiddi arfur komi ekki að neinu leyti til skoðunar. Í útreikningum sem skiptastjóri byggi á sé tekinn helmingur hins fyrirframgreidda arf frá 2005 til framreiknings vegna skipta á búi F miðað við meginregluna um helmingaskipti hjóna. Þá segir að sama hvaða vísitala sé notuð til framreiknings hafi hallað á föður sóknaraðila og að fyrir­fram­greiddur arfur skuli nú koma til frádráttar arfi. Með vísan til þessa verði öll fjárhæð sem til skipta sé, að frádregnum kostnaði og sköttum, úthlutað til sóknaraðila. Þá er vísað til þess sem fram kom á skiptafundi 8. apríl 2014, þar sem mætt hafi verið varnar­aðilarnir A, C og B, að faðir þeirra hafi talið skiptingu jafna. Einnig er vísað til áritunar á erfðafjárskýrslu frá 2010, að arfleifandi hafi viljað að arfskiptin væru jöfn. Við framreikning komi á hinn bóginn í ljós að sú forsenda hafi ekki reynst rétt. Ákvæði 32. gr. erfðalaga standi endurgreiðslu erfingja ekki í vegi. Þar sem því hafi verið andmælt af hálfu lögmanns varnaraðila sé ljóst að um þetta sé ágreiningur.

Þá er gerð grein fyrir að frumvarp til úthlutunar verði í samræmi við framangreint, það sé meðfylgjandi og fjallað verði um efni þess á skiptafundi 28. maí 2015 en sá fundur mun hafa farið fram 4 júní 2015. Var þar lögð fram bókun af hálfu lögmanns sóknaraðila þar sem tekið var undir forsendur skiptastjóra um að ójafnt væri skipt en því jafnframt mótmælt að sóknaraðili bæri svo skarðan hlut frá borði sem skiptastjóri hefði ákvarðað í úthlutunargerð sinni frá 13. maí 2015. Á því væri byggt að nærtækara væri að úthluta henni 16.640.853 krónum að því frágengnu að úthlutun fyrirframgreidds arfs verði endurskoðuð. Yrði ekki fallist á þetta vænti lögmaðurinn að skiptastjóri krefðist úrlausnar um ágreining um frumvarp skiptastjóra fyrir héraðsdómi, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Af hálfu lögmanns varnaraðila var bókað að ekki hefði að öllu leyti verið rétt eftir sér haft í fundargerð skiptastjóra frá 12. maí 2015. Þá kemur fram að varnaraðila telji niðurstöðu skiptastjóra ekki vera rétta þar sem hún byggi á röngum staðhæfingum um staðreyndir og rangri beitingu lagareglna „en þar sem fjárhagslegir hagsmunir hvers og eins þeirra [væru] ekki umtalsverðir að jafnri skiptingu eigna búsins en hins vegar vilji til að ljúka skiptum hafi þeir ákveðið að una við niðurstöðu skiptastjóra fyrir sitt leyti“.

Að lokum kemur fram í bréfi skiptastjóra til dómsins að framangreindan ágreining hafi ekki tekist að jafna og sé honum því vísað til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991. Þá segir í bréfinu að skiptastjóri telji ekki að dánarbúið eigi að hafa aðild að málinu. Dánarbúið lætur því málið ekki til sín taka fyrir dóminum. Þá kemur fram í bréfi skiptastjóra, sem barst dóminum 8. desember sl., að í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að sóknaraðila væri heimilt að hafa uppi kröfur dánarbúinu til hagsbóta á eigin kostnað og áhættu. Verður síðara bréf skiptastjóra skilið svo að með réttu hafi jafnframt átt að vísa til 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 í fyrra bréfi skiptastjóri, þar sem hann framselji í raun sóknaraðila aðild og forræði málsins vegna ágreinings erfingjanna á milli.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Kröfur sínar kveður sóknaraðili byggja á meginreglu íslensks erfðaréttar um að skipta beri arfi jafnt milli barna, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 8/1962. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé kveðið á um að ef barn arfleifanda andast á undan honum erfi börn þess þann hluta er því hefði borið. Að lögum sé því ljóst að sóknaraðili standi jafnt að vígi andspænis föðursystkinum sínum til úthlutunar arfs. Um skylduarf sé að ræða sem arfleifanda sé óheimilt að brjóta gegn. Eina undantekningin felist í heimild arfleifanda til að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá, sbr. 35. gr. erfðalaga. Lengra sé óheimilt að ganga.

Sóknaraðili kveður aðalkröfu sína taka mið af útreikningi Veritas ráðgjafar slf. á fyrirframgreiddum arfi sem byggi á því að reiðufé sé framreiknað með vísitölu neysluverðs en verðmæti fasteigna með byggingarvísitölu. Þannig nemi framreiknaður fyrirframgreiddur arfur samtals 110.564.344 krónum. Aðrir erfingjar en sóknaraðili hafi fengið sem nemi 16.640.853 krónum of mikið. Til ráðstöfunar í búinu samkvæmt frumvarpi skiptastjóra að úthlutunargerð séu 1.514.716 krónur. Gengið sé út frá því að þeirri fjárhæð sé ráðstafað í samræmi við frumvarp skiptastjóra til sóknaraðila. Að þeirri fjárhæð frádreginni sem sé til ráðstöfunar í búinu séu varnaraðilar því krafðir um að greiða dánarbúinu samtals 15.126.137 krónur sem sé svo krafið um frá hverjum varnaraðila skipt, (pro rata), í samræmi við ofgreiðslu hvers og eins samkvæmt útreikningi Veritas slf. Þannig sé þess krafist að D greiði 4.530.278 krónur, A 4.507.589 krónur, C 4.507.589 krónur og B 1.580.681 krónu.

Varakrafan byggi á sama grundvelli hvað útreikning varðar en taki mið af því að F hafi verið heimilt að mismuna erfingjum sínum sem nemi þriðjungi arfs. Sá þriðjungur sé þannig dreginn frá áður en það sé skilgreint sem sóknaraðili hafi farið á mis við varðandi arf eftir afa sinn. Á þessum grundvelli hafi varnaraðilar fengið sem nemi 7.735.181 krónu umfram sóknaraðila og gerð sé sams konar krafa um endurgreiðslu, sem skipt sé hlutfallslega (pro rata), úr hendi varnaraðila þannig að D greiði 2.305.084 krónur, C 2.305.084 krónur og B 808.326 krónur.

Byggt sé á því í báðum tilvikum að dæmdar fjárhæðir beri dráttarvexti frá þingfestingardegi máls þessa, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Fyrir liggi að arfleifandi, afi sóknaraðila, lét börnum sínum ekki í té fyrirframgreiddan arf á grundvelli erfðaskrár. Þvert á móti virðist hugur hans hafa staðið til þess að létta undir með börnum sínum með arfi í lifanda lífi en gera það þó þannig að jafnt væri komið með þeim í þeim efnum. Þar sem hann hafi í þrígang staðið að því að greiða út fyrirframgreiddan arf sýnist óhætt að álykta að hugur hans hafi staðið mjög til þess að gæta jafnræðis og sanngirni milli barna sinna. Af þessum sökum sýnast formlegir erfðagerningar hafa verið gerðir til að tryggja þann jöfnuð sem kostur væri og gagnsæi gerninganna. Bæði sé hér að líta til handritaðrar athugasemdar í erfðafjárskýrslu og til upplýsinga þess efnis sem þrír varnaraðila létu skiptastjóra í té á fyrsta skiptafundi.

Í þessu ljósi, sem og þegar litið sé til þess að arfur til varnaraðila var langt umfram þriðjungs heimild samkvæmt 35. gr. erfðalaga, sé einboðið að varnaraðilum verði gert að endurgreiða dánarbúi F það sem hver og einn hafi fengið umfram réttmætt tilkall til arfs eftir hann. Önnur niðurstaða sé ekki tæk. Myndi sú túlkun að 32. gr. laganna stæði slíkri kröfum fyrir þrifum leiða til þess að takmarkanir á ráðstöfunarheimild arfleifanda sem 35. gr. þeirra lúti að væri markleysa. Horfa verði til þess að faðir varnaraðila og afi sóknaraðila formbatt ráðstöfun verðmæta í sinni eigu sem fyrirframgreiddan arf. Hann hefði getað gefið eigur sínar til barns eða hluta barna sinna ef hann vildi hygla einu eða fleiri barnanna án þess að láta þau öll njóta. Hann hafi valið að gera það ekki sem sýni, svo ekki verði um villst, hug hans til að gæta jöfnuðar og sanngirni milli barna sinna. Þá afstöðu beri að virða.

Enn fjær sé sú niðurstaða að varnaraðilum sé tækt að líta svo á að fyrirframgreiddur arfur sem greiddur var á meðan móðir þeirra lifði eigi allur að koma til frádráttar við dánarbússkipti eftir hana. Bæði sýnist „næsta örvænt“ að það hafi verið gert en ekki síður hafi föður þeirra ekki verið tækt að ráðstafa eigum sínum til uppgjörs á dánarbúi skammlífari maka. Slíkt eigi sér enga stoð í lögum og standi síðasti málsliður 1. mgr. 29. gr. erfðalaga því í vegi.

Nefnd 32. gr. erfðalaga sé eðlileg traustfangsregla til að forða því að ágreiningur rísi árum síðar sem varði erfið álitamál um hvernig meta eigi einstakar eignir til verðs og framreikna verðmæti þeirra enda sé þá munurinn innan þeirra marka sem 35. gr. laganna heimili. Sú regla geti hins vegar ekki staðið því í vegi að leiðrétt sé þegar nánast öllum eigum arfleifanda hafi verið ráðstafað til fjögurra af fimm skylduerfingjum, þeim fimmta til tjóns. Slík niðurstaða gangi gegn markmiðum ákvæða erfðalaganna um skylduarf, erfðaskrá og fyrirframgreiddan arf.

Þá liggi fyrir að varnaraðilar hafi verið grandsamir um hug föður þeirra um að mismuna börnum sínum ekki. Þeim hafi líka verið ljóst að bróðir þeirra, faðir sóknaraðila, var ósáttur við framgöngu þeirra og er slíkt bókað eftir þeim á skiptafundi.

Þá gangi ekki fyrir varnaraðila að bera fyrir sig fyrningu enda hafi arfur eftir afa sóknaraðila ekki legið fyrir fyrr en á dánardegi hans 16. september 2012.

Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum blasi við að gengið hafi verið mjög nærri rétti sóknaraðila sama hvernig reiknað sé. Miðað við þau verðmæti sem Veritas ráðgjöf slf. hafi reiknað út eftir þeirri aðferð sem lögð sé til grundvallar aðalkröfu þá hafði faðir sóknaraðila notið rétt rúmra 5% af arfi eftir föður sinn í stað 20%. G hafi fallið í skaut verðmæti sem framreiknuð nemi 5.532.016 krónum af heildararfi sem nam 110.864.344 krónum. Við blasi að við slíkt hlutskipti verði sóknaraðili ekki bundinn.

Sóknaraðili kveðst byggja á sömu málsástæðum hvað varakröfu hennar varði að breyttum breytanda. Að auki sé byggt á því að jafnvel þótt talið væri að mismunur gæti verið þannig að 32. gr. erfðalaga yrði varnaraðilum til hlífðar, þá hljóti sú vörn tvímælalaust að takmarkast við heimild erfðalaga til að ráðstafa arfi að þriðjungi þegar um skylduerfingja sé að ræða, sbr. 35. gr. laganna. Lengra verði ekki gengið. Það sem umfram sé verði varnaraðilar að standa dánarbúi F skil á.

Með vísan til alls framangreinds krefst sóknaraðili þess að á kröfur hennar verði fallist.

Um lagarök vísar sóknaraðili til erfðalaga nr. 8/1962 og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með síðari breytingum auk laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatts en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dæmt álag á málskostnað er nemi fjárhæð virðisaukaskatts.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilar byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að sóknaraðili sé ekki réttur aðili máls um þær dómkröfur sem hún gerir. Bæði aðal- og varakrafa hennar lúti að því að varnaraðilum verði gert að greiða dánarbúi F tilteknar fjárhæðir. Dánarbú F sé undir opinberum skiptum og hafi því verið skipaður skiptastjóri sem fari með réttindi þess og skyldur. Sérstaklega sé tekið fram í bréfi skiptastjóra til dómsins að hann telji ekki að dánarbúið eigi að hafa aðild að dómsmáli þessu. Sóknaraðili fari ekki með fyrirsvar fyrir dánarbúið, geti ekki gert dómkröfur fyrir þess hönd og verði því ekki hjá því komist að sýkna varnaraðila. Hafi síðara bréf skiptastjóra enga þýðingu í þessu máli.

Eftirfarandi málsástæður kveða varnaraðilar bæði varða aðal- og varakröfu þeirra. Sóknaraðili byggi á tveimur staðhæfingum sem báðar séu rangar. Annars vegar þeirri að hallað hafi á G, föður sóknaraðila, við arfgreiðslur eftir F föður hans og varnaraðila og hins vegar þeirri að varnaraðilum beri af þeim sökum að greiða dánarbúi föður þeirra fjárhæðir sem nemi dómkröfum sóknaraðila.

Varnaraðilar kveða föður sóknaraðila hafa fengið allan þann arf eftir föður sinn sem réttur hans hafi staðið til. Svo sem mælt sé fyrir um í 29. gr. erfðalaga hafi átt að draga þann fyrirframgreidda arf sem varnaraðilum hafði verið greiddur fyrir andlát móður þeirra, J, að öllu leyti frá arfshlut þeirra eftir hana, þar sem búi hennar hafi verið skipt á meðan F var enn á lífi. Aðeins að því marki sem umræddur fyrirframgreiddur arfur hefði verið hærri en sem nam arfshluta einhvers eða allra varnaraðila eftir móður þeirra, skyldi hann koma til frádráttar arfi varnaraðila eftir F.

Ljóst sé að sá fyrirframgreiddi arfur sem varnaraðilar höfðu fengið greiddan fyrir andlát J var ekki hærri en sem nam þeim arfshluta sem þeim bar eftir móður sína sama hvernig reiknað sé. Enda sé því ekki haldið fram af sóknaraðila að svo hafi verið eða færð fyrir því nokkur rök. Því liggi fyrir að ekki komi til álita að neinn hluti þess fyrirframgreidda arfs komið til skoðunar við skipti á dánarbúi F.

Sá fyrirframgreiddi arfur sem skoða þurfi við skipti á búi F sé því aðeins afhending á íbúðinni að K til G, föður sóknaraðila, auk fyrirframgreiðslu Fá arfi til varnaraðila þann 23. júlí 2010 sem hafi numið 17.869.200 krónum til hvers þeirra um sig.

Samkvæmt 31. gr. erfðalaga skuli virða erfingja til frádráttar verðmæti sem hann hafi fengið sem fyrirframgreiddan arf, eftir gangverði þess þegar hann veitti því viðtöku, framreiknuðu til verðlags á þeim tíma sem frádrátturinn átti sér stað. Greinin kveði ekki nánar á um það hvernig gangvirði annarra verðmæta en peninga skuli slegið föstu og því síður með hvaða hætti skuli framreikna verðmætið. Það leiði af ákvæðinu að við útreikning á arfshluta hvers og eins erfingja skuli verðbæta fyrirframgreiddan arf þar til arfsskipti hafa átt sér stað. Önnur verðmæti en reiðufé sem voru hluti 17.869.200 króna greiðslunnar til hvers varnaraðila hafi á þeim tíma verið verðmetin miðað við það sem allir varnaraðilar féllust á að væri gangvirði. Því verði að telja að rétt sé að nota vísitölu neysluverðs til að verðbæta þá fjárhæð. Sama sjónarmið geti tæplega átt við um það verðmæti íbúðarinnar að K sem lagt skuli til grundvallar við skipti dánarbúsins. Engin gangskör virðist hafa verið gerð að því að staðreyna gangverð slíkrar eignar við afhendingu hennar og einungis vísað til fasteignamatsverðs í sameiginlegri yfirlýsingu arfláta og erfingja sem gerð var við afhendingu hennar.

Fyrir liggi að fasteignamatsverð íbúðarinnar að K árið 1983 sé ótækt sem vísbending um gangvirði. Breyti þar engu um þótt lög nr. 6/2001, sem auðvitað voru ekki í gildi á þeim tíma er íbúðin var afhent, kveði á um að fasteignamat sé gangverð umreiknað til staðgreiðslu. Í fyrsta lagi liggi ekki fyrir hvað skyldi nákvæmlega ráða af fasteignamati því sem var á íbúðinni árið 1983. Í öðru lagi sé alþekkt að til skamms tíma fór endurmat á fasteignum sjaldan ef nokkru sinni fram. Þannig gat fasteignamat á hverjum tíma endurspeglað margra ára eða áratuga gamlan matsgrunn. Sú íbúð sem hér um ræði sé í húsi sem byggt var árið 1929. Algerlega sé óljóst hvenær það mat var framkvæmt sem var á eigninni árið 1983. Sóknaraðili beri að sjálfsögðu sönnunarbyrði fyrir því að nota beri fasteignamat sem „staðgengil gangverðs“ við afhendingu íbúðarinnar. Sóknaraðili hafi ekki reynt, og því ekki tekist, að skjóta stoðum undir þá forsendu málatilbúnaðar síns.

Því síður hafi sóknaraðili rökstutt með viðhlítandi hætti hvers vegna nota eigi byggingarvísitölu fremur en aðra aðferð, til þess að framreikna meint gangverð íbúðarinnar. Ljóst sé að sjónarmiðið að baki 31. gr. erfðalaga hvað þetta varðar sé að við endanleg skipti sé raunvirði allra eigna metið með sambærilegum hætti miðað við verðlag á þeim degi sem skipt er. Þetta markmið virðist mun frekar leiða til þess að gangverð fasteignar á skiptadegi endurspegli verðbætur hennar frá afhendingardegi, eftir atvikum eins og það kann að endurspeglast í fasteignamati hennar. Í dag sé sú staða uppi, bæði eftir gildandi lögum og framkvæmd þeirra, að fasteignamat sé uppfært árlega til að endurspegla gangverð og feli það því í sér raunhæfan mælikvarða á gangverði öndvert við það sem áður var. Undir þetta sé að nokkru tekið í greinargerð Veritas ráðgjafar slf.

Ef notast væri við núgildandi fasteignamat íbúðarinnar að K sé ljóst að G, faðir sóknaraðila, hafi fengið hærri fjárhæð í fyrirframgreiddan arf eftir föður sinn en varnaraðilar. Þetta megi glögglega sjá í útreikningum sem séu meðal gagna málsins þó svo að þeir hafi ekki verið uppfærðir. Þrátt fyrir að öllum fjármunum sem enn séu í eigu dánarbús F verði skipt á milli varnaraðila og sóknaraðili fái ekkert, muni G engu að síður hafa fengið hærri fjárhæð í sinn hlut en honum hefði borið eftir hinum almennu lögerfðareglum.

Hvað varði tilraunir sóknaraðila til að gera lítið úr verðmæti risíbúðarinnar taka varnaraðilar fram að það liggi fyrir í gögnum málsins að um þriggja herbergja íbúð var að ræða. Hún hafi verið í útleigu um langt skeið áður en faðir sóknaraðila hafi fengið hana afhenta. Fasteignamat sýni einnig að hún hafi í raun verið metin jöfn 2. og 3. hæð hússins að verðmæti, að teknu tilliti til fermetra undir súð en ekki sé deilt um að þar var um að ræða íbúðir sem búið hafði verið í um langt skeið og varnaraðilinn A endaði með að kaupa. Allar fullyrðingar um að íbúðin hafi með einhverjum hætti verið lakari en aðrar eignir í sambærilegum húsum á svipuðum stað fái því ekki staðist.

Þá taka varnaraðilar fram að jafnvel þótt talið yrði að faðir sóknaraðila hafi fengið minni arf en honum bar verði varnaraðilum ekki gert að endurgreiða það sem þeim kunni að hafa verið ofgreitt í fyrirframgreiddan arf. Ákvæði 32. gr. erfðalaga heimili berum orðum mismunun skylduerfingja með greiðslu fyrirframgreidds arfs. Þar segi að hljóti erfingi fyrir fram meira fé frá arfleifanda en nemi erfðahluta hans eftir hann verði hann ekki skyldaður til að standa búinu skil á mismuninum nema hann hafi sérstaklega skuldbundið sig til þess. Ekkert í dómi Hæstaréttar í máli nr. 133/2012 breyti því enda hafi aðstæður í því máli verið mjög sérstakar sem ekki eigi sér hliðstæðu í því máli sem hér sé til úrlausnar.

Þá taka varnaraðilar fram að ekki aðeins sé ósönnuð sú fullyrðing sóknaraðila að F hafi viljað að eignir hans myndu skiptast jafnt á milli erfingja hans heldur sé hún í beinni andstöðu við gögn málsins. Í fyrsta lagi blasi við að varnaraðilinn B hafi fengið 4.000.000 króna lægri fjárhæð en aðrir varnaraðilar í fyrirframgreiddan arf 27. desember 2005 án þess að sá munur væri nokkurn tímann jafnaður. Hafi þó verið ærið tækifæri til þess þegar varnaraðilar fengu aftur fyrirframgreiddan arf 23. júlí 2010. Í öðru lagi hafi F aldrei gert neinn reka að því að greiða syni sínum N og albróður G fyrirframgreiddan arf á meðan hann lifði, þrátt fyrir að 16 ár hafi liðið frá því að hann afhenti G íbúðina að K, þar til N féll frá. Í þriðja lagi séu einfaldlega engin gögn í málinu sem benda til þess að vilji F hafi staðið til þess að G og varnaraðilar erfðu jafnmikið eftir föður sinn. Það eina sem sóknaraðili hafi teflt fram því til stuðning að F hafi viljað gæta jafnræðis sé áritun á erfðafjárskýrslu þar sem segir „Jöfnun arfs fæst með peningagreiðslu“. Fram sé komið í málinu að þessi texti var ritaður af O, eiginmanni varnaraðilans B, að beiðni fulltrúa sýslumanns því til skýringar að minni háttar munur var á greiðslum til hvers varnaraðila fyrir sig. Þessi munur sjáist í línunni „milligjöf v/fasteigna“ í samningi varnaraðila um skipti á eignarhlutum í áðurnefndum fasteignum. Fulltrúi sýslumanns hafi á hinn bóginn viljað að fyrir lægi hvernig varnaraðilar myndi nákvæmlega standa að þessari jöfnun. Textinn hafi verið skrifaður eftir að F undirritaði skýrsluna.

Þá verði ekki litið fram hjá því augljósa að umrædd áritun var rituð á erfðafjárskýrslu sem varðaði fyrirframgreiddan arf til varnaraðila einna. G, faðir sóknaraðila, hafi þar hvergi komið við sögu. Ef F hefði sjálfur ritað textann og ef í honum hefði falist einhvers konar viljayfirlýsing um jafna skiptingu á milli erfingja liggi í hlutarins eðli að hún hefði einungis getað átt við þá erfingja sem erfðafjárskýrslan varðar sem voru varnaraðilar. Umrædd erfðafjárskýrsla hefði verið fráleitur staður til þess að koma á framfæri einhvers konar viljayfirlýsingu um jafna skiptingu arfs almennt á milli allra erfingja, þ. á m. erfingja sem ekki tengdust skýrslunni með neinum hætti.

Ekki sé á því byggt af hálfu sóknaraðila að varnaraðilar hafi með einhverjum hætti skuldbundið sig sérstaklega til þess að greiða dánarbúi F neitt það sem þeir kunnu að hafa fengið ofgreitt í fyrirframgreiddan arf. Fyrir því væri enda engin stoð eins og gögn málsins sýni glöggt.

Með vísan til alls framangreinds krefjast varnaraðilar þess að á kröfur þeirra verði fallist.

Um lagarök vísa varnaraðilar til erfðalaga nr. 8/1962 og laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Mál þetta, sem rekið er fyrir dóminum á grundvelli XVII. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., barst dóminum 18. desember 2015 með beiðni skiptastjóra dánarbús F, sem lést 16. september 2012, um úrlausn ágreinings við opinber skipti, með vísan til 122. gr. áðurnefndra laga.

Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 segir m.a. að rísi ágreiningur um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveði sérstaklega á um að beint skuli til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem komi upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. er síðan tekið fram, að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi.

Í bréfi skiptastjóra til dómsins er gerð grein fyrir eignum búsins og að frumvarp til úthlutunargerðar hafi verið lagt fram á skiptafundi 4. júní 2015. Fram hafi komið á þeim fundi að um hana væri ágreiningur. Ágreiningsefni málsins séu þau í fyrsta lagi „að öll fjárhæð sem til skipta komi, að frádregnum kostnaði og sköttum, verði úthlutað til E, enda hafi hallað á föður hennar G við útgreiðslu á fyrirframgreiddum arfi skv. útreikningum er skiptastjóri byggir á, sbr. greinargerð Veritasar Ráðgjafar. Frumvarp til úthlutunar er þessa efnis, sbr. ákvörðun skiptastjóra á skiptafundi 12. maí 2015 og úthlutunargerð frá 13. maí 2015.“ Þá segir að af bókun lögmanns varnaraðila á skiptafundi 4. júní 2015 virðist mega ráða að ekki sé ágreiningur um úthlutunargerð.

Í öðru lagi snúi „ágreiningur að því álitaefni hvort öðrum erfingjum beri að greiða til baka það sem þeir hafa fengið umfram jöfn skipti en meginregla erfðalaga er að erfingjar í sama flokki eigi að fá jafnan hlut, sbr. t.d. 1. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962...“. Er svo nánar lýst afstöðu aðila til hugsanlegrar endurgreiðslu sem þegar hefur verið gerð ítarleg grein fyrir hér framar í málavaxtalýsingu. Að lokum segir í bréfi skiptastjóra að sættir vegna þessara ágreiningsatriða hafi verið reyndar án árangurs og að aðilar væru sammála um að leggja hann fyrir héraðsdóm til úrlausnar með vísan til 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Þá segir að dánarbúið láti málið ekki til sín taka fyrir dóminum.

Í upphaflegu bréfi skiptastjóra til dómsins kom ekki fram með skýrum hætti að skiptastjóri hefði veitt sóknaraðilum málshöfðunarheimild á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 vegna þessa hlutar ágreinings aðila. Skilja verður síðara bréf skiptastjóra til dómsins svo að það hafi þó frá upphafi verið ætlunin að fela sóknaraðila að gæta hagsmuna búsins á grundvelli áðurnefndrar 3 mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 þótt láðst hafi að taka þetta fram í fyrra bréfinu. Verður því að telja að úr þessu hafi verið bætt með síðara bréfi skiptastjóra undir rekstri málsins sem dómurinn telur ekki unnt að líta fram hjá við úrlausn málsins. Eins og atvikum er háttað að þessu leyti þykja ekki efni vera til þess að vísa þessum þætti ágreinings aðila frá dómi vegna áðurnefnds annmarka á upphaflegu bréfi skiptastjóra. Verður því að líta svo á að málinu hafi verið réttilega beint til dómsins á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 68. gr., laga nr. 20/1991. Kemur krafa varnaraðila um sýknu vegna aðildar sóknaraðila að málinu því ekki til álita að mati dómsins og sjónarmiðum varnaraðila þar að lútandi hafnað. Verður ágreiningur aðila því tekinn til efnislegrar úrlausnar og kröfugerð sóknaraðila skilin svo að verði aðal- eða varakrafa hennar tekin til greina skuli umræddar fjárhæðir bætast við arfshluta hennar við endanlegt uppgjör við skipti á búi föðurafa hennar, F, að teknu tilliti til þeirrar ákvörðunar skiptastjóra er tiltekinni fjárhæð verði úthlutað til sóknaraðila sem kröfugerð sóknaraðila fyrir dóminum hefur tekið mið af. Dómurinn tekur þó fram að bréf skiptastjóra verður ekki skilið svo að verið sé að vísa til umfjöllunar dómsins eiginlegu frumvarpi til úthlutunar heldur einungis ágreiningi um hvernig fara eigi með ofgreiddan fyrirframgreiddan arf, hafi um slíkt verið að ræða, og mat á framreiknuðu verðmæti hans.

Meginregla íslensks erfðaréttar er sú að skipta beri arfi jafnt milli erfingja í sama flokki eða sömu erfð sem kallað er. Endurspeglast hún m.a. í 1. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962 um að maki erfi 1/3 eigna hins látna þegar börn eru á lífi en 2/3 hluta erfi börnin að „jöfnu“. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að ef barn arfleifanda andast á undan honum erfi börn þess þá þann hluta er því hefði borið. Eftir lát föður síns, G, stendur sóknaraðili því til arfs eftir föðurafa sinn, F, lögum samkvæmt.

Til marks um áðurnefnda meginreglu er sú staðreynd að hlutur skylduerfingja, þ.e. barna hins látna, verður ekki rýrður nema að vissu marki með arfleiðslugerningi, þ.e. erfðaskrá eða dánargjöf. Þannig er arfleifanda, þrátt fyrir áðurnefnda meginreglu, heimilt að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá, sbr. 35. gr. laga nr. 8/1962. Þessar reglur byggja því á ákveðnum jafnræðis- og sanngirnissjónarmiðum.

Í máli þessu liggur fyrir að faðir varnaraðila og afi sóknaraðila ráðstafaði verðmætum í lifanda lífi til aðila í þrígang. Gerði hann það með því að greiða börnum sínum, af fyrra og síðara hjónabandi, fyrirframgreiddan arf, fyrst með slíkri ráðstöfun til G, föður sóknaraðila árið 1983 og síðar árin 2005 og 2010 til allra varnaraðila. Á hinn bóginn kaus hann ekki að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá og ekki verður séð af því sem fram er komið í málinu að hann hafi ráðstafað eignum sínum með lífsgjöfum til barna sinna í lifandi lífi eða með dánargjöfum.

Fram kemur í fundargerð af fyrsta skiptafundi í búinu 8. apríl 2014, þar sem mætt voru varnaraðilarnir, A, C og B, að faðir þeirra hafi talið arf jafnan. Þá segir þar að faðir sóknaraðila hafi verið ósáttur um tíma en ekki gert neinar kröfur. Þá kemur fram í bréfi til skiptastjóra, f.h. allra varnaraðila, 7. september 2014, að þau telji áritun á erfðafjárskýrslu á árinu 2010 um jöfnun arfs ekki endurspegla vilja hans. Málflutning varnaraðila fyrir dóminum verður að skilja svo að á því sé byggt að nokkru leyti að faðir þeirra hafi ekki viljað að arfi yrði jafnt skipt milli barna hans enda bendi gögn málsins ekki til slíks og að mismunun erfingja hafi verið honum heimil á grundvelli 32. gr. erfðalaga. Ekki verður talið að áritun á erfðafjárskýrslu árið 2010 „um jöfnun arfs með greiðslu peninga“ er varðaði ráðstöfun eigna til varnaraðila einna en ekki til sóknaraðila, geti verið til marks um vilja F nema hvað þá ráðstöfun varðar er um ræddi í því tilviki. Á hinn bóginn liggur ekkert fyrir um það í málinu og ekkert fram komið sem gefur tilefni til að álykta sem svo að hugur arfleifanda hafi staðið til að víkja frá meginreglu erfðalaga um jafnan arf og að vilji hans hafi staðið til að mismuna börnum sínum með einhverjum hætti. Ber við þetta að hafa í huga að arfleifandi kaus í þrígang að ráðstafa verðmætum sínum með formlegum gerningi með greiðslu fyrirframgreidds arfs sem frekar bendir til þess að hann hafi vilja gæta jafnræðis með börnum sínum. Dómurinn tekur þó fram að hvað sem kann að líða huglægri afstöðu arfleifanda í þessum tilvikum lutu þessar áðurnefndar ráðstafanir hans á árunum 1983, 2005 og 2010 ákvæðum erfðalaga um heimildir til ráðstöfunar eigna sinna og er þá ítrekað að arfleifandi kaus ekki að fara þá leið sem ráðgerð er í 35. gr. laga nr. 8/1962 um ráðstöfun eigna með erfðaskrá. Dómurinn tekur fram að ekki er unnt að líta svo á að í 32. gr. erfðalaga felist bein heimild til arfleifanda til að mismuna erfingjum sínum, umfram fyrirmæli 35. gr. laganna, með fyrirframgreiddum arfi svo sem haldið hefur verið fram af hálfu varnaraðila heldur mælir ákvæðið fyrir um skilyrði þess að unnt sé að grípa til úrræða til að leiðrétta hlut erfingja sem þannig ber skarðan hlut frá borði við arfskipti.

Í 31. gr. laga nr. 8/1962 er mælt fyrir um ákvörðun á verðgildi fyrirframgreidds arfs þegar tillit er tekið til hans við endanlegt uppgjör milli erfingja að arfleifanda látnum. Í ákvæðinu, eins og það var upphaflega orðað, sagði að verðmæti sem afhent væri sem fyrirframgreiðsla arfs skyldi virða erfingja til frádráttar eftir gangverði þess þegar erfingi veitti því viðtöku en þó ekki hærra verði en sanngjarnt væri svo að jöfnuður fengist með erfingjum.

Með 12. gr. laga nr. 48/1989 var 31. gr. laga nr. 8/1962 breytt. Fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið að breyting á 31. gr. laganna feli í sér að ótvírætt verði að erfingi, sem hlotið hefur fyrirframgreiðslu umfram aðra erfingja, njóti ekki hagnaðar af verðlagsbreytingum sem orðið hafa á tímabilinu frá því fyrirframgreiðsla átti sér stað fram að endanlegu uppgjöri arfsins að arfleifanda látnum. En það gat orðið niðurstaða eins og þágildandi ákvæði var orðað og miðaði við gangverð þegar erfingja var afhent verðmætið. Þá kemur fram í athugasemdum með 12. gr. frumvarpsins um breytingu á 31. gr. að helsta efnisbreytingin væri sú að við frádrátt skyldi framreikna verðmæti til verðlags á þeim tíma sem frádráttur ætti sér stað. Ekki sé þó í ákvæðinu mælt nánar fyrir um sjálfa reikniaðferðina sem beita eigi í þessu skyni, t.d. hvort þetta skuli gert eftir ákveðinni vísitölu eða öðrum verðlagsmæli. Þá gæti komið til álita að beita mismunandi vísitölum eftir því um hverja eign væri að ræða hverju sinni. En ef ágreiningur risi um verðgildi fyrirframgreiðslu væri það lagt í hendur dómstóla að meta eftir atvikum hæfilega fjárhæð þannig að stuðlað yrði að jafnræði milli erfingja.

Er ákvæðið eftir þessa breytingu svohljóðandi að í fyrri málslið 31. gr. laga nr. 8/1962 er mælt fyrir um þá meginreglu að verðmæti sem erfingi hefur fengið sem fyrir­framgreiddan arf skuli virða honum til frádráttar eftir gangverði þess þegar hann veitti því viðtöku, framreiknuðu til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað við arf­skipti. Í síðari málslið greinarinnar er mælt fyrir um þá undantekningu að hafi gangverð verðmæta lækkað til muna, frá því að fyrirframgreiðsla átti sér stað, vegna atvika sem erfingjanum verði ekki kennt um, skuli þó ekki draga meira frá en sanngjarnt sé svo að jöfnuður fáist með erfingjum.

Að mati dómsins þykir undantekning sú sem mælt er sérstaklega fyrir um í síðari málslið 31. gr. laganna ekki geta átt við í því máli sem hér er til úrlausnar þar sem skilja verður hana svo að henni sé ætlað að rétta hlut þess erfingja sem tekið hefur við verðmæti í fyrirframgreiddan arf en atvik orðið með þeim hætti að verðmætið hefur rýrnað mjög að verðgildi eftir að sú ráðstöfun átti sér stað. Er sú staða ekki uppi í máli þessu.

Dómurinn telur ljóst, þegar litið er til framreiknaðs virðis þeirra verðmæta er annars vegar faðir sóknaraðila fékk árið 1983 og varnaraðilar fengu árið 2005 og 2010, að faðir sóknaraðila hafi borið skarðan hlut frá borði við afhendingu fyrir­fram­greidds arfs eftir föður sinn. Er þá í raun sama hvaða viðmið er notað í þessum efnum, þ.e. við hvaða vísitölu er miðað.

Óumdeilt er að faðir sóknaraðila, G, fékk umrædda risíbúð afhenta sem fyrirframgreiddan arf frá föður sínum F. Undirrituðu þeir skjal þar að lútandi 24. nóvember 1983. Hinn fyrirframgreiddi arfur er þar tilgreindur sem umrædd risíbúð og tekið sérstaklega fram að fasteignamat hennar nemi 458.000 krónum og að erfðafjárskattur sé greiddur af því verðmæti. Verður því að líta svo á að til­greining fasteignamatsins hafi verið til marks um skilning aðila á að það væri sá mæli­kvarði er miða ætti við. Er því ekki varhugavert að miða verðmæti eignarinnar við afhendingu við þá upphæð. Kemur þá til efnislegrar úrlausnar það ágreiningsatriði aðila er lýtur að því hvernig framreikna beri virði risíbúðarinnar að K.

Fyrirmæli 31. gr. laga nr. 8/1962 eru skýr um það að í tilviki eins og því sem hér er til úrlausnar beri að miða við gangverð á þeim tíma er erfingi veitti verðmætinu við­töku en að það sé framreiknað til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað. Tekur dómurinn sérstaklega fram að lög standa ekki til þess að byggja á fasteignamati á dánardægri eins og varnaraðili hefur haldið fram og er slík aðferð beinlínis í and­stöðu við ummæli í greinargerð með 31. gr. laga nr. 8/1962 um skýringu þess ákvæðis og ekki í samræmi við jafnræðissjónarmið sem þar er vikið að.

Þá tekur dómurinn einnig fram að eins og atvikum er háttað í málinu standi 32. gr. laga nr. 8/1962 ekki því í vegi að hlutur sóknaraðila verði jafnaður í þessu tilliti. Er þá haft í huga að ekkert liggur fyrir í málinu um að faðir málsaðila hafi viljað mis­muna börnum sínum við fyrirframgreiðslu arfs og hafa engar líkur verið leiddar að því að það hafi verið ætlun hans. Verður í þessu sambandi heldur ekki horft fram hjá megin­reglu erfðalaga um jafnræði barna og þau sanngirnissjónarmið sem almennt búa að baki ákvæðum laganna.

Horfa verður til þess að faðir sóknaraðila tók við íbúðinni árið 1983. Gögn máls­ins gefa til kynna að foreldrar sóknaraðila hafi lagst í gagngerar endurbætur á hús­næðinu og lagt í það mikinn tíma og mikla fyrirhöfn. Þá verður að líta svo á að faðir sóknaraðila, eða eftir atvikum foreldrar sóknaraðila, hafi borið af íbúðinni kostnað og að sama skapi arð, frá afhendingu. Við afhendingu eignarinnar nam fast­eigna­mat hennar 480.000 krónum og er sú fjárhæð sérstaklega tilgreind við af­hendingu hennar til föður sóknaraðila. Eins og áður er komið fram er ekki nánar mælt fyrir um það í ákvæðinu við hvaða vísitölu skuli miða framreikning. Þykir ekki var­huga­vert, miðað við aðstæður og atvik þessa máls, að beita þeirri aðferð sem sóknar­aðili hefur í málinu haldið fram og framreikna verðmæti afhentra fasteigna miðað við bygg­ingarvísitölu og verðmæti afhents reiðufjár miðað við neysluvísitölu eins og aðal­krafa hans miðast við. Er þá höfð hliðsjón af útreikningi þeim er skiptastjóri aflaði og sóknaraðili hefur miðað við í kröfugerð sinni. Verðmæti þeirrar íbúðar er kom í hlut föður sóknaraðila árið 1983 framreiknað frá þeim tíma miðað við byggingarvísitölu til september 2012 nemur þá 5.532.016 krónum. Verðmæti fasteignar og reiðufjár er varn­araðilinn D fékk árin 2005 og 2010, framreiknað með þessum hætti, nemur 27.157.136 krónum. Verðmæti fasteigna og reiðufjár er varnaraðilarnir, A og C fengu árin 2005 og 2010, framreiknað með þessum hætti, nemur 27.130.797 krónum. Verðmæti fasteignar og reiðufjár er varnaraðilinn B fékk árin 2005 og 2010, framreiknað með þessum hætti, nemur 23.913.598 krónum. Er það því niður­staða dómsins að við uppgjör vegna skipta á búi F beri að miða við jafna skipt­ingu til allra aðila og að hlutur hvers þeirra um sig skuli nema 22.172.869 krónum. Van­greiðsla til handa föður sóknaraðila, og þá um leið ofgreiðsla fyrirframgreidds arfs til varnaraðila, nemur því 16.640.853 krónum. Til frádráttar þeirri fjárhæð koma 1.514.716 krónur til sóknaraðila samkvæmt úthlutunargerð skiptastjóra sem ekki er ágrein­ingur um að þessu leyti og kröfugerð sóknaraðila miðar við og er heildar­fjár­hæðin því 15.126.137 krónur. Miðast endurgreiðslur hvers og eins varnaraðila við hlut­fall ofgreiðslu fyrirframgreidds arfs sem þau fengu á árunum 2005 og 2010 og áður er getið. Verður varnaraðilanum D, við uppgjör á búinu, gert að greiða 4.530.278 krónur, varnaraðilunum A og C gert að greiða 4.507.589 krónur og varnaraðilanum B gert að greiða 1.580.681 krónu. Þá er fallist á að áður­nefndar fjárhæðir beri dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þing­fest­ing­ardegi máls þessa, 5. febrúar 2016, sbr. 4. mgr. 5. gr. þeirra laga. Verður því að öllu leyti fallist á aðalkröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði og koma varakröfur aðila því ekki til neinna álita í málinu.

Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Sóknaraðili nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. útgefið leyfi frá 12. apríl 2016. Er gjafsóknin takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 4. og 5. mgr. 127. gr. áðurnefndra laga. Greiðist kostnaður hennar af málarekstrinum því úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 14. júní 2016.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, E, um að varnaraðilinn D greiði dánarbúi F, kt. [...], 4.530.278 krónur, varnaraðilinn A greiði dánarbúinu 4.507.589 krónur, varnaraðilinn C greiði dánarbúinu 4.507.589 krónur og varnaraðilinn B greiði dánarbúinu 1.580.681 krónu, með dráttarvöxtum af framangreindum fjárhæðum frá 5. febrúar 2016, samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. mgr. 5. gr. þeirra laga.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. mál­flutn­ings­þóknun lögmanns hennar, Björns L. Bergssonar hrl., 1.800.000 krónur.