Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/2015

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður),
(Magnús Hrafn Magnússon réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað

Reifun

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við B sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var refsing X ákveðin fangelsi í 2 ár auk þess sem honum var gert að greiða B 1.200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.

Fyrir Hæstarétti hefur ákærði meðal annars borið fyrir sig að af hálfu ákæruvaldsins hafi um sönnun fyrir sök hans verið byggt nokkuð á því, sem komið hafi fram í lögregluskýrslu um handtöku hans um klukkan 4 aðfaranótt 4. október 2013 varðandi orðaskipti hans við lögreglumenn um samskipti hans við fyrrnefnda B þá um nóttina, svo og í skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu að áliðnum morgni þess dags. Vísar ákærði til þess að þegar lögreglumenn komu á heimili hans um nóttina til að handtaka hann hafi honum ekki verið leiðbeint um rétt sinn til að neita að tjá sig um sakarefnið fyrr en að afstöðnum þessum orðaskiptum. Þá hafi verið tekin um tveimur klukkustundum eftir handtöku sýni úr blóði ákærða og þvagi og hafi vínandi í blóðinu mælst 2,84‰ og í þvagi 4,11‰. Hann hafi samkvæmt þessu ekki aðeins verið mjög ölvaður við handtöku, heldur jafnframt ölvaður við skýrslugjöf hjá lögreglu milli klukkan 11 og 12 að morgni 4. október 2013. Stangist þetta verklag lögreglu á við ákvæði 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. og leiði það til þess að ekkert verði byggt á því sem haft hafi verið eftir ákærða í lögregluskýrslum sem hér um ræðir.

Um þetta verður að líta til þess að í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða er varðandi sönnun í engu byggt á því, sem fram kom í lögregluskýrslum, þótt þess hafi réttilega verið þar getið að frásögn hans hafi verið á annan veg fyrir dómi en hjá lögreglu. Þegar af þessum sökum fá þessar varnir ákærða engu breytt við úrlausn málsins.

Að gættu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða staðfest með vísan til forsendna dómsins, svo og ákvæði hans um bætur til brotaþola.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður ekki litið fram hjá því að lögreglurannsókn, sem ekki var mikil að umfangi, mun hafa lokið síðla í nóvember 2013, en ákæra í málinu var þó ekki gefin út fyrr en 14. maí 2014. Að gengnum héraðsdómi lýsti ákærði yfir áfrýjun 9. mars 2015 og gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu samdægurs. Héraðsdómur Reykjavíkur sendi ríkissaksóknara 19. júní 2015 dómsgerðir í málinu að meðtöldu endurriti af munnlegum skýrslum fyrir dómi, en málsgögn bárust á hinn bóginn ekki Hæstarétti fyrr en 4. febrúar 2016. Þessar tafir af hendi ákæruvaldsins voru andstæðar þeirri meginreglu að hraða skuli meðferð sakamáls eftir föngum, sbr. 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og er óhjákvæmilegt að þær hafi afleiðingar við ákvörðun refsingar. Þegar þetta er virt með tilliti til alvarleika brots ákærða og þeirrar refsingar, sem við slíkri háttsemi liggur samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, kemur krafa ákæruvaldsins um þyngingu refsingar ekki til álita. Verður niðurstaða héraðsdóms um hana því staðfest.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest. Þá verður ákærða gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 980.318 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Magnúsar Hrafns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2015.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 4. febrúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. maí 2014, á hendur X, kennitala [...], […], Reykjavík, „fyrir nauðgun með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 4. október 2013, á heimili sínu að […], Reykjavík, haft samræði við B, kennitala [...], en ákærði notfærði sér að B gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 4. október 2013 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist þóknunar réttargæslumanns að mati dómara eða síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.“

                Ákærði neitar sök og krefst sýknu og að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Þess er sérstaklega krafist að dráttarvaxtakröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Þá krefst ákærði þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun.

II

                Málavextir eru þeir að nefnda nótt voru lögreglumenn kvaddir að […] við […]. Þar voru brotaþoli og kærasti hennar. Segir í skýrslunni að hún hafi verið útgrátin og grátið er lögreglumenn komu. Kærastinn sagði lögreglumönnum að þau hefðu verið gestkomandi á heimili ákærða og taldi hann að ákærði hefði nauðgað brotaþola. Brotaþoli kvað ákærða hafa komið fram vilja sínum við sig eins og það er orðað. Brotaþoli var flutt á slysadeild og fór kærasti hennar með henni. Lögreglumenn fóru á heimili ákærða og handtóku hann.

                Í viðræðum við lögreglumenn á slysadeild skýrði kærasti brotaþola svo frá að þau hefðu verið á skemmtistað kvöldið áður og hitt ákærða. Hann hefði boðið þeim heim til sín og síðan boðið þeim að gista. Það hefði orðið úr að þau hefðu sofnað í hjónarúmi ákærða og hefði þá klukkan verið 01:57. Hann kvaðst síðan hafa vaknað klukkan 03:16 til að fara á salerni en sofnað aftur. Hann hefði svo vaknað við að brotaþoli hefði látið ófriðlega og kvaðst hann hafa tekið utan um hana og þá fundið að einhver hefði legið fyrir aftan hana. Kærastinn kvaðst hafa farið á fætur og kveikt ljós og þá séð ákærða í rúminu. Hann kvaðst hafa lyft sænginni og séð á brotaþoli var ekki í nærbuxum og ákærði hafi verið nakinn með liminn stífan. Kærastinn kvaðst hafa orðið reiður og kýlt ákærða og síðan hefðu hann og brotaþoli farið út.

                Brotaþoli skýrði frá því á slysadeild að hún hefði vaknað við að einhver hefði legið bak við sig og verið að eiga við sig kynmök. Síðan er haft eftir henni að hún hafi ekki veitt mótspyrnu í fyrstu, þar sem hún hefði haldið að þetta væri kærasti sinn, en er hún uppgötvaði að það var ákærði sem var í leggöngum hennar hefði hún ýtt honum frá sér og öskrað.

                Á Neyðarmóttökunni er skráð eftir brotaþola að hún og kærasti hennar hafi farið að sofa í rúmi ákærða. Hún hafi verið í kjól en farið úr sokkabuxum. Hún mundi „ekki hvort hún hafi farið sjálf úr nærbuxunum, en vaknar við að það er verið að hafa við hana samfarir í leggöng aftaní frá og telur í fyrstu að það sé kærasti sinn en finnur svo að hann liggur fyrir framan hana og fattar strax hvað er að gerast og kippir sér strax frá og fer úr rúminu án nokkurrar mótstöðu kunningjans sem lá fyrir aftan hana. Kærastinn vaknar líka um leið og hún fer úr rúminu. Hún klæðir sig í sokkabuxurnar og rýkur fram í anddyri og heyrir á meðan að kærastinn er að tala við kunningjann.“ Síðan fóru þau úr húsinu og hringdu á lögreglu.

                Í skýrslu um handtöku ákærða, en hann var handtekinn klukkan 04:07, er haft eftir honum að hann hefði boðið brotaþola og kærasta hennar að gista í rúmi á heimili sínu. Hann kvað sig svo hafa langað til að leggjast í eigið rúm og gert það. Hann kvaðst síðan hafa brugðist við eins og karlmenn geri er þeir liggi við hlið konu og farið að kyssa brotaþola. Hún hefði kysst sig á móti og svo varð smá „pene“ eins og haft er eftir ákærða og nánar aðspurður játaði hann að það þýddi „penetration.“

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðar þennan sama dag kvaðst ákærði hafa hitt brotaþola og kærasta hennar á bar og boðið þeim heim til sín. Hann hefði síðan boðið þeim að gista í rúmi sínu og hefðu þau þegið það. Eftir að þau voru komin upp í rúm kvaðst hann sjálfur hafa lagst í rúmið og legið við hægri hlið brotaþola. Síðan segir ákærði orðrétt: „Þegar ég verð þá bara náttúrulega hérna ligg þarna og. Og líkamar snertast. Bara eins og gengur og gerist. Hérna ég er klæddur í peysu og náttbuxur. Og þegar greinilega hún finnur snertingu, hún snýr sér að mér. Og, og, og það byrja svona atlot. Byrja að kyssast. Og, og, og kossarnir leiða út í. Eh einhvers konar hérna frekari þreifingar. Sem að svo leiða að, að að alla vega þá, þá. Verður þarna einhverskonar kynferðislegt samneyti.“ Síðar í yfirheyrslunni var ákærði beðinn að lýsa þessu nánar og kvað hann þá kynfæri hafa snerst en neitaði að hafa sett lim sinn inn í leggöng brotaþola. Það gæti þó hafa gerst en það hefði þá verið stutt, nánast ekki neitt og honum hefði ekki orðið sáðfall. Hann kvaðst hafa túlkað atlot og kossa brotaþola sem samþykki hennar fyrir mökunum. Þá kvað ákærði brotaþola hafa sjálfa farið úr undirfötum og hann hefði klætt sig úr buxum. Ákærði kvaðst vera kunnugur kærasta brotaþola en aldrei áður hafa séð hana.

                Tekin voru tvö blóðsýni úr brotaþola til alkóhólrannsóknar. Fyrra sýnið var tekið klukkan 04:30 og voru í því 1,83 prómill alkóhóls. Síðara sýnið var tekið klukkan 05:40 og voru í því 1,51 prómill alkóhóls. Þá var rannsakað þvagsýni úr brotaþola sem tekið hafði verið klukkan 04:30 og innihélt það 2,48 prómill alkóhóls. Við réttarlæknisfræðilega skoðun sem hófst klukkan 06:15 var ákærða tekið blóð og þvag til alkóhólrannsóknar. Niðurstaðan var sú að í blóðsýninu voru 2,84 prómill alkóhóls og í þvagsýninu 4,11 prómill.

                Nærbuxur brotaþola voru rannsakaðar og tekin úr þeim þrjú sýni og reyndust vera sáðfrumur í þeim. Niðurstaða rannsóknar á sýnunum sýndi að sáðfrumurnar voru úr kærasta brotaþola.

                Meðal gagna málsins er vottorð sálfræðings brotaþola. Það er dagsett 23. júní 2014 og segir þar að sálfræðingurinn hafi hitt hana níu sinnum frá 11. október 2013 til þess dags. Í vottorðinu segir að allt viðmót brotaþola bendi til þess „að hún hafi upplifað ótta, bjargarleysi og hrylling í meintu kynferðisbroti. Fyrstu vikurnar eftir áfallið greindi hún frá töluverðum áfallastreitueinkennum sem fóru minnkandi eftir því sem á leið. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem þekkt eru hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virtist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Samræmi var í frásögn hennar og tilfinningalegum viðbrögðum.“

III

                Ákærði kvaðst hafa hitt brotaþola og kærasta hennar á ölstofu kvöldið áður og boðið þeim að gista heima hjá sér. Þau þáðu boðið og gengu heim til hans. Er heim til hans kom kvað hann þau hafa horft á sjónvarp en ekki kvað hann brotaþola hafa sofnað yfir sjónvarpinu. Hann kvaðst hafa séð brotaþola drekka bjór á ölstofunni og eins hefðu þau öll drukkið bjór heima hjá sér. Ákærði kvaðst hafa verið kunnugur kærastanum en taldi sig ekki hafa hitt brotaþola áður.

                Ákærði kvaðst hafa boðið brotaþola og kærasta hennar að sofa í rúmi sínu en sjálfur hafi hann ætlað að sofa í sófa í stofunni. Það hefði þó ekki hentað honum enda sófinn þröngur og hann búinn að vera slæmur í baki. Þess vegna hefði hann ákveðið að sofa einnig í rúminu með þeim. Hann kvaðst hafa farið inn í rúm til þeirra tíu mínútum til hálftíma eftir að þau fóru að sofa. Þegar hann kom í rúmið hefðu þau verið sofnuð. Ákærði kvaðst hafa sofnað en vaknað við að brotaþoli var vakandi og þá hafi þau farið að láta vel hvort að öðru með þreifingum og kossum. Hann kvaðst telja alveg víst að brotaþoli hefði vitað hver hann var þótt ekkert slíkt hefði áður farið fram milli þeirra. Þá kvaðst hann ekki hafa gefið brotaþola í skyn að hann hefði áhuga á henni og hún hefði heldur ekki gefið honum slíkt til kynna. Þessi atlot stóðu ekki lengi og kvaðst hann ekki geta lýst þeim nánar, nema hvað munnar þeirra hefðu mæst í kossum. Nú hefði kærastinn vaknað og öskrað upp yfir sig og rifið sængina af þeim. Ákærði kvaðst þá hafa legið í rúminu og verið klæddur í náttbuxur og peysu að því er hann hélt. Hann kvaðst ekki hafa farið úr náttbuxunum. Hann neitaði að hafa haft samræði við brotaþola, hann hefði hvorki sett lim í leggöng brotaþola né snert hana með honum. Hann kvaðst ekki hafa veitt því athygli hvernig brotaþoli var klædd og gat ekki borið um hvort hún hefði verið í nærbuxum eða sokkabuxum. Ákærði kvað brotaþola hafa legið í miðju rúmi og hann hefði legið vinstra megin við hana. Hann kvaðst telja að hann hafi legið á bakinu en kvaðst ekki muna hvernig hún lá. Þá kvaðst hann ekki hafa orðið var við að kærastinn færi á salerni.

                Eftir að kærastinn hafði svipt sænginni af ákærða og brotaþola og öskrað á þau kvaðst ákærði hafa reynt að róa hann og segja honum að það væri nú ekki allt sem sýndist. Kærastinn hefði líka reynt að slá til sín. Hann kvað þau hafa rokið út en sjálfur hefði hann farið aftur að sofa. Skömmu síðar hefðu lögreglumenn komið og taldi hann það eitthvað tengjast veru brotaþola og kærasta hennar í íbúðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa verið ölvaður þetta kvöld og nótt og hin hefðu heldur ekki verið ölvuð.

                Undir ákærða var borinn framburður kærastans hjá lögreglu um að hann hefði séð ákærða með standpínu og kvaðst ákærði ekki draga það í efa. Þá var borið undir hann það sem brotaþoli bar um að hún hefði fundið fyrir ákærða í leggöngum sínum og kvað hann það rangt. Honum var bent á að hjá lögreglu hefði hann ekki dregið þetta í efa og kvaðst hann hafa dregið þetta í efa síðar í skýrslutökunni. Þá var borið undir ákærða það sem haft er eftir honum í handtökuskýrslu um að hann hefði farið að láta vel að brotaþola og svo hefði orðið smá „pene“. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt þetta við lögreglumenn.

                Brotaþoli skýrði svo frá að hún og kærasti hennar hefðu hitt ákærða á ölstofu. Þau hefðu spjallað saman og drukkið bjór en ákærði og kærastinn þekktust frá fyrri tíð. Ákærði hefði boðið þeim heim og hefðu þau þegið það. Þegar komið var heim til ákærða hefði verið sest inn í stofu og ákærði hefði sótt bjór handa þeim. Hann hefði síðan sagst ætla í þægilegri föt og farið í náttbuxur. Ákærði hefði síðan spurt hvað þau vildu gera og kvað brotaþoli sér hafa fundist það einkennilegt, enda væri hún því vön við svona tækifæri að fólk spjallaði saman. Ákærði hefði nú sýnt þeim sjónvarpsþátt en hún kvaðst ekki muna nema blábyrjun hans þar sem hún hefði verið við það að sofna og hefði líklega sofnað. Ákærði og kærastinn hefðu hins vegar spjallað saman. Þegar hún vaknaði hefði kærasti hennar viljað fara en ákærði hefði viljað að þau gistu og hefði það orðið úr. Ákærði hefði boðið þeim að sofa í rúmi sínu og hefðu þau þegið það. Hann hefði hins vegar sagst ætla að sofa í sófa. Fyrst hefðu þau viljað sofa í sófanum en ákærði hefði ekki tekið annað í mál en þau svæfu í rúminu. Hún kvaðst hafa farið fyrst inn í svefnherbergið og sofnað eiginlega samstundis, enda hefði hún verið syfjuð, þreytt og ölvuð. Hún kvaðst síðan hafa vaknað og fundið fyrir ákærða inni í leggögnunum. Þá kvaðst hún hafa legið á hægri hlið og snúið sér að kærasta sínum. Hún kvaðst ekki hafa kippt sér upp við þetta enda talið þetta vera kærasta sinn. Brotaþoli kvaðst hafa tekið þátt í samförunum og ýtt sér á móti. Þetta hefði staðið yfir mjög stutt. Í svefnrofunum kveðst hún hafa fundið fyrir kærasta sínum og opnað augun og þá séð í bak kærastans. Í því hefði hann einnig vaknað og sprottið upp en hún kvaðst hafa farið út. Hún kvaðst svo hafa farið aftur og kallað á kærasta sinn er hafi spurt hvað hefði gerst. Þá kvaðst hún hafa farið að gráta og sagst ekki vita það. Þau hefðu síðan hringt á lögregluna.  

                Brotaþoli kvaðst hafa sofnað alklædd, það er í kjól, nærbuxum og sokkabuxum. Hún kvaðst ekki muna hvernig hún var klædd þegar hún vaknaði en þegar hún kom út var hún ekki í nærbuxum og sokkabuxum. Hún kvaðst ekki geta skýrt hvernig hún hefði farið úr fötunum. Nærbuxurnar hefðu svo fundist í vasa á jakka kærastans þegar þau voru á Neyðarmóttökunni. Hann hefði sagt sér að hún hefði sett þær í vasann. Brotaþoli hafnaði því alfarið að hafa svarað atlotum ákærða eða haft frumkvæði að atlotum gagnvart honum. Hún kvaðst ekki á nokkurn hátt hafa gefið ákærða til kynna að hún vildi eiga mök við hann.

                Kærasti brotaþola bar að þau hefðu hitt ákærða á ölstofu og hefðu þau drukkið bjór saman. Ákærði er gamall kunningi hans. Hann kvað ákærða hafa boðið þeim heim með sér og hefðu þau þegið það. Þegar þangað var komið hefði ákærði sýnt þeim þátt í sjónavarpi og veitt þeim bjór. Ákærði hefði einnig haft fataskipti og farið í náttbuxur. Kærastinn kvað sig og brotaþola hafa verið orðin þreytt, sérstaklega þó hana sem hefði sofnað í sófanum. Þess vegna hefði orðið minna um samræður en efni hefðu ef til vill staðið til. Um nóttina kvað kærastinn þau hafa ætlað að fara en ákærði hefði boðið þeim að gista og hefði orðið úr að þau þáðu það. Ákærði hefði boðið þeim að gista í rúmi sínu en kvaðst sjálfur ætla að sofa í sófanum. Kærastinn kvað þau hafa sofnað en svo hefði hann vaknað og farið á salerni upp úr klukkan þrjú. Hann hefði svo sofnað aftur en eftir einhvern tíma kvaðst hann hafa fundið handlegg brotaþola á öxl sér eða bringu. Hann kvaðst einnig hafa fundið óeðlilegar hreyfingar, eins og samfarahreyfingar væru í gangi. Hann kvað sér hafa fundist þetta mjög furðulegt og hreyfingar brotaþola einkennilegar þegar hún eins og þreifaði á honum. Kærastinn kvaðst ekkert hafa séð enda niðamyrkur þarna inni í svefnherberginu. Hann kvaðst hafa tekið í hönd brotaþola og í því þreifað á ákærða til að kanna hvað væri í gangi. Þá kvaðst hann hafa gert sér grein fyrir að ákærði væri að taka brotaþola aftan frá enda bentu hreyfingar hennar til þess. Hann kvaðst nú hafa misst stjórn á sér, staðið upp, kveikt ljós og þá hefði brotaþoli vaknað og staðið upp. Hann kvaðst hafa kippt sænginni burtu og séð ákærða sem hafi verið nakinn að neðan og með standpínu. Þá kvaðst hann hafa kýlt eða reynt að kýla ákærða. Eins hefði hann brotið glas eða eitthvað slíkt. Þegar þetta var hefði brotaþoli verið komin út en sjálfur kvaðst hann hafa verið ráðvilltur um hvað gera skyldi. Þá kvaðst hann hafa heyrt brotaþola kalla á sig og farið út til hennar. Hún hafi verið grátandi og kallað á sig að þau skyldu fara. Þau hefðu bæði verið í áfalli en hann hefði stungið upp á að kæra þetta og hefði hún fallist á það.

                Kærastinn kvaðst hafa farið að sofa ber að ofan en brotaþoli hefði sofnað í öllum fötum nema úlpu. Þegar hann vaknaði kvaðst hann hafa legið á hægri hlið og brotaþoli við bak hans. Aftan við brotaþola hefði svo ákærði legið. Hann kvað brotaþola hafa verið bera að neðan en í kjól að ofan, að því er hann minnti. Hann kvaðst seinna hafa fundið nærbuxur brotaþola í vasa sínum en ekki kvaðst hann vita hvernig þær hefðu komist þangað. Þá kvað kærastinn það af og frá að brotaþoli hefði verið að halda fram hjá sér í þetta skipti. Eftir þetta hefði brotaþoli verið gersamlega niðurbrotin og hún hefði varla getað gengið.

                Lögregluvarðstjóri, sem ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Varðstjórinn kvaðst hafa hitt brotaþola og kærasta hennar við enda götunnar sem ákærði býr við. Hún hefði verið miður sín, titrað öll og skolfið. Það hefði verið áfengislykt af henni en hún ekki borið önnur ölvunarmerki. Þau hefðu skýrt frá því að þau hefðu hitt kunningja sinn og farið með honum heim. Þar hefðu þau horft á mynd og hann síðan boðið þeim gistingu. Þau hefðu ætlað að sofa í sófanum en hann hefði lánað þeim rúmið sitt þar sem þau hefðu sofnað. Kærasti brotaþola sagðist hafa vaknað við að hún hefði verið óróleg og gripið í sig. Þá sagðist hann hafa þreifað fyrir sér og fundið fyrir öðrum í rúminu. Kærastinn hefði þá stokkið á fætur, kveikt ljós, svipt sænginni í burtu og þá séð ákærða liggja, beran að neðan upp við brotaþola. Varðstjórinn kvaðst hafa flutt þau tvö á Neyðarmóttökuna.

                Lögreglumaður, sem ritar handtökuskýrslu um ákærða, bar að hafa farið að handtaka hann ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum. Þau hafi knúið dyra hjá honum og hefði hann opnað. Hann kvað þau hafa spurt ákærða hvort hann vissi af hverju þau væru þarna og hann hefði svarað því játandi. Eftir það hefði ákærða verið gerð grein fyrir réttindum sínum og að því búnu hefði hann verið handtekinn. Hann kvað þá lögreglumenn hafa spurt ákærða lauslega um hvað hefði gerst og hann svarað því til að það hefði verið „smápene“ og þegar hann hefði verið spurður hvort það þýddi „penetration“ hefði hann svarað „já smá“. Skömmu síðar hefði tæknideildin komið á vettvang en ákærði verið fluttur á lögreglustöð. Hann kvað ákærða hafa verið talsvert ölvaðan.

                Annar lögreglumaður, sem kom að brotaþola og kærasta hennar, bar að brotaþoli hefði verið grátandi og í uppnámi. Síðan kvaðst hann hafa farið með tveimur lögreglumönnum að heimili ákærða þar sem hann hefði verið handtekinn. Lögreglumaðurinn kvað þá hafa kynnt ákærða að hann væri grunaður um nauðgun og væri handtekinn. Þá kvað hann ákærða hafa sagt að hann hefði boðið brotaþola og kærasta hennar að gista í rúmi sínu. Þau hefðu þegið það og nokkru síðar hefði hann farið upp í rúm og þar hefði hugsanlega orðið „smápene“ og kvaðst lögreglumaðurinn þá hafa spurt hvort hann ætti við „penetration“ og hefði ákærði jánkað því en bætt svo við „það eru þín orð“. Hann kvað ákærða hafa verið ölvaðan en rólegan.

                Þriðji lögreglumaður, sem fór á heimili ákærða, bar að lögreglumenn hefðu spurt ákærða er hann kom til dyra hvort hann vissi erindi þeirra og hefði hann játað því. Þeir hefðu síðan rætt við ákærða sem hafi verið ölvaður en virst alveg vita hvert erindi lögreglumannanna væri. Ákærði hefði sagt þeim að þau hefðu komið þrjú saman á heimili hans og horft á sjónvarp. Hann hefði boðið þeim að gista og sjálfur sagst ætla að sofa í sófanum. Síðan sagðist hann hafa farið upp í til þeirra, þeim megin sem brotaþoli var, og farið að kyssa hana og hún kysst á móti. Síðan hefði orðið „smápene“ eins og ákærði hefði orðað það. Ákærði hefði verið spurður hvort það þýddi „penetration“ og hefði hann jánkað því.

                Læknir, sem skoðaði brotaþola á Neyðarmóttökunni, staðfesti skýrslu sína. Hún kvaðst ekki muna eftir brotaþola og komu hennar á Neyðarmóttökuna.

                Sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar staðfesti gögn sem eru meðal gagna málsins. Þar var um að ræða rannsókn á nærbuxum brotaþola en þar fundust sæðisleifar sem reyndust vera úr kærasta brotaþola.

                Deildarstjóri rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti niðurstöður framangreindra alkóhólrannsókna.

                Sálfræðingur, sem brotaþoli hefur gengið til, staðfesti framangreint vottorð sitt. Hún kvað brotaþola ganga vel við að takast á við afleiðingarnar en hún hefði ekki að fullu jafnað sig. Hún kvað brotaþola ekki hafa fengið áföll áður og hún hafi ekki átt við geðræn vandamál að stríða. Hún kvað einkenni brotaþola eindregið benda til þess að henni hefði verið nauðgað. Þau bentu ekki til þess að hún hafi verið að halda fram hjá kærasta sínum.

IV

                Ákærða, brotaþola og kærasta hennar ber saman um að ákærði hafi boðið þeim að gista á heimili sínu og að þau ættu að sofa í rúmi hans. Sjálfur ætlaði hann að sofa í sófa. Þeim ber einnig saman um að brotaþoli og kærastinn hafi verið sofandi er ákærði lagðist í rúmið hjá þeim. Þá ber þeim öllum saman um að þau hafi neytt áfengis og verið undir áhrifum þess. Niðurstöður alkóhólrannsókna, sem raktar voru að framan, styðja að ákærði og brotaþoli voru bæði undir allverulegum áfengisáhrifum. Ákærði bar að hafa sofnað í rúminu en vaknað við að brotaþoli hafi verið vakandi og þau farið að láta vel hvort að öðru eins og rakið var. Hann neitaði þó alfarið að hafa haft samræði við brotaþola eða að limur hans hefði snert hana. Brotaþoli ber á allt annan veg og kvaðst hafa vaknað við að ákærði hefði verið að hafa við sig samræði og hefði hún tekið á móti honum, enda talið að um kærasta sinn hafi verið að ræða. Kærasti brotaþola ber að hafa vaknað við hreyfingar hennar. Hann hefði staðið upp, svipt af þeim sænginni og þá séð ákærða, nakinn að neðan og með standpínu. Í framhaldinu hefði brotaþoli staðið upp og farið út.

                Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi. Framburður hennar er í öllum aðalatriðum samhljóða framburði hennar hjá lögreglu. Þá fær hann stuðning af framburði vitna, kærasta hennar, lögreglumanna og læknis á Neyðarmóttöku sem rakinn hefur verið. Þá styður vottorð sálfræðings einnig framburð brotaþola. Á hinn bóginn metur dómurinn framburð ákærða ótrúverðugan og sérstaklega að hann skuli fara upp í rúm til sofandi gesta sinna til að sofa þar eftir að hafa áður sagst ætla að sofa í sófanum. Á sama hátt metur dómurinn ótrúverðugan þann framburð hans að brotaþoli hafi verið vakandi og þau farið að láta vel hvort að öðru, enda fær sú fullyrðing hans ekki stuðning í öðrum gögnum málsins. Þá er og til þess að líta að ákærði bar ekki á sama hátt fyrir dómi og hann hafði gert hjá lögreglu eins og rakið var.

                Það er niðurstaða dómsins að byggja á trúverðugum framburði brotaþola, sem studdur er framangreindum gögnum. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot og er refsing hans hæfilega ákveðin 2 ára fangelsi.

                Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og í dómsorði greinir. Ákærði krafðist þess við aðalmeðferð að dráttarvaxtakröfu brotaþola yrði vísað frá dómi þar eð í kröfugerðinni væri ekki vísað í 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga heldur einungis til 9. gr. sömu laga. Í nefndri 9. gr. segir að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og var því nægjanlegt fyrir brotaþola að nefna þá grein í kröfugerð sinni. Henni verða hins vegar dæmdir dráttarvextir sem reiknaðir eru eftir reglu 1. mgr. 6. gr. eftir tilvísun í 9. gr. Það var því þarflaust að nefna 1. mgr. 6. gr. sérstaklega. Það athugast að ákærða var fyrst birt bótakrafan við þingfestingu og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þingfestingu.

                Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

                Héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Guðjón St. Marteinsson og Sigríður Hjaltested, kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.

      Ákærði greiði B 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. október 2013 til 12. júlí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

      Ákærði greiði 294.740 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 1.023.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Maríu Pálsdóttur hdl., 511.500 krónur.