Hæstiréttur íslands

Mál nr. 655/2013


Lykilorð

  • Börn
  • Faðerni
  • Dómari
  • Ómerking héraðsdóms


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 655/2013.

A

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

M

(Þyrí Steingrímsdóttir hrl.)

Börn. Faðerni. Dómari. Ómerking héraðsdóms.

A krafðist þess að viðurkennt yrði að M væri faðir sinn og að honum yrði gert að greiða einfalt meðlag með henni á mánuði til 18 ára aldurs. M sótti ekki þing við meðferð málsins í héraði, en honum var skipaður málsvari á grundvelli 13. gr. barnalaga nr. 76/2003 er liðið var á meðferð málsins. Hæstiréttur vísaði til þess að skipaður málsvari M hefði mótmælt kröfu A um viðurkenningu á faðerni hennar og hefði verið bókað um það í þingbók. Hefðu því ekki verið skilyrði til þess að fara með málið samkvæmt 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála svo sem gert hafði verið. Þá taldi Hæstiréttur að þar sem málsvari M hefði mótmælt kröfu A hefði aðstoðarmann dómara brostið vald til þess að leysa efnislega úr málinu. Að þessu virtu var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2013. Hún krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé faðir sinn og að honum verði gert að greiða einfalt meðlag með áfrýjanda frá fæðingardegi hennar til fullnaðs 18 ára aldurs. Þá krefst hún þess að þóknun lögmanns hennar vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti verði greidd úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnda er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur og að þóknun málsvara verði greidd úr ríkissjóði.

Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. nóvember 2012 og þá bókað í þingbók að ekki hafi verið sótt þing af hálfu stefnda. Þinghald var aftur háð 12. mars 2013, en líkt og við þingfestingu var ekki mætt af hálfu stefnda. Bókað var að lögmaður áfrýjanda teldi birtingu stefnu hafa verið fullnægjandi og að ekki væru lagarök fyrir að vísa málinu frá dómi. Var málið að því búnu tekið til úrskurðar. Með úrskurði héraðsdóms 27. sama mánaðar var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu með þeim rökun að ekki væri ljóst af stefnu hver stefndi væri og gengi það gegn a. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með dómi Hæstaréttar 23. apríl 2013 í máli nr. 251/2013 var frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til frekari meðferðar. Næsta þinghald fór fram 11. júní 2013. Var þá sótt þing af hálfu áfrýjanda en ekki stefnda. Var bókað í þingbók að aðstoðarmaður dómara beindi þeim tilmælum til lögmanns áfrýjanda að afla sönnunargagna í málinu. Jafnframt var bókað að tekin hafi verið skýrsla af móður áfrýjanda. Í þinghaldi 8. júlí sama ár ítrekaði aðstoðarmaður dómara að lögð yrðu fram sönnunargögn eða upplýsingar um stefnda „til þess að hægt sé að hafa samband við hann.“ Óskaði lögmaður áfrýjanda af því tilefni eftir frekari fresti til gagnaöflunar og var málinu frestað til 28. ágúst sama ár. Á dómþingi þann dag var af hálfu áfrýjanda lagt fram tölvubréf sem mun hafa verið frá stefnda til móður áfrýjanda ásamt þýðingu, en ekki var sótt þing af hálfu stefnda. Dómþing var á ný háð 5. september 2013 og sótti nafngreindur héraðsdómslögmaður þing fyrir hönd stefnda sem skipaður málsvari hans, sbr. 13. gr. barnalaga nr. 76/2003. Lagði málsvarinn fram gögn í þinghaldinu til staðfestingar á tilraunum sínum til að hafa upp á stefnda og upplýsa hann um málið. Í þinghaldi 18. september 2013 gerði málsvarinn frekari grein fyrir tilraunum sínum til að hafa upp á stefnda og í beinu framhaldi var bókað að málsvarinn hefði mótmælt kröfum áfrýjanda „á grundvelli þess að lögfull sönnun um faðerni sé ekki fyrir hendi í þessu máli.“ Að svo búnu var málið dómtekið. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 27. september 2013 af aðstoðarmanni dómara, sem jafnframt stýrði þinghöldum í málinu frá 12. mars 2013.

Í 13. gr. barnalaga segir að dómari geti, þegar sérstaklega stendur á, skipað stefnda málsvara ef ekki er sótt þing af hans hálfu við þingfestingu máls eða í þeim tilvikum þar sem þingsókn hans fellur niður á síðari stigum. Skal málsvari hafa samráð við umbjóðanda sinn ef unnt er samkvæmt ákvæðinu. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna kemur fram að málsvara sé ætlað að tala máli stefnda og gæta hagsmuna hans, en málsvarinn hafi á hinn bóginn ekki heimild til að skuldbinda hann fyrir dómi. Þá er þar einnig rakið að skilyrði ákvæðisins um að sérstaklega standi á geti til dæmis átt við í þeim tilvikum þegar stefndi er búsettur erlendis.

Svo sem áður hefur verið rakið var stefnda skipaður málsvari sem í þinghaldi 18. september 2013 mótmælti kröfu áfrýjanda og var bókað um það í þingbók. Í héraðsdómi var vísað til þess að stefndi hefði hvorki sótt né látið sækja þing við meðferð málsins þótt honum hefði verið löglega stefnt og yrði málið því með vísan til 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 12. gr. barnalaga, dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði áfrýjanda að því leyti sem það samrýmdist framlögðum gögnum. Í ljósi orðalags 13. gr. barnalaga verður að telja að þegar stefndi sótti ekki þing við þingfestingu málsins 22. nóvember 2012 hafi héraðsdómi borið að taka til skoðunar hvort þannig stæði sérstaklega á að skipa ætti stefnda málsvara sem gefinn væri kostur á að taka til varna fyrir hans hönd, enda fær skipaður málsvari vart sinnt því hlutverki sínu að gæta hagsmuna stefnda nema að hann fái tækifæri til að koma á framfæri mótmælum við kröfu þess sem höfðað hefur mál um faðerni barns. Í síðasta lagi hefði borið að skipa stefnda málsvara þegar fyrir lá áðurgreindur dómur Hæstaréttar 23. apríl 2013. Að þessu var ekki gætt og var langt liðið á meðferð málsins fyrir héraðsdómi þegar stefnda var loks skipaður málsvari sem hvorki var gefinn kostur á að leggja fram greinargerð í málinu né gefið færi á að leggja spurningar fyrir móður áfrýjanda sem gaf skýrslu í málinu. Voru samkvæmt öllu framangreindu ekki efni til að fara með málið samkvæmt 1. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sbr. dóma Hæstaréttar 31. október 2013 í málum nr. 242/2013 og 243/2013.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 1. gr. laga nr. 51/2012, má ráða til héraðsdómstóla lögfræðinga sem ætlað er að vera héraðsdómurum til aðstoðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er dómstjóra veitt heimild til að fela aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi. Eins og að framan er rakið mótmælti málsvari stefnda kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á faðerni áfrýjanda. Þar sem svo stóð á brast aðstoðarmann héraðsdómara vald til að leysa efnislega úr málinu. Að öllu þessu virtu verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Ákvörðun málskostnaðar í héraði verður látin bíða nýs efnisdóms í málinu, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 11. gr. barnalaga greiðist málskostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar á meðal þóknun lögmanns hans sem ákveðin er eins og í dómsorði greinir. Þá verður þóknun málsvara stefnda fyrir Hæstarétti einnig greidd úr ríkissjóði, sbr. 13. gr. sömu laga og er hún ákveðin svo sem í dómsorði segir.  

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Þóknun lögmanns áfrýjanda, A, og málsvara stefnda, M, fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2013.

Mál þetta, sem var þingfest 22. nóvember 2012 og dómtekið 18. september 2013, er höfðað af B, kt. [...], [...], [...], fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, A, kt. [...], með stefnu birtri í Lögbirtingablaði 17. október 2012, á hendur M, fæddum [...], með óþekkt heimilisfang.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé faðir stúlkunnar A, kt. [...]. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða einfalt meðlag með barninu, frá fæðingardegi til fullnaðs 18 ára aldurs, eins og það er ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni. Þá krefst stefnandi þess að þóknun lögmanns verði greidd úr ríkissjóði samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti, svo og annar málskostnaður stefnanda, þar með talinn kostnaður við öflun mannerfðafræðilegra rannsókna og annarra sérfræðiskýrslna.

II

Samkvæmt stefnu málsins hefur stefnandi búið á Íslandi um nokkurra ára skeið. Stefnandi kveður stefnda vera [...] ríkisborgara. Móðir stefnanda og stefndi hafi kynnst árið 2008 og átt í stuttu ástarsambandi á getnaðartíma stefnanda. Á þeim tíma hafi móðir stefnanda ekki verið í nánu sambandi við annan karlmann en stefnda. Stefnandi hafi fæðst [...] 2008. Móðir stefnanda hafi lýst stefnda föður stefnanda við fæðingu hennar í samræmi við 7. gr. barnalaga nr. 76/2003. Yfirlýsingin komi fram í gögnum um fæðingu stefnanda, sbr. fæðingarvottorð hennar sem hafi verið gefið út af Þjóðskrá 26. nóvember 2009. Jafnframt hafi móðir stefnanda farið fram á það að stefndi yrði úrskurðaður til að greiða meðlag með stefnanda frá fæðingardegi hennar. Sýslumanni hafi borist krafa þess efnis frá móður stefnanda í febrúar 2009. Stefnda hafi í kjölfarið verið sent ábyrgðarbréf til [...] 3. mars 2009 og hafi honum verið veittur 30 daga frestur frá móttöku bréfsins til að skýra afstöðu sína vegna málsins. Það hafi ekki borið tilætlaðan árangur. Af þeim sökum hafi verið birt tilkynning um meðferð málsins í Lögbirtingablaðinu 5. maí 2009, sbr. a-lið 4. mgr. 70. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í tilkynningunni hafi stefndi verið boðaður til fyrirtöku vegna málsins. Stefndi hafi ekki mætt til fyrirtökunnar. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi úrskurðað 8. júlí 2009 að stefndi skyldi greiða meðlag með stefnanda til 18 ára aldurs hennar. Úrskurðurinn hafi svo verið afturkallaður 4. júní 2010 með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, á þeim grundvelli að mistök hefðu átt sér stað við útgáfu fæðingarvottorðsins. Stefndi hefði verið tilgreindur faðir stefnanda án þess að feðrun hefði farið fram samkvæmt barnalögum nr. 73/2003. Að framangreindu virtu og með tilliti til þess að ekki hafi tekist að fá stefnda til að gangast við faðerni barnsins sé nauðsynlegt að höfða þetta mál.

Móðir stefnanda hafi, með liðsinni sýslumannsembættisins í Keflavík, óskað eftir aðstoð [...] yfirvalda við að hafa uppi á stefnda og freista þess að birta honum stefnu þessa máls. Stefnubirting hafi verið reynd á eina hugsanlega heimilisfangi stefnda í [...] en hafi ekki tekist. Móður stefnanda sé ekki kunnugt um annað hugsanlegt heimilisfang eða búsetu stefnda. Ekki hafi tekist að afla upplýsinga um hvar megi birta stefnu eftir almennum reglum og hafi allar tilraunir til að hafa uppi á stefnda, meðal annars með liðsinni [...] yfirvalda, verið árangurslausar.

Samkvæmt 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé móður skylt að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur 2. gr. laganna eigi ekki við. Mál þetta sé höfðað í samræmi við framangreinda 1. gr., á grundvelli II. kafla sömu laga. Í 2. mgr. 10. gr. laganna sé kveðið á um að stefna skuli þeim manni eða mönnum sem séu taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns. Stefnandi byggi mál sitt á því að stefndi sé án nokkurs vafa faðir stefnanda og hún eigi því kröfu á að fá faðerni viðurkennt með dómi. Stefnandi styður mál sitt þeim rökum að móðir stefnanda hafi eingöngu haft samfarir við stefnda á getnaðartíma stefnanda. Móðir stefnanda fullyrðir í þeim efnum að enginn annar komi til greina sem faðir stefnanda.

Telji dómari nauðsyn bera til þess að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á aðilum með vísan til 15. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé móðir stefnanda og stefnandi fús til að gangast undir hana.

Stefnandi byggir kröfu sína um meðlag á 53. gr. og 6. mgr. 57. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefnandi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 11. gr. sömu laga og um kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varðandi lögsögu og varnarþing vísar stefnandi til 8. gr. og 9. gr. barnalaga nr. 76/2003 og um málsaðild er vísað til 10. gr. sömu laga. Stefnubirting sé samkvæmt heimild í 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Stefndi hefur hvorki sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Með vísan til 1. mgr. og 2. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 12. gr. barnalaga nr. 76/2003, verður málið því dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem samrýmist framlögðum gögnum. Í stefnu kemur fram að stefndi málsins sé M, fæddur [...], með óþekkt heimilisfang. Í málavaxtalýsingu stefnunnar kemur fram að stefndi sé [...] ríkisborgari. Stefndi er ekki frekar tilgreindur í stefnunni. Í þinghaldi 28. ágúst 2013 lagði stefnandi fram tölvuskeyti, dagsett 20. október 2009, frá, að því er virðist, stefnda málsins. Í ljósi framangreinds og þess að ekki hafði tekist að hafa uppi á stefnda skipaði aðstoðarmaður dómara stefnda málsvara á grundvelli 13. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í þinghaldi 5. september 2013 lagði málsvari stefnda fram tölvuskeyti málsvara til stefnda á tölvupóstfang sendanda tölvuskeytisins sem lagt hafði verið fram af hálfu stefnanda í þinghaldi 28. ágúst sama ár. Tölvuskeyti málsvara er dagsett 29. ágúst 2013. Málsvari stefnda lagði einnig fram bréf málsvara til stefnda, dagsett 30. ágúst 2013, sent á það heimilisfang þar sem birting stefnu málsins hafði verið reynd í [...]. Í þinghaldi 18. september 2013 upplýsti málsvari stefnda að hún hefði stillt tölvuskeytið til stefnda þannig að hún fengi annars vegar staðfestingu á því að skeytið hefði verið sent á rétt tölvupóstfang og hins vegar tilkynningu þegar tölvuskeytið hefði verið opnað. Hún hefði fengið fyrri staðfestinguna en ekki tilkynningu um að tölvuskeytið hefði verið opnað.

Í þinghaldi 18. september 2013 mótmælti málsvari stefnda kröfum stefnanda á þeim grundvelli að lögfull sönnun um faðerni væri ekki fyrir hendi í málinu.

IV

Í 17. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að maður skuli talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til þess að hann sé faðir þess. Ekki má þó gagnálykta frá ákvæðinu þannig að maður geti aðeins verið dæmdur faðir barns ef niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja fyrir. Verði mannerfðafræðilegri rannsókn ekki komið við getur niðurstaða í slíku máli byggst á öðrum sönnunargögnum samkvæmt hinni almennu reglu um frjálst sönnunarmat, eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi að framangreindum lögum.

Eins og fram hefur komið er stefnandi fædd [...] 2008. Ekki liggja fyrir læknisfræðileg gögn um meðgöngutíma og þar með getnaðartíma stefnanda. Móðir stefnanda kom fyrir dóminn og gaf skýrslu við fyrirtöku málsins 11. júní 2013. Hún skýrði frá því fyrir dóminum að meðgöngutími hefði verið hefðbundinn, um níu mánuðir. Stefnandi hefði verið getin í [...] 2008. Ekki er ástæða til að ætla að móðir stefnanda hafi greint rangt frá. Meðgöngutími stefnanda virðist því hafa verið eðlilegur og má leiða að því líkur að stefnandi hafi verið getin í [...] 2008 eða um það leyti. Móðir stefnanda kvaðst ekki hafa átt samræði við aðra menn en stefnda á þeim tíma. Móðir stefnanda skýrði frá því að hún hefði kynnst stefnda í byrjun árs 2008 þegar hún hafi verið í stuttri heimsókn í [...]. Þau stefndi hefðu verið saman í rúman mánuð en ekki búið saman. Þá hafi hún farið aftur til Íslands og komist að því að hún væri ólétt. Í byrjun [...] 2008 hafi hún hringt í stefnda og látið hann vita að hún væri ólétt en hafi ekki verið í sambandi við hann eftir það.

Í þinghaldi 28. ágúst 2013 lagði stefnandi fram tölvuskeyti, dagsett 20. október 2009, ásamt þýðingu. Tölvuskeytið er sent á tölvupóstfang móður stefnanda frá, að því er virðist, stefnda málsins, af tölvupóstfanginu [...]. Samkvæmt þýðingu tölvuskeytisins álítur sendandinn sig föður stefnanda.

Annarra gagna eða framburðar vitna nýtur ekki við til stuðnings kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefndi sé faðir stefnanda.

Af hálfu málsvara stefnda hefur verið reynt að hafa uppi á stefnda til að fá afstöðu hans til kröfu stefnanda. Þær tilraunir hafa ekki borið árangur og verður talið fullreynt af hálfu málsvara að ná sambandi við stefnda í ljósi þess að ekki liggja fyrir í málinu aðrar upplýsingar um hvernig megi hafa samband við hann en framangreint tölvupóstfang. Af þeim sökum liggur hvorki fyrir afstaða stefnda til kröfunnar né mannerfðafræðileg rannsókn á faðerni stefnanda.

Móðir stefnanda hefur staðfastlega haldið því fram að stefndi komi einn til greina sem faðir stefnanda. Hún gaf trúverðuga skýrslu fyrir dómi þess efnis. Dómur um faðerni stefnanda verður þó ekki reistur á því einu að móðirin fullyrði að stefndi sé faðirinn. Þrátt fyrir að framangreint tölvuskeyti virðist benda til þess að stefndi telji sig föður stefnanda kemur þar ekkert fram um á hverju stefndi byggir þá ályktun svo draga megi úr vafa um faðerni stefnanda. Þá skal litið til þess að móðir stefnanda og stefndi áttu í stuttu ástarsambandi á getnaðartíma stefnanda en bjuggu ekki saman. Engin gögn eru lögð fram sem varpa ljósi á samband þeirra né heldur nýtur við framburðar vitna þar um. Af þessu leiðir að ekki er komin fram full sönnun fyrir því að stefndi sé faðir stefnanda eins og hér háttar til. Því er óhjákvæmilegt að hafna kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Með vísan til 11. gr. barnalaga nr. 76/2003 greiðist allur kostnaður stefnanda af málinu, 765.250 kr., úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 690.250 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 75.300 kr., þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 13. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð :

Kröfu stefnanda, B, f.h. ólögráða dóttur hennar, A, á hendur stefnda, M, er hafnað.

Málskostnaður aðila fellur niður.

Allur málskostnaður stefnanda, 765.250 kr., greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 690.250 kr.

Þóknun skipaðs málsvara stefnda, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 75.300 kr. greiðist úr ríkissjóði.