Hæstiréttur íslands

Mál nr. 681/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


                                     

Mánudaginn 27. október 2014.

Nr. 681/2014.

A

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

B

(Edda Björk Andradóttir hdl.)

Kærumál. Lögræði.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Í vottorði geðlæknis, sem lagt hafði verið fram við meðferð málsins fyrir dómi, kom fram að A væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og áframhaldandi meðferð væri honum nauðsynleg. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að mál til sviptingar lögræðis væru rekin á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997 og sættu þau samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greindi. Eftir 6. mgr. sömu lagagreinar bæri að hraða meðferð máls til sviptingar lögræðis svo sem kostur væri. Þá væri svo fyrir mælt í 11. gr. lögræðislaga að dómara bæri að tryggja að mál væri nægilega upplýst og gæti hann í því skyni aflað þeirra sönnunargagna sem þörf væri á. Rannsókn dómara ætti að lúta að því að kanna hvort skilyrðum lögræðissviptingar væri fullnægt. Þegar litið væri til afstöðu A, þess að ekki hefði verið aflað álits annars sérfróðs læknis um andlegt heilbrigði hans og gagna málsins að öðru leyti, taldi Hæstiréttur vafa leika á því hvort skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga væru fyrir hendi til að svipta A sjálfræði í sex mánuði. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að afla annars álits sérfræðings í geðlækningum á því hvort A væri fær um að ráða persónulegum högum sínum sjálfur vegna sjúkdóms þess sem hann væri haldinn.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2014, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hefur varnaraðili krafist þess að sóknaraðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði. Upphaflega var gerð krafa um sjálfræðissviptingu á grundvelli a. og b. liða 4. gr. lögræðislaga. Fyrir Hæstarétti reisir varnaraðili  kröfu um sviptingu þó einungis á grundvelli a. liðar 4. greinarinnar.

 Fyrir liggur vottorð C, geðlæknis og yfirlæknis bráðageðdeildar 32C á Landspítalanum við Hringbraut, þar sem fram kemur að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dómi. Kvað hún sóknaraðila vera með geðrof og hafi hann verið greindur með geðklofa og sé algerlega innsæislaus um sinn sjúkdóm og geti því að svo stöddu ekki ráðið sínum högum sjálfur. Hann hefði fullvissað sig um að hann yrði ekki til samvinnu um læknismeðferð og því væri nauðsyn að leggja fram beiðni um sjálfræðissviptingu. Fram kom að læknirinn hafði sinnt sóknaraðila frá því að hann var nauðungarvistaður 10. september 2014, en aðrar upplýsingar í vottorðinu hefðu verið sóttar í sjúkraskrá hans auk þess sem hún hafi rætt við geðlækni um hans mál.

Sóknaraðili telur með öllu ósannað að hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf sóknaraðila 15. október 2014 þar sem fram kemur að hann telji engar haldbærar sannanir fyrir því að svipta þurfi hann sjálfræði enda geti hann vel séð sér farborða.

Mál til sviptingar lögræðis eru rekin á grundvelli lögræðislaga og sæta samkvæmt 1. mgr. 10. gr. þeirra laga almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greinir. Eftir 6. mgr. sömu lagagreinar ber að hraða meðferð mála til sviptingar lögræðis svo sem kostur er. Í 1. mgr. 11. gr. lögræðislaga er mælt svo fyrir að dómara beri að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð um sviptingu lögræðis. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur dómari sjálfur aflað þeirra sönnunargagna sem hann telur þörf á. Í athugasemdum með frumvarpi til lögræðislaga er tekið fram að rannsókn dómara eigi að lúta að því að kanna hvort skilyrðum til lögræðissviptingar sé fullnægt.

Samkvæmt a. lið 4. gr. lögræðislaga má svipta mann sjálfræði með úrskurði dómara, ef þörf krefur, ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests. Eins og að framan greinir liggur fyrir í máli þessu læknisfræðilegt álit geðlæknis um að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og geti ekki ráðið persónulegum högum sínum en sérfræðilæknir þessi hafði aðeins annast sóknaraðila skamma hríð. Sóknaraðili heldur því aftur á móti fram að hann sé fullfær um að ráða persónulegum högum sínum. Að teknu tilliti til þessarar afstöðu sóknaraðila, þess að ekki hefur verið aflað álits annars sérfróðs læknis um andlegt heilbrigði sóknaraðila og gagna málsins að öðru leyti verður litið svo á að vafi leiki á því hvort skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga séu fyrir hendi til að svipta hann sjálfræði.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að afla annars álits sérfræðings í geðlækningum á því hvort sóknaraðili sé fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna sjúkdóms þess sem hann er haldinn.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað varnaraðila verður staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og nánar greinir í dómsorði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                                        D ó m s o r ð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að afla álits sérfræðings í geðlækningum á því hvort sóknaraðili, A, sé fær um að ráða persónulegum högum sínum sjálfur vegna sjúkdóms þess sem hann er haldinn.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur héraðsdómslögmanns,  188.250 krónur til hvors þeirra.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2014.

Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 26. september 2014, krafðist sóknaraðili, B, kt. [...], vegna B, [...], [...], þess að A, [...], yrði sviptur sjálfræði 6 mánuði.

I

Með vísan til 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var Edda Björk Andradóttir héraðsdómslögmaður skipaður talsmaður sóknaraðila og Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til  a. og b. liðar 4. gr. í lögræðislögum nr. 71/1997 um kröfu sína um sjálfræðissviptingu og um aðild er vísað til d. liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Varnaraðili telur að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði nefnds b. liðar 4. gr. séu til staðar og þá hafi ekki verið sýnt fram á að varnaraðili geti ekki ráðið persónulegum högum sínum samkvæmt a. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Skýrsla var tekin af varnaraðila þann 6. október sl. Skýrsla af vitni og munnlegur málflutningur fór fram þann 7. október sl., og málið þá tekið til úrskurðar.

Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur fram að varnaraðili hafi verið nauðungarvistaður á bráðageðdeild 32C á Landspítala við Hringbraut, frá 10. september 2014. Fyrir liggi vottorð C, geðlæknis og yfirlæknis bráðageðdeildar 32C, dagsett 25. september sl. Í því vottorði komi fram að varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir geðklofasjúkdóm, auk þess sem hann eigi við alvarlegt neysluvandamál að stríða. Varnaraðili sé nú í geðrofsástandi og hafi undanfarna mánuði ekki verið fær um að halda utan um eigið líf. Hann hafi þannig misst vinnu sína og hafi engar tekjur, auk þess sem selja hafi þurft íbúð hans og bifreið vegna fíkniefnaskulda. Þá sé hann algjörlega innsæislaus um ástand sitt og neiti að taka geðlyf. Varnaraðili hafi náð nokkuð góðum bata síðastliðin 4 ár þegar hann hafi tekið geðlyf og ekki verið í neyslu fíkniefna. Nú sé hann bráðveikur og í bráðri þörf á áframhaldandi innlögn á geðdeild. Þá sé mat læknisins að innlögn í 21 dag sé ekki nægjanlegur tími til að varnaraðili geti náð bata og innsæi í ástand sitt. Enginn vafi sé á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg því án hennar stefni hann heilsu sinni í voða, auk þess sem hann spilli möguleikum sínum á bata. Því styðji læknirinn og mæli með því að varnaraðili verði sviptur sjálfræði til 6 mánaða.

II

Í málinu liggur fyrir sjálfræðissviptingarvottorð frá C, geðlækni, yfirlæknis bráðageðdeildar 32C, Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 25. september 2014, þar sem nánar eru rakin heilsufars- og hegðunarvandamál varnaraðila síðustu ár. Fram kemur að varnaraðili hafi sögu um neyslu fíkniefna frá unglingsárum, einkum áfengi, kannabis og örvandi efni. Þá eigi hann að baki nokkrar meðferðir á Vogi, síðast árið 2010. Í þeirri meðferð hafi komið upp hjá varnaraðila geðrofseinkenni. Hafi honum fundist sem fólk gæti lesið hugsanir hans og hafi verið með eitrunarhugmyndir um mat og tilvísunarhugmyndir úr sjónvarpi og útvarpi. Hafi hann vegna þessara einkenna leitað á bráðamóttöku geðdeildar í fylgt föður. Hafi síðan verið í eftirliti á geðdeild hjá D geðlækni. Geðrofseinkenni varnaraðila hafi minnkað og hafi að mestu leyti legið niðri með edrúmennsku hans og lyfjameðferð með geðrofslyfinu [...]. Hann hafi þó öðru hvoru fengið geðrofseinkenni á tímabilum þessi ár. Hafi varnaraðili verið dulur um einkenni sín í gegnum tíðina. Í heild hafi gengið vel hjá varnaraðila síðustu árin en stundum þegar álag væri á honum fengi hann einkenni geðrofs. Hafi hann hætt að taka lyfin sín um áramótin og í kjölfarið hætt að borða og lést um 5 kíló. Hafi hann átt í erfiðleikum með að skýra þetta en honum hafi fundist rétt að hætta töku lyfjanna þar sem þau hafi verið á einhvern hátt eitruð. Þá hafi varnaraðili á þessum tímabilum fengið einhvers konar störur þar sem hann standi kyrr í margar mínútur og geti ekki skýrt af hverju.

Upphaflega hafi það verið þannig að þegar varnaraðili hafi fengið geðrofseinkenni hafi verið talið að þau væru mögulega í tengslum við fíkniefnaneyslu, en síðar hafi komið í ljós að hann hafi verið með undirliggjandi geðrofssjúkdóm, líklega geðklofa og uppfylli hann greiningarskilmerki fyrir þann sjúkdóm. Varnaraðili virðist hafa fallið í neyslu fíkniefna á vormánuðum og orðið nokkuð örlátur. Hafi hann eytt miklum peningum og keypt sér meðal annars hús og bíl. Þá hafi hann farið til [...] og verið þar í mikilli neyslu. Varnaraðili hafi síðan lagst inn á deild 32C þann 19. maí sl., en þá mun faðir hans hafa sótt hann á Laugarveg þar sem hann hafi verið með undarlega hegðun og meðal annars gengið um með egg og viðrað ilskulegar hugmyndir. Hafi hann við komu verið mjög ör, og vaðið úr einu í annað og ekkert samhengi hafi verið í samtali við hann. Varnaraðili hafi verið mjög ósáttur við að vera lokaður inni á deild. Hann hafi þó viðurkennt neyslu á örvandi efnum og kannabis. Hafi komið nokkuð eðlilega fyrir eftir fjóra daga á deild og ekki talið að forsendur væru til frekari nauðungarvistunar og útskrifast. Eftir það hafi hann ekki mætt í eftirfylgd.

Varnaraðili hafi komið aftur á bráðamóttöku geðdeildar í byrjun ágúst sl. Varnaraðili hafi þá verið í fíkniefnaneyslu og hafi verið svo komið að fjölskylda hans hafi selt íbúð hans og einhvern hluta af innbúi, fyrir fíkniefnaskuldum. Hann hafi því verið húsnæðislaus með enga fasta innkomu og háður foreldrum sínum með mat. Sjálfur hafi hann neitað því að búið væri að selja framangreindar eignir fyrir fíkniefnaskuld. Þá hafi hann neitað fíkniefnaneyslu og geðrofseinkennum. Ekki hafi verið talin ástæða til innlagnar þá, þó vissulega hafi verið grunur um geðrof.

Þann 9. september sl. hafi varnaraðili svo mætt til viðtals á göngudeild geðdeildar í fylgd fjölskyldumeðlimar. Hafi fjölskyldan lýst mikilli neyslu fíkniefna og einnig að lögreglan hafi ítrekað verið kölluð að íbúð hans vegna óláta. Hegðun hans væri því ólík því sem venjan hafi verið. Varnaraðili hafi ekki hugsað um sjálfan sig og borðaði ekki mat. Hann hafi hent allskonar dóti úr íbúðinni út á svalir án þess að geta skýrt af hverju. Hann sé óstabíll í lund, stundum rólegur og stundum heimtufrekur og jafnvel ógnandi. Einnig er lýst löngum störutímabilum og því að hann tali við sjálfan sig og hlæi upphátt. Hann sé tortrygginn, treysti engum og hafi misst samband við vini og vandamenn.

Fram kom, að við komu á geðdeild hafi varnaraðili verið grennri en áður, væri á varðbergi og dulur um öll einkenni. Gerði lítið úr því sem fjölskylda hans hafi lýst og yrði æstari þegar frá líði og taki því illa þegar reynt væri að telja hann á að leggjast inn á geðdeild. Varnaraðili yrði ör í tali og atferli og segði að Ísland sé Guðsland og að hann sé Guðsonur. Kalla hafi þurft til varnarteymi geðdeildar og hafi varnaraðili verið settur í 48 tíma nauðungarvistun og lagður inn á deild 33A. Varnaraðili hafi verið órólegur og ógnandi á deildinni og verið fluttur á deild 32C þann 10. september 2014. Þá hafi hann verið nauðungarvistaður í 21 dag, frá og með þeim degi. Í viðtali við varnaraðila þann 11. september sl. hafi verið útskýrt fyrir honum að hann væri nauðungarvistaður í 21 dag og hafi hann tekið því illa og viljað fá útskýringar. Farið hafi verið í gegnum það og skýrt komið fram hjá varnaraðila að hann væri Guð. Hann væri eingetinn og gæti gert það sem honum sýndist. Hann vildi hjálpa fólki sem væri illt og öfundsjúkt til þess að verða að betri manneskjum. Teldi sig hafa sérstaka krafta og væri upptekinn af óréttlæti og refsingum og að réttlæti sé auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Þá væri hann mjög ákveðinn í því að miklu hafi verið logið upp á hann sem hafi leitt til þess að hann hafi komið á spítalann.

Varnaraðili var metinn í geðrofsástandi og talið nauðsynlegt að hann yrði áfram á geðdeild. Hann hafi neitað allri lyfjagjöf og hafi þann 11. september sl. fengið geðrofslyfið [...] í formi forðasprautu en ekki tekið nein önnur lyf. Varnaraðili hafi endurtekið slegið bæði starfsfólk og aðra sjúklinga svo séð hafi á þeim. Töluvert undarleg hegðun hafi verið áberandi, meðal annars láti hann vatn renna á baðinu í herbergi sínu, neiti að skrúfa fyrir og útskýri það ekki frekar. Ógnandi í hegðun og atferli dögum saman og því ekki fær um að vera mikið í kringum aðra sjúklinga á deild. Síðustu daga hafi varnaraðili verið rólegri og viðræðubetri. Hægt hafi verið að ræða við hann án þess að það snérist eingöngu um nauðungarvistunina, þó áfram dulur í samtölum. Helst upptekinn af því að hann lifi í núinu, vilji ekki horfa til fortíðar né framtíðar. Tali á heimspekilegan máta í kringum hluti án þess raunverulega að svara þeim. Sé hættur að lýsa því að hann sé Guð en neiti því þó ekki. Í viðtali þann 25. september sl. hafi verið gengið á varnaraðila um brunasár á hendi sem hann hafi verið með, og sagðist þá hafa slökkt í sígarettu í lófa sínum til að reyna á sársaukamörk og telji það ekki óeðlilegt.

Varnaraðili hafi nú legið í rúmlega 2 vikur á geðdeild 32C. Hann sé metinn í geðrofsástandi og hafi undanfarna mánuði ekki verið fær um að halda utan um eigið líf. Hafi misst vinnu og allar tekjur. Hafi ekki nærst og misst samband við fjölskyldu og vini. Varnaraðili sé algjörlega án innsæis í ástand sitt og neiti að taka öll geðlyf. Hafi undanfarna mánuði verið í töluvert mikilli fíkniefnaneyslu en þræti fyrir það.

Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að þegar horft hafi verið til síðustu fjögurra ára væri greinilegt að varnaraðili hafi náð nokkuð góðum bata þegar hann hafi tekið geðlyf sín og verið edrú frá neyslu fíkniefna. Hann hafi haldið ágætlega utan um daglegt líf og verið í krefjandi vinnu. Varnaraðili væri bráðveikur og í bráðri þörf á áframhaldandi innlögn á geðdeild. Mat læknisins væri að 21 dagur væri ekki nægjanlegur tími til þess að varnaraðili nái bata og innsæi í ástand sitt. Varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir geðklofasjúkdóm en auk þess eigi hann við alvarlegt neysluvandamál að stríða sem síðustu mánuði hafi hamlað því að hann ráði við meðferð við sínum geðrofssjúkdómi og að halda utan um eigið líf. Hann sé nú í virku geðrofi, án innsæis í veikindi sín og þörfina á meðferð. Hann hafi ekki verið til samvinnu um meðferðina. Án áframhaldandi meðferðar sé einnig hætta á því að hann skaði sjálfan sig þar sem hann nærist ekki.

Enginn vafi sé á því að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg. Án hennar stefni hann heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum á bata. Læknirinn styður og mælir með beiðni um sjálfræðissviptingu til 6 mánaða.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 26. september sl. var hafnað kröfu varnaraðila um að fellt yrði niður samþykki innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun hans, dagsett 11. september sl. Þá var einnig staðfest ákvörðun yfirlæknis bráðageðdeildar 32C Landspítala-háskólasjúkrahúss að nauðsynlegt hafi verið að varnaraðili skyldi sæta þvingaðri lyfjagjöf.

III

C geðlæknir og yfirlæknir á bráðageðdeild 32C Landspítala–háskólasjúkrahúss, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti læknisvottorð sitt frá 25. september sl. Fram kom að bráðnauðsynlegt væri fyrir varnaraðila að fá áframhaldi læknismeðferð. Sömu forsendur ættu við enn í dag og þær sem fram kæmu í framangreindu læknisvottorði. Aðspurð kom fram hjá vitninu að varnaraðili hafi fullvissað hana um það að hann yrði ekki til samvinnu um læknismeðferð og því væri nauðsyn að leggja fram beiðni um sjálfræðissviptingu. Aðspurð hvort hún hafi sinnt varnaraðila allan þann tíma sem fram komi í læknisvottorði kom fram að svo væri ekki, hún hafi sinnt varnaraðila frá því að hann hafi verið nauðungarvistaður í september sl., en aðrar upplýsingar væru sóttar í sjúkraskrá varnaraðila auk þess sem hún hafi rætt við D geðlækni um hans mál. Formleg ákvörðun um áframhaldandi nauðungarvistun hafi verið tekin af henni í samræmi við 2. mgr. 29. gr. lögræðislaga. Aðspurð hvort teknar hafi verið blóðprufur eða fíkniefnapróf af varnaraðila kom fram að varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu um þvag- eða blóðprufur. Ekki lægi því fyrir sönnun um ofneyslu áfengis eða fíkniefna en gengið væri út frá því sem fram hafi komið í viðræðum við hann sjálfan og aðstandendur en ekki hafi komið fram skýr svör frá honum sjálfum um þetta. Fram kom að varnaraðili væri ekki hættulegur öðrum en hann væri hættulegur sjálfum sér. Ekki væri vitað með vissu hversu mikið hann hafi lést að öðru leyti en að hann væri nú áberandi grennri en hann hafi verið áður. Sjálfræðissviptingar nú væri fyrst og fremst óskað á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaganna vegna geðsjúkdóms varnaraðila. Aðspurð um geðrofseinkenni varnaraðila kom fram að tal varnaraðila um Guð og mat og önnur undarleg hegðun hans benti skýrt til geðrofs. Vitnið kvaðst sjálft hafa orðið vitni að umræddri hegðun hans. Þá uppfyllti varnaraðili greiningarskilyrði fyrir geðklofa. Varnaraðili sé með geðrof og alvarlegasta mynd þess sé geðklofi og hafi varnaraðili verið greindur sem slíkur. Varnaraðili sé algerlega innsæislaus í sinn sjúkdóm sjálfur og geti því ekki að svo stöddu ráðið sínum högum sjálfum. Hann þurfi að vera lengur á geðdeild og endurhæfingu og bráðnauðsynlegt sé að honum verði hjálpað í því sambandi. Taldi vitnið að sex mánuðir væru algert lágmark, en ósennilegt væri að hann væri inni á sjúkrahúsi allan þann tíma, en það færi eftir batamerkjum og samvinnu varnaraðila.

Varnaraðili mætti fyrir dóminn 6. október sl. ásamt lögmanni sínum Oddgeiri Einarssyni hrl. og gaf skýrslu. Í ítarlegri skýrslu sinni fór varnaraðili yfir framangreint læknisvottorð dagsett 25. september sl., orð fyrir orð og mótmælti öllum fullyrðingum læknisins. Auk þessa var varnaraðili með sjálfstæðar athugasemdir um sína sýn á málinu og þá sérstaklega út frá trúarlegum forsendum hans um að Hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Varnaraðili krafðist þess að fara frjáls ferða sinna að lokinni skýrslutöku.

Talsmaður sóknaraðili ítrekaði framkomna kröfu og vísaði til framlagðra gagna, sérstaklega framlagt læknisvottorð og framburð C geðlæknis. Ljóst væri að varnaraðili væri bráðveikur og í bráðri þörf fyrir áframhaldandi læknismeðferð til þess að fá þá meðferð sem honum væri nauðsynleg, að öðrum kosti myndi hann stofna heilsu sinni í voða og spilla fyrir möguleikum hans á bata. Sjálfræðissvipting í 6 mánuði væri lágmarkstími í þessu sambandi.

Lögmaður varnaraðila krafðist þess að framkominni kröfu um sjálfræðissviptingu yrði hafnað. Varnaraðili taldi að ekki væru til staðar skilyrði samkvæmt b. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til sjálfræðissviptingar, enda ekkert komið fram um hver fíkni- eða áfengisnotkun varnaraðila væri. Þá hafi heldur ekki verið sýnt fram á nauðsyn sjálfræðissviptingar samkvæmt a. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 á þann hátt að ekki hafi verið sýnt fram á það frelsissvipting væri nauðsynleg til þess að meðhöndla varnaraðila og hans meintu sjúkdóma. Meginreglan væri sú að menn væru frjálsir ferða sinna samkvæmt 67. gr. og 71. gr. Stjórnarskrárinnar, auk 5. og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Allar skerðingar bæri að skýra þröngt og varnaraðila í hag. Varnaraðili hafi sjálfur útskýrt þær fullyrðingar sem fram komi í framlögðu læknisvottorði og útskýringar varnaraðila sjálfs tengdar trúariðkun hans væru ekki fráleitar í þessu sambandi. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að varnaraðili hafi þjáðst af næringarskorti eða hafi yfir höfuð lést nokkuð. Ekki hafi verið lagðar fram sjúkraskrár því til sönnunar og þá geti menn fastað án þess að vera læstir inni.

IV

Sóknaraðili hefur að mati dómsins ekki getað sýnt fram á ofdrykkju eða ofnotkun ávana- og fíkniefna hjá varnaraðila og má í því sambandi vísa til þess sem fram kom í framburði C geðlæknis. Er skilyrðum b. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 því ekki fullnægt að mati dómsins. 

Í a. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, kemur fram að svipta má mann sjálfræði með úrskurði dómara ef þörf krefur. Í a. lið 4. gr. kemur nánar fram: „Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests“.

Í greinargerð með lögræðislögum kemur fram að skilyrði sjálfræðissviptingar séu bundin við ákveðin læknisfræðileg skilyrði. Það er óumdeilt að mati C geðlæknis og yfirlæknis á bráðageðdeild 32C Landspítala–háskólasjúkrahúss, að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi samkvæmt ákvæðum a. liðar 4. gr. lögræðislaga og uppfylli varnaraðili greiningarskilmerki fyrir geðklofa, alvarlegustu tegund geðrofs.

Meta þarf samkvæmt nefndum ákvæðum lögræðislaga hvort varnaraðili sé fær um ráða persónulegum högum sínum vegna framangreinds geðsjúkdóms. Í læknisvottorði og fyrir dómi kom fram að varnaraðili gæti ekki haldið utan um daglegt líf sitt. Þann 26. september sl. var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness í máli nr. [...] í máli varnaraðila um nauðungarvistun hans, þar sem staðfest var að nauðsynlegt hafi verið að varnaraðili skyldi sæta þvingaðri lyfjagjöf enda hafi varnaraðili alls ekki innsæi í sinn sjúkdóm og hvað þurfi til að koma til að veita honum þá hjálp sem virðist nauðsynleg. Í greinargerð með lögræðislögum kemur fram: „Þannig getur til dæmis verið réttlætanlegt og í þágu sjúklings að svipta hann sjálfræði sínu vegna alvarlegs geðsjúkdóms til þess að koma megi við nauðsynlegri læknishjálp meðan á alvarlegum og tíðum geðsveiflum stendur þótt heilsa hans sé betri og hann fær um að ráða persónulegum högum sínum þess á milli“. Þannig er ekki gerð krafa um það að aðili sé algjörlega ófær um að ráða persónulegum högum sínum en að það verður að vera um að ræða, verulegt frávik frá eðlilegu ástandi. Að mati dómsins er það verulegt frávik frá eðlilegu ástandi að varnaraðili hafi alls ekki innsæi í eigin sjúkdóm og geti ekki á þessari stundu að mati lækna haldið utan um daglegt líf sitt sjálfur. Verður að telja að slíkt ástand varnaraðila verulegt frávik frá eðlilegu ástandi á þann hátt að hann teljist ekki geta ráðið persónulegum högum sínum að þessu leyti.

 Við mat á því hvort þörf sé á sjálfræðissviptingu verður að horfa til þess hvort önnur og vægari úrræði séu varnaraðila tiltæk. Varnaraðili mun hafa fullvissað lækna að hann verði ekki til samvinnu um læknismeðferð og að þiggja meðferð. Varnaraðili er að mati lækna algjörlega innsæislaus í eigin veikindi. Með vísan til þessa, verður ekki séð að önnur úrræði séu tæk en að sjálfræðissvipta varnaraðila. Að mati læknis er algjört lágmark hvað tíma varðar, að svipta varnaraðila sjálfræði í sex mánuði.

Beiðni um sjálfræðissviptingu nú er hugsuð í þeim tilgangi að tryggja varnaraðila nauðsynlega hjálp að öðrum kosti mun hann að mati lækna aftur lenda í þeirri aðstöðu að hann geti ekki haft stjórn á eigin lífi, svo sem næringu. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins er varnaraðili haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Geðsjúkdómur varnaraðila veldur því að mati lækna að varnaraðili telji sig vita hvað sé honum fyrir bestu en í raun hafi hann ekki innsæi í hvaða læknismeðferð hann þurfi við sínum sjúkdómi. Þetta innsæisleysi hans er sjálfskaðandi og fái varnaraðili ekki viðeigandi meðferð við sínum sjúkdómi nú er heilsu hans stefnt í voða og spillir möguleikum hans á bata. Vegna geðsjúkdóms varnaraðila og innsæisleysis, getur hann ekki ákveðið hvað er honum fyrir bestu og að því leyti getur varnaraðili ekki ráðið sínum persónulegu högum. Hefur að mati dómsins verið sýnt fram á skilyrði og þörf sjálfræðissviptingar.

Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fyrir sjálfræðissviptingu varnaraðila í sex mánuði.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur hdl. og verjanda varnaraðila Oddgeirs Einarssonar hrl. eins og segir í úrskurðarorði.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í 6 mánuði frá deginum í dag að telja.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur héraðsdómslögmanns og verjanda varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 200.800 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.