Hæstiréttur íslands
Mál nr. 343/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. apríl 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. maí 2016 klukkan 16 og einangrun til 6. sama mánaðar klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og kröfu sóknaraðila um einangrun vísað frá dómi, en að því frágengnu að varðhaldinu verði markaður skemmri tími og kröfu sóknaraðila um einangrun hafnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Enda þótt mörg þeirra brota sem varnaraðili er grunaður um að hafa framið séu enn í rannsókn er ekki fallist á með sóknaraðila að hætta sé á að varnaraðili muni torvelda rannsókn þeirra, en í því sambandi athugast að einangrun hans leið undir lok 6. maí 2016. Hefur sóknaraðili því ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að þörf sé á að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á þeim grundvelli.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölda afbrota, sem fangelsisrefsing liggur við, á tímabilinu frá 28. janúar til 28. apríl 2016. Er hann meðal annars grunaður um eignaspjöll og fjölda þjófnaðarbrota, sbr. 244. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hefur varnaraðili, sem er fíkniefnaneytandi, skýrt svo frá í skýrslu hjá lögreglu að hann sé haldinn innbrota- eða þjófnaðarfíkn og hann steli til þess að fá útrás. Samkvæmt þessu benda gögn málsins eindregið til að varnaraðili muni halda uppteknum hætti gangi hann laus, sbr. c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. apríl 2016
Mál þetta var tekið til úrskurðar á dómþingi í dag.
Sóknaraðili er lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
Varnaraðili er X, kt. [...], með lögheimili að [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi í allt að fjórar vikur, eða til föstudagsins 27. maí nk., klukkan 16:00 og að hann verði látinn vera í einrúmi í viku.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að varðhaldi verði markaður styttri tími og kröfu um einangrun hafnað.
Samkvæmt því sem segir í greinargerð lögreglustjóra var lögregla kölluð að [...] í gær, vegna þess að varnaraðili hefði ráðist þar inn í félagi við annan mann. Varnaraðili var sjáanlega undir áhrifum lyfja eða fíkniefna og vopnaður hnífi. Háreysti var á vettvangi. Hann var handtekinn fyrir meint vopnalagabrot.
Fyrir var lögregla með mörg mál til rannsóknar, þar sem varnaraðili er grunaður um refsiverða háttsemi. Hann er í fyrsta lagi grunaður um að hafa 23. febrúar 2016 stolið síma, símaveski, debet- og kreditkortum og ökuskírteini úr bifreið. Kreditkortið hafi verið notað til að greiða í vefverslun. Varnaraðili kannast óljóst við að hafa haft símann undir höndum.
Í öðru lagi er hann grunaður um að hafa brotist inn í bifreið og stolið töluverðu af verkfærum. Eitt þeirra hafi verið merkt tilkynnanda og haldlagt meðal annarra muna við leit í íbúð þar sem varnaraðili hafi haldið til. Í þessari leit fundust margir munir, taldir vera þýfi og kannaðist varnaraðili við að í þessari íbúð hafi verið munir á hans vegum. Þá viðurkenndi hann innbrot í geymslur í [...] og [...]. Þá beinist að honum grunur um að hafa brotist inn í geymslur í [...], [...] og [...]. Fundust sumir munirnir úr [...] í bifreið varnaraðila. Þá er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslur slíkra efna. Einnig er hann grunaður um að hafa brotist inn í [...], [...], og stolið tölvum og hljóðfærum.
Sóknaraðili telur að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum, gangi hann laus meðan málum hans sé ekki lokið. Þá hafi komið fram hjá honum við skýrslugjöf að hann sé haldinn innbrota- eða þjófnaðarfíkn. Hafi honum liðið illa undanfarið og leitað útrásar með þessu.
Sóknaraðili segir að rannsókn mála sé langt komin, en þó sé þörf á að halda varnaraðila í gæsluvarðhaldi til að koma í veg fyrir að hann spilli rannsókn, auk hættu á að hann haldi áfram brotum, gangi hann laus. Hann sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um ítrekuð hegningarlagabrot. Við þeim liggi fangelsisrefsing. Hann eigi langan sakaferil að baki og hafi ítrekað gerst sekur um sambærileg brot og hann sé nú sakaður um. Vísað er til a- og c-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Framangreind brot eru framin á tímabilinu frá febrúar og fram í apríl, síðast var brotist inn í [...] 21. eða 22. apríl.
Fallist verður á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við í 244. gr. almennra hegningarlaga. Síðastgreinda málið er á frumstigi rannsóknar. Verður að því gættu fallist á að rannsóknarhagsmunir standi til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og einangrun í varðhaldinu. Þá er með vísan til þess sem að framan er rakið full ástæða til að ætla að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið, sbr. c-lið sama ákvæðis. Verður samkvæmt þessu fallist á kröfur sóknaraðila.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. maí 2016, klukkan 16:00 og einangrun í varðhaldinu til 6. maí 2016, klukkan 16:00.