Hæstiréttur íslands

Mál nr. 286/2002


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Aðild
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. desember 2002.

Nr. 286/2002.

Guðmundur Steindórsson

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Íslenskum aðalverktökum hf. og

Árvélum sf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Verksamningur. Aðild. Gjafsókn.

G, sem átti og rak vörubifreið, tók að sér verkefni sem undirverktaki við vegagerð í Grundarfirði á árunum 1996 og 1997. Taldi hann sig ekki hafa fengið að fullu greitt fyrir verkið og krafðist í málinu uppgjörs vegna vinnu sinnar. Deilt var um aðild varnarmegin í málinu, hvort G hafi unnið fyrir Á sf. eða Á ehf. Hafði Á sf. verið stofnað árið 1982 en árið 1999 keyptu tvö dótturfélög Í félagið og runnu síðan þessi tvö dótturfélög inn í móðurfélagið. Sömu eigendur og áttu Á sf. stofnuðu Á ehf. í janúar 1994 og tók það félag yfir allar eignir, skuldir, réttindi og rekstur Á sf. Óumdeilt var að Á ehf. gerði verksamning við Vegagerðina og annaðist vegaframkvæmdir á Snæfellsnesi. G hélt því aftur á móti fram að hann hafi unnið fyrir Á sf. við þetta verk. Við úrlausn málsins var litið til þess að G stílaði nokkra dagseðla á einkahlutafélagið, auk þess sem uppgjörsblað, sem unnið var af G, var einnig stílað á einkahlutafélagið. Af þessu mátti ráða að G hafi a.m.k. verið kunnugt um tilvist þess félags. Þá var ekki deilt um að einkahlutafélagið var greiðandi á víxlum sem notaðir voru í viðskiptum aðila. Að auki lá fyrir, að það var Á ehf. sem vann umrætt verk fyrir Vegagerðina. Var talið að G hafi mátt vera það kunnugt. Samkvæmt þessu var talið að G hafi verið í samningssambandi við Á ehf. Var Á sf. og Í því ranglega stefnt í málinu og bar því að sýkna þá þegar af þeirri ástæðu.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2002. Hann krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 819.210 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. júní 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann nýtur hér fyrir dómi.

Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi handa hvorum stefndu fyrir sig eins og í dómsorði greinir.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Guðmundur Steindórsson, greiði stefndu, Íslenskum aðalverktökum hf. og Árvélum sf., hvorum fyrir sig samtals 175.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. mars 2002.

Mál þetta var þingfest 27. júní 2001 og tekið til dóms 21. febrúar sl.  Stefnandi er Guðmundur Steindórsson, kt. 260941-3809, Álftarim 3, Selfossi.  Stefndu eru Íslenskir aðalverktakar, kt. 420169-0279, Hátúni 6A, Reykjavík og Árvélar sf., kt. 550382-0169, Holtsgötu 49b, Njarðvík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda 819.210 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxalaga nr. 25/1987 frá 30. júní 1997 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.

I.

Stefnandi kveður atvik málsins vera þau að á árinu 1996 til 1997 hafi hann unnið fyrir stefnda Árvélar sf.  Hann eigi og reki vörubifreið og hafi tekið að sér verkefni fyrir stefnda við vegagerð í Grundarfirði.  Hann hafi lagt til vörubifreið sína og vinnuafl og annast akstur og flutning á mold og fyllingu í veg.  Fyrir útselda vinnu hafi hann átt að fá greitt samkvæmt útgefnum reikningum.  Hann hafi byggt reikninga sína á svokölluðum dagseðlum (verkseðlum) sem stefndi hafi lagt honum til.  Á dagseðlana hafi hann fyllt út vinnutíma sinn, fjölda ekinna kílómetra yfir daginn, verkþætti, verklýsingu og athugasemdir er hafi tengst verkefni hvers dags.  Stefnandi kveðst hafa haldið slíka dagseðla og skilað inn með hverjum reikningi.  Stefnandi segir að allir reikningar hafi verið stílaðir á stefnda Árvélar sf.  Stefnandi hafi gert stefnda samtals sjö reikninga að fjárhæð 3.858.564 krónur vegna útseldrar vinnu sinnar auk þess sem stefndi hafi átt að greiða honum sérstaklega vegna vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi á vélum og tækjum í eigu stefnda og vegna aukavinnu í þágu stefnda á bifreið stefnanda.  Þar að auki hafi stefndi stofnað til skuldar við stefnanda vegna útgáfu víxla sem stefnandi hafi samþykkt til greiðslu á skuld stefnda.  Samhengisins vegna sé nauðsynlegt að rekja nánar með hvaða hætti stefnandi hafi fært reikninga og kostnað á stefnda. Í stefnu sundurliðar stefnandi kröfu sína þannig:

„Árið 1996

 

a) Reikn. nr. 3útgáfud. 30.08.96

kr.   510.450,-

b) Reikn. nr. 4útgáfud. 29.09.96

kr.   655.181,-

c) Reikn. nr. 5 útgáfud. 25.10.96

kr.   588.262,-

d) Reikn. nr. 8útgáfud. 06.12.96

kr.   625.612,-

e) Reikn. nr. 9útgáfud. 31.12.96

kr.   395.287,-

Samtals árið 1996

kr. 2.774.792,-

Árið 1997

 

f) Kostnaður vegna víxla (febrúar)

kr.     20.745,-

g) Reikn. nr. 10útgáfud. 08.06.97

kr.   264.562,-

h) Reikn. nr. 20útgáfud. 30.06.97

kr.   819.210-

i)  Laun skv. vinnuseðlum (apríl - júní ´97)

kr.   291.200,-

j) Laun skv. vinnuseðli (umframtímar ´97)

kr.   197.810,-

Samtals árið 1997

kr. 1.593.527,-

SAMTALS

kr. 4.368.319,-.

 

Á tímabilinu september 1996 – nóvember 1998 fékk stefnandi ýmsar innborganir á móti kröfum sínum.  Stefnandi ráðstafaði innborgunum hverju sinni inn á elsta hluta skuldar stefnanda eins og hún stóð á hverjum tíma.  Nánar tiltekið sundurliðast innborganir nánar sem hér segir:

 

Árið 1996

 

September

kr. 200.000,-

Október

kr. 198.120,-

Nóvember

kr. 200.000,-

Desember

kr. 315.000,-

Samtals

kr. 913.120,-

 

Eftirstöðvar ársins 1996 námu því kr. 1.861.672,-

 

Árið 1997

 

Innborgun 28.2.97

kr.   150.000,-

Víxlar 28.2.97

kr.   500.000,- (2x250.000,-)

Innborganir í júní 97

kr.   626.227,-

Innborgun í júlí 97

kr.   197.810,- (laun)

Víxlar 31.10.97

kr.   300.000,- (2x150.000,-)

Innborgun 30.10.97

kr.   150.000,-

 

Samtals innborgað á árinu kr. 1.924.037

Færð skuld frá fyrra ári nam kr. 1.861.671,-

Staða í lok ársins 1997 nam því kr. 1.531.161,-

 

Árið 1998

 

Innborgun 31.5

kr.   200.000,-

Innborgun 31.10.

kr.     10.000,-

Innborgun 06.11.

kr.   300.000,-

Greitt af víxli f. G.St.

kr.   200.000,- (víxill að fjárhæð kr.

1.2 m. )

Vextir af víxli

kr.   141.000,-

Innborganir (2x)

kr.   450.000,-

 

 

Samtals innborganir

kr. 1.301.000,-

 

 

Eftirstöðvar

kr.     230.161,-

 

Miðað við framangreint stóð stefndi í skuld við stefnanda að fjárhæð kr. 230.161,- í lok ársins 1998.  Stefnandi hafði hins vegar fengið greiddan hluta krafnanna með víxlum útgefnum 28.02.1997 að samtals kr. 500.000,- (2x250.000,-) og þann 31.10.1997 að samtals að fjárhæð kr. 300.000,- (2x150.000,-), sem Árvélar ehf. voru greiðendur að en stefnandi gaf út.  Þar sem víxlarnir voru ekki að fullu greiddir af greiðanda neyddist stefnandi til að leysa þá til sín. 

Þar sem greiðslufall varð á víxlunum og víxilfjárhæð að andvirði kr. 600.000,- var ekki greidd af stefnda ráðstafaði stefnandi innborgunum sem honum barst samtals að fjárhæð kr. 600.000,- inn á umrædda víxla og verða þeir ekki álitnir greiðsla samkvæmt almennum reglum kröfuréttar.  Við framangreindar eftirstöðvar bætast því við samtals kr. 600.000,- sem upphaflega hafa verið færðar sem innborganir í sundurliðun kröfunnar sbr. dskj. nr. 13.  Heildarkrafa stefnanda er því í kr. 830.161,-  sem er í raun 10.951,- kr. hærra en stefnufjárhæð máls þessa.  Stefnandi hefur hins vegar byggt kröfu sína á að reikningur nr. 20 sé ógreiddur og hyggst ekki elta ólar við framangreindar 10.951,- krónur.“

Þannig kveðst stefnandi hafa ráðstafað innborgunum inn á elstu hluta skuldarinnar og gjaldfallna víxla.  Hann byggir því kröfur sínar á síðasta reikningi frá 30. júní 1997 að fjárhæð 819.210 krónur.

Stefnandi byggir á því að milli hans og stefnda hafi stofnast gagnkvæmur og skuldbindandi samningur sem hafi falið í sér að stefnandi hafi tekið að sér verkefni við vegagerð fyrir stefnda.  Stefnda hafi borið að greiða honum samkvæmt útgefnum reikningum og vinnuseðlum.  Stefndi hafi vanefnt þessa skyldu sína þrátt fyrir að stefnandi hafi að öllu leyti staðið við sinn hluta samningsins. 

Stefnandi kveðst beina kröfum sínum að Árvélum sf. á grundvelli þess að félagið hafi verið viðsemjandi stefnanda.  Stefnandi hafi ætíð beint reikningsgerð sinni að stefnda Árvélum sf. og af hálfu stefnda hafi aldrei verið gerðar athugasemdir við þá reikningsgerð.  Þá hafi stefndi lagt stefnanda til dagseðla sem hafi verið sérstaklega merktir stefnda Árvélum sf.  Stefnandi sagði fyrir dómi að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu stefnda við reikningsgerð hans. 

Stefnandi byggir kröfu sína á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir.

II.

Stefndu kveða málavexti þá að tvö dótturfélög stefnda, Íslenskra aðalverktaka hf., hafi keypt Árvélar sf. hinn 5. júlí 1999.  Eigendur Árvéla sf. hafi einnig rekið einkahlutafélag með sama nafni og hafi það verið stofnað 5. janúar 1994.  Einkahlutafélagið hafi tekið við rekstri, eignum og skuldum sameignarfélagsins.  Einu réttindin sem hafi tengst sameignarfélaginu hafi verið fólgin í samningi þess við landeigendur í Ölfusi um efnisnám í Lambafelli í Þrengslum og opinberu leyfi til námavinnslu.

Þau dótturfélög Íslenskra aðalverktaka hf. sem hafi keypt hlut í sameignarfélaginu Árvélum hafi síðan sameinast hinu stefnda móðurfélagi.  Frá því að kaup Íslenskra aðalverktaka hf. á Árvélum sf. hafi orðið kunn hafi ýmsir vakið upp kröfur sem áður hafi verið reynt að innheimta hjá einkahlutafélagin Árvélum.  Telja stefndu skýringuna væntanlega þá að á árinu 1999 hafi rekstur einkahlutafélagsins verið kominn í þrot og úrskurður um gjaldþrotaskipti kveðinn upp 17. desember 1999.

Í þessu máli krefji stefnandi um uppgjör vegna vinnu sinnar í þágu Árvéla sf. við vegagerð í Grundarfirði á árunum 1996 og 1997.  Það hafi hins vegar verið Árvélar hf. (síðar einkahlutafélagið) sem hafi samið við Vegagerðina 20. maí 1996 um að taka ofangreint verk að sér.  Stefnandi hafi verið fenginn að verkinu sem undirverktaki og lagt til vörubíl sem hann hafi ekið sjálfur. 

Stefndu halda því fram að Árvélar sf. hafi að fullu gert upp við stefnanda á árinu 1998.  Engar kröfur hafi borist frá stefnanda um að hann hafi verið vanhaldinn vegna uppgjörsins fyrr en lögmaður hans hafi sent nýjum eigendum Árvéla sf. innheimtubréf 23. mars árið 2001.

Stefndu gera þær athugasemdir við kröfugerð stefnanda að hann krefjist greiðslu á einum tilteknum reikningi sem sé gefinn út 30. júní 1997.  Þrátt fyrir það sé að finna yfirgripsmikla reifun á viðskiptastöðu á milli aðila í stefnunni.  Einfaldara hefði verið að skýra málið með því að leggja fram útskrift úr bókhaldi um stöðu viðskiptareiknings.  Það sé hins vegar ekki gert og sé því nauðsynlegt að fara ofan í útreikninga stefnanda.  Þegar það sé gert kom í ljós að reikningsviðskipti séu uppgerð.

Samkvæmt stefnu og framlögðum dómskjölum hafi stefnandi gert stefnda 6 reikninga vegna undirverktöku við lagningu Snæfellsvegar við Grundarfjörð.  Reikningarnir séu þessir:

 

„Dagsetning

Reikningsnr.

Fjárhæð reiknings

31.10.1996

3

   510.450 kr.

31.10.1996

4&5

1.243.433 kr.

31.12.1996

8&9        

1.020.899 kr.

08.06.1997

10

   264.562 kr.

30.06.1997

20

   819.210 kr.

 

Samtals 

3.858.564 kr.“

 

Inn á þessar kröfur hafi stefnandi fengið greiddar 3.958.157 krónur samkvæmt sundurliðun í stefnunni.  Mismuninn sem stefnandi virðist vera að sækja sé vegna launa sem hann telji sig hafa átt inni hjá Árvélum sf. (291.200 krónur + 197.810 krónur) og vegna víxla sem hann hafi leyst til sín og Árvélar ehf. hafi verið greiðendur að.

Að því er launin varði sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið ráðinn í starf sem launþegi hjá Árvélum sf.  Það fari því fjarri að hann geti nú 4 árum eftir umrædda vinnu haft uppi kröfur um sérstakt uppgjör vegna þess sem ekki hafi verið reikningsfært.  Krafan að þessu leyti sé 489.010 krónur og komi því í öllu falli til lækkunar á dómkröfum stefnanda.  Megi í því sambandi vísa til tómlætis og almennra reglna vinnuréttar. 

Stefnandi segi jafnframt að hann hafi þurft að leysa til sín víxla sem Árvélar ehf. hafi samþykkt til greiðslu, samtals að fjárhæð 800.000 krónur.  Í stefnu segi að víxlarnir hafi ,,ekki verið greiddir að fullu” en allt sé á huldu um þetta víxiluppgjör og hvernig stefnandi fái það út að krafa stofnist á hendur þriðja manni (Árvélum sf.) vegna víxla sem Árvélar ehf. hafi samþykkt til greiðslu.  Allur þessi þáttur kröfugerðar stefnanda sé vanreifaður og illa rökstuddur.  Stefndu byggi einnig á því að tekið hafi verið við víxlunum sem fullnaðargreiðslu og að fyrra skuldasamband rakni ekki við.  Þá liggi fyrir að víxlunum hafi ekki verið skilað til stefndu né kröfu vegna þeirra verið lýst í þrotabú Árvéla ehf. sem mun hafa verið greiðandi víxlana.

Samkvæmt framangreindu telji stefndu ljóst að við skoðun á viðskiptayfirliti komi í ljós að stefndu standi ekki í neinni skuld við stefnanda.  Skuldin sé fyrir löngu uppgerð.  Viðbótarkröfur vegna víxla og launa séu algjörlega vanreifaðar og stefnandi geti ekki sett kröfur sínar þannig fram að hann hafi ráðstafað greiðslum inn á þær, enda óreikningsfærðar og hafi aldrei sést fyrr en við höfðun þessa máls.

Megin málsástæða stefndu sé að Árvélar sf. hafi aldrei samið við stefnanda um undirverktöku við vegalagningu Snæfellsnessvegar.  Einkahlutafélagið hafi greitt alla reikninga stefnanda og verið greiðandi á víxlum sem greitt hafi verið með upp í verklaun stefnanda. Það hafi verið einkahlutafélagið Árvélar sem hafi verið aðalverktaki þess verks eins og að framan sé rakið.  Þá sé það staðreynd í málinu að Árvélar sf. hafi ekki verið í rekstri árið 1996 og 1997 þegar verkið var unnið.  Öll atvinnustarfsemin hafi farið fram á vettvangi einka­hlutafélagsins eins og bókhaldsgögn þess félags beri með sér. 

Stefndu telja einnig að hafi stefnandi átt einhvern rétt sé hann fallinn niður fyrir tómlæti.  Engar skýringar séu á því hvers vegna það hafi dregist hjá stefnanda að gæta réttar síns í tæp fjögur ár.  Hér verði að hafa í huga að stefnandi kveður sig vera að sækja einfalda reikningsskuld byggða á tilteknum reikningi.  Stefnandi hafi mátt vita að stefndi hafi talið sig hafa gert út um öll þessi viðskipti fyrir löngu.

Um lagarök fyrir kröfum vísa stefndu til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnun og skýran málatilbúnað.  Þá er byggt á reglum kröfu- og verktakaréttar um tómlætisverkanir.

III.

Deilt er um aðild varnarmegin, hvort stefnandi hafi unnið fyrir Árvélar sf. eða Árvélar ehf.

Samkvæmt gögnum málsins var félagið Árvélar sf. stofnað 11. mars 1982.  Þann 5. júlí 1999 keyptu tvö dótturfélög Íslenskra aðalverktaka hf. félagið Árvélar sf. og síðar munu þessi tvö dótturfélög hafa runnið inn í móðurfélagið.  Að sögn forsvarsmanna Árvéla sf. var félagið ekki með neinn rekstur nokkur undanfarin ár áður en það var selt, að öðru leyti en því að félagið var með samning við landeigendur í Ölfusi um efnisnám og með opinbert leyfi til námavinnslu. 

Sömu eigendur og áttu Árvélar sf. stofnuðu Árvélar ehf. 5. janúar 1994.  Einkahlutafélagið tók yfir allar eignir, skuldir, réttindi og rekstur sameignarfélagsins með yfirlýsingu 21. maí 1996.  Árvélar ehf. gerðu verksamning við Vegagerðina um lagningu vegar við Grundarfjörð.  Hin umdeilda skuld er vegna vinnu stefnanda sem verktaka við þær vegaframkvæmdir.  Árvélar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 17. desember 1999.

Óumdeilt er að Árvélar ehf. gerðu verksamning við Vegagerðina og önnuðust vegaframkvæmdir á Snæfellsnesi.  Þá liggur fyrir í málinu að stefnandi vann sem verktaki einungis við þetta verk en var ekki í föstu vinnu- eða verktakasambandi við Árvélar sf. eða Ávélar ehf.  Þó mun stefnandi hafa unnið mörgum árum áður hjá  Árvélum sf., líklega árið 1981 að hann telur.

Stefnandi heldur því aftur á móti fram að hann hafi unnið fyrir Árvélar sf. við umrætt verk.  Því til stuðnings bendir hann á að hann hafi stílað alla reikninga sína á Árvélar sf. og fengið þá þannig greidda án athugasemda.  Stefndu Árvélar sf. hafi einnig lagt honum til svokallaða dagseðla (verkseðla) sem hafi verið merktir Árvélum sf. 

Stefndu benda aftur á móti á þá staðreynd að einkahlutafélagið hafi gert samning við Vegagerðina enda starfsemi sameignarfélagsins þá legið niðri í nokkur ár.  Einkahlutafélagið hafi greitt alla reikninga stefnanda og verið greiðandi að víxlum þeim sem greitt hafi verið með upp í skuld við stefnanda.  Forsvarsmenn Árvéla ehf. sögðu fyrir dómi að þeir hefðu gert athugasemdir við stefnanda um að reikningar hans væru stílaðir á sameignarfélagið. Stefnandi kannast ekki við þær athugasemdir.  Þá sögðu forsvarsmenn Árvéla ehf. að dagseðlarnir hafi verið gamlar birgðir sem merktar hafi verið Árvélum sf. og hafi þeir verið notaðir án þess að þeir hefðu leitt hugann að því að það kynni að hafa réttaráhrif síðar meir.

Við úrlausn þessa ágreinings verður að líta til þess að stefnandi stílaði nokkra dagseðla á einkahlutafélagið.  Uppgjörsblað, sem unnið er af stefnanda, er einnig stílað á einkahlutafélagið.  Af þessu má ráða að stefnanda var að minnsta kosti kunnugt um tilvist einkahlutafélagsins.  Þá er ekki deilt um að einkahlutafélagið var greiðandi á víxlum sem notaðir voru í viðskiptum aðila.  Aðalatriði málsins er þó að það voru Árvélar ehf. sem unnu umrætt verk fyrir Vegagerðina. Verður talið að stefnanda hafi mátt vera það kunnugt. Hafi hann verið í vafa, eins og ætla má af áðurnefndum bókhaldsgögnum, bar honum að kynna sér hið rétta.

Samkvæmt framansögðu verður talið að stefnandi hafi verið í samningssambandi við Árvélar ehf. Stefndu er því ranglega stefnt í málinu og ber því að sýkna þá þegar af þessari ástæðu.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og er þá meðtalinn virðisaukaskattur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu Árvélar sf. og Íslenskir Aðalverktakar hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Guðmundar Steindórssonar,  í þessu máli.

Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.