Hæstiréttur íslands
Mál nr. 478/2009
Lykilorð
- Hótanir
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 2010. |
|
Nr. 478/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Bjarka Kárasyni(Berglind Svavarsdóttir hrl.) |
Hótanir.
B var sakfelldur fyrir brot á 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa viðhaft hótanir í garð A og tíu ára gamallar dóttur hans, í því skyni að fá A til að draga til baka kæru sem leitt hafði til þess að sakamál var höfðað gegn honum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brotið tengdist tilraun til þess að hafa áhrif á skýrslugjöf fyrir dómi í sakamáli og um væri að ræða mikilvæga opinbera hagsmuni sem verndaðir eru af 108. gr. laga nr. 19/1940. Var refsing B ákveðin fangelsi í átta mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar refsingar.
Ekki eru efni til að vefengja mat héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna og verður sakfelling ákærða staðfest. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Tekið er undir rök hans fyrir refsingu ákærða, þó þannig að þar sem brotið tengdist tilraun til þess að hafa áhrif á skýrslugjöf fyrir dómi í sakamáli og þar er um að ræða mikilvæga opinbera hagsmuni, sem verndaðir eru af 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í átta mánuði.
Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Bjarki Kárason, sæti fangelsi í átta mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 265.299 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Berglindar Svavarsdóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 22. júní 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, 13. febrúar 2009, á hendur Bjarka Kárasyni, kt. 281281-4459, [...], „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 9. desember 2008, í símtali við B, fædda [...] og A er þau voru stödd á heimili sínu að [...], [...], viðhaft neðangreindar hótanir í því skyni að reyna að fá A til að draga til baka kæru hjá lögreglu sem leitt hafði til þess að höfðað var sakamál á hendur ákærða:
Hótað B því að faðir hennar, ofangreindur A, kæmi aftur blóðugur heim.
Hótað A því að honum yrði ekki líft á Íslandi.
Telst brot ákærða varða við 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 39/2000.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður en til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að komi til fangelsisrefsingar verði hún skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans.
Sýslumanninum á [...] var falið að fara með málið af hálfu ákæruvalds með bréfi ríkissaksóknara 13. febrúar 2009.
I
Forsaga máls þessa er sú að A lagði fram kæru á hendur ákærða og öðrum nafngreindum manni hjá lögreglunni á [...], vegna líkamsárásar og ólögmætrar nauðungar sem átt hafi sér stað aðfaranótt laugardagsins 16. febrúar 2008 og leiddi kæra hans til þess að ríkissaksóknari gaf út ákæru 8. apríl 2008. Aðalmeðferð í því máli fór fram 19. desember sama ár og dómur var kveðinn upp 8. janúar 2009. Var ákærði þar sakfelldur meðal annars fyrir líkamsárás gagnvart A í félagi við annan mann með því að slá hann hnefahöggum í andlit, toga eyrnalokk úr eyra hans og að hafa sveigt aftur þrjá fingur hans á hægri hendi. Þá var hann sakfelldur fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa neytt A til að hlaupa nakinn um húsnæðið. Ráða má af forsendum dómsins að ákærði hafði fremur en félagi hans frumkvæði að umræddri nauðung. Í dómnum var tekið fram að líkamsárás sú og nauðung sem ákærði og félagi hans voru sakfelldir fyrir hafi verið fólskuleg, langvarandi og niðurlægjandi fyrir A.
Samkvæmt frumskýrslu sýslumannsins á [...] hafði A símasamband við lögreglu á [...], 9. desember 2009, kl. 22:24, og tilkynnti að hann hefði orðið fyrir hótunum af hálfu ákærða skömmu fyrr. Kom fram að ákærði hafi einnig hótað dóttur tilkynnanda, B, en ekki efnislega hvers konar hótanir hefðu beinst að henni.
Í skýrslunni er vísað til ofangreindrar málsmeðferðar en aðalmeðferð í því máli hafði þá verið ákveðin 19. desember. Hafi A sagt að ákærði hafi afdráttarlaust verið að reyna að hafa áhrif á framgang þess málareksturs. Hafi A að sögn sagt ákærða að það mál væri úr hans höndum þannig að hann gæti ekki haft nein áhrif á framgang þess en ákærði hafi þá svarað að það væri ekki rétt því kæran stæði aðeins á meðan brotaþoli stæði á bak við hana. A hafi óskað eftir því við lögreglu að rætt yrði við ákærða.
Lögregla hafi haft samband símleiðis við ákærða og kynnt honum framkomna kvörtun A. Ákærði hafi neitað að hafa haft í hótunum en viðurkennt að hafa hringt heim til hans og reynt að fá A til þess að draga til baka kæru í fyrrnefndu sakamáli. Ákærði hafi kvaðst hafa reynt að fá A til þess að ræða þetta en A hafi ekki verið fús til þess.
Lögregla hafi aftur haft samband við A og kynnt honum skýringar ákærða. Hafi A kvaðst ætla að íhuga hvort hann kærði háttsemi ákærða og ráðfæra sig við lögmann í því sambandi.
Næsta dag, 10. desember 2008, hafi A komið á lögreglustöðina á [...] og lagt fram kæru.
Meðal gagna málsins eru upplýsingar sem lögregla aflaði frá Símanum hf. um símtöl í heimasímanúmer A, frá kl. 20:00 til kl. 23:59 hinn 9. desember 2008. Kemur þar fram að 5 sinnum hafi verið í hringt í símanúmerið á umræddu tímabili úr símanúmerinu 897-5477. Fyrsta símtalið hafi átt sér stað kl. 22:08:19 og staðið í 281 sekúndu (4 mínútur og 41 sekúndu). Annað símtalið hafi verið kl. 22:15:24 og varað í 379 sekúndur (6 mínútur og 19 sekúndur). Eftir þetta hafi þrjár tilraunir til hringinga verið gerðar, en engin þeirra hafi mælst í sekúndum. Fram kemur að símanúmerið 897-5477 sé óskráð frelsisnúmer, en samkvæmt gögnum Símans hf. hafi tveir aðilar kvartað við þjónustuver fyrirtækisins vegna vandræða með innborgun, þ.e. áfyllingu á „mitt frelsi“ á þessu símanúmeri, og séu því líklegir notendur símanúmersins. Er ákærði annar þeirra aðila sem nafngreindir eru í bréfi Símans hf. en hinn aðilinn mun, samkvæmt skráningu í þjóðskrá, vera eiginkona ákærða.
II
Þann 16. desember 2008 var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglunni á [...], vegna ofangreindrar kæru. Neitaði hann því alfarið að hafa haft í hótunum við A eða dóttur hans, en viðurkenndi að hafa átt stutt símtal við A að kvöldi 9. desember, en tilgangur þess hafi verið að fá A til að draga til baka kæru vegna ákærumáls sem væri til meðferðar fyrir dómstólum. Ákærði kvaðst aðspurður ekki geta lýst samtalinu, en neitaði að hann hefði látið nein þau orð falla við A eða dóttur hans sem falið hafi í sér hótanir. Þá er eftir ákærða bókað að honum þyki það hart að geta ekki rætt viðkvæm mál án þess að orð séu slitin úr samhengi og oftúlkuð sem hótanir.
skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa á umræddum tíma hringt í A í því skyni að fá hann til að falla frá kæru vegna líkamsárásar. Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa hringt til A og að dóttir hans hafi svarað í símann. Hafi hún sagt ákærða að faðir hennar væri sofandi, en ákærði kvaðst hafa heyrt í A á bakvið. Hún hafi fyrst ekki viljað leyfa ákærða að tala við A, en ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega hvaða orð hafi farið þeim á milli, en svo hafi hún látið A hafa símann og ákærði hafi þá rætt við hann. Kvaðst ákærði ekki geta útskýrt neitt nánar hvað þeim fór á milli, en málið hafi snúist um það að ákærði hafi verið að reyna að fá A til að falla frá kæru vegna líkamsárásar. Kvaðst ákærði aðspurður ekki muna þetta betur en þetta. Kvaðst ákærði aðspurður muna eftir því að stúlkan hafi sagt í símann að pabbi hennar væri sofandi, en einnig að hann hafi heyrt í A á bakvið. Kvaðst ákærði telja að stúlkan hafi verið að segja honum ósatt um að A hafi verið sofandi. Kvaðst ákærði telja að það gæti hafa verið vegna þess að A hafi ekki viljað tala við hann. Kvað ákærði aðspurður að hann byggist við því að A hafi vitað hver hafi verið að hringja. Ákærði kvaðst hafa kynnt sig fyrir stúlkunni. Er undir ákærða var borinn framburður stúlkunnar um að hann hafi sagt við hana að pabbi hennar kæmi aftur alblóðugur heim ef hún næði ekki í hann í símann, kvaðst hann hafna því að hafa viðhaft slík orð og kvaðst ekki hafa skýringar á því hvers vegna stúlkan væri að segja ósatt um þetta. Ákærði kvaðst aðspurður ekki þekkja stúlkuna og ekki vita hvernig hún líti út. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt stúlkuna neinum fortölum til að fá hana til að ná í pabba sinn í símann. Er ákærði var spurður hvort hann gæti gert nánari grein fyrir því hvernig hann hafi farið þess á leit við A að hann myndi draga kæru sína til baka, kvaðst ákærði ekki geta það. Hann kvaðst þjást af minnisleysi og hann muni ekki svona langt aftur í tímann. Kvaðst hann ekki geta sagt hvaða orð hafi farið þeirra á milli. Borið var undir ákærða það sem í ákæru greinir um að hann eigi að hafa sagt við A að honum yrði ekki líft á Íslandi ef hann drægi ekki kæru sína til baka. Kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa viðhaft þau orð og hann reikni ekki með að hafa sagt þetta, þar sem ætlun hans hafi verið að tala við A í góðu. Kvað ákærði að A hafi lítið vilja við hann segja og hafi ekki tekið vel í þetta. Nánar aðspurður um það hvernig hann hafi brugðist við því að A hafi ekki vilja draga kæruna til baka kvaðst hann hafa verið ósáttur við það en hann hafi ekki hótað A neinu. Kvaðst ákærði hafa viljað losna við þessi mál og að hann dauðsjái eftir að hafa gert það sem hann hefði gert og vísaði þá til umræddrar líkasmárásar. Kvaðst ákærði nánar ekki muna hvaða orð fóru þeim á milli, en hann teldi sig ekki hafa hótað neinu. Spurður, í ljósi þess að hann myndi ekki orðaskipti, hvort hann gæti fullyrt að hann hafi ekki hótað A kvaðst hann ekki geta það. Aðspurður um hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann hringdi kvaðst ákærði hafa verið búinn að fá sér einn eða tvo bjóra. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við það að stúlkan hefði farið að gráta þegar hann talaði við hana. Ákærði kvað A hafa einu sinni skellt á hann. Þá kvað hann að A hafi lítið vilja tala við hann og hafi svarað „já er það“ og ekkert viljað tala við hann. Ákærði kvaðst hafa hringt aftur og þá hafi ekki verið svarað. Aðspurður kvaðst ákærði hafa reynt að hringja þrisvar aftur án árangurs. Taldi ákærði að aðeins hefði verið um eitt símtal að ræða þar sem hann hafi rætt við A. Ákærði var spurður um þann framburð A hjá lögreglu að hann hafi sagt við ákærða að málið væri úr hans höndum og hann gæti ekki afturkallað kæruna og kvaðst hann ráma í það. Kvaðst ákærði ekki muna hvernig hann hafi brugðist við því, en taldi sig hafa sagt eitthvað á þá leið að hann gæti alveg afturkallað kæruna ef hann vildi. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að rætt hafi verið um greiðslu bóta. Nánar aðspurður af verjanda sínum kvaðst ákærði hafna því að hafa viðhaft þau orð sem greinir í ákæru. Þá hafnaði hann því að hann hefði sagt við dóttur A að hún ætti að segja föður sínum að draga kæruna til baka. Varðandi persónulega hagi sína kvaðst ákærði vera í vinnu, en eiga í töluverðum fjárhagserfiðleikum og væri við það að missa húsið sitt. Hann kvaðst kvæntur og hafa fjögur börn á framfæri. Nánar aðspurður um fjölda þeirra símtala sem ákærði hafi átt við A þetta kvöld kvaðst ákærða minna að aðeins hefði verið eitt símtal þar sem þeir hefðu talað saman, en í síðara símtali hafi A í mesta lagi svarað, en skellt strax á. Þetta gæti þó verið misminni og að það hafi verið fyrra símtalið sem A hafi skellt á hann. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samband við A aftur af þessu tilefni.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 10. desember 2008. Er haft eftir honum í skýrslunni að kvöldið áður hafi ákærði hringt í tvígang heim til hans í fyrra sinnið rétt upp úr klukkan 22. Þá hafi dóttir A B (10 ára) svarað í símann en allir á heimilinu hafi verið farnir að sofa. A hafi sagt að ákærði hafi spurt B hver hún væri og hvort hún væri dóttir A. Ákærði hafi því næst spurt hvað hún væri gömul og B hafi svarað því að hún væri 10 ára. Ákærði hafi þá spurt hvort hún væri í sjötta bekk en hún hafi sagt honum að hún væri í fimmta bekk. Ákærði hafi þá kynnt sig sem Bjarka Kára og hafi hann spurt hana hvort pabbi hennar gæti komið í símann. B hafi svarað því til að pabbi hennar væri sofandi. Ákærði hafi þá spurt hvort hún gæti ekki vakið pabba sinn en B hafi sagt að hann svæfi svo fast að hún gæti það ekki og hafi sagst heyra hroturnar í honum. Eftir að B hafi sagt að hún gæti ekki farið og vakið pabba sinn hafi ákærði spurt hana hvort hún myndi eftir því hvernig pabbi hennar hefði litið út þegar hann hafi komið alblóðugur heim einu sinni. Hafi A ekki sagst vita hvernig eða hvort B hafi svarað þessu en ákærði hafi svo bætt við í framhaldinu að hún skyldi fara og vekja pabba sinn ef hún vildi ekki sjá hann svoleiðis aftur. A hafi sagt að þegar þarna hafi verið komið hafi B komið inn í herbergi og ýtt við honum og rétt honum símann. B hafi ekki sagt orð en virst „skíthrædd“ að sjá. A hafi sagst hafa tekið símann og heilsað. Viðmælandinn hafi spurt hvort hann vissi hver hann væri og hafi A neitað því enda ekki áttað sig á hver þetta hafi verið. Viðmælandinn hafi þá kynnt sig og sagst vera Bjarki Kára. A hafi sagt „nú?“ og þá hafi ákærði sagt: „Nú skaltu draga þessa kæru til baka.“ Ákærði hafi svo bætt því við að ef hann gerði það ekki yrði honum ekki líft á Íslandi. A hafi þá svarað að hann gæti það ekki þar sem málið væri úr hans höndum. Ákærði hafi þá sagt það vera lygi þar sem kæran stæði á meðan A drægi hana ekki til baka. Að því sögðu hafi símtalið slitnað. A hafi þá farið fram í eldhús og kveikt sér í sígarettu. Hann hafi hugsað um það sem hefði gerst og verið nokkuð brugðið þegar hann hafi verið búinn að átta sig á því. Þegar nokkrar mínútur hafi verið liðnar hafi síminn hringt aftur og hafi það verið ákærði. Hafi A áttað sig á því að það hafi verið sama símanúmer á símanúmerabirtinum og í fyrra skiptið. Hann hafi tekið upp símtólið og sagt: „Hva, þú bara skelltir á mig?“ Ákærði hafi svarað því að einhver villa í símkerfinu hafi orðið til þess að símtalið rofnaði. Eftir að hafa sagt það hafi ákærði sagt við A að honum væri óhætt að hætta að taka upp samtal þeirra. A hafi sagt honum að það væri engin upptaka í gangi. Ákærði hafi þá sagt hann ljúga því og hann skyldi hætta að taka upp. Eftir þetta hafi samtalið orði ruglingslegt og ákærði farið að vaða úr einu í annað en hann hafi veitt því eftirtekt að ákærði hafi orðið varkárari í orðavali. Ákærði hafi gert að umtalsefni lögfræðikostnað og hafi hann vísað til þess málareksturs sem væri í gangi gegn honum. Ákærði hafi sagst þekkja þetta kerfi þar sem hann hafi brotið af sér áður og muni gera það aftur. Hafi A sagt lítið þegar þarna hafi verið komið sögu. Ákærði hafi talað um að hann myndi ekki greiða neinar bætur og A hafi svarað því til að hann skipti sér ekki af því. Ákærði hafi sagt að ríkið myndi greiða A skaðabætur og gera endurkröfu en hann hygðist ekki borga endurkröfuna. A segist hafa sagt við ákærða í þessu samhengi að það kæmi honum ekki við hvort ákærði kysi að borga eða ekki. Ákærði hafi í framhaldi af því spurt hvers vegna A hefði lagt fram kæru á hendur honum þar sem þetta hafi nú bara verið minniháttar mál og hafi Ákærði sagt að A hefði verið kominn í vinnu eftir tvo til þrjá daga eftir atvikið. Ákærði hafi svo sagt, til að leggja áherslu á hversu smávægilegt þetta hefði verið að hans mati að menn gerðu nú lítið annað en að leggja fram kærur ef menn ætluðu alltaf að kæra þegar þeir lentu í slagsmálum og fengju sprungna vör. Ákærði hafi endurtekið það á einverjum tíma í samtalinu að A skyldi slökkva á símtalsupptöku. A hafi sagt við ákærða að hann hefði ekkert við hann að ræða. Ákærði hafi endurtekið með áherslu að hann skyldi svara því af hverju hann hefði lagt fram kæru og hafi A þá endurtekið að hann hefði ekkert við ákærða að tala og í framhaldinu skellt á og tekið heimilissímann úr sambandi. Eftir að hafa tekið símann úr sambandi hafi hann svo hringt í lögreglu úr farsíma sínum og tilkynnt um málið og í framhaldi af því hringt í systur sína og upplýst hana um þetta. Hún hafi svo boðið honum að gista heima hjá henni og hafi þau farið þangað og verið um nóttina. A kvað aðspurður að hann teldi að símtalið hefði staðið yfir í sjö til tíu mínútur. Nánar aðspurður kvaðst hann hafa verið frammi en B og kona hans hefðu verið inni í herbergi þegar símtölin hafi átt sér stað og hafi kona hans heyrt eitthvað af því sem fram hafi farið.
A gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa umrætt kvöld sofnað fyrir framan sjónvarpið, en hafa verið vakinn um tíu leytið með því að B dóttir hans hafi rétt honum símann, en hafi svo farið í burtu. Hann hafi tekið síman og sagt halló. Þá hafi verið sagt: „Veistu hver þetta er?“ Hafi hann svarað því neitandi og hafi viðkomandi þá kynnt sig sem Bjarka Kára. Svo hafi hann sagt: „Ef þú dregur ekki þessi ákæru til baka þá verður þér ekki líft á Íslandi“. Þetta hafi verið það fyrsta sem ákærði hafi sagt við hann. Hafi A sagst ekki geta það. Ákærði hafi sagt við hann að hann gæti það víst og að ef hann drægi kæruna til baka þá yrði engin ákæra. Viti hann allt um þetta þar sem hann hafi gengið í gegn um svona áður. Upp úr þessu hafi símtalið slitnað. Hafi A farið fram í eldhús og hafi verið að átta sig á því hvað væri í gangi. Þá hafi ákærði hringt aftur. Hafi A þá spurt ákærða af hverju hann hafi skellt á og ákærði hafi svarað því að einhver vandræði væru með símakerfið og hafi beðið A um að slökkva á upptökunni. Hafi A neitað því að vera að taka upp. Þá hafi ákærði farið að spyrja A hvers vegna hann hafi verið að kæra hann. Þetta hafi verið svo lítið mál og A væri bara að eyða peningum í lögfræðing og þetta væri bara vitleysa. A kvaðst aðspurður ekki hafa vitað vel hvernig hann hafi átt að bregðast við þessu. Hann kvaðst hafa ennþá verið í hálfgerðu sjokki út af árásinni og hafi fátt sagt í símann. Sérstaklega vegna þess að ákærða hafi fundist þetta vera svo lítilvægt að hann liti á þetta sem einhver slagsmál. Hafi endað með því að A hafi sagt ákærða að hann hefði ekki meira að segja og hafi skellt á. Aðspurður um það hvernig áhrif þetta símtal hefði haft á hann kvaðst A hafa orðið undrandi og hafa hringt í lögregluna og hafi tilkynnt símtalið. B hafi hlaupið inn til mömmu sinnar og hún hafi verið í „losti, skíthrædd“. Hún hafi verið náföl og skjálfandi og hafi haldið utan um mömmu sína. Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvort stúlkan hafi grátið, en honum finnist það líklegt. Aðspurður um það hvort hann hefði orðið hræddur kvaðst hann varla geta sagt það. Hann hafi persónulega tekið afskaplega lítið mark á þessu. Þau hafi farið úr húsi þarna um nóttina og hafi það verið vegna þess að dóttir hans hafi verið hrædd og hafi ekki viljað vera þarna. Hún hafi tekið þetta afskaplega alvarlega. Sjálfur hafi hann tekið afskaplega lítið mark á þessu. Aðspurður um það hvernig hann skildi þau orð að honum yrði ekki líft á Íslandi kvaðst hann ekki vita það hvort ákærði hafi átt við að hann myndi elta A ef hann myndi flytja frá [...]. Hafi hann tekið þessu bókstaflega eins og ákærði hafi sagt þetta. Hann ítrekaði að hann hefði ekki persónulega verið hræddur en hann hafi verið hræddur um fjölskyldu sína. Manni sem hóti barni, eins og hann hefði eftir dóttur sinni að ákærði hefði gert, sé trúandi til alls. Aðspurður um það hvað dóttir hans hefði sagt honum um ummæli ákærða kvað hann hana hafa sagst hafa svarað í símann og ákærði hafi kynnt sig og spurt hver hún væri og hvað hún væri gömul og hvort hún vildi vekja A. Svo hafi dóttir hans ekki viljað segja honum meira, ekki þá. Seinna hafi hún sagt honum að ákærði hafi hótað því að ef hún vekti ekki pabba sinn þá fengi hún að sjá hann aftur eins og þegar hann hafi verið eftir líkamsárásina. Hann kvaðst ekki muna hvernig þetta hafi verið orðað. A kvað þau hafa gist um nóttina hjá systur hans, sem eigi heima stutt frá, en þau hafi komið heim daginn eftir. Aðspurður kvað A að ákærði hefði ekki hringt oftar. Hann staðfesti það sem eftir honum er haft í lögregluskýrslu um að hann hefði tekið heimilissíma úr sambandi eftir síðara símtalið. A kvað aðspurður um líðan dóttur sinnar í framhaldi af þessu, að hann hefði talað við kennara barnsins og sett hafi verið í gang aðgerðaráætlun. Síðan hafi hún talað við félagsfulltrúa og farið á fundi með honum og það hafi gengið mjög vel. Hún hafi sýnt depurð í skólanum, eftir því sem kennari hennar hafi sagt honum og verið svolítið útúr. Það hafi komið til við þennan atburð. A taldi B ekki vera búna að jafna sig á þessu og að hún væri ennþá hrædd og hugsi mikið um þetta. Hann kvaðst aðspurður merkja það á því hvernig hún tali, hún tali mikið um þetta og taki þessu mjög alvarlega. A kvað ákærða ekki hafa haft samband við hann í annan tíma eftir að hann hafði lagt fram kæru sína, hvorki áður né eftir þetta kvöld. Nánar aðspurður af verjanda ákærða kvað A að orðin „þér verður ekki líft á Íslandi ef þú dregur ekki kæruna til baka“ hefði í hans huga ekki getað verið annað en hótun. Á þessum tíma hafi hann nýverið fengið vitneskju um tímasetningar á vitnaleiðslum í líkamsárásarmálinu og kvaðst hann hafa ályktað að ákærði væri að „panikka“ og væri hræddur og hafi hann tekið þessu sem eðlilegum viðbrögðum hans við þessu. A kvað ákærða ekki hafa sýnt neina iðrun í samtalinu og kvaðst ekki hafa orðið var við neina iðrun ákærða vegna árásarinnar í annan tíma heldur. Aðspurður kvað A að hann hefði ekki heyrt hvað ákærða og B fór á milli, enda hefði hann verið sofandi. Aðspurður kvaðst A ekki minnast þess að hafa gert sérstakar ráðstafanir vegna símtalsins utan að hafa farið úr húsi þessa nótt og þá kvaðst hann minna að B hefði verið hjá systur hans daginn eftir. Hann staðfesti að hann og eiginkona hans ynnu vaktavinnu og B væri stundum ein heima á daginn. A kvað dóttur sína ekki hafa haft orð á því að hún vildi ekki vera ein heima eftir þetta símtal. Aðspurður kvaðst A ekki hafa haft frumkvæði að því að ræða um þennan atburð við B, en ef hún hafi viljað ræða hann hafi A gert það. Þá var borið undir A að B hafi borið í skýrslu sinni hvað honum og ákærða hafi farið í milli í símtalinu. Kvaðst A hafa talað um þetta þegar B hafi heyrt til en hann hafi ekki rætt málið sérstaklega við hana.
Við rannsókn málsins var tekin skýrsla af vitninu B á lögreglustöðinni á [...]. Var skýrslan tekin upp á hljóð- og mynddisk og er sá diskur meðal gagna málsins. Í skýrslu sem rituð var í tilefni af þess er bókað að fram hafi komið í frásögn B að hún hafi vaknað á umræddum tíma við símann er hann hafi hringt og hafi maður sem kynnt hafi sig sem Bjarka Kára verið í símanum og beðið um föður hennar. B hafi sagt honum að faðir hennar væri sofandi og hafi maðurinn sagt henni að vekja hann. Þá hafi maðurinn spurt B hvort hún myndi eftir því þegar faðir hennar hafi komið blóðugur heim, sem hún hafi svarað játandi. Hafi maðurinn þá sagt að hún myndi sjá föður sinn þannig aftur ef hann myndi ekki draga kæruna til baka. Að sögn hennar hafi maðurinn margendurtekið þetta. Einnig hafi komið fram hjá B að maðurinn hafi spurt um aldur hennar og bekk og hafi sagt að hún væri ekki nógu gömul til að skilja þetta. Faðir hennar hafi síðan vaknað og hún látið hann hafa símann og eftir símtalið farið að gráta.
B Birna gaf og skýrslu fyrir dómi. B er fædd síðla árs árið 1998 og var vegna ungs aldurs hennar tekin skýrsla af henni í skýrslutökuherbergi í Héraðsdómi Reykjavíkur sem sérútbúið hefur verið fyrir skýrslutökur af börnum. Sagði B svo frá að eitt kvöldið um tíuleytið hafi hringt maður. Hún hafi verið að sofna þegar síminn hafi hringt og mamma hennar hafi sagt henni að fara og svara og það hafi verið ákærði. Svo hafi hann farið að spyrja hvað hún væri gömul og í hvaða bekk hún væri og þannig. Og svo hafi hann spurt hvort hún myndi þegar pabbi hennar hafi komið alblóðugur upp á pallinn. Svo hafi hann sagt henni hver hann væri og hafi hún misheyrt það og hún hafi talið að þetta væri E (þ.e. hinn árásarmaðurinn (innskot dómara)). En pabbi hennar hafi verið sofandi í sófanum og ákærði hafi sagt eitthvað að ef hún segði ekki pabba sínum að taka kæruna til baka þá ætlaði hann aftur að ráðast á hann og aftur og aftur ef hann myndi ekki gera það. Ef hann myndi ekki taka kæruna til baka. Hann hafi verið búinn að segja þetta nokkuð oft og hann hafi sagt: Og mundu það að segja pabba þínum að taka kæruna til baka og hann hafi líka sagt að þeim yrði ekki líft á [...] ef hann myndi ekki gera það og eitthvað svoleiðis. Svo hafi pabbi hennar hóstað og þá hafi ákærði haldið að hún hefði verið að ljúga bara til að verja pabba sinn, en hún hafi ekki verið að því, pabbi hennar hósti stundum og þá vakni hann. Þá hafi hann sagt henni að hún ætti að láta pabba sinn fá símann. Svo hafi sambandið slitnað og þá hafi hann haldið að pabbi hennar hafi skellt á. Þá hafi ákærði hringt aftur og þá hafi bara pabbi hennar verið að tala við hann. Hún kvaðst ekki þekkja ákærða. Nánar aðspurð um hvað hún telji að átt hafi verið við þegar ákærði hafi sagt hvort hún myndi eftir því þegar pabbi hennar hafi komið alblóðugur á pallinn, sagði hún að það hafi verið eitt föstudagskvöldið, en pabbi hennar og vinnufélagar hans eigi saman snókerborð og þeir hafi oft verið að spila bara á kvöldin. E sé strákur eins kallsins sem eigi borðið og þeir hafi verið í snóker en svo viti hún ekkert hvað hafi gerst en svo hafi þeir farið eitthvað að berja pabba hennar og eitthvað þannig og ákærði hafi verið að meina það. Aðspurð um það hvort hún hafi séð þegar pabbi hennar hafi komið heim umrætt kvöld, sagðist hún hafa verið sofandi og svo hafi mamma hennar lokað hurðinni inn til hennar. Þegar farið var yfir framburð B um það hvað ákærði hefði sagt, bætti hún við að ákærði hefði einnig sagt við pabba hennar að þeim yrði ekki líft á Íslandi. Hún hafi ekki heyrt þegar ákærði hafi sagt þetta við pabba hennar en pabbi hennar hefði sagt þetta við þær. Hringt hefði verið aftur en þá hefði pabbi hennar svarað. Hún hafi ekki heyrt símtalið. B kvaðst muna að þessi atburður hefði átt sér stað 10. desember 2008. Aðspurð um það hvernig henni hefði liðið með að fá svona símtal kvaðst hún fyrst hafa orðið hrædd, en síðan hefði pabbi hennar sagt að þetta væru bara einhverjir fávitar, eða eitthvað í þá áttina. Hún kvaðst hafa verið hrædd við að ákærði myndi koma og ráðast á þau eða eitthvað þannig. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa fengið fleiri svona símtöl. Þá lýsti hún því að pabbi hennar hefði látið í símaskrána símanúmerið sem hringt hefði verið úr og sagt henni að ef hún sæi að verið væri að hringja úr þessu númeri og hún væri ein heima ætti hún ekki að svara. Hún kvaðst nánar aðspurð ekki muna eftir því að ákærði hafi hótað henni, en hótanir hafi beinst gegn pabba hennar. B kvað að þar sem pabbi sinn ynni á lyftara svæfi hann oft í sófanum og þetta kvöld hafi hún og mamma hennar verið í hjónaherberginu þegar síminn hringdi. Hafi mamma hennar haldið að símtalið væri til pabba hennar, kannski systir hans eða amma B eða eitthvað þannig. B kvað hafa verið hringt tvisvar úr sama símanúmerinu, en hún viti ekki til þess að hringt hafi verið aftur. Nánar aðspurð kvað B að ákærði hefði beðið um að fá að tala við pabba hennar og hún hafi sagt honum að pabbi hennar væri sofandi. Hafi ákærði þá beðið hana að gá hvort pabbi hennar væri sofandi og þá hafi hún sagt að hún heyrði hroturnar í honum. Hann hafi þá spurt hvort hún væri dóttir A og hvort hún væri í skóla og hvað hún væri gömul. Hún kvað mömmu sína ekki hafa komið neitt fram meðan á símtalinu stóð, en hún hafi komið fram þegar B hafi verið búin í símanum. B hafi komið grátandi til hennar og þá hafi hún komið fram, en þá hafi pabbi hennar verið búinn í símanum og hafi sagt að þetta væri ákærði. Hún hafi því farið grátandi til mömmu sinnar sem hafi verið inn í svefnherbergi. B sagðist aðspurð um hvort hún hefði heyrt hvað pabbi hennar hafi sagt við ákærða í símann kvað hún að hann hefði sagt: Nei, þetta er búið að koma við einhvern dóm og eitthvað þannig. Hann hafi þá verið að tala um líkamsárásina. Hún kvaðst ekki muna eftir fleiru sem hún hafi heyrt. Hún kvað nánar aðspurð að hún hefði ekki átt að svara númeri sem skrifað var í símaskrána þegar hún væri ein heima. Þá sagði hún að hún hefði ekki viljað svara í símann þegar hún hefði verið ein heima, en það hafi aldrei komið númer sem hún hafi ekki þekkt. Hún kvaðst ekki vera oft ein heima núna en það hafi verið meira þegar pabbi hennar hafi verið á síldarvöktum. Mamma hennar sé í vaktavinnu og það sé aldrei víst hvenær pabbi hennar komi heim. Mamma hennar vinni á dvalarheimili. Nánar aðspurð um hvernig henni liði núna kvað B að henni liði eiginlega vel, enda væri hún búin að fara til svona læknis, eða sálfræðings sem hjálpi manni. Þetta hafi verið sálfræðingur á [...]. Hún kvaðst ekki hafa verið lengi hrædd en þau hafi farið þarna um kvöldið til systur pabba hennar sem búi nálægt þeim. Sagði hún að þegar hún hefði verið búin að vera hrædd í smá tíma þá hafi hún eiginlega hætt við að vera hrædd. Hún sagðist hafa verið hrædd á meðan á símtölunum stóð og pínulítinn tíma eftir það.
Skýrsla var tekin hjá lögreglu af D, en hún er eiginkona A og móðir B. Er haft eftir henni í skýrslunni að hún hafi umrætt kvöld verið komin upp í rúm með B og hafi þær verið að fara að sofa. Síminn hafi hringt um klukkan 22 og hafi hún beðið dóttur sína um að fara fram og svara og það hafi B gert. Hafi D heyrt það sem B hafi sagt í símann á meðan hún hafi talað við manninn sem hefði hringt. Hafi hún heyrt að B hafi verið að útskýra í símann að hún væri dóttir A, hve gömul hún væri og eins í hvaða bekk hún væri. Hún hafi einnig heyrt þegar B hafi sagt að pabbi hennar væri sofandi og einnig að hann hryti. Næst hafi B rétt pabba sínum símann en hann hafi legið sofandi í sófa í stofunni. B hafi því næst komið í herbergisdyrnar og sýnilega verið í uppnámi og hafi skriðið upp í fang D. B hafi verið skíthrædd eftir símtalið og hefði hún sagt að fyrra bragði að sá sem hringdi hafi verið sá sem ráðist hafi á pabba hennar. Hún hafi lítið getað tjáð sig um símtalið að öðru leyti vegna gráts, ekka og geðshræringar. Eftir D er bókað sem svar við spurningu um hvort hún hafi heyrt eitthvað af samtali A við ákærða að hún hafi heyrt A segja ítrekað, eitthvað á þessa leið: „þér kemur það ekki við“. Eins hafi hún heyrt A tala um að hann væri ekki með upptökutæki. Í lok samtalsins hafi A svo sagt: „Þetta kemur þér ekkert við“ og skellt svo á. Um fjölda símtalanna er eftir D bókað að um tvö símtöl hafi verið að ræða. Fyrra símtalið hafi slitnað mjög fljótt og hún hafi einungis heyrt A segja „já“ nokkrum sinnum. Hitt símtalið hafi komið örskömmu seinna og það hafi verið í því símtali sem hún hafi heyrt þau orðaskipti sem hún vitni til hér að framan. Eftir henni er bókað að þau foreldrarnir hefðu rætt þetta við dóttur sína um kvöldið þegar hún hefði jafnað sig á geðshræringunni sem fylgt hafi í kjölfar símtalsins. Hafi B þá rakið símtalið í stórum dráttum fyrir þeim og eins hefðu þau rætt við hana morguninn eftir. Þá er eftir D bókað að hún muni ekki nákvæmlega hvaða orð B hafi notað um samtalið enda hefði það mestmegnis verið pabbi hennar sem rætt hafi þetta við hana eftirá. D segi að B reyni að bera sig mannalega en þetta hafi augljóslega tekið mikið á hana. Aðspurð um hvort B tali mikið um atvikið kvað hún það ekki vera.
D gaf skýrslu fyrir dómi. Lýsti hún atburðum þannig að það hefði verið hringt um tíuleytið um kvöldið, en þá hafi hún og dóttir hennar B verið farnar í rúmið. Hafi hún beðið dóttur sína um að fara og svara, sem hún hafi gert. Kvaðst hún ekki hafa heyrt annað en „já“ og „nei“, en ekki önnur orðaskipti, svo hafi B sagt að „hann væri sofandi inni í stofu“ og að hún hafi reynt að vekja A, en hann sofi fast. Loks hafi hafst að vekja hann. D taldi aðspurð að símtalið hefði verið búið að standa um fimm mínútur áður en B hafi vakið pabba sinn. Eftir að B hafi látið pabba sinn hafa símann hafi hún sprungið og hafi farið að gráta með sárum ekka. Hún hafi komið angistarfull inn til D og hafi hún spurt B hvað væri að. B hafi sagt að maður hefði viljað tala við pabba hennar og hafi nafngreint manninn sem ákærða. D kvaðst ekki hafa vitað fyrr en eftirá hvað hefði verið að gerast í símanum. Kvað hún að B hefði sagt sér að maðurinn hefði spurt hana að nafni, í hvaða skóla hún væri og í hvaða bekk og hvort hann mætti tala við pabba hennar. B hafi reynt að vekja pabba sinn en hann hafi sofið fast, en það hafi gengið að lokum. Svo hafi maðurinn farið að tala um árásina og hvernig pabbi hennar hefði komið alblóðugur heim og að hann skyldi taka ákæruna til baka. Maðurinn hafi verið að hóta henni. D kvaðst hafa heyrt aðeins af símtalinu milli A og ákærða, en það hafi aðallega verið bara „já“ og „nei“. D kvaðst ekki muna eftir öðrum orðaskiptum úr símtalinu. A hafi rætt við hana eftir símtalið og hafi verið stjarfur eftir samtalið og hafi D stungið strax upp á því að þau hringdu í lögregluna og þau hafi gert það. Nánar aðspurð um hvað hún hafi átt við með að A hefði verið stjarfur þá kvað hún að hann hefði verið hræddur og óttast að ákærði myndi koma aftur og gera honum eitthvað. B hafi einnig verið skíthrædd og hafi hún merkt það á því að barnið hafi grátið og verið með sáran ekka. D og A hafi rætt saman og hafi strax hringt í lögregluna og hafi farið strax daginn eftir á lögreglustöðina til að gefa skýrslu. Þau hafi síðan farið til systur A um kvöldið og þau hafi gist þar til að jafna sig á þessu. Hafi þau gert þetta af því systir A hafi viljað það og það hafi einnig verið út af B til að hún fyndi fyrir meira öryggi. B hafi verið lengi að jafna sig eftir þetta en henni líði betur í dag og það sé orðið léttara yfir henni. Hún hafi verið að reyna að útiloka þennan atburð en það hafi ekki gengið allt of vel. A hafi heldur ekki liðið vel og hafi fengið martraðir eftir árásina. Nánar aðspurð kvað D að þegar síminn hafi hringt hafi þær mæðgur verið komnar í rúmið en ekki sofnaðar. B hafi svarað í símann af því hún hafi beðið hana um það. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa heyrt hvað ákærði hefði sagt í símtalinu meðan á því stóð, en hafi heyrt um það frá B og A eftirá. D kvaðst ekki hafa farið fram til B fyrr en eftir að hún hafi verið búin að afhenda pabba sínum símann. Vígdís kvað aðspurð að ekki hefði orðið nein breyting á því hversu mikið B væri ein heima eftir skóla eftir þennan atburð og það komi stundum fyrir að hún sé ein heima á kvöldin og hún hafi ekki verið hrædd við það eftir þetta. D kvað ákærða ekki hafa haft samband við þau hvorki fyrir né eftir þetta kvöld. Aðspurð kvað D að B hafi verið kunnugt um það hverjir hefðu ráðist á pabba hennar og að þau hefðu rætt það við B. Hún kvað nánar aðspurð um martraðir A að hann hefði haft martraðir eftir árásina, en hún hefði ekkert spurt hann um það hvort það hefði breyst eftir símtalið. D kvað aðspurð að B hefði sagt sér frá því hvað ákærði hefði sagt við hana í símann strax eftir að símtalinu lauk og hafi verið að því meðan A talaði við ákærða í símann. Þá kvað hún aðspurð að B hafi fyrst og fremst verið hrædd vegna þess hver hafi verið að hringja, en ekki vegna þeirra hótana sem hann hafi haft í frammi. Nánar aðspurð staðfesti D það sem áður var haft eftir henni að B hafi einnig óttast þau orð ákærða að pabbi hennar myndi koma aftur alblóðugur heim. Þá staðfesti hún nánar aðspurð að B hefði sagt sér að ákærði hefði sagt við hana að A myndi aftur koma alblóðugur heim.
III
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa framið brot á 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 39/2000, með því að hafa viðhaft hótanir í garð A og dóttur hans B í því skyni að fá A til að draga til baka kæru sem leitt hafði til þess að sakamál var höfðað gegn honum, með orðum sem nánar eru rakin í ákæru málsins.
Í nefndri 108. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sá sem beiti annan mann eða nána vandamenn hans, eða aðra honum tengda líkamlegu ofbeldi, ólögmætri nauðung eða hótun skv. 233. gr. laganna vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi skuli sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum ef sérstakar málsbætur séu fyrir hendi. Í 233. gr. sömu laga er mælt fyrir um að það sé refsivert að maður hafi í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin sé til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa hringt á heimili A að kvöldi 9. desember 2008 og að tilgangur hans hafi verið að freista þess að fá A til að draga til baka kæru, sem hann hafði lagt fram á hendur ákærða og öðrum manni, vegna líkamsárásar og ólögmætrar nauðungar. Ákæra hafði verið gefin út í því máli og á þessum tíma hafði verið ákveðinn tími til aðalmeðferðar málsins 19. desember 2008 og var A, eðli máls samkvæmt meðal vitna við þá málsmeðferð. Þá er óumdeilt að dóttir A, B, hafi svarað símanum og verður af framburði ákærða ekki annað ráðið en að hann beri ekki brigður á það að hann hafi rætt nokkra stund við stúlkuna áður en A kom í símann. Fyrir liggja í málinu gögn frá Símanum hf. sem sýna að um tvö símtöl hafi verið að ræða. Hið fyrra hafi staðið í ríflega fjórar og hálfa mínútu (281 sekúndu) frá klukkan 22:08:19 og það síðara í ríflega sex mínútur (379 sekúndur) frá klukkan 22:15:24. Ákærði kvaðst hafa hringt í A í framangreindum tilgangi en hafnar því að hann hafi hótað honum eða dóttur hans. Hafi ákærði hugsað sér að tala við A í góðu og fá hann til að falla frá kærunni. Ákærði hefur þó ekki getað lýst því á neinn hátt á hvaða hátt eða með hvaða orðum hann hugðist ná ofangreindu markmiði sínu, eða hvaða orð fóru á milli hans og B og hans og A. Gaf ákærði þá skýringu að hann hefði slæmt minni og myndi þetta ekki, en taldi ekki að hann hefði viðhaft ummælin sem greinir í ákæru og kvaðst aðspurður byggja það helst á því að ætlun hans hafi verið að tala við A í góðu. Sérstaklega aðspurður, í ljósi þess að hann myndi ekki hvaða orð hann hefði viðhaft, hvort hann gæti fullyrt að hann hefði ekki viðhaft hótanir í símtalinu kvaðst hann ekki geta það.
Vitnið B bar fyrir dómi að ákærði hefði sagt við hana að hún ætti að segja föður sínum að ef hann drægi ekki kæru sína til baka myndi hann aftur koma blóðugur heim. Bar B að þetta hefði ákærði margítrekað við hana. Framburður B hefur verið stöðugur frá fyrstu tíð og verður að telja afar trúverðugan. Sama er í raun að segja um framburð A að hann hefur verið stöðugur um að ákærði hafi sagt við hann að honum yrði ekki líft á Íslandi ef hann drægi ekki kæru sína til baka. Framangreind ummæli eru þau sem ákærða er gefið að sök í ákæru að hafa viðhaft. Helsta málsvörn ákærða lýtur að því að orð standi gegn orði um það hvað hann hafi sagt og því geti ekki talist sannað að hann hafi viðhaft ummælin. Á þetta verður ekki fallist og er það mat dómsins að líta verði til atburðarrásar og aðstæðna í heild sinni við sönnunarmat í málinu. Hér að framan er framburður vitna ítarlega rakinn og verður talið að frásögn vitnanna beri í öllum aðalatriðum saman um rás viðburða. Þá samræmist framburður vitnanna betur en framburður ákærða, þeim upplýsingum sem fyrir liggja um lengd símtalanna og fjölda. Framangreind tvenn ummæli eru viðhöfð við tvo einstaklinga hvorn á eftir öðrum við þær aðstæður að ákærði var að reyna að fá fyrrnefndan A til að falla frá kæru á hendur honum. Þá liggur einnig fyrir að ákærði hefur á engan hátt getað lýst því með hvaða hætti hann setti fram ósk sína til A og kveðst ekkert muna um hvað honum og A og B hafi farið á milli. Þá bar ákærði einnig að hann gæti ekki fullyrt að hann hefði ekki viðhaft þau orð sem að framan er lýst. Verður því með hliðsjón af framangreindu öllu og framburði vitnanna A og B talið sannað að ákærði hafi í nefnt sinn viðhaft þau ummæli við hvort þeirra fyrir sig, sem í ákæru greinir, en líta verður svo á að framburðir vitnanna, sem eru eins og fyrr greinir staðfastir um þetta atriði, styrki hver annan. Þá fá þeir einnig stoð í framburði D, sem bar um viðbrögð þeirra mæðginanna við símtalinu. Sérstaklega vegur hér þungt að viðbrögð B, sem lýst hefur verið af bæði A og D, geta að mati dómsins ekki skýrst af því einu að hún hafi vitað að ákærði væri annar þeirra manna sem áður hefði ráðist á föður hennar. Ekki verður fallist á með ákærða að tengsl vitnanna séu til þess fallin, eins og hér stendur á, að raska trúverðugleika framburðar þeirra. Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að kominn sé fram lögfull sönnun um að ákærði hafi viðhaft þau ummæli sem greinir í ákæru og í þeim tilgangi sem þar greinir. Verður að telja að ummælin feli í sér hótun um að fremja refsiverðan verknað og að þau hafi verið fallin til þess að vekja hjá Ai ótta um heilbrigði og velferð sína. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og er þar rétt heimfærð til refsiákvæðis.
Samkvæmt sakavottorði ákærða, nær sakaferill hans aftur til ársins 1999 og hlaut hann frá því ári fram til ársins 2002 átta dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Hann hlaut dóm 1. október 2002 fyrir eignaspjöll og þjófnað og var þá ekki gerð sérstök refsing þar sem um hegningarauka var að ræða við dóm frá 26. ágúst s.á. þar sem hann var dæmdur til að sæta fjögurra mánaða fangelsi fyrir húsbrot, stórfelld eignaspjöll og þjófnað. Lauk hann afplánun þess dóms með samfélagsþjónustu 25. ágúst 2003. Nú síðast hlaut ákærði dóm í Héraðsdómi Austurlands 8. janúar 2009 fyrir þjófnað, eignaspjöll og vopnalagabrot, auk þeirrar líkamsárásar og ólögmætu nauðungar, sem nokkur grein er gerð fyrir í dómi þeim sem nú er dæmdur. Var hann þá dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára.
Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastnefnds dóms. Í samræmi við ákvæði 60. gr. almennra hegningarlaga ber því að taka upp þann dóm og ákveða ákærða refsingu nú í einu lagi eftir ákvæðum 78. gr. sömu laga, en ekki þykja uppfyllt skilyrði 60. gr. almennra hegningarlaga til að láta skilorðsdóminn halda sér. Við ákvörðun refsingar ákærða verður að hafa í huga að brot ákærða verður að teljast ófyrirleitið og beindi hann hótunum sínum meðal annars gegn tíu ára gömlu barni. Ber vitnum saman um að ákærði hafi m.a. spurt telpuna um aldur hennar, sem hún hafi sagt honum, þannig að leggja verður til grundvallar að þetta hafi verið honum ljóst. Þá ber að hafa það í huga að þeir opinberu hagsmunir sem refsiákvæði þessu er ætlað að verja verða að teljast verulegir. Að mati dómsins á ákærði sér engar málsbætur. Með hliðsjón af framangreindu öllu þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði og eru ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.
Ákærða verður gert að greiða sakarkostnað málsins að fjárhæð 281.564 krónur, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigríðar Kristinsdóttur héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 257.764 krónur með inniföldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður verjandans 23.600 krónur.
Halldór Björnsson, Ingveldur Einarsdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómarar kveða upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Bjarki Kárason, sæti fangelsi í sex mánuði.
Ákærði greiði 281.564 krónur í sakarkostnað og eru þar meðtalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Sigríðar Kristinsdóttur héraðsdómslögmanns, sem teljast hæfilega ákveðin, 257.964 krónur, sem og ferðakostnaður verjandans að fjárhæð 23.600 krónur.