Hæstiréttur íslands

Mál nr. 142/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. október 2004.

Nr. 142/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Líkamsárás. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi.

X var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut áverka á hægra auga, tvísýni, bólgu og lítið brot í hægri augntóttarbotni ásamt blæðingu. Í skýrslu sinni hjá lögreglu bar A að X hafi slegið sig hnefahögg, sem hafi lent á vinstra kinnbeini og vinstra eyra, en jafnframt skallað sig harkalega í andlitið og hafi það högg lent á hægra auga og nefi. Fékk frásögn A að þessu leyti stoð í skýrslu vitnisins B hjá lögreglu. Talið var að ákæra málsins væri ekki í samræmi við þau gögn er lágu fyrir við útgáfu hennar. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og frestun á ákvörðun refsingar hans.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds. Við munnlegan málflutning gerði hann þá varakröfu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

I.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt 25. maí 2003, á salerni skemmtistaðarins Hvíta hússins á Selfossi, slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut áverka á hægra auga, tvísýni, bólgu og lítið brot í hægri augntóttarbotni ásamt blæðingu. Ákærði neitar sök. Í yfirheyrslu hjá lögreglu og í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hann hafa verið umrætt kvöld á dansleik í Hvíta húsinu og farið þar á salernið. Hann hafi hitt A á salerninu og þeir verið að gantast. A hafi svo farið út af salerninu, en ákærði byrjað að kasta af sér vatni og gefið sig á tal við B, sem hafi staðið við hlið hans. A hafi hins vegar snúið aftur inn á salernið, komið aftan að ákærða þar sem hann var enn að kasta af sér vatni, beygt sig niður, gripið um fætur hans og lyft honum klofvega yfir salernisskálina. Hafi ákærði beðið A um að láta sig niður, en A þess í stað þrýst honum upp að veggnum. Kvaðst ákærði hafa reiðst snögglega vegna þessarar háttsemi A. Í skýrslu hjá lögreglu kvaðst hann hafa brugðist við með þeim hætti að hann hafi snúið sér við, ýtt A frá og stokkið svo á hann, en síðan róast, en  gæti ekki  lýst nánar hvað hann gerði við A. Um þetta sagði hann fyrir dómi að hann hafi snúið sér snarlega við, en við það hafi A kastast frá honum og lent inni í horni. Þegar A hafi snúið aftur hafi ákærða virst blæða úr andliti hans hægra megin. Hafi A stokkið á ákærða og haldið utan um hann. Augnabliki síðar hafi dyraverðir ásamt fyrrnefndum B skilið þá í sundur.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu bar A að umrætt kvöld hafi hann verið á dansleik í Hvíta húsinu þar sem hann hafi farið á salernið. Þar inni hafi verið þrír karlmenn að kasta af sér vatni í salernisskálar. Kvaðst A hafa þekkt einn þeirra, ákærða. Hafi hann gengið að ákærða, sem sneri í hann baki, klipið hann í síðuna, en síðan gengið frá. Hafi ákærði beðið sig að hætta þessu. Hann hafi síðan klipið ákærða aftur og hafi ákærði þá brugðist við með því að slá hann með einu hnefahöggi í andlitið. Höggið hafi lent á vinstra kinnbeini og vinstra eyra. Hann hafi þá rokið að ákærða og reynt að halda honum. Ákærði hafi brugðist við með því að skalla hann ítrekað á ennið. Dyraverðir hafi síðan komið og hann þurft að losa takið sem hann hafði á ákærða. Hafi ákærði þá skallað hann einu sinni mjög harkalega í andlitið. Höggið hafi lent á hægra auga og nefi. Hafi fossblætt úr nefinu og honum sortnað fyrir augum. Var skýrsla A fyrir dómi að mestu á sömu lund, en þar kom fram að þegar ákærði hafi skallað hann hafi höggið lent á hægra auga og mikið blætt úr honum.

Vitnið B bar hjá lögreglu að ákærði hafi verið að kasta af sér vatni inni á salerninu. Ákærði og A hafi í fyrstu verið að ýta hvor við öðrum í góðu. A hafi svo komið aftan að ákærða, beygt sig undir hann, lyft honum upp og þrýst upp á salernisskálina. Hafi ákærði beðið A um að láta sig niður, en A haldið honum þannig í smá stund en síðan látið hann niður. Ákærði hafi rokið í A, slegið hann í andlitið og skallað hann. Hann hafi ekki séð þegar ákærði sló A heldur heyrt það. Þegar hann hafi litið við hafi hann séð ákærða skalla A í andlitið. Hafi hann þá gengið á milli þeirra og þar með hafi þessu lokið.

Eins og fram kemur í héraðsdómi skoðaði Vésteinn Jónsson augnlæknir A 30. maí 2003 og gaf út vottorð um áverka hans 16. júní sama árs. Í því er meðal annars lýst  að A hafi áverka á hægra auga, þar á meðal mar í hægri augnlokum, og tvísyni, sem hafi ekki horfið. Á tölvusneiðmynd komi í ljós lítið brot í hægri augntóttarbotni ásamt blæðingu. Hafi A undirgengist aðgerð á Landspítala-háskólasjúkrahúsi til að lagfæra brotið.

II.

Eins og að framan greinir neitar ákærði að hafa ráðist á A umrætt sinn, heldur segist hann hafa snúið sér snöggt við eftir að A lyfti honum upp og þrýsti honum upp að veggnum. Hafi A þá kastast frá honum. A kveður ákærða hins vegar hafa veitt sér hnefahögg, sem hafi lent á vinstra kinnbeini og vinstra eyra, en síðar skallað sig harkalega í andlitið og hafi höggið lent á hægra auga og nefi. Fær framburður hans að þessu leyti stoð í framburði vitnisins B, sem kvaðst hafa heyrt þegar ákærði sló A og þá litið við og séð hvar ákærði skallaði A í andlitið. Ákærða er sem fyrr segir eingöngu gefið að sök að hafa slegið A hnefahögg í andlitið, en ekki skallað hann, og með því valdið fyrrgreindum áverka á hægra auga hans. Er ákæran þannig í ósamræmi við framburð A sjálfs um að umrætt hnefahögg hafi lent á vinstra hluta andlits hans, en áverka á hægra auga væri að rekja til þess að ákærði skallaði hann. Fær ákæran heldur ekki stoð í framburði B.

 Samkvæmt framansögðu er ákæra málsins ekki í samræmi við þau gögn er lágu fyrir við útgáfu hennar. Verður því að telja slíka annmarka á ákærunni að vísa beri málinu frá héraðsdómi, sbr. 1. málslið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. febrúar 2004.

Mál þetta, sem þingfest var 29. september 2003 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. janúar sl., er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Selfossi, dags. 27. ágúst 2003, á hendur X, kt. [...], [...], ,, fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2003, á salerni skemmtistaðarins Hvíta hússins á Selfossi, slegið A [...], hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að A hlaut áverka á hægra auga, tvísýni, bólgu og lítið brot í hægri augntóttarbotni ásamt blæðingu.“ 

Ákæruvaldið telur brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði látin niður falla. Verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik.

Laugardaginn 3. júní 2003 kom A á lögreglustöðina á Selfossi og lagði fram kæru á hendur X, ákærða í máli þessu, fyrir líkamsárás á skemmtistaðnum Hvíta húsinu aðfaranótt sunnudagsins 25. maí það sama ár. Í framhaldi af kærunni aflaði lögregla áverkavottorðs og tók framburðarskýrslur af ákærða og vitninu B.

Í áverkavottorði Vésteins Jónssonar augnlæknis, dags. 16. júní 2003, kemur fram að A hafi komið í hópskoðun á vegum vinnuveitanda 30. maí 2003. Hann hefði greint frá því hafa lent í átökum og verið skallaður og höggið lent á hægra auga. Mar hefði komið út bæði á efra og neðra augnlok og blæðing í slímhúð augans, dofi í efri vör og framtönnum, en ekki tvísýni. Í vottorðinu greinir frá því að við skoðun hafi komið í ljós mar í hægri augnlokum en ekki hafi verið mikil bólga. Augað hafi hreyfst vel nema ekki til fulls upp á við og þar verið tvísýni. Fram kemur að þar sem blæðing kringum auga getur valdið vægu tvísýni í nokkra daga hafi verið tekin tölvusneiðmynd þann 3. júní 2003, enda tvísýnið enn til staðar.   Síðan segir orðrétt í áverkavottorðinu: „... og kom þá í ljós lítið brot í hægri augntóttarbotni ásamt blæðingu. Í kjölfar þessa fór hann á móttöku Háls-nef og eyrnadeildar Landspítalans og mun hafa farið í aðgerð til lagfæringar á brotinu en nánari upplýsingar um það hef ég ekki undir höndum.“

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna.

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið staddur á salerni veitingastaðarins í þeim tilgangi að kasta af sér þvagi og þar hafi A einnig verið ásamt fleiri mönnum. Eftir að A hafði lokið sér af og farið að vaskinum kvaðst ákærði hafa farið að hlandskálinni til að kasta af sér þvagi. Eftir að A fór út kvaðst ákærði hafa rætt við B sem staðið hefði við hlið sér. Ákærði kvaðst hafa verið nýbyrjaður að kasta af sér þvagi þegar A hefði komið að sér aftan frá. Hann hefði snúið bakinu í sig, beygt sig niður og gripið um kálfana  og lyft sér klofvega yfir hlandskálina. Ákærði kvaðst við þetta hafa lent með báðar hendur í klofinu og upp að veggnum og þvagið því farið á vegginn. Hann kvaðst strax hafa beðið A um að láta sig niður en það hefði hann ekki gert heldur byrjað að skaka eða hossa sér upp við vegginn. Við það kvað ákærði hafa fokið í sig og hann því spyrnt höndunum í vegginn og snúið sér við og A við það kastast frá og lent inn í horni. A hefði síðan stökkið að sér og tekið utan um sig og kvaðst ákærði þá hafa séð að blæddi úr hægra gagnauga hans, en augnabliki síðar hefði B og einhver annar maður skilið þá í sundur. Ákærði tók fram að hann hefði ekki slegið A hnefahöggi eins og lýst er í ákæru. Verið geti að hann hafi fengið umræddan áverka þegar ákærði sneri sér við enda mögulegt að hann hefði við það rekið sig í A.

Aðspurður kvaðst ákærða hafa liðið mjög illa meðan á þessu stóð enda með buxurnar að hálfu niður um sig að kasta þvagi. Auk þess hefði honum þótt þetta mjög niðurlægjandi. Ákærði kvað þá A hafa verið að gantast áður en þetta átti sér stað, en ákærði kvaðst ekki hafa gefið honum nokkurt tilefni til þessa verknaðar. Fram kom hjá ákærða að það hafi ekki verið ætlun hans að slá A og tók ákærði fram að hann hefði aðeins verið að reyna að losna úr niðurlægjandi og óþægilegum aðstæðum. Fram kom hjá ákærða að hann hefði farið heim til A daginn eftir og beðið hann afsökunar enda hefði honum þótt þetta mjög leiðinlegt. A hefði hins vegar ekki beðist afsökunar, en ákærði tók fram að þeir hefðu þekkst vel og verið vinnufélagar um tíma og aldrei neitt komið upp á í þeirra samskiptum.

Vitnið A kvaðst hafa farið inn á salernið í þeim tilgangi að kasta af sér þvagi. Öll salerni hefðu verið upptekin og vitnið kvaðst engan hafa þekkt þar inni nema ákærða. Hann kvaðst hafa gantast í ákærða og muna eftir að hafa klipið í síðu ákærða og sagt honum að vera snöggur. Ákærði hefði kippst eitthvað til og eflaust sagt honum að hætta, en vitnið kvaðst hafa klipið aftur í ákærða. Eftir það kvaðst vitnið hafa gengið að vaskinum og verið eitthvað að fíflast eins og drukknum mönnum er lagið. Þá hefði ákærði slegið sig, en þar sem vitnið kvaðst vita til þess að ákærði noti fætur í slagsmálum kvaðst hann hafa rokið á ákærða og reynt að halda honum og jafnframt beðið hann um að hætta. Ákærði hefði hins vegar ítrekað skallað sig og því hefði hann tekið um hendur ákærða og ýtt honum upp að vegnum, en þrátt fyrir það hefði ákærði haldið áfram að skalla hann. Þegar dyraverðirnir komu að hefði hann þurft að sleppa ákærða sem hefði þá skallað sig á hægra augað og  blætt úr. Nánar aðspurður kvað vitnið ákærða fyrst hafa slegið sig hnefahöggi við handlaugina og hefði höggið, sem komið hefði honum algerlega að óvörum, komið á vinstri vanga hans. 

Vitnið kvað ákærða hafa komið heim til sín daginn eftir og beðið sig afsökunar og einnig hefði hann beðið sig um kæra ekki málið. Nánar aðspurður kvaðst vitnið kannast við að hafa gengið að ákærða þar sem hann var að kasta af sér þvagi og truflað hann vísvitandi en tók fram að slíkt sé vanalegt þeirra í milli. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa gripið utan um ákærða. Vitninu var kynntur framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi og kvaðst vitnið ekki minnast þess að atburðurinn hefði verið með þeim hætti sem ákærði lýsti. Fram kom hjá vitninu að hann hefði farið til læknis á Heilsugæslunni á Selfossi daginn eftir. Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis líkt og ákærði.

Vitnið B, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann greindi frá því að skömmu eftir að hann kom inn á salerni veitingarstaðarins hefði hann séð ákærða og A slá á létta strengi. Nánar aðspurður sagði vitnið að þeir hefðu ýtt hvor við öðrum en allt verið í góðu. Þegar ákærði kom að hlandskálinni, við hliðina á vitninu, hefði A komið að, snúið baki í ákærða, beygt sig undir hann og lyft honum upp og þrýst upp að veggnum og hlandskálinni. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða þrútna af reiði og hefði hann beðið A um að láta sig niður, en hann hefði ekki gert það og hlegið. Ákærði hefði barist um og kvaðst vitnið hafa heyrt smell eins og eftir högg, en þegar hann heyrði þetta hefði hann snúið baki í þá félaga. Þegar hann leit við hefði hann séð ákærða skalla A. Í beinu framhaldi af því hefðu menn gengið á milli þeirra. Vitnið greindi frá því að A hefði verið alblóðugur eftir þetta. Vitnið gat ekki nafngreint þá menn sem þarna voru staddir. Vitnið kvaðst þekkja ákærða ágætlega og vera málkunnugur honum.

Vitnið Vésteinn Jónsson augnlæknir gaf skýrslu í gegnum síma og staðfesti framlagt áverkavottorð. Vitnið kvaðst síðast hafa skoðað A 24. október og 30. desember sl. og hefði ekki verið um að ræða framfarir hjá honum milli þessara skoðana og því kvaðst vitnið ekki reikna með frekari bata hjá honum. Fram kom hjá vitninu að A myndi búa við varanlegt tvísýni við sérstakar aðstæður, þ.e. þegar hann liti nokkuð hátt upp á við til hægri og kvað vitnið þetta geta háð honum í störfum, en hann sé rafvirki og því oft vinna í þröngu rými eða upp fyrir sig.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök. Hann kveðst ekki hafa slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir en verið geti að A  hafi fengið umræddan áverka þegar ákærði barðist um til að losa sig úr þeim óþægilegu aðstæðum sem hann var í eftir að A lyfti honum upp þegar hann var að kasta þvagi.  

Mikið ber á milli í framburði ákærða og vitnisins A sem segir að ákærði hafa slegið sig að óvörum og auk þess ítrekað skallað sig. Vitnið kannaðist við að hafa áreitt ákærða þar sem hann var að kasta af sér þvagi, en kvaðst hafa klipið í síður ákærða. Vitnið B, sem stóð við hlið ákærða við hlandskálarnar, staðfesti framburð ákærða um afskipti A af ákærða þegar hann var að kasta af sér þvagi. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða slá A en hafa heyrt smell eins og eftir högg og þegar hann hefði snúið sér við hefði hann séð ákærða skalla A. Áður en þetta hefði átt sér stað kvaðst vitnið hafa séð ákærða þrútna af reiði. Þrátt fyrir neitun ákærða þykir með vísan til framburðar vitnanna B og A nægilega sannað að ákærði hafi slegið A í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir og þannig brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga. Á sakavottorði eru tilgreindar tvær sáttir frá árinu 1979 og 1986 sem ekki hafa áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.  Dómari hafnar því hins vegar að litið verði á viðbrögð ákærða sem neyðarvörn í skilningi 12. gr. almennra hegningarlaga og að verknaður ákærða hafi verið honum refsilaus. Þá eru ekki heldur efni til að láta refsingu falla niður að öllu leyti samkvæmt niðurlagi 74. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. tölulið sömu greinar. Með vísan til framburðar ákærða og vitnisins B þykir sannað að upptök árásarinnar megi rekja til háttsemi A gagnvart ákærða þegar ákærði var að kasta af sér þvagi. Refsing verður því ákveðin að teknu tilliti til 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Eftir atvikum þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærða skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  

Með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála greiði ákærði allan sakarkostnað málsins sem og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns,  80.000 krónur.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Dómari tók við málinu 1. janúar sl.

D ó m s o r ð

Ákvörðun refsingar ákærða, X, er frestað skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hans falla niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.