Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 15. mars. 2010.

Nr. 164/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi „í 4 vikur eða til 9. apríl 2010“ klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Það athugast að eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 12. mars 2010 var bókað í þingbók að ákærði lýsti því yfir að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands. Ekki var bókað í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er með 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka hefur verið bætt með skriflegri greinargerð.

Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. apríl 2010 klukkan 16.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2010.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi í 4 vikur eða til 9. apríl 2010, kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að hinn 13. janúar sl. hafi ákærði verið handtekinn við athafnasvæði Samskipa í Sundahöfn í Reykjavík með 3.873,73 g af amfetamíni innanklæða. Í ljós hafi komið að ákærði hafði sótt efnið um borð í flutningaskipið A sem þá hafi legið við Sundahöfn en ákærði hafði komið til landsins með skipinu daginn áður með fíkniefnin.

Ákærði hafi viðurkennt að hafa komið með efnin til landsins og lýst því fyrir lögreglu að ætlunin hafi verið sú að afhenda efnið áfram til meðákærða, Y. Lögregla hafi þá skipt fíkniefnunum út fyrir gerviefni, sett hlustunar-, hljóðupptöku- og eftirfararbúnað í pakkann og fengið ákærða til að afhenda efnin áfram til meðákærða á heimili hans að [...], eins og til hafði staðið.

Eftir að ákærði hefði afhent meðákærða pakkann og fengið afhentar kr. 405.000 frá meðákærða sem greiðslu vegna flutnings efnanna til Íslands hafi lögregla komið á vettvang og handtekið ákærðu.

Málið hafi borist ríkissaksóknara 26. febrúar sl. sem hafi gefið út ákæru vegna málsins þann 3. mars 2010. Þar sé ákærði ásamt meðákærða ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot eins og nánar sé lýst í meðfylgjandi ákæru.

Í ákæru sé háttsemi ákærðu talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, en brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi allt að 12 árum.

Málið verði þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 12. mars 2010, kl. 9.40.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness dags. 14. janúar sl. nr. R-35/2010 hafi ákærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, til 21. janúar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-50/2010, frá 21. janúar hafi ákærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 5. febrúar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-68/2010, dags. 29. janúar, hafi ákærða verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, til 26. febrúar.  Þann 26. febrúar var ákærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 12. mars, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. úrskurður héraðsdóms Reykjaness, nr. R-145/2010. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu Héraðsdóms, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 119/2010.

Að mati ákæruvalds krefjist almannahagsmunir þess að ákærði verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans og er vísað til dómvenju í þeim efnum.

Staða ákærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. t.d. mál Hæstaréttar nr. 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999. Þar hafi sakborningum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms en fyrir hafi legið sterkur grunur um beina aðild þeirra að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og tilvitnaðra lagaákvæða sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Ákærði hefur játað innflutning á tæplega 3,9 kg af amfetamíni. Með hliðsjón af magni amfetamínsins svo og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 119/2010 og einnig með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er fallist á kröfu ríkissaksóknara um áframhaldandi gæslu­varðhald, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi í 4 vikur eða til 9. apríl 2010, kl. 16.00.