Hæstiréttur íslands
Mál nr. 519/2016
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2016. Hún krefst þess að sér verði falin forsjá sonar síns og stefnda, A, og að umgengni hans og bróður hans B, við stefnda verði ákveðin þannig að þeir verði hjá honum frá föstudegi til mánudags aðra hverja viku, frá klukkan 12 á jóladag til sama tíma 27. desember ár hvert og um önnur hver áramót frá klukkan 12 á gamlársdag til klukkan 18 á nýársdag. Að öðru leyti verði umgengni eins og tiltekið er í hinum áfrýjaða dómi. Þá verði stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda einfalt meðlag. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að forsjá drengjanna verði sameiginleg, lögheimili A verði hjá stefnda en lögheimili B hjá áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp með sérfróðum meðdómsmönnum, var lagt heildarmat á aðstæður drengjanna og foreldra þeirra og skipan forsjár og umgengnisréttar ákveðin á þann veg sem best var talið samræmast hag þeirra og þörfum. Ekki eru efni til að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann því staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, Þyríar Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur, og Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 15. júní 2016.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. maí sl., er höfðað af M, [...], [...], á hendur K, [...], [...].
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að hann fari einn með forsjá barnanna A, kt. [...], og B, kt. [...]. Til vara krefst hann þess að forsjáin verði sameiginlega í höndum beggja foreldra og að börnin eigi lögheimili hjá stefnanda. Til þrautavara krefst hann þess að forsjá verði sameiginleg og að lögheimili verði hvort hjá sínu foreldrinu.
Gerð er krafa um að dómurinn ákveði hvernig umgengni barnanna við það foreldri sem ekki fær forsjá eða lögheimili skuli háttað.
Þá er gerð krafa um að stefndu verði gert að greiða með börnunum mánaðarlega einfalt meðalmeðlag, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs drengjanna.
Stefnandi krefst og málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
II.
Aðilar máls þessa gengu í hjúskap 21. apríl 2007, en í ágúst sama ár fæddust þeim drengirnir tveir sem mál þetta varðar. Foreldrarnir slitu samvistum í maí 2011 og við hjúskaparslit reis ágreiningur um forsjá drengjanna og umgengni þeirra. Lauk þeim ágreiningi með því að gert var samkomulag um sameiginlega forsjá og að lögheimili yrði hjá stefndu.
Haustið 2012 höfðaði stefnda mál fyrir Héraðsdómi Vesturlands, mál nr. [...]/2012, þar sem hún gerði kröfu um að samkomulag aðila yrði fellt úr gildi og að henni einni yrði falin forsjá drengjanna. Í málinu var lögð fram matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem meðal annars kom fram að matsmaður teldi báða foreldrana hæfa til að hafa forsjá drengjanna. Jafnframt var þar tiltekið að skapast hefðu aðstæður til að hugleiða möguleika á sameiginlegri forsjá þeirra. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu, með dómi uppkveðnum 6. júní 2014, að forsjá drengjanna skyldi vera hjá stefndu, en ekki var þá til staðar lagaheimild fyrir því að dæma foreldrum sameiginlega forsjá. Í dóminum var einnig kveðið á um umgengni stefnanda við börnin.
Í kjölfar dómsins gerðu málsaðilar hinn 21. júlí 2014 með sér staðfest samkomulag um tímabundna sameiginlega forsjá drengjanna skv. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003 og meðlag skv. 55. gr. sömu laga, en gildistími samningsins var frá 1. ágúst 2014 til 1. febrúar 2015. Þá rituðu foreldrarnir hinn 19. nóvember 2014, fyrir tilstilli barnaverndarnefndar [...], undir áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en málið var tilkynnt til nefndarinnar „vegna vanlíðan þeirra og frásagnar um ofbeldi af hendi móður“.
Fram kemur í stefnu að þar sem ekki hafi tekist að ná samkomulagi um breytta forsjá við lögbundna sáttameðferð hjá sýslumanni hafi málsókn þessi verið nauðsynleg.
Undir rekstri máls þessa var C sálfræðingur dómkvaddur að beiðni stefnanda til að meta ýmis atriði tengd forsjárhæfni málsaðila, en hann hafði einnig unnið matsgerð í fyrra forsjármáli aðila, dags. 21. apríl 2013, sem einnig liggur fyrir í þessu máli. Í seinni matsgerð hans, dags. 9. nóvember 2015, kemur meðal annars fram að drengirnir hafi hvor um sig jákvæð og sterk tengsl við foreldra sína.
Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af báðum aðilum málsins og símaskýrsla af C sálfræðingi. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom meðal annars fram að sú breyting hefði orðið á heimilisaðstæðum hans, frá því sem greint er frá í stefnu, að hann og fyrrverandi sambýliskona hans hefðu slitið sambúð sinni í febrúar sl. Hefði hann fest kaup á þriggja hæða einbýlishúsi í apríl sl. þar sem hann byggi nú einn, og hefðu drengirnir þar hvor sitt herbergi. Þá kom fram hjá stefndu að hún og sambýlismaður hennar hefðu slitið sambúð sinni í nóvember sl. en tekið hana upp að nýju í janúar.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hagsmunir barnanna krefjist þess að breyting verði gerð á forsjá þeirra, enda sé í ljós komið að stefnda sé illa fær um að fara ein með hana. Hún eigi erfitt með að virða rétt drengjanna til umgengni og samneytis við stefnanda. Af þeim sökum telji stefnandi það henta best hagsmunum drengjanna að lögheimili þeirra verði hjá honum og forsjáin annaðhvort hjá honum eða sameiginlega í höndum beggja. Sé í því sambandi vísað til þess sem fram komi í forsendum fyrri dóms í máli sömu aðila nr. [...]/2012 að því sé ekki að leyna að dómendur hefðu í málinu talið heilladrýgst fyrir drengina ef aðilar hefðu sammælst um sameiginlega forsjá, en á þeim tíma hafi verið óheimilt að dæma sameiginlega forsjá. Telji stefnandi ljóst að niðurstaða dómsins hefði orðið á þann veg ef dómurinn hefði þá haft til þess lagaheimildir. Þróunin hafi síðan sýnt að forsjárhæfni stefndu sé skert og því rétt að annaðhvort verði forsjáin alfarið hjá stefnanda eða að minnsta kosti lögheimili drengjanna.
Stefnandi bendir á að aðstæður hans til að hafa börnin hjá sér séu mjög góðar. Hann búi í góðu einbýlishúsi, þar sem drengirnir hafi góða aðstöðu, og fjárhagur hans sé góður. Hann starfi sem kokkur og geti hagað vinnutíma sínum eftir þörfum drengjanna þegar þeir dvelji hjá honum. Hins vegar telji hann að aðstæður drengjanna hjá stefndu séu mun lakari að öllu leyti og félagsleg staða þeirra hjá henni sé ekki góð.
Stefnandi vísar til þess að stefnda og sambýlismaður hennar hafi sýnt stefnanda og konu hans ofbeldi og haft í frammi ógnanir og ögrun þegar drengirnir fari á milli. Þá hafi barnaverndarnefnd haft afskipti af málefnum drengjanna á heimili stefndu vegna meints ofbeldis hennar í þeirra garð. Loks telji stefnandi verulega hættu á að stefnda flytji af landi brott, jafnvel til [...], þaðan sem hún sé upprunnin, fari hún ein áfram með forsjána. Telji hann því afar mikilvægt að hann öðlist þau réttindi sem lögheimili drengjanna fylgi svo að hann geti haft sem mest áhrif á uppeldið og haldið utan um hagsmuni þeirra.
IV.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að drengjunum sé fyrir bestu að forsjá þeirra og lögheimili sé áfram hjá henni. Ljóst sé að stefnda uppfylli öll þau skilyrði sem tilgreind séu í 2. mgr. 34. gr. barnalaga að líta skuli til við mat á því hvernig haga skuli forsjá og lögheimili barns og að fyrirliggjandi gögn, þar á meðal matsgerð og dómur í fyrra máli aðila, taki af allan vafa um hæfi hennar í þessu tilliti.
Mótmælt sé staðhæfingum stefnanda um ofbeldi í garð drengjanna, enda sé máli barnaverndarnefndar vegna þessa nú lokið. Þá sé og mótmælt þeim staðhæfingum sem fram komi í stefnu að stefnda hafi brotið gegn þeirri skyldu sem lögð sé á forsjárforeldri og það foreldri þar sem barn hefur lögheimili að tryggja rétt barnsins til umgengni við hitt foreldrið. Hún hafi ætíð virt rétt drengjanna til umgengni við stefnanda í samræmi við niðurstöðu fyrri dóms í máli aðila. Reyndar hafi hún gengið lengra en þar sé kveðið á um því að hún hefði reynt að stuðla að sáttum við stefnanda með því að gera tímabundið samkomulag við hann um sameiginlega forsjá drengjanna í sex mánuði, sem síðan hafi framlengst um þrjá mánuði í viðbót. Loks sé því mótmælt að stefnda hafi hug á að flytjast með drengina til [...]og að aðstæður hennar séu lakari en stefnanda. Hún sé í fastri vinnu á [...]og búi þar, ásamt núverandi maka sínum, í þeirra eigin íbúð, þar sem nægilegt rými sé fyrir alla heimilismenn. Drengjunum líði vel hérlendis, þeir standi sig vel í skóla og eigi hér sitt líf, vini og fjölskyldu.
Ljóst sé að stöðugleiki sé eitt af því sem líta beri til, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga, við mat á því hvað sé barni fyrir bestu. Drengirnir hafi verið með lögheimili hjá stefndu óslitið frá því að dómur hafi gengið í fyrra forræðismálinu hinn 6. júní 2014, með reglulegri umgengni við stefnanda og umsömdu sameiginlegu forræði yfir sex mánaða tímabil, auk þriggja mánaða til viðbótar. Drengirnir hafi alla sína ævi búið hjá stefndu og séu vanir því fyrirkomulagi sem verið hafi. Verði að telja að breytt fyrirkomulag í þessum efnum leiði aðeins til frekari deilna milli aðila, sem síst sé til þess fallið að viðhalda ró og stöðugleika um hagi drengjanna.
V.
Allt frá uppkvaðningu dóms í fyrri forsjárdeilu aðila hinn 6. júní 2014 hefur stefnda farið ein með forsjá sona þeirra tveggja. Stefnandi freistar þess nú að hnekkja því fyrirkomulagi og krefst þess aðallega að fá dæmda fulla forsjá með báðum drengjunum. Að öðrum kosti verði forsjáin sameiginleg og lögheimili þeirra hjá honum. Stefnandi krafðist þess og í stefnu til þrautavara að forsjáin yrði ákveðin sameiginleg en að lögheimili drengjanna yrði hjá stefndu. Við upphaf aðalmeðferðar málsins gerði stefnandi þá breytingu á þessari kröfu sinni að forsjáin yrði sameiginleg en að lögheimili drengjanna yrði hvort hjá sínu foreldrinu. Sætti þessi breyting andmælum af hálfu stefndu, sem taldi að hún væri of seint fram komin og ætti því ekki að komast að í málinu. Þar sem telja verður að umrædd þrautavarakrafa stefnanda, eftir breytinguna, gangi skemur en aðalkrafa hans verður fallist á að hún komist að í málinu.
Þegar foreldra greinir á um forsjá barns skal í dómi ákveða hvernig forsjá og lögheimili barns verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Skal dómur líta m.a. til hæfis foreldris, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barns til umgengni, hættu á að barnið, foreldrar eða aðrir á heimili hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.
Fram kemur í matsgerð dómskvadds matsmanns að drengirnir búi við góðar heimilisaðstæður hjá báðum foreldrum sínum. Beggja vegna hafi verið lögð alúð við að skapa þeim þroskavænlegar aðstæður þar sem þeim geti liðið vel. Þeim gangi vel í skóla og séu vel studdir af báðum foreldrum við íþróttaiðkun. Kemst matsmaður að þeirri niðurstöðu, sem er í samræmi við fyrri matsgerð hans, dags. 21. apríl 2013, að foreldrarnir séu hvort um sig hæf til að fara með forsjá tvíburanna, annars þeirra eða beggja. Þá segir: „Matsmaður er sammála niðurstöðum barnaverndarnefndar ... um að vanlíðan og óöryggi drengjanna stafi af samskiptum og árekstrum foreldra. Hann álítur að bæði kynforeldrarnir og stjúpforeldrarnir eigi þar sinn þátt. Að mati matsmanns hafa deilur foreldranna íþyngt tvíburunum verulega og mikilvægt er að þeirri byrði verði af þeim létt. Álagið virðist ekki hafa valdið þeim sálrænum skaða, en kvíðaeinkenni greinast og viðvarandi áhyggjur af mögulegum uppákomum, rifrildum eða slagsmálum foreldranna.“
Þá segir svo nokkru síðar í matsgerðinni: „Matsmanni virðist þó að foreldrarnir hafi reynt að framfylgja úrskurðum og að ná samningum og samkomulagi sín á milli, en þar sem reynt hefur á túlkun atriða þá hafi þau fljótt verið sett úr samhengi og gerður úr smáatriðum ágreiningur. Þessi samskipti geta haldið lengi áfram með alvarlegum áhrifum á drengina, mögulega valdið þeim að endingu sálmeinum. ... Til þess að lágmarka líkur á árekstrum þá telur matsmaður að ráðlegt sé að njörva niður umgengni í smáatriðum eins og hægt er. Einnig það að lágmarka bein samskipti milli foreldra til að minnka líkur á ófriði. Brýnt er að tvíburarnir lendi ekki í þeirri stöðu að bera skilaboð á milli foreldra. Matsmaður telur mögulegt að það geti gengið að annað foreldrið hafi forsjá og hitt foreldrið umgengnisrétt, en aðeins með því að kveðið verði nákvæmlega á um stað og stund fyrir umgengni, ... Annar möguleiki til að reyna að lágmarka að ágreiningur móður og föður bitni á drengjunum er sá að þau hafi forsjá sitt hvors tvíburans. Í verki getur það þýtt að tvíburarnir verði álíka mikið saman eins og verið hefur. Til að gæta að því að annar tvíburinn verði ekki meira pabba barn og hinn mömmu barn þá mætti skiptast á forsjá þeirra, t.d. á tveggja ára fresti til 18 ára aldurs. ... Í þessu máli telur matsmaður að sísti kosturinn sé sá að foreldrarnir hafi sameiginlega forsjá yfir tvíburunum vegna þess hve ófærir foreldrarnir eru til samstarfs sín á milli. Þeir láta sína persónulegu óvild í garð hvors annars trufla samskipti sín sem foreldra og skemma samvinnu um drengina.“ Kom fram í skýrslu matsmanns fyrir dómi að hann teldi nauðsynlegt að skerpa á því við úrslausn á ágreiningi aðila að milli þeirra ríkti jafnræði.
Þeir foreldrar sem hér deila, aðilar máls þessa, eru samkvæmt athugunum báðir vel hæfir uppalendur en hafa lengi deilt um atriði sem snerta syni þeirra eftir að til skilnaðar kom árið 2011. Deilurnar hafa stundum sprottið af litlu tilefni og erfitt að sjá hver er gerandi og hver þolandi, ásakanir ganga á víxl. Þótt ágreiningsefnin sýnist ekki veigamikil liggja væntanlega undir gömul sárindi. Reynd hefur verið sú skipan að móðir fari með forsjána og einnig hafa foreldrarnir um tíma farið með hana sameiginlega. Þetta hefur ekki leitt til þess að nauðsynlegur friður skapaðist í lífi drengjanna. Þeir eru samkvæmt athugunum í jákvæðum og sterkum tengslum við báða foreldra sína en sýna kvíðamerki sem rekja má til fjölskylduaðstæðna og að mati dómkvadds matsmanns er hætta á að togstreitan setji varanlegt mark á þá ef ekki hægist um. Því er brýnt að ný skipan komist á sem líkleg væri til að bæta samskiptin. Drengirnir vilja sjálfir ekki taka beina afstöðu í málinu en báðir hafa lýst því yfir að þeir vilji vera jafnt hjá báðum foreldrum. Báðir foreldrar leggja mikið upp úr að rækta hið góða samband sem sannanlega er á milli bræðranna, sem eru tvíburar, og munu þeir vafalaust hafa slíkt áfram að leiðarljósi. Dómurinn leggur áherslu á að skapað verði það jafnvægi milli foreldranna að það kalli á og hvetji þau til að taka sameiginlega á málum drengjanna, enda virðist ágreiningurinn leysanlegur að mati matsmanns og oft snúast um atriði sem til heilla væri að þriðji aðili skæri úr um. Það fyrirkomulag sem dómurinn telur vænlegast til að ná þessu markmiði, og mundi stuðla að því að halda drengjunum utan við deilur, er að umgengni verði sem jöfnust, reglur í kringum hana sem skýrastar og að forsjá verði skipt þannig að hvort foreldri um sig hafi forsjá annars drengsins með höndum. Er þetta í góðu samræmi við framangreinda niðurstöðu matsgerðar, og framburð matsmannsins fyrir dómi, um að þetta fyrirkomulag sé líklega heppilegasta leiðin til að knýja á um að foreldrarnir hafi ávallt með sér samstarf um allt er lúti að uppeldi drengjanna. Með þeim hætti skapast aukið jafnvægi milli foreldranna og með því að kveðið verði nákvæmlega á um umgengnina geta þau að mati dómsins betur einbeitt sér að því að bæta samskipti sín á milli og rækta innbyrðis samband drengjanna. Því er það niðurstaða dómsins að stefnandi fari einn með forsjá A en stefnda fari ein með forsjá B. Umgengni skal vera jöfn. Drengirnir skulu þannig dveljast saman hjá hvoru foreldri um sig í sjö daga, aðra hverja viku, frá því kl. 17 á föstudögum. Það foreldri sem nýtur umgengni við drengina hverju sinni skal ætíð bera ábyrgð á að skila þeim þegar umgengni lýkur. Á stórhátíðum skal regluleg umgengni rofin þannig að um jól og áramót séu bræðurnir annað árið hjá föður sínum frá 18. til 21. desember, hjá móður sinni 21. til 23. desember, hjá föður 23. til 25. desember, hjá móður 25. til 28. desember, hjá föður 28. til 30. desember, hjá móður 30. desember til 3. janúar og hjá föður 3. janúar til 6. janúar. Hitt árið skal þessari reglu snúið við. Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13. Um páska skulu drengirnir dveljast annað árið hjá föður sínum frá pálmasunnudegi fram á skírdag og hjá móður sinni frá því á skírdag og fram á annan í páskum. Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13. Hitt árið skal þessari reglu snúið við. Yfir sumarmánuðina skulu drengirnir dveljast saman í fjórar vikur hjá hvoru foreldri um sig og skulu foreldrar hafa komið sér saman um þá skipan fyrir 1. maí ár hvert. Séu þau þá ósammála skal móðir ráða tilhögun fyrsta árið sem ágreiningur verður, faðir næsta ár sem ágreiningur verður og þannig áfram.
Samkvæmt 6. mgr. 57. gr. barnalaga verður stefndu gert að greiða einfalt meðlag með barninu A en stefnanda gert að greiða einfalt meðlag með barninu B, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs þeirra.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnda hefur gjafsókn í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af málskostnaðarreikningi hennar, 1.100.000 krónur.
Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon dómstjóri og meðdómsmennirnir Guðfinna Eydal og Þorgeir Magnússon sálfræðingar.
Dómsorð:
Stefnandi, M, fari með forsjá drengsins A, en stefnda, K, fari með forsjá drengsins B.
Umgengni skal vera jöfn. Drengirnir skulu þannig dveljast saman hjá hvoru foreldri um sig í sjö daga, aðra hverja viku, frá því kl. 17 á föstudögum. Það foreldri sem nýtur umgengni við drengina hverju sinni skal ætíð bera ábyrgð á að skila þeim þegar umgengni lýkur. Á stórhátíðum skal regluleg umgengni rofin þannig að um jól og áramót séu bræðurnir annað árið hjá föður sínum frá 18. til 21. desember, hjá móður sinni 21. til 23. desember, hjá föður 23. til 25. desember, hjá móður 25. til 28. desember, hjá föður 28. til 30. desember, hjá móður 30. desember til 3. janúar og hjá föður 3. janúar til 6. janúar. Hitt árið skal þessari reglu snúið við. Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13. Um páska skulu drengirnir dveljast annað árið hjá föður sínum frá pálmasunnudegi fram á skírdag og hjá móður sinni frá því á skírdag og fram á annan í páskum. Skiptin skulu eiga sér stað kl. 13. Hitt árið skal þessari reglu snúið við. Yfir sumarmánuðina skulu drengirnir dveljast saman í fjórar vikur hjá hvoru foreldri um sig og skulu foreldrar hafa komið sér saman um þá skipan fyrir 1. maí ár hvert. Séu þau þá ósammála skal móðir ráða tilhögun fyrsta árið sem ágreiningur verður, faðir næsta ár sem ágreiningur verður og þannig áfram.
Stefnda greiði einfalt meðlag með A og stefnandi greiði einfalt meðlag með B frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.
Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur hrl., 1.100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.