Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/1999


Lykilorð

  • Tollalagabrot
  • Skjalafals
  • Brot í opinberu starfi


Ethan Frome

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000.

Nr. 333/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Reyni Haraldssyni

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

 

Tollalagabrot. Skjalafals. Brot í opinberu starfi.

R var ákærður fyrir tollalagabrot og skjalafals í opinberu starfi með því að hafa sem deildarstjóri tollstjórans í Reykjavík afskrifað 90% af verði bifreiðar, sem eiginkona hans flutti til landsins, í stað 64,5% afskriftar og gefið upp rangt tollverð bifreiðarinnar, en einnig fyrir að hafa síðar skráð inn tilhæfulausar leiðréttingar í tölvufært tollkerfi ríkistollstjóra þannig að inneign myndaðist. Talið var sannað, að R hefði útbúið aðflutningsskýrslu ásamt svokallaðri mats- og skoðunargerð og tilgreint þar matsverð bifreiðarinnar ranglega. Hefði R með þessu gefið upp rangt tollverð og þannig svikið undan nánar tilteknar fjárhæðir í vörugjald og virðisaukaskatt. Var þetta talið varða við 2. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 1. mgr. 158. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var R dæmdur til skilorðsbundins fangelsis og einnig til að greiða fésekt í ríkissjóð. Þótt R hefði hagrætt rafrænum gögnum í tölvukerfi með það fyrir augum að aðflutningsgjöld lækkuðu var ekki talið að sú háttsemi yrði heimfærð til 2. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga. Þá var á það fallist með héraðsdómara, að háttsemin yrði hvorki heimfærð til 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga né öldungis jafnað til þess verknaðar, sem þar greindi. Í III., IV. og V. kafla ákæru var R sakaður um skjalafals og tollalagabrot í opinberu starfi fyrir tilhæfulausar leiðréttingar í tölvufærðu tollakerfi ríkistollstjóra þannig að inneign myndaðist hjá innflytjanda og fyrir að hafa lagt inn hjá tollstjóra falsaða reikninga. Talið var, að skýringar R á þeim atvikum sem þessir kaflar ákæru tóku til, væru um margt tortryggilegar. Að virtri 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þótti engu að síður verða að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdómara að þessar sakargiftir væru ósannaðar og var R sýknaður af þeim.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 1999 til sakfellingar og refsingar ákærða samkvæmt II., III., IV. og V. kafla ákæru. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til vara að  honum verði einungis gerð vægasta refsing, sem lög leyfa. Hann krefst einnig málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði.

Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið gert þá breytingu á III. kafla ákæru, að ákærða er nú gefið að sök að hafa á tímabilinu 13. mars 1995 til 11. ágúst 1997 í 20 skipti skráð inn tilhæfulausar leiðréttingar á tollmeðferð vörusendinga í tölvufært tollakerfi ríkistollstjóra og því hafi tollstjórinn í Reykjavík ranglega endurgreitt 1.248.704 krónur í virðisaukaskatt og 621.277 krónur í vörugjald eða samtals 1.869.981 krónu. Af þeirri fjárhæð hafi tollstjóri greitt 1.659.868 krónur með 12 tékkum, en af þeim hafi þrír verið gefnir út til fyrirtækisins Bónusbíla ehf. Að öðru leyti er III. kafli ákæru óbreyttur.

I.

Meðal gagna málsins er aðflutningsskýrsla 3. mars 1995 ásamt svokallaðri mats- og skoðunargerð bifreiðar vegna innflutnings bifreiðarinnar XL 035, sem nánar greinir í II. kafla ákæru. Með vísan til forsendna héraðsdóms telst sannað, að ákærði hafi útbúið framangreind skjöl og tilgreint þar matsverð bifreiðarinnar miðað við 90% afskrift af grunnverði í stað 64,5% andstætt fyrirmælum reglugerðar nr. 261/1991 um tollverð notaðra ökutækja. Með því að útbúa þessi skriflegu gögn andstætt ákvæðum reglugerðarinnar gaf ákærði upp rangt tollverð bifreiðarinnar og sveik þannig undan 61.940 krónur í vörugjald og 65.760 krónur í virðisaukaskatt eða samtals 127.700 krónur í aðflutningsgjöld, eins og í ákæru greinir. Að gættri 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar þessi háttsemi ákærða við 2. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69/1996, sbr. og 187. gr. laga nr. 82/1998, og 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga. Með háttsemi sinni misnotaði hann stöðu sína sem deildarstjóri endurskoðunardeildar embættis tollstjórans í Reykjavík. Varðar háttsemi hans einnig við 138. gr. almennra hegningarlaga.

Í II. kafla ákæru er ákærði einnig sakaður um að hafa 2. ágúst 1995 skráð inn tilhæfulausar leiðréttingar á tollmeðferð framangreindrar bifreiðar í tölvufært tollakerfi ríkistollstjóra þannig að inneign myndaðist hjá innflytjanda bifreiðarinnar að fjárhæð 18.631 króna í vörugjald og 19.779 krónur í virðisaukaskatt eða samtals 38.410 krónur í aðflutningsgjöld, sem tollstjóri endurgreiddi ranglega samdægurs. Með þessari háttsemi sinni hagræddi ákærði rafrænum gögnum í tölvukerfi með það fyrir augum að aðflutningsgjöld lækkuðu og yrðu ranglega endurgreidd að hluta. Hins vegar verður ekki talið, að ákærði hafi með þessari háttsemi gefið tollyfirvöldum ranga skýrslu eða lagt fram villandi gögn um verðmæti bifreiðarinnar, sem heimfærð verður til verknaðarlýsingar 2. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga. Þá verður á það fallist með vísan til forsendna héraðsdóms, að þessi háttsemi ákærða verði hvorki heimfærð til 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga né öldungis jafnað til þess verknaðar, sem þar greinir.

II.

Varðandi sakargiftir í III. kafla ákæru hefur ákærði borið að leiðréttingar, sem þar er getið, hafi hann gert á grundvelli fyrirliggjandi gagna að undanskildum þeim tilvikum, sem í rannsóknargögnum eru merkt nr. 18-22, en þar hafi hann stuðst við munnlegar upplýsingar meðákærða. Engin skjöl hafa fundist í vörslum tollstjórans í Reykjavík, sem ákærði getur hafa stuðst við er hann breytti tollmeðferð vörusendinga, sem um ræðir í III. kafla ákærunnar, utan þeir fölsuðu vörureikningar, sem getið er í IV. kafla hennar.

Skýringar ákærða um þau atvik, sem III., IV. og V. kafli ákæru taka til, eru um margt tortryggilegar í ljósi þess, sem fram er komið og vitni hafa borið um. Verður engu að síður og að virtu ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að ósannaðar séu þær sakargiftir, sem þar eru hafðar uppi á hendur honum. Í málinu sætir ákærði ekki ákæru fyrir brot gegn 139. eða 141. gr. almennra hegningarlaga. Að gættu því, sem að framan er rakið, verður hann því sýknaður af sakargiftum samkvæmt þessum köflum ákæru.

III.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að taka tillit til þess að hann sinnti starfi yfirmanns hjá tollstjóranum í Reykjavík og misnotaði þar stöðu sína. Að teknu tilliti til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð. Með hliðsjón af því að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu, þykir mega fresta skilorðsbundið refsingu hans í þrjú ár. Með vísan til 2. mgr. 49. gr. almennra hegningarlaga verður ákærði einnig dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð. Þykir hún hæfilega ákveðin 150.000 krónur, og skal vararefsing vera fangelsi í 30 daga.

Ákærði verður dæmdur til að greiða hluta áfrýjunarkostnaðar eins og í dómsorði greinir. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, Reynir Haraldsson, sæti fangelsi í einn mánuð. Fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 150.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 30 daga fangelsi í stað hennar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði fjórðung áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talið fjórðung málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns, sem alls eru ákveðin 120.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 1999.

Árið 1999, þriðjudaginn 6. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-1510/1998: Ákæruvaldið gegn [...]og Reyni Haraldssyni, en málið var dómtekið 21. maí sl. en síðan tekið upp og flutt að nýju 25. júní sl. og þá dómtekið að nýju.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 18. nóvember 1998 á hendur:

[...]

Reyni Haraldssyni, kennitala 040349-2199, Funafold 49, Reykjavík,

[...]

I

[...]

II

 

Gegn ákærða Reyni fyrir tollalagabrot og skjalafals í opinberu starfi með því að hafa 3. mars 1995 í starfi sínu sem deildarstjóri endurskoðunardeildar embættis Tollstjórans í Reykjavík við tollmeðferð á bifreiðinni XL-035, AMC Commanche Pickup árgerð 1988, sem eiginkona hans var innflytjandi að, afskrifað 90% matsverðs bifreiðarinnar í stað 64,5% afskriftar og gefið þannig upp rangt tollverð bifreiðarinnar og með þeim röngu upplýsingum svikið undan kr. 61.940 í vörugjald og kr. 65.760 í virðisaukaskatt eða samtals kr. 127.700 í aðflutningsgjöld og að hafa 2. ágúst 1995 skráð inn tilhæfulausar leiðréttingar á tollmeðferð framangreindrar bifreiðar í tölvufært tollakerfi ríkistollstjóra þannig að inneign myndaðist hjá innflytjanda bifreiðarinnar að fjárhæð kr. 18.631 í vörugjald og kr. 19.779 í virðisaukaskatt eða samtals kr. 38.410 í aðflutningsgjöld sem Tollstjórinn í Reykjavík endurgreiddi ranglega samdægurs.

Telst þetta varða við 2. mgr. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69, 1996, sbr. og 187. gr. laga nr. 82, 1998, sbr. 2. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 261, 1991 og 3. mgr. sbr. 1. mgr. 158. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

 III

Gegn ákærða Reyni fyrir skjalafals og tollalagabrot í opinberu starfi og gegn ákærða [...]i fyrir tollalagabrot:

Með því að ákærði Reynir, í starfi sínu sem deildarstjóri endurskoðunardeildar embættis Tollstjórans í Reykjavík, á tímabilinu 6. september 1994 til 11. ágúst 1997 skráði í 23 skipti inn tilhæfulausar leiðréttingar á tollmeðferð vörusendinga í tölvufært tollakerfi ríkistollstjóra þannig að inneign myndaðist hjá innflytjanda vörunnar og endurgreiddi Tollstjórinn í Reykjavík ranglega vegna þessara færslna kr. 1.310.784 í virðisaukaskatt og kr. 714.391 í vörugjald eða samtals kr. 2.025.175 í aðflutningsgjöld. Af þeirri fjárhæð var kr. 210.113 skuldajafnað á móti skuldum viðskiptavina embættisins, þ.á m. fyrirtækisins Bónusbíla ehf., sem ákærði [...] var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður fyrir, en kr. 1.815.062 greiddi Tollstjórinn í Reykjavík út með 14 tékkum.  Þar af voru 5 tékkar gefnir út til fyrirtækisins Bónusbíla ehf., einn tékki var stílaður á ákærða [...] sjálfan og 9 tékkar voru gefnir út til [...] ehf., sem ákærði [...] starfaði fyrir sem verktaki, en hann framseldi alla framangreinda tékka og innleysti í bönkum, þó þannig að annar stjórnarmaður og prókúruhafi [...] ehf., [...], framseldi einn tékka ásamt ákærða, annan framseldi hún ein fyrir hönd [...] ehf. og fór með ákærða [...] í banka og skipti báðum þeim tékkum.

Brot ákærða Reynis teljast varða við 2. mgr. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69, 1996, sbr. og 187. gr. laga nr. 82, 1998 og 3. mgr. sbr. 1. mgr. 158. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og brot ákærða [...] við 2. mgr. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69, 1996, sbr. og 187. gr. laga nr. 82, 1998.

 

IV

 

Gegn ákærða Reyni fyrir skjalafals í opinberu starfi með því að hafa í starfi sínu sem deildarstjóri endurskoðunardeildar embættis Tollstjórans í Reykjavík, í tengslum við framangreindar rangfærslur í ákærulið III, lagt inn hjá Tollstjóranum í Reykjavík falsaðan flutningsgjalds-reikning frá Samskipum hf. og 2 falsaða vörureikninga eins og hér greinir:

1) Ljósritaður flutningsgjaldsreikningur dagsettur 17. ágúst 1995 vegna flutnings á Scania vörubifreið, sendandi Hedensted Lastbilophug, Danmörku, viðtakandi [...], Reykjavík, sem ákærði hafði falsað með því að ljósrita inn á neðri hluta reikningsins gjaldatölur annars flutningsgjaldsreiknings þannig að tilgreint flutningsgjald varð kr. 67.046 í stað þess að vera kr. 173.778.  Reikninginn lagði ákærði fram hjá Tollstjóranum í Reykjavík 6. september 1995 með rangri tollskýrslu.

2) Ljósritaður vörureikningur dagsettur 14. júní 1996 vegna sölu A.S. Trading til [...] á notuðum vörugámi sem ákærði hafði falsað með því að ljósrita yfir neðsta hluta reikningsins þannig að niðurstöðutala sást ekki og breyta fjárhæð reikningsins ofar á ljósritinu úr 90.000 dönskum krónum í 60.000 danskar krónur.  Reikninginn lagði ákærði fram hjá Tollstjóranum í Reykjavík 16. júlí 1996 með rangri tollskýrslu.

 

3) Ljósritaður vörureikningur dagsettur 1. ágúst 1996 vegna sölu A.S. Trading til [...] á notuðum vörugámi sem ákærði hafði falsað með því að breyta fjárhæð reikningsins á tveimur stöðum úr 40.000 dönskum krónum í 15.000 danskar krónur.  Reikninginn lagði ákærði fram hjá Tollstjóranum í Reykjavík 11. desember 1996 með rangri tollskýrslu en upphaflega var hann lagður fram vegna tollmeðferðar á annarri vörusendingu en þeirri sem ákærði rangfærði með þessu móti.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

V

Gegn ákærða Reyni fyrir skjalafals og tollalagabrot í opinberu starfi og [...] fyrir skjalafals og tollalagabrot á tímabilinu frá 21. maí 1996 til 25. september 1997 með því að ákærði [...] útbjó eða lét útbúa og sendi síðan meðákærða Reyni, þáverandi deildarstjóra endurskoðunardeildar embættis Tollstjórans í Reykjavík, 24 falsaða vörureikninga þar sem kaupverð var tilgreint lægra en það raunverulega var, auk þess sem nafn seljanda var ranglega skráð A.S. Trading á 18 reikningum, dagsetningar voru rangar á 14 reikningum og um ranga vörulýsingu var að ræða í 5 tilvikum, vegna innflutnings fyrirtækisins [...] ehf. á 16 vörubifreiðum og 2 tengivögnum og [...]ehf. á 5 vörubifreiðum, og sá ákærði Reynir um að tollafgreiða sendingarnar og útbjó í því skyni rangar tollskýrslur á grundvelli hinna fölsuðu reikninga sem hann lagði inn hjá embætti Tollstjórans í Reykjavík, en tengivagnarnir og bifreiðarnar voru fluttar inn frá Danmörku að tilhlutan ákærða [...] sem starfaði þar í landi sem verktaki hjá félögunum við útvegun vörubifreiða og annarra hluta til innflutnings.  Með notkun hinna fölsuðu vörureikninga og röngu tollskýrslna komst félagið [...] ehf. hjá því að greiða kr. 3.396.577 í virðisaukaskatt og kr. 2.704.556 í vörugjald og [...]hf. kr. 9.424.100 í virðisaukaskatt og kr. 6.981.999 í vörugjald, eða samtals kr. 22.507.232 í aðflutningsgjöld sem renna áttu í ríkissjóð.

Brot ákærðu Reynis og [...] teljast varða við 2. mgr. sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69, 1996, sbr. og 187. gr. laga nr. 82, 1998 og 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 138. gr. sömu laga hvað ákærða Reyni varðar, og refsiábyrgð [...] ehf. og [...]ehf. við 6. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55, 1987, sbr. 38. gr. laga nr. 69, 1996.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”

 

Undir rekstri málsins féll ákæruvaldið frá ákærunni á hendur [...] ehf. og [...] ehf., en fyrirsvarsmaður beggja var [...]. Bæði fyrirtækin eru gjaldþrota.

 

Verjandi ákærða, [...], krefst aðallega frávísunar á III. og V. kafla ákærunnar og aðallega er krafist sýknu af ákærulið I. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins.

Verjandi ákærða, Reynis, krefst aðallega frávísunar ákæruliða III. og V., en að öðru leyti er krafist sýknu og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.  Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlaun verði að mestu dæmd til greiðslu úr ríkissjóði að mati dómsins.

 

Um frávísunarkröfur.

Verjendur krefjast þess  að III. og V. kafla ákærunnar verði vísað frá dómi og er aðalmálsástæða beggja verjendanna sú, að þessir ákæruliðir uppfylli ekki ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr 19/1991.  Saksóknarinn andmælti frávísunarkröfunni og krefst efnisdóms. 

Í III. kafla ákærunnar er ákært vegna 23 tilvika, þar sem lýst er tilhæfulausum leiðréttingum á tollmeðferð vörusendinga.  Í V. kafla er lýst 24 tilvikum, þar sem notaðir voru falsaðir vörureikningar.  Í hvorugum kaflanum er hverju broti fyrir sig lýst sérstaklega, heldur er lýsingin heildstæð og fjárhæðir lagðar saman eins og lýst er.  Er teknar voru skýrslur af ákærðu og vitnum fyrir dómi um þessa kafla ákærunnar var stuðst við yfirlit um tilvikin sem ákært er vegna sbr. skjöl merkt hjá lögreglu nr. II/0.0.1 og II/0.0.2.  Þar eru einstökum brotum lýst nákvæmlega.  Skjölum málsins er einnig raðað upp til samræmis við framangreind yfirlit.  Við skýrslutöku af ákærðu og vitnum um ákæruefnið lék aldrei vafi á því við hvað væri átt er spurt var um einstök brot.  Hið sama á við um skýrslutökur hjá lögreglunni eftir því sem best verður séð.  Þessi yfirlit liggja frammi meðal skjala málsins og þykir ekki ástæða til að taka þau upp í dóminn heldur verður fjallað um ákæruna, fjárhæðir o.fl. eins og hún er.

Dómurinn telur samkvæmt þessu ekki fram komin nægileg rök sem leiða ættu til frávísunar þessara ákæruliða frá dómi, sbr. þó það sem síðar segir um ákæruefni III. kafla ákærunnar á hendur ákærða, [...], enda vörn ákærðu ekki áfátt af þessum sökum.  Frávísunarkröfunni er því hafnað, sbr. þó ákærðulið III á hendur ákærða, [...], eins og vikið verður að í niðurstöðukafla þess ákæruliðar.

 

Hinn 2. september 1997 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins embætti Ríkislögreglustjóra kæru á hendur ákærða, [...], meðal annars vegna grunsemda um vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda, en upphaflega barst ábending um hin meintu brot frá skattstjóranum í Reykjaneskjördæmi.  Hinn 30. október 1997 sendi tollstjórinn í Reykjavík ríkislögreglustjóra bréf með beiðni um opinbera rannsókn.  Í bréfinu segir meðal annars:

“Hjá tollstjóranum í Reykjavík og ríkistollstjóra hefur verið til skoðunar innflutningur fyrirtækisins AB bílar ehf. kt. 541195-2119, Stapahrauni 8, Hafnarfirði og fleiri aðila  Við þessa skoðun hefur komið í ljós rökstuddur grunur um skjalafals og brot gegn ákvæðum tollalaga.  Jafnframt hefur verið til athugunar hvort tiltekinn starfsmaður embættisins, Reynir Haraldsson, deildarstjóri endurskoðunardeildar, tengdist umræddum innflutningi á einhvern hátt.  Á fundi með Reyni Haraldssyni þann 24. þ.m. kom m.a. fram að hann sagðist vera kunningi þess aðila sem stæði að umræddum innflutningi ([...]) og að hann hafi sjálfur endurskoðað tollskýrslur fyrir þennan aðila og jafnvel í sumum tilvikum útbúið tollskýrslur fyrir hann.  Annar fundur var með Reyni þann 28. þ.m. þar sem honum var tjáð að embættið myndi vísa málinu til opinberrar rannsóknar og að aðild hans að málinu kæmi örugglega þar til athugunar.  Strax eftir þennan fund óskaði Reynir eftir lausn frá störfum og lét hann af störfum samstundis.”

Eftir þetta sætti málið rannsókn hjá ríkislögreglustjóra.

Verður nú vikið að einstökum ákæruliðum.

 

I

[...]

II

Ákærði kvað lýsingu í þessum ákærulið rétta, en neitar því að um brot gegn tilvitnuðum lagaákvæðum hafi verið að ræða.  Hann kvaðst hafa skoðað þessa bifreið sjálfur og séð að á henni reyndust meiri gallar en talað var um.  Til stóð að framkvæma tjónamat á bílnum, sem ekki var gert, en ákærði tollafgreiddi bifreiðina með tilliti til þessara galla, eins og lýst er í ákærunni.  Hann taldi að hefði tjónamat farið fram hefði bifreiðin verið tollafgreidd þannig, að verð hennar hefði verið lækkað og niðurstaðan orðið svipuð þeirri sem ákærði tollafgreiddi bifreiðina.  Þannig hefði hann ekki staðið formlega rétt að málum, en ekkert tjón orðið.  Ákærði kvaðst síðan hafa skráð færslu þá í tölvufært tollakerfi ríkistollstjóra 2. ágúst 1995, sem lýst er í ákærunni.  Þetta hefði verið gert á sömu forsendum og lýst var að ofan, en engin gögn voru til um þetta utan viðurkenning frá seljanda ökutækisins ytra um ástand bílsins.  Fjárhæðir í þessu sambandi kveðst ákærði hafa áætlað sjálfur sem viðgerðarkostnað á bifreiðina.

Sævin Bjarnason aðaldeildarstjóri lýsti fyrir dóminum hvernig bifreið sú, sem hér um ræðir, hefði átt að tollafgreiðast og var lýsing hans og tölulegar niðurstöður hinar sömu og í ákærunni.  Hann kvað hafa átt að beita 64,5 % afskrift, engin gögn hefðu legið fyrir um að bifreiðin hefði verið skemmd.  Engin gögn fundust sem endurgreiðslan gat verið byggð á.

 

III

Áður hefur verið vikið að frávísunarkröfu vegna þessara ákæruliða.  Kröfunni var hafnað utan frávísunarkröfunni að því er varðar ákærða, [...], sbr. niðurstöðukaflann síðar.

Svo sem þar var rakið hefur verið tekið saman yfirlit vegna þeirra 23 skipta sem tilhæfulausar leiðréttingar voru gerðar og ákæran er byggð á því yfirliti og við skýrslutökur fyrir dóminum var stuðst við yfirlitið eins og lýst var.

Ákærði, [...], lýsti aðdraganda á háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið þannig, að meðákærði, Reynir, hefði hringt í sig og beðið sig um að gera sér greiða.   Reynir hefði þá verið að flytja til landsins bíl frá Bandaríkjunum, sbr. ákærulið II, og að sögn [...] var greiðinn fólginn í því að leysa út fyrir hann tékka vegna þess að það þyrfti að “fiffa eitthvað til innanhúss”.  Reynir hefði sagt sér að þessi vinnubrögð tíðkuðust innanhúss hjá tollinum og það þyrfti utanaðkomandi aðila til að aðstoða við þetta, en Reynir hefði greint sér frá því að hann þyrfti einhvern gjaldfrest til greiðslu innflutningsgjalda fyrir bílinn, sem hann var að flytja inn.  Ákærði kvaðst hafa gert Reyni þennan greiða vegna þess að þeir væru ágætisvinir og hann hefði þekkt hann lengi og treyst honum.  Ákærði, [...], kvað aðdraganda þeirra 23 skipta, sem lýst er í ákærunni, hafa verið þann að Reynir hafði samband við [...] og bað hann um að hitta sig. Hann þyrfti að bjarga einhverju.  [...] fór þá í tollinn og fékk afhenta ávísun hjá gjaldkera, utan í eitt skipti eða tvö, er Reynir afhenti honum ávísun sjálfur.  [...] kvaðst aldrei hafa beðið um leiðréttingarnar.  [...] skipti ávísununum í banka og afhenti Reyni reiðufé í lokuðu umslagi, nema fyrstu þrjár leiðréttingarnar, sem gerðar voru í nafni Bónusbíla ehf.  Þá hefðu endurgreiðslur að öllum líkindum farið til Bónusbíla og fjórða leiðréttingin sem gerð var, þá var skuldajafnað upp í skuld Bónusbíla ehf. við tollstjóraembætti, en andvirði tékkans vegna fyrstu leiðréttingarinnar notaði [...] til að kaupa gjaldeyri.  [...] kvaðst telja að hann hefði afhent Reyni einn eða fleiri tékka eftir að ákærði hafði framselt þá.  Ekkert liggur fyrir í málinu um að ákærði, Reynir, hafi skipt einhverjum tékkanna sem hér um ræðir í banka, en allar endurgreiðslurnar og leiðréttingarnar, sem áttu sér stað eftir 3. mars 1995, er ákærði, Reynir, flutti inn bílinn, sem lýst er ákærulið II, hefði ákærði afhent meðákærða peninga í lokuðu umslagi, eins og lýst var.  [...] kvað sér hafa fundist þetta heldur skrýtið og rætt þetta einu sinni við [...] og Herborgu Haraldsdóttur, en [...] hefði einu sinni orðið vitni að því er hann afhenti meðákærða umslag með peningum í.  Ákærði kvað aldrei hafa hvarflað að sér að meðákærði væri að stela peningum, ekki fyrr en Herborg hefði rætt við sig um það hvort svo væri hugsanlegt.  Aðspurður hvort ákærði hafi ekki gert sér grein fyrir því hvers kyns væri, þar sem leiðréttingarnar voru gerðar í nafni félaga, sem lýst er í ákærunni, en félögin fengju ekki peningana, kvaðst ákærði hafa gert sér grein fyrir því að þetta væri ef til vill rétt, en Reynir hefði greint sér frá því að þessir starfshættir tíðkuðust hjá starfsmönnum tollstjóraembættisins.  Hann útskýrði þetta ekki nánar.  Ákærði, [...], kvað aldrei hafa hvarflað að sér að verið væri að hafa fé af tollinum. 

Framburður ákærða, [...], um þetta var mjög ruglingslegur.  Hann kvaðst enga grein hafa gert sér fyrir því hvernig leiðréttingarnar fóru fram innan embættis tollstjóra og vissi ekki hvernig meðákærði stóð að þeim.

Ákærði, Reynir, neitar sök.  Hann kvaðst hafa gert leiðréttingarnar sem hér um ræðir sem deildarstjóri endurskoðunardeildar tollstjóraembættisins í Reykjavík.  Hann kvað meðákærða og Bónusbíla og [...] hafa notið ákveðins trausts og er því nánar lýst síðar .  Hann kvað skjöl hafa borist embættinu á venjulegan hátt og leiðréttingarnar í öllum 23 tilvikunum, sem lýst er í ákærunni, hafa verið gerðar á forsendum fyrirliggjandi skjala.  Eftir að leiðrétt hafði verið á forsendum þessara skjala voru þau færð í skjalasafn tollstjóra, þar sem þau hljóti að vera.  Ákærði nefndi dæmi um breytingar sem geti leitt til endurgreiðslu, þá væri breytt verðum, flutningskostnað og skilmálum væri breytt.  Þetta sé mjög algengt og þúsundir leiðréttinga eigi sér stað á ári hjá embættinu.  Ákærði lýsti því hvernig hann gekk frá skjölum eftir að leiðrétting var gerð. En þá setti hann skjölin á tiltekin stað þaðan sem þau voru síðan færð í skjalageymslu, en ákærði annaðist það ekki.  Hann hafði ekki skýringar á því hvers vegna ekki fundust skjöl hjá tollinum vegna endurgreiðslnanna í fyrstu 17 tilvikunum, sem lýst er í yfirlitinu hér að ofan.  Hann lýsti því að tvisvar til fjórum sinnum á ári hefði komið til sín listi, þar sem saknað var allt upp í 60 skjala og í einu eða tveimur tilvikum hefðu tvö- til þrjúhundruð skjöl týnst í kassa.  Reynir kvaðst hafa fengið skjöl vegna leiðréttinga nr. 18 til 23 í yfirlitinu sem vísað hefur verið til sbr. skjal II/0.0.1 hjá lögreglunni, hjá [...] og komið skjölum til embættis tollstjórans í Reykjavík 27. október 1997.  Hann kvaðst ekki hafa komið að endurgreiðslunni sem hér er lýst öðru vísi en að ofan greinir.  Hann lýsti því svo að vegna breytinga, sem gerðar voru á vörugjaldi á ökutækjum á árinu 1997, hefðu mjög margir fengið endurgreitt aftur í tímann.  Ákærði hefði annast útreikninga vegna þessara lækkana og allir skráðir eigendur ökutækja, sem það átti við, fengið endurgreiðslu.  Í sumum tilvikanna hefðu verið sendir út tékkar, en í sumum tilvikum hefðu gjaldkerar hjá embættinu endurgreitt og þeir iðulega komið og spurt ákærða hvort þeir mættu endurgreiða og ákærði þá ritað fangamark sitt á skjöl vegna þessa og staðfesti ákærði að hafa sett fangamark sitt á skjöl vegna endurgreiðslna í tilvikunum 6 til 8. Reynir neitar því að hafa fengið þá fjármuni í hendur vegna endurgreiðslnanna eins og meðákærði, [...], bar fyrir dómi.

Sævin Bjarnason aðaldeildarstjóri kvað starfsmenn skattrannsóknarstjóra hafa komið að máli við sig og spurt hverju það sætti að til væru tvær útgáfur af vörureikningum fyrir sama innflutning.  Eftir þetta hefði hafist rannsókn sú sem leiddi í ljós endurgreiðslurnar, sem lýst er hér að ofan.  Hann kvað engin gögn hafa fundist í skjalageymslu ríkistollstjóra vegna þessara leiðréttinga, en aðspurður kvaðst hann ekki vita til þess að skjalavörslu væri ábótavant hjá embættinu.  Hann kvað þetta hafa verið mjög tortryggilegt sökum þess að fjöldi skjala vegna leiðréttinga og endurgreiðslna til sama fyrirtækis týnist árum saman.  Hann kvaðst engin dæmi þekkja um jafnmargar leiðréttingar til sama aðila á jafnstuttum tíma og hér um ræðir.  Eftir þessa rannsókn var tekið til við rannsókn reikninganna, sem lýst er í ákærulið V.  Reikningarnir hafi reynst ótrúverðugir, bæði fyrir þær sakir hversu óeðlilegir þeir voru í útliti og þá hefðu komið fram fleiri reikningar en einn vegna tiltekins innflutnings.  Sævin lýsti síðan samstarfi við erlend tollayfirvöld við rannsókn málsins og fleira, sem ekki verður rakið hér.

Herborg Haraldsdóttir lýsti því fyrir dóminum að hún hefði verið stjórnarmaður hjá [...] ehf. og [...] innflutningi ehf.  Þau fyrirtæki voru stofnuð er séð var fram á gjaldþrot Bónusbíla ehf.  Hún og eiginmaður hennar hefðu ákveðið að stofna þessi fyrirtæki og höfðu þau trú á því að rekstur verkstæðisins gæti gengið og einnig bílainnflutningurinn, en ákærði, [...], starfaði fyrir þau sem verktaki við að kaupa bíla ytra.  Hún kvaðst aldrei hafa vitað um að þessi fyrirtæki hefðu átt rétt á endurgreiðslum eins og lýst er í þessum ákærulið.  Endurgreiðslurnar hefðu ekki borist félaginu.  Sér hefði ekki verið þetta ljóst fyrr en ákærði, [...], kom að máli við hana í nóvember 1997 og greindi henni frá því að rannsókn þessa máls væri hafin hjá embætti tollstjórans í Reykjavík.  Hún kvaðst aldrei hafa fengið botn í það um hvað þetta mál snerist í raun, ekki fyrr en hún var kvödd til yfirheyrslu hjá lögreglunni.  Hún kvað [...] hafa greint sér frá því er gengið var á hann um þessi mál, að andvirði tékkanna sem hann skipti og stílaðir voru á [...] hefði runnið til Reynis, en eins og áður var rakið vissi hún ekki hvernig þessu var háttað fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglunni.  Hún kvaðst vita að ákærðu þekktust og [...] greindi henni frá því að Reynir yrði þeim innan handar við gerð tollskýrslna, Reynir hefði verið [...] innan handar og gengu tollafgreiðslur greiðlega, en hún kvaðst sjálf aldrei hafa farið með skjöl í tollinn.  Hún kvað Reyni hafa komið í [...] tvisvar sinnum til að gera við bíl sinn, í þriðja skiptið sem hann kom hefði hann verið í annarlegu ástandi.  Hann hefði farið fram á það við sig að hún myndi halda því fram að ákærði, [...], hefði stolið tollskýrslum, eða eitthvað í þá veru, en hún kvaðst ekki muna þetta glöggt, enda langt um liðið.  Rætt var um það að ekki mætti vitnast að Reynir hefði útbúið tollpappíra, en hann hefði mælst til þess að forsvarsmenn [...] færu á fund tollstjóra í þessu skyni.  Ekki var gott að henda reiður á vitnisburð Herborgar um þetta.

[...] skrifstofumaður kom fyrir dóminn og lýsti verksviði sínu hjá fyrirtækjunum [...] ehf. og [...] innflutningi ehf.  Hún vissi ekki til þess að fyrirtækin hefðu átt von á endurgreiðslum eins og hér er lýst.  Hún vissi ekki af þessum endurgreiðslum fyrr en ákærði, [...], greindi Herborgu frá þeim, að hana minnti 24. október 1997.  Hann hefði sagt að Reynir hefði haft samband og spurt um endurgreiðslur, sem Reynir hefði fengið í hendur.  [...] framseldi tvo tékka, sem varða endurgreiðslurnar, en [...] fór með henni í banka í bæði skiptin.  Hún kvað afskipti sín af þessu hafa komið þannig til, að [...] hefði greint sér frá því að Reynir hefði flutt inn bíl og þyrfti gjaldfrest á aðflutningsgjöldum.  [...] hefði sagt að þessi háttur tíðkaðist hjá starfsmönnum tollstjórans í Reykjavík. Þeir gætu fengið gjaldfrest með þessu móti.  Hitt skiptið fór hún með [...] í Íslandsbanka í Lækjargötu, þar sem hún skipti tékka. Peningarnir voru síðan settir í umslag.  Þau [...] héldu síðan á skrifstofu tollstjórans, þar sem [...] afhenti Reyni umslag og kvaðst hún nánast viss um það að um sama umslagið var að ræða, en er umslagið var afhent stóð hún afsíðis, þó þannig að Reynir sá hana.

Matthías Berg Stefánsson deildarstjóri var spurður um það hvort um tíma hefði tíðkast sú vinnuregla að ákærði eða vitnið kvittuðu eða gæfu heimild fyrir endurgreiðslum.  Hann kannaðist ekki við það, og kvaðst aldrei hafa kvittað á skjöl vegna endurgreiðslu. Hins vegar væri ekki loku fyrir það skotið að gjaldkerar leituðu til þeirra vegna endurgreiðslna.  Ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð Matthíasar frekar um þetta.  Hann kvaðst telja það skyldu starfsmanna tollsins að leiðbeina fólki við útfyllingu tollskýrslna.  Matthías lýsti því að til væru ákveðnar viðmiðanir um verð á innfluttum, notuðum fólksbílum og jeppum, en því væri ekki til að dreifa varðandi innflutning notaðra vörubíla.  Þar væri ekki við ákveðin viðmiðunarverð að styðjast. 

 

IV

 1.

Reikningi þeim sem hér um ræðir er lýst í tilviki nr. 9 á yfirlitsblaði nr. II/0.0.1 sem vísað hefur verið til.  Ákærði neitar sök.  Hann kvaðst telja að þessi reikningur hefði borist frá [...], en ákærði hefði ekki veitt því athygli að reikningurinn var falsaður.  Ákærði kvað [...] hafa notið ákveðins trausts, þannig að hann hafi verið tekinn trúanlegur og fengið hraða afgreiðslu og í þessu tilviki hafi frumgögn trúlega ekki legið fyrir og er þessi reikningur barst hafi hann verið tekinn gildur og tollafgreiðsla átt sér stað í samræmi við það.

 

 2.

Reikningi þeim sem hér um ræðir er lýst í tilviki nr. 12 á yfirlistblaðinu nr. II/0.0.1 sem vísað hefur verið til.

Ákærði neitar sök.  Hann kvað hið sama eiga við um þennan lið og hinn næsta hér á undan.  Hann kvaðst telja að hann hafi ekki útbúið aðflutningsskýrslu vegna þessa innflutnings og lýsti ákærði því að fyrirliggjandi skýrsla beri ekki hans handbragð.  Hann kvaðst telja að [...] hefði afhent reikning þann, sem hér er lýst, og afgreiðsla farið fram á sömu forsendum og lýst var í 1. tölulið að framan.

 

 3.

Reikningi þeim sem hér um ræðir er lýst í tilviki nr. 14 á yfirlitsblaðinu nr. II/0.0.1. sem vísað hefur verið til. 

Ákærði neitar sök og eiga sömu mótbárur við og lýst er í báðum töluliðunum hér að framan.

 

V

Áður hefur verið vikið að frávísunarkröfum vegna þessa ákæruliðar, en kröfunum var hafnað. 

Þessi ákæruliður er reistur á fjölda skjala og hefur verið tekið saman yfirlit um tilvikin 24, sem þessi ákæruliður er reistur á, og hefur áður verið vísað til yfirlitsskjalsins nr. II/0.0.2, en stuðst var við þetta skjal við skýrslutökur fyrir dóminum.  

Ákærði, [...], játar sök og kvað háttsemi sinni rétt lýst í þessum ákærulið.  Hann staðfesti öll skjölin sem liggja til grundvallar þessum ákærulið, einstök tímabil, fjárhæðir og annað, sem að þessum ákærulið lýtur.  Hann staðfesti yfirlitið sem rakið er að ofan.  Hann kvaðst hafa notað fyrirtækjanafnið A.S. Trading, þar sem hann hefði sjálfur verið gjaldþrota og því orðið að notast við fyrirtækjanafn á reikninga.  Hann kvað aðdraganda þess að falsaðir vörureikningar voru sendir hafa verið þann, að ákærðu hefðu rætt saman í síma og Reynir þá spurt sig að því hvort hann hefði ekki firmanafn, eða hvort hann gæti ekki útbúið eitthvað slíkt til þess að lækka vörureikningana.  Reynir hefði beðið hann um að senda bæði ranga reikninginn og hinn rétta, en hann hefði talið að þetta þyrfti að gera vegna endurgreiðslnanna, sem lýst er í ákærulið III.  Reynir hefði boðist til að gera tollskýrslu vegna þessa innflutnings eftir að ákærði greindi honum frá því að þetta kostaði svolítið að láta gera tollskýrslu hjá Siemsen og þeir væru stundum lengi að ljúka gerð þeirra.  Ákærði, [...], kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að vörureikningarnir, sem voru falsaðir og sýndu lægri fjárhæðir en kaupverð bifreiðanna var, hefðu það í för með sér að greidd yrðu lægri gjöld, eins og lýst er í þessum ákærulið, en hann kvaðst hafa talið að aðflutningsgjöldin yrðu greidd af hærri vörureikningunum.  Nánar aðspurður kvaðst hann hafa gert sér grein fyrir því að vörugjöldin yrðu ef til vill eitthvað lægri á grundvelli fölsuðu vörureikninganna.  Hann lýsti því að er grunsemdir vöknuðu hjá embætti tollstjórans í Reykjavík í október 1997, um að ekki væri allt með feldu vegna þessa innflutnings og tollafgreiðslna, hefði Reynir hringt í sig og látið sig vita og sagt að ekki væru til skýrslur vegna allra tollafgreiðslnanna.  Þessi gögn yrði að útvega og [...] yrði að undirrita skjöl vegna þessa.  Ákærði sótti þá Reyni og fóru þeir á heimili [...], þar sem innflutningsskýrslur og reikningar voru gerðir og [...] undirritaði, en Reynir hefði stjórnað ferðinni og tekið plöggin með sér.  Hann kvaðst engin samskipti hafa haft við Reyni eftir þetta.

Ákærði, Reynir, neitar sök.  Hann kvaðst hafa afgreitt allar vörusendingarnar, sem hér er lýst, samanber yfirlitið að ofan.  Hann kvað aðdraganda þess, að hann tók að afgreiða í þeim tilvikum sem ákært er vegna, og í mörgum tilvikum að útbúa skjöl, hafa verið þann að á tímabili hafi hann annast afgreiðslu allra innfluttra notaðra bifreiða hjá tollinum.  Síðan varð breyting á og ákærði annaðist tollafgreiðslu á stórum tækjum, vinnuvélum, vörubílum, rútum og þess háttar.  Hann hefði iðulega aðstoðað einstaklinga við gerð tollskjala, enda oft fljótlegra að veita aðstoð, heldur en að gera formlegar athugasemdir á skjöl.  Þannig hafi ákærði aðstoðað hundruð einstaklinga.  Á sama hátt aðstoðaði ákærði Bónusbíla og [...], en fékk aldrei greiðslu fyrir það fremur en endranær.  Hann lýsti því að sökum mannfæðar hjá embættinu hefði þurft að velja úr aðila sem var treyst og var ekki tekið eins nákvæmlega á þeirra málum og annarra, en þetta hafi verið sökum þess að afgreiðslu tollskjala var lofað innan hálfs sólarhrings og 400 til 800 skjöl bárust á dag.  Útilokað var að standa við þetta öðru vísi en treysta sumum betur en öðrum og þannig hafi [...] notið ákveðins trausts og tollafgreiðslur farið fram í samræmi við það.  Reynir mundi eftir því að hafa fengið vörureikninga senda á faxi, sem hann neitaði að afgreiða og þá hefði [...] komið með frumrit viðkomandi reiknings til tollstjóraembættisins.  Reynir kvað kaupverð bíla úti aldrei hafa borið á góma milli ákærðu.  Hann vissi ekkert um starfsemi ákærða í Danmörku.  Reynir kvað tollskýrslur hafa verið útbúnar á heimili [...] 26. október 1997.  Aðdragandinn var sá að ákærði hafði tollafgreitt nokkrar bifreiðar sem mikið lá á nokkrum dögum áður.  Bílana tollafgreiddi hann á forsendum gagna sem hann hafði auk munnlegra upplýsinga.  Síðan hefði rannsóknin hafist hjá tollstjóra og hefði hann þá viljað hafa skýrslur tilbúnar og fór hann því á heimili [...] og sagði [...] frá því hvernig komið var.  Reynir fór síðan á brott en kom skömmu síðar og fékk skýrslurnar í hendur. Reynir lýsti tilgangi ferðar sinnar í [...] 28. október 1997, að þá hefði hann ætlað að hitta [...], sem ekki var við.  Á þessum tíma hefði rannsóknin verið hafin hjá embætti tollstjóra og hann hefði ætlað að spyrja [...] hvernig þessum málum var háttað.  Hann hefði stoppað stutt við, en hitt [...] og Herborgu og greint þeim frá því hvað komið hefði upp og að hann væri hættur störfum hjá tollstjóra. En honum voru sýnd gögn sem vörðuðu málið og kvað hann þetta hafa komið sér mjög á óvart.  Hann kvaðst hafa hvatt [...] og Herborgu til að gera hreint fyrir sínum dyrum en fór við svo búið. 

Herborg Haraldsdóttir framkvæmdastjóri greindi frá því að ákærði, [...], hefði annast bílakaupin ytra og lýst því símleiðis hversu háar fjárhæð ætti að senda honum út í hvert sinn en einnig voru sendir út peningar vegna kostnaður [...], svo sem vegna bílakostnaðar, húsnæðiskostnaðar, símakostnaðar, laun og fleira, en [...]var þá verktaki hjá [...] ehf. og [...] innflutningi ehf. [...]sendi reikningana vegna bílainnflutningsins beint til tollstjóraembættisins. Herborg hafði eftir [...] að hann hefði sent reikninga vegna bílainnflutningsins beint til Reynis hjá tollstjóraembættinu en hún ræddi þetta aldrei við Reyni, sem tollafgreiddi bílana, enda treysti hún því að allt væri í lagi.  Hún kvað hafa gengið illa að fá frumrit reikninganna frá [...] sem hafði samband við kaupendur hérlendis og réð í raun verði bílanna.  Hún kvað [...] hafa greint þeim [...] frá fölsuðu vörureikningunum.  [...]hefði sagt að Reynir hefði vitað að reikningarnir væru rangir, en hann nefndi ekki hvað hann hefði átt að fá fyrir sinn hlut.  Hún hafi aldrei fengið botn í það hvers vegna Reynir tók þátt í þessu.  Hún kvaðst hafa gengið á [...] og spurt um tilganginn með þessu og þá hvort  hann héldi að hann væri að gera henni greiða.  Engin svör hefðu fengist við þessu frá [...]. 

[...] skrifstofumaður lýsti starfi sínu hjá [...] ehf. og [...] innflutningi ehf.  Í hennar verkahring var að annast samskipti við tollstjóraembættið í Reykjavík og þar hefði hún átt samskipti við Reyni Haraldsson.  Hann hefði útfyllt tollskýrslur vegna bílainnflutningsins og ef hann var ekki við skildi hún skýrslurnar eftir undirritaðar, sem Reynir síðan útfyllti síðar og tollafgreiðsla byggðist á.  Hún afhenti honum einu sinni vörureikning vegna innflutnings, en [...]greindi henni frá því að hann hefði haft samband við Reyni erlendis frá og taldi að hann hefði sent honum vörureikningana beint.  Hún kvaðst fyrst hafa frétt af því að notaðir voru falsaðir vörureikningar nokkru áður en hún var kvödd til yfirheyrslu hjá lögreglunni.  Hún lýsti því er ákærðu komu til fundar á heimili hennar, að því er hún taldi 26. október 1997.  Hún kvaðst hafa orðið mjög hissa, þar sem Reynir hefði aldrei komið á heimili hennar, en hann hefði greint frá því að það vantaði skýrslur vegna bílainnflutningsins.  Einhverjar skýrslur voru gerðar og skrifaði hún undir einhverjar auðar skýrslur og spurðist fyrir um það hvað væri að gerast, en fékk engin svör.  Hún lýsti því að á föstudeginum á undan hefði ákærði, [...], greint Herborgu frá endurgreiðslunum, sem lýst er í ákærulið III, en allt hefði verið óljóst hjá [...].  Hann hefði síðan sagt frá fölsuðu vörureikningunum daginn eftir heimsókn ákærðu á heimili hennar og að Reynir hefði átt hugmyndina, sem miðaði að því að lækka kostnað á fyrirtækinu.  Ekkert kom fram um að Reynir ætti að fá þóknun fyrir þetta.  Hún lýsti því er hún kom í [...] 27. október 1997 er Reynir var þar staddur ásamt Herborgu.  Þá hefði Reynir stungið upp á því að pantaður yrði viðtalstími hjá tollstjóra og óskað eftir því að leiðrétta málin, því þær vildu ekki skaða tollinn.  Reynir hefði stungið upp á því að hún héldi því fram að hún hefði haft í fórum sínum óútfylltar en undirritaðar tollskýrslur, sem [...]hefði síðan komist í og útfyllt. 

Bjarni Sigurður Ingimarsson bifvélavirkjameistari lýsti fyrir dóminum samskiptum sínum við Reyni hjá embætti tollstjóra.  Hann kvað [...] hafa greint sér frá því að hann hefði sent Reyni reikninga á faxi beint að utan.  Reynir væri mjög hjálplegur og hann myndi hjálpa Bjarna við tollafgreiðslurnar, sem hann gerði, en Bjarni kvaðst ókunnugur þessu.  Hann kvaðst hafa hitt Reyni er hann kom í [...] ehf. í lok október 1997.  Hann mundi atburði illa og þykir ekki ástæða til að rekja vitnisburð hans um þetta.  Bjarni vissi ekkert um fölsuðu vörureikningana, en hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir þessu fyrr en hann gaf skýrslu hjá lögreglunni og hið sama eigi við um endurgreiðslurnar, sem lýst er í ákærulið III.

 

Niðurstaða

 

I  A og B

Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár, sem dagsett er 20 júlí 1993 og móttekin 3. ágúst sama ár, var ákærði, [...], stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bónusbíla ehf. þann tíma sem lýst er í ákærunni og hefur hann staðfest fyrir dóminum að svo hafi verið.  Hann hefur, svo sem rakið var, talið að aðrir hafi átt að sjá um að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda og nefndi í því sambandi Helga Arnar Harðarson, sem átti að annast þessi skil undir lok starfstíma fyrirtækisins og að tilkynning hefði verið send firmaskrá um breytta skipan að þessu leyti hjá fyrirtækinu.  Engin slík tilkynning hefur borist firmaskrá.  Ákærði kvað Ingþór Ólafsson og Guðmund R. Guðmundsson hafa átt að annast þessi skil á undan Helga Agnari.  Þessir aðilar komu allir fyrir dóm og er vísað til vitnisburðar þeirra og annarra um verkaskiptinguna hjá Bónusbílum ehf.  Ekkert af því sem fram er komið í málinu kemur í veg fyrir það að ákærði, [...], beri refsiábyrgð enda var hann bæði stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bónusbíla ehf., svo sem hann hefur borið, og skráð er í hlutafélagaskrá.  Vitnisburður er nánast allur á sama veg, það er, að ákærði, [...], hafi annast daglegan rekstur og fjármálastjórn og verið einn til þess bær hjá fyrirtækinu.  Hins vegar virðist mega ráða af því sem fram hefur komið að ákærði hefur haft litla ef nokkra yfirsýn yfir reksturinn, en það breytir ekki refsiábyrgð hans.

Ákærði hefur lýst því yfir að ekki sé ágreiningur um fjárhæðir samkvæmt þessum ákærulið.  Í engu tilvikanna er byggt á áætlunum, heldur eru allar fjárhæðir í báðum köflum ákærunnar reistar á fyrirliggjandi gögnum um vantalda veltu og afdregna staðgreiðslu af launum starfsmanna, eins og lýst er í ákærunni.  Allar fjárhæðir í ákærunni um þetta eru réttar.  Dómurinn telur með vísan til framburðar ákærða, þótt hann neiti sök, og með vitnisburði þeirra sem báru um þennan ákærulið og með gögnum málsins að öðru leyti, sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem lýst er í A og B liðum þessa kafla ákærunnar og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í báðum köflunum.

 

II

Ákærða, Reyni, er gefið að sök tollalagabrot og skjalafals í opinberu starfi.  Hjá lögreglunni kvað ákærði það hafa verið mistök sín að tollafgreiða bifreiðina eins og hann gerði.  Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar nr. 261/1991, er giltu er bifreiðin var tollafgreidd, bar að styðjast við 64,5% afskriftareglu.  Gallar í bifreiðinni sem ákærði bar um breyta engu hér um.  Leiðréttingin sem lýst er í ákærunni var ekki gerð á grundvelli neinna þeirra gagna sem hægt var að styðjast við eins og ákærði hefur sjálfur borið og skjal það sem hann lagði fram undir aðalmeðferð málsins og kvað staðfesta galla í bifreiðinni þykir engu breyta um þetta.  Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn sannað með framburði ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst og varða brotin við tilvitnuðum ákvæðum tollalaga og reglugerðar, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Brot ákærða sem hér er ákært er fyrir var framið fyrir gildistöku 3. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 30/1998.  Í greinargerð með síðargreindu lögunum segir m.a., að fræðimenn séu almennt sammála um að tölvuunnin gögn rúmist ekki innan hefðbundinna skilgreininga á skjalahugtakinu, þar sem það sé byggt á því að um skriflegt gagn sé að ræða.  Af þessu leiði að rangfærsla gagna og upplýsinga sem geymd séu í tölvutæku formi teljist ekki til skjalabrota samkvæmt hefðbundnum viðhorfum í refsirétti.  Þá segir í greinargerðinni að þörfin fyrir þetta lagaákvæði byggist á því að viðtekin skilgreining á hugtakinu skjal geti ekki tekið til gagna sem geymd séu í tölvutæku formi.  Með vísan til þessa svo og til 69. gr. stjórnaskrár og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög 62/1994, telur dómurinn að sýkna beri ákærða af broti gegn 3. mgr., sbr. 1. mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga og að fullkomin lögjöfnun, sbr. 1. gr. almennra hegningarlaga, sé ekki tæk.

 

III

Ákærði, Reynir, skráði sem deildarstjóri endurskoðunardeildar embættis tollstjórans í Reykjavík í tölvukerfi embættisins þær 23 leiðréttingar, sem lýst er í ákærunni og á því tímabili sem þar greinir, en hann lýsti því að þúsundir samskonar leiðréttinga ætti sér stað á hverju ári hjá embættinu.  Hann hefur borið að leiðréttingarnar hafi allar verið gerðar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, sem ýmist bárust frá ákærða, [...]i, eða á annan hátt frá starfsmönnum Bónusbíla ehf. eða [...] ehf.  Stærsti hluti skjalanna sem leiðréttingarnar byggðust á hefur ekki fundist hjá tollyfirvöldum þrátt fyrir leit, en dæmi muni um að skjöl hafi týnst þótt með nokkrum ólíkindum þyki að svo mörg skjöl tengd sama aðila finnist ekki. Skjalavarslan var ekki í verkahring ákærða, Reynis, en þótt þessi skjöl hafi ekki fundist þykir það ekki nægja til að leggja á hann refsiábyrgð eins og hér stendur á.

Framburður ákærða, [...], um leiðréttingarnar er mjög ruglingslegur og erfitt að henda reiður á honum.  Hann lýsti því að ákærði, Reynir, hefði upphaflega beðið sig um greiða sem tengdist gjaldfresti aðflutningsgjalda vegna bifreiðarinnar sem lýst er í ákærulið II og eftir að sú bifreið var flutt inn hefði andvirði allra endurgreiðslnanna runnið til Reynis.  Engin vitni styðja þennan framburð ákærða, [...], utan e.t.v. [...], sem kvaðst hafa séð ákærða, [...], afhenda ákærða, Reyni, umslag, sem hún taldi innihalda peninga, eins og lýst var.  Eftir stendur að ákærði, [...], framseldi tékkana eins og lýst er í ákærunni og fékk fjármunina í sínar hendur.  Ekkert tengir ákærða, Reynir, við það.  Hinn ruglingslegi framburður ákærða, [...], og vitnisburður [...], svo langt sem hann nær, er ekki til þess fallinn gegn neitun ákærða, Reynis, að slá því föstu að hann hafi fengið peningana í hendur. Ákæran lýtur ekki beinlínis að því, en ákæruvaldið byggði sönnunarfærslu fyrir dóminum að miklu leyti á þessu. 

Samkvæmt vitnisburði Herborgar Haraldsdóttur og [...] greindi ákærði, [...], þeim frá endurgreiðslunum í október 1997 og ráða má af vitnisburði þeirra að þær hafi í raun ekki vitað um hvað málið snerist fyrr en eftir að þær voru kvaddar til skýrslutöku hjá lögreglunni.  Hvorug ræddi við ákærða, Reyni, um þetta.  Ekkert vitnanna sem komu fyrir dóminn vissi um leiðréttingarnar eða gat nokkuð um þær borið.

Ákæran byggir á því að leiðréttingarnar hafi verið tilhæfulausar, en ákærði, Reynir, hefur haldið fram hinu gagnstæða og lýst því að gögn hljóti að vera í vörslum tollstjóraembættisins.  Þegar ofanritað er virt telur dómurinn að litlu öðru sé til að dreifa um meinta sök ákærða, Reynis, en ótraustum framburði ákærða, [...]. Vitni vissu ekki um hvað málið snerist fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglunni og fyrri vitneskja þeirra var fengin eftir ótraustri frásögn ákærða, [...]. Samkvæmt því telur dómurinn ósannað gegn eindreginni neitun ákærða, Reynis, að leiðréttingarnar hafi verið tilhæfulausar og ber því að sýkna hann af háttsemi samkvæmt þessum ákærulið. 

Háttsemi ákærða, [...], er talin varða við 2. mgr., sbr. 1. mgr. 126. gr. tollalaga, sbr. breytingalög sem vísað er til í ákærunni.  Í ákærunni er því lýst að sumar endurgreiðslurnar voru notaðar til skuldajafnaðar, aðrar voru greiddar út með tékkum sem ákærði, [...], innleysti flesta.  Dómurinn telur að efnislýsing meintra brota ákærða, [...], sé svo óljós, og hvað í efnislýsingu þessa ákæruliðar eigi við ákærða, [...], svo varði við tilvitnuð ákvæði tollalaganna, að ekki séu uppfyllt skilyrði C-liðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 og vísa beri þessum ákærulið á hendur ákærða, [...]i, frá dómi.

 

IV 1 – 3

Ákærði neitar sök.  Vísað er til röksemda í niðurstöðu við III. kafla hér að framan.  Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst og ber að sýkna hann af öllum töluliðum þessa kafla ákærunnar.

 

V

Sannað er með framburði beggja ákærðu og öðrum skjölum málsins að málavöxtum er rétt lýst í ákærunni utan sök ákærða, Reynis, sem neitar sök.  Ákærði, Reynir, greindi frá miklu vinnuálagi hjá embætti tollstjórans, en hundruð skjala berist daglega og afgreiðslu lofað innan hálfs sólarhrings.  Til að þetta yrði unnt urðu starfsmenn að treysta innflytjendum og skjölum frá þeim og ekki vannst tími til að yfirfæra öll skjöl nákvæmlega af þessum sökum. 

Samkvæmt vitnisburði Matthíasar Berg Stefánssonar, deildarstjóra hjá tollstjóra, er ekki við nein viðmiðunarverð að styðjast varðandi mat á innfluttum notuðum vörubifreiðum eins og er um innflutta notaða fólksbíla og jeppa.  Með vísan til þessa og gagna málsins að öðru leyti telur dómurinn ekkert það fram komið í málinu sem sé til þess fallið að slá því föstu að ákærða, Reyni, hafi mátt eða átt að vera ljóst að vörureikningarnir væru falsaðir.

 Framburður ákærða, [...], um þennan ákærulið er mjög á reiki eins og um aðra þætti málsins og erfitt að henda á honum reiður.  Hann hefur til að mynda greint frá því að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að lægri vörureikningar hefðu í för með sér lægri aðflutningsgjöld.  Hins vegar greindi hann [...] frá því að sendir hefðu verið falsaðir vörureikningar til að lækka kostnað hjá fyrirtækinu. 

Dómurinn telur hið sama eiga við um niðurstöðu þessa kafla og varðandi ákærulið III þ.e. að til grundvallar sakfellingar ákærða, Reynis, sé ekki við annað að styðjast en ótraustan framburð ákærða, [...], enda hafa vitni óljósa vitneskju sína af málinu eftir óljósri frásögn ákærða, [...]. Með vísan til alls ofanritaðs telur dómurinn ósannað gegn eindreginni neitun ákærða, Reynis, að hann hafi vitað að vörureikningarnir voru falsaðir.  Hann útbjó þannig tollskýrslur í góðri trú.  Samkvæmt þessu ber að sýkna ákærða, Reyni, af háttsemi samkvæmt þessum ákærulið. 

Með játningu ákærða, [...], sem studd er öðrum gögnum málsins er sannað að hann hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært vegna og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

 

Vegna sjúkrasögu ákærða, [...], þótti ástæða til að kanna geðheilbrigði hans. Hann gekkst undir geðrannsókn hjá Tómasi Zoëga geðlækni.  Samkvæmt niðurstöðu geðlæknisins fannst ekkert sem benti til annars, en að ákærði, [...], hafi á öllum tímum verið fær um að stjórna gerðum sínum. 

Ákærði, [...], er sakhæfur.

Ákærði, [...], hefur frá árinu 1979 gengist undir tvær dómsáttir fyrir umferðarlagabrot.  Hann hlaut dóm fyrir líkamsárás árið 1982 og 16. janúar 1996 hlaut hann 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi í 2 ár og 1,3 milljóna króna sekt fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og fyrir brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga.

Brot ákærða, [...], eru stórfelld.  Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og að hluta er um að ræða hegningarauka, sbr. 78. gr. sömu laga.  Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.

 Ákærði, Reynir, hefur ekki áður sætt refsingu.  Eftir atvikum þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar hans skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsingin falla niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Ákærða, [...]i, ber að hluta að gera refsingu eftir eldri lögum samkvæmt báðum stafliðum I. kafla ákærunnar.  Samkvæmt 1. mgr. 40 gr. laga nr. 50/1987 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, eins og þessum lögum var breytt með 2. gr. og 3. gr. laga nr. 42/1995, varða brot vegna vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda sekt, sem skal aldrei vera lægri en tvöföld fjárhæðin sem undan var dregin og ekki skilað.  Gjalddagi virðisaukaskatts fyrir janúar – febrúar 1995 var 5. apríl 1995, en ofangreind breytingalög tóku gildi 9. mars sama ár.  Miða ber við gjalddaga varðandi framningu brots og fellur því allur virðisaukaskatturinn fyrir árið 1995, eða samtals 8.884.065 krónur, undir hin nýju lög og er grundvöllur sektarfjárhæðar. Ofangreind fjárhæð auk allrar staðgreiðslunnar sem ekki var staðið skil á fyrir árið 1995, 299.781 króna, eða samtals 9.183.351 króna, mynda stofn til ákvörðunar sektar samkvæmt I. kafla ákærunnar þar sem lágmark sektarfjárhæðar er tvöfalt andlagið. 

Brot ákærða, [...], samkvæmt V. kafla ákærunnar hófust 21. maí 1996, en 1. mgr. 126. gr. tollalaga var breytt með 38. gr. laga nr. 69/1996 er tók gildi 19. júní sama ár.  Eftir þann tíma gilda sambærileg ákvæði um sektarrefsingu og lýst var að ofan um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 38. gr. laga nr. 69/1996.  Einungis eitt tilvik, tilvik nr. 24 í skjali nr. II/o.o.2 í yfirlitinu sem vísað hefur verið til að framan átti sér stað fyrir breytinguna á tollalögum, eða í maí 1996, og ber því að draga 465.132 krónur í virðisaukaskatt frá heildarfjárhæð virðisaukaskatts og 438.116 krónur frá heildarfjárhæð vörugjalds, eða samtals 903.248 krónur, sem ber að draga frá 22.507.232 krónum.  Virðisaukaskattur og vörugjald sem félögin komust þannig hjá að greiða eftir 19. júní 1996 vegna brota ákærða, [...], nema því 21.603.984 krónum. 

Samanlagðar fjárhæðir sem mynda stofn við sektaákvörðun, þar sem tvöföldunarreglan á við samkvæmt ákæruliðum I A og B og ákærulið V nema þannig 31.787.335 krónum.  Lög heimila ekki að dæma lægri sekt en sem nemur tvöföldum undandrættinum og vanskilunum.  Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið ber að gera ákærða, [...]i, sektarrefsingu með vísan til þeirra lagaákvæða sem lýst hefur verið hér að ofan og rakin eru í ákærunni og skal hann greiða 64.000.000 króna í sekt í ríkissjóð og komi 1 árs fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja. 

Ákærði, [...], greiði 4/5 hluta af 300.000 króna málsvarnarlaunum til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns á móti 1/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Reynir, greiði 1/10 hluta 300.000 króna málsvarnarlauna til Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns á móti 9/10 hlutum sem greiðist úr ríkissjóði.

Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu þannig, að ákærði, Reynir, greiði 1/10 hluta en ákærði, [...], 9/10 hluta.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Sakarefni III. kafla ákærunnar er vísað frá dómi að því er varðar ákærða, [...].

Ákærði, [...], sæti fangelsi í 2 ár.

Ákvörðun refsingar ákærða, Reynis Haraldssonar, er frestað skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hans falla niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, [...], greiði 64.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs og komi 1 árs fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði, [...], greiði 4/5 hluta 300.000 króna málsvarnarlauna til Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns á móti 1/5, sem greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði, Reynir, greiði 1/10 hluta 300.000 króna málsvarnarlauna til Sigurmars K. Albertssonar hæstaréttarlögmanns og á móti 9/10 hlutum, sem greiðist úr ríkissjóði.

Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu þannig, að ákærði, Reynir, greiði 1/10 hluta, en ákærði, [...], 9/10 hluta.