Hæstiréttur íslands
Mál nr. 624/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Eftirlaun
|
|
Föstudaginn 26. október 2012. |
|
Nr. 624/2012.
|
Jónas Reynisson (Hanna Lára Helgadóttir hrl.) gegn Byr sparisjóði (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Eftirlaun.
J lýsti kröfu við slit sparisjóðsins B en krafan var til komin vegna eftirlauna sem J taldi sig eiga að fá greidd á grundvelli ráðningarsamnings við einn af þeim sparisjóðum sem síðar varð að B. Því var hafnað að eftirlaun J skyldu breytast, eftir að störfum hans hjá sparisjóðnum lauk, í samræmi við viðmið sem kveðið var á um í ráðningarsamningnum að skyldu hafa áhrif á laun hans á hverjum tíma. Þótti sýnt að þau viðmiðunarlaun sem B hafði lagt til grundvallar útreikningi kröfu J hefðu verið hærri en þau sem J naut þegar hann hefði síðast verið á launaskrá hjá forvera B. Var því fallist á niðurstöðu slitastjórnar B um fjárhæð kröfu J. Ekki var fallist á með J að krafa hans félli undir ákvæði 109. gr. laga nr. 21/1991, enda breytti engu þótt vera kynni að í bókhaldi B hefði verið tilgreind fjárhæð lífeyrisskuldbindinga eða jafnvel að lagt hefði verið til hliðar ákveðin fjárhæð til að mæta slíkum skuldbindingum. Þá voru ekki efni til að fallast á að eftirlaun J teldust geta verið krafa í skilningi 112. gr. laga nr. 21/91. Engin rök voru til þess að telja kröfuna innstæðu í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Var því staðfest niðurstaða slitastjórnar B um að krafa J væri almenn krafa í skilningi 113. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 2. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2012, þar sem staðfest var sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila að viðurkenna kröfu sóknaraðila, nr. 115 í kröfuskrá varnaraðila, sem almenna kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 78.362.600 krónur við slit varnaraðila. Var kveðið á um að framangreind fjárhæð skyldi bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2010 til greiðsludags og þeirri kröfu skipað í skuldaröð sem eftirstæðri, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991. Loks var sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 877.500 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 305.645.406 krónur verði viðurkennd sem krafa utan skuldaraðar með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991. Til vara er þess krafist að krafa sóknaraðila að sömu fjárhæð verði viðurkennd sem forgangskrafa með vísan til 112. gr. sömu laga, en að því frágengnu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Í öllum tilvikum er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júlí 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, er vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Verður ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiðir af orðanna hljóðan. Þegar rætt er í ákvæðinu um laun og annað endurgjald fyrir vinnu er ótvírætt sett sú regla að réttur til launa, sem þar getur átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu. Í máli þessu kallar sóknaraðili ekki eftir launum fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns, sem þegar hefur verið leyst af hendi, heldur eftir greiðslu eftirlauna, sem falla áttu í gjalddaga mánaðarlega frá því að sóknaraðili næði 65 ára aldri án þess að á móti kæmi vinnuframlag af hálfu sóknaraðila. Þetta greiðslutilkall sóknaraðila verður því ekki fellt undir ákvæði 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 326/2003.
Með þessari athugasemd en að öðru leyti vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jónas Reynisson, greiði varnaraðila, Byr sparisjóði, 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2012.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi sem barst héraðsdómi 22. nóvember 2011. Var um heimild til að leita úrlausnar dómsins vísað til 171. gr. sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 13. janúar 2012 og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 16. ágúst sl.
Sóknaraðili er Jónas Reynisson búsettur í Búlgaríu, en varnaraðili er Byr, sparisjóður í slitameðferð, Borgartúni 18, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans að fjárhæð 305.645.406 krónur verði viðurkennd utan skuldaraðar með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara að krafan verði viðurkennd sem forgangskrafa með vísan til 112. gr. sömu laga, en að því frágengnu að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga. Þá gerir sóknaraðili kröfu um að við alla kröfuliði bætist dráttarvextir frá 13. júlí 2010 til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 78.362.600 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Krafa sú sem hér er deilt um er vegna eftirlaunaréttinda sem sóknaraðili ávann sér í starfi sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar frá 15. apríl 1988 til loka ágúst 2002.
Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur milli sóknaraðila og Sparisjóðs Hafnarfjarðar sem dagsettur er 26. mars 1991, en í samningnum kemur fram að sóknaraðili hafi starfað sem sparisjóðsstjóri frá 15. apríl 1988 og er ekki um það deilt í málinu að samningurinn gildi frá þeim tíma.
Nánari grein er gerð fyrir efni ráðningarsamningsins í málatilbúnaði aðila sem rakinn er ítarlega hér síðar, en í samningnum er m.a. kveðið á um þann eftirlaunarétt sem ágreiningur aðila lýtur að.
Í greinargerð sinni kveður varnaraðili málsatvik þau að í desember árið 2006 hafi Fjármálaeftirlitið samþykkt samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs Vélstjóra. Í mars 2007 hafi Byr sparisjóður verið kynntur sem nýr, sameinaður sparisjóður. Í nóvember 2007 hafi Sparisjóður Kópavogs runnið inn í Byr sparisjóð og í apríl 2008 hafi Sparisjóður Norðlendinga sameinast Byr sparisjóði. Eftir hafi staðið hinn nýi Byr sparisjóður sem sameinaður hafi verið úr fjórum sparisjóðum.
Þann 16. júní 2009 hafi Fjármálaeftirlitið fyrst veitt Byr sparisjóði frest til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki skv. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna. Þar af leiðandi sé 16. júní jafnframt frestdagur í slitameðferð varnaraðila, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2999.
Þann 22. apríl 2010 hafi Fjármálaeftirlitið skipað varnaraðila bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009.
Störfum bráðabirgðastjórnar hafi lokið 2. júlí 2010 er Héraðsdómur Reykjavíkur hafi skipað varnaraðila slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Uppkvaðning úrskurðarins marki jafnframt upphafsdag slitameðferðar varnaraðila, sbr. 2. ml. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. ml. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009.
Slitastjórnin hafi gefið út innköllun til skuldheimtumanna sem birst hafi í fyrra sinn í Lögbirtingablaði þann 13. júlí 2010. Kröfulýsing sóknaraðila í bú varnaraðila hafi verið móttekin 11. október 2010. Krafan hafi verið að fjárhæð 382.672.208 krónur og hafi komið fram í kröfulýsingunni að til frádráttar kröfunni kæmi hlutur Eftirlaunasjóðs Hafnarfjarðar. Aðallega hafi þess verið krafist að krafan teldist krafa utan skuldaraðar, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara að krafan teldist forgangskrafa, sbr. 112. gr. laganna, en til þrautavara að krafan teldist almenn krafa skv. 113. gr. laganna.
Með bréfi 5. apríl 2011 hafi krafa sóknaraðila að fjárhæð 67.360.900 krónur verið samþykkt sem almenn krafa. Hafi hin samþykkta fjárhæð verið í samræmi við útreikninga Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings. Með tölvupósti 7. apríl 2011 hafi sóknaraðili mótmælt afstöðu slitastjórnar til kröfunnar. Boðað hafi verið til skiptafundar til lausnar á ágreiningi aðila og hafi sá fundur verið haldinn 14. júní 2011. Ekki hafi tekist sátt í málinu og hafi slitastjórn því verið nauðsynlegt að senda málið til héraðsdóms til úrlausnar.
Með bréfi 14. apríl 2012, frá Bjarna Guðmundssyni, tryggingastærðfræðingi, til varnaraðila kom fram að mistök hefðu verið gerð við útreikning réttinda sóknaraðila. Með nýjum útreikningum Bjarna hafi réttindi sóknaraðila hækkað úr 67.360.900 krónum í 78.363.600 krónur. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 18. apríl 2012 hafi honum verið tilkynnt um breytta afstöðu slitastjórnar á þá leið að samþykkt hefði verið að hann ætti almenna kröfu í bú varnaraðila að síðastnefndri fjárhæð. Sé það sú fjárhæð sem varnaraðili hafi samþykkt sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og krefjist staðfestingar dómsins á.
Í greinargerð sóknaraðila er að nokkru ítarlegri lýsing á málsatvikum að því er kröfugerð hans varðar og kemur þar m.a. fram að 22. apríl 2010 hafi tekið gildi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Byrs sparisjóðs, kt. 610269-2229 til Byrs hf., kt. 620410-0200. Um heimild Fjármálaeftirlitsins til ráðstafannanna hafi verið vísað til VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Undir liðnum „Skuldir og aðrar skuldbindingar“ 9. gr. segi „Yfirteknar eru veðskuldir er hvíla á eignum sem flytjast til Byrs hf. að því leyti sem þær teljast tryggðar í hinni yfirteknu eign skv. nánari sundurliðun í skýrslu skv. 10. tl. ákvörðunar þessarar. Byr hf. yfirtekur réttindi og skyldur skv. ráðningarsamningum starfsmanna annarra en sparisjóðsstjóra og framkvæmdastjóra/forstöðumanna einstakra sviða.“
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hafi Byr sparisjóður verið tekinn til slitameðferðar 2. júlí 2010. Innköllun hafi fyrst verið birt í Lögbirtingablaðinu þann 13. júlí 2010 og hafi kröfulýsingarfresti lokið þann 13. október 2010.
Með bréfi 19. júlí 2010 hafi lögmaður sóknaraðila óskað skriflega eftir skýringum og rökstuðningi Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunarinnar 22. apríl 2010. Hafi verið óskað skýringa og eftir atvikum rökstuðnings á því orðalagi ákvörðunarinnar að Byr hf. væri ekki ætlað að yfirtaka réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi sparisjóðsstjóra. Hafi jafnframt verið óskað svars við því hvort eftirlaunaréttindi samkvæmt ráðningarsamningi fyrrverandi sparisjóðsstjóra félli undir þær skuldbindingar er Byr hf. tæki yfir, en væri svo ekki hvaða rök væru fyrir því.
Svarbréf hafi borist 20. ágúst 2010. Hafi Fjármálaeftirlitið vísað til heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Hafi komið fram að eftirlaunaskuldbindingar fyrrverandi sparisjóðsstjóra hafi orðið eftir í Byr sparisjóði. Ekki hafi fylgt annar rökstuðningur fyrir ákvörðuninni.
Í kröfulýsingu 10. október 2010 hafi lögmaður sóknaraðila lýst kröfu til slitastjórnar Byrs sparisjóðs. Áskilinn hafi verið réttur til að gera breytingar á kröfugerð en krafan sé nr. 115 í kröfuskrá. Krafan hafi í fyrsta lagi verið byggð á því að um væri að ræða kröfu utan skuldaraðar, til vara að hún væri forgangskrafa en til þrautavara að um almenna kröfu væri að ræða. Krafan hafi grundvallast á áunnum eftirlaunaréttindum á ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi sóknaraðila við Sparisjóð Hafnarfjarðar (SPH) frá 26. mars 1991.
Sóknaraðili lýsir efni ráðningarsamningsins á þann hátt að hann hafi átt að gilda frá og með 15. apríl 1988 er sóknaraðili hafi tekið við sem sparisjóðsstjóri. Í 5. gr. samningsins segi: „Launakjör sparisjóðsstjóra skulu vera hin sömu og aðrir banka- og sparisjóðsstjórar fá greidd. Verði hins vegar breytingar á launakjörum umfram almennar hækkanir í landinu skulu þær breytingar háðar samþykki sparisjóðsstjórnar. Fyrir setu á stjórnarfundum greiðist sparisjóðsstjóra laun er nema 15% af launum sparisjóðsstjóra.“ Launaviðmiðið hafi því verið grunnlaun, starfsaldursálag og stjórnarfundarseta en átti samkvæmt 7. gr. samningsins að endurskoðast a.m.k. einu sinni á ári og taka mið af þróun hjá bönkum og sparisjóðum.
Á starfstímanum hafi sóknaraðili áunnið sér rétt til eftirlauna, sbr. 6. gr. ráðningarsamnings, sem skyldu vera ákveðinn hundraðshluti af heildarlaunum, sbr. 5. gr., eins og þau væru á hverjum tíma. „Skulu þau nema 20% fyrir 1. starfsár sem sparisjóðsstjóri og 5% til viðbótar fyrir hvert starfsár eftir það, þar til náð er eftirlaunum sem nema 90% af viðmiðunarlaunum.“
Sóknaraðili hafi hætt störfum hjá SPH á árinu 2001 og hafi fengið greidd laun til ágústloka 2002 önnur en áunnin eftirlaun sem samkvæmt 3. tl. 6. gr. ráðningarsamnings skyldu ekki koma til greiðslu fyrr en sóknaraðili hefði náð 65 ára aldri en hann hafi verið 40 ára þegar hann hafi látið af störfum. Hafi hann þá áunnið sér um 86,9% af eftirlaunaréttindum samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. útreikning Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings sem reiknað hafi út eftirlaunarétt fyrir slitastjórn.
Í grein 6-5 í ráðningarsamningi segi: „Launagreiðslur sem lagðar eru til grundvallar eftirlaunum eru föst laun, starfsaldursálag ef greitt er svo og laun fyrir setu á stjórnarfundum.“ Í grein 6-4 kemur fram að til frádráttar eftirlaunum komi lífeyrir sem sparisjóðsstjóri hafi áunnið sér rétt til í starfi sínu sem sparisjóðsstjóri.
Í fundargerðum sparisjóðsstjórnar sem liggi fyrir í málinu, sbr. og drögum að breytingum á launakjörum sem stjórn SPH hafi ákveðið á árinu 1991 komi fram að launakjör sparisjóðsstjóra ættu að vera hin sömu og laun bankastjóra Landsbanka Íslands. Sparisjóðsstjórar í SPH munu eftir 1987 hafa fengið greidd laun að teknu tilliti til þess viðmiðs. Í yfirlýsingu Kristins Bjarnasonar hrl. fyrir hönd slitastjórnar Landsbankans, sem liggi fyrir í málinu, komi fram að mánaðarlaun Landsbankastjóra með lengri starfsaldur hafi í október 2008 verið 2.821.517 krónur. Ekki hafi verið getið um hver önnur launakjör hafi verið, eins og t.d. kaupréttar eða önnur hlunnindi eins og muni hafa tíðkast.
SPH hafi tekið á sig fulla ábyrgð á greiðslum lífeyris til sjóðsfélaga Eftirlaunasjóðs Hafnarfjarðarkaupstaðar sem hafi verið starfsmenn SPH. Sóknaraðili hafi greitt 4% af launum sínum í þann lífeyrissjóð og SPH lögbundið mótframlag. Samkvæmt upplýsingum frá Eftirlaunasjóðnum séu áunnin réttindi sóknaraðila metin 28,75% af viðmiðunarlaunum. Lögmaður sóknaraðila hafi óskað eftir því við framkvæmdastjóra Eftirlaunasjóðs Hafnarfjarðarkaupstaðar í tölvupósti 15. júlí 2010 að fá afrit af kröfulýsingu sem sjóðurinn hafi sent inn til slitastjórnar Byrs sparisjóðs vegna sjóðsfélagans, sóknaraðila þessa máls. Ekki hafi enn verið orðið við þeirri beiðni og sé sóknaraðila ókunnugt um hvort kröfulýsing hafi verið send inn vegna hans.
Byr sparisjóður hafi orðið til við samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs Vélstjóra á árinu 2006. Hafi samruninn verið samþykktur af Fjármálaeftirlitinu 8. desember 2006.
Fyrir samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs Vélstjóra hafi þáverandi sparisjóðsstjóra og aðstoðarsparisjóðsstjóra Sparisjóðs Vélstjóra verið greidd út að fullu eftirlaunaréttindin að kröfu þeirra með sérstöku samkomulagi.
Þann 28. september 2010 hafi lögmaður sóknaraðila óskað eftir því við slitastjórn að fá uppgefin laun eftirmanns við slit sparisjóðsins. Slitastjórn hafi hafnað beiðninni með tölvupósti sama dag. Slitastjórn hafi vísað til ársreiknings ársins 2008 þar sem árslaun Magnúsar Ægis Magnússonar fyrrverandi sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs hafi verið tilgreind. Muni þau hafa numið 38.762.000 krónum eða 3.230.200 krónum á mánuði. Ekki hafi verið uppgefið hver önnur kjör sparisjóðsstjóra hafi verið.
Áður en kröfulýsing hafi verið send inn hafi lögmaður sóknaraðila fengið Steinunni Guðjónsdóttur tryggingastærðfræðing til að reikna út eingreiðsluverðmæti eftirlaunaskuldbindingar sóknaraðila sem hann hafi áunnið sér hjá SPH á tímabilinu 15. apríl 1988 til 31. ágúst 2002. Hafi þá verið við það miðað að hún reiknaði skuldbindinguna annarsvegar út frá 85% eftirlaunarétti, þeim launum sem slitastjórn Landsbankans hafi gefið upp, sbr. hér að ofan, eða mánaðarviðmiðunarlaun að fjárhæð 2.821.517 krónur miðað við október 2008 er Landsbankinn hafi farið í slitameðferð, auk 15% vegna stjórnarsetu og hinsvegar síðustu laun er sóknaraðila hafi fengið greidd hjá SPH (ágúst 2002) eða 636.000 krónur á mánuði. Niðurstaða Steinunnar hafi legið fyrir í bréfi 5. október 2010. Miði Steinunn við lífslíkur skv. eftirlifendatöflum 2004-8 sem gefnar séu út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og 2% ársafvöxtun.
Varnaraðili hafi fallist á að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu að fjárhæð 67.360.900 krónur með bréfi 5. apríl 2011 sem og kröfuskrá frá 17. nóvember 2011. Byggi varnaraðili á útreikningi Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings. Bjarni hafi reiknað eftirlaunaréttinn 86,9% og réttindi hjá Eftirlaunasjóði Hafnarfjarðarkaupstaðar 28,75%. Þá reikni Bjarni eftirlaunaréttinn miðað við uppreiknuð laun eins og þau hafi verið við starfslok, 636.000 krónur, miðað við almenna vísitölu og vísi um þá útreikningsaðferð til aðferðar sem notuð hafi verið við framkvæmd hliðstæðs ráðningarsamnings fyrrverandi sparisjóðsstjóra sem grundvölluð hafi verið á starfslokasamningi hans.
Sóknaraðili hafi mótmælt afstöðu slitastjórnar með tölvupósti 7. apríl 2011. Ekki hafi tekist sættir með málsaðilum á fundi 14. júní 2011.
Lögmaður sóknaraðila hafi óskað eftir ítarlegri útreikningi Steinunnar Guðjónsdóttur tryggingastærðfræðings á eftirlaunaréttindum miðað við að eftirlaunaréttindi væru 86,9% af viðmiðunarlaunum og miðað við 3% ársávöxtun, sbr. útreikning Bjarna Guðmundssonar. Þá hafi verið óskað eftir því að útreikningur yrði sömuleiðis miðaður við laun fyrrverandi Landsbankastjóra, sbr. áðurgreint viðmið sem og laun sparisjóðsstjóra skv. ársreikningi 2008. Þá sé annarsvegar miðað við kröfu án frádráttar á áunnum réttindum í Eftirlaunasjóði Hafnarfjarðarkaupstaðar og hins vegar að þeim frádregnum. Útreikningur Steinunnar dags. 10. janúar 2012 sé grundvöllur kröfugerðar og liggi fyrir í málinu. Þar sem sættir hafi ekki tekist í málinu sé sóknaraðila nauðsyn á að fá úrlausn dómstóla.
II
Í greinargerð sinni kveður sóknaraðili að í málinu sé annars vegar deilt um stöðu kröfu sóknaraðila í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila og hins vegar um viðmiðun launa og þar með fjárhæð kröfu.
Sóknaraðili kveðst ekki fallast á viðurkenningu varnaraðila á kröfu sinni og kveður aðallega á því byggt af sinni hálfu að viðurkenna beri kröfu hans sem kröfu utan skuldaraðar skv. 109. gr. laga nr. 21/1991. Kveðst hann halda því fram að sparisjóðurinn (SPH) og síðar Byr sparisjóður hafi haldið fjármunum aðgreindum til að standa undir eftirlauna- og lífeyrisskuldbindingum gagnavart sóknaraðila. Í ársreikningum Byrs komi m.a. fram að við sameiningu SPH og Byrs sparisjóðs hafi Byr sparisjóður yfirtekið þær fjárhæðir, sem SPH hafi lagt til hliðar vegna eftirlaunaskuldbindinga og reiknað þær breytingar, sem á þeim hafi orðið eftir þá yfirtöku. Í lýsingu Byrs sparisjóðs í ágúst 2007 vegna útgáfu nýs stofnfjár hjá Byr komi fram að Sparisjóðurinn hafi lagt til fjárhæð til að mæta eftirlaunaskuldbindingu starfsmanna. Sé krafa þessi á því byggð að um sé að ræða beinan eignarrétt í verðmætum sem séu í vörslu varnaraðila er nemi kröfu sóknaraðila. SPH og seinna Byr sparisjóður hafi árlega látið tryggingastærðfræðing meta eftirlaunaréttindin og hafi haldið til haga fjármunum til að mæta eftirlaunaskuldbindingunni sem hafi getað komið til greiðslu yrðu skilyrði til greiðslu til staðar samkvæmt ráðningarsamningi. Eigi sóknaraðili því rétt til fullnustu kröfunnar óháð skuldaröð. Sé á því byggt að aðrir kröfuhafar myndu auðgast með óréttmætum hætti ef fjármunir sóknaraðila kæmu til skipta eins og um væri að ræða eign varnaraðila.
Til vara krefst sóknaraðili viðurkenningar á stöðu kröfu sinnar sem forgangskröfu með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991. Eftirlaunarétturinn sem skilgreindur sé í ráðningarsamningi aðila hafi áunnist samhliða vinnuframlagi sóknaraðila sem þegar hafi verið innt af hend. Eftirlaunaréttindin séu því ótvírætt hluti af launakjörum sóknaraðila og hafi átt að koma til greiðslu síðar þegar tiltekin skilyrði væru fyrir hendi eins og að tilgreindum aldri yrði náð, heilsubrestur yrði, eða andlát bæri að höndum og þá með hlutfallsgreiðslu til maka. Ekki sé því um að ræða réttindi sem ákveðin hafi verið við starfslok heldur við upphaf starfa og áunnist hafi á ráðningartíma. Því sé haldið fram að eftirlaunarétturinn hafi fallið í gjalddaga við ákvörðun FME þann 22. apríl 2010 og í síðasta lagi við úrskurð héraðsdóms um slitameðferð 2. júlí sama ár. Sóknaraðili byggi auk þess á því að hann eigi ekki að gjalda þess hvernig háttað hafi verið uppskiptingu eigna og skulda milli varnaraðila og Byrs hf. og sé gerður almennur fyrirvari um lögmæti þeirrar ákvörðunar.
Sérstaklega skuli tekið fram að fyrir sameiningu SPH og Sparisjóðs Vélstjóra hafi sparisjóðsstjóra og aðstoðarsparisjóðsstjóra þess sparisjóðs verið greiddur út eftirlaunaréttur en svo muni einnig hafa verið gert í einhverjum tilvikum í öðrum sparisjóðum.
Vera kunni að ákvörðun FME um að sparisjóðsstjórar og framkvæmdastjórar Byrs sparisjóðs hafi byggst á því að þeir hafi mátt sækja kröfur sínar til sparisjóðsins sjálfs og hafi því ekki verið fluttar yfir til Byrs hf. Óeðlilegt sé hins vegar að fyrrverandi starfsmaður eins og sóknaraðili, sem hætt hafi störfum á árinu 2001 eða um 9 árum áður en sparisjóðnum hafi verið skipuð slitastjórn, hafi ekki átt að sitja við sama borð og aðrir starfsmenn vegna kröfu um ógreidd eftirlaun sem hafi verið ótvíræður hluti launakjara.
Byggi sóknaraðili málsástæðu sína þannig á jafnræðisreglum, þ.e. að sömu reglur eigi að gilda um launakjör allra starfsmanna sem líkt standi á um án tillits til þess hvort þeir hafi verið í starfi eða hafi lokið störfum, við stöðu í kröfuröð við slitameðferð eins og hér um ræði. Ella væri brotið á jafnræði kröfuhafa ef kröfur á borð við laun, lífeyrisrétt og innstæður stæðu framar eftirlaunaréttindum sem verið hafi ótvíræður hluti launakjara.
Þá sé því mótmælt að heimild Fjármálaeftirlits sem vísað sé til í ákvörðun þess 22. apríl 2010 hafi veitt því heimild til að mismuna starfsmönnum með þeim hætti sem þar sé gert. Ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnskipuleg neyðarréttarleg sjónarmið sem vísað sé til hafi réttlætt ákvörðunina og hvort fall Byrs sparisjóðs og stofnun Byrs hf. hafi staðið og fallið með því hvort eftirlaunarétturinn færðist yfir í hinn nýja sparisjóð. Ljóst sé að ef sóknaraðili fái ekki kröfu sína að fullu greidda vegna framangreindrar ákvörðunar FME hafi eignarréttur hans verið fyrir borð borinn og kunni þá að koma til bótaskyldu ríkissjóðs, sbr. eignarréttarákvæði 72. gr. og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Þá sé á því byggt að kröfu sóknaraðila megi jafna til innstæðu, sbr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar sem skuli njóta forgangs við slitameðferð, sbr. ákvæði hinna svokölluðu neyðarlaga nr. 125/2008. Sé talið að forsaga og tilgangur með neyðarlögunum renni stoðum undir þennan skilning ákvæðisins og hafi verið ætlað að auka tryggingu að innstæður í íslenskum bönkum væru sérstaklega tryggðar.
Þrautavarakrafa sé á því byggð að eftirlaunarétturinn teljist vera almenn krafa með vísan til 113. gr. laga nr. 21/1991 eins og varnaraðili hafi þegar fallist á.
Sóknaraðili kveður kröfu sína byggða á launaviðmiði og prósentuútreikningi Steinunnar Guðjónsdóttur tryggingastærðfræðings og miðaða við að eftirlaunaréttindi séu 86,9% af heildarlaunaviðmiði. Þá sé miðað við 3% ársávöxtun. Ekki sé hinsvegar fallist á útreikning Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings á launum og launaviðmiði eins og nánar verði lýst hér á eftir.
Krafa sóknaraðila sé að dómurinn fallist á að uppreiknaður eftirlaunaréttur hans sé 305.645.406 krónur, sbr. fyrrnefndan útreikning Steinunnar Guðjónsdóttur. Sé eftirlaunarétturinn miðaður við launakjör bankastjóra Landsbanka Íslands eins og þau hafi verið við slit bankans auk 15% álags, skv. ráðningarsamningi. Um viðmiðið sé vísað til staðfestingar Kristins Bjarnasonar hrl. fyrir hönd slitastjórnar Landsbankans á launakjörum bankastjóra, sem liggi fyrir sem skjal í málinu. Sé á því byggt að ráðningarsamningurinn frá 26. mars 1991 beri það með sér að launaviðmið hafi miðast við laun sem banka- og sparisjóðsstjórar fái greidd en sparisjóðsstjórn hafi ákveðið á stjórnarfundi 2. desember 1987 að miða launakjörin við laun bankastjóra Landsbanka Íslands. Muni laun hafa verið greidd í samræmi við þau á ráðningartíma allt fram til starfslokadags sóknaraðila. Eftirlaunin hafi síðan átt að vera ákveðinn hundraðshluti af heildarlaunum skv. 5. gr. eins og þau væru á hverjum tíma. Þá sé ljóst að laun Landsbankastjóra og þáverandi sparisjóðsstjóra Byrs sparisjóðs við slit þeirra beggja hafi verið sambærileg, sbr. ársreikning Byrs 2008 og uppgefin laun Landsbankastjóra frá slitastjórn. Ljóst sé að stjórn Byrs sparisjóðs hafi talið þau laun í samræmi við það sem eðlilegt hafi verið talið á þeim tíma. Ekki hafi verið gerð krafa um að launaviðmið miðist við önnur hlunnindi, mögulega kaupréttarsamninga banka-og/eða sparisjóðsstjóra eða annað er fallið geti undir launaviðmið enda sóknaraðili ekki með upplýsingar um hver þau hafi verið.
Í kröfugerð hér að ofan sé við það miðað að í fjárhæð séu innifaldar geymdar eftirlaunagreiðslur Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnarfjarðar til sóknaraðila, sem sparisjóðurinn hafi ábyrgst með sérstöku samkomulagi við innkomu starfsmanna SPH í sjóðinn. Þá sé sóknaraðila ekki kunnugt um hvort Eftirlaunasjóðurinn eða Hafnarfjarðarbær hafi lýst kröfu vegna ábyrgðarinnar gagnvart sóknaraðila.
Sóknaraðili mótmæli sérstaklega útreikningi Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings á fjárhæð samþykktrar kröfu slitastjórnar (upphaflega að fjárhæð 67.360.900 krónur, en nú að fjárhæð 78.362.600 krónur) en Bjarni miði útreikning sinn við starfslokasamning annars fyrrverandi sparisjóðsstjóra sem þegar hafi hafið töku eftirlauna. Í starfslokasamningi þeim muni hafa verið miðað við að launaviðmið eftirlaunaréttinda hans ætti að breytast miðað við almenna launavísitölu. Sóknaraðili hafi ekki verið aðili að þessum starfslokasamningi og mótmæli sérstaklega að þessi túlkun á útreikningsaðferð eigi við í hans tilviki eins og tryggingastærðfræðingurinn gefi sér.
Upphafsdagur dráttarvaxtakröfu miðist við fyrsta birtingardag innköllunar í Lögbirtingablaðinu sem verið hafi 13. júlí 2010.
Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með síðari breytingum, einkum 109. gr., 111. gr., 112. gr. og 114. gr. Þá sé byggt á meginreglum kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og samningalögum nr. 7/1936 með síðari breytingum. Jafnframt sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, einkum 3. mgr. 102. gr. og 103. gr. og laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, einkum 1. gr. og 9. gr., sem og svokallaðra neyðarlaga nr. 125/2008. Þá kveðst sóknaraðili vísa til 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Kröfu um dráttarvexti kveðst sóknaraðili styðja við 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og kröfu um vaxtavexti við 1. mgr. 12. gr. í V. kafla sömu laga. Krafa um málskostnað sé byggð á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en þar sé lögmönnum gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.
Í greinargerð sóknaraðili er skorað á varnaraðila að leggja fram gögn með útreikningi og skilgreiningu tryggingastærðfræðings á eftirlaunaréttindum sparisjóðsstjóra vegna gerðar ársreikninga fyrir árin 1986 til 2008; ársreikninga SPH og Byrs fyrir árin 1988 til 2008; sundurliðun á launum sparisjóðsstjóra 2008 og afrit af kröfulýsingu Eftirlaunasjóðs Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarkaupstaðar til slitastjórnar Byrs sparisjóðs þar sem fram komi hvernig kröfu hafi verið lýst vegna réttinda sóknaraðila.
Við munnlegan málflutning vísaði lögmaður til sjónmarmiða um að 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 ætti við í málinu. Þá komu einnig fram hjá honum sjónarmið um að ef ekki yrði fallist á að miða ætti við laun bankastjóra Landsbanka Íslands hf. að þá ætti að líta til launa sparisjóðsstjóra varnaraðila við fall hans, en þau megi sjá í gögnum málsins. Hafnaði lögmaður sóknaraðila því að þetta væru málsástæður sem væru of seint fram komnar og taldi þær rúmast innan málatilbúnaðar sóknaraðila. Hafnaði hann því einnig að um væri að ræða breytingu á málsgrundvelli. Af hálfu sóknaraðila var mótmælt sem of seint fram komnum málsástæðum sem byggðu á því að krafa sóknaraðila gæti ekki talist forgangskrafa vegna ákvæða 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu sóknaraðila var því lýst yfir að fallist væri á sjónarmið varnaraðila um að krafa um dráttarvexti teldist eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
III
Í greinargerð sinni krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði sú afstaða hans að samþykkja eftirlaunakröfu sóknaraðila sem almenna kröfu að fjárhæð 78.362.600 krónur.
Varnaraðili telji að krafa sóknaraðila sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og fallist ekki á að krafa sóknaraðila sé krafa utan skuldaraðar, sbr. 109. gr. sömu laga eða forgangskrafa, sbr. 112. gr. sömu laga. Þá telji varnaraðili að ekki skuli fallast á kröfu sóknaraðila um álagningu dráttarvaxta á kröfu hans. Ef slíkir vextir væru álagðir telji varnaraðili að þeir teljist til eftirstæðra krafna, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili krefjist þess að afstaða hans um að eftirlaunakrafa sóknaraðila teljist til almennrar kröfu að fjárhæð 78.362.600 krónur verði staðfest. Um útreikning og forsendur varnaraðila á viðurkenndri kröfu vísist til útreikninga Bjarna Guðmundssonar fyrir slitastjórn frá 14. apríl 2012. Í greinargerð sinni krefjist sóknaraðili þess að viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 305.645.406 krónur.
Munurinn á kröfugerðum aðila felist að mestu leyti í því að við útreikningana séu lagðar til grundvallar mismunandi fjárhæðir sem viðmiðunarlaun. Sóknaraðili skýri ákvæði ráðningarsamnings síns á þann hátt að við útreikning á eftirlaunum sóknaraðila eigi að leggja til grundvallar laun bankastjóra Landsbanka Íslands hf. eins og þau hafi verið í október 2008. Sóknaraðili leggi á launin 15% álag og reikni þau upp með vísitölu launa frá október 2008 fram í júlí 2010, þegar úrskurðað hafi verið um slitameðferð varnaraðila.
Varnaraðili kveðst mótmæla þessari aðferðafræði sóknaraðila harðlega og telji hana hvorki byggja á samningi aðila né neinum öðrum grunni. Varnaraðili byggi á þeirri framkvæmd við útreikning á réttindum sóknaraðila sem hafi verið lögð til grundvallar við útreikning á skuldbindingum varnaraðila frá árinu 2005. Þar hafi verið lögð til grundvallar síðustu viðmiðunarlaun sem samþykkt hafi verið af sparisjóðsstjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar árið 2005 uppreiknuð með tilliti til vísitölu launa frá janúar 2005 til júlí 2010. Sú aðferðafræði sem sóknaraðili leggi til sé því alger nýlunda.
Kröfugerð sóknaraðila, að miða við laun bankastjóra Landsbankans árið 2008 eigi sér enga stoð enda hafi það viðmið aldrei verið notað við útreikning á eftirlaunarétti sóknaraðila. Sú tilvísun sem sóknaraðili telji vera til staðar í laun Landsbanka Íslands sé frá þeim tíma þegar sá banki hafi verið ríkisbanki og launakjör þess banka eigi sér enga samsvörun í launakjörum bankastjóra hins einkavædda Landsbanka við hrun hans árið 2008. Sé því ekki eðlilegt eða sanngjarnt að miða við laun bankastjóra þess banka á þeim tímapunkti. Ef ekki verði fallist á útreikningsaðferðir varnaraðila af hálfu dómsins og talið réttara að miða við laun bankastjóra Landsbankans, þá telji varnaraðili rétt að miða við laun bankastjóra Landsbankans í júlí 2010 þegar Landsbankinn hafi aftur verið orðinn ríkisbanki og kveðinn hafi verið upp úrskurður um að Byr sparisjóður færi í slitameðferð. Sé miðað við úrskurðardaginn um slitin í júlí 2010 leiði það til sambærilegrar eða lægri viðurkenndrar fjárhæðar til sóknaraðila en varnaraðili hafi þegar samþykkt. Ekki sé þó gerð krafa um það af hálfu varnaraðila að viðurkennd krafa sóknaraðila verði lækkuð.
Varnaraðili kveðst hafa viðurkennt kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu að fjárhæð 78.362.600 krónur og að sú afstaða hans byggist á túlkun hans á ráðningarsamningi sóknaraðila, en sú túlkun hafi verið grundvöllur útreiknings á eftirlaunakröfu sóknaraðila síðan árið 2005.
Í 6-1 gr. samningsins segi um eftirlaun sóknaraðila:
„
Eftirlaunin skulu vera ákveðinn hundraðshluti af heildarlaunum skv. 5. gr. eins og þau eru á hverjum tíma “
Þá segir í 6-3 gr. ráðningarsamningsins:
„Nú lætur sparisjóðsstjóri af starfi sínu áður en hann á rétt á að láta af því með eftirlaunum og skal hann þá eiga rétt á þeim eftirlaunum við 65 ára aldur sem hann hafði áunnið sér rétt til, sbr. 6-1 gr., er hann lét af starfi.“
Í 5. gr. ráðningarsamnings sóknaraðila segir:
„Launakjör sparisjóðsstjóra skulu vera hin sömu og aðrir banka- og sparisjóðsstjórar fá greidd. Verði hins vegar breytingar á launakjörum umfram almennar hækkanir í landinu skulu þær breytingar háðar samþykki sparisjóðsstjórnar.“
Árið 2005 hafi verið gerður starfslokasamningur við þá fráfarandi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar (SPH). Sá maður hafi starfað hjá sparisjóðnum í áratugi og hafi verið sparisjóðsstjóri samhliða sóknaraðila meðan þeir hafi verið við störf hjá SPH. Á starfstíma sparisjóðsstjóranna hafi ráðningarsamningar þeirra verið nær samhljóða hvað varði ákvæði um laun og eftirlaun, m.a. ákvæði 5. gr. samningsins. Samkvæmt starfslokasamningnum við þennan fráfarandi sparisjóðsstjóra skyldi hann fá greidd eftirlaun og skyldu viðmiðunarlaun hans, sem sparisjóðsstjóra, við útreikning eftirlaunakrafna vera 876.924 krónur. Skyldu viðmiðunarlaunin hækka til samræmis við vísitölu launa frá þeim tíma, en grunnvísitalan skv. samningnum hafi verið 261,1 stig. Hafi viðmiðunarlaunin átt að breytast á ársgrundvelli og skyldu miðast við launavísitölu í janúar ár hvert.
Á grundvelli framangreinds starfslokasamnings við þann sparisjóðsstjóra sem látið hafi af störfum árið 2005 hafi verið ákveðið af stjórn sjóðsins það sama ár að sóknaraðili skyldi hafa sambærilega launaviðmiðun og fram komi í starfslokasamningnum, enda hafi hún verið í takti við þau laun sem sóknaraðili hafi haft samkvæmt 5. gr. ráðningarsamnings síns þegar hann hafi hætt, að viðbættri vísitöluhækkun.
Umrædd viðmiðunarlaun hafi því eftirleiðis verið notuð við útreikning á eftirlaunaskuldbindingum vegna fyrrum sparisjóðsstjóra SPH, að viðbættri árlegri hækkun til samræmis við vísitölu launa.
Með hliðsjón af ofangreindu sé niðurstaða varnaraðila að uppreiknuð eftirlaunaréttindi sóknaraðila séu að fjárhæð 78.362.600 krónur og hafi varnaraðili samþykkt kröfu sóknaraðila að þeirri fjárhæð.
Ef ekki verði fallist á ofangreinda forsendu útreiknings varnaraðila, telji hann að samt sem áður skuli ekki leggja laun bankastjóra Landsbankans til grundvallar við útreikning á eftirlaunakröfu sóknaraðila, heldur skuli leggja til grundvallar laun sóknaraðila eins og þau hafi verið þegar hann hafi látið af störfum um mitt ár 2002. Þau beri að uppreikna með vísitölu launa fram til júlí 2010.
Samkvæmt síðasta launaseðli sóknaraðila hafi hann verið með 710.667 krónur í mánaðarlaun þegar hann hafi látið af störfum í júlí 2002 að bifreiðahlunnindum meðtöldum. Sé sú fjárhæð uppreiknuð með launavísitölu frá júlí 2002 fram til júlí 2010 hefðu laun sóknaraðila staðið í 1.190.720 krónum 2. júlí 2010. Sé það aðeins lægra en þau viðmiðunarlaun sem varnaraðili leggi til grundvallar í útreikningum sínum og séu að fjárhæð 1.232.261 króna.
Varnaraðili ítreki að það sé sérstaklega tekið fram í 5. gr. ráðningarsamnings sóknaraðila að breytingar á launakjörum umfram almennar hækkanir í landinu séu háðar samþykki sparisjóðsstjórnar. Slíkt samþykki liggi hreinlega ekki fyrir í máli þessu. Þau viðmiðunarlaun sem sóknaraðili vilji leggja til grundvallar í máli þessu séu nær þreföld þau laun sem sóknaraðili hafi verið með þegar hann hafi látið af störfum sem sparisjóðsstjóri SPH, eftir að búið sé að uppreikna þau laun með vísitölu launa, en sú vísitala eigi að endurspegla launaþróun í landinu. Svo umfangsmikil hækkun á samningsbundnum réttindum sóknaraðila hefði verið háð samþykki stjórnar eins og skýrt sé kveðið á um í samningi málsaðila. Eins og að ofan sé rakið hafi slíkt samþykki af hálfu stjórnar varnaraðila ekki legið fyrir og það launaviðmið sem sóknaraðila byggi á hafi aldrei verið notað við útreikning á réttindum hans fram að kröfulýsingu hans. Varnaraðila sé ekki kunnugt um að sóknaraðili hafi gert athugasemd við fyrri framkvæmd á útreikningi réttinda hans.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu telji varnaraðili að leggja beri laun sóknaraðila við starfslok hans til grundvallar eftirlaunakröfu hans og þau uppreiknuð m.t.t. vísitölu launa frá starfslokum hans fram í júlí 2010.
Ef ekki verði fallist á ofangreindar forsendur, heldur talið réttara að miða við laun bankastjóra Landsbankans, telji varnaraðili að viðmiðunarlaun sóknaraðila séu samt sem áður ekki réttur grundvöllur útreiknings eftirlaunakröfu sóknaraðila. Telji varnaraðili rétt að miða þá við laun bankastjóra Landsbankans við úrskurðardaginn í júlí 2010. Sé það mun eðlilegra enda Landsbankinn aftur orðinn ríkisbanki eins og hann hafi verið þegar tilvísun í samningi aðila til launakjara þar hafi verið gerð. Slík viðmiðun myndi leiða til þess að eftirlaunakrafa sóknaraðila yrði í raun lægri heldur en viðurkennd afstaða varnaraðila. Sé þó einungis farið fram á það af hálfu varnaraðila að afstaða hans verði staðfest.
Sóknaraðili haldi því fram að varnaraðili hafi á árinu 1991 skuldbundið sig til að miða laun sparisjóðsstjóra SPH við laun bankastjóra Landsbankans. Ætlunin hafi verið að kjör sparisjóðsstjóra SPH væru í samræmi við kjör annarra bankastjóra og sparisjóðsstjóra á hverjum tíma, sbr. ákvæði 5. gr. ráðningarsamnings sóknaraðila og SPH. Byggi sóknaraðili þetta á ódagsettum og óundirrituðum drögum að breytingum á launakjörum sparisjóðsstjóra frá árinu 1991. Þá vísi sóknaraðili til eftirfarandi fundargerðar stjórnarfundar frá 2. desember 1987 máli sínu til stuðnings:
„Samkv. 4. gr. í ráðningarsamningi Sparisjóðsstjóra þar sem rætt er um launakjör í öðrum bönkum og sparisjóðum er átt við launakjör bankastjóra Landsbankans. Verði hins vegar breytingar á launakjörum bankastjóra Landsbankans umfram almennar kauphækkanir í landinu, skulu þær breytingar fyrir sparisjóðsstjóra háðar samþykki sparisjóðsstjórnar.“
Leggi sóknaraðili þessa málsástæðu til grundvallar útreikningum sínum, þ.e. að eftirlaunakrafa sóknaraðila eigi að taka mið af launum bankastjóra Landsbankans. Hafi sóknaraðili síðan fengið tölvupóst frá slitastjórnarmanni Landsbanka Íslands hf. þar sem segi:
„Föst mánaðarlaun bankastjóra með lengri starfsaldur í október 2008 voru kr. 2.821.517,- með áunnum starfsaldurshækkunum. Önnur launakjör voru með ýmsu móti og vafalaust byggð á öðrum grunni en var við lýði þegar samningur var gerður við umbjóðanda þinn.“
Leggi sóknaraðili ofangreinda fjárhæð til grundvallar í útreikningum sínum með þeim hætti að ofangreind fjárhæð sé uppreiknuð frá október 2008 til júlí 2010 m.t.t. vísitölu launa. Sú fjárhæð 3.458.368 krónur á mánuði, sé lögð til grundvallar sem viðmiðunarlaun við útreikning á eftirlaunakröfu sóknaraðila.
Varnaraðili kveðst mótmæla ofangreindum forsendum harðlega og kveður það alveg órökstutt af hálfu sóknaraðila af hverju sé í útreikningum hans miðað við laun bankastjóra Landsbanka Íslands í október 2008 og þau laun síðan uppreiknuð fram í júlí 2010. Ef ætlunin hafi á annað borð verið að miða við laun bankastjóra Landsbankans telji varnaraðili eðlilegra að miðað við laun hans í júlí 2010. Sóknaraðili haldi því fram að kjör sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Hafnarfjarðar hafi átt að vera í samræmi við kjör annarra sparisjóðsstjóra á hverjum tíma. Það ætti að vera öllum ljóst að uppreiknuð launakrafa bankastjóra Landsbankans frá því í október 2008, síðasta mánuði fyrir bankahrun, rétt áður en umræddur banki hafi verið tekinn til slitameðferðar, endurspegli að öllum líkindum ekki almenn launakjör sparisjóðsstjóra í júlí 2010. Varnaraðili mótmæli jafnframt því að fjárhæðin 2.821.517 krónur sé lögð til grundvallar sem laun bankastjóra Landsbankans í október 2008 og viðmiðunarlaun fyrir sóknaraðila. Þá fjárhæð byggi sóknaraðili einungis á tölvupósti frá slitastjórnarmanni Landsbanka Íslands. Í tölvupóstinum sé hvergi sundurliðun á hvað felist í umræddri fjárhæð. Einungis komi fram að um sé að ræða mánaðarlaun með „áunnum starfsaldurshækkunum“. Fram komi að þetta séu „föst mánaðarlaun bankastjóra með lengri starfsaldur“. Ekki sé tilgreint hver sé umrædd hækkun eða miðað við hvaða starfsaldur menn hafi átt rétt á henni. Sé því mótmælt að umræddur tölvupóstur teljist fullnægjandi grundvöllur fyrir kröfugerð sóknaraðila. Með hliðsjón af ofangreindu sé því sérstaklega mótmælt að lagt sé 15% álag vegna stjórnarfundasetu ofan á umrædda fjárhæð við útreikning viðmiðunarlauna, líkt og sóknaraðili geri í útreikningum sínum. Hvergi komi fram í umræddum tölvupósti hvort inn í þeirri fjárhæð sem þar sé gefin upp, sé álag vegna stjórnarfundasetu. Þá byggi sóknaraðili á því að viðmiðunarlaunin eigi að vera þau sömu og annarra bankastjóra, en með álagningu 15% álags yrðu viðmiðunarlaunin væntanlega 15% hærri.
Laun bankastjóra Landsbankans hafi í febrúar 2010 verið 1.158.614 krónur. Þetta megi sjá af úrskurði Kjararáðs frá 23. febrúar 2010 þar sem bankastjóra Landsbankans hafi verið úrskurðuð laun samkvæmt launaflokki 502-138, þá 753.974 krónur, auk 80 eininga á mánuði fyrir yfirvinnu og álag. Heildarlaun bankastjóra Landsbankans hafi í júlí 2010 verið komin í 1.158.612 krónur á mánuði, sbr. tölvupóst frá Fjársýslu ríkisins sem liggi fyrir í málinu. Laun bankastjóra Landsbankans sem sóknaraðili vilji leggja til grundvallar hafi því í júlí 2010 verið lægri heldur en þau laun sem varnaraðili hafi lagt til grundvallar sem viðmiðunarlaun í sínum útreikningum. Beri því að fallast á afstöðu varnaraðila varðandi fjárhæð kröfu sóknaraðila.
Eins og fram komi í kröfulýsingu sóknaraðila og greinargerð hans þá hafi sóknaraðili greitt 4% af launum sínum í Eftirlaunasjóð Hafnarfjarðarkaupstaðar (ESH) auk þess sem Sparisjóður Hafnarfjarðar hafi greitt þangað lögbundið mótframlag. Liggi fyrir að sóknaraðili muni eiga rétt á lífeyrisgreiðslum frá Eftirlaunasjóði Hafnarfjarðar vegna þessa. Í kröfulýsingu sinni, 10. október 2010, lýsi sóknaraðili kröfu sinni að fjárhæð 382.672.208 krónur. Segi jafnframt í kröfulýsingunni:
„ til frádráttar komi hlutur Eftirlaunasjóðs Hafnarfjarðar“.
Sé það í samræmi við 6-4 gr. ráðningarsamnings sóknaraðila, þar sem segi:
„Eftirlaun og makalífeyrir samkvæmt ofangreindu skulu lækka um þann lífeyri sem sparisjóðsstjóri hefur áunnið sér rétt til í starfi sínu sem sparisjóðsstjóri “.
Í útreikningum sóknaraðila hafi verið gengið út frá sömu forsendum og í útreikningum varnaraðila, þ.e. að áunnið hlutfall sóknaraðila hjá ESH af viðmiðunarlaunum sé 28,75%. Sé gert ráð fyrir slíkum frádrætti í dómkröfu varnaraðila og útreikningum sóknaraðila, en ekki sé gert ráð fyrir slíkum frádrætti í dómkröfum sóknaraðila.
Varnaraðili byggi á því að eftirlaunakrafa sóknaraðila sé almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 og telji að krafan falli hvorki undir ákvæði 109. gr. né 112. gr. laganna, líkt og sóknaraðili leggi til grundvallar í aðal- og varakröfu sinni.
Af ákvæðum XVII. kafla laga nr. 21/1991 leiði að allar kröfur sem lýst sé í þrotabú teljist til almennra krafna, skv. 113. gr. laganna, nema þeim sé sérstaklega veittur forgangur með ákvæðum 109. til 112. gr. laganna eða þær séu eftirstæðar skv. 114. gr. Varnaraðili byggi á því að þar sem eftirlaunakröfur séu ekki tilgreindar í 109. til 112. gr. laganna sé ótvírætt að þeim sé ekki veittur neinn forgangur umfram almennar kröfur og falli því undir 113. gr. Einnig byggi varnaraðili á því að ákvæði greina 109 til 112 í lögum nr. 21/1991 séu undantekningarákvæði frá þeirri meginreglu laganna að eignum bús skuli skipta jafnt á milli kröfuhafa búsins og því beri að beita þröngri lögskýringu við mat á því hvort viðurkenna eigi að réttindi falli undir 109. eða 112. gr. laganna. Teljist það viðurkennt lögskýringarsjónarmið.
Varnaraðili telji að kröfur sóknaraðila falli ekki undir 109. gr. laga nr. 21/1991 eins og sóknaraðili krefjist í aðalkröfu. Byggi varnaraðili á því að krafa sóknaraðila uppfylli ekki lögmælt skilyrði ákvæðisins eins og það hafi verið túlkað í dómaframkvæmd.
Sá sem krefjist afhendingar sérgreindrar peningafjárhæðar utan skuldaraðar við gjaldþrotaskipti þurfi að sýna fram á beinan eignarrétt sinn að fjármununum, en varnaraðili telji að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að þetta skilyrði sé uppfyllt.
Krafa sóknaraðila byggi á ráðningarsamningi aðila frá árinu 1991. Með samningnum skuldbindi Sparisjóður Hafnarfjarðar, síðar varnaraðili, sig til að greiða sóknaraðila eftirlaun frá 65 ára aldri sem skyldu vera ákveðinn hundraðshluti af uppreiknuðum heildarlaunum. Eins og krafa sóknaraðila sé úr garði gerð hafi því einnig verið ljóst frá upphafi að fjárhæð hennar væri breytileg frá einum tíma til annars. Þá sé hvergi í samningi aðila kveðið á um að fjármunir vegna þessa skuli t.d. lagðir til hliðar mánaðarlega eða geymdir inn á bankareikningi í nafni sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili engar heimildir til að ráðstafa slíkum fjármunum sem gætu verið í vörslum varnaraðila með þeim hætti sem eignarréttindi heimila eiganda venjulega. Þannig geti sóknaraðili t.d. ekki ráðstafað „eigninni“ með erfðaskrá, eða krafist afhendingar hennar með því móti sem honum henti.
Í máli nr. 158/1976 (Hrd. 1977:334) hafi því verið haldið fram að söluskattur sem atvinnurekanda hafi verið skylt að leggja á vörur sínar og skila til ríkissjóðs, væri í raun eign ríkissjóðs í vörslu hinna söluskattskyldu aðila og félli því utan skuldaraðar. Ekki hafi verið fallist á það af hálfu Hæstaréttar. Telji varnaraðila að sömu sjónarmið eigi við um kröfu sóknaraðila í máli þessu.
Þá svo að fallist yrði á að sóknaraðili ætti beinan eignarrétt að fjármunum í vörslum varnaraðila vegna eftirlaunakröfu sinnar, þá sé ekki í vörslum búsins sérgreind eða afmörkuð peningafjárhæð sem hugsanlegt eignarréttartilkall sóknaraðila geti beinst að. Ekkert komi heldur fram um það í reikningum félagsins að fjármunum vegna þessa hafi verið haldið sérgreindum, enda hafi það ekki verið gert. Það sem máli skipti sé hver staðan hafi verið þegar slitastjórn komi að skiptum búsins. Þegar slitastjórn hafi komið að búinu hafi ekki verið fyrir hendi sérgreindir fjármunir til að mæta þessum uppreiknuðu réttindum.
Engir fjármunir hafi þannig verið sérgreindir í vörslum varnaraðila þegar slitastjórn hafi komið að búinu, sem sérstaklega hafi verið merktir til greiðslu á eftirlaunaskuldbindingum starfsmanna. Sé því ekki hægt að fallast á kröfu sóknaraðila, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 327/1986 (Hrd. 1987:664) og 357/1993 (Hrd. 1993:1515).
Löggiltur endurskoðandi Byrs sparisjóðs hafi staðfest með yfirlýsingu sem lögð hafi verið fram í málinu að fjármunir hafi ekki verið sérgreindir hjá Byr sparisjóði vegna eftirlaunaskuldbindinga.
Með hliðsjón af ofangreindu telji varnaraðili ljóst að krafa sóknaraðila njóti ekki rétthæðar skv. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili krefjist þess til vara að krafa hans verði viðurkennd sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili tilgreini ekki á hvaða tölulið 112. gr. hann byggi kröfu sína, en af lestri greinargerðar hans verði dregin sú ályktun að hann virðist byggja á því að eftirlaunakrafa hans sé launakrafa, sbr. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna. Þá byggi sóknaraðili einnig á því að kröfu hans megi jafna til innstæðu sem njóti rétthæðar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili hafni þessari kröfu sóknaraðila og byggi það á eftirfarandi málsástæðum.
Sóknaraðili virðist byggja varakröfu sína á því að krafa hans sé launakrafa skv. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Undir þann tölulið falli kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Varnaraðili kveðst mótmæla þessu og telji eftirlaunakröfu sóknaraðila ekki falla undir tilvitnaðan tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eða aðra töluliði greinarinnar. Byggi varnaraðili m.a. á því að krafa sóknaraðila um eftirlaun geti ekki talist krafa um „laun og annað endurgjald“ í skilningi umrædds ákvæðis.
Ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð og víki þannig frá grundvallarreglu laganna um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Því verði ákvæðið ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan. Í ákvæðinu sé ótvírætt að finna þá reglu að réttur til launa sem þar geti átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu. Ástæður ákvæðisins séu tvenns konar og snerti annars vegar vernd á hagsmunum launþega umfram aðra kröfuhafa en hins vegar hagsmuni kröfuhafa í heild þegar í hlut á félag sem er í rekstri og stefnir í þrot. Þegar slík staða sé fyrir hendi sé hagsmunum kröfuhafa betur borgið með því að tryggja rekstur félags þrátt fyrir yfirvofandi gjaldþrot. Verndin sé hins vegar tímabundin eins og ákvæðið kveði skýrt á um enda ekki ætlunin að veita launþegum ótímabundinn forgang á aðra kröfuhafa. Í máli þessu kalli sóknaraðili eftir greiðslu eftirlauna sem hefðu átt að falla í gjalddaga árið 2026. Sóknaraðili byggi á því að fjárhæð kröfu hans taki mið af fjárhæð launa sem annar aðili afli, í öðru starfi, löngu eftir að sóknaraðili hafi látið af störfum hjá varnaraðila. Þá sé ljóst að krafan sjálf falli í gjalddaga án þess að til komi sérstakt vinnuframlag af hálfu sóknaraðila vegna þessara viðbótargreiðslna. Vísi varnaraðili hér til dóms Hæstaréttar í máli nr. 326/2003 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að krafa um eftirlaun félli ekki undir 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, heldur væri almenn krafa, sbr. 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili byggi sérstaklega á því að jafnræðisreglur hafi verið brotnar þegar hluti af eignum og skuldum Byrs sparisjóðs hafi verið færðar yfir í Byr hf. Einungis starfandi starfsmenn hafi fengið launakröfur sínar fluttar yfir í Byr hf. og efist sóknaraðili um heimildir Fjármálaeftirlitsins til slíkrar mismununar. Þá telji sóknaraðili það brot á jafnræðisreglum ef kröfur á borð við laun, lífeyrisrétt og innstæður stæðu framar eftirlaunaréttindum í kröfuröð við slitameðferð varnaraðila. Þá hafi sparisjóðsstjóri og aðstoðarsparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vélstjóra verið greiddur út eftirlaunaréttur sinn, en ekki sóknaraðila. Varnaraðili hafni þessu málsástæðum sóknaraðila alfarið og telji að málatilbúnaði sínum um mögulegt brot Fjármálaeftirlitsins á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar ætti sóknaraðili að beina að stjórnsýsluaðilanum en ekki varnaraðila og kveðst hafna málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti á grundvelli aðildarskorts.
Þá hafni varnaraðili því að ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 feli í sér brot á meginreglu skiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og vísist um það til framangreindrar umfjöllunar um ástæður löggjafans fyrir þessum afmörkuðu undantekningum frá meginreglunni.
Þau sjónarmið eigi ekki við í tilviki sóknaraðila. Sóknaraðili hafi þegar fengið sín hefðbundnu laun greidd mánaðarlega frá varnaraðila á meðan hann hafi verið þar við störf. Sóknaraðili hafi hins vegar látið af störfum hjá varnaraðila fyrir 11 árum og eigi því þeir hagsmunir sem 112. gr. sé ætlað að vernda ekki við í tilviki sóknaraðila.
Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins varðandi skiptingu skulda og eigna milli Byrs sparisjóðs og Byrs hf. séu þessu máli óviðkomandi. Ef sóknaraðili telji að brotinn hafi verið á honum réttur með þeim aðgerðum muni hann væntanlega hafa þær kröfur uppi gagnvart íslenska ríkinu. Þeim kröfum verði hins vegar ekki beint að varnaraðila. Málsástæður sem byggi á slíkum sjónarmiðum séu þessu máli einnig óviðkomandi og sé því mótmælt að slík sjónarmið skipti máli við lögskýringu á 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Varðandi greiðslur til annarra sparisjóðsstjóra þá telji varnaraðili að slíkar greiðslur skipti heldur engu máli við mat á því hvort umræddar kröfur teljist til forgangskrafna skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé því einnig mótmælt að slíkar greiðslur, sem eigi sér stað fyrir gjaldþrot eða upphaf slitameðferðar, geti brotið gegn jafnræði kröfuhafa við skipti þrotabúsins. Slitastjórn hafi úrræði til að bregðast við ráðstöfunum sem með réttu brjóti gegn jafnræði kröfuhafa, með riftun þeirra skv. heimildum XX. kafla laga nr. 21/1991. Slíkar ráðstafanir, riftanlegar eða ekki, geti hins vegar ekki veitt öðrum kröfuhöfum aukinn rétt á hendur þrotabúinu eða skipt máli varðandi skýringu 112. gr. laga nr. 21/1991 eða annarra ákvæða XVII. kafla laganna. Með hliðsjón af öllu framangreindu telji varnaraðili sýnt að krafa sóknaraðila sé ekki launakrafa í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Ef fallist yrði á það með sóknaraðila að krafa hans teljist til launakröfu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 telji varnaraðili engu að síður að krafa hans njóti ekki forgangs þar sem hún hafi ekki fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag, sbr. skýrt skilyrði ákvæðisins þar að lútandi.
Sóknaraðili byggi á því að eftirlaunaréttur hans hafi fallið í gjalddaga við ákvörðun FME þann 22. apríl 2010 eða í síðasta lagi við úrskurð héraðsdóms um slitameðferð þann 2. júlí 2010. Varnaraðili telji að krafan hafi í fyrsta lagi fallið í gjalddaga við úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um slitameðferð varnaraðila 2. júlí 2010.
Í grein 6-1 í ráðningarsamningi sóknaraðila komi fram að sóknaraðili eigi rétt á eftirlaunum frá 65 ára aldri. Þá segi í grein 6-3 í samningnum:
„6-3. gr. Geymdur réttur
Nú lætur sparisjóðsstjóri af starfi sínu áður en hann á rétt á að láta af því með eftirlaunum og skal hann þá eiga rétt á þeim eftirlaunum við 65 ára aldur, sem hann hafði áunnið sér rétt til, sbr. 6-1. gr., er hann lét af starfi.“
Í greinum 6-1. og 6-2. séu gerðar undantekningar frá þessu ef sóknaraðili falli frá eða verði að láta af störfum sökum heilsubrests. Samkvæmt ofangreindu ákvæði hafi krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila um greiðslu eftirlauna að falla í gjalddaga þann 23. apríl 2026 þegar sóknaraðili næði 65 ára aldri.
Samkvæmt samningi aðila ætti krafa sóknaraðila því ekki enn að vera fallin í gjalddaga. Lagaákvæði geti þó haft í för með sér að samningskröfur teljist gjaldfallnar. Fram komi í 99. gr. laga nr. 21/1991 að allar kröfur á hendur þrotabúi falli sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kunni áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gildi sömu reglur við slit fjármálafyrirtækis og gildi við gjaldþrotaskipti hvað varði gagnkvæma samninga félagsins og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.
Þá komi fram í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að að því leyti sem rétthæð krafna geti ráðist samkvæmt lögum nr. 21/1991 af þeim tíma sem úrskurður sé kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta, skuli miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita. Með hliðsjón af ofangreindu telji varnaraðili að allar kröfur á hendur honum hafi fallið í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um skipun slitastjórnar 2. júlí 2010, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991 og 102. gr. laga nr. 161/2002. Hafi krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila því fallið í gjalddaga 2. júlí 2010.
Í 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 sé að finna skilgreiningu á frestdegi við slitameðferð fjármálafyrirtækis. Greinin sé svohljóðandi:
„Við slit fjármálafyrirtækis skal frestdagur ákveðinn eftir sömu reglum og gilda við gjaldþrotaskipti, en þó þannig að hann getur jafnframt ráðist af þeim degi sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt fyrirtækinu frest skv. 4. mgr. 86. gr. eða skipað því bráðabirgðastjórn skv. 100. gr. a eða ella af því að héraðsdómi berst krafa um slit skv. 2. mgr. ef ekkert hefur áður gerst til að marka frestdag.“
Eins og fram komi í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010, hafi varnaraðila fyrst verið veittur frestur til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna, með bréfi Fjármálaeftirlitsins 16. júní 2009. Sé það því frestdagur við slit varnaraðila.
Undir 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 falli kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns, sem fallið hafi í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Fram komi hér að ofan að krafa sóknaraðila hafi fallið í gjalddaga 2. júlí 2010 og að frestdagur við slitameðferð varnaraðila sé 16. júní 2009. Sé ljóst að krafa sóknaraðila hafi því ekki fallið í gjalddaga 18 mánuðum fyrir frestdag líkt og sé skilyrði fyrir beitingu 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Tilvitnað ákvæði feli í sér undantekningu frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa og beri því að skýra þröngt eða samkvæmt orðanna hljóðan. Með hliðsjón af þessu geti krafa sóknaraðila því ekki notið forgangs við slit á búi varnaraðila á grundvelli þess lagaákvæðis.
Sóknaraðili haldi því fram að kröfu hans megi jafna til innstæðu, sbr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og að innstæður njóti forgangs við slitameðferð varnaraðila, sbr. ákvæði neyðarlaganna nr. 125/2008. Telji sóknaraðili að forsaga og tilgangur neyðarlaganna renni stoðum undir þennan skilning ákvæðisins. Varnaraðili kveðst hafna þessari málsástæðu sóknaraðila.
Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 komi fram að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóti rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sé Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Fram komi í 3. mgr. 9. gr. laganna að með innstæðu sé átt við innstæðu sem tilkomin sé vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Varnaraðili telji augljóst að eftirlaunakrafa sóknaraðila falli ekki undir þessa skilgreiningu.
Varnaraðili hafni því að kröfu sóknaraðila sé hægt að jafna til innstæðu skv. ofangreindri 9. gr. laga um innstæðutryggingar. Eins og áður hafi komið fram hafi Hæstiréttur þegar kveðið á um að ákvæði 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 víki frá grundvallarreglu laganna um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti og að ákvæðið verði ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan, sbr. dóm Hæstaréttar í mál nr. 326/2003. Telji varnaraðili að í samræmi við þetta verði hvorki beitt rýmkandi lögskýringu við skýringu á 9. gr. laga nr. 98/1999 né að lögjafnað verði frá því ákvæði. Slík túlkun sé jafnframt í samræmi við almennar kenningar fræðimanna þess efnis að hvorki lögjöfnun né rýmkandi lögskýring komi til greina þegar um sé að ræða undanþáguákvæði, þrönga sérreglu eða reglu sem reist sé á sérstökum aðstæðum eða forsendum. Þess utan telji varnaraðili að skilyrði lögjöfnunar séu ekki uppfyllt, enda sé t.d. ekki um að ræða ólögmælt tilvik, heldur falli krafa sóknaraðila undir 113. gr. laga nr. 21/1991 eins og allar kröfur sem ekki njóti sérstaklega forgangs skv. ákvæðum 109. til 112. gr. sömu laga. Þá fallist varnaraðili heldur ekki á að krafa sóknaraðila sé efnislega sambærileg við innstæðukröfur eða að slík skýring sé í samræmi við forsögu eða tilgang neyðarlaganna nr. 125/2008.
Sóknaraðili fari fram á að við kröfu hans bætist dráttarvextir frá 13. júlí 2010 til greiðsludags. Í málsástæðukafla sínum segi hann að upphafsdagur dráttarvaxta miðist við fyrsta birtingardag innköllunar í Lögbirtingablaðinu. Varnaraðili hafni þessari kröfu sóknaraðila og telji að krafa hans um dráttarvexti sé eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Skv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gildi sömu reglur við slit fjármálafyrirtækis og gildi um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Ennfremur segi í greininni að ef rétthæð krafna geti skv. lögum nr. 21/1991 að einhverju leyti ráðist af því tímamarki þegar úrskurður hafi verið kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta, skuli miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita. Eins og áður hafi komið fram hafi varnaraðili verið tekinn til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010. Þá komi fram í 114. gr. laga nr. 21/1991 að til eftirstæðra krafna teljist kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu skv. 112. gr. eða 113. gr., sem hafi fallið til eftir að úrskurður hafi gengið um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta. Með hliðsjón af þessu sé ljóst að allir vextir sem falli á kröfu sóknaraðila eftir 2. júlí 2010 teljist vera eftirstæð krafa sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991, en ekki krafa skv. 109., 112. eða 113. gr. laganna, líkt og sóknaraðili fari fram á.
Ef ekki sé fallist á að krafa sóknaraðila sé eftirstæð krafa, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991 telji varnaraðili að samt skuli hafna kröfu sóknaraðila um greiðslu dráttarvaxta. Samkvæmt ráðningarsamningi sóknaraðila skyldi hann eiga rétt á greiðslu eftirlauna við 65 ára aldur, eins og fram komi hér að ofan. Hafi krafa sóknaraðila því ekki átt að gjaldfalla fyrr en árið 2026. Sóknaraðili hafi ekki rökstutt með hvaða hætti auglýsing varnaraðila í Lögbirtingablaðinu hafi breytt þessu. Telji varnaraðili að krafa sóknaraðila um greiðslu dráttarvaxta eigi sér enga lagastoð og því sé rétt að hafna henni.
Sóknaraðili krefjist þess í greinargerð sinni, að varnaraðili leggi fram ákveðin gögn sem hann telji upp í fjórum töluliðum. Sum þessara gagna hafi þegar verið gerð opinber og séu því sóknaraðila aðgengileg, sum verði lögð fram en framlagningu annarra sé hafnað.
1. Útreikningur og skilgreining tryggingastærðfræðings á eftirlaunaréttindum sparisjóðsstjóra vegna gerðar ársreikninga fyrir árin 1986-2008.
Varnaraðili telji sóknaraðila ekki hafa neina lögvarða hagsmuni eða þörf fyrir slíka gagnaöflun, en leggi fram bréf Bjarna Guðmundssonar tryggingastærðfræðings varðandi forsendur útreikninga eftirlaunaréttinda sóknaraðila frá árinu 2005 til 2008.
2. Ársreikningar SPH og Byrs fyrir árin 1988-2008
Varnaraðili kveður umrædda ársreikninga vera opinber skjöl sem unnt sé að fá afrit af hjá Fyrirtækjaskrá. Telji varnaraðili ekki ástæðu til þess að hann fari í slíka gagnaöflun fyrir sóknaraðila. Auk þess sjái varnaraðili ekki þörf á slíkri gagnaöflun fyrir úrlausn málsins.
3. Sundurliðun á launum sparisjóðsstjóra 2008.
Varnaraðili kveðst ekki telja sér heimilt að leggja fram umbeðin gögn þar sem um sé að ræða trúnaðarupplýsingar sem varnaraðili hafi undirgengist sérstaklega að gæta trúnaðar um.
4. Varnaraðili kveðst verða við áskorun um að leggja fram afrit af kröfulýsingu Eftirlaunasjóðs Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarkaupstaðar til slitastjórnar Byrs sparisjóðs.
Varnaraðili kveðst um fyrirsvar slitastjórnar vísa til 4. mgr. 101. gr. og 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Krafa varnaraðila, varðandi fjárhæð kröfu, byggi einkum á samningi sóknaraðila og Sparisjóðs Hafnarfjarðar 26. mars 1991, sem og meginreglum fjármunaréttar.
Krafa varnaraðila varðandi viðurkenningu á rétthæð kröfu byggi á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, einkum 113. gr. laganna, Varnaraðili vísi einnig til XVI. og XVII. kafla sömu laga, sem og sérstaklega ákvæða 99., 109., 112., 113. og 114. gr. laganna.
Kröfur varnaraðila byggi einnig á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, einkum 84., 86., 101. og 102. gr. laganna.
Þá vísi varnaraðili einnig til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, einkum 9. gr. þeirra laga, sem og laga nr. 88/2003 um ábyrgðasjóð launa.
Varðandi kröfu um málskostnað vísi varnaraðili til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Varnaraðili kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.
Við munnlegan málflutning vísaði varnaraðili að auki til þess að ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 stæði því í vegi að krafa sóknaraðila gæti talist forgangskrafa skv. 1. til 3. tl. 1. mgr. sama lagaákvæðis. Kvað hann um ný lagarök að ræða sem ættu að komast að í málinu.
Þá mótmælti varnaraðili tilvísun sóknaraðila til 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en þar væri um nýjar málsástæður að ræða. Þá væri á því byggt að sjónarmið sem sóknaraðili hefði fyrst sett fram við munnlegna málflutning og varði hugsanlega varakröfu sem byggð væri á launum eftirmanns væru of seint fram komin og í þeim fælust nýjar málsástæður sem ekki gætu með réttu komist að í málinu, auk þess að um væri að ræða röskun á málsgrundvelli. Einnig kvaðst lögmaður varnaraðila mótmæla málskostnaðarkröfu sóknaraðila sem of hárri.
IV
Krafa sóknaraðila um greiðslu eftirlauna byggir á ráðningarsamningi hans við Sparisjóð Hafnarfjarðar en efni þess samningis er ítarlega rakið hér fyrr þegar gerð er grein fyrir málatilbúnaði aðila. Er tilvist kröfunnar óumdeild sem og greiðsluskylda varnaraðila vegna hennar. Báðir aðilar hafa látið tryggingastærðfræðinga reikna kröfuna út miðað við eingreiðslu og liggur í málinu fyrir yfirlýsing þeirra um að reikniaðferðir sem notaðar hafi verið séu þær sömu og eru þær því óumdeildar. Ágreiningur aðila að því er varðar fjárhæð kröfunnar byggist því eingöngu á því hvaða viðmiðunarlaun sé rétt að leggja til grundvallar útreikningnum. Liggur því fyrir dómnum að skera úr um deilu aðila að þessu leyti á grundvelli þeirra útreikninga sem þeir hvor fyrir sig hafa látið framkvæma og hafa lagt fram í málinu.
Einnig er óumdeilt að sóknaraðili hafi á grundvelli ráðningarsamnings síns áunnið sér rétt til eftirlaunagreiðslna sem nemi 86,7% af viðmiðunarlaunum á mánuði. Þá eru aðilar sammála um hver skuli vera fjárhæð frádráttar vegna áunninna réttinda í Eftirlaunasjóði starfsmanna Hafnafjarðarkaupstaðar, en mælt er fyrir um slíkan frádrátt í ráðningarsamningnum. Sóknaraðili byggði þó á því við munnlegan málflutning að ekki bæri að draga þessa fjárhæð frá kröfu hans þar sem alls væri óvíst um stöðu sjóðsins og í hvaða færum hann væri að standa undir skuldbindingum sínum þegar að því kæmi. Varnaraðili mótmælir þessum málatilbúnaði og telur röksemdir í þessa veru of seint fram komnar og bendir á að í kröfulýsingu sóknaraðila hafi verið gengið út frá því að umrædd réttindi yrðu dregin frá, sem og í útreikningum þess tryggingastærðfræðings sem sóknaraðili hafi fengið til að reikna út réttindi sín. Rétt þykir að byrja á að skera úr um þetta ágreiningsatriði. Sóknaraðili hefur frá öndverðu sett fram fjárkröfu sína án þess að draga frá eingreiðsluverðmæti umræddra réttinda. Þegar þetta er haft í huga þykir ekki ástæða til að líta svo á að röksemdir hans sem að framan er minnst á teljist of seint fram komnar þó fallast megi á með varnaraðila að málatilbúnaður sóknaraðila hafi að þessu leyti mátt vera skýrari. Í málinu liggur fyrir að greitt var til fyrrnefnds eftirlaunasjóðs iðgjald, af hálfu sóknaraðila og vinnuveitanda hans, eins og lög gera ráð fyrir á því tímabili sem sóknaraðili var við störf hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þá liggur fyrir að þetta iðgjald hefur skapað sóknaraðila tiltekinn rétt í nefndum eftirlaunasjóði og skýrlega er mælt fyrir um það í ráðningarsamningi hans að slík réttindi skuli draga frá þeim eftirlaunagreiðslum sem samningurinn kveður á um að sóknaraðili skuli njóta frá Sparisjóði Hafnarfjarðar, nú varnaraðila. Réttur þessi hefur verið reiknaður til eingreiðsluverðmætis af sérfræðingum sem báðir aðilar hafa fengið til þess verks og er fjárhæð hans óumdeild. Verður að telja að umrædd réttindi verði ekki sótt til varnaraðila á þeim grundvelli að hugsanlegt sé að umræddur eftirlaunasjóður kunni að eiga í erfiðleikum með að standa við skuldbindigar sínar þegar fram líða stundir. Verður að telja að varnaraðili verði ekki gerður ábyrgur fyrir slíku gagnvart sóknaraðila, enda réttarsamband sóknaraðila við umræddan eftirlaunasjóð sjálfstætt kröfuréttarlegt samband sem er varnaraðila óviðkomandi. Gildir hér einu þó umræddur eftirlaunasjóður kunni að eiga kröfu á hendur varnaraðila vegna lífeyrisskuldbindinga sem sjóðurinn hafi tekið á sig vegna réttinda starfsmanna varnaraðila, þar á meðal sóknaraðila. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður röksemdum sóknaraðila í þessa veru hafnað og fallist á með varnaraðila að umrædd réttindi, reiknuð til eingreiðsluverðmætis skuli koma til frádráttar eftirlaunakröfu sóknaraðila.
Fyrir liggur í málinu að ekki var komið að gjalddaga eftirlaunagreiðslu samkvæmt samningnum þegar varnaraðili varð fjárþrota. Með vísan til 99. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 102. gr. laga nr. 161/2002 er fallist á það með varnaraðila málsins að krafa sóknaraðila hafi fallið í gjalddaga þegar úrskurður var kveðinn upp um töku varnaraðila til slitameðferðar 2. júlí 2010. Verður og ekki annað séð en að báðir aðilar miði við stöðu kröfunnar þann dag í útreikningum sínum.
Í ráðningarsamningi þeim er sóknaraðili sækir rétt sinn til er í 5. gr. fjallað um launakjör og mælt m.a. fyrir um það að þau skuli vera þau sömu og aðrir banka- og sparisjóðsstjórar fái greidd. Einnig kemur fram að breytingar á launakjörum umfram almennar hækkanir skuli háðar samþykki sparisjóðsstjórnar. Í 6-3. gr. samningsins sem ber yfirskriftina „Geymdur réttur“ segir að láti sparisjóðsstjóri af starfi sínu áður en hann eigi rétt á því með eftirlaunum skuli hann eiga rétt á þeim eftirlaunum við 65 ára aldur, sem hann hafði áunnið sér rétt til, sbr. 6-1 gr. er hann lét af starfi. Í þeirri grein segir m.a. að eftirlaun skuli vera ákveðinn hundraðshluti af heildarlaunum skv. 5. gr. eins og þau séu á hverjum tíma. Grundvöllur málatilbúnaðar og krafna sóknaraðila að því er fjárhæð kröfunnar varðar lýtur að því að hann telur að viðmiðunarlaun eigi að ákvarða í samræmi við launakjör bankastjóra Landsbanka Íslands hf. við fall bankans árið 2008, uppreiknuð með vísitölu til júlí 2010, eða eftir atvikum við laun sparisjóðsstjóra varnaraðila á árinu 2008. Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að slíkur réttur verði fortakslaust leiddur af tilvitnuðum ákvæðum í ráðningarsamningi hans. Verður hér að hafa í huga að launahækkanir eða viðmið sem mælt er fyrir um í 5. gr. ráðningarsamningsins hættu eðlilega að hafa áhrif eftir að sóknaraðili lét af starfi sínu á árinu 2002, enda frá þeim tíma vart um það að ræða að laun hans yrðu hækkuð þar sem hann var ekki lengur í starfi fyrir Sparisjóð Hafnarfjarðar. Eru ekki efni til annars en að fallast á þær röksemdir varnaraðila, sem fá styrka stoð í tilvitnuðum ákvæðum samningsins, að sóknaraðili hafi átt rétt til þeirra eftirlauna sem hann hafði áunnið sér þegar hann lét af starfi. Eru að mati dómsins ekki efni til að skilja þetta orðalag svo þröngum skilningi að það nái aðeins til þess hvert hlutfall skuli miða við af viðmiðunarlaunum, heldur verði og að hafa í huga hver verið hafi verið launkjör sóknaraðila á þeim tímapunkti. Þá kemur fram í málatilbúnaði varnaraðila að viðmiðunarlaun til útreiknings eftirlauna sóknaraðila hafi verið ákveðin til samræmis við eftirlaun annars sparisjóðsstjóra sem starfað hafi samhliða honum en hafi ekki látið af störfum fyrr en nokkrum árum síðar. Varnaraðili hefur sýnt fram á með útreikningum sem sóknaraðili hefur ekki mótmælt að viðmiðunarlaun sem þannig eru lögð til grundvallar (sem samsvara 1.223.261 krónu á mánuði) séu hærri en verið hefði ef laun þau sem sóknaraðili naut þegar hann var síðast á launaskrá hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar hefðu verið uppreiknuð í samræmi við vísitölu til júlímánaðar 2010 (sem samsvara 1.190.720 krónum á mánuði). Kemur og fram hjá varnaraðila að þetta hafi stjórn varnaraðila samþykkt. Var þessi ráðstöfun því til hagsbóta fyrir sóknaraðila. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar er fallist á með varnaraðila að slitastjórn hans hafi réttilega ákveðið fjárhæð eftirlaunakröfu sóknaraðila við slitameðferðina í samræmi við ákvæði ráðningarsamningsins.
Á grundvelli ráðningarsamnings síns við Sparisjóð Hafnarfjarðar á sóknaraðili framangreinda kröfu á hendur varnaraðila. Krafan er fjárkrafa sem gjaldfalla átti við nánar tilgreindar aðstæður og er háð eignarrétti sóknaraðila. Á hinn bóginn hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann eigi eignarrétt að tilteknum verðmætum í vörslum þrotabúsins, sem þannig hafi verið sérgreind að ákvæði 109. gr. laga nr. 21/1991 leiði til þess að hann eigi rétt á afhendingu þeirra utan skuldaraðar. Breytir engu í þessu sambandi þó vera kunni að í bókhaldi varnaraðila hafi verið tilgreind fjárhæð lífeyrisskuldbindinga eða jafnvel að lagt hafi verið til hliðar ákveðin fjárhæð til að mæta slíkum skuldbindingum. Þegar af þessum ástæðum verður fallist á með varnaraðila að hafna beri kröfu sóknaraðila um að krafa hans teljist krafa utan skuldaraðar á grundvelli síðastnefndrar lagareglu.
Loks byggir sóknaraðili á því að krafa hans skuli teljast forgangskrafa á grundvelli 1. tl. eða 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Byggir sóknaraðili einkum á því að krafa hans sé vegna endurgjalds fyrir vinnu sem þegar hafi verið innt af hendi og sé því launakrafa í skilningi framangreinds lagaákvæðis eða til vara krafa um bætur vegna slita á vinnusamningi. Af fjölmörgum dómum Hæstaréttar um skýringu orðasambandsins „laun eða annað endurgjald fyrir vinnu“ í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 verður ráðið að til að um geti verið að ræða endurgjald fyrir vinnu þurfi greiðsla beinlínis að eiga rót að rekja til vinnuframlags viðkomandi manns. Liggur og fyrir að því hefur verið hafnað að skilja beri ákvæðið svo rúmt að það taki til allra greiðslna sem launþegi fær frá vinnuveitanda sínum. Krafa sóknaraðila átti að falla í gjalddaga mánaðarlega frá því að hann næði 65 ára aldri, eða að uppfylltum öðrum nánar greindum skilyrðum sem ekki eru heldur komin fram, án þess að á móti skyldi koma vinnuframlag af hans hálfu. Ekki eru efni til að fallast á þá röksemd sóknaraðila að eftirlaun hans geti talist endurgjald fyrir vinnu sem þegar hafi verið innt af hendi þannig að fellt verði undir 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá er ekki unnt að fallast á að krafa sóknaraðila geti talist krafa um bætur vegna slita á vinnusamningi þannig að unnt sé beita 2. tl. sama ákvæðis. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar er fallist á með varnaraðila að hafna beri varakröfu sóknaraðila um að krafa hans verði talin forgangskrafa skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Engin rök eru til þess að telja að krafa sóknaraðila falli undir skilgreiningu þá á innstæðu sem fram kemur í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en slíkar kröfur njóta stöðu forgangskrafna í slitabúi fjármálafyrirtækja skv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Er málatilbúnaður sóknaraðila að því er þetta varðar óljós og eiga hér að sumu leyti við þau sjónarmið sem rakin voru hér að framan í tengslum við kröfu hans sem byggist á 109. gr. laga nr. 21/1991. Er því þar hafnað að krafa sóknaraðila geti talist nægilega sérgreind til að fást greidd utan skuldaraðar. Er að mati dómsins einsýnt að krafan getur heldur ekki talist innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og er kröfunni hafnað þegar af þeim ástæðum.
Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er staðfest sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila að krafa sóknaraðila að fjárhæð 78.362.600 krónur sé viðurkennd sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila.
Varnaraðili hefur ekki mótmælt kröfu sóknaraðila um að krafa hans skuli bera dráttarvexti á þeim grunni að slitastjórn hans hafi ekki tekið afstöðu til eftirstæðra krafna. Þykir því ekki ástæða til annars en að viðurkenna dráttarvaxtakröfu sóknaraðila frá gjalddaga hennar 2. júlí 2010 til greiðsludags. Er í samræmi við yfirlýsingu lögmanns sóknaraðila við munnlegan málflutning ekki ágreiningur um að krafan teljist eftirstæð, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991 og verður hún tekin til greina sem slík.
Í ljósi framangreindra málsúrslita verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts, sem og útlagðs kostnaðar sóknaraðila.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila, Byrs sparisjóðs í slitameðferð, að viðurkenna kröfu sóknaraðila, Jónasar Reynissonar, nr. 115 í kröfuskrá varnaraðila, sem almenna kröfu, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 78.362.600 krónur við slitameðferð varnaraðila.
Framangreind fjárhæð skal bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2010 til greiðsludags og er þeirri kröfu skipað í skuldaröð sem eftirstæðri kröfu, sbr. 114. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 877.500 krónur í málskostnað.