Hæstiréttur íslands

Mál nr. 279/2005


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Kærumál


Þriðjudaginn 28

 

Þriðjudaginn 28. júní 2005.

Nr. 279/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili, sem kveðst nú vera X, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Áður var hún með dómi Hæstaréttar 21. júní 2005 dæmd til að sæta gæsluvarðhaldi, en þá kvaðst hún heita [...].

Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. júní 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að henni verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa framið brot, sem geta varðað hana fangelsisrefsingu samkvæmt 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005.

  Fulltrúi lögreglustjóra hefur krafist þess að X, [kt.], breskum ríkisborgara, verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. júní nk. kl. 16 á grundvelli a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 en til vara að henni verði á grundvelli 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 bönnuð för frá Íslandi allt til fimmtudagsins 14. júlí nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögreglan  í Reykjavík hafi frá 9. þ.m. rannsakað ætluð fjársvik og skjalafals kærðu og manns  sem nefni sig Y en þann dag. hafi lögreglunni borist vitneskja um það frá starfsmönnum Landsbanka Íslands að seldir hefðu verið í útibúum bankans frá 19. – 31. maí sl. fjórir tékkar frá 2 bönkum í Bandaríkjunum. Hafi endurgreiðslu tékkanna í Bandaríkjunum verið hafnað á þeim forsendum að þeir væru falsaðir (counterfeit). Lögreglan hafi undir höndum 5 tékka samtals að andvirði 36.500 USD sem hafi verið endursendir bankanum. Séu þrír tékkanna framseldir með áritun á nafni Y, [kt.], og tveir með nafni X, [kt.] en eyðublöðin séu prentuð til þeirra sem reikningshafa.

Í ljós hafi komið að þau grunuðu höfðu haldið af landi brott  með ferjunni Norrænu 9. júní sl. áleiðis til Hanstholm í Danmörku með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum og Larvik á Hjaltlandi með bifreiðina [...], af gerðinni Toyota Land Cruiser 90,  skráðan 2005, en bifreiðina hafði Y tekið á leigu hjá bílaleigunni [...] þann 8. þ.m. til 22. þ.m.  Jafnframt hafi komið ljós að Y hafði einnig ferðast með ferjunni sömu leið 2. þ.m. og þá með aðra bifreið,  [...], ársgamla af gerðinni MMC Montero, sem hann hafði tekið á leigu hjá bílaleigunni [...] til 15. þ.m. Ekki sé nú vitað hvar sú bifreið sé niður komin.

Þann 10. þ.m. hafi af hálfu Héraðsdóms Reykjavíkur verið gefin út skipun um handtöku kærðu að beiðni þessa embættis og hafi þau verið handtekin af lögreglunni í Hanstholm í Danmörku við komu þangað kl. 16 þann 11. þ.m. sl. og hald lagt á bifreiðina [...]. Jafnframt hafi verið lagt hald á 10.000 evrur og 610.000 kr., sem kærðu höfðu í fórum sínum við handtöku. Hafi þau á grundvelli handtökuskipunarinnar verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 20. þ.m. í héraðsdómi Nyköbing Mors. Úrskurður þessi hafi verið staðfestur með dómi Vestari Landsréttar daginn eftir.

   Hafi kærðu í  Héraðsdómi Reykjavíkur þann 16. júní verið úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. júní 2005 kl. 16 á grundvelli a- og b-liða 1. mgr.  103. gr. laga nr. 19, 1994. “X” hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands og Hæstiréttur staðfest úrskurðinn í dómi uppkveðnum í gær með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laganna.

   Vísað sé til greinargerðar embættisins og forsendna nefnds úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní varðandi gang rannsóknar málsins til þess tíma.

   Kærðu hafi verið yfirheyrð um sakarefnið. Þau hafi neitað öllum sökum sem á þau hafa verið bornar. Landbanka  Íslands hafi nú borist til baka frá Bandaríkjunum allir tékkarnir sem innleystir hafi verið í bankanum.

   Í gær hafi lögreglunni borist rannsókn lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli á vegabréfi því, sem úrskurðarþoli framvísaði við komu sína til landsins. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar sé vegabréfið breytifalsað þ.e. skipt hafi verið um mynd í rétta vegabréfinu nr. 021165430 og límt yfir myndina og eldri plastfilmu bréfsins með annarri glærri plastfilmu. Vegabréf á nafni Y sé talið ófalsað.

Af myndum af bifreiðinni [...] megi sjá að límmiðar á bifreiðinni sem auðkenndu hana sem leigubifreið frá bílaleigunni [...] höfðu verið fjarlægðir af bifreiðinni þegar hald hafi verið lagt á hana. Bifreiðin [...] sé enn ekki fundin.

Í handtösku Y hafi fundist prentaður forgrunnur eyðublaða, sem svari til forgrunns á 2 tegundum tékka, sem framvísað hafi verið í Íslandsbanka og Landsbanka Íslands, en frumrit tékka, sem framvísað hafi verið í Íslandsbanka hafi enn ekki borist lögreglu.  Í ferðatölvu, sem hafi verið í tösku Y, hafi fundist sams konar áritanir á nafni þriggja banka og hafi verið á tékkum sem fram hafi komið í málinu. Þá hafi fundist í ritvinnsluforriti í tölvunni hluti af texta, sem sé að finna á nokkrum tékkanna, svo sem tékkanúmer, dagsetningar, fjárhæðir, nafn handhafa og áritunin “Memo Payable in Iceland.”

Telja verði að rannsókn á tölvu Y geti lokið á næstu dögum. Samkvæmt gögnum frá Íslandsbanka hafi tékkar þeir sem kærði innleystu í bankanum verið endursendir frá Bandaríkjunum 7. þ.m. Muni þeir vera væntanlegir ásamt frekari skýringum frá reikningsbönkum næstu daga.

   Á vegum Bandaríska sendiráðsins  í Reykjavík og á vegum Interpol sé verið að afla upplýsinga um Y, svo sem líkamleg einkenni og sakaferil.

Telja verði, samkvæmt framansögðu, að fyrir liggi sterkur og rökstuddur grunur um að kærðu hafi staðið saman að því að svíkja út verulegar fjárhæðir í bönkum í Reykjavík með innlausn tékka, sem þau hafi falsað frá rótum og að svíkja út á bílaleigum bifreiðar í því skyni að taka þær með sér brott af landinu. 

Þyki ætluð brot kærðu varða við 1. mgr. 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga br. 19, 1940 og  brot „X“ jafnframt við h-lið 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002.  Refsing fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. laganna geti varðað allt að 8 ára fangelsi og brot gegn 248. gr. allt að 6 ára fangelsi. Ætluð brot kærðu beinist að hagsmunum að andvirði að minnsta kosti um 12.000.000 kr.

Eins og að framan sé rakið sé rannsókn  málsins ekki lokið. Ætla megi að kærðu nái að spilla sakargögnum gangi þau laus. Jafnframt megi ætla að þau muni reyna að komast hjá málsókn með því að hverfa úr landi gangi þau laus. Verði að telja að rannsóknarhagsmunir séu ekki nægilega tryggðir með farbanni þar sem kærðu geti komist úr landi án vegabréfs til annars lands innan Schengen-svæðisins.

Fram er komin rökstuddur grunur um að kærða hafi framið verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu verði sök sönnuð. Þar sem rannsókn málsins er á byrjunarstigi er hætta á að kærða geti torveldað hana fari hún frjáls ferða sinna með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast meintu broti og hún hefur tengsl við. Kærða er erlendur ríkisborgari og má ætla að hún myndi reyna að komast úr landi og koma sér þannig undan frekari rannsókn, málsókn og refsingu fari hún frjáls ferða sinna. Þykja því skilyrði a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera uppfyllt. Ber með vísan til þessa að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærða sæti gæsluvarðhaldi eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

   Kærða, X, [kt.], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til  fimmtudagsins 30. júní  nk. kl. 16.00.