Hæstiréttur íslands

Mál nr. 614/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 16

 

Mánudaginn 16. nóvember 2009.

Nr. 614/2009.

Gljúfurbyggð ehf.

(Örn Karlsson framkvæmdarstjóri)

gegn

Gunnari Andrési Jóhannssyni

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

G ehf. höfðaði mál fyrir héraðsdómi og krafðist þess að nauðungarsala sem fram fór á fasteigninni I yrði ógilt, en eignin var slegin G á 45 milljónir króna. Einnig krafðist G ehf. endurgreiðslu ofgreidds fjár til G umfram það sem skilmálar veðskuldabréfa G á I gáfu tilefni til. Kröfugerð G ehf. fyrir héraðsdómi og málatilbúnaði í heild þótti svo áfátt að málinu var vísað frá héraðsdómi og staðfesti Hæstiréttur úrskurð héraðsdóms. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. október 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 5. október 2009.

Mál þetta barst Héraðsdómi Suðurlands 24. september sl. með bréfi Arnar Karlssonar, fyrir hönd Gljúfurbyggðar ehf. dagsettu sama dag.

Sóknaraðili í máli þessu er Gljúfurbyggð ehf. kt. 470503-2540, Klettagljúfri 10, 801 Selfossi, en varnaraðili er Gunnar Andrés Jóhannsson, kt. 230551-2519, Árbæ, 851 Hellu.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að nauðungarsala sem fram fór á fasteigninni Ingólfshvoll, fastanr. 171743, Ölfushreppi, þann 27. ágúst 2009 verði ógilt, en umrædd eign var slegin varnaraðila á 45 milljónir króna.  Einnig er krafist endurgreiðslu ofgreidds fjár til varnaraðila umfram það sem skilmálar veðskuldabréfa varnaraðila á Ingólfshvoli gefa tilefni til auk dráttarvaxta.  Enn er krafist að greiðsla sóknaraðila á 6 milljónum króna til varnaraðila þann 2. júní 2008, sem undir nauðung hafi verið skilgreind sem greiðsla á skuld þriðja aðila við varnaraðila verði færð sem greiðsla inn á veðskuldabréf varnaraðila með veði í fasteigninni Ingólfshvoli.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

 Í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 ber dómara að kanna hvort skilyrðum laganna til að leita úrlausnar dómsins sé fullnægt og ef svo er ekki vísar dómari málinu frá dómi með úrskurði án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi.

                Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 skal sá sem leitar úrlausnar um gildi nauðungarsölu tilkynna það héraðsdómara skriflega og í tilkynningunni skal m.a. koma fram hvers sé krafist fyrir héraðsdómara og á hverjum málsástæðum og lagarökum kröfur séu reistar.  Í bréfi sóknaraðila er kröfugerð lýst svo að krafist sé ógildingar nauðungarsölunnar, endurgreiðslu ofgreidds fjár til varnaraðila án þess að fjárhæðar sé getið og jafnframt að greiðsla sóknaraðila á 6 milljónum króna til varnaraðila þann 2. júní 2008, sem undir nauðung hafi verið skilgreind sem greiðsla á skuld þriðja aðila við varnaraðila verði færð sem greiðsla inn á veðskuldabréf varnaraðila með veði í fasteigninni Ingólfshvoli.   Í málavaxtalýsingu sóknaraðila eru hins vegar hafðar uppi margvíslegar kröfur umfram það sem hér hefur verið rakið.  Krefst varnaraðili skaðabóta frá varnaraðila vegna dráttarvaxta án nánari tilgreiningar og niðurfellingar á innheimtukostnaði.   Þá er krafist endurútreiknings á vísitölu neysluverðs og jafnframt er farið fram á að höfuðstóll og greiðslur verði leiðréttar vegna hinna sérstöku skilyrða sem myndast hafi í kringum verð á fasteignum og verði á olíu og bensíni á árunum frá hausti 2003 til ársbyrjunar 2008.  Þá er gerð krafa um lækkun á höfuðstól veðlána í eigu varnaraðila um tiltekna fjárhæð.  Í kaflanum um málsástæður er enn að finna nýjar kröfur, sóknaraðili fer fram á að svokallaður nauðungargjörningur 2. júní 2008 verði ógiltur þar sem sóknaraðili hafi verið þvingaður til að samþykkja að 6 milljónir af 12 milljón króna greiðslu, sem átt hafi að renna inn á veðskuldabréfin, skilgreindist sem greiðsla á skuld þriðja manns við varnaraðila.  

                 Skv. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991 skal almennum reglum um meðferð einkamála í héraði beitt við meðferð mála samkvæmt XIV. kafla laganna með þeim undantekningum er greinir í 1.-3. mgr. lagagreinarinnar.  Sóknaraðili hefur ekki einungis uppi kröfu um ógildingu nauðungarsölunnar heldur einnig ýmsar aðrar kröfur sem hann segir sér heimilt að hafa uppi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 83. gr. laganna.  Það er meginregla í einkamálaréttarfari að kröfugerð skuli vera svo ákveðin og ljós að hægt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu.  Þá skal greina málsástæður sem málsókn byggir á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málástæðna verði ljóst og skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er.  Með vísan til framanritaðrar lýsingar á kröfugerð og málsástæðum sóknaraðila er ljóst að málatilbúnaður hans er í því horfi að verulega skortir á að þessi skilyrði séu uppfyllt og verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.

                Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.