Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2009


Lykilorð

  • Skilasvik
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. júní 2009.

Nr. 43/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Hjalta Jósefssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Skilasvik. Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Sératkvæði.

H, framkvæmdastjóri F ehf., var ákærður fyrir skilasvik með því að hafa gefið út í heimildarleysi ávísun að fjárhæð 1.390.000 krónur á veðreikning félagsins hjá K hf. og innleyst hana sama dag hjá tilgreindum sparisjóði, þrátt fyrir yfirlýsingu um handveðsetningu reikningsins til framangreinds banka og ráðstafað þannig fé af reikningnum í blóra við handveðsetninguna. Talið var að með handveðsetningunni hefði veðþoli afsalað sér ráðstöfunarrétti yfir því fé sem á reikningnum væri hverju sinni á meðan handveðsetningin væri í gildi. Því hefði H, fyrir hönd F ehf., ráðstafað af ásetningi fjármunum félagsins sem annar aðili, K hf., hefði öðlast þau réttindi yfir að ráðstöfunin fékk ekki samrýmst þeim réttindum. Taldi Hæstiréttur háttsemi H brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafði H einnig verið ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem höfðu verið framin í rekstri F ehf. Hæstiréttur staðfesti sakfellingu héraðsdóms fyrir þau brot, þar sem H hefði sem stjórnarformanni og starfandi framkvæmdastjóra F ehf. borið að hlutast til um að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og skila innheimtum virðisaukaskatti, svo og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, til ríkissjóðs. Var H dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. desember 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt fyrri ákærulið, staðfestingar á sakfellingu ákærða samkvæmt seinni ákærulið en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi um fyrri lið ákærunnar, frávísunar frá héraðsdómi á síðari lið ákæru en til vara sýknu af þeirri háttsemi sem þar greinir.

Krafa ákærða um frávísun frá héraðsdómi á síðari lið ákæru er ekki studd haldbærum rökum og kemur hún ekki til álita.

Eins og lýst er í héraðsdómi er ákæra í máli þessu er tvíþætt. Annars vegar er ákært fyrir skilasvik með því að ákærði hafi 30. september 2003 gefið út í heimildarleysi ávísun að fjárhæð 1.390.000 krónur á veðreikning Ferskra afurða ehf. hjá Kaupþingi banka hf. í Búðardal nr. 312-26-115 og innleyst hana sama dag hjá tilgreindum sparisjóði, þrátt fyrir yfirlýsingu um handveðsetningu reikningsins til framangreinds banka, og ráðstafað þannig fé af reikningnum í blóra við handveðsetninguna. Hins vegar er ákært fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framin hafi verið í rekstri Ferskra afurða ehf. Með dómi héraðsdóms var ákærði sýknaður af fyrri ákæruliðnum en sakfelldur af hinum síðari.

Í héraðsdómi eru rakin atvik að handveðsetningu á reikningnum. Eins og þar kemur fram undirritaði ákærði sem prókúruhafi Ferskra afurða ehf. yfirlýsingu 1. nóvember 2001 um handveðsetningu nefnds bankareiknings og allrar innstæðu á honum hverju sinni vegna allra skulda og fjárskuldbindinga sem veðþoli undirgengist gagnvart veðhafa, Kaupþingi banka hf. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að hið handveðsetta skuli vera í vörslum og á ábyrgð veðhafa og honum til tryggingar og ráðstöfunar frá undirritun yfirlýsingarinnar og svo lengi sem hún gilti. Með handveðsetningu þessari afsalaði veðþoli sér ráðstöfunarrétti yfir því fé sem á reikningnum væri hverju sinni á meðan handveðsetningin væri í gildi. Handveðsetningin var gild að lögum og ákærði bær til að stofna til hennar fyrir hönd Ferskra afurða ehf. Þrátt fyrir handveðsetninguna gaf ákærði sem prókúruhafi Ferskra afurða ehf. út ávísunina 30. september 2003. Hann hefur enga trúverðuga skýringu gefið á því að hann hafi mátt ætla að þetta hafi verið honum heimilt. Þótt veðhafa hafi láðst að innkalla eða ónýta ávísanahefti sem hann hafði afhent á hinn handveðsetta reikning fyrir veðsetninguna og ekki gert aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að aðrir en hann gætu ávísað á reikninginn, stendur það ekki í vegi fyrir því að ákærða verði refsað fyrir háttsemina. Með háttseminni ráðstafaði ákærði fyrir hönd Ferskra afurða ehf. af ásetningi fjármunum félagsins sem annar aðili, Kaupþing banki hf., hafði öðlast þau réttindi yfir að ráðstöfunin fékk ekki samrýmst þeim réttindum. Með þessari háttsemi braut ákærði gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður honum refsað fyrir það brot.

Niðurstaða héraðsdóms um síðari ákæruliðinn verður staðfest með vísan til forsendna.

Samkvæmt framangreindu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, verður ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð.

Niðurstaða héraðsdóms um sektargreiðslu ákærða, vararefsingu ef sektin greiðist ekki og um sakarkostnað verður staðfest. 

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Hjalti Jósefsson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sektargreiðslu og vararefsingu skal vera óraskað.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 450.806 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.  

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Í skjali sem ber yfirskriftina „Handveðsetning vegna allra skulda“ og ákærði undirritaði 1. nóvember 2001 fyrir hönd Ferskra afurða ehf. er tekið fram að félagið setji Búnaðarbanka Íslands hf. að handveði „Tékkareikning nr. 312-26-115 og alla innistæðu hans, eins og hún er hverju sinni.“ Hvergi er í skjalinu tekið fram að veðsala skuli framvegis verða óheimilt að ávísa á reikninginn og fyrir liggur að ákærði hafði undir höndum tékkhefti frá bankanum til afnota vegna þessa tékkareiknings. Í málflutningi ákæruvalds felst að innistæðan á tékkareikningnum við útgáfu skjalsins hafi verið veðsett bankanum með sama hætti og verið hefði ef sparisjóðsinnistæða hefði verið veðsett og bankinn tekið hana í sínar vörslur á þann veg að veðsali væri útilokaður frá að ráðstafa innistæðufé af reikningnum. Svo var ekki heldur var „tékkareikningur“ veðsettur en það sem greinir hann frá almennum sparisjóðsreikningi er einmitt heimildin til að ráðstafa fé af honum með því að gefa út tékka. Að auki sagði í yfirlýsingunni berum orðum, svo sem fyrr greinir, að veðsett væri innistæðan „eins og hún er hverju sinni.“

Fallast ber á með héraðsdómi að við þennan löggerning hafi ekki verið aflað þeirrar réttarverndar fyrir handveð sem kveðið er á um í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er það skilyrði refsingar samkvæmt ákvæðinu að ráðstafað sé fjármunum „sem annar maður hefur eignast þau réttindi yfir, að verknaðurinn verður ekki samrýmdur réttindum hans.“ Ég tel augljóst að þessu skilyrði sé ekki fullnægt og reynir því að mínu mati ekki á meginreglu refsiréttar um að vafa um „hvert það atriði sem varðar sekt“, svo sem það er orðað í 109. gr. laga nr. 88/2008, beri að skýra ákærða í hag. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að mínum dómi að staðfesta niðurstöðu hans um að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

 Ég er sammála meirihlutanum um að staðfesta beri með vísan til forsendna niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um síðari lið ákærunnar.

Samkvæmt framansögðu tel ég að staðfesta beri héraðsdóm. Með vísan til þess að ákæruvaldið krafðist við áfrýjun málsins breytingar á sýknuhluta héraðsdóms, en þeirri kröfu ber að hafna að mínum dómi, tel ég rétt að helmingur áfrýjunarkostnaðar málsins verði lagður á ríkissjóð en ákærða gert að greiða helming hans. Ég er sammála niðurstöðu meirihlutans um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 24. október 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. október sl. að aflokinni aðalmeðferð og munnlegum málflutningi, höfðaði ríkislögreglustjórinn með ákæru, útgefinni 11. febrúar sl., á hendur Hjalta Jósefssyni, kt. 231251-4219, Melavegi 5, Hvammstanga, og A, kt. […],[…], Akureyri,:

„I.

Á hendur Hjalta Jósefssyni fyrir skilasvik, með því að hafa þann 30. september 2003 gefið út í heimildarleysi ávísun nr. 5530376 að fjárhæð kr. 1.390.000 á veðreikning Ferskra afurða ehf. númer 312-26-115 hjá Kaupþing banka hf. í Búðardal og innleyst hana sama dag hjá Sparisjóði Húnaþings og Stranda, þrátt fyrir yfirlýsingu um handveðsetningu veðreikningsins til Kaupþings banka hf. og ráðstafað þannig fjármunum af veðreikningnum sem bankinn hafði full yfirráð yfir og var því útgáfa ávísunar á reikninginn með öllu óheimil.

II.

Á hendur ákærða Hjalta sem framkvæmdastjóra og á hendur ákærða A sem stjórnarmanni, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framin voru í rekstri einkahlutafélagsins Ferskra afurða, kennitala 590500-2590, með því að hafa:

1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna mars til og með október tekjuárið 2003 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins á uppgjörstímabilunum janúar til og með október tekjuárið 2003, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 16.422.069, og sundurliðast sem hér greinir:

 

Uppgjörstímabil:

 

 

Vangoldinn

VSK:

 

Árið 2003

janúar-febrúar

mars-apríl

maí-júní

júlí-ágúst

september-október

 

 

 

kr.          -4.948

kr.    3.227.068

kr.    7.548.994

kr.    5.414.920

kr.       236.035

 

Samtals:

 

 

 

 

 

kr. 16.422.069

 

kr. 16.422.069

 

2. Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna janúar til og með ágúst árið 2003 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna fyrrgreindra tímabila, samtals að fjárhæð kr. 5.461.694, og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 2003

Vangoldin staðgreiðsla:

 

janúar

kr.        617.042

 

febrúar

kr.        528.809

 

mars

kr.        627.965

 

apríl

kr.        668.461

 

maí

kr.        863.967

 

júní

kr.        739.206

 

júlí

kr.        772.432

 

ágúst

kr.        643.812

kr. 5.461.694

 

Samtals:     

kr. 5.461.694

 

Framgreint brot í I. kafla telst varða við 2. tölulið 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Framangreind brot ákærðu í II. kafla teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru og

b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

Í ákæruskjali greinir, að útgáfudagur ákærunnar hafi verið 11. febrúar 2007, en við aðalmeðferð málsins var það leiðrétt, svo að útgáfudagur ákærunnar telst vera 11. febrúar 2008. Jafnframt var leiðrétt, að nefnd ávísun í I. hluta ákæru var gefin út og innleyst hinn 29. september 2003, en ekki 30. september eins og í ákæru greinir, og er það í samræmi við gögn málsins. Þá féll ákæruvaldið undir rekstri málsins frá þeim hluta ákæru í 1. tölulið II. kafla ákæru, sem varðar uppgjörstímabil virðisaukaskatts í september og október 2003 að upphæð 236.035 krónur, þannig að endanleg fjárhæð í þessum hluta ákæru telst vera 16.186.034 krónur.

Jafnframt var upplýst, að kröfur vegna greiðslutímabilanna janúar og febrúar 2003, samtals 1.145.851 króna, í 2. tölulið II. kafla ákæru, hefðu verið að fullu greiddar og uppgerðar.

Ákærðu neita sök í málinu.

Ákærði Hjalti krefst sýknu af I. ákærulið en aðallega frávísunar ákæruliðar II. Til vara krefst hann sýknu af ákærulið II. Vegna beggja ákæruliða krefst ákærði til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa og skilorðsbindingar hennar. Þá krefst verjandi hans í öllum tilvikum málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Ákærði A krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsiákvörðun verði frestað eða dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa og hún þá öll skilorðsbundin, þ. á m. sektargreiðsla ef til kemur. Þá krefst verjandi hans í öllum tilvikum málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málavextir

Ákæruliður I

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Ferskra afurða ehf., dagsett 1. nóvember 2001, þar sem Ferskar afurðir ehf. setja Búnaðarbanka Íslands hf. að handveði „Tékkareikning nr. 312-26-115 og alla innistæðu hans, eins og hún er hverju sinni.“ Segir í yfirlýsingunni að hið handveðsetta sé í vörslum og á ábyrgð veðhafa og verði svo lengi sem yfirlýsingin gildir. Undir yfirlýsinguna skrifar ákærði Hjalti Jósefsson fyrir hönd Ferskra afurða ehf.

Þá liggur fyrir í málinu ávísun nr. 5530376 á reikning nr. 115 í Búnaðarbanka Íslands, Búðardal, að fjárhæð 1.390.000 krónur. Ávísunin er gefin út af ákærða Hjalta  pr. pr. Ferskar afurðir ehf. og framseld af ákærða Hjalta. Samkvæmt gögnum málsins var ávísunin innleyst í Sparisjóði Húnaþings og Stranda á Hvammstanga hinn 29. september 2003.

Ákæruliður II

Með bréfi hinn 26. mars 2004 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins skiptastjóra þrotabús Ferskra afurða ehf. að embættið hefði hafið rannsókn á skilum félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna ársins 2003, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands vestra 18. nóvember 2003 og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 10. desember sama ár. Hafði félaginu áður verið veitt heimild til greiðslustöðvunar hinn 23. september til 14. október 2003. Voru skýrslur teknar af ákærðu hjá skattrannsóknarstjóra hinn 4. maí 2004 að viðstöddum skipuðum verjanda þeirra. Við skýrslutökur lagði verjandi þeirra fram bréf, þar sem því var lýst, að fyrirsvarsmenn Ferskra afurða ehf. hefðu ekki haft tök á að skila innheimtum virðisaukaskatti sökum þess, að Kaupþing-Búnaðarbanki hf.,  sem verið hefði með alla sölureikninga Ferskra afurða ehf. í innheimtu, hefði ekki skilað Ferskum afurðum ehf. andvirði reikninganna svo félagið gæti gert skil á virðisaukaskatti. Neituðu ákærðu að tjá sig frekar um málið fyrr en þáttur bankans hefði verið rannsakaður. Var þeim svo tilkynnt með bréfi 1. febrúar 2005 um fyrirhugaða ákvörðunartöku skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir eða tjá sig frekar um málið. Bárust engar athugasemdir frá ákærðu og var málinu vísað til opinberrar rannsóknar til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hinn 22. febrúar 2005.

Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var skráður tilgangur Ferskra afurða ehf. rekstur slátur- og frystihúss, svo og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Var ákærði Hjalti skráður formaður stjórnar félagsins og framkvæmdastjóri með prókúru allt frá stofnun þess 16. apríl 2000 og þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta hinn 18. nóvember 2003. Ákærði A var meðstjórnandi á sama tíma.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitnis fyrir dómi eftir því sem þurfa þykir.

Ákærði A kvaðst hafa verið meðstjórnandi hjá Ferskum afurðum ehf. árið 2003. Hann kvaðst hafa komið að félaginu sem stofnandi og fjárfestir, verið hluthafi og eigandi í fyrirtækinu að helmingshlut, en ekki skipt sér að öðru leyti af rekstri félagsins. Persónulegt vinnuframlag hans í þágu rekstrar félagsins hafi ekkert verið og hefði hann aldrei þegið laun frá félaginu. Um innri málefni félagsins hefði hann í raun enga vitneskju haft eða hvernig rekstri félagsins væri háttað, enda ekki tekið með neinum hætti þátt í daglegri stjórn þess. Hann hafi ekki  komið að ráðningu starfsfólks og þá hafi hann ekki haft aðgang eða lyklavöld að starfsstöð félagsins. Hann kvaðst ekki hafa komið nálægt bókhaldi félagsins eða skattskilum og kvaðst ekki hafa neina vitneskju um það, enda hefði hann enga þekkingu á bókhaldi eða reikningshaldi. Hann kvaðst ekki hafa haft umráðarétt yfir bankareikningum félagsins, annast greiðslur fyrir þess hönd eða komið að innheimtu krafna. Þá hefði hann ekki komið nálægt skilum á virðisaukaskattsskýrslum eða skilagreinum opinberra gjalda til innheimtumanns ríkissjóðs, né vitað hvernig þeim fjármunum, vörslusköttum og virðisaukaskatti hafi verið ráðstafað. Hefði stjórn félagsins ekki komið nálægt skattskilunum, en taldi hann ákærða Hjalta hafa séð um þennan þátt í rekstri félagsins ásamt starfsmanni á skrifstofu þess. Hann sjálfur hefði ekki undirritað nein skjöl á vegum félagsins, hvorki skattskýrslur né skilagreinar, en taldi sig hugsanlega hafa undirritað ársreikning félagsins frá fyrri árum, en ekki ársreikning fyrir rekstrarárið 2003, þar sem félagið varð gjaldþrota á því ári. Aðspurður kvaðst hann hafa lesið ársreikning yfir fyrir skil hans. Hann kvaðst  einungis hafa lagt fjármuni inn í félagið, en hugsanlega ekki gert sér grein fyrir ábyrgð sinni sem stjórnarmanns í því. Hann hafi litið svo á, að hann væri einungis að formi til skráður í stjórn og þyrfti aðeins að mæta á fundi en ekki leitt hugann að ábyrgðinni sem því fylgdi.

Við skýrslugjöf fyrir dóminum kannaðist ákærði Hjalti við ávísun sem um ræðir í I. kafla ákæru og þekki undirskrift sína bæði sem útgefanda og framseljanda. Andvirði ávísunarinnar kvað hann hafa verið lagt inn á reikning á nafni félagsins í Sparisjóði Húnaþings og Stranda sama dag og tékkinn var innleystur. Tilgang útgáfu ávísunarinnar sagði hann hafa verið þann að greiða laun starfsmanna Ferskra afurða ehf., en hann kvaðst ekki hafa vitað af handveðsetningu þess reiknings, sem ávísunin vísaði á, til Búnaðarbankans. Hann kannaðist þó við undirskrift sína á skjali, sem honum var sýnt og felur í sér handveðsetningu allra skulda félagsins til bankans. Taldi hann það hafa verið svo mörg skjöl, sem hann hefði skrifað undir, og því hefði hann ekki munað sérstaklega eftir þessu skjali. Kvaðst ákærði alltaf hafa haft ávísanahefti undir höndum, sem vísaði á reikning nr. 115 hjá bankanum og hefði hann notað hann áður. Hann mundi þó ekki hvort hann hefði notað ávísanaheftið til útgáfu ávísana á reikninginn eftir handveðsetningu reikningsins, en taldi það þó hafa gerst. Taldi ákærði, að annar reikningur hefði jafnframt verið hjá bankanum á nafni félagsins, en kannski hefðu þeir verið fleiri. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því, að umræddur reikningur hefði verið að handveði hjá bankanum og taldi sig geta ávísað á þann reikning. Samskipti sín við útibú bankans í Búðardal, þar sem reikningurinn var, hefðu verið lítil á þessum tíma. Spurður hvort hann teldi samkomulag hafa náðst við bankann um úttekt af reikningnum á þessum tíma, kvað hann einhverjar viðræður hafa verið í gangi milli lögmanns síns og lögmanns bankans, sem hafi gefið sér tilefni til að halda „að þetta væri eitthvað að opnast“ þannig að félagið fengi einhverja fyrirgreiðslu hjá bankanum. Hann kvaðst hafa skilið það svo, að í viðræðum þeim, sem lögmaður hans hefði átt við lögmann bankans, hefði verið rætt um greiðslur til handa félaginu af umræddum veðreikningi nr. 115 í útibúi bankans í Búðardal. Um efni samkomulagsins taldi hann, að ekki hefði verið lokað fyrir úttektir af handveðsreikningnum, enda hefði félagið átt meiri birgðir af afurðum, en áður hefði verið talið, og voru veðsettar bankanum. Kvaðst hann hafa verið í góðri trú og talið stig hafa haft heimild til að gefa út ávísunina. Hann hefði ekki leitt hugann sérstaklega að því, hvort um venjulegan ávísanareikning fyrirtækisins hefði verið að ræða eða ekki.

Varðandi II. kafla ákærunnar bar ákærði að bankinn hefði haldið eftir virðisaukaskattinum af innheimtum reikningum og þannig komið í veg fyrir að félagið gæti greitt virðisaukaskattinn. Ekkert skriflegt samkomulag hefði verið gert í þeim efnum, enda hefðu skattarnir ekki verið í eigu félagsins. Þótt félagið ætti að standa skil á greiðslu vörsluskattanna, þá hefði greiðsla þeirra til félagsins verið forsenda þess, að félagið hefði getað skilað þeim til ríkissjóðs. Bankinn hefði þannig komið í veg fyrir, að félagið hefði getað greitt skattana til ríkissjóðs. Ákærði kvað félagið ekki hafa getað nýtt fé, sem félagið fékk greitt fyrir aðrar afurðir og greitt var inn á aðra reikninga félagsins, og greitt skattana með því, þar sem það hefði farið til bænda sem greiðsla fyrir aðrar afurðir, aðallega nautgripi og hross. Ákærði var spurður um dagsetningar á virðisaukaskattsskýrslum, sem væru löngu eftir lögboðinn gjalddaga tímabilanna, og kvaðst hann ekki muna það svo glögglega, en einhverjar skýrslur hefðu verið gerðar, þegar endanlegt bókhald fyrir rekstrarárið hefði legið fyrir. Kvað ákærði Sigrúnu Þórðardóttur, gjaldkera félagsins, hafa annast skil á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og greiðslu virðisaukaskatts, en hún hefði fært bókhald félagsins og séð um greiðslur og annað því viðkomandi. Aðkoma hans hefði engin verið, þrátt fyrir að hafa verið framkvæmdastjóri félagsins. Ákærði var spurður, hvort hann hefði ekki álitið það vera sitt hlutverk að sjá til þess, að þessu yrði framfylgt, en bar, að félagið hefði verið komið í erfiðleika á þessum tíma og hann hefði haft um margt annað að hugsa. Hann sagði að hið sama hefði gilt um skilagreinar og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra.

Borinn var undir ákærða afurðalánasamningur félagsins við bankann og sagði hann, að þær afurðir, sem þar væru tilgreindar, hefðu verið sauðfjárafurðir, sem slátrað var á haustin, en lánasamningurinn hefði ekki náð yfir sumarslátrun, nautgripi eða hross. Í samræmi við efni samningsins hafi félagið talið allt dilkakjöt úr haustslátrun og skilað afurðaskýrslu til bankans mánaðarlega og hefði hann sjálfur séð um þá skýrslugjöf. Í samræmi við skýrslurnar hefði verið greiddur mismunur af veðreikningi félagsins inn á rekstrarreikning félagsins, en ekki kvaðst hann vita nákvæmlega eftir hvaða reglum þær greiðslur voru reiknaðar og hann hafi aldrei séð nokkrar reglur þar um. Honum hefði svo verið tilkynnt, eftir birgðatalningu bankastjórans í Mosfellsbæ, að ekki yrði frekar greitt af veðreikningi félagsins, vegna þess að birgðir félagsins væru minni en uppgefið hefði verið. Ákærði kvaðst þá hafa viljað fá sérstakan talningarmann til verksins og hefði Stefán Vilhjálmsson, yfirkjötmatsmaður, komið og talið og staðfest skýrslu félagsins á birgðum í eigu þess sem rétta. Ákærði bar að honum hafi þá fundist sem verið væri að „klemma“ að félaginu og rekstrinum af hálfu bankans með því að rengja birgðamagnið. Að sögn ákærða hafi útibú bankans í Búðardal fengið reikninga sem útgefnir voru vegna sölu á kjöti sem féll undir afurðalánasamninginn til innheimtu samkvæmt samningi við bankann. Allir þessir reikningar hafi verið með virðisaukaskatti. Félagið sjálft hefði séð um innheimtu reikninga fyrir hrossa- og nautakjöt. Andvirði þeirra reikninga, sem bankinn hefði séð um innheimtu á, hefði verið ráðstafað inn á handveðsreikning félagsins hjá útibúi bankans. Ákærði kvaðst ekki hafa fylgst mikið með þeirri innheimtu sjálfur og ekki muna hvort bankinn hafi sent félaginu yfirlit um innheimtuna. Sumarslátrun hefði ekki verið tengd samningi félagsins við bankann, en bankinn hefði þó séð um innheimtu á þeim reikningum. Lunginn úr því fé, sem fengist hefði við sölu annarra afurða en úr haustslátrun, hefði verið nýttur til að greiða bændum, en hluti farið í aðra þætti rekstrarins en ekki til að greiða virðisaukaskatt, enda hefði féð ekki verið til þess. Bankinn hefði í fyrstu greitt af innheimtu fé til félagsins, en svo hætt að greiða af reikningnum til félagsins og varð það til þess, að félaginu var ómögulegt að greiða innheimtan virðisaukaskatt. Ágætlega hefði gengið hjá félaginu að fá virðisaukaskattinn til áramóta 2002-2003. Reynt hefði verið að fá peninga til að greiða virðisaukaskattinn hjá bankanum síðar, en það hefði ekki gengið.

Ákærði kvað meðákærða A ekki hafa komið með neinum hætti nálægt stjórn félagsins eða skattskilum þess á rekstrarárinu 2003.

Vitnið Stefán Jónsson, útibússtjóri Kaupþings í Búðardal, sagði að ávísanareikningur nr. 115 hafi verið settur bankanum að handveði. Vitnið var spurt hvernig á því hefði staðið að til væri útistandandi ávísanahefti á reikninginn og sagði það að upphaflega hefðu reikningar félagsins hjá bankanum verið tveir, en hugmyndin hefði verið sú, að taka annan reikninginn og breyta honum í handveðsreikning. Þetta hefði verið ákveðið áður en vitnið hefði komið til starfa hjá bankanum. Reikningnum hefði átt að læsa fyrir útborgun til annarra en starfsmanna bankans og skyldi hann endurspegla afurðalánaviðskipti félagsins og uppgjör á afurðalánum. Einhvers staðar hefði þó verið til gamalt ávísanahefti, sem „ekki hafi verið strokað út úr kerfunum“ þannig að þar hafi verið lykill að reikningnum, sem menn hefðu ekki gert sér grein fyrir að væri til, og þannig hefði verið unnt að ávísa á reikninginn líkt og gert var. Bankinn hefði ekki orðið var við, að fleiri ávísanir hefðu verið gefnar út á reikninginn. Vitnið taldi, að eftir að reikningurinn hafi verið settur að handveði, hefði ekkert í samskiptum félagsins við bankann getað gefið fyrirsvarsmönnum þess tilefni til þess að ætla að þeir mættu gefa út ávísun á reikninginn þrátt fyrir handveðssamninginn. Það eina sem gleymst hefði hjá bankanum, þar sem verið var að breyta gömlum ávísanareikningi í handveðsreikning, hefði verið að loka á þær ávísanir, sem bankinn hefði áður fengið félaginu til ávísunar á reikninginn. Aldrei hefði verið samið um að félagið mætti gefa út ávísanir á reikninginn.

Vitnið sagði að aldrei hefði verið samið um að bankinn ætti að ráðstafa virðisaukaskatti eða staðgreiðslum til ríkissjóðs. Lánafyrirkomulagið hefði verið með þeim hætti, að ákveðin fjárhæð hefði verið lánuð á hvert kíló og svo gerð skýrsla um það, hversu mikið hefði verið selt af því magni. Þegar sú skýrsla hefði verið komin fram, þá hefði verið gengið á reikning nr. 115 til að taka út hina veðsettu upphæð auk vaxta. Félagið hefði svo fengið afganginn til frjálsrar ráðstöfunar. Bankinn hefði þannig ekki komið í veg fyrir það, að félagið stæði skil á virðisaukaskatti eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Hefðu forsvarsmenn félagsins aldrei haft samband við bankann til þess að fá hann til að ráðstafa fjármunum til ríkissjóðs.

Vitnið sagði að greiðslur út af umræddum reikningi nr. 115 hefðu farið eftir ákveðnu veðhlutfalli, sem byggðust á þeim afurðalánaskýrslum, sem framkvæmdastjóri Ferskra afurða ehf. hefði sent Búnaðarbankanum mánaðarlega. Hefði það verið gert þrátt fyrir handveðssamninginn, en einnig hefði verið litið til annarra útistandandi krafna. Ef birgðir væru til, þá væri ekki allt veðsett að fullu, enda væru ekki veðsett nema um 70-75% af ætluðu útsöluverði birgða. Væri reglurnar, sem bankinn fylgdi við þessa framkvæmd, að finna í afurðalánasamningnum sjálfum. Lánað hefði verið vegna haustslátrunar dilkakjöts, en aðrar afurðir hefðu ekki verið veðsettar. Handveðssamningurinn hefði verið afurðalánasamningnum til viðbótar og verið ætlað að tryggja framgöngu hans, þannig að bankinn ætti fyrstu aðkomu að því fjármagni, sem lánað hefði verið út á þessar afurðir, áður en afganginum yrði deilt út. Handveðssamningurinn upphæfi afurðalánasamninginn því á engan hátt, heldur hefði verið honum til stuðnings.

Borinn var undir vitnið innheimtusamningur við Ferskar afurðir ehf, sem vitnið sagði vera um aðgang að kröfulínu bankans, þannig að bankinn tæki að sér að innheimta útgefna reikninga félagsins. Allir reikningar, sem bankinn innheimti á grundvelli þessa samnings, hefðu verið greiddir inn á reikning nr. 115. Framkvæmdin hafi verið þannig að félagið afhenti bankanum reikninga til innheimtu og þegar þeir voru greiddir hafi öll fjárhæðin verið lögð inn á reikning nr. 115. Sú fjárhæð hefði síðan öll gengið til greiðslu á skuldum félagsins við bankann. Þegar afurðaskýrslur lágu fyrir hafi reikningurinn verið gerður upp í samræmi við skýrslurnar. Í innheimtusamningnum hefði ekki falist að öll viðskipti félagsins ættu að fara í gegnum reikning nr. 115 hjá bankanum. Félagið hefði sjálft getað sent út sína reikninga og bókað allt hjá sér. Aðeins hefði verið um innheimtuþjónustu bankans að ræða

Vitnið var spurt hvort bankinn væri þar með að innheimta virðisaukaskatt, þegar innheimtar hefðu verið kröfur félagsins, og svaraði það því til, að bankinn veitti félaginu þá þjónustu að tölvukerfi hans væri nýtt til útsendingar og innheimtu útskrifaðra reikninga félagsins. Innstæða á reikningnum hefði fyrst verið nýtt til uppgjörs á stöðu afurðalánasamningsins en félagið fengið þá fjárhæð til ráðstöfunar, sem út af stóð. Á reikningi 115 hefði því verið öll fjárhæð innheimtra reikninga, þar með talinn innheimtur virðisaukaskattur. Hefði bankinn hvorki velt fyrir sér, hvað sérstaklega ætti að kallast innheimtur virðisaukaskattur, né haldið þeirri tölu sérgreindri, þrátt fyrir að fjárhæð virðisaukaskatts hafi komið fram á hverjum reikningi. Bankinn hefði gengið að þeim peningum, sem komu  inn á reikninginn, og hefði þar ekki verið gerður greinarmunur á virðisaukaskatti og öðrum fjármunum. Vitnið kvaðst ekki muna, hvort Ferskar afurðir ehf. hefðu fengið nokkrar greiðslur af reikningnum eftir júlímánuð 2003. Reikningurinn hefði verið félaginu læstur, hann verið til uppgjörs á afurðalánum, en honum hefði greinilega ekki verið lokað, þar sem tekið var út af honum í lok september 2003, það er með ávísun útgefinni af ákærða Hjalta hinn 29. september 2003. Greitt hefði verið út af reikningnum inn á afurðalánasamninginn og greitt hefði verið út af reikningnum til félagsins sjálfs, þar á meðal í september 2003. Að sögn vitnisins hefði félagið getað samið svo um við bankann, að greidd yrði fjárhæð, sem næmi virðisaukaskatti af innheimtum reikningum, til ríkissjóðs, ef forsendur afurðalánsins hefðu staðist og nægar birgðir hefðu staðið að baki útlánum á grundvelli samningsins. Hefði skort þar á, hefði bankinn fyrst tekið greiðslur fyrir láninu, og að líkindum ekki greitt virðisaukaskattinn til ríkissjóðs. Vitnið kvaðst ekki hafa þurft að gera sér grein fyrir, að um vörsluskatt væri að ræða, enda væri hann á könnu fyrirsvarsmanna félagsins sjálfs. Bankinn hefði lánað félaginu ákveðna fjárhæð fyrir hvert kílógramm af kjöti og væri réttu magni ekki til að dreifa hjá félaginu, þá væri ákvæði í samningnum um það, að bankinn fengi greiðslur vegna afurðalánsins áður en greitt væri til félagsins. Hefði félagið beðið bankann um að halda virðisaukaskattinum sérgreindum, þá hefði samningur félagsins litið öðruvísi út, enda væri bankinn með aðra þjónustu, sem lyti að því að halda virðisaukaskatti sérgreindum af reikningum, sem bankinn sæi um að innheimta fyrir viðskiptamenn sína.

Mismunur á uppgjöri miðað við stöðu afurðalánsins á hverjum tíma á grundvelli afurðaskýrslnanna, hefði verið greiddur til félagsins, ef fjármununum hefði þá ekki verið varið í að greiða önnur lán félagsins hjá bankanum. Fjármununum hefði þannig verið ráðstafað í þágu félagsins. Vitnið myndi ekki, hvort greiðslum með þessum hætti hefði lokið í júlí 2003.

Niðurstaða

I. kafli ákæru.

Í I. kafla ákæru er ákærða Hjalta Jósefssyni gefið að sök að hafa hinn 29. september 2003 gefið út í heimildarleysi ávísun að fjárhæð 1.390.000 krónur á reikning Ferskra afurða ehf. hjá Kaupþing banka hf. í Búðardal nr. 312-26-115 og innleyst sama dag hjá Sparisjóði Húnaþings og Stranda, en reikningurinn hafi áður verið handveðsettur bankanum með sérstökum samningi. Er ætlað brot ákærða Hjalta talið varða við 2. tl. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru, og verður að ætla, að þar sé átt við 2. tl. 1. mgr. þeirrar greinar.

Ákærði neitar sök, en viðurkennir þó að hafa gefið út og innleyst umrædda ávísun. Ákærði telur sig hafa verið í góðri trú með því að gefa út ávísunina, enda hafi samningaviðræður lögmanns hans og lögmanns bankans um þetta leyti lengi staðið, og þar þess verið freistað að fá heimild til úttekta af reikningnum. Hafi hann talið á þessum tíma, að samkomulag hafi tekist milli aðila og því hafi hann innleyst ávísunina í góðri trú. Er framburður hans um þetta atriði í samræmi við framburð hans í skýrslutöku hjá ríkislögreglustjóra frá 4. júlí 2007. Fjárhæðinni hafi svo verið varið til greiðslu launa starfsmanna félagsins, en hann hafi ekki auðgast sjálfur. Kvaðst ákærði fyrir dómi ekki muna, hvort hann hefði vitað af handveðsetningu reikningsins, sem hann gaf út umrædda ávísun á, en hann kannaðist við undirskrift sína á skjali frá 1. nóvember 2001, sem setur bankanum að handveði umræddan reikning. Kvaðst ákærði ekki muna sérstaklega eftir þessu ákveðna skjali, enda hefðu verið svo mörg skjölin, sem hann hefði undirritað á þessum tíma.

Vitnið Stefán Jónsson hefur borið um það fyrir dómi, að eftir handveðsetningu reikningsins hafi ekkert í samskiptum bankans við fyrirsvarsmenn Ferskra afurða ehf. getað gefið þeim tilefni til að halda að gefa mætti út ávísun á reikninginn, þrátt fyrir handveðsetninguna, og aldrei hafi verið samið um, að félagið mætti gefa út ávísanir á reikninginn.

Framburði annarra vitna er ekki til að dreifa í málinu, hvað þennan ákærulið varðar.

Óumdeilt er að ákærði Hjalti undirritaði skjal fyrir hönd Ferskra afurða ehf. undir yfirskriftinni „Handveðsetning vegna allra skulda“ hinn 1. nóvember 2001, þar sem kveðið er á um, að félagið setji Búnaðarbanka Íslands hf. að handveði tékkareikning nr. 312-26-115 og alla innstæðu hans, eins og hún sé hverju sinni, til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum sem veðsali takist á hendur gagnvart veðhafa, sem þegar hafi stofnast eða stofnist síðar, og nánar eru tilgreindar í skjalinu. Í samningnum er hvergi minnst á afurðalánasamning félagsins við Búnaðarbankann frá 8. október 2002, en vitnið Stefán Jónsson kvað handveðssamninginn hafa verið til tryggingar á framkvæmd afurðalánasamningsins. Þó er vísað til afurðalána í almennri upptalningu þeirra krafna, sem handveðssamningnum er ætlað að tryggja. Í samningnum segir ennfremur: „Hið handveðsetta er í vörslum og á ábyrgð veðhafa og honum til hér tilgreindrar tryggingar og ráðstöfunar frá undirritun þessarar handveðsyfirlýsingar, og verður það svo lengi sem hún gildir.“

Í 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð segir, að heimilt sé að stofna til handveðs í lausafé. Til þess að handveð stofnist með löglegum hætti þarf til þess gildan löggerning milli veðsala og veðhafa. Þó verður við að bæta, að framkvæma þarf ákveðnar ráðstafanir til að afla veðréttinum réttarverndar, sem útiloka umráðamöguleika veðsala yfir hinu veðsetta. Er meðal annars vísað til umráðasviptingar yfir hinu veðsetta í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997. Þarf því til afhendingar veðsins til veðhafa að koma þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa það undir höndum. Er í ákvæðinu vísað til þess, að það jafngildi afhendingu þegar afhentur hafi verið lykill að húsnæði, þar sem veðið er geymt, eða sambærilegar ráðstafanir hafa verið gerðar, sem leiði til þess, að eigandinn glatar möguleikanum til þess að geta ráðið yfir veðinu.

Í máli þessu er upplýst, að ákærði Hjalti Jósefsson hafði undir höndum gilt ávísanahefti og gaf út ávísun á umræddan reikning nr. 115 í útibúi Kaupþings banka hf., áður Búnaðarbanka Íslands hf., í Búðardal, en um var að ræða gamlan ávísanareikning Ferskra afurða ehf. hjá bankanum, sem síðar hafi verið breytt í handveðsreikning. Af framburði vitnisins Stefáns Jónssonar, útibússtjóra bankans, má ráða að gleymst hafi að loka fyrir úttektir og þær ávísanir, sem bankinn hafði fengið félaginu til ávísunar á reikninginn.

Veðhafinn í þessu tilfelli er bankastofnun, sem hefur yfir að búa sérfræðiþekkingu í bankaþjónustu. Ekki leikur vafi á að bankanum mátti vera kunnugt um það hvaða ávísanahefti forráðamönnum Ferskra afurða ehf. hafði áður verið afhent og hversu þau höfðu verið nýtt. Verða ríkar skyldur lagðar á bankastofnun að þekkja til og búa svo um, að enginn vafi leiki á þeim ráðstöfunum, sem bankanum stendur hæglega til boða til að tryggja réttarvernd einfaldra handveðssamninga. Engu að síður lokaði bankinn ekki fyrir aðgang fyrirtækisins að þeim reikningi sem bankinn hugðist taka að handveði, þótt bankanum hefði átt að vera það í lófa lagið, og verður því ekki litið svo á að bankinn hafi í reynd svipt veðsalann, Ferskar afurðir ehf., aðgangi að veðinu, ávísanareikningnum. Þar sem bankinn hafði ekki nægilega tryggt þá réttarvernd, sem felast átti í hinum ofangreinda handveðssamningi, með því að loka fyrir og innkalla þær útistandandi ávísanir, sem bankinn hafði fengið félaginu til útgáfu á reikninginn, var opinn lykill fyrir félagið til úttektar af reikningnum, eins og staðfestist með umræddri ávísun. Liggur sú ábyrgð alfarið hjá bankanum sjálfum. Þar sem þetta var ekki gert, verður ekki talið, eins og hér stendur á, að fullgilt handveð hafi stofnast í reikningi Ferskra afurða ehf. hjá útibúi bankans með undirritun skjals um handveðsetningu reikningsins einnar saman, enda var veðsalinn ekki sviptur möguleikanum til að ráða yfir veðinu. Því nýtur handveðrétturinn ekki fullrar réttarverndar.

Þar sem ekki verður talið, að bankinn hafi gripið til nægjanlegra og nauðsynlegra ráðstafana til tryggingar handveðrétti sínum á reikningi Ferskra afurða ehf., svo að til fullgilds handveðs verði talið hafa verið stofnað, verður ákærði Hjalti sýknaður af þessum ákærulið um brot gegn 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af þessari ástæðu verður því ekki fjallað frekar um heimfærslu ætlaðs brots ákærða Hjalta undir önnur ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða um aðrar varnir hans fyrir dómi.

II. kafli ákæru.

1. tl.

Í fyrri tölulið síðari kafla ákæru er ákærða Hjalta og ákærða A gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framin hafi verið í rekstri Ferskra afurða ehf., þar sem ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna frá mars til og með ágúst tekjuárið 2003 og hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti til ríkissjóðs, sem innheimtur hafi verið í rekstri félagsins á uppgjörstímabilum ársins 2003, eins og nánar greinir í ákæru, að fjárhæð 16.186.034 krónur, eins og fjárhæðinni í ákæru var breytt undir rekstri málsins, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Heimfærsla brotanna í 1. tl. II. kafla ákæru til refsiákvæða verður skilin svo, að ákærðu sé gefið að sök brot, sem varði við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 93/1995, sbr. og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Í málinu er upplýst, að virðisaukaskattsskýrslum Ferskra afurða ehf. var skilað til innheimtumanns ríkissjóðs sem hér segir: Fyrir uppgjörstímabilið janúar og febrúar 2003, dagsett 5. apríl 2003, skilað 5. apríl 2003, var sú skýrsla svo leiðrétt með skýrslu dagsettri 12. október 2003, sem skilað var 15. október 2003. Öðrum virðisaukaskattsskýrslum fyrir tímabilin 2003 var jafnframt skilað 15. október 2003, þó svo að virðisaukaskattsskýrsla fyrir tímabilið mars og apríl 2003 hafi verið dagsett 5. júní sama ár, virðisaukaskattsskýrsla fyrir maí og júní 2003 hafi verið dagsett 5. ágúst 2003, og virðisaukaskattsskýrsla fyrir tímabilið júlí og ágúst verið dagsett 6. október 2003. Nýjar skýrslur, þar sem getið er inneignar félagsins fyrir uppgjörstímabilin frá maí til og með ágúst 2003 að fjárhæð 7.736.839 krónur, eru svo dagsettar 11. nóvember 2003 og undirritaðar af lögmanni félagsins, sem sendi þær ásamt erindi til skattstjórans á Norðurlandi vestra án þess að nokkurs staðar megi sjá þess merki, að tillit hafi verið tekið til þeirra. Er þar byggt á því, að Ferskum afurðum ehf. hafi verið ómögulegt að skila inn virðisaukaskatti til ríkissjóðs, þar sem Kaupþing Búnaðarbanki hafi ekki afhent félaginu andvirði innheimtra reikninga, og til vara, að bankinn hafi verið með afurðir félagsins í umboðssölu, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts, sem ákært er fyrir í máli þessu, byggist á yfirliti um stöðu um vangreiddan virðisaukaskatt Ferskra afurða ehf. frá 21. febrúar 2005. Kemur þar fram, að vangoldinn virðisaukaskattur vegna uppgjörstímabila á árinu 2003 nemur 16.422.069 krónum, eins og vanskil voru upphaflega sögð í ákæru, en leiðrétt vanskil nema 16.186.034 krónum, þar sem gjalddagi síðasta tímabilsins, september-október 2003, var á tímabili, sem félagið naut greiðslustöðvunar. Yfirlitið er alfarið byggt á upplýsingum, sem eru komnar frá félaginu sjálfu, og voru undirritaðar af Sigrúnu Þórðardóttur, starfsmanni þess, og Sigríði Jóhannsdóttur, starfsmanni Framtals sf., sem sá um reikningsskil Ferskra afurða ehf. Á yfirlitinu kemur jafnframt fram, að ekkert hafi verið greitt til ríkissjóðs af ofangreindri fjárhæð, og verður á því byggt. Á það ber að líta, að erindi lögmanns Ferskra afurða ehf. til skattstjórans á Norðurlandi vestra, sem áður er getið og virðist ekki hafa verið svarað af hálfu skattstjórans, byggist á því, að Kaupþing Búnaðarbanki hafi verið umboðs- eða umsýsluaðili Ferskra afurða ehf. varðandi sölu á afurðum félagsins, og kváðu virðisaukaskattsskýrslur, sem fylgdu erindinu, á um inneign félagsins, þar sem engin skattskyld velta hefði verið í félaginu á umræddum tímabilum frá maí til ágúst 2003, en innskattur hefði numið áður greindri fjárhæð. Í 1. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 segir, að skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili teljist heildarskattverð allra vara, sem afhentar hafi verið, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu, sem innt hafi verið af hendi á tímabilinu. Í 2. mgr. sömu greinar segir svo, að sé út gefinn reikningur vegna afhendingar, þá teljist hún hafa farið fram á útgáfudegi reiknings, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu. Skattskyld velta hvers tímabils er því ákveðin án tillits til þess, hvort selt er gegn staðgreiðslu eða gjaldfresti. Við meðferð málsins hefur komið fram, að bankinn innheimti útgefna reikninga af hálfu félagsins Ferskra afurða ehf. og ráðstafaði andvirðinu inn á nánar tiltekinn reikning félagsins hjá útibúi bankans í Búðardal, og hélt útibússtjóri því fram fyrir dómi, að bankinn hafi annast innheimtuna sem þjónustu við félagið, en ráðstöfun andvirðisins hafi verið í samræmi við samninga Ferskra afurða ehf. og bankans. Þar sem ljóst þykir, að um innheimtu á þegar útgefnum reikningum félagsins hafi verið að ræða, verður ekki fallist á að bankinn hafi verið umsýsluaðili með afurðir félagsins eða haft þær í umboðssölu í skilningi 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Kemur ofangreind fjárhæð, 7.736.839 krónur, því ekki til frádráttar fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er refsing meðal annars lögð við því, að maður afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Brot er því samkvæmt þessu fullframið þegar skýrsla eða skattur, sem innheimtur var eða bar að innheimta, er ekki afhent á réttum tíma og er refsinæmi verknaðarins óháð því, hvort selt var gegn gjaldfresti eða hvort andvirði seldrar vöru eða þjónustu hafi þegar verið innheimt.

Því er haldið fram af hálfu ákærðu, að við útreikning fjárhæðar vangoldins virðisaukaskatts, sem ákært er fyrir í máli þessu, beri að líta til 2. tl. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, þannig að taka beri tillit til þeirra krafna, sem ekki tókst að innheimta af hálfu þrotabús Ferskra afurða ehf. og komi þær því til lækkunar á þeirri fjárhæð, sem lögð verði til grundvallar vangoldnum virðisaukaskatti. Samkvæmt ofannefndu ákvæði er seljanda heimilt, við uppgjör á skattskyldri veltu, að draga frá 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu, eða 93,46% þegar um er að ræða sölu skv. 2. mgr. 14. gr. laganna. Verður þessarar heimildar neytt á því uppgjörstímabili, sem í ljós er leitt að krafa er töpuð, og á því með réttu að hafa áhrif á uppgjör þess tímabils, þegar hin afskrifaða krafa varð til með sölu og þjónustu. Það hefur því ekki áhrif á refsinæmi brots gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að síðar komi í ljós, að tilteknar kröfur tapist, sem báru virðisaukaskatt á uppgjörstímabili, sem ákæra vaðar. Í máli þessu snýr ákæra að virðisaukaskattsskilum félags, sem tekið var til gjaldþrotaskipta skömmu eftir lok þeirra uppgjörstímabila, sem skatturinn stafaði frá. Ef í ljós kemur eftir að rekstri virðisaukaskattsskylds félags er hætt, að krafa, sem virðisaukaskattur var á sínum tíma reiknaður af, fáist ekki innheimt, ætti hún í samræmi við framangreint ákvæði 2. tl. 13. gr. laga nr. 50/1998 að mynda inneign á því uppgjörstímabili, þegar hún er afskrifuð og gæti sú inneign síðar komið til skuldajafnaðar við ógreiddan virðisaukaskatt félagsins frá fyrri uppgjörstímabilum. Afskrift kröfu hefur því ekki áhrif á refsinæmi vanskila á virðisaukaskatti á þeim tímabilum, sem um ræðir í máli þessu, en eftir gildistöku laga nr. 134/2005 getur afskrift slíkrar kröfu haft áhrif við mat á því, hvort sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. virðisaukaskattslaga verði beitt, enda hefði afskriftin þá sömu áhrif og greiðsla upp í skattskuld.

Í gögnum málsins má finna yfirlit yfir kröfur þær, sem þrotabúi Ferskra afurða ehf. tókst ekki að innheimta og stafar frá skiptastjóra þrotabúsins. Í yfirlitinu, sem dagsett er 20. maí 2008, segir, að heildarfjárhæð tapaðra útistandandi krafna félagsins nemi 29.930.220 krónum, en í yfirlitinu er ekki að finna fjárhæð virðisaukaskatts hverrar kröfu né útgáfudag reikninga. Þó má ráða, að gjalddagar krafnanna hafi verið frá tímabilinu 1. janúar 2002 til 31. desember 2003. Verður við það miðað, að þær kröfur, sem þar um ræðir, hafi réttilega verið tekjufærðar í bókhaldi félagsins og innheimtur hafi verið eða borið hafi að innheimta af þeim virðisaukaskatt, sbr. það sem áður segir um ákvæði 1. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, og að hann hafi verið tilgreindur á virðisaukaskattsskýrslum félagsins. Að þessu virtu er fallist á, að innheimtan virðisaukaskatt af útistandandi töpuðum viðskiptaskuldum Ferskra afurða ehf. megi draga frá vangoldnum virðisaukaskatti á þeim tímabilum, sem ákært er fyrir í máli þessu, en gögn málsins bera ekki með sér, að litið hafi verið til þessara atriða við rannsókn málsins.

Enda þótt fallið hafi verið frá kröfu um vangoldinn virðisaukaskatt frá tímabilinu september-október 2003 í málinu og ekki hafi verið upplýst, hvað þessi atriði varðar, hvort og þá hvaða fjárhæð Ferskar afurðir ehf. hafi eða hafi ekki greitt af virðisaukaskatti síðari tímabila en greinir í ákæru, verður fjárhæð áætlaðs virðisaukaskatts af töpuðum kröfum þrotabúsins dregin frá þeirri fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts, sem þeim er gefið að sök í ákæru að hafa ekki staðið skil á. Ljóst er, að verulegu máli getur skipt fyrir þá, sem sökum eru bornir um vanskil á virðisaukaskatti félags, sem hætt hefur rekstri, að rannsókn beinist meðal annars að töpuðum kröfum virðisaukaskattsskylds aðila. Fór slík rannsókn ekki fram með fullnægjandi hætti. Slík framkvæmd á ekki að koma niður á ákærðu. Engu að síður, verður ekki talið, að þessi vanhöld í rannsókn málsins séu slík, að frávísun varði. Verða ákærðu látnir njóta þess vafa, sem leikur á því, hverjar krafnanna á ofangreindu yfirliti skiptastjóra þrotabúsins hafi borið virðisaukaskatt og hversu mikinn, sem og um dagsetningu tekjufærslu krafnanna í bókhald félagsins, sem réði hvaða tímabili hún tilheyrði. Verður við það miðað, að allar kröfur yfirlitsins hafi borið virðisaukaskatt og þar sem ekki greinir frá því á yfirlitinu hver fjárhæð virðisaukaskattsins er, verður lagt til grundvallar, að kröfurnar hafi allar borið 24,5% virðisaukaskatt, sem er hæsta hlutfall virðisaukaskatts, sem þær hafa getað borið. Verða því 80,32% af heildarfjárhæð útistandandi tapaðra viðskiptaskulda Ferskra afurða ehf. dregnar af skattskyldri veltu, sem lagt er til grundvallar, að gefin hafi verið upp á virðisaukaskattsskýrslum félagsins og verður mismunurinn því dreginn frá þeirri fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts, sem ákærðu er gefið að sök í ákæru að hafa ekki greitt á fyrrgreindum uppgjörstímabilum, samtals 5.890.267 krónur. Verður fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts, sem lögð verður til grundvallar í málinu, færð niður sem þessari fjárhæð nemur og telst því réttilega vera 10.295.767 krónur.

Ákærði A krefst sýknu af þessum lið ákærunnar og vísar til þess, að hann hafi aðeins verið meðstjórnandi Ferskra afurða ehf. og aldrei komið nálægt daglegum rekstri félagsins. Hann hafi hvorki haft með bókhald félagsins að gera né séð um skattskil þess.

Dómstólar hafa löngum lagt ríka ábyrgð á hendur stjórnenda einkahlutafélaga vegna vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hefur verið miðað við, að á grundvelli 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, beri stjórnarmönnum að afla sér vitneskju um rekstur félags, þ. á m. hvort félagið standi skil á vörslusköttum, og að annast um, að starfsemi félagsins sé jafnan í góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna. Í 3. mgr. 44. gr. segir einnig, að félagsstjórn skuli annast um, að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Af nýlegri dómaframkvæmd má ráða, að ríkari kröfur séu nú gerðar um bein áhrif stjórnarmanna að rekstri félags, svo þeir verði taldi bera ábyrgð á vangoldnum virðisaukaskatti og vangoldinni staðgreiðslu opinberra gjalda. Má þetta m.a. ráða af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 392/2006, uppkveðnum hinn 31. maí 2007, og vísað var til í vörn ákærða fyrir dómi. Í þeim dómi var meðstjórnandi í einkahlutafélagi sýknaður af sambærilegum brotum og ákært er fyrir í þessu máli, en í málinu þótti sannað, að ákærði í málinu hefði lítið komið að málefnum félagsins og ekki haft ákvörðunarvald um ráðstöfun fjármuna.

Í máli þessu hefur ákærði A borið um, að hann hafi ekkert komið nálægt daglegum rekstri félagsins, bókhaldi eða skattskilum þess. Nýtur framburður hans í þá veru stuðnings af framburði meðákærða Hjalta í málinu, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins. Hefur ákæruvaldið ekki fært fram neinar sönnur á það, að ákærði A hafi með nokkru móti tekið þátt í daglegum rekstri félagsins eða tekið ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna félagsins. Verður því lagt til grundvallar, að ákærði A hafi verið óvirkur meðstjórnandi í málinu, sem ekki hafi haft vitneskju um hvað fram fór í félaginu í daglegum rekstri þess eða tekið ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna félagsins í daglegum rekstri þess, þ. á m. um greiðslu á virðisaukaskatti. Að þessu virtu og með hliðsjón af áður nefndum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 392/2006 verður ákærði A sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, hvað þennan ákærulið varðar.

Litið er svo á, að ákærði Hjalti Jósefsson neiti sök, enda hefur í vörn hans verið vísað til ómöguleika félagsins til að greiða virðisaukaskatt og standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem viðskiptabanki félagsins hafi haldið eftir fjármunum félagsins á reikningi og ekki fengið því fé í hendur til að standa skil á vörslusköttum og opinberum gjöldum. Ákærði Hjalti hefur borið um, að gjaldkeri félagsins, Sigrún Þórðardóttir, hafi haft það verkefni að færa bókhald félagsins, sjá um greiðslur og annað því viðkomandi í daglegum störfum félagsins, þ. á m. skilagreinar og staðgreiðslu opinberra gjalda. Af gögnum málsins má sjá, að Sigrún Þórðardóttir undirritar nokkurn hluta skilagreina vegna opinberra gjalda, sem ákært er fyrir í 2. tl. II. kafla ákærunnar, og nokkurn hluta virðisaukaskattsskýrslna félagsins. Þó liggur ekki fyrir, hvort hún sjálf sá um að skila ofangreindum skilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til yfirvalda, en í málinu liggur fyrir að öllum skilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, sem máli skipta og ákært er vegna í málinu, var skilað inn 15. október 2003, þótt dagsetningar undirskrifta séu frá öðrum tímabilum. Var Sigrún ekki boðuð sem vitni fyrir dóminn.

Ákærði Hjalti hefur borið fyrir dómi, að aðkoma hans að þessum atriðum, skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum, og greiðslu virðisaukaskatts og opinberum gjöldum, hafi engin verið, þrátt fyrir að hann hafi verið framkvæmdastjóri félagsins, og hafi hann ekki litið svo á, að það væri sitt hlutverk að sjá til þess, að þessum atriðum væri til haga haldið, enda hefði félagið verið komið í erfiðleika á þessum tíma og hann hafi haft í mörg horn að líta.

Í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög segir, að framkvæmda-stjóri annist daglegan rekstur félags og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum, sem félagsstjórn hafi gefið. Í 3. mgr. sömu greinar segir ennfremur, að félagsstjórn skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Sé ráðinn framkvæmdastjóri skuli hann sjá um, að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

Verður hér litið til þess, að ákærði Hjalti var ekki aðeins framkvæmdastjóri félagsins, heldur starfandi stjórnarformaður í tveggja manna stjórn þess. Hefur hann borið um hér fyrir dómi, að meðákærði A, meðstjórnandi hans í félaginu, hafi ekki komið nálægt ákvarðanatöku í rekstri félagsins eða haft vitneskju um daglegan rekstur þess. Þá er upplýst af skilagreinum um staðgreiðslu opinberra gjalda, að ákærði Hjalti þáði laun frá félaginu og telst hann hafa verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Í ljósi þessa getur ákærði Hjalti ekki undanþegið sig þeirri ábyrgð, sem einkahlutafélagalögin leggja honum á herðar sem stjórnarformanni og starfandi framkvæmdastjóra með prókúruumboð, enda þótt upplýst sé í málinu, að hann hafi ekki sjálfur undirritað skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskattsskýrslur fyrir hönd Ferskra afurða ehf. Bar honum því sem framkvæmdastjóra að hlutast til um, að skýrslum yrði til haga haldið og skattar og gjöld greidd í samræmi við lög.

Í vörn ákærða Hjalta hefur því verið haldið fram, að Ferskum afurðum ehf. hafi verið ómögulegt að standa skil á greiðslum á opinberum gjöldum og sköttum, þar eð Kaupþing Búnaðarbanki hafi haldið fjármunum félagsins læstum inni á reikningi félagsins í útibúi þess í Búðardal, en bankinn hafi tekið að sér að innheimta útgefna reikninga félagsins, þar með talinn virðisaukaskatt. Í málinu er upplýst, að þeir reikningar, sem bankinn tók að sér að innheimta fyrir félagið, tengdust aðeins þeim afurðum, sem höfðu með afurðalánasamning félagsins við bankann að gera, en ekki aðrar afurðir. Þá hefur vitnið Stefán Jónsson, útibússtjóri bankans í Búðardal, sagt, að innheimta reikninganna hafi verið í samræmi við óskir félagsins sjálfs og þar væri um þjónustu við félagið að ræða. Útgreiðslur af reikningnum hafi síðan verið í samræmi við afurðalánasamning félagsins við bankann, sem jafnan hefði verið gerður upp í samræmi við hlutföll veðsettra birgða og stöðu afurðalána. Sérstakur handveðs-samningur hafi svo tryggt bankanum, að ekki yrði gengið á það fé, sem innheimtist af útgefnum reikningum félagsins og bankinn hafði fengið til innheimtu, fyrr en uppgjör á afurðalánasamningi ætti að fara fram. Hafi bankinn því ekki haldið fjárhæð virðisaukaskatts sérstaklega sérgreindri frá öðru fé félagsins á reikningnum, enda hafi félagið ekki óskað eftir slíkri þjónustu við bankann. Hins vegar byði bankinn upp á slíka þjónustu sérstaklega, væri hennar óskað. Hefur ákærði sjálfur borið um hér fyrir dómi, að sig rámi í, að samningur hafi verið gerður við bankann þess eðlis, að allir reikningar félagsins færu til innheimtu hjá bankanum. Verður hér lagt til grundvallar, að til staðar hafi verið slíkur samningur, sem kveðið hafi á um innheimtu bankans á útgefnum reikningum félagsins. Aðrir samningar félagsins við bankann voru þó í þá veru, að félagið gat ekki nálgast fjármuni sína inni á reikningi sínum hjá bankanum, sem greiðslur bárust inn á samkvæmt innheimtusamningi. Hefði ákærða verið í mun að greiða virðisaukaskatt og opinber gjöld, hefði honum borið að semja svo um við bankann, að innheimtum virðisaukaskatti yrði skilað til ríkissjóðs, ella nýta annað fé í rekstrinum til þess. Skylda Ferskra afurða ehf. til að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti fellur ekki niður þótt félaginu verði, vegna samninga sinna, fé sitt ótilkvæmt.

Þá hefur ákærði Hjalti sagt, að erfiðleikar hafi steðjað að í rekstri félagsins, sem hafi valdið því, að hann hafi haft um nóg annað að þenkja en sjá um að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum, og að standa skil á því fé, sem ríkissjóði bar, hvort heldur virðisaukaskatti eða opinberum gjöldum. Hafi ákærða Hjalta verið ljósir þeir erfiðleikar, sem að steðjuðu í rekstri félagsins, bar honum skylda til að hlutast til um, að fjármunir félagsins yrðu nýttir til að standa skil á vörslusköttum og opinberum gjöldum. Hafi honum jafnframt verið ljóst, að þessir erfiðleikar hafi valdið því, að félagið var í raun ógjaldfært, þá hefði honum verið rétt og skylt að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta í samræmi við ákvæði 2. mgr. 64. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Í ljósi þess, sem hér að ofan greinir, kemur hér ekki að haldi ómöguleiki sá, sem vísað er til í vörn ákærða Hjalta og byggir í raun á fjárskorti félagsins, að vegna samninga félagsins við bankann hafi því ekki verið skammtað nægilegt fé til að standa skil á greiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts. Er fullyrðingum í þá veru hafnað.

Að þessu virtu og í ljósi ábyrgðar Hjalta Jósefssonar sem stjórnarformanns og starfandi framkvæmdastjóra Ferskra afurða ehf. fellst dómurinn á, að honum hafi borið að skila inn virðisaukaskattsskýrslum og standa skil á greiðslu virðisaukaskatts til ríkissjóðs. Þar eð því var ekki sinnt verður ákærði Hjalti Jósefsson því sekur fundinn um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, eins og í ákæru greinir, með því að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna mars til og með ágúst 2003 og eigi hafa staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins Ferskra afurða ehf. á sömu uppgjörstímabilum. Eins og vangoldinni fjárhæð virðisaukaskattsins í ákæru var breytt við meðferð málsins, nemur hún 16.186.034 krónum.

Í ákæru er brot ákærða Hjalta, sem hann er nú sakfelldur fyrir, talið vera svo stórfellt, að varði við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. síðasta málslið 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þegar í huga er haft, að um lungann úr rekstrarárinu 2003 er að ræða án þess að ákærði Hjalti hafi nokkuð látið sig varða að skila inn virðisaukaskattsskýrslum á réttum tíma eða skila innheimtum virðisaukaskatti, sem nemur verulegum fjárhæðum, til ríkissjóðs, verður fallist á það, að um stórfellt brot sé að ræða gegn áðurnefndu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt. Varðar brot ákærða Hjalta því við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 44. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, með síðari breytingum. Eru brotin því réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Enda þótt fjárhæð virðisaukaskatts, sem reiknaður er af töpuðum útistandandi kröfum félagsins, og draga ber frá þeirri upphæð, sem greinir í ákæru, hafi ekki áhrif á refsinæmi brots gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, og einna helst verði litið til hennar við mat á því, hvort sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laganna verði beitt, verður sú fjárhæð dregin af ofangreindri fjárhæð, þegar til ákvörðunar refsingar kemur, og verður miðað við, að fjárhæð sú, sem mynda skuli stofn til útreiknings sektarfjárhæðar, nemi 10.295.767 krónum.

Í vörn ákærðu hefur því verið haldið fram, að við útreikning fjárhæðar virðisaukaskatts, sem lagður verður til grundvallar sektarfjárhæð, beri að draga álag, sem lagt hefur verið á vangoldinn virðisaukaskatt, sbr. m.a. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlit um vangoldinn virðisaukaskatt til ríkissjóðs frá 22. maí 2005, sem er í einu og öllu í samræmi við þær fjárhæðir, sem greinir í ákæru. Er ljóst, að enginn virðisaukaskattur hefur verið greiddur til ríkissjóðs, sem álag hefur verið greitt af á þeim tímabilum, sem ákært er fyrir. Þar sem virðisaukaskatturinn hefur ekki verið greiddur, þá liggur fyrir, að ekkert álag hefur verið greitt af þeim fjárhæðum, sem um ræðir í málinu. Kemur því ekki til frekari frádráttar af þeirri fjárhæð, sem að ofan greinir, og lögð verður til grundvallar í málinu.

Samkvæmt framanrituðu verður ekki fallist á kröfu um frávísun þessa ákæruliðar. Ákærði A er af honum sýknaður en ákærði Hjalti sakfelldur, svo sem áður greinir.

2. tl.

Í síðari tölulið II. kafla ákæru er ákærðu Hjalta og A gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framin voru í rekstri Ferskra afurða ehf., með því að hafa eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna janúar til og með ágúst árið 2003 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna fyrrgreindra tímabila, samtals að fjárhæð 5.461.694 krónur. Var upphafleg fjárhæð samkvæmt ákæru svo lækkuð um innborganir þannig, að krafan nær ekki til janúarmánaðar og febrúarmánaðar 2003, enda var skuld samkvæmt þeim mánuðum uppgerð sem áður greinir. Nemur fjárhæðin samkvæmt því 4.315.843 krónum, sem miða ber við. Heimfærsla brotanna í 2. tl. II. kafla ákæru til refsiákvæða verður skilin svo, að ákærðu sé gefið að sök brot, sem varði við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 93/1995, sbr. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal launagreiðandi reikna og draga staðgreiðslu af launum launamanns og greiða það fé mánaðarlega, sem hann þannig heldur eftir eða bar að halda eftir, til innheimtumanns ríkissjóðs og skal greiðslunni fylgja sundurliðuð skilagrein. Launagreiðanda er því skylt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af launum, sem hann innir af hendi á hverju tímabili.

Í ákæru er getið skilagreina og afdreginnar staðgreiðslu vegna janúar- og febrúarmánaða 2003, en fallið var frá þeim atriðum í ákæru, þar eð greiðslur bárust að fullu eftir eindaga viðkomandi tímabila vegna þeirra. Samkvæmt skilagreinum félagsins um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna til launþega félagsins var afdregin staðgreiðsla af greiddum launum samkvæmt skilagrein í marsmánuði 712.164 krónur. Þegar dregin hefur verið frá sú staðgreiðslufjárhæð, sem reikna bar á laun til ákærða Hjalta Jósefssonar, enda verður ákærðu ekki gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu í eigin þágu, þá nemur endanleg fjárhæð vegna mars 2003 627.965 krónum, sem er sú sama og greinir í ákæru. Skilagrein vegna apríl nam 752.660 krónum, en með frádrætti vegna launa ákærða Hjalta, nemur hún 668.461 krónum, eins og í ákæru. Skilagrein vegna maí nam 959.046 krónum, en með frádrætti vegna launa ákærða Hjalta, nemur hún 863.967 krónum. Skilagrein vegna júní nam 826.736 krónum, en með frádrætti vegna launa ákærða Hjalta, nemur hún 739.206 krónum. Skilagrein vegna júlí nam 859.962 krónum, en með frádrætti vegna launa ákærða Hjalta, nemur hún 772.432 krónum. Skilagrein vegna ágúst nam 1.323.470 krónum, en með frádrætti vegna launa beggja ákærðu, Hjalta og A, nemur hún 643.812 krónum. Móttökudagsetning skilagreinanna er hin sama á þeim öllum eða 15. október 2003. Hin endanlega fjárhæð, sem lögð verður til grundvallar í málinu, nemur því 4.315.843 krónum.

Í málinu liggur fyrir, að staðgreiðsluskil þau, sem lögð eru til grundvallar ákæru, eru samkvæmt skilagreinum, sem stafa frá félaginu Ferskum afurðum ehf. og eru ýmist undirritaðar af Sigrúnu Þórðardóttur eða Sigríði Jóhannsdóttur, þeim sömu og undirrituðu virðisaukaskattsskýrslur félagsins. Hvorug þeirra hefur verið kölluð hingað fyrir dóminn.

Ákærði A krefst sýknu af þessum ákærulið af sömu ástæðum og áður greinir, hann hafi aðeins verið meðstjórnandi Ferskra afurða ehf. og aldrei komið nálægt daglegum rekstri félagsins, bókhaldi, skattskilum, séð um greiðslur félagsins eða ráðstöfun fjármuna í daglegum rekstri. Hefur ákærði A þegar verið sýknaður af 1. tl. II. kafla ákærunnar af þeirri ástæðu, að hann var óvirkur meðstjórnandi í félaginu Ferskum afurðum ehf., sem ekki hafi tekið þátt í daglegum rekstri félagsins og hafði ekki áhrif á ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna. Ofangreind atriði, sem við eiga um 1. tl. II. kafla ákæru, eiga að breyttu breytanda hér við um 2. tl. II. kafla ákærunnar, hvað ákærða A varðar. Með vísan til þessa og með hliðsjón af áður nefndum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 392/2006 verður ákærði A Jensen sýknaður af þessum ákærulið.

Eins og áður greinir, er litið svo á, að ákærði Hjalti Jósefsson neiti sök í málinu. Áður hefur því verið slegið föstu, að ákærða Hjalta sem stjórnarformanni og starfandi framkvæmdastjóra Ferskra afurða ehf. hafi borið að hlutast til um að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og skila innheimtum virðisaukaskatti til ríkissjóðs. Leiðir það m.a. af þeim skyldum, sem áður hefur verið lýst og finna má stoð í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá hefur ákærði Hjalti jafnframt verið sakfelldur fyrir brot, sem getið er í 1. tl. II. kafla ákæru. Með vísan til þeirra raka, sem getið er í umfjöllun dómsins um 1. tl. II. kafla ákærunnar, hníga þau öll í þá sömu átt, að ákærði Hjalti hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður hann því sakfelldur fyrir brot samkvæmt 2. tl. II. hluta ákærunnar.

Var því borið við í dómi, að þau staðgreiðsluyfirlit, sem lögð eru til grundvallar í málinu, sýni aðeins þær fjárhæðir, sem greiða hefði átt til starfsmanna, en sýni ekki í raun þær fjárhæðir, sem greiddar voru, og því hafi málið ekki verið nægilega rannsakað. Hefur ákærði Hjalti jafnframt talið, að launþegar hafi ekki fengið greidd laun fyrir ágústmánuð. Hér ber að líta til þess, að skilagreinar Ferskra afurða ehf. voru unnar á vegum félagsins, byggjast á gögnum þess og var skilað til innheimtumanns ríkissjóðs 15. október 2003. Þar greinir frá skilaskyldri fjárhæð afdreginnar staðgreiðslu, sem byggist á útreiknuðum launum launþega félagsins, og félaginu bar að standa skil á til ríkissjóðs. Fellur ekki niður skilaskylda félagsins á staðgreiðslunni, þar eð til grundvallar skilagreininni voru útreiknuð laun starfsmanna fyrir umrætt tímabil, enda hefur ekkert fram komið í málinu, sem til kynna hefur gefið, að sú fjárhæð launa og skilaskyldrar staðgreiðslu, sem þar greinir, hafi verið röng. Jafnframt má geta, að vegna ágústmánaðar, nýtur ákærði Hjalti þess, að frá er dregin sú fjárhæð, sem félaginu hefði réttilega borið að greiða vegna launa meðákærða As, sem sýknaður hefur verið af kröfum ákæruvaldsins. Verður því miðað við þá fjárhæð, sem í ákæru greinir.

Í ákæru er brot það, sem ákærði Hjalti er nú sakfelldur fyrir, talið vera svo stórfellt, að varði við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. síðasta málslið 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þegar haft er í huga, eins og áður greinir í umfjöllun um 1. tl. II. kafla ákærunnar, að um þó nokkurn tíma af rekstrarárinu 2003 er að ræða, sem ákærði Hjalti lét ógert að skila inn skilagreinum um afdregna staðgreiðslu til innheimtumanns ríkissjóðs og skila afdreginni staðgreiðslu, sem telja verður að nemi verulegri fjárhæð, verður fallist á það, að um stórfellt brot sé að ræða gegn áðurnefndu ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Varðar brot ákærða því við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með síðari breytingum. Eru brotin því réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru og hefur ákærði unnið sér til refsingar.

Ákærði Hjalti Jósefsson er fæddur árið 1951 og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þau brot, sem hann er nú sakfelldur fyrir, eru framin í rekstri einkahlutafélags, þar sem hann var stjórnarformaður og starfandi framkvæmdastjóri í rúm þrjú ár. Brotin eru framin í starfsemi félagsins á tímabili sem nær yfir mestan hluta síðasta rekstrarárs félagsins árið 2003. Þá þykja brotin stórfelld í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1994 um staðgreiðslu opinberra gjalda, og varða því jafnframt við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Líta verður til þess, að brotin þykja alvarleg og beinast að verulegum fjárhæðum. Verður refsing ákveðin í samræmi við 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Rannsókn máls þessa hefur tekið drjúgan tíma án þess að ákærða verði um það kennt.

Að þessu virtu þykir refsing ákærða Hjalta vera hæfilega ákvörðuð fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Fjárhæðir til útreiknings sektar, er ákærða Hjalta verður gert að greiða, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, eru, eins og áður hefur verið rakið, annars vegar 10.295.767 krónur, að teknu tilliti til frádráttar vegna tapaðra útistandandi krafna þrotabús Ferskra afurða ehf., og hins vegar 4.315.843 krónur, en samkvæmt umræddum lagagreinum má lágmarkssekt ekki verða lægri en tvöföld sú upphæð sem vanrækt hefur verið að greiða. Heimildarákvæði lagagreinanna til undanþágu frá þessari reglu, sbr. lög nr. 134/2005 um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og fleiri lögum, á ekki við eins og á stendur í máli þessu. Alls nemur fjárhæð til sektarútreiknings því 14.611.610 krónum og verður ákærði Hjalti dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 29.300.000 krónur í ríkissjóð og komi sex mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Rekstur máls þessa hefur útheimt töluverð ferðalög verjenda og verður litið til þess við ákvörðun málsvarnarlauna. Þá verður horft til þess að Steingrímur Þormóðsson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi ákærða Hjalta í máli þessu, var á rannsóknarstigi málsins verjandi beggja ákærðu. Verður einnig horft til þeirra starfa verjandans.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Hjalta, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, verða alls ákveðin 1.431.750 krónur og hefur þá verið litið til reglna um virðisaukaskatt. Ákærði Hjalti er sýknaður af einum ákærulið en sakfelldur að öðru leyti. Verður ákveðið að fjórðungur málsvarnarlaunanna greiðist úr ríkissjóði en ákærði greiði þrjá fjórðu hluta þeirra. Þá greiði ákærði og ríkissjóður í sömu hlutföllum ferða- og dvalarkostnað verjandans, alls 104.416 krónur.

Ákærði A Jensen er sýknaður af ákæru í máli þessu. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gunnars Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, sem alls verða ákveðin 1.185.240 krónur, og hefur þá verið litið til reglna um virðisaukaskatt, greiðist úr ríkissjóði. Ferðakostnaður verjandans, 97.636 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Þá greiði ríkissjóður Steingrími Þormóðssyni hæstaréttarlögmanni 124.500 krónur vegna verjandastarfa hans í þágu ákærða A á rannsóknarstigi.

Að öðru leyti féll ekki til sakarkostnaður í málinu.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna starfsanna dómsformanns.

Dóm þennan kveður upp Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari sem dómsformaður, Halldór Halldórsson dómstjóri og Ragnar Jóhann Jónsson, löggiltur endurskoðandi.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði Hjalti Jósefsson sæti fangelsi í átta mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Hjalti greiði 29.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella sex mánaða fangelsi.

Ákærði A Jensen er sýkn af ákæru í þessu máli.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Hjalta Jósefssonar, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, alls 1.431.750 krónur, greiðist að þremur fjórðu hlutum af ákærða en að fjórðungi úr ríkissjóði. Þá greiði ákærði og ríkissjóður í sömu hlutföllum ferða- og dvalarkostnað verjandans, alls 104.416 krónur.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda A, Gunnars Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, alls 1.185.240 krónur, greiðist úr ríkissjóði sem og ferðakostnaður verjandans, 97.636 krónur. Þá greiði ríkissjóður Steingrími Þormóðssyni hæstaréttarlögmanni 124.500 krónur vegna verjandastarfa hans í þágu ákærða A á rannsóknarstigi.