Hæstiréttur íslands
Mál nr. 675/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 22. október 2013. |
|
Nr. 675/2013.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Fallist var á kröfu lögreglustjóra um að X yrði bönnuð för úr landi um nánar tilgreindan tíma enda væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 95. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. október 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 15. nóvember 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti er gerð ítarleg grein fyrir málsatvikum. Að auki eru þar færð rök fyrir því að sú refsiverða háttsemi, sem varnaraðili sé grunaður um, varði annars vegar við 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hins vegar e. og f. liði 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Samkvæmt greinargerðinni var við húsleit hjá varnaraðila lagt hald á nokkurn fjölda af boðsbréfum til fólks, þar sem því var boðið að koma hingað til lands, svo og afrit af flugmiðum, flugbókunum og vegabréfum nokkurra einstaklinga. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst varnaraðili hafa boðið þrettán nafngreindum konum og körlum að koma til Íslands. Segir í greinargerðinni að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að þau hafi nær öll dvalist hér á landi í stuttan tíma, að meðaltali tvo til þrjá daga. Aðspurður um hvað hafi orðið af þeim hafi varnaraðili ýmist sagst ekki vita það eða þau hafi farið aftur til Filippseyja þaðan sem þau komu. Lögregla vinni nú að því að hafa uppi á þessu fólki til að staðreyna framburð varnaraðila og hafi í því skyni sent fyrirspurnir til erlendra lögregluyfirvalda vegna málsins. Bíði lögregla svara við þessum fyrirspurnum.
Sóknaraðili vísar til þess hér fyrir dómi að gögn málsins beri með sér að varnaraðili hafi sjálfur aflað vegabréfsáritana fyrir samlanda sína frá Filippseyjum, en einnig fengið aðra, einkum ættingja og vini, til að bjóða þeim hingað til lands. Þeir sem hingað hafi komið fyrir milligöngu varnaraðila hafi dvalið „sama og ekkert“ hér og hafi ekki haft nægileg fjárráð sér til framfærslu, þar á meðal virðist þeir ekki hafa getað greitt fyrir farmiða sína sjálfir. Umsóknir varnaraðila um vegabréfsáritanir hafi því verið byggðar á fölskum forsendum og tilgangur þeirra þar með verið ólögmætur svo að í bága fari við 6. gr. laga nr. 96/2002, einkum c., d. og h. liði 5. mgr. hennar.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á með viðhlítandi hætti að rökstuddur grunur leiki á því að varnaraðili hafi gerst sekur um brot á e. eða f. lið 2. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002, en slíkt brot getur varðað fangelsi allt að tveimur árum. Krafa sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta farbanni til 15. nóvember 2013 er á því reist að rannsókn málsins sé umfangsmikil og nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hans í þágu rannsóknarinnar. Í ljósi þess að varnaraðili hafi ferðast mikið til útlanda á undanförnum árum séu líkur á því að hann muni reyna að komast úr landi til að koma sér undan saksókn og fullnustu refsingar verði ekki við því spornað. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að banna varnaraðila brottför af landinu. Af þeim sökum verður fallist á kröfu sóknaraðila og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð brottför af Íslandi allt til föstudagsins 15. nóvember 2013 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. október 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómi Reykjaness X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 15. nóvember 2013, kl. 16:00.
Sakborningur krefst þess að kröfu lögreglustjóra um að honum verði gert að sæta farbanni verði hrundið.
I
Í greinargerð Lögreglustjórans á Suðurnesjum er meðal annars til þess vísað að samkvæmt beiðni Útlendingastofnunnar 16. júlí 2013 hafi embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum byrjað rannsókn á X og aðilum tengdum honum vegna grunsemda um verið væri að flytja fólk til Íslands gegn greiðslu.
Útlendingastofnun hafi borist upplýsingar um að sakborningur og aðilar tengdir honum séu viðriðnir mansal og/eða smygl á fólki. Bjóði þeir fólki til Íslands á fölskum forsendum með því að útvega þeim vegabréfsáritanir hér á landi. Fólk þetta fari síðan til Evrópu, þá aðallega til Ítalíu, Frakklands og Spánar. Komi fram í tilvitnuðum upplýsingum að sakborningur sé höfuðpaurinn í málinu.
Komið hafi fram við rannsókn lögreglu að umtalsvert peningastreymi sé um bankareikninga sakbornings. Þannig hafi t.d. sjö einstaklingar lagt um 3.700.000 króna inn á reikninga hans á árunum 2010-2012. Einnig hafi komið fram við rannsókn málsins að frá árinu 2009 hafi sakborningur keypt flugmiða fyrir a.m.k. 7.186.361 króna. Líklegt sé að sú upphæð sé hærri þar sem að einhverjar flugbókanir í hans nafni hafi verið greiddar með gjafabréfum. Farmiðakaup þessi séu hjá flugfélögum víðs vegar um heim. Heildarúttektir á þremur greiðslukortum sem að sakborningur hafi verið með frá mars 2009 séu 25.513.450 krónur þar til í lok júlí á þessu ári.
Hinn 3. október sl. hafi lögregla framkvæmt húsleit á heimili kærða að undangengnum úrskurði dómsins og í kjölfarið hafi kærði og eiginmaður hans, A, verið handteknir. Við húsleitina hafi lögregla lagt hald á mikinn fjölda gagna í þágu rannsóknar málsins, auk tveggja fartölva, níu síma og 15 símkorta frá ýmsum löndum. Þá hafi lögregla framkvæmt fleiri húsleitir hjá aðilum tengdum kærða sem talið sé að hafi útvegað vegabréfsáritanir fyrir fólk frá Filippseyjum inn á Schengensvæðið og einnig yfirheyrt fjölda aðila, auk sakbornings og eiginmanns hans.
Lögreglustjóri segir rannsóknina á hendur sakborningi og fleiri ætluðum samverkamönnum hans gríðarlega umfangsmikla og teygja anga sína til Evrópu, m.a. til Danmerkur þangað sem flestir þeir aðilar sem sakborningi sé gefið að sök að hafa aðstoðað til Evrópu hafi farið frá Íslandi. Samkvæmt gögnum lögreglu sé rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði hafi fengið 11.000 fyrir hvern þann aðila sem hann hafi aðstoðað við að komast til Evrópu. Þá hafi lögregla fundið afrit af greiðsluseðlum vegna ferða tveggja kínverskra stúlkna sem komið hafi hingað til lands árið 2011 í skáp sakbornings á vinnustað hans. Enn fremur hafi lögreglu borist upplýsingar frá upplýsingaaðila á Filippseyjum þess efnis að kærði og ætlaðir samverkmenn hans hafi fjárfest í fasteignum þar fyrir hagnað af hinni ætluðu ólögmætu starfsemi.
Lögreglustjóri tekur sérstaklega fram að rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og sé hún mjög umfangsmikil. Af framburði aðila virðist þó sem flestum beri saman um að kærði sé svokallaður skipuleggjandi hinna ætluðu brota hér á landi en svo virðist sem brotin teygi sig til Evrópu, þá aðallega til Danmerkur og Ítalíu. Rannsóknin hafi verið unnin í samskiptum við lögregluyfirvöld í Danmörku. Þá virðist sem sambærilegt mál hafi verið stöðvað í Frakklandi í liðinni viku og sé nú unnið að því að bera þessar rannsóknir saman til að rannsaka hvort tengsl séu á milli þessara mála. Hafi lögregla nú þegar fundið um 100 nöfn í haldlögðum gögnum sem ætla megi að hingað hafi verið boðið til lands með ólögmætum hætti.
Rannsókn lögreglu beinist að ætluðu mansali og smygli á fólki, ætluðum brotum á ákvæðum 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og e- og f-liðum 1. mgr. og 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Að mati lögreglu sé til staðar rökstuddur grunur um að sakborningur hafi haft hlutverki að gegna við flutning samlanda sinna til Íslands og Evrópu, mögulega í því skyni að hagnýta það í nauðungarvinnu, sbr. 227. gr. a almennra hegningarlaga. Um það vísar lögreglustjóri sérstaklega til framburðar sakbornings í framburðarskýrslu frá 16. október sl. þar sem fram komi að hann hafi fylgt samlöndum sínum til Ítalíu og að ekki sé kunnugt um afdrif þeirra. Í því sambandi vísar lögreglustjóri jafnframt til áðurnefndra tveggja kínverskra stúlkna sem hingað hafi komið í afar stuttan tíma árið 2011, en kærði hafi haft afrit af ferðagögnum þeirra í sínum vörslum.
Heimfærslu til e- og f-liða 1. mgr. og 2. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga segir lögreglustjóri á því byggða að gögn málsins beri með sér að sakborningur hafi sjálfur aflað vegabréfsáritana fyrir samlanda sína frá Filippseyjum, sbr. 6. gr. laga nr. 96/2002, en einnig fengið aðra ættingja og vini til að bjóða samlöndum sínum hingað til lands, sem síðan hafi sama sem ekkert dvalist hér á landi og ekki haft næga framfærslu tilgangur umsókna um vegabréfsáritanir hingað til lands því verið ólögmætur. Kveður lögreglustjóri rökstuddan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni aðstoðað útlendinga við að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki og/eða aðstoðað útlendinga við að koma ólöglega hingað til lands eða annars ríkis. Ætlað brot hans hafi verið framkvæmt með skipulagðri starfsemi með aðstoð samlanda sakbornings. Í raun hafi kærði játað að hafa aðstoðað samlanda sína með því að útvega þeim vegabréfsáritanir eða fengið aðra til þess, greiða fyrir þá farseðla hingað til lands og áfram til Evrópu.
Lögreglustjóri segir að rannsóknarhagsmunir séu í húfi og nauðsynlegt sé að tryggja nærveru sakbornings í þágu rannsóknar málsins. Þá virðist ljóst að sakborningur hafi ferðast mjög mikið á sl. árum og því séu miklar líkur á að hann muni yfirgefa landið, verði honum ekki gert að sæta farbanni. Í ljósi þess og alvarleika þeirra brota sem sakborningi séu gefin að sök telji lögregla hættu á að sakborningur muni reyna að komast úr landi eða leynast, ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, verði hann ekki úrskurðaður til að sæta farbanni meðan mál hans er til meðferðar innan réttarkerfisins. Samkvæmt því sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, um farbann, fullnægt í málinu.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a- og b.-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 227. gr.a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að sakborningi verði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 15. nóvember 2013.
II
Af hálfu sakbornings hefur verið til þess vísað að vissulega hafi hann aðstoðað fólk við að koma hingað til lands. Hins vegar sé með öllu ósannað að með því hafi hann gerst brotlegur við lög. Þá hafi sakborningur engar sakir á sig játað. Fullyrðingar lögreglustjóra um að hann sé viðriðinn mansal séu með öllu ósannaðar. Einungis sé um hugleiðingar að ræða. Enn fremur séu fullyrðingar um að nokkrir einstaklingar hafi horfið eftir skamma dvöl hér á landi alls ósannaðar. Ekkert liggi fyrir um að reynt hafi verið að ná sambandi við þá aðila.
Framansögðu til viðbótar hefur af hálfu sakbornings verið til þess vísað að hann hafi verið búsettur hér á landi í um 11 ár og hafi hér fasta atvinnu. Þá sé fjölskylda sakbornings einnig búsett hér á landi. Engin ástæða sé því til þess að ætla að hann muni flýja land.
III
Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 666/2013, sem kveðinn var upp 15. október s.l., var felldur úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjaness frá 11. þessa mánaðar þess efnis að sakborningur skyldi sæta gæsluvarðhaldi allt til 22. október nk., kl. 16:00. Í forsendum Hæstaréttar sagði meðal annars svo:
„Krafa sóknaraðila er byggð á ætluðum brotum varnaraðila gegn ákvæðum 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Grunur um þessi brot styðst samkvæmt gögnum málsins við þau óformlegu bréf sem að ofan eru rakin auk skýrslna hjá lögreglu um að hann hafi útvegað tilgreindum mönnum vegabréfsáritanir hér á landi og útvegað og keypt farmiða fyrir þá. Þá er ekki rökstutt af hálfu sóknaraðila hvernig færa megi þá háttsemi hans undir 227. gr. a. almennra hegningarlaga. Ekki verður heldur ráðið undir hvaða ákvæði 57. gr. laga nr. 96/2002 háttsemi varnaraðila verði færð. Þannig hefur sóknaraðili ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila.“
Samkvæmt áðursögðu byggist krafa lögreglustjóra á því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt. Ekki verður hins vegar fram hjá því litið að hvorki í kröfu lögreglustjóra né þeim gögnum er henni fylgja er nokkuð það að finna sem réttlætt getur, að virtri framangreindri niðurstöðu Hæstaréttar í dómi uppkveðnum fyrr í þessari viku, að komist verði nú að þeirri niðurstöðu að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 í málinu, en telja verður að dómari máls þessa sé bundinn af niðurstöðu hins æðri réttar. Þegar að þessu virtu verður ekki á kröfu lögreglustjóra fallist.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 15. nóvember 2013, kl. 16:00, er hafnað.