Hæstiréttur íslands
Mál nr. 146/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 30. apríl 2004. |
|
Nr. 146/2004. |
Jón Trausti Halldórsson (sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var máli J vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. apríl sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila svo að hann krefjist þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og honum gert að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2004.
Mál þetta var höfðað 4. desember 2003.
Stefnandi er Jón Trausti Halldórsson, Bústaðabletti 10, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefna málsins er svohljóðandi:
„Hér með stefni ég Jón Trausti Halldórsson . . . félagsmálaráðherra Árna Magnússyni . . . Fyrir Brot á 25gr. laga. Sameinuðuþóðanna Frá “48.uppfært”92. og lög um félagsþónustu sveitafélaga í IV.kafla: 12gr. laga. lög nr: 40/1991, sbr.Lög nr:31/1994. og 130/”95. Og 34/”97. í þeim lögum í I. Kafla lgr.laga. er líka brotið á mér. útgefið sérprentun, júlí 1997.
Hef ég farið fram á skaðabætur, og sent gíróseðla til að auðvelda málsmeðferð og er það krafa mín að þær bætur verði, borgaðar, Gíró nr:2530301. og 2530300. 01.94,400milj,og fjögurhundruð þús. 00. 130,000,000 miljónir plús Vextir Eins og ofan greind lög fjalla um þá voru þau ekki virt hefur það gerst tvisvar fyrst 2002. og nú aftur 2003. Og segir umboðsmaðaur alþigis í bréfi í máli nr:3588/”02. 31mars 2003. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir ágreinigur milli yðar og Félagsmálaráðauneitis um það hvort þér eigið rétt á skaðabótum vegna mannréttindabrota.
Er úrlausn um það atriði þess eðlis að það heyrir undir dómstóla, en ekki umboðsmanns alþingis. Tilvitunn líkur.
Og stefni þá félagamalaráðherra fyrir Héraðasdóm og ert þú með öll gögn um málið og allar ítrekanir sem ég hefi sent til brotamanns þessara ofangreindra laga.
Og ofansögðum gírósðlum. sem ljósrit er af með gögnum, og er ég búin að sækja um gjafsókn sem einig fylgir þessu blaði. Og frá upphafi þessa máls gögn frá Umbðsmanni alþingis.
Verður Málið þingfest stofa 102 4/12 2003. kl:10:00
Skora ég á þig að mæta fyrir dóm þegar málið verður þingfest svara til sakar og leggja fram öll gögn um málið.
Viðvörun!: Útivistardómur getur gengið ef þér herra félagsmálaráðherra árni Magnússon sækir ekki þing við þingfestingu málsins.
Og til frekari útskíringar Bréf sem ég sendi fjölmiðlum Rúf, stöð2 og morgunblaði13/11 síðatliðið 2003. þar sem kemur fram mín reinsla af kerfinu í Fréttatilkynningu.”
Af hálfu stefnda er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til þrautavara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði stórlega lækkuð og málskoðnaður felldur niður.
Frávísunarkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um hana 12. þ.m. en þá var af hálfu stefnda ítrekuð krafa um að málinu yrði vísað frá dómi og sér úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda og stefnandi krafðist þess að frávísunarkröfu stefnda yrði hafnað.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda brjóti alvarlega í bága við skilyrði réttarfarslaga um málatilbúnað stefnenda í dómsmálum, sbr. lög nr. 91/1991. Aðild málsins sé verulega vanreifuð, þ.e. hvers vegna félagsmálaráðherra sé stefnt í málinu. Dómkröfur stefnanda séu mjög óskýrar og fullnægi ekki þeim skilyrðum sem fram komi í d-lið 1. mgr. 80.gr. laga nr. 91/1991 en helst megi skilja af stefnu að félagsmálaráðherra sé stefnt fyrir meint brot á ýmsum lögum sem þar séu talin upp. Hugsanlegt sé að í dómkröfunni felist krafa um skaðabætur en það sé þó ekki ljóst. Þá sé málið að mati stefnda stórkostlega vanreifað að öllu leyti og fullnægi engan veginn skilyrðum e-liðar 1. mgr. 80.gr. laga nr. 91/1991. Skorti einnig málsástæður, sem stefnandi byggi málsókn sína á, en þar af leiðandi einnig önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Lýsing máls, sem gefin sé í stefnu, sé mjög óskýr og veruleg óvissa hvert sakarefni málsins sé. Þetta sé að mati stefnda í algjöru ósamræmi við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr.91/1991. Stefndi telur að í stefnu felist beiðni um lögfræðilegt álit dómsins en slíkt sé í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hafi ekki lagt fram skrá þá sem 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 tilgreini. Allt framangreint telur stefndi leiða til þess að málið sé algerlega ódómtækt eins og það sé lagt fyrir dóminn.
Í stefnu kemur fram hver sé stefnandi og hverjum sé stefnt. Þá hefur stefna að geyma viðvörum um að útivistardómur geti gengið ef stefndi sæki ekki þing við þingfestingu málsins. Samkvæmt þessu er fullnægt ákvæðum a-, b- og k-liða 1. mgr. 80. gr laga nr. 91/1991.
Umfram framangreint er stefnan óskiljanleg. Ekki verður séð að hún fullnægi öðrum skilyrðum sem talin eru í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 en þeim sem talin voru upp hér að framan.
Samkvæmt þessu ber að fallast á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi. Eftir atvikum þykir mega ákveða að málskostnaður skuli falla niður.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.