Hæstiréttur íslands
Mál nr. 128/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Meðalganga
- Aukameðalganga
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 21. apríl 2004. |
|
Nr. 128/2004. |
A (Ingibjörg Bjarnardóttir hdl.) gegn B og (Dögg Pálsdóttir hrl.) C (enginn) |
Kærumál. Meðalganga. Aukameðalganga. Frávísunarúrskurður staðfestur.
A krafðist þess að henni yrði heimiluð meðalganga við hlið eiginmanns síns, C, í forsjármáli hans og B. Þótti hún ekki hafa sjálfstæða hagsmuni að lögum af því að úrslit forsjármálsins yrði á þann veg sem C krefðist. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2004, þar sem vísað var frá kröfu sóknaraðila um meðalgöngu í forsjármáli, sem varnaraðilinn B hefur höfðað gegn varnaraðilanum C. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 403/1992 í dómasafni réttarins 1992, bls. 1804. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og henni heimiluð meðalganga við hlið eiginmanns síns varnaraðilans C. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn B krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðilinn C hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2004.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 2. mars sl. um frávísunarkröfu meðalgöngustefndu, B, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, á hendur B og C með meðalgöngustefnu, þingfestri 3. febrúar 2004.
Dómkröfur meðalgöngustefnanda eru þær að henni verði heimiluð meðalganga í forsjármáli nr. [ ]: B gegn C, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til niðurfellingar á sameiginlegri forsjá aðila með syninum, X, og ákvörðunar um framtíðarforsjá hans.
Meðalgöngustefnandi krefst þess að réttur hennar til lögbundinnar forsjár X verði verndaður með því að dómur í aðalsök verði við kröfu eiginmanns hennar, C, um að honum verði með dómi falin forsjá X til lögræðisaldurs. Jafnframt krefst meðalgöngustefnandi þess að henni verði ásamt eiginmanni sínum, stefnda í aðalsök, C, falin forsjá X til lögræðisaldurs. Þá krefst meðalgöngustefnandi þess að allur málskostnaðar auk virðisaukaskatts verði tildæmdur henni úr hendi aðalstefnanda í aðalsök, B, að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur meðalgöngustefndu, B, eru þær aðallega að kröfu meðalgöngustefnanda um meðalgöngu í forsjármáli nr. [ ]: B gegn C, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, verði vísað frá dómi. Til vara að kröfu meðalgöngustefnanda um að henni og meðalgöngustefnda, C, verði dæmd forsjá drengsins, X, verði hafnað og að meðalgöngustefndu, B, verði dæmd forsjá drengsins til 18 ára aldurs. Verði fallist á aðalkröfu meðalgöngustefndu B, þá er þess krafist að henni verði dæmdur málskostnaður úr hendi meðalgöngustefnanda að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, en meðalgöngustefnda, B, hefur fengið gjafsóknarleyfi vegna reksturs aðalmálsins. Verði ekki fallist á aðalkröfu meðalgöngustefndu B þá er þess krafist að málskostnaður verði látinn bíða aðalmálsins.
Málavextir
Meðalgöngustefndu eiga saman drenginn, X, sem fæddur er [ ] 1996. Þau gerðu með sér samkomulag um sameiginlega forsjá drengsins, sem staðfest var af sýslumanninum í Reykjavík 30. janúar 2001. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er nú til meðferðar í málinu nr. [ ] ágreiningur meðalgöngustefndu um forsjá sonar þeirra. Var málið þingfest 26. júní 2003. Í því máli gera báðir aðilar kröfu til þess að sameiginleg forsjá þeirra með drengnum verði felld úr gildi og hvort þeirra um sig gerir kröfu til þess að fá forsjá drengsins til frambúðar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. [...] uppkveðnum 25. september 2003, var meðalgöngustefndu, B, ákveðin til bráðabirgða forsjá sonar aðila meðan forsjármál milli aðila væri til lykta leitt. Með úrskurði, uppkveðnum í forsjármálinu 9. janúar 2004, var hafnað kröfu stefnda, C, um breytingu á bráðabirgðaforsjá drengsins. Í máli þessu fer meðalgöngustefnandi, A, eiginkona meðalgöngustefnda, C, fram á það að fá sjálfstæða aðild að forsjármáli því sem rekið er á milli meðalgöngustefndu. Hefur meðalgöngustefndi, C, samþykkt þá meðalgöngu fyrir sitt leyti, en meðalgöngustefnda, B, andmælir meðalgöngunni. Er ágreiningur þar um hér til úrlausnar.
Málsástæður meðalgöngustefnanda
Meðalgöngustefnandi byggir á því að úrslit forsjármálsins í aðalsök skipti hana máli að lögum og geti leitt til lögbundinnar forsjár hennar með maka sínum, C, sbr. 3. mgr. 30. gr. og 1. og 2. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 20/1992, sbr. og ákvæði 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefnandi telur brýna nauðsyn að ganga inn í aðalsök í héraðsdómsmálinu nr. [...]. Hún hafi sjálfstæða hagsmuni af því að úrslit málsins verði með tilteknum hætti. Meðalganga hennar í aðalsök á grundvelli heimildar 20. gr. laga nr. 91/1991 tryggi að réttur hennar verði verndaður við dóm á sakarefni í aðalsök. Með vísan til ákvæðis í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, um að forsjá barns skuli ákveða eftir því sem barni er fyrir bestu, krefst meðalgöngustefnandi þess að henni verði ásamt eiginmanni sínum, stefnda í aðalsök, C, falin forsjá X til lögræðisaldurs. Að mati meðalgöngustefnanda sé enginn vafi á því að sú tilhögun forsjár sé X fyrir bestu, að alast upp í forsjá föður síns, aðalstefnda, og hennar. Á heimili þeirra búi drengurinn við stöðugleika og öryggi og allar uppeldisaðstæður hans þar séu eins og best verði á kosið. Málskostnaðarkröfu sína byggir meðalgöngustefnandi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988. Dómkröfur máls þessa séu ekki komnar til vegna virðisaukaskattskyldrar starfsemi meðalgöngustefnanda og beri henni því nauðsyn til að fá dóm fyrir greiðslu skattsins úr hendi stefnanda í aðalsök.
Málsástæður meðalgöngustefndu, B
Meðalgöngustefnda, B, byggir aðalkröfu sína á því að lagaskilyrði bresti fyrir því að heimiluð verði meðalganga meðalgöngustefnanda í málinu þar sem meðalgöngustefnandi hafi ekki sjálfstæða lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verði að skilja ákvæðið þannig að meðalgöngustefnandi þurfi að hafa slíka aðild að málinu að hann geti sjálfstætt gert kröfur um málsúrslit. Það gæti meðalgöngustefnandi ekki því hagsmunir meðalgöngustefnanda af málsúrslitum séu afleiddir af hagsmunum eiginmanns hennar sem er stefndi í aðalmáli og verði þeir hagsmunir ekki sundurgreindir með þeim hætti að meðalgöngustefnandi eigi sjálfstæða, lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins.
Í aðalmálinu nr. [...] krefst stefnandi B, meðalgöngustefnda í máli þessu, þess að henni verði falin forsjá sonarins, X, til 18 ára aldurs. Stefndi í því máli, C, meðalgöngustefndi í máli þessu, krefst þess að honum verði falin forsjá sonarins. Báðir aðilar byggja kröfugerð sína á því að hagsmunum barnsins sé best komið hjá sér, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Meðalgöngustefndu séu foreldrar barns þess sem hér um ræðir og þar sem þeir séu báðir á lífi sé aðild annarra lögum samkvæmt og eðli máls, útilokuð. Sé ljóst að krafist sé meðalgöngu til þess að taka undir kröfur annars aðilans í málinu og hafi meðalgöngustefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi brýna og sjálfstæða hagsmuni af úrslitum máls, en til þess verði að gera strangar kröfur með tilliti til þess að meðalganga sé undantekning frá meginreglu réttarfars um málsforræði. Verði niðurstaðan í forsjármálinu nr. [...] sú að stefndi, C, meðalgöngustefndi í máli þessu, fái dæmda forsjá barnsins fái meðalgöngustefnandi réttarstöðu stjúpforeldris samkvæmt 3. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003 og muni þá, en ekki fyrr, öðlast forsjá yfir barninu með meðalgöngustefnda C. Geti meðalgöngustefnandi ekki krafist verndar á réttindum sem ekki séu þegar til orðin og óvíst sé um hvort nokkru sinni verði. Þegar af þeirri ástæðu telur meðalgöngustefnda, B, að hafna beri kröfu meðalgöngustefnanda um meðalgöngu í forsjármáli nr. [...].
Niðurstaða
Kröfu sína um meðalgöngu í málinu nr. [...] byggir meðalgöngustefnandi á 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því ákvæði er þriðja manni heimilað að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Jafnframt því sem meðalgöngustefnandi gerir kröfu til þess að réttur hennar til lögbundinnar forsjár X verði verndaður með dómi í framangreindu máli gerir hún kröfu til þess að henni verði ásamt eiginmanni sínum, stefnda í því máli, C, falin forsjá X til lögræðisaldurs.
Meðalgöngustefndu, sem eru foreldrar drengsins, X, deila um forsjá hans í framangreindu máli. Bein aðild meðalgöngustefnanda að þeirri forsjárdeilu er ekki heimil lögum samkvæmt. Meðalgöngustefnandi, sem er eiginkona meðalgöngustefnda, C, hefur ekki heldur, að svo komnu, sjálfstæða hagsmuni af úrslitum málsins, þar sem réttur hennar til lögbundinnar forsjár sem stjúpforeldris samkvæmt barnalögum er við það bundinn að eiginmaður hennar fari með forsjá drengsins.
Samkvæmt framansögðu ber að vísa kröfu um meðalgöngu í forsjármáli nr. [...] frá dómi. Ákvörðun málskostnaðar í þessu máli bíður dóms í forsjármálinu.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu meðalgöngustefnanda, A, um meðalgöngu í forsjármáli nr. [ ], er vísað frá dómi.
Ákvörðun málskostnaðar í þessu máli bíður dóms í forsjármálinu.