Hæstiréttur íslands
Mál nr. 195/2015
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 15. október 2015. |
|
Nr. 195/2015.
|
Agnes Arnardóttir og Jóhannes S. Sigursveinsson (Árni Pálsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
A og J kröfðust þess að tveimur lánssamningum, sem T ehf. hafði gert við forvera L hf., yrði vikið til hliðar að hluta og viðurkennd yrði skaðabótaskylda L hf. vegna þess tjóns sem T ehf. hefði orðið fyrir vegna ólögmæti samninganna. Taldi Hæstiréttur að krafa A og J um að samningunum yrði vikið til hliðar að hluta væri svo óskýr að vísa yrði henni sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var ekki talið að A og J hefðu sýnt fram á að L hf. hefði með háttsemi sinni valdið T ehf. tjóni sem væri bótaskylt og var L hf. því sýknaður af viðurkenningarkröfu A og J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi, sem þá var Teigur ehf., skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 14. janúar 2014, en ekki varð af þingfestingu þess 25. febrúar 2015 og var því áfrýjað öðru sinni 12. mars sama ár. Bú Teigs ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og á skiptafundi í því 22. september 2015 ákvað skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta í máli þessu. Á fundinum tóku kröfuhafarnir Agnes Arnardóttir og Jóhannes S. Sigursveinsson ákvörðun um að reka málið hér fyrir réttinum í eigin nafni til hagsbóta fyrir búið, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þau krefjast þess að „lánasamningum 162-36-12015 og 162-36-12016 verði vikið til hliðar að hluta.“ Þá krefjast þau þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna þess tjóns sem Teigur ehf. varð fyrir vegna ólögmætis fyrrgreindra lánssamninga. Loks krefjast þau „málskostnaðar“.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Telja verður að krafa áfrýjenda um að tilgreindum lánssamningum verði vikið til hliðar að hluta hafi falist í upphaflegri dómkröfu um að samningunum yrði „vikið til hliðar með dómi“ svo sem krafan var orðuð fyrir héraðsdómi. Af málatilbúnaði áfrýjenda verður ráðið að í kröfugerð þessari felist að samningunum verði vikið til hliðar og höfuðstóll þeirra lækkaður í tiltekið horf samkvæmt útreikningum stefnda á fyrirliggjandi dómskjali. Ekki fær staðist með þessu móti að áfrýjendur geti um efnisatriði kröfu sinnar vísað til framlagðra skjala í málinu án þess að taka lýsingu þeirra upp í kröfuna sjálfa. Að þessu virtu er ófært að fella efnisdóm á þessa kröfu áfrýjenda eins og þau hafa borið hana fram fyrir Hæstarétti, en vegna þessa málatilbúnaðar gæti heldur ekki komið til álita að leysa úr málinu á þeim grundvelli sem það virtist hvíla á fyrir héraðsdómi. Með því að krafa áfrýjanda að þessu leyti er svo óskýr verður að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að öðru leyti verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að kröfu áfrýjenda, Agnesar Arnardóttur og Jóhannesar S. Sigursveinssonar, um að lánssamningum 162-36-12015 og 162-36-12016 verði vikið til hliðar að hluta, er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 16. september 2014, að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Teigi ehf., Baldursnesi, Akureyri, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu þingfestri 7. febrúar 2013.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
i. Að viðurkennt verði með dómi að lánssamningur nr. 0162-36-7934 sé bundinn ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
ii. Að viðurkennt verði með dómi að viðskiptasamningur nr. 0162-36-9804, dagsettur 24. október 2007, og ádrættir með vísan til hans, með lánsbeiðnum dagsettum 24. október 2007, 7. desember 2007, 30. janúar 2008, 12. febrúar 2008, 31. mars 2008 og 11. apríl 2008, séu bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
iii. Að lánssamningar nr. 0162-36-12015 og 0162-36-12016, dagsettir 15. janúar 2009, verði ógildir með dómi. Til vara að þeim verði vikið til hliðar með dómi og til þrautavara að viðurkennt verði með dómi að lánssamningarnir séu bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
iv. Að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ólögmætra lánssamninga nr. 162-36-7934, 162-36-9804, 162-36-12015 og 162-36-12016 og að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna hans fyrir, við og í kjölfar gerð lánssamninga nr. 162-36-9804, 162-36-12015 og 162-36-12016, sem hófst þegar stefnanda var synjað um að draga af reiknilánalínu nr. 162-36-9804 og lauk þegar stefndi felldi niður reikning stefnanda nr. 109528, á hendur stefnda, í eigin innheimtukerfi.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.
II
Málavextir eru þeir að stefnandi óskaði eftir fjármögnun hjá forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf., árið 2007, fyrir byggingu húsnæðis á lóð sem stefnandi hafði fengið úthlutað. Allir samningar voru í nafni stefnanda og tryggingar fyrir greiðslum í eigum hans. Af hálfu beggja aðila, stefnanda og Landsbanka Íslands hf., var undirritaður lánssamningur 9. maí 2007 um reikningslánalínu að fjárhæð allt að 10.000.000 króna sem bankinn skuldbatt sig til að hafa til reiðu fyrir stefnanda. Stefnandi skyldi, samkvæmt samningnum fá lánshluta greidda út samkvæmt þar til gerðum lánsbeiðnum. Gildistími samningsins var frá undirritun til 7. apríl 2008. Með lánsbeiðni, dagsettri 9. maí 2007, óskaði stefnandi eftir 8.000.000 króna láni með vísan til framangreinds viðskiptasamnings aðila. Í lánsbeiðninni kemur fram að túlka skuli öll hugtök beiðninnar í samræmi við framangreindan viðskiptasamning. Því næst segir að lántaki óski eftir því að „lánshluti samkvæmt neðangreindu verði afgreiddur til félagsins:“ Lántökudagur lánshlutans skyldi vera 16. maí 2007, mynt og upphæð vera 8.000.000 íslenskra króna, 35% evrur, 20% japönsk jen og 45% svissneskir frankar. Gjalddagi skyldi vera 7. apríl 2008. Lánið skyldi bera LIBOR-vexti með 2,8% álagi. Samkvæmt framlagðri kaupnótu var lánið greitt út 16. maí 2007 í samræmi við framangreinda beiðni og íslenskar krónur lagðar inn á tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum, samtals 7.910.000 krónur. Er það lánsfjárhæð að frádregnum 1% lántökukostnaði og 10.000 krónum í skjalagerð. Þetta lán var gert upp með skuldfærslu af reikningi stefnanda, að fjárhæð 8.279.182 krónur, hinn 30. júní 2007. Samkvæmt framlagðri kaupnótu var lánið með númerið 7934. Önnur lánsbeiðni með vísan í viðskiptasamning aðila, dagsettan 9. maí 2007, var undirrituð af hálfu stefnanda og Landsbanka Íslands hf. hinn 7. desember 2007. Framangreindir ádrættir voru að fullu greiddir upp 26. október 2007. Aftur var dregið á lán nr. 7934 hinn 1. apríl 2008, að fjárhæð 3.500.000 krónur, 35% í evrum, 20% í japönskum jenum og 45% í svissneskum frönkum. Samkvæmt greinargerð stefnda var sá ádráttur greiddur upp með ádrætti á lán nr. 8904 hinn 11. apríl 2008. Kemur það heim og saman við framlagða lánsbeiðni, dagsetta 11. apríl 2008, með vísan til viðskiptasamnings frá 24. október 2007, að fjárhæð 3.500.000 krónur, 35% í evrum, 20% í japönskum jenum og 45% í svissneskum frönkum.
Viðskiptasamningur nr. 9804 var undirritaður af hálfu stefnanda, Landsbanka Íslands hf. og Einars Gottskálkssonar, hinn 24. október 2007. Á forsíðu samningsins er fyrirsögnin „Kr. 62.600.000,- Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“. Fram kemur að samningurinn er milli Landsbanka Íslands hf. og stefnanda sem og Einars Gottskálkssonar sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. Í formála samningsins segir að bankinn hafi samþykkt að veita stefnanda rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 62.600.000 krónur í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn eigi viðskipti með. Í 2. gr. samningsins er kveðið á um að bankinn skuli hafa reikningslánalínu að fjárhæð 62.600.000 krónur til reiðu fyrir stefnanda og að innan þeirra sé stefnanda heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með. Í 3. gr. samningsins segir að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán. Hámarkslánstími hvers lánshluta takmarkist af gildistíma samningsins en lánstími skuli ekki vera skemmri en tveir dagar sé lánið í erlendum myntum. Í 4. gr. er kveðið á um lánsbeiðnir. Fram kemur að undirrituð lánsbeiðni frá stefnanda skuli fylgja beiðni um einstaka lánshluta og skuli berast bankanum í síðasta lagi samdægurs sé lánshlutinn í íslenskum krónum en með tveggja bankadaga fyrirvara sé hann í erlendum myntum. Í grein 4.2 segir að lánsbeiðni sé fylgiskjal A með samningnum og skuli hún fyllt út með skýrum hætti og í henni skuli eftirfarandi upplýsingar koma fram: Fullt nafn og kennitala lántaka, lántökudagur lánshlutans, mynt og upphæð, vaxtakjör og gjalddagi, ráðstöfunarreikningur og skuldfærslureikningur, undirskrift og staðfesting lántaka. Í grein 4.6 segir að hver lánshluti greiðist inn á reikning stefnanda miðað við kaupgengi hverrar myntar hjá bankanum tveimur bankadögum fyrir útborgunardag. Í 5. kafla samningsins kemur fram að lánshlutar í íslenskum krónum skuli bera REIBOR-vexti en lánshlutar í erlendum myntum LIBOR-vexti. Í 7. gr. samningsins segir að hvern lánshluta skuli greiða hjá bankanum á gjalddaga. Sé lánshlutinn í erlendri mynt greiði stefnandi afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga. Á gjalddaga sé stefnanda heimilt að greiða í lántökumyntum. Í grein 8.1 er heimild fyrir stefnanda til þess að greiða einstaka lánshluta upp fyrir gjalddaga þeirra enda sé bankanum tilkynnt um fyrirframgreiðsluna fyrir klukkan 13.30 þann sama dag eða með tveggja bankadaga fyrirvara sé lánshlutinn í erlendri mynt. Í 13. kafla samningsins eru talin upp skilyrði sem heimila bankanum að fella samninginn úr gildi eða gjaldfella alla útistandandi lánshluta með tilkynningu til lántaka. Í grein 13.2 segir að bankanum sé þá heimilt að umreikna alla útistandandi lánshluta í íslenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim myntum sem hver lánshluti sé í og krefja lántaka um greiðslu hans í samræmi við ákvæði samningsins. Stefnandi kveður samninginn hafa verið til eins árs, sem hafi verið áætlaður byggingartími húsnæðisins að Baldursnesi 4. Munnlegt samkomulag hafi verið með aðilum um áframhaldandi fjármögnun, eftir að byggingin yrði tilbúin, í formi langtímaláns til 25-30 ára, í íslenskum krónum.
Lánsbeiðni samkvæmt framangreindum samningi var undirrituð hinn sama dag, 24. október 2007, fyrir hönd stefnanda og forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf. Í henni er vísað til viðskiptasamningsins og tekið fram að túlka skuli öll hugtök í lánsbeiðninni í samræmi við hann. Óskar svo stefnandi eftir því að „lánshluti samkvæmt neðangreindu verði afgreiddur til félagsins:“. Lántökudagur er tilgreindur 26. október 2007, mynt og upphæð 19.000.000 ISK, gjalddagi 11. september 2008, vaxtakjör LIBOR-vextir með 2,8% álagi EUR 35%, JPY 20% og CHF 45% og loks ráðstöfunar- og skuldfærslureikningur nr. 102900. Fleiri lánsbeiðnir voru síðar undirritaðar á grundvelli samningsins, sbr. annan lið dómkrafna stefnanda.
Í júlí 2008 var undirritaður viðauki við samning um reikningslánalínu, nr. 9804. Samkvæmt viðaukanum skyldi bankinn hafa til reiðu allt að 80.000.000 króna og sjálfskuldarábyrgð Einars Gottskálkssonar var hækkuð í 30% af heildarskuldum. Höfðu þá 52.000.000 króna verið dregnar á línuna. Stefnandi kveður að bankinn hafi neitað stefnanda um að draga meira fé af lánalínunni vegna óhagstæðs gengis sem hefði valdið því að lánið hefði hækkað. Með viðaukanum var grein 2.2 í samningi nr. 9804 breytt þannig að innan þeirra marka yrði lántaka heimilt að taka lán í íslenskum krónum. Nær allir ádrættir lánalínunnar höfðu svo verið greiddir upp 11. september 2008. Á þeim tíma var þó ágreiningur milli aðila um fjárhæð lánanna vegna gengistryggingar þeirra.
Í byrjun október 2008 lokaði Landsbanki Íslands hf. lánalínu samkvæmt samningi nr. 9804. Stefnandi hafði þá fengið 60.500.000 krónur greiddar út. Stefnandi kveður að á þeim tíma hafi verið þrjár vikur í opnun og að óuppgert hafi verið við iðnaðarmenn og seljendur eininganna í húsið. Stefnandi hafi þurft það fjármagn sem bankinn hafði lofað að láta af hendi til þess að hægt væri að klára bygginguna. Starfsmenn bankans hafi þá skýrt stefnanda frá því að hann ætti þann kost einan að gera nýjan samning. Stefnandi kveður starfsmenn bankans hafa þrýst mjög á forsvarsmenn stefnanda og fullvissað þá um að þetta væri eini möguleikinn til að fá fjármuni til að klára byggingu fasteignarinnar. Kveður stefnandi stefnda hafa einhliða samið skilmála hinna nýju lána.
Þrír nýir lánssamningar voru undirritaðir 15. janúar 2009, nr. 0162-36-12015, 0162-36-12016 og 0162-36-12017. Samningarnir voru notaðir til þess að greiða upp eftirstöðvar lána samkvæmt samningi nr. 9804 en þar að auki fékk stefnandi 18.922.714 krónur inn á reikning sinn samkvæmt síðastnefnda samningnum. Á forsíðu samninga nr. 12015 og 12016 eru lánsfjárhæðir tilgreindar í evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Í samningi nr. 12015 segir í upphafi texta samningsins að aðilar geri með sér svohljóðandi „lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði EUR 177.249,52 JPY 18.300.788 CHF 370.105,35“. Að sama skapi segir í upphafi texta samnings nr. 12016 að aðilar geri með sér svohljóðandi „lánssamning um fjölmyntalán til 3 mánaða að jafnvirði EUR 10.670,79 JPY 1.101.746 CHF 22.281,12“. Í báðum samningum segir því næst að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi Landsbankans á gjalddaga. Jafnframt skyldu lán samkvæmt báðum samningum bera vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,80% vaxtaálags. Þá skyldu lán samkvæmt báðum samningum greidd út tveimur virkum dögum eftir undirritun samninganna og var útgreiðsla þeirra því ekki háð frekari lánsbeiðnum eða annarri skjalagerð.
Stefnandi kveður að eftir dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi forsvarsmenn stefnanda óskað eftir fundi með starfsmönnum stefnda til þess að finna lausn á ágreiningi þeirra. Forsvarsmenn stefnanda hafi óskað eftir endurútreikningum og komið með hugmyndir um lyktir mála. Starfsmenn stefnda hafi hins vegar ekki talið að lán stefnanda féllu undir fordæmi framangreindra dóma. Stefnandi hafi hætt að greiða af lánunum um mitt ár 2010 í mótmælaskyni, meðal annars vegna skorts á samningsvilja af hálfu stefnda og vegna þess að félag í eigu stefnda starfaði í samkeppni við stefnanda. Stefnandi hafi þá greitt um 20.000.000 króna í afborganir og vexti. Stefnandi hafi á sama tíma hætt að nota reikning sinn hjá stefnda og sent stefnda reikning fyrir þeim skaða sem hann taldi að hann hefði valdið stefnanda. Þær aðgerðir hafi engan árangur borið.
Í málinu er lagt fram óundirritað bréf sem stefnanda barst frá stefnda um miðjan desember 2011, dagsett 8. desember sama ár. Í bréfinu kemur fram að það sé mat stefnda að lán samkvæmt samningi nr. 9804 hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010, hafi eftirstöðvar lánsins verið endurútreiknaðar miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir. Stefndi hafi endurreiknað lán samkvæmt samningnum, sem gerður hafi verið upp 23. janúar 2009. Stefndi hafi, við endurútreikninginn, reiknað útlánsvexti Seðlabanka Íslands á inneign stefnanda frá uppgreiðsludegi lánsins til endurútreikningadags, 5. desember 2011. Loks kemur fram að í samræmi við almennar reglur kröfuréttar muni stefndi skuldajafna við inneignina vanskilum á lánum sem stefnandi skuldi. Inneignin var samtals að fjárhæð 17.974.738 krónur, af þeim voru 16.921.864 krónur greiddar upp í vanskil vegna láns nr. 12015 og 1.052.874 krónur upp í vanskil vegna láns nr. 12016. Samkvæmt framlögðum kvittunum var inneigninni skuldajafnað við vanskilin í samræmi við framangreint hinn 5. desember 2011.
Með bréfi, dagsettu 29. febrúar 2012, hafnaði stefnandi endurútreikningum stefnda á þeim grundvelli að bréfið væri óundirritað, ekkert benti til þess að það væri frá stefnda og að útreikningarnir væru rangir. Loks hafi stefnandi komist að því að stefndi hafi látið kröfu stefnanda á hendur stefnda niður falla í innheimtukerfi sínu. Stefnandi geti ekki lengur setið undir innheimtuaðgerðum stefnda án þess að hann höfði mál til innheimtu skuldarinnar þar sem stefnandi geti komið að vörnum. Stefnandi sjái því engan annan kost í stöðunni en að leita til dómstóla.
III
Hvað varðar fyrsta lið dómkrafna stefnanda, byggir hann á því að lánssamningur nr. 7934 hafi verið um lán í íslenskum krónum bundið gengistryggingu með ólögmætum hætti, sbr. 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Höfuðstóll lánsins hafi verið í íslenskum krónum, lánsbeiðni hafi tilgreint íslenskar krónur og útborgun og endurgreiðsla lánsins verið í íslenskum krónum. Um þýðingu þess vísar stefnandi til eftirfarandi umfjöllunar.
Varðandi annan lið dómkrafna stefnanda byggir hann á því að reikningslánalína samkvæmt samningi nr. 9804 hafi einnig verið um lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu, sbr. 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt samninginn í heild sem ólögmætt lán í bréfi sent stefnanda 8. desember 2011. Í bréfinu skuldajafni stefndi inneign stefnanda með ólögmætum hætti. Samkvæmt kvittunum bankans, dagsettum 7. desember 2012, hafi þá þegar verið búið að nýta fé samkvæmt endurútreikningi stefnda til að kaupa erlenda gjaldmiðla í nafni stefnanda og skuldajafna til greiðslu vangreiddra afborgana af lánssamningum nr. 12015 og 12016. Stefndi hafi hins vegar ekki virt eigið mat á ólögmæti lánsins eða framangreindan skuldajöfnuð.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að eina tilgreining á fjárhæð lánsins, bæði í samningnum og í lánsbeiðnum, hafi verið í íslenskum krónum, ýmist í tölustöfum eða bókstöfum. Hvergi sé getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Samkvæmt grein 3.1 í samningnum skyldi hvert lán innan lánalínu vera sjálfstætt lán. Samkvæmt 4. kafla samningsins skyldi lánsbeiðandi leggja fram lánsbeiðni hvers lánshlutar. Með samningnum hafi því ákveðinn rammi verið settur utan um lánsviðskipti málsaðila, meðal annars um útborgun hugsanlegra lána, endurgreiðslu þeirra, vexti og tryggingar. Hverju láni hafi þannig verið skipaður farvegur. Stefndi hafi aðeins skuldbundið sig til þess að hafa 62.500.000 krónur til reiðu en innan marka samningsins skyldi stefnandi tilgreina lánsfjárhæð og gjaldmiðil láns í lánsbeiðni. Í framkvæmd hafi forsvarsmenn stefnanda fyllt út slíka beiðni með tilgreiningu fjárhæðar í íslenskum krónum og undirskrift og sent bankanum svo í faxi. Starfsmenn bankans hafi fyllt út aðra hluta lánsbeiðninnar, meðal annars hvað varðaði vexti. Starfsmenn bankans hafi einnig ritað hlutföll hinna erlendu gjaldmiðla á lánsbeiðnina. Hvergi hafi kaupgengi þeirra komið fram eða viðmið hinna erlendu gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Í reynd hafi stefnanda aldrei verið boðið að velja sér gjaldmiðla til viðmiðunar heldur hafi starfsmenn stefnda valið fyrir hann. Hvergi í lánsbeiðni hafi stefnandi óskað eftir erlendum gjaldmiðlum heldur hafi hann í öllum tilvikum skýrt ritað fjárhæðina í íslenskum krónum. Þá hafi höfuðstóll kröfunnar ávallt verið í íslenskum krónum. Með vísan til meginreglna lánsviðskipta og góðra viðskiptavenja skipti það höfuðmáli við gerð lánssamninga að höfuðstóll kröfu komi fram með skýrum hætti sem og sú heildarupphæð sem greiða skuli, það er, samtala höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar. Í lánsviðskiptum aðila, hvað varði lán nr. 9804, hafi höfuðstóll kröfu ávallt verið tilgreindur í íslenskum krónum en starfsmaður bankans hafi þar fyrir aftan ritað prósentuhluta hinna erlendu gjaldmiðla. Með vísan til framangreindra meginreglna og góðra viðskiptavenja hefði höfuðstóllinn þurft að koma skýrt fram í þeim erlendu gjaldmiðlum sem stefndi hafi talið sig vera að lána. Höfuðstóll lánsins hafi hins vegar hvergi verið tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum, sem hljóti að teljast forsenda þess að lánað sé í erlendum gjaldmiðlum. Jafnframt hafi útborgun lánanna verið í íslenskum krónum. Erlendir gjaldmiðlar hafi aldrei skipt um hendur. Hefði lánið verið í erlendum gjaldmiðlum hefði, eðli málsins samkvæmt, átt að greiða þá gjaldmiðla inn á gjaldeyrisreikning í hans nafni. Það hafi ekki verið gert heldur hafi íslenskar krónur verið lagðar inn á íslenskan krónureikning stefnanda. Fjárhæðir hinna erlendu gjaldmiðla hafi þar að auki verið stilltar af gagnvart jafnvirði íslenskra króna, stundum svo að munað hafi örfáum krónum til eða frá, miðað við gengi hinna erlendu gjaldmiðla, en lánið hafi þó verið greitt út í sléttri tölu í íslenskum krónum. Loks hafi endurgreiðslan ávallt verið ætluð í íslenskum krónum. Samkvæmt grein 7.1 í samningi aðila, hafi verið gert ráð fyrir því að stefnandi greiddi íslenskar krónur og hafi aðalskylda stefnanda því verið að endurgreiða lánið í íslenskum krónum. Lántaka samkvæmt samningnum hafi verið „heimilt“ að endurgreiða í lántökumyntunum. Í lánsbeiðnunum hafi verið tiltekinn skuldfærslureikningur sem endurgreiðsla skyldi skuldfærð af og hafi það verið krónureikningur stefnanda. Ljóst sé að samkvæmt efni bæði samningsins og lánsbeiðnanna skyldi stefnandi endurgreiða lánið í íslenskum krónum. Stefnanda hafi í reynd, samkvæmt grein 7.1 í samningnum, verið skylt að endurgreiða lánið í íslenskum krónum en aðeins í þeim tilfellum þegar lánað yrði í erlendum gjaldmiðlum yrði stefnanda heimilt að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum. Þar sem stefnandi hafi fengið íslenskar krónur að láni hafi honum beinlínis verið óheimilt að endurgreiða lánið í öðrum gjaldmiðlum. Tilgreining lánsfjárhæðar hafi ávallt verið í íslenskum krónum í samskiptum aðila, bæði munnlegum og skriflegum, og skýr greinarmunur gerður á höfuðstól kröfu og þeirri fjárhæð sem lagst hefði á vegna óhagstæðs gengis þeirra gjaldmiðla sem miðað hafi verið við.
Af framangreindu megi sjá að stefnandi hafi óskað eftir láni í íslenskum krónum, fengið lánið greitt út í íslenskum krónum og skuldbundið sig til þess að endurgreiða það í íslenskum krónum. Í öllum samskiptum aðila hafi lánið verið tilgreint í íslenskum krónum. Gefi þetta bersýnilega til kynna að lánið hafi í raun og veru verið lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Hvað varðar þriðja lið dómkrafna stefnanda byggir hann á því að með lánssamningum nr. 12015 og 12016 hafi honum verið gert að greiða lán í íslenskum krónum út frá gengi erlendra gjaldmiðla sem stríði gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að líta beri heildstætt á samninga nr. 9804, 12015 og 12016. Í reynd sé um einn órofinn löggerning að ræða. Gefin hafi verið út lánalína með heimild til ádráttar, á hana dregið og síðar samið um afborganir. Lánin séu órjúfanleg heild og ólögmæti eins þáttar gerningsins hafi áhrif á hann allan. Engin útborgun hafi verið á grundvelli samninga nr. 12015 og 12016 heldur hafi þeir falið í sér skuldbreytingu á lánalínu 9804. Lánsfjárhæð samninganna hafi verið tekin beint upp úr lánalínunni og aðeins búið til nýtt greiðslusamkomulag. Gagnvart stefnanda hafi samningarnir verið um greiðsluform reikningslánalínu 9804.
Hinn 11. september 2008 hafi lánssamningur nr. 9804 verið greiddur upp með erlendum gjaldmiðlum. Greiðslan hafi farið fram áður en aðilar hafi komist að samkomulagi um greiðslu lánalínu. Lánið hafi verið greitt upp fyrir gerð samninga í ákveðnum erlendum gjaldmiðlum án þess að stefnandi fengi nokkuð um það samið. Eina færsla fjár hafi verið þegar stefnandi hafi fengið greitt í íslenskum krónum samkvæmt lánalínu nr. 9804. Hinir erlendu gjaldmiðlar hafi því aldrei í reynd skipt um hendur. Skýr greinarmunur sé gerður á gengistryggðu láni og gjaldeyrisláni. Skilyrði fyrir gjaldeyrisláni sé að gjaldeyrir sé fyrir hendi, það er, að farið sé á „markað“, gjaldeyrir keyptur og hann lánaður. Með öðrum orðum þurfi lánsgjaldeyrir að vera til og í eigu lánveitanda áður en lánveitandi lánar gjaldeyrinn áfram. Við lánsveitinguna þurfi tiltekinn gjaldmiðill að skipta um hendur í reynd. Þegar lántaki ætli sér að endurgreiða lánið þurfi hann að gera það með sama gjaldmiðli og hann hafi fengið lánaðan. Engir peningar, hvorki íslenskar krónur né erlendur gjaldmiðill, hafi verið lagðir inn á reikning stefnanda á grundvelli lánssamninga nr. 12015 og 12016. Hins vegar sjáist af kvittun, útgefinni af stefnda, að meint kaup og sala og afhending gjaldeyris hafi farið fram 11. september 2008 með vísan til lánssamninga sem þá hafi ekki verið gerðir. Afborgun lánssamnings nr. 9804 og meint útborgun erlendra gjaldmiðla hafi, samkvæmt gögnum málsins, verið ómöguleg. Það sé óyggjandi sönnun þess að stefndi hafi ekki greitt út lán í erlendum gjaldmiðlum samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 heldur hafi samningarnir aðeins verið til þess gerðir að færa skuldbindingu stefnanda samkvæmt samningi nr. 9804 í nýjan búning. Eldri lán hafi ekki verið greidd upp með erlendum gjaldmiðlum heldur hafi þau hreinlega verið strikuð út. Stefnandi byggir á því að ómögulegt sé að halda því fram að lán nr. 12015 og 12016 séu gjaldeyrislán.
Samningar nr. 12015 og 12016 séu því, að öðru leyti en samið hafi verið um afborganir, marklausir. Framkvæmd samninganna sé ekki í neinu samræmi við ákvæði þeirra, meðal annars hafi engri lánsbeiðni verið skilað inn og útborgun láns samkvæmt þeim hafi farið fram fyrir undirritun samninganna. Í heild skipti form samninganna engu máli heldur sá raunveruleiki sem þeim hafi fylgt. Með samningunum hafi verið samið um afborganir af láni nr. 9804 sem stefndi hafi ranglega talið eiga að miðast við erlenda gjaldmiðla. Samningarnir séu þess eðlis að líta verði á samningana þrjá sem eina heild, sem einn og sama fjármálagerninginn. Stefnanda hafi verið gert að greiða lán í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Það sé kjarni gengistryggingar að lánað sé í einum gjaldmiðli en að miða skuli afborganir við annan. Samningarnir séu því í heild um ólögmætt gengistryggt lán.
Stefnandi byggir einnig á því að lán nr. 12015 og 12016 séu ólögmæt gengistryggð lán, óháð tengingu þeirra við lánalínu nr. 9804, með vísan til þess sem að framan er rakið og þá sérstaklega til þess að erlendir gjaldmiðlar hafi aldrei verið greiddir út. Til þess að lán geti talist vera í erlendum gjaldmiðlum þurfi þeir gjaldmiðlar að skipta í reynd um hendur. Jafnframt vísar stefnandi til þess að afborganir, samkvæmt grein 2.2 í samningunum, skyldu skuldfærast af íslenskum krónureikningi stefnanda. Það hafi því legið fyrir að stefnandi myndi uppfylla aðalskyldu sína samkvæmt samningnum í íslenskum krónum. Þá hafi bankinn í reynd skuldfært afborganir af reikningi stefnanda í íslenskum krónum.
Af orðalagi samninga nr. 12015 og 12016 sé einnig ljóst að lán samkvæmt þeim hafi verið gengistryggð. Yfirskrift samninganna sé „Lánssamningur, um fjölmyntalán til 3 mánaða að jafnvirði“. Lán í erlendum gjaldmiðlum sem beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum þurfi ekki að vera jafnvirði neins. Í grein 4.1 í samningunum komi svo fram að heimilt sé að eftirstöðvar skuldar „miðist við“ aðrar erlendar myntir eða mynteiningar en upprunalega hafi verið samið um. Lán í erlendum gjaldmiðlum þurfi ekki að miða við erlenda gjaldmiðla. Ef lán er í erlendum gjaldmiðlum sé það skuldað og greitt í erlendum gjaldmiðlum.
Hvað varði kröfu stefnanda, um að lánssamningar nr. 12015 og 12016 verði ógiltir með dómi, byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki staðið við gerða samninga þegar hann hafi neitað að greiða út lán samkvæmt viðskiptasamningi nr. 9804. Með samningi nr. 9804 hafi stefndi bundið sig til að hafa til reiðu fé til að lána stefnda allt að 62.600.000 krónur og síðar allt að 80.000.000 króna. Skuldbinding stefnda hafi falið í sér að hann hefði til reiðu lánsfé til handa stefnanda, allt að 80.000.000 króna, óháð stöðu hvers lánshluta fyrir sig. Báðum aðilum hafi verið ljóst að stefnandi hafi þurft ákveðið fjármagn til að klára byggingu Baldursness 4 og að samið hafi verið um afhent fé en ekki heildarskuldbindingu stefnanda. Stefndi hafi nýtt sér fjárskort stefnanda til að þvinga hann að samningaborðinu enda ljóst að stefnandi þyrfti ákveðna fjárhæð til að getað klárað byggingu húsnæðisins. Stefndi hafi jafnframt neitað að útvega stefnanda meira fé nema hann legði til hærra veð og semdi um greiðslur með því móti sem svo hafi verið gert. Stefndi hafi verið grandvís um stöðu stefnanda. Stefnandi hafi verið í þeirri stöðu að við honum blasti gríðarlegt fjárhagslegt tjón næði hann ekki að klára byggingu húsnæðisins. Enn fremur hafi stefnandi verið í þeirri aðstöðu að aðgerðarleysi hans myndi valda öðrum aðilum sem að byggingu húsnæðisins kæmu miklum skaða. Starfsemi stefnanda hafi verið grundvölluð á fjármagni frá stefnda og að öllu leyti háð lánsveitingum hans. Þrátt fyrir að starfsmenn og stjórnendur bankans hafi vitað eða mátt vita að löggerningar þeir sem málið varði hafi verið ólögmætir hafi strax verið gengið í gerð nýrra samninga sem tryggt hafi stefnda tugi milljóna gengishagnað í formi höfuðstólshækkunar. Stefndi hafi þannig nýtt sér stöðu sína sem ráðandi aðili og sérfræðingur í málinu.
Með vísan til framangreindrar umfjöllunar byggir stefnandi á því að lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu marklausir málamyndagerningar sem hafi einungis haft þau áhrif að binda höfuðstól kröfu, stefnda í hag. Samkvæmt kvittunum, útgefnum af stefnda, hafi lán samkvæmt samningi nr. 9804 verið greitt upp 11. september 2008 með vísan til lánssamninga sem þá hafi ekki verið gerðir. Bankinn hafi því búið til greiðsludag og meintan kaupdag erlendra gjaldmiðla án þess að þeir gjaldmiðlar hafi nokkurn tímann skipt um hendur. Stefndi hafi þvingað stefnanda með ólögmætum aðgerðum, grandvís um aðstöðu stefnanda. Stefndi hafi nýtt sér eigin samningsrof og bága aðstöðu stefnanda til þess að þvinga hann til samninga á þeim forsendum að hann hefði engan annan kost í stöðunni en að gera nýja samninga sem tryggðu stefnda greiðslu láns í íslenskum krónum í erlendum gjaldmiðlum. Sú háttsemi starfsmanna bankans við gerð marklausra málamyndagerninga feli í sér ólögmæta þvingun og fari gegn góðum og heiðarlegum viðskiptaháttum. Á þeim grundvelli byggir stefnandi kröfu sína um að samningarnir verði ógiltir sem og með vísan til meginreglna samningalaga nr. 7/1936 og ákvæða 29.-32. gr. laganna.
Stefnandi krefst þess til vara að lánssamningum nr. 12015 og 12016 verði vikið til hliðar þar sem óheiðarlegt væri að halda þeim til streitu. Samningarnir séu ósanngjarnir og brjóti gegn góðri viðskiptavenju, sbr. 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Með vísan til atvika máls og framangreindrar umfjöllunar byggir stefnandi á því að mikill aðstöðumunur hafi verið á aðilum. Stefndi hafi samið skilmála lánssamninganna einhliða, hann hafi neitað að uppfylla skuldbindingar sínar og svo nýtt sér neitun sína og bága aðstöðu stefnanda að öðru leyti til þess að þvinga hann til að gera samkomulag sem honum hafi verið gríðarlega óhagstætt og í reynd ekki falið í sér neina fjármyndun eða annan rétt til handa stefnanda. Samningarnir hafi í reynd aðeins falið í sér skuldbindingu um greiðslu fjárhæðar sem hafi verið í öðrum gjaldmiðlum en fyrri skuldbinding og falið í sér gríðarlega hækkun höfuðstóls. Útborguð fjárhæð samkvæmt samningi nr. 9804, að því marki sem samið hafi verið um með samningum nr. 12015 og 12016, hafi verið 52.000.000 króna. Hins vegar hafi sú fjárhæð sem tekin hafi verið af lánalínunni við undirritun nýju samninganna verið um 100.000.000 króna. Stefndi hafi því, með síðari samningunum, tryggt sér að lágmarki 45.000.000 króna í hreinan hagnað af höfuðstól hins upprunalega láns, án þess að taka gengisáhættu sjálfur. Eins og að framan greini, hafi engin raunveruleg útborgun verið á lánum samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 og samningarnir í raun verið málamyndagerningar í þágu bankans til að tryggja afborgun lánalínu nr. 9804. Með vísan til þess sé bersýnilega ósanngjarnt að beita samningunum óbreyttum gagnvart stefnanda, sbr. 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936.
Loks gerir stefnandi kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna ólögmætra samninga nr. 7934, 9804, 12015 og 12016. Kröfuna byggir stefnandi á því að stefndi hafi, með háttsemi sinni, af gáleysi eða ásetningi, valdið stefnanda tjóni. Almenna skaðabótareglan segi að maður beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann valdi með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing hegðunar hans og raski hagsmunum sem verndaðir séu af skaðabótareglum. Stefnandi byggir á því að stefndi beri vinnuveitandaábyrgð á skaðaverki starfsmanna sinna. Verði tjón vegna starfsemi starfsmanns þurfi ekki að sanna sök á tiltekinn starfsmann. Atvik sé orsök tjóns ef það eitt, eða með öðrum atvikum, hefur eiginleika sem geti valdið tjóni og þessir eiginleikar hafi verið leystir úr læðingi og leitt til tjónsins. Með gerð ólögmæts samnings og annarra löggerninga tengdum þeim samningi hafi stefndi komið af stað atburðarás sem hafi valdið stefnanda gríðarlegu tjóni.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti valdið sér skaða með þeirri háttsemi sem að framan sé lýst. Stefnandi byggir einnig á eftirfarandi:
Í fyrsta lagi, að stefndi hafi valdið stefnanda skaða með gerð ólögmæts samnings um gengistryggt lán, sem einn og sér hafi haft í för með sér gríðarlegt tjón fyrir stefnanda. Stefndi hafi neitað því að samningurinn væri í íslenskum krónum og miðað afborganir og aðrar innheimtuaðgerðir við erlenda gjaldmiðla. Þar með hafi greiðslubyrði stefnanda hækkað og á móti hafi greiðslugeta hans lækkað. Af þeim orsökum hafi stefnandi þurft að taka fjölda yfirdráttarlána, minnka hjá sér innkaup og vöruúrval, greiða öðrum kröfuhöfum síðar og vanskilakostnað af þeim sökum. Af þeim orsökum hafi stefnandi bæði orðið fyrir beinum og óbeinum fjárhagsskaða sem og fyrir miklum álitshnekki, bæði hjá almennum kaupendum og þeim birgjum sem stefnandi hafi verið með samninga við.
Í öðru lagi, að stefndi hafi valdið stefnanda skaða með því að hafa, með framangreindum aðgerðum, beitt stefnanda fjármálaofbeldi, nýtt sér stöðu sína sem hinn ráðandi aðili, ekki staðið við skuldbindingar sínar og knúið fram samninga og þvingað stefnanda, ýmist með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi. Meðal annars hafi stefndi brotið munnlegt samkomulag við stefnanda um að leitað yrði leiða til að bjarga fyrirtækinu og til að semja upp á nýtt. Stefnandi telji að stefndi hafi brugðist ráðgjafar- og eftirlitsskyldu sinni og að vinnubrögð starfsmanna stefnda, afskipti og skeytingarleysi þeirra á hagsmunum stefnanda, þrátt fyrir margra ára farsæl viðskipti, hafi verið þess eðlis að þau baki stefnda bótaskyldu.
Stefnandi hafi orðið fyrir augljósu tjóni vegna ólögmætrar háttsemi stefnda. Fyrirtækið hafi verið í góðum og blómlegum rekstri árin 2006-2009, það er, fram yfir hrun, en ekki þolað ágang fjármálafyrirtækis sem hafi neitað að gera sanngjarnt samkomulag um greiðslu. Tjón stefnanda sé fyrst og fremst glataðar tekjur vegna rekstrarörðugleika, glataðs orðspors og beinnar samkeppni stefnda við stefnanda. Meðalrekstrartekjur áranna 2006-2009 hafi verið 36.173.123 krónur, án virðisaukaskatts. Rekstrartekjur 2010 hafi verið 21.800.084 krónur, árið 2011 hafi þær verið 13.748.395 krónur og árið 2012 10.391.059 krónur. Glataðar rekstrartekjur áranna 2010-2012 hafi því samtals numið 62.579.840 krónum. Stefnandi bendir á að þessar tölur séu ekki framreiknaðar. Ljóst sé að eigin fjárstaða fyrirtækisins og greiðslugeta þess hafi verið skert af háum vaxtagreiðslum og innheimtuaðgerðum. Stefnandi áætli yfirdráttarvexti, greidda vegna seinagangs og vegna ólögmætis lána, vera um 4.745.000 krónur. Hrein töpuð viðskipti vegna vöruskorts áætli stefnandi að lágmarki 8.350.000 krónur. Stefndi hafi, í samræmi við framangreint, valdið stefnanda tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og sé þar af leiðandi skaðabótaskyldur samkvæmt hinni almennu skaðabótareglu.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af fyrsta liðs dómkrafna stefnanda á aðildarskorti. Ágreiningslaust sé í málinu að LBI hf. hafi veitt stefnanda lán nr. 7934. Jafnframt liggi fyrir og sé ágreiningslaust með aðilum að stefnandi hafi gert lánið upp að fullu við LBI hf. hinn 26. október 2007. Stefndi hafi ekki verið stofnaður fyrr en 9. október 2008 og hafi eingöngu tekið við tilteknum skuldbindingum og eignum frá LBI hf. Löngu uppgerðir lánssamningar hafi ekki verið þar á meðal. Ekkert réttarsamband sé því milli aðila málsins hvað varði lán samkvæmt samningi nr. 7934. Þar af leiðandi beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda varðandi lánssamning nr. 7934 á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hefði þurft að beina kröfum sínum að LBI hf. hafi hann talið að lánið hafi verið ólögmætt.
Kröfu sína um sýknu af öðrum lið dómkrafna stefnanda byggir stefndi í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefnandi hafi ákveðið að byggja mál sitt upp með þeim hætti að allir ádrættir viðskiptasamnings nr. 9804 hafi verið greiddir upp með nýjum lánum hinn 11. september 2008. Málatilbúnaður stefnanda miðist þannig við að samkomulag hafi orðið um þessar nýju lánveitingar milli stefnanda og LBI hf. hinn 11. september 2008 en að gengið hafi verið frá skjalagerð síðar. Stefndi mótmæli því ekki og liggi þannig ljóst fyrir að ekkert réttarsamband sé á milli stefnanda og stefnda hvað varði skuldbindingar samkvæmt viðskiptasamningi nr. 9804, enda hafi stefndi ekki verið stofnaður fyrr en 9. október 2008. Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 hafi stefndi tekið yfir þau nýju lán sem notað hafi verið til að greiða upp skuldbindingar viðskiptasamnings nr. 9804, það er lán nr. 12015 og 12016, en ekki skuldbindingar stefnanda sem höfðu þá þegar verið gerðar upp. Lán nr. 12015 og 12016 verði ekki samsömuð þeim skuldbindingum sem gerðar hafi verið upp í tíð LBI hf. þrátt fyrir að andvirði þeirra hafi verið notuð til uppgreiðslu þeirra enda um ótengda og sjálfstæða löggerninga að ræða.
Í ljósi framangreinds og eins og málið sé lagt upp af hálfu stefnanda, liggi fyrir að stefndi eigi ekki aðild að mati á lögmæti skuldbindinga samkvæmt viðskiptasamningi nr. 9804 og beri því að sýkna hann, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hefði þurft að beina kröfum sínum að LBI hf. hafi hann talið að lánið hafi verið ólögmætt.
Kröfu um sýknu á þrautavarakröfu í þriðja lið dómkrafna stefnanda byggir stefndi á því að lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu um skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Í lögum nr. 38/2001 sé ekki skilgreint hvað skuli teljast skuldbinding um lánsfé í íslenskum krónum. Af því leiði að túlka verði samninga aðila í hvert og eitt skipti. Við þá túlkun verði sem endranær að horfa til grundvallarreglu samningaréttar um samningsfrelsi aðila. Af henni leiði meðal annars að allar takmarkanir frá henni verði að túlka þröngt. Við það mat verði, samkvæmt framangreindu, að skoða skuldbindingar aðila samkvæmt fyrirliggjandi lánssamningi.
Á forsíðu lánssamninga nr. 12015 og 12016 séu lánsfjárhæðirnar tilgreindar í evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Þær séu tilgreindar með sama hætti í inngangskafla lánssamninganna. Séu skuldbindingarnar þannig einungis tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum en hvergi vikið að því að þær séu í íslenskum krónum. Lánin hafi borið breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,8% vaxtaálags. Stefnandi hafi, samkvæmt framangreindu, ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur ella hefðu lánin borið stýrivexti Seðlabanka Íslands og vextirnir orðið talsvert hærri en þeir hafi í raun orðið. LIBOR-vextir séu enda ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur. Framangreind ákvæði lánssamninganna beri með sér að skuldbindingar stefnanda samkvæmt samningunum séu og hafi alltaf verið í hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum. Þessi túlkun sé í samræmi við þá dóma Hæstaréttar Íslands sem fallið hafi um sambærilega lánssamninga.
Stefndi mótmæli því harðlega að líta beri heildstætt á lánssamninga nr. 9804, 12015 og 12016, eins og byggt sé á í stefnu málsins. Lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu sjálfstæðir löggerningar sem verði með engu móti taldir hluti af viðskiptasamningi nr. 9804. Í fyrsta lagi beri að líta til þess að lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu allt annars eðlis en viðskiptasamningur nr. 9804 og um samningana gildi ólíkir skilmálar. Ekki skipti máli þótt lán samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 hafi verið notuð til þess að greiða upp viðskiptasamning nr. 9804. Stefnandi hafi haft val um það hvort hann greiddi viðskiptasamninginn upp í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, sbr. grein 7.1 í samningnum. Þar sem stefnandi hafi ekki átt nægt fé til þess að greiða samninginn upp hafi hann tekið nýtt lán hjá LBI hf. í erlendum gjaldmiðlum til þess að greiða samninginn upp. Ekki sé með neinu móti hægt að líta svo á að samningarnir þrír séu einn og sami löggerningurinn.
Þá sé því mótmælt sem komi fram í stefnu að viðskiptasamningurinn hafi verið greiddur upp án þess að stefnandi hafi nokkru fengið um það ráðið og að hinir erlendu gjaldmiðlar hafi aldrei skipt um hendur. Á framlagðri kvittun fyrir greiðslu 23. janúar 2009 og 26. janúar sama ár komi fram að hinir tilgreindu erlendu gjaldmiðlar hafi skipt um hendur þegar viðskiptasamningurinn hafi verið gerður upp. Stefandi hafi lýst því yfir og samþykkt síðar með undirritun sinni á lánssamninga nr. 12015 og 12016.
Því sé enn fremur mótmælt sem fram komi í stefnu að samningar nr. 12015 og 12016 séu marklausir og að form samninganna skipti engu máli. Hæstiréttur Íslands hafi ítrekað fellt dóma um að form lánssamninga skipti höfuðmáli. Stefnandi hafi óskað eftir því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum til þess að greiða upp lán samkvæmt samningi nr. 9804 og úr hafi orðið lántaka samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016. Ekki sé hægt að bera fyrir sig, nú fjórum árum síðar, að samningarnir séu marklausir.
Í greinargerð stefnda kemur fram að hann mótmæli því að starfsmenn hans hafi þrýst á forsvarsmenn stefnanda um að gera nýjan lánssamning og að þeir hafi skýrt þeim svo frá að það hafi verið eini möguleikinn á að fá fé til þess að klára umrædda byggingu. Stefndi mótmæli því einnig að hann hafi ekki sýnt samningsvilja. Þvert á móti hafi verið reynt að koma til móts við stefnanda eftir því sem kostur hafi verið. Það hafi hins vegar verið staðreynd að skuldbindingar stefnanda hafi verið umfram getu hans til að greiða af þeim.
Hvað varði aðalkröfu stefnanda um ógildingu samninganna á grundvelli meginreglna samningalaga nr. 7/1936 og 29.-32. gr. laganna þá virðist stefnda sem stefnandi byggi á því að stefndi hafi vanefnt samning nr. 9804 og þvingað stefnanda með ólögmætum aðgerðum, grandvís um aðstöðu stefnanda. Stefndi mótmæli þeim fullyrðingum stefnanda harðlega sem röngum og ósönnuðum. Í fyrsta lagi vísar stefndi til þess að hann hafi ekki vanefnt samninga gagnvart stefnanda. Viðskiptasamningur nr. 9804 hafi sannanlega verið á gjalddaga 11. september 2009. Stefnandi virðist ekki hafa haft burði til þess að greiða lánið til baka úr frjálsum sjóðum sínum. Af þeim sökum hafi stefnandi leitað eftir því að LBI hf. lánaði sér fyrir eftirstöðvum skuldar sinnar með nýjum lánssamningum til lengri tíma. LBI hf. hafi fallist á það og byggi stefnandi á því að viðskiptasamningurinn hafi verið gerður upp 11. september 2009. Aðilar málsins hafi svo fært uppgreiðsluna í skriflegan samning með lánssamningum nr. 12015 og 12016. LBI hf. og, eftir atvikum, stefndi hafi því komið í veg fyrir að samningur nr. 9804 félli í vanskil með tilheyrandi afleiðingum. Það sé því að öllu leyti rangt að stefndi hafi með einhverju móti vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda samkvæmt samningi nr. 9804, nýtt sér vankunnáttu stefnanda eða þvingað hann með einhverjum hætti til þess að gera samninga nr. 12015 og 12016. Í öðru lagi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það í stefnu með hvaða hætti sú þvingun, sem hann byggi mál sitt á, eigi að hafa verið eða með hvað hætti skilyrði 29.-32. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt. Vart þurfi að taka það fram að stefnandi beri sönnunarbyrðina hvað það varði. Framangreind ákvæði séu undantekningarreglur frá viðurkenndri meginreglu samningaréttar um efndaskyldu loforða sem aðeins beri að beita í algerum undantekningartilvikum.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því að lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu ósanngjarnir og brjóti gegn góðri viðskiptavenju. Þeim skuli þess vegna vikið til hliðar samkvæmt 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi mótmæli þeim málsástæðum sem röngum og ósönnuðum og byggir á því að hvorki skilyrði 33. gr. né 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt. Vísar stefndi um það til þess sem að framan greini um varakröfu stefnanda. Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann hafi tryggt sér gengishagnað að lágmarki um 45.000.000 króna með málamyndagerningi, eins og haldið sé fram í stefnu málsins. Í fyrsta lagi sé þessi fullyrðing stefnanda ekki studd neinum rökum eða gögnum sem varpað geti ljósi á hvort hún eigi við einhver rök að styðjast. Lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu sjálfstæðir löggerningar sem beri að meta eftir efni sínu. Engu skipti þótt andvirði þeirra hafi verið notað til að greiða upp viðskiptasamning nr. 9804. Telji dómurinn að stefnandi hafi ofgreitt við uppgjör á viðskiptasamningi nr. 9804 geti stefnandi átt rétt á endurgreiðslu vegna þess en slíkt uppgjör hafi engin áhrif á lögmæti lánssamninga nr. 12015 og 12016. Fullyrðingar stefnanda um að búinn hafi verið til gengishagnaður fyrir stefnda án áhættu hans séu fullkomlega óskiljanlegar og sé þeim sérstaklega mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Kröfu um sýknu á fjórða lið dómkrafna stefnanda byggir stefndi í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Lánssamningar nr. 7934 og 9804, sem og lánssamningar nr. 12015 og 12016, hafi allir verið gerðir og framkvæmdir af LBI hf., fyrir stofnun stefnda. Stefndi hafi eingöngu tekið við tilteknum skuldbindingum og eignum af LBI hf. og geti því ekki borið ábyrgð á meintri skaðabótaábyrgð starfsmanna LBI hf. vegna atvika sem hafi orðið áður en stefndi hafi verið stofnaður. Ekkert réttarsamband sé milli aðila málsins hvað varði framkvæmd framangreindra lána.
Verði ekki fallist á sýknu stefnda á grundvelli aðildarskorts sé sýknukrafa hans í öðru lagi byggð á því að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt. Stefnandi virðist byggja á því að hin saknæma háttsemi stefnda hafi falist í því einu að veita framangreind lán og að hafa beitt stefnanda fjármálaofbeldi, eins og það sé orðað í stefnu, nýtt sér stöðu sína sem hinn ráðandi aðili, ekki staðið við skuldbindingar sínar og knúið fram samninga og þvingað stefnanda. Framangreindum fullyrðingum stefnanda sé hafnað. Í fyrsta lagi vísist til þess að allir framangreindir lánssamningar séu um lán í erlendum gjaldmiðlum og því sé erfitt að sjá í hverju hin saknæma háttsemi hafi falist. Komist dómurinn hins vegar að þeirri ólíklegu niðurstöðu að eitthvert lánanna hafi verið gengistryggt lán og jafnframt að stefndi geti talist bera ábyrgð á starfsmönnum LBI hf. sé á því byggt að LBI hf. hafi verið í góðri trú þegar lánssamningarnir hafi verið gerðir. Stefndi vísar til þess að það hafi verið stefnandi sjálfur sem hafi óskað eftir því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum og að framangreindir lánssamningar hafi því verið gerðir að hans beiðni. LBI hf., eins og allir aðrir aðilar á fjármálamarkaði, hafi talið að framangreindar lánveitingar hafi verið heimilar og hafi orðið við ósk stefnanda og veitt lánin. Fráleitt sé að ætla að hægt sé að fella það undir saknæma háttsemi. Þá sé því sérstaklega mótmælt að LBI hf., eða eftir atvikum stefndi, hafi beitt einhvers konar fjármálaofbeldi, nýtt sér stöðu sína, vanefnt samninga sína við stefnanda eða þvingað hann með nokkru móti.
Stefnandi segi meint tjón sitt fyrst og fremst vera í formi glataðra tekna vegna rekstrarörðugleika, glataðs orðspors og beinnar samkeppni stefnda við stefnanda. Stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að orsakatengsl séu á milli meintrar háttsemi stefnda, sem að framan sé rakin, og þess tjóns sem vísað sé til í stefnu eða að tjónið sé sennileg afleiðing af þeirri meintu háttsemi. Stefndi byggir á því að það sé vegna þess að slík orsakatengsl séu ekki fyrir hendi. Minni rekstrartekjur stefnanda séu ekki afleiðing af háttsemi LBI hf. Nægi í því sambandi að vísa til þess að stefnandi hafi reist sér hurðarás um öxl með of hárri lántöku við byggingu á stórri fasteign og að verulegur samdráttur hafi orðið í íslensku efnahagslífi í kjölfar falls íslenskra fjármálastofnana haustið 2008. Skilyrði sakarreglunnar séu því ekki fyrir hendi í þessu máli.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 16. gr. laganna, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 13. og 14. gr. laganna, og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna. Stefndi vísar einnig til meginreglna fjármunaréttar um rangar og brostnar forsendur, til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og til almennra reglna skaðabótaréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að lánasamningum sem stefnandi gerði annars vegar við stefnda og hins vegar við forvera stefnda, Landsbanka Íslands hf. Krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að samningarnir séu um lán í íslenskum krónum bundnir ólögmætri gengistryggingu. Þá gerir stefnandi kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna ætlaðs tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna lántökunnar og viðskipta sinna við stefnda.
Um kröfu sína samkvæmt fyrsta lið dómkrafna stefnanda vísar hann eingöngu til þess að hann telji lánið hafa verið í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Að öðru leyti er ekki gerð grein fyrir málsástæðum að baki kröfunni.
Samkvæmt 1. lið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., var öllum eignum Landsbanka Íslands hf., hverju nafni sem þær nefnast, svo sem kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., stefnda málsins. Samkvæmt 2. lið sömu ákvörðunar tók Nýi Landsbanki Íslands hf. við öllum tryggingarréttindum Landsbanka Íslands hf., þar með töldum öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum bankans. Gildistími lánssamnings nr. 7934 var til 7. apríl 2008. Samkvæmt málatilbúnaði aðila og framlögðum gögnum voru síðustu ádrættir á lán samkvæmt samningi nr. 7934 greiddir upp 11. apríl 2008. Réttindi og skyldur aðila samkvæmt þeim samningi féllu við það niður og krafa Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnanda leið undir lok. Því verður fallist á það með stefnda þessa máls að hann hafi aldrei verið kröfuhafi lánsins og að stefnandi geti því ekki beint kröfum sínum, vegna þess láns, að stefnda. Kröfu stefnanda vegna lánssamnings nr. 7934 er því ekki réttilega beint að stefnda og skal sýkna stefnda af þeim kröfum í samræmi við 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Hvað varðar lánssamning nr. 9804 þá féll stefndi málsins frá málsástæðum sem lúta að því að samningurinn sé um lán í erlendum gjaldmiðlum við aðalmeðferð málsins 16. september 2014 og byggir sýknukröfu sína því eingöngu á aðildarskorti stefnda. Samkvæmt framlögðum kvittunum, dagsettum 23. og 26. janúar 2009, voru ádrættir á grundvelli viðskiptasamnings nr. 9804 ekki að fullu greiddir upp fyrr en 23. janúar 2009. Skuldbindingar aðila samkvæmt samningi nr. 9804 teljast því til þeirra kröfuréttinda sem ráðstafað var til Nýja Landsbankans hf. með framangreindri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Kröfum vegna lánssamningsins er því réttilega beint að stefnda. Krafa stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að viðskiptasamningur nr. 9804 og ádrættir samkvæmt honum hafi verið bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er óumdeild. Hins vegar hefur samningurinn verið gerður upp að fullu í samræmi við það að hann hafi verið um lán með ólögmætri gengistryggingu, sbr. endurútreikning stefnda í desember 2011. Verður því ekki séð að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá viðurkenningardóm í samræmi við annan lið dómkrafna hans og verður þeirri kröfu þar af leiðandi vísað frá dómi án kröfu.
Við aðalmeðferð málsins 16. september sl. breytti stefnandi röðun dómkrafna í þriðja lið þannig að hann krefst þess aðallega að lánssamningar nr. 12015 og 12016 verði ógildir með dómi, til vara að þeim verði vikið til hliðar og til þrautavara að samningarnir feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Þriðja kröfulið sinn byggir stefnandi meðal annars á því að líta beri heildstætt á samninga nr. 9804, 12015 og 12016 og að í reynd séu þeir allir einn löggerningur þar sem samningar nr. 12015 og 12016 hafi, gagnvart stefnanda, verið samningar um greiðsluform reikningslánalínu nr. 9804.
Málsástæður stefnanda fyrir ógildingarkröfu hans hafa verið raktar hér að framan og vísar hann um þær til 29.-32. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Viðskiptasamningur nr. 9804 gilti, samkvæmt grein 17.1 í samningnum, frá undirritun til 11. september 2008 og skyldi hámarkstími hvers lánshluta takmarkast við gildistíma samningsins, sbr. grein 3.2 í samningnum. Í grein 17.2 segir svo að hafi annar hvor samningsaðila ekki sagt samningnum upp með skriflegum og sannanlegum hætti með þriggja mánaða fyrirvara miðað við lok mánaðar þá framlengist hann um sex mánuði til viðbótar en þó því aðeins að bankinn hafi staðfest það vaxtaálag sem gilda skuli um framlenginguna með skriflegum og sannanlegum hætti. Staðfesti bankinn ekki vaxtaálag falli samningurinn úr gildi. Með viðauka við lánssamninginn 25. júlí 2008 var lánsheimildin hækkuð en lánstíminn hélst óbreyttur. Með viðaukanum var grein 2.2 í samningnum einnig breytt á þann veg að innan marka lánsheimildar var stefnanda heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum. Verður ekki fallist á það með stefnanda að forveri stefnda hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi nr. 9804 með gerð viðaukans sem er enda undirritaður af hálfu beggja aðila.
Í málinu er ekki byggt á því né nokkuð lagt fram sem bendir til þess að samningstími samnings nr. 9804 hafi verið framlengdur í samræmi við framangreind ákvæði. Verður því ekki byggt á öðru en að samningstíma samnings nr. 9804 hafi lokið 11. september 2008 og að stefnanda hafi þá borið að standa í skilum á útistandandi kröfum samkvæmt honum. Stefnandi hefur því ekki fært rök fyrir því að stefnda, eða forvera hans, hafi borið að leyfa frekari ádrátt á lánalínu samkvæmt samningnum í október 2008.
Óumdeilt er í málinu að lánsfé samkvæmt samningum nr. 12015, 12016 og 12017 var notað til þess að greiða upp lán samkvæmt samningi nr. 9804 og eru framlagðar kvittanir í samræmi við það. Lán samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 virðast hafa verið greidd út, til uppgreiðslu lána samkvæmt samningi nr. 9804, 11. september 2008 en samningar um þau lán voru þó ekki undirritaðir fyrr en 15. janúar 2009.
Stefnandi byggir á því að starfsmenn og stjórnendur bankans hafi vitað eða mátt vita að samningur nr. 9804 hafi verið um lán bundið ólögmætri gengistryggingu en að þeir hafi engu að síður gengið í gerð nýrra samninga sem tryggt hafi stefnda gengishagnað í formi höfuðstólshækkunar. Ekki er fallist á það með stefnanda að lánssamningar nr. 12015 og 12016 séu marklausir málamyndagerningar sem hafi einungis verið um greiðslufyrirkomulag lána samkvæmt samningi nr. 9804. Eins og að framan er rakið var samningstíma samnings nr. 9804 lokið og voru þá gerðir nýir lánssamningar milli aðila, meðal annars til þess að greiða upp lán samkvæmt samningi nr. 9804. Almennt haggar það ekki gildi lánssamninga þótt þeir séu gerðir til þess að afla fjár í því skyni að efna kröfu sem er að hluta andstæð lögum. Meira þarf að koma til svo að slíkar lánveitingar verði taldar ólögmætar eða ógildar.
Ákvæði laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum eru tiltölulega ótvíræð. Er fallist á það með stefnanda að telja verði að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi átt að geta gert sér grein fyrir því að gengistrygging lána stefnanda samkvæmt samningi nr. 9804 hafi verið ólögmæt. Starfsmönnum bankans sem og stefnda þessa máls mátti jafnframt vera kunnugt um að lán samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 hafi verið of há sem nemi gengisfalli íslensku krónunnar gagnvart hinum erlendu gjaldmiðlum sem hin eldri lán voru í, frá útgreiðslu þeirra til gjalddaga. Það eitt leiðir hins vegar ekki til þess að samningarnir verði í heild sinni ógildir með dómi.
Þrátt fyrir erfiða fjárhagslega stöðu stefnanda á þeim tíma þegar samningar nr. 12015 og 12016 voru undirritaðir hefur ekki verið sýnt fram á af hans hálfu, hvorki í stefnu málsins né með framlögðum gögnum, að hann hafi með ólögmætum hætti verið neyddur til þess að taka lán samkvæmt samningunum. Það eitt að stefnandi hafi þurft ný lán til þess að gera upp eldri lán felur ekki í sér að hann hafi verið neyddur af bankanum, með ólögmætum hætti, til þess að taka þau eða taka þau með þeim hætti sem samningarnir kveða á um. Hefur stefnandi ekki rakið með hvaða hætti hin meinta ólögmæta þvingun hafi verið. Þá hefur stefnandi heldur ekki sýnt fram á það að hann hafi verið fenginn til þess að taka lán samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 með svikum eða að bankinn hafi sviksamlega skýrt rangt frá atvikum eða þagað um atvik sem ætla megi að skipt hafi máli um löggerningana. Enn fremur hefur stefnandi ekki fært sönnur fyrir því að bankinn hafi, með samningunum, notað sér bágindi hans, fákunnáttu eða það að stefnandi hafi verið háður stefnda, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur hafi verið á þeim hagsmunum og endurgjaldi. Samningar nr. 12015 og 12016 voru gerðir til þess að stefnandi gæti efnt skuldbindingar sínar samkvæmt viðskiptasamningi nr. 9804, sem reyndist kveða á um ólögmæta gengistryggingu. Eins og að framan er rakið leiðir það ekki eitt og sér til ógildingar samninga nr. 12015 og 12016 í heild. Loks er ekkert sem bendir til þess að samningar nr. 12015 og 12016 séu annars efnis en til hafi verið ætlast vegna misritunar eða annarra mistaka. Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið hefur stefnandi á engan hátt sýnt fram að skilyrðum 29.-32. gr. laga nr. 7/1936 fyrir ógildingu samninganna sé fullnægt.
Kröfu sína um að samningum nr. 12015 og 12016 verði vikið til hliðar byggir stefnandi á því að óheiðarlegt sé að bera þá fyrir sig, þeir séu ósanngjarnir og brjóti gegn góðri viðskiptavenju. Vísar hann um kröfuna til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Við mat á því verður einkum að líta til þess sem ætla má um vitneskju samningsaðila um atvik, stöðu þeirra við samningsgerðina, efni samnings og atvika sem síðar komu til. Eins og að framan er rakið eru ákvæði laga nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum tiltölulega ótvíræð og verður talið að starfsmenn bankans hafi átt að geta gert sér grein fyrir því að gengistrygging lána stefnanda samkvæmt samningi nr. 9804 hafi verið ólögmæt. Starfsmönnum bankans sem og stefnda þessa máls mátti jafnframt vera kunnugt um að lán samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016 hafi verið of há sem nemi gengisfalli íslensku krónunnar gagnvart hinum erlendu gjaldmiðlum sem hin eldri lán voru í, frá útgreiðslu þeirra til gjalddaga. Þótt það leiði ekki eitt og sér til ógildingar samninganna í heild verður að telja ósanngjarnt að bera samningana fyrir sig að því marki sem lán samkvæmt þeim voru of há vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar. Hins vegar verður ekki séð að bankinn beri nú samningana fyrir sig sem nemur þeirri fjárhæð sem lán þeirra hafi verið of há vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar lána samkvæmt samningi nr. 9804. Stefndi málsins hefur nú þegar endurútreiknað lán samkvæmt samningi nr. 9804, sbr. framlagt bréf, dagsett 8. desember 2011, í samræmi við lög nr. 38/2001 eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010. Inneign stefnanda, samkvæmt endurútreikningnum, skuldajafnaði stefndi við vanskil stefnanda á lánum samkvæmt samningum nr. 12015 og 12016, eins og að framan greinir. Hvort sú skuldajöfnun hafi verið heimil er ekki ágreiningsefni í þessu máli. Þá byggir stefnandi ekki á því að hann eigi frekari fjárkröfu á hendur stefnda vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar en sem nemur fyrrgreindum endurútreikningi. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að skilmálar samninga nr. 12015 og 12016 hafi verið honum óhagstæðir að öðru leyti. Í ljósi alls þess sem að framan er rakið verður ekki talið að skilyrði séu fyrir hendi til þess að víkja samningunum til hliðar á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, að hluta til eða í heild.
Eins og áður greinir er ekki fallist á það með stefnanda að samningar nr. 12015 og 12016 séu marklausir og einungis um fyrirkomulag afborgana á lánum samkvæmt samningi nr. 9804. Samningarnir eru enda undirritaðir af hálfu beggja aðila eftir að gildistíma samnings nr. 9804 lauk. Á forsíðu lánssamninga aðila nr. 12015 og 12016, dagsettum 15. janúar 2009, eru lánsfjárhæðir tilgreindar í evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Í samningi nr. 12015 segir í upphafi texta samningsins að aðilar geri með sér svohljóðandi „lánssamning um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði EUR 177.249,52 JPY 18.300.788 CHF 370.105,35“. Að sama skapi segir í upphafi texta samnings nr. 12016 að aðilar geri með sér svohljóðandi „lánssamning um fjölmyntalán til 3 mánaða að jafnvirði EUR 10.670,79 JPY 1.101.746 CHF 22.281,12“. Í báðum samningum segir því næst að greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi Landsbankans á gjalddaga. Jafnframt skyldu lán samkvæmt báðum samningum bera vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,80% vaxtaálags. Þá skyldu lán samkvæmt báðum samningum greidd út tveimur virkum dögum eftir undirritun samninganna og var útgreiðsla þeirra því ekki háð frekari lánsbeiðnum eða annarri skjalagerð. Í samræmi við skýrt orðalag samninganna verður að líta svo á að með þeim hafi aðilar samið um lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum og verður stefndi því sýknaður af þrautavarakröfu í þriðja lið dómkrafna stefnanda. Stefnandi byggir meðal annars á því að hann hafi í raun réttri ekki fengið neitt lánsfé greitt út samkvæmt samningunum og að honum hafi borið og hafi í reynd greitt af samningunum í íslenskum krónum, sbr. grein 2.2 í báðum samningum sem tilgreini skuldfærslureikning afborgana og vaxta sem sé tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum. Eina féð sem hafi því í reynd skipt um hendur hafi verið í íslenskum krónum. Af dómum Hæstaréttar Íslands, meðal annars í málum nr. 715/2012 og 26/2014, verður hins vegar ályktað að ekki skipti máli þótt greiðslur fari fram í íslenskum krónum þegar skýrt komi fram í lánssamningi að skuldin sé í erlendum gjaldmiðli og haggar sú greiðslutilhögun því ekki fyrrgreindri niðurstöðu.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu af fjórða kröfulið stefnanda á grundvelli aðildarskorts nema hvað varðar samning nr. 7934.
Samkvæmt þeim niðurstöðum sem komist hefur verið að hér að framan, um að stefndi sé ekki aðili að kröfum stefnanda sem lúta að samningi nr. 7934, að samningar nr. 12015 og 12016 séu um lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum og að stefnandi hafi þegar fengið endurgreitt vegna ólögmætrar gengistryggingar lána samkvæmt samningi nr. 9804, þykir ekki sýnt fram á að stefndi hafi með háttsemi sinni valdið stefnanda tjóni sem varði bótaskyldu, sbr. kröfur þar um í fjórða kröfulið dómkrafna stefnanda. Byggir stefnandi á því að tjón hans sé fyrst og fremst glataðar tekjur vegna rekstrarörðugleika, glataðs orðspors og beinnar samkeppni við félag í eigu stefnda. Vísar stefnandi um framangreint til þess að meðaltekjur hans hafi lækkað árin 2010-2012 frá því sem þær hafi verið 2006-2009 en sýnir með engu móti fram á að lægri rekstrartekjur séu sennileg afleiðing af ólögmætri gengistryggingu lána samkvæmt samningi nr. 9804. Árin 2010-2012 var mikill samdráttur í efnahagslífi á Íslandi, sem og víðar, og þar af leiðandi eðlilegt að rekstrartekjur stefnanda lækkuðu á þeim árum. Ekki er útilokað að aðrir þættir hafi haft áhrif á rekstrartekjur stefnanda á þessu tímabili. Sömu sjónarmið gilda um þann vöruskort sem stefnandi vísar til en ekkert er lagt fram í málinu sem sýnir fram á vöruskort eða töpuð viðskipti hans vegna hans heldur lætur stefnandi nægja að áætla í stefnu málsins að tapið nemi að lágmarki 8.350.000 krónum. Hvað varðar vexti greidda vegna ólögmætrar gengistryggingar lána samkvæmt samningi nr. 9804 þá gilda um endurútreikning lána sem bundin eru ólögmætri gengistryggingu ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 en ekki almennar reglur skaðabótaréttarins. Loks þykir stefnandi ekki hafa fært sönnur fyrir því að stefndi hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar, knúið fram samninga og þvingað stefnanda með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi. Eins og vikið er að hér að framan benda gögn málsins ekki til annars en að stefndi og forveri hans hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt umdeildum samningum. Hefur stefnandi með engu móti sýnt fram á eða leitt líkur að því, með gögnum eða á annan hátt, að það tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir orsakist af saknæmri háttsemi starfsmanna stefnda og forvera hans. Er stefndi því sýkn af þeim kröfulið stefnanda.
Með vísan til alls framanritaðs verður kröfu stefnanda samkvæmt lið ii í dómkröfum hans vísað frá dómi ex officio, en stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Dóminn kveður upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Kröfu stefnanda, Teigs ehf., um að viðurkennt verði með dómi að viðskiptasamningur nr. 0162-36-9804, dagsettur 24. október 2007, og ádrættir með vísan til hans, með lánsbeiðnum dagsettum 24. október 2007, 7. desember 2007, 30. janúar 2008, 12. febrúar 2008, 31. mars 2008 og 11. apríl 2008, séu bundnir ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, er vísað frá dómi án kröfu.
Stefndi, Landsbankinn hf., er að öðru leyti sýkn af kröfu stefnanda, Teigs ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.