Hæstiréttur íslands
Mál nr. 757/2015
Lykilorð
- Málskostnaðartrygging
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. nóvember 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að tilteknir samningar milli sín og stefnda sem bera heitið „fjármögnunarleigusamningar“ séu að efni til samningar um lán í íslenskum krónum og að ákvæði þeirra um tengingu greiðslna við gengi erlendra gjaldmiðla séu ólögmæt og í andstöðu við 13., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, var gerð árangurslaus löggeymsla hjá áfrýjanda 6. september 2015. Auk þess lagði stefndi fram endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur, sem bar með sér að krafa um gjaldþrotaskipti á búi áfrýjanda hafi verið tekin til úrskurðar 16. desember sama ár. Af því tilefni krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi dró ekki í efa að framangreindar upplýsingar gæfu rétta mynd af fjárhag hans. Var því fallist á kröfu stefnda og áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir tryggingunni, sem var ákveðin 1.000.000 krónur. Sú trygging hefur ekki verið sett og ber því samkvæmt 3. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr., sömu laga að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjandi, Leiguvélar ehf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2015.
Mál þetta sem tekið var til dóms 18. september 2015 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 6. janúar 2014 af Leiguvélum ehf., Járnhálsi 2, Reykjavík, á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Kröfur aðila
Við upphaf aðalmeðferðar í máli þessu, 18. september 2015, ákvað dómari, að undangenginni tilkynningu til lögmann aðila, með heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. gr. laga nr. 78/2015, að skipta sakarefni í málinu þannig að fyrst yrði dæmt um varakröfu stefnanda þess efnis að viðurkennt verði að tilgreindir samningar stefnanda og stefnda séu að efni til samningar um lán í íslenskum krónum og að ákvæði þeirra um tengingu greiðslna við gengi erlendra gjaldmiðla séu ólögmæt og í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en aðrar kröfur stefnanda, að undanskilinni málskostnaðarkröfu, bíði þess að verða dæmdar.
Með vísan til framangreinds eru dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eftirfarandi:
Að viðurkennt verði að eftirfarandi samningar milli stefnanda og stefnda sem bera allir heitið „fjármögnunarleigusamningur“, séu að efni til lánssamningar um lán í íslenskum krónum og að ákvæði þeirra um tengingu greiðslna við gengi erlendra gjaldmiðla séu ólögmæt og í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:
Samningur nr. 120646-648 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120649-651 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120652-654 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120655-657 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120658-660 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120661-663 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120664-666 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120667-669 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120670-672 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 120824-826 dags. 3.10.2005
Samningur nr. 139512-515 dags. 06.3.2007
Samningur nr. 139787-790 dags. 19.3.2007
Samningur nr. 139791-794 dags. 19.3.2007
Samningur nr. 140098-101 dags. 10.4.2007
Samningur nr. 140237-240 dags. 11.04.2007
Samningur nr. 140241-244 dags. 11.04.2007
Samningur nr. 140249-252 dags. 11.04.2007
Samningur nr. 140253-256 dags. 11.04.2007
Samningur nr. 140746-749 dags. 21.5.2007
Samningur nr. 141934-937 dags. 26.6.2007
Samningur nr. 142415-418, ódags., en með samningsdag 11.07.2007
Samningur nr. 142481-484 dags. 18.07.2007
Samningur nr. 143657-664 dags. 26.9.2007
Samningur nr. 144016-019 dags. 23.10.2007
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Atvik máls
Stefnandi máls þessa er verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í útleigu á vinnuvélum til fyrirtækja. Stefndi er eignaleigufyrirtæki í merkingu 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefnandi og stefndi hafa um langt árabil átt í umfangsmiklum eignaleiguviðskiptum og gert með sér u.þ.b. 200 eignaleigusamninga frá árinu 2002. Kröfur stefnanda í máli þessu varða 24 þessara samninga sem undirritaðir voru á tímabilinu 3. október 2005 til og með 23. október 2007. Af þeim voru tveir samningar upphaflega milli Vélaborgar ehf. og stefnda en yfirteknir í desember 2007 af stefnanda.
Samningarnir 24 eru allir á samningsformi stefnda vegna fjármögnunarleigu og eru skilmálar samninganna tvíþættir. Annars vegar er um að ræða sérstaka skilmála í greinum 1-10 og hins vegar almenna skilmála í greinum 11-35. Í sérstaka hlutanum er gerð grein fyrir samningsandlaginu, seljanda hins leigða, samningstíma, afborgunum, vöxtum, greiðslutilhögun og vátryggingum. Í hinum almenna hluta eru almennir staðlaðir samningsskilmálar. Í 2. gr. samninganna er að finna ákvæði um leigugrunn. Er hann í öllum samningunum tilgreindur í íslenskum krónum en tengdur gengi evru, japanskra jena og bandaríkjadals og auk þess hvað 14 samninga varðar gengi svissneskra franka. Samkvæmt 5. gr. samninganna og 2. mgr. 14. gr. tók umsamin leigufjárhæð breytingum í samræmi við breytingar á hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum í samræmi við skráð sölugengi þeirra hjá Seðlabanka Íslands. Í 12. gr. samninganna er tekið fram að leigutaki geti ekki sagt leigusamningi upp á grunnleigutíma og að þeim tíma loknum framlengist hann ótímabundið skv. 6. gr.. Leigutaki geti þó sagt hinum framlengda leigusamningi upp, skriflega, með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Í 15. gr. kemur m.a. fram að leigusali sé einn eigandi hins leigða og leigutaka sé óheimilt að stofna til hvers kyns löggerninga um hið leigða. Í 16. gr. kemur fram að leigutaki velji hið leigða og annist skoðun þess eins og kaupanda sé skylt samkvæmt lögum. Þá segir að leigusali taki enga ábyrgð á leigumun og að leigugreiðslur skuli greiddar enda þótt hið leigða hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki hafi reiknað með. Í 17. gr. kemur fram að leigutaki beri áhættuna ef hið leigða farist, skemmist eða rýrni eftir að seljandi hafi afhent hið leigða eða áhættan færst frá seljanda til kaupanda, samkvæmt lögum. Þá segir í 18. gr. að kostnaður sem falli til við pökkun og flutning hins leigða frá seljanda til leigutaka sem og allur kostnaður við uppsetningu og frágang hins leigða á notkunarstað hjá leigutaka sé á ábyrgð og kostnað hans. Þá greiði leigutaki allan kostnað sem falli til vegna skráningar og eigendaskipta jafnt við upphaf sem lok samningsins. Í 19. gr. kemur fram að leigutaka beri að greiða leigu enda þótt seljandi hlutar vanefni samning sinn við leigusala og/eða leigutaka. Þá segir í ákvæðinu að leigutaki geti átt rétt til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta eða endurgreiðslu ef vanefndir seljanda leiði til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi. Þá skuli sú fjárhæð koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu. Samkvæmt 20. gr. skal leigutaki annast allt viðhald og viðgerðir á leigumun á sinn kostnað. Í 23. gr. er m.a. mælt fyrir um skyldu til að vátryggja hið leigða á leigutímanum og að leigusali hafi heimild til að kaupa nauðsynlegar vátryggingar á kostnað leigutaka. Samkvæmt 26. gr. skal leigutaki greiða alla skatta og opinber gjöld sem kunni að vera lögð á hið leigða. Í 30. gr. eru settar fram reglur um uppgjör milli leigusala og leigutaka sem fela m.a. í sér skyldu leigutaka til að greiða bæði gjaldfallna og ógjaldfallna leigu komi til riftunar e.a. að frádregnu söluverði hins leigða. Þá er í 34. gr. samninganna tekið fram að breytingar á þeim megi einungis gera með skriflegum viðaukum, undirrituðum af samningsaðilum.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort framangreindir 24 fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar eða lánssamningar, sem óheimilt hafi verið að binda gengi erlendra gjaldmiðla skv. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að þeir samningar sem um sé deilt í málinu séu í reynd lánssamningar en ekki leigusamningar í skilningi VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og brjóti því gengistryggingarákvæði þeirra í bága við 13. og 14. gr. laganna. Þessu til stuðnings vísi stefnandi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 282/2011, nr. 652/2011, auk fleiri dóma sem hafi fordæmisgildi fyrir mál þetta. Af téðum dómum megi ráða að við úrlausn málsins þurfi að greina á milli kaupleigusamninga annars vegar og fjármögnunarleigusamninga hins vegar, en niðurstaða þeirrar aðgreiningar ráði því hvort heimilt sé að gengistryggja endurgreiðslur samkvæmt samningi eða ekki. Hæstiréttur tilgreini að munurinn á þessum tveimur tegundum samninga sé sá, að með kaupleigusamningi eignist leigutaki samningsandlagið við lok samningstíma eða eignist kauprétt að honum, en við lok fjármögnunarleigusamninga verði leigutaki ekki eigandi hlutarins án þess að til frekari samninga komi. Samkvæmt dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og nr. 92/2010 liggi fyrir að óheimilt sé að gengistryggja greiðslur samkvæmt kaupleigusamningum þar sem líta beri á slíka samninga sem lánssamninga sem heyri undir VI. kafla laga nr. 38/2001. Samkvæmt framangreindu ráðist ákvörðun þess hvort um sé að ræða lánssamning sem óheimilt sé að gengistryggja skv. ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 af því hvort stefnandi og stefndi hafi samið þannig að stefnandi myndi í lok grunnleigutíma annað hvort eignast „hið leigða“ eða öðlast kauprétt að því. Telji stefnandi ótvírætt að svo hafi verið. Ákvæði fyrirliggjandi fjármögnunarleigusamninga renni mörg hver stoðum undir það að um lánssamning sé að ræða frekar en leigusamning. Til dæmis undirgangist stefnandi skyldur og ábyrgðir sem öllu jöfnu hvíla á lántakendum (eigendum lausafjár) en ekki á leigutökum með ákvæðum 16., 17., 19., 20., 23., 26. og 30. gr. Samningarnir hafi verið einhliða samdir af hálfu stefnda og með vísan til andskýringarreglu samningaréttarins beri að túlka samning aðila, að því leyti sem hann kunni að þykja óljós, stefnanda í hag. Þegar um leigusamninga sé að ræða þurfi ekki að tilgreina höfuðstól en slíkt þurfi eðli málsins samkvæmt að gera í lánssamningum. Í samningum máls þessa sé ávallt í 2. gr. tilgreindur „leigugrunnur“ sem sé í raun samningsfjárhæðin eða höfuðstóllinn. Þá sé höfuðstóllinn sérstaklega tilgreindur í reglulegum yfirlitum yfir stöðu samninganna sem stefndi hafi sent stefnanda. Að sama skapi bendi fyrirkomulag vaxtaákvörðunar og afborgana, sbr. 5. og 10. gr. samningana, til þess að um lánssamning sé að ræða, en leigugreiðslur beri almennt ekki vexti. Með hverjum samningi hafi fylgt greiðsluyfirlit þar sem greiðslum stefnanda hafi verið skipt upp í vexti, afborgunarhluta og eftirstöðvar hverju sinni. Ávallt hafi verið tiltekið sérstaklega hið umsamda lokaverð sem hafi verið lokagreiðsla fyrir hvern samning á síðasta gjalddaga grunnleigutímans. Lokagreiðslan hafi ekki verið valkvæð fyrir stefnanda né þurft sérstakt samþykki stefnda til, heldur þvert á móti hafi verið um ræða skyldubundna greiðslu sem stefnanda hafi borið að inna af hendi. Þá skipti máli að umsamdar greiðslur stefnanda til stefnda hafi eingöngu tekið mið af upphaflegum leigugrunni (höfðuðstól) að viðbættum samningsvöxtum og vaxtaálagi. Þetta fyrirkomulag svari til endurgreiðslu á láni, en ekki leigu þar sem leigugreiðslur miðist almennt við raunverulegt verðmæti hins leigða og markaðsaðstæður hverju sinni. Staðreyndin sé sú að fyrirkomulag viðskipta milli stefnanda og stefnda hafi haft þann megintilgang að fjármagna kaup stefnanda á vinnuvélum sem hann hafi ætlað að leigja eða selja til annarra fyrirtækja. Út á það hafi starfsemi stefnanda gengið og hafi stefnda að sjálfsögðu verið um það kunnugt. Það væri því alger rökleysa og í raun fráleitt að ætla, að aðilar hafi samið þannig að stefndi myndi halda hlutaðeigandi vélum í sinni eigu eftir lok grunnleigutíma þrátt fyrir að stefnandi hefði endurgreitt að fullu þá lánveitingu sem fjármögnun stefnda hafi falið í sér. Þvert á móti hafi samningsbundin skylda hvílt á stefnanda til að leysa hlutaðeigandi vél til sín með því að greiða upp fjármögnunarleigusamninginn, í síðasta lagi á síðasta gjalddaga grunnleigutímans hverju sinni. Ákvæði 6. gr. og 12. gr. fjármögnunarleigusamninganna um framhaldsleigu hafi verið markleysa sem aldrei hafi reynt á og með réttu hafi ekki átt að koma fram í hinum stöðluðu samningum og beri að horfa framhjá við úrlausn þessa máls. Í málinu liggi fyrir tölvupóstsamskipti aðila til stuðnings því að um lánsviðskipti hafi verið að ræða fremur en leiguviðskipti, og að stefnandi hafi sannarlega átt rétt á því að eignast hlutaðeigandi vél gegn uppgreiðslu samnings eða í lok grunnleigutíma. Líta verði til þess um hvað hafi raunverulega verið samið en ekki eingöngu til orðalags hinna stöðluðu samningsforma sem notuð hafi verið. Viðskiptasaga og samskipti aðila árum saman, sýni fram á að stefnandi hafi bæði átt rétt og borið skylda til að greiða eftirstöðvar samninganna í síðasta lagi í lok grunnleigutíma, og að það hafi ávallt verið raunin án þess að það hafi nokkru sinni sætt athugasemdum af hálfu stefnda fyrr en á árinu 2012. Regluleg yfirlit stefnda til stefnanda um stöðu óuppgerðra fjármögnunarleigusamninga tilgreini höfuðstól og eftirstöðvar samnings, en lokagjald sé tiltekið kr. 0. Sýni það að stefnandi hafi ekki þurft að semja sérstaklega við stefnda um rétt til að eignast „hið leigða“ heldur hafi beinlínis verið gert ráð fyrir því í samningi aðila að eftirstöðvar samnings hverju sinni fælu í sér fullnaðargreiðslu. Í samningum aðila hafi fjárhæð lokaverðs, það er síðasta greiðslan á grunnleigutímabili, verið ákveðin með þeim hætti að hún endurspeglaði markaðsverð hlutaðeigandi tækis á þeim tíma sem greiðslan hafi farið fram. Fráleitt sé að ætla að aðilar hafi samið þannig að stefnandi myndi greiða markaðsverð fyrir tæki á þeim degi en fá það ekki til eignar á móti. Til stuðnings því að kaupskylda stefnanda hafi verið til staðar á hlutaðeigandi tæki, sé enn fremur vísað til þess að stefndi hafi stundum farið fram á ábyrgðaryfirlýsingu frá erlendum framleiðendum hlutaðeigandi véla þar sem þeir hafi ábyrgst að kaupa vélarnar af stefnda í lok grunnleigutíma á sama verði og stefnandi hafði skuldbundið sig til að gera, ef stefnandi hefði af einhverjum ástæðum ekki fjárhagslegt bolmagn til að gera það. Stefnandi vísi til skýrslna sem starfsmenn stefnda hafi gefið í máli nr. E-3286/2012 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, að því leyti sem þær eigi við, um eðli fjármögnunarleigusamninga stefnda. Þar staðfesti fjölmargir starfsmenn stefnda, þar á meðal þrír fyrrverandi framkvæmdastjórar félagsins, að við lok grunnleigutíma fjármögnunarleigusamninga stefnda, hafi leigutakar átt rétt á því að eignast hið leigða gegn greiðslu fyrirfram ákveðinnar fjárhæðar. Jafnframt vísist til umfjöllunar í sama dómi þar sem því er sé slegið föstu að á heimasíðu stefnda á árunum 2006, 2008, 2009 og 2010 hafi komið fram að leigutakar samkvæmt fjármögnunarleigusamningum ættu þess kost í lok grunnleigutíma að kaupa hið leigða á fyrirfram ákveðnu verði. Þessi texti hafi nú verið fjarlægður af heimasíðu stefnda. Líkt og að framan sé rakið, hafi kaupskylda verið til staðar af hálfu stefnanda við lok grunnleigutíma, en ekki einungis kaupréttur. Í samræmi við það hafi stefnandi eignfært hið leigða í bókhaldi sínu og ársreikningum. Í fyrirliggjandi ársreikningum stefnanda sjáist hvernig vélar sem heyrt hafi undir fjármögnunarleigusamninga, þar á meðal samninga máls þessa, séu ávallt tilgreindir sem eign stefnanda (fjárfestingaeignir). Ársreikningarnir hafi árum saman verið kynntir og afhentir stefnda sem hafi aldrei gert athugasemdir við þessa eignfærslu stefnanda. Þá vísi stefnandi til ársreikninga stefnda þar sem útlán og kröfur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum hafi verið færð til eignar hjá stefnda, en vélarnar sjálfar, þ.e. andlag samninganna, hafi ekki verið eignfærðar. Þetta bendi til þess að formleg skráning eignarhalds hjá stefnda skv. 15. gr. samninganna hafi aðeins verið til tryggingar á réttum efndum, en að raunverulegt eignarhald hafi verið hjá stefnanda. Í ljósi alls framangreinds telji stefndi sannað að aðilar hafi samið þannig, við gerð fjármögnunarleigusamninga aðila að stefnandi ætti að eignast hið leigða við lok grunnleigutíma á fyrirfram umsömdu lokaverði. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010, nr. 282/2011 og nr. 652/2011 teljist því fjármögnunarleigusamningar máls þessa lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 sem óheimilt hafi verið að gengistryggja. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna, séu ófrávíkjanleg og því óheimilt að semja um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Verðtryggingarákvæði samninganna séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda. Í ljósi framangreindra dómafordæma Hæstaréttar liggi fyrir að samningar máls þessa feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Sérstaklega sé tekið fram af hálfu stefnda á forsíðu samninganna að þeir séu „gengistryggðir“. Höfuðstóll eða „leigugrunnur“ sé tilgreindur í 2. gr. í íslenskum krónum en síðan sé sundurliðað í nánar tilgreindum hlutföllum hvernig krónufjárhæðin sé bundin við gengi viðeigandi erlends gjaldmiðils. Þá vísist enn fremur til 14. gr. samninganna til stuðnings því að um gengistryggðan samning sé að ræða.
Hvað lagarök varði vísi stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 912/1991 um meðferð einkamála. Þá sé vísað til almennra meginreglna veðréttar, samningaréttar og kröfuréttar. Varðandi málskostnaðarkröfu sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi byggir á því að sú aðalmálsástæða stefnanda að umþrættir fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar standist engan veginn. Þannig hafi í dómum Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 frá 24. maí 2012 („Smákranamál“) og máli nr. 638/2013, frá 13. mars 2014 (Suðurverksmál) verið fjallað um samskonar samningsform fyrir fjármögnunarleigu og hafi niðurstaða Hæstaréttar verið sú að um væri að ræða leigusamning. Í dómi Hæstaréttar í Smákranamálinu hafi verið komið inn á það að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Einnig hafi komið fram í dóminum að í samningi aðila væri fjallað um leigu og væri Lýsing hf. þar ítrekað nefnd leigusali. Tekið skuli fram að ekki verði annað séð en stefnandi byggi nær eingöngu á sömu málsástæðum í þessu máli og hafðar hafi verið uppi af hálfu stefnanda í fyrrgreindum málum Hæstaréttar nr. 652/2011 og telji stefndi því að beinst liggi við að sýkna hann í þessu máli. Fjármögnunarleiga sé ein tegund eignaleigusamninga en eignaleiga feli í sér leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í fjármögnunarleigu felist að leigugjald og lágmarks-leigutími sé ákvarðað með hliðsjón af því, að í lok lágmarksleigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumunar, auk vaxta og kostnaðar, en eftir það tímamark hafi leigutaki að jafnaði rétt til áframhaldandi leigu munar gegn lækkuðu leigugjaldi. Þannig sé gert ráð fyrir því að stefnandi geti haft leigumunina á framhaldsleigu allt þar til að leigumunirnir séu orðnir úr sér gengnir eða ónothæfir. Þetta sé einmitt eitt af grunneinkennum fjármögnunarleigusamninga og eitt af því sem aðgreini þá frá kaupleigusamningum þar sem leigutaki verði að jafnaði sjálfkrafa eigandi hins leigða í lok leigutímans, án sérstakrar greiðslu eða frekari samninga. Stefndi vísi hér einnig til c-liðar 11. gr. í IAS 17 reikningsskilastaðalsins þar sem fram komi að það sé einkenni fjármögnunarleigusamninga að þá megi framlengja um annað tímabil gegn leigu, sem sé töluvert lægri en markaðsleiga. Í lögum um eignarleigustarfsemi nr. 19/1989, sem nú hafi verið afnumin, sé fjármögnunarleiga skilgreind sem sú starfsemi skv. eignarleigusamningi að leigusali hafi afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala en eignarréttur haldist þó hjá leigusala. Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 19/1989 komi fram að þær skilgreiningar sem byggt væri á í forminu, tækju mið af IAS 17 (International Accounting Standard 17). Í 4. gr. IAS 17 – Alþjóðlegum reikningsskilastaðli um leigusamninga sé fjármögnunarleiga skilgreind á þann hátt að um sé að ræða leigusamning þar sem svo til öll áhætta og ávinningur, sem fylgi eignarhaldi á eign, sé yfirfærð og að eignarréttur ýmist færist eða færist ekki á milli aðila að lokum. Samningsform stefnda eigi eingöngu við um fjármögnunar-leigusamninga og sé mjög skýrt fjármögnunarleigusamningsform þar sem allt innihald samningsins bendi til að um leigusamning sé að ræða. Samningsformið hafi upphaflega verið samið eftir norskri fyrirmynd um fjármögnunarleigusamninga og byggi á alþjóðlegum viðmiðunum um fjármögnunarleigusamninga. Stefndi hafi lagt fram í málinu sýnishorn af dönskum og norskum fjármögnunarleigusamningum. Þessi erlendu fjármögnunarleigusamningsform byggi á sömu grunnsjónarmiðum og form Lýsingar hf. og séu þetta þau form sem almennt séu notuð af eignaleigufyrirtækjum í þessum tveimur löndum, enda séu þessi form gefin út af samtökum eignaleigufyrirtækja í Danmörku og Noregi. Þeir fjármögnunarleigusamningar sem um sé deilt í þessu máli hafi öll einkenni fjármögnunarleigusamninga bæði hvað varði form, hugtakanotkun og efnislegt innihald. Eins og síðar verði vikið nánar að sé ljóst að stefnandi hafi kosið að tryggja sér afnot af umræddum tækjum með fjármögnunarleigusamningum við stefnda en ekki annars konar fjármögnun. Val á þessari samningstegund hafi byggst á fjölmörgum öðrum þáttum en beinum útgjöldum, svo sem þeim mun sem lögum samkvæmt sé á bókhaldslegri og skattalegri meðferð mismunandi samningstegunda. Því verði að skoða í heild réttaráhrif þess ef lagaákvæðum um önnur samningsform en leigu verði beitt um þessa fjármögnunarleigusamninga. Stefndi byggi á því að samningsform hans uppfylli öll skilyrði fyrir því að teljast leigusamningur skv. alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17, sem hafi lagagildi hér á landi. Á þessum staðli hafi verið byggt hér á landi, hvað leigusamninga varði, í áratugi, og hafi skilgreiningar á fjármögnunarleigu skv. honum verið notaðar í lögum nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi. Í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin sé lögfest. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar séu skilgreindir í 12. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sem: ,,reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002) sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002“. Reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, sé prentuð sem fylgiskjal með lögunum. Í 7. tl. reglugerðarinnar sé fjallað um IAS alþjóðlegu reikningsskilastaðlana. IAS staðlarnir byggi á alþjóðlegum viðmiðunum. Í 7. gr. EES samningsins, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, komi fram að gerðir sem vísað sé til eða sé að finna í viðaukum við samninginn, eða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, bindi samningsaðila og skuli þær teknar upp í landsrétt sem hér segi: a) gerð sem samsvari reglugerð EBE skuli sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila. Í reglugerð (EB) nr. 1606/2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla komi fram markmiðið með reglugerðinni sem sé eftirfarandi: ,,Markmiðið með þessari reglugerð er að taka upp og beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bandalaginu í því augnamiði að samræma fjárhagsupplýsingar, sem félög sem getið er í 4. gr. setja fram, til að tryggja mikið gagnsæi og samanburðarhæfi reikningsskila og þar með skilvirka starfsemi fjármagnsmarkaðar bandalagsins og innri markaðarins.“ Í 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 komi fram að ráðherra geti sett reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um alþjóðlega reikningsskilastaðla, sem samþykktir hafi verið, skv. 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002. Á grundvelli 1. mgr. 127. gr. laga nr. 3/2006 hafi ráðherra sett fjölda reglugerða um alþjóðlega reikningsskilastaðla, þar á meðal reglugerð nr. 1133/2007 að því er varði m.a. alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 17 um leigusamninga. IAS 17 staðallinn, sem lagagildi hafi hér á landi, fjalli um leigusamninga. Í 4. gr. staðalsins sé fjármögnunarleiga skilgreind á eftirfarandi hátt: ,,Fjármögnunarleiga er leigusamningur sem yfirfærir svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgir eignarhaldi á eign. Eignarréttur kann eða kann ekki að færast á milli aðila að lokum.“
Stefndi byggi á því að fjölmörg atriði staðalsins sýni fram á það ótvírætt að fjármögnunarleigusamningur Lýsingar hf. sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Þessu til viðbótar megi nefna að túlkanir með reikningsskilastöðlum, frá túlkunarnefnd um alþjóðlega reiknisskilastaðla, þ.e. IFRS Interpretations Committee, bendi einnig til þess að fjármögnunarleigusamningsform
Lýsingar hf. sé leigusamningur og megi í því sambandi nefna: túlkunina IFRIC 4 – Ákvörðun um hvort samningur inniheldur leigusamning og túlkunina SIC 27 – Mat á inntaki viðskipta þegar um leigusamning sé að ræða í lagalegum skilningi. Stefndi byggi á því að tilvísun ársreikningalaga í reglugerð og alþjóðlega reikningsskilastaðla sé samhangandi heild sem hafi lagagildi á Íslandi. Í því sambandi vísi stefndi til 3. gr. laga 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið þar sem fram komi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Út frá þessu ákvæði verði ekki komist hjá því að túlka hugtökin ,,leigusamningur” og ,,fjármögnunarleigusamningur” í samræmi við ákvæði IAS 17 í íslenskum rétti. Það leiði síðan tvímælalaust til þess að fjármögnunarleigusamningur Lýsingar teljist vera leigusamningur. Í þessu sambandi vísi stefndi ennfremur til reglunnar um einsleitni í EB rétti, sem komi fram í 1. gr. EES samningsins, um að meginforsenda þess að framkvæmd samningsins takist vel sé sú að ekki skuli aðeins sömu reglur gilda, heldur skuli túlkun og beiting sameiginlegra reglna vera samræmd á EES svæðinu öllu. Þetta hafi ennfremur í för með sér skyldu allra eininga ríkisvaldsins til að ná fram lagaáhrifum EES reglnanna í landsrétti EFTA-ríkjanna, sbr. 3. gr. EES samningsins um skyldur samningsaðila til að tryggja framgang markmiða samningsins, sbr. fylgiskjal I með lögum nr. 2/1993. Stefndi byggi á því að meginreglan um einsleitni og sjónarmið Evrópuréttarins um samræmda skýringu hugtaka eigi að leiða til þess að á Íslandi verði notast við þá skilgreiningu á hugtakinu ,,leigusamningi” sem sé að finna í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17. Með þessu sé hugtakinu ,,leigusamningur” gefin merking sem rúmist innan EES samningsins og þeirra reglna sem á honum byggi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 79/2010 sé komið inn á framangreind sjónarmið og tekið fram að slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt gefin merking, sem rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu. Í tengslum við rekstur hæstaréttarmálsins nr. 652/2011 hafi Lýsing hf. látið nokkrar af stærstu endurskoðunarstofum landsins vinna fyrir sig álit um það hvort fjármögnunarleigusamningsform Lýsingar hf. gæti talist vera fjármögnunar-leigusamningur í samræmi við IAS 17 – Alþjóðlegan staðal um leigusamninga. Álit allra endurskoðunarfyrirtækjanna hafi verið á þá leið að fjármögnunarleigu-samningsform Lýsingar hf. félli undir staðalinn um leigusamninga og væri þannig leigusamningur. Þegar erlendir bankar og fjárfestar eigi viðskipti hér á landi eigi þeir að geta treyst því að hér sé farið eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Ísland hafi innleitt á grundvelli EES samningsins og að þeir geti tekið viðskiptalegar ákvarðanir út frá því. Í stefnu sé reynt að færa fyrir því rök að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu lánssamningar en ekki leigusamningar. Stefndi mótmæli því að nokkur af þeim atriðum sem stefnandi bendi á, styðji það að hinir umþrættu samningar aðila séu lánssamningar frekar en leigusamningar. Leigusamningur sé gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun, gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Um sé að ræða gagnkvæman samning þar sem báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur. Lánssamningur sé það kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka skv. ákvæðum lánssamningsins. Þeir lánssamningar, sem falli undir vaxtalögin nr. 38/2001, séu lánssamningar um peninga eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna en þar komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar. Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum megi ráða að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar en ekki lánssamningar. Fjölmörg önnur atriði megi nefna því til stuðnings að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga og megi í því sambandi m.a. nefna eftirfarandi atriði:
Heiti samninganna, þ.e. ,,fjármögnunarleigusamningar“ bendi til þess að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga.
Í gegnum alla samningana sé talað um ,,leigusala“ og leigutaka“ og bendi það til þess að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga. Orðnotkun í samningunum bendi einnig eindregið til að um sé að ræða leigusamninga en ekki lánssamninga. Sem dæmi um þetta megi nefna að gerð sé grein fyrir leigumun sem hinu leigða í 1. gr. samninganna og leigugrunni í 2. gr. samninganna. Í 4. gr. sé fjallað um grunnleigutíma og í 5. gr. um greiðslutilhögun leigu. Í 6. gr. sé gerð grein fyrir grunnleigutíma og framhaldsleigu. Í öðrum greinum samninganna sé sama orðnotkun og þannig ávallt gengið út frá því að um leigusamninga sé að ræða. Það skuli ítrekað í þessu sambandi að í máli nr. 652/2011 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga.
Virðisaukaskattur leggst ofan á einstakar leigugreiðslur fjármögnunarleigu-samninga en slíkt tíðkist aldrei í lánssamningum. Skattayfirvöld geri skýran greinarmun á meðhöndlun virðisaukaskatts í kaupleigusamningum annars vegar og fjármögnunarleigusamningum hins vegar. Ákvarðandi bréf RSK gefi skýrt til kynna að skv. réttum skilningi laga um virðisaukaskatt skuli innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningum en líta skuli á greiðslur skv. kaupleigusamningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum, sbr. fyrirliggjandi bréfi RSK nr. 273/1991. Stefndi hafi greitt virðisaukaskatt af kaupverðinu í upphafi og gengið út frá því að innheimta virðisaukaskattinn til baka í gegnum leigugreiðslur út grunnleigutímann. Gangi það ekki eftir sé það breyting á þeim forsendum sem gengið hafi verið út frá við samningsgerðina en aðilar hafi verið sammála um að þar sem um leigusamninga væri að ræða skyldi greiða virðisaukaskatt af leigugreiðslum. Til viðbótar við þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst megi nefna að stefnandi hafi innskattað virðisaukaskatt af leigugreiðslum í bókhaldi sínu. Allar þær virðisaukaskattsgreiðslur sem hér hafi verið lýst miðist við þann gagnkvæma skilning aðila að um leigusamninga hafi verið að ræða. Í Danmörku gildi sömu reglur og hér um það að virðisaukaskattur leggist ofan á leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 1. tl. 4. gr. í danska samningsforminu, sem fyrir liggi í málinu. Þegar leiga sé innheimt séu sendir út ,,reikningar fyrir leigu“ og sé það sá háttur sem stefndi hafi haft á. Slíkt eigi ekki við þegar um lán sé að ræða. Á leigureikningunum komi einnig skýrt fram að við leiguna bætist virðisaukaskattur en sama eigi ekki við um lán eins og áður hafi komið fram. Það verði að teljast harla langsótt hjá stefnanda að halda því fram að um lánssamning sé að ræða í ljósi þess að hann hafi greitt reikninga án athugasemda, þar sem fram hafi komið að um leigureikninga væri að ræða og á reikningunum komi einnig skýrt fram að virðisaukaskattur bættist við leigugreiðsluna.
Þegar um lánssamning sé að ræða eignist viðkomandi hið keypta gegn greiðslu kaupverðs. Grundvallarmunur sé á skattalegri meðferð kaupverðs og leigu. Kaupverð beri að eignfæra og gjaldfæra, á þeim árum sem eign sé notuð við öflun tekna, sem fyrningu, en leigu megi gjaldfæra um leið og notkunin eigi sér stað. Leigugjaldið sé frádráttarbært til skatts sem hver annar rekstrarkostnaður og skapi það leigutaka að jafnaði talsvert hærri skattfrádrátt en afskriftir af keyptum hlut, þ.e. þegar leigutíminn sé styttri en afskriftartími hlutar. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur hjá leigusala og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Gjaldfærsluleiðin sé einmitt einn helsti kostur leigusamninga, þ.e. að geta gjaldfært leigugreiðslur í gegnum rekstrarreikning og að fjármögnunin geti verið utan efnahagsreiknings. Hvað fjármögnunarleigusamninga varði haldist eignarréttur hjá leigusala, í raun og skv. skattskilum og því teljist fjármögnunarleiga vera leiga. Framangreinda kosti fjármögnunarleigusamninga hafi stefnandi þekkt vel enda hafi hann haft margra ára reynslu af þessu leiguformi þegar hann undirritaði hinn umþrætta fjármögnunar-leigusamning.
Í ársreikningum stefnanda séu fjármögnunarleigusamningar skilgreindir sem leigusamningar. Í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2005, sem sé það ár sem stofnað hafi verið til hluta þeirra fjármögnunarleigusamninga sem mál þetta fjalli um, sé á bls. 8 að finna eftirfarandi í skýringu nr. 2:
„Leigusamningar:
Leigusamningar eru flokkaðir sem fjármögnunarleigusamningar þegar samningsskilmálar gera ráð fyrir að verulegur hluti áhættunnar og hagur af eignarréttindunum er framseldur leigukaupa. Eignir samkvæmt fjármögnunar- og kaupleigusamningum eru færðar meðal varanlegra rekstrarfjármuna og afskrifaðar á líftíma þeirra. Skuldbinding við leigusala er færð til skuldar í efnahagsreikningi.“
Ljóst sé að umræddur ársreikningur bendi eindregið til að þegar aðilar hafi gert með sér umrædda fjármögnunarleigusamninga hafi stefnandi litið á þá sem leigusamninga en ekki lánssamninga. Fyrri hluti fyrrgreindrar skilgreiningarinnar í reikningsskilum í ársreikningi stefnanda sé í samræmi við 4. gr. IAS 17 – Alþjóðlega reiknings-skilastaðalsins um leigusamninga en þar komi fram að fjármögnunarleiga sé leigusamningur þar sem svo til öll áhætta og ávinningur sem fylgi eignarhaldi á eign sé yfirfærð til leigutaka. Síðari hluti skilgreiningarinnar í reikningsskilum stefnanda sé í samræmi við 20. gr. IAS 17. Rökin fyrir því að færa þetta á þennan hátt í reikningsskilum koma fram í 21. gr. staðalsins en þar sé tiltekið að í tilviki fjármögnunarleigu fái leigutakinn efnahagslega ávinninginn af notkun leigðu eignarinnar megnið af hagrænum endingartíma hennar gegn því að skuldbinda sig til að greiða fyrir þennan rétt fjárhæð sem svari, þegar leigusamningurinn sé gerður, u.þ.b. til gangvirðis eignarinnar og tengds fjármagnskostnaðar. Þetta þýði með öðrum orðum að með fjármögnunarleigusamningana sé farið sem leigusamninga í reikningsskilum og skattskilum stefnanda. Í stefnu sé því haldið fram af stefnanda að hann hafi fengið lán og að um dulbúinn lánssamning sé að ræða en ekki leigusamning. Þessi málsástæða hans standist engan veginn í ljósi þess að hann færi samningana sem leigusamninga í ársreikningi sínum og gjaldfæri leigugreiðslurnar í skattalegu uppgjöri sínu. Stefndi byggi á því að í lögskýringarfræðum sé horft til slíkrar hegðunar aðila eftir að samningur hafi verið gerður við skýringu á viðkomandi samningi. Stefnandi byggi á því að fjármögnunarleigusamningarnir séu lánssamningar gagnvart stefnda í þeirri von að það skapi honum rétt til endurreiknings og lækkunar á leigu, en hins vegar byggi hann á því gagnvart skattayfirvöldum að fjármögnunar-leigusamningarnir séu leigusamningar. Stefnandi eigi ekki að geta komist upp með það að kalla fjármögnunarleigusamningana ýmist leigusamninga eða lánssamninga eftir því hvað honum henti hverju sinni. Komist hann upp með það auðgist hann á ólögmætan hátt. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að reglur um bókhald og ársreikninga séu opinberar reglur sem eigi að tryggja festu og öryggi í viðskiptum. Þær veiti upplýsingar um starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækja til hagsbóta fyrir viðskiptavini og hið opinbera. Af þeim sökum sé markmið slíkra reglna að segja til um hvert sé inntak viðskipta og hlutast til um að þau séu bókuð á réttan hátt, þannig að rekja megi þau og notkun fjármuna, sbr. 6. gr. laga um bókhald nr. 145/1994. Þá eigi bókhald og ársreikningar að veita glögga mynd af afkomu og efnahag, sbr. 5. gr. ársreikningalaga nr. 3/2006. Eignarréttur haldist hjá leigusala fjármögnunarleigu-samnings allan grunnleigutímann og á framhaldsleigutímabilinu og því sé ekki um lánssamning að ræða. Auk þess hafi leigusali sem eigandi hins leigða þær heimildir sem teljist til grunneignarréttar eins og að geta selt eða veðsett eignarrétt sinn. Þessi atriði bendi til þess að um leigusamning sé að ræða en ekki lánssamning. Löggjafinn líti á eignaleigu sem leigustarfsemi en ekki lánastarfsemi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 en þar komi fram að með eignaleigu sé átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selji leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma. Í 1. mgr. 20. gr. sömu laga komi skýrt fram að löggjafinn líti ekki á fjármögnunarleigu sem útlánastarfsemi. Í 1. mgr. 20. gr. sé fjallað um ýmsar tegundir af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða. Í 2. tl. séu taldir upp þættir sem falli undir útlánastarfsemi og sé fjármögnunarleiga ekki talin þar á meðal. Í 3. tl. sé fjármögnunarleiga hins vegar tilgreind sérstaklega sem ein tegund af starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, sem sýni að löggjafinn telji fjármögnunarleigustarfsemi ekki vera lánastarfsemi. Sama aðgreining sé gerð á útlánum og fjármögnunarleigu í viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Framangreindar tilvitnanir í lög um fjármálafyrirtæki bendi skýrlega til þess að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur. Forsaga laganna styðji einnig við þetta sjónarmið. Við túlkun og mat á því hvort hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar eða lánssamningar beri að horfa á samningana heildstætt og varast að láta einstök atriði hafa úrslitaáhrif hvað þetta varði. Af framangreindu leiði að um leigusamninga sé að ræða frekar en lánssamninga, en það sé einnig stutt af framkvæmd í nágrannalöndum Íslands og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem lagagildi hafa á Íslandi. Í málsástæðukafla í stefnu nefni stefnandi ýmis atriði sem hann telji að styðji það að hinn umþrætta fjármögnunarleigusamning eigi frekar að flokka sem lánssamning en leigusamning. Þau atriði sem stefnandi byggi þetta á séu m.a. eftirfarandi: Stefnandi byggi á því að ákvæði fjármögnunarleigusamninganna renni mörg hver stoðum undir það að um lánssamninga sé að ræða frekar en leigusamninga. Vísi hann í þeim efnum einkum til 16., 17., 19., 20., 23., 26. og 30. gr. Stefndi bendi á að hér er um að ræða sambærilegar málsástæður og hafðar hafi verið uppi í Smákranamálinu og Suðurverksmálinu og ekki hafi verið taldar benda til þess að um lánssamning væri að ræða. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í Smákranamálinu að stöðluð ákvæði samningsins væru skýr og ættu eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Þannig sé til dæmis ekkert óeðlilegt við ákvæði 19. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila um að stefnandi þurfi að greiða leigu jafnvel þó seljandi vanefni samning sinn við stefnanda. Rétt sé að benda á að stefnanda virðist hafa sést yfir að þetta geti leitt til lækkunar á leigu eins og skýrt komi fram í 19. gr. Það sé heldur ekkert óeðlilegt við ákvæði 16. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila um að leigusali taki ekki ábyrgð á hinu leigða, svo sem í þeim tilvikum sem leigutaki sé ekki ánægður með leigumuninn, enda sé það leigutaki sjálfur sem velji leigumuninn en ekki leigusali. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að 16. og 19. gr. séu í samræmi við skilgreiningu á fjármögnunar-leiguhugtakinu í 4. og 8. gr. IAS 17 þar sem fram komi að fjármögnunarleiga sé leigusamningur þar sem svo til öll áhætta sem fylgi eignarhaldi á eign sé yfirfærð til leigutaka. Í þessu sambandi megi einnig vísa til norrænna fjármögnunarleigu-samninga, sbr. 5. tl. 4. gr. og 7. gr. danska fjármögnunarleigusamningsformsins. Stefnandi bendi á að í skilmálum samninga aðila sé gengið út frá því að við vanefndir geti stefndi rift samningunum og allt að einu krafið stefnanda um fullar greiðslur til loka samningstímans. Telji stefnandi að þetta bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða. Ákvæðið um að við riftun af hálfu leigusala geti hann krafið leigutaka um alla ógjaldfallna leigu sé að finna í 1. tl. 30. gr. samninganna. Jafnvel þó að slíkt ákvæði sé óhefðbundið í leigusamningum sé ekkert sem banni að hafa slíkt ákvæði í leigusamningum. Horfa þurfi á þetta ákvæði í tengslum við önnur ákvæði í 30. gr. samninganna og það að við riftun fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Þannig sé t.d. kveðið á um það í 4. tl. 30. gr. samninganna að frá skuld leigutaka við Lýsingu skv. tl. 1-3 skuli draga verðmat hins leigða. Taka þurfi mið af því við skýringu á þessu ákvæði að oft á tíðum séu leiguhlutir sérhæft lausafé sem úreldist hratt og erfitt sé að endurleigja og því sé nauðsynlegt að hafa inni ákvæði í samningum á þá leið að leigutaki verði að greiða ógjaldfallna leigu til að minnka líkur á því að leigusali verði fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna vanefnda leigutaka. Uppgjörsreglur vegna vanskila í umræddum fjármögnunarleigusamningum séu þær sömu og uppgjörsreglur í kjölfar riftunar í norrænum fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 15. gr. í danska samningsforminu og í 7. gr. í norska samningsforminu. Uppgjörsreglurnar byggi á því að í framhaldi af riftun fjármögnunarleigusamnings fari fram heildaruppgjör á milli aðila. Inn í þetta spili einnig að í mörgum tilvikum sé hið leigða í mjög slæmu ástandi við riftun og vörslusviptingu og leiga til þriðja aðila því ómöguleg. Hugsunin á bak við 1. tl. 30. gr. samningsskilmálanna hjá stefnda sé því að geta krafið um áframhaldandi leigu sem ígildi skaðabóta í formi efndabóta innan samninga vegna samningsrofa. Í efndabótakröfunni felist að gera stöðu leigusalans þá sömu og samningarnir hafi verið efndir að fullu á þann hátt að leigusalinn fái ígildi framtíðarleigugreiðslna að frádregnu verðmæti leiguandlagsins. Líta megi á heimildarákvæðið í 1. tl. 30. gr. samninganna og uppgjör skv. henni sem mögulegar skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa. Undir þá túlkun sé tekið í ákvarðandi bréfi Ríkisskattstjóra nr. 656/1994. Stefndi telji að með því að beita heildstæðu mati á 30. gr. samningsins, standist sú fullyrðing stefnanda ekki að 1. tl. 30. gr. bendi til þess að um lánssamninga sé að ræða. Stefnandi vísi einnig til 17. gr. skilmála fjármögnunarleigusamninganna en þar sé tekið fram að leigutaki beri áhættuna af því ef hið leigða farist, skemmist eða rýrni eftir að seljandi hafi afhent hið leigða. Stefnandi telji að þetta bendi til þess að fremur sé um lánssamninga að ræða heldur en leigusamninga sökum þess að slíkt tíðkist ekki í leigusamningum. Stefndi mótmæli þessari túlkun og bendi á að frá framangreindri meginreglu verði að sjálfsögðu vikið með samkomulagi aðila eins og gert sé í þessu tilviki. Í fjármögnunarleigusamningum sem þessum sé mun nærtækara að umráðamaður leigumunar beri ábyrgðina á framangreindum þáttum og leiði þetta til þess að hann passi betur upp á leigumuninn. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á það að leigutaki beri ábyrgð á því að greiða vátryggingariðgjöld af tækinu sbr. 23. gr. samninganna og að hann beri ábyrgð á meðferð leigumunar skv. 20. gr. samninganna. Stefndi fullyrði að áhættureglur 17. gr. samninga aðila séu eðlilegar og bendi á að hér sé um hefðbundið ákvæði að ræða í fjármögnunarleigusamningum þar sem leigusali hafi í frjálsum samningi aðila, afsalað sér að verulegu leyti áhættu af hinu leigða. Í þessu sambandi megi benda á að þetta atriði komi skýrt fram í 1. gr. í skilgreiningu á fjármögnunarleigu í lögum nr. 19/1989 sem nú hafi verið niðurfelld. Hér sé einnig rétt að benda á að í IAS 17 reikningsskilastaðlinum um leigusamninga sé fjármögnunarleiga skilgreind þannig í 4. gr. staðalsins að um sé að ræða leigusamning sem yfirfæri svo til alla áhættu og allan ávinning sem fylgi eignarhaldi á eign. Samkvæmt þessu sé ljóst að áhættureglan á milli aðila eins og hún sé sett fram í fjármögnunarleigusamningum þeirra sé í fullu samræmi við alþjóðlegt fyrirkomulag og reikningsskilastaðal sem innleiddur hafi verið með reglugerð sem hafi lagagildi hér á landi. Áhættureglurnar í samningnum séu sambærilegar við áhættureglur í norrænum fjármögnunarleigusamningum. Í því sambandi megi vísa í 9. og 10. gr. í danska samningsforminu og í 5. mgr. 12. gr. í norska samningsforminu. Um sé að ræða leigu á lausafé sem taki til mikils hluta af endingartíma tækisins, áhættu varðandi viðhald og meðferð verði þannig miklu meiri en varðandi fasteignir, þar sem leigusali beri ábyrgð á meiriháttar viðhaldi. Það gefi auga leið að ekki sé hægt að hafa þetta á annan veg en gengið sé út frá í 17. gr. í samningum aðila. Sem dæmi megi nefna að á framhaldsleigutíma sé leigugjald oft tólf sinnum lægra en á grunnleigutíma. Það myndi aldrei ganga upp, ef leigusali ætti að fá þessa lágu leigu á framhaldsleigutímanum en bæri alla ábyrgð á ástandi úr sér gengins leigumunar. Ef leigusali ætti að bera áhættuna þyrfti leigugjaldið einfaldlega að vera miklu hærra en aðilar hafi samið um að fara ekki þá leið. Til samanburðar megi nefna að samskonar reglur um ábyrgð á skemmdum sé að finna í ákvæðum staðlaðra samninga bílaleigufyrirtækjanna þar sem leigutaki beri ábyrgð á skemmdum en slíkir samningar séu óumdeilanlega leigusamningar. Hvað varði tilvísun stefnanda í 26. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila þá sé ekkert óeðlilegt við það ákvæði enda umsamið á milli aðila. Í ákvæðinu komi m.a. fram að leigutaki eigi að greiða lögreglusektir og engan veginn sé hægt að réttlæta að slíkar sektir eigi leigusali að greiða. Stefnandi byggi ennfremur á að í 2. gr. samninganna sé tilgreindur leigugrunnur sem sé í raun samningsfjárhæðin eða höfuðstóllinn. Stefnandi byggi á að í leigusamningum þurfi ekki að tilgreina höfuðstól en slíkt þurfi eðli máls samkvæmt að gera í lánssamningum. Í raun þurfi ekki að fara frekari orðum um þessa málsástæðu stefnanda þar sem hún falli í raun um sig sjálfa. Í samningum aðila sé í fyrsta lagi ekki tilgreindur höfuðstóll heldur leigugrunnur og þó svo að það þurfi ekki að tilgreina leigugrunn í leigusamningum þá sé það alþekkt í fjármögnunarleigusamningum á alþjóðavísu að leigugjaldið taki mið af fjármögnunarkostnaði leigusala sem haldist í hendur við upphaflegt kaupverð leiguandlagsins. Í þessu sambandi megi vísa til norrænna fjármögnunarleigusamninga, sbr. e-lið 2. gr. danska fjármögnunar-leigusamningsformsins. Stefndi fullyrði því að ofangreind túlkun stefnanda á 2. gr. samninganna sé alröng. Þessu tengt byggi stefnandi ennfremur á að þar sem í skilmálum samninga aðila séu ákvæði um vexti, bendi það til þess að um lánssamninga sé að ræða. Stefndi mótmæli þessu og byggi það á eftirfarandi rökum. Hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila beri alls ekki vexti og því er hér um misskilning að ræða hjá stefnanda. Tilvísun til vaxta í fjármögnunar-leigusamningum sé einungis sett fram sem viðmiðun fyrir ákvörðun leigugreiðslna en breyti ekki skýru inntaki samninganna sem séu samkvæmt formi og efni dæmigerðir fjármögnunarleigusamningar. Þessi málsástæða um vextina hafi verið höfð uppi í hrd. 652/2011 (Smákranamál) og hrd. 638/2013 en þar hafi ekki verið tekið undir hana af hálfu Hæstaréttar og verði því ekki meira fjallað um hana í greinargerð þessari. Í stefnu vísi stefnandi til skyldubundinnar lokagreiðslu sem honum hafi borið að inna af hendi. Ekki sé ljóst hvað stefnandi eigi við með þeirri tilvísun enda sé það ekki útskýrt nánar. Hér sé stefnandi þó væntanlega að vísa til umsaminnar greiðslutilhögunar á leigugreiðslum en aðilar hafi almennt samið svo um að stefnandi greiddi lægri leigugreiðslur yfir tiltekið tímabil grunnleigutímans og svo eina hærri greiðslu í lok grunnleigutíma. Miðist umrædd greiðslutilhögun við leigugrunn samninganna sem byggi á að við lok grunnleigutímans hafi stefndi fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð leigumuna, auk vaxta og kostnaðar sem hafi þurft að greiða á leigutímanum vegna eigin fjármögnunar á leiguandlaginu hjá erlendum fjármögnunaraðilum sínum. Að grunnleigutíma loknum tæki svo við framhaldsleigutímabil, sbr. 6. gr. samninganna þar sem leigugreiðslur lækkuðu umtalsvert. Sé því vissulega um skyldubundna leigugreiðslu að ræða líkt og stefnandi bendi á en hafi ekki áhrif á það hvort samningur teljist leigusamningur eða lánssamningur. Í stefnu fjalli stefnandi í löngu máli um fyrirkomulag á fyrri viðskiptum milli aðila og telji að þau viðskipti bendi til þess að samið hafi verið um það í upphafi viðskipta að stefnandi myndi eignast leigumunina við lok samninga. Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu stefnanda sem rangri og ósannaðri enda komi ekkert fram um þetta í gögnum málsins. Þá beri að benda á að flest þau tölvusamskipti sem stefnandi vísi í og fyrir liggi í málinu séu gerð í nafni Vélaborgar ehf. sem sé ekki aðili að því máli sem hér sé til umfjöllunar og séu tilvísanir í samninga og önnur viðskipti í flestum tilvikum milli stefnda og þess félags en ekki stefnanda þessa máls. Geti umrædd gögn því ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. Þó svo að stefnandi gæti sýnt fram á að hann hefði í fyrri viðskiptum aðila eignast leigumuni við lok samningstíma bendi stefndi á að það sé ekkert óeðlilegt við það að fjármögnunarleigusamningum aðila hafi lokið með því að stefnandi hafi keypt viðkomandi búnað af stefnda. Það sé hins vegar röng ályktun hjá stefnanda að það hafi verið gert á grundvelli samkomulags við upphaf samnings aðila. Samningar aðila séu skýrir að því leyti að við lok grunnleigutíma fari samningurinn á framhaldsleigu nema leigutaki skili leigumunum til leigusala. Þetta komi mjög skýrt fram í 12. gr. samninganna þar sem gerð sé grein fyrir réttarstöðunni við lok samnings á tæmandi hátt og þar sé ekki gert ráð fyrir neinum kauprétti. Tekið skuli fram að í mörgum tilvikum hafi stefndi neitað beiðni stefnanda um sölu við lok grunnleigutímans enda hafi stefndi það ætíð í hendi sér hvort hann samþykki sölu við lok grunnleigutímans eða ekki. Stefndi bendi einnig á að í hinum umþrættu fjármögnunarleigusamningum aðila sé hvorki um kaupskyldu, kauprétt, söluskyldu, né sjálfkrafa eignayfirfærslu að ræða og því verði leigutaki ekki eigandi við lok grunnleigutímans nema til frekari samninga komi. Að loknum grunnleigutíma geti leigusali tekið einhliða ákvörðun um að veita leigutaka þriðja möguleikann og bjóða honum leigumunina til kaups. Leigutaka sé þá í sjálfsvald sett að ákveða hvort hann taki tilboðinu eða hafni því og eftir atvikum þá haldið áfram að leigja leigumunina á framhaldsleigu gegn umtalsvert lægra leigugjaldi eða skilað leigumununum til leigusala. Það sé því á engan hátt sjálfgefið að leigutaki eignist leigumuni að grunnleigutíma loknum og í raun þvert á móti því samningurinn fer sjálfkrafa á framhaldsleigu nema leigutaki skili leigumunum eða aðrir samningar komi til. Það breyti því ekki innihaldi og eðli fjármögnunarleigusamninganna þótt stefnandi hafi fengið að kaupa leigumuni vegna eldri fjármögnunarleigusamninga á milli aðila. Framangreind rök stefnda hafi verið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 638/2013 (Suðurverksmál). Í umræddu máli hafi áfrýjandi vísað til þess að hann hefði í lok 77 fjármögnunarleigusamninga fengið leigumunum afsalað til sín. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar segir að það ráði ekki úrslitum um sönnun fyrir því að samið hafi verið um kaup í upphafi þótt óumdeilt sé að áfrýjandi hafi alltaf keypt þær vélar eða tæki sem hann hafði gert fjármögnunarleigusamning um og samningunum lokið á þann hátt. Ekkert í samningum aðila bendir til þess að á stefnanda hafi hvílt samningsbundin skylda til að leysa leigumuni til sín líkt og stefnandi haldi fram í stefnu. Þvert á móti komi skýrt fram að samningurinn fari sjálfkrafa á framhaldsleigu við lok grunnleigutíma og eina undantekningin frá því hafi verið ef leigutaki skilaði leigumun til leigusala. Það sé alveg ljóst að ef stefndi hefði ætlað að tryggja það að stefnandi keypti leigumunina í lok grunnleigutíma þá hefði ákvæði þess efnis komið fram í samningum eins og til dæmis sé gert í kaupleigusamningum. Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda þess efnis að ákvæði 6. og 12. gr. fjármögnunar-leigusamninganna um framhaldsleigu séu markleysa sem hafi í raun ekki átt að koma fram í hinum stöðluðu samningum. Stefndi bendi á að fjármögnunarleigusamningar aðila séu undirritaðir af fyrirsvarsmanni stefnanda á bls. 2 í samningunum þar sem ákvæði 12. gr. sé m.a. að finna og er stefnandi því bundinn af því ákvæði. Undirritunin sé í reit sem auðkenndur sé með heitinu ,,leigutaki“. Hefði stefnandi talið að 12. gr. ætti ekki við hefði hann átt að óska eftir því að sú grein yrði strikuð út og ný grein sett í hennar stað en það hafi hann ekki gert. Í 35. gr. samningsins sé sérstaklega tekið fram með feitu letri að leigutaki hafi kynnt sér og hafi ekkert við að athuga alla skilmála samningsins en þar komi eftirfarandi fram með feitu letri:
,,Undirritaður leigutaki og ábyrgðarmenn hafa kynnt sér og hafa ekkert við að athuga alla skilmála samnings þessa, greinar 1-35 ....“
Stefndi byggi á því að stefnandi sé bundinn af þessari staðfestingu sinni á endanlegu innihaldi samninga aðila. Í 34. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila komi skýrlega fram að breytingar á samningunum megi aðeins gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Með 34. gr. hafi leikreglurnar verið ákveðnar á milli aðila um það hvernig hægt væri að breyta samningunum síðar meir, þ.e.a.s. að gerð var krafa um skriflegan viðauka. Aðilar hafi virt ákvæði 34. gr. við framkvæmd samninganna. Í þessu sambandi hafi verið gengið frá skriflegum viðaukum á grundvelli 34. gr. þegar stefnandi hafi lent í vandræðum með leigugreiðslurnar og óskaði eftir tilhliðrun. Finna megi dæmi um þetta varðandi framkvæmd samninganna í fyrirliggjandi dómskjölum. Enginn skriflegur viðauki hafi verið útbúinn á milli aðila sem breyti réttarstöðunni við lok grunnleigutímans frá því sem ákveðið hafi verið í 12. gr. í hinum umþrættu fjármögnunarleigusamningum aðila. Tilvísanir stefnanda í yfirlit þar sem greiðslum hafi verið skipt upp í ,,höfuðstól“, ,,lokagjald“ og ,,eftirstöðvar“ hafi enga þýðingu í þessum efnum. Hér sé um að ræða samskonar málsástæðu og byggt haf verið á í Smákranamálinu en ekki hlotið brautargengi í því máli. Um höfuðstól hafi áður verið fjallað. Eftirstöðvatalan sýni núvirði eftirstöðva af heildarleigugreiðslum á grunnleigutíma skv. fjármögnunarleigusamningum aðila, áður en framhaldsleiga hefjist og telji stefndi að slík upplýsingagjöf sé ekkert óeðlileg í tilviki leigusamninga og bendi í því sambandi á 20. gr. IAS 17 þar sem gengið sé út frá því að þessa fjárhæð þurfi að tilgreina í efnahagsreikningi í reikningsskilum leigutaka. Á umræddu yfirliti sé lokagjald samninganna tilgreint „0“. Vilji stefnandi meina að þetta sýni fram á að eftirstöðvar samnings hverju sinni fælu í sér fullnaðargreiðslu en leggi þó ekkert fram máli sínu til stuðnings. Um sé að ræða staðlað yfirlit úr kerfum stefnda sem eigi jafnt við um kaupleigu, jafngreiðslulán, víxla og handveð eins og sjá megi á umræddu yfirliti á dómskjali nr. 5. Hér sé um heildaryfirlit yfir viðskipti aðila að ræða og til einföldunar fyrir viðskiptavini sína sé skjalið sett upp með þessum hætti. Tilgreining á tölunni „0“ undir liðnum „lokagjald“ á yfirlitinu bendi einfaldlega til þess að ekki er um lokagjald að ræða á samningnum. Það geti á engan hátt verið túlkað á þann veg að stefndi myndi eignast tækið við lok grunnleigutíma án þess að til frekari samninga eða greiðslu kæmi, þvert á ákvæði samninganna. Stefndi mótmæli, sem röngum og ósönnuðum, fullyrðingum stefnanda um að stefndi hafi í einhverjum tilvikum farið fram á ábyrgðaryfirlýsingu frá erlendum framleiðendum leigumuna þess efnis að þeir ábyrgðust að kaupa vélar af stefnda í lok grunnleigutíma á sama verði og stefnandi hafði skuldbundið sig til að greiða. Stefnandi vísi til þess að færslur leigusamninganna í bókhaldi hans og ársreikningum bendi til þess að kaupskylda hafi verið til staðar af hálfu leigutaka við lok grunnleigutíma en ekki einungis kaupréttur. Þessi staðhæfing stefnanda eigi ekki við nokkur rök að styðjast enda séu leigusamningar aðila færðir í bókhaldi stefnanda í samræmi við 20.-21. gr. IAS-17, alþjóðlegs reikningsskilastaðals um leigusamninga, sbr. fyrirliggjandi ársreikning stefnanda vegna reikningsársins 2005. Stefnandi vísi einnig til ársreikninga stefnda og telji þá benda til þess að formleg skráning eignarhalds hafi einungis verið til tryggingar á réttum efndum, en að raunverulegt eignarhald hafi verið hjá stefnanda. Þessu mótmæli stefndi sem röngu og bendi á að í tengslum við Smákranamálið hafi stefndi fengið álit frá KPMG um það hvernig haga ætti framsetningu eigna og tekna af fjármögnunarleigusamningum í efnahagsreikningi og rekstrarreikningi leigusala samkvæmt reglum alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Niðurstaða minnisblaðsins sé sú að rétt sé að færa fjármögnunarleigusamninga á þann hátt sem Lýsing geri í ársreikningum sínum og að það sé í samræmi við IAS 17 – alþjóðlegan staðal um leigusamninga. Stefndi vilji í þessu sambandi einnig benda á að sambærileg málsástæða hafi verið höfð uppi af hálfu áfrýjanda í hrd. 638/2013 (Suðurverk) en ekki fengið þar brautargengi. Ákvæði samninganna, framkvæmd þeirra og skattaleg meðferð þeirra bendi allt til þess að stefndi og stefnandi hafi alla tíð litið svo á að um leigusamninga væri að ræða. Í ljósi framangreinds rökstuðnings liggi fyrir að ósannað sé í málinu að samið hafi verið um að stefnandi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok grunnleigutímans og liggi því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnanda sé heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar sé mælt fyrir um í samningum aðila. Samkvæmt þessu sé því ljóst að stefnandi verði ekki eigandi að leigðum tækjum án þess að til frekari samninga komi á milli aðila og ef til þess komi verði um sjálfstæðan samning að ræða. Stefnandi byggi á því í stefnu að samningar stefnda við stefnanda séu lánssamningar og gengistrygging þeirra sé brot á 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Stefndi mótmæli þessu og bendi m.a. á að honum sé heimilt að láta leigugreiðslur af fjármögnunarleigusamningum taka mið af gengi erlendra mynta vegna þess að um sé að ræða leigusamninga en þeir falli ekki undir ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Stefndi byggi á því að til þess að samningsskuldbinding geti fallið undir 1. mgr. 13. gr. vaxtalaga þurfi að vera um hefðbundin peningalánaviðskipti að ræða. Fjármögnunarleigusamningur feli í sér leigu á tækjum en ekki afhendingu á peningum og geti því ekki fallið undir ákvæði VI. kafla laganna. Lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga hafi í dómum ekki verið talin ná til þeirra gagnkvæmu samninga, sem hér sé vitnað til. Í þessu sambandi megi nefna dóm Hæstaréttar Íslands nr. 98/1978 (1980:1291) og áður nefnda dóma í málum nr. 652/2011 (Smákranamál) og 638/2013 (Suðurverksmál). Stefndi byggi í máli þessu á reglunni um samningsfrelsi. Í þeirri reglu felist m.a. að aðilar samnings eigi forræði á því, hvers efnis sá samningur sé, sem þeir gera, þ.e. hvernig þeir ráðstafi réttindum sínum með samningum og undir hvaða skuldbindingar þeir gangist. Af sama meiði sé meginregla leiguréttar um að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Meginregla þessi komi m.a. fram í 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Meginreglan um samningsfrelsi aðila í viðskiptum geri það að verkum að gengisviðmiðun sé heimil nema skýrt sé tekið fram í lögum að svo sé ekki. Ekkert lagaákvæði sé í íslenskum lögum sem banni slíka gengisviðmiðun í leigusamningum og sé hún því heimil. Stefndi telji að við túlkun á því hvort að um leigusamninga eða lánssamninga sé að ræða verði að taka mið af forsendum samningsaðila við samningsgerðina. Stefndi byggi á því að við gerð fjármögnunar-leigusamninganna hafi báðum aðilum verið það ljóst að gengisáhrif fylgdu því að hafa samningana gengistryggða fjármögnunarleigusamninga. Það hafi verið forsenda að hálfu stefnda að þar sem um gengistryggða leigusamninga væri að ræða, að þá skyldu endurgreiðslur bundnar gengi á hinni erlendu mynt sem stefnandi hafi valið og að við ákvörðun leigugreiðslna skyldi taka mið af LIBOR vöxtum með nánar tilgreindu álagi. Stefnanda hafi mátt vera þessi forsenda ljós. Því hafi verið um verulega forsendu að ræða sem verið hafi ákvörðunarástæða af hálfu stefnda fyrir því að ganga til samningsgerðarinnar. Gengisviðmiðunin hafi haft úrslitaáhrif á samninga aðila um vaxtaviðmiðun. Sjáist það vel á þeirri staðreynd að mun hærri vaxtaviðmiðun hafi ávallt verið hjá stefnda á þeim samningum sem ekki séu með gengisviðmið. Hvað forsendur varði sé í öðru lagi á því byggt að stefnandi hafi þekkt forsenduna hvað varði gengistrygginguna og vitað að hún hafi verið ákvörðunarástæða fyrir vaxtaviðmiði samninganna. Verði að telja að góður og gegn leigutaki hafi fyllilega gert sér grein fyrir því að gengistrygging fjármögnunarleigusamninganna væri forsenda þeirrar vaxtaviðmiðunar sem í boði hafi verið. Hvað forsendur varði sé í þriðja lagi byggt á því að það sé sanngjarnt og eðlilegt með hliðsjón af skiptingu áhættu að gengistrygging sé reiknuð á fjármögnunarleigusamninga aðila. Önnur niðurstaða leiði til þess að gæðum verði mjög misskipt á milli aðila samningssambandsins. Eins og fram hafi komið hafi gengistryggingin verið forsenda þess að hægt væri að hafa jafn lága vaxtaviðmiðun og raun hafi orðið á og verði niðurstaðan sú að bannað verði að reikna gengistryggingu á samningana fái stefnandi leigukjör sem engum öðrum hafi boðist, á kostnað stefnda. Þá yrði um óeðlilega auðgun stefnanda að ræða sem færi þvert gegn sanngirnissjónarmiðum. Þegar framangreindar forsendur séu hafðar í huga og með því að beita sanngirnismælikvarða við túlkun á samningum aðila, telji stefndi rétt að miða við að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar eins og efni þeirra bendi til, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að reikna upp með gengisviðmiðun þeirri sem aðilar sömdu um. Verði ekki fallist á það að hinir umþrættu fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar og talið að um lánssamninga sé að ræða byggi stefndi á því að samningarnir séu ekki íslenskir lánssamningar með ólögmætum gengistryggingarákvæðum, sem fari gegn ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001, heldur sé um lögmæta samninga í erlendum myntum að ræða, en lán í erlendri mynt falla ekki undir bannreglur VI. kafla vaxtalaganna og því byggi stefndi á því að gengisviðmiðun fjármögnunarleigusamninganna sé lögmæt.
Varðandi lagatilvísanir vísi stefndi til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. gr., 13. gr. og 14. gr. þeirra laga. Stefndi vísi til þeirrar meginreglu í leigurétti að aðilum samnings sé frjálst að semja um fjárhæð leigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum. Stefndi byggi hér einnig á meginreglu laga um að gerða samninga eigi að efna að fullu skv. efni sínu. Vísað sé til 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 um samningsfrelsi í leigusamningum. Varðandi kröfu um málskostnað vísi stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísað sé til 3. tl. 1. mgr. 3. gr. l. nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 1. mgr. 20. gr. sömu laga varðandi skilgreiningu á eignaleigu og þess að fjármögnunarleiga feli ekki í sér útlánastarfsemi. Einnig er vísað til viðauka I við Bankatilskipun Evrópusambandsins nr. 2006/48/EC (Directive 2006/48/EC of the European Parliament and of the Council of 14 June 2006 relating to the taking up and pursuit of the business of credit institution). Vísað sé til þess að í 88. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga komi fram að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum, þar sem bókunin sé lögfest. Einnig sé vísað til 12. tl. 2. gr. og 127. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla og að þeir skuli hafa lagagildi hér á landi. Þá sé vísað til reglugerðar 1133/2007 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort tilgreindir 24 fjármögnunarleigusamningar þeirra, undirritaðir á tímabilinu 3. október 2005 til 23. október 2007, séu leigusamningar eða lánssamningar, sem óheimilt hafi verið að binda gengi erlendra gjaldmiðla skv. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Þeir samningar sem hér um ræðir eru hver um sig í 35 greinum og bera þeir ýmist yfirskriftina „Samningur um fjármögnunarleigu“ eða „Fjármögnunarleigu-samningur“. Samningarnir skiptast annars vegar í sértæka skilmála í 10 tölusettum samningsákvæðum, sem gert er ráð fyrir að séu nánar fyllt út við gerð einstakra samninga og hins vegar almenn stöðluð ákvæði í greinum 11-35.
Í 2. gr. samninganna eru sértæk ákvæði um leigugrunn. Er hann í öllum samningunum tilgreindur í íslenskum krónum en tengdur gengi evru, Bandaríkjadals og japanskra jena og að auki í 14 samninganna gengi svissneskra franka. Samkvæmt 5. gr. samninganna og 2. mgr. 14. gr. tók leigufjárhæð samkvæmt samningunum breytingum í samræmi við breytingar á hinum tilgreindu erlendu gjaldmiðlum, í samræmi við skráð sölugengi þeirra hjá Seðlabanka Íslands.
Fyrir liggur að a.m.k. 10 framangreindra samninga var breytt eftir undirritun þeirra með svonefndum greiðsluraðabreytingum. Fólu þær í sér m.a. lengingu leigutíma, breytingu á vaxtaálagi og lokagreiðslu. Eru samningarnir að öðru leyti óbreyttir frá undirritun nema hvað aðilaskipti að tveimur samninganna varðar en stefnandi yfirtók skuldbindingar Vélaborgar ehf. skv. tveimur samninganna í desember 2007.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að framangreindir samningar séu samkvæmt efni sínu lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi gengistryggingarákvæði þeirra verið ólögmæt, sbr. 13. og 14. gr. laganna. Þessu til stuðnings hefur stefnandi fært fram eftirgreindar málsástæður:
Tilgreindur leigugrunnur skv. samningunum og reglulegum yfirlitum, sem stefndi hafi sent stefnanda, hafi í reynd verið höfuðstóll láns.
Stefnandi hafi skv. umræddum 24 samningum undirgengist skyldur og ábyrgðir sem öllu jöfnu hvíli á lántakendum en ekki á leigutökum. Þetta komi fram í ákvæðum 16., 17., 19., 20., 23., 26. og 30. gr. samninganna, sem m.a. leggi alla áhættu af hinu leigða á herðar leigutaka m.a. vegna mögulegra vanefnda seljanda og greiðsluskyldu, óháða afnotum leigutaka af hinu leigða.
Fyrirkomulag vaxtaákvörðunar og afborgana skv. 5. og 10. gr. samninganna, bendi ótvírætt til þess að um lánssamninga sé að ræða en ekki leigugreiðslur enda beri leigugreiðslur almennt ekki vexti.
Samið hafi verið um sérstakt lokaverð, sem fram komi í 5. gr. samninganna, en það hafi verið umsamin lokagreiðsla á síðasta gjalddaga grunnleigutímans. Lokagreiðslan hafi ekki verið valkvæð heldur hafi verið um skyldubundna greiðslu að ræða. Þannig hafi sú skylda hvílt á stefnanda að leysa viðkomandi leiguandlag til sín með því að greiða fjármögnunarleigusamninginn upp ekki síðar en á síðasta gjalddaga grunnleigutímans. Ákvæði 6. gr. og 12. gr. fjármögnunarleigusamninganna um framhaldsleigu hafi verið markleysa sem aldrei hafi reynt á og beri með réttu að líta fram hjá þeim ákvæðum við úrlausn málsins. Fjárhæð lokaverðsins hafi verið ákveðin með þeim hætti að hún endurspeglaði markaðsverð hlutaðeigandi leiguandlags á þeim tíma sem greiðslan hafi farið fram.
Regluleg yfirlit stefnda til stefnanda um stöðu óuppgerðra fjármögnunar-leigusamninga tilgreini höfuðstól og eftirstöðvar samnings, en lokagjald sé tiltekið kr. 0.
Viðskiptasaga aðila sýni að stefnandi hafi sannarlega átt rétt á því að eignast hlutaðeigandi leiguandlag gegn uppgreiðslu viðkomandi samnings eða í lok grunn-leigutíma og reyndar hafi stefnanda verið skylt að kaupa hið leigða í lok grunnleigutíma. Sjáist það m.a. af því að stefndi hafi stundum farið fram á ábyrgðaryfirlýsingu frá erlendum framleiðendum hlutaðeigandi leiguandlags þar sem þeir ábyrgðust að kaupa leiguandlagið af stefnda í lok grunnleigutíma á sama verði og stefnandi hefði skuldbundið sig til að gera, ef stefnandi hefði, af einhverjum ástæðum, ekki fjárhagslegt bolmagn til kaupanna.
Á heimasíðu stefnda á árunum 2006, 2008, 2009 og 2010 hafi komið fram að leigutakar samkvæmt fjármögnunarleigusamningum ættu þess kost í lok grunnleigutíma að kaupa hið leigða á fyrirfram ákveðnu verði.
Stefnandi hafi eignfært samningana í bókhaldi sínu og ársreikningum. Þá vísi stefnandi til ársreikninga stefnda þar sem útlán og kröfur samkvæmt fjármögnunar-leigusamningum hafi verið færðar til eignar hjá stefnda, en leiguandlagið sjálft ekki verið eignfært. Þetta bendi til þess að formleg skráning eignarhalds hjá stefnda skv. 15. gr. samninganna hafi aðeins verið til tryggingar á réttum efndum, en að raunverulegt eignarhald hafi verið hjá stefnanda.
Af hálfu stefnda er öllum framangreindum málsástæðum stefnanda hafnað og á því byggt að umræddir samningar séu samkvæmt formi sínu og efni leigusamningar og ákvæði þeirra um gengistryggingu umsamins leigugjalds brjóti því ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Við mat á því hvort þeir 24 fjármögnunarleigusamningar sem um er deilt í máli þessu séu leigusamningar eða lánssamningar er að mati dómsins rétt að líta til eftirfarandi:
Heiti samninganna, sbr. „Samningur um fjármögnunarleigu“ eða „Fjármögnunarleigusamningur“, bendir til þess að um leigusamninga sé að ræða og er öll orðnotkun í ákvæðum þeirra í samræmi við það. Þannig er stefnandi í samningunum nefndur „leigutaki“ og stefndi „leigusali“. Þá er í samningunum talað um hið leigða, leigugrunn, grunnleigutíma og framhaldsleigu.
Þá er ljóst að samningarnir bera skv. efni sínu öll megineinkenni fjármögnunarleigusamninga eins og það hugtak hefur verið skilgreint í lögum hér á landi, sbr. athugasemdir í frumvarpi til fyrstu laganna hér á landi um eignarleigu nr. 19/1989, sbr. nú 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. áður 1. mgr. 9. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Ekki verður séð að með lögum nr. 161/2002 hafi verið stefnt að breytingum á þeim grunnskilgreiningum sem fram komu í lögum nr. 19/1989 og athugasemdum með frumvarpi til laganna, hvað varðar m.a. eðli og sérkenni fjármögnunarleigu. Eru þær grunnskilgreiningar í samræmi við viðteknar skýringar og skilgreiningar á þessari samningstegund líkt og rakið var í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. september 2013 í máli Suðurverks hf. gegn Lýsingu hf., sbr. dóm Hæstaréttar frá 13. mars 2014 í máli nr. 638/2013. Er þá einkum vísað til ákvæða um að leigutaki velji hið leigða og semji um kaupverð þess við seljanda, að samningurinn sé óuppsegjanlegur á umsömdum grunnleigutíma, að leigusali endurheimti kaupverð hins leigða ásamt vöxtum, þóknun og kostnaði á grunnleigutímanum, að leigutaka gefist kostur á ótímabundinni framhaldsleigu í lok grunnleigutíma, gegn verulega lækkaðri leigu, að eignarréttur haldist hjá leigusala meðan á leigu stendur, að leigutaki beri áhættu af hinu leigða meðan á leigu stendur og komi til riftunar á leigusamningi greiði leigutaki leigusala alla gjaldfallna og ógjaldfallna leigu að frádregnu verðmæti hins leigða.
Í dómum Hæstaréttar frá 24. maí 2012, í máli nr. 652/2011, 13. mars 2014, í máli nr. 638/2013, og frá 3. apríl 2014, í máli nr. 717/2013, komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að samningar aðila væru leigusamningar en ekki samningar um lán. Verður að telja efni samninganna í þessu máli í meginatriðum vera það sama og þeirra sem um var deilt í fyrrgreindum málum. Hafa dómarnir því ótvírætt fordæmisgildi við úrlausn máls þessa.
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem stefnandi byggir á í máli þessu því til stuðnings að samningar aðila séu að efni til lánssamningar en ekki leigusamningar. Flestar þessara málsástæðna voru hafðar uppi í áður tilvitnuðum Hæstaréttarmálum nr. 638/2013 og nr. 717/2013, sbr. einnig dóm réttarins frá 13. október 2014 í máli nr. 648/2014. Hefur rétturinn því þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna stefnanda sem lúta að því að svonefndur leigugrunnur hafi verið ákvarðaður út frá fjármögnunarkostnaði stefnda og greiðslur stefnanda því falið í sér endurgreiðslu á upphaflegum höfuðstól, leigugreiðslur hafi verið tengdar breytingum á Libor vöxtum og borið vexti, sem greiða skyldi samhliða leigugreiðslum, að ekkert samhengi hafi verið milli greiðslna stefnanda og afnota af viðkomandi samningsandlagi, að öll áhætta af samningsandlaginu hafi verið lögð á herðar leigutaka þ.e. stefnanda m.a. vegna mögulegra galla og hafi leigutaka verið skylt að greiða leigu, þótt seljandi vanefndi samning sinn við stefnda. Hafnaði Hæstiréttur því að fyrrgreindar málsástæður hefðu úrslitaáhrif um það hvort samningar aðila teldust lánssamningar. Þá hefur þeirri málsástæðu stefnanda að eignfærsla leigumuna í ársreikningum hans sýni per se að um lán sé að ræða en ekki leigu ítrekað verið hafnað í dómum Hæstaréttar enda er sú uppgjörsregla að færa hið leigða til eignar í reikningum leigutaka en ekki í reikningum leigusala, í þessu tilviki stefnda, í samræmi við viðurkennd megineinkenni fjármögnunarleigu og góða reikningsskilavenju, sbr. t.d. áður tilvitnaða dóma Hæstaréttar í málum nr. 638/2013 og 717/2013. Með vísan til alls framangreinds verður því einnig hafnað hér að tilgreindar málsástæður stefnanda leiði til þess að skýra beri þá samninga sem um er deilt í máli þessu sem lánssamninga en ekki leigusamninga.
Auk þeirra málsástæðna sem að framan eru raktar teflir stefnandi fram þeim málsástæðum að umsamið hafi verið að stefnandi yrði eigandi hins leigða gegn greiðslu umsaminnar lokagreiðslu þ.e. síðustu leigugreiðslu skv. 5. gr. samninganna. Lokagreiðslan og fjárhæð hennar sanni að samið hafi verið um kauprétt stefnanda til handa auk þess sem samkomulagið hafi falið í sér kaupskyldu af hans hálfu. Viðskiptasaga aðila styðji þessa staðreynd auk upplýsinga á heimasíðu stefnda um rétt leigutaka til að kaupa leigumuni í lok grunnleigutíma fjármögnunarleigusamninga gegn greiðslu lokagjalds. Sama eigi við um regluleg yfirlit stefnda sem send hafi verið stefnda og sýnt höfuðstól og eftirstöðvar umræddra samninga en lokgjald verið sagt 0 krónur.
Af hálfu stefnda er því hafnað sem röngu og ósönnuðu að samið hafi verið um það við upphaf fjármögnunarleigusamninga aðila að stefnandi myndi eignast hið leigða við lok umsamins grunnleigutíma. Samningar aðila séu skýrir m.a. að því leyti að við lok grunnleigutíma fari samningarnir á framhaldsleigu nema leigutaki skili leigumunum til leigusala að undangenginni uppsögn. Þetta komi skýrt fram í 12. gr. samninganna. Samningarnir hafi þannig hvorki falið í sér kauprétt eða kaupskyldu né sjálfkrafa eignayfirfærslu hins leigða og stefnandi því ekki getað orðið eigandi hins leigða í lok grunnleigutímans eða áður nema til frekari samninga kæmi milli stefnanda og stefnda. Þeirri fullyrðingu stefnanda að 6. og 12. gr. fjármögnunar-leigusamninganna um framhaldsleigu hafi verið markleysa sé sérstaklega mótmælt. Í 34. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila komi skýrt fram að breytingar á samningunum megi aðeins gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Enginn skriflegur viðauki hafi verið gerður sem breytt hafi réttarstöðunni við lok grunnleigutímans frá því sem samið hafi verið um skv. 12. gr. samninganna og áður sé rakið. Þá mótmæli stefndi, sem röngum og ósönnuðum, þeim fullyrðingum stefnanda að stefndi hafi í einhverjum tilvikum farið fram á ábyrgðaryfirlýsingu frá erlendum framleiðendum leigumuna þess efnis að þeir ábyrgðust að kaupa leigumuni af stefnda í lok grunnleigutíma á sama verði og stefnandi hefði skuldbundið sig til að greiða.
Gunnar Viðar Bjarnason, stjórnarmaður í stefnanda gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður svaraði hann því til að eina leiðin til að fá 100% fjármögnun hjá stefnda hafi verið í gegnum fjármögnunarleigusamninga. Umsamið hafi verið að stefnandi gæti gert samningana upp á grunnleigutímanum. Aldrei hafi komið til greina að setja leigumuni á framhaldsleigu enda hefði alltaf legið fyrir að stefndi ætti hið leigða og stefnandi venjulega selt hið leigða til þriðja aðila áður en samningarnir hefðu verið gerðir upp við stefnda. Lokaverð samkvæmt samningunum hafi verið ákveðið út frá áætluðu markaðsverði hins leigða í lok frumleigutímans.
Ólafur Helgi Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður svaraði hann því til að leigugreiðslur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum stefnanda hafi getað verið ójafnar hafi leigutakar óskað þess sérstaklega. Stefnandi hafi almennt verið eigandi hins leigða skv. fjármögnunarleigusamningum félagsins þar til endanlegt afsal hafi verið gefið út. Aðspurður svaraði hann því til að ákvæðum 34. gr. í fjármögnunarleigusamningunum hafi verið fylgt í einu og öllu. Þá svaraði hann því til að stefndi hafi alltaf haft það í hendi sér hvort af sölu hins leigða hafi orðið í lok frumleigutíma eða ekki. Hvort kaup hafi verið heimiluð eða ekki hafi farið eftir eignastöðu og eða skuldastöðu viðkomandi leigutaka. Ekki hafi verið um kaupskyldu að ræða. Aðspurður svaraði hann því til að engin sérsjónarmið hafi verið í gildi hvað þetta varðaði gagnvart stefnda.
Sigurbjörg Þóra Leifsdóttir, rekstrarstjóri stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurð svaraði hún því til að almennt hafi fjármögnunarleigusamningum stefnda lokið í samræmi við 12. gr. samninganna. Ef til þess hafi komið að tæki hafi verið seld hafi það alltaf verið í hendi stefnda á hvaða verði það væri gert. Þá hafi það alltaf verið ákvörðun stefnda hvort tæki væri selt eða ekki enda aldrei um kaupskyldu að ræða. Aðspurð svaraði hún því til að allar breytingar sem gerðar hafi verið á fjármögnunarleigusamningum stefnda hafi verið gerðar skriflega í samræmi við 34. gr. samninganna.
Guðmundur Sigurjónsson, forstöðumaður útlánagreiningar stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður svaraði hann því til að reynt hafi á framhaldsleigu í tilviki stefnanda vegna fjármögnunarleigusamninga, sem verið hafi í vanskilum við lok grunnleigutíma.
Pétur Bjarni Magnússon, fyrrverandi yfirlögfræðingur stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður svaraði hann því til að 12. gr. fjármögnunarleigu-samninga stefnda hafi alltaf verið fylgt í framkvæmd. Sama hafi átt við um ákvæði 34. gr. Það hafi alltaf verið háð samþykki stefnda hvort leigutaki fengi að kaupa hið leigða. Við mat á því hafi verið horft á heildarstöðu leigutaka gagnvart stefnda.
Arnar Snær Kárason, forstöðumaður fyrirtækjasviðs stefnda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Aðspurður svaraði hann því til að kaup leigutaka á hinu leigða hafi alltaf verið háð samþykki stefnda. Við mat á því hvort leigutaka hafi verið heimilað að kaupa hafi verið litið til mögulegra vanskila og heildareignastöðu stefnda gagnvart leigutaka. Enginn kaupréttur hafi verið til staðar nema að undangengnu samþykki stefnda.
Eins og áður er rakið kemur fram í 6. gr. þeirra 24 fjármögnunarleigu-samninga sem mál þetta snýst um að mánaðarleg framhaldsleiga hefjist frá lokum tilgreinds grunnleigutíma. Samkvæmt 12. gr. samninganna getur leigutaki ekki sagt samningunum upp á grunnleigutíma en að honum loknum framlengjast þeir ótíma-bundið skv. 6. gr. Þó geti leigutaki sagt hinum framlengdu leigusamningum upp, skriflega, með eins mánaðar fyrirvara, enda skili hann þá tafarlaust hinu leigða. Samkvæmt 34. gr. samninganna má einungis gera breytingar á þeim með skriflegum viðaukum, undirrituðum af samningsaðilum.
Eins og rakið hefur verið er á því byggt af hálfu stefnanda að tilvitnaðir fjármögnunarleigusamningar hafi frá upphafi, þrátt fyrir framangreind ákvæði 6. og 12. gr., falið í sér kauprétt og kaupskyldu, hvað hið leigða varðaði. Þannig hafi stefnandi orðið eigandi hins leigða gegn uppgreiðslu leigusamninganna þ.á.m. umsaminnar lokagreiðslu skv. 5. gr. samninganna. Því hafi ekki verið um fjármögnunarleigusamninga að ræða heldur lánssamninga. Upplýsingar á heimasíðu stefnda styðji að umræddur kaupréttur hafi verið til staðar.
Af hálfu stefnda er framangreindum sjónarmiðum stefnanda mótmælt með vísan til 12. gr. leigusamninganna enda hafi kaup leigumuna ávalt verið háð sérstöku samþykki stefnda. Þá hafi aldrei verið samið um kaupskyldu stefnanda hvað hið leigða varðaði.
Framangreind ákvæði 6. og 12. gr. fjármögnunarleigusamninga aðila eru skýr og verður ekki af þeim ráðið að eignarréttur yfir hinu leigða flytjist til stefnanda við lok umsamins grunnleigutíma eða fyrr. Í 34. gr. samninganna er, eins og rakið hefur verið, mælt svo fyrir að breytingar á þeim megi einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum. Óumdeilt er að fjármögnunarleigu-samningum aðila, var ekki breytt að því leyti sem hér skiptir máli og ennfremur að þær breytingar sem gerðar voru á hluta samninganna og nefndar voru greiðsluraðabreytingar voru allar gerðar með skriflegum viðaukum í samræmi við 34. gr. samninganna.
Eins og rakið hefur verið og fyrir liggur í skjölum málsins varð stefnandi í mörgum tilvikum eigandi umsaminna leigumuna, bæði meðan á grunnleigutíma stóð og í lok grunnleigutímans gegn uppgreiðslu samninganna. Sú framkvæmd verður hins vegar ekki, með hliðsjón af framangreindum ákvæðum fjármögnunarleigusamninga aðila, gegn eindregnum andmælum stefnda, talin hafa veitt stefnanda fyrirvaralausan rétt til að kaupa hið leigða í lok grunnleigutíma eða meðan á grunnleigutíma stóð, án þess að til kæmi sérstakt samþykki stefnda. Því síður verður talið að stefnandi hafi sýnt fram á skyldu sína til að kaupa hið leigða. Framburður vitnanna Arnars Snæs Kárasonar, Sigurbjargar Þóru Leifsdóttur, Péturs Bjarna Magnússonar, Ólafs Helga Ólafssonar og Guðmundar Sigurjónssonar, fyrir dómi, styður þessa niðurstöðu en í skýrslum þeirra kom fram, eins og áður er rakið, að samþykki stefnda hefði alltaf þurft til að leigutaki fengi að kaupa hið leigða samkvæmt fjármögnunarleigusamningum félagsins þ.m.t. samningum stefnanda og stefnda. Þeirri staðhæfingu stefnda að kaup leigumuna hafi verið háð sérstöku samþykki stefnda hefur ekki verið hrundið. Verður meintur umræddur kaupréttur stefnanda ekki reistur á almennum upplýsingum á heimasíðu stefnda eða tilgreiningu svonefnds lokagjalds í ársyfirlitum stefnda.
Með vísan til alls framangreinds verður fallist á það með stefnda að þeir 24 samningar, sem um er deilt í máli þessu, brjóti ekki í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og því hafi aðilum máls þessa verið heimilt að semja um að greiðslur samkvæmt samningunum tækju mið af breytingum á gengi þeirra erlendu gjaldmiðla sem tilgreindir eru í samningunum. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í þessum þætti máls þessa.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.900.000 krónur.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefnda, Lýsing hf., er sýknuð af kröfum stefnanda, Leiguvéla ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefndu 1.900.000 krónur í málskostnað.