Hæstiréttur íslands

Mál nr. 751/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Miðvikudaginn 23. janúar 2013.

Nr. 751/2012.

A

(Baldvin Björn Haraldsson hrl.)

gegn

Héraðsdómi Reykjaness

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Talið var að A yrði ófært að standa undir lágmarksfjárhæð fastrar mánaðargreiðslu skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009 og var beiðni hennar um greiðsluaðlögun því hafnað með vísan til 3. tl. 2. mgr. 4. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2012, þar sem beiðni sóknaraðila um heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hennar um heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Málatilbúnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti er einkum á því reistur að hún muni fljótlega, eftir skurðaðgerðir sem hún gekkst undir vegna brjóskeyðingar á þumalfingrum beggja handa, geta horfið aftur til fyrri starfa sinna við líkamsnudd. Þannig muni hún þegar í mars á þessu ári geta hafið störf að einhverju marki, sem síðan verði aukin. Tekjur, sem þannig falli til, muni skipta sköpum fyrir hana til að geta staðið undir greiðslu lána, sem hvíla á íbúð hennar. Hér er þess að gæta að um þetta nýtur ekki við í málinu annarra læknisfræðilegra gagna en vottorðs Heilsugæslunnar í Glæsibæ 25. júlí 2012, þar sem segir í upphafi að vegna sjúkdóms hafi sóknaraðili ekkert getað unnið við líkamsnudd, sem nánar er lýst. Hún hafi gengist undir skurðaðgerðir „sem gera henni vonandi mögulegt að vinna við það aftur“. Hún hafi haft aukatekjur af þessu starfi „en þær aukatekjur verða ekki til staðar fyrr en mögulega eftir 2013.“ Málatilbúnaður sóknaraðila fær þannig ekki stoð í umræddu læknisvottorði. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili ekki vefengt þá útreikninga sem lagðir eru til grundvallar niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

jÚrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2012.

A, kt. [...], [...], [...], hefur farið þess á leit með vísan til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði nr. 50/2009 að henni verði veitt heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna við lánardrottna sína.

Beiðni skuldara er dagsett 21. september síðastliðinn og var hún móttekin hjá Héraðsdómi Reykjaness þann dag. Þann 30. október mætti skuldari fyrir dóminn samkvæmt boðun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og með henni Baldvin Björn Haraldsson hæstaréttarlögmaður. Var málinu frestað til 6. nóvember síðastliðinn til frekari gagnaöflunar sbr. 3. mgr. 37. gr. sömu laga. Þann dag mættu skuldari og lögmaður hennar aftur á dómþing og lögðu fram greinargerð vegna beiðni skuldara, ásamt fylgiskjölum. Var málið tekið til úrskurðar í kjölfar þess að skuldari lýsti því yfir að fyrir lægju allar upplýsingar sem máli skiptu í beiðni hennar og gögn þeim til stuðnings.

Í beiðni skuldara kemur fram að hún sé [...] ára gömul og einstæð. Hún búi í fjögurra herbergja, 98 fermetra íbúð að [...] í [...] með fasteigna­númerið [...]. Hún hafi keypt íbúðina í ágúst 2008 og að fasteignamat 2013 sé 22.050.000 krónur. Í beiðninni vísar skuldari til með­fylgjandi fjárhagsgagna sem unnin hafi verið í samráði við embætti Umboðsmanns skuldara um veðskuldir sem hvíla á fasteign hennar og um aðrar skuldbindingar hennar. Samkvæmt greinargerð með beiðninni og veðbókarvottorði hvíla á eigninni fjórar veðskuld­bindingar. Veðin eru öll vegna skuldbindinga við Íbúðalánasjóð, sem skuldari kveður hafa verið stofnað til vegna kaupa á eigninni. Samkvæmt greinar­gerðinni er uppgreiðsluverðmæti láns númer [...] án þóknunar 10.601.957 krónur, en mánaðarleg afborgun lánsins er sögð 47.457 krónur. Uppgreiðslu­verðmæti láns númer [...] án þóknunar sé 4.999.961 krónur, en mánaðarleg afborgun lánsins sé 21.516 krónur. Uppgreiðslu­verðmæti láns númer [...] án þóknunar sé 4.702.385 krónur, en mánaðarleg af­borgun lánsins sé 21.980 krónur. Uppgreiðsluverðmæti láns númer [...] án þóknunar sé 4.456.823 krónur, en mánaðarleg afborgun lánsins sé 19.072 krónur. Samanlagt uppgreiðslu­verðmæti lánanna sé því 24.761.126 krónur og samanlögð mánaðarleg greiðslubyrði þeirra sé 110.025 krónur. Í greinargerðinni er einnig fjallað um aðrar eignir skuldara og skuld­bindingar. Þar kemur fram að skuldari eigi bifreið [...], [...], árgerð 2005. Á bifreiðinni hvíli lán frá Landsbanka Íslands nr. [...], eftirstöðvar þess séu 174.815 krónur og mánaðarlegar afborganir af því séu nú 20.513 krónur. Samanlagt sé uppgreiðsluverðmæti allra lána skuldara sé því 24.761.126 krónur og samanlögð greiðslu­byrði allra lána sé því 130.538 krónur.

Í beiðninni og greinargerð með henni segir frá því að skuldari hafi hafið sjálf­stæðan rekstur á heimili sínu síðla árs 2008, en reksturinn hafi falist í með­ferð sjúklinga við ýmsum stoðkerfisvandamálum, með svokallaðri  [...] eða líkamsmeðferð. Slíkur sjálfstæður rekstur hafi, eins og allur annar sjálfstæður rekstur, ákveðinn meðgöngutíma og stöðugt flæði rekstrartekna verði aldrei til í öndverðu slíks rekstrar. Reksturinn hafi gengið vel þar til að skuldari hafi orðið óvinnufær sökum meiðsla í höndum, sem felist í brjóskeyðingu í þumalfingrum beggja handa, en þá hafi tekjur farið að minnka. Árið 2009 hafi skuldari verið með 233.137 krónur í meðallaun, árið 2010 hafi hún haft 217.195 krónur í meðallaun og 2011 hafi hún verið með 209.175 krónur í meðallaun. Í beiðninni segir að staða eftir lok úrræða í þessu mati miðist við meðaltekjur 2011.

Þá kemur fram í beiðni skuldara og greinargerð að meiðslin hafi á endanum leitt til þess að skuldari hafi orðið að fara í aðgerð á annarri hendinni og að hún sé nú smá saman að ná fyrri kröftum í hendinni. Hún hafi svo farið í aðgerð á hinni hendinni 5. nóvember síðastliðinn. Skuldari vonist til að byrja í hlutastarfi í janúar 2013 og hægt og rólega auka starfs­hlutfallið. Eins og sjá megi af þróun tekna skuldara, hafi hún að mestu haldið tekjum sínum þrátt fyrir að starfsorka hennar hafi skerst smá saman, þar til að starfsorka hennar hafi að fullu orðið skert tímabundið. Því megi gera ráð fyrir að tekjur aukist jafnt og þétt eftir að meðferð verði lokið og að skuldari geti staðið undir greiðslubyrði lána við lok úrræða. Skuldari geri ráð fyrir að vera komin í fullt starf að tveimur árum liðnum og óski eftir aðlögun á greiðslum af lánum Íbúðalánasjóðs að minnsta kosti til loka árs 2014. Jafnframt óskar skuldari eftir því að lánstími lána hennar verði lengdur og vanskilum verði skuldbreytt í ný lán.

Í beiðni sinni vísar skuldari um fjárhagslegar upplýsingar um tekjur og fram­færslu og upplýsingar um aðrar eignir, til meðfylgjandi fjárhagsgagna sem unnin hafi verið í samráði við embætti Umboðsmanns skuldara. Samkvæmt greinar­gerð skuldara er stærsti hluti tekna hennar um þessar mundir kominn til vegna bóta frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna, Greiðslustofu lífeyrissjóða og Tryggingastofnun. Mánaðarlegar tekjur skuldara frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna nemi 130.809 krónum eftir skatt, greiðsla frá Greiðslustofu lífeyris­sjóða 1.433 krónum og greiðsla frá Tryggingastofnun 68.910 krónum. Mánaðarlegar tekjur skuldara á árinu 2012 séu því um 201.152 krónur. Á árinu 2012 hafi skuldari sent reikninga uppá samtals 36.000 krónur, vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar. Ráða megi af þróun tekna skuldara og skattframtali hennar, að tekjur hennar hefðu aukist miðað við fulla starfs­orku. Því megi gera ráð fyrir með nokkurri vissu að tekjur skuldara muni aukast jafnt og þétt eftir að fullri starfsorku verður náð að nýju, enda sé hún verulega hæf í sínu fagi. Þó sé ljóst að hún standi ekki undir afborgunum miðað við núverandi stöðu.

Þá kemur fram í beiðni skuldara og greinargerð, að hún hafi leitað til Íbúðalánasjóðs um að fresta afborgunum af veðskuldum áhvílandi á fasteign hennar að [...] í tvö ár sökum greiðsluerfiðleika vegna tímabundinnar starfsorku­skerðingar. Hún hafi notið aðstoðar frá embætti Umboðsmanns skuldara við beiðni sína til sjóðsins. Með ákvörðun Íbúðalánasjóðs 12. júlí síðastliðinn hafi beiðni hennar verið hafnað af þeim ástæðum að tekjur hennar eftir úrræði nægðu ekki til afborgunar af lánum. Skuldari hafi hins vegar talið að sjóðurinn hefði ekki tekið til greina raun­verulegar aðstæður hennar og að við afgreiðslu slíkra mála væri nauðsynlegt að skoða nákvæmlega þær forsendur sem lægju að baki umræddri beiðni. Skuldari hafi verið ósátt við niður­stöðu Íbúðalánasjóðs og kært ákvörðunina til Úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sem staðfest hafi niðurstöðu sjóðsins. Skuldari hefur lagt fram gögn vegna þessara umleitana, sem staðfestingu á að ekki hafi fundist lausn á greiðsluvanda skuldara þrátt fyrir þau úrræði sem sjóðurinn býður upp á. Þá er einnig meðal gagna málsins staðfesting frá Íslandsbanka hf., dagsett 31. október síðastliðinn, um að bankinn muni taka að sér miðlun greiðslna til Íbúðalánasjóðs vegna greiðslu­aðlögunar.

Í greinargerðinni kveður skuldari fjárhag sinn slíkan að henni sé ekki kleift að standa í fullum skilum án greiðsluaðlögunar og að önnur greiðslu­erfiðleikaúrræði hafi verið reynd. Þá kemur fram að skuldara sé alls ófært að standa undir lágmarks­fjárhæð sam­kvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009. Hún hafi ekki bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hennar, með háttsemi sem varði refsingu eða skaða­bótaskyldu. Í beiðni sinni lýsir skuldari því yfir að þær upplýsingar sem fram komi í um­sókn hennar og þeim gögnum sem henni fylgi séu settar fram af bestu vitund og séu réttar. Þá kemur hvort tveggja fram í beiðninni og greinargerð að skuldari hafi ekki hagað gerðum sínum með ráðunum hug til að leita tíma­bundinnar greiðslu­aðlögunar fasteignaveðkrafna eða látið hjá líða að standa í skilum við veð­kröfuhafa þótt henni hafi verið það kleift að einhverju leyti eða öllu. Þá lýsir skuldari því einnig yfir að hún hafi ekki hagað fjármálum sínum á verulega ámælis­verðan hátt eða tekið áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til fjárskuldbindinganna hafi verið stofnað eða þegar hún hafi verið greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Í greinargerðinni kveður skuldari húsnæði sitt hóflegt miðað við þarfir hennar og fjölskyldu hennar sem ætlað sé til búsetu sam­kvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009.

Forsendur og niðurstaða:

Leitað er greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009. Skuldari er þinglýstur eigandi fasteignarinnar að [...] í [...] sem hún keypti í ágúst 2008. Kröfur samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009 eru fjórar talsins, allar í eigu Íbúðalánasjóð. Við þingfestingu málsins 30. október síðastliðinn kvað skuldari allar skuldir sínar við Íbúðalánasjóð vera í vanskilum, en aðrar skuldir ekki. Jafnframt upplýsti skuldari að engin lögveð hvíli á fasteigninni, einu áhvílandi samnings­veðin séu vegna lána frá Íbúðalánasjóði og að engin aðfarar­veð væru til staðar. Þessar upplýsingar eru í samræmi við veðbókarvottorð eignarinnar sem skuldari lagði svo fram á dómþingi 6. næsta mánaðar. Á dómþingi þann dag greindi skuldari meðal annars frá því, að áætlað væri að hún gæti hafið störf að einhverju leyti í byrjun apríl, en óvíst væri hvenær full starfsorka myndi nást að nýju.

Meðal gagna málsins er lánayfirlit dagsett 31. október síðastliðinn, vegna skulda við Íbúðalánasjóð, má ráða að vanskil skuldara við sjóðinn hafi hafist í desember 2011. Það gagn staðfestir jafnframt frásögn skuldara um eftirstöðvar skuldbindinga hennar við sjóðinn, en í yfirlitinu kemur fram að verðbættar eftirstöðvar veðlána sjóðsins í fasteign skuldara 23.412.118 krónum, en uppgreiðslu­verðmæti lánanna án þóknunar nemur 24.761.126 krónum. Mánaðarleg afborgun lána nemur 110.025 krónum. Þá er fram komið í málatilbúnaði skuldara að ráðstöfunartekjur hennar hafa dregist saman frá því að vera að jafnaði 233.137 krónur á mánuði árið 2009 og til þess að vera að jafnaði 209.175 krónur á árinu 2011. Samkvæmt því sem fram er komið eru ráðstöfunartekjur skuldara í dag um 201.152 krónur á mánuði. Af málatilbúnaði skuldara verður jafnframt ráðið að skuldari áætli að ráðstöfunartekjur hennar þegar hún verður búin að ná sér af veikindum, verði þær sömu og árið 2011. 

Samkvæmt meðfylgjandi gögnum dagsettum 6. júlí síðastliðinn sem skuldari vísar til í beiðni sinni og unnin voru fyrir skuldara af embætti Umboðsmanns skuldara, voru ráðstöfunartekjur skuldara þá, að teknu tilliti til vaxtabóta, hins vegar 244.784 krónur á mánuði, en án þeirra 200.094 krónur á mánuði. Samkvæmt þessum sömu gögnum voru heildarútgjöld skuldara, utan afborgana af lánum, 162.861 krónur á mánuði og ljóst er að tekjuafgangur upp á 81.923 krónur hefur ekki dugað skuldara til að greiða af lánaskuldbindingum sínum sem samkvæmt þessum sömu gögnum voru upp á 125.820 krónur á mánuði. Miðað við þessi gögn og skattframtal skuldara verður við það að miða að ráðstöfunartekjur skuldara á árinu 2012 hafi að jafnaði verið um 245.000 krónur að teknu tilliti til vaxtabóta. Jafnframt er ljóst af greinargerð skuldara og öðrum gögnum málsins að samanlögð greiðslubyrði allra lána hefur hækkað upp í rúmlega 130.500 krónur á mánuði og að almennt hefur framfærslukostnaður hækkað lítillega frá því að hin téðu gögn voru unnin hjá embætti Umboðsmanns skuldara. Því má ætla að skuldari hafi, að frádregnum framfærslukostnaði og afborgunum af bílasamningi, í mesta lagi tæplega 60.000 krónur á mánuði til ráðstöfunar til af­borganna af fasteignaveðkröfum.

Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins verður beiðni skuldara að mati dómsins ekki hafnað með vísan til 1., 2. og 4. til 8. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009. Hins vegar liggur fyrir að skuldari hefur lýst því yfir í greinargerð sinni að henni sé alls ófært að standa undir fastri mánaðargreiðslu skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009, en þegar svo er ástatt er beiðni um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafnað með vísan til 3. tl. 2. mgr. 4. gr. laganna. Auk þess er til þess að líta að af tilvitnuðum gögnum sem unnin voru fyrir skuldara af embætti Umboðsmanns skuldara, vegna umsóknar um greiðslu­erfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði, var áætlað að greiðslugeta hennar að þeirri aðstoð lokinni yrði eftir lok úrræða neikvæð. Jafnframt var umsókn skuldara hjá Íbúðalánasjóði í framhaldinu svo synjað með vísan til þess að ófullnægjandi greiðslugetu að úrræðum loknum, en synjun sjóðsins er meðal gagna málsins. Skuldari kveður Kærunefnd húsnæðismála samkvæmt IX. kafla laga nr. 44/1998, hafa komist að sömu niðurstöðu og Íbúðalánasjóður. Hins vegar liggur fyrir dóminum að leggja mat á hvort hafna beri beiðni skuldara með vísan til 3. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009.

Með lögum nr. 102/2010 var ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009 breytt á þann veg að fastar mánaðargreiðslur mega í undantekningar­tilvikum vera 60% af hæfilegri húsaleigu á almennum markaði fyrir viðkomandi eign. Í niðurlagi 1. mgr. 5. gr. laganna segir: „Fastar mánaðargreiðslur mega þó ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri húsaleigu. Fastar mánaðargreiðslur skulu bundnar launavísitölu frá þeim tíma sem beiðni um greiðsluaðlögun var tekin til greina.“ Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 102/2010 segir meðal annars um framangreint ákvæði: „Við útreikning þeirrar leigu er heimilt að taka tillit til gjalda sem leigjandi mundi að jafnaði ekki greiða, svo sem fasteignagjalda, hússjóðs, trygginga, hita og rafmagns. Breytingin felst í því að sett er inn heimild til að víkja frá meginreglunni um hæfilega húsaleigu séu sérstakar tímabundnar aðstæður fyrir hendi hjá skuldara. Þá undanþáguheimild ber þó að skýra þröngt. Miða verður við að ekki sé verið að auðvelda skuldara að halda húsnæði sem hann hefur ekki efni á að halda. Væri því hér um að ræða óvenju mikla erfiðleika sem sýnt er fram á að verði tímabundnir, svo sem vegna atvinnuleysis sem varað hefur í lengri tíma en ætla má að ekki sé varanlegt, eða tímabundinna veikinda sé ljóst að skuldari muni til frambúðar standa undir greiðslum. Sú takmörkun er gerð að ekki megi þó ákvarða greiðsluna lægri en sem samsvarar 60% af hæfilegri húsaleigu og einungis tímabundið. Með því er mögulegt að mæta sérstökum aðstæðum skuldara án þess þó að leiða megi að því líkur að skuldari haldi eign sem hann muni ekki til frambúðar standa undir. Það getur verið hagur jafnt skuldara sem lánardrottins að áfram sé greitt af áhvílandi veðlánum þótt það sé undir markaðsleigu frekar en að lánardrottnar þurfi að leysa til sín óþarflega margar eignir.“

Af hinum tilvitnaða texta liggur fyrir að skýra ber undantekningarheimildina í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2009 þröngri skýringu. En þó svo að tekið yrði tillit til þessarar heimildar og að skuldari sýndi fram á að undanþágan ætti við um aðstæður hennar, verður ekki séð af gögnum málsins og beiðni eða greinargerð skuldara, að hún geti staðið undir 60% af hæfilegri húsaleigu á almennum markaði fyrir eign sína, þrátt fyrir það. Þá verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins að skuldari myndi eftir að greiðslu­aðlögunartímabili fasteignaveðkrafna lyki, geta staðið undir greiðslum fasteignaveðkrafna sinna. Gögn málsins benda þvert á móti til þess að líkur séu á að skuldari muni eftir sem áður hafa neikvæða greiðslugetu.

Með vísan til þessa, sbr. 3. tl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 50/2009, ber að hafna kröfu skuldara.

Hákon Þorsteinsson aðstoðarmaður dómara kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Beiðni A, kt.[...], um heimild til að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, er hafnað.