Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2012
Lykilorð
- Skilasvik
- Ákæra
- Málshraði
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2012. |
|
Nr. 93/2012.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Gunnari Viðari Bjarnasyni og Stefáni Braga Bjarnasyni (Erlendur Gíslason hrl.) |
Skilasvik. Ákæra. Málshraði.
G, framkvæmdastjóri A hf., og S stjórnarformaður þess, voru ákærðir fyrir skilasvik, framin í rekstri félagsins skömmu áður en það var úrskurðað gjaldþrota, með því að hafa selt C ehf., sem G var stjórnarformaður fyrir og eigandi að, hluta af vörubirgðum A hf. fyrir óhæfilega lágt verð en þær voru veðsettar F banka hf. Með þessu voru G og S taldir hafa skert rétt bankans og annarra lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum þrotabúsins og dregið taum C hf. lánardrottnum til tjóns. Hæstiréttur taldi að G og S hafi ekki getað dulist að með sölunni skapaðist veruleg hætta á því að F banki hf. yrði fyrir fjártjóni. Voru þeir taldir hafa brotið gegn veðréttindum bankans í auðgunarskyni ekki síst í ljósi þess að þeim hafði skömmu áður verið birt greiðsluáskorun frá honum. Voru G og S sakfelldir fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvörðun refsingar var á hinn bóginn frestað skilorðsbundið í tvö ár vegna þess óhæfilega dráttar sem orðið hafði á meðferð málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærðu, en að refsing þeirra verði þyngd.
Ákærðu krefjast sýknu.
I
Í máli þessu eru ákærðu gefin að sök skilasvik, framin í rekstri hlutafélagsins A, þar sem ákærði Gunnar Viðar Bjarnason var framkvæmdastjóri og ákærði Stefán Bragi stjórnarformaður, skömmu áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota 7. september 2004, með því að hafa á tímabilinu 26. til 31. ágúst 2004 selt einkahlutafélaginu C, sem ákærði Gunnar Viðar var stjórnarformaður fyrir og eigandi að, hluta af vörubirgðum A hf., sem veðsettar voru F banka hf. samkvæmt tryggingabréfi 31. desember 1998 fyrir óhæfilega lágt verð, eins og nánar greinir í ákæru. Með sölunni hafi ákærðu skert rétt bankans og annarra lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum þrotabúsins og dregið taum fyrrnefnds félags ákærða Gunnars Viðars, lánardrottnum til tjóns. Í ákærunni er þessi háttsemi ákærðu talin varða við 2. og 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Eins og að framan greinir krefst ákæruvaldið þess að dómurinn verði staðfestur í samræmi við þær málalyktir.
Ákærði Gunnar Viðar var framkvæmdastjóri A hf. og ákærði Stefán Bragi var stjórnarformaður félagsins á þeim tíma sem ákæran tekur til. Samkvæmt tryggingabréfi 31. desember 1998, að höfuðstól 404.000.000 krónur, veðsetti hlutafélagið F hf., sem síðar varð F banki hf., með 1. veðrétti allar vörubirgðir, hverju nafni sem nefndust, er félagið átti þá eða myndi eignast síðar í atvinnurekstri sínum eða hefði til endursölu, sbr. 33. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins eins og þær væru á hverjum tíma. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi átti félagið í miklum rekstrarerfiðleikum í ágúst 2004, en það treysti í rekstri sínum að langmestu leyti á fyrirgreiðslu F banka hf. Af þessu tilefni voru haldnir fundir með bankanum 25. og 26. ágúst 2004, sem ákærðu sátu af hálfu A hf. Í ljósi þeirrar niðurstöðu, sem þar var fengin, var ákærðu fullljóst að bankinn hygðist ekki halda áfram lánafyrirgreiðslu sinni við félagið. Með greiðsluáskorun F banka hf. 27. ágúst 2004, sem birt var sama dag, var skorað á A hf. að greiða skuld félagsins við bankann, samtals að fjárhæð 142.035.350 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum, innheimtukostnaði og virðisaukaskatti, eða semja um hana innan 15 daga frá móttöku hennar, en að þeim tíma liðnum yrði krafist aðfarar „fyrir skuldinni“. Samkvæmt reikningi A hf. fyrir hinum seldu vörubirgðum nam kaupverð þeirra 25.048.202 krónum án virðisaukaskatts, en samkvæmt gögnum málsins var þar miðað við bókfært kostnaðarverð þeirra. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 7. september 2004 og skiptastjóri skipaður til að fara með skiptin. Að tilhlutan hans var aflað mats dómkvaddra manna um verðmæti vörubirgðanna. Samkvæmt matsgerð þeirra 26. október 2005 var verðmætið metið 57.231.107 krónur án virðisaukaskatts eða 32.182.905 krónum hærra en umrætt söluverð. Er gerð grein fyrir forsendum matsins í héraðsdómi.
II
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í ákæru greina meðal annars svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er, sem ákært er út af, og heimfærslu þess til laga. Þá segir í 1. mgr. 180. gr. sömu laga að ekki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir. Í máli þessu eru ákærðu gefin að sök skilasvik, framin í rekstri hlutafélagsins A, skömmu áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota 7. september 2004 með því að hafa selt hluta af vörubirgðum félagsins, sem veðsettar voru F banka hf. samkvæmt tryggingabréfi 31. desember 1998, fyrir óhæfilega lágt verð eins og nánar greinir í ákæru. Með þessu hafi ákærðu skert rétt bankans og annarra til að öðlast fullnægju af eignum þrotabúsins.
Í 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að refsa skuli hverjum þeim sem selur, veðsetur, tekur undir sig eða ráðstafar á annan hátt fjármunum sínum, sem annar maður hefur eignast þau réttindi yfir, að verknaðurinn verði ekki samrýmdur réttindum hans. Í ákærunni er lýst að vörubirgðir þær, sem seldar hafi verið fyrir óhæfilega lágt verð, hafi verið veðsettar F banka hf. samkvæmt umræddu tryggingabréfi. Þá er ákærðu gefið að sök að hafa skert rétt bankans til að öðlast fullnægju af eignum þrotabús A hf. Verður að telja að í þessari verknaðarlýsingu felist að sala vörubirgðanna hafi ekki verið samrýmanleg veðréttindum bankans. Eru því uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, enda verður talið að vörn ákærðu hafi ekki verið áfátt að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. sömu laga.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að A hf. hafi selt C ehf. vörubirgðir fyrrnefnds félags eftir að greiðsluáskorun F banka hf. hafði verið birt. Eins og áður greinir voru hinar seldu vörubirgðir veðsettar bankanum. Í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 75/1997 segir að um veðrétt í vörubirgðum gildi ákvæði 1. til 4. mgr. 27. gr., en í 2. mgr. hennar er kveðið á um að eftir að veðhafi hefur komið fram greiðsluáskorun til undirbúnings fullnustugerð til innheimtu veðkröfu hafi veðsali ekki lengur rétt til þess að framselja hið veðsetta nema fyrir liggi samþykki veðhafa. Fór því áðurnefnd sala á birgðunum í bága við hin tilvitnuðu lagaákvæði. Sú ráðstöfun var gerð í beinu framhaldi af því að ákærðu varð ljóst að F banki hf. myndi hætta þeirri fyrirgreiðslu, sem veitt hafði verið félaginu árum saman af hálfu bankans, en þar með lá fyrir að fótunum yrði kippt undan áframhaldandi rekstri þess.
Af matsgerð dómkvaddra manna 26. október 2005, sem líta ber til við úrlausn málsins, verður ráðið að verðmæti vörubirgðanna hafi verið slíkt á þeim tíma, sem salan fór fram, að ákærðu hafi ekki getað dulist að með henni skapaðist veruleg hætta á að F banki hf. yrði fyrir fjártjóni. Eru ákærðu því sannir að sök samkvæmt ákæru að hafa með sölunni brotið gegn veðréttindum bankans í auðgunarskyni, ekki síst í ljósi þess að þeim hafði skömmu áður verið birt fyrrgreind greiðsluáskorun bankans. Varðar þessi háttsemi ákærðu við 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 243. gr. sömu laga.
IV
Mál þetta var kært 18. janúar 2005 til ríkislögreglustjóra með bréfi skiptastjóra þrotabús A hf. Með bréfi ríkislögreglustjóra 24. apríl 2006 var óskað eftir frekari upplýsingum frá skiptastjóra og svaraði hinn síðarnefndi því erindi með bréfi 19. maí sama ár. Skýrslutökur af ákærðu fóru fram hjá lögreglu 23. og 29. maí 2007 og af tveimur vitnum 13. og 21. júní sama ár. Málið var síðan fellt niður 2. september 2008 af hálfu ríkislögreglustjóra. Þá ákvörðun kærði skiptastjóri 16. sama mánaðar til ríkissaksóknara og var málið tekið upp að nýju með ákvörðun hans 20. október sama ár. Ákæra var gefin út 3. desember 2010 og héraðsdómur kveðinn upp 9. janúar 2012. Málsgögn bárust Hæstarétti fyrst 10. september 2012.
Frá því málið var kært og þar til skýrslur voru teknar af ákærðu liðu tæplega tvö og hálft ár. Af gögnum málsins verður eigi ráðið að frá því skýrslutökum af vitnum lauk hjá lögreglu 21. júní 2007 og þar til ákæra var gefin út 3. desember 2010, tæplega þremur og hálfu ári síðar, hafi neinar skýrslutökur farið fram eða gagna verið aflað. Liðu þannig tæplega fimm ár frá því kæra var lögð fram uns ákæra var gefin út. Þá liðu átta mánuðir frá því héraðsdómur var kveðinn upp og þar til málsgögn voru send Hæstarétti. Engin haldbær skýring hefur verið gefin af ákæruvaldsins hálfu á þessum óhæfilega drætti á rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi. Brýtur þessi rekstur málsins í bága við 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður samsvarandi ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þykir í því ljósi rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærðu, sem samkvæmt sakavottorðum hafa ekki áður verið sakfelldir fyrir refsiverða háttsemi, með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 218. gr., sbr. 4. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, verða ákærðu dæmdir til að greiða helming sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í héraði, en samkvæmt yfirliti ákæruvalds nam hann 4.462.240 krónum. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 220. gr. sömu laga, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákvörðun refsingar ákærðu, Gunnars Viðars Bjarnasonar og Stefáns Braga Bjarnasonar, er frestað og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu greiði 2.231.120 krónur í sakarkostnað í héraði.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Erlendar Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 753.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember sl., er höfðað af ríkislögreglustjóra með ákæru 3. desember 2010 á hendur Gunnari Viðari Bjarnasyni, kt. [...], [...], [...] og Stefáni Braga Bjarnasyni, kt. [...], [...], [...], fyrir skilasvik framin í rekstri hlutafélagsins A (síðar B hf.). kennitala [...], skömmu áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota 7. september 2004, sem ákærði Gunnar Viðar var framkvæmdastjóri fyrir og ákærði Stefán Bragi var stjórnarformaður fyrir, með því að hafa á tímabilinu 26. 31. ágúst 2004 selt einkahlutafélaginu C (síðar D ehf. og F ehf.), kennitala [...], sem ákærði Gunnar Viðar var stjórnarformaður fyrir og eigandi, hluta af vörubirgðum A hf., sem veðsettar voru F hf. samkvæmt tryggingarbréfi dagsettu 31. desember 1998, fyrir óhæfilega lágt verð, en samkvæmt reikningi nr. S4-014456 voru vörubirgðirnar seldar fyrir 31.186.999 krónur með virðisaukaskatti, þar af voru 30.440.000 krónur greiddar með ávísun en afgangur með skuldajöfnuði á milli félaganna. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna var verðmæti þeirra vörubirgða sem seldar voru samtals 71.252.728 krónur með virðisaukaskatti. Með sölunni skertu ákærðu rétt bankans og annarra lánadrottna til að öðlast fullnægju í eignum þrotabúsins og drógu taum ofangreinds félags ákærða Gunnars Viðars lánadrottnum til tjóns.
Er þetta talið varða við 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærðu neita sök. Af hálfu verjanda ákærðu er þess krafist að ákærðu verði sýknaðir af kröfum ákæruvalds og að verjanda verði tildæmd málsvarnarlaun úr ríkissjóði.
Með bréfi 18. janúar 2005 lagði skiptastjóri þrotabús A hf., síðar B hf., fram kæru til lögreglu á hendur fyrirsvarsmönnum hins gjaldþrota félags vegna gruns um refsivert athæfi. Kæran var byggð á heimild í 84. gr. laga um gjaldþotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Í kærunni er um atvik málsins vísað til skýrslu skiptastjóra um rekstur og hag þrotabús B hf. Fram kemur að B hf. hafi verið tekið til skipta með úrskurði héraðsdóms 7. september 2004 og skiptastjóri skipaður. Næsta dag hafi skiptastjóri fengið endurrit úrskurðar um gjaldþrotaskipti í hendur ásamt fylgigögnum. Sama dag hafi skiptastjóri tekið skýrslu af formanni stjórnar B hf., ákærða Stefáni Braga Bjarnasyni. Fimmtudaginn 9. september 2004 hafi skiptastjóri skoðað húsnæði hins gjaldþrota félags að [...] og [...] í Reykjavík, ásamt ákærða Stefáni Braga og meðákærða Gunnari Viðari framkvæmdastjóra félagsins. Einnig hafi verið með í för G héraðsdómslögmaður hjá F hf., og H frá I ráðgjöf. Við þetta tækifæri hafi ákærði Stefán upplýst að D ehf., sem áður hafi borið heitið C ehf., hafi keypt vörubirgðir af B hf. þann 26. ágúst 2004 fyrir 30.000.000 króna sem greiddar hafi verið félaginu að stærstum hluta með ávísun. Sú fjárhæð hafi verið lögð inn á reikning B hf. í F hf. 30. ágúst 2004. Á fundinum hafi komið fram frá fulltrúa F að bankinn hafi ekki veitt heimild til þeirrar ráðstöfunar. Ákærði Stefán Bragi hafi greint frá því að vörubirgðir hins nýja félags, D ehf., væru einungis sundurgreindar bókhaldslega frá vörubirgðum þrotabúsins. Hafi ákærði afhent lista yfir vörunúmer og verð sem greitt hafi verið fyrir hinn selda lager. Á listanum hafi komið fram að sumar vörur hafi verið seldar með neikvæðu söluverði og andvirði þeirra þannig í raun dregist frá kaupverðinu. Þá hafi vörurnar verið seldar á bókfærðu kostnaðarverði. Ákærði Stefán hafi gefið þá skýringu að um væri að ræða ónákvæmni í birgðahaldi. Aðrar vörur væru þá í plús í staðinn. Þá hafi ákærði Stefán gert grein fyrir því að D ehf. myndi opna verslun með nafni félagsins næsta dag, eða 10. september 2004. Hafi ákærðu framvísað reikningum sem B hf. höfðu gert, þ. á m. reikningi dagsettum 26. ágúst 2004 frá B hf. til C ehf., nr. S4-014456 að fjárhæð 25.049.799 krónur, auk virðisaukaskatts, samtals 31.186.999 krónur.
Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að föstudaginn 10. september 2004 hafi skiptastjóri farið til fundar við ákærðu. Hafi skiptastjóri afhent ákærðu yfirlýsingu um riftun, þ. á m. á sölu vörulagersins. Sama dag hafi skiptastjóri farið að [...] þar sem rafræn bókhaldsgögn félagsins hafi verið afrituð og afritunarspólur teknar í vörslur skiptastjóra. Pappírsbókhald hafi verið flutt af staðnum og í vörslur skiptastjóra. Tölva í eigu ákærða Gunnars hafi ekki verið á staðnum. Ekki hafi tekist að afrita gögn úr tölvu ákærða Stefáns. Skiptastjóri hafi lagt inn kyrrsetningarbeiðni hjá sýslumanni vegna þeirra vörubirgða sem D ehf. hafði keypt af B hf. Sunnudaginn 12. september 2004 hafi skiptastjóra borist ábending þess efnis að starfsmenn D ehf. væru að flytja vörur í eigu þrotabúsins að [...] og [...]. Er skiptastjóri hafi komið á staðinn hafi starfsmenn verið að flytja skrifstofur sínar úr [...] yfir í verslun að [...]. Eftir ábendingu skiptastjóra hafi ákærði Stefán samþykkt að þeirri vinnu skyldi hætt þar til eftirlitsmaður hefði verið fenginn af hálfu búsins og/eða F hf. sem veðhafa. Mánudaginn 13. september 2004 hafi kyrrsetningarbeiðnin verið tekin fyrir hjá sýslumanni. Næsta dag hafi sýslumaður tekið ákvörðun um að kyrrsetja vörubirgðirnar. Sama dag hafi vaktmaður að [...] tilkynnt um flutning á verkfærum úr verkstæði B hf. yfir í húsnæði J ehf. Hafi lögregla þá verið kölluð til. Fimmtudaginn 16. september 2004 hafi skiptastjóri tekið aðra skýrslu af ákærða Stefáni Viðari. Sama dag hafi skiptastjóri fundað með löggiltum endurskoðendum hjá K sem fengnir hafi verið til að rannsaka bókhald B hf. Þriðjudaginn 21. september 2004 hafi stefna í kyrrsetningarmálinu verið lögð inn til Héraðsdóms Reykjavíkur til útgáfu.
Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að F hf. hafi notið veðréttar yfir vörubirgðum hins gjaldþrota félags og útistandandi viðskiptakröfum. Til að freista þess að viðhalda viðskiptavild B hf. og rekstrarhagsmunum tengdum félaginu hafi þrotabúið framselt rekstur hins gjaldþrota félags til nýstofnaðs félags í eigu F hf., Rekstrarfélagsins L ehf. Samkomulag þar að lútandi hafi verið undirritað 9. september 2004 milli þrotabúsins, F hf. og rekstrarfélagsins. Með því hafi veðsettar vörubirgðir og viðskiptakröfur þrotabúsins verið afhentar rekstrarfélaginu til umsýslu, en andvirðið skyldi koma til lækkunar veðkröfum F hf. Rekstur rekstrarfélagsins hafi gengið ágætlega og hafi félagið náð samningum við nokkra erlenda birgja. Framkvæmdastjóri félagsins hafi verið ráðgjafi frá I. Ekki hafi tekist að vinna tæmandi yfirlit yfir stöðu vörubirgða eða innheimtu viðskiptakrafna. Þrotabúið hafi krafist kyrrsetningar á vörubirgðum sem B hf. hafi selt C ehf. með reikningi dagsettum 26. ágúst 2004. Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að ákærðu sem fyrirsvarsmenn viðkomandi félaga hafi báðir borið fyrir skiptastjóra að umræddur reikningur hafi í raun verið gerður 3 til 4 dögum síðar en hann beri með sér eða 29. eða 30. ágúst 2004. F hf. hafi sent B hf. greiðsluáskorun 27. ágúst 2004. Kyrrsetningarmálið hafi ekki verið þingfest þar sem F hf. hafi endurgreitt þrotabúinu 30.440.000 krónur, sem hafi svarað til þeirrar greiðslu er B hf. hafi greitt bankanum. Með bréfi 13. september 2004 hafi skiptastjóri óskað eftir því að K tæki sér rannsókn á bókhaldi hins gjaldþrota félags, einkum með tilliti til þess hvort hugsanleg undanskot eigna félagsins hefði átt sér stað, riftanlegir gerningar, bókhaldsbrot eða önnur sambærileg háttsemi.
Að beiðni skiptastjóra hafi farið fram athugun á rafrænu bókhaldi hins gjaldþrota félags hjá hugbúnaðarfyrirtækinu M ehf. Samkvæmt skýrslu þess félags frá 4. október 2004 hafi allt bent til þess að reikningur vegna sölu vörulagersins hafi verið gerður síðar en prentuð dagsetning hans beri með sér. Í skýrslu sé talið að reikningurinn hafi líklega verið gerður á tímabilinu 28. til 31. ágúst 2004. Í framhaldi þessa hafi skiptastjóri boðað ákærðu sem fyrirsvarsmenn viðkomandi félaga til skýrslugjafar þar sem þeir hafi sérstaklega verið inntir eftir svörum við því hvenær reikningurinn hafi verið gerður. Í skýrslu fyrir skiptastjóra 6. október 2004 hafi ákærði Gunnar Viðar viðurkennt að reikningurinn hafi verið gerður síðar en 26. ágúst 2004 eða 3 til 4 dögum síðar eða 29. eða 30. ágúst 2004 eftir birtingu greiðsluáskorunar F hf. Í skýrslu sinni fyrir skiptastjóra 9. desember 2004 hafi ákærði Stefán Bragi staðfest það sem fram hafi komið í skýrslu meðákærða fyrir skiptastjóra að þessu leyti, þ.e. að reikningurinn hafi í raun verið gerður 29. eða 30. ágúst 2004. Samkvæmt þessu hafi hinar veðsettu vörubirgðir verið seldar frá B hf. til C ehf. eftir móttöku greiðsluáskorunar 27. ágúst 2004. Með þeirri háttsemi hafi verið brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, sbr. 2. mgr. 34. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessu telji skiptastjóri sig hafa rökstuddan grun um að ákærðu og eftir atvikum aðrir fyrirsvarsmenn B hf. og C ehf. hafi gerst sekir um brot gegn 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940, enda salan á hinum veðsettu vörubirgðum ekki samrýmst réttindum F hf. yfir vörubirgðunum. Þar sem D ehf. muni hafa selt hluta vörubirgðanna í smásölu eftir kaupin kunni sú háttsemi að varða við 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Ennfremur sé til skoðunar hvort vörubirgðirnar hafi verið seldar frá B hf. til C ehf. undir eðlilegu markaðsverði. Verði niðurstaðan sú kunni salan á vörubirgðunum að fela í sér sjálfstætt brot gegn 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Reikningur nr. S4-014456 sé ranglega dagsettur 26. ágúst 2004 þar eð hann hafi í raun verið gerður 29. eða 30. ágúst 2004. Kunni það að fela í sér sjálfstætt brot gegn 249. gr. a laga nr. 19/1940. Þá kunni að koma til skoðunar hvort sú háttsemi feli í sér brot gegn ákvæðum 155. gr. laga nr. 19/1940. Loks kunni að koma til skoðunar hvort ákærði Stefán Bragi hafi gerst sekur um rangan framburð fyrir skiptastjóra í tengslum við dagsetningu og tilurð reiknings nr. S4-014456.
Samkvæmt yfirliti úr fyrirtækjaskrá var nafni A hf. breytt 30. ágúst 2004 í B hf. Þann 29. ágúst 2004 var nafni C ehf. breytt í D ehf. Samkvæmt yfirliti úr Hlutafélagaskrá var ákærði Stefán Bragi stjórnarformaður B hf. samkvæmt fundi í félaginu 1. september 2004. Ákærði Gunnar Viðar var skráður framkvæmdastjóri. Ákærðu fóru báðir með prókúruumboð fyrir félagið.
Með kæru skiptastjóra til lögreglu voru send ýmis gögn, þ. á m. tryggingarbréf vegna vörubirgða B hf. (A hf.) frá 31. desember 1998, greiðsluáskorun F hf. 27. ágúst 2004 til A hf. ásamt birtingavottorði, reikningur nr. S4-014456 ásamt birgðalista, skýrslur ákærðu fyrir skiptastjóra, skýrsla M ehf. frá 4. október 2004, skýrsla K frá 15. desember 2005 og skýrsla skiptastjóra um rekstur og hag þrotabús B hf. frá 17. desember 2004. Samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi er F hf. veðsettar að sjálfsvörsluveði allar vörubirgðir, hverju nafni sem nefnist, sem til séu eða A hf. eignist síðar í atvinnurekstri á hverjum tíma eða hafi til endursölu, allt í samræmi við 33. gr. laga nr. 75/1997. Samkvæmt ákvæði tryggingarbréfsins er veðsala heimilt að selja, skipta um eða framselja veðsettar vörubirgðir eða rekstrarvörur skerði það ekki að mun veðið eða tryggingu veðhafa, sbr. 27. gr. laga nr. 75/1997. Teljist skerðing að mun á veði og tryggingu veðhafa ef sala á hinu veðsetta eða greiðslur lána vegna þess séu ekki í samræmi við eðlilegan rekstur eða lánasamninga og reglur bankans eða ef nýjar vörubirgðir og aðrar rekstrarvörur viðhaldi eða endurnýi ekki verðmæti veðsins vegna þeirra skulda sem það eigi að tryggja á hverjum tíma.
Með greiðsluáskorun 27. ágúst 2004 skoraði F hf. á A hf. að greiða skuld samtals að fjárhæð 142.035.330 krónur. Í áskoruninni kemur fram að með tryggingarbréfi dagsettu 31. desember 1998 hafi F hf. verið sett að veði vörubirgðir að hámarki 400.000.000 krónur gegn skuldum og fjárskuldbindingum A hf. við bankann. Er vakin athygli á ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997. Reikningur nr. S4-014456 er á meðal gagna málsins. Er reikningurinn dagsettur 26. ágúst 2004. Hið selda er vörulager samkvæmt meðfylgjandi skjölum. Kaupandi er C ehf. Söluverð er 25.048.202 krónum en með virðisaukaskatti 31.186.999 krónur. Með reikningnum eru birgðalistar sem merktir eru I/1.9.1 í rannsóknargögnum málsins og eru á bls. 54 til 109. Samkvæmt lista yfir bókfært verð vörubirgða námu þær 26. ágúst 2004 samtals 25.048.202 krónum.
M hf. hefur 4. október 2004 ritað skiptastjóra A hf. bréf í tilefni af skoðun á færslum í bókhaldi A hf. vegna fimm tilgreindra reikninga, þ. á m. reiknings nr. S4-014456. Fram kemur að allt bendi til þess að færslurnar hafi verið gerðar síðar en dagsetningar þeirra segi til um eða á tímabilinu frá 28. ágúst 2004 til 31. ágúst 2004. Þegar færslukenni úr Microsoft SQL gagnagrunni tölvubókhaldskerfisins séu skoðuð ásamt númeraröðum sölureikninga raðist færslur reikninganna með færslum sem séu dagsettar frá 28. ágúst 2004 til 31. ágúst 2004. Eins og kerfið virki sé möguleiki á því að færslur virðist hafa verið gerðar seinna en þær í raun hafi verið gerðar en eðlileg virkni kerfisins leiði ekki til þess að reikningar virðist hafa verið gerðir fram í tímann eins og líti út fyrir að hafi verið. Samkvæmt því séu yfirgnæfandi líkur, ef kerfið virki eðlilega, að reikningarnir hafi verið gerðir á nefndu tímabili en ekki á þeim tíma sem þeir séu dagsettir. Ekkert hafi komið í ljós sem bendi til að kerfið hafi ekki virkað eðlilega.
K hefur 15. desember 2004 ritað skýrslu vegna rannsóknar á bókhaldi B hf. Fram kemur að verkið hafi verið framkvæmt samkvæmt beiðni skiptastjóra og fram farið ítarleg könnun á bókhaldi félagsins og þeim bókhaldsgögnum sem skiptastjóri hafi falið félaginu sérstaklega að rannsaka. Í skýrslunni kemur m.a. fram að félagið hafi selt C ehf. vörubirgðir samkvæmt reikningi nr. S1-014456 fyrir samtals 25.048.202 krónur auk virðisaukaskatts. Hafi vörulistar sem fylgt hafi reikningi verið teknir til sérstakrar skoðunar í því augnamiði að varpa ljósi á hvort um eðlilega verðlagningu hafi verið að ræða. Hafi verið framkvæmd aldursgreining á birgðum. Niðurstöður þeirrar skoðunar séu þær að stór hluti umræddra birgða séu gamlar birgðir sem séu allt frá árinu 2000 og fyrr. Samtals nemi verðmæti birgðanna 25.523.437 krónum. Mismunur á því verði og verði samkvæmt sölureikningi stafi líklega af því að ekki sé hægt eftirá að nálgast nákvæmlega tímasetningu sölunnar innan dagsins. Birgðir hafi verið verðlagðar á innkaupsverði þeirra, sem sé meðaltalskostnaðarverð. Sú aðferð sé notuð að kostnaðarverð keyptra vara sé bætt við heildarkostnaðarverð viðkomandi vörunúmers og síðan deilt í með einingafjölda vörunúmersins. Sú aðferð sé í samræmi við 27. gr. laga um ársreikninga, nr. 144/1994. Rétt sé að taka fram að allnokkuð hafi verið um neikvæðar birgðir samkvæmt vörulista er fylgt hafi reikningi nr. S4-014456. Nemi heildarfjárhæð slíkra birgða samtals 1.446.194 krónum og hafi sú fjárhæð verið dregin frá í niðurstöðufjárhæð reikningsins. Við mat á því hvort um eðlilega verðlagningu umræddra seldra birgða hafi verið að ræða hafi skýrsluhöfundar haft til hliðsjónar bæði aldurssamsetningu birgðanna svo og meðalálagningu á þær vörur sem seldar hafi verið, en á árinu 2004 hafi meðaltalsálagning þeirra vara sem seldar hafi verið numið um 63% sem einnig sé nálægt álagningarhlutfalli ársins 2003 á viðkomandi vöruflokka. Eins og áður segi hafi vörubirgðirnar verið seldar á 25.048.202 krónur. Mismunur á því verði og verðlagningu miðað við meðaltalsálagningu sé 3.827.131 króna en þar af nemi verðmæti neikvæðra birgða miðað við sömu forsendu um meðaltalsálagningu 2.357.296 krónum. Samkvæmt þeim forsendum verði vart talið að heildarverð hinna seldu birgða hafi verið of lágt. Að mati skýrsluhöfunda, svo og með hliðsjón af ákvæðum c-liðar 3. tl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 144/1994 hafi við mat birgða tæpast verið gætt þeirrar varkárni sem ætlast hefði mátt til af stjórnendum félagsins. Mismunur á verðmæti birgða og verðmæti birgða í bókum félagsins hafi verið verulegur eða 134.900.000 krónur.
Embætti ríkislögreglustjóra leitaði upplýsinga 24. apríl 2006 frá skiptastjóra um tiltekin atriði málsins, þ. á m. um með hvaða hætti sala á vörubirgðum hins gjaldþrota félags samræmdist ekki réttindum eða hagsmunum F hf. Í bréfi skiptastjóra er vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 26. október 2005 en samkvæmt henni hafi markaðsverðmæti þeirra vörubirgða sem seldar hafi verið skömmu fyrir gjaldþrot verð ríflega 40.000.000 króna hærra en það verð sem lagt hafi verið til grundvallar viðskiptum. Þegar af þeirri ástæðu hafi salan ekki samrýmst réttindum og hagsmunum bankans og hafi skert hagsmuni hans samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Háttsemin hafi einnig skert hagsmuni bankans þar sem ákærðu sem fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags hafi ráðstafað þeim fjármunum sem þeir hafi fengið greitt fyrir vörubirgðirnar inn á tékkareikning í F hf. í eigu A hf. þar sem þeir hafi verið í persónulegri ábyrgð fyrir greiðslu skuldar á reikningnum. Þannig hafi þeir ráðstafað fjármununum sjálfum sér til hagsbóta gegn hagsmunum F hf. og losað sjálfa sig undan persónulegri ábyrgð. Slík háttsemi verði heimfærð undir 2. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940.
Með bréfi skiptastjóra var afrit matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 26. október 2005. Í matsgerðinni kemur fram að á grundvelli matsbeiðni skiptastjóra þrotabús B hf. 21. febrúar 2005 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur dómkvatt N löggiltan endurskoðanda hjá O ehf. og P vélvirkjameistara og sjávarútvegsfræðing hjá Q ehf. til að verðmeta eignir úr þrotabúi A hf. Meðal annars hafi verið beðið um að matsmenn myndu skoða raunvirði og verðmeta sölu á vörubirgðum samkvæmt reikningi nr. S4-014456. Þrotabúið hafi haft til skoðunar hvort umræddar vörubirgðir hafi verið seldar undir raunvirði en þær muni hafa verið seldar á bókfærðu raunvirði. Sé óskað eftir mati á raunvirði munanna, þ.e. hvert hafi verið sanngjarnt og hæfilegt endurgjald fyrir vörubirgðirnar. Við matið sé þess óskað að hæfilegt endurgjald (söluvirði) verði miðað við verðlag þegar umræddur reikningur hafi verið dagsettur. Þá sé þess óskað að matið taki mið af eðlilegu söluverði og eðlilegri álagningu í smásölu. Í matsgerðinni kemur fram að matsmenn hafi í upphafi fengið sent afrit af reikningi nr. S4-014456 og birgðalisti sem reikningurinn hafi verið gerður eftir, samtals 55 síður. Eftir beiðni matsmanna hafi þeim í júní 2005 verið afhent afrit af sölunótum B hf. frá 2. júlí 2004 til 26. ágúst 2004. Boðað hafi verið til matsfundar 14. apríl 2005. Til matsfundar hafi mætt matsbeiðandi, tilgreindur héraðsdómslögmaður vegna matsþola og ákærði Stefán Bragi vegna R ehf. Á matsfundi hafi verið rætt um matið og hvort hlutaðeigandi væru sammála því að matið varðandi vörubirgðir byggði á birgðalista sem fylgt hafi sölureikningi nr. S4-014456. Hafi það verið samþykkt einróma. Matsmenn hafi óskað eftir því að fá aðgang að bókhaldi hins gjaldþrota félags og afrit af sölunótum fyrir árið 2004 til lokadags. Það hafi verið samþykkt.
Í matsgerð kemur fram að 21. júlí 2005 hafi matsmenn skoðað vörubirgðir í húsakynnum E ehf. Vörulisti hafi samanstaðið af 8 vöruflokkum. Þeir hafi verið [...], [...], [...], [...] ,[...], [...], [...] og [...]. Í fjórum vöruflokkum hafi enga vöru verið að finna. Í vöruflokknum [...] hafi 15 vörunúmer verið skoðuð sem samanstaðið hafi af 29 varahlutum, 8 vörunúmer í vöruflokknum [...] sem samanstaðið hafi af 32 varahlutum, 3 vörunúmer í vöruflokknum [...] sem samanstaðið hafi af 165 hlutum og 78 vörunúmer í vöruflokknum [...] sem samanstaðið hafi af 178 varahlutum. Á matsfundi 31. ágúst 2005 hafi matsbeiðandi lagt fram bréf með athugasemdum við framkvæmd mats á gömlum birgðum 21. júlí 2005. Hafi niðurstaða fundarins verið að skoða aftur allar gömlu birgðirnar að matsbeiðanda og ráðgjafa hans sjáandi. Á matsfundi 22. september 2005 hafi allar gömlu birgðirnar verið skoðaðar aftur með matsbeiðanda og ráðgjafa hans. Á þeim matsfundi hafi matsmaður beðið matsbeiðanda um að kalla eftir afriti af lagertölvugögnum A hf. frá 31. desember 2003. Við skoðun á útrunninni og verðlausri vöru hafi komið í ljós að hlutirnir hafi verið ónotaðir en eftirspurn eftir þeim farin að minnka. Allir hlutirnir hafi verið innan við 30 ára. Á flestum bílapartasölum væru notaðir hlutir seldir á hálfvirði miðað við verð sambærilegra nýrra hluta. Það væri mat matsmanna að þessi vara yrði metin á hálfvirði miðað við verð sambærilegra nýrra og skýrðist sú ákvörðun fyrst og fremst út frá skoðun á vöruflokkum. Matsmenn hafi unnið verðmat út frá birgðalista sem A hf. hafi keyrt út 26. ágúst 2004 og sölureikningi nr. S4-014456. Til að finna sanngjarnt söluvirði birgða á þeim degi hafi verið stuðst við söluverðmæti vörunnar eins og A hf. hafi selt hana á síðustu tvo mánuðina fyrir 26. ágúst 2004. Vara í birgðalista sem borið hafi neikvætt verð hafi verið reiknuð á 0 krónur og birgðir hækkaðar sem numið hafi neikvæðu verði þeirra. Til að finna söluverðmæti birgðanna hafi 2.468 sölureikningar verið skoðaðir frá 2. júlí 2004 til 26. ágúst 2004 með um 5.622 vörunúmerum. Á 129 sölureikningum hafi mátt finna 203 vörunúmer sem bæði hafi verið að finna á birgðalista og sölureikningum. Mismunur á verði birgða og sölureiknings hafi gefið til kynna að verð birgða hafi að meðaltali verið 57,05% lægra. Til að fá birgðir upp í sama verðgildi og þær hafi verið seldar á síðustu tvo mánuði fyrir 26. ágúst 2004 hafi orðið að hækka þær um 132,85%. Því verði að teljast sanngjarnt að verðleggja vörubirgðir á sama verðmæti og A hf. hafi selt þær á. Samtals hafi verðmæti vörubirgða samkvæmt mati, að teknu tilliti til lækkunar vegna útrunninnar eða verðlausrar vöru og hækkunar vegna vöru sem skráð hafi verið með neikvæðu verði í birgðalista, numið 71.252.728 krónum og hafi þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Í gögnum málsins er að finna fundargerðir vegna matsfunda tengdu ofangreindu mati. Fram kemur að á matsfundi 20. apríl 2005 er mætt vegna matsbeiðanda og marsþola. Þá er ákærði Stefán Bragi mættur vegna R ehf. Fært er til bókar að matsmenn óski eftir að fá aðgang að bókhaldi félagsins og afrit af sölunótum frá ársbyrjun 2004 til söludags. Á næsta fundi 31. ágúst 2005 eru sömu aðilar mættir. Tekið er fram að matsmenn hafi fengið afhentar sölunótur A hf. árið 2004 að hluta. Á matsfundi 19. september 2005 er mætt fyrir hönd matsbeiðanda og matsþola, Rekstarfélag L ehf., auk þess sem ákærðu eru báðir mættir, ákærði Gunnar Viðar fyrir hönd E ehf. og ákærði Stefán Bragi fyrir hönd R ehf. Næst er fundur haldinn 22. september 2005. Er þá mætt fyrir hönd matsbeiðanda og Rekstrarfélag L ehf. Tekið er fram að fulltrúar matsbeiðanda og rekstrarfélagsins hafi fyrir fundinn rætt við ákærða Stefán Braga, en ákærði hafi ekki tekið þátt í fundinum. Fram kemur að matsmaður biðji matsbeiðanda um að kalla eftir afriti af lagertölvugögnum A hf. frá 31. desember 2003. Næst er haldinn matsfundur 4. október 2004 og þá mætt fyrir hönd matsbeiðanda og matsþola. Einnig er mætt fyrir hönd F hf. Þá er ákærði Stefán Bragi mættur fyrir hönd R hf. Tekið er fram að matsþoli segist ekki hafa þau tölvugögn undir höndum er matsmaður hafi kallað eftir á síðasta matsfundi. Síðasta fundargerð er frá 25. október 2005 og er þá mætt fyrir hönd matsbeiðanda og matsþola, auk þess sem ákærði Stefán Bragi er mættur fyrir hönd R ehf. Til bókar er fært að matsmaður spyrji um afrit af tölvugögnum sem hann hafi áður beðið um en þau liggi ekki fyrir.
Með bréfi ríkislögreglustjóra 23. janúar 2007 til skiptastjóra var óskað frekari upplýsinga varðandi sakarefnið. Í svarbréfi skiptastjóra 2. mars 2007 kemur m.a. fram að þrotabúið hafi höfðað riftunarmál á hendur E ehf. þar sem krafist hafi verið mismunar á söluverði birgðanna og markaðsvirði þeirra samkvæmt niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Jafnframt hafi verið hafðar uppi skaðabótakröfur í málinu. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006 í máli nr. E-4673/2005 hafi kröfur þrotabúsins að hluta verið teknar til greina, en rift hafi verið gjafagerningi B hf. til E ehf. um vörubirgðir samkvæmt reikningi nr. S4-014456 og lista reikningnum fylgjandi. Þá hafi E ehf. og ákærði Gunnar Viðar óskipt verið dæmd til að greiða þrotabúinu 26.044.108 krónur með vöxtum. Máli þessu var áfrýjað til Hæstaréttar sem með dómi í máli nr. 212/2007 staðfesti héraðsdóm í málinu.
Við fyrirtöku 15. mars 2011 lagði verjandi ákærðu fram skýrslu frá hugbúnaðarfyrirtækinu S 17. febrúar 2011 um afdrif vörubirgða. Fram kemur að skýrslan hafi verið unnin að beiðni verjanda ákærðu, en markmið með henni hafi verið að skoða afdrif birgða er E ehf., áður C ehf., keypti af A hf. samkvæmt reikningi nr. S4-014456. Skoðaðar hafi verið færslur á vörum úr birgðum frá birgðabókum, sölum úr birgðum og eftirstöðvar birgða. Niðurstöður séu byggðar á gögnum úr gagnagrunnum E ehf. Samkvæmt niðurstöðum hafi skráð birgðavirði vara úr innkaupum verið 25.071.186 krónur. Að því er varði rýrnun hafi á þeim tíma sem liðinn sé vörur að virði 8.789.6234 krónur verið teknar af lager í gegnum birgðabækur, ýmist talningarbækur eða rekstrarbækur. Sú tala sé að langmestu leyti frá talningum á árinu 2004. Varðandi sölu og framlegð hafi samkvæmt bókun innkaupa frá A til ársloka 2010 E selt vörur úr innkaupunum að virði 23.458.384 krónur. Heildarframlegð á þessum tíma sé neikvæð um 483.383 krónur eða -2%. Ástæða þessa sé rýrnun tímabilsins sem sé 37% af söluverði tímabilsins. Í árslok 2010 séu enn skráðar vörubirgðir á lager E ehf. að verðmæti 1.129.420 krónur.
Við fyrirtöku málsins 15. mars 2011 lagði verjandi ákærðu fram kröfu um dómkvaðningu matsmanns til að staðreyna hvert hafi verið söluverð vörulagers sem seldur hafi verið frá A hf. til C ehf. samkvæmt reikningi nr. S4-014456. Ákæruvald mótmælti beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Héraðsdómur kvað upp úrskurð um ágreiningsefnið 3. maí 2011 þar sem fallist var á kröfu verjanda ákærðu um dómkvaðningu matsmanns. Ákæruvald skaut málinu til Hæstaréttar Íslands sem með dómi uppkveðnum 27. maí 2011 í máli nr. 295/2011 staðfesti hinn kærða úrskurð. Til að framkvæma hið umbeðna mat var í framhaldinu dómkvaddur á dómþingi 1. júní 2011 T kerfisfræðingur hjá U hf. Í matsbeiðni var lagt fyrir matsmann að staðreyna hvert hafi verið söluverð vörulagers, sem seldur hafi verið frá A hf. til C ehf. samkvæmt reikningi nr. S4-014456, svo og framlegð og rýrnun sundurliðað eftir árum frá 2004 þar til matið færi fram. Skyldi matsmaður styðjast við upplýsingar úr gagnagrunnum sem [...] viðskiptahugbúnaður E ehf. hafi verið tengdur á hverjum tíma frá árinu 2004. Skyldi matsmaður skoða hreyfingar í viðeigandi reikningsskilum innan þessara gagnagrunna. Matsmaður skyldi beita OLAP tækni eða annarri sambærilegri tækni til að staðreyna umbeðnar upplýsingar. Þá skyldi matsmaður gefa álit sitt á hvort skýrsla S frá 17. febrúar 2011 um afdrif vörulagers gæfi rétta mynd af söluandvirði vörulagersins í ljósi niðurstaðna að framan. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns frá 28. júní 2011 kemur fram að matsfundur hafi verið haldinn 10. júní 2011 þar sem mætt hafi verið fyrir hönd matsbeiðanda og matsþola. Niðurstaða í matsgerð hins dómkvadda matsmann er að söluverð sundurliðað fyrir árin 2004 til 16. júní 2011 hafi alls numið 23.537.875 krónum. Framlegð af sölu sundurliðað eftir sama tímabili nemi alls 8.371.331 krónu og framlegð eftir rýrnun -398.300 krónum. Rýrnun vörulagers fyrir tímabilið nemi -8.769.631 krónu. Að áliti matsmanns þótti skýrsla S frá 17. febrúar 2011 gefa rétta mynd af söluandvirði vörulagersins byggt á gögnum í bókhaldskerfum E ehf. og í ljósi niðurstaðna að framan.
Ákærðu gáfu báðir skýrslu fyrir skiptastjóra þrotabús B hf. Ákærði Stefán Bragi 8. og 16 september 2004 og 9. desember 2004 og ákærði Gunnar Viðar 6. október 2004. Ákærði Stefán Bragi gaf skýrslu hjá lögreglu 29. maí 2007 og ákærði Gunnar Viðar 23. maí 2007. Ákærðu gáfu báðir skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi.
Fyrir skiptastjóra greindi ákærði Stefán Bragi frá því að ákærðu hafi verið í fyrirsvari fyrir eigendahóp systkina og föður er hann hafi komið að kaupum á A hf. á árinu 1995. Fyrirtækið hafi þá verið nánast gjaldþrota og F hf. aðalviðskiptabanki félagsins. Eigendur hafi unnið félagið upp og árið 2000 verið metár í rekstrarsögu félagsins. Á árinu 2001 hafi félagið hins vegar tapað miklum fjármunum vegna gengisbreytinga og hruns á markaði. Eigið fé hafi þá verið uppurið. Bankinn hafi þá aðstoðað móðurfélag félagsins, V ehf., við að kaupa [...] og [...] til að minnka efnahagsreikning B hf. Á árinu 2002 hafi reksturinn batnað en ekki komist yfir núllið. Á árinu 2003 hafi reksturinn batnað enn frekar og skilað hagnaði að teknu tilliti til sölu fasteigna. Vorið 2004 hafi orðið viðsnúningur í bankanum með tilkomu nýrra einstaklinga er hafi annast samskipti við félagið. Þá hafi farið að bera á mjög neikvæðum tón í garð félagsins. Miklar viðræður hafi átt sér stað við bankann og bankinn m.a. gert kröfu um yfirráð yfir félaginu. Af þessum sökum hafi að endingu sú staða verið komin upp að B hf. hafi verið komið í þrot. Eigendur hafi þá ákveðið að stofna D ehf. Hafi allir fyrrum starfsmenn B hf. ráðið sig yfir til hins nýja félags. Föstudaginn 3. september 2004 hafi F hf. verið tilkynnt um hið nýja félag og reksturinn. D ehf. hafi keypt vörubirgðir af B hf. 26. ágúst 2004 fyrir um 30.000.000 króna. Sú fjárhæð hafi verið lögð inn á reikning félagsins hjá F hf. Við skýrslutöku 9. desember 2004 var ákærði sérstaklega spurður um reikning nr. S4-014456 með hliðsjón af framburði meðákærða hjá skiptastjóra. Kvaðst ákærði staðfesta að reikningurinn hafi verið gerður eftir 26. ágúst 2004, 3 til 4 dögum síðar, þ.e. 29. eða 30. ágúst 2004. Viðskiptin hafi hins vegar verið ákveðin 26. ágúst 2004. Margra klukkustunda verk sé að ljúka við reikning sem þennan.
Ákærði Stefán Bragi skýrði frá því við lögreglurannsókn málsins að einkahlutafélagið C, sem síðar hafi gengið í gegnum nafnabreytingu og fengið nafnið E ehf., hafi verið stofnað á árinu 2003, en ákærðu og systkinum þeirra hafi af endurskoðanda verið ráðlagt að stofna félagið. Banki er hafi annast lánafyrirgreiðslu til A hf. hafi ekki viljað starfa með þeim lengur. Hafi verið ákveðið að færa reksturinn í annað fyrirtæki. Fyrir hafi legið tryggingarbréf til handa F hf. frá 31. desember 1998 sem náð hafi til útistandandi krafna og vörubirgða. Hafi ákærði gert sér grein fyrir að honum væri óheimilt að ráðstafa vörubirgðunum án samráðs við bankann. A hf. hafi verið í rekstrarvandræðum. F hf. hafi ekki sýnt nauðsynlega lánafyrirgreiðslu. Hafi bankinn sennilega verið búinn að lofa að selja einhverjum öðrum fyrirtækið og því lokað á alla fyrirgreiðslu til eigenda. Þurft hafi fé í reksturinn og því hafi verið ákveðið að selja vörulagerinn til C ehf., síðar E ehf. Fyrirtækið hafi verið sölufyrirtæki og því verið nauðsynlegt að geta selt vörur. Samkomulag hafi verið við F hf. um að fá að halda sölu á vörum áfram. Ákærðu hafi boðist til að skila vörulagernum aftur strax á mánudeginum eftir söluna en F hf. hafi ekki samþykkt það. Söluandvirðið hafi verið lagt inn á reikning hins gjaldþrota félags í F hf. Vörulagerinn hafi verið seldur á bókfærðu kostnaðarverði. Á þann hátt hafi lagerinn verið skráður í bókhaldskerfi félagsins. Lagerinn hafi verið ótalinn og vitað hafi verið um að eitthvað vantaði í hann. Af þeim ástæðum hafi verið eðlilegt að kaupa hann á kostnaðarverði. Margt í lagernum hafi verið gamalt, allt upp í 10 til 15 ára. Viðskipti með þeim hætti hafi oft áður verið gerð. Ákærðu hafi í sameiningu ákveðið þessi viðskipti. Eitthvað hafi verið búið að selja af vörubirgðum í smásölu áður en skiptastjóri þrotabúsins hafi farið fram á að sölunni yrði rift. Það hafi verið gert með samþykki lögmanns F hf., en ákærðu hafi verið í samskiptum við bankann um allar sölur. Bankinn hafi ekki sett neinar skorður við sölu. Að því er varði verðmat dómkvaddra matsmanna á vörulagernum kvaðst ákærði telja það mat of hátt. Mat hafi byggst á of fáum gögnum, en skiptastjóri hafi skammtað matsmönnum gögn þrátt fyrir að matsmenn hafi óskað eftir frekari gögnum. Forsendur mats séu því rangar og ekki tekið tillit til aldurs vörubirgða og vöruvöntunar.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi greindi ákærði frá því að ákærðu hafi tekið A hf. yfir á árinu 1995. Félagið hafi þá verið mjög skuldsett. Á árinu 2004 hafi félagið skilað miklum hagnaði. Við umskiptin þegar F banki hafi tekið yfir F hafi orðið viðsnúningur í bankanum. Aðrir einstaklingar hafi farið að annast samskipti við félög ákærðu. Þeir einstaklingar hafi hins vegar ekkert þekkt til félaganna og forsögu þeirra. Eigið fé félagsins hafi verið neikvætt og hafi bankinn átt um 75% af öllum skuldum félagsins. Það hafi komið ákærðu mjög á óvart hvernig bankinn hafi brugðist við með því að setja kröfur á hendur félaginu í innheimtu. Einu vanskilin hafi verið við bankann. Sífelldar viðræður hafi verið í gangi á milli félagsins og bankans. Þar hafi m.a. verið rætt um að breyta einhverju af skuldum félagsins við bankann í hlutafé B hf. hafi verið að leita að fjármunum í rekstur, en F hf. hafi verið búinn að loka á frekar fyrirgreiðslu. Ýmsar eignir félagsins hafi verið metnar, þ. á m. vörulager félagsins. Ákærðu hafi tekið ákvarðanir um reksturinn sameiginlega. Á fundi í bankanum 26. ágúst 2004 hafi staðan verið rædd og ákærðu lagt fram tillögur að því hvernig taka ætti á skuldavanda félagsins. Sá fundur hefði endað með því að fulltrúar bankans hefðu tilkynnt ákærðu að allar skuldir félagsins yrðu settar í lögfræðilega innheimtu. Eftir fundinn hafi ákærðu verið ljóst í hvað stefndi. Í framhaldi þessa hafi vörulager félagsins verið seldur C ehf. Þeim fjármunum sem fengist hafi út úr sölunni hafi verið ráðstafað til F hf. Söluverð hafi ráðist af mati á vörulagernum miðað við heildarmagn hans í sölu í einu lagi. Þá hafi hann verið staðgreiddur. Af þessum ástæðum hafi lagerinn verið seldur á bókfærðu kostnaðarverði hans. Ákærði kvaðst hafa átt þátt í kaupum á tveim öðrum vörulagerum áður og sama aðferð verið viðhöfð við þau kaup, nema hvað í þeim tilvikum hafi einungis verið greitt um 20 til 30% af bókfærðu kostnaðarverði. Mat hinna dómkvöddu matsmanna á verðmæti vörulagersins hafi verið of hátt. Matsmenn hafi ekki fengið öll þau gögn í hendur er þeir hafi kallað eftir til að unnt væri að meta lagerinn. Þannig hafi þeir ekki fengið aðgang að bókhaldi hjá skiptastjóra þrotabúsins. Þeir hafi einungis haft í höndum sölureikninga vegna ákveðinnar vöru. Hafi þeir þurft að fletta upp um 120 sölureikningum. Hluti af þeirri vöru er hafi komið upp hafi verið með margfalt hærri álagningu heldur en önnur vara í birgðunum.
Við greiðslu kaupverðsins inn á reikning í F hf. hafi ákærðu einnig vonast til þess að bankinn myndi breyta afstöðu sinni gagnvart fyrirgreiðslu til félagsins. Á fundi í bankanum 26. ágúst 2004 hafi verið lagður fram listi yfir eignir félagsins. Á þeim lista hafi nefndur vörulager ekki verið og á þeirri stundu ljóst að hann hafi verið seldur. Daginn eftir þennan fund hafi fulltrúi bankans komið á starfsstöð félagsins og honum beinlínis bent á sölu vörulagersins. Um það hafi verið deilt frá upphafi hvort bankinn hafi vitað af sölunni, en fulltrúar bankans hafi ekki talið svo vera. Allt hafi gerst mjög hratt á þessum tíma. Eftir að ákærðu hafi borist greiðsluáskorun af hálfu bankans hafi ekki komið til álita að hætta við sölu lagersins. Greiðsla fyrir hann hafi hvort eð er borist inn á reikning í bankanum. Ákærði kvaðst telja að reikningur nr. S4-014456 hafi verið útbúinn af söludeild félagsins. Vera kunni þó að ákærði hafi útbúið reikninginn. Sala á vörulagernum hafi átt sér stað 26. ágúst 2004. Frágangur reikningsins kunni þó að hafa verið gerður 26. eða 27. ágúst 2004. Hafi það verið áður en bankinn hafi sent greiðsluáskorunina frá sér. Nefndur vörulager hafi verið innan við 20% af heildarlager B hf. Eftir sölu á lagernum hafi ákærði komið að rekstri C ehf., en nafni félagsins hafi síðar verið breytt í D ehf. og enn síðar E ehf. Sumar vörur úr lagernum hafi farið í venjulega sölu. Annað hafi farið í þjónustulager þar sem skipt hafi verið út hlutum í mjaltaþjónum.
Ákærði Gunnar Viðar greindi frá því hjá skiptastjóra að 26. ágúst 2004 hafi verið tekin ákvörðun um að D ehf. hæfi rekstur á því sviði sem B hf. hefði starfað á. Þá hafi félagið keypt vörulager af félaginu. Reikningur vegna viðskiptanna hafi verið gerður 3 til 4 dögum síðar, þ.e. 29. eða 30. ágúst 2004. Margra klukkustunda verk sé að ljúka gerð slíks reiknings. Viðskiptin hafi verið ákveðin 26. ágúst.
Fyrir lögreglu greindi ákærði Gunnar Viðar frá því að hann hafi fengið greiðsluáskorun frá F hf. í hendi á fundi í bankanum eftir hádegi 27. ágúst 2004. Mikil samskipti hafi átt sér stað á milli félagsins og F hf. um þetta leyti í viðleitni við að reyna að endurskipuleggja rekstur félagsins vegna skulda. Þar hafi m.a. verið ræddur sá möguleiki að einhverjum skuldum yrði breytt í hlutafé. Bankinn hafi hins vegar ekki viljað þá leið. Með sölu á vörulagernum til C ehf. hafi verið ætlunin að lækka skuld B hf. við bankann. Ákærði hafi sjálfir ákveðið verð á vörubirgðum miðað við það sem sanngjarnt hafi verið talið. Hafi lagerinn fremur verið seldur á of háu verði heldur en of lágu. Marga daga hafi tekið að útbúa reikning vegna sölunnar. Viðskiptin hafi verið ákveðin 26. ágúst 2004, en nokkra daga hafi tekið að ganga frá pappírum. Ekki hafi komið til greina að hætta við viðskiptin eftir greiðsluáskorunina. Matsverð hinna dómkvöddu matsmanna á virði vörulagersins hafi ekki verið rétt.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar ákærði að hann og [...] hafi verið eigendur að einkahlutafélaginu C á sínum tíma. Félagið hafi aðstoðað við rekstur ýmissa fyrirtækja í tengslum við ákærða. Ákærði hafi ekki talið neitt óeðlilegt í gangi er ákveðið hafi verið að selja vörulager B hf. yfir til C ehf. Á fundi í F hf. 26. ágúst 2004 hafi fjárhagsstaða B hf. verið rædd. Ekki hafi ákærði talið að til stæði að gjaldfella skuldir félagsins í bankanum. Þá hafi m.a. verið í umræðunni að erlendir aðilar kæmu inn í rekstur B hf. Hafi ákærði ekki áttað sig á af hverju bankinn hafi farið þessa leið að loka á rekstur félagsins. Ákærði hafi áður keypt vörulagera með ámóta hætti og í tilviki B hf. Þannig hafi verið til fyrirmyndir að eðlilegu verði í slíkum viðskiptum. Verð umrædds vörulagers hafi verið eðlilegt. F hf. hafi í raun haft umráð allra fjármuna félagsins og um leið skrúfað fyrir fyrirgreiðslu til þess. Í þeirri stöðu hafi engin annar kostur verið uppi en að óska eftir gjaldþrotaskiptum á því. Greinilegt hafi verið að bankinn hafi ætlað að setja fyrirtækið á hausinn. Veðsetning vörulagersins hafi náð til tækjalagersins en ekki varahluta. Þannig hafi ekki þurft leyfi til að selja út af lager fyrirtækisins. Sala lagersins hafi verið ákveðin 26. ágúst 2004 en tekið nokkra daga að ganga frá reikningnum og hann því gefinn út síðar.
Þ kvaðst hafa verið skiptastjóri þrotabús B hf. Er hann hafi komið að þrotabúinu hafi aðkoman verið slæm. Fyrrum fyrirsvarsmenn félagsins hafi tekið verðmæti út úr félaginu. Ástand búsins hafi því verið slæmt. Fyrstu aðgerðir skiptastjóra hafi beinst að því að ná tökum á búinu og endurheimta verðmæti. Vinna við skiptin hafi því frá upphafi verið mikil. Ákærðu hafi um 2 til 3 dögum eftir gjaldþrotið upplýst um sölu á vörulagernum. Hafi þeir framvísað reikningi og birgðalista því til fulltingis. Umræddur vörulager hafi verið hluti af stærri vörulager hins gjaldþrota félags. Ráðgjafi skiptastjóra hafi tjáð skiptastjóra að hinn seldi vörulager væri bitastæðasta eign þrotabúsins. Afgangurinn af vörulagernum sæti fast. Aðgerðir skiptastjóra hafi beinst að því að athuga með heimildir til sölu. Þær hafi hann ekki fundið. Í ljós hafi komið greiðsluáskorun frá F hf. Bókhald félagsins hafi verið kannað og gerð reikninga. Sérfræðingur á vegum þrotabúsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að reikningur vegna sölu á vörulager hafi verið gerður síðar en dagsetning hans hafi borið með sér og eftir að greiðsluáskorunin hafi komið fram. Skiptastjóri hafi kallað ákærðu í skýrslutöku og þar hafi þeir viðurkennt að reikningurinn hafi síðar verið búinn til. Skiptastjóri hafi fengið K til að leggja mat á virði vörulagersins. Hafi hann óskað eftir dómkvöddum matsmönnum til að leggja mat á virðið sennilega til að tryggja betri sönnun á virði lagersins vegna hugsanlegra dómsmála. Mat K hafi fremur verið bráðabirgðamat. Vörulagerinn hafi verið stórt heildarsafn hluta. Hafi verið óskað eftir verðmati á honum miðað við smásöluverð. Hafi það verið gert til að finna út markaðsverðmæti hans en til greina hafi t.d. komið að þrotabúið myndi selja sjálft úr lagernum. Þ kvaðst telja að matsmenn hafi haft í höndum öll þau gögn er þeir hafi þurft til að meta verðmæti vörulagersins. Þannig hafi þeir haft aðgang að bókhaldi hins gjaldþrota félags.
G kvaðst hafa starfað sem lögmaður hjá F hf. á þessum tíma. Lán til B hf. hafi verið hjá bankanum og þau flokkuð sem erfið útlán. Fundir hafi verið haldnir með ákærðu til að fara yfir stöðu mála. Á fundi með ákærðu 25. ágúst 2004 hafi mál verið rædd. Þá hafi því sjónarmiði bankans verið lýst að staðan væri það slæm að svo gæti farið að bankinn þyrfti að hætta allri fyrirgreiðslu til fyrirtækisins. Hafi í framhaldi átt að kanna verðstöðu fyrirtækisins. Í beinu framhaldi af þessu fundi hafi G farið á starfsstöð fyrirtækisins. Hafi hann tekið stikkprufur úr vörulager fyrirtækisins. Þá hafi komið í ljós talsverð skekkja miðað við bókhald þess. Eftir fundinn hafi G farið yfir í bankann og greiðsluáskorun á hendur félaginu undirbúin. Næsta dag hafi hún verið birt. Verðmætasti vörulager fyrirtækisins hafi í framhaldi þessa verið seldur frá félaginu. Nokkrum dögum síðar hafi verið óskað efir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Bankanum hafi fyrst verið kunnugt um sölu á lagernum eftir að skiptastjóri hafi verið kominn í þrotabúið og skoðað aðstæður. Hafi hinn seldi lager ekki verið aðgreindur frá heildarlager B hf. Komið hafi í ljós að C ehf. hafi keypt lagerinn. Fyrir hann hafi verið greitt með ávísun sem hafi verið lögð inn á reikning í nafni félagsins í F hf. Sá reikningur hafi verið með yfirdráttarheimild með sjálfskuldarábyrgð ákærðu. Salan hafi verið ,,stór sala“. Kvaðst G þeirrar skoðunar að ákærðu hafi leynt bankann upplýsingum um söluna. Ákveðið samkomulag hafi verð á milli félagsins og bankans um sölu. Það hafi m.a. falið í sér bann við sölu til tengdra aðila. Um hafi verið að ræða almenna varúðarráðstöfun. Með sölu lagersins hafi rekstrarhæfi félagsins verið stefnt í hættu þar sem um hafi verið að ræða bestu vöru félagsins. Heili vörunúmerin hafi vantað eftir söluna. Bankinn hafi haft í höndum mat sérfræðings frá I um að vörulagerinn sem seldur hafi verið hafi verið sá besti sem félagið hafi átt.
H kvaðst á árinu 2004 hafa starfað á fyrirtækjasviði I. Hafi hann m.a. gert úrtök úr félögum í tengslum við endurreisn þeirra. Þannig hafi hann að beiðni bankastofnana gert úrtök um veðhæfi eigin félaga bankanna. Hafi H komið að máli B hf. Hafi hann fengið í hendur birgðalista félagsins. Í ljós hafi komið veruleg frávik á milli listans og raunverulegra birgða.
Æ kvaðst sem starfsmaður M hf. að beiðni skiptastjóra þrotabús B hf. hafa framkvæmt athugun á reikningskerfi B hf. Um þá athugun hafi hann ritað bréf dagsett 4. október 2004. Hafi Æ skoðað gögn félagsins í viðskiptakerfi þess. Þá hafi hann skoðað reikninga. Færslur í kerfinu hafi bent til þess að reikningar sem hann hafi skoðað hafi verið gefnir út síðar en dagsetningar þeirra hafi gefið til kynna. Staðhæfing í bréfi Æ eigi við um reikninga sem gefnir hafi verið út 1. júlí 2004. Vilji hann ekki staðhæfa með sama hætti um útgáfu reiknings nr. S4-014456.
Ö kvaðst á árinu 2004 hafa starfað hjá K og verið falið að rita skýrslu um virði vörulagers sem seldur hafi verið samkvæmt reikningi nr. S4-014456. Ö kvað skýrsluhöfunda ekki hafa skoðað þann lager sem metinn hafi verið heldur hafi verið farið yfir bókhald hins gjaldþrota félags. Einnig hafi skýrsluhöfundar haft undir höndum birgðalista og getað rekið sig áfram í lagerbókhaldinu. Þannig hafi höfundar reynt að gera sér grein fyrir þeirri vöru sem metin hafi verið m.t.t. aldurs o.s.frv. Verðgildið hafi verið metið út frá aldri vörunnar og veltuhraða. Þá hafi einhver vara verið afskrifuð eins og algengt sé. Síðan hafi meðaltalsálagning verið fundin út frá bókhaldinu. Í bókhaldinu hafi verið að finna reikninga sem skrifaðir hafi verið út á þessa vöru. Í ljós hafi komið að einhverjar birgðir hafi verið seldar á kostnaðarverði. Beitt hafi verið venjubundinni verðmatsaðferð við mat á vörulagerum. Þannig hafi sumar vörur getað verið með hærri álagningu heldur en aðrar. Beitt hafi verið jafnaðarálagningu. Ö kvaðst hafa lesið mat dómkvaddra matsmanna á hinum metna vörulager. Sé það hans mat að aðferð matsmanna hafi verið sérkennileg. Þar komi t.a.m. ekkert fram hvernig vara sé afskrifuð, en það þurfi að gera ráð fyrir því. Meðaltalstölur standist ekki. Sé það mat Ö að hans leið hafi verið varkárari við matið. Mörg dæmi séu um að vörulager sé seldur í heild sinni. Þá sé lagerinn yfirleitt seldur til annars heildsala. Samkomulag sé um álagningarprósentuna. Að því er varði matsgerð T dómkvadds matsmanns frá 28. júní 2011 þá sé sú skýrsla varla matsgerð, fremur veltutölur. Verið sé að meta verðmæti lagers sem seldur hafi verið 7 árum áður. Þá þegar hafi 27% vörulagersins verið fjögurra ára og eldri. Unnt hafi verið að rekja sölu á einstaka hlutum. Eftir hafi staðið vara sem ekki hafi verið hraðseljanleg. Þannig sé sölusaga borin saman við áætlanir um sölu á sínum tíma. Ö kvaðst þeirrar skoðunar að sú matsgerð sýni að skýrsla K hafi verið nærri sanni um niðurstöðu.
P staðfesti matsgerð í rannsóknargögnum málsins á verðmæti vörubirgða frá 26. október 2005. Mat hafi verið framkvæmt með nákvæmum hætti. Matsmenn hafi við matið farið og skoðað vörulagerinn. Þá hafi þeir kallað eftir sölunótum síðustu tveggja mánaða þar á undan. Einnig hafi þeir fengið í hendur vörulista um selda vöru. Þeir hafi borið saman vörusölu mánuðina á undan við númer í vörulistum, en vara hafi verið afgreidd eftir vörunúmerum. Skoðuð hafi verið um 2500 vörunúmer. Notuð hafi verið sama álagning á vöruna og B hf. hafi notað við vörusölu. Aldursgreining hafi verið framkvæmd. Matsmenn hafi fengið fullan aðgang að þeim gögnum er þeir hafi þurft við matið. P kvaðst hafa starfað á þessum vettvangi lengi og þekkt vel til. Hafi hann komið að búvélageiranum í um 40 ár. Að hans mati hafi skýrsla K verið röng við verðmatið og fremur getað átt við um mat á fataverslun fremur en vörulager. Þannig hafi sumir hlutir ekki tapað verðgildi sínu þó svo þeir hafi orðið eldri.
N staðfesti matsgerð í rannsóknargögnum málsins á verðmæti vörubirgða frá 26. október 2005. Kvaðst N hafa unnið við mörg matsmál í gegnum tíðina. Í þessu tilviki hafi hann verið dómkvaddur til að meta tiltekinn vörulager til verðs. Matsmenn hafi farið á staðinn til að meta tæki og tól. Lagerinn hafi verið skoðaður, auk þess sem farið hafi verið yfir vörulista og birgðalista. Kallað hafi verið eftir sölunótum og þær bornar saman við lager og sama vara fundin þar. Það hafi tekist. Miðað hafi verið við sölu síðustu tveggja mánaða. Óskað hafi verið eftir gögnum fyrir lengra tímabil en þau gögn ekki fengist. Það hafi hins vegar verið mat matsmanna að þeir hafi fengið það margar sölunótur í hendur að þeir hafi getað framkvæmt matið. Álagning hafi verið fundin út. Eðlilegt verð hafi verið metið fyrir lagerinn miðað við smásöluálagningu, en um það hafi verið beðið. Ef beðið hefði verið um verð miðað við heildsölu hefði það leitt til lægra verðs. Varan hafi ekki verið aldursgreind sérstaklega. Kallað hafi verið eftir aðgangi að tilteknum bókhaldsgögnum B hf. sem ekki hafi gengið eftir. Komi það fram í fundargerðum. Eftir að hafa rætt það hafi matsmenn talið það ekki koma að sök.
T staðfesti matsgerð sína á dskj. nr. 10. Að því er varði tap á vörusölu fyrir árið 2004 hafi matsmaður ekki skoðað ástæður þar að baki þar sem matsbeiðni hafi ekki lotið að því. Hafi matsmaður ekki skoðað hvort átt hafi verið við bókhald félagsins. Matsstörf hafi falist í því að velja tiltekna sölu í lagerbókhaldi. Matsgerð geri grein fyrir framlegð bæði með og án rýrnunar. Sú tala hafi verið neikvæð bæði fyrir árin 2004 og 2007. Heildarframlegð hafi verið neikvæð eftir rýrnun. Ef verð vörulagersins hafi verið hærra á árinu 2004 hefði framlegðin orðið meira neikvæð. T kvaðst sjálfur hafa tekið afrit af þeim gögnum er hann hafi þurft til matsstarfa. Hafi hann verið að vinna með raunveruleg gögn sem hann hafi fengið úr bókhaldi yfir raunverulega sölu birgða.
Niðurstaða:
Ákærðu er gefið að sök skilasvik framin í rekstri hlutafélagsins A, sem ákærðu voru í fyrirsvari fyrir. Nafni félagsins var 30. ágúst 2004 breytt í B hf. og var það úrskurðað gjaldþrota 7. september 2004. Ákærðu er gefið að sök að hafa selt hluta af vörulager félagsins til einkahlutafélagsins C, sem ákærði Gunnar Bragi var stjórnarformaður fyrir og eigandi að, fyrir óhæfilega lágt verð. Vörulager þessi var veðsettur F hf. samkvæmt tryggingarbréfi dagsettu 31. desember 1998. Samkvæmt reikningi nr. S4-014456 voru vörubirgðirnar seldar 26. ágúst 2004 á 31.186.999 krónur en samkvæmt ákæru er miðað við að verðmæti vörubirgðanna hafi numið 71.252.728 krónum. Með sölunni eru ákærðu taldir hafa skert rétt F hf. og annarra lánadrottna til að öðlast fullnægju í eignum þrotabúsins og dregið taum C ehf. lánadrottnum til tjóns.
Ákæruefni í málinu miðar mat á verðmæti hinna seldu vörubirgða við mat dómkvaddra matsmanna sem komust að þeirri niðurstöðu í matsgerð 26. október 2005 að verðmæti hinna seldu vörubirgða hafi á söludegi numið 71.252.728 krónum. Skiptastjóri þrotabús B hf. aflaði þessarar matsgerðar. Hefur hann borið fyrir dóminum að matsgerðarinnar hafi hann aflað til að tryggja sér sönnun á verðmæti vörubirgðanna í tengslum við hugsanlegan málarekstur vegna þeirra, auk þess sem til skoðunar hafi verið hvort þrotabúið myndi sjálft hlutast til um að selja úr vörulagernum einstaka hluti. Fyrir liggur að skiptastjóri hafði á þeim tíma í hendi skýrslu K 15. desember 2004 um rannsókn á bókhaldi B hf. Laut sú rannsókn að ýmsum atriðum í tengslum við bókhald hins gjaldþrota félags. Samkvæmt þeirri skýrslu var meðal annars sérstaklega tekið til skoðunar sala á hluta af vörubirgðum hins gjaldþrota félags til C ehf. í því augnamiði að varpa ljósi á hvort um eðlilega verðlagningu á birgðunum væri að ræða. Samkvæmt skýrslunni, sem annar skýrsluhöfunda staðfesti fyrir dóminum, voru vörubirgðirnar metnar út frá birgðalista sem fylgdi sölureikningi fyrir vörubirgðirnar og bókhaldi hins gjaldþrota félags. Birgðirnar sjálfar voru ekki skoðaðar sérstaklega. Niðurstaða skýrsluhöfunda var að heildarverðmæti keyptra birgða hafi á söludegi numið 25.523.437 krónum. Vörur áranna 2001 og eldri voru afskrifaðar 100%. Vörur ársins 2002 um 70%, ársins 2003 um 30% en engin afskrift var af vörum ársins 2004. Að teknu tilliti til þessara afskrifta var verðmat á vörubirgðum alls 12.989.062 krónur. Rannsókn á bókhaldi leiði í ljós 63% meðaltalsálagningu á hinar seldu vörur. Að teknu tilliti til þeirrar álagningar nemi verðmætið 21.221.071 krónu. Að teknu tilliti til verðmæti neikvæðra birgða var talið að heildarverðmæti hinna seldu birgða hafi verið of lágt. Samkvæmt þessu miða skýrsluhöfundar annars vegar við bókfært kostnaðarverð vörulagersins í bókhaldi B hf. og hins vegar við verðmæti vörulagersins að teknu tilliti til afskrifta og meðaltalsálagningar í rekstri A hf.
Samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna 26. október 2005 voru matsmenn beðnir um að meta raunvirði hins selda vörulagers miðað við eðlilegt söluverð að teknu til smásöluálagningar. Í matsgerðinni kemur fram að vörulagerinn sjálfur var skoðaður, en skoðuð voru vörunúmer í fjórum vöruflokkum sem til staðar voru. Þá voru 2.468 sölureikningar frá 2. júlí til 26. ágúst 2004 skoðaðir með 5.622 vörunúmerum. Einnig var matið unnið út frá birgðalista sem fylgdi sölureikningi. Stuðst var við söluverðmæti vörunnar við sölu A hf. á tímabilinu frá 2. júlí til 26. ágúst 2004. Birgðir voru hækkaðar í núll í því tilviki er vara bar neikvætt verð. Mismunur á verði birgða og sölureiknings gaf til kynna að verð birgða var að meðaltali 57,05% lægra. Til að fá birgðir upp í sama verðgildi og þær voru seldar á í þessa tvo mánuði hafi þurft að hækka þær um 132,85%. Útrunnin og verðlaus vara var ónotuð vara. Allir voru hlutirnir innan við 30 ára. Í ljósi tíðkaðra viðskipta á bílapartasölum um að notaðir hlutir væru seldir á hálfvirði miðað við nýja var þessi vara metin á hálfvirði. Sanngjarnt verð vörunnar væri sama verðmæti og A hf. hafi selt þær á. Samkvæmt því næmi verðmæti birgðanna, að teknu tilliti til útrunninnar og verðlausar vöru og að teknu tilliti til virðisaukaskatts, 71.252.728 krónum.
Miðað við framangreindar forsendur matsgerðar hefur verðlagning vörubirgðanna í birgðalista með sölureikningi verið of lágt miðað við sölu á vörunni á tveggja mánaða tímabili. Matsmenn hafa tekið tillit til þess. Þá hafa þeir hækkað verð upp í núll á vöru sem verðlögð var í mínus í birgðalista. Að lokum hafa matsmenn hækkað verð birgða með hliðsjón álagningu á vöruna miðað við smásölu. Út frá forsendu í viðskiptum með varahluti í gamlar bifreiðar hefur ekki verið tekið tillit til afskrifta nema með því móti að meta gamla vöru á hálfvirði. Miðað við fundargerðir matsfunda og matsgerðina sjálfa hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að matið væri framkvæmt með þessum hætti.
Önnur verðmöt á hinum selda vörulager í málinu, sem eru skýrsla S ehf. frá 17. febrúar 2011 og matsgerð á dskj. nr. 10 miða, eðli máls samkvæmt, ekki við verðmat miðað við áætlað verðgildi vörulagersins 26. ágúst 2004. Í þessum tilvikum er staðreynd sala á vörum úr lagernum á árunum 2004 til júní 2011. Með því móti leitast ákærðu við að sýna fram á að söluverð lagersins til C ehf. hafi verið sanngjarnt miðað við áætlað mat á vermæti lagersins á þeim tíma.
Dómsmál hafa þegar verið rekin er varða hinn umdeilda vörulager. Mál þessi eru öll einkamál, en að mati dómsins þykir óhjákvæmilegt annað en að gera grein fyrir efnisatriðum úr þeim þar sem þau snerta sakarefni þessa máls og varpa þar með ljósi á þær aðstæður er ákærðu voru í við sölu hins umdeilda vörulagers.
Þrotabú B hf. höfðaði mál 23. maí 2005 á hendur E ehf. og fleirum með kröfu um að rift yrði sölu á hinum selda vörulager og að stefndu yrðu dæmd til að greiða þrotabúinu skaðabætur. Í héraðsdómi var miðað við að mat hinna dómkvöddu matsmanna 26. október 2005 yrði lagt til grundvallar niðurstöðu og lagt til grundvallar að verðmat birgðanna yrði, í ljósi úrskurðar skattstjórans í Reykjavík 22. mars 2006 um endurákvörðun virðisaukaskatts fyrir E ehf. fyrir árið 2004, ákvarðað án virðisaukaskatts eða 57.231.107 krónur. Samkvæmt því hafi vörubirgðirnar verið seldar á undirverði sem næmi 26.044.108 krónum. Var talið að í því fælist gjafagerningur sem væri riftanlegur á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Voru stefndu, E ehf. á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laganna, og Gunnar Viðar, á grundvelli hinnar almennu skaðabótareglu og 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, sameiginlega dæmd til að greiða þrotabúinu 26.044.108 krónur auk vaxta. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 212/2007 sem upp var kveðinn 20. desember 2007 var niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Var tekið fram að E ehf. og Gunnar Viðar hefðu ekki, vegna staðhæfinga um að matsgerðin væri haldin galla, neytt þess úrræðis sem þeir áttu að lögum og skora á þrotabúið að leggja fram gögn um verðmæti vörubirgða á grundvelli 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða krefjast yfirmats samkvæmt 64. gr. sömu laga. Var héraðsdómur að öðru leyti staðfestur með skírskotun til forsendna hans.
Í dómi Hæstaréttar uppkveðnum 8. maí 2009 í máli nr. 163/2009 var leyst úr ágreiningi á milli Nýja-F banka hf. og R ehf. um ráðstöfun greiðslna í kjölfar riftunar á sölu hins selda vörulagers samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 212/2007. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 2. mgr. 34. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997 hafi A hf. verið óheimilt að skipta út vörubirgðum sínum eða framselja þær án samþykkis F hf. eftir að bankinn fékk 27. ágúst 2004 birta greiðsluáskorun á hendur félaginu til undirbúnings fullnustugerð fyrir veðkröfu sinni. Sá maður sem á sama tíma gegndi starfi framkvæmdastjóra A hf. og var jafnframt stjórnarmaður og framkvæmdastjóri C ehf., hafi lýst því að þessi félög hafi 26. ágúst 2004 samið um kaup þess síðarnefnda á vörubirgðum af því fyrrnefnda, sem reikningur með þeirri dagsetningu hafi verið gerður fyrir. Hann hafi þó einnig borið fyrir skiptastjóra í þrotabúi B hf. að reikningurinn hafi ekki verið gerður fyrr en þremur eða fjórum dögum eftir þessa dagsetningu hans og hafi fyrrum stjórnarformaður félagsins borið á sama veg. Skýring þeirra á ástæðum þess sé fjarstæðukennd að virtu því að í reikningnum hafi engra annarra efnisatriða verið getið en efnisatriðanna ,,vörulager skv. meðf. skjölum“, sem greiða skyldi fyrir 25.048.202 krónur, auk skráningargjalds að fjárhæð 1.597 krónur og 6.137.200 krónur í virðisaukaskatt, eða samtals 31.186.999 krónur. Greiðsla á meginhluta fjárhæðar reikningsins hafi verið innt af hendi með tékka, sem dagsettur hafi verið 26. ágúst 2004, en honum hafi þó ekki verið framvísað af viðtakanda í banka fyrr en 30. sama mánaðar. Hafi forráðamönnum A hf. verið í lófa lagið gagnstætt þessu að tryggja sér viðhlítandi sönnur fyrir því að þessi kaup hafi í reynd verið gerð á þeim tíma, sem síðar hafi verið haldið fram, og yrði að fella sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið á R ehf. Gegn andmælum bankans hafi slík sönnun ekki komið fram, en í þeim efnum væri ekkert hald í skriflegum yfirlýsingum tveggja fyrrverandi starfsmanna A hf. sem R ehf. hefði lagt fram í Hæstarétti. Því til samræmis yrði að leggja til grundvallar að A hf. hefði ekki selt vörubirgðirnar fyrr en eftir að greiðsluáskorun F hf. hafi verið birt forráðamanni félagsins. Hafði veðréttur samkvæmt tryggingarbréfinu færst yfir á andvirði veðsettra vörubirgða sem þrotabú B hf. hafi fengið í hendur annars vegar með greiðslu F hf. 8. október 2004 á 30.440.000 krónum og hins vegar með greiðslu 27. desember 2007 á 51.758.922 krónum til uppgjörs samkvæmt dómi Hæstaréttar 20. sama mánaðar.
Með stefnu birtri 6. mars 2009 höfðaði Nýja F banki hf. mál á hendur Gunnari Viðari og Stefáni Braga og krafðist bankinn skaðabóta úr hendi þeirra fyrir tjón sem bankinn hefði orðið fyrir þar sem þeir hefðu notað greiðslu sem fékkst fyrir hinn selda vörulager A hf. til C ehf. til að greiða skuld á tékkareikningi í F hf. sem var með sjálfskuldarábyrgð þeirra beggja. Nam skuldin á tékkareikningnum 29.986.083 krónum er greiðslan var innt af hendi. Í dómi Hæstaréttar uppkveðnum 3. mars 2011 í máli nr. 438/2010 er rakið að í skýrslu Stefáns Braga fyrir dómi hafi komið fram að A hf. hafi verið komið með 300.000.000 króna neikvætt eigið fé á árinu 2004. Hafi Gunnar Viðar og Stefán Bragi fyrir hönd félagsins átt í viðræðum við viðskiptabanka sinn um ráðstafanir til að mæta þessum vanda án þess að árangur bæri. Var komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar Viðar og Stefán Bragi hefðu farið að með sviksamlegum hætti þegar þeir hafi notað andvirði vörulagersins, sem bankinn hafi átt veðrétt í, til að greiða yfirdráttinn og fá fellda niður sjálfskuldarábyrgð sína á reikningnum, án þess að gera starfsmönnum bankans fyrirfram viðvart um þessa ráðstöfun og afla samþykkis fyrir henni. Í reynd hafi þeir notað eign, sem bankinn hafi átt veðrétt í, til að freista þess að losa sjálfa sig undan sjálfskuldarábyrgð á tilteknum hluta skulda fyrirtækis síns, á tímamarki þegar ljóst hafi verið orðið að fyrirtækið gæti alls ekki staðið við skuldbindingar sínar við bankann.
Hin tilvitnuðu dómsmál sem hér hefur verið gerð grein fyrir eru eins og áður segir öll einkamál og fer um sönnun í þeim tilvikum eftir meginreglum VI. kafla laga nr. 91/1991. Mál það sem hér er til meðferðar er sakamál, en samkvæmt 108 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Sönnunarmatið er hins vegar frjálst, sbr. 109. gr. laganna og hefur dómurinn óbundnar hendur þegar hann leggur mat á sönnun. Getur hann eftir atvikum tekið tillit til óbeinna sönnunargagna, sbr. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.
Sönnunargögn í því máli sem hér er til meðferðar og þeir dómar sem þegar liggja fyrir varðandi rekstur A hf. þykja leiða í ljós að A hf. átti undir lok ágúst 2004 í miklum rekstrarvanda. Reisti félagið rekstur sinn nánast alfarið á fyrirgreiðslu frá helsta viðskiptabanka sínum sem var F hf. Ákærðu hafa borið að þeim hafi orðið ljóst á fundum 25. og 26. ágúst 2004 að bankinn ætlaði ekki að viðhalda lánafyrirgreiðslu sinni til félagsins sem óhjákvæmilega myndi leiða til gjaldþrots þess. Fyrirtæki þetta höfðu ákærðu og fjölskyldur þeirra keypt skuldsett á árinu 1995 og rekið upp frá því. Fram kom hjá ákærðu að reksturinn hafi gengið vel þar til á árinu 2001 er áföll á fjármálamarkaði hafi leitt til straumhvarfa í rekstri. Fyrir lögreglu bar ákærði Gunnar Viðar að í ljósi afstöðu viðskiptabankans hafi ákærðu verið ráðlagt að stofna ný félög um reksturinn til að unnt væri að halda honum áfram.
Eins og fyrr greinir var hinn umþrætti vörulager seldur með reikningi sem dagsettur er 26. ágúst 2004. Ákærðu bera að reikningurinn hafi verið gerður 3 til 4 dögum síðar þar sem langan tíma hafi tekið að gera reikninginn. Salan hafi verið ákveðin 26. ágúst. Þegar litið er til þeirra efnisatriða sem fram koma á reikningnum, að fyrir reikninginn var greitt með tékka sem ekki var innleystur í viðskiptabanka fyrr en 30. sama mánaðar og í ljósi þess að skoðun á reikningskerfi A hf. sem framkvæmd var af M hf. leiddi í ljós að tilteknir reikningar úr bókhaldi A hf. hefðu verið gerðir síðar en dagsetningar þeirra gáfu til kynna, þykja þessar staðhæfingar ákærðu fjarstæða. Verður við það miðað að ákærðu hafi selt vörulagerinn eftir að greiðsluáskorun 27. ágúst 2004 frá F hf. var birt. Var það andstætt 2. mgr. 34. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997. Ákærðu seldu vörulagerinn félagi sem ákærði Gunnar Viðar var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri fyrir. Við þessar aðstæður og í ljósi framangreindra atvika málsins skapaðist sú hætta að hagsmunir A hf. yrðu fyrir borð bornir í viðskiptunum.
Dómkvaddir matsmenn mátu verðmæti vörulagersins samkvæmt matsgerð 26. október 2005. Matsgerðar þessarar aflaði skiptastjóri B hf. í samræmi við ákvæði IX. kafla laga nr. 91/1991. Sendi skiptastjóri hana lögreglu í framhaldi af kæru sem á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 var lögð fram í málinu 18. janúar 2005. Matsgerðar þessarar var aflað áður en formleg lögreglurannsókn hófst. Fellur matsgerðin þar með undir að vera sönnunargagn í sakamálinu eftir ákvæðum XX. kafla laga nr. 88/2008. Er lagt í hendur dómara að meta gildi þessarar matsgerðar sem sönnunargagns, sbr. 137. gr. laga nr. 88/2008. Við mat í þeim efnum er til þess að líta að matsgerð þessi var unnin eftir reglum IX. kafla laga nr. 91/1991. Ákærði Stefán Bragi mætti á alla matsfundi utan einn og átti þar kost á að koma á framfæri athugasemdum við matið. Ákærði Gunnar Viðar mætti á einn matsfund. Engar athugasemdir voru hafðar uppi á matsfundum við framkvæmd matsins. Þá var ekki óskað eftir yfirmati að fengnu mati. Að mati dómsins er matsgerð þessi ríkt sönnunargagn. Svo sem fram kemur í henni lögðu matsmenn til grundvallar niðurstöðu sinni að finna verðmæti vörubirgðanna miðað við smásöluverð. Var það gert í samræmi við matsbeiðni skiptastjóra þrotabús B hf. í þeim tilgangi að sannreyna verðmæti vörubirgðanna. Hefur skiptastjóri lýst því að til skoðunar hafi meðal annars verið að þrotabúið myndi sjálft selja úr vörulagernum til að ná sem mestum verðmætum út úr honum. Þá liggur fyrir að með samkomulagi þrotabúsins við F hf. var stofnað Rekstrarfélag L ehf. sem hafði það hlutverk að selja birgðir og aðrar eignir þrotabúsins með sem mestum hagnaði. Þegar þessi atriði eru virt voru það ekki óeðlileg sjónarmið af hálfu þrotabúsins að við verðmatið yrði litið til smásöluverð vörubirgða. Á það er að líta að hefði þrotabúið kosið að selja vörulagerinn í heild sinni í einu lagi hefði söluverð, eðli máls samkvæmt, ekki orðið smásöluverð vörulagersins þar sem það hefði aldrei getað leitt til annars en taps fyrir viðsemjanda. Í því tilviki hefði verið samið um álagningarprósentu, svo sem fram kom í framburði Z fyrir dóminum. Með ráðstöfun sinni um sölu á lagernum girtu ákærðu fyrir að þrotabúið ætti þennan kost.
Skýrsla K um verðmæti vörubirgðanna er hvorki matsgerð í skilningi IX. kafla laga nr. 91/1991 né XIX. kafla laga nr. 88/2008. Er sönnunargildi skýrslunnar minna en matsgerðar. Þá dregur það úr sönnunargildi skýrslunnar að skýrsluhöfundar skoðuðu ekki þær vörubirgðir er þeir mátu til verðs, heldur studdust þeir eingöngu við birgðalista og bókhald A hf. Hafa þeir í skýrslu sinni notað aðferðir við mat vörubirgða er byggja á lögum um ársreikninga sem mæla fyrir um afskriftir vörubirgða á kerfisbundin hátt. Tilgangur með slíkum afskriftum er tryggja að gamlar vörubirgðir í bókhaldi félaga séu ekki bókfærðar á innkaupsverði til langframa sem leiðir til þess að þær verði of hátt metnar í efnahags- og rekstrarreikningi. Sú aðferð er hins vegar ekki nákvæm þegar kemur að því að finna raunverulegt verðmæti vörubirgða á tilteknum tíma miðað við sölu hennar. Af þeim ástæðum verður í niðurstöðu ekki stuðst skýrslu K.
Svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 212/2007, sem staðfesti héraðsdóm með skírskotun til forsendna, bar að verðmeta vörulagerinn án virðisaukaskatts. Á grundvelli matsgerðar 26. október 2005 nam verðmæti hans á söludegi 57.231.107 krónum. Var í því efni byggt á úrskurði skattstjóra sem felldi kaupin undir 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem fram kemur að ekki megi telja til skattskyldrar veltu eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna þegar yfirfærslan eigi sér stað í tengslum við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hafi með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Telja verður að sömu forsendur gildi hefði til þess komið að þrotabúið hefði selt vörulagerinn að hluta til eða í heild sinni. Samkvæmt öllu framansögðu er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að verðmæti vörubirgða sem seldar voru með reikningi nr. S4-014456 hafi á söludegi getað numið 57.231.107 krónum. Söluverðið nam hins vegar 25.048.202 krónum, ef ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts. Var það óhæfilega lágt.
Hinar seldu vörubirgðir voru veðsettar F hf. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940 skal þeim refsað fyrir skilasvik sem selur, veðsetur, tekur undir sig eða ráðstafar á annan hátt fjármunum sínum, sem annar maður hefur eignast þau réttindi yfir, að verknaðurinn verður ekki samrýmdur réttindum hans. Sú háttsemi ákærðu að selja hinar veðsettu vörubirgðir á óhæfilega lágu verði samrýmdist ekki réttindum F hf., þar sem ákærðu skertu með því rétt bankans sem veðhafa til að öðlast fullnægju af eignum þrotabúsins. Varðar sú háttsemi ákærðu við 2. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940. Að því gættu verða ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru.
Ákærði Gunnar Viðar er fæddur í [...] [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærði Stefán Bragi er fæddur í [...] [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að töluverður dráttur hefur orðið í meðförum málsins hjá lögreglu. Er refsing ákærðu, í ljósi atvika málsins, hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Verður refsingin bundin skilorði svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Ákærðu greiði sameiginlega þóknun dómkvadds matsmanns að fjárhæð 3.207.240 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
D ó m s o r ð :
Ákærðu, Gunnar Viðar Bjarnason og Stefán Bragi Bjarnason, sæti hvor um sig fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingar beggja ákærðu og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu greiði sameiginlega 4.462.240 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Erlendar Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur.
Símon Sigvaldason