Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2006
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2006. |
|
Nr. 162/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Guðfinni Óskarssyni(Kristinn Bjarnason hrl.) |
Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar.
G var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti ævilangt og undir áhrifum áfengis. Refsing hans var hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi og þar af þrír mánuðir skilorðsbundnir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og staðfest verði ævilöng svipting ökuréttar hans.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 247.617 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. janúar 2006.
Mál þetta, sem þingfest var 16. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 26. október 2005, á hendur Guðfinni Óskarssyni, kt. 021281-4259, Hátúni 2, Reykjanesbæ, til dvalar að Laugavegi 157, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 4. september 2005, ekið bifreiðinni LT 171, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,55 ) með 109 km hraða á klukkustund, austur Suðurlandsveg, Hellisheiði, þar sem lögregla hafði afskipti af akstri ákærða. Leyfður hámarkshraði á vegarkaflanum var 90 km á klukkustund. Hraði bifreiðarinnar var mældur með ratsjá nr. GE 016 sem staðsett var í lögreglubifreið nr. 258.
Ákæruvaldið segir þessa háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 37. gr., 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna, og krefst þess að ákærði verið dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, 57/1997 og 84/2004.
Ákærði kom fyrir dóm 27. janúar sl. og játaði brot sitt greiðlega og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um atriði er kynnu að hafa áhrif á ákvörðun viðurlaga, sbr. 125. gr. laga nr. 19/1991.
Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og er sannað að hann er sekur um brot það sem ákært er fyrir og er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Um málavexti vísast til ákæru. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Ákærði hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði gerst sekur um refsiverð brot sem hér segir: 12. desember 2000 hlaut ákærði 6.000 króna sekt fyrir brot gegn 48. og 71. gr. umferðarlaga. Tvær sáttir voru gerðar við ákærða 3. maí 2001, annars vegar hlaut hann 50.000 króna sekt fyrir brot gegn 48. gr. umferðarlaga og hins vegar 32.000 króna sekt fyrir brot gegn 45. og 48. gr. umferðarlaga, auk þess sem hann var sviptur ökurétti í tvo mánuði. Þann 16. ágúst 2001 hlaut hann 25.000 króna sekt fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga og með dómi 26. febrúar 2003 hlaut hann 180.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 10. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár frá 7. mars 2003. Ákærði hlaut þann 2. apríl 2003 30 daga fangelsisdóm, skilorðsbundinn í tvö ár fyrir brot gegn 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Þann 23. maí 2003 hlaut ákærði fimm mánaða fangelsisdóm fyrri brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, skilorðsbundinn í tvö ár og var um hegningarauka við dóminn frá 2. apríl 2003 að ræða. Með dómi 11. febrúar 2004 hlaut hann sex mánaða fangelsisdóm, þar af voru fimm mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár, þá var ákærði jafnframt dæmdur til að greiða 100.000 króna sekt, fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og var um hegningarauka að ræða við dóminn frá 23. maí 2003. Loks hlaut ákærði sex mánaða fangelsisdóm þann 24. febrúar 2005, fyrir brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga, þar af voru þrír mánuði skilorðabundnir í þrjú ár, skilorðshluti dómsins frá 11. febrúar var tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi.
Ákærði hefur með broti sínu nú í fjórða sinn brotið gegn 45. gr. umferðarlaga og í þriðja sinn gerst sekur um akstur sviptur ökurétti. Ákærði hefur rofið skilorð dómsins frá 24. febrúar í fyrra. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma upp skilorðshluta þess dóms og gera ákærða refsingu í einu lagi fyri þann hluta og það brot sem hann er nú sakfelldur fyrir. Við ákvörðun refsingar ber að horfa til 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu 3 mánaða refsivistar ákærða skilorðsbundið til þriggja ára frá uppkvaðningu dómsins að telja og skal sá hluti falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt frá 7. mars 2005 með dómi 11. febrúar 2004 og er sú svipting ítrekuð.
Ákærði skal með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, greiða allan sakarkostnað, 23.517 krónur.
Ásta Stefánsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Guðfinnur Óskarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en frestað er fullnustu 3 mánaða refsivistar ákærða skilorðsbundið til þriggja ára frá uppkvaðningu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ævilöng svipting ökuréttar er ítrekuð.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 23.517 krónur.