Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn


Þriðjudaginn 22

 

Þriðjudaginn 22. nóvember 2005.

Nr. 480/2005.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Lögreglurannsókn.

Hafnað var kröfu X um að úrskurðað yrði að R væri ekki heimilt að grípa til tiltekinna rannsóknaraðgerða vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi hans, en ákæra hafði áður verið gefin út  vegna sömu háttsemi og hafði sætt frávísun frá dómi vegna ágalla á rannsókn málsins og annmarka á ákæruskjali.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

 Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2005, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að kveðið yrði á um að óheimilt væri að hefja lögreglurannsókn að nýju á þeim sakarefnum sem verið hefðu grundvöllur ákæru í hæstaréttarmálinu nr. 509/2004, að óheimilt væri að taka lögregluskýrslu af nafngreindum manni sem vitni um sakarefnin og loks að varnaraðili ætti ekki að hafa réttarstöðu sakbornings vegna þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fallist verði á framangreindar kröfur hans. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2005.

Sóknaraðili, X, krefst þess að héraðsdómur úrskurði að óheimilt sé að hefja lögreglurannsókn að nýju á þeim sakarefnum sem voru grundvöllur ákæru í hæstaréttarmálinu nr. 509/2004 og að óheimilt sé að taka lögregluskýrslu af A fyrrum framkvæmdastjóra B sem vitni um þau sakarefni. Jafnframt er þess krafist að úrskurðað verði að X hafi ekki réttarstöðu sakbornings vegna þeirra sakarefna sem voru grundvöllur ákæru í hæsta­réttarmálinu nr. 509/2004.

Af hálfu varnaraðila, ríkislögreglustjóra, er gerð krafa um að öllum kröfum sóknar­aðila verði hafnað.

Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að með bréfi 30. apríl 2002 hafi A, þá löggiltur endurskoðandi, farið þess á leit að hafin yrði opinber rannsókn á störfum hans fyrir B en A hafði þá um áratugaskeið verið fram­kvæmdastjóri B. Í bréfi framkvæmdastjórans hafi komið fram að hann hafi beitt stjórn og endurskoðanda B skipulögðum blekkingum. Sóknaraðili, X, hafi verið endurskoðandi B frá og með árinu 1986 til og með árinu 2001 og hafi hann áritað reikninga B öll þau ár. Þann 24. september 2003 hafi sóknaraðili mætt til skýrslutöku hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra en þar hafi honum verið kynnt að hann hefði réttarstöðu sakbornings vegna sakargifta er lytu að störfum hans sem endurskoðanda fyrir B vegna endurskoðunar­vinnu hans árin 1993 til og með 2001 á ársreikningum áranna 1992 til 2000. Rannsókn málsins hafi lokið með lögregluskýrslu sem tekin hafi verið af sóknaraðila 2. mars 2004 þar sem sóknaraðili hafi m.a. ítrekað að ekki væri hægt að taka afstöðu til ætlaðra saka hans án þess að lögregla hefði rannsakað á hvern hátt A hafi beitt sóknar­aðila blekkingum við endurskoðunarstörfin. Við rannsókn ætlaðra sakargifta sóknar­aðila hafi aldrei verið tekin skýrsla af A um þau efni. Þá hafi sakir A að því er varðaði blekkingar gagnvart sóknaraðila og sem hann hafi upplýst um í upphafi ekki verið rannsakaðar og hafi A ekki verið ákærður fyrir þær sakir, svo sem fyrir að hafa falsað gögn úr bókhaldi B til þess að leggja fyrir sóknaraðila við endurskoðun reikninga B.

Ákæra á hendur sóknaraðila vegna þeirra sakarefna er honum voru kynnt í upphafi rannsóknarinnar hafi verið gefin út 16. apríl 2004. Aðalmeðferð málsins hafi farið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. nóvember 2004 þar sem sóknaraðili hafi gefið skýrslu. Einnig hafi af ákæruvaldsins hálfu verið leidd vitni til sönnunarfærslu um sakargiftir. Að auki hafi vitni verið leidd af hálfu varnarinnar. Sóknaraðili hafi með dómi 9. nóvember 2004 verið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins á þeim grundvelli að sakir á hendur sóknaraðila teldust ósannaðar. Dómi héraðsdóms hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands af hálfu ákæruvaldsins, aðallega til heimvísunar, en til vara til sakfellingar samkvæmt ákæru. Með dómi Hæstaréttar Íslands 12. maí 2005 í máli nr. 509/2004 hafi máli ákæruvaldsins gegn sóknaraðila verið vísað frá héraðsdómi og allur kostnaður sakarinnar verið felldur á ríkissjóð. Samkvæmt dómi Hæstaréttar hafi slíkir annmarkar verið taldir vera á ákæru að ekki væri unnt að fella efnisdóm á málið auk þess sem rannsókn málsins hafi verið með þeim hætti að mjög hafi skort á að hún uppfyllti skilyrði 67. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

Í bréfi varnaraðila til sóknaraðila 24. október 2004 hafi varnaraðili lýst annmörkum á rannsókn málsins með eftirfarandi hætti: ,,Í dómi Hæstaréttar í máli ákæru­valdsins gegn X kom í fyrsta lagi fram að ekki hefði verið rannsakað á fullnægjandi hátt að hve miklu leyti endurskoðunarvinna ákærða í málinu hefði tekið mið af rangfærðum skjölum. Í dóminum kom einnig fram að ekki hefði verið nægilega litið til þess hvað góð endurskoðunarvenja hefði krafist að ákærði hefði gert eða heimilað honum að láta ógert við endurskoðunarvinnuna. Yrði að skoða það með tilliti til einstakra og nánar tiltekinna atriða varðandi rækslu starfa endurskoðanda, en ekki með heildstæðu mati á störfum yfir lengra tímabil. Þá kom loks fram í dómi Hæstaréttar að álitsgerðir kunnáttumanna sem lögreglan kallaði til, hefðu aðeins að litlu leyti beinst að ætlaðri vanrækslu ákærða varðandi endurskoðun á nákvæmlega tilgreindum þáttum reikningsskila í nánar tilteknum ársreikningum, heldur hefðu þær að mestu fjallað með almennum orðum um fjölda atriða í senn á löngu árabili. Þá hefði þar að engu teljandi leyti verið brugðið ljósi á það hvernig endurskoðandi hefði nánar átt að bera sig í starfi við sömu atriði ef gætt hefði verið góðrar endurskoðunarvenju.” Eins og greini í bréfum varnaraðila vilji hann nú freista þess með nýrri rannsókn að bæta úr ágöllum þessum sem væntanlega eigi að leiða til þess að rannsóknin nái þeim markmiðum sem mælt sé fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt framangreindu lúti þeir ágallar að rannsókninni í heild en ekki að tilteknum atriðum. Þannig verði ekki annað séð en að rannsaka verði sakargiftir frá grunni þannig að rannsóknin nái markmiðum 67. gr. laga nr. 19/1991.

Af hálfu sóknaraðila sé á því byggt að sú ákvörðun varnaraðila að hefja rannsókn málsins að nýju eftir að ákæru um sakargiftir þær sem hlotið hafi efnismeðferð fyrir dómi, hafi verið vísað frá dómi, eigi sér ekki lagastoð. Engin heimild sé í lögum nr. 19/1991 til að hefja nýja rannsókn um sakarefni eftir að rannsókn um það hafi verið lokið og ákæra gefin út, svo sem ráðgert sé. Af hálfu sóknaraðila sé vitnað til 77. gr. laga nr. 19/1991 þessu til stuðnings, sbr. og 112. gr. Því sé haldið fram að útgáfa ákæru á hendur sóknaraðila 16. apríl 2002 hafi falið í sér að lögreglurannsókn um sakargiftir á hendur honum sem kynntar hafi verið í upphafi rannsóknarinnar, hafi verið lokið, þannig að bindandi sé fyrir lögreglu og ákæruvald. Lög nr. 19/1991 verði með engu móti skýrð þannig að heimilt sé að láta fara fram tvær rannsóknir og þar á eftir tvær efnismeðferðir fyrir dómi um sömu sakarefni. Sérstaka heimild þyrfti í lögum nr. 19/1991 til slíks ef það ætti yfirleitt að koma til álita. Sérstaklega sé á því byggt að málsmeðferð sem feli í sér að lögregla og ákæruvald geti hafið nýja rannsókn máls á grundvelli upplýsinga og gagna sem fram komi við efnismeðferð viðkomandi sakarefna fyrir dómi, teljist ekki réttlát málsmeðferð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. Mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og því í andstöðu við þau. Fráleitt hljóti að vera að sakborningur sem varið hafi sig fyrir dómi þurfi að sæta því að lögregla geti framkvæmt nýja rannsókn á sömu sakarefnum á grundvelli sjónarmiða sem komi í dómi um þau sakarefni þar á meðal varna sakbornings. Þá verði ekki séð að dómstólar geti talist sjálfstæðir eða óvilhallir í umfjöllun um sakarefni sem þeir hafi áður fjallað efnislega um eða að jafnræði sé með málsaðilum ef ákæruvald geti hafið rannsókn og eftir atvikum gefið út ákæru á grundvelli sakarefna sem fram hafi komið við dómsmeðferð. Samkvæmt því felist í niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 509/2004 að opinberu máli um sakarefni sem málið hafi fjallað um, hafi endanlega lokið með dóminum. Lögregla og ákæruvald hafi ekki heimild til að hefja rannsókn málsins að nýju eða láta fara fram nýja rannsókn á sakargiftum á grundvelli umfjöllunar í dóminum. Þar sem í dómi Hæstaréttar hafi verið kveðið á um að rannsókn sú sem framkvæmd hafi verið, hafi ekki uppfyllt markmið 67. gr. laga nr. 19/1991 liggi fyrir að ekki sé heimilt að gefa út ákæru á grundvelli rann­sóknarinnar eins og henni hafi lokið. Meginmarkmið lögreglurannsóknar sé að afla nauðsynlegra gagna til að ákæruvaldi sé fært að ákveða að rannsókn lokinni hvort sækja skuli menn til saka.

Þá sé að auki haldið fram að ekki sé hægt að hefja rannsókn málsins að nýju þar sem ekki sé í lögum nr. 19/1991 heimild til þess að gefa út nýja ákæru um sama sakarefni og vísað hafi verið frá dómi eftir að hafa hlotið þar efnismeðferð.

Í samræmi við þetta sé því haldið fram að ákvörðun varnaraðila um að hefja að nýju lögreglurannsókn á sakargiftum sem fjallað hafi verið um á grundvelli ákæru varnaraðila frá 16. apríl 2004 og vísað hafi verið frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar Íslands sé ólögmæt og þar með einnig fyrirhuguð lögregluskýrslutaka af A fyrrum framkvæmdastjóra sem vitnis um ætlaðar sakir sóknaraðila. Í þeirri niðurstöðu felist jafnframt að sóknaraðili geti ekki haft réttarstöðu sakbornings vegna þessara sakarefna eftir dóm Hæstaréttar, enda opinberu máli á hendur honum endanlega lokið. Þá sé bent á að A geti ekki haft stöðu vitnis í rannsókn lögreglu þegar fjalla eigi um rangfærslur hans sjálfs og falsanir á skjölum sem lögð hafi verið fyrir sóknaraðila við endurskoðunarvinnu hans. Óheimilt sé að hefja rannsókn málsins með skýrslutöku af A fyrr en leyst hafi verið úr kröfum þeim sem settar séu fram hér.

Krafa um úrskurð dómsins sé byggð á 75. gr. laga nr. 19/1991.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að heimildir lögreglu til að taka málið til rannsóknar að nýju séu skýrar. Frávísun málsins frá dómi feli ekki í sér endanlega niður­stöðu þess. Í henni felist að kröfum til rannsóknar eða ákæru, sem fram komi í lögum nr. 19/1991, hafi ekki verið fullnægt og af þeim sökum sé ekki hægt að leggja dóm á málið. Hafi lengi verið viðurkennt að við slíkar aðstæður sé lögreglu heimilt og rétt að bæta úr þeim ágöllum sem taldir séu á málsmeðferð og gefa út ákæru að nýju ef ástæða þyki til. Megi í því sambandi benda á Handbók um meðferð opinberra mála, sem gefin hafi verið út af dómsmálaráðuneytinu 1992, en þar segi á bls. 223: ,,Ef ákærandi kærir ekki úrskurð héraðsdómara um frávísun eða frávísun er staðfest í Hæstarétti, getur ákærandi lagfært þá annmarka á málatilbúnaði sem ollu frávísun og höfðað mál að nýju á hendur sak­borningi.” Sé því ljóst að engin lagaákvæði standi í vegi fyrir að mál verði tekin til rannsóknar að nýju eftir frávísun þess.

Sóknaraðili vísi til þess að málsmeðferð sem feli í sér að lögregla og ákæruvald geti hafið nýja rannsókn á máli á grundvelli upplýsinga og gagna sem fram komi við efnismeðferð viðkomandi sakarefna fyrir dómi, myndi ekki teljast réttlát málsmeðferð skv. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og vera í andstöðu við þessi ákvæði. Að mati varnaraðila sé sá skilningur sóknaraðila rangur. Rannsókn sú sem legið hafi til grundvallar ákæru hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til lögreglurannsóknarinnar áður en ákvörðun hafi verið tekin um útgáfu ákæru og hafi málinu því verið vísað frá héraðsdómi. Úr þeim ágöllum standi til að bæta. Sóknaraðili fái fulla möguleika á að taka til varna gegn því sem hugsanlega komi fram og sönnunarbyrði hvíli eftir sem áður á ákæruvaldi um öll atriði. Sé því alls ekki unnt að sjá að ekki sé um réttláta málsmeðferð að ræða og fari fjarri að brotið sé gegn þeim ákvæðum sem sóknaraðili vísi til. Ef mistök lögreglu eða ákæruvalds á fyrri stigum máls leiði hins vegar til þess að óeðlileg töf teljist hafa orðið á rannsókn máls myndi það á hinn bóginn geta haft áhrif á ákvörðun refsingar, verði ákæra gefin út og sóknaraðili sakfelldur.

Þá vísi sóknaraðili til þess að ekki verði séð að dómstólar geti talist sjálfstæðir eða óvilhallir í umfjöllun um sakarefni sem þeir hafi áður fjallað efnislega um eða að jafnræði sé með aðilum ef ákæruvald geti hafið rannsókn og eftir atvikum gefið út ákæru á grundvelli þess sem fram komi við dómsmeðferð máls. Varnaraðili telji óeðlilegt að vísa með þeim hætti til dómstóla í heild sinni. Spurningum megi velta upp um hæfi dómara til að taka til meðferðar ákæru sem gefin sé út eftir nánari rannsókn máls ef hann hafi haft með það að gera á fyrri stigum þess, en að draga í efa sjálfstæði og hæfi dómstóla í heild sinni til að taka slík mál til meðferðar fái ekki staðist.

Loks vísi sóknaraðili til þess að í dómi Hæstaréttar hafi falist að sakarefninu sé endanlega lokið og að ekki sé heimilt að hefja rannsókn þess að nýju. Varnaraðili sé því ósammála og telji þvert á móti að í niðurstöðu Hæstaréttar felist að málið sé að nýju komið í hendur ákæruvalds, sem geti þá beint tilmælum til lögreglu að rannsaka tiltekna þætti þess betur, til að unnt sé að taka ákvörðun um hvort efni séu til að gefa út ákæru í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar felist að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað þegar ákæra hafi verið gefin út og sé því eðlilegt að úr því sé bætt og ákvörðun um hvort sækja skuli sóknaraðila til sakar verði tekin í kjölfarið.

Niðurstaða:

Með ákæru ríkislögreglustjóra 16. apríl 2004 var opinbert mál höfðað á hendur sóknaraðila fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ársreikninga, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum um endur­skoðendur með því að hafa á árunum 1993 til 2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga B, með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum B fyrir árin 1992 til 2000 áritað ársreikninga án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa við endurskoðunarvinnuna aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og ekki kannað á fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir lágu og þannig ekki hagað endurskoðunar­vinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Með dómi Héraðsdóms Reykja­víkur 9. nóvember 2004 var ákærði sýknaður af refsikröfum ákæruvalds. Dómi héraðs­dóms var af ákæruvaldsins hálfu áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi 12. maí 2005 í málinu nr. 509/2004 vísaði málinu frá héraðsdómi. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að mjög hafi skort á að rannsókn málsins hafi náð því markmiði sem fyrir væri mælt um í 67. gr. laga nr. 19/1991. Þá væri til þess að líta að verknaðarlýsing í ákæru væri verulegum annmörkum háð. Vegna alls þessa yrði ekki komist hjá að vísa málinu að sjálfsdáðum frá héraðsdómi. Með bréfum varnaraðila 20. og 24. október 2005 var sóknar­aðila gerð grein fyrir því að ákveðið hafi verið að taka málið til rannsóknar að nýju og ráða bót á tilgreindum annmörkum í rannsókn málsins. Í kjölfar þeirra bréfa hefur sóknaraðili lagt úrlausnarefni máls þessa fyrir dómstóla.

Um heimild til að leita úrlausnar héraðsdóms um kröfur sínar vísar sóknaraðili til 75. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt ákvæðinu má bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal um ósk þeirra um tilteknar rannsóknar­aðgerðir. Úrlausn dómara skal vera í úrskurðarformi sé þess krafist. Með kröfum sínum er sóknaraðili að bera undir dómara lögmæti þeirra rannsóknarathafna lögreglu er felast í því að taka að nýju upp rannsókn á sakargiftum á hendur honum, sem m.a. felast í því að skýrsla verði tekin af A fyrrum framkvæmdastjóra B. Jafnframt er höfð uppi krafa er lítur að réttarstöðu sóknaraðila við rannsóknina. Er sóknaraðila fært að leita úrlausnar dómsins um þessi atriði á grundvelli ofangreindrar lagaheimildar.

Kröfur sóknaraðila lúta að því að varnaraðila sé óheimilt að hefja á ný rannsókn á sakarefnum er lágu til grundvallar ákæru varnaraðila 16. apríl 2004, eftir að sóknaraðili hafi varist þeim fyrir héraðsdómi, sem í kjölfarið kvað upp efnisdóm í málinu. Svo sem fram kemur í 3. mgr. 119. gr. laga nr. 19/1991 skal héraðsdómari þegar eftir að honum hefur verið send ákæra í máli líta til þess hvort gallar séu á málatilbúnaði sem geta varðað frávísun málsins. Eins getur komið fram frávísunarkrafa við þingfestingu máls eða í þinghaldi skv. 127. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 128. gr. laganna. Ef svo hagar til gefur dómari ákæranda og ákærða kost á að tjá sig um málið, en tekur í kjölfarið afstöðu til kröfunnar með úrskurði. Úrskurð héraðsdóms um frávísun máls frá dómi er unnt að bera undir Hæstarétt Íslands með málskoti á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Svo sem hin tilvitnuðu ákvæði bera með sér skal jafnan líta til þess á fyrstu stigum meðferðar máls eftir útgáfu ákæru hvort slíkir gallar séu í málatilbúnaði ákæruvalds að leiða eigi til frávísunar máls. Tilgangur frávísunar við slíkar aðstæður er að gefa ákæruvaldi færi á að lagfæra grundvöll málsins, ýmist með því að úr rannsókn verði bætt eða að ákæra verði færð í nýjan og betri búning. Eru ráðstafanir þessar í samræmi við þær meginreglur er búa að baki málsmeðferð fyrir dómi, hvort sem um einkamál eða opinbert mál er að ræða, að ráða skuli úr formhlið máls áður en tekið er til við efnislega úrlausn. Ef opinberu máli er vísað frá dómi á þessum grundvelli eru ákæruvaldi settir frestir í 5. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940 til að hefjast handa við að bæta úr ágöllum á málatilbúnaði, að viðlagðri fyrningu sakar. Hvorki lög nr. 19/1991 né lög nr. 19/1940 gera greinarmun í þessum efnum á réttaráhrifum þess hvort máli sé vísað frá dómi þegar á upphafsstigum máls eða hvort það gerist eftir að efnismeðferð hefur farið fram í máli, enda ekki loku fyrir skotið að á síðari stigum komi í ljós að rannsókn máls sé að einhverju leyti áfátt. Með dómi Hæstaréttar Íslands 12. maí 2005 var kveðið á um frávísun máls nr. 509/2004 frá héraðs­dómi. Verður að ætla að tilgangur æðri réttar með frávísun hafi verið að gefa lögreglu og ákæruvaldi færi á að bæta úr tilgreindum ágöllum sem vörðuðu bæði lögreglurannsókn og ákærusmíð, enda hefði rétturinn að öðrum kosti sýknað ákærða af kröfum ákæruvaldsins á þeim grundvelli að sakir væru ekki sannaðar með þeim sönnunargögnum er færð voru fyrir dóminn. Í þessu ljósi eru ekki efni til að grípa inn í þá lögreglurannsókn er nú fer fram og varðar sóknaraðila.

Auk kröfu um lögmæti þess að rannsókn hefjist að nýju varðandi sakarefni sem voru grundvöllur ákæru í hæstaréttarmálinu nr. 509/2004 hefur sóknaraðili haft uppi kröfu um að héraðsdómur úrskurði að sóknaraðili hafi ekki réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar þeirra sakarefna. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu dómsins er sjálfgefið að sóknaraðili mun áfram vera í stöðu sakbornings í rannsókninni, enda getur réttarstaða hans ekki breyst við það eitt að lögreglurannsókn verði fram haldið. Verður öllum kröfum hans því hafnað.  

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, X, um að héraðsdómur úrskurði að óheimilt sé að hefja lögreglurannsókn að nýju á þeim sakarefnum sem voru grund­völlur ákæru í hæstaréttarmálinu nr. 509/2004, að óheimilt sé að taka lögregluskýrslu af A fyrrum framkvæmdastjóra B sem vitnis um þau sakarefni og að sóknaraðili hafi ekki réttarstöðu sakbornings vegna þeirra sakarefna, er hafnað.