Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2016

Barnaverndarnefnd A (Ása A. Kristjánsdóttir hdl.)
gegn
K (Guðmundína Ragnarsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að sonur K skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2016, þar sem sóknaraðila var heimilað að vista son varnaraðila, B, utan heimilis hennar í tvo mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að áðurnefndur sonur varnaraðila verði vistaður utan heimilis hennar í 12 mánuði frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðmundínu Ragnarsdóttur héraðsdómslögmanns, 500.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. mars 2016

                                                                             

 

Mál þetta var móttekið hjá Héraðsdómi Reykjaness 11. janúar 2016 og tekið til úrskurðar 10. mars sl. Sóknaraðili er barnaverndarnefnd A en varnaraðili er K, [...],[...].

Sóknaraðili krefst þess að barn varnaraðila, K, kt. [...], [...], [...], B, kt. [...] verði  vistað utan heimilis á vegum barnverndarnefndar A í allt að 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að hafnað verði að barn hennar verði vistað utan heimilis í 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar og þess krafist að varnaraðila verði afhent barnið nú þegar. Til vara er þess krafist að barnið verði vistað utan heimilis í skemmri tíma en krafa sóknaraðila tekur til. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

I

                Málavaxtalýsing sóknaraðila

Í beiðni sóknaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili sé  fædd í [...] og hafi alist þar upp til sex ára aldurs er hún flutti til móður sinnar sem var gift stjúpföður hennar á Íslandi. Varnaraðili hafi búið við erfiðar uppeldisaðstæður og m.a. verið beitt ofbeldi af hálfu móður. Barnaverndarafskipti hafi verið af varnaraðila þegar hún var að alast upp og hún m.a. vistuð utan heimilis hjá föðursystur. Varnaraðili hafi verið í þjónustu BUGL þegar hún var unglingur vegna kvíða og þunglyndis.

Í málsgögnum kemur að öðru leyti eftirfarandi fram: Þann 17. júlí 2014 barst tilkynning frá göngudeild mæðraverndar LSH vegna neyslu varnaraðila á meðgöngunni. Varnaraðili var þá búsett hjá stjúpföður sínum að [...], [...]. Í tilkynningu kom fram að móðir hefði verið í dagneyslu kannabis á meðgöngunni og væri í stormasömu sambandi við barnsföður sinn sem hefði ítrekað beitt hana ofbeldi. Í tilkynningu kom fram að móðir hefði ítrekað reynt að ljúka sambandinu við barnsföður sinn en það hefði gengið illa og að hún óttaðist barnsföður sinn.

Þann 12. ágúst 2014 hafði lögreglan afskipti af heimili varnaraðila. Lögregla hafði verið kölluð til á heimilið vegna heimilisófriðar. Þegar lögreglu bar að garði var megna kannabislykt að finna frá bílskúrnum. Fannst töluvert af kannabisefnum í bílskúrnum ásamt tækjum til ræktunar sem varnaraðili sagði lögreglu að barnsfaðir hennar ætti.

Varnaraðili kom til viðtals við félagsráðgjafa barnaverndar þann 31. júlí 2014. Greindi hún þá frá því að kærasti hennar og barnsfaðir, C, legði hart að henni að fara í fóstureyðingu og beitti hana andlegu ofbeldi. Varnaraðili var tvístígandi um hvort hún ætlaði að halda áfram meðgöngunni eða ekki. Varnaraðili hafði í eitt sinn leitað í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis af hálfu barnsföður síns. Í kjölfar þess viðtals reyndist erfitt fyrir sóknaraðila að ná sambandi við varnaraðila en hún var ekki með gsm-síma þar sem barnsfaðir hennar tók símana af henni. Aflað var upplýsinga félagsráðgjafa á kvennadeild sem sagði móður mæta illa í bókuð viðtöl og að hún hefði ekki heldur mætt í viðtöl hjá FMB (Foreldrar-meðganga-barn) teymi sem sótt hafði verið um fyrir hana. Ákveðið var að starfsmaður barnaverndar færi og hitti varnaraðila á heimili hennar þann 3. október 2014. Í þeirri heimsókn sagði móðir að hún væri nú laus úr sambandi sínu við kærastann og væri nú orðin spennt fyrir komu barnsins. Varnaraðili mætti í bókað viðtal hjá félagsráðgjafa barnaverndar þann 6. október 2014. Sagði hún líðan sína vera ágæta og vildi hún fá að bíða með að þiggja þjónustu FMB-teymis að svo stöddu. Varnaraðili var í reglulegum vímuefnaprufum í áhættumæðravernd LSH og mældist neikvæð fyrir frekari neyslu kannabis eftir að tilkynning hafði verið send til barnaverndar A.

Varnaraðili skrifaði undir meðferðaráætlun þann 14. október 2014. Markmið áætlunar var að varnaraðili héldi sig frá neyslu vímuefna og annarra ávanabindandi lyfja. Jafnframt var varnaraðili hvött til að þiggja þá faglegu aðstoð sem henni stæði til boða vegna sinnar andlegu vanlíðunar á geðsviði LSH svo að hún væri betur í stakk búin að takast á við foreldrahlutverkið.

D, stjúpfaðir varnaraðila, hafði samband við starfsmenn barnaverndar þann 18. desember 2015 og lýsti miklum áhyggjum af andlegri líðan varnaraðila og því að barnsfaðir hennar væri fluttur inn á hana. Sama dag hafði ljósmóðir á kvennadeild samband við starfsmenn barnaverndar og greindi frá því að varnaraðili hafi ekki mætt í mæðraskoðun frá  14. nóvember eða í um sex vikur.

Drengurinn B er fæddur þann [...].[...] 2015. Starfsmaður barnaverndar heimsótti varnaraðila á fæðingardeildina stuttu eftir fæðingu drengsins. Varnaraðili fékk stuðning heimaþjónustu ljósmóður heilsugæslunnar eftir fæðingu og gekk vel með drenginn fyrstu vikunnar.

Í febrúar barst tölvupóstur frá E, föðursystur varnaraðila, þar sem hún lýsti áhyggjum sínum af henni. Sagði hún varnaraðila vera að berjast við þunglyndi og henni gengi illa að losa sig við barnsföður sinn, hann væri stjórnsamur inni á heimilinu og erfitt væri að setja honum mörk.

Starfsmaður barnaverndar fór ásamt félagsráðgjafa í ráðgjafa- og íbúðadeild í vitjun heim til varnaraðila í febrúar. Lét varnaraðili þá vel af sér, sagðist óska eftir frekari stuðningi og var tilbúin að hefja meðferð í FMB-teymi. Haldinn var fundur með starfsmanni FMB-teymis, félagsráðgjafa í barnavernd og móður í kjölfarið. Á þeim fundi var sett upp frekara meðferðarplan fyrir varnaraðila innan FMB-teymis og rætt um áherslur í meðferð. Óskaði varnaraðili þá eftir að mæta til viðtals á tveggja vikna fresti í FMB-teymi. Hún mætti í bókað viðtal tveimur vikum síðar, þann 16. mars 2015.

Tilkynning undir nafnleynd barst barnavernd að morgni 31. mars 2015 þar sem áhyggjur voru af ógnandi hegðun barnsföður í garð heimilisfólks að [...]. Auk þess var grunur um að vafasöm starfsemi ætti sér stað í bílskúrnum eins og ræktun og/ eða sala á fíkniefnum. Í kjölfarið fóru starfsmenn barnaverndar ásamt lögreglu á heimilið. Varnaraðili var ein heima og var heimilið mjög ósnyrtilegt að sjá. Lögreglan kannaði bílskúrinn og staðfesti að kannabislykt mætti finna í gegnum opinn glugga. Í bílskúrnum fundust plöntur og tæki til ræktunar, að auki töluvert magn í söluumbúðum og efni.  Varnaraðili neitaði að hafa haft vitneskju um það sem átt hefði sér stað í bílskúrnum. Í framhaldinu var varnaraðila fylgt á heilsugæsluna og mældist hún jákvæð fyrir neyslu kannabis. Sagðist hún síðast hafa reykt kannabis um það bil tveimur vikum fyrr, ekki væri um nýlega neyslu að ræða. Varnaraðili kom í kjölfarið til viðtals á skrifstofu barnaverndar þar sem farið var yfir stöðu máls. Ekki var talið öruggt að varnaraðili yrði áfram á heimilinu með barnið í ljósi þess sem á undan hafði gengið. Óskaði varnaraðili eftir að henni og barninu yrði komið fyrir hjá föðursystur hennar. Varnaraðili samþykkti vistun barnsins til tveggja vikna og skrifaði einnig undir meðferðaráætlun til loka maí. Í meðferðaráætlun kom fram að varnaraðili ætti að halda sig frá barnsföður sínum, fara í fíkniefnaprufur og nýta sér stuðnings FMB-teymis og tilsjónar. Varnaraðili átti bókað viðtal í FMB-teymi þann 7. apríl 2015 en mætti ekki.

Mál drengsins kom upp á bakvakt barnaverndar þann 11. apríl 2015 þegar vistunaraðili drengsins, föðursystir varnaraðila, hringdi á bakvakt og sagði varnaraðila ekki hafa skilað sér heim til hennar með drenginn. Sagðist hún telja að móðir væri hjá föðurömmu barnsins. Bakvaktarstarfsmaður fór á staðinn og kannaði aðstæður. Rætt var við varnaraðila um að virða vistunarsamning og skila sér heim fyrir kl. 20 um kvöldið og dvelja þar um nóttina. Móðir skilaði sér ekki fyrr en um miðnætti á laugardeginum. Rætt var við varnaraðila á mánudeginum sem sagði frænku sína vera að segja ósatt til um að hún hefði ekki skilað sér til hennar á föstudagskvöldinu. Varnaraðila var fylgt í vímuefnaleit á heilsugæslu og mældist að nýju jákvæð fyrir neyslu kannabis. Fór hún í kjölfarið í magnmælingu á göngudeild fíknimeðferðar LSH. Niðurstöður þeirrar magnmælingar sýndu hæstu gildi kannabis í þvagi.

Varnaraðili kom að nýju til viðtals 15. apríl ásamt Stefáni Karli Kristjánssyni, lögmanni sínum. Farið var fram á við varnaraðila að hún samþykkti tveggja mánaða vistun drengsins. Móðir samþykkti vistun drengsins utan heimilis.

Varnaraðila var boðið viðtal hjá starfsmanni 28. apríl en mætti ekki og afboðaði ekki. Varnaraðili mætti í boðað viðtal 29. apríl ásamt nýjum lögmanni sínum, Kolbrúnu Þorkelsdóttur hdl. Í viðtalinu var rætt um mögulega vistun drengsins til lengri tíma meðan móðir myndi ná tökum á sínum fíknivanda. Varnaraðili lýsti ekki miklum vilja til að leita sér meðferðar og taldi sig ekki hafa þörf fyrir vímuefnameðferð. Taldi hún sig geta hætt sjálf neyslu. Varnaraðili lýsti vanmætti sínum varðandi umönnun barnsins og sagðist ekki treysta sér til að annast drenginn að svo stöddu. Í viðtalinu greindi varnaraðili frá því að hún væri í dagneyslu kannabisefna. Sagðist hún reykja um tvær jónur af kannabisi á dag og virtist vera undir áhrifum vímuefna.

Málið var lagt fyrir að nýju á meðferðarfundi þann 30. apríl 2015 þar sem bókað var að alvarlegar áhyggjur væri af stöðu málsins. Varnaraðili væri í dagneyslu kannabisefna og hefði ekki vilja eða getu til að hætta neyslu, sækja meðferð og skapa drengnum viðunandi uppeldisaðstæður. Ákveðið var að afla samþykkis móður en ella leggja málið fyrir barnaverndarnefnd með tillögu að vistun drengsins utan heimilis í allt að 12 mánuði.  Drengurinn hafði þá verið vistaður utan heimilis með samþykki móður frá 16. apríl 2015.

Varnaraðili fór aftur í magnmælingu 6. maí 2015 og mældist þá í hæstu gildum kannabis í þvagi. Varnaraðili fór að nýju í magnmælingu miðvikudaginn 13. maí 2015. Mældist hún þá enn á ný í hæstu gildum kannabis í þvagi. Ákveðið var á fundi með varnaraðila og lögmanni sama dag að reyna að auka umgengni við drenginn með því skilyrði að varnaraðili hætti neyslu kannabis. Meðferðarmöguleikar varnaraðila voru einnig ræddir og sýndi varnaraðili áhuga á að fara í dagdeildarmeðferð á Teigi, geðsviði LSH. 

Ekki varð úr því að unnt væri að auka umgengni við drenginn þar sem varnaraðili stóð ekki við skilyrði um að barnsfaðir hennar yrði ekki viðstaddur umgengni. Vistforeldrar drengsins fóru með drenginn í umgengni við varnaraðila fimmtudaginn 14. maí 2015. Faðir var þá staddur á heimilinu og var ógnandi í hegðun að mati vistforeldra. Lögmanni móður var í kjölfarið sendur tölvupóstur þess efnis að ekki yrði um frekari umgengni að ræða fyrr en málið hefði verið lagt fyrir barnaverndarnefnd A þann 28. maí.

Varnaraðili mætti ásamt lögmanni sínum til fundar barnaverndarnefndar A þann 28. maí sl. Á fundinum hafnaði varnaraðili vistun drengsins utan heimilis í 12 mánuði en lýsti sig tilbúna til þess að samþykkja vistun hans til eins mánaðar og fengi hún daglega umgengni við hann. Þá sagðist hún vilja leita sér meðferðar á Teigi og að mánuði loknum myndi hún vistast ásamt syni sínum í úrræði á vegum barnaverndar.

Varnaraðili mætti ásamt lögmanni sínum á fund barnaverndarnefndar þann 28. maí 2015 þar sem hún mótmælti tillögu starfsmanna. Málið var því tekið til úrskurðar og ákveðið að vista barnið utan heimilis í tvo mánuði og leita eftir úrskurði héraðsdóms um lengri vistun eða í allt að sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara. Þá var lagt fyrir starfsmenn að aðstoða varnaraðila í að skapa henni og barninu öruggt umhverfi og tryggja að hún fengi aðstoð við að vinna úr áfallasögu og leiðbeina henni með aðbúnað barns á heimili. Að lokum var lagt fyrir varnaraðila að undirgangast forsjárhæfnismat. 

Eftir fund barnaverndarnefndar tók Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður við máli varnaraðila þar sem fyrri lögmaður móður hafði látið af lögmennsku. Reynt var ítrekað að ná sambandi við varnaraðila í síma til að ræða möguleg meðferðarúrræði en án árangurs. Starfsfólk fíknigeðsviðs LSH lagði áherslu á að varnaraðili færi í afeitrun á Vogi áður en hún gæti hafið meðferð á Teigi og var henni tilkynnt að hún gæti hafið meðferð á Vogi 16. júní sl. Varnaraðili hafði efasemdir um að Vogur væri góður staður fyrir sig og óskaði eftir annars konar úrræði. Gerð var varaáætlun með fagfólki fíknigeðsviðs LSH varðandi meðferðarúrræði fyrir varnaraðila sem fólst m.a. í því að hún gæti fengið afeitrun í gegnum göngudeild. Varnaraðili mætti í fyrsta tíma hjá hjúkrunarfræðingi á göngudeild fíknimeðferðar þann 16. júní 2015. Greindi varnaraðili þá hjúkrunarfræðingi frá því að hún teldi sig ekki hafa þörf fyrir frekari meðferð. Var henni boðið að skila þvagprufu til staðfestingar á lækkuðum gildum kannabis í þvagi sem hún hafnaði. Varnaraðila var boðið að koma aftur daginn eftir til að hægt væri að framkvæma magnmælingu sem gæti mögulega sýnt fram á lækkuð gildi kannabis í þvagi svo unnt væri að auka umgengni hennar við barnið. Varnaraðili þáði ekki það boð og mætti næst í bókað viðtal viku síðar eða þann 24. júní. Skilaði varnaraðili þá neikvæðri prufu í vímuefnaleit en hafnaði boði um að mæta í grunnhóp fyrir Teig. Varnaraðili mætti í þriðja tíma á göngudeild fíknimeðferðar 7. júlí þar sem hún skilaði að nýju neikvæðri vímuefnaprufu.

Ekki þótti forsvaranlegt fyrir barnið að dvelja lengur í skammtímavistun og var því þann 1. júní 2015 sótt um fósturheimili fyrir drenginn á vegum Barnaverndarstofu. Aðlögun drengsins á heimili F fósturforeldris lauk þann 5. júlí 2015 en fram að þeim tíma dvaldi drengurinn á vistheimili barna í Hafnarfirði. Í greinargerð frá vistforeldrum, sem dagsett er þann 26. júlí 2015, kemur fram að samskipti og umgengni við varnaraðila hafi í fyrstu gengið vel en á síðari hluta vistunartíma voru samskipti við varnaraðila engin og að sama skapi ekki umgengni heldur.

Í byrjun júlímánaðar 2015 tók Stefán Karl Kristjánsson hrl. aftur við málinu. Haldinn var fundur með varnaraðila, barnsföður hennar og lögmanninum. Á fundinum sagðist móðir vera tilbúin til að fara í meðferð á Teigi. Ekkert varð hins vegar af því að varnaraðili mætti í grunnhóp vegna meðferðar á Teigi. 

Umgengni foreldra við drenginn var áætluð í húsnæði barnaverndar þann 20. júlí 2015. Foreldrar skiluðu ekki staðfestingu á vímuefnaleit á skrifstofu barnaverndar og var því umgengni þann dag felld niður. Foreldrum var gefið tækifæri til að fá umgengni við drenginn þann 22. júlí þrátt fyrir að hafa ekki staðið við skilyrði um vímuefnaleit. Varnaraðili hafði samband símleiðis þann dag og afboðaði umgengni vegna veikinda. Aðspurð um hvort faðir hygðist nýta sér umgengi sagði varnaraðili að faðir væri að sækja um vinnu og væri því upptekinn. Næsta umgengni foreldra við drenginn var áætluð þann 30. júlí. Foreldrar höfðu þá leitað til heimilislæknis varnaraðila og skilað þvagi fyrir vímuefnaleit sem þau komu með með sér á heilsugæslustöð. Var rætt við heimilislækni um að ekki væri tekið mark á prufum sem ekki væru framkvæmdar á staðnum í viðurvist læknis eða hjúkrunarfræðings. Móðir var því beðin um að mæta á heilsugæsluna og skila nýrri prufu. Játti hún því og ætlaði að mæta til að skila þvagprufu að nýju. Foreldrar skiluðu sér ekki í vímuefnaleit þann daginn og var umgengni því felld niður. Næsta umgengi var áætluð þann 4. ágúst 2015. Ekki heyrðist frá foreldrum þann dag og var reynt að ná í varnaraðila símleiðis um hádegi en slökkt var á símanum. Var í kjölfarið reynt að ná í síma föður sem sagði móður vera í líkamsrækt. Var faðir minntur á áætlaða umgengni síðar þann dag. Skiluðu foreldrar sér í vímuefnaleit og varð því af umgengni.

Málið var tekið fyrir að nýju á meðferðarfundi þann 20. ágúst þar sem samþykkt var að styrkja móður til greiðslu sálfræðiviðtala sem hluta af meðferðaráætlun.

Þann 27. júlí 2015 var lögð fram beiðni um úrskurð um vistun barns utan heimilis til sex mánaða skv. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ákveðið var að fella málið niður þar sem aðilar gerðu með sér samkomulag 8. september 2015. Með samkomulaginu samþykkti varnaraðili vistun drengsins utan heimilis til 15. nóvember 2015 og að sinna meðferð og endurhæfingu. Umgengni móður við drenginn skyldi aukast stigbundið og jafnframt var sett upp áætlun um aðlögun drengsins að heimili móður sem hefjast ætti þann 2. nóvember 2015. Markmið áætlunar var að varnaraðili héldi sig frá neyslu vímuefna og annarra ávanabindandi lyfja en einnig að styðja varnaraðila til að þiggja þá faglegu aðstoð sem henni stendur til boða. Varnaraðili samþykkti að undirgangast forsjárhæfnismat, vinna að endurhæfingu sinni í samráði við heimilislækni og félagsráðgjafa og að sækja sér sálfræðiaðstoð með það að markmiði að bæta andlega líðan sína og vinna úr áföllum sem hún hefur orðið fyrir. Miðað var við að varnaraðili hefði lokið a.m.k. fimm viðtölum hjá sálfræðingi áður en meðferðaráætlun væri úr gildi fallin. Eftir að samkomulagið var undirritað barst tilkynning frá lögreglu þess efnis að föstudaginn 28. ágúst 2015 hafi lögreglan farið á heimili varnaraðila á [...] eftir að lögreglu hafði borist tilkynning um að kannabislykt væri á heimilinu. Samkvæmt skýrslu lögreglu var rætt við foreldra á heimilinu. Farið var inn á heimilið og var þar ekkert saknæmt að sjá. Í skýrslu lögreglu kemur fram að kannabisfnykur var innan dyra. Þrættu foreldrar fyrir neyslu kannabisefna.

Varnaraðili mætti ekki í bókað viðtal til félagsráðgjafa 31. ágúst 2015 og afboðaði sig ekki. Var í kjölfarið haft samband við lögmann hennar sem gaf þær skýringar að móðir væri með flensu og hefði verið veik í fjóra daga. Var umgengni þann 1. september 2015 í kjölfarið felld niður vegna veikinda móður.

Umgengni í septembermánuði gekk misvel og afboðuðu foreldrar í einhver skipti umgengni vegna veikinda. Einnig gekk ekki eftir að fá varnaraðila í bókuð viðtöl hjá félagsráðgjafa barnaverndar eins og ákveðið hafði verið í meðferðaráætlun. Þann 26. september 2015 átti umgengni að fara fram á heimili varnaraðila að [...], [...]. Þegar yfirsetuaðili mætti með drenginn í umgengni voru foreldrar ekki heima en umgengni var áætluð frá kl. 12-18. Föðuramma drengsins var heima og tjáði yfirsetuaðila að foreldrar væru ekki búsettir á heimilinu. Faðir mætti 40 mínútum eftir að umgengni átti að hefjast eftir að móðir hans hafði haft samband við hann símleiðis. Varnaraðili mætti 75 mínútum eftir að umgengni átti að hefjast eftir að haft hafði verið samband við hana símleiðis. Að sögn yfirsetuaðila var faðir ör og æstur. Greindi hann yfirsetuaðila frá því að foreldrar væru búnir að gera önnur plön fyrir daginn og að þessi tímasetning hentaði þeim illa fyrir umgengni. Eftir að faðir kom á staðinn varð drengurinn órólegur og ergilegur. Greindi faðir þá frá því að honum þætti ekki skemmtilegt að vera með barnið pirrað í umgengni. Ekki tókst að róa drenginn og lagði yfirsetuaðili þá til að umgengni yrði stöðvuð.

Þann 6. október var áætlað að drengurinn myndi gista hjá móður í fyrsta sinn. Þar sem ekki hafði verið staðið við mikilvæga þætti sem sátt hafði verið um var ákveðið að taka umgengnisáætlun til endurskoðunar. G sálfræðingur hafði ekki getað lokið forsjárhæfnismati líkt og lagt var upp með fyrir 6. október 2015 þar sem móðir mætti ekki í boðuð viðtöl til hans og ekki reyndist unnt að ná í hana símleiðis. Jafnframt hafði móðir ekki mætt í bókuð viðtöl hjá félagsráðgjafa barnaverndar dagana 31. ágúst, 21. september og 23. september 2015 líkt og kveðið var á um í meðferðaráætlun né sinnt öðru sem kveðið var á um í meðferðaráætlun. Búseta foreldra var jafnframt óljós en foreldrar sögðust vera búsett í [...]. Boðað var til fundar með varnaraðila og lögmanni hennar þann 7. október. Á fundinum óskaði varnaraðili eftir öðru tækifæri til að ljúka forsjárhæfnismatinu.

Varnaraðili mætti í bókað viðtal hjá félagsráðgjafa barnaverndar þann 12. október 2015 samkvæmt meðferðaráætlun. Með henni í viðtalið mætti barnsfaðir hennar. Viðtalinu var lokið fyrr en áætlað var þar sem vísa þurfti föður út úr viðtalsherberginu vegna framkomu hans í garð starfsmanna. Þann 16. október hafði íbúi í  [...] samband við lögreglu og vildi koma á framfæri upplýsingum um meinta fíkniefnasölu föður. Varnaraðili afboðaði sig vegna veikinda í umgengi þann 20. október. Breyta þurfti umgengni þann 24. október og hafa umgengni á heimili foreldra vegna vinnslu við forsjárhæfnismat. Umgengni var áætluð þann 31. október en hún féll niður þar sem foreldrar mættu ekki í umgengni. Foreldrar afboðuðu sig ekki. Varnaraðili átti einnig viðtal hjá félagsráðgjafa barnaverndar þann 2. nóvember 2015 samkvæmt meðferðaráætlun en mætti ekki í það og afboðaði sig ekki.

Barnaverndarnefnd ákvað að vista barnið áfram utan heimilis í tvo mánuði og gera jafnframt þá kröfu fyrir dómi að vistunin yrði framlengd þannig að barnið yrði vistað utan heimilis í tólf mánuði frá uppkvaðningu dómsúrskurðar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili gerir þá kröfu að barnið B skuli vistað utan heimilis á vegum barnverndarnefndar A í allt að 12 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því brýnir hagsmunir barnsins kalli á vistun þess utan heimilis varnaraðila.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á að réttur barna til þess að njóta viðunandi uppeldis og umönnunarskilyrða skuli vega þyngra en forsjárréttur foreldra. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og endurspeglist í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum þá vernd sem mælt sé fyrir um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands, barnaverndarlögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili sé vanhæf til þess að veita syni sínum þau uppeldis- og ummönnunarskilyrði sem hann eigi skýran rétt til. Samkvæmt forsjárhæfnismati, sem gert hafi verið af G sálfræðingi, sé sóknarðaðili ekki metinn fær til þess að fara með forsjá barnsins. Samkvæmt matinu hafi varnaraðili mjög takmarkaða sýn á eigin vankanta og ofmeti eigin getu sem uppalanda. Varnaraðili hefur ekki nýtt sér þau úrræði sem henni hafa staðið til boða og erfitt reynst að ná samfellu í meðferð. Telji matsmaður varnaraðila hafa litla áhugahvöt og getu til að sinna stuðningsúrræðum sem henni gætu staðið til boða. Matsmaður mæli með að hugað sé að lengri tíma fósturvistun. Jafnframt mæli matsmaður með að umgengni foreldra við drenginn verði undir eftirliti barnaverndar og í húsnæði á vegum barnaverndar þar sem aðstæður foreldra séu óljósar og hegðun þeirra þannig að ekki sé hægt að treysta þeim einum fyrir drengnum.

Sóknaraðili vísar til þess, sem komi fram í mati, að varnaraðili hafi takmarkað stuðningsnet í kringum sig. Greindarfarslega mælist varnaraðili á tornæmisstigi svo hún hafi takmarkaðar forsendur til þess að bjarga sér án ráðgjafar og stuðnings. Varnaraðili hafi sýnt lítið úthald, þol og getu til að viðhalda hlutum sem hún byrji á. Líklegt sé að það muni einnig verða varðandi örvun drengsins en þroskalegar takmarkanir hennar muni hafa hamlandi áhrif á getu hennar til að örva drenginn. Í bréfi frá meðferðaraðila varnaraðila í FMB-teymi komi fram að þótt varnaraðili hafi haft einlægan ásetning um að nýta sér vel meðferð FMB-teymis hafi strax í fyrsta samtali vaknað efasemdir hjá meðferðaraðila um getu varnaraðila til að tileinka sér það sem rætt var um. Uppvöxtur varnaraðila og æska hafi einkennst af ótryggum aðstæðum sem geti valdið mikilli innri streitu og erfiðum lífs- og þroskaskilyrðum. Megi því gera ráð fyrir því að varnaraðili geti átt erfitt með að setja þarfir barnsins í forgang. Í bréfinu komi fram að enginn vafi sé á því að varnaraðili hafi djúpar tilfinningar til drengsins en það eitt og sér geti ekki mætt þörfum hans til að hann dafni og þroskist eins vel og kostur er. Sé því mikilvægt að mati meðferðaraðila að viðhalda stöðugleika í lífi barnsins.

Sóknaraðili telur ljóst að varnaraðili setji drenginn ekki í forgang í sínu lífi og hafi ekki sýnt neina tilburði til að bæta stöðu sína sem foreldri. Varnaraðili þurfi að taka meiri ábyrgð á sjálfri sér, vera án fíkniefna, leita aðstoðar við kvíða og þunglyndi og hefja endurhæfingu ef hún á að ná að standa sig sem foreldri. Ólíklegt verði að teljast í ljósi forsögunnar að varnaraðili hafi innsæi eða getu til að breyta hlutunum.

Sóknaraðili vísar ennfremur til þess að taka verði mið að því að sonur varnaraðila, sem fæddur sé [...] 2015, hafi verið vistaður utan heimilis frá tæplega þriggja mánaða aldri eða allt frá [...] 2015.  Drengurinn hafi verið hjá fósturmóður síðan í júlí 2015 og aðlagast vel og myndað sterk og góð tengsl. Drengurinn njóti góðrar umönnunar fósturmóður og búi við stöðugt og öruggt umhverfi. Brýnir hagsmunir drengsins standi til þess að þau tengsl verði ekki rofin. Með hliðsjón af þeirri stöðu sem varnaraðili er í í dag sé óverjandi að taka slíka áhættu.  Sóknaraðili vísar til þess að engin meðferðarvinna hafi farið fram með varnaraðila frá því að barnið var vistað. Varnaraðili hafi ekki mælst í neyslu vímuefna undanfarið en engu að síður hafi aðstæður hennar ekki breyst til batnaðar. Varnaraðili sé án framfærslu og án öruggs húsnæðis. Tilraunir hennar til þess að hefja endurhæfingu hafi verið máttlausar, áætlanir hafi verið gerðar oftar en einu sinni sem varnaraðili hafi ekki staðið við. Sóknaraðili hafi lagt sig fram við að kanna öll úrræði sem standi einstaklingum í stöðu varnaraðila til boða og gert ráðstafanir til þess að hún geti gengið að þeim úrræðum en án árangurs.

Varnaraðili hafi í vinnslu málsins sýnt getuleysi til þess að taka ákvarðanir sem miði að hagsmunum drengsins og að hana skorti innsæi í hvað sé honum fyrir bestu. Sóknaraðili bendir þessu til stuðnings á að áður en til kom að vista drenginn utan heimilis hafi varnaraðila verið boðið að þiggja tilsjón inn á heimili sitt. Slíkt úrræði ásamt virkri þátttöku í teymi FMB (fæðing- móðir- barn) og dagdeildarmeðferð vegna vímuefnavanda hefði verið ákjósanlegt m.t.t. að koma í veg fyrir tengslarof. Þessu hafi varnaraðili hafnað og ekki virst sjá hag sinn og drengsins í því að ganga til samstarfs við sóknaraðila og þiggja þann stuðning sem boðinn var. Annað dæmi sé að þegar aðlögun að fósturheimili var hafin og gekk vel hafi varnaraðili og barnsfaðir hennar krafist þess að drengurinn yrði vistaður hjá frænda barnsföður varnaraðila.  Að beiðni lögmanns varnaraðila hafi verið kannaður möguleiki varnaraðila til þess að hefja meðferð hjá teyminu að nýju. Í tölvupósti þann 7. júlí sl. hafi varnaraðili hins vegar neitað að taka þátt í FMB-teymi fyrr en drengnum væri komið fyrir hjá frænda barnsföður hennar.  Framanlýst afstaða varnaraðila og barnsföður hennar gefi ekki þá mynd að þeim sé annt um hagsmuni drengsins eða að þau geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt sé fyrir barn í hans stöðu að sem minnst röskun verði á högum þess. Þá hafi varnaraðili og barnsfaðir hennar sinnt umgengni við drenginn óreglulega og margoft þurft að færa til umgengni eða fella hana niður.

Samskipti við varnaraðila hafi að sama skapi verið afar takmörkuð og svari hún ekki starfsmönnum sóknaraðila í síma nema í undantekningartilvikum sem m.a. geri erfitt að skipuleggja umgengni við barnið. Þetta hafi torveldað vinnslu máls. Varnaraðili hafi ekki upplýst starfsmenn um aðstæður sínar, s.s. búsetu, veikindi, fósturlát, samband við barnsföður, sakamál vegna ræktunar á kannabis og fleira sem gæti hafa haft áhrif á vinnslu málsins. Samskipti varnaraðila hafi að mestu farið fram í gegnum lögmenn hennar en fjórir lögmenn hafa komið að málinu. Ekki hafi náðst samfella í sálfræðimeðferð hjá móður þar sem hún hafi skipt í þrígang um sálfræðing og geti ekki gefið upp nöfn þeirra allra. Heimilislæknir hafi sett upp endurhæfingaráætlun sem ekki hafi verið framfylgt. Mjög alvarlegar áhyggjur séu af úthaldi varnaraðila og getu hennar til þess að ná tökum á lífi sínu.

Til þess að varnaraðili megi vera fær um að taka aftur við umsjón drengsins og tryggja honum öryggi og stöðugleika í uppvexti sé nauðsynlegt að hún leiti sér langtímameðferðar við fíknivanda og vinni úr þeim áföllum sem hún hafi upplifað bæði í æsku og á fullorðinsárum. Þá þarfnist varnaraðili líka þjálfunar og aðstoðar við umönnun og uppeldi barns. Sóknaraðili vísar til þess að öll vægari úrræði hafi verið reynd án árangurs eins og rakið hafi verið ítarlega í málavaxtalýsingu.  Meðferðarúrræði, sem hafi verið boðin, hafi öll beinst að því að styrkja varnaraðila persónulega, efla tengsl hennar og barnsins og gera henni kleift að taka aftur við umsjá barnsins. Því markmiði hafi hins vegar ekki verið náð þar sem varnaraðili hafi lítið innsæi í sinn vanda, vanti úthald til að sinna meðferðarúrræðum og taki ekki ábyrgð á sínu hlutverki sem forsjáraðili barns. 

Lítið sem ekkert hafi áunnist á þeim tíma sem drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis í þá átt að tryggja velferð hans í umsjá varnaraðila og ljóst að varnaraðili þurfi meiri tíma til að vinna á sínum vanda. Sóknaraðili telji því nauðsynlegt, með hliðsjón af því sem er best fyrir barnið, að fara fram á að barnið verði úrskurðað til vistunar utan heimilis í 12 mánuði frá dómsúrskurði svo sem heimild sé til í ákvæði 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga.  Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 1. og 2. gr. og 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um lagaheimild er vísað til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.  Ekki er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

II

Málavaxtalýsing varnaraðila

Varnaraðili lýsir núverandi aðstæðum sínum þannig að hún búi hjá stjúpföður sínum, D, að [...] í [...]. Á sama stað búi H, systir D, en þau eigi saman fasteignina að [...] sem sé fimm herbergja einbýlishús. Aðstæður varnaraðila séu þar mjög góðar, enda sé húsið stórt og rúmgott og þau aðeins þrjú þar í heimili. Auk þessa hafi önnur föðursystir varnaraðila, E, verið varnaraðila mjög góð og hjálpleg allt frá því að hún fluttist til landsins frá [...] á áttunda ári. 

Varnaraðili telur sig eiga mjög góða fjölskyldu og vini sem séu tilbúin að styðja hana og styrkja á allan hátt við uppeldi sonar síns. Varnaraðili telur sig hafa náð tökum á fíkn sinni og hafi fíkniefnaprufur, sem teknar hafi verið allt frá því í júní s.l. verið neikvæðar eða í um níu mánuði. Varnaraðili hafi einnig verið í samtalstímum hjá heimilislækni sínum, I, verið í líkamsrækt og reynt eftir fremsta megni að hafa reglu á daglegu lífi sínu. Mál þetta hafi tekið mjög á varnaraðila og upplifi hún mjög mikið vonleysi og vanmátt gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili hafi slitið sambandi við barnsföður sinn í nóvember s.l. Sambandsslitin hafi tekið nokkurn tíma en í ljósi uppvaxtar varnaraðila sjálfrar hafi hún reynt að halda fjölskyldunni saman svo að barn hennar myndi alast upp hjá móður og föður. Henni hafi þó orðið ljóst í haust að svo myndi ekki verða. Varnaraðili telur líf sitt allt hafa færst til betri vegar í dag utan þess að hafa ekki barn sitt hjá sér.

Varnaraðili kveðst hafa einlægan vilja til að skapa drengnum stöðugleika á heimili sínu. Varnaraðili telur að frá því að ákvörðun barnaverndarnefndar A var tekin þann 28. maí sl. hafi hún eftir fremsta megni staðið við áætlanir um meðferð málsins og að hún hafi vissulega staðið við og uppfyllt þær forsendur sem bókaðar voru í úrskurði barnaverndarnefndar þann 28. maí. sl. Varnaraðili hafi aldrei verið í óreglu áður en hún hitti barnsföður sinn. Hún hafi nú látið af kannabisneyslu en hún hafi aldrei bragðað áfengi. Aðstæður hennar nú séu allt aðrar og betri og telur varnaraðili nú ekki lengur skilyrði til að vista barnið utan heimilis.

Varnaraðili sé ekki í vinnu né skóla og hafi lítils háttar framfærslu frá [...], auk þess að dvelja endurgjaldslaust hjá stjúpföður sínum. Aðstæður hennar séu þannig, frá því að drengurinn var tekinn af henni, að henni finnist að hún geti ekki bundið sig fyrr en eftir að hún fær barnið aftur til sín. Þannig sjái hún fyrir sér að vera heima fyrst um sinn eftir að barnið kemur aftur til hennar til þess að efla tengslamyndun við son sinn og bæta upp fyrir þann tíma sem hann var í burtu. Sóknaraðili hyggst leita eftir aðstoð félagsþjónustunnar þennan tíma en þegar líf þeirra verður fallið í eðlilegan farveg hafi varnaraðili hug á að leita sér að vinnu eða jafnvel að halda áfram námi.

Varnaraðili upplifi samskipti við sóknaraðila á hinn bóginn mjög neikvæð og telur að allt sem hún geri og geri ekki sé túlkað henni í óhag og að henni sé jafnvel „refsað“ af sóknaraðila fyrir smávægileg atvik, jafnvel þótt þau séu ekki varnaraðila að kenna.

Varnaraðili lýsir sig reiðubúna til þess að vinna með sóknaraðila til þess að tryggja barninu hinar bestu mögulegu aðstæður til þroska. Varnaraðili hafi undirgengist forsjárhæfnismat sem hún telur ekki gefa rétta mynd af hæfni hennar til að sinna foreldrahlutverki sínu. Varnaraðili hafi farið fram á að endurmat fari fram á forsjárhæfni hennar en þeirri ósk hafi ekki verið svarað af hálfu sóknaraðila. Þá sé varnaraðili að vinna að meðferðaráætlun með sóknaraðila sem væntanlega ætti að liggja fyrir næstu daga.

Varnaraðili telur að framsetning málavaxtalýsingar í greinargerð sóknaraðila sé á köflum aðfinnsluverð og feli oftar en ekki í sér hálfkveðnar vísur og órökstuddar dylgjur sem eigi væntanlega að lýsa vanhæfni sóknaraðila sem móður. Í málatilbúnaði sóknaraðila sé ítrekað verið að sýna fram á áhugaleysi varnaraðila á hagsmunum barnsins og þá jafnvel með hreinum ósannindum. Þá hafi sóknaraðili sagt að varnaraðili hafi ekki sýnt viðbrögð, verið áhugalaus, sinnulaus og fleira í þessu dúr, en þessar lýsingar eigi eflaust að lýsa því að henni hafi verið sama um hag sonar síns. Því sé harðlega mótmælt sem röngu og ákaflega ósmekklegu. Í gögnum málsins komi fram að varnaraðili komi vel fyrir, sé kurteis, dagfarsprúð og hæglætismanneskja.

Eftir að sátt var gerð í héraðsdómi sl. haust hafi varnaraðili orðið mikið veik. Þetta hafi lögmaður varnaraðila bent á og að veikindi hennar hljóti að skipta máli með hliðsjón af því sem komi fram í forsjárhæfnismati G. Þar sé staðhæft að varnaraðili hafi sinnt illa forsjárhæfnismati.  Niðurstöðu hans sé mótmælt, enda taki hann sjálfur fram í skýrslunni að varnaraðili hafi hóstað mikið, hún hafi upplýst hann um erfiðleika með móðurlífið og að hún hafi verið með lungnabólgu. Eðli málsins samkvæmt hafi líkamleg og andleg geta varnaraðila verið skert á þessum tíma, enda taki mál þetta mikið á hana. Að mati varnaraðila sé skýrsla G því ekki byggð á réttum forsendum. Sem dæmi nefni matsmaður að hann hafi fengið upplýsingar frá barnavernd í [...] um að þann 2. nóvember hafi varnaraðili ekki mætt í umgengni og ekki mætt í viðtal hjá ráðgjafa. Þetta sé hins vegar á misskilningi byggt. Einnig sé rétt að nefna að í niðurstöðu [...] sé staðhæft að varnaraðili hafi ekki sinnt edrúmennskunni, sem sé rangt, enda hafi á þessum tíma ekki mælst kannabis hjá henni frá því í maí sl. Ástæða þess að varnaraðili vildi ekki halda áfram á meðferðarfundum sé einfaldlega sú að hún taldi sig ekki eiga samleið með þeim aðilum sem sátu þar fundi. Þar hafi almennt verið aðilar sem hafi verið fíklar í mörg ár en hún hafi hins vegar átt mjög stutta sögu um neyslu kannabis. Hún hafi því talið að meðferðarúrræðið hafi ekki hjálpað sér. Hún hafi tekið fram að hún ætlaði sjálf að hætta í neyslunni og hún hafi staðið við það hingað til. Í gögnum málsins komi fram að varnaraðili hafi farið í viðtöl til SÁÁ og einnig sótt meðferð til sálfræðinga.

Varnaraðili heldur því fram að það sé enginn mælikvarði á getu hennar til að sinna barni sínu þótt hún hafi ekki mætt í einhver bókuð viðtöl hjá matsmanni eða öðrum meðferðaraðilum. Þá byggi matsmaður niðurstöðu að verulegu leyti á sambandi varnaraðila við barnsföður en varnaraðili hafi slitið sambandi við hann svo í raun sé matið úrelt.

Þá heldur varnaraðili því fram að hringlandaháttur hafi verið varðandi fyrirfram ákveðna umgengnistíma eða réttara sagt hvar umgengni hafi átt að fara fram og á hvaða tíma.

Sóknaraðili haldi því jafnframt fram að erfiðleikum hafi verið bundið að ná í varnaraðila. Þessu sé mótmælt, enda komi fram í gögnum málsins að sóknaraðili hafi ætíð haft greiðan aðgang að lögmönnum varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili haldið því fram að varnaraðili hafi oft á tíðum ekki látið vita af forföllum en sóknaraðili hafi jafnframt tekið fram að ekki sé gefið upp símanúmer hjá starfsmönnum sóknaraðila.

Varnaraðili telur málsmeðferð hjá sóknaraðila verulega áfátt. Þannig telur hún sóknaraðila hafa beitt sig þrýstingi eða þvingun þegar hún hafi óskað eftir aukinni umgengni. Sóknaraðili hafi neitað aukinni umgengni nema varnaraðili skrifaði undir meðferðaráætlun. Umgengni hafi ekki fallið niður frá því að lögmaður varnaraðila óskaði eftir því þann 3. desember sl. að umgengni færi fram á heimili stjúpföður varnaraðila á [...]. Á fundi hjá sóknaraðila þann 15. desember 2015 hafi komið fram hjá varnaraðila að hún upplifði mikla vanlíðan og kvíða yfir því að fara í umgengni fyrir utan heimili sitt þar sem henni fannst starfsmenn sóknaraðila pískra um hana og flissa að henni. Varnaraðili sé hins vegar mjög ánægð með að umgengni fari fram á hennar heimili og að barnið hitti þá einnig fjölskyldu varnaraðila í umgengni.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila og lýsir sig andsnúna kröfu um vistun barnsins utan heimilis í tólf mánuði. Því er haldið fram að slíkt þjóni ekki hagsmunum barnsins en varnaraðili heldur því fram að hagsmunum barnsins sé best borgið með því að það verði hjá móður sinni. Varnaraðili hafi viðurkennt að sér hafi orðið á með fíkniefnaneyslu sinni og hafi hún hætt allri neyslu. Varnaraðili telur að barnið hafi ekki búið við vanrækslu og að gögn málsins sýni að varnaraðili sinnti barni sínu af natni og að drengurinn hafi þroskast eðlilega þann stutta tíma sem hann var hjá móður sinni. Þá hafi barnið ekki verið beitt ofbeldi af hálfu varnaraðila og sýni gögn málsins að varnaraðili sinnti barninu af umhyggju og að barnið hafi brugðist eðlilega við í samvistum við móður sína.

Þá heldur varnaraðili því fram að ofbeldi af hálfu barnsföður í hennar garð geti ekki talist málefnaleg ástæða þess að barn, sem hún ein hefur forsjá yfir, verði vistað utan heimilis. Þess utan sé ekkert í gögnum málsins sem sýni að barnsfaðir hafi beitt varnaraðila ofbeldi fyrir utan það er hún sjálf upplýsti um á meðgöngu. Sú málsástæða eigi því ekki við lengur. Að mati varnaraðila er krafa sóknaraðila til þess fallin að skaða hagsmuni barns hennar og í andstöðu við sjónarmið barnaverndar og laga þar að lútandi. Að mati varnaraðila er tillagan einnig andstæð ákvæðum stjórnsýslulaga þar sem reglu um meðalhóf er ekki gætt. Varnaraðili hefur miklar áhyggjur af því að eftir því sem mánuðirnir líða muni reynast erfiðara fyrir barnið að mynda eðlileg tengsl við móður sína. Sóknaraðili geti auðveldlega náð markmiðum barnaverndar með mun vægari aðgerðum.

Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni sl. haust þegar ljóst var að varnaraðili gat ekki staðið við samkomulag og áætlun um meðferð málsins vegna veikinda.  Í gögnum málsins komi fram að upplýst hafi verið um veikindin.  Því er haldið fram að sóknaraðili hafi þannig ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með því að óska eftir nánari skýringum og læknisvottorðum þegar varnaraðili tilkynnti veikindi og er aðfinnsluvert að starfsmenn geri hreinlega ráð fyrir því að áhuga- eða sinnuleysi varnaraðila hafi verið um að kenna. Varnaraðila hafi ekki verið gefið annað tækifæri til þess að endurvekja samkomulagið eftir veikindin en þess í stað úrskurðaði sóknaraðili að vista skyldi barnið í tvo mánuði utan heimilis og gerði kröfu um að barnið yrði í framhaldinu vistað utan heimilis í tólf mánuði. Þá hafi umgengni við móður einnig verið skert verulega. Sé hér um verulega íþyngjandi ákvörðun sóknaraðila að ræða.

Því er haldið fram að úrskurður sóknaraðila sé hreinlega ekki felldur með hagsmuni barnsins í huga, heldur virðist hann vera liður að því að ná fyrirfram ákveðinni niðurstöðu í málinu. Samkvæmt málsskjölum komi fram að ýmsar greiningar hafi verið gerðar í gegnum tíðina á varnaraðila. Telur varnaraðili að með hliðsjón af þeim niðurstöðum hafi starfsmenn barnaverndar borið skyldu til þess að taka skýrt fram við varnaraðila hverjar afleiðingarnar gætu orðið ef ekki væri mætt vegna veikinda.

Varnaraðili byggir á því að mál hennar hafi ekki verið fyllilega rannsakað, sbr. ákvæði 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Það er mat varnaraðila að sóknaraðili hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi er vakin athygli á að því meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verði að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búa að baki ákvörðun séu sannar og réttar. Vanræksla því samfara sé brot á áðurnefndri 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá verði að telja afar ámælisvert að sóknaraðili hafi ekki kannað að eigin frumkvæði og með sjálfstæðum hætti málsatvik sem leiddu til þess að varnaraðili gat ekki sinnt umgengni eða meðferðaráætlun þegar hún var veik. Á stjórnvaldi hvílir sú skylda að kanna að eigin frumkvæði hvort upplýsingar séu réttar og málefnalegar til að tryggja að ákvörðun um beitingu opinbers valds sé á rökum reist og á réttum og málefnalegum grundvelli.

Auk alls ofangreinds hafi sóknaraðili gróflega brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur úrræði en vistun utan heimilis hafi ekki verið reynd, svo sem stuðningur við varnaraðila í uppeldishlutverkinu eða eftirlit með heimili.

Varnaraðili heldur því fram að krafa sóknaraðila um 12 mánaða vistun fari í bága við fjölmargar meginreglur barnaverndarlaga. Þannig hafi sóknaraðili ekki litið til 2. ml. 1. gr. 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að styrkja varnaraðila í uppeldishlutverki sínu, til 4. gr. laganna um að beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu, 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga um að sýna varnaraðila fyllstu nærgætni og virðingu og loks til 7. mgr. 4. gr. um að barnaverndaryfirvöld skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Varnaraðili heldur því fram að aldrei skuli beita vistun utan heimilis nema telja megi allar bjargir bannaðar og ekki séu neinar aðrar leiðir færar. Eigi það ekki við í þessu tilviki. Varnaraðili heldur því fram að málsmeðferð sóknaraðila í máli hennar sé mun harðari og meira íþyngjandi en í sambærilegum málum. Þannig heldur varnaraðili því fram að það geti heldur ekki verið málefnaleg krafa eða skilyrði hjá sóknaraðila að hún verði að vinna úr áföllum sínum frá barnæsku og unglingsárum til þess að hún geti fengið barn sitt aftur.

Varnaraðili heldur því fram að lagaskilyrðum um vistun barns utan heimilis samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga sé ekki fullnægt. Ákvæðið kveði á um að dómstólar úrskurði um vistun barns utan heimilis ef vistun skal standa lengur en tvo mánuði. Skilyrði 27. gr. um brýna hagsmuni þarf einnig að vera uppfyllt þegar dómstólar úrskurða um vistun barns utan heimilis. Að mati varnaraðila hefur ekki verið sýnt fram á þá brýnu hagsmuni sem barn hennar hefur af því að vera vistað utan heimilis í jafnlangan tíma og krafa sóknaraðila hljóðar á um. Ákvæði 28. gr. barnaverndarlaga er það úrræði sem næst lengst gangi í barnaverndarlögum sem heimili allt að 12 mánaða vistun barns utan heimilis. Einungis ákvæði 29. gr. laganna gangi lengra og sé þá um að ræða forsjársviptingu. Barnavernd hafi með bókun sinni þann 12. nóvember sl. ákveðið að fullnýta þann vistunartíma sem ákvæði 28. gr. heimili og krefjist þess að barnið verði vistað utan heimilis í 12 mánuði. Varnaraðili telur þessa ákvörðun barnaverndarnefndar ganga allt of langt og að ekki sé tekið tillit til þess að hún hafi haldið sig frá neyslu vímuefna í níu mánuði.

Að framangreindu virtu telur varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila. Til stuðnings þeirri kröfu að sóknaraðili afhendi varnaraðila nú þegar drenginn vísar varnaraðili til þeirrar meginreglu barnalaga og barnaverndarlaga að barn skuli vera þar sem því er fyrir bestu, sbr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Til vara er þess krafist að sonur varnaraðila verði vistaður utan heimilis til mun skemmri tíma en krafa sóknaraðila tekur til og ekki lengur en sem nemur tveimur mánuðum. Jafnframt er þess krafist að umgengni móður við barn verði aukin verulega og að aðlögun að heimili móður hefjist þegar í stað. Varnaraðili lýsir sig jafnframt reiðubúna til þess að gera meðferðaráætlun í samvinnu við sóknaraðila.  Að öðru leyti sé varakrafa studd sömu rökum og aðalkrafa.

Máli sínu til stuðnings vísar varnaraðili til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80/2002, ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæða barnalaga nr. 76/2003 og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Auk þess byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila fari í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segi að stuðla skuli að því að sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim og að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til. Málskostnaðarkrafan er reist á 1. mgr. 60 gr. laga nr. 80/2002 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988. Varnaraðili gerir kröfu um að sóknaraðili verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

III

                Varnaraðili er [...] ára gömul móðir og barn hennar, drengurinn B, varð ársgamall [...]. Afskipti barnaverndaryfirvalda hófust af varnaraðila á meðgöngutíma barnsins vegna þunglyndis, slæmrar félagslegrar stöðu og vegna neyslu varnaraðila á kannabisefnum. Gerð var meðferðaráætlun við varnaraðila með það að markmið að hún héldi sig frá neyslu ávanabindandi efna. Eftir fæðingu barnsins barst barnaverndarnefnd í febrúar 2015 tilkynning frá föðursystur varnaraðila þar sem lýst var áhyggjum af varnaraðila vegna þunglyndis og slæmra áhrifa barnsföður á varnaraðila. Gerð var ný meðferðaráætlun en í mars 2015 mældist varnaraðili jákvæð fyrir neyslu kannabis. Óskað var eftir að henni og barninu yrði komið fyrir hjá föðursystur hennar. Varnaraðili samþykkti vistun barnsins til tveggja vikna. Þann 13. apríl mældist varnaraðili á ný jákvæð fyrir neyslu kannabis. Með samþykki varnaraðila var barnið vistað utan heimilis 16. apríl 2015 í tvo mánuði. Þann 6. maí 2015 mældist varnaraðili í hæstu gildum kannabis í þvagi og aftur 13. maí 2015. Þann 24. júní 2015 skilaði varnaraðili neikvæðri prufu í vímuefnaleit og hefur mælst neikvæð síðan.

                Fram hefur komið í málinu að sambúð varnaraðila og barnsföður var ekki talin holl varnaraðila af þeim sem til þekktu og lauk þeirri sambúð í nóvember 2015.

                Þann 28. maí 2015 ákvað barnaverndarnefnd [...] að sonur varnaraðila yrði vistaður utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 28. maí 2015 á grundvelli b liðar 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Gerð var krafa fyrir Héraðsdómi Reykjaness um að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í allt að sex mánuði en samkomulag var gert fyrir dómi um vistun barnsins til 15. nóvember 2015. Á fundi sínum 12. nóvember 2015 ákvað barnaverndarnefnd að drengurinn skyldi vera kyrr þar sem hann dvelur í allt að tvo mánuði, sbr. a lið 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og þann 11.  janúar 2016 var lögð fram beiðni um framlengingu á vistun í allt að 12 mánuði með stoð í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.      Drengurinn hefur því verið vistaður utan heimilis allar götur frá 15. apríl 2015.

                Í málinu hefur verið lögð fram skýrsla sálfræðings sem er dagsett 6. nóvember 2015. Kemst sálfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að varnaraðili sé ekki hæf til að fara með forsjá drengsins og mælir með að hann verði vistaður áfram utan heimilis.

                Líta verður svo á að þessi niðurstaða sálfræðingsins byggist fyrst og fremst á stöðu varnaraðila á þeim tíma er matið fór fram. Þá var hún enn í sambúð með barnsföður sínum sem samkvæmt gögnum málsins stundaði kannabisræktun, sölu á kannabis og beitti varnaraðila og aðra ofbeldi. Ekki bætti úr skák að varnaraðili virtist hafa lítinn vilja eða getu til að mæta í viðtöl hjá sálfræðingnum, svo lítinn að til stóð á tímabili að hætta við matið. Þá liggur fyrir, sem matsmaður byggir á, að varnaraðili hefur almennt sýnt lítinn vilja til að taka á móti margvíslegum stuðningi sem sóknaraðili hefur sannarlega boðið varnaraðila. Loks var búseta varnaraðila óljós á þeim tíma sem forsjármatið var unnið.

                Breyting hefur nú orðið á högum varnaraðila til hins betra frá því að matið var unnið. Hún sagði skilið við barnsföður sinn í nóvember 2015 og býr nú í húsi stjúpföður síns og föðursystur við góðar aðstæður. Hún hefur haft umgengni við son sinn og hefur sú umgengni gengið vel undanfarið. Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti hún því yfir að hún væri nú tilbúin að þiggja aðstoð sóknaraðila og sækja tíma hjá sálfræðingi, félagsráðgjafa og að sækja tíma hjá FMB-teymi, allt í þeim tilgangi að styrkja sig í móðurhlutverkinu. Hagir varnaraðila eru því mun betri nú en þegar matið var unnið.

                Við úrlausn málsins skiptir annars vegar miklu máli að varnaraðili er hætt neyslu fíkniefna og hefur ekki mælst jákvæð frá því í maí 2015 en fíkniefnavandi hennar var ein meginástæðan fyrir afskiptum sóknaraðila af varnaraðila í upphafi. Verður að byggja á því í málinu að þessi vandi hennar sé að baki, a.m.k. meðan annað kemur ekki í ljós. Hins vegar skiptir máli að varnaraðili hefur sagt skilið við barnsföður sinn, búseta hennar er trygg og hugarfarsbreyting virðist hafa orðið hjá henni varðandi skyldur hennar sem móðir. Þegar þetta er virt er ekki tilefni til að verða við kröfu sóknaraðila um vistun barnsins utan heimilis í 12 mánuði.

Hér að framan er það rakið að varnaraðila hefur staðið til boða ýmis úrræði sem sóknaraðili hefur boðið varnaraðila án þess að varnaraðili hafi verið tilbúinn að taka við leiðsögn og stuðningi sóknaraðila. Hún hefur nú góð orð um að þiggja hjálp frá sóknaraðila í því skyni að styrkja sig í móðurhlutverkinu. Er ekki tilefni til annars, samkvæmt framansögðu um breytta hagi varnaraðila, en að byggja á að sú yfirlýsing hennar fyrir dómi sé einlæg. Undanfarna mánuði hefur varnaraðili aðeins haft umgengni einu sinni í viku við barn sitt, tvo tíma í senn. Er því ljóst að aðlögun móður og barns þarf að fara fram til að betri tengsl komist á.

Í ljósi alls þessa verður með stoð í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 fallist á að sonur varnaraðila verði vistaður utan heimilis í tvo mánuði meðan umgengni barns við móður verði aukin en að því búnu verði vistun barnsins utan heimilis á vegum sóknaraðila lokið.

Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar. Málskostnaður fellur niður milli aðila. Varnaraðili hefur gjafsókn í málinu. Gjafsóknarkostnaður hennar, sem er þóknun lögmanns hennar, Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl., 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Barnið, B, skal vera vistaður utan heimilis síns í tvo mánuði frá deginum í dag að telja.

Gjafsóknarkostnaður, sem er þóknun lögmanns varnaraðila, Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl., 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.