Hæstiréttur íslands
Mál nr. 457/2013
Lykilorð
- Brot gegn lyfjalögum
- Vopnalagabrot
- Peningaþvætti
- Upptaka
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Friðgeir Björnsson fyrrverandi dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og upptöku verði staðfest en að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði allt frá árinu 1980 hlotið 20 refsidóma, síðast árið 2006. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeirri breytingu að fullnustu refsingar ákærða skal frestað og hún falla niður að liðnum fimm árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að með lögum nr. 20/2013 um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994, sem tóku gildi 11. mars 2013, var sú breyting meðal annars gerð á ákvæðum laganna að 48. gr. varð að 49. gr. án efnisbreytinga.
Dómsorð:
Hin áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að fullnustu refsingar ákærða, X, skal frestað og falla niður að liðnum fimm árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 275.772 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 6. júní 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 12. mars 2013, á hendur X, kennitala [..], [...], fyrir eftirtalin brot:
I.
Lyfjalagabrot, með því að hafa:
1. Fimmtudaginn 27. september 2012, að [...], átt 462 stykki af Ritalin Uno, 115 stykki af Ritaline og 105 stykki af Mogadon að hluta til í sölu- og dreifingarskyni, án þess að hafa markaðsleyfi og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.
2. Á árunum 2011 og 2012, fram til fimmtudagsins 27. september 2012, að [...] og á höfuðborgarsvæðinu, selt og afhent ótilgreindum fjölda einstaklinga lyfin Ritalin, Ritalin Uno og Mogadon, án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar.
Telst þetta varða við 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með áorðnum breytingum.
II.
Vopnalagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 27. september 2012, að [...], haft í vörslum sínum sverð sem lögreglumenn fundu við leit á heimili ákærða og aflað sér tveggja hljóðdeyfa á Sako 308 riffil og Savage 22 cal riffil, og þannig breytt eiginleika skotvopnanna án leyfis lögreglustjóra, en lögreglumenn fundu hljóðdeyfana í læstum byssuskáp ásamt skotvopnunum við leit á heimili ákærða.
Telst brot þetta varða við d-lið 2. mgr. 30. gr. og 38. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 5. lið 54. og 59. gr. reglugerðar um skotvopn og skotfæri o.fl. nr. 787/1998.
III.
Peningaþvætti, með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 27. september 2012, að [...] og á höfuðborgarsvæðinu, aflað sér ávinnings að fjárhæð 3.350.000 krónur, með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum, samskonar því sem var í vörslum ákærða þegar leit var gerð samkvæmt ákærulið I.1.
Telst brot þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum, sbr. 1. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á 462 stykkjum af Ritalin Uno, 115 stykkjum af Ritaline, 105 stykkjum af Mogadon og 7 stykkjum af Rivotril (ROCHE), með vísan til 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Þá er krafist upptöku á 2 hljóðdeyfum og einu sverði, með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Þá er jafnframt krafist upptöku á 3.350.000 krónum, með vísan til 1. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög og 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, en peningarnir eru ætlaður ágóði af sölu lyfja.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Fimmtudaginn 27. september 2012 fór lögregla í húsleit á heimili ákærða að [...] að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Ákærði var handtekinn og reyndist hann vera með nokkurt magn af lyfsöluskyldum lyfjum og 200.000 krónur í reiðufé í peysuvasa sínum. Í íbúðinni var læstur byssuskápur sem hafði að geyma fjögur skotvopn og tvo hljóðdeyfa fyrir riffla, nokkurt magn af lyfjum og 3.150.000 krónur í reiðufé. Þá kemur fram í munaskýrslu að lagt haf verið hald á „ninja sverð með snákshöfði“ í íbúðinni.
Ákærði var yfirheyrður á vettvangi og er hljóðupptaka af skýrslu hans meðal gagna málsins. Hann viðurkenndi að hafa verið að selja lyfin rítalín og rítalín uno fyrir um 200.000 krónur mánaðarlega. Kvaðst hann selja 10 mg töflu af rítalíni á 500 krónur stykkið. Hann kvaðst fá 5 kassa af rítalíni mánaðarlega samkvæmt lyfseðli, en hver kassi innihéldi 30 stykki af 10 mg töflum. Væri hann vanur að selja innihald tveggja kassa. Hann kvaðst selja a.m.k. 60 töflur af rítalíni á mánuði á 500 krónur stykkið. Þá kvaðst ákærði kaupa rítalín uno „á svarta markaðnum“. Hann kvaðst kaupa um 120 40 mg töflur mánaðarlega á 1.000 krónur, en selja þær aftur fyrir 1.500 krónur stykkið. Kvaðst ákærði telja að hann væri að selja um 70 til 80 töflur af rítalín uno á mánuði. Þá kvaðst hann stundum gefa mogadon sem hann ætti. Hann kvaðst nýlega hafa fengið 3.000.000 króna, sem fundust í byssuskáp á heimili hans, að láni hjá [D] og væru þessir peningar ætlaðir til íbúðarkaupa. Að því er varðar 200.000 krónur, sem ákærði var með í peysuvasa sínum við handtöku, kvaðst hann hafa tekið þessa peninga út úr banka tveimur dögum fyrr og hygðist hann leggja þá aftur inn á bankareikning sinn. Spurður um stílabók sem fannst á vettvangi kvað hann færslur í henni vera skuldalista, m.a. vegna lyfjasölu. Ákærði kvaðst hafa stundað sölu á lyfjum um eins til tveggja ára skeið. Hann hefði ekki selt mikið til að byrja með, en salan hefði aukist undanfarið ár. Tekin var símaskýrsla af [D] á vettvangi og kannaðist hún ekki við að hafa lánað ákærða fé til íbúðarkaupa. Hún kvað hins vegar hafa verið um það rætt að hún lánaði honum 2.000.000 króna, en til þess hefði ekki komið.
Í málinu liggja fyrir skýrslur lögreglunnar á Akureyri vegna rannsóknar ránsmáls í febrúar 2012. Við yfirheyrslu sakbornings í málinu, A, kom fram að ákærði hefði sent henni rítalín frá Reykjavík eftir að hún millifærði 100.000 króna greiðslu inn á bankareikning hans. Hefði hún fengið lyfin send norður með flugi. Þá greindi B frá því að hann hefði greitt hluta kaupverðsins ásamt þriðja manni og hefðu þau deilt með sér lyfjunum. Í málinu liggja fyrir farmbréf vegna tveggja sendinga sem A barst á þessum tíma með flugi og er sendandi skráður C í báðum tilvikum.
Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins. Við aðalmeðferðina kvaðst hann hafa játað fyrir lögreglumönnum að hafa stundað sölu og dreifingu lyfseðilsskyldra lyfja til að losna úr haldi þeirra, en hann hefði verið hafður í handjárnum á meðan á leit í íbúðinni og yfirheyrslu stóð. Það sem fannst í íbúðinni hefði verið afgangur af lyfjum sem hann hefði fengið samkvæmt lyfseðli á síðastliðnum þremur árum, en gleymt að taka. Að því er varðaði skuldalista í stílabók sem lagt var hald á kvaðst ákærði oft lána fólki peninga og skrá það hjá sér. Hann kvaðst hafa sagt lögreglumönnunum að þetta væri skuldalisti vegna lyfjasölu til að losna við þá. Hann kvaðst kannast við A og B, en neitaði að hafa selt þeim rítalín. Ákærði kvaðst hafa fengið peninga, sem fundust í byssuskáp, að láni hjá [D] vegna fyrirhugaðra íbúðarkaupa. Hann kvað sverð sem fannst í íbúðinni vera skrautmun úr blikki með óbrýndri egg. Þá kvaðst hann hafa gengið úr skugga um það áður en hann keypti hljóðdeyfa sem fundust í byssuskáp að í vopnalögum væri ekki kveðið á um bann við að eiga slíka muni.
Vitnin, Þórður Halldórsson og Róbert Guðmundsson rannsóknarlögreglumenn, önnuðust húsleit á heimili ákærða. Vitnið Þórður kvað lögreglu hafa fengið allnokkrar ábendingar um að ákærði stundaði sölu lyfseðilsskyldra lyfja. Hann kvað ákærða hafa verið samvinnuþýðan við húsleitina og hefði hann framvísað lyfjum og peningum sem lagt var hald á. Ákærði hefði verið samþykkur því að skýrsla yrði tekin af honum á vettvangi og hefði hann ekki verið undir neinum þrýstingi við yfirheyrsluna. Í samræmi við starfsreglur hefði hann verið handjárnaður þar sem vopn fundust í íbúðinni, en það hafi verið gert af öryggisástæðum. Vitnið staðfesti skýrslu sína um það sem kom fram hjá [D] í símaskýrslu. Hann kvað skýrsluna hafa verið tekna þannig að símtækið hefði verið stillt á hátalara og hefði félagi hans hlýtt á það sem [D] sagði. Vitnið Róbert staðfesti að hafa hlýtt á skýrslu [D] með þeim hætti sem lýst hefur verið. Hann kvað ákærða hafa verið samvinnuþýðan og hefði ekki komið fram hjá honum að hann væri ekki sáttur við að skýrsla væri tekin af honum á vettvangi. Ákærði hefði ekki verið beittur neinum þrýstingi við yfirheyrsluna. Vitnið kvað það hafa komið fram hjá ákærða að hann stæði í fasteignakaupum og hefði hann sýnt þeim skjöl sem staðfestu það.
Vitnið, Jónas Hafsteinsson lögreglumaður, gerði grein fyrir reglum um útgáfu skotvopnaleyfa. Vitnið kvað það hafa í för með sér breytingu á eiginleikum byssu að setja á hana hljóðdeyfi og væri því talið að leyfi þyrfti til að eiga slíkan búnað.
Vitnið, D, [...], kvaðst hafa lánað ákærða fé í einhvern tíma áður en hann var handtekinn. Hún hefði afhent ákærða peninga í nokkur skipti og hefði fjárhæðin verið komin upp í 3.000.000 króna. Vitnið kvaðst hafa sagt rangt til um þetta þegar hún gaf símaskýrslu hjá lögreglu. Þeir sem hringdu í hana hefðu kynnt sig sem lögreglumenn, en hún hefði ekki haft neina vissu fyrir því að svo væri og ekki fundist það koma þeim við hvort hún lánaði börnunum sínum peninga eða ekki. Vitnið kvaðst hafa lánað ákærða féð vegna fyrirhugaðra íbúðarkaupa.
Vitnið, B, neitaði því að hafa keypt rítalín af ákærða. Borin var undir vitnið skýrsla sem hann gaf hjá lögreglunni á Akureyri 27. febrúar 2012 þar sem kom fram hjá honum að hann hefði ásamt fleira fólki keypt rítalín fyrir 100.000 krónur af ákærða, sem hefði sent þeim lyfin norður til Akureyrar. Vitnið kvaðst hafa borið með þessum hætti til að sleppa úr haldi lögreglu. Lögreglumenn hefðu sýnt honum skýrslu A, þar sem þetta hefði komið fram. Hefði honum verið tjáð að honum yrði sleppt úr haldi ef hann staðfesti framburð A, sem hann hefði gert. Vitnið kvaðst þó hafa millifært fé yfir á bankareikning ákærða, en ákærði hefði oft lánað honum peninga.
Þá gaf Jónas Halldór Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður skýrslu fyrir dóminum. Vitnið kvað hafa komið fram upplýsingar um að ákærði seldi rítalín, við rannsókn ránsmáls á Akureyri. Hefðu A og B verið meðal sakborninga í því máli. Vitnið kvað A hafa greint frá því að ákærði hefði selt þeim rítalín og sent lyfin með flugi til Akureyrar. Hefði lögregla haft uppi á farmbréfi þar sem nafn sendanda var skráð C. B hefði staðfest frásögn A, þegar hún var borin undir hann. Vitnið hafnaði því að B hefði verið beittur einhverjum þrýstingi við skýrslutökuna, sem verjandi hans hefði fylgst með símleiðis. Þá vísaði hann því á bug að B hefði verið sýnd skýrsla A. A gaf ekki skýrslu við aðalmeðferð málsins, en hún sinnti ekki ítrekuðum vitnaboðunum.
Niðurstaða
I. kafli ákæru
Ákærði játaði við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa haft lyf, sem lögregla lagði hald á á heimili hans, í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni og að hafa staðið að sölu og afhendingu lyfja um eins til tveggja ára skeið. Hann hvarf hins vegar frá játningu sinni við aðalmeðferð málsins. Ákærði gerði skilmerkilega grein fyrir því við skýrslutöku hjá lögreglu hvernig hann hefði staðið að sölu og afhendingu lyfjanna, á hvaða verði hann seldi þau og hver hagnaður hans hefði verið af viðskiptunum. Í gögnum málsins eru ljósmyndir af lyfjunum sem fundust í íbúð ákærða og ber umbúnaður þeirra með sér að þau hafi verið ætluð til sölu eða afhendingar. Þá fannst í íbúðinni stílabók með færslum sem ákærði lýsti fyrir lögreglu að væri skuldalisti vegna lyfjasölu. Af hljóðupptöku verður ráðið að ákærði skýrði greiðlega frá atvikum við yfirheyrslu og fær frásögn hans þar stoð í gögnum málsins, svo sem rakið hefur verið. Hann hefur hins vegar ekki gefið trúverðugar skýringar á breyttum framburði við aðalmeðferð málsins. Samkvæmt framansögðu verður framburður ákærða við yfirheyrslu hjá lögreglu lagður til grundvallar í málinu. Þykir sannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. og 2. ákærulið. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.
II. kafli ákæru
Ákærði ber að sverð sem lagt var hald á í málinu sé skrautmunur, en ekki vopn í skilningi vopnalaga. Myndir af sverðinu eru meðal gagna málsins og kemur þar fram að blað þess sé 66 cm að lengd, bitlaust, en með smá oddi fremst á blaði. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga er óheimilt að hafa í vörslum sínum sverð, sem eru sambland högg- og bitvopna. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt ákærði hafi litið á sverðið sem skrautmun. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn d-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga.
Samkvæmt 38. gr. vopnalaga eru allar breytingar, þ.m.t. aukabúnaður sem hefur áhrif á eiginleika skotvopns eða verkan, óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra og skulu breytingar skráðar í skotvopnaskrá og skotvopnaleyfi, sbr. einnig þar um 5. tölul. 54. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. Óumdeilt er að ákærði aflaði sér hljóðdeyfa, sem lögregla lagði hald á í íbúð hans. Hins vegar hafði hann ekki fest búnaðinn á skotvopn og því ekki gert á þeim breytingar sem leyfi lögreglu þurfti til. Það varðar ákærða ekki refsingu samkvæmt framangreindum lagaákvæðum að afla sér hljóðdeyfa án leyfis lögreglu. Verður ákærði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds að þessu leyti.
III. kafli ákæru
Ákærða er gefið að sök peningaþvætti, með því að hafa aflað sér ávinnings að fjárhæð 3.350.000 krónur með sölu lyfseðilsskyldra lyfja. Sem að framan greinir hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa selt ótilgreindum fjölda einstaklinga lyf, án þess að hafa til þess tilskilin leyfi, um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 27. september 2012, er húsleit fór fram á heimili hans. Hann hefur frá upphafi neitað því að reiðufé, sem lagt var hald á við húsleitina, sé afrakstur ólögmætrar lyfjasölu. Hefur ákærði borið að 3.000.000 króna sem fundust í byssuskáp hafi verið lánsfé frá [D] ætlað til íbúðakaupa. Framburður ákærða að þessu leyti fær stuðning í framburði [D] við aðalmeðferð málsins, jafnframt því sem fram kom að hann hefði sýnt lögreglumönnum gögn um fyrirhuguð fasteignakaup. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála, þykir varhugavert að telja sannað að framangreindir fjármunir hafi verið ágóði af lyfjasölu hans.
Ákærði viðurkenndi við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa haft nokkurn ágóða af lyfjasölu sinni, og fær játning hans stuðning í gögnum málsins, sem rakið hefur verið. Ekki þykir unnt að slá því föstu hvaða fjárhæð ávinningur af brotum hans hafi numið. Hann hefur þó engar skýringar gefið á tilurð 350.000 króna í reiðufé, sem lögregla lagði hald á við húsleitina og þykir ekki óvarlegt að telja sannað að fjármunirnir séu afrakstur lyfjasölu hans. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í III. kafla ákæru, en lagt til grundvallar að ávinningur hans hafi numið a.m.k. 350.000 krónum. Er háttsemin rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Viðurlög og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur árið 1962. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 1980 hlotið 20 refsidóma, einkum vegna þjófnaðarbrota og annarra auðgunarbrota. Síðast var ákærði dæmdur árið 2006 fyrir þjófnað og þjófnaðartilraun. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir brot gegn lyfjalögum, peningaþvætti og vopnalagabrot. Er til þess að líta að hann stundaði sölu á lyfjum um nokkurn tíma og aflaði sér ávinnings með brotum sínum. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði verður dæmdur til að sæta upptöku á á 462 stykkjum af Ritalin Uno, 115 stykkjum af Ritaline, 105 stykkjum af Mogadon og 7 stykkjum af Rivotril (ROCHE), samkvæmt 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og sverði, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998. Þá verður ákærði dæmdur til að sæta upptöku á 350.000 krónum, samkvæmt 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hrl., 232.175 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði greiði 47.062 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptæk eru dæmd 462 stykki af Ritalin Uno, 115 stykki af Ritaline, 105 stykki af Mogadon, 7 stykki af Rivotril (ROCHE), sverð og 350.000 krónur.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hrl., 232.175 krónur og 47.062 krónur í annan sakarkostnað.