Hæstiréttur íslands

Mál nr. 481/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gerðardómur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 14

 

Þriðjudaginn 14. desember 1999.

Nr. 481/1999.

Norberg AS

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

K.G. hf.                                           

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Gerðardómur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

KG og N sömdu um kaup á skipinu E. Í samningsskilmálunum var kveðið á um skipun gerðardóms til að fjalla um deilumál í tengslum við túlkun og efndir á samningnum. Höfðaði N mál gegn KG til heimtu skaðabóta vegna vanefnda á samningnum. Taldi héraðsdómari að vegna umræddra samningsskilmála heyrði málið ekki undir lögsögu dómstólsins og vísaði málinu frá dómi. Var úrskurður héraðsdómara staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. desember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 12. nóvember 1999, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Norberg AS, greiði varnaraðila, K.G. hf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 12. nóvember 1999.

Dómkröfur stefnanda í heild eru þessar:

Hann krefst þess að staðfest verði með dómi að bindandi kaupsamningur um fiskiskipið Eldborgu SH-22 hafi komist á milli aðilja með undirritun tveggja stjórnarmanna stefnda á kauptilboð stefnanda, dags. 14. janúar 1997.

Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að upphæð 3.153.713 norskra króna (NOK) með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess einnig að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda í heild eru þessar:

Aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði verulegar lækkaðar. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar ú hendi stefnanda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eð skv. mati réttarins.

 

Skipting sakarefnis.

Í þinghaldi 16. júní 1998 féllst dómari á ósk lögmanns stefnanda um að sakarefni yrði skipt, “þannig að fyrst verði dæmt um skuldbindingargildi hins meinta kaupsamnings, enda hefur lögmaður stefnda fallist á það.” Hinn 22. september 1998 gekk dómur í Héraðsdómi Vesturlands um þennan hluta málsins. Niðurstaða hans varð sú að stefndi, K.G. hf., var sýknaður af kröfum stefnanda, og var hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Þar féll dómur 3. júní     1999, og var héraðsdóminum hrundið. Viðurkennt var að kaupsamningur milli aðilja um skipið Eldborg SH 22 hefði komist á 14. janúar 1997. Stefndi var dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Málið var tekið fyrir að nýju í Héraðsdómi Vesturlands 16. september sl. Var þá ákveðinn málflutningur um frávísunarkröfu stefnda 18. október sl., og fór hann þá fram. Að honum loknum var málið tekið til úrskurðar um þennan þátt.

 

Stefndi krefst þess í þessum þætti máls að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að stefnanda verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi stefnda.

 

Í samningi aðilja, sem komst á 14. janúar 1997 með því að tveir stjórnarmenn stefnda rituðu nöfn sín og upphafsstafi nafna sinna á símbréf frá stefnanda með samningstilboði, er efni samningsins sundurliðað í 8 töluliði. Þar segir í 7. tl. (í þýðingu löggilts dómtúlks): “Önnur atriði eru samkvæmt Norsk Salgsform 1987 með viðbót og breytingum og venjulegum kvöðum varðandi þurrkví.” Í Hæstaréttardóminum frá 3. júní 1999 er getið tilboðs sem stefnandi sendi stefnda 6. janúar 1997. Orðrétt segir í dóminum: “Var þar getið nokkurra skilmála og kaupverðs að fjárhæð 10.000.000 norskar krónur. Auk þess var tekið fram að um önnur atriði skyldi fara eftir ákvæðum “Norsk Salgsform 1987” með áorðnum breytingum, en það eru staðlaðir samningar um skipakaup.” Síðar segir í Hæstaréttardóminum að í tilboðinu, sem varð að samningi 14. janúar 1997, hafi einnig verðið vísað til ákvæða “Norsk Salgsform 1987”, eins og í tilboðinu frá 6. janúar. Enn síðar í Hæstaréttardóminum segir: “Hinn 20. febrúar 1997 sendi J. Gran & Co símbréf til gagnáfrýanda [þ.e. stefnda]. Er þar vísað til símtals við Guðmund Kristjánsson framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda og símbréfs til Fengs hf. deginum áður. Með fyrrnefnda símbréfinu fylgdi staðlað eyðublað, sem er ensk gerð “Norsk Salgsform 1987”. Ber eyðublaðið fyrirsögnina “Memorandum of Agreement” og er auðkennt “Saleform 1987”. Það var að verulegu leyti útfyllt af J. Gran & Co. eða aðaláfrýjanda [þ.e. stefnanda]. Óskaði sá fyrrnefndi eftir í símbréfinu að gagnáfrýjandi ritaði á eyðublaðið nauðsynlegar upplýsingar að því leyti, sem það væri ekki annars útfyllt.” Og enn síðar segir í dóminum: “Í stað þess að sinna tilmælum um að ljúka frágangi eyðublaðsins tjáði gagnáfrýjandi J. Gran & Co. 24. febrúar 1997 að hann teldi sig ekki skuldbundinn til að selja Eldborg.”

Skjal það sem vísað er til í Hæstaréttardóminum, “Memorandum of Agreement”, liggur frammi í málinu, og einnig íslensk þýðing löggilts dómtúlks á því. Skjalið er upphaflega í 15 greinum, og hefur verið fyllt í þær af hálfu stefnanda, svo sem getið er hér að framan, auk þess sem fjórum greinum hefur verið bætt við. Upphaf 15. greinar hljóðar svo í íslenskri þýðingu: “Komi upp deilumál í tengslum við túlkun og efndum [svo] á samningi þessum, skal slíkt deilumál lagt fyrir gerðardóm í Björgvin í Noregi og falið einum gerðardómara sem aðilar að samningi þessum tilnefna. Geti aðilar ekki komið sér saman um tilnefningu eins gerðardómara, skal deilan lögð fyrir þrjá gerðardómara og tilnefnir hvor aðili einn gerðardómara en norska skipamiðlarasambandið hinn þriðja . . .” Orðasamböndunum sem skáletruð eru hefur verið bætt inn í greinina af hálfu stefnanda. Um hið fyrra er tekið fram neðanmáls að ef eyðan sé ekki útfyllt, eigi gerðardómurinn að vera í Lundúnum  og starfa skv. enskum lögum. Og um hið síðara er tekið fram neðanmáls, að ef ekki sé þar fyllt í eyðu, eigi tiltekin stofnun í Lundúnum að tilnefna gerðardómara. [Nafn þeirrar stofnunar er ólæsilegt í því skjali sem liggur fyrir dóminum]

 

Frávísunarkrafan er á því byggð að Héraðsdómur Vesturlands eigi ekki lögsögu um efndabóta- eða skaðabótakröfu í máli þessu heldur eingöngu um það hvort komist hafi á bindandi samningur milli aðila þessa máls.” Svo segir í greinargerð stefnda.

 

Niðurstaða.

Það er meginregla einkamálaréttarfars að dómstólar hafa vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til. Frá meginreglunni skal víkja, ef sakarefnið er skilið undan lögsögu dómstóla samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu, sbr. 24. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

Hin enska útgáfa af “Norsk Salgsform 1987”, eða hin enska þýðing þess, “Memorandum og Agreement”, á samkvæmt samningi aðilja að vera hluti hans, “með viðbót og breytingum” eins og segir í 7. tölulið samningsins. Að mati dómara verður stefndi að hlíta þeim viðbótum og breytingum sem stefnandi hefur gert eða látið gera á samningsskilmálunum, enda var honum í lófa lagið að gera við þær athugasemdir, ef hann hefði viljað standa við samninginn svo sem honum bar.

15. grein samningsskilmálanna í “Norsk Salgsform 1987” kveður á um skipun gerðardóms til að fjalla um “deilumál í tengslum við túlkun og efndir” á samningi aðilja. Er að mati dómara nærlægast að líta svo á að 15. greinin taki ekki einungis til framkvæmdar samningsins, ef efndur hefði verið, heldur og til þeirra úrræða sem stefnandi kann að eiga vegna vanefnda stefnda. Ber og á það að líta að stefnandi reisir sókn þessa máls og rétt sinn til skaðabóta á samningi aðilja, en hluti hans er umrædd 15 gr. “Norsk Salgsform 1987”, eins og frá henni var gengið af hans hálfu. Getur því stefnandi ekki borið fyrir sig að samningsgrein þessi eigi ekki að gilda um vanefndakröfu hans, enda uppfyllir grein þessi þær kröfur sem gera verður til ákvæðis af þessu tagi, sbr. 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Samkvæmt þessu lítur dómari svo á að mál þetta, að því leyti sem það fjallar um skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda vegna vanefnda á samningi aðilja, heyri ekki undir lögsögu dómstólsins skv. nefndum samningi.

Í samræmi við framanritað verður dómari við kröfu stefnda um að máli þessu verði vísað frá dómi.

Rétt er að gera stefnanda að greiða stefnda málskostnað í þessum þætti máls, og ákveður dómari að hann skuli vera 40.000 krónur.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er  vísað frá dómi.

Stefnandi, Norberg A/S, greiði stefnda, K.G. hf., kr. 40.000 í málskostnað.