Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
- Hlutafélag
|
|
Þriðjudaginn 10. júlí 2001. |
|
Nr. 256/2001. |
Lárus L. Blöndal Aðalsteinn Karlsson og Guðmundur A. Birgisson (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Jóhanni Óla Guðmundssyni(Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kærumál. Lögbann. Hlutafélög.
Ágreiningur reis um ákvörðun stjórnar LÍ hf. að kaupa hlutafé J í F ehf. og greiða það með hlutafé í fyrrnefndu félagi. Héraðsdómur hafnaði kröfu L, A og G, eigenda 17,3% af heildarhlutafé LÍ hf., um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að synja um lögbann við því að J hagnýtti sér þann rétt, sem fylgdi hlutafjáreign hans í LÍ hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti vegna kaupanna. Jafnframt var synjað um lögbann við því að J ráðstafaði umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila og að sýslumaður tæki afstöðu til þess hvort og hvernig J yrði gert skylt að afhenda hlutina til varðveislu meðan lögbannið stæði. Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi. Var fallist á með sóknaraðilum að sérfræðimat samkvæmt lögum nr. 2/1995 hefði átt að liggja fyrir þegar ákvörðun var tekin um kaupin. Þá var byggt á því að áður en kaupin fóru fram kröfðust L, A og G hluthafafundar LÍ hf. í því skyni að allir hluthafar ættu þess kost að taka afstöðu til kaupa félagsins á hlutum í F ehf. Taldi Hæstiréttur að skilyrðum hlutafélagalaga og samþykkta LÍ hf. hefði verið fullnægt til að L, A og G gætu krafist fundarins. Stjórn LÍ hf. hefði verið í aðstöðu til að boða til fundarins svo fljótt sem auðið yrði og við þessar aðstæður hefði stjórninni verið óheimilt að ákveða sjálf og ganga frá kaupum á öllu hlutafé í F ehf. áður en slíkur fundur var haldinn, svo sem löglega hefði verið krafist.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 22. júní sama árs um að synja um lögbann við því að varnaraðili hagnýti sér þann rétt, sem fylgir hlutafjáreign hans í Lyfjaverslun Íslands hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 krónur. Jafnframt var synjað um lögbann við því að varnaraðili ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila og að sýslumaður taki afstöðu til þess hvort og hvernig varnaraðila verði gert skylt að afhenda honum hlutina til varðveislu meðan lögbannið standi, sbr. lög nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni þeirra og að varnaraðila verði gert að greiða hæfilegan málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að sóknaraðilum verði gert að greiða sér kærumálskostnað.
I.
Málsaðilar eru allir hluthafar í Lyfjaverslun Íslands hf. Er rakið í hinum kærða úrskurði að ágreiningur þeirra varði þá ákvörðun stjórnar félagsins í júní 2001 að kaupa hlutafé varnaraðila í Frumafli ehf., sem greitt var 20. sama mánaðar með hlutafé í fyrrnefnda félaginu að nafnverði 170.000.000 krónur. Bera gögn málsins með sér að áform hafi verið uppi um kaup á hlutafé í Frumafli ehf. í alllangan tíma. Er í úrskurði héraðsdómara meðal annars greint frá yfirlýsingu 24. janúar 2001 og ódagsettu minnisblaði, sem vísað var til í yfirlýsingunni. Í minnisblaðinu segir meðal annars að Lyfjaverslun Íslands hf. kaupi 44,44% af hlutafé í Frumafli ehf. og greiði fyrir það með 80.000.000 krónum í hlutafé í Lyfjaverslun Íslands hf., en eigi kauprétt í tiltekinn tíma að öðrum hlutum í félaginu gegn greiðslu, sem þar er nánar lýst. Af kaupum í Frumafli ehf. með formlegri ákvörðun stjórnar varð þó ekki fyrr en í júní 2001. Í janúar það ár keypti Lyfjaverslun Íslands hf. hlut sóknaraðilans Aðalsteins í A. Karlssyni ehf. og greiddi fyrir meðal annars með hlutafé í fyrrnefnda félaginu. Af gögnum málsins verður ráðið að kaupin hafi verið gerð með fyrirvara um að hluthafafundur í Lyfjaverslun Íslands hf. samþykkti þau. Sá fundur var haldinn 24. janúar 2001 og var þar samþykkt heimild til að auka hlutafé í félaginu um 300.000.000 krónur. Í samþykktinni fólst jafnframt að stjórninni væri heimilt „að gefa út nýju hlutina í tengslum við samruna, í skiptum fyrir hlutafé í öðrum félögum eða sem greiðslu vegna kaupa á eignum og rekstri.“
Í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að efni áðurnefnds minnisblaðs hafi ekki verið lagt fram til umræðu á hluthafafundinum 24. janúar 2001. Málið hafi alls ekki borið þar á góma og áform um kaup á Frumafli ehf. hafi ekki verið kynnt hluthöfum á fundinum. Af hálfu varnaraðila er á það bent að stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi í kjölfar breytinga á samþykktum félagsins í mars 2000 varðandi tilgang þess fengið áhuga á því að ná samningum um kaup á þrem félögum, þ.e. Frumafli ehf., A. Karlssyni ehf. og Thorarensen Lyfjum ehf. Þegar kom að því að kaup voru gerð hafi núverandi og fyrrverandi stjórn félagsins stuðst við eigið mat um hvert væri ásættanlegt kaupverð, en ekki leitað eftir mati óháðra og hlutlausra manna. Líta verði til ákvörðunar um kaupverð á Frumafli ehf. í samhengi við kaupverð á hinum félögunum, en í öllum tilvikum hafi verið greitt mun hærra verð en nam eigin fé þeirra. Mismunur þess og kaupverðsins hafi falist í óefnislegum verðmætum í félögunum, svo sem samlegðaráhrifum, samkeppnisaðstöðu, vaxtarmöguleikum og fleiru af því tagi. Þessir samningar, sem alla megi rekja til hluthafafundarins í janúar 2001, hafi falið í sér að allt kaupverð Frumafls ehf. hafi verið greitt með hlutafé í Lyfjaverslun Íslands hf., en að hluta í hinum félögunum. Málavextir að öðru leyti og málsástæður aðilanna eru raktar í hinum kærða úrskurði.
II.
Meðal málsástæðna sóknaraðila er að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 37. gr., sbr. 5.-8. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 áður en stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. ákvað að kaupa hlutafé varnaraðila í Frumafli ehf. Umrædd lagaákvæði hafi meðal annars að geyma fyrirmæli um hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt ef greiða skuli nýja hluti í félagi á annan hátt en með reiðufé og skuli settar reglur um það í ákvörðun hluthafafundar um hækkun hlutafjár. Þá verði að liggja fyrir sérfræðiskýrsla, þar sem meðal annars komi fram lýsing á greiðslu, sem tekið sé við, og upplýsingar um aðferðina, sem notuð sé við mat á henni. Í skýrslunni skuli jafnframt koma fram yfirlýsing um að verðmæti, sem tekið sé við, svari að minnsta kosti til umsamins endurgjalds fyrir þau. Skýrslan skuli gerð af einum eða fleiri óháðum, sérfróðum mönnum, annað hvort löggiltum endurskoðendum, lögmönnum eða öðrum sérfróðum mönnum, sem dómkvaddir hafi verið. Kveða sóknaraðilar nefnd ákvæði í lögum nr. 2/1995 hafa verið sett til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt 2. félagaréttartilskipun nr. 77/91/EBE frá 13. desember 1976, sem vitnað sé til í XXII. viðauka EES-samningsins. Verði íslensk lög skýrð til samræmis við skuldbindingar, sem Ísland hafi gengist undir í þeim samningi eftir því sem framast sé unnt. Í nefndri tilskipun komi glöggt fram að þeir sérfræðingar, sem hér um ræðir og geri skýrslu, skuli vera tilnefndir eða að minnsta kosti samþykktir af stjórnvaldi eða dómara. Stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi ekki gætt þessa er kaup á Frumafli ehf. voru ráðin. Þá sé ljóst af tilskipuninni að skýrsla sérfræðinga þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun sé tekin um hlutafjárhækkun. Það skilyrði sé hér heldur ekki uppfyllt. Ákvörðun stjórnarinnar um kaup á Frumafli ehf. hafi ekki verið tekin 20. júní 2001, eins og héraðsdómari virðist ganga út frá, heldur 11. sama mánaðar. Skýrslur tveggja endurskoðenda, sem stjórnin hafi fengið til að leggja mat á kaupin, hafi þá ekki legið fyrir.
Lögmaður varnaraðila ritaði stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. bréf 11. júní 2001 og krafðist efnda á skuldbindingu, sem hann taldi félagið hafa gengist undir 24. janúar sama árs um kaup á hlutafé varnaraðila í Frumafli ehf. við tilteknu verði. Samdægurs var haldinn fundur í stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. og er í úrskurði héraðsdómara tekin upp orðrétt bókun stjórnarinnar varðandi erindi lögmannsins. Var því lýst yfir að stjórnin teldi félagið skuldbundið til að kaupa hlutaféð í samræmi við skilmála, sem getið sé í áðurnefndu minnisblaði. Síðan segir: „Jafnframt ákveður stjórn félagsins að nýta kauprétt á öllu hlutafé í Frumafli hf. eins og fram kemur í ofangreindu minnisblaði. Stjórnin veitir stjórnarformanni og forstjóra félagsins fullt umboð til að ganga frá nauðsynlegum gögnum til að efna samninginn að fullu og tilkynna til Verðbréfaþings Íslands.“ Liggur fyrir í málinu yfirlýsing Verðbréfaþings Íslands 12. júní 2001 um að stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. hafi tilkynnt því að staðfestur hefði verið samningur vegna kaupa á Frumafli ehf. Enn var haldinn fundur í stjórninni 20. júní 2001 þar sem endanlega var gengið frá kaupunum og meðal annars bókað að stjórnin samþykkti að gefa út hlutafé að nafnvirði 170.000.000 krónur.
Ákvörðun stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. 11. júní 2001 laut að því án nokkurs fyrirvara að kaupa allt hlutaféð í Frumafli ehf. við tilteknu verði. Var hún ekki takmörkuð við þau 44,44% hlutafjárins, sem getið var í upphafi hins áðurnefnda ódagsetta minnisblaðs, heldur tók hún einnig til afgangsins, sem félagið átti rétt til að kaupa samkvæmt minnisblaðinu. Var stjórnarformanni og forstjóra félagsins falið að ganga frá nauðsynlegum skjölum þar að lútandi. Þessi ákvörðun var tekin áður en aflað hafði verið sérfræðiskýrslu löggilts endurskoðanda samkvæmt 37. gr. sbr. 5.-8. gr. laga nr. 2/1995, en stjórnin leitaði fyrst 12. júní 2001 eftir því við Guðmund Sveinsson, löggiltan endurskoðanda, að hann gerði slíka skýrslu. Er skýrsla hans til stjórnarinnar dagsett 18. sama mánaðar sem og bréf Guðmundar Snorrasonar, löggilts endurskoðanda, en gerð er grein fyrir efni þessara gagna í hinum kærða úrskurði. Verður fallist á með sóknaraðilum að þegar af þessari ástæðu hafi ekki verið uppfyllt skilyrði laga nr. 2/1995 til að stjórnin mætti ákveða kaup á öllu hlutafénu fyrir tiltekið verð, svo sem gert var og áður er komið fram.
III.
Í hinum kærða úrskurði er getið bréfs þáverandi lögmanns sóknaraðila 31. maí 2001 til Lyfjaverslunar Íslands hf., þar sem þess var krafist fyrir þeirra hönd að boðað yrði til hluthafafundar í því skyni meðal annars að allir hluthafar ættu þess kost að taka afstöðu til þess hvort félagið keypti hluti í Frumafli ehf. af varnaraðila og öðrum fyrir allt að 860.000.000 krónur. Var dagskrá hluthafafundarins nánar tilgreind í bréfinu. Þar mun einnig hafa komið fram að sóknaraðilar væru skráðir fyrir 17,3% af heildarhlutafé félagsins. Erindið var kynnt á stjórnarfundi 31. maí 2001 og bókað að stjórnarformanni væri falið að boða fundinn við fyrsta tækifæri. Núverandi lögmaður sóknaraðila sendi Lyfjaverslun Íslands hf. bréf 5. júní sl. þar sem þess var meðal annars krafist að engar tilraunir yrðu gerðar til að ráðstafa óráðstöfuðu hlutafé, 170.000.000 krónum, áður en hluthafafundurinn yrði haldinn. Á fundi stjórnar félagsins 11. sama mánaðar var bókað að stjórnin samþykkti að boða til hluthafafundar í félaginu 10. júlí 2001 kl. 16.00. Skyldi þar meðal annars tekinn til umfjöllunar samningur við Frumafl ehf. í samræmi við óskir frá hluthöfum. Á þessum sama fundi ákvað stjórnin að kaupa allt hlutaféð í Frumafli ehf., svo sem rakið er í II. kafla að framan.
Í 85. gr. laga nr. 2/1995 er mælt fyrir um að hluthafafund í félagi skuli boða innan 14 daga ef kjörnir endurskoðendur eða hluthafar, sem ráða yfir minnst 1/10 hlutafjárins krefjast þess skriflega. Efnislega samsvarandi ákvæði er í 13. gr. samþykkta fyrir Lyfjaverslun Íslands hf. Skilyrðum þessara ákvæða var fullnægt til að sóknaraðilar gætu krafist þess að kaup á hlutafé í Frumafli ehf. yrðu borin undir hluthafafund í Lyfjaverslun Íslands hf. Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum hlutafélags samkvæmt því, sem lög og samþykktir þess ákveða, og fara hluthafar með ákvörðunarvald sitt í málefnum félagsins á hluthafafundum. Getur hluthafafundur tekið til umfjöllunar sérhvert málefni, sem varðar félagið, og tekið ákvarðanir um það. Ber þá stjórn félagsins að fara eftir því. Var stjórn Lyfjaverslunar Íslands hf. sjálf í aðstöðu til að boða til fundarins svo fljótt sem auðið yrði. Við þessar aðstæður var stjórninni óheimilt að ákveða sjálf og ganga frá kaupum á öllu hlutafé í Frumafli ehf. áður en slíkur fundur yrði haldinn, svo sem löglega hafði verið krafist. Er þá jafnframt litið til þess að kaupin gátu verið til þess fallin að raska rétti hluthafa samkvæmt 76. gr. laga nr. 2/1995, en samkvæmt þeirri grein laganna ber félagsstjórn að gæta hagsmuna allra hluthafa félagsins.
Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, verður að telja skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 fullnægt til þess að lögbannskrafa sóknaraðila megi ná fram að ganga, enda eiga ákvæði 3. mgr. sömu greinar ekki við í máli þessu. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og kröfur sóknaraðila teknar til greina.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Lagt er fyrir sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við því að varnaraðili, Jóhann Óli Guðmundsson, hagnýti sér þann rétt, sem fylgir hlutafjáreign hans í Lyfjaverslun Íslands hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnverði 170.000.000 krónur, eða ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila.
Ennfremur er lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að taka afstöðu til þess um leið og lögbannið verður lagt á, hvort og hvernig varnaraðila verður gert skylt að afhenda sýslumanni hlutinn til varðveislu meðan lögbannið stendur, sbr. lög nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa.
Varnaraðili greiði hverjum sóknaraðila, Lárusi L. Blöndal. Aðalsteini Karlssyni og Guðmundi A. Birgissyni samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2001.
Sóknaraðilar eru Lárus L. Blöndal, kt. 051161-2899, Rjúpnahæð 3, Garðabæ, Aðalsteinn Karlsson, kt. 121146-2749, Flókagötu 59, Reykjavík og Guðmundur A. Birgisson, kt., 010761-2049, Lækjarási 5, Reykjavík.
Varnaraðili er Jóhann Óli Guðmundsson, kt. 020954-5829, Gíbraltar. Eftirleiðis verður ýmist vísað til hans sem varnaraðila eða sem JÓG. Sóknaraðilar verða nafngreindir, ef ástæða þykir, en annars verður vísað til þeirra sem sóknaraðila.
Dómkröfur:
Sóknaraðilar krefjast þess, að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að synja um lögbann í máli nr. L-19/2001 og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sóknaraðila.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.
Í beiðni sóknaraðila til sýslumanns í máli L-19/2001, sem vísað er til í kröfum þeirra hér fyrir dómi, var þess krafist, að lögbann yrði lagt við því, að varnaraðili hagnýti sér þann rétt, sem fylgir hlutafjáreign hans í Lyfjaverslun Ísands hf., kt. 430269-4029, Borgartúni 7, Reykjavík (eftirleiðis LÍ), sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna. Jafnframt er krafist lögbanns við því, að gerðarþoli ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila. Einnig er þess krafist, að lagt verði fyrir sýslumann að taka afstöðu til þess, um leið og lögbannið verður ákveðið , hvort og hvernig gerðarþola skuli gert skylt að afhenda sýslumanni hlutina til varðveislu, sbr. lög nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa, meðan lögbannið stendur.
Varnaraðili gerir aðallega þá dómkröfu, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að hafnað verði kröfu sóknaraðila um lögbann og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 22. júní 2001 um að synja sóknaraðilum um lögbann við því að varnaraðili, Jóhann Óli Guðmundsson, hagnýti sér þann rétt sem fylgir hlutafjáreign hans í Lyfjaverslun Íslands hf., kt. 430269-4029, Borgartúni 7, Reykjavík, sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001 samtals að nafnvirði 170.000.000 króna og jafnframt að varnaraðili ráðstafi umræddri hlutafjáreign til 3ja aðila. Einnig að lagt verði fyrir sýslumanninn að taka afstöðu til þess um leið og lögbannið verður, hvort og hvernig varnaraðila skuli gert skylt að afhenda sýslumanninum hlutina til varðveislu.
Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Sóknaraðili vísaði málinu til dómsins hinn 25. júní sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er sama dag. Málið var tekið til úrskurðar 2. júlí sl. að afloknum munnlegum málflutningi.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Nauðsynlegt er að gera allítarlega grein fyrir aðdraganda þeirra viðskipta, sem mál þetta fjallar um og krafa sóknaraðila lýtur að.
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á framlögðum gögnum og málflutningi lögmanna málsaðila.
Á aðalfundi LÍ árið 2000 var tilgangi félagsins breytt í því skyni að gera starfsemi þess fjölbreyttari. Stjórn LÍ falaðist eftir kaupum á einkahlutafélaginu A. Karlssyni ehf. Samningar tókust um kaupin í janúar þessa árs. Í yfirlýsingu, dags. 24. janúar sl., sem liggur frammi í málinu og undirrituð er af meiri hluta þáverandi stjórnarmanna í LÍ og Aðalsteini Karlssyni sem seljanda er endanlega gengið frá kaupum á hlut Aðalsteins í A. Karlssyni ehf. þó með fyrirvara um samþykki hluthafafundar um hlutafjáraukningu í LÍ. Niðurlag yfirlýsingarinnar er svohljóðandi:
,,Þá lýsir Aðalsteinn Karlsson því yfir að hann muni ekki gera athugasemdir sem verðandi hluthafi í Lyfjaverslun Íslands hf. við það að samið verði við Frumafl ehf. vegna svokallaðs “Sóltúnsmáls” í samræmi við óformlegt samkomulag milli stjórna Lyfjaverslunar og Frumafls, sbr. ódagsett minnisblað. Þá skuldbindur Aðalsteinn Karlsson sig til þess að andmæla ekki nýtingu frekari kaupréttar á viðbótarhlutfé í Frumafli hf. ef meirihluti stjórnar Lyfjaverslunar Íslands hf. samþykkir að nýta kaupréttinn “. Undir þessa yfirlýsingu ritar varnaraðili sem stærsti hluthafi í LÍ: Það ódagsetta minnisblað, sem vísað er til í yfirlýsingunni er svohljóðandi:
,, MINNISBLAÐ.
LÍ kaupir 44,44% af hlutafé Frumafls og greiðir með 80 milljónum í hlutafé LÍ. LÍ fær kauprétt á 27,78% af hlutafé Frumafls til 6 mánaða, frá undirriun samnings, og kauprétt á öðrum 27,78% til 12 mánaða. Viðmiðunargengi verður 4,78, eins og áður hafði verið ákveðið. Nýta má allan kauprétt innan 6 mánaða. Nýti LÍ sér ekki kauprétt sinn fær fyrirtækið forkaupsrétt til fimm ára, að óseldum hlutum. Afkomutenging Sóltúnsverkefnisins fellur út. Seljandi tekur áhættu af hærri vöxtum en gert er ráð fyrir í áætlun, að mestu eða öllu leyti (hér er svigi dreginn um orðin ,,mestu eða” og einhver ólæsilegur texti handritaður, innskot dómara). Seljandi ábyrgist að Heilbrigðisráðuneytið heimili uppskipti Securitas í Frumafl og Securitas. Verði töf á að starfsemi Sóltúns hefjist skal tekið tillit til þeirra fjárhagslegu afleiðinga sem það hefur á verkefnið. Ráðningarsamningur verður gerður við Hannes Guðmundsson, auk þess sem samningur hefur verið gerður við Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra Sóltúns.” Upphafsstafir fimm stjórnarmanna í þáverandi stjórn LÍ hafa verið ritaðir undir minnisblaðið.
Á hluthafafundi, sem haldinn var í LÍ hinn 24. janúar sl. var samþykkt að veita stjórn félagsins heimild til að hækka hlutafé þess um allt að 300 milljónir króna. Þessi samþykkt fól í sér breytingu á 4. gr. samþykkta félagsins. Í niðurlagi greinarinnar segir svo eftir þær breytingar, sem á henni voru gerðar. ,,Stjórninni er heimilt að gefa út nýju hlutina í tengslum við samruna, í skiptum fyrir hlutafé í öðrum félögum eða sem greiðslu vegna kaupa á eignum og rekstri.”
Á stjórnarfundi í LÍ, sem haldinn var 22. maí sl. var fjallað um málefni Frumafls efh. Þar er bókað undir lið 7 í fundargerð. ,,Formaður dreifði greinargerð sinni um þjónustuverkefni í heilbrigðiskerfinu og kaup á Frumafli hf. Einnig matsskýrslu frá Birki Leóssyni endurskoðanda þar sem framtíðarhagnaður verkefnisins er núvirtur með mismunandi forsendum. Samþykkt var að formaður hefði samband við Árna Tómasson, bankastjóra Búnaðarbanka, viðskiptabanka félagsins, um að fá ráðgjöf við að verðmeta verkefnið.” Því er haldið fram af hálfu sóknaraðilans, Lárusar L. Blöndals, að þessi leið hafi verið valin vegna gagnrýni hans á verði því, sem fyrirhugað væri að greiða hluthöfum Frumafls ehf. Hafi hann gert tillögur um að fengnir yrðu hlutlausir matsmenn til að meta verðmæti félagsins. Fyrirhugað var að halda stjórnarfund í LÍ 29. maí sl. Þeim fundi var frestað með svonefndu rafbréfi (tölvupósti) til stjórnarmanna. Þar segir m.a. að rétt sé að fresta Frumaflsmálinu vegna fjarveru stjórnarmanna, þar til allir aðalmenn geti verið viðstaddir afgreiðslu þess. Að kveldi sama dags, þ.e. 29. maí sl., kveðst sóknaraðilinn, Lárus, hafa móttekið fundarboð frá formanni stjórnar LÍ, þar sem hann var boðaður til stjórnarfundar 31. maí sl. Legið hafi fyrir að hann væri á förum til útlanda í þriggja vikna orlof. Í fundarboðinu, sem liggur frammi í málinu, segir m.a. að nauðsynlegt sé að taka til afgreiðslu mál, sem hafi verið til umfjöllunar á síðustu tveimur stjórnarfundum, þ.e. samning LÍ við Frumafl ehf. Önnur mál eru einnig tilgreind, s.s. frágangur á samningi um kaup á Thorarensen Lyfjum hf. Í fundarboðinu kemur enn fremur fram, að munnlegt svar hafi borist síðdegis frá Búnaðarbankanum varðandi málefni Frumafls efh., sem þegar hafi verið kynnt stjórnarmönnum og fáist staðfest bréflega daginn eftir. Lárusi L. Blöndal var boðið að taka þátt í fundarstörfum í gegnum fundarsíma og símanúmer tilgreind, sem hann gæti hringt í, en einnig væri hægt að hringja í hann þegar fundur hæfist, ef hann gæfi upp símanúmer sitt. Að lokum kemur fram í fundarboðinu, að varamaður yrði boðaður í hans stað, ef hann sæi sér ekki fært að taka þátt í fundarstöfum.
Indriði Þorkelsson hdl., þáverandi lögmaður Lárusar, ritaði stjórnarformanni LÍ bréf, sem honum var afhent persónulega að kveldi 30. maí sl. Í bréfinu er því mótmælt að fjallað verði um samninginn um kaup á Frumafli ehf. og bent á efni rafbréfsins frá 29. sama mánaðar um að fresta afgreiðslu málsins, þar til allir aðalmenn gætu setið stjórnarfund. Einnig er þar lýst andstöðu Lárusar við því að gengið sé frá umræddum samningi, þar til fyrir liggi hlutlaust mat á verðmæti Frumafls ehf. Þessu bréfi fylgdi sami lögmaður eftir með öðru bréfi dags. 31. maí sl. Það bréf er ritað í umboði allra sóknaraðila. Í bréfinu er þess óskað í nafni sóknaraðila, sem skráðir séu fyrir 17,3% af heildarhlutafé félagsins, að boðað verði til hluthafafundar í því skyni að allir hluthafar eigi þess kost að taka afstöðu til þess, hvort LÍ eigi að kaupa hluti í Frumafli hf. af varnaraðila, og öðrum fyrir allt að 860 milljónir króna. Dagskrá hluthafafundarins var tilgreind í bréfinu þannig: 1. Tillaga um vantraust á stjórn félagsins. 2. Stjórnarkjör. 3. Fyrirhuguð kaup Lyfjaverslunar Íslands hfl., á hlutum í Frumafli hf. 4. Önnur mál.
Stjórn LÍ hélt fund 31. maí sl. eins og boðað hafði verið. Í upphafi fundarins var efni síðara bréfs þáverandi lögmanns sóknaraðila kynnt. Ákveðið var að gera Verðbréfaþingi Íslands kunnugt um yfirstandandi samningaviðræður við hluthafa Frumafls efh. þar sem stjórnarmaður hafði látið tilteknum hluthöfum í té trúnaðarupplýsingar, eins og þar er bókað. Einnig var ákveðið að fresta afgreiðslu um málefni Frumafls ehf. að beiðni sóknaraðila. Þá var og ákveðið að boða til hluthafafundar í samræmi við fram komnar óskir þeirra. Stjórn LÍ tilkynnti þann 1. júní sl. Verðbréfaþingi Íslands að niðurstöður samnings við eigendur Frumafls ehf. yrðu fljótlega lagðar fyrir hluthafafund í félaginu.
Núverandi lögmaður sóknaraðila, Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., ritaði því næst stjórnarformanni LÍ bréf, dags. 5. júní sl., í nafni sóknaraðilans, Lárusar, og áréttaði þá kröfu umbj. síns, að ekkert yrði aðhafst í Frumaflsmálinu, fyrr en fyrir lægi mat hlutlausra manna um verðmæti félagsins. Einnig var þess beiðst að engar tilraunir yrðu gerðar til að ráðstafa óráðstöfuðu hlutafé, 170 milljónum króna, áður en hluthafafundurinn yrði haldinn. Hann óskaði enn fremur eftir því að fá afhent öll gögn um verðmat Búnaðarbankans, svo og að honum yrði sent f.h. Lárusar fundarboð á stjórnarfundi í LÍ, þar til umbj. hans væri kominn til landsins.
Næst gerist það, að lögmaður varnaraðila ritar stjórnarformanni LÍ bréf, dags. 11. júní sl. og hótaði málsókn yrði ekki endanlega gengið frá samningi um kaup á hlutabréfum umbj. hans í Frumafli ehfl. í samræmi við þríhliða samkomulag milli JÓG, þáverandi stjórnar LÍ og Aðalsteins Karlssonar frá 24. janúar sl. og áðurnefnt ódagsett minnisblað, sem að hans mati fæli í sér bindandi samningsígildi um verð og fyrirkomulag á kaupum félagsins á Frumafli hf. Stjórnarformaður LÍ boðaði til stjórnarfundar af þessu tilefni, sem haldinn var 11. júní sl. Mættir voru á fundinum sex stjórnarmenn, þar af varastjórnarmaðurinn, Ólafur Jónsson, sem boðaður hafði verið í forföllum sóknaraðilans Lárusar og varastjórnarmaðurinn, Ásgeir Bolli Kristinsson. Í fundargerð er eftirfarandi bókað, að því er varðar kaup á hlutafé Frumafls hf. ,,Fyrir fundinum liggur bréf frá Hróbjarti Jónatanssyni hrl. lögmanni Jóhanns Óla Guðmundssonar dags. 11. júní þar sem þess er m.a. krafist að félagið staðfesti að komist hafi á samningur á milli Lyfjaverslunar Íslands hf. og Jóhanns Óla Guðmundssonar um kaup á hlutafé Frumafls hf. og að gefið verði út hlutafé til Jóhanns í samræmi við skyldur aðila. Stjórn félagsins lítur svo á að félagið hafi með yfirlýsingu dagsettri 24. janúar 2001 og minnisblaði stjórnar sem fylgdi þeirri yfirlýsingu skuldbundið sig til að kaupa hlutafé í Frumafli hf. í samræmi við þá skilmála sem þar koma fram. Jafnframt ákveður stjórn félagsins að nýta kauprétt á öllu hlutafé í Frumafli hf. eins og fram kemur í ofangreindu minnisblaði. Stjórnin veittir stjórnarformanni og forstjóra félagsins fullt umboð til að ganga frá nauðsynlegum gögnum til að efna samninginn að fullu og tilkynna til Verðbréfaþings Íslands.” Einnig var ákveðið á fundinum að boða til hluthafafundar í LÍ 10. júlí n.k.
Sóknaraðilar lögðu fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 12. júní sl. og kröfðust þess að lagt yrði lögbann við því að LÍ geri kaupsamning við JÓG fyrir hönd hluthafa í frumafli um kaup á hlutafénu og við því, að LÍ ráðstafi til JÓG, eða annarra seljenda, hlutafé í LÍ sem endurgjald samkvæmt slíkum samningi. Síðar mun lítillega vikið að þessu máli, sem rekið er hér fyrir dómi samhliða máli þessu, eins og ástæða þykir.
Stjórn LÍ leitaði álits Magnúsar Thoroddsen hrl. á réttarstöðu félagsins gagnvart eigendum Frumafls hf. á grundvelli áðurnefnds ódagsetts minnisblaðs stjórnar og yfirlýsingarinnar frá 24. janúar sl. Álitsgerð Magnúsar er dagsett 15. júní sl. Niðurstaða hans er orðrétt á þessa leið: Kominn er á bindandi samningur um það, að Lyfjaverslun Íslands h/f kaupi 44,44% af hlutafé Frumafls hf. og greiði fyrir það með 80 milljónum í hlutafé L.Í. h/f með hugsanlegum reikningsfrávikum vegna fyrirvara um vexti í minnisblaði stjórnarinnar. Þar sem ég lít svo á, að komist hafi á bindandi samningur milli félaganna, yrði L.Í. bótaskylt gagnvart Frumafli h/f, samkvæmt almennum reglum skaðabóta- og samningaréttar, ef það neitaði að standa við samninginn.
Stjórn LÍ leitaði til Guðmundar Sveinssonar löggilts endurskoðanda hjá Endurskoðun og Uppgjöri ehf. og óskaði eftir því að hann gæfi sérfræðiskýrslu á grundvelli 37. gr. hlutafélagalaga (hfl.) nr. 2/1995 vegna kaupa félagsins á Frumafli hf. Skýrsla Guðmundar er dagsett 18. júní sl. Lokaorð skýrslunnar eru svohljóðandi:
,,Í samræmi við það, sem að framan er ritað, er því hér með lýst yfir að verðmæti Frumalfs hf. svarar til þess endurgjalds sem eigendur Frumafls fá í sinn hlut með útgáfu hlutabréfa í Lýjfaverslun Íslands hf. Færa má kaupverðið í bækur félagsins. Samningurinn um kaupin uppfyllir því skilyðri 37. gr. laga nr. 2/1995 snbr II kafla laga nr.. 2/1995 um hlutafélög. Þá skal að endingu tekið fram að undirritaður uppfyllir hæfisskilyrði 7. gr. laga nr. 2/1995. Ég á ekki hlutabréf í ofangreindum félögum og er óháður eigendum þeirra og stjórnendum. Þá starfa ég ekki sem endurskoðandi félaganna.”
Stjórn LÍ fól Guðmundi Snorrasyni, löggiltum endurskoðanda, að yfirfara sérfræðiskýrslu Guðmundar Sveinssonar. Í niðurlagi bréfs hans til stjórnarformanns LÍ segir svo:
,,Yfirferð mín hefur ekkert leitt í ljós sem bendir til annars en að verðmæti hlutafjár Frumafls hf. svari a.m.k. til þess endurgjalds sem hluthafar í Frumafli hf. fá í sinn hlut með útgáfu hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.”
Hinn 20. júní sl. ákvað fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík að hafna lögbannsbeiðni sóknaraðila frá 12. sama mánaðar, sem áður er vikið að. Í sama þinghaldi lýsti lögmaður sóknaraðila því yfir, að málinu yrði vísað til héraðsdóms og sú krafa gerð þar, að ákvörðun sýslumanns um að hafna lögbanni yrði felld úr gildi.
Boðað var til fundar í stjórn LÍ kl. 17.00 20. júní sl. Lögmaður sóknaraðila krafðist þess í símskeyti til stjórnarformanns LÍ að fundinum yrði frestað til næsta dags, svo að sóknaraðilinn, Lárus, gæti mætt á fundinum, en hann væri væntanlegur til landsins þá um kvöldið. Við munnlegan flutning málsins kom fram, að til fundarins hafði verið boðað daginn áður, og sóknaraðilinn, Lárus, hafði fengið vitneskju um fundinn um hádegisbil 20. júní sl.
Fundurinn var engu að síður haldinn. Hann sátu tveir varamenn, annar í forföllum sóknaraðilans, Lárusar, en hinn í forföllum Arnar Andréssonar, sem einnig hafði krafist þess að fundinum yrði frestað. Auk voru mættir á fundinum Grímur Sæmundsen stjórnarformaður og Óskar Magnússon, en Ólafur G. Einarsson tók þátt í fundarstörfum um síma. Gengið var endanlega frá kaupum á hlutafé JÓG í Frumafli hf. samþykkt að gefa út hlutafé að nafnvirði 170 milljónir króna á gengi sem ákveðið var 4,78. Fyrir fundinum lágu þau gögn, sem vísað er til hér að framan, þ.e. álitsgerð Magnúsar Thoroddsen, tvær áðurnefndar skýrslur endurskoðenda og skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sóltúnsverkefnið. Varnaraðili ritaði á fundargerðina eftirfarandi: ,,Ég undirritaður Jóhann Óli Guðmundsson skrifa mig hér með fyrir þeirri hlutafjárhækkun sem samningur minn um sölu á hlutafé í Frumafli hf. gerir ráð fyrir.”
Sóknaraðilar lögðu fram lögbannsbeiðni hjá sýslumanni 21. júní í máli því, sem hér er til úrlausnar. Sýslumaður hafnaði lögbannsbeiðni sóknaraðila með ákvörðun hinn 22. júní sl. Málinu var vísað til héraðsdóms 25. júní sl. eins og áður segir, í samræmi við bókun lögmanns sóknaraðila þar að lútandi hjá sýslumanni í tilefni af ákvörðun hans.
Sóknaraðili lagði fyrir dóminn nokkur gögn, sem ekki hefur verið lýst. Þau eru álitsgerð Hreins Loftssonar hrl. en þar kemst hann að annarri og gagnstæðri niðurstöðu en Magnús Thoroddsen hrl. Álitsgerð hans, sem dagsett er 22. júní sl., er gerð að beiðni nokkurra fyrrverandi stjórnarmanna í LÍ, sem lýst höfðu þeirri skoðun sinni, að þeir hafi ekki litið á yfirlýsinguna frá 24. janúar og minnisblaðið, sem henni fylgdi sem bindandi samning, enda hefði stjórn LÍ þá átt að upplýsa Verðbréfaþing Íslands um samninginn, eins og Hreinn Loftsson hrl. bendir á í niðurlagi álitsgerðar sinnar. Einnig liggur fyrir dóminum álitsgerð Helga V. Jónssonar hrl. og löggilts endurskoðanda, sem dagsett er 27. júní sl. Helgi telur, að sérfræðiskýrslur, sem áður er vísað til, séu ófullnægjandi og fullnægi ekki skilyrðum hlutafélagalaga. Í niðurlagi skýrslu hans segir svo:
,,Með vísan til þess er að framan er rakið er það álit mitt að hvorki hafi verið gætt laga hér viðurkenndra sjónarmiða við ákvörðun verðmætis þess endurgjalds sem ætlað er að komi í stað hlutafjárhækkunar Lyfjaverslunar Íslands hf. í framangreindum viðskiptum.”
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðilar byggja í fyrsta lagi á því að stjórnarfundir í LÍ hafi ekki verið löglegir, þar sem boðun á þá hans hafi ekki verið tilkynnt sóknaraðilanum, Lárusi, á þann hátt, sem óskað hafði verið eftir í bréfi lögmanns hans frá 5. júní sl. Þessi framkvæmd fari í bága við 2. mgr. 70. gr. hfl. Auk þess hafi verið óheimilt að fjalla um málefni Frumafls hf. á fundinum með vísan til rafbréfs stjórnarformanns LÍ frá 29. maí sl.
Í annan stað byggja sóknaraðilar á því, að stjórn LÍ hafi verið óheimilt að ráða kaupum á Frumafli hf. til lykta, þar sem kominn hafi verið fram krafa hluthöfum um hluthafafund um málefnið, sbr. dóm Hæstaréttar í Hrd. 1994, bls. 1642. Einnig vísa sóknaraðilar til ákvörðunar stjórnarfundar 31. maí s.á. þar sem fallist hafi verið á kröfur Lárusar að þessu leyti.
Í þriðja lagi benda sóknaraðilar á það, að meiri hluti stjórnar hafi með samningnum við varnaraðila tekið ákvörðun, sem væri bersýnilega til þess fallin að afla honum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa og félagsins sjálfs. Brjóti þetta í bága við 1. mgr. 76. gr. hfl. en sé auk þess refsivert skv. alm. hegningarlögum. Niðurstaða endurskoðanda LÍ sýni, að samningurinn við varnaraðila sé félaginu mjög óhagstæður en varnaraðila hagstæður að sama skapi.
Í fjórða lagi byggja sóknaraðilar á því, að yfirlýsingin frá 24. janúar sl. og svonefnt minnisblað hafi ekki falið í sér skuldbindingu af neinu tagi gagnvart varnaraðila. Um innanhúsplagg hafi verið að ræða, sem aðeins hafi verið beint að LÍ og stjórn hennar. Sóknaraðilinn, Aðalsteinn, hafi ekki fengið eintak af minnisblaðinu, enda hvílt mikil leynd yfir því. Hann hafi ekki viljað leggjast gegn breytingu í rekstri LÍ en talið fullvíst, að ekki yrði um kaup á Frumafli hf. að ræða, nema á eðlilegu verði miðað við hlutlaust mat á verðmæti félagsins, enda væri annað andstætt lögum, sbr. 37. gr. hfl. og 6.-7. sömu laga. Í þessu sambandi vísa sóknaraðilar til þess að fjórir af fimm fyrrverandi stjórnarmönnum í LÍ hafi lýst því yfir, að þeir hafi ekki litið svo á, að bindandi samningur hafi komist á milli LÍ og varnaraðila með minnisblaðinu svonefnda. Öll viðbrögð stjórnarinnar frá þeim tíma bendi til sama skilnings. Á stjórnarfundi 22. maí sl. hafi Frumaflsmálinu verið frestað í því skyni að fá álit Árna Tómassonar, bankastjóra Búnaðarbankans. Það hafi ekki verið stjórnarformanni að skapi og því stungið undir stól. Stjórn LÍ hafi ráðið málinu til lykta á fundi 11. júní sl., þrátt fyrir yfirlýsingu í rafbréfi stjórnarformanns til stjórnarmanna frá 29. maí sl. um að fresta meðferð Frumaflsmálsins, þar til allir í aðalstjórn félagsins geti sameiginlega fjallað um málefnið, og þrátt fyrir sérstök fyrirmæli sóknaraðilans, Lárusar um það hvert senda bæri boðanir til hans meðan hann væri fjarverandi. Ljóst sé einnig, að ákvörðun stjórnar LÍ á fundinum 11. júní sl. um kaup á Frumafli hf. sé andstæð lögum þar sem þá þá hafi verið komin fram krafa um hluthafafund.
Sóknaraðilar telja þá fullyrðingu stjórnar LÍ fráleita að með afhendingu hlutafjár til varnaraðila væri LÍ í reynd einungis að efna þann samning sem áður hefði stofnast. Ýmislegt hafi verið óljóst í minnisblaðinu, s.s ákvæði um vexti og önnur atriði. Stjórn LÍ hafi á engan hátt reynt að takmarka kaupin á Frumafli hf. við kaup á 44,44% hlutafjárins eða við markaðsverð hlutafjár í LÍ eða tekið tillit til breyttra vaxtaforsendna. Það hefði þó verið eðlilegt, ef sú fullyrðing stjórnar LÍ fái staðist, að samningurinn við varnaraðila væri aðeins til þess fallinn að bjarga félaginu frá tjóni.
Sóknaraðilar telja að samningur Frumafls hf. við ríkið sé aldrei meira virði en 143 milljónir króna, eins og útreikningar endurskoðanda LÍ geri ráð fyrir sé litið út frá forsendum seljanda. Því sé það deginum ljósara að ákvörðun um kaupin á því verði, sem um ræðir, feli í sér ótilhlýðilegan og ólögmætan ávinning til handa vanraraðila, sem sé stór hluthafi í LÍ.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Varnaraðili styður aðalkröfu sína um frávísun málsins frá dómi þeim rökum að lögbanninu hefði einnig átt að beina gegn LÍ. Félagið sé almenningshlutafélag og hlutabréf þess skráð á Verðbréfaþingi Íslands (VÞÍ). Krafa sóknaraðila lúti að því, að varnaraðila verði varnað með lögbanni að eiga viðskipti með löglega útgefin hlutabréf í skráðu almenningshlutafélagi. Félagið hafi með samningum við VÞÍ undirgengist ýmsar skyldur sem varði tilkynningaskyldu, innherjaviðskipti og almennar reglur þingsins um sölu á bréfum sínum, m.a. að tryggja að engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutabréfin. Hömlur sem þessar kunni að hafa ýmsar alvarlegar afleiðingar fyrir félagið, s.s. á verðmyndun hlutabréfa þess og á seljanleika þeirra. LÍ hafi því lögvarða hagsmuni af því að vera aðili að þessu máli. Því hefði átt að beina lögbannsbeiðninni sameiginlega að varnaraðila og LÍ á grundvelli 18. gr. laga 91/1991, enda sé ljóst, að í staðfestingarmáli, ef til þess komi, sé sóknaraðilum óhjákvæmilegt að stefna varnaraðila og LÍ sameiginlega til að þola riftun eða ógildingu hins umþrætta samnings.
Varakröfu sína styður varnaraðili í fyrsta lagi þeim rökum, að því fari fjarri að skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 séu uppfyllt.
Frumaflsmálið hafi átt sér langan aðdraganda allt frá jan/febr. 2000. Fyrirsvarsmenn LÍ og varnaraðili hafi m.a. farið saman í ferð til Svíþjóðar til að kynna sér rekstur hjúkrunarheimils. Fulltrúar Frumafls hf. hafi einnig setið stefnumótunarfund í september 2000, þar sem m.a hafi verið rætt um nýtt skipurit félagsins með aðild Frumafls í þeirri mynd. Í bréfi 4 af 5 stjórnarmanna LÍ í síðustu stjórn félagsins, dags. 15. júní sl. komi m.a. fram, að ,,aðild að “Sóltúnsverkefninu” var vissulega áhugaverð fyrir Lyfjaverslun Íslands enda kynntum við okkur málið vel”
Þá sé ljóst, að stjórn LÍ hafi bersýnilega talið að íhuguðu máli, eftir að hafa aflað sér lögfræðilegrar ráðgjafar hjá hlutlausum og óháðum lögmanni, Magnúsi Thoroddsen hrl., að samningur hafi í raun komist á milli LÍ og varnaraðila í janúarmánuði sl. Þá hafi allir þáverandi stjórnarmenn undirritað umrætt minnisblað, þar sem kaupverðið hafi verið afráðið, kaupréttur og kaupréttargengi, (4,78), svo og önnur meginatriði samningsins. Minnisblaðið hafi verið afhent varnaraðila sem sönnun þess að stjórnin hefði einhuga ákveðið að eiga viðskipti um Frumafl. Daginn eftir undirritun þess hafi verið samþykkt að auka hlutafé úr 300 milljónum króna í 600 milljónir. Tilefni hækkunarinnar hafi verið fyrirhuguð kaup á A. Karlssyni, Frumafli hf. og fleiri félögum. Í áðurnefndu bréfi fyrrverandi stjórnarmanna frá 15. júní sl. sé þetta staðfest, en þar segjast þeir hafa áritað minnisblaðið ,,með tölum sem seljandi verkefnisins var með í huga. Var þetta gert fyrir hluthafafund í félaginu, þannig að ljóst væri hvað seljandi væri að fara fram á..” Í bréfinu segir síðan, að á fundinum hafi stjórninni verið veitt leyfi til að gefa út hina nýju hluti ,, í tengslum við samruna, í skiptum fyrir hlutafé í öðrum félögum eða sem greiðslu vegna kaupa á eignum og rekstri .” Það sé því ljóst að þar með hafi fyrirætlanir stjórnarinnar um kaup á Frumafli hf. á umsömdum kjörum verið samþykktar. Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu fyrrverandi stjórnarmanna, að þeir hafi einungis verið að votta undirritun Aðalsteins Karlssonar á yfirlýsinguna frá 24. janúar sl. og vísar til Hrd: 499/1998 í því sambandi. Þá mótmælir varnaraðili því, að hæstaréttardómur í máli Sýnar hf., sem sóknaraðilar vísa til, hafi fordæmisgildi í þessu máli. Í Sýnarmálinu hafi niðurstaða Hæstaréttar byggst á því, að engin umræða hafi farið fram um sölu hlutaðeigandi hlutabréfa í Sýn hf. fyrr en á þeim stjórnarfundi, þar sem ákvörðun var tekin um sölu þeirra.
Varnaraðili byggir enn fremur á því, að yfirlýsingin frá 24. janúar sl. sé þríhliða og bindi jafnt alla þá, sem undirrituðu hana. Hún sé að efni til hluthafasamkomulag og lúti almennum reglum samningaréttarins. Sóknaraðilinn, Lárus, hafi tekið þátt í að semja yfirlýsinguna og sóknaraðilinn, Aðalsteinn, hafi skuldbundið sig til að gera ekki athugasemdir við því, að stjórn LÍ semdi við Frumafl á þeim nótum sem minnisblaðið mælti fyrir um. Fullyrðingar sóknaraðila um fákunnáttu sína um efnisinnihald minnisblaðsins og túlkun þeirra á orðalagi þess séu því fjarstæðukenndar.
Varnaraðili mótmælir einnig þeirri málsástæðu sóknaraðila, að ákvarðanir stjórnar LÍ í júní sl. hafi verið ólögmætar, þar sem fundarboðun hafi verið ábótavant og óheimilt hafi verið að taka ákvörðun, þar sem búið hafi verið að óska eftir hluthafafundi til að ræða það mál. Vísað er til þess í þessu sambandi, að hluthafafundur hafi veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins m.a. til að kaupa Frumafl hf. á þeim kjörum, sem kynnt höfðu verið. Samninginn við Frumafl hf. verði að skoða í samhengi við aðrar ákvaðanir stjórnar LÍ, bæði þeirrar, sem nú sitji og fyrrverandi stjórnar. Eins hafi verið staðið að málum af hálfu stjórnar LÍ við kaupin á Frumafli, eins og gert hafi verið gagnvart A. Karlssyni hf. og Thorarensen-Lyfjum hf. Þessir þrír samningar hafi verið gerðir á grundvelli heimildar hluthafafundar þann 24. janúar sl. um að hækka hlutafé og afhenda hlutabréf í LÍ vegna kaupa á öðrum rekstri eða fyrirtækjum. Þó virðist sem efni Frumaflssamningsins hafi eingöngu verið kynnt á hluthafafundinum. Ekki hafi verið leitað mats óvilhallra og hæfra manna við gerð samninga við A. Karlsson hf. eða Thorarensen-Lyfja hf.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila, að með kaupunum á Frumafli hf. hafi falist ótilhlýðileg ívilnun honum til handa á kostnað annarra hluthafa í LÍ. Núverandi stjórn félagsins hafi algerlega byggt á kaupverði og kjörum, sem fyrri stjórn hafi ákveðið. Í öðru lagi bendir varnaraðili á það, að hann sé sá, sem mestu muni tapa á því, ef umræddur kaupsamningur valdi LÍ tjóni, þar sem hann sé langstærsti hluthafinn eftir þau viðskipti, þar sem hann hafi fengið allt endurgjaldið greitt með hlutabréfum í LÍ, gagnstætt því, sem gerst hafi við kaupin á A. Karlssyni hf. og Thorarensen-Lyfjum hf. Verði raunin sú, að stjórn LÍ og varnaraðili teljist hafa bakað sér fébótaábyrgð með hinum umþrætta samningi, standi sóknaraðilum opin sú leið að sækja stjórnarmenn og varnaraðila persónulega um það fjártjón, sem af kunni að hljótast og miðist sú málsókn við mismun hins ólöglega kaupverðs og ,,rétts kaupverðs”. Staðreyndin sé aftur á móti sú, að fyrir liggi sérfræðiskýrslur, sem telji það endurgjald eðlilegt, sem LÍ hafi látið af hendi við kaupin á Frumafli hf.
Varnaraðili telur, eins og mál þetta sé vaxið, að hagsmunir sóknaraðila fari vart forgörðum, þótt beðið sé dóms um það, hvort löglega hafi verið staðið að málum af hálfu stjórna(r) LÍ í málum Frumafls hf.
Því beri að hafna fram kominni lögbannsbeiðni, sbr. Hrd í máli nr. 84/2001.
Varnaraðili bendir einnig á þann möguleika, að sóknaraðilar eigi þess kost að bera upp á fyrirhuguðum hluthafafundi tillögu um að umrædd viðskipti verði rannsökuð sérstaklega sbr. 97. gr. hfl. Til þess þurfi einungis 25% atkvæða. Varnaraðili nefnir fleiri úrræði, sem sóknaraðilum eru tiltæk, sem óþarft er að rekja.
Varnaraðili gerir þá þrautavarakröfu, með vísan til 28. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 2. tl. 3. mgr. 24. gr. sömu laga, að varnaraðila verði heimilt að afstýra lögbanni með því að leggja fram tryggingu fyrir hugsanlegum skaðabóum, sem kunni að verða dæmdar félaginu og/eða sóknaraðilum, verði fallist ða lögbannskröfu sóknaraðila.
Þá gerir varnaraðili kröfu til þess, fallist dómurinn á lögbannskröfu sóknaraðila, að ekki verði fallist á þrautavarakröfu varnaraðila, að sóknaraðilum verði gert að setja tryggingu að fjárhæð 200 milljónir króna með vísan til 30. gr. síðast tilgreindra laga. Sóknaraðilar hafi ekki mótmælt því að leggja fram trygginu. Ljóst sé, að tjón varnaraðila, bæði beint og óbeint, vegna stöðvunar á fjárhagslegri nýtingu hlutabréfa í LÍ að nafnvirði 170 milljónum króna, auk miska geti numið verulegum fjárhæðum. Verð á hlutabréfum í LÍ fari lækkandi eftir uppsveiflu undanfarinna vikna. Búast megi við að deilur og neikvæð umræða hafi áhrif til lækkunar á verði hlutabréfanna að ósekju.
Forsendur og niðurstaða:
Fyrst verður tekin afstaða til frávísunarkröfu varnaraðila.
Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því, að sóknaraðilar hafi einnig átt að beina lögbannsbeiðni sinni að LÍ, enda sé um að ræða samning, sem stjórn þess hafi gert kaupsamning við varnaraðila, sem veiti honum þau félagsréttindi, sem krafist sé, að honum verði fyrirmunað að nýta á fyrirhuguðum hluthafafundi í LÍ. Aðild beggja að gerð kaupsamningsins og aðdragandinn að gerð hans sé svo samofin sakaraðild málsins, að þetta tvennt verði ekki skilið að. Einnig byggir varnaraðili á því, að LÍ eigi mikið undir því, að engar hömlur verði lagðar á hlutafé þess, þar sem félagið sé almenningshlutafélag, sem hafi sem slíkt undirgengist ýmsar kvaðir og skuldbindingar gagnvart Verðbréfaþingi Íslands.
Dómurinn lítur svo á, að sóknaraðilar hafi verulega hagsmuni af því að fá úr því skorið, hvort lögbann verði lagt á í samræmi við kröfur þeirra. Sú staðreynd, að LÍ er ekki aðili að málinu, breytir að sönnu eðli þess í þá veru, að niðurstaða málsins bindur félagið ekki með sama hætti og væri það málsaðili.
Að þessu virtu er frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.
Verður því næst tekin afstaða til krafna málsaðila í efnisþætti málsins.
Kaup LÍ á Frumafli hf. hefur átt sér langan aðdraganda, eins og að framan er lýst og gögn málsins styðja.
Í yfirlýsingu dagsettri 24. janúar sl. (sjá bls. 2 að framan) skuldbindur sóknaraðilinn, Aðalsteinn Karlsson, sig til að gera engar athugasemdir við það að samið verði við Frumafls vegna svokallaðs Sóltúnsmáls í samræmi við óformlegt samkomulag milli stjórna LÍ og Frumafls hf., sbr. ódagsett minnisblað. Eins og áður er getið undirritaði varnaraðili einnig þessa yfirlýsingu. Sýnt þykir, að minnisblaðið hefur legið fyrir við undirritun yfirlýsingarinnar. Í minnisblaðinu er skýrt kveðið á um það, að LÍ muni kaupa þar tilgreindan hluta í Frumafli hf. á ákveðnu verði og eigi þess einnig kost að kaupa það hlutafé, sem eftir stendur, á sama verði, að því er virðist. Skoða verður þetta minnisblað, sem tilboð stjórnar LÍ um kaup á Frumafli hf. á þeim kjörum, sem þar er getið og með þeim fyrirvörum, sem þar er að finna. Tilboðið komst til vitundar varnaraðila í síðasta lagi við undirritun yfirlýsingarinnar 24. janúar sl. Engin tímamörk er að finna í tilboðinu gagnvart varnaraðila.
Ljóst er, að sóknaraðilinn, Aðalsteinn Karlsson, hefur skuldbundið sig til að hafa engin afskipti af kaupum stjórnar LÍ á Frumafli hf. Einnig liggur fyrir, að sóknaraðilinn Lárus átti þátt í að semja umrædda yfirlýsingu og var kunnugt um efni hennar.
Skuldbinding LÍ, samkvæmt minnisblaðinu, er þó háð því skilyrði, að reglum hlutafélagalaga verði fylgt um verðmat á andvirði Frumafls hf., sbr. 37. gr. hlutafélagalaga. Stjórn félagsins hafði á hluthafafundinum 24. janúar sl. samhliða hækkun hlutafjár félagsins aflað sér heimildar til ,,að gefa út nýju hlutina í tengslum við samruna, í skiptum fyrir hlutafé í öðrum félögum eða sem greiðslu vegna kaupa á eignum og rekstri.”
Samningur sá, sem LÍ gerði við varnaraðila 20. júní sl., er í samræmi við það, sem fram kemur í minnisblaðinu, hvað varðar verð og önnur þau ákvæði hans, sem um er getið á minnisblaðinu, eftir því sem best verður séð. Eins og áður er vikið að hafði stjórn félagsins áður aflað sérfræðiskýrslu Guðmundar Sveinssonar, löggilts endurskoðanda og fengið umsögn nafna hans Snorrasonar, sem einnig er löggiltur endurskoðandi um skýrslu hins fyrrnefnda. Þá hafði stjórnin fengið álit Magnúsar Thoroddsen hrl.
Það er mat dómsins, að stjórn LÍ hafi þannig fullnægt lagaskilyrðum hlutafélagalaga, samkvæmt 37. gr. hfl., sbr. 5. og 6-8. gr. sömu laga.
Sóknaraðilar byggja lögbannsbeiðni sína einnig á því, að stjórn LÍ hafi verið óheimilt að ráða Frumaflsmálinu til lykta, án þess að aðalstjórnarmenn ættu þar aðild að og vísa í því sambandi til rafbréfs stjórnarformanns LÍ. Einnig byggja þeir í þessu tilliti á 1. mgr. 71. gr. hlutafélagalaga.
Í öðrum málslið 1. mgr. 71. gr., sem sóknaraðilar byggja á, segir svo: ,,Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess kostur.” Síðan segir: ,,Ef stjórnarmaður forfallast vegna veikinda, fjarveru o.þ.h. og valinn hefur verið varamaður skal honum veittur kostur á þátttöku í stjórnarfundum meðan forfölllin vara.”
Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. hfl. skal stjórnarformaður boða til stjórnafunda í félaginu. Það er hans að ákveða, hvort fundar sé þörf, en einnig getur stjórnarmaður krafist stjórnarfundar, svo og framkvæmdastjóri félags.
Í hlutafélögum fer félagsstjórn með málefni félagsins milli hluthafafunda. Á henni hvílir ábyrgð á rekstri félagsins. Félagsstjórn er nauðsynlegt að geta brugðist fljótt við breyttum og nýjum aðstæðum. Ekki er því ávallt hægt að fresta fundum, þannig að allir aðalmenn hlutafélags eigi þess kost að fjalla um það málefni, sem hverju sinni er tilefni fundar. Varamenn ber þá að tilkveðja.
Í því tilviki, sem hér um ræðir, var það mat stjórnarformanns LÍ, að nauðsynlegt væri að halda stjórnarfund 11. júní sl. í tilefni af kröfu varnaraðila um að gengið yrði frá samningi við hann á grundvelli minnisblaðsins svonefnda. Ljóst var að stjórnarmaðurinn, Lárus, var staddur erlendis og hafði áður neitað að taka þátt í stjórnarfundi um síma, eins og áður er getið. Því var tilkvaddur varamaður í hans stað. Um stjórnarfundinn 20. júní sl. orkar fremur tvímælis. Stjórnarformaður félagsins mat aðstæður hins vegar svo, að nauðsynlegt væri að halda fundinn og ber honum að svara fyrir þá ákvörðun sína á fyrirhuguðum hluthafafundi í LÍ, svo og aðrir stjórnarmenn, sem fundinn sátu, að einum undanskildum. Einnig ber til þess að líta, að varnaraðili átti engan hlut að boðun á þennan stjórnarfund né annan, eftir því sem best er vitað.
Því þykir dóminum ekki tilefni til að ógilda ákvörðun fundarins frá 20. júní sl. án þess að víðtækari ályktun verði af þeirri afstöðu dreginn.
Sóknaraðilar byggja ennfremur kröfur sínar á því, að krafa þeirra til stjórnar LÍ um hluthafafund um Frumaflsmálið o fl. leiði til þess að stjórn félagsins hafi verið óheimilt að fjalla um málið.
Líta verður til þess við mat á þessari málsástæðu, að stjórnin hafði fengið heimild hluthafafundar til að kaupa félög í rekstri. Þá þegar lágu fyrir drög að samningi við Frumafl hf., enda þótt engin vitneskja sé fyrir því, hvort þau hafi verið kynnt á hluthafafundinum. Stjórnin var þannig að vinna að málinu með heimild hluthafafundar.
Óhjákvæmilegt er í hlutafélögum, ekki síst þeim, sem teljast almenningshlutafélög, að stjórn hafi rúmar heimildir til að útfæra stefnu þá, sem mörkuð er á hluthafafundum. Aðgerðir og ákvarðanir stjórnar verða, að mati dómsins, ekki stöðvaðar með því einu að krefjast hluthafafundar. Heimild 85. gr. hfl. veitir hluthöfum, sem ráða yfir tilskildu hlutafé, rétt til að krefjast skriflega hluthafafundar, enda tilgreini þeir fundarefni. Hluthafi á einnig rétt á því, skv. 86. gr. hfl. að fá ákveðið málefni tekið fyrir á fundi, með þeim skilyrðum, sem lagaákvæðið setur.
Hvergi er það að finna í hlutafélagalögunum, að beiðnin um fund eins og sér, takmarki heimildir stjórnar félagsins. Hlýtur það að ráðast af aðstæðum hverju sinni.
Eins og hér háttar til, er að álit dómsins, að framkomin krafa sóknaraðila um hluthafafund útiloki ekki stjórn LÍ til að ráða málum Frumafls hf. til lykta, með þeim hætti sem átt hefur sér stað.
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 (hér eftir lögbannslög) er það skilyrði sett fyrir því að lögbann verði lagt á, að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfnin, sem lögbannið beinist gegn, brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá segir í 3. mgr. sama lagaákvæðis, að lögbann verði ekki lagt við athöfn:
1 ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
2. ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því, að athöfn fari fram, og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni, sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.
Samkvæmt 1. mgr. lagaákvæðisins hvílir sönnunarbyrðin á gerðarbeiðanda fyrir því, að athöfn gerðarþola feli í sér brot gegn lögvörðum hagsmunum hans.
Sóknaraðilar bera því sönnunarbyrðina fyrir því, að sérfræðiskýrsla sú, sem stjórn LÍ fékk löggiltan endurskoðanda til að framkvæma, og samþykkt var af öðrum slíkum, sé röng og í kaupsamningi þeim, sem stjórn félagsins gerði við varnaraðila, felist afhending stórkostlegra verðmæta til hans á kostnað annarra hluthafa, eins og sóknaraðilar halda fram.
Þess er áður getið, að Helgi V. Jónsson hrl og löggiltur endurskoðandi hefur látið það álit í ljósi, að endurgjald LÍ til varnaraðila, sé í engu samræmi við mótframlag hans, þ.e. verðmæti Frumafls hf. sé allt of hátt metið af stjórn LÍ og í engu samræmi við raunvirði félagsins. Einnig hafa sóknaraðilar vísað til annarra álitsgerða í þessu sambandi.
Ekkert af því, sem sóknaraðilar hafa lagt fram, hnekkir í raun sérfræðiskýrslu þeirri, sem stjórn LÍ lét gera. Um er að ræða mat á ýmsum ófjárhagslegum verðmætum s.s. viðskiptavild og viðskiptasamböndum, samkeppnisforskoti, stækkunarmöguleikum o.s.frv.
Því gefur auga leið, að mat á þessum verðmætum hlýtur að verða einstaklingsbundið.
Þá er til þess að líta, að sóknaraðilar eiga þess kost, að krefja stjórn félagsins, eða félagið sjálft um skaðabætur, komi í ljós, að þeir hafi beðið fjárhagstjón af aðgerðum stjórnarinnar vegna umræddra viðskipta, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. lögbannslaga, sbr. einnig ákvæði XV. kafla hlutafélagalaga.
Loks byggja sóknaraðilar á því, að áhrif varnaraðila á fyrirhuguðum hluthafafundi muni aukast sem svarar því hlutafé, er honum var afhent með samningnum frá 20. júní sl. Geti hann þannig beitt auknum áhrifum í því skyni að fá samning sinn við LÍ samþykktan. Þetta verði ekki bætt með skaðabótum eða á annan hátt.
Í 95. gr. hfl. er bann lagt við því, að hluthafafundur taki ákvörðun, sem bersýnilega sé til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa félagsins.
Takist sóknaraðilum að sýna fram á sú hafi verið raunin í umræddu tilviki, eiga þeir þess kost að hnekkja ákvörðun fyrirhugaðs hluthafafundar, verði niðurstaða hans sú, að umræddur Frumaflssamningur verði þar samþykktur.
Lögbann er neyðarúrræði, sem valdið getur þeim, sem það beinist að verulegu tjóni. Þessu úrræði ber að beita með varúð og því aðeins að ekki séu aðrar leiðir færar.
Rétt þykir að hafna kröfu sóknaraðila með vísan til þess, sem að framan er rakið eins og nánar er lýst í úrskurðarorði.
Þá þykir rétt, þrátt fyrir þessi málalok, að málsaðilar beri sjálfir kostnað af máli þessu.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að synja um lögbann í máli nr. L-19/2001.
Málskostnaður fellur niður.