Hæstiréttur íslands
Mál nr. 153/1999
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
|
|
Fimmtudaginn 14. október 1999. |
|
Nr. 153/1999. |
Dóra Kristín Sigurðardóttir (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Ólafur Axelsson hrl.) |
Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka.
D slasaðist í skíðalyftu í eigu R. Við uppgjör bóta var ekki ágreiningur um bótaskyldu R en deilt var um kröfu D vegna tímabundins atvinnutjóns. D krafðist þess að heimilisstörf sín yrðu metin að jöfnu við störf utan heimilis en hún starfaði sem skrifstofumaður í hálfu starfi. Þar sem ákvæði skaðabótalaga um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur þótti ótvírætt og forsendum D við útreikning á höfuðstól kröfu sinnar hafði ekki verið mótmælt sérstaklega, var fallist á kröfu hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 1999. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.086.562 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. febrúar 1997 til 20. júní 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi af völdum skíðalyftu í Skálafelli 22. febrúar 1997. Vegna slyssins var áfrýjandi talin með öllu óvinnufær um eins árs skeið, en auk þess hlaut hún varanlega örorku og varanlegan miska. Vátryggingafélag stefnda greiddi áfrýjanda 26. maí 1998 bætur af þessum sökum ásamt þjáningabótum. Um bæturnar var ekki ágreiningur nema vegna tímabundins atvinnutjóns. Taldi vátryggingafélagið áfrýjanda eingöngu eiga að fá bætur í samræmi við vinnutekjur, sem hún fór á mis við á tólf mánaða tímabili frá slysdegi, en fyrir þann tíma vann hún í hálfu starfi utan heimilis. Áfrýjandi tók við bótunum með fyrirvara um að hún teldi sig eiga rétt til frekari bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, þar sem hún hafi ekki getað sinnt heimilisstörfum eins og hún áður gerði á móti því hálfa starfi, sem hún hafði gegnt utan heimilis. Í málinu krefst áfrýjandi bóta þessu til samræmis, en um fjárhæð þeirra leggur hún til grundvallar þau laun, sem hún þáði fyrir hálft starf sitt utan heimilis á árinu 1996.
Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á áfrýjandi rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. laganna vegna vinnu sinnar við heimilisstörf. Fjárhæð bóta vegna slíks tjóns á samkvæmt því, sem segir í fyrrnefnda lagaákvæðinu, að miðast við verðmæti þess háttar vinnu. Stefndi hefur hins vegar ekki sérstaklega mótmælt þeim forsendum, sem áfrýjandi leggur til grundvallar við útreikning á höfuðstól kröfu sinnar. Kröfu áfrýjanda um vexti hefur heldur ekki verið andmælt. Verða því dómkröfur áfrýjanda að fullu teknar til greina.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði áfrýjanda, Dóru Kristínu Sigurðardóttur, 1.086.562 krónur með 0,9% ársvöxtum frá 22. febrúar 1997 til 1. maí sama árs, 1% ársvöxtum frá þeim degi til 1. desember sama árs, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. mars sama árs, 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí sama árs, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 20. júní 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar sl. er höfðað með stefnu birtri 25. september 1998.
Stefnandi er Dóra Kristín Sigurðardóttir kt. 240259-5089, Urðarhæð 2, Garðabæ.
Stefndi er Reykjavíkurborg kt. 530269-7609 Ráðhúsinu, Reykjavík vegna Íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur kt. 521286-1569 Fríkirkjuvegi 11, Reykjavík. SJÓVÁ-ALMENNUM tryggingum h/f kt. 701288-1739 Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 1.086.562 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi þann 22. febrúar 1997 til 20. júní 1998 og með vöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, með inniföldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun skv. mati dómsins.
Á hendur réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og honum gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í máli þessu enda enga kröfur gerðar á hendur honum.
Málavextir
Stefnandi var 37 ára gömul skrifstofustúlka í hálfu starfi og húsmóðir er hún, þann 22. febrúar 1997, varð fyrir slysi í Skálafelli, við skíðaiðkun. Slysið bar þannig að, að lyftustóll lenti á herðum hennar, hálsi og baki, er hún var að aðstoða barn, sem hafði fallið úr lyftustólnum efst, þar sem fara á úr honum. Starfsmaður stefnda, sem er við gæslu á staðnum, einmitt vegna hugsanlegra óhappa af þessu tagi, virðist ekki hafa tekið eftir óhappinu og stöðvaði því ekki lyftuna þegar í stað er barnið féll við það að fara úr henni. Lyftan gekk því áfram og rakst næsti stóll í stefnanda. Við slysið hlaut stefnandi áverka er leiddu til tímabundinnar og varanlegrar örorku. Þegar fyrirséð var að frekari læknismeðferð mundi ekki skila árangri fór stefnandi í örorkumat til Atla Þórs Ólasonar læknis. Í örorkumati Atla er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón sé 100% í 12 mánuði og er því miðað við árslaun í kröfugerð.
Í máli þessu er ekki ágreiningur milli aðila um málavexti eða bótaskyldu og fór fram uppgjör þann 26. maí 1998 á bótum fyrir varanlega örorku og því er réttargæslustefndi taldi að bæta ætti tímabundið tjón stefnanda með. Enginn ágreiningur er milli aðila um aðra þætti bótauppgjörsins, en bætur fyrir tímabundið tjón skv. 2. gr. skaðabótalaga. Við bótauppgjörið var því gerður fyrirvari af hálfu stefnanda, um frekari bætur fyrir tímabundið tjón. Ágreiningur aðila snýst um það hvaða tekjuviðmið skuli leggja til grundvallar við útreikning bóta fyrir tímabundið tjón stefnanda. Ágreiningurinn varðar það hvort reikna á út bætur fyrir tímabundið tjón miðað við þau laun, ein og sér, sem stefnandi hafði hjá vinnuveitanda sínum, eða hvort umreikna á launin miðað við að stefnandi hefði verið í fullu starfi þegar slysið bar að höndum. Mál þetta snúist þannig um það, hvort leggja eigi heimilisstörf að jöfnu við launað starf eða hvort alls ekki eigi neinar bætur að koma fyrir störf á heimili, eins og verið hafi afstaða stefnda/réttargæslustefnda við uppgjörið þann 26. maí 1998.
Málsástæður og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína á því að auk þess sem hún hafi verið í hálfu starfi utan heimilis fyrir slysið hafi hún sinnt hefðbundnum heimilisstörfum. Eftir slysið hafi hún hvorki getað sinnt sinni launuðu vinnu né heimilisstörfum og því þurft að leita aðstoðar vina og vandamanna við heimilisstörf, auk þess sem þau hafi komið þyngra niður á maka hennar og börnum, sem séu þrjú, 5 ára, 7 ára og 14 ára.
Með hliðsjón af þessu og ákvæði 3. mgr. l. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. greinargerð með því, telur stefnandi að tjón hennar sé ekki fullbætt með því að reikna bætur eingöngu út frá launum hennar fyrir hálft starf utan heimilis. Verði þannig, eins og krafist er í málinu, að umreikna laun hennar til fulls starfs til að leggja verðmæti vinnu við heimilisstörf að jöfnu við störf utan heimilis, eins og fram komi í lagaákvæðinu. Í 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga sé vísað til 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga. Fyrstnefnda ákvæðið, þ.e. 2. gr. skaðabótalaga, fjalli um bætur fyrir tímabundið tjón, en hin síðarnefndu varanlega örorku. Því sé ljóst að tilgangur laganna sé sá að sömu forsendur skuli lagðar til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir tímabundna örorku og fyrir varanlega örorku. Þetta komi enn skýrar fram i greinargerð með lögunum, en í greinargerð með 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga segi orðrétt:
"Ákvæði 3. mgr. um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli leggja að jöfnu við launatekjur skiptir máli þegar ákveða skal bætur fyrir atvinnutjón skv. 2. gr. eða varanlega örorku tjónþola sem nýtir starfsgetu sína að verulegu leyti til annars en að afla vinnutekna."
Í skaðabótalögunum sjálfum, svo og greinargerð með frumvarpi til þeirra, verði ekki séð að neinn greinarmunur sé gerður, að þessu leytinu til, annars vegar á bótum fyrir tímabundið tjón og hins vegar á bótum fyrir varanlega örorku.
Þrátt fyrir þetta hafi stefndi/réttargæslustefndi, án nokkurs rökstuðnings, alfarið neitað að greiða bætur fyrir þann hluta tímabundins tjóns stefnanda sem snúi að störfum á heimili hennar. Nánari rökstuðning fyrir kröfu stefnanda sé að finna í bréfum lögmanns hennar til réttargæslustefnda dags. 20. og 22. maí 1998. Í síðarnefnda bréfinu sé gert það sáttaboð að endanlegt uppgjör fari fram með helmingi þeirrar fjárhæðar sem stefnt er fyrir í máli þessu, þ.e. að uppgjör fyrir störf á heimili fari fram miðað við helming þeirra tekna sem stefnandi hafði fyrir störf utan heimilisins. Boði þessu, sem sett hafi verið fram án nokkurrar viðurkenningar á réttmæti slíkrar skerðingar, hafi alfarið og án nokkurs rökstuðnings verið hafnað af hálfu stefnda/réttargæslustefnda.
Þess sé þó rétt að geta, að starfsmaður réttargæslustefnda hafi tjáð lögmanni stefnanda, munnlega, að ástæða þess að ekki væri fallist á að bæta stefnanda tímabundið tjón hennar vegna heimilisstarfa væri sú að vátryggingafélögin hefðu tekið þá afstöðu að ekki beri að bæta slíkt tjón.
Stefnandi bendir á að fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50 frá 1993 hafi verið venja að bæta heimavinnandi aðila tímabundna örorku með hliðsjón af útreikningi tryggingastærðfræðings, sem nánast undantekningarlaust hafi byggst á 75% af svokölluðum "Iðjutaxta". Ekkert í skaðabótalögunum frá 1993 bendi til að ætlunin hafi verið, með gildistöku laganna, að gera rétt þeirra sem falla í þennan flokk (hvort sem um er að ræða hlutastarf utan heimilis eða einungis heimilisstörf) svo miklu verri en áður var. Þvert á móti virðist það hafa verið tilgangur löggjafans, sbr. áðurgreint ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna, að rétta hlut þessa fólks frá því sem áður var.
Þá vísar stefnandi til þess að með 8. gr. skaðabótalaga sé sérstaklega tekið á því hverjar bætur skuli greiða, vegna varanlegrar örorku, til þeirra sem séu heimavinnandi eða vinni ekki fyrir tekjum. Sé athyglisvert að velta því fyrir sér hver ástæða sé til að greiða bætur til slíkra aðila fyrir "fjárhagstjón" þegar það er varanlegt en ekki þegar það er tímabundið. Lögin taki á þessu, eins og fram komi hér að framan, á þann hátt að í 3. mgr. 1. gr. sé tekið fram að leggja skuli tekjur fyrir heimilisstörf að jöfnu við launatekjur. Krafa stefnanda í máli þessu sé í samræmi við þessi fyrirmæli laganna.
Tekjur stefnanda fyrir hálft starf, utan heimilis, séu þekktar og óumdeildar, enda hafi verið gert upp miðað við ákveðnar forsendur fyrir varanlega örorku. Stefnandi krefst þess að gert sé upp við hana, miðað við sömu forsendur og tekjur, fyrir tímabundið tjón.
Stefnandi krefst vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi til 20. júní 1998 (kröfubréf var ritað 20. maí 1998) og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um að málskostnaðurinn hafi að geyma innifalin áhrif 24,5% virðisaukaskatts byggist á lögum um virðisaukaskatt, en stefnandi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og verði því vegna skaðleysissjónarmiða að hafa hliðsjón af skattinum, sem henni beri að greiða lögmanni sínum, þar sem lög um virðisaukaskatt leggi honum þá skyldu á herðar að innheimta skattinn af þjónustu sinni.
Útreikningur stefnukröfu: Uppgjör það sem fram hefur farið vegna tímabundins tjóns var gert þannig að tekin voru full laun (fyrir 50% starf) vegna 1996, kr. 1.025.059,00. Við þau var bætt 6% lífeyrissjóðstilleggi vinnuveitanda, kr. 61.504,00. Frá voru síðan dregnar innborganir frá réttargæslustefnda, kr. 640.000,00 og laun frá vinnuveitanda, vegna slysaforfalla, þmt. 6% lífeyrissjóðstillegg, kr. 256.277,00. Eftirstöðvarnar hafi numið kr. 190.285,00 sem réttargæslustefndi greiddi við uppgjör aðila hinn 26. maí 1998. Ástæða þess að tekin séu laun fyrir heilt ár sé sú að skv. örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis sé tímabundið tjón talið vera 100% í 12 mánuði. Stefnandi telji hins vegar að rétt sé að miða uppgjör bóta vegna tímabundins tjóns við það að hún hefði verið í fullu starfi (í stað 50% starfs) alveg eins og gert var við uppgjör á varanlegu tjóni hennar, en við uppgjörið á varanlega tjóninu voru árslaunin 1996 auk 6% lífeyrissjóðstilleggs tvöfölduð og þannig miðað við reiknuð árslaun að fjárhæð kr. 2.050.118,00 auk 6% lífeyrissjóðstilleggs, kr. 123.007,00 eða samtals kr. 2.173.125,00. Stefnandi geri því kröfu um að uppgjör tímabundins tjóns fari þannig fram:
|
Árslaun fyrir 1/2 starf x 2 |
kr. 2.050.118,00 |
|
6% lífeyrissjóðstillegg |
kr. 123.007,00 |
|
Reiknuð árslaun fyrir fullt starf |
kr. 2.173.125,00 |
|
Innborganir frá réttargæslustefnda |
kr. <640.000,00> |
|
Laun frá vinnuveit. í slysaforf., þmt. |
|
|
6% lífeyrissjóðstillegg |
kr. <256.277,00> |
|
Innb. v/uppgjör frá réttargæslust. |
kr. <190.286,00> |
|
Stefnufjárhæð |
kr. 1.086.562,00
|
Af hálfu stefndu segir að uppgjör hafi farið fram á tímabundinni örorku, sem taki mið af launum stefnanda þennan tíma miðað við 50% vinnu, en stefnandi hafi verið og sé í hálfdags vinnu hjá Tónmenntaskóla Reykjavíkur.
Í máli þessu krefjist stefnandi viðbótarbóta við það uppgjör sem átti sér stað 26. maí 1998, en það hafi tekið mið af raunverulegum launum hennar (50%), og þar með rauntekjutapi þetta tiltekna tímabil.
Byggi þessi krafa stefnanda á því að hana beri í þessu tilliti að meta með 100% vinnuframlag, þar sem hún hafi gegnt heimilisstörfum hinn helming dagsins. Sama regla eigi að gilda, hvort sem um sé að ræða tímabundna- eða varanlega örorku.
Í máli þessu er ekki á því byggt að stefnandi hafi orðið fyrir útlögðum kostnaði vegna sérstaks kostnaðar við heimilisstörfin þetta tímabil, sem eigi rót sína að rekja til slyssins.
Af greinargerð með 2. gr. frumvarps til skaðabótalaga komi skýrt fram að greinin eigi aðeins við um útgjöld vegna sérstakrar aðstoðar á heimili þegar maki slasist og sé þá eingöngu átt við útlagðan kostnað.
Bætur vegna tímabundinnar örorku nái af eðlilegum ástæðum aðeins til sannanlegs fjárhagslegs tjóns sem tjónþoli verði fyrir á því tímabili sem tímabundna örorkan nái yfir.
Að gefnu tilefni skuli nefnt að þegar varanleg örorka sé metin sé hins vegar tekið mið af fullu starfi (eins og gert hafi verið í uppgjöri við stefnanda), enda byggi hún á framtíðarmati á tjóni tjónþolans. Tímabundið örorkutjón nái aðeins til sannaðs rauntjóns.
Uppgjör það sem fram hafi farið við stefnanda sé í samræmi við gildandi skaðabótarétt samkvæmt skaðabótalögum. Viðbótarkrafa stefnanda eigi sér enga lagastoð og beri því að hafna henni og taka kröfu stefnda til greina.
Niðurstaða
Ákvæði 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga vísar til þess að við mat á verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli fara að reglum 2. gr, 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Í 2. gr. laganna er fjallað um tímabundið atvinnutjón og er hér á því byggt að bætur samkvæmt ákvæðinu séu ekki staðlaðar eins og á sér stað er hin síðarnefndu ákvæði taka til tilviksins heldur þurfi tjónþoli að sýna fram á tjón sitt á því tímabili sem ákvæðið tekur til. Í því tilviki sem hér er til úrlausnar gerði stefnandi það hvað snerti tap atvinnutekna eins og að framan greinir. Hins vegar er ekki sýnt fram á hvort hún hafi beðið tjón og þá hvert vegna vangetu til þess að stunda heimilisstörf á umræddu tímabili. Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Reykjavíkurborg, skal sýkn af kröfum stefnanda, Dóru Kristínar Sigurðardóttur.